Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
27.10.2017 | 10:01
Utanríkismál í uppnámi eina ferðina enn
Fyrir Alþingiskosningar 28. október 2017 hafa utanríkismálin legið í láginni. Það er óheppilegt, því að vinstri flokkarnir búast til að svíkjast aftan að þjóðinni í þeim efnum rétt einu sinni. Þeim er á engan hátt treystandi til að halda af ábyrgð og festu á hagsmunamálum Íslands gagnvart erlendum þjóðum, eins og dæmin frá 2009-2013 sanna.
Afturganga síðustu ríkisstjórnar, umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, ESB, hefur t.d. ekki verið kveðin niður, og utanríkisráðherra vinstri stjórnarinnar, Össur Skarphéðinsson, hefur haft á orði, að eftir kosningar verði Samfylkingin "í dauðafæri" að blása til nýrrar sóknar um aðalhugðarefni sitt, inngöngu í ESB og upptöku evru.
Forsætisráðherraefni vinstri grænna, hin vingulslega Katrín Jakobsdóttir, mun eiga auðvelt með aftur að kyngja öllum heitstrengingum sínum í nafni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, um að standa vörð um fullveldi Íslands, enda mun skoðunarkönnun hafa sýnt, að drjúgur hluti stuðningsmanna VG styður nú aðild Íslands að ESB, svo furðulegt sem það hljómar í samanburði við opinbera stefnuskrá VG, þar sem varað er við því, að stórauðvaldið noti fríverzlunarsamninga til að læsa klónum í auðlindir (smá) ríkja. ESB er ekki nefnt þar á nafn.
Undir "verkstjórn" Katrínar Jakobsdóttur má telja víst, að stjórnarskrárkapall verði lagður, þar sem leitazt verður við að lækka þröskuld fullveldisframsals til að greiða leið aðildar landsins að ESB. Það verður gert undir þeim formerkjum, að greiða þurfi fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi, og það verður vísað til vafa um lögmæti EES-aðildar. Tíminn mun fara í tóma vitleysu, eins og hjá síðustu ríkisstjórn vinstri flokkanna, 2009-2013, og landið fyrir vikið reka af leið stöðugleika og til upplausnar, eins og vant er undir vinstri stjórn, en vinstri forkólfarnir eru hreinlega ekki nægir bógar til að standa í ístaðinu. Þar ber mest á lyddum og landeyðum. Þar vantar festu og myndugleika höfðingja Sunnlendinga á sinni tíð, Jóns Loftssonar í Odda, sem stóð gegn ásælni kaþólsku kirkjunnar í kirkjujarðir, þrátt fyrir bannfæringu biskups, og stóð á rétti jarðeigenda til eignarhalds með vísun til frelsis forfeðranna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þennan myndugleika til að bera, enda ber hann höfuð og herðar yfir aðra formenn stjórnmálaflokka, sama hvernig á hann er litið.
Hann lýsti því yfir á fundi SES (Samband eldri sjálfstæðismanna) í Valhöll, 25.10.2017, að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita öllu afli sínu gegn endurnýjun aðildarumsóknar og berjast gegn samþykkt hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem hugsanleg vinstri stjórn eftir kosningarnar, 28.10.2017, mun væntanlega setja á. Hann lýsti því jafnframt yfir, að sér þætti ekki mikið koma til stjórnmálamanna, sem kasta ágreiningsmálum á sínum vettvangi í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að taka sjálfir afstöðu. Slíkir hafa gefið pólitíska sannfæringu upp á bátinn fyrir völdin, en eru fyrir vikið engir leiðtogar. Þetta taldi Bjarni Benediktsson vera misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslum. Þær ætti að nota til fá staðfestingu eða höfnun þjóðar á gjörningi eða ákvörðun ríkisstjórnar, og stjórnmálaleiðtogar yrðu að standa eða falla með afstöðu sinni, líkt og gerðist í Brexit-atkvæðagreiðslu Bretanna, þar sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagði af sér eftir að málstað hans var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessari skýru afstöðu Bjarna Benediktssonar var fagnað með drynjandi lófataki á téðum fundi. Katrín Jakobsdóttir kýs hins vegar að ganga til kosninga, "opin í báða enda enda".
Hætt er við deilum á næsta kjörtímabili um aðild Íslands að NATO, sem landinu getur ekki orðið til framdráttar, því að okkur er nauðsyn á skjóli varnarsamtaka vestrænna ríkja nú sem fyrr. Vinstri grænir eru á móti aðild Íslands að NATO. Það mun ekki fara fram hjá helztu bandamönnum okkar, ef forysta ríkisstjórnar Íslands lendir í höndum slíks flokks, sem að þessu leyti sker sig úr í Evrópu og myndar skálkabandalag með "Die Linke"-vinstri sinnum í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED-hins austur þýzka kommúnistaflokks Walters Ulbricht og félaga. Það getur orðið örlagaríkt eftir kosningar, að skessur kasti á milli sín fjöreggi þjóðarinnar.
Samkvæmt stefnuskrá vinstri grænna verða ekki gerðir neinir nýir fríverzlunarsamningar við erlend ríki undir forsjá VG. Ástæðan mun vera ótti um, að einhver græði. Það er banvæn meinloka hjá vinstri grænum, að enginn megi græða. Allt okkar samfélag er þó reist á því, að einstaklingar og fyrirtæki græði. Að hafna gróða er ávísun á eymd og fátækt eins samfélags. Slíkur flokkur er í raun ekki stjórntækur í lýðræðissamfélagi, enda eru "Die Linke" ekki taldir stjórntækir í Berlín. Sannleikurinn er sá, að allir landsmenn græða á greiðum og hömlulitlum viðskiptum. Það er nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi á næstu misserum við okkar helztu viðskiptaþjóð, Breta. Það er glapræði að standa á sama tíma í aðildarviðræðum við framkvæmdastjórn ESB. Að berjast samtímis á tveimur vígstöðvum er ávísun á vandræði og að lokum algert tap.
Þá má ekki gleyma flóttamannavandamálinu, en þar reka vinstri flokkarnir óheillastefnu, sem einkennist af algeru virðingarleysi í meðferð skattfjár, hreinræktaða sóun, sem engum gagnast, nema fólkssmyglurum og lögfræðingum, sem reyna að tefja fyrir brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda og vilja nú fá tryggar og auknar greiðslur fyrir þennan gjörning úr ríkissjóði, eins og lögfræðingur á framboðslista Samfylkingar í Reykjavík svo ósmekklega hefur lagt til.
Á sama tíma og allar Evrópuþjóðir hækka þröskuldinn fyrir hælisleitendur, ætla vinstri flokkarnir að lækka hann. Það þýðir bara eitt: smyglarar munu beina straumi flóttafólks hingað í meiri mæli, eins og gerðist með Albani, eftir misráðna ákvörðun Alþingis um málefni albanskra hælisleitenda. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir, að hann vilji taka upp norsku regluna um brottvísun tilhæfulausra hælisumsækjenda á innan við 48 klst. Útlendingastofnun er nú komin niður í nokkrar vikur, og við þann árangur fækkaði hælisleitendum, sem gera út á heimsku og barnaskap Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í útlendingamálum okkar.
Það er sjálfsagt mál að verja landið gegn afætum frá útlöndum með tilhæfulausar hælisumsóknir. Það er engum greiði gerður með félagslegu dekri við hælisumsækjendur frá löndum, sem skilgreind eru örugg, í lengri tíma. Vinstri grænir, samfylkingar og píratar munu örugglega klúðra þessum málum í barnaskap sínum og einfeldni með 10-20 milljarða ISK/ár kostnaði fyrir skattborgara.
Á sama tíma og að þessu rituðu er rétt að gera sér grein fyrir því, að atvinnulífinu hérlendis er um þessar mundir haldið uppi af hörkuduglegum útlendingum, líka frá löndum utan EES, þ.á.m. (kristnum) Georgíumönnum, sem halda uppi hagvexti og halda verðbólgu í skefjum, öllum til hagsbóta. Að stemma stigu við erlendum afætum á félagslega kerfinu hér á ekkert skylt við ímigust á útlendingum.
Stærsta utanríkismálið í höndum nýrrar vinstri stjórnar verður án vafa umræða um að endurvekja strandaðar aðildarviðræður frá ársbyrjun 2013, sem höfðu reyndar steytt á skeri löngu áður, þegar ESB neitaði að opinbera rýniskýrslu sína um stöðu íslenzkra sjávarútvegsmála. Sú neitun jafngilti þeirri niðurstöðu ESB, að íslenzk sjávarútvegsstefna væri ósamrýmanleg hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.
Í forystugrein Morgunblaðsins 17. október 2017,
"Engin fyrirstaða hjá VG",
eru leiddar að því líkur, að VG-forystan verði Samfylkingunni enn leiðitamari í næsta ESB-leiðangri en í þeim síðasta, og þótti þó flestum nóg um undirlægjuhátt flokksforystu VG þá. Stefna Sjálfstæðisflokksins er hins vegar kýrskýr. Engar aðildarviðræður, nema þjóðin samþykki fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu að hefja þær að nýju. Þeir valdsmenn, sem leggi slíkt mál fyrir þjóðina, verði síðan að standa og falla með skýrri afstöðu sinni. Sjálfstæðisflokkurinn mun tvímælalaust berjast hatrammlega fyrir höfnun þjóðarinnar á slíkri beiðni vinstri flokkanna og til vara, að þær hefjist ekki fyrr en fríverzlunarsamningur við Breta hefur verið til lykta leiddur.
Höfnun felur í sér vantraust á þá ráðherra, sem fyrir aðildarviðræðum berjast, og þeim er þá ekki lengur til setunnar boðið, heldur verða að taka hatt sinn og staf. Ráðherrar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs munu bera kápuna á báðum öxlum, svo óheiðarleg sem sú framkoma er gagnvart kjósendum, en þetta óhreinlyndi þeirra stafar af valdagræðgi. Ráðherrar vinstri grænna munu vilja halda völdum óháð niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar kemur afstaða sósíalistans til lýðræðisins berlega í ljós. Hann ber hvorki virðingu fyrir vilja, sjálfsaflafé né eignarrétti kjósandans. Kjósandinn í huga sósíalistans er verkfæri hans til að framkvæma sósíalismann, eins og sósíalistanum þóknast að túlka hann á hverjum tíma. Kjósandinn getur ekki treyst vinstri grænum fyrir horn.
Úr téðri forystugrein:
"Nú er öldin önnur. Þeir flokksmenn [VG], sem voru eindregið á móti Evrópusambandsaðild, eru horfnir á braut, og eftir sitja þeir, sem annaðhvort eru hlynntir aðild eða láta sig litlu varða, hvort fullveldið verður framselt til Brüssel.
Formaður flokksins er einn þessara, eins og sást glöggt í vinstri stjórninni, sem sótti um aðild og naut í einu og öllu stuðnings núverandi formanns.
Fleira bendir til, að Vinstri græn verði létt í taumi að þessu sinni. Í kosningaáherzlum flokksins fyrir kosningarnar 28. október 2017 er t.a.m. ekki minnzt á andstöðu flokksins við aðild að Evrópusambandinu. Þeirri stefnu hefur einfaldlega verið stungið undir stól til að undirbúa stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna."
Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað þá skýru stefnu til nýrra aðildarviðræðna við ESB, að þær skuli alls ekki hefja, nema samþykki fáist fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrst og síðan á Alþingi. Stjórnarflokkunum ber þá að taka lýðræðislegum afleiðingum úrslitanna, en þeir eiga ekki að hanga áfram við völd, eins og vinstri stjórnin 2009-2013 gerði svo skammarlega eftir þjóðaratkvæðagreiðslur um "Icesave-samningana". Ef á að endurtaka sama leikinn og árið 2009 að gösslast í viðræður án umboðs frá þjóðinni beint, mun hins vegar hitna illilega í kolunum, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Það eru gjörólíkar tímar nú gengnir í garð.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.10.2017 | 14:10
Tveir turnar ?
Sú einkennilega þróun virðist um þessar mundir eiga sér stað á meðal íslenzkra kjósenda að fylkja sér aðallega um 2 stjórnmálaflokka, þegar þeir eru spurðir um afstöðu sína til stjórnmálaflokkanna nú í aðdraganda Alþingiskosninga 28. október 2017. Þetta er athyglisvert, af því að íslenzka kjördæma- og kosningafyrirkomulagið býður ekki sérstaklega upp á slíkt, eins og t.d. einmenningskjördæmin á Bretlandi gera.
Systurflokkur íslenzka Sjálfstæðisflokksins á Bretlandi er Íhaldsflokkurinn, þótt þessir 2 stjórnmálaflokkar séu upp runnir úr ólíkum jarðvegi. Gagnvart Evrópusambandinu, ESB, var tiltölulega meiri stuðningur við veru Bretlands í ESB í röðum Íhaldsmanna, þegar Bretland gekk í ESB undir leiðsögn Edwards Heath, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, en nokkru sinni var við aðildarumsókn Íslands innan Sjálfstæðisflokksins. Með tímanum fjaraði undan stuðningi Breta við ESB, þegar ESB breyttist úr viðskiptabandalagi í eins konar stórríki, og Íhaldsflokkurinn varð að meirihluta andsnúinn aðild Bretlands að ESB.
Theresa May, sem tók við af David Cameron eftir BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní 2016, var þó enn fylgjandi veru Bretlands í ESB, þegar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram. Stefna hennar núna er óljós, en helzt virðist hún hallast að "harðri" útgöngu, enda eru skilmálar ESB gagnvart Bretum óaðgengilegir, sbr gríðarlegar fjárkröfur ESB á hendur Bretum vegna útgöngunnar, sem ESB krefst samkomulags um áður en setzt verður niður við að ræða önnur mál, t.d. viðskiptatengslin. Væri skynsamlegt af utanríkisráðuneytinu íslenzka að leita hófanna við Breta um fríverzlunarsamning á milli landanna, svo að ekki komi upp óvissutími í viðskiptum landanna í marz 2019, þegar Bretar ganga úr ESB.
Verkamannaflokkurinn brezki gæti komizt til valda eftir næstu þingkosningar, eins og málin horfa núna, því að Theresa May virðist vera jafnvel misheppnaðri leiðtogi en Jeremy Corbyn. Corbyn hefur lofað mörgum miklu úr veikum ríkissjóði Bretlands, m.a. að greiða skólagjöldin fyrir stúdentana, og hann hefur með loforðaflaumi öðlast stuðning meirihluta ungs fólks undir þrítugu á Bretlandi. Ef Corbyn kemst til valda á Bretlandi, mun sterlingspundið líklega falla enn meira, verðbólga mun vaxa og Englandsbanki mun hækka vexti ofan í skattahækkanir, sem geta keyrt brezka hagkerfið í stöðnun og atvinnuleysi. Það er nefnilega enginn frír hádegisverður í boði, þegar allt kemur til alls. Staðan á Íslandi verður keimlík, ef/þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð kemst til valda út á kosningaloforð, sem ekki er unnt að efna án stórtjóns fyrir hagkerfið. Þar á bæ skortir sárlega þekkingu og skilning á efnahagslífinu og lögmálum þess, en þar eru gasprarar, loddarar og lýðskrumarar í hverju rúmi. Við höfum bara enga þörf fyrir slíkt fólk til að stjórna málefnum ríkisins fyrir okkar hönd.
Verkamannaflokkurinn hefur söðlað um í afstöðunni til ESB og er nú fylgjandi "mjúkri" útgöngu. Undir forystu Jeremys Corbyn hefur flokkurinn færzt mjög til vinstri, svo að segja má, að á íslenzkan mælikvarða standi Vinstri hreyfingin grænt framboð-VG nær Verkamannflokkinum brezka en Samfylkingin, sem Össur Skarphéðinsson þó taldi á velmektardögum sínum vera bræðraflokk Verkamannaflokksins.
Þó hefur Corbyn lýst því yfir, að flokkurinn sé eindregið fylgjandi aðild Bretlands að NATO, en VG er andvígt aðild Íslands að NATO. Það yrði saga til næsta bæjar, ef á Íslandi kæmist til valda í forsætisráðuneytinu eða í utanríkisráðuneytinu flokkur, sem vill, að Ísland verði dregið út úr varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Viljum við leyfa melódrama innanlands um utanríkisstefnu Íslands ?
Á vestrænan mælikvarða er VG mjög vinstri sinnaður og þar af leiðandi andmarkaðslega sinnaður stjórnmálaflokkur. Þingmönnum VG er þjóðnýting atvinnuveganna hugleikin, t.d. hefur Kolbeinn Óttarsson Proppé lýst áformum flokksins með útgerðirnar í þessa veru, þótt í hinni opinberu og loðnu stefnuskrá flokksins sé erfitt að finna þjóðnýtingu stað.
VG stendur yzt á vinstri væng stjórnmálanna allra flokka Evrópu með 20 % fylgi eða þar yfir (í skoðanakönnunum). Ef litið er til stjórnmálaflokka Evrópu með 10 % fylgi og meir, er það aðeins arftaki SED-Sozialistische Einheitspartei Deutschlands, die Linke eða Vinstri sinnarnir í Þýzkalandi, sem jafnast á við vinstri mennsku vinstri grænna á Íslandi. Die Linke eru ekki taldir stjórntækir í Sambandlýðveldinu, en hér sigla þeir undir fölsku flaggi græningja í skjóli orðagjálfurs um jöfnuð. "Aukinn jöfnuður" var einmitt helzta slagorð Hugos Chavez í Venezúela um síðustu aldamót, þegar hann barðist þar til valda, og flokki hans og arftakans, Nicolas Maduro, hefur tekizt með eignaupptökum, hásköttun og útþenslu ríkisbáknsins undir kjörörðinu, "Aukinn jöfnuður", að leggja efnahag olíuríkisins Venezúela í rúst.
Nokkrar lummur úr stefnuskrá VG (sleppt er hér umfjöllun um þá stefnu VG að veita 500 hælisleitendum á ári alþjóðlega vernd hér og þá holskeflu hælisleitenda, sem slíkt hefði í för með sér):
Vinstri grænir "berjast gegn alþjóðlegum fríverzlunarsamningum". Þetta felur í sér forneskjulega einangrunarhyggju og þýðir t.d., að vinstri grænir eru á móti fríverzlunarsamningi Íslands og Kína, sem gerður var undir verkstjórn Össurar Skarphéðinssonar á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013, sem Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður VG, og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, sátu bæði í allan tímann. Samþykktu þau ekki samninginn á Alþingi ?
VG ber kápuna á báðum öxlum í afstöðunni til ESB, eins og sannaðist á dögum téðrar vinstri stjórnar, og það er ekki ljóst, hvort ofangreind andstaða við fríverzlunarsamninga þýðir andstöðu við aðild Íslands að EES og þar með að Innri markaði ESB. Þessi andstaða VG við fríverzlunarsamninga er dálítið "trumpísk", því að núverandi forseti BNA boðaði í kosningabaráttu sinni að draga BNA út úr fríverzlunarsamningi við Kyrrahafslöndin og Mexíkó/Kanada. Fríverzlunarsamningur BNA og ESB komst aldrei á koppinn. Langflestir hagfræðingar hérlendis eru þeirrar hyggju, að fríverzlun sé Íslendingum til hagsbóta, þannig að þessi grautur VG er illilega viðbrunninn.
Vinstri grænir vilja "réttlátt skattkerfi". Hver vill það ekki ? Þeir, sem beita svona óljósu orðalagi í stefnuskrá, vilja ekki kannast við raunverulega fyrirætlun sína fyrir kjósendum. Það má gjarna leita út fyrir landsteinana að því, hvað sósíalistum finnst "réttlát skattheimta". Í Frakklandi reyndu 2 sósíalistískir forsetar 5. lýðveldisins að setja á 75 % tekjuskatt sem efsta þrep. Báðir urðu að hörfa úr þessu vígi sínu eftir skamma hríð, því að samfélagstjón af þessari eignaupptöku sósíalista varð margfalt á við ávinning ríkissjóðs, sem fór þverrandi með tímanum. Á Íslandi yrði tímabundinn tekjuauki ríkissjóðs aðeins um 5 miaISK/ár, sem nemur innan við 10 % af áformuðum útgjaldaauka VG.
Hverjir mundu lenda í þessu skattþrepi vinstri grænna ?
Ungt fólk, sem stritar myrkranna á milli til að fjármagna fyrstu íbúð sína og allt annað, sem ung fjölskylda þarf.
Hámenntaðir sérfræðingar með háa námsskuld á bakinu, oft tiltölulega nýkomnir heim úr námi og miðla af ómetanlegri þekkingu sinni, sem gefur góða ávöxtun, og þeir spara þjóðfélaginu í mörgum tilvikum stórfé vegna kostnaðar af sérfræðiþekkingu, sem annars þyrfti að kaupa erlendis frá.
Sjómenn á góðum aflaskipum, sem eru eftirsóttir dugnaðarforkar af útgerðunum.
Ef VG stendur við að halda sig við 25 MISK/ár, nær flokkurinn aðeins í um 950 manns. Hver trúir því, að þeir leggi upp í svo lélegan leiðangur, þegar til stykkisins kemur ? Það verður leitað víðar.
Þessi blauti skattheimtudraumur vinstri grænna er í senn óréttlátur og siðlaus, og hver hefur eiginlega þörf fyrir öfugsnúið réttlæti af þessu tagi ?
Vinstri grænir eru opnir fyrir "uppboðum á aflaheimildum". Í stefnuskrá þeirra er vísað til Færeyja í þessum efnum, en þar voru uppboðin misheppnuð og aflaheimildir lentu að miklu leyti hjá erlendum útgerðum gegnum leppa. Hvernig á að koma í veg fyrir hrun einstakra byggða, þegar aflahlutdeild hverfur af skipum, sem leggja upp í byggðalaginu ? Þetta daður vinstri grænna við stórkapítalið er stórmerkilegt. Einokun á öllum sviðum virðist vera lífsmottó sósíalistanna.
Það er foráttuvitlaust af einum stjórnmálaflokki að setja í stefnuskrá sína, að "framlög til heilbrigðisþjónustu verði 11 % af VLF/ár". Þarna kemur berlega fram lýðskrumstilhneiging vinstri grænna. Hvers eiga allir hinir útgjaldaliðir ríkisins að gjalda, eða skattborgararnir, úr því að tengja á útgjöld til heilbrigðismála við þetta háa hlutfall af tiltölulega mikilli verðmætasköpun í landinu ?
Það mun óhjákvæmilega koma að þessu háa hlutfalli á Íslandi vegna öldrunar þjóðarinnar, en við erum sem betur fer ekki komin á þennan stað enn, enda íslenzka þjóðin ein sú yngsta í Evrópu, þótt nú sigi hratt á ógæfuhliðina vegna mjög lítillar viðkomu (um 1,4 barn/konu, lægra hlutfall en í Svíþjóð !).
Hér hefur aðeins verið drepið á fáein atriði í stefnuskrá vinstri sinnaðasta stjórnmálaflokks Evrópu af sinni hlutfallslegu stærð. Allt er það ófélegt og lítt dulbúnar hótanir í garð borgarastéttarinnar, dugandi einstaklinga og atvinnurekstrar, ekki sízt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem þó veita flestum launþegum vinnu og eru í raun undirstaða borgaralegs samfélags. Þess vegna er sósíalistunum alveg sérlega uppsigað við þau, og þeir munu beita ríkisvaldinu, læsi þeir klónum í það eftir kosningar, með harðsvíruðum hætti gegn litla atvinnurekandanum. Landsmenn verða að gera sér grein fyrir, að kross á vitlausum stað á kjördag getur þýtt, að í 4 ár verði þeir tilraunadýr í þjóðfélagstilraunum marxista. Það verður ógæfulegt, ef undirmálslið kemst til valda hér vegna andvaraleysis, eins og gerzt hefur í Reykjavík.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2017 | 18:29
Landbúnaður í mótbyr
"Íslenzkur landbúnaður getur gegnt lykilhlutverki í því mikilvæga verkefni, að við sem þjóð náum árangri í loftslagsmálum. Bændur ættu að senda stjórnvöldum tilboð strax í dag um að gera kolefnisbúskap að nýrri búgrein."
Þannig hóf Haraldur Benediktsson, Alþingismaður, merka grein sína í Morgunblaðinu 26. ágúst 2017,
"Tækifærið er núna".
Hann mælir þar fyrir því, sem virðist vera upplagt viðskiptatækifæri og hefur verið mælt með á þessu vefsetri. Ef vitglóra væri í hafnfirzka kratanum á stóli landbúnaðarráðherra, hefði hún tekið sauðfjárbændur á orðinu síðla vetrar, er þeir bentu henni á aðsteðjandi vanda vegna markaðsbrests, og lánað þeim ónotaðar ríkisjarðir, sem eru margar, til að rækta nytjaskóg, sem fljótlega yrði hægt að nota til kolefnisjöfnunar gegn hækkandi gjaldi.
Haraldur skrifar:
"Sauðfjárbændur hafa ályktað, að búgrein þeirra verði kolefnisjöfnuð. Innan tíðar á að liggja fyrir fyrsta tilraun til útreiknings á bindingu og losun sauðfjárbúa."
Með vottaða kolefnisjöfnun í farteskinu við markaðssetningu lambakjöts öðlast bændur viðspyrnu á markaði, sem ríkisvaldið á að aðstoða þá við. Ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs virðist hins vegar bara vera fúl á móti öllum þeim atvinnugreinum, sem eiga með réttu að vera skjólstæðingar hennar. Það er alveg sama, hvort hér um ræðir sjávarútveg, laxeldi eða landbúnað, ráðherrann hlustar ekki og hreyfir hvorki legg né lið til að koma til móts við þessar greinar og aðstoða þær til að þróast til framtíðar. Menn átta sig ekki vel á, hvar stefnu þessa ráðherra í atvinnumálum er að finna. Er hennar e.t.v. að leita í Berlaymont í Brüssel ? Þessum ráðherra virðist aldrei detta neitt í hug sjálfri, heldur reiðir sig á aðra með því að skipa nefndir. Það er allur vindur úr þessum hafnfirzka krata, sem pólitískt má líkja við undna tusku.
Af hverju bregzt hún ekki kampakát við herhvöt Haraldar í niðurlagi greinar hans ?:
"Gerum árið 2017 að tímamótaári, þar sem við leggjum grunn að nýrri og öflugri búgrein, kolefnisbúskap, sem getur fært okkur sem þjóð mikil tækifæri til að takast á við skuldbindingar okkar og ekki sízt að skapa með því grunn að styrkari byggð í sveitum. Það er óþarfi að gefast upp fyrir þessu verkefni með því að senda mikla fjármuni til annarra landa [ESB-innsk. BJo] í því skyni að kaupa losunarheimildir, þegar vel má kaupa slíka þjónustu af landbúnaði og íslenzkum bændum."
Þetta er hverju orði sannara, og blekbóndi hefur bent á það á þessu vefsetri, að nú stefnir í milljarða ISK yfirfærslur til ESB út af því, að embættismenn og ráðherrar hafa skrifað undir óraunhæfar skuldbindingar fyrir hönd Íslands um minnkun á losun koltvíildis. Þessi lömun ráðherranna umhverfis og landbúnaðar er orðin landsmönnum öllum dýrkeypt, en sá fyrrnefndi virðist aðeins rumska, ef mál á hennar könnu komast í fréttirnar. Annars er hún gjörsamlega utan gátta, nema ef halda á tízkusýningu innan gáttar. Þá er hún til í tuskið, enda vill hún sýna, hvernig "sterk kona" hagar sér. Því miður er Stjórnarráð Íslands hér til umfjöllunar, en ekki Sirkus Íslands. Sá síðar nefndi er þó áhugaverðari, enda er þar hæft fólk á sínu sviði.
Haraldur Benediktsson fræddi okkur á því í téðri grein, að "[sem] dæmi má nefna, að mælingar hérlendis hafa sýnt, að losun vegna tiltekinnar landnotkunar, t.d. framræslu á mýrartúni, er um 80 % minni en þau viðmið, sem alþjóðlegar leiðbeiningar styðjast við."
Þetta eru allnokkur tíðindi. Lengi hefur verið hnjóðað í landbúnaðinn fyrir ótæpilegan skurðgröft, sem hafi orðið valdur að losun á 11,6 Mt/ár af koltvíildisjafngildum, sem er svipað og öll losun vegna orkunotkunar á Íslandi á láði, í lofti og á legi, að teknu tilliti til þrefaldra gróðurhúsaáhrifa af losun þotna í háloftunum m.v. brennslu á jörðu niðri. Þessi áhrif hafa þá lækkað niður í 2,3 Mt/ár, sem er svipað og af völdum iðnaðarins á Íslandi. Þessi mikla losun, 11,6 Mt/ár CO2eq, frá uppþornuðum mýrum átti að vera vegna niðurbrots gerla (baktería) á lífrænum efnum, en fljótt hægist á slíku niðurbroti, og hitt vill gleymast, að frá mýrum losnar metan, CH4, sem er meir en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2.
Sauðfjárbændur hafa orðið fyrir barðinu á þeirri stjórnvaldsákvörðun að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum Vesturveldanna gegn Rússum. Enn muna menn eftir Gunnari Braga, þáverandi utanríkisráðherra, er hann óð gleiðgosalegur um lendur Kænugarðs og hafði í hótunum við gerzka stórveldið. Rússar svöruðu ári seinna með því að setja innflutningsbann á ýmis matvæli frá Íslandi.
Var lambakjöt á bannlista Rússanna ? Það hefur ekki verið staðfest. Það, sem meira er; Jón Kristinn Snæhólm hafði það eftir sendiherra Rússa á Íslandi í þætti á ÍNN 1. september 2017, að hjá Matvælastofnun (MAST) lægi nú rússneskur spurningalisti. Ef MAST svarar honum á fullnægjandi hátt fyrir Rússa, þá er ekkert í veginum fyrir því að flytja íslenzkt lambakjöt út til Rússlands, var haft eftir sendiherranum. Það er ástæða fyrir núverandi utanríkisráðherra Íslands að komast til botns í þessu máli og gefa yfirlýsingu út um málefnið. Ennfremur ætti hann að beita utanríkisráðuneytinu til að semja við Rússa um kaup á t.d. 10 kt af lambakjöti á þriggja ára skeiði að uppfylltum gæðakröfum gerzkra.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2017 | 09:21
Bretland byrjar illa
Forsætisráðherra Breta, Theresa May, tók þarflitla ákvörðun í apríl um þingkosningar 8. júní 2017 , þótt kjörtímabilið þyrfti ekki að enda fyrr en 2020, þ.e. að afloknum skilnaði Bretlands við Evrópusambandið, ESB. Virtist hún þá treysta því, að mælingar í skoðanakönnun héldust og skiluðu sér í kjörkassana 7 vikum síðar. Það er af, sem áður var, að brezki forsætisráðherrann geti tekið andstæðinginn í bólinu og boðað til kosninga með þriggja vikna fyrirvara. Þessi mismunur á lengd kosningabaráttu reyndist Theresu May afdrifaríkur, og fyrsti ráðherra Skotlands og flokkur hennar beið reyndar afhroð. Þar með er búinn draumur Nicola Sturgeon um nýtt þjóðaratkvæði um aðskilnað Skotlands frá Englandi, Wales og Norður-Írlandi.
May hafði við valdatöku sína haustið 2016 að afloknu formannskjöri í brezka Íhaldsflokkinum í kjölfar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní sagt, að næstu þingkosningar yrðu 2020. Íhaldsflokkurinn hafði 5 sæta meirihluta á þingi, og hún hefur væntanlega verið spurð að því í heimsókn sinni til Berlínar og víðar í vetur, hvort hún gæti tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi með svo tæpan meirihluta, enda voru það meginrök hennar fyrir ákvörðun um flýtingu kosninga, að "Westminster" væri regandi, en þjóðin ákveðin í að fara úr ESB. Hún vildi "hard Brexit", sem þýðir alskilnað við stofnanir ESB og ekki aðild að Innri markaðinum um EFTA og EES, heldur skyldi Bretland gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB og öll ríki, sem gæfu kost á slíku. Bretland yrði ekki innan "Festung Europa" - varnarvirkis Evrópu, sem er þýzkt hugtak úr Heimsstyrjöldinni síðari.
Theresa May hafði sem ráðherra hjá Cameron stutt veru Bretlands í ESB. Þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildina urðu ljós, sneri hún við blaðinu og tók upp harða afstöðu gegn ESB og fór fram undir þeim merkjum í formannskjörinu. Kosningaklækir áttu líklega þar þátt, því að öllum var ljóst, að dagar brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, voru taldir, um leið og Bretland tók stefnuna út úr ESB. Hún ætlaði að hremma atkvæðin, en krókur kom á móti bragði frá "gamla kommanum" Corbyn. Hann sneri við stefnu Verkamannaflokksins um, að Bretar skyldu halda áfram í ESB, og studdi úrsögnina á þinginu og í kosningabaráttunni. Við þetta gátu stuðningsmenn UKIP, sem flestir komu reyndar frá Verkamannaflokkinum, snúið aftur til föðurhúsanna.
Það var einmitt þetta, sem gerðist, því að flest kjördæmin, þar sem mjótt var á munum á milli stóru flokkanna tveggja, féllu Verkamannaflokkinum í skaut, Íhaldsmönnum til furðu og sárra vonbrigða. Þannig varð Verkamannaflokkur Jeremy Corbyns sigurvegari kosninganna með um 40 % atkvæða, jók fylgi sitt um ein 10 % og þingmannafjölda um 33 eða rúmlega 14 %. Kosningarnar reistu formann Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, úr öskustó, pólitískt séð, og það verður ómögulegt fyrir Theresu May að kveða hann í kútinn. Hann er einfaldlega meiri baráttumaður en hún og naut sín vel í kosningabaráttunni, en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum. Theresa May særðist til stjórnmálalegs ólífis í þessari kosningabaráttu, ástæða er til að draga dómgreind hennar í efa, hún er lélegur leiðtogi í kosningabaráttu og hvorki sterk né stöðug, eins og hún hamraði þó stöðugt á.
Íhaldsflokkurinn fékk þó meira fylgi kjósenda en hann hefur fengið í háa herrans tíð eða 42,4 %, sem er fylgisaukning um rúmlega 5 % frá síðustu þingkosningum. Þrátt fyrir það mun Theresa May að líkindum verða sett af innan tíðar, því að hún lét kosningarnar snúast um sig að miklu leyti, tapaði 12 þingmönnum og glutraði niður 5 sæta þingmeirihluta. Hún þykir ekki á vetur setjandi sem leiðtogi, og menn vilja alls ekki fara í nýjar þingkosningar undir forystu hennar. Það þykja vera alvarlegar eyður í þekkingu hennar, t.d. um efnahagsmál, og hún hefur ekki haft lag á að fylla í eyður verðleikanna með réttu vali á ráðgjöfum, heldur setur hún í kringum sig fámennan hóp ráðgjafa, sem er með sömu annmarkana og hún sjálf. Nú hefur hún fórnað tveimur aðalráðgjöfunum, en það mun hrökkva skammt. Líklegt er, að minnihlutastjórn hennar verði skammlíf og að boðað verði til kosninga aftur síðar á þessu ári. Þá verður einhver annar í brúnni hjá Íhaldsflokkinum, en það er óvíst, að það dugi. Vindar blása nú með Verkamannaflokkinum, sem fer að láta sníða rauð gluggatjöld fyrir Downing stræti 10. Yngstu kjósendurnir eru Corbyn hlynntir, eins og hinum hálfáttræða Sanders í BNA, og þeir hafa aftur fengið nægan áhuga á pólitík til að fara á kjörstað.
"It is the economy, stupid", var einu sinni sagt sem svar við spurningunni um, hvað réði helzt gjörðum kjósenda í kjörklefanum. Í því ljósi var ekki óeðlilegt, að Verkamannaflokkurinn ynni sigur, því að hagur Breta hefur versnað mikið frá fjármálakreppunni 2007-2008 og kaupmáttur hjá mörgum lækkað um 10 % að raunvirði síðan þá vegna lítilla nafnlaunahækkana, verðlagshækkana og mikils gengisfalls sterlingspundsins. Að flýta kosningum að þarflitlu við slíkar aðstæður ber vott um lélegt jarðsamband.
Núverandi staða á Bretlandi er hörmuleg m.t.t. þess, að brezka ríkisstjórnin þarf á næstu dögum að hefja mjög erfiðar viðræður við meginlandsríkin undir hjálmi ESB um útgöngu úr þeim félagsskapi. Samninganefnd ESB sezt þá niður með Bretum, sem vinna fyrir ríkisstjórn flokks, sem tapaði meirihluta sínum í nýafstöðnum kosningum. Theresu May mistókst að styrkja stöðu sína og er nú augljóslega veikur leiðtogi, sem ekki getur tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi sínum. Staða brezku samninganefndarinnar er veikari fyrir vikið, og af þessum ástæðum verður May að taka pokann sinn og hreint umboð að koma frá þjóðinni nýrri ríkisstjórn til handa.
Liggur við, að þörf sé á þjóðstjórn nú í London til að styrkja stöðuna út á við. Þessar viðræður verða stríð að nútímahætti, enda tekizt á um framtíðarskipan Evrópu, sem hæglega geta endað án nokkurs samnings. Nú er ekki lengur sterkur foringi í stafni hjá Bretum, eins og 1939, þegar staðfastur dagdrykkjumaður (að mati púrítana) og stórreykingamaður var settur í stafn þjóðarskútunnar, sem á tímabili ein atti kappi við meginlandsríkin, sem þá lutu forræði grænmetisætunnar og bindindismannsins alræmda í Berlín. Bretar unnu sigur í þeim hildarleik. Þessi lota getur orðið lengri en lota misheppnaða málarans frá Linz. Sennilega munu Bretar einnig hafa betur í þessari viðureign, þegar upp verður staðið, þó að það muni ekki koma strax í ljós.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.5.2017 | 21:40
Loftslagsvá, kísill og orkuskipti
Forseti Bandaríkjanna (BNA) og ríkisstjórn hans virðast ekki gefa mikið fyrir Parísarsamkomulagið frá desember 2015, en öðru máli gegnir um Xi Jinping, forseta Kína, sem hringdi í Emmanuel Macron, stuttu eftir kjör hans sem forseta Frakklands, til að tilkynna, að hann stæði staðfastur við skuldbindingar Kínverja í Parísarsamkomulaginu, hvað sem liði afstöðu annarra ríkja, þ.á.m. þess ríkis, sem losar næstmest af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið næst á eftir Kínverska alþýðulýðveldinu. Kína er að breytast úr þróunarríki með höfuðáherzlu á framleiðsludrifið hagkerfi í þróað ríki með blandað hagkerfi, þar sem þjónusta er verulegur hluti landsframleiðslunnar.
Fyrir þessari afstöðu kínverska kommúnistaflokksins eru skýrar ástæður í bráð og lengd. Það er orðin pólitísk og heilsufarsleg nauðsyn í Kína að sveigja af leið mengunar, og það hefur þegar verið gert. Það hefur líka verið gert í BNA, og afneitun forsetaefnis og jafnvel forseta nú á vandamálinu mun litlu breyta um óhjákvæmilega þróun og varúðaraðgerðir þróaðra ríkja og annarra mikilla mengunarvalda. Þar að auki fjarar fyrr og hraðar undan áhrifamætti Donalds Trumps en menn áttu von á, og virðist stutt í, að hann verði "ein lahmer Vogel", óflugfær fugl. Ein af mörgum greinum um loftslagsbreytingar birtist í The Economist,
"No cooling", þann 22. apríl 2017:
"Íbúar hafa fundið nýjan blóraböggul vegna eitraðs misturs, sem hvílir yfir mörgum kínverskum borgum mikinn hluta ársins. Þar til nýlega voru sökudólgarnir, sem venjan var að benda á, hinir augljósu: losun út í andrúmsloftið frá kolakyntum orkuverum, útblástur frá bifreiðum og ryk frá byggingarsvæðum. Á þessu ári hafa aftur á móti tekið að birtast frásagnir í ríkisfjölmiðlum í Kína um, að loftslagsbreytingar eigi sinn þátt í loftmenguninni.
Kínverskir vísindamenn segja, að í Austur-Kína hafi hlýnun jarðar leitt til minna regns og minni vinds, sem hreinsað hafi loftið hingað til."
"Í Kína er nú fyrir hendi skilningur stjórnvalda, og í vaxandi mæli hjá almenningi, á því, að af loftslagsbreytingum stafar raunveruleg hætta; að loftslagsbreytingar valda hækkun sjávarborðs, sem ógnar strandbyggð, og valda einnig vaxandi alvarlegum þurrkum í norðri, flóðum í suðri, og eiturmistri í þéttbýli."
Það eru enn nokkrir sérvitringar, einnig hérlendis, sem berja hausnum við steininn og telja kenninguna um hættuna af tengslum vaxandi styrks koltvíildis í andrúmslofti jarðar og hækkandi lofthitastigs vera orðum aukna, því að fleiri þættir vegi þungt fyrir lofthitastigið, og þeir muni á endanum snúa núverandi þróun hitastigsins við.
Hvað sem líður sannfærandi röksemdafærslu þeirra, er staðan núna óyggjandi alvarleg, og hún er það vegna gróðurhúsaáhrifanna. Efasemdarmennirnir hafa ekki hrakið, að til er "point of no return", þ.e. hitastig andrúmslofts, þar sem óviðráðanleg keðjuvirkni tekur við til hækkunar hitastigs, sem gjörbreyta mun lífinu á jörðinni, víðast hvar til hins verra, og margar tegundir dýra og gróðurs munu ekki lifa þær breytingar af. Hvort "homo sapiens" verður þar á meðal, er ekki víst, en vafalaust mun fækka verulega einstaklingum innan þessarar afvegaleiddu dýrategundar, hverrar forfeður og -mæður tóku upp á því að ganga upprétt við aðrar loftslagsbreytingar og villtust að lokum út úr Afríku og fóru á flandur um heiminn á tveimur jafnfljótum með börn og buru.
Það standa engin rök til þess núna að sitja með hendur í skauti og bíða þess, sem verða vill, enda væri það ólíkt hinum athafnasama "homo sapiens", sem hefur meiri aðlögunarhæfni en flestar aðrar tegundir og hefur nú búsetu um alla jörð.
Þetta er hins vegar ekki aðeins varnarbarátta, heldur ber að hefja sókn til úrbóta og líta á þessa stöðu mála sem tiltekna þróun, og nýta sér viðskiptatækifærin, sem í henni felast. Það gera Þjóðverjar með orkustefnu sinni, " die Energiewende", og það ætla Kínverjar nú að gera:
"Kínverjar vonast eftir ágóða með því að þróa "græna tækni", sem þeir geti selt á heimsmarkaði. Þeir fjárfesta nú feiknarlega í henni. Í janúar 2017 kynntu þeir áætlun um að fjárfesta miaUSD 360 fram að árslokum 2020 í raforkuvinnslubúnaði, sem notar endurnýjanlegar eða lágkolefnis orkulindir, þ.á.m. sól, vind, fallorku vatns og kjarnorku. Þetta á að skapa 13 M störf og þýða, að helmingur nýrra raforkuvera á árabilinu 2016-2020 muni nota endurnýjanlega orku eða kjarnorku."
Þetta eru gleðitíðindi frá mesta mengunarvaldinum og ekki orðin tóm, því að árið 2013 náði kolanotkun orkuvera hámarki sínu í Kína, um 2,8 milljörðum tonna. Olíunotkun fer þó enn vaxandi þar og er að orkujafngildi 0,8 milljarðar t af kolajafngildi, og gasnotkun eykst líka og er um 0,3 milljarðar t af kolajafngildi í orku. Til samanburðar nemur virkjuð fallvatns-, kjarn- og vindorka í Kína aðeins 0,5 milljörðum tonna af kolum í orkujafngildi.
Á Íslandi er yfir 99 % raforkunnar frá vatnsaflsvirkjunum eða jarðgufuvirkjunum, sem eru að mestu lausar við gróðurhúsaáhrif. Nú berast fregnir af gríðarlegum áformum Kínverja um nýtingu jarðhita til upphitunar húsnæðis.
Því miður vantar nú hreina raforku á Íslandi til að anna eftirspurn, því að olíu er brennt í varakötlum, þar sem þó er búið að rafvæða fiskimjölsverksmiðjur og hitaveitur, og orkufyrirtækin eru ekki í stakk búin til að afhenda raforku til allra iðjuvera, sem þó hafa fengið starfsleyfi, fyrr en árið 2020. Það er of lítið borð fyrir báru. Engin goðgá væri, til að auka öryggi raforkuafhendingar og efla sveigjanleika til að anna eftirspurn, að skylda hvert raforkuvinnslufyrirtæki til lágmarksframleiðslugetu 3 % umfram sölusamninga, enda megi fyrirtækin umsetja þessa orku á markaði fyrir ótryggða orku.
Flutningskerfi raforku um landið er svo bágborið, að straumrof að kerskála álvers í Hvalfirði rýfur flutning Byggðalínu úr norðurátt og suðurátt til Austurlands með miklu framleiðslutjóni, rofi á samskiptakerfum, óþægindum og sums staðar neyðarástandi í allt að 2,0 klst sem afleiðingu. Samt hjakkar allt í sama farinu hjá Landsneti.
Notendur á biðlista eftir raforku eru t.d. kísilverin Thorsil og Silicor, sem reyndar hefur gengið brösuglega að fjármagna. Fjárfestingarþörf fyrsta áfanga (2 ofnar) Thorsil í Helguvík er talin nema MUSD 275, og þar verða til 130 störf við rekstur, viðhald og stjórnun. Þetta jafngildir fjárfestingu 2,1 MUSD/starf, sem er mikið og í raun bezta atvinnutrygging starfsmanna, því að mikið er í húfi fyrir fjárfestana að halda svo dýrri starfsemi gangandi. Þessir starfsmenn munu framleiða sem svarar til 415 t/mann, sem er lítil framleiðni á mælikvarða álveranna, en þar er reyndar mikið um verktakavinnu til viðbótar við eigin starfsmenn.
John Fenger er stjórnarformaður Thorsil. Hann hefur langa og víðtæka iðnaðarreynslu. Agnes Bragadóttir birti þann 20. febrúar 2016 viðtal við hann í Morgunblaðinu:
""Öllum framleiðendum, sem fylgir slíkur útblástur, er fyrir lagt að starfa innan strangs sameiginlegs evrópsks regluverks. Regluverkið (EU ETS) miðar að því að lágmarka umhverfisáhrif rekstraraðila innan EES, og byggir kerfið á metnaðarfullum markmiðum um 43 % samdrátt losunar gróðurhúsalofttegunda á milli áranna 2005 og 2030. Thorsil mun starfa innan þessara reglna.
Það hafa verið gerðar greiningar á því, hvert kolefnisfótspor kísilvinnslu sé. Í þeim efnum er athyglisvert að benda á, að kísilmálmur er notaður í margs konar framleiðslu, sem fyrirbyggir eða dregur úr útblæstri á koltvísýringi. Þar má nefna sólarkísiliðnaðinn; notkun sólarkísils kemur í staðinn fyrir kolaver; kísill er notaður í framleiðslu bíla og annarra farartækja til þess að létta þau, og því kemur minni útblástur frá farartækjum. Þá er hann einnig notaður í ýmiss konar þéttiefni til einangrunar og orkusparnaðar. Útkoman samkvæmt þessum greiningum er þessi: hvert kg [CO2], sem fylgir vinnslunni í okkar kísilveri, sparar 9 kg af útblæstri við notkun á vörum, sem kísilmálmur frá okkur er notaður í.
Við fáum rafmagnið hér, við erum með mjög gott vinnuafl, og hér er mjög góð aðstaða. Við erum með flutninga, sem eru mjög hagkvæmir, og hér er kominn markaður fyrir kísilmálm. Áliðnaðurinn á Íslandi notar kísilmálm, og einnig gæti byggzt hér upp sólarkísilvinnsla. Hér ætti því að verða til markaður fyrir umtalsvert magn af kísilmálmi innan fárra ára, sem nýttur væri á Íslandi", segir John Fenger."
Þetta eru athyglisverðar upplýsingar frá innanbúðarmanni í kísiliðnaðinum. Hann upplýsir, að kolefnisfótspor kísilvinnslunnar er ekkert; þvert á móti mun framleiðslan hér draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Það hefur líka verið sýnt fram á, að notkun áls frá Íslandi dregur meira úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu en nemur losuninni við framleiðslu þess hérlendis. Þá er sleppt ávinninginum hérlendis vegna gríðarlegrar losunar við raforkuvinnslu til álframleiðslu erlendis. Í kísilvinnslunni er ávinningur andrúmsloftsins nífaldur, og hann er hlutfallslega svipaður í innlendri álvinnslu að losun við orkuvinnsluna meðtalinni.
Það er þess vegna fjarstæðukennt, að umhverfisráðherrann í núverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skuli helzt ekkert tækifæri láta ónotað til að reka horn í síðu íslenzks iðnaðar. Er ráðherrann enn á röngu róli varðandi umhverfisáhrif íslenzks iðnaðar, og fer nú að verða tímabært fyrir hana að kynna sér staðreyndir um hann. Það er leiðigjarnt að heyra hana japla í fjárfestingarívilnunum. Þær voru allar samþykktar af ESA, svo að þær eru að líkindum ekki hærri en tíðkast í EES. Færi vel á því, að hún [Björt] legði eitthvað jákvætt og frumlegt til málanna áður en hún fer í árásarham næst, því að hún vinnur umhverfinu aðeins ógagn með því að dreifa ósannindum um íslenzkan iðnað.
Á Íslandi er misjafnt, hvernig gengur að draga úr eldsneytisnotkun, enda hvatarnir misjafnir, þótt allir ættu að skilja, hver úrslitahvatinn er, en hann má orða með orðum Hamlets: "to be or not to be [homo sapiens]".
Útgerðarfyrirtækin hafa staðið sig mjög vel við að draga úr olíunotkun og um leið úr orkukostnaði sínum, þannig að m.v. árangurinn frá 1990 munu þau ná markmiðinu um 40 % minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 m.v. 1990. Hinn fjarstæðukenndi og öfugsnúni refsivöndur sjávarútvegsráðherrans að auka veiðigjöldin, ef fyrirtækin hagræða í rekstri sínum, svo að störf flytjist til og/eða þeim fækki, mun hvorki auðvelda útgerðarfyrirtækjunum olíusparnað né ýta undir s.k. byggðafestu. Sjávarútvegsráðherra sæmir ekki að ógna atvinnugrein, sem henni ber að efla, en allt hefur hingað til verið á sömu bókina lært hjá henni í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Það hefur enn ekki orðið sá vendipunktur hjá hinum aðalnotanda jarðefnaeldsneytis á vökvaformi hérlendis, að dugi til að ná sams konar markmiði og útgerðirnar. Ríkisvaldið hefur þó lagt sitt lóð á vogarskálarnar, en sveitarfélögin og raforkufyrirtækin hafa dregið lappirnar við að laga byggingarskilmála að aukinni raforkuþörf vegna hleðslutækja rafbílanna og við að styrkja stofna, svo að fyrirtæki, húsfélög og einstaklingar geti sett upp nægilega öfluga tengla fyrir hleðslutækin. Á meðan nauðsynlegir innviðir ekki blasa við væntanlegum notendum, munu viðskiptavinir með bílrafmagn láta bíða eftir sér.
Sumir forsvarsmenn raforkufyrirtækja hafa jafnvel gert málstaðnum ógagn með belgingi um, að ekkert þurfi að virkja eða fjárfesta í flutnings- eða dreifikerfum vegna orkuskipta í samgöngum. Það gerði t.d. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, OR, á ársfundi félagsins 2017. Bjarni Már Júlíusson, BMJ,framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar, ON, dótturfyrirtækis OR, tók ekki svo djúpt í árinni í fréttaskýringu Skapta Hallgrímssonar í Morgunblaðinu 5. maí 2017, undir fyrirsögninni:
"Rafbílavæðing gæti sparað sex milljarða",
en hann vanmat þar gróflega sparnaðinn og kostnaðinn við orkuskiptin. Þar sem hinn fjárhagslegi ávinningur, nettó sparnaðurinn, er mismunur þessara stærða, þá varð áætlaður sparnaður "aðeins" þriðjungi of lágur í málflutningi BMJ. Nú verður gerð grein fyrir óvandaðri talnameðferð ON/OR, hvað orkuskiptin varðar:
Eldsneytissparnaður:
BMJ sagði um 200´000 bíla í notkun á Íslandi. Hið rétta er, að fólksbílarnir voru um 240 k í lok árs 2016, og heildarbílafjöldinn var um 277 k. Sé miðað við fólksbíla einvörðungu í þessu dæmi, er bílafjöldinn 17 % of lágur hjá BMJ. Það hefur áhrif á reiknaðan eldsneytissparnað og raforkuþörf. Enn stærri villu, 54 %, gerði hann, þegar hann hélt því fram, að eldsneyti á þessa bíla væri flutt inn fyrir um miaISK 12 á ári. Sú tala er út í loftið, því að þessi 240 k farartæki brenna um 300 kt/ár að andvirði um MUSD 240 eða miaISK 26. BMJ telur eldsneytiskostnaðinn (CIF) vera miaISK 14 lægri en hann er í raun.
Þá er komið að raforkuöfluninni ásamt flutningi og dreifingu hennar til rafbílanotendanna, en þar keyrir vitleysan um þverbak hjá ON/OR:
"Rafmagnið kostar vitaskuld sitt, en ná mætti fram verulegum sparnaði með rafvæðingu bílaflotans og Bjarni Már segir næga raforku til."
Blekbóndi hefur undirstrikað það, sem BMJ lepur upp eftir forstjóra sínum, og blekbóndi leyfir sér að kalla þvætting. Það er engin raforka til ráðstöfunar núna, sem neinu nemur, hvorki hjá ON, sem berst við fallandi framleiðslugetu stærstu virkjunar sinnar, Hellisheiðarvirkjunar vegna minnkandi jarðgufuforða, né hjá stærsta félaginu, Landsvirkjun, sem hefur lýst því yfir, að engin raforka umfram gerða samninga sé til reiðu fyrr en árið 2020. Skortstaðan endurspeglast í svo háu verði ótryggðrar raforku, að hún er ósamkeppnishæf við svartolíu.
Er þetta eitthvert smáræði, sem þarf af orku fyrir rafbílana ? Í heildina er fráleitt um smáræði að ræða, og það er þörf á virkjun og eflingu flutningskerfisins og dreifikerfanna strax, þótt aukning á fjölda rafbíla sé hæg, því að það er ekkert borð fyrir báru í raforkukerfinu.
Það er hægt að fara 2 leiðir til þess að finna út raforkuþörf rafmagnsbíla. Annars vegar með því að margfalda saman fjölda bíla, áætlaðan meðalakstur á ári og orkunýtni í kWh/km. Blekbóndi þekkir af eigin raun síðast nefndu stærðina út frá mælingum inn á hleðslutæki eigin tengiltvinnbíls, og er niðurstaðan 0,35 kWh/km að meðaltali yfir árið.
E=240 k x 15 k km x 0,35 = 1,3 TWh/ár
Þetta jafngildir meðalaflþörf 150 MW yfir árið, en toppaflþörf verður ekki undir 300 MW, og verður álagið vegna hleðslu rafbílanna væntanlega mest á kvöldin. Orkan er meira en þriðjungur af núverandi orkuþörf almenningsveitna, og aflið er um 12 % af núverandi toppálagi landsins. Það munar mikið um þessa aukningu raforkunotkunar, og það dugar skammt að stinga hausnum í sandinn gagnvart hinu óumflýjanlega.
Hin aðferðin er að reikna orkuinnihald olíunnar, sem rafmagnið á að leysa af hólmi. Ef orkunýtni rafbúnaðarins er áætluð 2,5 föld á við sprengihreyflana, þá fæst raforkuþörfin 1,3 TWh/ár. Báðar aðferðirnar gefa sömu útkomu, sem alltaf þykir trúverðugt fyrir áreiðanleika niðurstöðunnar.
Um fjárhagshliðina fimbulfambar BMJ með eftirfarandi hætti:
"Varlega má áætla, að verja þurfi innan við helmingi þessarar upphæðar [meints miaISK 12 innflutningskostnaðar fólksbílaeldsneytis-innsk. BJo], ef við skiptum yfir í hreina íslenzka orku. Þannig mætti spara um miaISK 6 í gjaldeyri á ári, sem færu einhvern veginn öðruvísi inn í hagkerfið. Þetta skiptir því miklu máli, og ekki síður vegna samninga um loftslagsmarkmið, sem Íslendingar hafa skrifað undir."
Það er kolrangt, að aðeins þurfi að fjárfesta fyrir miaISK 6 í raforkukerfinu vegna rafbílavæðingar. Ef reiknað er með 300 MW virkjunarþörf vegna hennar, jafngildir það fjárfestingarþörf í virkjunum upp á um miaISK 70, og með styrkingu flutnings- og dreifikerfa mun kostnaðurinn fara yfir miaISK 100, og ríflega helmingur þess kostnaðar er í erlendum gjaldeyri. Það er rífleg stærðargráðuvilla á ferðinni í upplýsingunum, sem BMJ býður blaðamanni og lesendum Morgunblaðsins upp á. Hvað vakir fyrir honum í þessum gufumekki ?
Þetta er hins vegar ekki rétta aðferðin við að bera saman kostnaðinn. Það er eðlilegra að athuga, hvað raforkan á rafbílana kostar notandann án skatta og bera saman við eldsneytiskostnaðinn án skattheimtu.
Ef gert er ráð fyrir, að orkuverðið við stöðvarvegg sé 6,1 kr/kWh, flutningsgjald þaðan og til dreifiveitu sé 1,7 kr/kWh og dreifingargjaldið sé 5,7 kr/kWh, þá fæst árlegur raforkukostnaður: Kr=1,3 TWh/ár x 13,5 kr/kWh = 18 miaISK/ár, samanborið við eldsneytiskostnaðinn 26 miaISK/ár. Nettó sparnaður á ári: S = (26-18) miaISK = miaISK 8. Gjaldeyrissparnaðurinn er enn meiri, svo að þjóðhagslegur sparnaður er verulegur af þessum orkuskiptum. BMJ er reyndar þeirrar skoðunar líka, en með öllu er á huldu, hvernig hann komst að því, enda eru tölur hans rangar og sennilega aðferðarfræðin líka.
Að lokum verður vitnað í téða fréttaskýringu:
"Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir ekkert land betur til þess fallið en Ísland að rafbílavæðast. "Fyrir því eru nokkrar ástæður. Allt rafmagn er grænt og endurnýjanlegt, mengunarlítið, það er ódýrt og loftslagið hér er ákjósanlegt, því að rafhlöður þola vel kulda, en ekki mikinn hita.""
Hér orkar ýmislegt tvímælis hjá téðum forstjóra. Það er t.d. mjög dregið í efa, að rafmagnið, sem dótturfyrirtæki OR, ON, framleiðir, sé "grænt og endurnýjanlegt, mengunarlítið." Jarðgufugeymirinn, sem Hellisheiðarvirkjun nýtir neðanjarðar, þolir ekki núverandi álag, um 280 MW, og alls ekki fullnýtingu uppsetts afls, 303 MW, svo að afköst hans minnka, ef ekki er varið umtalsverðum fjármunum til að bora "viðhaldholur". Þessi nýting er strangt tekið ósjálfbær, og forstjórinn ætti ekki að leggja lykkju á leið sína til að reyna að breiða yfir það með froðusnakki.
Er hægt að kalla það mengunarlitla vinnslu, sem veldur því, að styrkur eiturgufunnar brennisteinsvetnis fer yfir heilsuverndarmörk á höfuðborgarsvæðinu, ef vindáttin er óhagstæð ? Auðvitað ekki, og umhverfið allt hefur látið mjög á sjá vegna þessarar mengunar, brennisteins og annars frá virkjuninni.
Þegar svo téður forstjóri fer að tjá sig um samband lofthitastigs og rafgeymanýtingar, er hann kominn út á hálan ís. Sannleikur málsins er sá, að meðallofthitastig á Íslandi hentar algengustu rafgeymum rafbíla um þessar mundir ekki sérlega vel. Þannig er brúttó meðalnýtni þeirra á veturna um 30 % lakari en á sumrin, sem þýðir, að á bilinu -5°C til 15°C er stigull nýtninnar 3 %/°C. Hér þarf að taka með í reikninginn, að öll upphitun og lýsing bílsins kemur frá rafgeymunum. Vegna lægra meðalhitastigs á Íslandi en víðast hvar annars staðar er ekki hægt að halda því blákalt fram, að Ísland henti rafbílum betur en önnur lönd. Mengunarlega séð á þó sú fullyrðing rétt á sér.
Það er hvimleitt, að forráðamenn raforkufyrirtækjanna vandi sig ekki betur en raun ber vitni um, sumir hverjir, þegar þeir bera á borð upplýsingar fyrir almenning um málefni, sem hann að óreyndu gæti gert ráð fyrir, að talsmennirnirnir kynnu skil á og færu rétt með. Að túðra út í loftið blekkir marga aðeins einu sinni. Þar með missa blekkingasmiðir strax trúverðugleika sinn.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2017 | 20:45
Kolefnisgjald hér og þar
Að hálfu ríkisstjórnar Íslands hefur verið boðuð tvöföldun kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti. Það er stórt stökk og ósanngjarnt, nema neytendur hafi skýran valkost til að beina orkunotkun sinni á umhverfisvænni braut. Hið sama þarf helzt að vera fyrir hendi, þar sem fjármagna á samgöngubætur neð veggjaldi, t.d. ýmis jarðgöng, Sundabraut o.s.frv.
Svo er ekki, á meðan flutningskerfi og jafnvel dreifikerfi raforku er með þeim hætti í landinu, að það annar nánast engri viðbótar raforkunotkun. Jafnvel fiskimjölsverksmiðjur, sem fjárfest hafa stórfé í rafmagnskötlum, fá ekki rafmagn, og aðrar fá það með afarkostum vegna skorts á nýjum virkjunum. Framboð raforku er of lítið, og svo mun iðulega verða, á meðan virkjunaraðilar græða meira á skorti en auknu framboði. Þarna verða neytendur fórnarlömb, og stjórnvöldum ber að breyta þessu með hvötum til nýrra virkjana, þegar hillir undir orku- eða aflskort. Slíkt ætti að setja fram í orkustefnu ríkisins, sem nú er í smíðum.
Helztu raforkufyrirtæki landsins eru alls ekki á sömu blaðsíðunni í þessum efnum. Forstjóri stærsta fyrirtækisins, Landsvirkjunar, hefur lýst því yfir, að hækka verði raforkuverðið, og hann beitir alls konar meðulum í þá átt. Forstjóri þess næststærsta segir, að ekkert þurfi að virkja fyrir orkuskiptin, hvað þá fyrir aðra almenna notkun á næstunni. Forstjóri HS Orku segir aftur á móti, að orkuskortur sé og að nauðsynlegt sé að virkja. Tveir hinir fyrrnefndu, fulltrúar fyrirtækja í opinberri eigu, hafa rangt fyrir sér, en sá þriðji, fulltrúi einkafyrirtækis, hefur rétt fyrir sér. Með orkustefnu ríkisins þarf að stilla saman strengi, svo að allir haldi í sömu átt, þangað sem er nægt framboð á orku án raunverðhækkana m.v. núverandi verðlag, og þangað sem allir geta fengið þá orku, sem þá lystir, á samkeppnishæfu verði.
Það verður að gera þá sanngirniskröfu til stjórnvalda, að þessi mikla hækkun á kolefnisgjaldi, sem er réttlætanleg við réttar aðstæður, komi ekki til framkvæmda fyrr en flutnings- og dreifikerfið hefur verið styrkt, svo að fullnægjandi sé fyrir orkuskiptin, og virkjað hefur verið nægjanlega fyrir rafkatlamarkaðinn og önnur orkuskipti.
Kanada er gríðarlegt vatnsorkuland, sem Ísland á í samkeppni við um orkuverð til stóriðju, en Kanada er líka mikið eldsneytisland, sem brennir kolum til raforkuvinnslu og vinnur olíu með "sóðalegum" hætti úr tjörusandi og sendir hana til risans sunnan landamæranna, sem er eldsneytishít.
Kanadamönnum hefur gengið illa með skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sögðu sig þess vegna frá Kyoto-samkomulaginu. Íslendingar fengu hins vegar sérákvæði þar um 10 % aukningu m.v. 1990 vegna stóriðju, sem knúin væri endurnýjanlegri orku. Það hefur sparað andrúmsloftinu a.m.k. 10 Mt/ár af gróðurhúsagösum. Samt setja sumir upp þröngsýnisgleraugun og gagnrýna þetta ákvæði samningsins. Þeir munu seint verða taldir vera lausnarmiðaðir.
Nú eru Kanadamenn að snúa þróuninni við og ætla í fyrsta sinn að mynda landsstefnu í stað einvörðungu fylkjastefnu um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér verður endursagður hluti af greininni "Walking the walk" (ekki "Walking the Talk") í The Economist 17. desember 2016, sem fjallar á áhugaverðan hátt um þetta:
"Að tala er auðvelt. Síðan 1997 hefur Kanada staðfest 5 alþjóðlega samninga og lofað að minnka losun gróðurhúsagasa. Samt hefur aldrei verið mynduð ríkisstefna um málefnið. Þess í stað hafa fylkin 10 og svæðin 3 haft frelsi til athafna að eigin vild.
Fylki, sem auðug voru af fossorku, s.s. Quebec og Ontario, lögðu sig í framkróka, og í Brezku Kólumbíu, BC, var jafnvel lagður á kolefnisskattur. Aftur á móti sátu miklir framleiðendur jarðefnaeldsneytis á borð við Alberta aðgerðalausir.
Niðurstaðan var fyrirsjáanlega slæm. Á árinu 1990, viðmiðunarári Kyoto, nam losun landsins 613 Mt af koltvíildisígildum og hafði árið 2014 hækkað upp í 732 Mt, sem var 9. mesta losun í heiminum. Kanada dró sig út úr Kyoto-samkomulaginu 2011, þegar ljóst var, að landið næði ekki áformum sínum.
Eftir nærri tvo áratugi aðgerðaleysis gæti Kanada nú hafa náð vendipunkti í þessum efnum. Þann 9. desember 2016 lýstu forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, og 11 af 13 forsætisráðherrum fylkja og svæða, því yfir, að þeir hefðu náð samkomulagi um loftslagsáætlun.
Áætlunin felur í sér mismunandi leiðir fyrir fylki og svæði og tvö forgangsatriði ríkisins: árið 2018 verður hvert fylki að hafa innleitt annaðhvort kolefnisgjald eða framseljanlegt kvótakerfi á koltvíildi að verðgildi CAD 10 (USD 7,5, EUR 7,0, ISK 849) á tonnið, sem skuli hafa hækkað upp í CAD 50 (USD 37,5, EUR 35,0, ISK 4245) árið 2022. Árið 2030 verður ekki lengur heimilt að brenna kolum í raforkuverum. Verði þetta raungert, þá mun landið eiga möguleika á að ná markmiði sínu 2030 um losun að hámarki 523 Mt."
Það eru nokkur atriði, sem vekja athygli í þessari frásögn af gangi loftslagsmála í Kanada. Í fyrsta lagi lausatök ríkisstjórnarinnar í Ottawa fram að þessu, sem eru dæmigerð um kæruleysi flestra ríkisstjórna frá Kyoto-samkomulaginu um 1995 til Prísarsamkomulagsins 2015. Þessi léttúð getur orðið afdrifarík fyrir hitastig lofthjúpsins, þó að öll nótt sé ekki úti enn.
Þá er athyglisvert, að aðferð Kanadamanna til að knýja fram minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda er tvíþætt, þegar þeir loksins taka við sér. Annars vegar fara þeir markaðsleiðina með kvótaviðskiptum, stigminnkandi úthlutunum á losunarheimildum til fyrirtækja, sem þeir búast við, að leiði til 5-földunar kvótaverðs á 5 ára tímabilinu 2018-2022, og hins vegar beita þeir skattlagningu á jarðefnaeldsneytið og ætla að banna kolabrennslu árið 2030. Hið síðast nefnda eru stórtíðindi í Vesturheimi. Reyndar hefur nýting kolavera í Kína minnkað úr 60 % árið 2010 og undir 50 % 2017 og á Indlandi úr 75 % og í 55 % á sama tímabili vegna samkeppni frá öðrum orkugjöfum.
Sunnan landamæranna ætlar Bandaríkjaforseti að aflétta hömlum af kolaiðnaðinum. Hann mun ekki geta snúið þróuninni við. Hann er eins og fornaldareðla að þessu leyti, og áhrif hans munu ekki marka nein framtíðarspor, heldur verða Bandaríkjunum tímabundið til trafala og minnkunar og aðeins tefja fyrir nauðsynlegri þróun í átt til kolefnisfrírrar framtíðar; þó ekki einu sinni um 4 ár, því að sum ríki BNA munu einfaldlega halda sínu striki í þessum efnum, sbr Kalifornía og Nýja Jórvík.
Það vekur jafnframt athygli, að markmið Kanadamanna er um aðeins 15 % minni losun árið 2030 en 1990, sem er helmingurinn af hlutfallslegu markmiði EES-ríkjanna. Þetta sýnir, að ESB ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi á pappírnum, en hver reyndin verður er önnur saga, því að t.d. brennsla kola í orkuverum Evrópu hefur vaxið á undanförnum árum vegna misheppnaðrar orkustefnu, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.
Íslendinga bíða mikil tækifæri í hlýnandi loftslagi og við að fást við hlýnun andrúmslofts. Grænkustuðull landsins, þ.e. magn græns gróðurs, hefur á 30 ára tímabili, 1980-2010, aukizt um 80 %, og vaxtarhraði birkis hefur 8-faldazt m.v. árin í kringum 1970. Þetta hefur góð og marktæk áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni íslenzks landbúnaðar og gerir kleift að rækta með góðum árangri tegundir, sem áður var undir hælinn lagt með, s.s. korntegundir og repju. Boðuð hækkun kolefnisgjalds mun sennilega gera það að verkum, að stórfelld repjuræktun til framleiðslu á t.d. 50 kt/ár af eldsneyti og 100 kt/ár af mjöli verður arðsöm. Markaður verður fyrir alla þessa framleiðslu innanlands, þar sem eru olíufélögin og laxeldisfyrirtækin o.fl.
Þá mun binding koltvíildis á hvern ha skóglendis hérlendis vaxa, sem gerir íslenzka skógarbændur vel samkeppnishæfa um verð á koltvíildiskvóta á Evrópumarkaði, ef hann þróast með svipuðum hætti og ráðgert er í Kanada, en m.v. bindingu á 5,0 t/ha CO2 var kostnaðurinn hérlendis 2015 undir 30 USD/t, og hefur lækkað síðan vegna gengisstyrkingar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2017 | 13:21
Ráðherra og loðnan
Íslenzkir framleiðendur loðnuafurða hafa átt stóra markaðshlutdeild á loðnumörkuðum, enda hafa íslenzkar útgerðir lengi veitt meira af loðnu en útgerðir annars staðar. Þar af leiðandi eru hagsmunir Íslendinga meiri en annarra þjóða við Norður-Atlantshaf á loðnumörkuðum, og þar með ábyrgð gagnvart viðskiptavinum.
Nú er svo komið, að íslenzki sjávarútvegsráðherrann hefur fært Norðmönnum frumkvæði á þessu sviði og virðist ekkert frumkvæði ætla sjálf að sýna, þegar miklir hagsmunir landsins eru í húfi. Það er alvarlegur sofandaháttur að hafa ekki krafizt endurskoðunar á skiptisamningum við Norðmenn um loðnu í landhelgi Íslands og þorsk í Hvítahafinu, þegar gildandi samningar skyndilega veita Norðmönnum yfirburðastöðu á loðnumörkuðunum. Vegna loðnubrests eru forsendur þessara samninga fallnar, en ráðherrann virðist skorta dug til að reisa burst gagnvart frændum okkar, sem eru harðdrægir sem kunnugt er. Það verður stundum að berja í borðið til að standa á rétti sínum. Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna í sínu háa embætti ?
Það hefur ekki farið ýkja hátt, að í lok janúar 2017 úthlutaði sjávarútvegsráðherra Norðmönnum bróðurpartinum, 70 %, af því litla aflamarki, sem Hafrannsóknarstofnun ráðlagði í fyrstu atrennu á þessu ári, 57 kt, og í hlut Íslendinga koma aðeins 21 % af 81 %, sem er okkar skiptahlutfall í samningum um deilistofna. Er þessi ráðherra ekki í vinnu hjá okkur ?
Málið er, að þessi samningur við Norðmenn um 31 kt til þeirra á grundvelli "Smugusamningsins" er meingallaður, því að enginn varnagli er í honum um minni loðnuheimildir til handa Norðmönnum í loðnubresti. Ráðherrann skilur ekki, að nú eru uppi aðstæður, sem útheimta, að hún stigi á neyðarhemlana, eða hún hreinlega nennir því ekki, en skrifar heldur undir einhverja bölvaða vitleysu í ráðuneytinu, sem að henni er rétt, og vill helzt reka "business as usual" í stað þess að brjóta blað. Situr illa forritaður róbóti í ráðherrastóli ?
Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja, sagði eftirfarandi í viðtali við Guðjón Einarsson á Fiskifréttum 2. febrúar 2017:
"Þorskkvóti Íslendinga í Barentshafi minnkar og stækkar í samræmi við ástand þorskstofnsins þar. Þegar loðnustofninn við Ísland er stór, eru ákvæði Smugusamningsins kannski í lagi, en þegar illa árar í loðnunni, eins og núna, hljóta allir að sjá, að það er ekki eðlilegt, að svona stór hluti af loðnukvóta Íslendinga fari í að borga Norðmönnum veiðiheimildir í Barentshafi. Enginn, sem er með veiðiréttindi í loðnu, sér vitglóru í því, að svona stór hluti af þeim sé notaður í milliríkjasamningi um tegundir, sem þeir hafa enga aðkomu að. Það er augljóslega vitlaust gefið."
Sjávarútvegsráðherra er algerlega úti að aka í þessum málum. Ef hún stæði í ístaðinu, hefði hún sagt við sinn norska starfsbróður, að gagnkvæmniregla yrði að gilda í skiptum á veiðiréttindum í íslenzkri lögsögu og í Hvítahafinu, sem þýðir t.d., að Norðmenn geta ekki fengið meira en sín umsömdu 8 % af aflamarki loðnu, á meðan það er undir 100 kt. Við aflamark 100 kt fái þeir 10 kt + 8 %, og við 200 kt aflamark loðnu í íslenzkri lögsögu fái þeir sín 31 kt + 8 % gegn umsömdum réttindum Íslendinga í Hvítahafinu. Hvaða erindi á Þorgerður Katrín í embætti sjávarútvegsráðherra, ef það er ekkert bein í nefinu á henni ? Nú vill svo vel til, að í dag, 14. febrúar 2017, var aflamarkið hækkað í 299 kt, og verður þá heildarhlutur Íslendinga 208 kt.
Núgildandi skiptiregla á loðnu í íslenzkri lögsögu á milli strandríkja er þessi (tonnafjöldi í sviga m.v. 57 kt (k=1000) aflamark:
- Ísland fær 81 % (46,17 kt)
- Grænland fær 11 % (6,27 kt)
- Noregur fær 8 % (4,56 kt)
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 15.2.2017 kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2017 | 22:27
Kúreki kveikir upp
45. forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, er búinn að kveikja upp í "Oval Office", embættisskrifstofu sinni, hagar sér eins og villtur kúreki, ríður mikinn í kringum hjörðina og þyrlar upp stórum rykmekki. Þar fer augljóslega óhefðbundinn forseti með slíka lyndiseinkunn, að öruggt má telja, að það á eftir að skerast í odda á milli hins sjálfumglaða húsbónda í Hvíta húsinu og bandaríska þingsins í Washington D.C.
Forsetinn hefur undirritað eina tilskipun á dag, fyrstu dagana í embætti, í kastljósi fjölmiðla, sem hann annars hefur sagt stríð á hendur. Eru þessir stórkarlalegu tilburðir fremur broslegir, en það er ómögulegt að segja fyrir um, hvernig þessu leikriti "hins afburðasnjalla og víðfræga" sonar Fred Trumps, kaupsýslumanns, sem ættaður var frá hinu huggulega vínyrkjuhéraði Þýzkalands, Pfalz, lyktar.
Fyrsta tilskipun Donalds Trumps mun hafa fjallað um að draga BNA út úr viðskiptasamkomulagi Kyrrahafsríkja. Þetta er fyrsta skrefið í að stöðva flóð kínverskra vara og fjármagns til BNA og draga þannig úr samkeppni bandarísks vinnuafls við hið kínverska. Á sama tíma er Donald hvassorður um útþenslu Kínverja á Kínahafi, þar sem þeir eru að koma sér upp flotastöðvum í óþökk allra nágrannanna. Þá ögrar Donald valdhöfum kínverska kommúnistaflokksins í Peking með því að ræða við forseta Taiwan (Formósu). Donald Trump ætlar að stöðva framsókn Kínverja sem alheimsstórveldis, er ógnað geti BNA. Þetta mun ekki ganga átakalaust.
Donald Trump virðist vera upp sigað við Evrópusambandið, ESB, sem er alveg ný afstaða í Hvíta húsinu. Virðist hann helzt vilja sundra Evrópu, e.t.v. svo að hún ógni ekki BNA á viðskiptasviðinu, og hann hefur skotið Evrópumönnum, utan Rússlands, skelk í bringu með þeim palladómi, að NATO sé úrelt þing. Hefur hann gefið í skyn, að NATO þjóni ekki hagsmunum BNA á meðan hinar NATO-þjóðirnar dragi lappirnar í útgjöldum til hermála og taki sér far á vagni, sem Bandaríkjamenn dragi. Krafan er 2,0 % af VLF til hermála, sem á Íslandi þýðir rúmlega miaISK 50 til varnar- og öryggismála. Ætli fari ekki innan við 1/10 af þeirri upphæð í mál, sem má flokka sem slík hérlendis nú ? Hvað gerir Donald, þegar honum verður sagt frá því og hinum sérstaka varnarsamningi á milli Íslands og BNA ? Það er eins gott, að skrifstofan er ávöl, því að annars gæti komið hljóð úr horni.
Donald rekur hornin í ESB úr vestri og virtist í kosningabaráttunni vilja vingast við Vladimir Putin,fyrrverandi KGB-foringja og núverandi Kremlarbónda, sem hefur heldur betur rekið hornin í ESB úr austri. Það á sem sagt að þrengja að ESB úr tveimur áttum á sama tíma og fjandsamlegir vindar blása í átt að BNA úr austri, suðri (Mexíkó) og vestri. Það er sem sagt allt upp í loft.
Upp í loft er líka allt hér í Evrópu, þar sem Bretar eru á leið út úr ESB. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú í ræðu í Leicester House gert opinbera grein fyrir því, hvaða línu ríkisstjórnin í Lundúnum ætlar að taka í þessu ferli. Það verður "hreinn" viðskilnaður, sagði hún, sem er rökrétt afstaða ríkisstjórnarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og felur í sér, að Bretar munu ekki sækjast eftir veru á Innri markaði ESB/EFTA með "frelsunum fjórum", heldur losa sig algerlega undan tilskipanafargani búrókratanna í Brüssel og taka fulla stjórn á landamærum sínum.
Með þessu móti hafa Bretar frjálsar hendur um viðskiptasamninga við ESB og alla aðra. Það var alger hvalreki fyrir þá að fá yfirlýsingu frá Donald Trump um, að hann mundi liðka fyrir yfirgripsmiklum viðskiptasamningi á milli Bretlands og BNA. Bretar geta þannig orðið stjórnmálalegur og viðskiptalegur milliliður á milli BNA og ESB, sem er draumastaða fyrir þá.
Eftir téða ræðu Theresu May í Leicester House hvein í tálknum í Edinborg. Þjóðarflokkur Skota, sem Sturgeon, yfirráðherra Skota fer fyrir, virðist telja hag sínum betur borgið á Innri markaði ESB en með óheftan aðgang að Englandi, Norður-Írlandi og aðild að öllum viðskiptasamningum Englendinga. Hefur hún hótað aðskilnaði við England, ef verður af "hardest of hard Brexits" og inngöngu í ESB. Þetta er hins vegar kolrangt mat hjá henni, því að það síðasta, sem framkvæmdastjórninni og leiðtogaráðinu í Berlaymont kann að detta í hug er að veita klofningsríki í Evrópu aðild, því að þar með yrði fjandinn laus í fjölda aðildarríkja. Nægir að nefna Katalóníu á Spáni. Skotar munu þess vegna ekki fá aðild að ESB í sinni núverandi mynd, og þar með minnkar hvatinn til að rjúfa sig frá Englandi. Allt er þetta "skuespill for galleriet".
Hvaða áhrif hefur þessi hrærigrautur hérlendis ? Í öryggismálum verðum við að reiða okkur á NATO nú sem endranær og vona, að Bandaríkjaþing slaki ekki á varnarskuldbindingum Bandaríkjastjórnar og bandaríska heraflans gagnvart NATO-ríkjum.
Í viðskiptamálum þurfum við fríverzlunarsamning við Bretland, sem tryggir íslenzkum útflytjendum tollfrjálsan aðgang að Bretlandsmarkaði. Ef Bretar ná hagstæðum fríverzlunarsamningi við ESB, þarf að athuga, hvort við getum fengið tollfrjálsan aðgang að ESB-löndunum, og getum þá gengið úr EES, ef okkur sýnist svo.
Þriðja stoð utanríkisstefnunnar ætti að vera að rækta sambandið við Berlín, því að þar er frjór jarðvegur fyrir náið samstarf og þangað er nú komin valdamiðstöð meginlands Evrópu vestan Rússlands. Ef þessar 3 stoðir eru í lagi, er öryggishagsmunum og viðskiptahagsmunum Íslands borgið.
Varðandi frjálsa fjármagnsflutninga á milli Bretlands og Íslands þarf að gæta að því, að Bretar hafa undir rós hótað ESB því, að ætli samningamenn ESB um viðskilnað Bretlands að verða erfiðir og leiðinlegir, þá geti Bretar breytt hagkerfi sínu í skattaparadís til að stríða ESB-mönnum og draga frá þeim fjármagn. Bretar hafa sterk spil á hendi, af því að öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu er í Lundúnum, og þar fara jafnvel mestu viðskiptin með evrur fram.
Um þetta skrifar Wolfgang Münchau á Financial Times í Morgunblaðið 26. janúar 2017:
"Í þriðja lagi á Bretland sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er meðlimur G-20 hópsins og einnig G-7 hópsins. Ef aðildarríki ESB vilja stemma stigu við skattasniðgöngu alþjóðafyrirtækja, stuðla að sanngjarnari áhrifum hnattvæðingar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða finna lausnir til að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, þá munu þau þurfa á Bretlandi að halda."
Í framkvæmdastjórn ESB eru jaxlar, sem vilja hræða önnur ríki frá að feta í fótspor Breta með því að sýna þeim í tvo heimana, þegar tekið verður til við að semja um viðskilnaðinn. Í leiðtogaráðinu er stemningin önnur. Mikið mun velta á því, hvernig þingkosningar fara í Hollandi í vor, forsetakosningar í Frakklandi í sumar og síðast, en ekki sízt, hver niðurstaða kosninganna til Sambandsþingsins í Berlín verður. Munu Þjóðverjar refsa Merkel ? Þeir virðast vera í skapi til þess núna.
Bretar hafa ýmislegt uppi í erminni. Spenna eykst í Evrópu, en viðskilnaðarsamningar verða ekki leikur kattarins að músinni, heldur miklu líkari viðskiptum Tomma og Jenna. Münchau skrifar:
"Ef til "harðrar útgöngu" kemur, myndi hún ýta Bretlandi í átt að annars konar viðskiptalíkani, eins og Philip Hammond, fjármálaráðherra, komst að orði. Mætti líka orða þetta sem svo, að í stað þess að leiða hinn vestræna heim í baráttunni við skattasniðgöngu, gæti Bretland orðið enn eitt skattaskjólið. Það væri ekki sniðugt fyrir land á stærð við Bretland að taka upp sama líkan og Singapúr, að mínu mati. Síðar nefnda landið er í raun einungis fjármálamiðstöð, en hið fyrr nefnda býr að fjölbreyttu hagkerfi og þarf fyrir vikið að móta víðtækari stefnu. Hyggilegra væri að leggja áherzlu á nýsköpun og marka stefnu til að auka framleiðni. Þótt lágskattaleiðin væri sennilega ekki sú hagkvæmasta, þá skapar hún engu að síður ógn fyrir ESB."
Ekki er ólíklegt, að vinsamleg stefna Trumps gagnvart Rússum og fjandsamleg afstaða hans gagnvart ESB, muni bráðlega leiða til þess, að viðskiptabann Vesturlanda á Rússa og innflutningsbann Rússa á matvörum, verði felld niður. Eftir er að sjá, hvort Íslendingar verða þá fljótir að endurvekja viðskiptasambönd sín við Rússa. Það yrði sjávarútveginum og þjóðarbúinu kærkomin búbót á tímum tekjusamdráttar af öðrum völdum, en árlegt sölutap vegna lokunar Rússlands hefur numið 20-30 miaISK/ár.
Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, er ástand alþjóðamála hugleikið. Hann varpar fram eftirfarandi útskýringu á óánægju vestrænna kjósenda, t.d. bandarískra, sem komu Trump til valda, í Morgunblaðsgrein, 26. janúar 2017,
"Vesturlönd á afdrifaríkum krossgötum":
"Hnattvæðing efnahags- og fjármálastarfsemi hefur á sama tíma gerbreytt leikreglum í alþjóða viðskiptum og leitt til gífurlegrar auðsöfnunar fárra. Eignir 8 ríkustu manna heims eru nú metnar til jafns við samanlagðan hlut 3´500 milljóna manna eða um helmings mannkyns. Inn í þetta fléttast örar tæknibreytingar, sem gera þorra mannkyns að þátttakendum í samfélagsumræðu óháð hefðbundnum fjölmiðlum."
Hér fellur Hjörleifur í gryfju Oxfam, sem tiltekur heildareignir manna, en ekki hreinar eignir. Hinir auðugri skulda margfalt meira en hinir, eins og nýlega kom fram á Íslandi vegna "skuldaleiðréttingarinnar". Þá ber að halda því til haga, að téð hnattvæðing hefur lyft a.m.k. einum milljarði manna úr fátækt í bjargálnir, og áttamenningarnir hafa sumir hverjir veitt gífurlegum upphæðum til fátækra og sumir ánafnað góðgerðarstofnunum öllum auði sínum. Flestir í þessum átta manna hópi voru frumkvöðlar, m.a. Zuckerberg á Fésbók, sem ekki hafa tekið fé af neinum, heldur orðið auðugir, af því að fólk vildi gjarna kaupa nýjungar, sem þeir höfðu á boðstólum á undan öðrum mönnum. Er það gagnrýnivert ? Að stilla þessum áttmenningum upp sem óvinum almennings og vandamáli er í ætt við Marxisma, sem er algerlega gagnslaus sem þjóðfélagsgreining nú sem áður.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2016 | 18:32
Af siðferði sannfæringar og ábyrgðar
Hrikalegum limlestingum máttu yfir 60 manns sæta, og þar af mættu 12 dauða sínum strax, í þröngri Berlínargötu að kvöldi 19. desember 2016, er Norður-afríkanskur glæpamaður á snærum ISIS, ofstækisfullra Múhameðstrúarmanna í heilögu stríði (Jihad) gegn kristnum frelsis- og lýðræðisgildum og nútímalegum lifnaðarháttum, ók stórum hlöðnum flutningabíl miskunnarlaust á fólk, sem átti sér einskis ills von á jólamarkaði. Þetta er illvirki óðra morðhunda af meiði Súnní-múslima í heilögu stríði í nafni trúar sinnar og helgiritsins Kóransins. Þetta voðaverk getur kveikt í púðurtunnu, sem Angela Merkel, kanzlari, ber ábyrgð á með því þann 4. september 2015 að opna landamæri Þýzkalands fyrir flóttamönnum Mið-Austurlanda, og Norður-Afríkumenn fylgdu í kjölsoginu. Aðrar Evrópuþjóðir kunna Þjóðverjum litlar þakkir fyrir þetta "góðverk" og saka þá nú um siðferðilega útþenslustefnu ("moral imperialism"). Það er vandlifað í þessum heimi. Laun heimsins eru vanþakklæti.
Þjóðverjar hafa frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar 1939-1945 lítið sem ekkert beitt sér í löndum Múhameðstrúarmanna, en þeir hafa aftur á móti verið allra manna rausnarlegastir og hjálplegastir gagnvart Múhameðstrúarmönnum í neyð, nú síðast með því að opna landamæri sín fyrir straumi flóttamanna af hörmungarsvæðum, t.d. Sýrlandi í borgarastyrjöld. Þessi góðmennska og rausnarskapur er goldin með vanþakklæti, og gjörðin er nú mjög umdeild í Þýzkalandi og í öðrum löndum Evrópusambandsins, ESB.
Þeir hafa mikið til síns máls, sem halda því fram, að menningarmunur aðkomufólksins og Evrópumanna sé óbrúanlegur, því að "Ímanarnir", íslömsku prelátarnir á Vesturlöndum, halda áfram heilaþvotti sínum í moskum og öðrum samkomustöðum Múhameðstrúarmanna, þar sem brýnt er fyrir aðkomufólkinu að ganga ekki vestrænum siðum "heiðingjanna" og lífsgildum þeirra á hönd, heldur að halda sem fastast í forneskjulega lifnaðarhætti sína og siði að viðlögðum refsingum þessa heims og annars.
Aðlögun er ómöguleg við þessar aðstæður, og aðkomufólkið verður áfram í ormagryfju sjúkdóma, fordóma, trúargrillna, kvennakúgunar og haturs á vestrænu fólki og siðum þeirra. Þetta er frjór jarðvegur glæpamanna. Slíkur forneskjuhópur á Vesturlöndum er sem þjóðfélagsleg tímasprengja.
Þjóðverjar eru NATO-þjóð, en þeir tóku hins vegar engan hernaðarlegan þátt í misheppnuðum aðgerðum Frakka, Breta, Bandaríkjamanna o.fl. út af hinu misheppnaða "arabíska vori", t.d. loftárásunum á Líbýju. Þvert á móti vöruðu þeir við slíkum ríkisreknum ofbeldisaðgerðum gegn Múhameðstrúarmönnum, þótt þeim að nafninu til væri beint gegn brjáluðum einræðisherra, Gaddafi. Múhameðsmenn eru ekki og verða seint tilbúnir til að innleiða vestræna stjórnarhætti heima hjá sér. Að halda slíkt er vanmat á mætti aldalangs heilaþvottar og heimska.
Þjóðverjar hafa verið með fámennt stuðningslið í Afghanistan á vegum NATO, og er það eiginlega eina hernaðarþátttaka þeirra á múslímsku landi frá Síðari heimsstyrjöld. Þrátt fyrir þessa tiltölulega friðsamlegu afstöðu Þjóðverja gagnvart Múhameðsmönnum er nú ráðizt á þá í þeirra helgasta véi, á jólaföstunni sjálfri í höfuðborg þeirra, og hefur fallandi Kalífadæmið lýst fyrirlitlegum verknaðinum á hendur sér. Siðleysi þessa hugleysislega glæps téðrar Íslamsgreinar er algert, og hún verðskuldar útskúfun.
Þjóðverjum hafa lengi verið hugstæð hugtökin "Gesinnungsethik" og "Verantwortungsethik", sem kannski mætti þýða sem sannfæringarsiðferði og ábyrgðarsiðferði. Á milli þessara tveggja heimspekilegu hugtaka er spenna, sem endurspeglast í muninum á hugsjónahyggju og raunhyggju, sem þekkist alls staðar, en hugtökin varpa líka ljósi á siðferðisspennu, sem er "mjög þýzk" samkvæmt þjóðfélagsfræðinginum Manfred Güllner. Átökin þarna á milli má sjá í öllum stórmálum Þjóðverja á stjórnmálasviðinu, t.d. evruvandræðunum og flóttamannavandanum.
Þjóðverjar hafa marga fjöruna sopið í seinni tíma sögu sinni allt frá 30 ára stríðinu 1618-1648, sem var trúarbragðastyrjöld, þar sem erlendir konungar og keisarar blönduðu sér í baráttuna. Styrjöldin gekk mjög nærri þjóðinni, sem svalt heilu og hálfu hungri og er sögð hafa bjargað sér á kartöflunni, sem þá var nýkomin til Evrópu. Friðrik, mikli, Prússakóngur, stóð í vopnaskaki við nágranna sína og Rússa og náði naumlega að forða prússneska hernum frá ósigri fyrir rússneska birninum á 18. öld. 19. öldin var blómaskeið Þjóðverja, en hernám Napóleóns mikla blés Þjóðverjum sjálfstæðisbaráttu í brjóst, sem nefnd var rómantíska stefnan, og fangaði hún athygli ungra íslenzkra sjálfstæðisfrumkvöðla í Kaupmannahöfn, sem var margt til lista lagt og lögðu grundvöllinn að íslenzku sjálfstæðisbaráttunni. Sagt er, að Íslendingar verði jafnan varir við það, þegar Þjóðverjar bylta sér. Þjóðverjum sjálfum er hlýtt til sögueyju víkinganna í norðri.
Hinn menningarlegi grundvöllur fyrir sameiningu Þýzkalands var lagður með rómantísku stefnunni, og stjórnmálaskörungurinn Otto von Bismarck rak smiðshöggið á sameininguna 1871 með klækjum, eldi og blóði.
Þegar Vilhjálmur 2. varð Þýzkalandskeisari rak hann Bismarck, járnkanzlarann, og var það ógæfuspor, enda reyndist þessi keisari hæfileikasnauður sem stjórnmálamaður og herstjórnandi og hinn mesti óþurftarmaður, sem hratt Þjóðverjum út í styrjöldina 1914-1918. Ósigurinn leiddi til landmissis, Versalasamninganna, Weimar-lýðveldisins og Þriðja ríkisins með öllum þess hörmungum. Þýzka þjóðin mátti í raun þola sitt annað 30 ára stríð 1914-1945, að breyttu breytanda.
Hugtökin sannfæringarsiðferði og ábyrgðarsiðferði komu fyrst fram hjá þjóðfélagsfræðinginum Max Weber, sem notaði þau í janúar 1919 í ræðu, sem hann hélt fyrir vinstri sinnaða stúdenta í bókabúð í München. Þýzki herinn hafði gefizt upp á öllum vígstöðvum fyrir 2 mánuðum. Keisarinn hafði sagt af sér, Þýzkaland var á barmi öreigabyltingar, og München var að verða höfuðborg skammlífs "Ráðstjórnarlýðveldis Bæjara". Þessi ræða Webers er talin vera sígilt innlegg í stjórnmálafræðina. Ræðan var haldin til að slá á draumórakenndar deilur hugsjónamanna um, hvaða stefnu niðurlægt og sveltandi Þýzkaland ætti að taka.
Weber lýsti ginnungagapi á milli þessa tvenns konar siðferðis. Þeir, sem fylgja sannfæringu sinni vilja halda í hreinleika siðferðis síns alveg án tillits til afleiðinga stefnumörkunar þeirra fyrir raunheiminn:
"Ef verknaður í góðu skyni leiðir til slæmrar niðurstöðu, þá, í augum gerandans, er hann sjálfur ekki ábyrgur fyrir slæmum afleiðingum, heldur heimurinn eða heimska annarra manna eða Guðs vilji, sem skóp þá þannig."
Á hinn bóginn, sá sem lætur stjórnast af ábyrgðartilfinningu "tekur með í reikninginn nákvæmlega meðaltal mannlegra galla ... hann hefur ekki einu sinni rétt til að gera fyrirfram ráð fyrir góðsemi manna og fullkomnun".
Þessi tegund stjórnmálamanna mun svara fyrir allar afleiðingar gjörða sinna, einnig óvæntar afleiðingar. Weber lét áheyrendur sína ekki velkjast í vafa um, hvort siðferðið ætti hug hans. Hann kvað þá, sem aðhylltust siðferði sannfæringar, vera "vindbelgi í 9 af 10 tilvikum".
Hr Güllner segir, að almennt sé siðferði sannfæringar algengast á meðal vinstri manna, mótmælenda og í minni mæli á meðal íhaldsmanna og kaþólikkka.
Þannig virðast jafnaðarmenn, sem líta á sig sem krossfara þjóðfélagslegs réttlætis, ekki aðeins vera "ófærir og ófúsir" til að stjórna, þó að þeir beri raunverulega ábyrgð að mati hr Güllners. Þetta gæti útskýrt, hvers vegna jafnaðarmaður hefur aðeins verið kanzlari í 20 ár síðan 1949 borið saman við 47 ár undir Kristilegum demókrötum.
Siðferði sannfæringar er þó einnig fyrir hendi í röðum mið-hægrimanna, sem síðan á 6. áratuginum hafa nálgazt Evrópuverkefnið eins og leiðarenda sem leið fyrir Þýzkaland til að þróast upp úr þjóðríkinu og leysa upp sekt sína um leið og fullveldið er gefið upp á bátinn. Í þessu ferli láðist Þjóðverjum að koma auga á, að fæstar aðrar Evrópuþjóðir deildu þessu markmiði með þeim. Þegar evru-vandræðin gusu upp, þá lýstu margir íhaldsmenn yfir andstöðu við fjárstuðning á grundvelli siðferðis sannfæringar, segir Thilo Sarrazin, umdeildur álitsgjafi. Þeir vildu lýsa reglubrotum ríkja í vandræðum sem slæmum í eðli sínu, jafnvel þótt það mundi þýða hrun myntsamstarfsins.
Samkvæmt siðferði ábyrgðar er slík afstaða ekki einvörðungu óraunhæf, heldur röng, og það, sem ekki gengur upp, geti ekki verið siðlegt. Stjórnendur Þýzka sambandslýðveldisins hafa flestir verið af þessu sauðahúsi.
Á 9. áratugi 20. aldar fóru milljónir Þjóðverja í mótmælagöngur gegn þróun kjarnorkuvopnabúrs NATO, en Helmut Schmidt, kanzlari, sem lét koma þessum vopnum fyrir, féllst þannig á hernaðarleg rök fælingarmáttarins. Að launum frá félögum sínum í Jafnaðarmannaflokkinum, SPD, fékk hann aðallega fordæmingu. Í evru-vandræðunum féllst Angela Merkel hikandi á fjárstuðning við veikburða ríki til að halda myntsamstarfinu áfram.
Gagnvart flóttamannastrauminum sneri Merkel við blaðinu og tók upp siðferði sannfæringar. Það var ólíkt henni. Hún var samt ákaft vöruð við þessu af fólki siðferðilegrar ábyrgðar, og Merkel snerist 180° seint á árinu 2016. Uppi sitja þó Þjóðverjar með eina milljón nýkominna múslima frá ýmsum löndum og kunna á þeim engin skil, flestum. Það felur í sér stórvandamál að hleypa svo stórum og framandi hópi fólks inn í land, þegar aðkomufólkið er haldið trúargrillum og prelátar þess halda áfram að ala á tortryggni og jafnvel hatri á gestgjöfunum.
Það er himinn og haf á milli hugarheims hins venjulega Þjóðverja og Íslamista, og þegar öfgamenn úr röðum gestgjafa eða gesta gera sig seka um hryðjuverk í landinu gagnvart andstæðum hópi, þá getur hið pólitíska ástand fljótt orðið eldfimt og það komið fram þegar haustið 2017 í gjörbreyttum valdahlutföllum á Sambandsþinginu í Berlín (Reichstag) með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú verður hrært í gruggugu vatni á báða bóga. Dagar dóttur mótmælendaprestsins í DDR (Deutsche Demokratische Republiblik), frú Merkel, sem kanzlara eru sennilega taldir vegna umræddra mistaka hennar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.11.2016 | 11:41
Hvað er tromp ?
Kjör Donalds Trump sem 45. forseti Bandaríkjanna (BNA) hefur valdið úlfaþyt á vinstri vængnum. Sumpart er það vegna þess, að sigur hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þvert á skoðanakannanir og umsagnir álitsgjafa um frammistöðu frambjóðenda í sjónvarpseinvígjum, viðtölum og á fundum. Sumpart stafar úlfaþyturinn af róttækri stefnu Trumps þvert á viðtekna stefnu ráðandi afla í Washington, á "Wall Street" og víðar. Víxlararnir á "Wall Street" hafa verið stefnumarkandi á stjórnarárum demókrata og lengra aftur. Donald Trump ætlar að velta við borðum víxlaranna. Slíkt þýðir óhjákvæmilega mikla drullu í viftuspaðana.
Ótta hefur gætt víða um, hvað valdataka svo róttæks manns muni hafa í för með sér, t.d. á sviði hernaðar, viðskipta og umhverfisverndar. Þessar áhyggjur eru óþarfar, nema á þeim sviðum, þar sem stefna tilvonandi forseta og meirihluta í hvorri þingdeild fara saman.
Donald Trump var vanmetinn frambjóðandi í forkosningum og í forsetakjörinu sjálfu. Hann beitti annarri tækni en andstæðingarnir og uppskar vel. Hann var ekki með fjölmargar kosningaskrifstofur hringjandi í fólk með hvatningu um að skrá sig í kosningarnar og kjósa sig. Hann hélt hins vegar fjöldafundi, þar sem hann blés stuðningsmönnum og hugsanlegum stuðningsmönnum kapp í kinn. Hann var með á sínum snærum greinendur, sem beittu nýrri tækni við að finna út, hverjir gætu hugsanlega kosið Donald Trump, og hvað hann þyrfti líklega að segja eða gera, lofa, til að slíkir kjósendur tækju af skarið og styddu Trump.
Minnir þetta á baráttuaðferð Húnvetningsins Björns Pálssonar á Löngumýri, er hann vann þingsæti fyrir Framsóknarflokkinn í Húnaþingi 1959 með því að einbeita sér að Sjálfstæðismönnum. Var hann spurður að því, hvers vegna hann heimsækti bara Sjálfstæðismenn, en vanrækti Framsóknarmennina. Sagðist hann þá vita, hvar hann hefði hefði Framsóknarfólkið, það þekkti hann vel, en hann yrði að snúa nokkrum Sjálfstæðismönnum á sitt band til að komast á þing. Fór svo, að Björn felldi Sjálfstæðismanninn, höfðingjann Jón á Akri, þingforsetann,m.a. með þessari aðferðarfræði.
Repúblikanaflokkurinn hefur um langa hríð stutt heimsvæðingu viðskiptanna, "globalisation", og á því hefur engin breyting orðið með sigri Trumps. Trump mun ekki skrifa undir neina nýja fríverzlunarsamninga, eins og t.d. við Evrópusambandið, ESB, enda er sá samningur strandaður nú þegar á andstöðu og tortryggni Evrópumanna. Hann mun líklega binda enda á fríverzlunarsamning yfir Kyrrahafið til Asíu, en þingið mun tæplega leyfa honum að rifta samningum við Kanada í norðri og Mexíkó og fleiri ríki í suðri. Kínverjar hafa þegar tekið frumkvæði um að bjarga Asíusamninginum, þótt BNA dragi sig út. Vísar það til þess, sem koma skal, ef/þegar Bandaríkjamenn draga sig inn í skel sína.
Hins vegar mun hann líklega fá fjárveitingu í vegg/girðingu á landamærunum við Mexíkó til að draga úr straumi eiturlyfja og ólöglegra innflytjenda til BNA. Talið er, að þeir séu 11 milljónir talsins í BNA eða 3 % af fjölda bandarískra ríkisborgara. Slíkir undirbjóða bandaríska launþega og verktaka og eru undirrót víðtækrar óánægju í BNA.
Finnur Magnússon, lögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, birti grein á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 20. október 2016,
"Blikur á lofti", um hnattvæðinguna, "globalisation":
"Undanfarin 30 ár hefur orðið "hnattvæðing" verið einkennandi fyrir pólitíska umræðu á Vesturlöndum. Stjórnmálamönnum, embættismönnum, verkalýðsleiðtogum o.fl. hefur orðið tíðrætt um síaukna hnattvæðingu. Árið 2000, í síðustu stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu, fullyrti Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna,að ekki yrði hægt að vinda ofan of hnattvæðingu þess tíma - hún yrði varanleg.
Einungis rúmum áratug síðar hefur aftur á móti átt sér stað þróun, sem bezt verður lýst sem bakslagi í viðhorfum kjósenda vestrænna ríkja til hnattvæðingar."
Það er næsta víst, að hinn síkáti Bill hafði rangt fyrir sér, þegar hann taldi hnattvæðinguna hafa fest sig í sessi. Hún er ekki varanlegt fyrirkomulag í sinni núverandi mynd, heldur hljóta agnúar hennar að verða sniðnir af, svo að flestir geti samþykkt hana. Hún hefur gagnast Þriðja heiminum vel og lyft hundruðum milljóna manna úr örbirgð til bjargálna. Neikvæða hliðin er gjaldþrot fyrirtækja á Vesturlöndum, sem ekki hafa getað lagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum. Fólk hefur þá orðið atvinnulaust eða orðið að samþykkja lægri laun við sömu eða önnur störf. Í sumum tilvikum er endurhæfing og/eða endurmenntun lausn á þessum vanda, en slíkt krefst vilja og getu starfsmanna til að gangast undir slíkt og nýrra atvinnutækifæra, sem hörgull er á í stöðnuðum þjóðfélögum.
Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við þetta ástand hjá málmframleiðslufyrirtækjunum, álverum og járnblendiverksmiðju, en mikil verðlækkun hefur orðið á mörkuðum þeirra vegna offramleiðslu Kínverja, sem fyllt hafa markaðina af ódýrri og jafnvel niðurgreiddri vöru frá kínverskum ríkisverksmiðjum. Erlendis hefur komið til minni framleiðslu fyrirtækjanna af þessum sökum eða jafnvel lokun, en á Íslandi hefur afleiðingin orðið mikið aðhald og sparnaður í rekstri þessara fyrirtækja og litlar fjárfestingar ásamt tapi í þeim tilvikum, þar sem raforkuverðið hefur ekki fylgt afurðaverðinu. Um það eru dæmi hérlendis, t.d. í elzta álverinu. Þjóðhagslega hefur þetta ekki komið að sök vegna ótrúlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi, sem sumir koma frá Kína og hefðu ekki haft ráð á slíku ferðalagi án hnattvæðingarinnar. Síðan 2009 hefur aukning gjaldeyristekna ferðageirans verið tvöföld saman lögð aukning sjávarútvegs og orkukræfs iðnaðar.
Hnattvæðingin hefur lækkað verð á iðnaðarvörum og hækkað verð á matvælum, af því að fleiri hafa nú ráð á að kaupa matvæli. Fyrir íslenzka hagkerfið er litlum vafa undirorpið, að frjáls viðskipti þjóna almennt hagsmunum fyrirtækjanna, hagsmunum almennings og efla hagvöxtinn. Hin pólitíska mótsögn Trumps er sú, að hægri menn eru mun hrifnari af hagvexti en vinstri menn, sem tala margir hverjir niðrandi um hann, og ofstækisfullir umhverfisverndarsinnar telja jörðina ekki þola hagvöxt. Trump er reyndar hrifinn af hagvexti, en ætlar að beita öðrum aðferðum en frjálsum utanríkisviðskiptum honum til eflingar. Hugmyndafræði bókarinnar "Endimarka vaxtar" eða "Limits to Growth" lifir enn góðu lífi í vissum kreðsum, en það eru ekki kreðsar Donalds Trump, og nú óttast menn, að hann muni losa BNA undan skuldbindingum Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, en það yrði þeim ekki til vegsauka.
Tæknivæðingin hefur gert hnattvæðinguna í sinni núverandi mynd mögulega. Tæknivæðingin og hnattvæðingin í sameiningu hafa knúið framleiðniaukningu undanfarinna áratuga um allan heim. Framleiðniaukning er undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og varanlegra kjarabóta almennings. Donald Trump mun sem forseti hafa nokkuð víðtæk völd í utanríkismálum og getur þess vegna með fyrirvara afturkallað skuldbindingar Bandaríkjamanna í samningum við erlend ríki. Þar sem hann er sjóaður viðskiptamaður, mun hann væntanlega aðeins gera það að vel athuguðu máli, ef hann er t.d. sannfærður um, að slíkt sé nauðsynlegt til að draga úr miklum halla Bandaríkjanna á viðskiptum við útlönd.
Lítum á, hvað Finnur Magnússon skrifar meira um hnattvæðingu:
"Hvað er hnattvæðing ? Í bók sinni, "Hnattvæðing og gagnrýni hennar", útskýrir Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hugtakið þannig, að um sé að ræða nánari samskipti ríkja og einstaklinga í heiminum, sem eru afleiðing af lækkun flutningskostnaðar og aukinna samskipta og útrýmingar á hindrunum, sem standa í vegi fyrir frjálsum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og skoðanaskiptum á milli fólks í ólíkum löndum. - Það er einmitt brottfall þessara hindrana, sem gerir fólki kleift að auka lífsgæði sín. Svo að dæmi sé nefnt, lækkaði kostnaður vegna 3 mín símtals á milli New York og London úr USD 300 árið 1930 niður í USD 1 árið 1997. Þessi lækkun á kostnaði getur af sér aukin samskipti, þar sem allur almenningur hefur ráð á að notfæra sér þessa þjónustu, og leiðir það ekki síður til aukinna viðskipta á milli landa, sem skapa gífurleg efnahagsleg gæði."
Af þessum sökum eru miklir hagsmunir í uppnámi í Evrópu eftir Brexit. Það er mjög mikið í húfi fyrir Breta og hin ríkin í Evrópusambandinu, ESB, að frjáls viðskipti haldist við Breta. Heyrzt hefur, að brezka ríkisstjórnin kjósi helzt að gera sjálfstæðan fríverzlunarsamning við ESB, BNA, Brezka samveldið, Kína og önnur mikilvæg viðskiptasvæði Breta. EES, Evrópska efnahagssvæðið, freistar ríkisstjórnarinnar ekki sérstaklega, af því að þá situr hún uppi með frjálsa för EES-þegna til Bretlands, þótt Bretar séu ekki aðilar að hinu alræmda Schengensamkomulagi um opin innri landamæri aðildarlandanna. Skotar eru með þreifingar í Brüssel og Reykjavík um aðild að ESB eða EES. Í ríkjasambandi við Englendinga er hvorugt mögulegt. Skeri þeir á böndin við Lundúni, verður aðild ekki samþykkt í Brüssel vegna óvinsæls fordæmis, en yrði samþykkt í Reykjavík, Ósló og Liechtenstein, ef að líkum lætur.
Jafnframt hefur framkvæmdastjórn ESB látið út berast, að hún vilji hörkulegt Brexit til að önnur aðildarlönd ESB falli ekki í freistni og yfirgefi ESB líka. Því verður samt ekki að óreyndu trúað, þótt því sé trúandi upp á búrókratana í Brüssel, að ESB muni stofna til viðskiptastríðs innan Evrópu.
Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar áhugaverða pistla í "Markaðinn", sem er hluti af Fréttablaðinu á miðvikudögum. Greinin, 16. nóvember 2016, heitir:
""Trumpbólga" er yfirvofandi":
"...., en ég hef lagt áherzlu á, að ég byggist ekki við, að verðbólgan færi yfir 2,0 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu í náinni framtíð. Það var hins vegar áður en Donald Trump vann óvæntan sigur í bandarísku forsetakosningunum 8.11.2016. Með Trump sem forseta Bandaríkjanna mun verðbólgan stefna hærra.
Næstum öll stefnumál Donalds Trump munu ýta upp verðlagi í BNA - bæði frá framboðshliðinni (kostnaður) og frá eftirspurnarhliðinni (aukning). Ef við byrjum á framboðshliðinni, þá munu fyrirætlanir Trumps um um að herða innflytjendastefnuna og jafnvel að reka ólöglega innflytjendur úr landi örugglega leiða til hækkunarþrýstings, hvað launakostnað varðar. Auk þess mun afstaða Trumps til verndartolla hækka innflutningsverð. Sem betur fer virðist ekki vera meirihluti fyrir því að koma öllum stefnumálum Trumps, hvað varðar innflytjendur og verndartolla, gegnum þingið, en honum mun sennilega takast að koma einhverjum þeirra í gegn.
Hvað eftirspurnarhliðina varðar, hefur Trump sagzt vilja "tvöfalda hagvöxt" - við aðstæður, þar sem vöxtur vergrar landsframleiðslu að raunvirði er sennilega nú þegar farinn að nálgast mögulegan vöxt. Hann hyggst auka hagvöxt með því, sem bezt verður lýst sem gamaldags stefnu Keynes - miklum vanfjármögnuðum skattalækkunum og umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum."
Meginvandi hagkerfis heimsins hefur verið stöðnun og verðhjöðnun. Donald J. Trump mun setja bandaríska hagkerfið á fullan snúningshraða og fá öllum vinnufúsum höndum betur launuð verk að vinna en fáanleg hafa verið lengi í BNA. Væntingar um þessa stefnubreytingu hófu þegar um 10.11.2016 að hækka bandaríkjadalinn, USD, og hann er nú t.d. orðinn verðmætari en CHF og mun vafalítið árið 2017 sigla fram úr EUR. Ástæðan fyrir því er aukið fjárstreymi til BNA í væntingu um hækkun stýrivaxta bandaríska seðlabankans til að sporna við verðbólgu vegna aukins peningamagns í umferð af völdum hugsanlegs tímabundins aukins hallarekstrar ríkissjóðs BNA.
Ef Donald ætlar að girða fyrir aukinn innflutning til BNA af völdum aukins hagvaxtar og kaupmáttar almennings með innflutningshömlum, þá verða áhrif Trump-sveiflunnar í BNA takmörkuð á umheiminn, en annars er aukinn kraftur í bandarísku hageimreiðinni einmitt það, sem hagkerfi flestra landa heimsing þarf á að halda núna. Það eru spennandi tímar framundan, eins og alltaf, þegar jákvæðra breytinga er að vænta með nýjum leiðtogum. Er óskandi, að Evrópumenn og aðrir láti af fordómum og sleggjudómum um væntanlega embættistíð nýkjörins Bandaríkjaforseta, en dæmi hann, ríkisstjórn hans og Bandaríkjaþing af verkum sínum í fyllingu tímans. Slíkt er siðaðra manna háttur.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)