Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
4.4.2018 | 17:19
Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi
Þann 28. marz 2018 birti Viðskiptablaðið fréttaskýringu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn með fyrirsögninni:
"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi".
Þar er utanríkisráðuneyti Íslands borið fyrir furðutúlkunum á áhrifum af innleiðingu þessarar gjörðar ESB hérlendis og á áhrifum höfnunar Alþingis á gjörninginum í Noregi og á EES-samstarfið í heild sinni.
Í stuttu máli er þarna um að ræða áróðursblöndu (hanastél) af léttvægi áhrifanna hér innanlands og hræðsluáróður um áhrifin á hag Noregs og á EES-samstarfið. Hér að neðan verður þessi þynnka metin og léttvæg fundin. Það er alveg dæmalaust, að utanríkisráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns skuli hljóma eins og málpípa búrókratanna í Berlaymont í Brüssel. Þeir reyna markvisst að flækja EFTA-ríkin í net ESB á hverju sviðinu á fætur öðru, og eftir að Bretar urðu áhrifalausir innan ESB í kjölfar BREXIT, brestur búrókrata Berlaymont allt umburðarlyndi gagnvart sérstöðu EFTA-ríkjanna. Þeir neita að semja um undanþágur við EFTA-ríkin um málefni, sem þeir eftir langa mæðu hafa náð samstöðu um innbyrðis á milli ESB-ríkjanna. Búrókratana virðist ekki skipta það neinu máli, að orkumálin eru utan við fjórfrelsi Innri markaðarins, sem EES-samningurinn var upphaflega gerður til að viðhalda. Það er alls ekki í þágu íslenzkra hagsmuna að útvíkka EES-samninginn, svo að hann spanni orkumálin einnig. Að dómi fjölmargra Norðmanna, þ.m.t. stór verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, er þessi útvíkkun gildissviðsins heldur ekki í þágu norskrar alþýðu. Höfundi er ekki kunnugt um, hver afstaða manna í Liechtenstein er, en innleiðing gjörðarinnar mun a.m.k. ekki hafa farið fram þar. Það ber æ meir á því, að búrókratar Berlaymont komi fram við EFTA-ríkin sem hornrekur í ESB. Það er kominn tími til að spyrna við fótum.
Boðskap utanríkisráðuneytisins dregur Snorri Páll Gunnarsson, blaðamaður, saman með eftirfarandi hætti:
"Þriðji orkupakki ESB mun hafa lítil áhrif hér á landi, samkvæmt utanríkisráðuneytinu [1]. Pakkinn felur ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenzkum orkulindum og grunnvirkjum til stofnana ESB [2]. Hafni Alþingi pakkanum, gæti það haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir EES-samstarfið."[3].
Hér verður þetta hrakið lið fyrir lið:
[1 & 2]: Það er með endemum að halda því fram, að sá gjörningur að færa Orkustofnun Íslands (OS), eða þann hluta hennar, sem fæst við reglusetningu og eftirlit með raforkuflutningsfyrirtækinu Landsneti, undan íslenzku ráðuneyti og undir eina af stofnunum ESB, ACER-Orkustofnun ESB, með Eftirlitsstofnun EFTA-ESA sem ljósritandi millilið, sem enga raunverulega þýðingu hefur, muni "hafa lítil áhrif hér á landi", þótt hér sé um augljóst Stjórnarskrárbrot að ræða (gr.2).
Í raun þýðir þetta, að raforkuflutningsmál Íslands eru færð frá því að vera á forræði íslenzka ríkisins í það að verða á forræði ESB. Þetta er stórmál vegna þess, að með þessum gjörningi færist ráðstöfunarréttur raforkunnar frá Reykjavík til Ljubljana í Slóveníu, þar sem ACER hefur aðsetur. Eignarhald virkjana og flutningsmannvirkja verður óbreytt, en ráðstöfunarréttur yfir raforkunni verður færður til raforkumarkaðar ESB. Til hvers heldur utanríkisráðuneytið, að til ACER hafi verið stofnað ? Það var til að ryðja úr vegi hindrunum við snurðulausum flutningum á jarðgasi og raforku frá svæðum með gnótt orkulinda, t.d. endurnýjanlegra orkulinda til raforkuvinnslu, og til svæða innan ESB, þar sem skortur er á slíkum orkulindum. Þessar hindranir voru ekki tæknilegs eðlis, heldur stjórnmálalegs og efnahagslegs eðlis. Með stuðningi af stjórnarskrárígildi ESB, Lissabon-samninginum, hafa ESB-ríkin samþykkt að færa allt vald yfir innviðum orkuflutninga til ACER, sem þegar hefur sett sæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem ACER kallar Ice Link, á forgangsverkefnaskrá sína með áætlaðri tímasetningu gangsetningar árið 2027.
Ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, þá mun ACER hrinda af stað þessu verkefni og skylda Landsnet til að taka þátt. Það verður gert með meirihlutaákvörðun í ACER, sem send verður ESA. Þessi Eftirlitsstofnun EFTA er valdalaus á orkusviðinu og hefur ekki annað val en að ljósrita fyrirmælin og senda þau til útibús ACER á Íslandi, sem er Orkustofnun, OS, eða sá hluti hennar, sem hefur eftirlit með Landsneti. Landsnet mun þá verða að styrkja raforkuflutningskerfið innanlands, til að unnt verði að tengja um 1200 MW sæstreng við það. Það verður mjög kostnaðarsamt, og sá kostnaður lendir alfarið á landsmönnum samkvæmt reglum ACER.
Kostnaðarhlutdeild Landsnets í Ice Link verður ákvörðuð af ACER samkvæmt valdheimildum hennar. Íslenzk yfirvöld verða ekki virt viðlits í öllu þessu ferli, enda verður Alþingi þá búið að samþykkja algert áhrifaleysi þeirra á raforkuflutningsmál landsins, og OS, eða sá hluti hennar, sem fæst við raforkuflutningsmál, verður þá ekki lengur undir boðvaldi ráðuneytis, heldur aðeins undir boðvaldi ACER. ESB kallar það, að OS verði óháð hagsmunaöflum.
Þetta er í framkvæmd að ryðja hindrunum úr vegi til að útrýma flöskuhálsum í orkuflutningskerfi ESB/EES. Ætla menn að stinga hendinni í gin ljónsins ? Hvað í ósköpunum rekur menn til þess, þegar ávinningur Íslands er alls enginn, en áhættan svakaleg og um að ræða Stjórnarskrárbrot í þokkabót ?
Þegar tengingin (Ice Link) verður komin á, verður íslenzkur raforkumarkaður innlimaður í raforkumarkað ESB. Það þýðir, að hver sem vill getur boðið í alla tiltæka raforku á Íslandi, og hún mun fara til hæstbjóðanda. Þannig glatar Ísland smátt og smátt ráðstöfunarrétti yfir allri framleiðanlegri raforku á Íslandi, því að við þessar aðstæður verða hvorki gerðir nýir langtímasamningar um afhendingu raforku til atvinnustarfsemi hérlendis né er líklegt, að þeir gömlu verði framlengdir. Rafmagnsverðið mun rjúka upp hérlendis, og samkeppnishæfni atvinnuveganna mun hríðversna með slæmum afleiðingum fyrir atvinnustig í landinu og lífskjör almennings. Með atvinnuvegina í rúst munu Íslendingar síðan standa berskjaldaðir, ef/þegar raforkuverð í ESB lækkar með auknu framboði kolefnisfrírra orkugjafa. Er þetta léttvægt mál ? Nei, fullveldisafsal er það aldrei.
[3]: Það er einkennilegt, að ESB-sinnar skuli ekki treysta EES-samninginum, og að ESB haldi sig við ákvæði hans. Það er óumdeilanlegt, að hvert EFTA-ríki í EES hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu nýrra gjörða í EES-samninginn. Það er meginmunurinn á EFTA-ríkjunum og ESB-ríkjunum í EES-samstarfinu. Þetta kemur fram í kafla 93 í samninginum og kafla 6 í samninginum um fastanefnd EFTA-ríkjanna.
Alveg sérstaklega gildir þetta um málaflokka, sem standa utan við fjórfrelsið á Innri markaði EES, sem samningurinn var upphaflega gerður um. Hér hefur engin umræða farið fram um að útvíkka gildissvið hans. Hvers konar meðvirkni og sofandaháttur er þetta eiginlega ?
ESB hefur upp á sitt eindæmi ákveðið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur þess frá 2009 skuli verða hluti af EES-samninginum, þótt hér sé í raun verið að innleiða 5. frelsið á Innri markaðinn. Þessi merking ESB á þessum málaflokki er í samræmi við yfirlýsingu Framkvæmdastjórnarinnar um það, að Noregur skyldi verða hluti af sameiginlegum orkumarkaði ESB. Ríkisstjórn Noregs er höll undir aðild Noregs að ESB, og hið sama er að segja um Landsstjórn og formann Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Stórþinginu, þótt flest verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, hafi ályktað harðlega gegn stuðningi þingflokks Verkamannaflokksins við frumvarp ríkisstjórnarinnar.
Ef ESB gangsetur refsiaðgerðir gegn EFTA-ríkjunum á viðskiptasviðinu, brýtur ESB um leið EES-samninginn, og brotið verður kæranlegt til ESA og EFTA-dómstólsins. Samkvæmt EES-samninginum má ESB í mesta lagi svara höfnun EFTA-ríkis með ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hafnaða innleiðingin átti að hafa áhrif á. Í því tilviki, sem hér um ræðir, þ.e. orkumálaflokkinn, sbr kafla 102 um ógildingu í EES-samninginum. Orka er í viðhengi 4 af 22 viðhengjum samningsins, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn færi þangað, ef samþykktur yrði. Það er hins vegar ekki á færi ESB að ógilda neitt einhliða, heldur er ógilding umfjöllunarefni Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eiga sæti ásamt ESB, og ákvörðun er aðeins tekin einróma.
Þó að þessi ákvörðun verði tekin, verður ekki séð, með hvaða hætti ógilding á ákvæðum Annars orkumarkaðslagabálksins, sem í þessu tilviki koma til álita, geti skaðað hagsmuni Íslands og Noregs. Noregur mun áfram selja ESB-ríkjum rafmagn úr norskri fossaorku og olíu og jarðgas úr efnahagslögsögu sinni, eins og ekkert hafi í skorizt, enda eru mikilvægir hagsmunir hins orkuhungraða ESB í húfi. Fullyrðing um, að höfnun Íslands muni hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir EES-samstarfið, er algerlega úr lausu lofti gripin.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.3.2018 | 14:49
Leikur vafi á um túlkun samþykkta tveggja stjórnarflokka ?
Sézt hafa fullyrðingar hérlendis um það, að Íslendingar verði vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, að ganga í Orkusamband ESB, þrátt fyrir samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2018 og samþykktir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18.03.2018 um hið gagnstæða. Spyrja má, hver munurinn er þá á fullri aðild að ESB og þeirri aukaaðild, sem aðild að EES jafngildir, ef þjóðþing EFTA-landanna hafa ekki í krafti fullveldis síns heimild til að hafna nýjum tilskipunum ESB. Auðvitað er sá grundvallarmunur á, að aðildarlönd ESB taka þátt í mótun allra reglugerða, tilskipana og laga ESB og hafa sinn atkvæðisrétt, en EFTA-löndin þrjú eru í þeirri þrælslegu stöðu að þurfa að taka við því, sem að þeim er rétt; þó með neitunarvaldi í örlagamálum á Alþingi.
Þetta á líka við um bann Alþingis við innflutningi á hráu kjöti. Það er fáheyrður málflutningur að halda því fram, að lög um þetta efni frá 2009 séu að alþjóðarétti dæmd ómerk af EFTA-dómstólinum. Hann hefur í þessu máli ekki dómsvald á Íslandi, enda aðeins ráðgefandi, og gjörðir hans eru ekki aðfararhæfar hérlendis í þessu máli. Af hverju stafar þessi dæmalausa þörf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur til að kyssa á vönd Evrópusambandsins ?
Nú verður fjallað um bréf norska olíu- og orkumálaráðherrans, Terje Söviknes, til Orku- og umhverfisnefndar Stórþingsins, þar sem því er haldið fram, með vísun til upplýsinga úr íslenzka utanríkisráðuneytinu, að eftirfarandi samþykkt atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins eigi ekki við um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn:
" Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Þýðing á seinni hluta svarbréfs norska ráðherrans við spurningu þingnefndar um það, hvort niðurstaða Landsfundar Sjálfstæðisflokksins muni hafa áhrif á fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að taka frumvarp sitt um innleiðinguna til afgreiðslu í Stórþinginu 22. marz 2018, fer hér á eftir, og bréfið í heild er í viðhengi á þessari síðu:
"Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að ástæða spurningarinnar séu frásagnir í norskum fjölmiðlum um, að einn af stjórnarflokkunum á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, muni hafa gert samþykkt á Landsfundi sínum um helgina gegn ACER. Sendiráð okkar í Reykjavík hafði þess vegna samband við utanríkisráðuneyti Íslands til að átta sig á, til hvers fjölmiðlar væru að vísa. Utanríkisráðherrann er sjálfstæðismaður. Íslenzka ráðuneytið veitti sendiráðinu þær upplýsingar, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt yfirlýsingu um, að fram fari mat á því, hvernig EES-samningurinn hafi virkað á Íslandi. Þar er líka sagt, að flokkurinn sé mjög gagnrýninn á upptöku nýrrar löggjafar í EES-samninginn, sem falli utan við tveggja stoða fyrirkomulagið.
Undirnefnd um atvinnuvegamál lýsti því yfir á Landsfundinum, að Sjálfstæðisflokkinum beri að snúast öndverður gegn framsali valds yfir íslenzkum orkumarkaði til ESB-stofnana. Þessi yfirlýsing þýðir ekki, að Sjálfstæðisflokkurinn snúist öndverður gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins."
Lokamálsgreinin, sem er undirstrikuð af höfundi þessarar vefgreinar, BJo, þarfnast skýringa að hálfu utanríkisráðuneytis Íslands. Er þessi ónákvæma frásögn af ályktunum á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 frá ráðuneytinu komin, og hefur það klykkt út með vægast sagt villandi túlkun, raunar algerlega öfugsnúinni túlkun, á merkingu ályktunar atvinnuveganefndar og á vilja Landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það er grafalvarlegt mál, og ekki er síður alvarlegt að gera tilraun til að blekkja norska sendiherran, norsku ríkisstjórnina, Stórþingið og norsku þjóðina, ef þessi túlkun er frá utanríkisráðuneyti Íslands komin.
Þetta mál er þegar á því stigi í Noregi, að stjórnarandstaðan ávítar norska ráðherrann í dag, 20.03.2018, fyrir villandi upplýsingagjöf til þingsins á grundvelli réttrar þýðingar á ályktun atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og vegna þess, að ráðherrann sleppti að geta um stórmerka yfirlýsingu af flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, sem er svona:
"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið."
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.3.2018 | 10:13
Heimsókn formanns "Nei við ESB" til Íslands
Aðild að Evrópusambandinu, ESB, er alls ekkert umræðuefni í norskri þjóðfélagsumræðu lengur og er útilokuð miðað við þróunina á þeim bænum eftir samþykki ESB-ríkjanna á stjórnarskrárígildinu, Lissabon-sáttmálanum, árið 2009, sem kveður á um, að stofnanir sambandsins skuli stefna að sambandsríki í stað ríkjasambands. Afleiðingar þessa eru óhjákvæmilega þær, að kvarnast mun úr sambandinu, og er Bretland fyrsta dæmið þar um. Bretar hafa nú sýnt öðrum þjóðum ESB fordæmi, og ESB mun ekki takast að gera hlut Breta verri eftir útgöngu en fyrir. ESB er ekki stætt á því að veita Bretum lakari viðskiptakjör en Kanadamönnum. Þá standa frjálsir fjármagnsflutningar eftir, en Bretar geta hótað að bjóða fjármálafyrirtækjunum skattaívilnanir, ef ESB ætlar að reyna að knésetja þá á fjármálasviðinu.
Ef einhver heldur, að þessi samrunaþróun muni engin áhrif hafa á samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, þá er slíkt reginmisskilningur, eins og þegar er komið í ljós. Fulltrúar ESB nenna ekki lengur að eyða tíma í þvarg um sérlausnir við EFTA-löndin, heldur heimta, að lagabálkar ESB séu teknir hráir upp í löggjöf EFTA-landanna, eins og þau væru innan vébanda ESB, þótt þau hafi nánast enga aðkomu að þessum reglugerðum, tilskipunum og lögum. Nýjasta dæmið er um það, að EFTA-ríkin skuli ganga í orkusamband ESB og leiða þar með orkustofnunina ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) til úrslitaáhrifa um ráðstöfun raforku hvers lands. Fyrir EFTA-löndin, Ísland og Noreg, er ávinningur af aðild að orkusambandi ESB enginn, en ókostirnir margvíslegs eðlis og alvarlegir.
Bein stjórnun einnar stofnunar ESB, ACER í þessu tilviki, á innri málefnum EFTA-ríkjanna, er stjórnarskrárbrot í bæði Noregi og á Íslandi. Gerð er tilraun til að klæða þetta stjórnarskrárbrot í dulbúning með því að breyta Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, í myndrita, sem tekur við ákvörðunum frá ACER og sendir þær til Orkustofnunar Íslands eða deildar innan hennar, Orkustjórnsýslustofnunar, sem verður ósnertanleg af lýðræðislega kjörnum yfirvöldum landsins og hagsmunaaðilum innanlands og framkvæmir fyrirskipanir ACER, er varða Ísland. Þessi orkustjórnsýslustofnun verður útibú ACER á Íslandi.
Téð Orkustjórnsýslustofnun , sem Norðmenn kalla "Reguleringsmyndighet for energi", verður einsdæmi og algert aðskotadýr innan íslenzkrar stjórnsýslu og brýtur í bága við þrískiptingu ríkisvaldsins, sem með þessu verður fjórskipt, þar sem fjórði hlutinn verður sem ríki í ríkinu, utan við lög og rétt á Íslandi, en undir ESA og EFTA-dómstólinum. Norskir stjórnlagafræðingar hrista hausinn yfir því örverpi, sem þarna hefur komið undir í samskiptum ESB og EFTA, en íslenzkir stjórnlagafræðingar hafa enn ekki kveðið sér hljóðs opinberlega um þetta fyrirbrigði, svo að vitað sé.
Hvað sagði formaður "Nei til EU", Kathrine Kleveland, um orkumálin í viðtali við Morgunblaðið, 1. marz 2018 ?:
""Í dag höfum við ástæðu til þess að segja nei við EES vegna orkureglugerðar ESB. "Nei til EU" vinnur að því að fá norska Stórþingið til þess að neita tilskipun ESB gegnum EES, sem felur í sér, að það taki yfir orkustefnu okkar", segir Kathrine Kleveland, sem gladdist, þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi 6. febrúar 2018, að hann hefði efasemdir um aðild Íslands að EES og tenginguna við ACER."
Það var líklega í fyrsta skiptið, sem á Alþingi var brugðizt við vaxandi íhlutunarkröfu ESB um innri málefni EFTA-ríkjanna innan EES, þegar fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því beinlínis yfir, að hann mundi aldrei samþykkja, að einhver af fjölmörgum stofnunum ESB fengi lagaheimild frá Alþingi til að skipta sér af innri málefnum Íslands, sem væri fjarri anda EES-samningsins um tveggja stoða lausn.
Þessi yfirlýsing ásamt fleiru, sem fram kom í máli ráðherrans, vakti óskipta athygli í Noregi. Yfirlýsingin varð vatn á myllu þeirra, sem nú berjast harðri baráttu gegn innlimun Noregs í orkusamband ESB, og að sama skapi urðu sumir ráðherrar og aðstoðarráðherrar óánægðir, þegar kvað við nýjan tón á Íslandi. Það er á allra vitorði, að hafni Stórþingið frumvarpi ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í norska lagasafnið, þá verður þessari tilraun ESB til að klófesta ráðstöfunarrétt endurnýjanlegrar orku Noregs og Íslands hrint. Af þessum sökum er mikilvægt, að hérlendir efasemdarmenn um Orkusambandið og ACER á Alþingi og annars staðar láti í sér heyra á norskum vettvangi.
""Ég trúi því, að Noregur og Ísland geti hjálpazt að með því, að bæði segi nei við orkustefnu ESB. Það er ógnvekjandi, að ESB hafi nú þegar sett sæstrenginn Ice Link á dagskrá orkusambandsins", segir Kleveland og bendir á, að hitunarkostnaður sé minni á Íslandi en í Evrópu. Ef regluverk ESB nái fram að ganga, muni rafmagns- og hitunarkostnaður aukast bæði í Noregi og á Íslandi."
""Á meðan við erum í EES, þurfum við stöðugt að taka við lögum og reglugerðum beint frá ESB. Við verðum að segja oftar nei", segir Kleveland, ánægð með BREXIT, og að Bretar ætli að ganga úr ESB."
Reglufarganið frá Berlaymont er yfirþyrmandi fyrir fámennar þjóðir og margfalt meira en nauðsyn krefur til að halda uppi eðlilegum og hindrunarlausum viðskiptum við ESB-löndin. Á aldarfjórðungs veru sinni í EES hafa íslenzk stjórnvöld tekið upp að jafnaði 460 ESB-reglur á ári. Megnið af þeim snertir atvinnuvegina, og í heild mynda þær þungt farg á atvinnuvegunum, sem dregur sérstaklega úr samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þá, sem stóðu að EES-samninginum að Íslands hálfu fyrir aldarfjórðungi, hefur ekki órað fyrir því regluflóði og kostnaðarauka, sem þeir voru að kalla yfir ríkissjóð og atvinnufyrirtækin. Það er ekkert vit orðið í því lengur að kaupa aðgengi að Innri markaðinum þessu dýra verði, þegar fríverzlunarsamningar við Bretland og ESB verða í boði.
Í baráttunni fyrir aukinni framleiðni til að varðveita kaupmáttaraukningu almennings er uppsögn EES-samningsins og grisjun laga- og reglugerðafrumskógarins ásamt gerð tvíhliða (eða á vegum EFTA) fríverzlunarsamninga eitt af þeim ráðum, sem hægt er að grípa til.
Kleveland minnist á það hneyksli, að Ice Link (aflsæstrengur á milli Íslands og Bretlands) skuli hafa ratað á forgangslista ACER um verkefni til greiða fyrir orkuflutningum á milli svæða og á milli landa, svo að orkuflutningarnir verði svo hnökralausir, að raforkuverðmunur verði innan við 2,0 EUR/MWh (0,25 ISK/kWh). Hver gaf Landsvirkjun og Landsneti, sem tilgreindir eru hérlendir aðstandendur verkefnisins, leyfi til að heimila ACER að setja Ice Link á framkvæmdaáætlun án lýðræðislegrar umræðu hérlendis um þetta afdrifaríka mál ?
Það er full ástæða fyrir stjórnvöld að krefja Landsvirkjun, sem samkvæmt kerfinu á ekki að skipta sér af orkuflutningsmálum, og Landsnet, um viðhlítandi skýringar á þessum gjörningi. Hann sjálfur bregður hins vegar birtu á það, að aflsæstrengslögn til Íslands er litlum vafa undirorpin, ef Alþingi samþykkir Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB sem lög frá Alþingi. Verði sú afdrifaríka ákvörðun tekin á Alþingi, þá verða Íslendingar bráðlega í sömu aðstöðu og Norðmenn með Trójuhest í stjórnkerfi raforkumála, sem setur reglur að eigin geðþótta um raforkuviðskipti Íslands við raforkumarkað ESB (EES). Hvers konar afmælisgjöf er þetta eiginlega frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á 100 ára afmælisári fullveldis Íslands ?
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2018 | 21:53
Sjálfstæð hugsun og EES
Ánægjuleg tíðindi bárust af Alþingi þriðjudaginn 6. febrúar 2018. Þar var fjármála- og efnahagsráðherra í andsvörum um lög og/eða reglur um fjármálagerninga, en sem kunnugt er hafa bæði Alþingi og Stórþingið norska samþykkt að fella tilskipana- og lagabálka ESB (Evrópusambandsins) um sameiginlegt eftirlitskerfi með fjármálastofnunum inn í EES-samninginn. Sagði ráðherrann frá því, að langan tíma hefði tekið að mjaka ESB að viðunandi lausn þessara mála fyrir EFTA-ríkin, en það verður æ erfiðara og hefur t.d. ekki gengið varðandi orkumálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi á almennari nótum um vaxandi ásælni ESB inn á svið, sem hingað til hafa verið alfarið á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hvers lands eða opinberra stofnana í hverju landi.
Það var engu líkara en ráðherrann væri við þetta tækifæri með hugann við mál, sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið 2018 og fjallar einmitt um að fela nýlegri stofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem hlotið hefur víðtækar valdheimildir frá æðstu stjórnstofnunum ESB á sviði orkumála, óskorað vald í hverju EES-landi á sviði orkuflutningsmála. Ekki nóg með það, heldur skal setja í hverju landi á laggirnar stofnun, óháða stjórnvöldum, en samt á fjárlögum hvers ríkis, sem stjórnar orkuflutningsmálum hvers lands og lýtur einvörðungu boðvaldi ACER. Þeir lögfræðingar eru líklega vandfundnir, sem ekki sjá í þessu fyrirkomulagi felast meiri háttar og þar af leiðandi óviðunandi stjórnarskrárbrot.
Við samþykki Alþingis á því að fella "Þriðja orkumarkaðslagabálk" ESB inn í EES-samninginn, verður sem sagt stofnað útibú frá ACER á Íslandi, sem verður algerlega utan seilingar rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi, en mun engu að síður í krafti þessarar samþykktar Alþingis öðlast æðsta vald í málefnum raforkuflutninga á Íslandi. Þar munu verða teknar ákvarðanir, sem áður voru á verksviði Orkustofnunar og á sviði Landsnets.
Hér væri með þessu móti komin upp stjórnskipunarstaða á Íslandi (og í Noregi), sem er fordæmalaus, þ.e. yfirþjóðleg stofnun, ACER, skipar hér málum, sem varðar ekki aðeins stöðu ríkisins og málefni þess, heldur einnig beina hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga og fyrirmæli frá yfirþjóðlegri stofnun, sem Ísland er ekki aðili að, til fyrirbrigðis, sem ekki lýtur innlendu stjórnvaldi. Það sagði Bjarni Benediktsson í áður nefndum umræðum á Alþingi, að væri algerlega óásættanlegt fyrir Íslendinga.
Þar með má ætla, að komin sé upp sú staða í ríkisstjórn, að stjórnarfrumvarp um valdatöku ACER á Íslandi á sviði raforkuflutninga innanlands og til og frá Íslandi um nýja sæstrengi, verði ekki lagt fram. Það er útilokað, að ráðherra orkumála leggi það fram í eigin nafni, enda skal efast um, að málið njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, þótt ESB-sinnar séu vafalaust boðnir og búnir að greiða leið þessa víðtæka fullveldisframsals, sem mundi hafa djúptæk áhrif á hagsmuni allra landsmanna og til hins verra fyrir langflesta, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.
Alþingi hefur í hendi sér að fresta afgreiðslu þessa frumvarps, komi það engu síður fram, og reyna ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum að ná fram s.k. tveggja stoða lausn, sem tryggir hagsmuni EFTA-ríkjanna. Þetta má þó kalla vonlausa leið, því að hún hefur verið reynd í a.m.k. 6 ár af mismunandi ríkisstjórnum í löndunum án árangurs.
Það er einnig möguleiki hreinlega að fresta málinu um óákveðinn tíma. Það mun þá koma til kasta ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem væntanlega kærir frestunina til EFTA-dómstólsins, sem líklega mun dæma, að frestunin sé brot á EES-samninginum. Þar við mun sitja. Þessir aðilar geta ekki vísað EFTA-löndunum úr EES. Hins vegar getur ESB sagt EES-samninginum upp, og það getur hvert EFTA-landanna þriggja, sem aðild á að EES, einnig. Það væri svo sannarlega engin goðgá. Það er afar ólíklegt, að ráðherraráð ESB samþykki að segja EES-samninginum upp á þessum forsendum á meðan Bretar eru á leið út úr ESB og ótti steðjar að forystu ESB um, að flótti bresti í liðið.
Í 200-mílum Morgunblaðsins birtist föstudaginn 9. febrúar 2018 fræðandi og vönduð grein eftir Hjört J. Guðmundsson undir fyrirsögninni:
Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir.
Hún hófst þannig:
"Meðal þess, sem fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári [2017], tekur til, eru viðskipti með sjávarafurðir. Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96 % allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir, og á næstu 3-7 árum verður það, sem eftir stendur, einnig afnumið.
Þannig er stefnt að því, að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100 % tollfrjáls, þegar upp verður staðið samkvæmt því, sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja, þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins."
Á sínum tíma, þegar færð voru rök fyrir nauðsyn inngöngu Íslands í EES, var tollfrjálst aðgengi íslenzka sjávarútvegsins að markaði ESB, höfuðröksemdin. Hafi þetta einhvern tímann verið gild röksemd, er hún það ábyggilega ekki lengur, því að Íslandi mun vafalaust standa til boða fríverzlunarsamningur við Bretland og ESB af sama toga og Kanadasamningurinn, kjósi Íslendingar að segja skilið við EES.
Hin frelsin 4 á Innri markaði EES eru Íslandi lítils virði, og sum þeirra hafa reynzt landsmönnum stórskaðleg eða munu reynast það í framtíðinni. Hér er um að ræða frjálst flæði fjármagns, sem var undirrót bankahruns hér 2008, frjálst flæði þjónustu, sem valdið hefur árekstrum hér, t.d. í ferðageiranum, frjálst flæði fólks, sem með Schengen hefur opnað landamærin upp á gátt og valdið hættu, og frjálst flæði orku, t.d. raforku, sem ESB nú reynir með afarkostum að troða upp á EFTA-þjóðirnar.
Ef Norðmenn og Íslendingar neita að bergja á þessum kaleik, þurfa þeir ekki að óttast afleiðingar, því að í versta tilviki endar málið með uppsögn EES-samningsins. Þá munu taka við fríverzlunarsamningar, og staða þjóðanna verður ekki lakari eftir en áður. Það er hægt að sýna fram á, að efnahagslega verður hún mun betri, a.m.k. ef í kjölfarið verður gengið rösklega til verks við grisjun laga- og reglugerðaskógarins frá ESB, sem er sniðinn við annars konar atvinnulíf og minna í sniðum en einkennandi er í ESB-ríkjunum.
Undir lok greinar sinnar skrifaði Hjörtur:
"Þannig er ljóst, að þegar kemur að beinum tollum, hefur stjórnvöldum í Kanada tekizt að semja um betri aðgang að Innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helzti kosturinn við aðild Íslands að samningnum. Þannig er fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenzkum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslenzk fyrirtæki."
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 16.2.2018 kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.1.2018 | 10:43
Lýðræði, gegnsæi og Stjórnarskráin
Í stjórnarsáttmálanum er kafli, sem ber heitið "Lýðræði og gagnsæi". Önnur grein hans byrjar þannig:
"Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar, og nýta m.a. til þess aðferðir almenningssamráðs."
Þessi aðferðarfræði hefur verið þrautreynd og er enn sem áður ólíkleg til árangurs. Mun vænlegra er, að Alþingi feli valinkunnum stjórnlagafræðingum að endurskoða tiltekna kafla eða tilteknar greinar Stjórnarskrárinnar. Afrakstur þessarar vinnu færi í umsagnarferli, þar sem þjóðinni allri gæfist kostur á að koma að athugasemdum á vefnum, og síðan mundi Alþingi vinna úr gögnunum og gera tilraun til að smíða nothæfan stjórnlagatexta, sem fer þá í ferli samkvæmt núgildandi Stjórnarskrá.
Það er vissulega þörf á að bæta íslenzku Stjórnarskrána á nokkrum sviðum, og skyldi engan undra. Blekbónda þykir einna mest þörf á að reisa skorður við framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana. Það hefur síðan árið 1994 tíðkazt í mjög miklum mæli, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun fyrir lagabálka frá ESB með vísun til EES-samningsins, sem samþykktur var á Alþingi 13. janúar 1993. Frá gildistöku hans til ársloka 2017, eða á 24 árum, hafa um 11´000 tilskipanabálkar og reglugerðir hlotið afgreiðslu íslenzku ráðuneytanna og stór hluti "þeirrar hrúgu" komizt inn í íslenzka lagasafnið, þótt íslenzk sjónarmið eða íslenzkir hagsmunir hafi ekki komizt að við útgáfuna, svo að heitið geti. Ójafnræði á milli laga-og reglugerðaveitanda og -þiggjanda er himinhrópandi, svo að þetta fyrirkomulag nær í rauninni engri átt. Bretar eru í allt annarri stöðu, verandi "stórt" ríki innan ESB með talsvert vægi við mótun og ákvarðanatöku, en þeir eru samt búnir að fá sig fullsadda af tilskipana- og reglugerðaflóðinu frá Berlaymont og hafa nú ákveðið að losa sig undan því fargi öllu, þótt ekki gangi það þrautalaust.
Ef samstarfsnefnd ESB og EFTA-ríkjanna þriggja í EES kemst að þeirri niðurstöðu, að taka eigi nýjan lagabálk frá ESB upp í EES-samninginn, og ESB hefur alltaf haft vilja sinn fram í slíkum efnum, að því bezt er vitað, þá fær ríkisstjórn EFTA-lands bálkinn sendan með tímafresti, sem ESA- Eftirlitsnefnd EFTA með framfylgd EES-samningsins, fylgist með, að sé haldinn, og kærir síðan ríkið vegna of langs dráttar fyrir EFTA-dómstólinum. Sá fylgir alltaf dómafordæmi ESB-dómstólsins (kallaður Evrópudómstóll). Sjálfsákvörðunarréttur landsins er í orði, en ekki á borði. Langlundargeð Norðmanna með þetta ólýðræðislega fyrirkomulag er mjög þanið um þessar mundir, en hérlendis virðast flestir kæra sig kollótta enn sem komið er. Þeir kunna þó margir að vakna upp með andfælum, því að "sambandsríkistilhneiging" ESB vex stöðugt. Er ekki raunhæfur kostur að draga dám af Bretum og hreinlega að segja upp þeirri óværu, sem EES-samningurinn er ?
Að halda því fram, eins og sumir gera, að núverandi EES-samningur sé ekki fullveldisframsal, heldur sé það "viðtekin skoðun í þjóðarétti að líta svo á, að rétturinn til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar sé einn af eiginleikum fullveldis, og að undirgangast slíkar skuldbindingar sé ekki afsal á fullveldi" , er lagaleg rangtúlkun eða hártogun á eðli þjóðréttarsamninga, eins og fram kemur við lestur neðangreindra greina úr norsku Stjórnarskránni. Þjóðréttarsamningur er samningur fullvalda ríkja um að fylgja tilteknum, skráðum reglum í samskiptum sínum á jafnræðisgrundvelli. Þetta á ekki við um síbreytilegan EES-samninginn, sem á hverju ári veldur meira framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana.
Tilvitnunin er úr grein Bjarna Más Magnússonar, dósents í lögfræði við lagadeild HR, í Morgunblaðinu, 13. janúar 2018, "Enn meira um fullveldi".
Af greininni má ráða, að stjórnsýslulega leggi höfundurinn að jöfnu aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum-SÞ, Atlantshafsbandalaginu-NATO og Evrópska efnahagssvæðinu-EES. Hvern er höfundurinn að reyna að blekkja með þvílíkum skrifum ? Aðild Íslands að SÞ og NATO er dæmigerð um þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins í alþjóðlegu samstarfi, þar sem Ísland er aðili á jafnræðisgrundvelli í því augnamiði að friðvænlegra verði í heiminum og til að tryggja eigið öryggi. Annað mál er, hvernig til hefur tekizt, en þessar tvær stofnanir hafa enga heimild til né hafa þær reynt að yfirtaka hlutverk ríkisins, nema NATO hefur yfirtekið hervarnarhlutverk ríkisins, sem íslenzka ríkið ekki er fært um með fullnægjandi hætti.
Allt öðru máli gegnir um aðildina að EES. Hún er alls ekki á jafnræðisgrundvelli, því að Ísland hefur engan atkvæðisrétt á borð við aðildarríki ESB, og í reynd hefur ESB ráðið því, hvaða gerðir þess eru teknar upp í EES-samninginn. Þar með eru hér lögleiddar gjörðir án efnislegrar aðkomu Alþingismanna að viðlögðum sektum eða brottvikningu úr EES. Sama má segja um reglugerðir og íslenzka embættismenn. Hlutverk þeirra er að þýða og innleiða þær. Lagasetningin og reglugerðirnar hafa bein áhrif á hagsmuni og jafnvel frelsi lögaðila og einstaklinga hérlendis, þannig að augljóst framsal til útlanda hefur átt sér stað á valdi, sem ríkið eitt á að hafa yfir þegnum sínum, íbúum lands í fullvalda ríki.
Nú skal vitna í téða Morgunblaðsgrein til að sýna á hvers konar refilstigu umræðan um fullveldi landsins hefur ratað í heimi lögfræðinnar:
"Hugtakið fullveldisframsal er oft á tíðum notað í umræðunni um alþjóðamál hérlendis um það, þegar ríki tekur á sig þjóðréttarlegar samningsskuldbindingar um ákveðnar athafnir eða athafnaleysi, sem í felst binding. Þetta er einkum áberandi, þegar rætt er um EES-samninginn og hugsanlega aðild Íslands að ESB"
Það er forkastanlegt að reyna að telja fólki trú um, að EES-samningurinn eða hugsanleg aðild að Evrópusambandinu-ESB hafi ósköp sakleysislegt þjóðréttarlegt gildi. Hér er um miklu djúptækari félagsskap að ræða, eins og ráða má af því, að ESB er á siglingu í átt frá ríkjasambandi að sambandsríki, þar sem æ fleiri stjórnunarsvið aðildarríkjanna eru felld undir einn og sameiginlegan hatt ESB.
"Heppilegra er að ræða um framsal ríkisvalds en fullveldisframsal. Það er hreinlega hluti af ytra fullveldi ríkja að geta framselt ríkisvald til alþjóðastofnunar. Það er svo alltaf spurning, hvort slík notkun á fullveldinu sé í samræmi við stjórnlög ríkis eða teljist þjóna hagsmunum þess."
Þessi málflutningur sýnir berlega, að nauðsynlegt er að setja í Stjórnarskrá Íslands varnagla við framsali ríkisvalds, þótt ekki verði það bannað. Norðmenn hafa í sinni stjórnarskrá ákvæði um, að minnst helming allra Stórþingsmanna þurfi til að ljá fullveldisframsali með víðtækum afleiðingum fyrir ríkið og íbúana lögmæti, þ.e. 75 % af viðstöddum Stórþingsmönnum, sem séu þó að lágmarki 2/3 af heild.
Í lauslegri þýðingu segir um þetta í norsku Stjórnarskránni:
Gr. 26.2: "Fullveldi á s.k. afmörkuðu sviði má láta af hendi, ef a.m.k. 50 % af þingmönnum í Stórþingssalnum samþykkja það, með vísun til venja varðandi mál, er varða Stjórnarskrá."
Það eru vissulega fordæmi í Noregi og á Íslandi fyrir framsali ríkisvalds, og í Noregi er það meirihluti í Stórþingssalnum, sem ákveður, hvort krefjast ber aukins meirihluta. Þetta má telja veikleika. Grein Stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta er þannig í lauslegri þýðingu:
Gr. 115: "Í þágu alþjóðlegs friðar og öryggis eða til að bæta alþjóðlegt réttarfyrirkomulag og samvinnu getur Stórþingið samþykkt með 75 % atkvæða viðstaddra Stórþingsmanna, sem að lágmarki séu 2/3 Stórþingsmanna, að alþjóðleg samtök, þar sem Noregur á aðild að eða Noregur styður, skuli hafa rétt til aðgerða á málefnalega afmörkuðu sviði, sem samkvæmt þessari Stjórnarskrá annars er í verkahring yfirvalda ríkisins. Þó fylgja þessu ákvæði ekki heimildir til að breyta þessari Stjórnarskrá.
Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við þátttöku í alþjóðasamtökum, ef ákvarðanirnar hafa einvörðungu þjóðréttarleg áhrif fyrir Noreg."
Það virðist t.d. einsýnt af þessum texta, að Stórþinginu ber að beita gr. 115 við atkvæðagreiðslu um upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Alþingi samþykkti þáverandi EES-samning naumlega í janúar 1993, en engin þjóðaratkvæðagreiðsla var þá haldin um þetta stórmál, þótt miklum vafa þætti undirorpið, að fullveldisframsalið stæðist ákvæði íslenzku Stjórnarskrárinnar um óskoraðan rétt Alþingis til löggjafarvalds á Íslandi, svo að eitthvað sé nefnt.
Setja þarf inn í íslenzku Stjórnarskrána ákvæði á þessa lund:
Þegar fyrir hendi er frumvarp á Alþingi um aðild Íslands að samtökum, sem eiga að einhverju leyti að taka við hlutverki Alþingis, dómstóla eða framkvæmdavalds, þá skal halda um málið bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluta atkvæðisbærra manna skal þurfa til að samþykkja slíka tillögu. Að öðrum kosti er hún felld, og Alþingi verður þá að fella frumvarpið, annars að samþykkja það. Fimmtungur þingmanna getur vísað því til Hæstaréttar, hvort um fullveldisframsal sé að ræða, sem útheimti slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti 5 dómara ræður niðurstöðu.
Þegar mál koma til kasta Alþingis, sem 20 % þingmanna telja varða óheimilt framsal ríkisvalds, eins og t.d. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB ótvírætt er, þá skal krefjast aukins meirihluta til samþykktar, eins og á norska Stórþinginu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.12.2017 | 18:51
Sjávarútvegur og nýja ríkisstjórnin
Sú var tíðin, að landsstjórnin varð að miða helztu efnahagsráðstafanir sínar við það, að sjávarútvegurinn skrimti. Sú tíð er sem betur fer liðin, og nú er rekstur sjávarútvegsins sem heildar sjálfbær, þótt einstök fyrirtæki hjari varla og sumir útgerðarmenn lepji dauðann úr skel.
Sáttmáli ríkisstjórnarinnar ber keim af þessu sjálfstæði sjávarútvegsins, því að þar eru engin stórtíðindi, hvað þá bjargráð. Það er samt ekki þannig, að stefna ríkisstjórnarinnar hafi engin áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Öðru nær. Eitt mesta hagsmunamál hans er að efla Hafrannsóknarstofnun, því að veiðiráðgjöfin, sem afkoman hvílir á að miklu leyti, er reist á vísindalegri þekkingaröflun hennar. Ef þar eru brotalamir eða meinbugir, þá er afkoma landsins alls í vondum málum. Það er samt ekki minnst á þessa lykilstofnun í sjávarútvegskaflanum, og það er miður, því að þessi rannsóknarstofnun er undirfjármögnuð. Það þarf að eyrnamerkja hluta af auðlindargjaldi sjávarútvegsins fjárfestingum og nýsköpun Hafrannsóknarstofnunar, t.d. 25 %/ár. Það er varla hægt að verja þessu fé með eðlilegri hætti. Væri það gert, gæti stofnunin þegar í stað lokið verkhönnun nýs rannsóknarskips í stað Bjarna Sæmundssonar og Ríkiskaup síðan boðið smíðina út. Nú eru hagstæðir tímar til að kaupa skip. Á örfáum árum mundi fjórðungur þessa auðlindargjalds á ári greiða nýtt rannsóknarskip upp. Eðlilegt er, að annar fjórðungur renni til fjárfestinga og þróunar hjá Landhelgisgæzlu Íslands.
Í sáttmálanum stendur:
"Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum, og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna":
Hvernig á ríkisstjórn að standa að þessu ? Hún þarf þá einna helzt með álögum sínum á greinina að gæta að því, að sjávarútvegur annarra landa, þ.á.m. Noregs, sem íslenzkur sjávarútvegur á í samkeppni við á erlendum mörkuðum, er stórlega niðurgreiddur úr ríkissjóðum viðkomandi landa. Hvorki norskur sjávarútvegur né sjávarútvegur í strandríkjum meginlandsins greiðir auðlindagjald. Færeyingar og Grænlendingar eru hins vegar varlega að feta sig inn á þá braut. Í ljósi þessa og tilvitnaðra orða stjórnarsáttmálans hér að ofan er rökrétt afstaða stjórnvalda við núverandi aðstæður á Íslandi að stíga varlega til jarðar varðandi gjaldtöku af sjávarútvegi umfram skattlagningu, sem önnur fyrirtæki í landinu sæta. Núverandi auðlindargjald er illa hannað og tekur of lítið tillit til afkomu greinarinnar. Það skaðar beinlínis samkeppnihæfni greinarinnar, bæði við önnur fyrirtæki og fjármagnseigendur hér innanlands og á alþjóðlegum fiskmörkuðum.
Blekbóndi hefur ritað nokkuð um þetta hér á vefsetrinu, t.d. í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667
, þar sem verð viðkomandi óslægðs fiskjar upp úr sjó er lagt til grundvallar. Gjaldinu er skipt í tvennt, grunngjald, sem má líta á sem greiðslu fyrir aðgang að takmarkaðri náttúruauðlind, veiðileyfisgjald, eins og nefnt er í sáttmálanum, og veiðigjald, og saman mynda þessir 2 þættir auðlindargjaldið.
Í sáttmálanum segir, að við álagningu auðlindargjalds skuli taka tillit til afkomu fyrirtækjanna í greininni. Það er t.d. hægt að gera með því að líta til framlegðar fyrirtækjanna og leyfa þeim að draga frá skattstofni tekjuskatts helming greidds auðlindargjalds síðasta árs, hafi framlegð þá verið á bilinu 15 %- 20 %, og að draga frá allt auðlindargjaldið, ef framlegðin á skattlagningarárinu var undir 15 %.
Sjávarútvegurinn hefur náð svo góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að hann virðist vera eina greinin, sem á raunhæfa möguleika á að standast skuldbindingar ríkisstjórnarinnar í París í desember 2015 um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda um 40 % árið 2030 m.v. árið 1990, og þarf hann þess vegna ekki að kaupa sér losunarheimildir. Þetta hefur greinin gert upp á eigin spýtur með því að fjárfesta í nýjum, afkastameiri og sparneytnari búnaði. Veiðiskipum hefur fækkað og nýtnin, mæld í olíutonnum/aflatonn upp úr sjó, hefur tekið stórstígum framförum.
Það, sem í stjórnarsáttmálanum stendur um þetta efni, horfir til enn lengri framtíðar en 2030, þ.e. til fullrar kolefnisjöfnunar greinarinnar. Nýja ríkisstjórnin hefur sett sér það dýra og erfiða markmið, að Ísland verði að fullu kolefnisjafnað eigi síðar en árið 2040, þótt hún muni áreiðanlega ekki lifa svo lengi. Engin áfangaskipting né greining er til, sem stutt gæti þetta metnaðarfulla markmið. Á meðan svo er, eru þetta bara draumórar skrifaranna. Í sáttmálanum segir:
"Einnig þarf að stuðla að kolefnisjöfnun greinarinnar, t.d. með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann".
Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur falið í sér framleiðslu á metanóli eða öðru kolefniseldsneyti. Það getur falið í sér framleiðslu á vetni til að knýja rafala og rafhreyfil um borð eða að brenna vetni í sprengihreyfli. Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur líka falið í sér að geyma raforku í rafgeymum fyrir rafhreyfla um borð. Að 5 árum liðnum verða sennilega komnir á markaðinn rafgeymar, sem duga munu dagróðrarbátum. Affarasælast er, að stjórnvöld setji upp hvata fyrir einkaframtakið til orkuskipta, en láti allar þvingunaraðgerðir lönd og leið.
Það er einkennilegt í þessu sambandi að leggja upp með þróun á tækni, sem fyrir utan metanól o.þ.h. er svo dýr, að hún er ekki á okkar færi, en sleppa algerlega að minnast á það, sem hendi er næst, en það er rafvæðing hafnanna með háspenntu dreifikerfi, sem þjónað getur allri þörf á landtengingu og þar með hleðslu á framtíðar rafgeymum um borð. Hér þarf Orkusjóður að koma að fjármögnun, og það er eðlilegt, að hann fái markað fé af arðgreiðslum orkufyrirtækjanna, t.d. 25 %/ár, á meðan orkuskiptin standa yfir. Án slíkrar stuðningsfjármögnunar og fjárhagslegra hvata er tómt mál að tala um algera kolefnisjöfnun Íslands fyrir árið 2040.
Það er drepið á fiskeldið í sjávarútvegskafla stjórnarsáttmálans:
"Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg, þarf að ræða framtíðar fyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga".
Það er ekki eftir neinu að bíða með þetta, enda nauðsynlegt fyrir fiskeldisfyrirtækin að fá greinargóðar upplýsingar um, hvað stjórnvöld ætlast fyrir í þessum efnum áður en þau ráðast í stórfelldar fjárfestingar. Aðferðarfræðin, sem þróuð verður fyrir leyfis- og auðlindargjaldtöku af sjávarútveginum, þarf að vera svo almenn og einföld, að henni verði unnt að beita einnig á fiskeldisfyrirtækin. Þannig er hugmyndafræðin, sem blekbóndi setti fram hér að ofan fyrir útreikninga aðgangsgjalds og veiðileyfagjalds yfirfæranleg á starfsleyfis- og rekstrarleyfisgjald.
Eitt mesta gagn, sem stjórnvöld geta unnið öllum útflutningsgreinunum, er að tryggja þeim gjaldfrjálsan og hindrunarlausan aðgang að mörkuðum þeirra. Alþjóðleg viðskiptamál eru nú mjög í deiglunni. Verndarhyggju gætir nú í höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkjunum. Þau eru okkur þó mikilvægur markaður fyrir fiskafurðir, svo að utanríkisráðuneytið hefur verk að vinna við gerð tvíhliða viðskiptasamnings við BNA, Breta o.fl.
Vegna Brexit verður Íslendingum nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi við Breta. Í Fiskifréttum 30. nóvember 2017 birti Guðsteinn Bjarnason frétt undir fyrirsögninni:
"Vonir um greiðari aðgang en EES veitir".
Hún hófst þannig:
"Íslenzk stjórnvöld gera sér vonir um, að við brotthvarf Breta úr ESB verði markaðsaðgangur Íslendinga að Bretlandi enn betri en samningurinn um EES tryggir okkur.
"Jafnvel þótt EES-samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslenzks útflutnings til Bretlands njóti annaðhvort tollfrelsis eða tollaívilnana, þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir", segir í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um hagsmuni Íslands vegna Brexit.
"Á viðskiptasviðinu er því ljóst, að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helztu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum.""
Þarna virðist hugmyndin sú, að íslenzkar afurðir verði fluttar frá Bretlandi til ESB-landa, t.d. Frakklands, á kjörum samkvæmt væntanlegum fríverzlunarsamningi Bretlands og ESB, sem verði hagstæðari en núverandi EES-kjör Íslands inn á Innri markað ESB. Það er engu að síður feiknalega mikilvægt fyrir Ísland að halda nokkurn veginn óbreyttu vöru- og þjónustuaðgengi að Innri markaðinum, fari svo, að EES-samninginum verði sagt upp, sem getur orðið raunin í ljósi æ nánari samruna ESB-landanna, sem er kominn langt út fyrir þau mörk, sem gert var ráð fyrir, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, sem gekk í gildi 1994.
Utanríkisráðuneytið virðist vera rígbundið við núverandi EES-samning Íslands og ESB. Ef vel á að vera, verða menn þar á bæ hins vegar að semja áætlun um, hvað gera skal í aðdraganda uppsagnar þessa samnings og í kjölfar uppsagnar. Nú eru ýmis teikn á lofti um, að á þessu kjörtímabili gæti þurft að grípa til slíkrar áætlunar.
Í tilvitnaðri skýrslu utanríkisráðuneytisins stendur:
""Slíkur samningur [við Breta] gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er [að brezka markaðinum], ef tollar féllu einnig niður af afurðum, sem nú bera toll inn til ESB." [Af þessu sést, að Innri markaðurinn er ekki tollfrjáls - innsk. BJo.]
Tollar eru almennt hærri á mikið unnum sjávarafurðum en þeim, sem minna eru unnar. Greiðari markaðsaðgangur ætti því ekki sízt við um ýmsar framleiðsluvörur úr fiskafurðum; einkum þær, sem njóta ríkrar tollverndar við innflutning til ESB í dag. Þar á meðal má nefna makríl, síld, lax og túnfisk, ásamt karfa, steinbít og skarkola.
Með niðurfellingu tolla af unnum afurðum gætu skapazt tækifæri til meiri vinnslu afurðanna hér á landi og útflutnings þeirra til Bretlands sem fullunninnar vöru.""
Þetta síðast nefnda hefur geisilega þýðingu fyrir verðmætasköpun á Íslandi, og þannig gæti endurskoðun eða uppsögn EES-samningsins leitt til betri viðskiptakjara en nú tíðkast fyrir fullunnar matvörur frá Íslandi.
Í þessu samhengi er vert að benda á, að magnhlutdeild fersks þorsks af þorskútflutningi hefur þrefaldazt frá síðustu aldamótum og nemur þriðjungi í ár, en verðmætin nema hins vegar tæplega 40 %. Í Fiskifréttum var 23. nóvember 2017 vitnað í erindi Jóns Þrándar Stefánssonar, yfirmanns greininga hjá Markó Partner, á Sjávaútvegsráðstefnu í Reykjavík í nóvember 2017 um þetta efni:
"Jón Þrándur vék einnig að því, að mikil fjárfesting hefði orðið í nýrri tækniþróun hjá landvinnslunni og fyrirtækin væru farin að bjóða upp á vörur, sem ekki hefðu verið til áður. "Það er farið að skera flökin með öðrum hætti og hnakka, og það er ýmiss konar vöruþróun að eiga sér stað, sem er bein afleiðing af tækniþróuninni. Þetta hefur áhrif út á markaðina", segir Jón Þrándur.
Hann benti á, að árið 2000 var um 70 % af öllum ferskum þorski flutt út til Bretlands. Árið 2005 er þetta komið niður í 60 %, og 2010 er það komið niður í 44 %. Á þessu ári stefnir í, að hlutfall ferskra þorskafurða inn á Bretlandsmarkað verði innan við 15 % af heildinni."
Það ætti að vera grundvöllur til sóknar á Bretlandsmarkað í krafti hagstæðs fríverzlunarsamnings á milli Íslands og Bretlands. Verði svipaður samningur gerður á milli Bretlands og ESB, sem gefi betri kjör en Ísland hefur nú við ESB, kann að verða hagstætt að fljúga og sigla hluta af ESB-útflutninginum til Bretlands og áframsenda hann þaðan, e.t.v. með járnbrautarlest.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2017 | 18:23
Utanríkisstefna nýrrar ríkisstjórnar
Lokakafli "sáttmála" Fullveldisríkisstjórnarinnar ber fyrirsögnina "Alþjóðamál". Sá veldur nokkrum vonbrigðum. Undirkaflinn, "Evrópa og viðskiptakjör" svarar varla kalli tímans. Fáeinum vikum áður en ritunin fór fram, féll dómur EFTA-dómstólsins á þá lund, að með aðgerðum íslenzkra stjórnvalda til að verja lýðheilsu og búfjárheilsu gegn ógn frá hráu kjöti, eggjum og ógerilsneyddri mjólk, að mati innlendra fræðimanna, hafi þau gerzt brotleg við skuldbindingar EES-samningsins um matvælalöggjöf ESB. Með þessum úrskurði er ljóst, að aðild Íslands að EES felur í sér stórfellt fullveldisframsal og ekki bara lítilsháttar, eins og haldið hefur verið fram. Þar með hefur sannazt mat margra hérlendis, að samþykkt Íslands árið 1994 á EES-samninginum fól í sér Stjórnarskrárbrot, og við svo búið má ekki standa.
Að sjá eftirfarandi texta frá skrifurum "sáttmálans" vekur furðu í þessu ljósi:
"Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel, og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði."
Það er hægt að túlka þennan texta sem hreina uppgjöf gagnvart ESB/EES á sviði sjúkdómavarna, en því verður ekki trúað að óreyndu, og þar með stæði þessi ríkisstjórn alls ekki undir nafni. Framvinda mála hefur þvert á móti varpað ljósi á það, hversu varasamt það er fyrir Íslendinga að innleiða færibanda gjörðir ESB gagnrýnislítið. Sama sjónarmið er uppi í Noregi.
Þetta mál og útganga Breta úr ESB kallar á endurskoðun EES-samningsins, og í Noregi, einu af þremur EFTA-löndum í EES, gætir einnig vaxandi efasemda um EES-aðild Noregs. Téður dómur tekur af öll tvímæli um það, að fullveldisframsalið til EES/ESB er algerlega óviðunandi og virðist vera Stjórnarskrárbrot. Það er ólíklegt, að ESB verði til viðtals um nokkrar undanþágur frá lagasetningu sinni og sáttmálum Íslandi og Noregi til handa. Þar með er komið að stærsta utanríkispólitíska viðfangsefni kjörtímabilsins, sem er uppsögn EES-samningsins og tvíhliða viðskiptasamningi við ESB, hugsanlega í samfloti með Noregi og/eða Bretlandi. Það er ekkert ýjað að þessum möguleika í "sáttmálanum". Það þýðir samt ekki að reyna að skjóta sér undan þessu erfiða viðfangsefni.
Talsmenn landbúnaðarins halda enn í vonina um, að semja megi við ESB um undanþágur frá matvælastefnu þess. Það er í ætt við óraunhæfa bjartsýni Össurar Skarphéðinssonar framan af tímabilinu 2009-2013, þegar hann sem utanríkisráðherra landsins gerði ítrekaðar tilraunir til að semja Ísland inn í ESB, en það strandaði á landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu ESB, og Össur gafst að lokum upp á þvergirðingshætti ESB, enda kaus hann að hylja vandamálið í þokuskýi í kosningabaráttunni 2013. Litlar líkur eru á, að einhverju verði um þokað nú, en þó er sjálfsagt af núverandi utanríkisráðherra að reyna það. Hann verður hins vegar einnig að hafa Plan B, og það hlýtur að felast í þjóðaratkvæðagreiðslu um uppsögn EES-samningsins, þegar hann hefur kynnt Alþingi, hvað í boði er að hálfu ESB. Það væri keimlík nálgun viðfangsefnisins og hjá Bretum.
Haraldur Benediktsson, Alþingismaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, hefur eftirfarandi að segja við Helga Bjarnason, blaðamann, eins og birtist í baksviðsgrein hans í Morgunblaðinu, 28. nóvember 2017:
"Hvað er til bragðs að taka vegna dómsins ?":
"Við eigum að taka samtalið við Brüssel. Við sömdum um Evrópska efnahagssvæðið á ákveðnum forsendum, og það var af ákveðinni ástæðu, sem við tókum landbúnaðarkafla ESB ekki inn í samninginn. Mér finnst, að við eigum að fá sérstöðu okkar viðurkennda."
Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, hafði eftirfarandi fram að færa, "baksviðs":
"Þessi ákvæði eru í samningum, sem hafa verið gerðir. Við hljótum að velta því fyrir okkur, hvort við ætlum að sætta okkur við niðurstöðuna eða fara til Evrópusambandsins til að skýra stöðuna hér fyrir því og óska eftir breytingum."
"Segja má, að þetta [matvælalöggjöf ESB] hafi verið tekið upp til að tryggja frjálst flæði á sjávarafurðum til Evrópu. Það breytir því ekki, að við erum með raunverulega og verðmæta sérstöðu og hljótum að þurfa að hugsa um, hvernig bezt er að vernda hana."
Enn er í gildi afmarkað viðskiptabann ESB og BNA á Rússland og refsiaðgerð Rússa, sem fólst aðallega í banni á innflutningi matvæla til Rússlands frá viðskiptabannsþjóðunum. Það hefur frá fyrstu stundu orkað tvímælis, að Ísland tæki þátt í þessu banni, því að landið flytur ekkert út af þeim vörum og þjónustu, sem eru á bannlistanum. Refsiaðgerðir Rússa hafa mest skaðað Íslendinga og Norðmenn, en Norðmenn voru mögulegir útflytjendur á hluta bannvaranna, t.d. frá Kongsberg våpenfabrikk.
Íslendingar eiga alls ekki að berjast nú samtímis á tveimur vígstöðvum. Þess vegna á að gera framkvæmdastjórn ESB grein fyrir því, að fallist hún ekki á umbeðnar lágmarkstilslakanir gagnvart Íslandi, þá verði Ísland dregið út úr viðskiptabanninu. Verði sú raunin má reikna með, að Rússar aflétti refsiaðgerðum gegn Íslandi, en ESB hefur varla nægan innri styrk til að refsa Íslendingum með viðskiptaþvingunum. Við þær aðstæður þurfum við að reiða okkur á gott viðskiptasamband við Rússland, Bretland og önnur lönd utan ESB um tíma. Stefnumiðið á kjörtímabilinu ætti hins vegar að vera úrsögn úr EES og gerð viðskiptasamnings við ESB á svipuðum nótum og Kanada hefur gert eða Bretar munu gera, ef hann verður okkur hagstæðari.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2017 | 14:43
Þjóðernisjafnaðarstefnan
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vinstri flokkarnir íslenzku háðu misheppnaða kosningabaráttu sína fyrir Alþingiskosningarnar 28.10.2017 undir formerkjum meiri jafnaðar. Þessi áróður stóð á brauðfótum andspænis þeim alþjóðlega viðurkenndu staðreyndum, að um þessar mundir er hvergi meiri tekjujöfnuður en á Íslandi og eignajöfnuðurinn á Íslandi er sá mesti á Norðurlöndum, og jafnframt sá mesti á meðal auðugra þjóða.
Þegar félagshyggjumaður er spurður, hversu langt hann vilji ganga við að jafna lífskjör þegnanna, vefst honum skiljanlega tunga um tönn, því að það er jafnframt vel þekkt, að of mikil jöfnun dregur áberandi mikið úr hvata fólks til að bæta lífskjör sín, og þar með gerir hið opinbera þá skyssu að verða valdur að stöðnun hagkerfisins vegna minna vinnuframlags og minni nýsköpunar og frumkvæðis í atvinnulífinu.
Félagshyggjumaðurinn svarar þess vegna spurningunni gjarna á loðinn hátt, t.d. að hann vilji enn auka jöfnuð. Þetta er mergurinn málsins, og sannazt hefur á vinstri stjórnum um allan heim, að þær streða stöðugt við að auka jöfnuð, en verðmætaskapandi hvatar verða algerlega útundan. Þær hafa stöðugt aukið við skattheimtuna, þar til hún varð hreinræktuð eignaupptaka og að lokum þjóðnýting atvinnutækjanna, eins og umheimurinn hefur undanfarin ár haft fyrir augunum í Venezúela. Á kaldastríðsárunum fram að valdatíma Margrétar Thatcher var það segin saga, þegar Verkamannaflokkurinn brezki komst til valda, þá þjóðnýtti hann nokkur stór fyrirtæki.
Þegar þessar ríkisreknu gripdeildir eru komnar upp á visst stig, þ.e.a.s. ekki hefur tekizt að velta vinstri stjórnum úr sessi í tæka tíð, verður ríkisvaldið að verjast óánægju almúgans með jöfnun lífskjara, sem alltaf er niður á við, með harðýðgi og harðstjórn. Jafnaðarstefnan hefur þá breytzt í einræðis sósíalisma, kommúnisma, sem Karl Marx nefnir "alræði öreiganna".
Lýsingu á þessu ferli mótmæla félagshyggjumenn stundum á ódýran hátt með vísun í bábilju, sem ættuð er frá grimmdarsegginum frá Georgíu, Jósef Stalín, arftaka Vladimirs Lenín sem einræðisherra Sovétríkjanna til 1953, og hann setti fram eftir upphaf "Rauðskeggsaðgerðar" Þriðja ríkisins, 22. júní 1941, sem var dulnefni þýzka herráðsins á innrásinni í Sovétríkin, sem endaði með ósköpum fyrir Þjóðverja, m.a. vegna þess, að Japansstjórn efndi ekki samkomulag við valdhafana í Berlín um að ráðast á Rússa úr austri. "Rauðskeggsaðgerðin" átti að tryggja Þriðja ríkinu aðgang að miklum náttúruauðlindum og útrýma kommúnismanum, sem vissulega keppti þá víða við nazismann um hylli almúgans.
Lífseig villukenning Stalíns var á þá lund, að lokastig lýðræðislegs auðvaldskerfis, kapítalismans, væri valdataka einræðissinnaðra og þjóðernissinnaðra hægri afla í samfélaginu á borð við "Þjóðernissósíalistíska þýzka verkamannaflokkinn" - NSDAP - "Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei", að undirlagi auðvaldsins.
Hindenburg, þáverandi forseti Weimarlýðveldisins, skipaði Adolf Hitler, formann þessa þýzka nazistaflokks, kanzlara Þýzkalands í janúarlok 1933 eftir nokkra velgengni flokksins í kosningum til Reichstag skömmu áður, þar sem flokkurinn hlaut um þriðjung atkvæða. Sami Hindenburg, frægur hershöfðingi úr Fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918, hafði áður sagt, að téður Hitler væri svo litlum hæfileikum búinn, að hann myndi ekki einu sinni gera hann að póstmálaráðherra Weimarlýðveldisins. Hann varð að éta þetta ofan í sig og lézt árið eftir. Þá sölsaði Adolf Hitler öll völd til sín í kjölfar brunans í Reichstag, sem sennilega var sviðsettur af honum sjálfum.
Villan í téðri kenningasmíði Stalíns, sem heimur í styrjaldarástandi gleypti við og vinstri menn hafa haldið dauðahaldi í æ síðan til að hylja skyldleika þessara tveggja "sósíalisma", er sú, að téður þýzki nazistaflokkur var alla tíð sósíalistaflokkur, eins og nafngiftin tjáir raunar greinilega. Það var þó blæbrigðamunur á þýzkum og rússneskum sósíalisma, eins og pistlahöfundurinn Óðinn útskýrði með sögulegum tilvísunum í Viðskiptablaðinu, 9. nóvember 2017, en alræði ríkisins yfir framleiðslutækjunum undir þjóðernissósíalisma var þó sambærilegt við alræði rússneska kommúnistaflokksins, þegar hann hafði náð völdunum í sínar hendur í Ráðstjórnarríkjunum. Það er þetta efnahagslega og atvinnulega alræði ríkisins, sem greinir vinstri flokka frá hægri flokkum. Hinir síðar nefndu leggja áherzlu á valddreifingu, einkaframtak, jöfn tækifæri og frjálsa samkeppni.
Verður nú vitnað ótæpilega í Óðin, mönnum til glöggvunar um félagshyggjueðli þjóðernisjafnaðarmanna:
"Ein slík lygi, þrautseig og útsmogin, er enn á harðahlaupum. Hún gengur í einfaldri mynd út á það, að þýzkir nazistar hafi verið kapítalistar og hægri menn og séu því um margt líkari íhalds- og frjálslyndisflokkum nútímans en jafnaðarmönnum og sósíalistum. Þetta er ekki eingöngu sagnfræðileg "kúríósa" [sérvizka], heldur er nazista- og fasistakylfan reglulega látin dynja á hægrimönnum dagsins í dag. Hitler var andsnúinn sovétkommúnismanum, og því hlýtur sá, sem agnúst út í sósíalisma nútímans að eiga eitthvað sameiginlegt með Hitler."
Þessi einfalda röksemdafærsla hefur gengið eins og rauður þráður gegnum málflutning félagshyggjufólks öll kaldastríðsárin og einnig eftir fall Ráðstjórnarríkjanna 1991, þótt hún sé afar yfirborðsleg og standist ekki skoðun. Austurríski hagfræðingurinn, Ludwig von Mises, skrifaði t.d. um sósíalistískt eðli nazismans í ritgerðinni,
"Skipulögð óreiða", sem út kom árið 1951.
"Þegar sósíalisminn var að ná vinsældum í Evrópu á 19. öldinni, var ekki gerður neinn greinarmunur á sósíalisma og kommúnisma. Vissulega voru til mismunandi útgáfur af sósíalisma, en sama kenniheitið var notað yfir þær allar.
Í Þýzkalandi voru menn farnir að skilgreina og skrifa um ríkissósíalisma áður en Marx og Engels rituðu sínar frægu bækur. Johann Karl Rodbertus hafnaði til að mynda mörgum kenningum sósíalisma þess tíma og sagði þær óraunhæfar. Eina leiðin til að ná fram raunverulegum sósíalisma væri með því, að ríkið tæki yfir bæði framleiðslu og dreifingu á vörum og þjónustu."
Þar með hafnaði Rodbertus í raun leið sósíaldemókrata-jafnaðarmanna sem sósíalisma, en jafnaðarstefnan er þó vissulega leið til sósíalisma, ef menn fylgja trúaratriðinu um æ meiri jöfnuð. Margir halda, að Karl Marx hafi verið fyrstur til að setja fram kenningar um kommúnisma, en þarna kemur fram, að Rodbertus var á undan þeim kumpánum með boðun sæluríkis sósíalismans, þar sem hver fær eftir þörfum og lætur af höndum eftir getu. Í mannlegu samfélagi gengur þessi draumsýn letingjans ekki upp.
Austurríski hagfræðingurinn Mises gerði þá grundvallargreiningu í sambandi við kommúnisma í anda Marx, Leníns og Stalíns annars vegar og hins vegar þjóðernisjafnaðarstefnuna, að til væri sósíalismi þýzkrar gerðar og sósíalismi rússneskrar gerðar:
"Samkvæmt þýzkri gerð sósíalismans var einkaeignarrétturinn ekki afnuminn að nafninu til. Verksmiðjur áttu í þessu samfélagi enn að vera í eigu einstaklinga, en öllu skipulagi hagkerfisins var stýrt af ríkinu. Í rússnesku gerðinni var aðeins gengið einu skrefi lengra, og ríkið tók verksmiðjurnar eignarnámi."
Dæmi um þennan mun er, að í Þriðja ríkinu héldu bændur áfram jörðum sínum, en lutu agavaldi ríkisins um framleiðslu og verð. Markaðsbúskapur var afnuminn, en einkaeignarrétturinn hélzt. Í Rússlandi (og Kína Maós) var hins vegar tekinn upp samyrkjubúskapur með skelfilegum afleiðingum fyrir bændur og verkamenn vegna grimmdarlegrar innleiðingar og framleiðsluhraps í kjölfarið, sem leiddi til hungursneyðar.
Þýzki þjóðernissósíalisminn minnir óneitanlega um atvinnulífsstefnuna nokkuð á hina kínversku útfærslu kommúnismans eftir daga Maos. Deng Hsiao Ping og arftakar skiluðu jarðnæðinu til bænda, og þá fóru Kínverjar að brauðfæða sig að nýju eftir árvissa hungursneyð. Kínverska ríkið leggur línuna um fjárfestingar og framleiðslu undir handleiðslu alls ráðandi kommúnistaflokks, en einkaframtakið fær að spreyta sig í samkeppni við ríkisfyrirtæki. Þetta kerfi hefur alið af sér mikinn, en skuldsettan hagvöxt, lyft hálfum milljarði manna úr örbirgð til bjargálna, skapað mikinn ójöfnuð og valdið ofboðslegri mengun lands, lofts og lagar.
Áfram með Óðin:
"Nazistaflokkurinn var gegnsósa af þessum þýzka sósíalisma. Í Þýzkalandi Hitlers voru eigendur kallaðir verksmiðjustjórar. Ríkið gaf skipanir um það, hvað þeir ættu að framleiða, hverjir birgjar þeirra ættu að vera, til hverra þeir ættu að selja og á hvaða verði. Laun verkafólks voru ákveðin af ríkinu, og það var ríkisins að ákveða, hvernig "kapítalistarnir" ættu að ávaxta arð sinn."
Af þessari lýsingu á framkvæmd þjóðernisjafnaðarstefnunnar er eins ljóst og verða má, að markaðsöflin voru algerlega aftengd og hugsanlegur gróði af starfseminni svo gott sem þjóðnýttur. Að halda því fram, að auðvaldið hafi afnumið lýðræðið í Weimarlýðveldinu, tekið völdin og leikið lausum hala í Þriðja ríkinu, er hrein fásinna. Þjóðernisjafnaðarstefnan var hreinræktaður sósíalismi, sem stóð á gömlum merg þýzkrar hugmyndafræði um ríkissósíalisma. Þjóðernisjafnaðarstefnan er þess vegna ekki lengst til hægri í hinu pólitíska litrófi, eins og haldið hefur verið lengi fram og er helber sögufölsun, heldur yzt til vinstri á svipuðum slóðum og kommúnistaflokkar heimsins eru. Nazistaflokkurinn átti ekkert sameiginlegt með borgaralegum hægri flokkum fortíðar og markaðssinnuðum hægri flokkum nútímans, heldur var hann náskyldur öðrum sósíalistískum flokkum.
Útlistanir Ludwigs von Mises á hagkerfi nazismans voru t.d. eftirfarandi:
"Viðskipti á markaði eru óraunveruleg við þessar aðstæður. Þar sem öll verðlagning, laun og vaxtastig eru ákveðin af hinu opinbera, eru þau aðeins að nafninu til verð, laun og vextir. ... Þetta er sósíalismi í gervi kapítalisma. Sum hugtök auðhyggju- markaðshagkerfis eru notuð áfram, en merking þeirra hefur breytzt í grundvallaratriðum."
Með þessu benti Mises á, að með stjórnun í anda þjóðernisjafnaðarstefnunnar, eins og að ofan var lýst, ákvarðar ríkið tekjur, neyzlu og lífskjör hvers einasta þegns. Ríkið, ekki neytendur, stjórnar framleiðslunni, eins og í öðrum sósíalistískum samfélögum.
Óðinn skrifaði áfram um nazismann:
"Nazistaflokkurinn leit enn þá [eftir valdatökuna] á sig sem sósíalistískan flokk og stjórnaði þýzka hagkerfinu sem slíkur. Hatur Hitlers á sovétkommúnismanum var afsprengi kynþáttahaturs hans. Hann var haldinn sjúklegu Gyðingahatri og leit á slava sem kynþátt, sem ætti að hneppa í þrældóm og útrýma með tíð og tíma. Rússneskur kommúnismi var, í hans huga, hugmyndafræði slavneskra Gyðinga og hættulegur sem slíkur. Hatrið var með öðrum orðum ekki hugmyndafræðilegt [,heldur reist á kynþáttafordómum-innsk. BJo]."
"Þegar þýzki herinn réðist inn í Sovétríkin árið 1941 [Operation Barbarossa-innsk. BJo], lenti margur sósíalistinn í samvizkukrísu. Þarna voru í raun tvö sósíalistísk ríki að takast á. Þeir tóku því fagnandi söguskýringu Jósefs Stalín um, að þjóðernissósíalismi Hitlers, sem vissulega átti ekki rætur sínar í kenningum Marx, væri í raun ekki sósíalismi, heldur kapítalismi [auðhyggja] á lokastigi."
Að lokum kemur tilvitnun í Óðin, sem skírskotar til öfugsnúinnar umfjöllunar vinstri sinnaðra fréttamanna og annarra blaðamanna, sem túlka atburði líðandi stundar sífellt með hagsmuni pólitískra samherja sinna í stjórnmálabaráttunni í huga. Blaðamenn í öllum löndum kalla þess vegna pólitísk fyrirbrigði ekki sínum réttu nöfnum, heldur reyna að klína óæskilegum stimpli á sína helztu stjórnmálaandstæðinga í leiðinni.
"Það er stórmerkilegt í raun, að þessi sögufölsun hafi tekizt svo vel sem raun ber vitni. Nýnazistar eru reglulega kallaðir "öfgahægrimenn" í vestrænum fjölmiðlum og í hvert sinn, sem upp sprettur þjóðernissinnaður flokkur, sem ber út boðskap um hatur á öðru fólki, þá er sá hinn sami stimplaður hægri flokkur, hversu vinstri sinnuð, sem stefna hans að öðru leyti kann að vera."
Þegar staða nýrra flokka í hinu pólitíska litrófi er greind, er sem sagt ófullnægjandi að fullyrða, að þjóðernissinnaður stjórnmálaflokkur sé hægra megin á ásnum. Hann er þar einvörðungu réttilega staðsettur, ef hann jafnframt aðhyllist borgaraleg gildi, þ.e. lýðræði, mannréttindi, einstaklingshyggju og markaðshyggju með mismiklu félagslegu ívafi.
Þjóðernissinnaðir stjórnmálaflokkar, sem aðhyllast mikil og vaxandi ríkisafskipti, eru vissulega vinstra megin á stjórnmálaásnum. Vladimir Putin hefur t.d. slegið mjög á þjóðernisstrengi Rússa, og hann hefur eflt ríkisvaldið gríðarlega, og forsetaembættið rússneska hefur mjög víðtæk völd. Það má jafnvel halda því fram, að ríkisvaldið segi einkaframtakinu rússneska að einhverju leyti fyrir verkum.
Ef stefnuskrá Þjóðfylkingarinnar frönsku er grannt skoðuð, kemur í ljós, að hún sé býsna sósíalistísk, og það er ekki einleikið, hversu miklir kærleikar eru á milli Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi og hinna ýmsu þjóðernishreyfinga í Evrópu. Sækjast sér um líkir.
Það er misskilningur, reistur á fáfræði um söguna og vanþekkingu á eðli stjórnmálanna, að skilgreina þjóðernissinnaða stjórnmálaflokka sjálfvirkt sem hægri flokka og þá oftar en ekki "öfgahægriflokka". Oftast er stefna þessara flokka í atvinnumálum og efnahagsmálum langt til vinstri, og væri þá nær að kalla þá "öfga vinstri flokka". Sannleikurinn er sá, að höfuðeinkenni hægri flokka er varðstaða um borgaralegar dyggðir, umburðarlyndi, lýðræði, jafnræði, frjálsa samkeppni, frjálsa verzlun og einstaklingsframtak.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2017 | 10:01
Utanríkismál í uppnámi eina ferðina enn
Fyrir Alþingiskosningar 28. október 2017 hafa utanríkismálin legið í láginni. Það er óheppilegt, því að vinstri flokkarnir búast til að svíkjast aftan að þjóðinni í þeim efnum rétt einu sinni. Þeim er á engan hátt treystandi til að halda af ábyrgð og festu á hagsmunamálum Íslands gagnvart erlendum þjóðum, eins og dæmin frá 2009-2013 sanna.
Afturganga síðustu ríkisstjórnar, umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, ESB, hefur t.d. ekki verið kveðin niður, og utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur haft á orði, að eftir kosningar verði Samfylkingin "í dauðafæri" að blása til nýrrar sóknar um aðalhugðarefni sitt, inngöngu í ESB og upptöku evru.
Forsætisráðherraefni vinstri grænna, hin vingulslega Katrín Jakobsdóttir, mun eiga auðvelt með aftur að kyngja öllum heitstrengingum sínum í nafni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, um að standa vörð um fullveldi Íslands, enda mun skoðunarkönnun hafa sýnt, að drjúgur hluti stuðningsmanna VG styður nú aðild Íslands að ESB, svo furðulegt sem það hljómar í samanburði við opinbera stefnuskrá VG, þar sem varað er við því, að stórauðvaldið noti fríverzlunarsamninga til að læsa klónum í auðlindir (smá) ríkja. ESB er ekki nefnt þar á nafn.
Undir "verkstjórn" Katrínar Jakobsdóttur má telja víst, að stjórnarskrárkapall verði lagður, þar sem leitazt verður við að lækka þröskuld fullveldisframsals til að greiða leið aðildar landsins að ESB. Það verður gert undir þeim formerkjum, að greiða þurfi fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og það verður vísað til vafa um lögmæti EES-aðildar. Tíminn mun fara í tóma vitleysu, eins og hjá síðustu ríkisstjórn vinstri flokkanna, 2009-2013, og landið fyrir vikið reka af leið stöðugleika og til upplausnar, eins og vant er undir vinstri stjórn, en vinstri forkólfarnir eru hreinlega ekki nægir bógar til að standa í ístaðinu. Þar ber mest á lyddum og landeyðum. Þar vantar festu og myndugleika höfðingja Sunnlendinga á sinni tíð, Jóns Loftssonar í Odda, sem stóð gegn ásælni kaþólsku kirkjunnar í kirkjujarðir, þrátt fyrir bannfæringu biskups, og stóð á rétti jarðeigenda til eignarhalds með vísun til frelsis forfeðranna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þennan myndugleika til að bera, enda ber hann höfuð og herðar yfir aðra formenn stjórnmálaflokka, sama hvernig á hann er litið.
Hann lýsti því yfir á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll, 25.10.2017, að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita öllu afli sínu gegn endurnýjun aðildarumsóknar og berjast gegn samþykkt hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hugsanleg vinstri stjórn eftir kosningarnar, 28.10.2017, mun væntanlega setja á. Hann lýsti því jafnframt yfir, að sér þætti ekki mikið koma til stjórnmálamanna, sem kasta ágreiningsmálum á sínum vettvangi í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að taka sjálfir afstöðu. Slíkir hafa gefið pólitíska sannfæringu upp á bátinn fyrir völdin, en eru fyrir vikið engir leiðtogar. Þetta taldi Bjarni Benediktsson vera misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum. Þær ætti að nota til fá staðfestingu eða höfnun þjóðar á gjörningi eða ákvörðun ríkisstjórnar, og stjórnmálaleiðtogar yrðu að standa eða falla með afstöðu sinni, líkt og gerðist í Brexit-atkvæðagreiðslu Bretanna, þar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði af sér eftir að málstað hans var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessari skýru afstöðu Bjarna Benediktssonar var fagnað með drynjandi lófataki á téðum fundi. Katrín Jakobsdóttir kýs hins vegar að ganga til kosninga, "opin í báða enda enda".
Hætt er við deilum á næsta kjörtímabili um aðild Íslands að NATO, sem landinu getur ekki orðið til framdráttar, því að okkur er nauðsyn á skjóli varnarsamtaka vestrænna ríkja nú sem fyrr. Vinstri grænir eru á móti aðild Íslands að NATO. Það mun ekki fara fram hjá helztu bandamönnum okkar, ef forysta ríkisstjórnar Íslands lendir í höndum slíks flokks, sem að þessu leyti sker sig úr í Evrópu og myndar skálkabandalag með "Die Linke"-vinstri sinnum í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED-hins austur þýzka kommúnistaflokks Walters Ulbricht og félaga. Það getur orðið örlagaríkt eftir kosningar, að skessur kasti á milli sín fjöreggi þjóðarinnar.
Samkvæmt stefnuskrá vinstri grænna verða ekki gerðir neinir nýir fríverzlunarsamningar við erlend ríki undir forsjá VG. Ástæðan mun vera ótti um, að einhver græði. Það er banvæn meinloka hjá vinstri grænum, að enginn megi græða. Allt okkar samfélag er þó reist á því, að einstaklingar og fyrirtæki græði. Að hafna gróða er ávísun á eymd og fátækt eins samfélags. Slíkur flokkur er í raun ekki stjórntækur í lýðræðissamfélagi, enda eru "Die Linke" ekki taldir stjórntækir í Berlín. Sannleikurinn er sá, að allir landsmenn græða á greiðum og hömlulitlum viðskiptum. Það er nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi á næstu misserum við okkar helztu viðskiptaþjóð, Breta. Það er glapræði að standa á sama tíma í aðildarviðræðum við framkvæmdastjórn ESB. Að berjast samtímis á tveimur vígstöðvum er ávísun á vandræði og að lokum algert tap.
Þá má ekki gleyma flóttamannavandamálinu, en þar reka vinstri flokkarnir óheillastefnu, sem einkennist af algeru virðingarleysi í meðferð skattfjár, hreinræktaða sóun, sem engum gagnast, nema fólkssmyglurum og lögfræðingum, sem reyna að tefja fyrir brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda og vilja nú fá tryggar og auknar greiðslur fyrir þennan gjörning úr ríkissjóði, eins og lögfræðingur á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík svo ósmekklega hefur lagt til.
Á sama tíma og allar Evrópuþjóðir hækka þröskuldinn fyrir hælisleitendur, ætla vinstri flokkarnir að lækka hann. Það þýðir bara eitt: smyglarar munu beina straumi flóttafólks hingað í meiri mæli, eins og gerðist með Albani, eftir misráðna ákvörðun Alþingis um málefni albanskra hælisleitenda. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir, að hann vilji taka upp norsku regluna um brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda á innan við 48 klst. Útlendingastofnun er nú komin niður í nokkrar vikur, og við þann árangur fækkaði hælisleitendum, sem gera út á heimsku og barnaskap Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í útlendingamálum okkar.
Það er sjálfsagt mál að verja landið gegn afætum frá útlöndum með tilhæfulausar hælisumsóknir. Það er engum greiði gerður með félagslegu dekri við hælisumsækjendur frá löndum, sem skilgreind eru örugg, í lengri tíma. Vinstri grænir, samfylkingar og píratar munu örugglega klúðra þessum málum í barnaskap sínum og einfeldni með 10-20 milljarða ISK/ár kostnaði fyrir skattborgara.
Á sama tíma og að þessu rituðu er rétt að gera sér grein fyrir því, að atvinnulífinu hérlendis er um þessar mundir haldið uppi af hörkuduglegum útlendingum, líka frá löndum utan EES, þ.á.m. (kristnum) Georgíumönnum, sem halda uppi hagvexti og halda verðbólgu í skefjum, öllum til hagsbóta. Að stemma stigu við erlendum afætum á félagslega kerfinu hér á ekkert skylt við ímigust á útlendingum.
Stærsta utanríkismálið í höndum nýrrar vinstri stjórnar verður án vafa umræða um að endurvekja strandaðar aðildarviðræður frá ársbyrjun 2013, sem höfðu reyndar steytt á skeri löngu áður, þegar ESB neitaði að opinbera rýniskýrslu sína um stöðu íslenzkra sjávarútvegsmála. Sú neitun jafngilti þeirri niðurstöðu ESB, að íslenzk sjávarútvegsstefna væri ósamrýmanleg hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.
Í forystugrein Morgunblaðsins 17. október 2017,
"Engin fyrirstaða hjá VG",
eru leiddar að því líkur, að VG-forystan verði Samfylkingunni enn leiðitamari í næsta ESB-leiðangri en í þeim síðasta, og þótti þó flestum nóg um undirlægjuhátt flokksforystu VG þá. Stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar kýrskýr. Engar aðildarviðræður, nema þjóðin samþykki fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu að hefja þær að nýju. Þeir valdsmenn, sem leggi slíkt mál fyrir þjóðina, verði síðan að standa og falla með skýrri afstöðu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn mun tvímælalaust berjast hatrammlega fyrir höfnun þjóðarinnar á slíkri beiðni vinstri flokkanna og til vara, að þær hefjist ekki fyrr en fríverzlunarsamningur við Breta hefur verið til lykta leiddur.
Höfnun felur í sér vantraust á þá ráðherra, sem fyrir aðildarviðræðum berjast, og þeim er þá ekki lengur til setunnar boðið, heldur verða að taka hatt sinn og staf. Ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs munu bera kápuna á báðum öxlum, svo óheiðarleg sem sú framkoma er gagnvart kjósendum, en þetta óhreinlyndi þeirra stafar af valdagræðgi. Ráðherrar vinstri grænna munu vilja halda völdum óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar kemur afstaða sósíalistans til lýðræðisins berlega í ljós. Hann ber hvorki virðingu fyrir vilja, sjálfsaflafé né eignarrétti kjósandans. Kjósandinn í huga sósíalistans er verkfæri hans til að framkvæma sósíalismann, eins og sósíalistanum þóknast að túlka hann á hverjum tíma. Kjósandinn getur ekki treyst vinstri grænum fyrir horn.
Úr téðri forystugrein:
"Nú er öldin önnur. Þeir flokksmenn [VG], sem voru eindregið á móti Evrópusambandsaðild, eru horfnir á braut, og eftir sitja þeir, sem annaðhvort eru hlynntir aðild eða láta sig litlu varða, hvort fullveldið verður framselt til Brüssel.
Formaður flokksins er einn þessara, eins og sást glöggt í vinstri stjórninni, sem sótti um aðild og naut í einu og öllu stuðnings núverandi formanns.
Fleira bendir til, að Vinstri græn verði létt í taumi að þessu sinni. Í kosningaáherzlum flokksins fyrir kosningarnar 28. október 2017 er t.a.m. ekki minnzt á andstöðu flokksins við aðild að Evrópusambandinu. Þeirri stefnu hefur einfaldlega verið stungið undir stól til að undirbúa stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna."
Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað þá skýru stefnu til nýrra aðildarviðræðna við ESB, að þær skuli alls ekki hefja, nema samþykki fáist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst og síðan á Alþingi. Stjórnarflokkunum ber þá að taka lýðræðislegum afleiðingum úrslitanna, en þeir eiga ekki að hanga áfram við völd, eins og vinstri stjórnin 2009-2013 gerði svo skammarlega eftir þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave-samningana". Ef á að endurtaka sama leikinn og árið 2009 að gösslast í viðræður án umboðs frá þjóðinni beint, mun hins vegar hitna illilega í kolunum, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Það eru gjörólíkar tímar nú gengnir í garð.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.10.2017 | 14:10
Tveir turnar ?
Sú einkennilega þróun virðist um þessar mundir eiga sér stað á meðal íslenzkra kjósenda að fylkja sér aðallega um 2 stjórnmálaflokka, þegar þeir eru spurðir um afstöðu sína til stjórnmálaflokkanna nú í aðdraganda Alþingiskosninga 28. október 2017. Þetta er athyglisvert, af því að íslenzka kjördæma- og kosningafyrirkomulagið býður ekki sérstaklega upp á slíkt, eins og t.d. einmenningskjördæmin á Bretlandi gera.
Systurflokkur íslenzka Sjálfstæðisflokksins á Bretlandi er Íhaldsflokkurinn, þótt þessir 2 stjórnmálaflokkar séu upp runnir úr ólíkum jarðvegi. Gagnvart Evrópusambandinu, ESB, var tiltölulega meiri stuðningur við veru Bretlands í ESB í röðum Íhaldsmanna, þegar Bretland gekk í ESB undir leiðsögn Edwards Heath, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, en nokkru sinni var við aðildarumsókn Íslands innan Sjálfstæðisflokksins. Með tímanum fjaraði undan stuðningi Breta við ESB, þegar ESB breyttist úr viðskiptabandalagi í eins konar stórríki, og Íhaldsflokkurinn varð að meirihluta andsnúinn aðild Bretlands að ESB.
Theresa May, sem tók við af David Cameron eftir BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní 2016, var þó enn fylgjandi veru Bretlands í ESB, þegar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Stefna hennar núna er óljós, en helzt virðist hún hallast að "harðri" útgöngu, enda eru skilmálar ESB gagnvart Bretum óaðgengilegir, sbr gríðarlegar fjárkröfur ESB á hendur Bretum vegna útgöngunnar, sem ESB krefst samkomulags um áður en setzt verður niður við að ræða önnur mál, t.d. viðskiptatengslin. Væri skynsamlegt af utanríkisráðuneytinu íslenzka að leita hófanna við Breta um fríverzlunarsamning á milli landanna, svo að ekki komi upp óvissutími í viðskiptum landanna í marz 2019, þegar Bretar ganga úr ESB.
Verkamannaflokkurinn brezki gæti komizt til valda eftir næstu þingkosningar, eins og málin horfa núna, því að Theresa May virðist vera jafnvel misheppnaðri leiðtogi en Jeremy Corbyn. Corbyn hefur lofað mörgum miklu úr veikum ríkissjóði Bretlands, m.a. að greiða skólagjöldin fyrir stúdentana, og hann hefur með loforðaflaumi öðlast stuðning meirihluta ungs fólks undir þrítugu á Bretlandi. Ef Corbyn kemst til valda á Bretlandi, mun sterlingspundið líklega falla enn meira, verðbólga mun vaxa og Englandsbanki mun hækka vexti ofan í skattahækkanir, sem geta keyrt brezka hagkerfið í stöðnun og atvinnuleysi. Það er nefnilega enginn frír hádegisverður í boði, þegar allt kemur til alls. Staðan á Íslandi verður keimlík, ef/þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð kemst til valda út á kosningaloforð, sem ekki er unnt að efna án stórtjóns fyrir hagkerfið. Þar á bæ skortir sárlega þekkingu og skilning á efnahagslífinu og lögmálum þess, en þar eru gasprarar, loddarar og lýðskrumarar í hverju rúmi. Við höfum bara enga þörf fyrir slíkt fólk til að stjórna málefnum ríkisins fyrir okkar hönd.
Verkamannaflokkurinn hefur söðlað um í afstöðunni til ESB og er nú fylgjandi "mjúkri" útgöngu. Undir forystu Jeremys Corbyn hefur flokkurinn færzt mjög til vinstri, svo að segja má, að á íslenzkan mælikvarða standi Vinstri hreyfingin grænt framboð-VG nær Verkamannflokkinum brezka en Samfylkingin, sem Össur Skarphéðinsson þó taldi á velmektardögum sínum vera bræðraflokk Verkamannaflokksins.
Þó hefur Corbyn lýst því yfir, að flokkurinn sé eindregið fylgjandi aðild Bretlands að NATO, en VG er andvígt aðild Íslands að NATO. Það yrði saga til næsta bæjar, ef á Íslandi kæmist til valda í forsætisráðuneytinu eða í utanríkisráðuneytinu flokkur, sem vill, að Ísland verði dregið út úr varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Viljum við leyfa melódrama innanlands um utanríkisstefnu Íslands ?
Á vestrænan mælikvarða er VG mjög vinstri sinnaður og þar af leiðandi andmarkaðslega sinnaður stjórnmálaflokkur. Þingmönnum VG er þjóðnýting atvinnuveganna hugleikin, t.d. hefur Kolbeinn Óttarsson Proppé lýst áformum flokksins með útgerðirnar í þessa veru, þótt í hinni opinberu og loðnu stefnuskrá flokksins sé erfitt að finna þjóðnýtingu stað.
VG stendur yzt á vinstri væng stjórnmálanna allra flokka Evrópu með 20 % fylgi eða þar yfir (í skoðanakönnunum). Ef litið er til stjórnmálaflokka Evrópu með 10 % fylgi og meir, er það aðeins arftaki SED-Sozialistische Einheitspartei Deutschlands, die Linke eða Vinstri sinnarnir í Þýzkalandi, sem jafnast á við vinstri mennsku vinstri grænna á Íslandi. Die Linke eru ekki taldir stjórntækir í Sambandlýðveldinu, en hér sigla þeir undir fölsku flaggi græningja í skjóli orðagjálfurs um jöfnuð. "Aukinn jöfnuður" var einmitt helzta slagorð Hugos Chavez í Venezúela um síðustu aldamót, þegar hann barðist þar til valda, og flokki hans og arftakans, Nicolas Maduro, hefur tekizt með eignaupptökum, hásköttun og útþenslu ríkisbáknsins undir kjörörðinu, "Aukinn jöfnuður", að leggja efnahag olíuríkisins Venezúela í rúst.
Nokkrar lummur úr stefnuskrá VG (sleppt er hér umfjöllun um þá stefnu VG að veita 500 hælisleitendum á ári alþjóðlega vernd hér og þá holskeflu hælisleitenda, sem slíkt hefði í för með sér):
Vinstri grænir "berjast gegn alþjóðlegum fríverzlunarsamningum". Þetta felur í sér forneskjulega einangrunarhyggju og þýðir t.d., að vinstri grænir eru á móti fríverzlunarsamningi Íslands og Kína, sem gerður var undir verkstjórn Össurar Skarphéðinssonar á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013, sem Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður VG, og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, sátu bæði í allan tímann. Samþykktu þau ekki samninginn á Alþingi ?
VG ber kápuna á báðum öxlum í afstöðunni til ESB, eins og sannaðist á dögum téðrar vinstri stjórnar, og það er ekki ljóst, hvort ofangreind andstaða við fríverzlunarsamninga þýðir andstöðu við aðild Íslands að EES og þar með að Innri markaði ESB. Þessi andstaða VG við fríverzlunarsamninga er dálítið "trumpísk", því að núverandi forseti BNA boðaði í kosningabaráttu sinni að draga BNA út úr fríverzlunarsamningi við Kyrrahafslöndin og Mexíkó/Kanada. Fríverzlunarsamningur BNA og ESB komst aldrei á koppinn. Langflestir hagfræðingar hérlendis eru þeirrar hyggju, að fríverzlun sé Íslendingum til hagsbóta, þannig að þessi grautur VG er illilega viðbrunninn.
Vinstri grænir vilja "réttlátt skattkerfi". Hver vill það ekki ? Þeir, sem beita svona óljósu orðalagi í stefnuskrá, vilja ekki kannast við raunverulega fyrirætlun sína fyrir kjósendum. Það má gjarna leita út fyrir landsteinana að því, hvað sósíalistum finnst "réttlát skattheimta". Í Frakklandi reyndu 2 sósíalistískir forsetar 5. lýðveldisins að setja á 75 % tekjuskatt sem efsta þrep. Báðir urðu að hörfa úr þessu vígi sínu eftir skamma hríð, því að samfélagstjón af þessari eignaupptöku sósíalista varð margfalt á við ávinning ríkissjóðs, sem fór þverrandi með tímanum. Á Íslandi yrði tímabundinn tekjuauki ríkissjóðs aðeins um 5 miaISK/ár, sem nemur innan við 10 % af áformuðum útgjaldaauka VG.
Hverjir mundu lenda í þessu skattþrepi vinstri grænna ?
Ungt fólk, sem stritar myrkranna á milli til að fjármagna fyrstu íbúð sína og allt annað, sem ung fjölskylda þarf.
Hámenntaðir sérfræðingar með háa námsskuld á bakinu, oft tiltölulega nýkomnir heim úr námi og miðla af ómetanlegri þekkingu sinni, sem gefur góða ávöxtun, og þeir spara þjóðfélaginu í mörgum tilvikum stórfé vegna kostnaðar af sérfræðiþekkingu, sem annars þyrfti að kaupa erlendis frá.
Sjómenn á góðum aflaskipum, sem eru eftirsóttir dugnaðarforkar af útgerðunum.
Ef VG stendur við að halda sig við 25 MISK/ár, nær flokkurinn aðeins í um 950 manns. Hver trúir því, að þeir leggi upp í svo lélegan leiðangur, þegar til stykkisins kemur ? Það verður leitað víðar.
Þessi blauti skattheimtudraumur vinstri grænna er í senn óréttlátur og siðlaus, og hver hefur eiginlega þörf fyrir öfugsnúið réttlæti af þessu tagi ?
Vinstri grænir eru opnir fyrir "uppboðum á aflaheimildum". Í stefnuskrá þeirra er vísað til Færeyja í þessum efnum, en þar voru uppboðin misheppnuð og aflaheimildir lentu að miklu leyti hjá erlendum útgerðum gegnum leppa. Hvernig á að koma í veg fyrir hrun einstakra byggða, þegar aflahlutdeild hverfur af skipum, sem leggja upp í byggðalaginu ? Þetta daður vinstri grænna við stórkapítalið er stórmerkilegt. Einokun á öllum sviðum virðist vera lífsmottó sósíalistanna.
Það er foráttuvitlaust af einum stjórnmálaflokki að setja í stefnuskrá sína, að "framlög til heilbrigðisþjónustu verði 11 % af VLF/ár". Þarna kemur berlega fram lýðskrumstilhneiging vinstri grænna. Hvers eiga allir hinir útgjaldaliðir ríkisins að gjalda, eða skattborgararnir, úr því að tengja á útgjöld til heilbrigðismála við þetta háa hlutfall af tiltölulega mikilli verðmætasköpun í landinu ?
Það mun óhjákvæmilega koma að þessu háa hlutfalli á Íslandi vegna öldrunar þjóðarinnar, en við erum sem betur fer ekki komin á þennan stað enn, enda íslenzka þjóðin ein sú yngsta í Evrópu, þótt nú sigi hratt á ógæfuhliðina vegna mjög lítillar viðkomu (um 1,4 barn/konu, lægra hlutfall en í Svíþjóð !).
Hér hefur aðeins verið drepið á fáein atriði í stefnuskrá vinstri sinnaðasta stjórnmálaflokks Evrópu af sinni hlutfallslegu stærð. Allt er það ófélegt og lítt dulbúnar hótanir í garð borgarastéttarinnar, dugandi einstaklinga og atvinnurekstrar, ekki sízt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem þó veita flestum launþegum vinnu og eru í raun undirstaða borgaralegs samfélags. Þess vegna er sósíalistunum alveg sérlega uppsigað við þau, og þeir munu beita ríkisvaldinu, læsi þeir klónum í það eftir kosningar, með harðsvíruðum hætti gegn litla atvinnurekandanum. Landsmenn verða að gera sér grein fyrir, að kross á vitlausum stað á kjördag getur þýtt, að í 4 ár verði þeir tilraunadýr í þjóðfélagstilraunum marxista. Það verður ógæfulegt, ef undirmálslið kemst til valda hér vegna andvaraleysis, eins og gerzt hefur í Reykjavík.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)