Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Rammskökk Rammaáætlun um vernd og nýtingu

Orkumálastjóri gegnir jafnframt stöðu Landsorkureglis Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt íslenzkum lögum um Orkupakka #3 (OP#3)(e. National Energy Regulator). Orð Orkumálastjóra hafa frá stofnun embættisins vegið þungt, og vægið hefur ekki minnkað við innleiðingu OP#3. Það er þess vegna eðlilegt að sperra eyrun, þegar Orkumálastjóri flytur jólahugvekju sína, og nú hefur embættið verið auglýst laust til umsóknar. 

Margt vakti athygli í þessari síðustu jólahugvekju Orkumálastjórans og Landsorkureglis dr Guðna A. Jóhannessonar.  Eitt var, að hann virtist hafa fengið sig fullsaddan af samskiptunum við undirstofnun utanríkisráðuneytisins, GRÓ, út af Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Harkalegur árekstur á milli Orkustofnunar og stofnunar á vegum utanríkisráðuneytis kemur spánskt fyrir sjónir, því að diplómatar eiga að vera þjálfaðir í að leita lausna á vandamálum, sem upp koma, áður en upp úr síður.  Grípum niður í jólaávarpið:

"Sú umræða, sem við [á Orkustofnun] áttum við stjórnarformann og framkvæmdastjóra GRÓ er sú einkennilegasta og minnst uppbyggjandi af öllu því, sem ég hef kynnzt á mínum starfsferli."

Það þarf vafalaust mikið að ganga á, til að Orkumálastjóri taki svona til orða í jólaávarpi sínu. 

"Það skapar að vísu augljós tækifæri til þess að ná aftur því tapi, sem stofnunin [ÍSÓR] verður fyrir vegna óhagstæðs rekstrarsamnings, en skapar um leið tortryggni og hættu á mismunun gagnvart öðrum hlutum jarðhitasamfélagsins. Það, sem meira er um vert, er, að þar með verður yfirstjórn skólans komin undir umhverfisráðuneyti, sem um árabil hefur verið vakið og sofið í því að girða fyrir nýtingu vistvænnar orku til atvinnuuppbyggingar á Íslandi.

  Það verður hugsanlega ekki beinlínis trúverðugt, þegar nemendum frá þróunarlöndum verður kennt, að um þeirra umhverfi og náttúruvætti gildi allt önnur viðhorf en á Íslandi, eða ef beinlínis verður farið að kenna, hvernig tefja megi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu innviða og atvinnulífs með öllum þekktum ráðum."

(Undirstr. BJo.)  Það hefur vart sézt jafnflengjandi gagnrýni á starfshætti eins ráðuneytis eins og þarna.  Framsetning Orkumálastjóra varpar ljósi á það, sem marga grunaði, að afturhaldsöfl hafa grafið um sig í þessu ráðuneyti.  Þau svífast einskis til að hindra framfarir og aukna verðmætasköpun hér og jafnvel nú í þróunarlöndunum.  Afleiðingarnar eru, að framfarasókn tefst og hægar mun ganga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.  Allt mun þetta leiða til lakari lífskjara og lífsgæða en ella.  

"Við megum hins vegar ekki gleyma því, að Jarðhitaskólinn er sterkasta vörumerki Íslands á sviði orkumála, sem hefur náðst með næstum hálfrar aldar farsælu samstarfi utanríkisráðuneytis og Orkustofnunar.  Þótt einstökum ráðamönnum á hverjum tíma séu mislagðar hendur, munum við áfram styðja skólann og starfsfólk hans í sínu góða starfi og standa með þeim í að viðhalda þeim gæðum og háa þjónustustigi við nemendur, sem hafa verið undirstaðan að velgengni hans." 

Það virðist vera, að Orkumálastjóri beini þarna spjótunum að utanríkisráðherra sjálfum, og er það umhugsunarvert í ljósi harðrar gagnrýni, sem beinzt hefur að ráðherranum úr ráðuneytinu sjálfu. 

Næst sneri Orkumálastjóri sér að Rammaáætlun um verndun og nýtingu orkulinda.  Í stuttu máli fær núverandi fyrirkomulag og stjórnkerfi Rammaáætlunar falleinkunn hjá Orkumálastjóra.  Það eru margir sama sinnis og hann í þeim efnum.  Fyrirkomulagið er ein allsherjar blindgata, sem stríðir gegn skilvirkum og vönduðum ákvarðanatökum um, hvað gera ber við hverja orkulind um sig:

"Þegar ég hóf störf á Orkustofnun í byrjun árs 2008 var að hefjast vinna við annan áfanga Rammaáætlunar.  Í verkefnisstjórn voru þá fulltrúar stofnana, samtaka og ráðuneyta, þannig að um aðferðir og niðurstöður skapaðist breið umræða, þar sem mismunandi sjónarmið tókust á.  Þótt ýmis upphlaup yrðu vegna óskyldra hluta, sem trufluðu starfsemina, var formaðurinn, Svanfríður Jónasdóttir, óþreytandi að taka umræðuna, og umfjöllunin komst á það stig, að það var hægt að ná niðurstöðu með meirihlutasamþykkt á Alþingi.  Jafnframt hafði verið unnið að því að treysta grundvöll rammaáætlunar með því að setja um hana lög, en því miður fólu þau lög í sér, að framkvæmd laganna var falin umhverfisráðuneyti í stað iðnaðarráðuneytis, eins og áður var."

  Enn og aftur gagnrýnir Orkumálastjóri umhverfisráðuneytið.  Það hefur ekki reynzt í stakkinn búið að framfylgja lögunum af hlutlægni og fagmennsku, og ber að taka flest nýtingarmál auðlinda úr höndum þess. Orkumálastjóri hélt afram:

"Í þriðju umferð var verkefnisstjórnin fámennari og einsleitari.  Sama gilti um faghópana og það starf, sem þar var unnið.  Starfið beindist að því að safna í excelskjöl smáum og stórum ávirðingum á mögulega virkjunarkosti með einkunna- og stigagjöf, sem var illskiljanleg fyrir þá, sem stóðu utan við starfið.  Röðun og flokkun virkjanakosta gekk að mínu mati þvert á almenna skynsemi, og mikilvægar forsendur voru oftar en ekki gripnar úr lausu lofti, eins og t.d. fyrir Skatastaðavirkjun, enda varð snemma ljóst, að engin samstaða var á Alþingi um afgreiðslu þessa áfanga, og nú er vinna við fjórða áfanga rammaáætlunar hafin án þess, að afgreiðslu þriðja áfanga sé lokið.

Ég held við verðum að gera okkur ljóst, að allt þetta ferli er orðið langur, erfiður draumur eða martröð.  Það er kominn tími til þess að vakna upp frá þessu og finna nýjar leiðir.  Einföld leið er að leggja niður rammaáætlun og efla þær stofnanir, sem fara með umhverfis- og skipulagsmál [þarna mætti bæta við orkumálum og hagrænu mati-innsk. BJo] til þess að meta hugsanlega virkjunarkosti á skipulagsstigi. 

Ef þessar stofnanir telja, að veruleg verðmæti séu í hættu og að sameiginlegir samfélagslegir hagsmunir geti verið meiri en svo, að hugsanlegar framkvæmdir geti verið á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga eingöngu, þá geti þær frestað málinu og gert tillögu til Alþingis um misjafnlega langt "móratóríum" [dvala-innsk. BJo] eða stöðvun undirbúnings og framkvæmda. Slík stöðvun gæti staðið í 5, 10 eða 20 ár eftir því, hve álitaefnin vega þungt, eða hvort þau krefjast dýpri athugana og þekkingar. Alþingi verði síðan að afgreiða þessar tillögur innan ákveðins frests, til þess að ákvörðunin öðlist gildi.  Friðlýsing án tímamarka er í raun alvarleg skerðing á rétti komandi kynslóða til þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir um sín mál á hverjum tíma."     

(Undirstr. BJo.) Hér er um mjög áhugaverðar hugleiðingar Orkumálastjóra að ræða. Hann kastar fram hugmynd um, hvað gæti tekið við af handónýtu stjórnfyrirkomulagi Rammaáætlunar.  Hann bendir á hið augljósa, að friðlýsingar eru gerræðisleg valdníðsla á komandi kynslóðum.  Alþingi ætti sem fyrst að breyta þessu og gera núgildandi friðlýsingar tímabundnar. 

Morgunblaðið vakti athygli á hvassri gagnrýni Orkumálastjóra á misheppnað ferli við frummat á virkjunarkostum hérlendis. Fyrirmyndin var upphaflega norsk, en framkvæmdinni hér hefur verið klúðrað, enda er hún er með öðrum hætti í Noregi.  Norðmenn fela Orkustofnun sinni lykilhlutverk í þessu máli, og hún er undir Olíu- og orkuráðuneytinu.  ESB er ekki með fingurinn á norsku Orkustofnuninni, því að Landsorkureglirinn er sjálfstætt embætti í Noregi, fjármagnað af ríkisfjárlögum.  Það stappar nærri hótfyndni að fela umhverfisráðuneytinu hér yfirstjórn þessara mála.

Forystugrein Morgunblaðsins á Þorláksmessu 2020 bar heitið:

"Hörð gagnrýni á rammaáætlun":

"Orkumálastjóri hefur mikla reynslu af þessum málum eftir að hafa gegnt starfinu í 12 ár.  Full ástæða er þess vegna til, að menn leggi við hlustir, þegar hann tjáir sig, og taki afstöðu til þeirra sjónarmiða, sem hann hefur fram að færa.  Þegar Morgunblaðið leitaði til umhverfisráðherra, en rammaáætlunin heyrir undir það ráðuneyti, þó að orkumálastjóri telji, að hún eigi betur heima undir ráðuneyti iðnaðarmála, sagðist hann ekki ætla að tjá sig um sjónarmið orkumálastjóra.  Það er sérkennileg afstaða þess, sem ábyrgð ber á málaflokknum, en e.t.v. í anda þeirrar þróunar, sem orkumálastjóri lýsti, að umræðan verði einsleitari með minni skoðanaskiptum."

Hvers vegna tjáir umhverfisráðherra sig ekki ?  Hann ætlar að þagga þessa gagnrýni niður, láta sem ekkert sé, halda áfram ótímabærum og ótímatakmörkuðum friðlýsingum sínum, og láta þau þröngsýnu og ófaglegu vinnubrögð 3. verkefnisstjórnar Rammaáætlunar viðgangast að safna saman í eitt Excel-skjal öllum hugsanlegum ávirðingum og göllum þeirra virkjanakosta, sem 4. verkefnisstjórnin fjallar um.  Hvort á að gráta eða hlæja að þessu fúski með lífshagsmuni framtíðarinnar á Íslandi ?

"Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra [og varaformaður Sjálfstæðisflokksins-innsk. BJo], brást við orðum orkumálastjóra og sagði, að færa mætti rök fyrir því, að matið, sem ætlazt væri til í dag, væri "of umfangsmikið og mögulega óraunhæft".  Hún sagði, að það væri því "skynsamlegt og tímabært að endurskoða verklagið. A.m.k. hvernig mat á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum er útfært."  Þá sagði hún:  "Rammaáætlun átti að vera svar við því, að þessi mál væru pólitískt bitbein og sjálfstætt vandamál.  Ferlið í framkvæmd hefur ekki verið góð auglýsing fyrir sjálft sig.  Mat á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum hefur reynzt okkur um megn, eins og það er útfært núna.  Nærtækur möguleiki væri að færa sig nær upphaflegu ferli, þar sem horft var á hagkvæmni virkjanakosta án þess að reyna að meta öll efnahagsleg og samfélagsleg áhrif, sem hann kemur til með að hafa."  Hún bætti því við, að regluverk þyrfti "að öðru leyti að vera skilvirkt, sem það er ekki.  Það er of flókið og marglaga."

Þótt ráðherrann mætti vera skýrari í málflutningi sínum, virðist mega draga þá ályktun af orðum hennar, að hún telji núverandi fyrirkomulag Rammaáætlunar óalandi og óferjandi.  Orkustofnun heyrir undir ráðuneyti hennar, og henni ber að vinna að umbótum á þessu sviði. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki umborið ósómann.  Fyrirtæki, sem vilja virkja, þurfa að leggja fram áætlun um umhverfismat.  Orkustofnun getur unnið eða látið vinna frummat á þjóðhagslegri hagkvæmni, þar sem "umhverfiskostnaður" er tekinn með í reikninginn.  Skipulagsstofnun fái þessi gögn til umsagnar og geti samþykkt, að fram fari áframhaldandi hönnun og gerð umhverfismats eða frestun um tilgreindan tíma að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar.  Alþingi hefur seinasta orðið um helztu virkjanakosti (t.d. stærri en 200 GWh/ár).  Verkefnisstjórn Rammaáætlunar er óþörf.

Morgunblaðið, sem er með puttann á púlsinum, eins og fyrri daginn, klykkti út með eftirfarandi:

"Í orðum bæði orkumálastjóra og iðnaðarráðherra felst hörð gagnrýni á rammaáætlun og það ferli, sem í henni felst.  Líklegt má telja, að þetta ferli sé gengið sér til húðar og að verulegra breytinga sé þörf, annaðhvort með gagngerri uppstokkun á þessu kerfi eða með því að fara alveg nýja leið, eins og orkumálastjóri leggur til.  Þetta varðar mikla hagsmuni og kallar á umræður, sem þeir, sem láta sig málaflokkinn varða, geta ekki vikið sér undan."

 Það er hárrétt ályktun hjá Morgunblaðinu, að fyrirkomulag vals á milli virkjunar og verndunar varðar mikla þjóðarhagsmuni, og það er óviturlegt af þingmönnum að skilja þetta mál eftir í tröllahöndum.

 

 

 

 

 


Að breyta stjórnarskrá

Stjórnarskrá eru grundvallarlög ríkisins, frelsistrygging einstaklinganna í landinu og fyrirmæli um, hvernig æðstu stjórn ríkisins skuli háttað (þrígreining ríkisvaldsins).  Þar eru líka ákvæði um val þjóðhöfðingjans og valdmörk hans. Rauði þráðurinn í íslenzku stjórnarskránni er stöðugt fullvalda ríki sjálfstæðra einstaklinga, sem með lýðræðislegum hætti velja alla fulltrúana á löggjafarþinginu og sjálfan þjóðhöfðingjann líka.  Samkvæmt núverandi stjórnarskrá geta aðrar ríkisstjórnir eða ríkjasamtök ekki hlutazt til um líf og hagsmuni landsmanna, og löggjafarsamkoman, Alþingi, hefur ekki umboð til að breyta þessu. Þetta felur í sér, að Ísland getur ekki gengið í Evrópusambandið að óbreyttri stjórnarskrá. 

Þótt tæplega 97 % atkvæðisbærra manna á Íslandi hafi samþykkt Lýðveldisstjórnarskrána 1944, var hún þó vitaskuld barn síns tíma, enda hefur hún tekið fjölmörgum breytingum.  Með réttu má halda því fram, að enn séu ákvæðin um völd þjóðhöfðingjans ruglingsleg og þörf sé á að skilgreina völd hans og hlutverk á nýjan leik. 

Ýmsir telja stjórnarskrána standa í vegi fyrir alþjóða samstarfi, sem þeir telja felast í að "deila fullveldinu með öðrum". Þeir vilja, að Alþingi geti samþykkt þröngt afmarkað framsal fullveldis með einföldum meirihluta atkvæða og afmarkað, víðtækt framsal fullveldis með auknum meirihluta atkvæða með svipuðum hætti og í Noregi.  Þar útheimtir innganga í ríkjasamband að auki þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur vakið deilur á stjórnmálasviðinu í Noregi, hvað er þröngt, afmarkað fullveldisframsal ("lite inngripende"), og hvað er víðtækt.  Nú er einmitt rekið mál fyrir Hæstarétti Noregs til að skera úr um það, hvort Þriðji orkupakkinn frá Evrópusambandinu (ESB) hafi verið "lite inngripende" í norska þjóðfélagið, eins og Stórþingið úrskurðaði 2018, eða hvort hann geti haft víðtæk áhrif á samfélagið og hagsmuni lögaðila og einstaklinga samkvæmt laganna bókstaf og raunverulegum aðstæðum, sem upp kunna að koma. 

Það er einmitt eitt aðalviðfangsefni stjórnarskrárgjafa að semja lagalega skýran texta, sem ekki verður túlkaður á mismunandi vegu með gildum rökum.  Þetta mistókst stjórnlagaráði vinstri stjórnarinnar 2009-2013 hrapallega.  Drög ráðsins eru ótækur lagalegur texti, sem minnir of mikið á tætingslegan óskalista eða stefnumið úr sitt hverri áttinni. 

Þessi tilraunastarfsemi vinstri stjórnarinnar reyndist illa.  Það er kolrangt, að þjóðin hafi samþykkt drög ráðsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012. Aðeins 48,3 % atkvæðisbærra manna greiddi gilt atkvæði.  Nokkrar spurningar voru lagðar fram til þjóðaratkvæðagreiðslu og flestar loðnar.  Ein þeirra var, hvort kjósandinn mundi vilja leggja drög stjórnlagaráðsins til grundvallar að nýrri stjórnarskrá.  Þetta er marklaus spurning í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Hverju má henda út, og hvað verður að fá að standa ?  Allt þetta pauf ólöglega valins stjórnlagaráðs og vinstri stjórnarinnar var vindhögg gegn núverandi stjórnarskrá. Samkvæmt henni er það í verkahring Alþingis að breyta stjórnarskránni.  Til að gera breytingarnar sem bezt úr garði er nauðsynlegt fyrir þingið að njóta liðsinnis stjórnlagafræðinga. 

Karfan undir pappírstætaranum geymir tilraunir vinstri stjórnarinnar og stjórnlagaráðs bezt.  Óli Björn Kárason gerði þetta að umræðuefni í miðvikudagspistli sínum í Morgunblaðinu 23. september 2020:

""Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt", skrifaði Sigurður Líndal, prófessor í lögum, í Fréttablaðið 2 dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Hann hélt því fram, að atkvæðagreiðslan hefði verið atkvæðagreiðsla um "ófullburða plagg", sem unnið hefði verið í anda sýndarlýðræðis, "sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu"".

Af mati Sigurðar Líndal má ráða, að sem grunnur að stjórnarskrá fyrir Íslendinga séu drög Stjórnlagaráðs ónothæft fúsk, sem mundu valda jafnvel lagalegu öngþveiti og pólitískum óróleika, ef reynt yrði að búa til úr þeim stjórnarskrá. Þessa tilraun vinstri stjórnarinnar dagaði uppi, og líklega er hún bezt geymd í körfu undir pappírstætara. 

Björg Thorarensen, þá prófessor í stjórnlagarétti við Lagadeild Háskóla Íslands, nú nýskipaður Hæstaréttardómari, sagði á fundi 09.11.2012 í HÍ:

"Það er ekki búið að fara efnislega yfir tillögurnar hjá löggjafanum, og þingmenn hafa þá skyldu samkvæmt stjórnarskrá að ræða þær efnislega.  Síðan er rétti stjórnskipulegi farvegurinn að bera þetta undir þjóðina, þegar búið er að vinna málið á þinginu."

Eins og kunnugt er, er þing rofið eftir samþykkt þess á stjórnarskrárbreytingum, og nýtt þing verður síðan að samþykkja þær óbreyttar, til að þær öðlist gildi. Þannig fær þjóðin aðkomu að málinu og getur krufið frambjóðendur til nýs þings um afstöðu þeirra til stjórnarskrárbreytinganna. 

Mörgum er mikið í mun að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána.  Jón Jónsson, lögmaður, ritaði 2 greinar í Morgunblaðið um núverandi tillögu um auðlindaákvæði í nóvember 2020.  Hann kvað textann í frumvarpsdrögum forsætisráðherra vera of grautarlegan, og bæri brýna nauðsyn til að færa ákvæðið í skýrari lögfræðilegan búning.  Þá taldi hann ákvæði um gjaldtöku fyrir afnot ekki eiga heima í stjórnlögum, heldur í lögum fyrir hvert tilvik.  Undir þessi gagnrýnisefni má taka.  Seinni Morgunblaðsgreininni lauk lögmaðurinn þannig:

"Illframkvæmanlegt er að afmarka, hvenær krafan um skilyrðislausa gjaldtöku [fyrir afnot auðlindar] á við.  Sá vandi birtist m.a. í umfjöllun frumvarpsins um skilgreiningu auðlindahugtaksins og óljós tengsl við það, hvenær löggjafinn grípur til stýringar.  Einnig kemur hann fram í umfjöllun um stöðu almannaréttar gagnvart auðlindanýtingu, t.d. vegna ferðaþjónustu.  Þá verður alltaf verulegt álitamál, hvenær starfsemi telst í ábataskyni.  Það virðist óumflýjanlegt, að krafan um skilyrðislausa gjaldtöku verði ómarkviss.  Hún breytir einnig rótgrónu hlutverki ríkisins að stýra almannarétti og aðgangi að almannagæðum á grunni heildarhagsmuna.

Fjalla þarf frekar um þýðingu auðlindaákvæðis gagnvart eignarréttarákvæði stjórnarskrár við undirbúning málsins.  Eyða þarf vafa um, hvort ákvæðið stjórnarskrárbindi sósíalísk markmið um, að ný verðmæti falli sjálfkrafa til ríkisins.  Ákvæðið ætti heima í kafla stjórnarskrár um löggjafarvaldið við hlið 40. gr. um ráðstöfun fasteigna ríkisins og gæti orðazt á þessa leið: Náttúruauðlindir og landsréttindi, sem ekki eru háð einkaeignarrétti,  verða engum fengin til eignar eða varanlegra afnota." 

Tillaga Jóns um texta, undirstr. BJo, er til fyrirmyndar um skýra framsetningu á knappan hátt, sem þó segir það, sem segja þarf.  Ef hið sósíalistíska viðhorf ætti að ríkja, væri einkaeignarrétturinn ekki virtur viðlits, og t.d. sandurinn í landi Hjörleifshöfða, sem nú virðist skyndilega vera orðinn auðlind, hefði fallið til ríkisins, og þar með hefði tæplega verið nokkur grundvöllur fyrir frumkvæði og nýsköpun eigenda félagsins, sem nýlega festi kaup á landareigninni Hjörleifshöfða.  Fóstbræðurnir, sem freistuðu gæfunnar með Íslandsför úr Noregi um 874, hefðu orðið hrifnir af verðmætasköpun úr sandi, sem er hér ekki dæmigerður námugröftur, því að skörðin fyllast jafnóðum með sandburði sjávarins. Hér er um að ræða einkaviðskipti þýzk-íslenzks félags við landeigendur, sem ætla sér að hefja atvinnustarfsemi þar á landareigninni.  Bein erlend fjárfesting til atvinnu- og verðmætasköpunar er einmitt það, sem sárlega vantar hér í þessu landi, enda hefur OECD fundið út, að Ísland sé með einnar mestu hindranir á meðal OECD-landanna gegn beinum erlendum fjárfestingum.  Þetta er til þess fallið, að Ísland dragist aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum.  Fjárfesting í landi til atvinnurekstrar er ósambærileg við jarðasöfnun auðkýfinga til að sinna áhugamálum sínum, laxveiðum eða öðru.  Íslenzkir bændur munu varla vilja nytja slíkar jarðir og eiga sennilega ekki kost á því gegn sanngjörnu afgjaldi.  

Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda í Kófinu 2020 hafa vakið upp efasemdir lögmanna og annarra um, að yfirvöld hafi heimildir samkvæmt sóttvarnarlögum og stjórnarskrá til þeirra gríðarlegu skerðinga á einstaklingsfrelsi fjölda fólks, sem þau hafa gripið til, og má þar nefna sóttkví, einangrun, smitrakningu, takmarkanir og jafnvel sviptingu atvinnufrelsis.  Íslenzkt framkvæmdavald er svifaseint við að afla sér óyggjandi lagaheimilda og samþykkta þjóðþingsins m.v. t.d. dönsk yfirvöld, sem lögðu fram frumvörp þessa efnis í marz og apríl 2020, en íslenzk heilbrigðisyfirvöld í nóvember 2020.

Í nýjum sóttvarnarlögum verður að setja nákvæm skilyrði fyrir vel afmörkuðum sóttvarnaraðgerðum í tíma og rúmi, og ef heimildir skortir fyrir nauðsynlegum aðgerðum að dómi yfirvalda í framtíðinni, verður löggjafinn að fjalla um það. Þegar kemur að jafnfrelsissviptandi aðgerðum framkvæmdavalds og útgöngubann er, verður löggjafinn að gæta mikillar varfærni við heimildargjöf í lögum.  Engin óyggjandi þörf er á afdráttarlausri heimild til útgöngubanns, og hún stríðir líklega gegn stjórnarskrá Íslands. Einnig þarf að aðgæta, hvort í stjórnarskrá þarf að afmarka leyfilegar sóttvarnaraðgerðir og tilgreina, að þær verði að vera reistar á gildandi lögum. 

Hæstaréttarlögmaðurinn Reimar Pétursson ræddi aðgerðir og aðgerðaleysi sóttvarnaryfirvalda í Kófinu á málþingi Órators, félags lögfræðinema við HÍ, 25.11.2020, og sagði m.a:

"Þessum spurningum verður að svara, og sé þeim svarað neitandi, þá þýðir það aðeins óðagot, fum, hroðvirkni og óvönduð vinnubrögð."

Alþingi á aldrei að líða annað eins í líkingu við þetta hjá ráðherrum.  Landbúnaðarráðherrann í Danmörku varð að axla ráðherraábyrgð og segja af sér vegna hins alræmda minkamáls, þegar í ljós kom, að fyrirskipun hans um að aflífa alla minka á Norður-Jótlandi vegna sýkingar af SARS-CoV-2 veirunni, átti sér ekki lagastoð.  Sóttvarnarreglugerðir heilbrigðisráðherra hérlendis virðist skorta fullnægjandi lagastoð, margar hverjar, sbr gagnrýni Reimars Péturssonar o.fl..

Þann 21. október 2020 skrifaði Ari Guðjónsson, héraðsdómslögmaður og yfirlögfræðingur Icelandair Group, Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Árekstur við EES".

Þar stóð m.a.:

"Í ESB-ríkjum öðlast reglugerðir sambandsins bein réttaráhrif innan aðildarríkja án sérstakrar innleiðingar í landsrétt, og þær hafa forgangsáhrif gagnvart öðrum landslögum ríkjanna. Þetta hefur almennt ekki verið talið gilda um EFTA-ríkin, þrátt fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að ríkin geti verið skaðabótaskyld vegna rangrar innleiðingar tilskipana í landsrétt. Slíkt tryggir þó ekki bein réttaráhrif eða forgangsáhrif EES-reglna, enda tryggja skaðabætur sem slíkar ekki einsleitni, enda aðstaðan önnur fyrir þann aðila, sem þarf að krefjast skaðabóta."

Það er ljóst, að nærri var höggvið óskoruðu íslenzku löggjafarvaldi við staðfestingu Alþingis á EES-samninginum í janúar 1994.  Það var þó sá varnagli settur þar, að Ísland gæti hafnað óaðgengilegum gerðum Evrópusambandsins í Sameiginlegu EES-nefndinni, og til þrautavara var síðan sett skilyrði um stjórnskipulegan fyrirvara Alþingis við innleiðingu reglna ESB, þ.e. að Alþingi gæti hafnað þeim, ef þær samræmdust ekki stjórnarskrá Íslands. Um þessi og fleiri mikilvæg atriði fjallaði Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, á fjarfundi Fullveldisfélags sjálfstæðismanna í Valhöll 1. desember 2020.  Var sá fundur hinn þarfasti.

Það er engin ástæða til að veita Alþingi heimild til að framselja íslenzkt ríkisvald að einhverju leyti til útlanda.  Hins vegar er réttlætanlegt, að meirihluti á Alþingi, geti vísað slíku framsalsmáli til þjóðarinnar í bindandi atkvæðagreiðslu, þar sem a.m.k. 60 % atkvæðisbærra manna gætu heimilað auknum meirihluta á Alþingi slíkt, en annars félli málið dautt á Alþingi.  Þetta kallar auðvitað á stjórnarskrárbreytingu, enda heimilar núverandi stjórnarskrá ekkert framsal fullveldis.   

    


Breytt heimsmynd

Mannskæðir alheims sjúkdómsfaraldrar breyta heiminum.  Afleiðingar spænsku veikinnar, sem var víst amerísk, ef nánar er að gáð, hafa vafalaust haft djúptæk áhrif, en þau hurfu í skugga hrikalegrar lífsreynslu af Heimsstyrjöldinni fyrri og þeirra feiknarlegu þjóðfélagsátaka, sem af henni leiddu, en þá missti kirkjan mikil völd í Evrópu, og aðallinn missti fótanna. Þessir aðilar höfðu fram að því talið alþýðunni trú um guðlegt boðvald sitt yfir henni, en helvíti skotgrafanna leysti alþýðuna úr viðjum, því að guðlegur vilji og vald gat ekki legið að baki slíkum hörmungum. Byltingarástand ríkti víða, og hún tókst í Rússlandi 1917 að undirlagi þýzku hérstjórnarinnar, sem sendi kaffihúsasnatann Lenín frá Sviss til Rússlands. Þessi bylting át börnin sín, eins og sú franska 1789. Aðeins sú borgara- og bændabylting, sem varð á Englandi öld áður, tókst.  Efldist þá þingræðið á Englandi á kostnað konungsvalds, en aðlinum tókst að laga sig að breytingunum og flaut ofan á (eins og hrossataðskögglarnir).

Það er mörgum umhugsunarefni, hvað taka muni við í heiminum eftir COVID-19.  Það er líklegt, að talsvert af þeirri framleiðslu, sem vestræn fyrirtæki hafa á undanförnum áratugum flutt að heiman og til Kína og annað, muni snúa í heimahagana á næstu árum, a.m.k. sú, sem talin er varða miklu fyrir öryggi og heilsufar þegnanna.  Þetta gæti táknað endalok alþjóðavæðingarinnar, eins og við þekktum hana, þar sem þjóðir reiða sig ekki lengur á aðdrætti frá útlöndum í sama ríka mæli og verið hefur. Traust til Kínverja hefur beðið hnekki vegna upphaflegra viðbragða þeirra við SARS-CoV-2 veirunni, sem voru í ætt við viðbrögðin við SARS-CoV-1 rúmum hálfum öðrum áratugi fyrr.  Stórveldistilburðir þeirra eru líka að verða ruddalegri en góðu hófi gegnir.  Vestræn ríki munu draga úr viðskiptasamstarfi við Kínverja á "strategískum" sviðum, en vonandi getum við nýtt fríverzlunarsamninginn við þá meira til matvælaútflutnings.  Þeir eru háðir matvælainnflutningi.   

Þetta hlýtur að styrkja innlenda framleiðslu á Íslandi á nauðsynlegu viðurværi, t.d. matvælum.  Það er heldur ekki í kot vísað fyrir landsmenn að snúa sér í auknum mæli að innlendum matvælum.  Það er leitun að sambærilegum gæðum og hollustu, t.d. vegna hreins lofts, gæðavatns og mjög lítillar notkunar sýklalyfja. Hvers vegna að fara yfir lækinn til að sækja vatnið ?

Auðvitað á ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að teygja sig langt í að bjóða ódýra raforku, bæði ótryggða orku og forgangsorku, og þursahátt stjórnenda þar í garð viðskiptavina á ekki að líða. Óljósar fréttir um verðafsláttarhugmyndir þar á bæ eru ófullnægjandi.

Guðlaugu Kristinsdóttur, stjórnarformanni Límtré-Vírnets o.fl., eru greinilega þessi mál hugleikin.  Þann 8. apríl 2020 birtist frábær grein eftir hana í Markaði Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni:

"Sveigjanleiki skiptir sköpum"

"Hagkerfi heimsins eru nær öll á hnjánum.  Ísland er þar engin undantekning, og fram undan er mikið verk til að tryggja upprisu lands og þjóðar.  Íslenzkt hugvit og handverk mun ráða miklu um árangurinn, en ekki síður stefnan, sem við tökum í þessum skrýtnu aðstæðum.  

Á undanförnum vikum hefur komið í ljós, að þjóðir heims hugsa fyrst um sjálfar sig, þegar hætta steðjar að.  Virðiskeðja alþjóðaviðskipta er rofin, vöru- og fólksflutningar eru afar takmarkaðir, og alþjóðasamningar eru í hættu.  Aðstæðurnar kalla víða á breytt viðhorf, ekki sízt hvað varðar sjálfbærni hagkerfa. Skyndilega sjá allir mikilvægi þess, að þjóðir geti framleitt mat fyrir sjálfar sig og forgangsröðun fjármuna í þágu heilbrigðiskerfa. Allir virðast sammála um, að ríki grípi til umfangsmikilla efnahagsaðgerða, svo [að] hjól samfélagsins snúist, þrátt fyrir vírusa og innilokanir."  [Undirstr. BJo]

Staðan er einstök, því að öll hagkerfi heimsins eru í lamasessi samtímis og öll verða nú fyrir gríðarlegum tekjumissi og munu þurfa á miklu lánsfé að halda í kjölfarið.  Seðlabankar prenta peninga, og ríkisstjórnir ætla að láta verðbólguna rýra höfuðstólinn á verðbólgubáli.  Lántakendur í erlendum gjaldmiðli verða fórnarlömbin.

COVID-19 tímabilið hefur í eymd sinni verið lærdómsríkt.  Þjóðir heims hafa borið sig misjafnlega að og orðið mjög misjafnlega vel ágengt í baráttunni við SARS-COV-2 veiruna. Má nefna Suður-Kóreu sem dæmi um góðan árangur utan Evrópu, en í Evrópu virðist Þýzkaland bera af í hópi hinna fjölmennari og þéttbýlli landa.  Er munurinn rétt einu sinni sláandi á Þjóðverjum og nágrönnum þeirra, Frökkum, hinum fyrrnefndu í vil.  Þjóðverjar voru undirbúnir með fjölda sjúkrarúma og mikinn varnar- og sjúkrabúnað, þ.m.t. öndunartæki, og gripu leiftursnöggt inn í atburðarásina.  Gott skipulag, góður undirbúningur og öguð viðbrögð, gerðu gæfumuninn.  Þess vegna urðu tiltölulega fá smit í Þýzkalandi og hlutfallslega fá dauðsföll.  Fyrir vikið mun atvinnulífið fyrr verða drepið úr dróma, og heildarkostnaðurinn mun verða lægri hjá Þjóðverjum en Frökkum. Í Belgíu virðist heilbrigðiskerfið gjörsamlega hafa farið á hliðina.  Um það vitnar gríðarhátt hlutfall látinna af smituðum.  Hérlendis er þetta hlutfall aðeins um 0,6 %, en þar sem sérlega illa hefur tekizt til, er þetta hlutfall 20-40 sinnum hærra.  

Það, sem þó háir Íslendingum í þessari baráttu er skortur á hentugu húsnæði og aðbúnaði, þar sem nýi Landsspítalinn er enn í byggingu og kemst a.m.k. 5 árum of seint í gagnið m.v. þörfina.  Þar verður að  hafa til reiðu fjölda sjúkrarúma og gera ráð fyrir snöggri stækkun á gjörgæzluaðstöðu.  Það munu ekki líða 100 ár að næstu alvarlegu kórónuveiru, og aðrir enn hættulegri heimsfaraldrar gætu hæglega blossað upp á þessum áratugi.  Hin hrikalega ebóla var kveðin niður í Afríku með miklu harðfylgi vestræns heilbrigðisstarfsfólks á fyrsta áratugi þessarar aldar. Veirur eru til rannsókna og þróunar í misjöfnu augnamiði á rannsónarstofum heimsins og geta sloppið þaðan af ýmsum orsökum. Forseti Bandaríkjanna hefur fjálglega viðrað grunsemdir um uppruna Wuhan-veirunnar á rannsóknarstofu þar í borg, en hann er að vísu alræmdur blóraböggulsframleiðandi.  Það eru ekki öll kurl komin til grafar með þessa SARS-CoV-2 veiru, uppruna hennar, og hvernig hún dreifðist út fyrir Kína, til skíðasvæðanna í Ölpunum og víðar.  Seinagangur Kínverja í upphafi á sök á útbreiðslunni.  Lokun Kína í desember 2019 hefði væntanlega þýtt, að kostnaður heimsins í baráttunni við óværuna hefði aðeins orðið brot af þeim hundruða trilljóna USD kostnaði, sem heimurinn situr uppi með.  

Í þessum kórónafaraldri hefur komið í ljós, að virðiskeðjur fyrir inn- og útflutning landsins rofna auðveldlega og samkomulag og sambönd halda illa.  Nægir að nefna, að framleiðsla í "Verksmiðju heimsins", Kína, stöðvaðist á mörgum sviðum og framkallaði það skort á þessum "just-in-time" tímum, þegar enginn vill halda birgðir.  Jafnvel þýzka hernum var bannað að halda birgðir af skammsýnum stjórnmálamönnum, og hefur það valdið því, að megnið af kafbátum og orrustuþotum landsins voru ekki bardagahæf, þegar til átti að taka á æfingum. Ursula von der Leyen var landvarnarráðherra, þar til Þjóðverjar sendu hana til Brüssel.  Hún rýrði bardagahæfni hersins til muna með aðgerðum af þessu tagi, en hún gekk lengra.  Hún vildi uppræta hefðir hersins, eins og að ganga fylktu liði og syngja marsa, siði, sem rekja má allt aftur til prússneska hersins fyrir daga Friðriks, mikla, sem margan frækinn sigurinn vann í Evrópu. Þá fyrirskipaði hún að taka niður mynd af Helmut Schmidt, fyrrum kanzlara Vestur-Þýzkalands, þar sem hann var í herbúningi Wehrmacht (barðist á Austurvígstöðvunum).  Ekki þarf að spyrja að því, að forystuhæfileika í ESB sýndi téð von der Leyen enga, þegar til átti að taka, þegar SARS-CoV-2 herjaði sem verst á Evrópu í marz-apríl 2020.  Er Evrópusambandið ekki búið að bíta úr nálinni með lömun sína og aðgerðaleysi til varnar íbúunum, þegar hæst átti að hóa.  Þetta er einn naglinn í líkkistu ESB.

Nú hefur heimsmarkaðsverð olíu hrapað niður í 20-30 USD/tunnu.  Jafnframt hefur raforkuverð heimsins hrapað, og er á heildsölumörkuðum yfirleitt undir 10 USD/MWh.  Þetta grefur undan orkustefnu ESB í bráð og lengd.  Margir hljóta að spyrja sig í Evrópu: hvers vegna erum við að halda uppi gráðugu skrifstofubákni í Brüssel og víðar, sem virðist ekki vera til neins gagns, þegar mest ríður á ?  Þótt Bretar hafi farið illa út úr COVID-19, er ekkert, sem bendir til, að aðild að ESB hefði verið hjálpleg.  

 Schengen samningurinn fór fyrir lítið, því að hvert ríkið á fætur öðru lokaði landamærum sínum í trássi við von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Um síðir samþykkti ESB að loka ytri og innri landamærum sínum.

Alvarlegastur er ágreiningurinn innan Evrópusambandsins (ESB) um sameiginlegar hjálparaðgerðir við nauðstödd ríki innan ESB vegna kostnaðarins og tekjutapsins af völdum COVID-19.  Suðurríkin, sem Frakkar styðja, vildu, að Seðlabanki evrunnar gæfi út "Kórónubréf", en Norðurríkin snerust öndverð við því af skiljanlegum ástæðum, sbr "við greiðum ekki skuldir óreiðumanna".  Úr varð, að úr björgunarsjóði verða mrdEUR 500 til ráðstöfunar inn á við í ESB út af COVID-19. Viðtakendur verða aðallega Ítalir, Spánverjar og Frakkar, ef að líkum lætur, en upphæðin mun ekki duga til að koma efnahag þessara ríkja í samt lag.  Norðurríkin verða langt á undan Suðurríkjunum við að koma hjólum efnahagslífsins aftur á góðan snúning. Þetta mun enn auka á efnahagslega og pólitíska sundrungu á milli suðurs og norðurs, sem getur endað með ósköpum og talsverðri veikingu evrunnar. 

"Á sama hátt er ómetanlegt fyrir þjóðir að ráða sjálfar sínum efnahagsmálum, reka sína eigin peningastefnu, og eiga sinn eigin gjaldmiðil.  Kostir þess hafa sýnt sig í fyrri kreppum, og þeir munu gera það núna.

Íslenzkur iðnaður þekkir þetta vel.  Líkt og aðrar þjóðir hafa Íslendingar tekizt á við miklar efnahagssveiflur, en með sjálfstæði og sveigjanleika í farteskinu hefur okkur tekizt að að vinna vel úr áföllunum.  Nái ég kjöri sem formaður Samtaka iðnaðarins, mun ég beita mér fyrir auknu alþjóðasamstarfi iðnaðarins.  Ég vil, að iðnaðurinn efni til meira samstarfs út fyrir Norðurlöndin og Evrópu, við systursamtök í öðrum heimsálfum og löndum, sem hafa náð langt.  Tækifærin eru víða og einskorðast sannarlega ekki við innri markað Evrópusambandsins."

Fyrsti hluti þessarar tilvitnunar er hárrétt athugaður hjá Guðlaugu, en skilningi á þessu hefur verið ábótavant hjá mörgum formönnum SÍ.  Síðari hlutinn sýnir vel víðsýni Guðlaugar, og að hún er vel meðvituð um þróun viðskiptatækifæranna á næstunni.  Hún hefði orðið mikill fengur fyrir forystu Samtaka iðnaðarins. Því miður átti það ekki fyrir SI að liggja að þessu sinni.   

Sumir eru þeirrar skoðunar, að SARS-COV-2 veiran verði banabiti ESB í sinni núverandi mynd (án Breta).  Morgunblaðið fylgist vel með þessum málum, sem öðrum, og þar var 7. apríl 2020 frétt undir fyrirsögninni:

""Mesta prófraun" ESB".Hún hófst þannig:

"Angela Merkel, Þýzkalandskanzlari, varaði við því í gær, að aldrei hefði reynt jafnmikið á samheldni Evrópusambandsríkjanna og nú.  Hvatti hún ríki álfunnar til þess að vinna saman að því að endurreisa efnahag aðildarríkjanna, þegar heimsfaraldurinn verður liðinn hjá. 

"Ég tel, að Evrópusambandið standi nú frammi fyrir mestu prófraun sinni frá stofnun", sagði Merkel og bætti við, að öll ríkin hefðu fundið fyrir faraldrinum, og því væri það hagur allra, að Evrópuríkin kæmu styrkum fótum frá þessari raun."

 

 "Stjórnvöld í Frakklandi vöruðu við því í gær, að yfirvofandi væri versta efnahagskreppa, sem Evrópa hefði séð frá lokum síðari heimsstyrjaldar.  Sagði Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, að tryggja þyrfti, að ríkari ríki sambandsins næðu sér ekki af áhrifum kórónaveirunnar fyrr en hin verr settu, því [að] annars yrði eining aðildarríkjanna, sem og evrusvæðið [evrusvæðisins-leiðr. BJo], fyrir miklu höggi."

Þarna segja Frakkar, að þeir muni koma lamaðir út úr viðureigninni við SARS-COV2, enda ekki borð fyrir báru þar á bæ frekar en fyrri daginn.  Fjármálaráðherrann segir í raun, að Þjóðverjar megi ekki nýta hlutfallslega yfirburði sína, þegar hagkerfi þeirra kemst í gang aftur, til að auka enn forskot sitt og auka hagvöxtinn hjá sér langt umfram það, sem hin ríkin munu verða fær um. Af þessu er ljóst, að vandamálin hrannast upp fyrir ESB úti við sjónarrönd, einkum vegna þess, hversu ólíkar aðildarþjóðirnar eru að upplagi.  Evran var ótímabær og illa ígrunduð tilraun.  Framtíð hennar er í meiri óvissu núna en í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008 og Grikklandsfársins 2012, enda hefur lítið verið gert til að skjóta undir hana fótum, nema brauðfótum.  

 

 Evran krosssprungin

  

 


Fjaðrafok út af ECT

Það varð töluverður ys og þys út af engu í viku 38/2019, þegar vefmiðill nokkur tók af óþekktum ástæðum að bera saman alþjóðlegan sáttmála, "Energy Charter Treaty" og Orkupakka 3 (OP#3).  Eins og sjá má í viðhengi með þessari vefgrein, er þarna ólíku saman að jafna.  

Engu var líkara en með þessu upphlaupi hafi átt að koma höggi á Miðflokkinn vegna þess, að formaður og varaformaður hans gegndu stöðum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, þegar Ísland gerðist aðili að þessum alþjóðlega sáttmála, þar sem jafnvel Sviss á aðild.  Potturinn og pannan í þessu máli hefur hins vegar væntanlega verið fagráðherrann, ráðherra orkumála, iðnaðarráðherrann Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra Sjálfstæðisflokksins.  

Utanríkisráðherra kemur hins vegar að öllum slíkum samningum við erlend ríki, og hann undirritaði fyrir Íslands hönd, og dr Ólafur Ragnar Grímsson, fullgilti þennan samning.  Það er athyglisvert í þessu sambandi, að Norðmenn, sem búa yfir gríðarlegum orkulindum, eru aðilar að samninginum, en hafa enn ekki fullgilt hann.

Það er jafnframt athyglisvert, hversu litla þinglega meðferð samningar af þessu tagi fá.  Látið er duga að kynna mál, sem ekki þarfnast lagabreytingar og ekki fela í sér fjárhagsskuldbindingar, í utanríkismálanefnd, ef þá svo mikið er viðhaft.  Leikmanni virðist eðlilegra, að samnin sé þingsályktunartillaga og fjallað um hana í þinginu, en Skrifstofa Alþingis hefur staðfest, að við afgreiðslu ECT var alls ekki brugðið út af vananum, eins og þó hefur verið látið liggja að. 

Hvers vegna var talið rétt, að Ísland gerðist aðili að ECT ?  Líklegast er, að þrýstingur hafi verið á það að hálfu íslenzkra fyrirtækja, sem stunda fjárfestingar, rannsóknir, ráðgjöf og verktöku, utan EES, t.d. í Þriðja heiminum, svo kallaða, þar sem eignarréttur og lagarammi um framkvæmdir er með öðrum hætti en hérlendis.  Íslenzk fyrirtæki hafa t.d. stundað starfsemi í Afríku og Asíu á sviði jarðhitanýtingar, og þeim gæti gagnazt ECT, ef í harðbakka slær.

ECT var vissulega hugsaður til að hvetja til orkuflutninga yfir landamæri, eins og OP#3, en lengra nær samanburðurinn ekki.  Það er fátt annað sameiginlegt með þessum tveimur gjörningum, og þess vegna fánýtt að taka að sér að bera saman þessa tvo gjörninga.  Annar er sáttmáli jafnrétthárra þjóða um fjárfestingar í orkugeiranum og meðferð ágreiningsmála, sem þær kunna að leiða af sér, en hinn er samningur með yfirþjóðlegu sniði, þar sem víðtæk völd eru veitt embætti (Landsreglara), sem fært er undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER - Orkustofnun ESB, sem er undir stjórn Framkvæmdastjórnar ESB, sjá nánar viðauka með þessum pistli.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ólesnir, þröngsýnir nauðhyggjumenn eru illa fallnir til leiðsagnar

Við mat á afleiðingum innleiðingar Orkupakka #3 (OP#3) fyrir stjórnarfar og stefnumörkun orkumála landsmanna, svo og áhrif OP#3 á hag þeirra, er algerlega ófullnægjandi að skoða OP#3 einan.  Hann er aðeins stór steinn í vörðu, sem vísar veginn að fullri stjórnun Evrópusambandsins (ESB) á orkumálum aðildarlandanna og eftir atvikum EFTA-landanna.  Þessi miðstýring er grundvölluð í Lissabonsáttmálanum, stjórnarskrárígildi ESB, en í upphaflega EES-samninginum frá 1992 er hana ekki að finna, enda hefði hann þá vafalítið ferið felldur á Alþingi í janúar 1993 (og líklega á Stórþinginu árið áður).

Það er líka nauðsynlegt að meta áhrif OP#3 með hliðsjón af EES-samninginum, t.d. hins alls yfirskyggjandi fjórfrelsis, og annarra gerða ESB, sem ýmist hafa þegar verið lögleiddar hér eða munu vafalaust verða það.  Þar má nefna þjónustutilskipun ESB og reglugerð #347/2013 um Kerfisþróunaráætlun ESB og samræmda meðhöndlun umsókna fyrirtækja um leyfi til uppbyggingar innviða til orkuflutnings á milli svæða eða landa.

Það er sammerkt með öllu þessu regluverki ESB, að það er sniðið til að draga úr opinberu eignarhaldi og rekstri og til að efla frjálsa samkeppni.  Iðnaðarráðherra Íslands hefur gleypt þetta agn og tilfærir sem meginrökin fyrir innleiðingu OP#3.  Það er merki um illa ígrundaða afstöðu af tveimur ástæðum:

1) Á Íslandi verður aldrei frjáls samkeppni að evrópskum hætti, sem þrýstir raforkuverðinu niður í lágmark þess, sem arðbært getur talizt, af því að hér verður alltaf fákeppni á þessu sviði og staða orkuvinnslufyrirtækjanna er fádæma ójöfn.  Orkukauphöll að hætti ESB verður þess vegna varla orkukaupendum til hagsbóta.

2) Landsmenn eru ekki tilbúnir að líta á rafmagn sem vöru, eins og ESB og iðnaðarráðherra, heldur stendur hugur landsmanna að líkindum nær því að líta á rafmagnið úr orkulindum landsins sem samfélagslega þjónustu, sem félagsleg fyrirtæki eigi að hafa forgang til nýtingar á, enda verði orkulindirnar lýstar í þjóðareign með svipuðum hætti og fiskimiðin.  Slíkt jafngildir ekki þjóðnýtingu einkaeigna á orkulindum, heldur skuli ríkisvaldið með slíkri lagasetningu öðlast rétt til að stjórna auðlindanýtingunni, eins og á sér stað með tiltölulega farsælum hætti með fiskimiðin.  Með þessu móti er von um lýðræðislega ákvörðunartöku um nýtingu orkulindanna og vonandi mestu sátt, sem hægt er að ná á þessu sviði í þjóðfélaginu.  Raforkukerfið væri þá viðurkennt sem innviðir samfélagsins, sem ríkisvaldið ber ábyrgð á.

Þetta samræmist hins vegar engan veginn stefnu ESB á orkumálasviði, sem með öllu sínu regluverki ýtir undir einkavæðingu og fjárfestingu einkaaðila í þessum geira í stað hins opinbera.  Sýnidæmi um þetta höfum við fyrir augunum um þessar mundir.  ESA sendi ríkisstjórn Íslands fyrir nokkrum árum bréflega fyrirspurn um það, hvernig hún færi að því að tryggja úthlutun virkjanaleyfa á markaðsverði.  Málið er enn í nefnd hér, enda "heit kartafla".  Í marz 2019 fékk orkuráðherra Noregs sams konar bréf frá ESA, og  nýlega var það birt opinberlega.  Þar í landi mun þess vegna bráðlega myndast umræða um málið, og þar kann að hitna í kolunum, því að um það hefur ríkt þjóðarsátt í Noregi, að virkjanir landsins séu að mestu leyti í þjóðareign.  Meira að segja millilandatengingar raforku eru þar allar í ríkiseign.  

Með því að líta til viðskipta framkvæmdastjórnar ESB við ríkisstjórn Frakklands út af franska ríkisorkufyrirtækinu EdF má sjá í hvað stefnir í viðskiptum ESA við ríkisstjórn Íslands og Noregs um eignarhald virkjanaleyfa og vatnsaflsvirkjana.  Þessu máli gerði Bændablaðið ítarleg skil  29. maí 2019 undir fyrirsögninni:

"Þess er nú krafizt, að átta ríki ESB einkavæði sínar vatnsaflsvirkjanir".

Verður nú vitnað í þessa úttekt blaðsins:

"Hefur framkvæmdastjórnin, sem hefur umsjón með frjálsri samkeppni í Evrópu, verið að þrýsta á Frakkland og 7 önnur lönd í langan tíma til að tryggja, að opnað verði fyrir einkafjármagn í orkugeiranum.  Þann 7. marz síðastliðinn var síðan höfðað samningsbrotamál gegn Frakklandi, Þýzkalandi, Austurríki, Póllandi, Portúgal, Svíþjóð, Ítalíu og Bretlandi fyrir að hafa ekki farið í opin útboð á nýtingarrétti vatnsfalla og vatnsfallsvivrkjana."

Hérlendis hefur því verið haldið fram af orkupakkasinnum, og vitnað í lögfræðiálit því til stuðnings, að EES-samningurinn og viðaukar hans veiti Evrópusambandinu enga viðspyrnu til að krefjast breytinga á eignarhaldi virkjana eða á nýtingarrétti orkulindanna.  Nú er allt annað komið á daginn.  Að sjálfsögðu fetar Eftirlitsstofnun EFTA-ESA í fótspor Framkvæmdastjórnarinnar.  Hún sendi íslenzku ríkisstjórninni fyrir nokkrum árum og norsku ríkisstjórninni í marz 2019 skriflega fyrirspurn um það, hvernig ríkisstjórnirnar gengju úr skugga um það, að virkjunarleyfum vatnsorkuveranna væri úthlutað á markaðsverði í ljósi þess, að um opinbera úthlutun takmarkaðra gæða væri að ræða.  Hér er augljóslega um að ræða opnun ESA á sams konar kröfu gagnvart EFTA-löndunum og Framkvæmdastjórnin hefur rekið gagnvart 8 ESB-löndum um einkavæðingu leyfa fyrir vatnsorkuver í opinberri eigu.  Þetta stríð hefur nú leitt til þess, að ríkisstjórn Frakklands hefur boðizt til að selja mörg vatnsorkuver í eigu ríkisfyrirtækisins EdF.

Það blasir við, að vatnsréttindi Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaár-svæðinu, sem Landsvirkjun fékk í heimanmund frá ríkissjóði við stofnsetninguna árið 1965, eru í uppnámi, og þess verður krafizt, að einkaaðilum á EES-svæðinu verði gefinn kostur á að bjóða í þessi verðmæti til afmarkaðs tíma, t.d. aldarfjórðung.  Þetta sýnir, að alls ekki má vanmeta einbeittan vilja Evrópusambandsins til að markaðsvæða raforkugeirann í ESB í nafni fjórfrelsins og EFTA-löndin í EES verða að lúta sömu reglum.  Það er í þessu ljósi mjög óráðlegt að veita ESB þær rúmu heimildir hérlendis, sem OP#3 felur í sér, t.d. með Landsregaranum og heimildum ACER samkvæmt Evrópuréttinum varðandi millilandatengingar.  

"Á frönskum vefmiðlum má sjá hörð orð um einræðistilburði ESB við að innleiða skefjalausan kapítalisma í franska orkugeirann, án þess að stjórnvöld hreyfi þar legg né lið.  Það sé allavega lágmarkið, að þjóðin sé spurð um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort hún vilji afsala sér yfirráðum yfir eigin orkufyrirtækjum. Einnig er spurt, hvort verið sé að færa franska orkugeirann í hendur kínverskra fjárfesta á silfurfati."

Hvernig halda menn, að pólitíska ástandið verði hérlendis, þegar það verður lýðum ljóst, að orð stjórnmálamanna, embættismanna og lögfræðinga um, að EES-samningurinn næði ekki til eignarhalds og yfirráða orkulinda og virkjana, eru orðin tóm og án nokkurrar lagalegrar stoðar, þegar ESB/ESA lætur til skarar skríða ?  Þá munu orðhákar orkupakkanna flýja inn í holur sínar.  Ekkert hald verður í þeim frekar en fyrri daginn.  Þá er ljóst, að EES-samningurinn verður í uppnámi, og stjórnmálaflokkarnir, sem mælt hafa fyrir umdeildu frekara fullveldisframsali með innleiðingu OP#3 munu eiga í vök að verjast.  

""Vatnsorkuver eru helzta uppspretta okkar af endurnýjanlegri raforku og skila 12 % af rafmagni okkar.  Þetta er jafnframt eina leiðin fyrir okkur til að geyma raforku", segir einn þessara [frönsku] þingmanna [sem telja valdhafana skorta pólitískan vilja til að verja öryggi og fullveldi Frakklands].  Hann bendir líka á, að þetta sé mikil áskorun fyrir iðnað, þar sem starfa um 25 000 manns og [sem] skilar um mrdEUR 1,5 [í opinberum tekjum]. 

"Það verður að verja vatnsorkuverin okkar líkt og gert hefur verið varðandi kjarnorkuverin", sagði þingmaðurinn Marie-Noëlle Battistel við blaðið L'Express."

Það er greinilega mikill pólitískur ágreiningur í uppsiglingu um eignarhaldið í orkugeiranum í uppsiglingu í Frakklandi.  Ráðamenn þar geta sig hvergi hreyft gagnvart Framkvæmdastjórninni vegna aðildar landsins að Evrópusambandinu.  Íslenzka löggjafarvaldið getur enn hafnað OP#3 og leitað samninga um undanþágur í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Ef allt um þrýtur kann að verða nauðsynlegt að leita annarra viðskiptalausna við Evrópusambandið.  Líklegt er, að megn óánægja með EES-aðildina gjósi einnig upp í Noregi, þegar Norðmenn horfa framan í einkavæðingarkröfur ESA/ESB á hendur orkugeira þeirra, og þá kann að myndast jarðvegur fyrir samningaviðræður EFTA með Svisslendinga innanborðs við ESB.

""Vatnsorkuverin hafa verið fjármögnuð af frönsku þjóðinni og eru rétt að byrja að skila arði.  Það er ekki til umræðu að gefast upp", sagði þingmaðurinn Delphine Batho.

"Spurningin snýst um öryggi og stjórnun sameiginlegs ágóða, en einnig um kostnaðarstjórnun.  Ég óttast, að einkavæðingin í orkumálunum verði á sama veg og varð við einkavæðingu hraðbrautanna, sem leiddi til aukins kostnaðar fyrir neytendur.""

 Raforkuvinnslukostnaður vatnsorkuvera stafar aðallega af stofnkostnaðinum, en aðeins að litlu leyti af rekstrarkostnaði.  Þegar búið að greiða niður lán vegna fjárfestingarinnar, taka vatnsorkuverin að mala eigendum sínum gull.  Það á einmitt við um elztu virkjanir Landsvirkjunar á Þjórsár/Tungnaár-svæðinu, allar nema Búðarhálsvirkjun, sem er aðeins 6 ára gömul.  Það væri þess vegna fjármálalegt óráð að selja þessar virkjanir núna, og að bjóða vatnsréttindi þessara virkjana út eða upp á EES-markaðinum getur aðeins leitt til hækkunar raforkuverðs til neytenda.  Það er auðvelt að taka undir það með gagnrýnum frönskum þingmönnum, að afskipti Evrópusambandsins og í okkar tilviki ESA af eignarhaldi í raforkugeiranum er óþolandi.  Við þessar aðstæður er óskiljanlegt, að flestir Alþingismenn virðast fúsir til að vaða enn lengra út í fenið og færa ESB/ESA enn meiri völd yfir orkugeiranum.  

"Krafa framkvæmdastjórnarinnar snertir yfirráð fransks almennings yfir 399 vatnsaflsvirkjunum víða um Frakkland.  Með öðrum orðum er verið að neyða franska ríkið til að afsala sér yfirráðum yfir sínum vatnsorkuverum í hendur einkafyrirtækja. Það er nokkuð, sem íslenzkir þingmenn, sem hafa haft forgöngu um að innleiða orkupakka 3 á Íslandi, hafa þvertekið fyrir, að væri nokkur hætta á, að geti gerzt hér á landi.  

Krafa framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel um, að EdF verði opið fyrir einkafjármagn, miðast við, að yfirráðaréttur franska ríkisins yfir 150 vatnsorkuverum falli úr gildi árið 2023."

Ólesnir og þröngsýnir þingmenn, haldnir nauðhyggju um, að engrar undankomu sé auðið að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3 til að "bjarga" EES-samninginum, eru þvert á móti að reka nagla í líkkistu EES-samningsins með afléttingunni.  Þeir hafa látið aðstoðarmenn ráðherra teyma sig út í orðhengilshátt eins og þann, að  sæstrengsákvæði OP#3, t.d. reglugerð #713/2009, muni ekki gilda á Íslandi, af því þau gildi aðeins um innviði í rekstri.  Þarna gætir ónákvæmni, sem veldur alvarlegum rangtúlkunum, sem verða Íslandi ekki í vil fyrir dómi.  OP#3 á vissulega við sæstrengi á undirbúningsstigi, a.m.k. frá þeim degi, þegar umsókn um leyfi til lagningar og tengingar við raforkukerfi landsins er skilað inn til orkustofnunar á Íslandi og á Bretlandi.  Til að skýra línurnar kann að verða nauðsynlegt fyrir sæstrengsfjárfestana að höfða samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir að lögleiða fyrirvara við OP#3 (#713/2öö9), sem áskilur samþykki Alþingis fyrir undirbúningi og lagningu aflsæstrengs.

 

 

 


Næstu skref eftir OP#3

Það er mikið fagnaðarefni, að ASÍ hefur markað sér skýra stöðu í átökunum um íslenzku orkulindirnar.  Það er engum blöðum að fletta um, að ásóknin í þær mun vaxa, ef mestur hluti orkugeirans, allt of margir og jafnvel nokkrir fórkólfar atvinnulífsins, illu heilli, þingmenn o.fl., fá þeim vilja sínum framgengt, að Orkupakki #3 verði leiddur inn í íslenzkar lögbækur. Það eru öflugir hagsmunahópar, sem hafa hagsmuni af og sjá auðgunartækifæri í hækkun raforkuverðs á Íslands, einkum með millilandatengingum, sem jafna myndu út á endanum raforkuverðsmun hérlendis og erlendis.  Allur orkugeirinn sleikir út um, og það er hald sumra, að ríkissjóðurinn muni fitna við þetta, en það getur ekki orðið, því að landsframleiðslan mun jafnvel dragast saman, þegar atvinnulífið kiknar undan byrðunum, og mörg fyrirtæki í samkeppni við útlönd munu neyðast til að draga saman seglin og jafnvel hætta starfsemi. Atvinnuframboð mun snarminnka. 

Niðurstaða ASÍ er þess vegna rökrétt.  Það eru hagsmunir verkalýðshreyfingarinnar, eins og almennings á Íslandi, að hérlendis verði raforkuverð nálægt kostnaðinum við vinnsluna.  Þá má ekki hleypa að spákaupmennsku með raforkuna og kreddum um uppboð á virkjanaleyfum til "skamms" tíma, sem auðvitað munu leiða til hærra raforkuverðs til heimila og atvinnulífs, því að reynt verður að endurheimta kostnað við að afla virkjanaleyfa með hækkun raforkuverðs. 

Hvaða samband er á milli OP#3 og afkomu almennings ?  Með OP#3 verða Íslendingar skyldaðir til að taka upp markaðskerfi Evrópusambandsins, ESB, þótt það henti engan veginn íslenzkum aðstæðum og sé þar af leiðandi líklegt til að valda hér óstöðugleika orkuverðlags, vaxandi hættu á orkuskorti og hærra meðalverði raforku yfir árið.  Mismunurinn á núverandi markaðskerfi hér og markaðskerfi ESB er, að hið síðarnefnda er uppboðskerfi fyrir raforku í orkukauphöll með afleiðuviðskiptum og spákaupmennsku með raforkuna, en núverandi kerfi er aðallega auglýstar gjaldskrár, en um stærri orkuviðskipti er hægt að fá tilboð frá orkubirgjum. 

Opinber aðstoð við orkukaupendur, sem á einhvern hátt er hægt að flokka sem markaðsskekkjandi ríkisaðstoð, verður bönnuð.  Styrkur til húsnæðishitunar er t.d. óþekktur, þar sem frjálst markaðskerfi með orku er við lýði, einnig í Noregi, þar sem raforkunotkun heimila er fimmföld á við íslenzk heimili án rafhitunar.  Rafmagnskostnaður hefur orðið tilfinnanlegur fyrir margar fjölskyldur í Noregi, þegar saman hefur farið þurrkur og útflutningur rafmagns, t.d. um sæstrengi.  Samt hefur ekkert orðið úr því, að hið opinbera hlaupi undir bagga. 

Gaspri iðnaðarráðherra um, að ríkisstjórn og Alþingi muni ráða þessu hér eftir sem hingað til, er varlegt að treysta.  Ríkisstuðningur við bændur til að létta þeim byrðar hás raforkukostnaður er óleyfilegur að Evrópurétti og ögrun við fjórfrelsið.  Það er blindingsháttur að halda að það að ganga orkupakkanum á hönd muni engar afleiðingar hafa.  Annaðhvort stafar slíkur málflutningur af fullkomnu þekkingarleysi á málefninu eða blekkingartilhneigingu, sem er í raun fullkomið ábyrgðarleysi.  

Stóra reykbomban felst svo í því, að Alþingi geti í senn lýst yfir stuðningi sínum við tengingu Íslands við sameiginlegan raforkumarkað ESB og sett lög, sem banna Landsneti að setja aflsæstreng á framkvæmdaáætlun Kerfisáætlunar, þótt Landsreglara beri að gefa Landsneti fyrirmæli um að framfylgja Kerfisþróunaráætlun ESB.  Þetta er þverstæða og algert píp.  

ESB ætlar að draga til sín öll völd yfir orkumálum aðildarlandanna, og hið sama mun gilda um EFTA-löndin, sem samþykkja orkupakkana.  Þessi valdasamþjöppun réttlætir ESB sem nauðsynlegt tæki í baráttunni við loftslagsvána.  Þessi rök eiga ekki við á Íslandi með innan við 1 % raforkuvinnslunnar úr jarðefnaeldsneyti.  Auðvitað á að hafna OP#3 og taka málið upp til vinsamlegrar viðræðu á réttum vettvangi, Sameiginlegu EES-nefndinni, í ljósi nýrra aðstæðna á Íslandi, þar sem komið hafi í ljós víðtæk andstaða um allt land og hjá öflugum verkalýðssamtökum á borð við ASÍ.

Við þessa vörðu á vegferðinni, OP#3, er rétt að velta fyrir sér, hvert leiðin liggur:

  • OP#4 eflir enn hina yfirþjóðlegu þætti orkusambandsins og stangast þar af leiðandi enn meir á við Stjórnarskrána en OP#3.  ACER fær aukin völd, eins og við var að búast, og Framkvæmdastjórnin á að ástunda mun strangara eftirlit með Kerfisáætlunum aðildarlandanna, ráðstöfunum til bættrar orkunýtni og orkuskipta.  Stefnumið orkusambandsins er hnökralaust net millilandatenginga, sem skal tryggja, að orka streymi vandræðalaust frá svæðum lágs orkuverðs til svæða hás orkuverðs.  Þannig er staðan alls ekki núna og þarf líklega að þrefalda núverandi aflflutningsgetu á milli landa ESB, til að svo verði.  Niðurstaða þessarar þróunar verður samræmt evrópskt orkuverð, sem vafalaust verður hærra en raforkuverðið, sem Íslendingar hafa vanizt á þessari öld.  Hvers vegna að gefa nú undir fótinn með, að við viljum taka upp evrópskt raforkuverð gegn því að tengjast sameiginlegum raforkumarkaði ESB ?
  • Í OP#4 er fyrirskrifað, að stofna skuli til Svæðisstjórnstöðva, SSS (Regional Operation Centres, ROC), til álagsstýringar og öryggisútreikninga á flutningskerfinu.  Ábyrgð á þessum málum er núna hjá hverju landi fyrir sig, hjá Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi til að nefna dæmi.  Norska ríkisstjórnin hefur fengið frágengnar gerðir og tilskipanir úr OP#4 og sent þær út til umsagnar.  Hvers vegna heldur íslenzka ríkisstjórnin spilunum svo þétt að sér, að halda mætti, að þau væru algerlega óboðleg ?  Er það vegna þess, að hún telji sig ekki þurfa neinar umsagnir utan úr þjóðfélaginu ?  Satt að segja hræða sporin frá Þriðja orkupakkanum, því að embættismannakerfi ráðuneytanna ræður hreinlega ekki við að leggja faglegt mat á stórmál af þessu tagi, sem raunverulega er tæknilegs eðlis, þótt lögfræðingar verði að rýna orkupakkana líka.  Það er hins vegar gagnslítið að láta þá rýna mál af þessu tagi, sem virðast eins og fiskar á þurru landi, þegar kemur að Evrópurétti og stjórnlögum landsins.  Hvað um það.  Í umsögn sinni sagði Statnett: "Ábyrgðin á afhendingaröryggi raforku á ekki að fara úr höndum ríkisins".  Þetta er hverju orði sannara.  Vonandi verður Landsnet sammála, og vonandi sammælast ríkisstjórnir Íslands og Noregs um það eigi síðar en í Sameiginlegu EES nefndinni, ef illu heilli Alþingi samþykkir OP#3, að ábyrgðin á afhendingaröryggi raforku á Íslandi og í Noregi verði hjá Landsneti og Statnett.  Þetta er lykilmál, sem þýðir í raun, að hvorki Ísland né Noregur geta samþykkt OP#3 heldur.  Að eftirláta stjórnstöð einhvers staðar á meginlandi Evrópu að stjórna íslenzka orkukerfinu, álagsdreifinu á línur, vatnshæð í miðlunarlónum og mörgu fleiru, er ófært af öryggisástæðum.  Þess vegna ætti Alþingi að girða strax fyrir vandræði og neita að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara af OP#3.
  • Á minnisblaði með beiðni um umsögn við frágengnar gerðir OP#4 útskýrir norska ríkisstjórnin Raforkumarkaðsreglugerðina í OP#4 þannig: "Gerðin njörvar niður nánari reglur um atriði með þýðingu fyrir viðskipti yfir landamæri [með orku].  Tilgangurinn er að ákvarða mikilvægustu grunnreglurnar fyrir velvirkandi, samþættum rafmagnsmarkaði.  Það felur í sér, að allir viðkomandi aðilar skuli fá óvilhallan rétt til markaðsaðgangs. Ennfremur eru ákvarðaðar almennar reglur um úthlutun flutningsrýmis [í millilandatengingum] og þrengslameðhöndlun.  Þar er m.a. kveðið á um, að þjóðarhagsmunir megi ekki takmarka innflutning og útflutning á rafmagni."  Þetta þýðir, að norsk og íslenzk yfirvöld mega ekki skipta sér af, hvernig straumurinn á að verða í strengjum og línum til útlanda. Þetta verður hart aðgöngu fyrir Norðmenn, eins og athugasemd Statnetts sýnir, og algerlega óaðgengilegt fyrir Íslendinga.  Innlend fyrirtæki lenda í beinni samkeppni um raforkuna hér innanlands við fyrirtæki í ESB, það lækkar hratt í miðlunarlónum og orkuverðið rýkur upp úr öllu valdi.  Innlend stjórnvöld hafa ekki leyfi til að skakka leikinn.  Í versta tilviki bilar síðan sæstrengurinn, og hér verður hrikalegur raforkuskortur að vetrarlagi. 
Það er vogunarspil og gríðarleg áhætta í því fólgin að treysta því, að bann Alþingis við því að taka sæstreng inn á framkvæmdahluta Kerfisáætlunar Landsnets haldi gagnvart Evrópurétti.  Hugmyndin sjálf er arfaslök og stngur í stúf við stefnumörkun Evrópusambandsins.  Það á í mikilli baráttu við ýmis aðildarlanda sinna út af stefnumörkuninni um hnökralausar millilandatengingar og sama orkuverð alls staðar.  Takist þetta, græðir þungamiðja framleiðslunnar, en jaðrarnir tapa.  Þetta er hins vegar barið áfram með þeim rökum, að miðstýring orkumála sé nauðsynleg til að ná tökum á loftslagsvánni.  Þessi stefnumörkun gengur öndvert á hagsmuni Íslands, sem eru fólgnir í lágu raforkuverði og nýtingu orkulindanna innanlands.  
Í þessu ljósi er deginum ljósara, að ESB getur ekki liðið það, að eitt ríki setji lagaleg skilyrði við innleiðingu OP#3, sem breyta inntaki og eðli orkupakkans.  Þess vegna velur norska ríkisstjórnin fremur þá leið að ganga á bak orða sinna gagnvart stjórnarandstöðuflokkunum Verkamannaflokknum og Græningjunum, svo alvarlegt sem það er, en að verða gerð afturreka með lagasetningu um skilyrðin 8.
Evrópusambandið hefur nefnilega vopnið, sem bítur í þessu sambandi, EES-samninginn, gr. 7. Á þetta vopn mun reyna eigi síðar en við afgreiðslu fyrstu umsóknar um aflsæstreng frá ESB-landi til Íslands.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Örverpi utanríkisráðuneytisins

Í herhvöt Guðna Ágústssonar, fyrrverandi Alþingismanns og ráðherra, á fundi í fundaröð Ögmundar Jónassonar, sömuleiðis fyrrverandi Alþingismanns og ráðherra, "Til róttækrar skoðunar", í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík laugardaginn 5. apríl 2019, óskaði hann þess, að Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn yrði að pólitísku fúleggi í hreiðri ríkisstjórnarinnar.  

Hér skal taka undir hina frómu ósk hins vígreifa höfðingja Sunnlendinga, sem á þessum fundi steig á stokk, fór með bundið mál sem og kjarnyrt óbundið, og hvatti fundarmenn og landsmenn alla (fundinum var streymt) til dáða í þessu sjálfstæðismáli þjóðarinnar.  Það er sjálfstæðismál, af því að það snýst um aðgang að einni helztu auðlind landsins, orkunni.   Ætlunin er að ræna landsmenn einum mestu hlunnindum, sem þeir búa við um þessar mundir og myndar undirstöðu velferðarsamfélagsins: tiltölulega ódýru rafmagni. 

Þeir eru til á meðal hérlandsmanna, sem berja hausnum við steininn, og þræta fyrir það, að Þriðji orkupakkinn snúist um orkulindir Íslendinga.  Hvers konar hagsmunamat ræður þar för ?  Þolir það dagsljósið, eða eru á ferðinni handbendi óprúttinna gróðapunga, sem sjá ótæpileg gróðatækifæri handan við sæstrengshornið, þar sem innflutningur á miðevrópsku rafmagnsverði gegnum sæstreng mun leiða til ábatasamrar sölu á raforku til landsmanna sjálfra, sem þó eiga sjálfir núna megnið af virkjuðum orkulindum "með einum eða öðrum hætti".  

Þeir, sem rýnt hafa Þriðja orkupakkann einna nákvæmast hérlendis, eru lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, sem skrifuðu lögfræðilega álitsgerð um afrakstur rýninnar fyrir utanríkisráðuneytið og skiluðu verkinu 19. marz 2019.  Utanríkisráðuneytið launaði verkið með því að snúa álitsgerðinni á haus, þvinga þar inn örverpi, sem er í algerri mótsögn við efnislega niðurstöðu skýrslunnar, og básúna síðan út til þingflokkanna og þjóðarinnar, að það hafi með þingsályktunartillögu sinni valið aðra af tveimur leiðum þessara mætu lögfræðinga, þótt í skýrslunni blasi við, að eina raunverulega tillaga tvímenninganna er að neita að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara vegna stjórnarskrárbrots, sem í orkupakkanum felst.  Með þessum blekkingum átti að smygla orkupakkanum gegnum Alþingi.  Þetta minnir á kerlinguna, sem kastaði pokapjötlunni með sál karls síns inn um Gullna hliðið eftir að hafa blekkt Lykla-Pétur. 

Ósvífni utanríkisráðuneytisins er þó margfalt verri en að smygla sál karlófétis inn í himnaríki. Kemst utanríkisráðuneytið upp með sína óbilgirni og vanvirðingu í garð Alþingis, sem mun ræna landsmenn yfirráðarétti og afrakstri orkuauðlindanna, er fram líða stundir ?  Þetta er ein skammsýnasta og verst ígrundaða ráðstöfun íslenzkra stjórnvalda allan lýðveldistímann, og þau hafa ekki bitið úr nálinni með hana.

Hér verða menn jafnframt að hafa í huga, að löggjöf Evrópusambandsins, ESB, er kvik, og það á í hæsta máta við um orkulöggjöfina, sem er í mótun.  Eftir Orkupakka #3 (OP#3) hafa komið út reglugerðir, t.d. #347/2013, sem enn færa völd frá aðildarlöndunum til ACER og Framkvæmdastjórnarinnar, OP#4 kemur út 2020, og nú er víst tekið að efna niður í OP#5. Þróunin er samfelld í átt að lokatakmarki ESB að ná altækri stjórn á orkumálum aðildarlandanna.  Þar sem hérlendis eru engin lög um stjórnun orkulindanna, falla þær undir stjórn raforkumálanna, sem verður á höndum Landsreglarans.   

Hvað skrifuðu téðir lögfræðingar í álitsgerð sína um orkuauðlindina ?:

"Síðan er þó vikið frá þessu í c-lið 2. mgr. 192. gr. SSEB [Sáttmáli um starfshætti Evrópusambandsins], þar sem gert er ráð fyrir, að ráðinu sé heimilt með einróma ákvörðun að gera ráðstafanir, sem hafi umtalsverð áhrif á val aðildarríkis milli ólíkra orkugjafa og almenna tilhögun orkuafhendingar.

Þetta þýðir, að stofnunum Evrópusambandsins hefur verið fengið vald til að setja afleidda löggjöf um orkumál innan þeirra valdheimilda og með þeim skilyrðum, sem fram koma í fyrrgreindum ákvæðum.  Valdheimildir aðildildarríkjanna skerðast þá að sama skapi.  Einnig má segja, að í raforkutilskipunum (sem eru hluti af samkeppnisreglunum) sé gert ráð fyrir, að eignarrétti sé skipt upp og að samkeppnisreglur gildi á ákveðnum sviðum.  Þó er ekki bannað, að raforkumannvirki eða dreifing orkunnar sé í opinberri eigu, þótt viss aðskilnaður sé ávallt áskilinn.

Niðurstaðan er því sú, að ýmis ákvæði finnast í frumrétti Evrópusambandsins, sem varða eignarrétt á orkuauðlindum og meðferð þeirra, sem þó geta vart talizt víðtæk enn sem komið er.  Þau heimila sambandinu að setja afleidda löggjöf, sem kann að hafa áhrif á upphaflegan rétt aðildarríkjanna til að stjórna auðlindum sínum.  Það hefur sambandið gert, t.d. með reglum þriðja orkupakkans.  Þær fela m.a. í sér, að einstök aðildarríki hafa ekki einhliða ákvörðunarvald um skilyrði og skilmála fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri, eins og nánar verður rakið síðar."  (Undirstr. höf.)

 Það er þannig ljóst, að lagagrundvöllur er fyrir hendi hjá Evrópusambandinu til setningar laga um eignarrétt yfir orkulindunum; Sambandið hefur þegar haldið inn á þá braut með Þriðja orkupakkanum að ráðskast með ráðstöfunarréttinn með því að búa til einn sameiginlegan markað og fyrirskrifa síðan öflugar samtengingar innan hans. Meira mun fylgja í komandi lagasmíð ESB á þessu sviði og allt bera að sama brunni: að hinn frjálsi raforkumarkaður ESB hafi aðgang að sem öruggustum endurnýjanlegum orkulindum, sem duga fyrir ESB til að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum.  Fjórfrelsið tryggir fjárfestum innan EES sama aðgang að auðlindunum og innlendum aðilum, þ.á.m. ríkissjóði, og eignarnámsheimild er óraunhæf leið fyrir ríkið til að tryggja samfélagsleg yfirráð yfir orkulind, sbr eftirfarandi tilvitnun í gr. 2.1.4 í skýrslu FÁFH & SMS:

"Með öðrum orðum má segja, að eignarnámi eða svipuðum aðgerðum verði ekki beitt, nema að gættum reglum sambandsréttar um fjórfrelsið, reglum um samkeppni og e.t.v. fleiri reglum." 

Þetta er í samræmi við eina af nokkrum athugasemdum, sem norski lagaprófessorinn Peter Örebech gerði 2018 við álitsgerð íslenzks lögfræðings, sem var hallur undir lögmæti og skaðleysi Orkupakka #3.  Þetta stafar af því, að hvorki á Íslandi né í Noregi hefur ríkið áskilið sér einkarétt á orkulindum.  Það er auðvitað meiriháttar mál og torsótt leið, að ríkið kaupi öll vatnsréttindi og jarðgufuréttindi á landinu.  Þá er nú ólíkt einfaldara að hafna Orkupakka #3.  Þar með verða ekki fleiri orkutilskipanir og orkureglugerðir ESB innleiddar hér, ef að líkum lætur, og er það ágætt. Hérlendis þyrfti að setja lög um orkulindir landsins með svipaðs eðlis og lögin um fiskveiðistjórnunina.  Þar er tekið fram, að fiskistofnarnir á Íslandsmiðum séu í sameign þjóðarinnar.  Á þeim grundvelli fer fiskveiðistjórnunin fram.  Hérlendis er nauðsynlegt að stunda orkulindastjórnun, og það er óábyrgt af stjórnvöldum að ljá máls á því, að Evrópusambandið fái að hlaupa í skarðið með "fjórfrelsið" sitt á sameiginlegum raforkumarkaði EES.  Þetta er sennilega stjórnarskrárbrot og stórskaðlegt fyrir atvinnulíf og þar með efnahagslíf landsins.  

Í sömu grein álitsgerðarinnar stendur þetta:

"Lagasetning sambandsins er síður en svo útilokuð, þótt hún kunni að hafa áhrif á eignarrétt eða stjórnunarrétt að auðlindum.  Þetta á sérstaklega við, ef heimild fyrir slíkri lagasetningu er að finna í frumrétti sambandsins.  Í slíkum tilvikum teljast aðildarríkin hafa samþykkt þær breytingar samkvæmt stjórnskipunarlögum sínum og þá e.t.v. þrengt gildissvið 345. gr. SSESB að sama skapi."

Það er alveg ljóst af ofangreindum tilvitnunum og fleirum í skýrslu lögspekinganna FÁFH og SMS, að með samþykkt Orkupakka #3 verður ekki aðeins yfirstjórn Landsnets og dreifiveitnanna undirorpin valdi Evrópusambandsins, heldur verður eignarréttur og stjórnunarréttur að orkulindunum í höndum Evrópusambandsins, ef svo er að skipta. Evrópusambandið mun hafa öll ráð Íslendinga í höndum sér á orkusviðinu, er fram líða stundir, ef Alþingi glepst nú á að afhenda Sambandinu þetta fjöregg þjóðarinnar.  Að búa við stjórnvöld, sem bregðast algerlega í vörzlu þjóðarhags, er þungbærara en svo, að kjósendur séu tilbúnir til fela slíkum ráð sitt á ný. Reiðin mun krauma fram að næstu kosningum. Þróunin í þessa átt er hafin samkvæmt nýrri skoðanakönnun.  Enn er ekki of seint að sjá að sér, en "point of no return" næst, ef/þegar þingmenn samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra.  

Þetta allt er utanríkisráðherrann að kalla yfir okkur með vanhugsaðri þingsályktunartillögu sinni, sem hann lætur í veðri vaka, að sé reist á annarri af tveimur tillögum tvímenninganna í álitsgerðinni.  Þetta er blekkingartilraun að hans hálfu.  Lögfræðingarnir minnast á þessa aðferð, en geta um, að hún sé "ekki gallalaus".  Í skýrslunni kemur víða fram, að hún er meingölluð, enda eru með henni framdir líklega þrír lögfræðilegir fingurbrjótar.  Hvaða heilvita manni dettur í hug, að tveir af fremstu lögfræðingum landsins á þessu sviði leggi slíkt örverpi til við utanríkisráðuneytið ?

Fingurbrjótur #1: 

Það er bannað í EES-samninginum, kafla 7, að innleiða gerðir ESB, sem samþykktar hafa verið af Sameiginlegu EES-nefndinni, í landsrétt með heimatilbúnum skilmálum.  Þannig má ekki skilyrða gildistöku gerðar #713/2009 við lagasetningu Alþingis um heimild til að leggja sæstreng til Íslands.

Fingurbrjótur #2:

Ef EFTA-dómstóllinn fær kæru á hendur íslenzka ríkinu vegna ólöglegrar innleiðingar Orkupakka #3 til dómsúrskurðar, má ganga að því sem vísu, að dómur hans verður kærandanum í vil.  Þá verður Alþingi að fella skilmálann úr gildi, og þar með sitjum við uppi með 713/2009 í landslögum, sem er stjórnarskrárbrot að mati FÁFH og SMS.

Fingurbrjótur #3:

Það er óheimilt í íslenzkum rétti að setja lög, sem eru brotleg við stjórnarskrá, þótt svo standi á, að þau eigi ekki við, þegar þau eru sett (enginn sæstrengur). Með þessum handabakavinnubrögðum gerir utanríkisráðherra sig sekan um tillögu, þótt hann þykist vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og fara að ráðleggingum FÁFH & SMS, um að brjóta stjórnarskrána.  Höfundar álitsgerðarinnar taka þó fram í skýrslu sinni, að þetta megi ekki, og þess vegna er þetta augljóslega ekki þeirra ráðlegging.  Það verður að leysa stjórnarskrárvandann áður en Orkupakki #3 verður innleiddur.  

Lausn þessa stjórnarskrárvanda felst þó ekki í að breyta Stjórnarskránni til að gera erlendum fyrirtækjum hægt um vik að klófesta auðlindir Íslands til lands og sjávar.  Hvað eru stjórnarliðar að bauka í þessum efnum ?  

 


Enn er líf í ACER umræðunni í Noregi

Haustið 2018 höfðuðu samtökin "Nei til EU", sem eru systursamtök Heimssýnar í Noregi, mál gegn Ernu Solberg, forsætisráðherra, fyrir málsmeðferð Stórþingsins, að undirlagi ríkisstjórnarinnar, á atkvæðagreiðslu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  

Stjórnarskrá Noregs kveður á um, að við valdframsal ríkisins til erlendra stofnana án aðildar Noregs, þar sem milliríkjasamningurinn, sem í hlut á, getur ekki talizt vera þjóðréttarlegs eðlis, eins og aðild að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðabankanum eða NATO, svo að dæmi séu tekin, skuli 3/4 af mættum þingmönnum, sem ekki mega vera færri en 2/3 allra kjörinna þingmanna, þurfa að fallast á framsalið, svo að það hljóti samþykki.  

Það er hins vegar einfaldur meirihluti þingsins sjálfs, sem sker úr um eðli málsins og þar með, hvort viðhafa skuli regluna um aukinn meirihluta. Þetta má kalla veikleika við annars ágætt ákvæði, sem nú hefur leitt til málaferla. 

Dómsmálaráðherrann sendi þinginu í fyrravetur álitsgerð, þar sem ekki var talin vera þörf á auknum meirihluta til að samþykkja Þriðja orkupakka ESB, af því að hann væri "lite inngripende", þ.e. hefði lítil áhrif á þjóðlífið.  Þar stendur þó hnífurinn í kúnni.  "Nei til EU" nýtur sérfræðilegs stuðnings fjölda  norskra lagaprófessora í því, að málið hafi svo víðtæk áhrif á stjórnsýslu Noregs og heimili Landsreglara að hlutast til um gjaldskrár Statnetts og dreifiveitnanna og að heimta alls konar orkutengdar upplýsingar af fyrirtækjum að viðlögðum sektum, að áskilja hefði átt aukinn meirihluta við atkvæðagreiðslu Stórþingsins um málið samkvæmt Stjórnarskránni.  Þá kynni málið að hafa fallið á Stórþinginu, því að innan við 2/3 mættra þingmanna greiddu því atkvæði sitt, en það hlaut að vísu yfir 3/4 greiddra atkvæða.

Ríkislögmaðurinn krefst frávísunar stefnunnar á þeim grundvelli, að verið sé að flytja pólitískan ágreining inn í réttarsal, en "Nei til EU" lítur á það sem lýðræðislegan rétt sinn að fá úr því skorið af dómstóli, hvort Stjórnarskráin hafi verið brotin.  Dómsúrskurðar er að vænta nú í apríl/maí um frávísunarkröfu ríkislögmanns.  Haldi málið áfram fyrir dómi, má vænta dóms í Þingréttinum (fyrsta dómstig) síðla árs 2019.  Málið mun varla fara fyrir Lagmannsretten, heldur beint fyrir Hæstarétt, sem líklega kveður þó ekki upp dóm fyrr en á síðasta ársfjórðungi 2020.  Það er fullkomlega óeðlilegt, að Alþingi taki Þriðja orkupakkann til formlegrar afgreiðslu fyrr en lyktir fást í þessu dómsmáli.

Vinni "Nei til EU" málið (fyrir Hæstarétti), mun Stórþingið verða að fjalla um það að nýju.  Þá verður uppi ný staða í norskri pólitík.  Það var Verkamannaflokkurinn, sem fyrir ári réði úrslitum um afdrif þessa máls.  Á meðal þingmanna hans var talsverð óánægja með Orkupakka #3, og hún er enn meiri nú, en Landsstjórn flokksins samþykkti fyrirmæli til þingflokksins um að greiða sem blokk atkvæði með pakkanum.  Þar réð gamalkunnug hollusta flokksins við ESB.

Slíkt mun ekki endurtaka sig, komi Orkupakkinn aftur til kasta þingsins.  Ástæðan er sú, að í millitíðinni er norska Alþýðusambandið búið að taka afstöðu gegn innleiðingu Orkupakka #3 í EES-samninginn og norska löggjöf, og norski Verkamannaflokkurinn hefur líklega aldrei gengið í berhögg við verkalýðshreyfinguna í grundvallar hagsmunamáli, eins og hér um ræðir. Á Stórþinginu mun málið að líkindum falla við endurupptöku, aðallega vegna sinnaskipta Verkamannaflokksins.

Hver eru rök norsku verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli ?  Þau eru, að atvinnuöryggi margra verkamanna, iðnaðarmanna og tæknimanna og heilu sveitarfélaganna á landsbyggðinni, er stór hætta búin, ef stefnumörkun í orkumálum Noregs flyzt til ESB.  Þetta eru ekki getgátur verkalýðsforingja, heldur hefur norska verkalýðsforystan látið sérfræðinga áhættugreina stöðuna fyrir sig, og þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að norskur útflutningsiðnaður muni í miklum mæli gefast upp á samkeppninni, ef raforkuverðið hækkar uppundir það, sem gengur og gerist á Bretlandi og í iðnaðarmiðju meginlands Evrópu. Að sjálfsögðu yrði slík staða alvarleg ógnun við atvinnuöryggi og kjör skjólstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, og þess vegna er þessi pólitíska afstaða norska Alþýðusambandsins mikilvægur þáttur í varnarbaráttu þess fyrir áframhaldandi góðum lífskjörum verkafólks í Noregi.  

Hvers vegna ætti gildistaka Þriðja orkupakkans í Noregi að grafa undan samkeppnishæfni Noregs ?  Hún hefur verið reist á tiltölulega lágu raforkuverði, sem hefur verið jákvætt mótvægi við hærri flutningskostnað og starfsmannakostnað norsku verksmiðjanna en samkeppnisaðila á Bretlandi eða niðri í Evrópu.  Það hefur sýnt sig, að með hverjum nýjum aflsæstreng hefur raforkuverð í Noregi dregið meira dám af raforkuverðinu við hinn enda sæstrengsins.  Því stjórna markaðslögmálin.  Því meiri flutningsgeta millilandatenginga, þeim mun meir mun innanlandsverði raforku svipa til verðsins erlendis, sem tengingarnar ná til. 

Í Noregi nemur útflutningur raforku nú um 10 % af almennri raforkunotkun innanlands. Norska verkalýðshreyfingin óttast, og ekki að ástæðulausu, að útflutningur raforku muni vaxa enn frekar, þegar hann verður ekki lengur á forsendum Norðmanna sjálfra, heldur stjórnað af markaðnum, Landsreglara Noregs og reglum ACER.  Þetta muni ekki sízt koma niður á orkukræfum iðnaði Noregs, sem myndar  samfélagslegt hryggjarstykki í mörgum dreifðum byggðum Noregs.

Þar að auki horfir norska verkalýðshreyfingin nú á straum tilskipana og gerða frá ESB, sem hún telur réttindum og kjörum norsks verkafólks stafa hætta af.  Nefna má Járnbrautarpakka #4, gerð um millilandaflutninga, og nýja vinnumálalöggjöf ESB auk gerðar, sem skyldar stjórnvöld, einnig sveitarstjórnir, til að tilkynna Framkvæmdastjórninni um allar væntanlegar ákvarðanir varðandi þjónustutilskipun ESB. 

Búizt er við, að EES-aðild Noregs verði til umfjöllunar á næsta þingi Alþýðusambandsins 2021 og að m.v. núverandi þróun mála kunni uppsögn EES-samningsins að verða samþykkt þar.  Þetta mun vafalaust lita mjög kosningabaráttuna fyrir þingkosningarnar 2021 í Noregi.  Þessi atburðarás eykur líkur á, að Stórþingið muni fella Orkupakka #3 árið 2021.  Það er óþarfi fyrir Íslendinga að trufla þessa norsku atburðarás með því að taka orkupakkann til afgreiðslu fyrir þennan tíma.  

Það er enn meiri ástæða til að óttast rafmagnsverðhækkanir hérlendis en í Noregi af völdum aflsæstrengs, því að á Íslandi mun flutningsgeta fyrsta sæstrengsins verða tvöföld almenna raforkunotkunin.  Verðhækkunin innanlands mun þess vegna verða enn meiri en í Noregi, og heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis mun verða svipað og verðið, sem orkuseljendur hér fá fyrir orkuna inn á strenginnn.  ESB sjálft gerir ráð fyrir sáralitlum raforkuverðmun á milli landa eða 0,25 EUR/MWh (=0,034 ISK/kWh), þegar flutningsgeta millilandatenginga nær 30 % af uppsettu afli innan sambandsins.

Af aflsæstreng mun einvörðungu hljótast þjóðhagslegt tap, því að norski hagfræðingurinn Anders Skonhoft hefur sýnt fram á, að allur aukinn gróði innlendra orkuseljenda af útflutningi raforku stafar af hærra orkuverði innanlands vegna nýrrar utanlandstengingar, en gróðinn af útflutninginum sjálfum, þ.e. orkuviðskiptunum við útlönd, fer allur til sæstrengseigandans. 

Þau, sem  vilja innleiða hér erlenda löggjöf, sem er sniðin til að greiða fyrir millilandatengingum orku og til að stjórna orkuflæðinu, ekki sízt úr endurnýjanlegum orkulindum, eru að leggja drögin að svikamyllu, sem beint er að landsmönnum öllum.  Í flestum tilvikum ræður fávísi för og í mörgum tilvikum trúin á, að það, sem er gott fyrir ESB, sé líka gott fyrir Ísland.  Það er hins vegar herjans mikill misskilningur, og í raun einfeldningsháttur, eins og iðulega hefur verið fjallað um á þessu vefsetri.

Það er sem sagt engan veginn hægt að ganga út frá því sem vísu, að ný umfjöllun um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB á Stórþinginu muni leiða til afgreiðslu, þar sem fylgjendur fái 3/4 greiddra atkvæða.   Af þessum sökum er í raun ótímabært fyrir ríkisstjórn Íslands að hefja viðræður á vegum EFTA við ESB um undanþágur frá þessum ólánslagabálki fyrir Ísland, eins og Miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti í vetur.  Hvernig í ósköpunum stendur á því, að ríkisstjórnin tekur ekki þennan pól í hæðina og lýsir yfir frestun málsins, þar til lyktir fást í dómsmál "Nei til EU" gegn Ernu Solberg ? Í staðinn móast ráðherrarnir tveir við, sem aðllega véla um þetta mál, staddir úti á túni.

Í dag, 21.03.2019, kl. 1730, mun Morten Harper, sérfræðingur hjá "Nei til EU" í Noregi, flytja fyrirlestur um EES og Orkupakka #3 á Háskólatorgi HÍ, sal 105.  Verður áhugavert að kynnast viðhorfi hans til þessara mála og mati á þróun sambands EFTA-ríkjanna við ESB.      

 

 

 


BREXIT og kunnuglegt bitbein

BREXIT-ferlið hefur tekið dapurlega stefnu, þar sem nú er útlit fyrir óreiðukennda útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ESB. Hún kann þó að verða Bretum skárri kostur en hálfvelgjulegur viðskilnaður, þegar upp verður staðið. Bretar hafa átt í höggi við forystu ESB, sem er í vörn og óttast um framtíð sambandsins og vill gjarna, að útganga Stóra-Bretlands verði öðrum innanborðs víti til varnaðar. Hvort forystan sér að sér og hægir ótilneydd á samrunaferlinu, er þó alls óvíst.  Vitað er, að þjóðir, sem lengi hafa skipt mikið við Breta og hafa fylgt þeim að málum innan ESB, t.d. Danir, Svíar og jafnvel Hollendingar, gætu séð sér hag í að fylgja Bretum, ef Bretum mun vegna vel utan við ESB.

Ekki þarf að orðlengja vanda Ítala.  Skuldir ríkissjóðs Ítalíu nema yfir 130 % af VLF, og Ítalir hafa flotið á lágum vöxtum hingað til, því að hagkerfið hefur ekkert vaxið í áratug.  Nú hækkar skuldatryggingarálagið ört á Ítölum; eru vextirnir, sem ítalska ríkið greiðir, nú um 4 % hærri en þeir, sem þýzka ríkið greiðir.  Með sama áframhaldi mun ítalska ríkið lenda í greiðsluþroti (við 7 % álag) síðar á þessu ári.  Þá hrynur evran, og þá mun hrikta í innviðum Evrópusambandsins.

Pólitísk sameining Evrópu gengur ekki upp, og hún er í raun algerlega óþörf frá praktísku sjónarmiði.  Skynsamlegra hefði verið að halda sig við hugmyndir Breta um samstarf á viðskiptasviðinu, sem einskorðist við tollabandalag og staðlasamræmingu á öllum sviðum.

Eitt þeirra sviða, sem pólitískir hugsuðir ESB töldu nauðsynlegt að fella undir yfirstjórn ESB, var orkusviðið.  Þar hafði um áratugaskeið ríkt valfrjálst samstarf á milli grannþjóða um orkuviðskipti yfir landamæri, ekki sízt með raforku.  Norðurlandaþjóðirnar stofnuðu til slíks samstarfs innan NORDEL einna fyrstar í Evrópu, og buðu Íslendingum að fylgjast með því samstarfi.

Á Evrópugrundvelli starfaði félagsskapur raforkuflutningsfyrirtækja, ENTSO-E, og er Landsnet aðili þar, en þegar ESB ákveður að taka stjórn þessa málaflokks í sínar hendur með útgáfu Fyrsta orkumarkaðslagabálksins 1996, breyttist samstarf Evrópuþjóða frá valfrjálsri tæknilegri samvinnu yfir í þvingað, miðstýrt samstarf, sem lýtur pólitískri stefnumörkun æðstu stjórnar Evrópusambandsins.  Þá hættir málið að vera áhugavert fyrir eyþjóð, lengst norður í Atlantshafi, þótt það kunni að þjóna hagsmunum þjóða í miðri Evrópu.

17 milljón kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Bretlandi í júní 2016 voru þeirrar hyggju, að ókostir ESB-aðildar Bretlands væru meiri en kostirnir, og mörgum þóttu ókostirnar fara vaxandi með aukinni miðstýringu, eftir því sem samrunaferlinu til sambandsríkis Evrópu vatt fram. Steininn tók úr 2009 eftir innleiðingu stjórnarskrárígildis ESB, Lissabon-samningsins.  Það var löngum vitað, að slík þróun var Bretum ekki að skapi, hvorki verkalýðsstétt Bretlands né húsráðendum í Whitehall, sem löngum hafa í utanríkismálum haft að leiðarljósi orðtak Rómverja,  "divide et impera", að deila og drottna í Evrópu. 

Það er reyndar sáralítið fylgi á meginlandinu við hugmyndina um sambandsríki.  Ferlið er rekið áfram af búrókrötum í Brüssel á grundvelli stjórnarskrárígildisins, Lissabonsáttmálans. Fjármálamógúlar Evrópu hafa barið bumburnar.  Mikillar og vaxandi óánægju gætir á meginlandinu með það, hvernig forréttindastéttin rekur trippin.  Franska þjóðfylkingin, (Norður) bandalagið á Ítalíu, Alternative für Deutschland og Svíþjóðardemókratarnir eru skýr dæmi um þetta.

Í BREXIT-viðræðunum tókst ekki að ná samkomulagi um fiskveiðistjórnun innan brezku lögsögunnar.  Það er eftirtektarvert fyrir Íslendinga, að samninganefnd ESB krafðist áframhaldandi fiskveiðiréttinda fyrir togaraflota ESB-landanna innan brezku lögsögunnar upp að 12 sjómílnum, brezkum sjómönnum til mikillar gremju og tjóns fyrir þá og útgerðirnar. 

Þetta ber vott um óbilgirni að hálfu Barnier & Co. í ljósi þess, að fiskveiðar nema aðeins um 0,1 % af VLF ESB-landanna.  Jafnvel í útgerðarhéruðum ESB, skozku hálöndunum og eyjunum, Galicíu á Spáni og grísku eyjunum á Jónahafi, er hlutdeild sjávarútvegs litlu meiri en 2 % af viðkomandi hagkerfum.  Sjávarútvegurinn hefur hins vegar mun meiri pólitísk áhrif en fjárhagslegi styrkurinn gefur til kynna, og kann það að hvíla á mikilvægi greinarinnar til fæðuöflunar fyrir Evrópu, og að mikil innflutningsþörf er á fiski til flestra ESB-landanna.

Hagsmunir brezks sjávarútvegs höfðu töluverð áhrif á úrslit BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, þótt sömu viðhorf endurspeglist ekki í afstöðu meirihluta þjóðþingsins.  Brezkir sjómenn kröfðust brottvikningar erlendra togara úr brezkri lögsögu, þar sem þeir veiða 8 sinnum meira en Bretar í erlendri lögsögu.  Lausn ágreiningsins var frestað til sumars 2020, en aðlögunartíma útgöngunnar á að ljúka þá um haustið.  Þessu reiddust báðar brezku fylkingarnar, og um 20. nóvember 2018 skrifuðu Íhaldsþingmenn frá Skotlandi (Skotland kaus með veru í ESB) Theresu May, forsætisráðherra, þar sem þeir lýstu sig andvíga hvers konar samkomulagi, sem gengi skemur en að ná fullum yfirráðarétti yfir brezkri lögsögu ("full sovereignty over our waters").

Það verður þó á brattann að sækja, því að ríkisstjórnir strandríkja innan ESB, þ.á.m.  Frakklands, Belgíu og Portúgals, heimta tryggingu fyrir áframhaldandi aðgangi togara sinna landa.  Frakkar hafa gengið lengst í yfirganginum og heimta, að slík trygging verði skilyrði fyrir útgöngusamningi. Allt þetta þref er sett á svið vegna um 6000 sjómannsstarfa á meginlandinu og geira í brezka hagkerfinu, sem skapar svipuð verðmæti og skógarhögg eða framleiðsla á leðurvörum.

Þessi deila hefur áhrif á hagsmuni Íslendinga.  Verði gengið að kröfum ESB, mun brezkum fiskimiðum og brezkum sjávarútvegi enn hrörna.  Eins dauði er annars brauð.  Þetta mun skapa öðrum fiskveiðiþjóðum, Íslendingum, Norðmönnum, Rússum og Kínverjum, ný viðskiptatækifæri á Bretlandi.  Hafi Bretar sitt fram, sem verður að vona þeirra vegna, gæti útflutningsmarkaður þeirra fyrir fisk á meginlandinu lokazt um sinn, en um 2/3 aflans fara þangað.  Þessi fiskur mun þá fara á innanlandsmarkaðinn í Bretlandi, sem herða mun samkeppnina á fiskmörkuðum þar til muna.  Jafnframt lokast þá sú leið Íslendinga að landa í Grimsby og Hull og flytja fiskinn á teinum undir Ermarsundið til Frakklands og víðar.  Í staðinn munu beinir flutningar frá Íslandi með fisk í lofti og á sjó inn til meginlands Evrópu aukast, því að þörfin þar fyrir "villtan" fisk og eldisfisk eykst stöðugt.   

 

 

 

 


Talsmenn Orkupakka #3 hér og þar

Einn er sá hagsmunahópur í Noregi og á Íslandi, sem heldur uppi áróðri fyrir innleiðingu EFTA-landanna í EES á Orkupakka #3 á mjög svipuðum nótum í báðum löndunum, en það er orkugeirinn sjálfur eða hluti af honum. Hérlendis hefur t.d. mátt greina hliðholla afstöðu til orkupakkans hjá aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Rögnu Árnadóttur, sem heldur því jafnan fram, að áhrif innleiðingar verði lítil hérlendis, og hjá forstjóra Landsnets, Guðmundi Inga Ásmundssyni, sem mærði frjálsa samkeppni með raforku í orkukauphöll í Fréttablaðinu, 26. janúar 2019, en það er einmitt fyrirkomulag í anda Þriðja orkupakka ESB.

Norska orkugeiranum er mikið í muna, að Þriðji orkupakki ESB öðlist lagagildi í Noregi, en það gerir hann ekki, nema Alþingi staðfesti hann, þótt hann muni hafa miklu alvarlegri áhrif á Íslandi en í Noregi, þar sem Norðmenn eru nú þegar með orkukauphöll í anda ESB og fjölda millilandatenginga, bæði í lofti og í sjó. Þann 17. janúar 2019 birti Energi Norge, sem eru samtök raforkufyrirtækja í Noregi í vinnslu, flutningum og dreifingu, greinargerð, sem þau hafa líklega keypt af norska lagaprófessornum Henrik Björnebye.  Hér verða rýndar 6 fullyrðingar þessa prófessors við lagadeild Óslóarháskóla:

  1. "EES-löndin halda fullum umráðarétti yfir náttúruauðlindum sínum-alveg eins og öll aðildarlönd ESB.  Grein 125 í EES-samninginum tryggir EFTA-löndunum möguleikann á opinberu eignarhaldi á náttúruauðlindum, eins og viðgengst í Noregi með vatnsaflið."----Hér er tvennt að athuga fyrir Ísland.  Frumorkan er eignaréttarlega samtvinnuð virkjuninni.  Sá, sem kaupir vatnsréttindi eða jarðgufuréttindi fyrir virkjun sína, eignast ráðstöfunarrétt yfir viðkomandi orkulindum.  Í ESB er algengast, að eldsneytismarkaðirnir sjái fyrir útvegun frumorkunnar, svo að orkumarkaðslíkan ESB er sniðið við allt aðrar aðstæður en hér.  Í annan stað er ekki þjóðareign á orkulindum á Íslandi, svo að það er ekkert gagn að gr. EES 125 á Íslandi til að verjast erlendri ásælni í orkulindirnar. Hið sama gildir í raun í Noregi.  Þar hafa þýzkir fjárfestingarsjóðir nýlega keypt fjölda smávirkjana vatnsafls í rekstri og byggingu.  Þessar virkjanir hafa vart borið sig til þessa, svo að Þjóðverjarnir veðja augljóslega á mjög hækkandi raforkuverð í Noregi, eins og birtingarmynd hefur sézt af í vetur.  Útlendingar hafa líka reist vindorkugarða í Noregi, m.a. á hálendinu, sem eru Norðmönnum mikill þyrnir í augum.  Augljóslega er þessi þróun mála hagsmunum almennings andstæð, þótt ríkisfyrirtækið Statkraft framleiði þriðjung norskrar raforku.   
  2. "EES-löndin ráða sjálf ákvörðunum um aflsæstrengi eða ekki - alveg eins öll ESB-aðildarlöndin." ---- Hér er Landsreglarinn greinilega talinn með til stjórnsýslu landanna, þótt líkja megi honum við Trójuhest ESB innan stjórnsýslu hvers lands.  Sérstaklega á það auðvitað við um EFTA-löndin.  Landsreglarinn á að fylgja því eftir í hverju landi, að Kerfisáætlun Landsnets hvers lands búi í haginn fyrir verkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB um samtengingar orkukerfanna.  Um þetta er getið í ESB-gerð 347/2013, og hún verður áreiðanlega innleidd í kjölfar Orkupakka #3. Ef sæstrengur til Íslands er í Kerfisþróunaráætlun ESB, sbr Icelink, og framkvæmdaaðili sækir um leyfi til að leggja hann, þá varðar höfnun Orkustofnunar eða bann Alþingis einfaldlega broti á EES-samninginum og Evrópurétti eftir innleiðingu Orkupakka #3.  Slíkur ágreiningur lendir endanlega fyrir ESB-dómstólinum í tilviki ESB-landa og fyrir EFTA-dómstólinum í tilviki EFTA-landa.  Þetta er óvéfengjanlegt.  Björnebye reynir að breiða yfir þessa grafalvarlegu staðreynd með óljósu orðalagi.
  3. "EES-löndin ákveða sjálf, hvaða innlenda stjórnvald á að bera ábyrgð á að meta og samþykkja ný sæstrengsverkefni eða hafna þeim. Í Noregi er þetta vald hjá Olíu- og orkuráðuneytinu. ACER getur ekki haft áhrif á þetta." ---- Hér er aðeins hálf sagan sögð hjá Björnebye.  Landreglarinn fylgist auðvitað náið með afgreiðslu umsóknar um aflsæstrengsleyfi, eins og honum ber að gera, þar sem Kerfisþróunaráætlun ESB á í hlut.  Hans fyrsta verk eftir höfnun Orkustofnunar/iðnaðarráðuneytis á slíkri umsókn verður að tilkynna hana til ACER, sem tekur þá ákvörðun um framhaldið í samráði við framkvæmdastjórn ESB.  Það liggur beint við að kæra höfnun til ESA sem brot á skuldbindingum Íslands.  Lagasetning Alþingis hefur engin úrslitaáhrif í þessu sambandi, þar sem innlend löggjöf víkur fyrir Evrópurétti samkvæmt EES-samninginum.  
  4. "Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn er reistur á grundvallaratriðum, sem þegar hafa verið innleidd og hafa tekið gildi samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálkinum. Það er sem sagt ekki um að ræða að fara inn á innri orkumarkað ESB, heldur fremur að halda áfram og þróa núverandi tengingu okkar við þennan markað." ---- Það eru ýmsar leiðir færar til að hrekja þessa staðhæfingu.  T.d. hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech sýnt fram á, að með samþykkt Orkupakka #3 tekur Evrópurétturinn gildi fyrir millilandaorkutengingar landanna, en hann er ekki við lýði nú fyrir millilandatengingar Noregs, eins og ljóst má vera af rekstri kerfisins og umræðunni í Noregi.  Þetta jafngildir grundvallarbreytingu á réttarstöðu EFTA-landanna á þessu sviði.  Að öðru leyti er mest sannfærandi í þessu sambandi að vitna í Morgunblaðsgrein Elíasar B. Elíassonar frá 25. janúar 2019:"Að misskilja "rétt"": "Ráðuneytið virðist ekki skynja breytinguna frá stefnu framkvæmdastjórnar ESB í tilskipuninni, sem innleidd var hér með orkulögunum 2003 til þeirrar stefnu, sem boðuð er með þriðja orkupakkanum.  Þar er horfið frá því að láta hvert ríki um að aðlagast stefnu innri markaðarins eftir aðstæðum og hagsmunum hvers og eins, en í stað þess skal veita framkvæmdastjórninni síaukið vald til miðstýringar.  Þetta er grundvallarbreyting.                                        Þegar orkulögin voru samþykkt 2003, voru rafmarkaðir með allt öðru sniði en nú.  Samkvæmt þeim lögum virtist vera svigrúm til að koma á frjálsum uppboðsmarkaði með formi, sem gæti gengið upp hér, en svo er ekki lengur.  Með þriðja orkupakkanum kemur landsreglari í öllum ríkjum ESB, sem hvarvetna gegnir því hlutverki að vera reglusetningararmur ACER.  Ein meginskylda hans hér verður að vinna að uppsetningu á frjálsum markaði með sömu reglum og formi og nú er á rafmörkuðum ESB, en þeim mörkuðum er lýst í grein undirritaðs, "Rafmagn til heimila og útflutnings á markaði", á heimasíðu HHÍ, hhi.hi.is/vinnupappirar.  Með fyrirkomulagi núverandi rafmarkaða Evrópu eru markaðslögmál virkjuð í þágu notenda ESB, en ekki okkar.  Niðurstaða greinarinnar er, að vegna sérstöðu íslenzka orkukerfisins þá virkjast þessi sömu markaðslögmál ekki í þágu íslenzkra notenda með sama fyrirkomulagi.  Innleiðing þess hér yrði skaðleg.  Þetta fyrirkomulag verður samt innleitt hér, ef þriðji orkupakkinn hlýtur samþykki."  Þessu vandamáli Íslendinga skautar Henrik Björnebye, hinn norski lögmaður, léttilega framhjá, því að hann er að skrifa fyrir norska hagsmunaaðila í raforkugeiranum, sem eiga þeirra hagsmuna að gæta, að verðið haldist sem hæst á norskum raforkumarkaði, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn tryggir þá hagsmuni í Noregi og á Íslandi með innleiðingu Evrópuréttar á sviði milliríkjaviðskipta með orku.  Til að sýna enn betur, hversu forkastanlegt ráðslag það er hjá íslenzkum orkuyfirvöldum að berjast fyrir innleiðingu löggjafar, sem sýnt hefur verið fram á, að er hag almennings á Íslandi stórskaðleg, skal halda áfram að vitna í téða grein Elíasar:  "Landsreglarinn mun taka yfir alla stjórn raforkumála frá ráðuneytinu, en staða hans er sett upp, svo [að] framkvæmdastjórn ESB hafi auðvelda leið til miðstýringar á öllu, er varðar viðskipti með rafmagn á innri markaðinum.  Hér mun sú miðstýring einnig ná yfir auðlindavinnsluna vegna þess, hve nátengd hún er raforkuvinnslu."  Þessar upplýsingar svara líka ágætlega klisjunni, sem fram kemur í lið 1 hér að ofan hjá Björnebye og algeng er hérlendis, að Orkubálkur #3 snerti ekki við auðlindastýringunni.  Hann mundi vissulega gera það á Íslandi.
  5.  "Nýjar reglur, reistar á Evrópuréttinum, s.s. netmálar og vinnureglur samkvæmt Orkupakka #3 ásamt nýlega samþykktum "Vetrarpakka" (Clean Energy for all Europeans) verða lagðar fram sem sjálfstæð mál til afgreiðslu hjá EES-löndum [EFTA] og ESB [væntanlega á Björnebye við Sameiginlegu EES-nefndina - innsk. BJo].  Þannig er ferlið fyrir allar nýjar ESB/EES-reglur." ---- Það er enginn ágreiningur um þetta, svo að eitthvað hafa boðin frá Íslandi til Energi Norge skolazt til.  Því, sem hins vegar hefur verið haldið fram hér, er, að allar orkutengdar reglur, sem ESB hugsar sem viðbót við Orkupakka #3, t.d. gerð nr 347/2013, munu áreiðanlega verða samþykktar í Sameiginlegu EES-nefndinni og væntanlega staðfestar á þjóðþingunum, því að það væri með öllu órökrétt að samþykkja Orkupakka #3, en hafna því, sem við hann á að éta.  Það gengur ekki upp.
  6.   "Þótt Ísland muni ekki samþykkja Orkupakka #3, munu samt áfram  verða í gildi ákvæði aðalsamnings EES um frjálst flæði vara, þjónustu, fjármagns og fólks ásamt regluverkinu um ríkisstuðning og sameiginlegar samkeppnisreglur." ---- Með þessu er Henrik Björnebye, lögmaður, að segja, að þrátt fyrir höfnun Alþingis á Orkupakka #3, verður samt "business as usual" innan EES.  Það er í samræmi við málflutning andstæðinga innleiðingar Orkupakka #3 á Íslandi.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband