Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Undanhaldsmenn vorra tíma

Alþingi samþykkti nýlega gríðarlegan lagabálk frá Evrópusambandinu, ESB, um persónuvernd.  Það eru áhöld um, hvort persónuvernd Íslendinga verði markvert betur komið eftir innleiðingu þessa lagabálks en áður. Það er líka ástæða til að staldra við og athuga, hvort s.k. persónuvernd sé komin út í öfgar.  Kári Stefánsson, læknir, hefur t.d. bent á, hversu öfugsnúin persónuverndarlagaflækjan er orðin, þegar hún kemur í veg fyrir, að bjargað sé lífi með upplýsingagjöf til þeirra, sem búa að áhættusömum erfðaeiginleikum.

  Það er engum vafa undirorpið, að beinn fjárhagslegur kostnaður þjóðfélagsins er allt of hár m.v. ávinning samfélagsins af risaumgjörð um lítið.  M.v. kostnaðaráætlanir, sem sézt hafa, t.d. í Viðskiptablaðinu 21. júní 2018, má ætla, að heildarstofnkostnaður á Íslandi muni nema miaISK 20 og rekstrarkostnaður kerfisins verði 11 miaISK/ár.  Þetta höfum við upp úr því að kokgleypa lagasetningarvald búrókratanna í Brüssel, sem ýja ekki hálfri hugsun að aðstæðum í 0,35 M manna samfélagi, þegar þeir semja sín lög.  Það er fáheyrt, að ráðamenn hér skuli hafa afnumið lýðræðið hérlendis að stórum hluta og sett landsmenn í spennitreyju stjórnlauss kostnaðarauka, sem lítið sem ekkert gefur í aðra hönd. Ekki sízt í ljósi veikrar samkeppnisstöðu fyrirtækjanna verður að stöðva þessa öfugþróun hið snarasta.  Á aldarafmælisári fullveldis er afmælisbarnið, óskabarn þjóðarinnar, að verða hjómið eitt. Það verður holur hljómur frá sömu stjórnmálamönnum, sem í hátíðarræðum munu berja sér á brjóst og dásama fullveldið.  

Stofnkostnaður á við 65 MW virkjun og rekstrarkostnaður á við 950 MW vatnsaflsvirkjun, sem fer beint út um gluggann, er þyngri en tárum taki, enda mun þessi gjörningur óhjákvæmilega draga niður lífskjörin hér í okkar smáa samfélagi.  Þegar af þeirri ástæðu er þetta óverjandi gjörningur, en verra er þó, að í innleiðingu hans í íslenzka lagasafnið felst skýlaust Stjórnarskrárbrot og að auki brot á upphaflega EES-samninginum, sem kvað fortakslaust á um tveggja stoða fyrirkomulag, jafnréttisstöðu EFTA og ESB, við innleiðingu nýrra gjörða frá ESB. Það sýnir sig, að þrýstingur frá hinum tveimur EFTA-löndunum og ESB er íslenzkum valdsmönnum ofviða.  Við þessu er aðeins eitt svar.  Róttæk breyting á tengslum Íslands við ESB.  

Þetta kom allt fram í greinargerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, sérfræðings í Evrópurétti til utanríkisráðherra, sem fékk Stefán ráðuneytingu til halds og trausta í undirbúningi innleiðingar, en hunzaði síðan ráðleggingar hans fullkomlega.  Svona gera menn ekki. 

Það var ekki að ófyrirsynju, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, reit á innlendan vettvang sinn í Morgunblaðinu 16. júní 2018 greinina:

"Er sjálfstæðisbaráttan að gleymast ?"

"Í stórmerkri ræðu, sem Bjarni, heitinn, Benediktsson, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, flutti á Landsfundi flokksins á Þingvöllum 18. júní 1943, ræddi hann um fullveldið 1918, sem við minnumst á þessu ári, og sagði:

"En sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að þessu leyti lauk með sigri 1918, segja sumir.  Vissulega má til sanns vegar færa, að þá hafi ánauð hennar verið lokið. En var fullt stjórnskipulegt frelsi hennar þar með fengið ?  Var verkefni hinnar eiginlegu sjálfstæðisbaráttu þar með úr sögunni ?

Mundi sá bóndi telja sig að fullu frjálsan, sem að vísu mætti ákveða sjálfum sér og heimafólki sínu reglur til að fara eftir, en þyrfti þó að leita samþykkis óðalsbónda á fjarlægri jörð til þess að fyrirmælin hefðu nokkra þýðingu ?  Ef hann mætti ekki hafa skipti við nágranna sína, nema fyrir milligöngu óðalsbóndans eða öllu heldur vinnumanna hans, yrði að hafa einhvern þessara vinnumanna með í förinni, ef hann skryppi í kaupstað, og engin þessara viðskipta hefðu lögformlegt gildi, nema óðalsbóndinn samþykkti ?  Ef hann að vísu mætti hafa eigin hund til að reka úr túninu, en hefði þó, til þess að víst væri, að fjárreksturinn færi fram eftir öllum listarinnar reglum, jafnframt sérstaklega vaninn hund frá óðalsbóndanum til túngæzlunnar ?  Og mundi bóndi telja þann eignarrétt á jörð sinni mikils virði, sem því skilyrði væri háður, að 30 menn aðrir mættu hafa af henni öll hin sömu not og sjálfur hann ?

Slíku frelsi mundi enginn íslenzkur bóndi una til lengdar.  Auðvitað þættu honum þessi kjör betri en alger ánauð, en honum mundi þykja það furðulegt, ef honum væri sagt, að nú væri frelsisbaráttu hans lokið.  Og honum mundi þykja það óþörf spurning, ef hann væri að því spurður, hvort hann vildi ekki una þessum kjörum sínum enn um sinn, þegar sá tími væri kominn, að hann ætti rétt á algeru frelsi. En aðstaða íslenzku þjóðarinnar er eftir sambandslögunum einmitt hin sama og bónda þess, sem nú var lýst."

Þetta var áhrifarík lýsing á aðstöðu íslenzku þjóðarinnar árið 1943 hjá dr Bjarna Benediktssyni.  Það er sláandi, að mörg atriði í þessari dæmisögu eiga við aðstöðu Íslendinga á 100 ára afmælisári fullveldisins, þótt lýðveldið sé orðið 74 ára, vegna þróunarinnar á EES-samninginum, sem Alþingi samþykkti í ársbyrjun 1993. Viðskiptaaðgangur að Innri markaði EES er einfaldlega allt of dýru verði keyptur.  HINGAÐ  

Þingmenn samþykkja nú hvern stórgjörninginn frá Brüssel og telja það skyldu sína, sem er alrangt í þeim tilvikum, þegar þessir gjörningar virða ekki upprunalegt tveggja stoða samkomulag EFTA og ESB og/eða þegar innleiðing þessara gjörninga felur í sér brot á Stjórnarskrá Íslands, sem að beztu manna yfirsýn var í tilviki nýsamþykktrar persónuverndarlöggjafar.

Styrmir skrifar:

"Og hvernig má það vera, að forystusveit þess flokks, sem óumdeilanlega hafði algera forystu í lokakafla sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar, hafi haft þær athugasemdir um stjórnarskrárbrot að engu, sem fram komu ?"

Í lok gagmerkrar greinar sinnar skrifaði Styrmir og skal taka undir hvert orð:

"Það er hægt að krefjast breytinga á EES, og það er líka hægt að segja þeim samningi upp.  Á Þingvöllum fyrir 75 árum talaði Bjarni, heitinn, um "undanhaldsmenn" þeirra tíma.  Getur verið, að undanhaldsmenn okkar tíma séu þeir, sem hörfa skref af skrefi undan ásókn Brüssel ?  

Hvað ætla þeir að gera með orkumálapakka ESB í haust ?  Ætla þeir að opna leiðina fyrir yfirráð Brüssel yfir þeirri auðlind, sem felst í orku fallvatnanna ?"

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er: undanhaldsmenn vorra tíma eru þeir, sem hörfa skref eftir skref undan ásókn Brüssel.  Þessa skulu landsmenn minnast, þegar þeir heyra væmnar skjallræður um baráttumennina fyrir sjálfstæði Íslands á aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar.  

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki beðið eftir niðurstöðu nefndar um reynsluna af EES.  Sú reynsla liggur  í augum uppi.  Flokkurinn verður nú sjálfur að rísa undir nafni og móta stefnu gagnvart EES samkvæmt því.  Að öðrum kosti er hætt við, að flokkurinn missi hreinlega fótanna í íslenzku samfélagi.  

 

 

 


Ádrepa frá EES í garð Hæstaréttar

Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Eftirlitsstofnun EFTA, sem í raun er handlangari Evrópusambandsins, ESB, er farin að senda áminningarbréf til utanríkisráðuneytis Íslands út af því, að Hæstiréttur Íslands láti ekki EES-löggjöf njóta forgangs gagnvart íslenzkri löggjöf, eins og kveðið sé á um í EES-samninginum.  Víst er, að slíkar ádrepur munu verða tíðari, ef Alþingi samþykkir stóra lagabálka á borð við Persónuverndarlagabálkinn og Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem hvor um sig færir innlent vald til yfirþjóðlegrar stofnunar. Sennilega telur Hæstiréttur þessar kröfur ESA stríða gegn Stjórnarskrá. EES-aðildin leiðir til lögfræðilegs kviksyndis. Það er mikill ábyrgðarhluti að hálfu þingheims að leiða landsmenn lengra út í það fúafen.

13. desember 2017 sendi ESA formlegt upphafsbréf til íslenzka utanríkisráðuneytisins um mál, sem snýst um, að Ísland hafi ekki uppfyllt réttarfarslegar skyldur sínar samkvæmt Bókun 35 við EES-samninginn og að þar með hafi Ísland brotið gegn EES-samninginum, grein nr 3. Bréfið sjálft er í viðhengi þessa pistils. 

ESA vísar til nokkurra dóma Hæstaréttar, þar sem hann virðist ekki hafa farið eftir Bókun 35 um, að landsreglan skuli víkja.

Bókun 35: "Í tilviki mögulegra árekstra á milli framkvæmdar á EES-reglum við aðrar lagareglur, skuldbinda EFTA-ríkin sig til, ef nauðsyn reynist, að setja í lög, að EES-reglurnar skuli hafa forgang í slíkum tilvikum." 

Stenzt þetta íslenzku Stjórnarskrána ?

Grein 3 í EES-samninginum hljóðar svo: "Samningsaðilar skulu gera almennar eða sértækar ráðstafanir til að uppfylla skyldur, sem leiða af þessum samningi.  Þeir skulu forðast allt, sem getur ógnað markmiðum þessa samnings.  Þeir skulu ennfremur létta samstarfið innan ramma þessa samnings."

Bókun 35 fyrirskrifar sem sagt, að EES-reglur skuli í framkvæmd njóta forgangs fram yfir aðrar lagareglur.  Þetta felur í sér, að EES-rétturinn almennt nýtur ekki forgangs fram yfir þjóðarrétt, en þegar kemur að framkvæmdinni og velja þarf á milli, er EES-rétturinn þó rétthærri.  Ennfremur merkir þetta, að EES-rétturinn nýtur ekki forgangs gagnvart Stjórnarskrá.  Hlutverk bókunarinnar er, að EES-rétturinn hafi svipað afl í  EFTA-löndunum eins og EES-rétturinn og viðeigandi ESB-reglur í aðildarlöndum ESB, en án þess að valdsvið löggjafans í EFTA-löndunum sé almennt rýrt.

EFTA-dómstóllinn, sem ætíð nýtir dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, ef þau finnst, hefur í dómaframkvæmd lýst notkunarsviði þessarar grunnreglu um að veita EES-réttinum forgang þannig, að það gildi um EES-reglur í verki, sem séu nægilega skýlausar og nákvæmar til að veita einkaaðilum réttindi.  

Skýringin á því, að ESA hefur nú undirbúið málssókn gegn Íslandi, er, að Ísland hefur ekki framkvæmt Bókun 35 við grein 3 í EES-löggjöf sinni, sem fyrirskrifar, að "statutes and regulations shall be interpreted, in so far as appropriate, in conformity with the EEA Agreement and the rules laid down therein". 

Að mati ESA gefur íslenzka ákvæðið einvörðungu til kynna, að landsreglur skuli túlka í samræmi við ætlaða meginlagareglu EES.  Ætlaða meginreglan felur í sér, að gert er ráð fyrir, að landsreglur séu í samræmi við kvaðir EES-réttarfars.  Þessi túlkunarmeginregla leysir hins vegar ekki úr tilvikum, þegar staðfest er ósamræmi á milli landsreglunnar og þjóðréttarlegra kvaða.  

Það er athyglisvert, að ESA heldur því fram, að Hæstiréttur Íslands brjóti í bága við Bókun 35, þótt athyglinni sé beint að innleiðingu löggjafans á Bókun 35.  Þetta getur vakið umræðu um, hvort ESA telji Bókun 35 hafa bein áhrif á þjóðréttinn.  

Ísland fékk frest til 13. ágúst 2018 til að svara upphafsbréfi ESA, og verður athyglisvert að sjá viðbrögð Stjórnarráðsins.

Ýmsir hafa fallið í þá gryfju að halda því blákalt fram, eins og Viðskiptablaðið (VB) 14. maí 2018 og nokkrum sinnum áður með vísun til túlkunar "Stjórnarráðsins", að áhrif meiri háttar gjörninga ESB muni "lítil" áhrif hafa á Íslandi, þótt Íslendingar gangist undir lögsögu þessara gjörninga.  Hér er mikil og alvarleg meinloka á ferðinni.  Spyrja má, hvernig slíkar mannvitsbrekkur komust á legg á Íslandi, sem í einu vetfangi sáu slíka meinbugi á lagasmíð ESB, að hún verði bara óvirk við innleiðingu hér norður í Atlantshafi.  Þetta er auðvitað algerlega óboðlegur málflutningur, sem gripið er til af rökþrota mönnum, sem ekki geta tínt til eina góða röksemd fyrir því að taka þá áhættu að stinga hendinni upp í gin ljónsins með skýlausu fullveldisframsali.  

Tilvitnun í VB 14.05.2018:

"Sérfræðingar stjórnarráðsins segja hins vegar, að fyrst að Ísland tengist ekki raforkukerfi Evrópu, hafi orkumálapakkinn ekki mikil áhrif hér á landi."

Það er einfeldningsháttur að halda, að í svo miklu hagsmunamáli fyrir almenning á Íslandi sem það er að hindra, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB öðlist lagagildi hérlendis, sé hægt að skáka í skjóli "sérfræðinga stjórnarráðsins".  Eru þeir sérfræðingar á sviði rafmagnsmála, lögfræði eða annars ?  Kannski þeir séu lögfræðingar, sem sérhæft hafa sig á orkumálasviði, eins og Henrik Björnebye, "norsk ekspert i energirett, EU-rett og EÖS-rett".  VB hefur vitnað í hann, en hann á viðskiptahagsmuna að gæta í norskri orkustarfsemi, sem sér fram á hærra raforkuverð með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Hann gerir lítið úr áhrifum innleiðingar Þriðja orkubálksins í Noregi og sér ekkert fullveldisframsal felast í gjörðinni. Það er nauðsynlegt að gæta að viðskiptatengslum, þegar ráðizt er í tilvitnanir út fyrir landsteinana í aðila, sem óþekktir eru hérlendis.    

Það eru margir norskir lagaprófessorar, sem nær væri fyrir VB og aðra hérlendis að vitna til. Þeir gæta fyllstu hlutlægni sem fræðimenn.  Þar má nefna Peter Örebech, lagaprófessor við Háskólann í Tromsö með ESB-rétt sem eina af aðalkennslugreinunum.  Hann er mjög gagnrýninn á fullveldisframsalið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og ACER munu hafa í för með sér, verði bálkurinn innleiddur í norska lagasafnið.

Þá væri VB og öðrum, sem fjalla um þetta mál, nær að fjalla um "Ice Link" og skuldbindingarnar, sem af téðri innleiðingu munu leiða, gagnvart Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER í stað innihaldslausts fimbulfambs um "lítil áhrif" Þriðja orkubálksins hérlendis, á meðan Ísland er enn ótengt við raforkukerfi Bretlands og þar með meginlandsins.   

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skuldbindingar Orkusambands ESB

Það hefur lítt stoðað fyrir áhangendur ESB og stuðningsmenn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB að hamra á því, að slík innganga hefði nánast engar skuldbindingar í för með sér fyrir landsmenn og mundi litlu sem engu breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu á orkumálasviði.

  Í Noregi hefur engum viti bornum manni dottið í hug að halda slíku fram um inngöngu Noregs í Orkusambandið, og á Íslandi hefur þessi innantómi áróður algerlega misst marks. Það er ekki nóg að setja sig á háan hest og þykjast allt vita, en vera í raun bara yfirborðssvamlari í málaflokki orkumála og án innsæis á þýðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fyrir land og þjóð.

Það má marka af skoðanakönnun Maskínu í um 2 vikur í kringum mánaðamótin apríl-maí 2018, þar sem næstum tífalt fleiri lýstu sig andvíga en fylgjandi því að færa meira vald yfir íslenzkum orkumálum til evrópskra stofnana og tiltölulega fáir voru óákveðnir, að þjóðin er vel með á nótunum í þessu máli og lætur ekki viðmælendur búrókrata í ESB og kratíska áhangendur skrifræðisveldisins þar segja sér fyrir verkum.   

Norsku lagaprófessorarnir Holmöyvik og Haukeland Fredriksen lýsa áhrifunum þannig í hnotskurn fyrir Noreg, og þau má heimfæra á Ísland:

"Bindingaráhrif ákvarðana ESA munu þar að auki koma fram sem regluverk EES, sem mun verða hluti af innanlandsrétti í Noregi.  Norsk pólitísk stjórnvöld munu ekki geta gripið inn í framkvæmd innanlands af spegilákvörðun frá ESA [ESA speglar ACER í EFTA-löndunum - innsk. BJo] án þess að brjóta norsk lög.  Ef landsreglarinn (RME) [útibú ACER] verður með múður, geta væntanlega einkaaðilar framkallað framkvæmd [ákvörðunar ACER] með því að halda því fram gagnvart norskum dómstólum, að norsk lög skyldi landsreglarann til að framkvæma samþykkt ESA."

Síðan slá lögspekingarnir norsku eftirfarandi föstu: "Samkvæmt orðanna hljóðan í Stjórnarskránni, grein nr 115, og hefðum í Stórþinginu, útheimtir samþykkt á aðild Noregs að ACER [Orkustofnun ESB] 3/4 meirihluta í Stórþinginu." 

Peter Örebech - prófessor í réttarfari við Háskólann í Tromsö, bendir einnig á, að landsreglarinn á hvorki að meðtaka dómsuppkvaðningar né pólitísk merki frá Noregi.  Hann er þeirrar skoðunar, að RME-landsreglarinn, sé ekki norsk ríkisstofnun:

"Aðildin að Orkusambandi ESB (og ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið inn í gegn óæskilegum afritunarákvörðunum RME/ESA, af því að norsk löggjöf leggur nýja landsreglaranum, RME, það á herðar að framkvæma ákvarðanir ESB.  RME er fjármagnað af Stórþinginu og með yfirstjórn, sem skipuð er af Olíu- og orkuráðuneytinu án þess að vera stofnun á vegum norska ríkisins, heldur á vegum ESB."

Það orkar mjög tvímælis, að þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrár Noregs og Íslands, þar sem vald á sviði orkumála, sem áður var hjá innlendu ríkisvaldi, er í raun flutt til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem EFTA-ríkin ekki munu fá fullgildan fulltrúa (með atkvæðisrétti, aðeins áheyrn).  Það getur engum blandazt hugur um það lengur, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB mundi fela í sér stórfellda breytingu á íslenzkum rétti og stjórnvaldi, þ.e. um er að ræða aðgerð, sem felur ótvírætt í sér fullveldisframsal á sviði orkumála, sem þjóðin að öllum líkindum er algerlega andsnúin, sbr skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018.

Ríkisstjórnin verður, væntanlega í sumar, að finna lausn á því, hvernig hún kemur þessu máli fyrir kattarnef.  Að biðja Alþingi um að framselja ríkisvald yfir mikilvægum málaflokki til yfirþjóðlegrar stofnunar á fullveldisári verður ríkisstjórninni þyngra í skauti en hún ræður við, enda flögrar það varla að oddvitum ríkisstjórnarinnar.    

 


Fyrirvarar Stórþingsins verða varla uppfylltir

 Þegar hluti stjórnarandstöðunnar á norska þinginu ákvað að ganga til liðs við norsku ríkisstjórnina, sem er minnihlutastjórn Hægri og Framfaraflokksins, þá var samið skjal, sem finna má undir tengli með þessum pistli.  Þar settu Verkamannaflokkurinn, Vinstri og Umhverfisflokkurinn-hinir grænu, fram 8 skilyrði fyrir stuðningi við samþykki frumvarps ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn og norska löggjöf.

Þetta var gert að frumkvæði Verkamannaflokksins, sem logaði stafnanna á milli vegna tilmæla Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um að styðja ríkisstjórnina í þessu máli.  Fjölmargir oddvitar flokksins í sveitarstjórnum og fylkisstjórnum ásamt verkalýðsfélögum um allt land lögðust alfarið gegn þessu framsali fullveldis Noregs yfir mikilvægri afurð náttúruauðlinda landsins, rafmagninu, af ótta um afdrif byggðanna, sem eiga líf sitt undir afkomu orkukræfs iðnaðar, sem þar er starfræktur.  Skilyrðunum er í raun beint til ríkisstjórnarinnar við framkvæmdina, en norska ríkisstjórnin hefur ekki lengur vald á þessum málum, eftir að öll EFTA-ríkin hafa samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í sína löggjöf. Það er furðulegt, að norskir kratar skuli láta, eins og þeim sé ókunnugt um þetta, en sams konar blindni og/eða tvískinnungs gætir hérlendis á meðal skoðanasystkina norsku kratanna.  Fleðulæti og undirlægjuháttur gagnvart ESB eru ekki gott vegarnesti í þessa vegferð. 

Í skjalinu gætir óhóflegrar og órökréttrar bjartsýni um, að eftir innleiðinguna verði nánast allt, eins og það var, og að ESB muni taka tillit til skoðana og tilfinninga Norðmanna við framkvæmd Þriðja bálksins og við stefnumörkun í væntanlegum Fjórða bálki. Þetta er einber óskhyggja, sem gengur í berhögg við reynsluna og mat á ástandinu innan ESB. Svipaðs viðhorfs gætir á Íslandi, og þar er jafnvel endurtekin vitleysa Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um "dramatíseraða" sviðsmynd, sem hún viðhafði í febrúar 2008, eftir að Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafði dregið upp þá mynd fyrir ríkisstjórninni, að allir bankarnir yrðu fallnir áður en október yrði á enda þá um haustið.  Ævintýrið um skessurnar, sem köstuðu á milli sín fjöregginu með ærslum og fíflalátum, kemur upp í hugann í þessu sambandi, þar sem fjöreggið er fullveldi landsins í þessu tilviki.    

Skilyrði #1: Það skal vera þjóðleg og samfélagsleg stjórnun og eftirlit á vatnsaflsauðlindunum.  Opinbert eignarhald á norskum vatnsaflsauðlindum skal standa óhaggað, og a.m.k. 2/3 af þeim skulu áfram vera í opinberri eigu.

ACER breytir engu um þjóðareign á vatnsaflinu.  Með því að samþykkja lögsögu ACER láta EFTA-löndin hins vegar af hendi ráðstöfunarrétt raforkunnar, sem hægt er að vinna úr náttúruauðlindum þeirra.  Eignarrétturinn mun standa óhaggaður, en um ráðstöfun rafmagnsins mun fara eftir reglum Þriðja orkumarkaðslagabálksins, enda væri hann annars varla til neins.

Skilyrði #2: Endurnýjanlega norska raforkuvinnslu skal nýta til aukinnar verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í Noregi og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með endurnýjanlegri orku.

Norskt rafmagn sem vara á samþættum evrópskum orkumarkaði samræmist ekki grunnreglunni um, að rafmagnið skuli nýta til byggðaeflingar í stað þess að verða selt hæstbjóðanda. Þetta skilyrði er óraunhæft að ætla, að ESB uppfylli. Norskur iðnaður getur hæglega misst sitt eina samkeppnisforskot.  Flytjist iðnaðurinn úr landi (vegna raforkuskorts og hækkaðs raforkuverðs), mun slíkt jafngilda glötuðum störfum í Noregi, flótta frá landsbyggðinni og aukinni notkun jarðefnaeldsneytis innanlands.  Allt þetta á einnig við um Ísland, en á líklega ekki við um Liechtenstein.  

Skilyrði #3:  Norsk yfirvöld skulu hafa fulla stjórn á og eftirlit með öllum ákvörðunum, sem þýðingu hafa fyrir orkuöryggið í Noregi, þ.m.t. ákvarðanir tengdar iðnaði og straumrofi.

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti 7. febrúar 2018 aðgerðir fyrir orkuöryggi í 6 ESB-löndum, þar með ákvarðanir tengdar straumrofi/álagslækkun hjá iðnaði. Af því má ráða, að stjórn afhendingaröryggis raforku mun ekki verða á hendi orkuyfirvalda einstakra aðildarlanda Orkusambandsins, heldur verða hjá ACER/ESB.  Sumar aðgerðirnar voru samþykktar til bráðabirgða.  Samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hefur ESB/ACER vald til að vega og meta norska aðgerðaáætlun á móti þörfum Innri orkumarkaðarins fyrir frjálst flæði orku á milli landa. Eftir að "Ice Link" hefur verið tekinn í gagnið, verður regluverk um ráðstöfun raforku, þegar orku- eða aflskortur kemur upp á Íslandi, í höndum ACER/ESB með sama hætti og í Noregi.

Orkustofnunin ACER getur gert bindandi samþykkt um meðferð deilna á milli landa, einnig deilur um málefni, er snerta framboðsöryggi, afhendingaráreiðanleika, þróun raforkukerfisins og uppbyggingu flutningskerfisins.  Með tilstuðlan Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og orkuvaldsstofnunarinnar RME (Reguleringsmyndighet for energi í Noregi), "landsreglarans", verða slíkar samþykktir einnig bindandi fyrir Noreg og Ísland, þegar útibú ACER hefur verið stofnað í báðum löndunum.

Skilyrði #4:

Ákvarðanir um hugsanlega nýja aflsæstrengi til útlanda skulu áfram vera alfarið í höndum norskra yfirvalda.

Verkamannaflokkurinn hefur fengið ríkisstjórnina á sitt band um að meta skuli, hvort leggja eigi fleiri sæstrengi, en ekkert meira en það.  Hafni norsk stjórnvöld engu að síður þegar innsendri umsókn um Skotlandsstrenginn (NorthConnect), eru ACER og norski orkureglarinn RME skuldbundin samkvæmt Þriðja bálkinum til að vekja athygli ESB á því, að Noregur hafi lagt stein í götu Kerfisþróunaráætlunar ESB.  Skotlandsstrengurinn er forgangsverkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB, eins og Ice Link, og ACER og RME skulu hafa framvindueftirlit með höndum.  Ef strengeigendurnir (NorthConnect er einkafyrirtæki) kæra höfnunina og fara að lokum með málið fyrir ESA og EFTA-dómstólinn, getur Verkamannaflokkurinn eða nokkur innlendur aðili þá ábyrgzt, að málið verði ekki að lokum útkljáð af ESB ?  Sama umræða hefur orðið á Íslandi.  Fylgjendur samþykktar Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hafa haft "dramatíseringu" á orði, þegar höfundur þessa pistils hefur haldið því fram, að síðasta orðið um lagningu "Ice Link" verði ekki í höndum íslenzkra yfirvalda, heldur í höndum ESB.  Það standa engin rök til þess, að nokkuð annað muni gilda um EFTA-löndin en ESB-löndin, þegar kemur að því kjarnaatriði í starfsemi Orkusambands ESB að auka raforkuflæði á milli landa í Orkusambandinu.  Innan ACER verður vafalítið talið sérstaklega brýnt að koma á slíku sambandi við Ísland, þar sem ekkert slíkt er fyrir, sérstaklega þar sem hægt er að auka talsvert vinnslu raforku úr endurnýjanlegum orkulindum.  

Skilyrði #5:

Hugsanlegir nýir sæstrengir skulu vera þjóðhagslega hagkvæmir, og safna skal reynslugögnum og gera nákvæmar greiningar áður en nýju samtengiverkefni á milli landa er hleypt af stokkunum.  Hvaða þýðingu sú vinna hefur fyrir hugsanlegar nýjar framkvæmda- og rekstrarleyfisumsóknir, verður að meta við afgreiðslu þessara umsókna.

Þegar Innri markaður fyrir orku verður kominn á laggirnar í EFTA-löndunum, verða samtímis samkeppnisreglur og ríkisstuðningsreglur ESB virkar í Noregi og á Íslandi.  Ef ráðuneyti orkumála í þessum löndum komast hins vegar að þeirri niðurstöðu, að sæstrengurinn (NorthConnect eða Ice Link) sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur, af því að hann þrýsti upp raforkuverði og sé þar með ógnvaldur við norskan og íslenzkan iðnað, er hægt að líta á slíkt sem ríkisstuðning við norskan og íslenzkan iðnað. EES-regluverkið mun þá banna norskum og íslenzkum stjórnvöldum að taka slíkt tillit til þjóðarhagsmuna.  Þannig verður unnt að fara út í sæstrengslögn gegn vilja rétt kjörinna yfirvalda í Noregi og á Íslandi og gegn þjóðarhagsmunum þessara landa.  

Skilyrði #6:

Statnett skal eiga og reka allar framtíðar millilandatengingar við Noreg (eins og gildir um allar núverandi millilandatengingar).  Þetta skal fella inn í orkulögin.  

Spurningin er, hvort þetta geti gilt um Skotlandsstrenginn NorthConnect, sem einkaaðilar hafa þegar sótt um lagnaleyfi fyrir.  Verði orkulöggjöfinni breytt, þannig að hann verði afgreiddur samkvæmt nýjum lögum, er verið að gefa löggjöfinni vafasama afturvirkni.  Báðir sæstrengirnir til Bretlands, þ.e. NorthConnect og strengverkefnið, sem þegar er í gangi á vegum Statnetts, eru næstum alfarið útflutningsstrengir.  Hvor þeirra getur flutt 10 TWh/ár af metnum núverandi 12 TWh/ár orkuforða miðlunarlónanna, til lands með 60 % hærra raforkuverð en Noregur.  Þar með flæðir nánast öll umframorka Noregs burt úr landinu.  Það eru þessir sæstrengir, sem starfsmenn í iðnaðinum óttast mjög af þessum sökum.  Terje Söviknes, orkuráðherra Noregs, hefur nýlega slegið föstu, að leyfisumsókn NorthConnect skuli hljóta málsmeðferð samkvæmt gildandi orkulögum (Nationen 16.03.2018).  Það þýðir, að Verkamannaflokkurinn hefur ekki fengið ríkisstjórnina til að fallast á skilyrði sitt um eignarhaldið á öllum framtíðar millilandatengingum. Þetta er forsmekkurinn að því, sem koma skal.

Skilyrði #7:

Hagnað af millilandatengingunum skal áfram (eftir aðildina að Orkusambandi ESB) mega nota til að lækka flutningsgjaldskrá (Statnetts) og til viðhalds og nýframkvæmda á norska raforkuflutningskerfinu.

Slík notkun hagnaðar af millilandatengingum er í gjörðinni, sem er hluti af Þriðja orkubálkinum, heimiluð í undantekningartilvikum.  Takmarkaðan hluta hagnaðarins má því aðeins nota á þennan hátt, ef hagnaðinn er ekki hægt að nota "skilvirkt" til viðhalds eða framkvæmda við nýjar tengingar. Í næstu útgáfu gjörðarinnar, sem nú er til umfjöllunar hjá ESB, er mögulegt, að þessi undantekning verði fjarlægð.  

Skilyrði #8:

Nýja orkuvaldsstofnunin RME verður sett á laggirnar, en verkefni hennar skal takmarka við að uppfylla lágmarkskröfur tilskipunarinnar.  Æðra stjórnvald við að semja og samþykkja forskriftir og lagafrumvörp (á orkuflutningssviði) skal áfram vera á hendi ráðuneytisins (OED-olíu- og orkuráðuneytisins) og stjórnvaldsstofnunarinnar (NVE-Norges vassdrags- og energidirektorat-Orkustofnunar).

Verkamannaflokkurinn norski og sumir hérlendir menn, sem haldnir eru þeirri meinloku, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB muni litlu sem engu breyta "á meðan Ísland er ótengt erlendum rafkerfum", horfa algerlega framhjá þeirri staðreynd, að orkuvaldsstofnunin, RME í Noregi, "landsreglarinn" á orkusviði, fær völd til að starfa algerlega utan seilingar landsyfirvalda og verður undir yfirstjórn ACER með ESA sem millilið.

 

Það er sammerkt öllum þessum skilyrðum norska Verkamannaflokksins, að það er algerlega óraunhæft að ætla norsku ríkisstjórninni að framfylgja þeim.  Þau eru ekki á valdsviði hennar, heldur Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel, enda hefur ríkisstjórnin nú sent Framkvæmdastjórninni þetta bréf, en aðeins til upplýsingar. Ríkisstjórnin hefði auðvitað þurft að fá fund með fulltrúa Framkvæmdastjórnarinnar til að gera henni grein fyrir pólitískri alvöru málsins í Noregi.  Þegar þetta rennur upp fyrir félagsmönnum Verkamannaflokksins vítt og breitt um landið, munu þeir skynja málið þannig, að flokksforysta þeirra hafi farið á bak við þá í mikilvægu máli. Við endurupptöku málsins í Stórþinginu, eins og Miðflokkurinn hefur lagt til, ef Alþingi synjar Þriðja orkulagabálkinum samþykkis, getur niðurstaðan orðið á sömu lund og á Alþingi af þessum sökum.

Það má furðu gegna, að forysta stærsta stjórnmálaflokks Noregs, skuli vera haldin svo miklum meinlokum um virkni og áhrif Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem er gríðarlega mikið hagsmunamál og mikilvægt fullveldismál fyrir bæði Noreg og Ísland.  Þetta er skýringin á því, að Verkamannaflokkurinn var klofinn í herðar niður um afstöðuna til Orkusambandsins í aðdraganda samþykktar Stórþingsins 22. marz 2018.  

Ef svo illa fer, að Alþingi samþykki innleiðingu á þessum óláns orkubálki, mun fljótlega koma í ljós, að:

  1. Ráðstöfunarréttur raforkunnar er ekki lengur hjá innlendum, rétt kjörnum yfirvöldum, heldur hjá Innri orkumarkaði ESB, þar sem öll tiltæk raforka gengur kaupum og sölum.
  2. Innlendar orkulindir eru mjög takmörkuð auðlind, þegar markaður fyrir þær eru allt ESB.  Útflutt raforka verður hvorki notuð til verðmætasköpunar á Íslandi né til orkuskipta þar.  Ice Link verður að líkindum að meginstofni útflutningsstrengur, eins og NorthConnect, á meðan verðmismunur raforku við sitt hvorn enda strengsins helzt hár, en verðáhrif strengsins hér innanlands munu þó væntanlega fljótlega verða mjög mikil vegna tiltölulega lítils markaðar hér.
  3.  Með innleiðingu Þriðja orkubálksins munu gilda sömu stjórnunarreglur um rekstur millilandatenginga Íslendinga og gilda í ESB-löndunum, þ.e. ESB/ACER munu hafa síðasta orðið um það, hvernig afhendingaröryggi raforku verður háttað.  Hafa ber í huga, að ESB/ACER tekur ákvörðun út frá sínu mati á heildarhagsmunum, en ekki hagsmunum einstakra landa, hvað þá héraða.  Þetta boðar ekki gott um stýringu vatnshæðar í lónum á Íslandi og beztun á rekstri íslenzka raforkukerfisins.
  4. Endanleg ákvörðun um það, hvort Ice Link sæstrengurinn verður lagður eða ekki verður ekki hjá íslenzkum stjórnvöldum, ef Þriðji orkubálkur ESB verður hér innleiddur, enda er eitt megintakmarkið með honum og stofnun ACER að ryðja burt hindrunum í einstökum löndunum gegn auknum raforkuflutningum á milli landa og útjöfnun orkuverðs.
  5. Rök gegn nýju sæstrengsverkefni á borð við þau, að sæstrengur í hagkvæmniathugun, eins og Ice Link, sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur, eru ógild og ótæk innan Orkusambands ESB.  Þetta er mjög gott dæmi um það, að þjóðarhagsmunir Íslendinga og hagsmunir ESB fara ekki saman í mikilvægum atriðum.
  6. Statnett (norska Landsnet) á og rekur allar millilandatengingar við Noreg.  Ice Link yrði miklu dýrari en nokkur norsku sæstrengjanna, og það yrði Landsneti um megn að fjármagna hann.  Það er ósennilegt, að það skilyrði verði sett af nokkrum stjórnmálaflokki á Alþingi, að Ice Link verði í eigu Landsnets.  Komi upp ágreiningur um eignarhaldið, verður hann hvorki útkljáður af íslenzku ríkisstjórninni, Alþingi né innlendu dómstólunum eftir samþykkt Þriðja orkubálksins.
  7.  Löndin í Orkusambandi ESB standa alls ekki frjáls að því, hvernig hagnaði af mannvirkjum til raforkuflutninga á milli landa er ráðstafað.  Í Þriðja orkubálkinum er þvert á móti fyrirskrifað, hvernig standa beri að ráðstöfun slíks hagnaðar, og meginreglan er þar að verja honum til að bæta raforkuflutningskerfið á milli landa með viðhaldi til að bæta afhendingaröryggið og með nýframkvæmdum til að auka flutningsgetuna.  Fjármögnun, rekstri og viðhaldi flutningskerfis frá íslenzka stofnkerfinu og að landtökustað Ice Link mundu innlendir raforkunotendur þurfa að standa straum af, og sá kostnaður mun fela í sér tilfinnanlega hækkun flutningsgjaldskrár Landsnets, sem ekki má við miklum hækkunum, svo há sem hún er. 
  8. Það eru eðlilega áhyggjur á Íslandi og í Noregi yfir þeim miklu og ólýðræðislega fengnu völdum, sem s.k. "landsreglara" hlotnast með stuðningi lögfestingar Þriðja orkubálksins.  Í stuttu máli verða völd Orkustofnunar og atvinnuvegaráðuneytisins (iðnaðarráðuneytisins) á sviði raforkuflutninga, sem ACER telur varða "sameiginlega hagsmuni", formið eitt eftir lögfestingu Þriðja orkubálksins hérlendis, því að "landsreglarinn", sem þiggja mun völd sín alfarið frá ACER og mun ekki búa við neitt aðhald frá íslenzku löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi eða dómsvaldi, mun semja þær reglugerðir og netmála, sem máli skipta fyrir millilandatengingar landsins á sviði raforku.   

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hagsmunir Íslands og Noregs gagnvart Orkusambandi ESB

Noregur er mikið orkuland, og næst á eftir Rússlandi mesti gasbirgir Evrópusambandsins, ESB. Norðmenn minnast enn Fyrstu gasmarkaðstilskipunar ESB frá 1998, sem tók réttinn af birgjum á norsku landgrunni til að standa sameiginlega að samningum við ESB-ríkin um magn og verð. Þar gaf ESB tóninn fyrir það, er koma skyldi í hagsmunagæzlu sinni fyrir hinar orkuhungruðu þjóðir sambandsins.  

Nú vinnur ESB að því að samræma afstöðu kaupendanna, til að þeir komi sameinaðir að samningaborðinu um gasafhendingu af norsku landgrunni.  Þannig breytir ESB styrkhlutfallinu Noregi í óhag, þegar hentar. ESB setur leikreglurnar hverju sinni í samskiptum Evrópuríkjanna og skeytir þá ekkert um jafnræði eða sanngirnissjónarmið. Það er einmitt í þessu samhengi, sem menn verða að líta á ACER sem skref í þá átt að færa ESB völdin yfir innviðunum, ekki með því, að ESB eignist þá, heldur með því, að ESB stjórni notkuninni.

Með ráðgerðum sæstrengjum til útlanda verður unnt að flytja út um helming allrar raforkuvinnslu á Íslandi og í Noregi til núverandi ESB-landa.  Bretland getur orðið milliliður á milli þessara landa hreinna orkulinda og hins stóra orkukaupanda slíkra orkulinda, ESB. Í umræðunni um ACER á Íslandi og í Noregi hefur verið fullyrt, að "Þriðji orkubálkurinn" komi sæstrengjum til útlanda eða orkustjórnsýslunni innanlands ekkert við.  Þetta sjónarmið er úr lausu lofti gripið og ber vott um blekkingaleik eða vanþekkingu. Hvorugt er til vitnis um góða stjórnsýslu eða góða dómgreind. 

Þau, sem halda þessu fram, horfa framhjá þeirri staðreynd, að hlutverk ACER er m.a. að sjá til þess, að aðildarlöndin framfylgi og styðji í hvívetna kerfisþróunaráætlun ESB.  Þar með er einmitt innviðauppbygging fyrir sæstreng orðin að einu af verkefnum hinnar nýju Orkustofnunar, sem nefnd hefur verið "landsreglari" eða orkuvaldsstofnun hérlendis (til aðgreiningar frá stjórnvaldsstofnun), sem lúta á stjórn ACER um milliliðinn ESA (í EFTA-ríkjunum) og verður óháð innlendum stjórnvöldum.

Halda menn, að "Ice Link" sé í Kerfisþróunaráætlun ESB upp á punt ?  Hafa einvörðungu sveimhugar komið að umfjöllun íslenzkra stjórnvalda um Orkusamband ESB, eða eru þar á ferð taglhnýtingar ESB ?  

Í Noregi er umdeildur sæstrengur til Skotlands, "NorthConnect" á vegum einkaaðila og á Íslandi er "Ice Link" á vegum Landsnets, Landsvirkjunar og dótturfélags brezka Landsnets; báðir eru á forgangsverkefnalista ACER um verkefni sameiginlegra hagsmuna ESB-landanna, PCI (Projects of Common Interests). ESB hefur veitt MEUR 10 eða miaISK 1,2 til verkefnisundirbúnings, forhönnunar "NorthConnect", en upplýsingar vantar enn varðandi verkefnisstöðu "Ice Link", nema hann á að taka í notkun árið 2027. 

Ef Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkubálksins í EES-samninginn, og Orkustofnun hafnar síðan umsókn um "Ice Link" frá eigendafélagi hans eða umtalsverðar tafir verða á undirbúningi hans, t.d. vegna umhverfismats á flutningslínum að landtökustað sæstrengsins og endabúnaði hans, sem verða gríðarstór tengivirki á íslenzkan mælikvarða, um 1500 MVA afriðla- og áriðlastöðvar ásamt sveifludeyfandi búnaði, þá mun orkuvaldsstofnuninni, "landsreglaranum", verða skylt að tilkynna þá stöðu mála til ACER sem frávik frá kerfisþróunaráætlun ESB. Hver halda menn, að hafi töglin og hagldirnar, ef/þegar þessi staða kemur upp ? Kötturinn eða músin ?  

Það leikur enginn vafi á því, að innan ESB verður ekki tekið á slíku með neinum silkihönzkum, enda túlkað sem brot á grundvallarreglu Þriðja orkubálksins um aukin raforkuviðskipti aðildarlanda Orkusambandsins.  Eigendur "Ice Link" geta kært höfnun leyfisveitingar til íslenzks dómstóls eða EFTA-dómstólsins, en réttarfar ESB mun ráða niðurstöðunni.  Þessi staða dómskerfisins er auðvitað algerlega óviðunandi fyrir "sjálfstæðar" þjóðir í EFTA.  

Völd ACER munu enn verða aukin:

Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var samþykktur af æðstu stofnunum ESB árið 2009.  Síðan þá hefur Framkvæmdastjórnin kynnt og að nokkru fengið samþykkt áform sín um víðtækara Orkusamband.  Í tilkynningu Framkvæmdastjórnarinnar um þetta kom einnig fram viljayfirlýsing hennar um Noreg: "ESB mun halda áfram á þeirri braut að flétta Noreg að fullu inn í innri orkustjórn sambandsins".   Ekki hefur sézt neitt viðlíka um Ísland, en það á sér líklega pólitískar skýringar.  

Þungvægt atriði í Orkusambandinu er að auka völd ACER.  Stefnumið Framkvæmdastjórnarinnar er, að ákvörðunarferli orkustofnana aðildarlandanna verði allt miðlægt.  Þetta þýðir, að "landsreglarinn", útibú ACER, yfirtekur það, sem eftir er af Orkustofnun.  Jafnframt verða völd ACER aukin varðandi mál, sem snerta fleiri en eitt aðildarland.  Þetta þýðir auðvitað, að sjálfstæði Íslands í raforkumálum hverfur algerlega í hendur ESB.  Þar með nær ESB tangarhaldi á efnahagsstjórnun landsins.  Þessari framtíðarsýn verða Alþingismenn að velta fyrir sér, þegar þeir ákveða, hvernig þeir greiða atkvæði um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Þetta er í grundvallaratriðum önnur sýn en haldið hefur verið fram í algerum óvitaskap eða löngun til að binda sitt trúss við ESB. 

Varðandi Landsnet er hér t.d. um að ræða að semja  netmála, sem ákvarða, hvernig rafstraumnum er stjórnað í flutningsmannvirkjum á milli landa.  Stefnt er að ákvarðanatöku í ACER með einföldum meirihluta, en ekki auknum meirihluta, eins og nú er.  Þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hefur verið staðfestur inn í EES-samninginn (samþykkt Alþingis vantar), mun koma krafa frá ESB um, að téðar viðbætur verði teknar inn að auki.  Þetta er hin dæmigerða spægipylsuaðferð ESB.  Norska ríkisstjórnin andmælti því í Sameiginlegu EES-nefndinni á sínum tíma, að ACER fengi meiri völd en hún hefur samkvæmt Þriðja bálkinum.  Þróun mála nú innan ESB sýnir, að ESB hefur algerlega hunzað þetta sjónarmið Noregs.  Hver var afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar 2017 um þetta álitaefni ? 

Það er í raun og veru þannig orðið, að stjórnmálaleg stefnumörkun, sem snertir EES-samstarfið, þolir ekki lengur dagsljósið.  Skýringin á því er sú, að hún felur í sér gróft Stjórnarskrárbrot í hverju málinu á fætur öðru.  Þessi hluti utanríkisstefnunnar stefnir í algert óefni, enda virðist bæði skorta þekkingu og vilja til að taka sjálfstæða afstöðu til málanna, sem streyma frá ESB til EFTA.  Þetta ólýðræðislega samkrull mun enda með stórslysi ("point of no return"), ef ekki verður snarlega bundinn endi á það.  

 

 


Enginn ávinningur af aðild að Orkusambandinu

Nú þegar hefur talsvert verið rætt og ritað um Orkusamband ESB. Umræðan hefur vakið áhuga almennings og athygli á því, að ESB seilist til vaxandi og afdrifaríkra áhrifa í EFTA-löndunum.  Aðeins 16 % sögðust "ekki vita" um málið, þegar þeir fengu spurningu frá "Maskínu" um valdframsal á orkusviði til evrópskrar stofnunar, 80 % voru því andvíg, en aðeins 8 % meðmælt.  Þetta er áfall fyrir ESB-aðdáendur og þá, sem hérlendis hafa haldið uppi óburðugum og í raun óboðlegum áróðri fyrir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB (þó án atkvæðisréttar þar).

Orkusambandið er skilgreint með Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, sem öll ESB ríkin hafa samþykkt.  Framkvæmdastjórn ESB heimtar af EFTA-ríkjunum þremur í EES, að þau innleiði "Þriðja orkubálkinn" í EES-samninginn, enda er yfirlýst stefna hennar að nátengja Noreg, sem er mesta orkuútflutningsland Evrópu á eftir Rússlandi, við orkumarkað ESB.  Líklegt er, að í leiðinni sé litið hýru auga til endurnýjanlegra orkulinda eyríkisins í norðri.

Það, sem stendur upp úr umræðunni hérlendis hingað til, er eftirfarandi:

  1. Enginn hefur með vitrænum rökum bent á nokkurt gagn af því fyrir Íslendinga að ganga í Orkusamband ESB.
  2. Innganga í Orkusambandið fæli í sér framsal valds yfir raforkuflutningum í landinu og yfir millilandaflutningum raforku til Orkustofnunar ESB, ACER.  Hún mun þá stofna útibú sitt í Reykjavík, "landsreglara" sem tekur við stjórnvaldi Orkustofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins yfir raforkuflutningunum.  Landsnet mun þá þurfa að vinna eftir reglugerðum útibúsins, leggja alla netmála sína og gjaldskrá til rýni og samþykktar hjá útibúinu, sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for energi", RME, og er einfaldlega Orkustjórnvald, sem einvörðungu lýtur boðvaldi ACER, Orkustofnunar ESB. Ágreiningsmál verða útkljáð af ESA/ACER.    
  3. Síðast en ekki sízt mun Landsnet verða að laga Kerfisáætlun sína að Kerfisþróunaráætlun ACER.  Útibúið fær drögin að Kerfisáætlun, gerir við þau frumathugasemdir, þýðir þau og sendir áfram til ACER um falsstoð EFTA í orkumálum, ESA (Eftirlitsstofnun EFTA).  ACER rýnir Kerfisáætlun Landsnets og gaumgæfir, hvernig hún samrýmist Kerisþróunaráætlun sinni, þ.e. ESB. Þar er nú þegar "Ice Link", 1200 MW sæstrengur á milli Íslands og Skotlands, og Landsnet verður að skipuleggja raforkuflutninga frá íslenzkum virkjunum að landtökustað sæstrengsins.   
  4. Völd Orkustofnunar (OS) yfir raforkuflutningsmálum verða eftir þessa innleiðingu hjómið eitt. Leyfisveitingavaldið verður áfram þar, en allar umsóknir verða að fullnægja skilmálum, sem útibú ACER annaðhvort semur eða samþykkir.  Hvernig á OS að hafna umsókn, t.d. frá einhverju sæstrengsfélagi í einkaeigu, eins og tilvikið er með NorthConnect, sæstreng á milli Noregs og Skotlands, ef hún fullnægir öllum settum skilmálum.  Hafni OS samt slíkri umsókn, verður höfnunin umsvifalaust kærð til ESA.  Völd OS á raforkuflutningssviði verða aðeins að forminu til. Hvers konar blindingsleikur er það að fullyrða, að þetta fyrirkomulag jafngildi smáræðisbreytingum á íslenzkri stjórnsýslu ?  Þeir, sem slíku halda fram, hafa ekki unnið heimavinnuna sína og skilja ekki virkni Þriðja orkumarkaðslagabálks  ESB. Vitlausast af öllu er að fullyrða, að núverandi raforkueinangrun Íslands feli í sér einhverja vörn gegn ásælni ESB. 
  5. Þrír stjórnmálaflokkar hafa haldið fundi í æðstu stofnunum sínum síðan ACER-málið komst í hámæli hérlendis.  Tveir stjórnarflokkar í marz og einn stjórnarandstöðuflokkur í apríl 2018 lýstu sig andvíga inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  Þriðji stjórnarflokkurinn virðist vera andsnúinn málinu líka.  Komi til atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og ef þingmenn ganga óbundnir til hennar, má gera sér vonir um, að þeir felli hana og komi þar með í veg fyrir stjórnarskrárbrot og alls konar flækjur og stefnubreytingu í orkumálum, sem leiða mundu af samþykkt.  
  6. Íslenzka raforkukerfið er gjörólíkt að uppbyggingu því, sem nú starfar á raforkumarkaði ESB.  ACER tekur ekkert tillit til þess, því að grundvallarregla ESB er "ein regla fyrir alla" ("one size fits all").  Að reyna að bezta rekstur íslenzka raforkukerfisins, eftir að það tengist orkumarkaði ESB og með ACER hér við völd, verður ómögulegt.  Tilraun til að samstýra vatnsborðshæð í miðlunarlónum landsins eða tilraun til að draga úr hröðum álagsbreytingum verður dæmt ólögmætt inngrip í frjálsan orkumarkað.  Raforkuverð til heimila og fyrirtækja án langtímasamninga mun hækka, orkuskiptin verða dýrari en ella og ásókn í virkjanleyfi, einnig erlendis frá, mun aukast.

 Á vegum ESB hafa verið settar á laggirnar um 40 stofnanir á ýmsum sviðum, s.s. bankaeftirlit, matvörueftirlit, loftferðaeftirlit, og Orkustofnun, sem hefur aðsetur í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu.  "European Agency for the Cooperation of Energy Regulators", ACER, var stofnsett 2010.  ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki gagnvart stjórnendum og starfsmönnum ESB eða vinnur að því að semja regluverk fyrir orkukerfin. 

Orkustofnun ESB hefur líka framkvæmdavald og ákvarðanavald.  ACER á að hafa eftirlit með orkustjórnvaldsstofnunum, hér OS og landsreglaranum (útibúi ACER), og kerfisstjórnendum (hér Landsneti) þjóðríkjanna.  Tilgangurinn er að sjá til þess, að reglusetningu ESB fyrir rafmagns- og gasmarkaðinn sé framfylgt. Það er kyrfilega gengið frá öllum endum, svo að fullveldi EFTA-ríkjanna verður ekki undankomu auðið, og skiptir þá núverandi fyrirkomulag raforkutenginga við útlönd engu máli.  Að lokum verða öll ágreiningsmál dæmd samkvæmt EES-rétti, og landsréttur verður að víkja fyrir honum að viðlögðum kærum frá ESA fyrir brot á EES-samninginum.  

Gjörð ESB nr 713/2009 um stofnun orkustjórnvaldsstofnunarinnar ACER er hluti af Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Sá spannar einnig Þriðju raforkumarkaðstilskipunina, tilskipunina um Innri gasmarkaðinn og gjörðina um raforkuviðskipti yfir landamæri.  Þriðja orkumarkaðslagabálkinn samþykkti norska Stórþingið til innleiðingar í EES-samninginn 22. marz 2018, en hann hefur enn ekki verið formlega gerður að hluta EES-samningsins, því að Alþingi á eftir að fjalla um málið.  Í Stórþinginu er meirihluti fyrir inngöngu Noregs í ESB, en í þessu máli er gjá á milli þings og þjóðar í Noregi.  Aðeins um 10 % norsku þjóðarinnar hefur tjáð sig fylgjandi því fullveldisframsali á sviði orkumála, sem téð breyting á EES-samninginum mundi hafa í för með sér.

Ætla má samkvæmt skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018, að yfir 80 % íslenzku þjóðarinnar sé andvígur slíku framsali og að samhljómur sé á milli þings og þjóðar í þessu máli.  Sú staða, að meiri líkur en minni eru á synjun Alþingis, varpar ljósi á þá staðreynd, að EES-samningurinn er orðinn úreltur. 

 

 


EES og þjóðarhagur

Á Íslandi hefur tekizt að skapa velferðarþjóðfélag og almenn lífskjör í fremstu röð, betri en í löndum ESB.  Þá má spyrja sig; eru þessi góðu lífskjör hér þrátt fyrir veru landsins á Evrópska efnahagssvæðinu-EES eða vegna þess. Skoðum fyrst, hvað Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 19. apríl 2018, um getu fyrirtækjanna, sem undir þessum góðu lífskjörum standa:

"Það er dýrt að hækka laun á Íslandi":

"Allur alþjóðlegur samanburður ber með sér, að efnahagsástand á Íslandi er með því bezta, sem þekkist.  Á undanförnum árum hafa laun og kaupmáttur hækkað mun meira hér á landi en í þeim löndum, sem við berum okkur helzt saman við.  Það kann að koma á óvart, að laun á vinnustund eru hærri hér á Íslandi en í Danmörku, Þýzkalandi og meira að segja Noregi.  Eina landið, sem býður hærri laun en Ísland um þessar mundir, er Sviss."

Ef aðild að Evrópusambandinu er slíkt töframeðal, sem áhangendur aðildar Íslands að ESB vilja vera láta, hvernig stendur þá á því, að öll aðildarlöndin, þ.m.t. Lúxemborg, eru eftirbátar Íslands, þegar kemur að launum fyrir hverja vinnustund ? EFTA-landið, sem utan EES stendur, Sviss, státar af hærri launum á vinnustund en Ísland.  Þetta bendir alls ekki til, að við getum þakkað góð lífskjör hérlendis aðildinni að EES.  

Það er reyndar svo, að Viðskiptaráð hefur komizt að því, að aðild Íslands að EES leggi atvinnulífinu svo þunga bagga á herðar, að dragi vel merkjanlega úr getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar.  Íslenzk fyrirtæki eru yfirleitt lítil í evrópskum samanburði, og reglugerðar- og eftirlitsbyrðin, bæði innri og ytri, leggst þyngst á minnstu fyrirtækin.  Gæti framleiðniaukning verið um 0.5 %/ár minni fyrir vikið að mati Viðskiptaráðs, sem safnast upp í 13,3 % á 25 ára gildistíma EES-samningsins hér.  Framleiðniaukning stendur undir raunlaunahækkunum til launþeganna, og það er líklegt, að kaupmáttur lægstu launa gæti verið a.m.k. 15 % hærri hér, ef landið hefði einfaldlega áfram búið við fríverzlunarsamning við ESB og ekki þurft að taka upp þær yfir 9´000 gerðir frá ESB, sem raun er á.  

Stjórnlagalega séð hefur aðild Íslands að EES reynzt vera hrein mistök, eins og krystallast í persónuverndarlöggjöfinni frá ESB.  Yfirstjórn persónuverndarmála færist til Persónuverndarráðs ESB-"European Data Protection Board"-EDPB, þar sem Ísland á engin ítök, og stjórna mun "Persónuvernd", stofnun á Íslandi, sem verður óháð íslenzkum yfirvöldum. Úrskurðarvald í íslenzkum persónuverndarmálum, sem ná yfir landamæri innan EES, færist til ESB-dómstólsins.  Tveggja stoða grunnregla samstarfs EFTA og ESB í EES er þverbrotin, og þar með fær yfirþjóðleg stofnun stjórnvald hérlendis.  Þessi meðferð á Stjórnarskrá lýðveldisins nær engri átt, og hún hlýtur að merkja, að gríðarleg lagaleg óvissa um lögmæti þessarar innleiðingar í EES-samninginn skapast.  Stjórnvöld arka að óþörfu út í fúafen réttaróvissu.

  Mörg fyrirtæki munu þurfa að bæta við sig persónuverndarstarfsmanni til að sjá um innra eftirlit þessara mála, vera tengiliður fyrirtækisins við "Persónuvernd" og til að framfylgja persónuverndarlöggjöf, sem fáir þekkja og enn færri skilja til hlítar.  Hér er verið að skjóta spörfugl með kanónu að hætti ESB, sem gefur út tilskipanir, sem verða að henta 80 milljóna þjóð. Slík föt verða allt of stór og dýr fyrir 0,35 milljón manna þjóð.  Við búum við alræði búrókrata í Brüssel, sem eyða öllum ávinningi tæknivæðingar í hagræðingarátt með því að drekkja litlu þjóðfélagi í rándýru skrifræðisflóði án sjáanlegs ávinnings. Jafnvel Bretar, sem þó telja 65 milljón manns, fengu sig fullsadda af þessu og sögðu skilið við það.  

Eftir 1. maí 2018 ræður nokkurra verkalýðsforingja mætti ætla, að fjárhirzlur fyrirtækjanna væru fullar fjár, svo að nú sé skaðlaust að heimta enn meira og jafnvel að beita skæruhernaði til að knýja þau til að láta meira af hendi.  Þetta stéttastríðstal er óráðshjal, fávíslegur pólitískur vindgangur og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og þá efnahagsþróun, sem nú blasir við.

Nú þarf hins vegar að "pakka í vörn" og létta byrðum af atvinnulífinu til að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna.  Að öðrum kosti hrynur atvinnustigið og þar með lífskjör almennings. Slíkt getur gerzt hratt, eins og dæmin sanna. Þá munu lýðskrumarar hlaupa út um víðan völl undan ábyrgð sinni sem halaklipptir kálfar. Um stöðu fyrirtækjanna skrifaði Ásta Fjeldsted: 

"Nú heyrast háværar raddir vinnuveitenda um erfiðleika vegna hárra launagjalda og aukinnar erlendrar samkeppni.  Þessar áhyggjur kunna að koma ýmsum á óvart í ljósi þess, hversu gott efnahagsástandið er.  En þær eru raunverulegar, og í þeim felast alvarleg viðvörunarmerki fyrir íslenzkt samfélag.  Fyrirtækin í landinu sjá einfaldlega ekki fram á að geta borið kostnaðinn af þeim launahækkunum, sem krafizt er."

Síðan sýnir hún fram á, að launþeginn fær innan við helming af launakostnaði vinnuveitans greiddan út sem laun eftir skatt með sýnidæmi:

  • útgreidd laun f. skatt: kISK 500  (100 %)
  • trygg.gj. & lífeyr.:    kISK 120  ( 24 %)
  • orlof & annað:          kISK 120  ( 24 %)
  • launakostnaður:         kISK 740  (148 %)
  • greidd laun e. skatt    kISK 350  ( 70 %)

Greidd laun eftir skatt nema aðeins 47,3 % af launakostnaði vinnuveitandans.

 

Þetta er mjög slæm staða fyrir atvinnulífið, því að launakostnaður fyrirtækisins er orðinn svimandi, þótt launamaðurinn sé ekki ofhaldinn af sínum hlut. Ráðið við þessu er að hraða framleiðniaukningu með bættri stjórnun og tæknivæðingu og að draga úr skattheimtu, bæði á vinnuveitandann og launþegann.  Til þess þarf að draga úr yfirbyggingu fyrirtækja og hins opinbera, grisja reglugerðarfrumskóginn og minnka eftirlitsiðnaðinn.  Þetta verður ekki gert á meðan landið er í EES.  EES er berlega hluti þessa vandamáls.  Þess vegna þarf að tryggja viðskiptakjörin með fríverzlunarsamningum við ESB, Bretland o.fl. og segja upp EES-samninginum, enda hefur hann nú gengið sér til húðar.  Ef þingmenn vilja glöggva sig á þjóðarviljanum áður en þessi skref eru stigin, geta þeir samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið.  

Þorsteinn Víglundsson vill fara þveröfuga leið, auka skriffinnskuna og þar með yfirbygginguna enn meir með því, að Ísland gangi í ESB og þurfi þar með að taka upp meira en 2800 gerðir á ári sem löggjöf og reglugerðir.  Það er þá eðlilegt, að hann styðji veru landsins í fordyri ESB, EES, því að þannig aðlagast íslenzka þjóðfélagið stöðugt að ríkjasambandinu, og nú er svo komið, að við sogumst með sívaxandi hraða inn í það vegna þess, að við tökum upp stjórnkerfi ESB-landanna, eins og það kemur af skepnunni, með innleiðingu nýrra ESB-gerða í EES-samninginn.  Þar fer gamli varnaglinn um tveggja stoða kerfið forgörðum, eins og t.d. við upptöku persónuverndargerðarinnar, þar sem Persónuverndarráð ESB verður hæstráðandi þessara mála á Íslandi og ESB-dómstóllinn æðsti úrskurðaraðili, en Stjórnarskrá lýðveldisins liggur hins vegar óbætt hjá garði.  Þetta nær náttúrulega engri átt. Of margir hafa verið stungnir líkþorni og fljóta nú þegjandi að feigðarósi.

Þann 10. apríl 2018 hnykkti Þorsteinn Víglundsson á óbeysnum skoðunum sínum með skrifum í Morgunblaðið:

"Hvað græðum við eiginlega á EES ?".

Þorsteinn kveður það "fagnaðarefni, að lögð hafi verið fram á Alþingi beiðni um skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að EES.  Mikilvægt er þó, að þar verði vandað til verka."

Það má taka undir þetta, en veldur, hver á heldur.  Til að skýrslan komi landinu að gagni, verður að velja til verka hæfa fræðimenn, sem leggja sig fram um að koma á framfæri hlutlægu mati.  Líta má til Noregs um fyrirmynd, en þar er líka víti til að varast.

Þorsteinn skrifar:

"Norðmenn létu vinna úttekt á EES-samningnum og samskiptunum við Evrópusambandið, og var niðurstaðan birt í skýrslunni Udenfor og Indenfor árið 2012.  Niðurstaða skýrsluhöfunda var, að áhrif samningsins væru mjög mikil á norskt samfélag, en þau áhrif væru heilt yfir mjög jákvæð."

Síðasta setningin er umdeilanleg og spannar ekki viðhorf almennings í Noregi né allra stjórnmálaflokkanna þar.  Sérstaklega hafa efasemdir fræðimanna, stjórnmálamanna og almennings aukizt síðustu misserin vegna þess, að áhrif samrunaþróunar ESB-ríkjanna smitast yfir í EES-samstarfið.  Það lýsir sér með því, að ESB virðir sérstöðu EFTA-ríkjanna að vettugi með því að sniðganga tveggja stoða fyrirkomulagið, sem upphaflega var lagt til grundvallar EES-samninginum.  Stjórnlagafræðingar, íslenzkir og norskir, sjá mikla meinbugi á því, að stofnanir ESB fari með yfirstjórn málaflokka í EFTA-löndunum, t.d. ACER á orkuflutningssviðinu og EDPB á persónuverndarsviðinu.  Skiptir þá litlu máli, þótt ESA í Brüssel sé sett upp til málamynda sem milliliður ACER í Ljubljana og útibús hennar í Reykjavík.  Varðandi persónuverndina virðist ESB-dómstóllinn eiga að útkljá deilumál, og er það alveg nýtt af nálinni fyrir EFTA-ríkinn um úthýsingu dómsvalds úr landinu, og gróft brot á Stjórnarskrá.

Það var sá alvarlegi ljóður á forskrift norskra yfirvalda til ritnefndar "Utenfor og innenfor"- EES-skýrslunnar, að hún fékk ekki það hlutverk að bera EES-aðild Noregs saman við aðra valkosti landsins í viðskiptalegum efnum.  Þess vegna var samin önnur skýrsla, "Alternativrapporten" eða "Valkostaskýrslan", og er aðalhöfundur hennar Sigbjörn Gjelsvik, sem nú situr á Stórþinginu fyrir Miðflokkinn.  Þetta er mjög nytsöm, fróðleg og efnisrík skýrsla, einnig fyrir Íslendinga.  Á henni má reisa vitrænar umræður um, hvernig skipulagi  utanríkisviðskipta Íslands verður bezt hagað. 

Í skipunarbréfi nefndar, sem stjórna á gerð téðrar íslenzku skýrslu, er nauðsynlegt að taka samanburð valkosta með í reikninginn. Að öðrum kosti mun skýrslan hanga í lausu lofti. 

Þorsteinn Víglundsson hrapar að niðurstöðu slíkrar valkostagreiningar, þegar hann skrifar:

"Ekki er ástæða til að ætla, að niðurstaða íslenzkrar úttektar yrði önnur [en sú norska.  Það er ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram um það. Norðmenn er 14,2 sinnum fleiri en Íslendingar og hagkerfi þeirra að sama skapi stærra.  Olíu- og gasiðnaður landsins gerir hagkerfi þeirra talsvert frábrugðið okkar hagkerfi. Við þurfum að fara betur með opinbert fé en þeir, því að þeir taka nú árlega ávöxtun olíusjóðsins inn í ríkissjóð, og stendur hún undir um 18 % ríkisútgjaldanna-innsk. BJo].  

Áhrif samningsins hafa verið mikil og að langstærstum hluta jákvæð. [Það eru svo margar skuggahliðar á áhrifum EES-samningsins, að þetta er ótæk fullyrðing.  T.d. hefði Hrunið 2008 ekki orðið jafnsvakalegt og varð, ef Ísland hefði ekki haft samning við ESB um frjálst flæði fjármagns-innsk. BJo.]

Raunar væri óhugsandi fyrir íslenzkt atvinnulíf að standa utan EES-svæðisins í dag, enda hefur vægi EES-svæðisins í utanríkisviðskiptum aukizt verulega frá gildistöku samningsins.  [Þessari illa rökstuddu fullyrðingu verður að vísa til föðurhúsanna.  Það er ekkert, sem bendir til, að Íslendingum mundi vegna verr með fríverzlunarsamninga við ESB og Bretland en þvingandi, valdlausa og dýrkeypta annexaðild að ESB, og nægir að benda á Sviss því til sönnunar-innsk. BJo.]

 

 

 

 


Línur að skýrast á Alþingi til ACER-málsins

Í Noregi er gjá á milli þings og þjóðar í afstöðunni til ESB og til færslu norskra valdheimilda undir lýðræðislegri stjórn til yfirþjóðlegra stofnana.  Stórþingsmenn á bandi ESB afneita Stjórnarskránni í þessu sambandi, sem kveður á um, að fullveldisframsal til erlends ríkis eða erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki er fullgildur aðili, geti aðeins farið fram, ef að lágmarki 75 % mættra Stórþingsmanna samþykkja það, og að lágmarki 50 % heildarfjölda Stórþingsmanna, sem þýðir, að 2/3 verða að mæta.

Vegna hunzunar ríkisstjórnar og meirihluta Stórþingsmanna á ákvæðum Stjórnarskráar Noregs við afgreiðslu lagafrumvarps orkuráðherrans um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er nú að grafa um sig ólga á meðal norsks almennings, sem gæti á endanum orðið minnihlutastjórn Noregs að falli. Ef Alþingi hafnar sama gjörningi, verður lögð fram tillaga á norska Stórþinginu um endurupptöku málsins, og þá mun heldur betur hitna í kolunum á lóð æsanna, Ósló.     

Innganga Noregs í Orkusamband ESB og áheyrnaraðild Noregs í ACER-Orkustofnun ESB er dæmi um gjá á milli þings og þjóðar, sem vonandi mun ekki birtast á Íslandi.  Ólga var í Noregi í aðdraganda samþykktar Stórþingsins á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, og hún er engan veginn horfin.  Verkamannaflokkurinn er klofinn í herðar niður í málinu, þótt farið hafi verið að tilmælum Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um einhuga stuðning við frumvarp ríkisstjórnarinnar, enda voru tilmæli LO, norska Alþýðusambandsins, þau að fella frumvarpið.  Um 100 oddvitar Verkamannaflokksins í sveitarstjórnum Noregs og meirihluti fylkisþinga Noregs hvöttu Stórþingsmenn til að fella frumvarpið.  Rætt er um að kæra forystu Stórþingsins til Hæstaréttar fyrir Stjórnarskrárbrot, og fer nú fram söfnun í Noregi til þeirra málaferla.  Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar, sem afstöðu hafa tekið til ACER-málsins, 80 %-90 %, er andsnúinn því, að ACER fái síðasta orðið um skipan orkuflutningsmála Noregs, enda flyzt ráðstöfunarréttur raforkunnar þá í hendur markaðsaðila á sameiginlegum raforkumarkaði ESB, sem ACER hefur eftirlit með. Á Íslandi fer nú fram tímabær skoðanakönnun um sama mál.

Á Íslandi eru línur teknar að skýrast varðandi afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  Tveir stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa nánast einróma lýst yfir andstöðu sinni við að fela ACER ráðstöfunarrétt yfir raforku úr íslenzkum orkulindum.  Talsmaður Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli, Kolbeinn Proppé, Alþingismaður, hefur í viðtali við Spegil RÚV lýst andstöðu sinni við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi og þar að auki efasemdum sínum og síns flokks um Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem hér var lögfestur 2003 og núverandi raforkulög eru reist á.

Nú hefur iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir komið með opinbert útspil, sem virðist snúast um að sýna fram á, með rökstuðningi fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að ályktanir stjórnarflokkanna eigi bara alls ekki við um samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.  Þetta hefur verið hrakið hér á vefsetrinu, búast má við mótmælum frá Heimssýn, og þessi höfundur hefur sent grein til prentútgáfu Morgunblaðsins, þar sem komizt er að algerlega öndverðri niðurstöðu við lögmanninn, sem ráðherrann fékk minnisblað frá.  Nú er verið að gera mælingu á afstöðu almennings til þessa máls.  Ef niðurstaðan verður í líkingu við norskar skoðanakannanir um sama mál fyrir Noreg í stað Íslands, þá mun sannast, hvílíkt pólitískt glapræði vegferð varaformanns Sjálfstæðisflokksins er í þessu máli.  Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna ?  Það hefur ekki verið bent á einn einasta ávinning fyrir Ísland af téðri innleiðingu ESB-gerðar í lög hér, en henni fylgir stórkostleg áhætta fyrir landið.  Hér er um fádæma lélega frammistöðu hérlendra embættismanna og ráðherra að ræða, að þeir skyldu að lokum samþykkja þessi ósköp í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Heldur ráðherrann, að framganga hennar í þessu máli fari framhjá kjósendum í NV-kjördæmi ?  Alþingismenn verða að þrífa í neyðarhemilinn til að forða meiriháttar stjórnlagalegu slysi.    

Ef Alþingi hafnar Þriðja bálkinum og Sameiginlega EES-nefndin samþykkir ógildingu Annars bálksins í kjölfarið að tillögu ESB, þá mun Alþingi bjóðast tækifæri til að lappa upp á helztu veikleikana í þeirri lagasetningu m.v. íslenzkar aðstæður, án þess að ESA geti fýlt grön.  

Þar má nefna hættuna á raforkuskorti í landinu sökum þess, að enginn aðili utan Orkustofnunar (OS) er ábyrgur  fyrir því að koma í veg fyrir tímabundinn eða varanlegan raforkuskort í landinu, og OS hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja.  Það má hugsa sér að fara ýmsar leiðir til að bæta úr þessu.  Ein leið er sú að skylda fyrirtækið með stærstu markaðshlutdeildina til að tryggja nægan varaforða í orkukerfinu á hverjum tíma, t.d. að lágmarki 15 % af árlegri raforkunotkun í landinu, sem mundi nú samsvara tæplega 3 TWh/ár og gæti tekið um áratug að mynda.  Þetta kostar auðvitað sitt, en bagginn mundi virka til að jafna samkeppnisstöðu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu. 

Það virðist óhætt að búast við því, að flestir ráðherrarnir muni á Alþingi snúast öndverðir gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn ásamt yfirgnæfandi meirihluta í þingflokkum stjórnarflokkanna.  Þá hefur formaður Miðflokksins tjáð andstöðu sína í "Reykjavík síðdegis" á Bylgjunni og líklegt, að allir þingmenn flokksins séu sama sinnis og formaðurinn.  Blekbónda er ókunnugt um afstöðu þingmanna Flokks fólksins, en búast má við, að ESB-flokkarnir, Samfylking og Viðreisn, muni styðja þessa víkkun EES-samstarfsins út fyrir frelsin 4 á Innri markaðinum sem lið í aðlögun Íslands að æ nánara samstarfi og meiri miðstýringu ESB.  Píratar eru líklegir til að sitja hjá, enda málið stórt og þykir sumum torskiljanlegt.

Ef fer sem horfir, stefnir í, að Alþingi hafni því, að Ísland gangi í Orkusamband ESB, enda fæli sú innganga í sér skýlaust Stjórnarskrárbrot (2. gr).  

Í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 gaf að líta texta, sem gefur innsýn í blekkingarheim eða sýndarveruleika utanríkisráðuneytisins.  Er utanríkisráðherra þessarar skoðunar ?:

"Þar sem engum grunnvirkjunum (svo ?!), sem ná yfir landamæri, er til að dreifa hér á landi, fellur íslenzki orkumarkaðurinn ekki undir valdheimildir ACER.  Í svari ráðuneytisins er bent á, að í stað ACER sé Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) falið úrskurðarhlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum, ef á myndi reyna.  Þannig sé ACER-gerðin aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins."

Það er einfeldningslegt af utanríkisráðuneytinu að halda þessu blekkingarhjali á lofti.  Það náði engum undanþágubeiðnum fram í "samningaviðræðunum" við ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og þar af leiðandi munu ákvæði Þriðja orkumarkaðslagabálksins gilda á Íslandi, eins og Ísland væri ESB-aðildarland, nema Alþingi hafni Þriðja orkubálkinum í heild sinni.

Það er grundvallar misskilningur, að valdheimildir ACER í löndum Orkusambands ESB nái aðeins til orkuflutningsmannvirkja á milli landa.  Þær ná til allra mannvirkja, sem skilgreind eru sem orkuflutningsmannvirki og til allra fyrirtækja, sem starfa í orkuflutningsgeiranum.  Hvernig hefur þessi fluga komizt inn í höfuð embættismanna utanríkisráðuneytisins íslenzka ?  Hvernig ætti ACER annars að takast ætlunarverk sitt um að tengja saman öll lönd Orkusambandsins með svo rækilegum hætti, að verðmunur á raforku verði í mesta lagi 2,0 EUR/MWh (<0,25 ISK/kWh) á milli landa.  Í ráðuneytinu ríkir illvíg meinloka, og allir vita, hvað hún heitir.

Hvernig á ESA að gegna "úrskurðarhlutverk[i] gagnvart EFTA-ríkjunum" án þess að hafa hlotið nokkrar sjálfstæðar valdheimildir til að úrskurða gegn ACER ?  ESA er einvörðungu upp á punt í hlutverki ljósritandi milliliðar fyrir fyrirmæli frá ACER og til OS.  Það er til vanza, hvernig utanríkisráðuneytið reynir að slá ryki í augun á fólki og telja því trú um, að stjórnskipulega feli aðild Íslands að Orkusambandinu ekki í sér neinar breytingar á EES-samstarfinu.  Þær eru einfaldlega svo miklar, að ekki er lengur hægt að tala um samstarf, heldur samband húsbónda og þræls. 

Þann 4. apríl 2018 skrifaði Óli Björn Kárason, Alþingismaður, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Merkingarlaus stjórnskipulegur fyrirvari".

Þar skrifaði hann m.a. um mikilvægi raforkumálanna fyrir íslenzkan þjóðarhag:

"Skipulag orkumála skiptir okkur Íslendinga miklu, hefur veruleg áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins og bein áhrif á lífskjör almennings. Verði af lagningu sæstrengs - líkt og margir vonast til - mun íslenzki orkumarkaðurinn falla undir valdsvið ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), eftirlitsstofnunar Evrópusambandsins. [Hér er þess að geta, að ACER mun fá vald til að ákveða tímasetningu og tilhögun téðs Ice Link, ef Alþingi ákveður, að Ísland skuli ganga í Orkusamband ESB með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn - innsk. BJo.]  ACER fær meðal annars vald til að úrskurða í ágreiningsmálum. [Þeim úrskurði verður ekki hægt að áfrýja til íslenzkra dómstóla, heldur aðeins til ESA og EFTA-dómstólsins, sem reisir úrskurði sína á dómafordæmum frá ESB-dómstólinum, ef til eru - innsk. BJo.]  (Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er á lista Evrópusambandsins yfir mikilvæg innviðaverkefni í orkumálum.)  [Þingmenn þyrftu að komast að því, hvernig í ósköpunum hann komst þangað - innsk. BJo.] 

Hrein orka er ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga.  Raforkuvinnsla á íbúa [54 MWh/íb] er hvergi meiri en hér á landi og yfir helmingi meiri en í Noregi [25 MWh/íb].  Í skýrslu ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raforkumál, sem lögð var fram í marz, koma þessar upplýsingar fram.  Kanada og Finnland eru í þriðja og fjórða sæti, langt á eftir okkur Íslendingum.  Að fullyrða, að skipulag orkumála, hvernig og hvort við aðlögum íslenzkt regluverk að orkutilskipunum Evrópusambandsins, hafi ekki mikil áhrif hér á landi, er í bezta falli sérkennilegt og í versta falli hættulegt."

Í ljósi þess, að staðhæfingin í lokin í hinum tilvitnuðu orðum þingmannsins, er ættuð frá utanríkisráðuneyti Íslands, verður ekki kveðið vægar að orði um hana en hún sé í senn hneykslanleg og þjóðhættuleg.  Hvernig er hagsmunagæzlu þessa ráðuneytis fyrir Íslands hönd eiginlega háttað ?  Er metnaður starfsmanna ráðuneytisins bundinn við að vera stimpilpúði fyrir skoðanir ráðamanna ESB og túlkanir skósveina þeirra ?  Það er ástæða til að krefjast stjórnsýsluúttektar á starfsemi þessa ráðuneytis og kostnaði þess vegna EES-aðildar Íslands (ferðalög, fundarsetur, launakostnaður vegna þýðinga, reglugerðasetninga og innleiðinga gjörða ESB í EES-samninginn).

Ísland á ekkert erindi í Orkusamband ESB, af því að hagsmunir landsins í raforkumálum stangast algerlega á við hagsmuni ESB á því sviði.  Þegar allir keppast við að auka hlutdeild endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkugjafa í orkunotkun sinni, þá skyti skökku við, ef Íslendingar tækju upp á að flytja inn rafmagn frá kola- og gaskyntum orkuverum meginlandsins, því að slíkt yrði óhjákvæmilegt til að vega upp á móti útflutningi raforku.  Það verður ókræsilegt að baksa hér við orkuskipti upp á þau býti og rafmagnsverð í hæstu hæðum.  Það er óhjákvæmilegt, að slíkt ráðslag mundi tefja orkuskiptin og draga verulega úr hinum fjárhagslega ávinningi af þeim.  Þessar ábendingar hljóta að vega þungt gegn sæstreng.

Annað, sem mælir gegn því að tengjast raforkumarkaði ESB, er, að slíkt skapar mikla óvissu um framlengingu langtímasamninga um raforku.  Samkvæmt reglum raforkumarkaðar ESB verður að selja tiltæka raforku hæstbjóðanda.  Verði gerðir langtímasamningar eftir valdatöku ACER hér, skal bera þá undir ESA, (hefur reyndar gilt frá upptöku Annars orkumarkaðslagabálksins), sem úrskurðar, hvort um undirboð m.v. sameiginlegan markað ESB/EES er að ræða. 

Í Noregi eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu og út af hækkun markaðsverðsins, en norska stóriðjan kaupir hluta af raforku sinni á skammtímamarkaði (þó ekki augnabliksmarkaði). Þetta er aðalástæða þess, að nánast gjörvöll norska verkalýðshreyfingin lagðist eindregið gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. 

Norðmenn og Íslendingar vilja nýta raforku sína í þjóðhagslegu augnamiði, þ.e. til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar um allt land, en ekki sem viðfang spákaupmanna.  Þess vegna eru hagsmunir Íslendinga og Norðmanna ósamrýmanlegir hagsmunum ESB-ríkjanna í orkumálum.  

 

 


Köttur í kringum heitan graut

Grautargerð utanríkisráðuneytisins í ACER-málinu svo nefnda tekur á sig ýmsar myndir.  Ein þeirra birtist í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 og var andmælt á sama vettvangi af þessum höfundi 12. apríl 2018.

Þann sama dag birtist í Morgunblaðinu sviðsljósgrein Ómars Friðrikssonar:

"Efasemdir þrátt fyrir verulegar undanþágur".

Þessi fyrirsögn er mjög villandi um eðli og stöðu málsins, sem fjallar um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og þar með valdframsal frá íslenzka ríkinu til Orkustofnunar ESB, ACER, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB.  Í fyrsta lagi eru ekki efasemdir um þessa ráðstöfun, heldur rökstudd vissa um, að þessi ráðstöfun væri þjóðhagslegt og stjórnlagalegt glapræði.

Að EFTA-ríkin eða Ísland sérstaklega hafi fengið "verulegar undanþágur" frá Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB er einhver mesta oftúlkun og upphafning, sem lengi hefur sézt á prenti og minnir á "sáuð þið, hvernig ég tók hann" grobb.  Sannleikurinn er sá, að engin undanþága fékkst fyrir Ísland, sem nokkru máli skiptir, enda er það í anda núverandi starfshátta ESB, að útþynna ekki gerðir, sem aðildarlöndin hafa öll komið sér saman um eftir erfiða samningafundi. 

EFTA-löndin verða einfaldlega að taka við því, sem að þeim er rétt, einnig þótt slíkt feli í sér brot á grundvallarreglu EES-samningsins um tveggja stoða samkomulag jafnrétthárra aðila.  Innan EFTA er einfaldlega engin stofnun mótsvarandi ACER, og þess vegna er komið alvarlegt stjórnlagalegt ójafnvægi í framkvæmd samningsins.  Allt ber að sama brunni: EFTA-ríkin hafa ekki stjórnskipulega getu vegna smæðar sinnar til að standa að EES-samstarfinu án þess að ganga í berhögg við stjórnarskrár sínar.  Þetta á a.m.k. við Ísland og Noreg.

Það er stöðugt tönglast á því, að einhverju breyti varðandi yfirráð ACER, að engin tenging er á milli íslenzka raforkukerfisins og erlendra.  Þarna er horft algerlega framhjá þeirri skipulagsbreytingu, sem mun eiga sér stað í íslenzka orkugeiranum, ef/þegar lögfesting Þriðja orkumarkaðslagabálksins tekur gildi.

Hún er í stuttu máli sú, að stofnað verður útibú ACER á Íslandi, sem verður algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. (Norðmenn kalla þetta RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi".) Útibúið fær öll reglusetningar- og eftirlitsvöld yfir raforkuflutningsgeiranum (Landsneti), sem nú er að finna hjá Orkustofnun (OS) og ráðuneyti.  ACER skipar forstjóra þessarar stofnunar, en hún mun samt fara á íslenzku fjárlögin.  Þótt ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé á skipuritinu sett á milli útibúsins og ACER, breytir það stjórnlagalega engu í raun um það, að hér er stefnt á, að yfirþjóðleg stofnun (ACER) fari að stjórna á mikilvægu málefnasviði á Íslandi, framjá ríkisvaldinu.  Þetta er grafalvarlegt stjórnlagabrot.

Til að sýna fram á haldleysi kenningarinnar um sakleysi aðildar Íslands að Orkusambandi ESB nægir að rekja, hvernig ACER með þessum völdum sínum getur fengið sínu framgengt um Ice Link, þótt leyfisvaldið sé áfram í höndum OS (undir stjórn ráðuneytis).  Það er vegna þess, að í höndum útibús ACER verður að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir sæstrenginn.  Uppfylli væntanlegt sæstrengsfélag þessa skilmála í umsókn sinni til OS, getur OS ekki synjað honum um leyfið, nema vera gerð afturreka með synjunina með úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins.  Þannig er ekkert haldreipi í því, að Ísland er einangrað raforkukerfi núna. Sú skoðun gengur fótalaus og styðst ekki við staðreyndir máls. Hún er ímyndun eða óskhyggja reist á vanþekkingu um valdsvið ACER og útibú þess í hverju landi.  

Í téðri sviðsljósgrein stendur þetta m.a. og hlýtur að vera haft eftir Katli, skræk, af innantómum gorgeirnum að dæma:

""Að mati utanríkisráðuneytisins skiluðu tilraunir íslenzkra stjórnvalda til að ná fram viðunandi aðlögun góðum árangri, og voru Íslandi veittar mikilvægar undanþágur.  [Það er ótrúlegt að lesa þetta sjálfshól, því að mála sannast er, að engar undanþágur, sem máli skipta, fengust frá Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, enda er barnaskapur að búast við slíku - innsk. BJo.]

Ísland fékk, í fyrsta lagi, undanþágu frá kröfum tilskipunar 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markað raforku varðandi eigendaaðskilnað vinnslu- og söluaðila annars vegar og flutningskerfa hins vegar.  Þetta telst umtalsverður ávinningur fyrir Ísland í ljósi eignarhalds Landsnets og vandkvæða á að breyta því fyrirkomulagi.""

Í raun var reglan um eigendaaðskilnað innleidd með Öðrum orkumarkaðslagabálki og raforkulögum árið 2003. Þar er lögbundin einokunarstaða Landsnets á flutningskerfinu, og hvaða annað eignarhald en ríkiseign tryggir þá jafna samkeppnisstöðu allra þeirra, sem vilja setja orku inn á flutningskerfið eða taka út af því orku ?  Núverandi eignarhald Landsnets með fulltrúa Landsvirkjunar, OR, RARIK og OV í stjórn fyrirtækisins er einfaldlega óviðunandi, ef tryggja á jafnstöðu allra markaðsaðila eftir föngum. Þetta hefur Ríkisendurskoðun margbent á, nú síðast með skýrslu frá febrúar 2018.

Það er þess vegna stórt skref aftur á bak og vekur furðu að ætla að festa núverandi óeðlilega ástand í sessi.  Vandræðagangurinn er með ólíkindum, að ríkið eigi erfitt með að breyta núverandi eigendafyrirkomulagi, þegar ríkið er að 93 % óbeinn eignaraðili að Landsneti og er þar þess vegna mestan part að semja við sjálft sig um skuldabréf til núverandi eigenda, svo að ríkið eignist fyrirtækið að fullu beint. 

Það er furðulegt að sækja um undanþágu fyrir þetta óeðlilega fyrirkomulag til ESA.  Í lagafrumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem nú liggur fyrir Alþingi, er breyting á raforkulögum þess efnis, að ekki er lengur stefnt að ríkiseign á Landsneti, heldur geti jafnvel nýir aðilar komið þar inn.  Þetta fellur afar illa að einokunarhlutverki Landsnets, og verður Alþingi fyrr en seinna að vinda ofan af þessari undarlegu hugmyndafræði, sem virðist vera ættuð utan úr geimnum, en finnst hvergi í samþykktum ríkisstjórnarflokkanna.

"Framkvæmdastjórn ESB hafnaði beiðni Íslands um að verða skilgreint lítið, einangrað raforkukerfi, þar sem raforkunotkun landsins er langt umfram viðmiðunarmörk tilskipunarinnar."

Af þessu má ráða, að tilraun íslenzkra embættismanna til að fá raunverulega undanþágu frá að lenda í klóm ACER hefur gjörsamlega mistekizt, og hún sýnir algeran skilningsskort á því, sem Orkusamband ESB snýst um.  Það snýst einmitt um öfluga samtengingu allra landa ESB/EES, nýjar samtengingar og eflingu þeirra, sem fyrir eru, til að bæta afhendingaröryggi raforku í ESB og flýta fyrir orkuskiptunum.  Hér á við "to be or not to be", þ.e. annaðhvort eru menn með eða á móti.

Á Íslandi hefði samtenging hins vegar þveröfug áhrif, því að samrekstur landskerfisins við 1200 MW sæstreng (50 % af uppsettu afli í virkjunum) yrði tæknilega erfiður, t.d. í bilanatilvikum), og útflutningur á "kolefnisfrírri" raforku og innflutningur á raforku úr jarðefnaeldsneytisorkuverum mundi tefja fyrir orkuskiptum hérlendis.  

"Íslandi verður þó heimilt að sækja um undanþágu frá ákvæðum um aðskilnað dreififyrirtækja (svo ?!), aðgengi þriðja aðila og markaðsopnun o.fl., ef sýnt er fram á erfiðleika í rekstri raforkukerfisins."

Þessi texti kemur ærið spánskt fyrir sjónir.  Hvaða aðskilnað dreififyrirtækja skyldi vera átt við ?  Er átt við bókhaldslegan aðskilnað dreifingar á vatni (heitu og köldu) og rafmagni ?  Sá aðskilnaður er ekki fyrir hendi hérlendis, en dreififyrirtækin starfa samkvæmt sérleyfi, sem Orkustofnun gefur út, og að flækja þessu inn í viðræður við ESB er alveg út í hött.  

Þarna er líka vísað til heimildar um að stöðva orkuviðskipti um samtengingar við útlönd, ef neyðarástand myndast í raforkukerfinu innanlands.  Þetta ákvæði fékk EFTA-fram sem heild í viðræðum við ESB, og það gildir ekki frekar fyrir Ísland en önnur lönd.  Að draga þetta fram hér, sýnir, að menn (væntanlega beggja vegna samningaborðsins) hugsa sér Ísland samtengt sameiginlegum raforkumarkaði ESB/EES í framtíðinni.  

Það virðist því miður ríkja þekkingarleysi eða a.m.k. gróft vanmat hérlendis á eðli ACER og til hvers innganga Íslands í Orkusamband ESB mundi leiða hér.  Fullyrðingar frá embættismönnum ráðuneyta o.fl. um lítil áhrif á rafmagnslegt eyland benda til alvarlegrar meinloku í þessum efnum, og að fólk hafi einfaldlega ekki ráðið við heimaverkefnin. 

 

 

     

 


Yfirlýsing frá Noregi

Málflutningur íslenzka utanríkisráðuneytisins í s.k. ACER-máli, sem fjallar um afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, hefur vakið hneykslun hér heima og í Noregi.  Hér er átt við það, sem haft er eftir fulltrúum utanríkisráðuneytisins í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins 28. marz 2018 í fréttaskýringunni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi".  Að rakalausum málflutningi um tjón, sem Íslendingar gætu bakað Norðmönnum með höfnun Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er vikið í yfirlýsingu Trúnaðarráðs norsku samtakanna "Nei til EU", dags. 08.04.2018.  Hér er þýðing höfundar á tveimur af 9 greinum yfirlýsingarinnar, en hún er í heild sinni á norsku í viðhengi með þessari vefgrein:

"Norsk yfirvöld, höll undir ESB, hafa vanizt því að fá vilja sínum  framgengt sem "stóri bróðir" í EES-samstarfinu.  Erna Solberg, forsætisráðherra, fullyrðir, að orkustofnunin ACER "sé ekki mikilvæg" fyrir Ísland, því að landið hefur enn ekki verið tengt evrópska orkumarkaðinum, eins og Noregur.  Á milli línanna gefur hún til kynna, að hún ætlast til, að Ísland muni láta undan norskri kröfugerð í samningum um að innleiða orkubálkinn.

Íslenzk synjun mun ekki hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland eða Noreg.  ESB getur í mesta lagi ógilt hluta af viðhengi 4 í EES-samninginum, sem fjallar um orku, og slíkt þjónar ekki hagsmunum ESB. Þvert á móti mun íslenzk synjun beinlínis verða til stuðnings þjóðarhagsmunum Noregs.  Baráttan gegn ACER hefur verið einkar öflug á meðal starfsmanna norsks  orkusækins iðnaðar, sem bera ugg í brjósti um störf sín og stöðvun á starfsemi, ef rafmagnsverð nálgast það, sem tíðkast í ESB.  

Miklu máli skiptir, að allir átti sig á alvarlegum afleiðingum þess að samþykkja innleiðingu á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þótt raforkukerfi landsins sé ótengt við raforkukerfi ESB. Í yfirlýsingu norsku samtakanna "Nei til EU" um tilraun norskra stjórnvalda til að hafa áhrif á stjórnmál Íslands í ACER-málinu, sem Alþingi á eftir að fjalla um, kemur skýrt fram, að Ísland mun alls ekki bera hagsmuni norsku þjóðarinnar fyrir borð með synjun á ACER-löggjöfinni, sem þá um leið jafngildir höfnun EFTA á þessari ESB-samruna löggjöf. Þvert á móti mun mikill meirihluti norsku þjóðarinnar fagna synjun Alþingis. Það er hið eina, sem máli skiptir fyrir hina norsku hlið á þessu máli Íslendinga.

Misskilnings gætir um það, hvenær valdframsals íslenzka ríkisins tæki að gæta hér á landi til ACER.  Þá er ruglað saman völdum til ákvarðanatöku um málefni innlendra raforkuflutningsmála og áhrifum hins sameiginlega raforkumarkaðar ESB á íslenzka raforkumarkaðinn.  Síðar nefndu áhrifin koma vitaskuld ekki fram fyrr en við gangsetningu aflsæstrengs til útlanda.  Kryfjum hins vegar eina hlið á áhrifum  valdframsalsins:

ESB hefur samið kerfisþróunaráætlun fyrir raforkukerfi EES.  Þar er Ice Link örlítill hluti.  Með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn, mundi Alþingi skuldbinda sig til að styðja við framkvæmd þessarar kerfisþróunaráætlunar að sínu leyti.  Eftir téða samþykkt, verður fyrsta verk ACER hér á landi að stofnsetja útibú sitt, sem samkvæmt þriðja orkubálki ESB fær í hendur bæði reglugerðar- og eftirlitshlutverk með Landsneti.  Í fyllingu tímans koma fyrirmæli frá ACER um stimpilstofnunina ESA þess efnis að semja tæknilega og viðskiptalega skilmála fyrir lagningu, tengingu og rekstur Ice Link.  Þegar þeir eru tilbúnir, verður stofnað félag um Ice Link, sem semur og sendir umsókn um lagningarleyfi, tengileyfi og rekstrarleyfi fyrir Ice Link til Orkustofnunar, OS, þess hluta hennar, sem verður undir íslenzkum yfirvöldum. 

Verður OS stætt á að hafna umsókn eiganda sæstrengsverkefnis, ef hann uppfyllir alla skilmála ?  Það skortir allar lagalegar forsendur fyrir slíkri höfnun.  ESB mun strax saka íslenzk stjórnvöld um samningsrof (EES-samningurinn) og ágreiningsmálið væntanlega fara sína leið um ESA til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg.  Dómstóllinn mun vafalaust dæma í samræmi við skuldbindingar í EES-samninginum.  Þar með verður eiganda sæstrengsins veitt leyfi til að leggja hann, tengja og reka, jafnvel í blóra við vilja íslenzkra stjórnvalda.  

Í kjölfarið munu áhrifin af strengnum á raforkukerfið og á hagkerfið koma í ljós.  Raforkureikningurinn mun hækka um á að gizka 75 %, sem leiða mun til meiri ásóknar í virkjanaleyfi, verri samkeppnisstöðu fyrirtækja, minni spurnar eftir vinnuafli og rýrnandi lífskjara.  Miklar sveiflur verða á rennsli virkjaðra vatnsfalla, enda verða virkjanir þandar á fullu álagi á daginn og reknar á sáralitlu álagi á nóttunni, þegar raforka verður flutt inn. 

Það er ekki spáð svo háu raforkuverði í Evrópu, að gróði verði mikill af þessum raforkuviðskiptum, en ESB fær með þessu aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í sinn hlut.  Botninn getur svo skyndilega dottið úr þessum viðskiptum, ef/þegar tækninýjungar gera ESB-ríkjunum kleift að leysa kolakynt orkuver sín af hólmi með áhættulitlum, kolefnisfríum orkuverum, t.d. þóríum-verum.  Þá sitja landsmenn uppi með ónýtanlegar, miklar fjárfestingar, sem geta ógnað fjármálastöðugleika hérlendis, .  

ACER-málið er sýnidæmi um stórvægilega galla EES-samningsins:

  • hann líður fyrir vaxandi ójafnræði á milli EFTA og ESB.  Samkomulags er ekki lengur freistað í Sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. ekkert svigrúm er lengur veitt að hálfu ESB fyrir sáttaferli á milli EFTA/ESB.
  • hann er ógagnsær og þróun hans er ófyrirsjáanleg. EFTA-ríkin vita ekki, hvað þau samþykkja, því að breytingar og viðbætur eru tíðar.  T.d. er í bígerð 1000 blaðsíðna viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem væntanlega verður kallaður Fjórði orkumarkaðslagabálkurinn.  Þetta verður sagan endalausa. 
  • dómsvaldið er framselt úr landi varðandi öll ágreiningsatriði, þar sem ACER eða útibú þess lenda í ágreiningi hérlendis.
  • framkvæmdavaldið er framselt úr landi, því að útibú ACER á Íslandi verður í gjörðum sínum óháð íslenzka framkvæmdavaldinu (sem og dómsvaldinu).  Útibúið tekur aðeins við fyrirmælum frá ACER. Það er hvorki stjórnlagalegt né siðferðislegt haldreipi fólgið í því að láta ESA afrita þessi fyrirmæli og senda áfram, enda hafa ESA ekki verið veitt nein völd til að breyta ákvörðunum ACER.
  • ákvarðanir ESB verða bindandi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og ríkið, því að útibú ACER á Íslandi mun hafa síðasta orðið um flutningsgjald Landsnets, og ákvarðanir í þágu sæstrengsins munu óhjákvæmilega varpast yfir í gjaldskrá Landsnets.

Til að tveggja stoða kerfið verði virt, þarf að stofna sams konar stofnun EFTA-megin.  Fyrir því er pólitískur vilji hvorki í ESB né í EFTA.  Án tveggja stoða kerfisins verður bráðlega gengið af EES-samstarfinu dauðu.  

Hver og einn þessara 5 ásteytingarsteina EES-samningsins við Stjórnarskrá lýðveldisins er alvarlegur, en þegar þeir koma allir saman, mynda þeir frágangssök fyrir þetta fyrirkomulag.  Það er affarasælast fyrir utanríkisráðuneytið að viðurkenna staðreyndir og að hefja þegar í stað undirbúning að því að finna eðlilega valkosti fyrir landið við EES-samninginn.  Hann ber dauðann í sér.  Í þessu skyni er t.d. hægt að fara í smiðju til norska Stórþingsmannsins Sigbjörn Gjelsvik, sem hefur ritað yfirgripsmikla skýrslu um þetta efni.  Gjelsvik er væntanlegur til landsins 16.04.2018.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband