Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
11.1.2019 | 14:51
Að stinga hausnum í EES-sandinn
Það er háttur margra að bera á borð annaðhvort lofgerðarrullu um kosti EES-samstarfsins eða að lýsa göllunum fjálglega. Þessi aðferðarfræði er haldlaus á 25 ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið-EES, því að þar er um æ flóknara fyrirbæri að ræða. Þá eru ekki margir hérlendis, sem hafa lagt sig eftir valkostum Íslendinga við EES-samninginn, sem þó er nauðsynlegt innlegg í umræðuna um veginn framundan í ljósi stöðunnar í Evrópu og reynslunnar af EES-samstarfinu. Þetta mat verður ekki inntak þessa pistils, heldur skal hér þrengja umræðuefnið til að spanna einn anga EES-samstarfsins, Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.
Tilefnið er greinarstúfur á Sjónarhóli Morgunblaðsins 3. janúar 2019 eftir Ara Guðjónsson, lögmann og yfirlögfræðing Icelandair Group, sem hann nefnir:
"EES-samstarfið í uppnámi".
Það olli vonbrigðum við lestur greinarinnar, hversu þröngt sjónarhornið er og takmarkaður eða alls enginn rökstuðningur í greininni færður fyrir skoðun lögmannsins. Honum þykir málflutningur andstæðinga innleiðingar Þriðja orkupakka ESB digurbarkalegur, en þeir hafa þó uppi góða tilburði, margir hverjir, til að rökstyðja sín sjónarmið.
Einkennandi fyrir málflutning skoðanasystkina Ara Guðjónssonar um þetta mál eru fullyrðingar um umdeilanleg lögfræðileg atriði, eins og lögmæti fullveldisframsals m.v. íslenzku Stjórnarskrána og áhrif innleiðing Evrópugerðar eða tilskipunar á gildandi réttarfar hér á landi. Þá ber mikið á sleggjudómum um viðbrögð samstarfsaðila Íslendinga í EES við höfnun Alþingis á "pakkanum", þótt EES-samningurinn sjálfur fjalli um leyfileg viðbrögð við synjun þjóðþings. Verður nú vitnað í téða Sjónarhólsgrein, sem hófst þannig:
"Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins í tengslum við fyrirhugaða innleiðingu Íslands á þeirri löggjöf. Andstæðingar þessarar nýju löggjafar hafa verið heldur digurbarkalegir í umræðunni og hafa haldið því fram, að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og hafa jafnvel kallað eftir því, að Ísland gangi út úr samstarfinu. Þrátt fyrir að öll umræða um þessi málefni sé góðra gjalda verð, standast þær fullyrðingar, sem fram hafa komið frá helztu andstæðingum þriðja orkupakkaans enga lögfræðilega skoðun."
Á Evrópuréttarfræðinginum Stefáni Má Stefánssyni, fyrrverandi lagaprófessor, er að skilja, að með Orkupakka #3 verði gengið lengra í framsali fullveldis en samrýmist Stjórnarskránni, enda verði að taka tillit til uppsafnaðs framsals ríkisvalds til ESB. Það eru þess vegna uppi mjög miklar lögfræðilegar vangaveltur hérlendis, sem og í Noregi, um þetta atriði. Ari Guðjónsson hefur ekkert í höndunum til að sópa áhyggjum af þessu atriði út af borðinu. Þær eiga sér traustan, lögfræðilegan grundvöll.
Lögfræðileg umræða um framsal fullveldis þarfnast jarðtengingar til skýsringar. Það nægir hér að benda á eitt efnisatriði í þessu sambandi, en það er stofnun embættis Landsreglara, eða, sem væri enn þá verra, að breyta embætti Orkumálastjóra í Landsreglara, sem verður að Evrópurétti, sem á þessu sviði verður æðri íslenzkum lögum við innleiðinguna, algerlega óháður íslenzkum yfirvöldum, löggjafarvaldi og hagsmunaaðilum. Þetta embætti getur orðið íslenzkum lögaðilum og einstaklingum íþyngjandi með sektargreiðslum, fyrirmæli til embættisins eru samin hjá ACER-Orkustofnun ESB, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem er umsaminn milliliður, hefur enga heimild til að ógna einsleitni regluverks á milli landa EES með því að breyta fyrirmælunum eða hundsa þau til EFTA-landanna.
Landsreglarinn verður eftirlitsaðili með flutningsfyrirtækinu Landsneti og dreifiveitunum, semur reglugerðir þeim til handa og staðfestir verðskrár þeirra eða hafnar þeim. Hann getur farið fram á víðtæka upplýsingagjöf frá fyrirtækjum á íslenzka raforkumarkaðinum að viðlögðum fjársektum, ef ekki er orðið við þeim beiðnum.
Landsreglarinn mun hafa eftirlit með því, að íslenzki raforkumarkaðurinn starfi, eins og ACER bezt telur henta kaupendum á markaðinum, en svo illa vill til, að kjörfyrirkomulag ACER er frjáls samkeppni í orkukauphöll, sem engan veginn tryggir hag orkukaupenda, þar sem orkukerfið er samsett á þann einstæða hátt, sem hérlendis er raunin. Það getur hins vegar virkað ágætlega við aðstæður, sem það er hannað fyrir (eldsneytiskerfi, margir birgjar).
Þarna er vikið að innihaldi valdframsals yfir orkumálum til yfirþjóðlegs valds, þar sem við ekki höfum atkvæðisrétt. Það getur blessazt, en það eru mun meiri líkur á, að ákvarðanataka á grundvelli sameiginlegra hagsmuna ESB/EES gagnist illa íslenzkum hagsmunum á þessu sviði, þar sem aðstæður eru gjörólíkar. Þar af leiðandi á Alþingi að láta það ógert að taka slíka áhættu. Stjórnarskráin vísar rétta leið. Framsal ríkisvalds til útlanda er ávísun á verri stjórnarhætti, sem geta orðið landsmönnum dýrkeyptir. Þetta veit almenningur, enda er sagan ólygnust.
Ari Guðjónsson kýs að gera minni háttar atriði við Orkupakka #3 að aðalatriðum greinar sinnar, og þannig kemst hann aldrei að kjarna málsins, sem er stefnumörkun um málefni íslenzka raforkumarkaðarins út frá hugmyndafræði ESB, sem kallar á árekstra við hagsmuni almennings á Íslandi.
Hann gerir mikið úr, að íslenzkum yfirvöldum hafi tekizt að fá undanþágu frá skýrum reglum Orkupakka #2 og #3 um, að flutningsfyrirtækið, hér Landsnet, skuli vera óháð öðrum aðilum á orkumarkaði. Þessa undanþágu telur hann kost, en hún er alvarlegur ókostur, því að Landsnet, RARIK, OR og OV eiga Landsnet. Þar með er auðvelt að gera því skóna, að Landsnet mismuni aðilum á markaði, t.d. nýjum vindorkufyrirtækjum, sem gjaldi fyrir áhrifastöðu LV, RARIK, OR eða OV í stjórn LN.
Með miklum tilkostnaði var lítill raforkumarkaður Íslands brotinn upp í vinnslu, flutning, dreifingu og sölu, að fyrirmælum ESB, til að tryggja frjálsa samkeppni, en skrefið hefur aldrei verið stigið til fulls til að formlegum reglum um frjálsa samkeppni sé þó fullnægt. Ari Guðjónsson er hróðugur yfir þessum óskapnaði og skrifar:
"Að þessu leyti mun þriðji orkupakkinn því engin áhrif hafa á gildandi réttarumhverfi hér á landi, og er þar með búið að tryggja, að ekki þurfi að gera breytingar þar á vegna innleiðingarinnar [á Orkupakka #3-innsk. BJo]."
Að hugsa sér, að þetta skuli vera uppistaðan í röksemdafærslu lögfræðingsins fyrir því, að Orkupakki #3 muni engin áhrif hafa hér á landi. Ekki tekur betra við, þegar kemur að Landsreglaranum, sem við blasir, að verður einsdæmi í stjórnsýslu á Íslandi og í raun Trójuhestur ESB í stjórnkerfinu á Íslandi, þótt hann kunni (umdeilanlega) að vera eðlilegur þáttur stjórnsýslu ESB í ESB-löndunum. Þessu snýr Ari Guðjónsson á haus og kveður fyrirkomulagið verða sjálfstæðismál fyrir Orkustofnun. Hver hefur beðið um það ?
Það er lýðræðislegt fyrirkomulag, að Orkumálastjóri heyri heill og óskiptur undir íslenzkan ráðherra, en ekki stundum undir forstjóra ACER með ESA sem millilið. Hvernig í ósköpunum á Orkumálastjóri stundum að vera óháður ráðherra og stundum að vera undir boðvaldi hans ? Ari skrifar:
"Það liggur hins vegar fyrir, að gera þarf ákveðnar breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun vegna innleiðingarinnar. Þær breytingar munu m.a. tryggja frekara sjálfstæði Orkustofnunar með þeim hætti, að ráðherra mun ekki geta gefið stofnuninni fyrirmæli um úrlausn mála, þrátt fyrir að Orkustofnun muni enn heyra undir yfirstjórn ráðherra."
Það er alveg makalaust, að lögfræðingurinn virðist telja ávinning af innleiðingu þessa aukna og ólýðrýðislega flækjustigs í íslenzka stjórnsýslu, þótt við leikmanni blasi, að breytingin feli í sér Stjórnarskrárbrot.
Þá kemur rúsínan í pylsuendanum með lofrullu um EES-aðildina og hræðsluáróður um, að EES-samstarfið velti á innleiðingu Orkupakka #3. Það er ekki fótur fyrir slíku. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að m.v. gamla fríverzlunarsamninginn, sem í gildi var á milli EFTA og ESB, nemi viðskiptalegur ávinningur EES-samningsins 4,5 mrðISK/ár. Kostnaðurinn er hins vegar margfaldur ávinningurinn, því að beinn kostnaður er talinn nema 22 mrðISK/ár (Viðskiptaráð Íslands) og óbeinn kostnaður af ofvöxnu reglugerða- og eftirlitsfargani í örsmáu samfélagi og minni framleiðniaukningu um 1,0 %/ár fyrir vikið, þýðir sóun upp á yfir 100 mrðISK/ár. Alls nemur árlegur nettókostnaður EES-aðildar á annað hundrað milljörðum ISK. Þetta er nú öll margrómuð himnaríkisdýrð EES-aðildar Íslands.
Til að gefa innsýn í hugarheim EES-trúaðra er fróðlegt að birta jarðteiknasögu Ara Guðjónssonar og "Götterdämmerung" eða syndafallið í lokin:
"Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga, að EES-samningurinn felur í sér eina mestu réttarbót, sem íslenzkt samfélag hefur innleitt. Samningurinn hefur tryggt Íslandi fullan aðgang að innri markaði Evrópu, en þó með þeim takmörkunum, sem taldar voru nauðsynlegar á sínum tíma, sem aðallega varða sjávarútveg. Það er ekkert launungarmál, að Ísland hefði líklega aldrei náð að landa slíkum samningi án þess að hafa verið í samstarfi með öðrum stærri ríkjum, þegar samningurinn var gerður. Ef Alþingi tryggir ekki innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi, gæti það sett EES-samstarfið í uppnám."
Í raun og veru er þetta áróður fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, því að meint "réttarbót" er Evrópurétturinn og synjunarvald þjóðþinganna á ESB-gerðum er það, sem helzt greinir að réttarstöðu EFTA-ríkjanna (í EES) og ESB-ríkjanna gagnvart stofnunum Evrópusambandsins.
Í Noregi gætir vaxandi efasemda um aðild landsins að EES-samninginum, og er þar athyglisverðust þróunin innan norsku verkalýðshreyfingarinnar. Ekki er ólíklegt, að BREXIT-dramað endi með gerð víðtæks fríverzlunarsamnings á milli Bretlands og ESB. Þá liggur beint við, að EFTA leiti hófanna um svipaðan samning við Bretland og ESB.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2019 | 17:47
Átta landa gengið innan ESB
Í fersku minni er frá fyrsta ársfjórðungi 2016, er einn helzti fyrrum hvatamaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, líkti slíkri inngöngu við að hlaupa inn í brennandi hús. Það, sem Jóni B. Hannibalssyni ofbauð helzt við hið brennandi hús, var myntbandalagið og meðferð ráðandi afla þar, Frakklands og Þýzkalands, á veikburða suðurríkjum bandalagsins, einkum Grikklandi.
Aðgerðir ESB, ESB-bankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti í kjölfar alþjóðlegs fjármálahruns 2007-2008 voru í raun lenging í hengingaról Grikkja til bjargar lánadrottnum Grikkja, sem að stærstum hluta voru franskir og þýzkir bankar, sem margir hverjir stóðu tæpt og eru enn laskaðir. Síðan þá hefur runnið upp fyrir æ fleirum, hvað ESB í raun og veru er orðið: það er vanheilagt bandalag skriffinnskubákns og stórkapítals. Hagsmunir hins vinnandi manns og konu á Íslandi og þeirrar klíku geta ekki farið saman. Var ekki Icesave-deilan áminning um það ?
Það kennir margra grasa innan ESB, og núningurinn er ekki aðeins á milli norðurs og suðurs; hann er einnig á milli austurs og vesturs. Límið, sem hindrað hefur klofning eftir gamla járntjaldinu, er ótti Austur-Evrópuríkjanna við rússneska björninn.
Eystrasaltslöndin þrjú, sem innlimuð voru í Ráðstjórnarríkin, þegar Wehrmacht hörfaði undan ofureflinu 1944 eftir vanhugsaða "Operation Barbarossa"-Rauðskeggsaðgerðina, stærstu hernaðaraðgerð sögunnar, eru reyndar ekki í bandalagi Austur-Evrópuríkjanna innan ESB, heldur eru þau í Nýja Hansasambandinu, þar sem eru 5 önnur ríki: Írland, Holland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Það, sem sameinar þessi ríki, er, að standa fast á Maastricht-skilmálunum um heilbrigðan rekstur ríkissjóðs hvers lands, og þau vilja ekki sjá sameiginleg fjárlög og einn fjármálaráðherra evrusvæðisins né stóran samtryggingarsjóð til að forða veikum ríkissjóðum frá greiðslufalli. Miðstýrðasta ríki Evrópu, Frakkland, sem að ýmsu leyti stendur veikt, herjar á um þessa óvinsælu samrunaþróun. Þar horfa Frakkar aðallega til þess, að hinir duglegu, aðhaldssömu og skilvirku nágrannar austan Rínar dragi þá upp úr foraðinu, sem þeir hafa ratað í vegna óráðsíu.
Ríkin 8 eiga sér reyndar stuðningsríki um þetta í Slóvakíu, sem var austan járntjaldsins í austurhluta Tékkóslóvakíu, og Slóveníu, sem var nyrzta ríki Júgóslavíu. Þýzkaland er nú hlédrægur bakhjarl Nýja Hansasambandsins, eins og á miðöldum, þegar nokkrar þýzkar verzlunarborgir voru mikilvægur hluti Hansasambands miðalda.
Ástæðan fyrir hæglátri afstöðu Þýzkalands er sú, að Nýja Hansasambandið beinist aðallega að Frakklandi, og Þýzkaland reynir enn að stjórna ESB í nánu samstarfi við Frakkland. Það verður hins vegar stöðugt erfiðara fyrir Þýzkaland að hlaupa eftir duttlungum Frakklands um "samstöðu", sem snýst um að hlaupa undir bagga með veika manninum í Evrópu, Frakklandi, sem neitar að taka á sínum málum. Frá þessum veika manni Evrópu koma alls konar blautir draumar með rætur í gamalli og löngu horfinni stórveldistíð, t.d. lágvaxna Korsíkumannsins, eins og um sameiginlegan herafla, sem varizt geti Rússum, Bandaríkjamönnum og Kínverjum. Þetta er út í hött á sama tíma og þessi forysturíki ESB og mörg fleiri hafa ekki treyst sér til að standa við skuldbindingar sínar innan NATO um framlög til hermála.
Skattbyrðin er mest í Frakklandi innan OECD, og Macron, forseti, sem verið hefur með digurbarkalegar yfirlýsingar um að láta ekki óeirðaseggi stjórna málefnum Frakklands, hefur reynzt vera pappírstígrisdýr, sem gaf eftir fyrir gulvestungum og skaðaði þannig pólitískt orðspor sitt. Við það vex hallinn á ríkisbúskap Frakka enn, og það verður fróðlegt að sjá Brüssel hirta Gallana fyrir skuldasöfnun, sem ógnar stöðugleika evrunnar. Það verður þó aðeins gert með samþykki Berlínar, og þar er þolinmæðin á þrotum gagnvart framferði Gallanna. Verði Gallinn hirtur, mun hrikta í öxlinum Berlín-París, en verði Gallanum sleppt við hirtingu, mun Nýja Hansasambandið, Ítalir, Grikkir o.fl. móðgast.
Hvatinn að Nýja Hansasambandinu, sem myndað var í desember 2017 að frumkvæði fjármálaráðherra landanna 8, var BREXIT. Löndin höfðu talið hag sínum vel fyrir komið með Bretland sem boðbera frjáls markaðar og Þýzkaland sem boðbera heilbrigðra ríkisfjármála sem mótvægi við franskan ákafa um "samstöðu" í ríkisfjármálum og verndarstefnu á viðskiptasviðinu. Valdajafnvægið innan ESB breytist við brotthvarf Breta, Frökkum í vil, og Nýja Hansasambandið á að verða þar mótvægi.
Í sameiginlegri skýrslu fjármálaráðherra 8-landa gengisins frá marz 2018 er lögð áherzla á, að "fyrst og fremst" eigi ríkin að haga ríkisfjármálum í "fullu samræmi" við ríkissjóðsreglur ESB. Ef allir mundu haga sér með ábyrgum hætti og kæmu reglu á opinber fjármál, þá yrði hægt að takast á við ytri áföll, án þess að skattgreiðendur annarra landa þyrftu að hlaupa undir bagga, skrifuðu þeir. Haukar ríkisfjármálanna halda því fram, líklega með Ítalíu í huga, að stöðugleikasjóður, sem dreifir áhættu á milli ríkja, mundi einnig virka hvetjandi til óhófs og letjandi á aðhaldssemi. Nýja Hansasambandið mundi fremur hvetja til eflingar markaðsaflanna innan ESB, t.d. að hraða umbótum á fjármálamarkaðinum eða að gera fleiri fríverzlunarsamninga við ríki utan EES.
Íslendingar mundu að mörgu leyti eiga samleið með hinu Nýja Hansasambandi, en aðild að ESB kemur hins vegar ekki til greina, því að sjálfsákvörðunarrétturinn og umráðaréttur yfir auðlindum landsins færu þá veg allrar veraldar. Bretar fengu nóg af miðstjórnarvaldinu í Brüssel og klíkustjórnun öxulsins Berlín-París, sem hundsaði Bretland. Slíku getur gamalt stórveldi ekki torgað lengi. Bretar hafa sennilega endanlega fengið sig fullsadda á Evrópusambandinu í útgönguviðræðunum og munu eftir útgönguna taka upp samkeppni við það á mörgum sviðum, sem leitt getur til, að þeirra gömlu bandamenn innan ESB, sem nú mynda Nýja Hansasambandið, segi skilið við ESB með tíð og tíma og gangi í fríverzlunarbandalag, hugsanlega EFTA. Mun þá gamla Hansasambandið ganga í endurnýjun lífdaganna. Það eru ýmis innanmein í ESB, sem benda til, að þetta vanheilaga samband skrifstofuveldis og stórkapítals muni líða undir lok í sinni núverandi mynd fyrr en síðar.
Þjóðríkishugmyndinni hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu síðan ríki Habsborgara leið undir lok 1918. Íslendingar kærðu sig ekki um að vera í ríkjasambandi við Dani, en meirihluti Færeyinga virðist enn kjósa það. Skotar, Walesverjar og Norður-Írar verða líklega áfram í sambandsríki með Englendingum, þannig að það er mismunandi afstaða uppi, og tungumálið virðist ráða töluverðu um afstöðu þjóða, t.d. á Bretlandseyjum, þar sem allir tala ensku.
Heillavænlegast er, að ákvarðanir um málefni íbúa séu teknar í nærumhverfi þeirra. Þannig eru langflestir hérlendis þeirrar skoðunar, að stjórnun málefna Íslands hafi batnað markvert með Heimastjórninni 1904. Að sama skapi telja mjög margir, að það yrði dapurlegt afturhvarf til fortíðar að flytja stjórnun málefna Íslands að talsverðu leyti til Brüssel, enda hefur iðulega komið í ljós, að hagsmunir landa á meginlandi Evrópu fara ekki saman við hagsmuni eyjarskeggja langt norður í Atlantshafi. Það er auðskiljanlegt.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.12.2018 | 18:45
Hráskinnaleikur ESB og Noregs
Í leiðara Morgunblaðsins, 5. desember 2018, var vakin athygli á tveimur hagsmunamálum Íslands, makrílmálinu og Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Málin eru ólík, en eiga það sameiginlegt, að í báðum koma Evrópusambandið, ESB, og Noregur við sögu.
Ríkisstjórn Ernu Solberg í Noregi er höll undir ESB-aðild Noregs, þótt nú flæði undan fylgismönnum aðildar á Stórþinginu og andstæðingum aðildar á meðal þjóðarinnar vaxi fiskur um hrygg. Þessi ríkisstjórn sýnir hvað eftir annað, að hún tekur samstöðu með ESB fram yfir samstöðu með Íslendingum. Það á t.d. við í deilum strandþjóðanna við Norð-Austur Atlantshaf um veiðar á og veiðihlutdeild í makrílstofninum, og það á við um samstarfið í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB, Noregs, Liechtensteins og Íslands.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því í ræðu á Alþingi, að fulltrúi Noregs hafi verið alltof bráðlátur að hlaupa upp í hjá ESB, þegar íslenzki fulltrúinn hafði önnur samningsmarkmið. Það fórst sem sagt fyrir að mynda sameiginlega EFTA-stefnu.
Í makríldeilunni hafa fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar beinlínis komið illa fram við Íslendinga og hagað sér með bæði óábyrgum og ósanngjörnum hætti með þeim afleiðingum, að makrílstofninn er stórlega ofveiddur og lætur nú undan síga. Liggur þar e.t.v. fiskur undir steini, að Norðmenn vilji ekki, að makríllinn gangi lengur á Íslandsmið ?
Í sumar gerði utanríkisráðherra Noregs sér ferð til Íslands. Látið var í veðri vaka, að ferðin væri í tilefni heykaupa norskra bænda af íslenzkum bændum, en aðalerindi utanríkisráðherrans var að hvetja íslenzku ríkisstjórnina til að framfylgja af fullri hörku samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn, og til að hvetja þingmenn stjórnarflokkanna til tafarlausrar og snurðulausrar afgreiðslu málsins á haustþinginu. Þetta var ósvífin tilraun til áhrifa á framvindu í íslenzkum stjórnmálum að hálfu stjórnvalda, sem ætíð hafa sett hagsmuni Íslendinga til hliðar til að geta smjaðrað fyrir ESB og veifað skottinu. Þessi norsku stjórnvöld eiga þess vegna engan greiða inni hjá íslenzkum stjórnvöldum.
Þessi staða er hins vegar ekki í neinu samræmi við viðhorf og skoðanir norsku þjóðarinnar, sem ber vinarþel til íslenzku þjóðarinnar og er algerlega mótfallin afstöðu norsku stjórnarinnar gagnvart ESB og orkupakkanum. Varðandi málsmeðferð norsku stjórnarinnar á makrílmálinu hafa Norðmenn tekið sér í munn orðið "dobbelmoral". Hún leikur þar tveim skjöldum.
Samanburður ritstjóra Morgunblaðsins á makrílsmáli og orkupakka var vel við hæfi og fróðlegur:
"Makrílveiðar hafa undanfarin ár verið langt umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES, og á því verður engin breyting nú. Heildarkvótinn var reyndar minnkaður um 20 %, en er engu að síður tvöfalt meiri en kvað á um í ráðgjöf ICES. Með þessu framferði er ýtt undir rányrkju á makrílstofninum.
Af kvótanum fá ríki utan strandríkjahópsins, Ísland, Grænland og Rússland, rúm 15 %. Það er naumt skammtað og ósvífið að ætlast til þess, að ríkin utan samningsins haldi sig á mottunni, á meðan þau, sem sömdu, skammta sér ríflega og láta sér á sama standa um ráðgjöf. Í raun er þeim ýtt út í einhliða aðgerðir."
Hvernig getur norska ríkisstjórnin verið þekkt fyrir að meina Íslendingum aðgang að samningaborðinu um makríl, sem er mikið hagsmunamál fyrir Ísland og fyrir sjálfbærar nytjar af þessum flökkustofni, og heimta á sama tíma, að íslenzkir þingmenn kokgleypi stórfellt fullveldisframsal til Evrópusambandsins, sem setur íslenzkan raforkumarkað á annan endann án nokkurs sjáanlegs ávinnings á öðrum sviðum. Þessari norsku ríkisstjórn þarf að kenna þá lexíu, að íslenzka ríkisstjórnin láti ekki bjóða sér slíka framkomu. Stjórninni í Ósló er engin vorkunn að semja á eigin spýtur um áframhaldandi orkuviðskipti við ESB, þótt Íslendingar vilji þar hvergi nærri koma. Þannig gerast kaupin á eyrinni.
Morgunblaðið tók eftirfarandi pól í hæðina:
"Óbilgirni Norðmanna þarf ekki að koma á óvart, þótt hvimleið sé. Hún er hins vegar í litlu samræmi við þann þrýsting, sem norskir ráðamenn hafa beitt íslenzk stjórnvöld um að samþykkja þriðja orkupakkann vegna þess, hvað hann skipti miklu máli fyrir Norðmenn. Það er undarlegt, að Norðmenn ætlist til þess, að Íslendingar taki þeirra hagsmuni fram yfir sína eigin í orkumálum, en vilja ekki einu sinni hleypa Íslendingum að samningaborðinu um makrílinn.
Þá er rétt að halda því til haga, að Íslendingar voru ekki að biðja Norðmenn að setja sína hagsmuni til hliðar í makrílmálinu; bara, að Ísland fengi að taka þátt í samningum í stað þess að standa utan við þá."
Í apríl 2018 komu til Íslands tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar norsku og áttu fund með íslenzkum stjórnarþingmönnum. Erindi þeirra var algerlega öndvert við erindi norska utanríkisráðherrans um þremur mánuðum síðar. Þeir báðu íslenzka þingmenn þess lengstra orða að taka ákvörðun í orkupakkamálinu á grundvelli hagsmuna íslenzku þjóðarinnar og að láta ekki áróður norskra stjórnvalda og hagsmunaaðila á hennar bandi villa sér sín. Það hefur verið skammarlegt að fylgjast með málflutningi íslenzka utanríkisráðuneytisins hingað til í þessu orkupakkamáli, því að þar á bæ hafa menn kysst á norska vöndinn og haldið því fram, að vegna mikilla viðskiptahagsmuna Norðmanna verði íslenzkir þingmenn að samþykkja pakkann.
Þetta er alger hundalógikk hjá utanríkisráðuneytinu. Kalt hagsmunamat verður að liggja að baki íslenzkri stefnumörkun, ekki undirlægjuháttur og gagnrýnislaus auðsveipni við erlent vald. Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar er algerlega andvígur orkupakka #3, og Alþýðusamband Noregs hefur lýst yfir andstöðu við hann. Norska ríkisstjórnin er minnihlutastjórn, sem fékk orkupakkann illu heilli samþykktan í Stórþinginu með tilstyrk Verkamannaflokksins. Sá flokkur er nú að snúast í afstöðunni til Þriðja orkupakkans. Gott samband við Noreg er Íslendingum nauðsynlegt. Til frambúðar verður það bezt tryggt, eins og sakir standa, með því að hafna Orkupakka #3. Það er skrýtið, ef þetta fer ekki bráðlega að renna líka upp fyrir íslenzka utanríkisráðuneytinu.
Í viðhengi eru nýlegar úrklippur úr norsku blaði, þar sem tíundaðar eru nokkrar ESB-gerðir, sem væntanlegar eru til umfjöllunar Stórþingsins 2019 og sem vekja munu miklar deilur í Noregi. Líklegt er, að a.m.k. einhverri þessara ESB-gerða muni Stórþingið hafna. Það er engin umræða um það í Noregi, að þess vegna muni EES-samstarfið verða í uppnámi. Hvers vegna ?
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2018 | 11:52
Afskipti norskra stjórnvalda af lýðræðislegu ferli á Íslandi
Um miðjan ágúst 2018 var í heimsókn á Íslandi utanríkisráðherra Noregs, Ine Marie Eriksen Söreide. Hún gerði sig þá seka um alvarleg afskipti af innanríkismálum Íslands með því að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu væntanlegrar umfjöllunar Alþingis um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB. Ine Marie Eriksen Söreide er félagi í Hægri flokkinum, sem nú situr við völd í Noregi ásamt Framfaraflokkinum. Þetta er minnihlutastjórn, sem semur við meirihlutann frá einu máli til annars.
Í vetur samdi norska ríkisstjórnin við Verkamannaflokkinn um framgang Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Stórþinginu. Bæði Hægri og Verkamannaflokkurinn eru hallir undir inngöngu Noregs í Evrópusambandið, ESB, og það er meginástæða þess, að þessir flokkar studdu innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í lagasafn Noregs.
Þótt Noregur flytji út mikið af eldsneyti og dálítið af raforku um sæstrengi til ESB-landa, þá hefur ekki verið sýnt fram á, að þessi viðskipti muni verða fyrir skakkaföllum eftir höfnun Alþingis á téðum bálki. Ástæðan er sú, að ESB er í mikilli þörf fyrir þessi orkuviðskipti við Noreg. Þess vegna verður örugglega fundin sérlausn fyrir orkuviðskipti á milli ESB og Noregs, ef Alþingi synjar orkubálkinum samþykkis.
""Við erum öll sammála um mikilvægi innri markaðarins. Það að hafa aðgengi að 500 milljón manna markaði með sameiginlegar reglur og staðla fyrir inn- og útflutning er gríðarlega mikilvægt til þess að skapa sanngjörn samkeppnisskilyrði. Þetta skiptir bæði efnahagskerfi Íslendinga og Norðmanna máli",segir Ine Marie Eriksen Söreide, utanríkisráðherra Noregs, spurð um framtíðarhorfur samningsins um evrópska efnahagssvæðið í ljósi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu."
Að hanga eins og hundur á roði á EES-samninginum þrátt fyrir breyttar aðstæður í Evrópu og í heiminum öllum er óheillavænleg blanda af hæfileikaskorti til að grípa ný tækifæri og þrælslund við Evrópusambandið. Sannleikurinn er sá, að fyrir Íslendinga er EES-samningurinn allt of dýru verði keyptur bæði stjórnlagalega og fjárhagslega, eins og nýlegar innleiðingar Evrópugjörða eru til vitnis um. Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt viðskiptabandalög á borð við ESB, sem nota öryggiskröfur, eins og þær, sem liggja að baki CE-merkingunni, og stöðlun til að samræma eigin iðnaðarframleiðslu og torvelda aðgengi annarra að sínum markaði.
Þetta er eitt af megingagnrýniefnum Bandaríkjamanna á ESB. Miklu einfaldara, útlátaminna og síður fallið til óánægju og deilna er að gera tvíhliða viðskiptasamninga, eins og reyndar ESB hefur verið að gera í töluverðum mæli undanfarin ár, eins og samningar við Kanada og Japan gefa til kynna. Fyrir Íslendinga er miklu eðlilegra að taka stefnuna á tvíhliða fríverzlunarsamninga við ESB, Bretland, BNA, Kanada, Japan o.fl. en að íþyngja atvinnulífinu og hinu opinbera með stöðugu flóði viðamikilla lagasetninga frá ESB, sem margar standast ekki kröfur Stjórnarskráar, sem heimilar ekki fullveldisframsal af því tagi, sem EES-samningurinn útheimtir.
""Við höfum öll hag af því að finna farsæla lausn á málinu [Brexit]. Það er hins vegar erfitt að vita með vissu, hvað gerist næst. Bretar og Evrópusambandið verða að komast að samkomulagi fyrst, þannig að hægt verði að meta, hver næstu skref verða", segir Söreide. Hún telur Íslendinga og Norðmenn hafa sameiginlega hagsmuni af því, að ekki skapist óvissa um innri markaðinn og að hann sundrist ekki."
Þetta er að miklu leyti rangt mat hjá Söreide. Þegar ríkisstjórnirnar í Reykjavík og Ósló hafa ólíka afstöðu til ESB, þá sýnir reynslan, að engin almennileg samstaða næst innan EFTA-hópsins í Sameiginlegu EES-nefndinni. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, benti á þetta a.m.k. tvisvar í þingræðum á Alþingi veturinn 2018.
Fyrst eftir BREXIT vildu Norðmenn ekki sjá Breta inn í EFTA, þótt íslenzka utanríkisráðuneytið mælti með þeim kosti, enda hefði EFTA þá sterka stöðu í samningum við ESB og aðra. Þegar ESB lét á sér skilja, að æskilegt væri, að Bretland gengi í EFTA og gerðist aðili að EES-samninginum, þá sneru Norðmenn við blaðinu. Bretar hafa að vísu engan áhuga á EES, þótt þeir kunni aftur að ganga í EFTA, en kúvending Norðmanna sýnir, að núverandi stjórnvöld í Ósló leggja mikla áherzlu á að þóknast ESB. Það hefur skemmt fyrir samningum EFTA og ESB og gert Íslendingum erfitt um vik við að standa á rétti sínum um tveggja stoða lausn við innleiðingu Evrópugjörða í EES-samninginn. Með bæði samstarfsríki Íslands í EFTA innan EES höll undir gagnrýnislausa aðlögun að ESB með samræmdri innleiðingu sem flestra Evrópugjörða á EES-svæðinu, á smáríki norður í Atlantshafi ekki lengur erindi í þessa vegferð forkólfanna í Brüssel, Berlín og París til æ nánari sameiningar.
""Það er grundvallaratriði, að vestrænar þjóðir standi saman í fordæmingu brota gegn þjóðarrétti af hálfu Rússa. Slíkt hefur í för með sér fórnarkostnað fyrir öll ríki, sem við verðum að vera reiðubúin til þess að taka á okkur", segir Söreide um áhrif viðskiptabanns Rússa."
Þetta er rétt, svo langt sem það nær. Það er ekki sama, hvernig að viðskiptabanni er staðið. Norðmenn seldu Rússum m.a. hátæknivörur, sem gátu farið til hernaðarlegra nota. Það gerðu Þjóðverjar og Bandaríkjamenn einnig, en Þjóðverjar sáu til þess, að þjóðhagslega mikilvægur iðnaður þeirra á borð við bílaiðnaðinn gæti óáreittur haldið áfram að senda járnbrautarfarma af bifreiðum til Rússlands.
Íslendingar stunduðu engin viðskipti við Rússa með vörur, sem gátu gengið til hernaðarlegra nota. Þess vegna var ekki rökréttara, að Íslendingar tækju þátt í viðskiptabanni á Rússa en t.d. Færeyingar. Það sárgrætilega er, að vegna refsiaðgerða Rússa gegn ríkjunum, sem settu á þau viðskiptabann, hefur ekkert vestrænt ríki tapað hlutfallslega meiri fjármunum á þessu valvísa viðskiptabanni á Rússa en Íslendingar, og nú hefur ríkisstjórn Íslands ekki bein í nefinu til að draga Ísland út úr því. Í hverfulum heimi ríður á að reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Það má mótmæla endurinnlimun Krímskaga í Rússland, krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu þar undir alþjóðlegu eftirliti um stöðu Krím og mótmæla afskiptum Rússa af Austur-Úkraínu um leið og Ísland væri dregið út úr þessu kjánalega viðskiptabanni á Rússa.
Þá er komið að meginerindi norska utanríkisráðherrans til Íslands að þessu sinni. Það var að hræða Alþingismenn til þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn og íslenzka löggjöf. Falsrök norska ráðherrans voru, að téð löggjöf skipti Íslendinga litlu, en Norðmenn miklu máli. Litlir hagsmunir væru í húfi fyrir Íslendinga, en miklir fyrir Norðmenn. Í fjölda pistla á þessu vefsetri og öðrum og í blaðagreinum hefur verið sýnt fram á, að fyrri fullyrðingin er kolröng, og sú síðari stenzt ekki athugun, enda hafa systursamtök Heimssýnar í Noregi, "Nei til EU", sent frá sér harða gagnrýni á hræðsluáróður ráðherrans, eins og lesa má í skjali samtakanna í viðhengi með þessum pistli.
""Ég ræddi þetta [téðan orkubálk] á fundi mínum með Guðlaugi og á fundi með þingmönnum. Það er mikilvægt fyrir mig að koma því á framfæri, að norska Stórþingið hefur samþykkt þessa tilskipun. Fyrir okkur er mikilvægt, að tilskipunin sé tekin upp í EES-samninginn þar sem við nú þegar erum hluti af evrópskum orkumarkaði. Það er ákveðin hætta fyrir okkur, ef hún myndi ekki öðlast gildi", staðhæfir hún."
Hér sjáum við glitta í topp ísjaka áróðurs norskra ESB-sinna gagnvart íslenzkum stjórnvöldum og Alþingi. Málið er alls ekki mikilvægt fyrir norsku þjóðina, sem að stórum meirihluta er algerlega mótfallin inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, né fyrir hagsmuni hennar, en það er mikilvægt fyrir ESB-sinnaða stjórnmálamenn Noregs að þóknast ESB með skilyrðislausri undirgefni. Orkuviðskipti ESB-landanna við Noreg eru ESB svo mikilvæg, að engum dettur í hug, að vottur af samstöðu finnist á þeim bænum fyrir því að gera Norðmönnum erfitt fyrir að stunda þessi viðskipti hér eftir sem hingað til. Ef Norðmenn kæra sig um, geta þeir einfaldlega innleitt reglur Evrópusambandsins hjá sér, þótt Íslendingar geri það ekki. Hættan, sem Söreide talaði um, er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur pólitísks eðlis innanlands í Noregi.
"Að sögn ráðherrans var umræðan í Noregi nokkuð erfið. "Það voru margar mýtur um málið. Margir héldu því fram, að með því að samþykkja þriðja orkupakkann myndum við missa yfirráð yfir orkuauðlindum og orkustefnu landsins; þetta var auðvitað ekki rétt. Noregur myndi aldrei afsala sér þessum rétti.""
Þarna skeiðar ráðherrann léttilega framhjá sannleikanum. Landsreglarinn (n. "Reguleringsmyndighet for energi-RME") er ekki goðsögn, heldur staðreynd, sem menn geta séð að störfum nú þegar í ESB-löndunum, og undirbúningur er þegar hafinn í Noregi að stofnun þessa embættis, sem tekur við eftirlitshlutverki ráðuneytis og NVE (í Noregi) og Orkustofnunar hérlendis með orkumarkaðinum og yfirstjórn á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi.
Landsreglarinn á að koma á raunverulegum samkeppnismarkaði með raforku (og eldsneytisgas, þar sem það er í almennri daglegri notkun) í aðildarlöndum Orkusambandsins og framfylgja samkeppnislögum ESB og lögum gegn brenglun markaðar með ríkisstuðningi við einstök fyrirtæki.
Á Íslandi mun þetta nánast örugglega leiða til aðgerða til að minnka misvægi á markaðinum með því að draga úr drottnunarvaldi Landsvirkjunar, sem er að fullu ríkisfyrirtæki og með yfir 80 % af raforkumarkaðinum á sinni könnu. Landsreglarinn mun færa fyrir því rök, að ekki sé hægt að innleiða hér frjálsan samkeppnismarkað með raforku með svo rosalegt misvægi á markaðinum sem hér er. Hann mun vísa í lagareglur ESB og segja nauðsynlegt að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða hana. Sú einkavæðing mun fara fram á evrópskum markaði, þannig að innan tíðar gætu E.ON o.fl. þekkt evrópsk raforkufyrirtæki farið að selja okkur raforku. Það er þetta, sem norskir andstæðingar innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins óttast m.a., þegar þeir ræða um hættuna á að "missa yfirráð yfir orkulindum".
Hérlendis verða menn að gera sér grein fyrir því, að stjórnvöld hafa engin tök á að stöðva Landsreglarann, ef Alþingi glepst á að samþykkja þennan orkubálk, því að hann mun starfa óháður þeim eftir ESB-lögum, og ágreiningsmál verða útkljáð fyrir EFTA-dómstólinum, sem á við dómaframkvæmd að gæta samræmis við ESB-dómstólinn.
Í þjóðsögum var sagt frá tröllskessum, sem af fullkominni léttúð köstuðu á milli sín fjöregginu hlæjandi og flissandi. Öllum ætti að vera ljóst, að nú er verið að kasta á milli sín fjöreggi landsmanna. Það mun koma í ljós, hvort Alþingismenn missa fjöreggið úr höndum sér eða hvort þeir stöðva leikinn áður en slys verður.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2018 | 13:33
Evrópa er í losti - hvað svo ?
Framkoma Donalds Trump gagnvart leiðtogum hefðbundinna bandamanna Bandaríkjamanna í Evrópu er einsdæmi á okkar tímum og gerist e.t.v. einu sinni á 200 ára fresti, nema einhver skaðvænleg þróun eigi sér nú stað í framkomu ríkja í millum. Hvað sem í skerst á næstunni, jafnvel þótt bandaríska þingið taki fram fyrir hendur forsetanum, hefur þegar orðið trúnaðarbrestur yfir Atlantshafið, og kalt stríð virðist hafið yfir Kyrrahafið. Á þetta horfa Rússar og núa saman höndum af ánægju. Fundur Trumps og Putins í Helsinki í júlí 2018 olli miklu fjaðrafoki í Washington DC, sem vonlegt er, og sennilega angist í Berlín, Brüssel og París. Þjóðverjar hafa nú gert sér grein fyrir, að ekki dugir lengur að hafa varnir landsins í algerum ólestri, eins og reyndin hefur verið á þessari öld.
Ef einhvers konar söguleg þróun endurspeglast í gjörðum Bandaríkjamanna undanfarið, þá er hún helzt sú á viðskiptasviðinu, að dagar tollabandalaga eru taldir, en tími tvíhliða viðskiptasamninga er runninn upp. Hvaða skjól hafa Þjóðverjar af ESB, ef vera þeirra þar veldur álagningu hárra tolla á bílaútflutning þeirra til Bandaríkjanna, BNA, eins og Bandaríkjaforseti hefur hótað, en nú dregið í land með um sinn ?
Atburðirnir ýta eindregið undir það, að Ísland segi upp EES-samninginum, en bindi ekki trúss sitt við tæknilegar viðskiptahömlur hins pólitíska tollabandalags ESB, sem er auðvitað líka stjórnmálabandalag með löngun til að verða sambandsríki á heimsmælikvarða, sem forseti Bandaríkjanna hefur lýst yfir, að sé versti andstæðingur Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu. Þá er nú langt til jafnað, þegar viðskipti Bandaríkjanna og Kína eru höfð í huga.
Hvaða áhrif hefur þetta ástand á ESB ? Það aukast líkur á, að enn meir kvarnist úr bandalaginu, þegar einhver mynd kemst loksins á viðskilnað Breta, en nú er allt upp í loft í þeim viðræðum, enda ríkisstjórn Bretlands stórlöskuð. Verður því samt ekki trúað, að Bretar fari með hálfvelgju út úr ESB, verði í tollabandalagi áfram, jafnvel á Innri markaðinum með fjórfrelsin í einhverri mynd virk og Evrópudómstólinn sem úrskurðaraðila í þrætum þeirra við ESB. Þá er líklegt, að lífi verði blásið í UKIP, sem nái svo miklu fylgi af hægri væng, að Verkamannaflokkurinn nái völdum með erkisósíalistann og þjóðnýtingarsinnann Corbyn sem húsbónda í nr 10 (Downing Street). Það yrði afturhvarf til fortíðar fyrir Breta, þegar þeim hins vegar ríður á leiðtoga með framtíðarsýn fyrir öflugt Bretland utan ESB, sem stendur frjálst að gerð viðskiptasamninga við hvern sem er, og verður í fylkingarbrjósti frjálsra alþjóða viðskipta innan vébanda WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, sem Bandaríkjamenn leika svo grátt um þessar mundir. Þeir neita m.a. að samþykkja dómara í 7 manna úrskurðarteymi, en allar aðildarþjóðirnar, rúmlega 130, verða að samþykkja dómaraskipunina. Þar með lama Bandaríkjamenn þessa mikilvægu alþjóðastofnun. Vonir standa til, að þeir sjái sig um hönd.
Það er ekki síður áhugavert, hvernig Þjóðverjar taka nú á málaum. Munu þeir stökkva inn í tómarúmið, sem Bandaríkjamenn skilja eftir sig á alþjóðavettvangi ? Þar er mikil gerjun í gangi. AfD (Alternative für Deutschland) togar miðju stjórnmálanna til hægri þar í landi. Þetta sést mjög greinilega í Bæjaralandi núna í aðdraganda þingkosninga í október 2018, þar sem AfD getur kostað valdaflokkinn CSU ríkjandi stöðu í fylkinu. Ef stjórnmál Þýzkalands hnikast til hægri, jafngildir það sjálfstæðari stefnumörkun innanlands og í utanríkismálum. Þetta gæti aukið enn á innbyrðis vanda ESB, en þar rekast Austur-Evrópuríkin mjög illa. Þau hafa t.d. neitað að taka við nokkrum flóttamanni, en Þjóðverjar sitja uppi með 1-2 milljónir slíkra og fyrirséð, að fólkið á erfitt með að fá vinnu, aðlagast þar með seint og illa og verður að skjólstæðingum almannatrygginga fyrir vikið. Þetta er undirrót óánægjunnar.
Frá því að Gústaf 2. Adolf, Svíakonungur, tók þátt í 30 ára stríðinu með mótmælendum, sem var borgarastyrjöld í Þýzkalandi 1618-1648, og kannski lengur, hafa sterk og fjölþætt tengsl verið á milli Svía og Þjóðverja. Þetta kom berlega í ljós í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar, fylgist vel með stjórnmálum Þýzkalands og skrifaði grein um þau, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2018 undir fyrirsögninni:
"Orrustan um sál Þýzkalands".
Orrusta um sama málefni hefur áður verið háð. Niðurstaðan ræður jafnan örlögum Evrópu. Fyrirsögnin hefur þess vegna djúpa og áhrifamikla skírskotun. Carl Bildt skrifaði m.a.:
"Á yfirborðinu er umræðan, sem nú heltekur Þýzkaland, um, hvort það eigi að senda hælisleitendur, sem þegar hafa verið skrásettir í öðrum ESB-ríkjum, til baka, eins og innanríkisráðherrann, Horst Seehofer, leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi (CSU), hefur talað fyrir. En þegar kafað er dýpra, er spurningin fyrir Þýzkaland, hvort landið ætti að fara sínar eigin leiðir eða halda áfram að leita sameiginlegra lausna."
Varðandi hælisleitendur er þegar þrautreynt, að það finnast engar sameiginlegar lausnir innan ESB eða innan Evrópu. Mörg ríki ESB hafa harðneitað að taka við flóttamönnum, þannig að Þýzkaland situr enn uppi með yfir eina milljón flóttamanna frá 2015, sem ætlunin var að dreifa á ESB-ríkin. Nú er ósköpunum eitthvað að linna í Sýrlandi, þannig að ætla mætti, að margir Sýrlendinganna gætu snúið heim til að taka þátt í uppbyggingunni. Það er einboðið að fylgja reglunum og senda þá, sem eru skráðir inn í Evrópu annars staðar, þangað.
Evrópa hvorki getur né vill taka við efnahagsflóttamönnum, sem margir hverjir eru hvorki læsir né skrifandi á latneskt letur, en uppfullir af fornaldargrillum Múhameðs úr Kóraninum og hafa engan vilja til að laga sig að vestrænum hugsunarhætti og lifnaðarháttum. Velferðarkerfi Vesturlanda fara á hliðina, ef slíkum byrðum verður hlaðið á þau. Þess vegna má víða greina sterk varnarviðbrögð á meðal almennings, og Svíþjóðardemókratarnir gætu t.d. fengið meira en fjórðungsfylgi í þingkosningum í Svíþjóð í september 2018 og þar með orðið stærsti flokkurinn í Riksdagen.
Síðar í grein sinni skrifar Carl Bildt:
"Árás þjóðernissinnaðra afla á sýn Kohls [Helmut Kohl var kanzlari Þýzkalands í 16 ár, þ.á.m. þegar Austur-Þýzkaland var innlimað í Sambandslýðveldið Þýzkaland-BRD árin 1989-1990, 40 árum eftir stofnun BRD úr rústum hluta Þriðja ríkisins-innsk. BJo.] gæti haft afleiðingar í för með sér, sem næðu langt umfram deiluna um innflytjendamál. Það er ekki bara hlutverk Þýzkalands í Evrópu, sem er í húfi, heldur einnig framtíð samrunaferlis Evrópu. Þýzkaland, sem varpar af sér arfleifð Kohls, myndi allt í einu verða uppspretta mikillar óvissu, frekar en brjóstvörn stöðugleikans í hjarta Evrópu. Þar sem Vesturveldin eiga þegar undir högg að sækja frá mönnum eins og Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, og Donald Trump, Bandaríkjaforseta, væri það hið síðasta, sem Evrópa þarfnaðist."
Þetta er að nokkru úrelt greining á stöðunni. Þjóðverjar kæra sig ekki um meiri samruna Evrópuríkjanna, af því að þeir vita sem er, að ekkert ríki ESB hefur áhuga á meiri samruna, nema hann auðveldi þeim að krækja í þýzka peninga, sem alþýða Þýzkalands hefur unnið fyrir og sparað til elliáranna, en hið sama verður ekki sagt um rómönsku þjóðirnar, og slavarnir berjast enn við spillingarhít kommúnistastjórna Kalda stríðsins.
Bandaríkjamenn hafa kastað pólitískum sprengjum inn í ESB-samstarfið og NATO. Donald Trump hefur úthúðað kanzlara Þýzkalands, heimtað 70 % aukningu strax á framlögum Þjóðverja til varnarmála og hótað háum tollum á bíla, sem ESB-ríkin flytja út til BNA. Þetta mun hrista ærlega upp í stjórnendum Þýzkalands og færa þeim heim sanninn um, að þeir verða að setja hagsmuni síns eigin lands í forgrunn stjórnmálastefnu sinnar, þótt slíkt verði á kostnað samstarfsins innan ESB og þó að afturkippur komi jafnvel í samrunaferlið. Þýzkur almenningur er þarna á undan leiðtogunum í Berlín, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarið og mun sýna sig í næstu fylkiskosningum, sem haldnar verða í Bæjaralandi í október 2018.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.8.2018 | 11:10
Kúvending Bandaríkjanna
Bandaríkjaforseti hefur sett af stað viðskiptastríð við Kína, Kanada, Mexíkó, Evrópusambandið (ESB) og Japan, eins og upp úr þurru. Hér eru mikil firn á ferð, sem hafa munu víðtækar og alvarlegar afleiðingar um allan heim. Margir binda þessi ósköp við persónu Donalds Trumps, en hvers vegna hefur bandaríska þingið þá ekki gripið í taumana og sett honum stólinn fyrir dyrnar ? Þingmenn eru sennilega á báðum áttum um vilja kjósenda í þessum efnum, og kjósendur munu tjá hug sinn í nóvember 2018. Því miður verður að álykta, að hér sé um stefnubreytingu að hálfu Bandaríkjanna að ræða í alþjóða viðskiptamálum.
Ef það reynist rétt, er það alger uppgjöf Bandaríkjamanna á sviði frjálsrar samkeppni, hornsteins auðgunarstefnunnar, kapítalisma Skotans Adams Smiths o.fl. Þessi hegðun er veikleikamerki að hálfu Bandaríkjanna, sem mun gera Bandaríkin enn þá veikari og að hornkerlingu í alþjóða samstarfi.
Þetta er jafnframt pólitískt gjörningaveður, sem gjörbreyta mun valdahlutföllum í heiminum og dæma Bandaríkin til minni áhrifa en nokkru sinni síðan fyrir Fyrri heimsstyrjöld. Hugsanlegt er, að einangrunarhyggja taki völdin í Bandaríkjunum, ef ekki verður stefnubreyting eftir næstu þingkosningar og forsetakosningar þar. Utanríkisráðuneytið hér hlýtur að kanna, hvort staðfesta Bandaríkjamanna um að standa við Varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna stendur óhögguð í þessu gjörningaveðri, þar sem allt er upp í loft.
Finnur Magnússon, hæstaréttarlögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, ritar grein um síðustu atburði á sviði alþjóðaviðskipta á Sjónarhóli Morgunblaðsins 26. júlí 2018,
"Fríverzlun á tímamótum" ,
þar sem hann skrifar m.a.:
"Gagnrýni Bandaríkjastjórnar beinist nú gegn helztu bandamönnum Bandaríkjanna, s.s. Kanada, Evrópusambandinu og Japan, og hefur leitt til álagningar verndartolla á vörur innfluttar m.a. frá þessum löndum. Hér kveður við nýjan tón, sem mun að öllum líkindum leiða til grundvallarbreytinga á meira en hálfrar aldar fyrirkomulagi í alþjóðaviðskiptum."
Það er ástæða til að óttast, að Finnur hafi rétt fyrir sér um þetta. Þá vaknar spurningin um það, hvernig Íslendingar koma ár sinni bezt fyrir borð í þessum ólgusjó. Við höfum fellt niður alla tolla, nema á bílum, eldsneyti og sumum matvælum, og viljum hafa frjálsan aðgang að öllum mörkuðum fyrir vörur okkar og þjónustu. Þá er áreiðanlega affarasælast að láta ekki loka sig inni í neinu tollabandalagi, eins og EES, heldur að stefna á gagnkvæma fríverzlunarsamninga við sem flesta og þátttöku í fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA.
Þessi þróun alþjóðamála ýtir með öðrum orðum undir það að segja upp EES-samninginum, enda er hann gjörsamlega vonlaust fyrirkomulag til frambúðar í viðskiptalegum efnum.
Athugum nú, hvernig Finnur Magnússon lauk téðri grein sinni:
"Önnur afleiðing verndartolla Bandaríkjanna er, að þau ríki, sem aðhyllast frjáls vöruviðskipti, hafa tvíeflzt í afstöðu sinni til frelsis í alþjóðaviðskiptum. Hinn 17. júlí sl. gerðu Evrópusambandið og Japan með sér einn stærsta fríverzlunarsamning, sem gerður hefur verið. Samningurinn mun afnema tolla að allmestu leyti á milli þessara aðila. Svo að dæmi sé nefnt, þá verða afnumdir tollar á 99 % japanskra vara innfluttra til Evrópusambandsins og af 94 % evrópskra vara innfluttra til Japan. Það mun leiða til lægra vöruverðs til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki í Evrópu og Japan.
Er nú svo komið, að bandamenn Bandaríkjanna, s.s. Japan og Suður-Kórea, hafa ákveðið að draga úr samvinnu sinni við Bandaríkin á sviði frjálsra vöruviðskipta og leitast við að gera fríverzlunarsamninga sín á milli án aðkomu Bandaríkjanna. Er hér um stefnubreytingu að ræða, enda ljóst, að þessi ríki hafa horft mjög til Bandaríkjanna á þessu sviði um áratugaskeið.
Af þessu leiðir, að nú reynir sem aldrei fyrr á regluverk alþjóðaviðskipta, þ.e. GATT-samninginn frá 1947, og undirsamninga þess samnings, og WTO-samninginn frá 1994. Ef svo fer, að Bandaríkin tapi fyrrnefndum ágreiningsmálum [á vettvangi WTO-innsk. BJo], er ekki hægt að útiloka, að Bandaríkjastjórn dragi sig út úr þessum samningum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Verður þá komin upp ný staða í alþjóðamálum. Fjölþjóðlegir samningar um vöruviðskipti munu þá heyra sögunni til, og algengustu samningar á sviði vöruviðskipta verða að öllum líkindum tvíhliða þjóðréttarsamningar."
Hér skal taka undir lokaályktun höfundarins og álykta á þeim grunni áfram, að þessi þróun viðskiptamála heimsins ýtir undir það, að Íslendingar segi upp þeim fjölþjóðlega og um margt stjórnarfarslega íþyngjandi (yfirþjóðlega) viðskiptasamningi, sem í gildi er á milli Íslands, ESB, Noregs og Liechtenstein, s.k. EES-samningi, og sækist í staðinn eftir tvíhliða þjóðréttarsamningi á viðskiptasviði og jafnvel fleiri sviðum.
Martin Wolf, dálkahöfundur "Financial Times", er þungorður í garð Donalds Trumps, enda eru gjörðir hans dæmalausar og hafa nú þegar grafið undan trausti hefðbundinna bandamanna Bandaríkjanna á þeim með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Morgunblaðið birti grein eftir hann 12. júlí 2018,
"Trump skapar glundroða með tollastríði".
Greinin hófst með einstæðum hætti, þegar um er að ræða Bandaríkjaforseta:
"Leiðtogi valdamestu þjóðar heims er bæði hættulegur maður og fáfróður. Hvernig á heimsbyggðin að bregðast við honum ? Það er erfitt að finna svarið, því að Donald Trump hefur tekizt að skapa mikinn glundroða. Það er erfitt að semja við manninn einmitt vegna þess, að enginn veit fyrir víst, hvað það er, sem hann, eða fólkið í kringum hann, vill í raun. Þetta er allt annað en eðlilegt ástand."
Það er illa komið fyrir Vesturlöndum, þegar forysturíki þeirra lýtur stjórn, sem bandamennirnir telja algert ólíkindatól. Ef þingkosningarnar í nóvember í ár verða til að treysta forsetann í sessi, þá má jafnvel búast við, að viðskiptastríð Bandaríkjanna muni leiða til einangrunar þeirra. Hvað verður þá um NATO ? Það er furðulega lítil umræða farin af stað um það, að jafnvægið í heiminum er á tjá og tundri fyrir tilverknað ríkis, sem verið hefur í forystu ríkja, sem vilja stunda frjálsan markaðsbúskap.
"Ríkisstjórnin hefur réttlætt tolla á stál og ál, sem þegar eru í gildi, með vísan til þjóðaröryggis. Sömu rök liggja að baki rannsókn á innflutningi á bílum, sem hófst í maí. Það var einmitt vegna þess, að menn óttuðust, að lönd myndu misnota heimild til undanþágu vegna þjóðaröryggis, að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru þröngt skilgreindar. Þar er tiltekið, að undir viðskipti, sem gætu varðað þjóðaröryggi, falli t.d. verzlun með "klarnakleyf efni" og "viðskipti með vopn, skotfæri, stríðstól og aðrar vörur, sem beint eða óbent eru notaðar í hernaði", og fjallað um "aðgerðir, sem gerðar eru á stríðstímum, eða þegar neyðarástand af öðrum toga skapast á alþjóðavettvangi".
Ál- og stáltollarnir og hvað þá heldur tollar á bifreiðar, brjóta greinilega gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og ef viðskipti við Kanada stefna þjóðaröryggi Bandaríkjanna í voða, hvaða landi stafar þeim þá ekki ógn af ? Ef bílar hafa eitthvað að gera með þjóðaröryggi, hvaða vörur gætu þá mögulega ekki varðað öryggishagsmuni þjóðarinnar ?
"Verndarstefna mun auka velmegun okkar og styrk", sagði Trump, þegar hann sór embættiseið sinn. Því miður var honum full alvara."
Það er ekki annað hægt en að taka undir þessa gegnrýni Martins Wolf á Donald Trump. Bandaríkin þverbrjóta reglur WTO, og geta með framferði sínu gengið af Alþjóðaviðskiptastofnuninni dauðri í krafti stærðar sinnar. Þá er líklegt, að önnur ríki taki höndum saman um að endurreisa WTO og kannski fela henni auknar valdheimildir. Það verður fróðlegt að sjá, hver gengur þar fram fyrir skjöldu. Verður það e.t.v. Bretland eða Þýzkaland, eða þau tvö ríki og Japan ?
Áfram heldur Martin Wolf:
"Og hvar endar þetta allt saman ? Paul Krugman, einn af fremstu viðskiptahagfræðingum heims, telur, að þróist málin á þann veg, að allir verði komnir í tollastríð gegn öllum, þá muni alþjóðaviðskipti minnka um 70 %.
Það kemur á óvart, að framleiðsla á heimsvísu myndi hins vegar aðeins dragast saman um 3 %. Þessar tölur ganga út frá forsendum reiknilíkana, sem taka ekki með í reikninginn þá röskun, sem á sér stað í hagkerfum þjóða og þá óvissu,sem skapast, þegar alþjóðahagkerfið lagar sig að breyttum leikreglum. Þessi líkön taka heldur ekki með í reikninginn, hvernig það mun draga þróttinn úr hagkerfum þjóða, þegar alþjóðleg samkeppni minnkar. Síðast en ekki sízt líta reiknilíkönin framhjá þeirri óvild, sem tollastríð geta skapað. Er næsta víst, að velvild á milli þjóða yrði ekki svipur hjá sjón."
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.8.2018 | 16:30
Millilandaverzlun dregst saman
Það blæs ekki byrlega með alþjóðlega hagkerfið um þessar mundir, þegar helztu viðskiptastórveldin stunda þá ótrúlegu iðju að grafa undan heimsviðskiptunum með því að keppast við að leggja tolla á innflutning sinn frá stórveldi, sem þegar hefur lagt á verndartolla hjá sér. Þar eigast Vesturveldin líka við innbyrðis, og hefði enginn trúað því fyrir 5 árum. Allt mun þetta draga dilk á eftir sér, þótt vonandi verði WTO-Alþjóða viðskiptastofnuninni bjargað. Kínverjar hafa vissulega hagað sér illa. Yfirvöld hafa t.d. heimtað nána samvinnu ("joint venture") við kínverskt félag, ef erlent iðnfyrirtæki fjárfestir í Kína, og til að erlenda fyrirtækið fái markaðsaðgang í Kína, hefur afhending nýjustu tækniupplýsinga verið skilyrðið. WTO hefur ekki náð tökum á þessu vandamáli fremur en því, að kínversk útflutningsfyrirtæki eru í mörgum tilvikum að miklu leyti í höndum ríkisins, og þá er samkeppnin vissulega brengluð og hætt við undirboðum. Nú hefur soðið upp úr. Vonandi endar þetta viðskiptastríð fljótt og með því að styrkja WTO, færa stofnuninni meiri völd í hendur til að draga fyrirtæki og ríkisstjórnir til ábyrgðar fyrir brot á nýjum reglum WTO.
Þó að Ísland sleppi við þetta viðskiptastríð, þá lenda slæmar efnahagslegar afleiðingar af þessu gjörningaveðri hart á Íslendingum, af því að efnahagur okkar er mjög háður utanríkisviðskiptum. Minnkandi kaupmáttur erlendis leiðir til lægra verðs fyrir vörur okkar og þjónustu og getur jafnvel dregið úr ferðamannastraumnum hingað. Flugfélögin og hótelgeirinn eru þegar illa sett, og ferðaþjónustan hérlendis mun lenda í verulegum hremmingum, ef ferðamannafjöldinn minnkar. Ýmsum kotbóndanum mun þykja fara verða þröngt fyrir sínum dyrum, ef Lufthansa verður ríkjandi í millilandafluginu hér.
Raungengi ISK hefur hækkað meira en gengi annarra gjaldmiðla, sem við eigum í viðskiptum við og er núna í sögulegu hámarki. Það slæma er, að þetta sögulega hámark er ósjálfbært, og núverandi staða er þess vegna tímabundin. Það er aðeins ein leið af toppnum, eins og kunnugt er. Hún heitir kjararýrnun, og gorgeir einhverra verkalýðsfrömuða breytir þar engu um. Nú þarf að snúa bökum saman í varnarbaráttu til að lágmarka tjón heildarinnar.
Raungengi er annað hugtak en nafngengi. Styrkist raungengið, eins og gerzt hefur undanfarin misseri, er verðlag og/eða launakostnaður að hækka hraðar innanlands en erlendis, mælt í sömu mynt. Raungengi launa hefur hækkað um 20 %-30 % á undanförnum árum, hvað sem gaspri blöðrusela í hópi s.k. verkalýðsforingja líður og túðri um ranga útreikninga, af því að neyzluvísitala og launavísitala séu rangar. Þeir láta sem herskáir séu fyrir hönd umbjóðenda sinna, en þessir umbjóðendur og reyndar þjóðin öll verða fórnarlömb fíflagangs, sem fólginn er í órökstuddum launakröfum, sem atvinnulífið getur ekki borið núna, því að það er tekið að halla verulega undan fæti, sbr bullandi tap í ferðamannageiranum. Ef verkalýðsleiðtogar átta sig ekki á, hvað það þýðir fyrir umbjóðendur þeirra, þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), greindi þessa stöðu rétt þegar 27. febrúar 2018 í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu:
""Viðsnúningurinn er hraðari en spáð var. T.d. er að hægja verulega hratt á vexti ferðaþjónustunnar. Greinin hefur vaxið um tugi prósenta á milli ára undanfarin ár. Nú er hins vegar að hægja á vextinum. Hagvaxtarspár hafa breytzt verulega vegna breyttra forsenda, og við teljum mikilvægt að gefa því sérstakan gaum. Allar spár gera nú ráð fyrir 2-3 % hagvexti á næstu árum, sem er auðvitað ágætis vöxtur í alþjóðlegum samanburði. Þær forsendur geta þó breytzt og hafa verið að breytast samfara því, sem nýjar vísbendingar koma fram", segir Ásdís."
Síðan þetta var sagt hafa horfur alþjóðlegra efnahagsmála versnað ískyggilega. Eldsneytishækkanir hafa þyngt róður margra atvinnugreina hérlendis, þ.á.m. sjávarútvegs og ferðaþjónustu. Samtímis stundar ríkissjóður rányrkju á fyrrnefndu greininni með veiðigjaldi úr takti við afkomuna, og meginmillilandaflugfélögin tvö hérlendis berjast í bökkum vegna gríðarlegra fjárfestinga í flugkosti og harðrar samkeppni á flugleiðum til Íslands. Þýzkum ferðamönnum hingað hefur fækkað mikið, og almennt halda Evrópumenn fastar um budduna en áður. Bandarískum ferðalöngum hefur hins vegar fjölgað, og ekki er farið að slá á kaupgleði Bandaríkjamanna.
Vegna nýjustu mjög neikvæðu þróunar alþjóðamála, sem Bandaríkjastjórn hrinti af stað með viðskiptastríði við Kínverja og hárri tollalagningu á vörur frá ESB, Kanada og Mexíkó, má búast við versnandi hag Bandaríkjamanna og stöðnun eða jafnvel samdrætti ferðamennsku almennt í heiminum. Það er mikil breyting.
Meðferð Bandaríkjamanna á WTO-Alþjóða viðskiptamálastofnuninni er hryllileg. Líklega leiðir þessi ófriður Bandaríkjamanna á viðskiptasviðinu til hrörnunar viðskiptabandalaga á borð við ESB/EES ("Festung Europa") og aukinnar þróunar í átt til tvíhliða fríverzlunarsamninga, vonandi á grundvelli WTO, sem allir ættu að virða, ekki sízt höfundarnir, Bandaríkjamenn.
Síðan snýr Ásdís sér að þróun kaupmáttar í téðu viðtali. Þegar málflutningur hennar er borinn saman við hótanir og háreysti s.k. verkalýðsforingja undanfarið, hvarflar að manni, að hún og þeir búi ekki í sama landi. Ásdís reisir málflutning sinn á staðreyndum, sem eru þessum verkalýðsforingjum aðgengilegar líka, en þeir hunza þær og reyna að sá vantrausti í garð þeirra, sem matreitt hafa þessar staðreyndir. Það er flónska. Slíkt fær almenning til að álykta, að "hávaðaseggirnir" séu með óhreint mjöl í pokahorninu, stefna þeirra snúist ekki um að bæta kjör félagsmanna sinna í bráð og lengd, heldur sé meira í ætt við pólitískt prump sósíalista, fýlubomba úr iðrum stjórnmálanna, frá blöðruselum, sem einskis svífast, en lifa samkvæmt reglunni um, að tilgangurinn helgi meðalið.
""Við höfum upplifað fordæmalausa kaupmáttaraukningu á undanförnum árum. Laun hafa hækkað verulega samtímis því, sem ríkt hefur verðstöðugleiki, sem ekki var fyrirséður. Fyrir því eru þó ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi vorum við heppin með þróun viðskiptakjara. Þau hafa verið okkur hagstæð á undanförnum árum, sem hefur veitt aukið svigrúm til launahækkana. [Nú hafa viðskiptakjör versnað með hækkun eldsneytisverðs og margra annarra innflutningsvara, en verð á útflutningsvörunum er hætt að stíga í bili-innsk. BJo.]
Í öðru lagi styrktist krónan verulega samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar. Það skilaði sér í verðlækkun á innfluttum vörum og þar með minni verðbólgu. [Nú eru tekjur af erlendum ferðamönnum jafnvel farnar að dragast saman-innsk. BJo.]
Í þriðja lagi kom til einskiptisaðgerða frá ríkisstjórninni, og t.d. voru gerðar breytingar á tollum og vörugjöldum, segir Ásdís og bendir á, að sú aðgerð hafi skilað lægra vöruverði."
"Við getum ekki treyst á, að allir þessir þættir endurtaki sig. Í fyrsta lagi er óábyrgt að treysta áfram á hagstæð viðskiptakjör. Við sjáum nú þegar, hvernig farið er að hægja á vexti ferðaþjónustunnar. Frekari gengisstyrking krónunnar er því ólíkleg, a.m.k. í líkingu við það, sem verið hefur. Þá getum við auðvitað ekki endurtekið leikinn aftur með breytingum á tollum og vörugjöldum."
Það er hins vegar eðlilegt í niðursveiflu að huga að skattalækkunum á einstaklinga og fyrirtæki. Hvetja ætti til meiri sparnaðar í þjóðfélaginu með lækkun fjármagnstekjuskatts og huga ætti að lækkun virðisaukaskatts og tekjuskatts á fyrirtæki og að breytingum á fyrirkomulagi persónuafsláttar í þágu launþega með lægstu tekjurnar.
Þann 27. febrúar 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir Halldór Benjamín Þorbergsson:
"Kjarasamningar snúast um lífskjör fólks",
þar sem hann færir rök fyrir því, að tímabil minnkandi hagvaxtar sé hafið. Greinin hófst þannig:
"Kjaraviðræður eru samningar um lífskjör fólks og um jákvæða þróun samfélagsins. Og sú þróun hefur verið gríðarlega hagstæð á undanförnum árum. Kaupmáttur hefur aukizt á tíma gildandi samninga frá apríl 2015 um 20 % og um 25 % hjá þeim lægst launuðu. Það er Evrópu- og Íslandsmet."
Síðan rekur hann, að bættur hagur hafi að hluta verið nýttur til að bæta efnahagslegan mótstöðukraft gegn nýrri efnahagslægð, sem örugglega mun koma:
"Íslenzk heimili, fyrirtæki og hið opinbera, hafa nýtt uppsveifluna til að greiða niður skuldir, og eru Íslendingar nú orðnir hreinir lánveitendur til útlanda. Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins er loksins orðin jákvæð. Þetta er undraverður árangur, ekki sízt þegar horft er til þess, að fyrir örfáum árum glímdi Ísland við alvarlegan skuldavanda."
Þá rekur Halldór Benjamín nokkur merki um, að nú séum við á leið niður eftir þessa uppsveiflu:
"Fyrsta vísbending er vaxandi atvinnuleysi. [Þrátt fyrir gríðarlega fjölgun í landinu vegna aðfluttra hélzt atvinnuleysi í aðeins tæplega 3,0 þar til á 2. ársfjórðungi 2017, en tók þá að hækka og er nú tæplega 4,0 %-innsk. BJo.] ...
Önnur vísbending er minnkandi spenna í efnahagslífinu. [Sannleikurinn er sá, að aðfluttir og gengishækkun ISK hafa dregið úr framleiðsluspennu og þar með hjálpað til við að ná jafnvægi í hagkerfinu á nýjan leik. Ef jákvæður viðskiptajöfnuður minnkar mikið vegna minni útflutningstekna og meiri innflutnings, mun gengi ISK lækka, en það mun væntanlega auka verðbólgu, sem enn dregur úr atvinnu og rýrir lífskjörin-innsk. BJo.] ...
Þriðja vísbending er í ferðaþjónustu. [ Á þessu ári verður lítil fjölgun erlendra ferðamanna og sums staðar fækkun. Tekjur af þeim hér innanlands (flug ekki meðtalið) gætu jafnvel dregizt saman í ISK-innsk. BJo.] ....
Fjórða vísbending er í fréttum úr atvinnulífinu. Nær daglega birtast fréttir af íslenzkum fyrirtækjum, sem finna fyrir versnandi samkeppnisstöðu við útlönd. Það, sem helzt veldur fyrirtækjunum áhyggjum, er hátt gengi krónunnar og íþyngjandi launakostnaður. Skyldi engan undra. Raungengi íslenzkra launa, þ.e. hlutfallslegur kaupmáttur þeirra í erlendri mynt saman borin við laun í öðrum ríkjum, hefur rokið upp á síðustu árum."
Nú þarf að leggja áherzlu á að halda sjó. Það verður bezt gert með því að gera a.m.k. árshlé á launahækkunum á meðan í ljós kemur, hvað verður um heimshagkerfið á þessum óvissutíma. Í versta tilviki stefnir í heimskreppu, og þá er nú aldeilis betra að rifa seglin hér í tæka tíð, en spenna ekki bogann um of á versta tíma. Við vitum hvað það þýðir. Kreppan verður þá enn dýpri og sársaukafyllri hér en annars staðar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.7.2018 | 09:33
Viðskiptastríð
Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin skuli á árinu 2018 upplifa viðskiptastríð stórvelda, þ.á.m. Bandaríkjanna við bandamenn sína, þótt Bandaríkjamenn berðust ötullegast fyrir viðskiptafrelsi á síðustu öld og lengst af þessari. Þeir voru aðalhöfundar WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, en nú hunza þeir gjörsamlega regluverk hennar. Þetta er forkastanleg hegðun, enda hafa Bandaríkjamenn grafið undan trausti bandamanna sinna til sín. Ef fram heldur sem horfir, mun "America first" stefna Bandaríkjastjórnar leiða til einangrunarhyggju þessa mesta stórveldis fyrr og síðar. Það mun gjörbreyta valdahlutföllum í heiminum.
Allt er í heiminum hverfult, og nú er skollið á viðskiptastríð á milli rótgróinna bandamanna, þ.e. stríð BNA við ESB, Kanada, Japan o.fl. Forseti BNA hefur jafnvel varpað fram efasemdum um grundvallarreglu NATO, 5. greinina, um að árás á einn jafngildi árás á alla og verði svarað sem stríðsyfirlýsingu á NATO. Allt þetta hlýtur að draga sögulegan dilk á eftir sér. Eru Bandaríkjamenn enn staðráðnir í að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningi sínum við Ísland ? Slík spurning hefði verið fráleit fyrir 2 árum, en er hún það nú ?
Augljóslega er nú kostur fyrir Íslendinga að standa utan ESB og losna þar með við viðsjárvert og kostnaðarsamt viðskiptastríð, en óbeinum afleiðingum viðskiptastríðs losnar þó enginn undan. Þær eru samdráttur alþjóðlegra viðskipta og fjárfestinga, sem strax leiðir til minni hagvaxtar alls staðar, mun breyta innbyrðis hlutföllum á gengi gjaldmiðla og getur endað með heimskreppu, eins og gerðist fyrir 90 árum.
Það vinnur enginn viðskiptastríð. Donald Trump gumar af því, að Bandaríkjamenn vinni þetta viðskiptastríð auðveldlega. Hann á eftir að komast að öðru. Það ættu Bandaríkjamenn að vita, eins og aðrir, og þeir hafa ekki leyfi til að ganga fram með þessum hætti, gjörsamlega í trássi við "barn sitt", Alþjóða viðskiptastofnunina-WTO. "America first" gengur ekki upp.
Leikritið, sem við horfum á núna, er raunveruleikaþátturinn "Skipbrot bandaríska auðvaldskerfisins", hvorki meira né minna. Bandaríkin, forysturíki auðvaldsins, kveina nú og kvarta undan frjálsri samkeppni, aðallega við þróunarlandið Kína og "elliheimilið" ESB, og setja í kjölfarið tolla á varning frá þeim án nokkurra viðræðna innan WTO ! Svona gera menn ekki, nema þeir séu ákveðnir í að grafa undan sjálfum sér, því að sér grefur gröf, þótt grafi.
Það er einfeldningslegt, ef einhver heldur, að tollar á innflutning komi ekki niður á lífskjörum íbúanna, sem látið er í veðri vaka, að verið sé að vernda. Íslendingar afnámu fyrir 3 árum tolla og vörugjöld á öllum vörum, nema eldsneytisbílum og eldsneyti. Það bætti kjör landsmanna sannanlega. Bandaríkjamenn munu fljótlega átta sig á raunveruleikanum og væntanlega taka afstöðu samkvæmt því í þingkosningunum í nóvember 2018. Gæti þá þessum farsa lokið áður en gengið verður af frjálsum viðskiptum dauðum um langa framtíð.
Lítum á upphafið að þessum ósköpum. 15. júní 2018 gaf Trumpstjórnin út tvo lista með kínverskum vörum, sem hún hugðist skella 25 % tollum á, vöruandvirði miaUSD 50 árið 2017. Sá fyrri tók gildi 6. júlí 2018. Kínverjar endurguldu með eigin lista sömu upphæðar. Þá gaf Donald Trump skipun til Roberts Lighthizer, viðskiptafulltrúa BNA (USTR), að útbúa nýjan lista að virði miaUSD 200, sem á skyldi leggja 10 % toll, og hótaði enn öðrum, að vöruandvirði miaUSD 200. Heildin, miaUSD 450, er um 80 % af heildarútflutningi Kína til BNA. Kínverjar flytja hins vegar aðeins inn frá BNA fjórðung af útflutningsverðmætunum þangað. Það er ein af meinsemdunum, en segir ekki alla söguna.
Kína lítur á upphafsleik BNA sem einhliða brot á alþjóðlegum reglum um viðskipti (WTO). Lögð hefur verið fram kæra hjá WTO. Teymi Trumps heldur því fram, að Kínverjar hafi hafið þessi átök með því að stela þekkingu frá Bandaríkjamönnum og reka óheiðarlega viðskiptastefnu (undirboð). Þegar búið er að leggja tolla á, gleymist rétt og rangt og jafnvel hlutverk WTO í málinu. Dæmigert stríðsástand.
Skrifstofa USTR hefur tekið sér tíma til að velja vörur til tolllagningar. Hún vill valda bandarískum neytendum lágmarkskostnaði og kínverskum útflytjendum hámarkstjóni. Af vörunum á listum frá 15. júní 2018 voru 95 % af verðgildinu fjárfestingarvörur eða íhlutir. Það átti að draga úr skammtímaáhrifum á verðlag í BNA, þar sem framleiðslukostnaður hækkar sáralítið við álagninguna. USTR hefur líka reynt að tryggja, að bandarískir innflytjendur gætu fundið aðra birgja. Samkvæmt ITC (International Trade Centre) þá nemur hlutdeild Kínverja aðeins 8 % af heildarinnflutningi þessara vara.
Það fer þó ekki hjá því, að tollarnir skaði bandarísk fyrirtæki, því að þau verða fyrir kostnaði, en ekki alþjóðlegir keppinautar þeirra. Jafnvel þótt í hlut eigi vörur með lítilli kínverskri hlutdeild, getur verið hægara sagt en gert að skipta um birgi. Í yfirheyrslum þingnefndar skýrðu fulltrúar risans GE frá því, að sérhæfðir íhlutir þess fari í alls konar gæðaprófanir og opinbert samþykktarferli, en af 34 íhlutum, sem fyrirtækið vildi fjarlægja af tollalistum USTR, var enginn fjarlægður.
Að valda Kína tjóni gæti líka verið hægara sagt en gert. Trumpstjórnin vill hemja metnað Kínverja á þýðingarmiklum sviðum, sem þeir kalla "Made in China 2025". Þetta hittir Kanann þó sjálfan fyrir, því að samkvæmt Yang Liang í Syracuse háskólanum og Mary Lovely í Peterson Institute for International Economics, sem er hugveita í Washington DC, komu 55 % af hátækni útflutningsvörum Kínverja 2013 til BNA frá fyrirtækjum að fullu í erlendri eigu í Kína. miaUSD 3,6 virði hálfleiðara innflutnings frá Kína í eldlínunni eru aðallega frá bandarískum dótturfyrirtækjum, innihalda díóður, transistora og týristora, sem framleiddir eru í BNA og fluttir til Kína vegna tímafrekrar samsetningar og prófana.
Byrjunarandsvar Kínverja snertir landbúnaðarafurðir, sem aðallega koma frá ríkjum, sem studdu Trump 2016, svo að greinilega er stílað inn á kosningarnar í nóvember 2018 í þessu stríði. Eftir því sem stríðið magnast, dreifist tjónið um samfélagið. Árið 2017 fluttu Bandaríkjamenn inn vörur frá Kína fyrir miaUSD 505. Ef tollar verða lagðir á vörur fyrir miaUSD 250, svo að ekki sé minnzt á miaUSD 450, verður ómögulegt að forðast neytendavörur á borð við föt og rafeindatæki. Vörur með fáa staðgöngubirgja verða fyrir barðinu. Bandarískum innflytjendum mun reynast erfiðara en áður að forðast verðhækkanir til neytenda.
Dmitry Grozubinski hjá hugveitunni "International Centre for Trade and Sustainable Development" er með sláandi samlíkingu í greininni "Battle-lines drawn" í "The Economist" 23. júní 2018: "Viðskiptastríði má jafna við það að sprengja upp eigin borgir og blása rykinu og reyknum yfir landamærin í von um, að íbúunum þar (andstæðingunum) súrni í augum."
Árið 2017 fluttu Kinverjar aðeins inn fyrir miaUSD 130 frá Bandaríkjamönnum, svo að þeir hafa minna svigrúm í viðskiptastríði, en geta hins vegar gripið til annarra refsinga. Þeir gætu stöðvað námsmannaferðir og ferðalög Kínverja til Bandaríkjanna. Þeir gætu með beitingu reglugerða gert bandarískum fyrirtækjum erfitt fyrir í Kína. Samkvæmt upplýsingum frá Bandarísk-kínverska viðskiptaráðinu hefur kínverska ríkisstjórnin rætt við kínversk fyrirtæki um að finna staðgönguvörur fyrir bandarískar vörur, sem þau nota. Þetta mun leiða til minni bandarískra fjárfestinga í Kína, en bandarísk yfirvöld gráta krókódílstárum yfir því. Allt er þetta makalaust. Adam Smith, höfundur auðgunarstefnunnar, verður væntanlega ekki vært í gröfinni við þessi öfugmæli.
Þessi yfirferð ætti að sannfæra flesta um, að andstæðan við þá andstyggilegu og viðsjárverðu stöðu, sem upp er komin á milli stórvelda, þ.e. fríverzlun þeirra og annarra á milli, er hagstæðasta fyrirkomulagið. Leita þarf annarra leiða til að auka samkeppnihæfni landa og minnka viðskiptahalla en að leggja á innflutningsgjöld.
E.t.v. hefur bandaríkjadalur verið of hátt skráður undanfarið. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur verið að þoka stýrivöxtum sínum upp, sem hefur leitt til fjárstreymis til BNA. Donald Trump hefur fyrstur Bandaríkjaforseta í háa herrans tíð gagnrýnt "Federal Reserve" fyrir vaxtastefnu seðlabankans, og hann hefur sakað ESB um að halda gengi evrunnar niðri til að styrkja viðskiptastöðu evrulandanna. Samtímis lætur hann skammirnar dynja á Þjóðverjum, enda eru þeir með yfir 5 % viðskiptaafgang af sinni VLF.
Þetta er mjög ósanngjörn gagnrýni, því að Þjóðverjar hafa verið manna gagnrýnastir á Ítalann Mario Draghi og bankastjórn ECB-evrubankans fyrir peningamálastjórnun bankans, sem Þjóðverjar telja auka of mikið peningamagn í umferð og verða verðbólguhvetjandi, er frá líður, og ræni þýzka sparifjáreigendur sanngjarnri ávöxtun af heiðarlegum sparnaði sínum, t.d. til elliáranna, en hvetji þess í stað til neyzlu. Þessi gagnrýni hefur t.d. komið frá yfirstjórn Bundesbank, banka ofurmarksins, DEM.
Þessir atburðir, sem að ofan er lýst, hafa eyðilagt gamalgróið traust, sem ríkt hefur á milli vestrænna ríkja yfir Atlantshafið. Það verður ekki endurreist í sjónhendingu. Þetta á líka við öryggis- og varnarmál. Afleiðingarnar verða stórvægilegar og alvarlegar.
Íslendingar hafa varnarsamning við Bandaríkin. Hvers virði er hann ? Við þessar aðstæður er Íslendingum hollast að reyna að stunda fríverzlun við sem flesta og ekki að loka sig af innan einhverra tollmúra, heldur ekki "Festung Europa", sem aðallega hefur verið fólgin í tæknilegum viðskiptahindrunum út á við á borð við framleiðslu- og gæðastaðla.
Árið 1918 endaði fyrri heimsstyrjöldin fyrir tilverknað Bandaríkjamanna með uppgjöf Miðveldanna. Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseti, boðaði árið 1918 sjálfstæði þjóðríkja. Sá boðskapur varð vatn á myllu íslenzku þingnefndarinnar, sem samdi um fullveldi við danska þingnefnd í Reykjavík 18. júlí 1918. Bandaríkin urðu fyrst til að viðurkenna lýðveldið Ísland 1944 og tryggðu öryggi þess. Árið 2018 brauzt út viðskiptastríð Bandaríkjanna við umheiminn. Hvernig fer með fullveldi landsins árið 2018 í hverfulum heimi ? Það er engum að treysta. Þjóðir eiga enga vini. Stundum fara hagsmunir sumra saman, og stundum fara hagsmunir annarra saman. Ræður íslenzka utanríkisráðuneytið fram úr þessari flóknu stöðu, þannig að hagsmunum Íslands verði borgið í bráð ? Það má efast.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.7.2018 | 10:24
Út úr EES með tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning
Það er vel gerlegt að mati höfunda "Alternativrapporten" í Noregi að fá rammasamning við ESB um alla samninga viðkomandi lands við ESB - án þess að slíkur þurfi að fela í sér nánari samruna við ESB, eins og bandalagið þó og ýmsir hérlendir menn, ekki hvað sízt embættismenn, virðast hafa mestan hug á.
Til þess að slíkur samningur losi Ísland við núverandi stjórnlagalegar efasemdir um lögmæti samstarfsins við ESB, þarf að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin, sem kveða á um, að allar gjörðir, sem ESB merkir sem EES-viðeigandi, séu innleiddar á færibandi á Íslandi.
Þannig er hægt að stofna til tvíhliða viðskipta- og samstarfssamnings við ESB, sem felur í sér þá þætti EES-samningsins, sem samstaða er um að halda áfram með, þ.e. atriði, sem hagstæð eru báðum aðilum, með gildissvið og innihald, sem er ásættanlegt fyrir báða samningsaðila. Breytingar á nýja samninginum munu þá einvörðungu eiga sér stað eftir viðræður og samþykki beggja, öfugt við núverandi sjálfvirka fyrirkomulag, sem ógnar fullveldi Íslands og Noregs í ýmsum tilvikum og skapar þess vegna óvissu um lögmæti Evrópugerðanna í þessum tveimur löndum.
ESB hefur gert yfir 200 viðskiptasamninga við lönd alls staðar í heiminum. Þeir eru næstum allir tvíhliða og venjulega ekki rammar utan um sjálfvirka upptöku gjörða, eins og EES-samningurinn. Hvers vegna ætti ESB að þverskallast við slíkum samningi við Ísland, nú þegar fullreynt er, að EES-samningurinn verður aldrei neitt stökkbretti landsmanna inn í ESB, eins og margir hugðu, er til var stofnað, m.a. þáverandi stjórnendur ESB ?
ESB hefur líka gert tvíhliða samninga um annars konar samstarf, t.d. um þátttöku í rannsóknarverkefnum, við fjölmörg lönd. Sviss er með viðamestu tvíhliða samningana við ESB. Tilkynning ESB um, að þar á bæ óski menn eftir að breyta samningunum við Sviss í áttina að sjálfvirkara EES-fyrirkomulagi þýðir ekki, að ESB útiloki nýja tvíhliða samninga. Þetta er aðferð ESB við að hefja samningaviðræður við Svisslendinga, og að baki býr ósk ESB um aukna vitneskju um svissneska bankakerfið.
ESB hefur verið með samninga í gangi um tvíhliða viðskiptasamninga við m.a. Indland, Kanada, Egyptaland og Japan, sem hvert um sig hefur minna viðskiptalegt vægi fyrir ESB en t.d. Noregur, aðallega vegna ál- og gasútflutnings Norðmanna.
Eðlilegt er að gera ráð fyrir, varðandi nýjan tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB, að aðrir hlutar EES-samningsins en þeir óaðgengilegu verði framlengdir við uppsögn heildarsamningsins. Gildissvið tvíhliða samningsins verða að vera nákvæmlega skilgreind, og hann verður að vera einvörðungu þjóðréttarlegrar gerðar, svo að hann stangist ekki á við Stjórnarskrá. Samstarfssvið, sem raunhæft er að semja um, eru t.d. rannsóknir, menntun og menning með þátttöku í rammaverkefnum ESB, annaðhvort að fullu eða að hluta, ásamt umhverfisvernd með þátttöku í Evrópsku umhverfisstofnuninni.
Samningurinn má þó ekki fela í sér fyrirkomulag, sem þrýstir á Ísland um að innleiða nýjar gjörðir frá ESB. Ef Íslendingar vilja taka upp nýjar reglur frá ESB, þarf að endursemja um samninginn eða bæta umsömdum viðaukum við hann.
Samningslíkan af þessum toga þýðir, að Ísland getur krafizt einhvers á móti frá ESB gegn því að taka upp nýtt ESB-regluverk. Þannig kemst á samningsleg jafnstaða samningsaðilanna. Vald má heldur ekki framselja frá Íslandi til nokkurrar eftirlitsstofnunar á borð við ESA eða EFTA/ESB dómstólana. Deilur skal leysa á vettvangi stjórnmálanna. Með því að fjarlægja núverandi fyrirkomulag fjölþjóðlegs framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds, sem er í EES-samninginum, ásamt "sjálfvirku" ferli markaðsvæðingar á æ fleiri sviðum með innleiðingu nýrra ESB-gerða, má aðgreina tvíhliða samning með skýrum hætti frá EES-samninginum.
Er líklegt, að "breiður" stuðningur verði við slíkan tvíhliða samning Íslands og ESB hér innanlands ? Það fer dálítið eftir því, hvernig að honum yrði staðið. Á undirbúningsstigum málsins þarf að kveðja að alla helztu hagsmunaaðila, sem fái tækifæri til að koma að atriðum, sem þeir vilja setja á oddinn, áður en setzt er að samningaborðinu með ESB. Um slíkan samning gæti náðst góð samstaða í landinu, og um hann gæti orðið langvarandi friður. Slíkt yrði stórt framfaraspor í samanburði við hinn umdeilanlega, óhagstæða, þrúgandi og að margra mati ólögmæta EES-samning.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 28.7.2018 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2018 | 09:35
Nútímalegur viðskiptasamningur við ESB í stað EES-helsis
Á fyrri hluta 8. áratugar 20. aldarinnar gerðu Norðmenn og Íslendingar viðskiptasamning við ESB. Sá samningur tæki sjálfkrafa gildi við útgöngu úr EES-samstarfinu, ef ekki hefur innan árs frá uppsögn EES-samningsins tekizt að gera fríverzlunarsamning við ESB, t.d. í líkingu við samning ESB við Kanada og Japan.
Á tveimur sviðum var EES-samningurinn ívið hagstæðari Íslandi og Noregi en gamli viðskiptasamningurinn var. Í fyrsta lagi voru tollar á unnum fiskafurðum ívið lægri samkvæmt EES-samninginum, og í öðru lagi getur ESB ekki gripið til aðgerða gegn meintum undirboðum íslenzks iðnaðar í EES, eins og viðskiptasamningurinn leyfði. Þetta eru þó harla léttvægir kostir.
Rannsóknarstjóri við Sjávarútvegsháskóla Noregs, Peter Örebech, reiknaði út í skýrslu um norska valkostaverkefnið (við EES) haustið 2011, að hækkun tollheimtu af unnum fiskafurðum við að hverfa aftur til gamla viðskiptasamningsins gæti að hámarki orðið 1,8 % af útflutningsandvirði þessara afurða. Örebech komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að þetta hefði engin áhrif á markaðshlutdeild Noregs í ESB á þessu sviði, svo að tekjulækkun sjávarútvegsins yrði engin. Hið sama mun gilda fyrir Ísland.
Á Íslandi tíðkast enginn opinber stuðningur við útflutningsiðnað, sem ekki er leyfilegur samkvæmt ESA og Evrópurétti, nema þá á sviði raforkumála, þar sem ESA hefur fett fingur út í það, að raforkuvinnslufyrirtækin hafi frían aðgang að orkulindunum. Þetta er að vísu ekki alls kostar rétt, en má engu að síður bæta úr með auðlindagjaldi eða fasteignagjaldi af vatnsréttindum og gufuréttindum, eins og Hæstiréttur hefur dæmt Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun, sem er líka sjálfsagt mál til að jafna aðstöðumun atvinnugreina innanlands, sem nýta náttúruauðlindir. Allar eiga þær að greiða sams konar auðlindagjald, þegar auðlindarenta finnst í bókhaldi þeirra.
Fyrir matvælaiðnaðinn var EES-samningurinn að vissu leyti um tíma betri en viðskiptasamningurinn var. Annars vegar átti EES-samningurinn að vernda afurðastöðvar landbúnaðarins gegn því að verða undir í samkeppni við innflutning frá ESB, og hins vegar fól hann í sér vissar tollalækkanir fyrir fiskiðnaðinn, sem flutti út vörur til ESB.
Þessi sviðsmynd er breytt. Í nokkrum samningalotum við ESB er búið að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur. Í raun hefur átt sér stað mikil aukning innflutnings landbúnaðarvara frá ESB, en útflutningur slíkra vara hefur að mestu staðið í stað. Í þessu sambandi verður að nefna innflutning á hráu kjöti, mjólkurvörum og eggjum, en ESB hefur sýnt ósveigjanleika og óbilgirni gagnvart röksemdum íslenzkra stjórnvalda um nauðsyn þess að beita sérstökum varúðarráðstöfunum til verndar íslenzkum dýrastofnum og mönnum gagnvart sýkingum frá bakteríum, sem ekki hafa náð fótfestu hérlendis. Það er gjörsamlega ólíðandi átroðsla að hálfu ESB að hunza ráðleggingar færustu sérfræðinga hér á sviði þessara sýkinga, og myndar sterk rök fyrir uppsögn mjög íþyngjandi samnings E.
Fyrir þjónustustarfsemi hérlendis er erfitt að sýna fram á, að hún hafi unnið stærri markað en hún hefur tapað með EES-samninginum. Dæmi hafa komið upp um ólöglega og ósiðlega starfsemi hérlendis við útleigu á vinnuafli, sem er nánast meðhöndlað eins og þrælar, í skjóli fjórfrelsisins á Innri markaðinum um frjálsa för fólks. Mikill innflutningur verkafólks hefur klárlega dregið úr launaskriði hér, en sterkur grunur leikur á um undirboð og reyndar ófá dæmi um þau, sem gera löghlýðnum íslenzkum atvinnurekendum lífið erfitt.
Uppsögn EES-samningsins og útganga úr Schengen-fyrirbærinu mundi gera slíkri og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi erfiðara um vik, en vinnuveitendur gætu eftir sem áður leitað eftir erlendum vinnukrafti, ef þörf reynist á á toppi hagsveiflunnar. Við 3 % árlegan hagvöxt eða minni er aðeins þörf fyrir slíkt í undantekningartilvikum.
Þegar öllu er á botninn hvolft, er ekkert viðskiptalegt hagræði af EES-samninginum í samanburði við fríverzlunarsamning. EES-samningurinn opnar fámennt velferðarsamfélag fyrir straumi efnahagsflóttamanna og glæpagengja. Hann er mjög íþyngjandi byrði á fyrirtækjum og stjórnkerfi landsins vegna reglugerðafargans, sem hamlar nauðsynlegri framleiðniaukningu á öllum sviðum. Það er grundvallar misskilningur, að smáþjóð geti með góðum árangri tekið þátt í því risavaxna búrókratíska kerfi, sem ESB er. Reynslan sýnir það einfaldlega, að gerðir ESB eru hér innleiddar á færibandi gagnrýnislaust, þótt þær eigi hingað ekkert erindi í sinni hráu mynd.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)