Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Hvað er tromp ?

Kjör Donalds Trump sem 45. forseti Bandaríkjanna (BNA) hefur valdið úlfaþyt á vinstri vængnum.  Sumpart er það vegna þess, að sigur hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þvert á skoðanakannanir og umsagnir álitsgjafa um frammistöðu frambjóðenda í sjónvarpseinvígjum, viðtölum og á fundum.  Sumpart stafar úlfaþyturinn af róttækri stefnu Trumps þvert á viðtekna stefnu ráðandi afla í Washington, á "Wall Street" og víðar.  Víxlararnir á "Wall Street" hafa verið stefnumarkandi á stjórnarárum demókrata og lengra aftur. Donald Trump ætlar að velta við borðum víxlaranna.  Slíkt þýðir óhjákvæmilega mikla drullu í viftuspaðana.

Ótta hefur gætt víða um, hvað valdataka svo róttæks manns muni hafa í för með sér, t.d. á sviði hernaðar, viðskipta og umhverfisverndar.  Þessar áhyggjur eru óþarfar, nema á þeim sviðum, þar sem stefna tilvonandi forseta og meirihluta í hvorri þingdeild fara saman.  

Donald Trump var vanmetinn frambjóðandi í forkosningum og í forsetakjörinu sjálfu.  Hann beitti annarri tækni en andstæðingarnir og uppskar vel.  Hann var ekki með fjölmargar kosningaskrifstofur hringjandi í fólk með hvatningu um að skrá sig í kosningarnar og kjósa sig.  Hann hélt hins vegar fjöldafundi, þar sem hann blés stuðningsmönnum og hugsanlegum stuðningsmönnum kapp í kinn.  Hann var með á sínum snærum greinendur, sem beittu nýrri tækni við að finna út, hverjir gætu hugsanlega kosið Donald Trump, og hvað hann þyrfti líklega að segja eða gera, lofa, til að slíkir kjósendur tækju af skarið og styddu Trump. 

Minnir þetta á baráttuaðferð Húnvetningsins Björns Pálssonar á Löngumýri, er hann vann þingsæti fyrir Framsóknarflokkinn í Húnaþingi 1959 með því að einbeita sér að Sjálfstæðismönnum.  Var hann spurður að því, hvers vegna hann heimsækti bara Sjálfstæðismenn, en vanrækti Framsóknarmennina.  Sagðist hann þá vita, hvar hann hefði hefði Framsóknarfólkið, það þekkti hann vel, en hann yrði að snúa nokkrum Sjálfstæðismönnum á sitt band til að komast á þing.  Fór svo, að Björn felldi Sjálfstæðismanninn, höfðingjann Jón á Akri, þingforsetann,m.a. með þessari aðferðarfræði.   

Repúblikanaflokkurinn hefur um langa hríð stutt heimsvæðingu viðskiptanna, "globalisation", og á því hefur engin breyting orðið með sigri Trumps.  Trump mun ekki skrifa undir neina nýja fríverzlunarsamninga, eins og t.d. við Evrópusambandið, ESB, enda er sá samningur strandaður nú þegar á andstöðu og tortryggni Evrópumanna. Hann mun líklega binda enda á fríverzlunarsamning yfir Kyrrahafið til Asíu, en þingið mun tæplega leyfa honum að rifta samningum við Kanada í norðri og Mexíkó og fleiri ríki í suðri. Kínverjar hafa þegar tekið frumkvæði um að bjarga Asíusamninginum, þótt BNA dragi sig út.  Vísar það til þess, sem koma skal, ef/þegar Bandaríkjamenn draga sig inn í skel sína.

Hins vegar mun hann líklega fá fjárveitingu í vegg/girðingu á landamærunum við Mexíkó til að draga úr straumi eiturlyfja og ólöglegra innflytjenda til BNA. Talið er, að þeir séu 11 milljónir talsins í BNA eða 3 % af fjölda bandarískra ríkisborgara. Slíkir undirbjóða bandaríska launþega og verktaka og eru undirrót víðtækrar óánægju í BNA.

Finnur Magnússon, lögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, birti grein á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 20. október 2016,

"Blikur á lofti", um hnattvæðinguna, "globalisation":

"Undanfarin 30 ár hefur orðið "hnattvæðing" verið einkennandi fyrir pólitíska umræðu á Vesturlöndum.  Stjórnmálamönnum, embættismönnum, verkalýðsleiðtogum o.fl. hefur orðið tíðrætt um síaukna hnattvæðingu.  Árið 2000, í síðustu stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu, fullyrti Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna,að ekki yrði hægt að vinda ofan of hnattvæðingu þess tíma - hún yrði varanleg.

Einungis rúmum áratug síðar hefur aftur á móti átt sér stað þróun, sem bezt verður lýst sem bakslagi í viðhorfum kjósenda vestrænna ríkja til hnattvæðingar."

Það er næsta víst, að hinn síkáti Bill hafði rangt fyrir sér, þegar hann taldi hnattvæðinguna hafa fest sig í sessi.  Hún er ekki varanlegt fyrirkomulag í sinni núverandi mynd, heldur hljóta agnúar hennar að verða sniðnir af, svo að flestir geti samþykkt hana.  Hún hefur gagnast Þriðja heiminum vel og lyft hundruðum milljóna manna úr örbirgð til bjargálna.  Neikvæða hliðin er gjaldþrot fyrirtækja á Vesturlöndum, sem ekki hafa getað lagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum.  Fólk hefur þá orðið atvinnulaust eða orðið að samþykkja lægri laun við sömu eða önnur störf.  Í sumum tilvikum er endurhæfing og/eða endurmenntun lausn á þessum vanda, en slíkt krefst vilja og getu starfsmanna til að gangast undir slíkt og nýrra atvinnutækifæra, sem hörgull er á í stöðnuðum þjóðfélögum. 

Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við þetta ástand hjá málmframleiðslufyrirtækjunum, álverum og járnblendiverksmiðju, en mikil verðlækkun hefur orðið á mörkuðum þeirra vegna offramleiðslu Kínverja, sem fyllt hafa markaðina af ódýrri og jafnvel niðurgreiddri vöru frá kínverskum ríkisverksmiðjum.  Erlendis hefur komið til minni framleiðslu fyrirtækjanna af þessum sökum eða jafnvel lokun, en á Íslandi hefur afleiðingin orðið mikið aðhald og sparnaður í rekstri þessara fyrirtækja og litlar fjárfestingar ásamt tapi í þeim tilvikum, þar sem raforkuverðið hefur ekki fylgt afurðaverðinu.  Um það eru dæmi hérlendis, t.d. í elzta álverinu.  Þjóðhagslega hefur þetta ekki komið að sök vegna ótrúlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi, sem sumir koma frá Kína og hefðu ekki haft ráð á slíku ferðalagi án hnattvæðingarinnar. Síðan 2009 hefur aukning gjaldeyristekna ferðageirans verið tvöföld saman lögð aukning sjávarútvegs og orkukræfs iðnaðar. 

Hnattvæðingin hefur lækkað verð á iðnaðarvörum og hækkað verð á matvælum, af því að fleiri hafa nú ráð á að kaupa matvæli.  Fyrir íslenzka hagkerfið er litlum vafa undirorpið, að frjáls viðskipti þjóna almennt hagsmunum fyrirtækjanna, hagsmunum almennings og efla hagvöxtinn.  Hin pólitíska mótsögn Trumps er sú, að hægri menn eru mun hrifnari af hagvexti en vinstri menn, sem tala margir hverjir niðrandi um hann, og ofstækisfullir umhverfisverndarsinnar telja jörðina ekki þola hagvöxt. Trump er reyndar hrifinn af hagvexti, en ætlar að beita öðrum aðferðum en frjálsum utanríkisviðskiptum honum til eflingar.  Hugmyndafræði bókarinnar  "Endimarka vaxtar" eða "Limits to Growth" lifir enn góðu lífi í vissum kreðsum, en það eru ekki kreðsar Donalds Trump, og nú óttast menn, að hann muni losa BNA undan skuldbindingum Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, en það yrði þeim ekki til vegsauka. 

Tæknivæðingin hefur gert hnattvæðinguna í sinni núverandi mynd mögulega.  Tæknivæðingin og hnattvæðingin í sameiningu hafa knúið  framleiðniaukningu undanfarinna áratuga um allan heim.  Framleiðniaukning er undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og varanlegra kjarabóta almennings.  Donald Trump mun sem forseti hafa nokkuð víðtæk völd í utanríkismálum og getur þess vegna með fyrirvara afturkallað skuldbindingar Bandaríkjamanna í samningum við erlend ríki.  Þar sem hann er sjóaður viðskiptamaður, mun hann væntanlega aðeins gera það að vel athuguðu máli, ef hann er t.d. sannfærður um, að slíkt sé nauðsynlegt til að draga úr miklum halla Bandaríkjanna á viðskiptum við útlönd.

Lítum á, hvað Finnur Magnússon skrifar meira um hnattvæðingu:  

"Hvað er hnattvæðing ?  Í bók sinni, "Hnattvæðing og gagnrýni hennar", útskýrir Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hugtakið þannig, að um sé að ræða nánari samskipti ríkja og einstaklinga í heiminum, sem eru afleiðing af lækkun flutningskostnaðar og aukinna samskipta og útrýmingar á hindrunum, sem standa í vegi fyrir frjálsum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og skoðanaskiptum á milli fólks í ólíkum löndum. - Það er einmitt brottfall þessara hindrana, sem gerir fólki kleift að auka lífsgæði sín.  Svo að dæmi sé nefnt, lækkaði kostnaður vegna 3 mín símtals á milli New York og London úr USD 300 árið 1930 niður í USD 1 árið 1997.  Þessi lækkun á kostnaði getur af sér aukin samskipti, þar sem allur almenningur hefur ráð á að notfæra sér þessa þjónustu, og leiðir það ekki síður til aukinna viðskipta á milli landa, sem skapa gífurleg efnahagsleg gæði."

Af þessum sökum eru miklir hagsmunir í uppnámi í Evrópu eftir Brexit.  Það er mjög mikið í húfi fyrir Breta og hin ríkin í Evrópusambandinu, ESB, að frjáls viðskipti haldist við Breta.  Heyrzt hefur, að brezka ríkisstjórnin kjósi helzt að gera sjálfstæðan fríverzlunarsamning við ESB, BNA, Brezka samveldið, Kína og önnur mikilvæg viðskiptasvæði Breta.  EES, Evrópska efnahagssvæðið, freistar ríkisstjórnarinnar ekki sérstaklega, af því að þá situr hún uppi með frjálsa för EES-þegna til Bretlands, þótt Bretar séu ekki aðilar að hinu alræmda Schengensamkomulagi um opin innri landamæri aðildarlandanna. Skotar eru með þreifingar í Brüssel og Reykjavík um aðild að ESB eða EES.  Í ríkjasambandi við Englendinga er hvorugt mögulegt.  Skeri þeir á böndin við Lundúni, verður aðild ekki samþykkt í Brüssel vegna óvinsæls fordæmis, en yrði samþykkt í Reykjavík, Ósló og Liechtenstein, ef að líkum lætur. 

Jafnframt hefur framkvæmdastjórn ESB látið út berast, að hún vilji hörkulegt Brexit til að önnur aðildarlönd ESB falli ekki í freistni og yfirgefi ESB líka.  Því verður samt ekki að óreyndu trúað, þótt því sé trúandi upp á búrókratana í Brüssel, að ESB muni stofna til viðskiptastríðs innan Evrópu. 

Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar áhugaverða pistla í "Markaðinn", sem er hluti af Fréttablaðinu á miðvikudögum.  Greinin, 16. nóvember 2016, heitir:

""Trumpbólga" er yfirvofandi":

"...., en ég hef lagt áherzlu á, að ég byggist ekki við, að verðbólgan færi yfir 2,0 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu í náinni framtíð.  Það var hins vegar áður en Donald Trump vann óvæntan sigur í bandarísku forsetakosningunum 8.11.2016.  Með Trump sem forseta Bandaríkjanna mun verðbólgan stefna hærra.

Næstum öll stefnumál Donalds Trump munu ýta upp verðlagi í BNA - bæði frá framboðshliðinni (kostnaður) og frá eftirspurnarhliðinni (aukning). Ef við byrjum á framboðshliðinni, þá munu fyrirætlanir Trumps um um að herða innflytjendastefnuna og jafnvel að reka ólöglega innflytjendur úr landi örugglega leiða til hækkunarþrýstings, hvað launakostnað varðar.  Auk þess mun afstaða Trumps til verndartolla hækka innflutningsverð.  Sem betur fer virðist ekki vera meirihluti fyrir því að koma öllum stefnumálum Trumps, hvað varðar innflytjendur og verndartolla, gegnum þingið, en honum mun sennilega takast að koma einhverjum þeirra í gegn.

Hvað eftirspurnarhliðina varðar, hefur Trump sagzt vilja "tvöfalda hagvöxt" - við aðstæður, þar sem vöxtur vergrar landsframleiðslu að raunvirði er sennilega nú þegar farinn að nálgast mögulegan vöxt.  Hann hyggst auka hagvöxt með því, sem bezt verður lýst sem gamaldags stefnu Keynes - miklum vanfjármögnuðum skattalækkunum  og umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum."

Meginvandi hagkerfis heimsins hefur verið stöðnun og verðhjöðnun.  Donald J. Trump mun setja bandaríska hagkerfið á fullan snúningshraða og fá öllum vinnufúsum höndum betur launuð verk að vinna en fáanleg hafa verið lengi í BNA. Væntingar um þessa stefnubreytingu hófu þegar um 10.11.2016 að hækka bandaríkjadalinn, USD, og hann er nú t.d. orðinn verðmætari en CHF og mun vafalítið árið 2017 sigla fram úr EUR.  Ástæðan fyrir því er aukið fjárstreymi til BNA í væntingu um hækkun stýrivaxta bandaríska seðlabankans til að sporna við verðbólgu vegna aukins peningamagns í umferð af völdum hugsanlegs tímabundins aukins hallarekstrar ríkissjóðs BNA. 

Ef Donald ætlar að girða fyrir aukinn innflutning til BNA af völdum aukins hagvaxtar og kaupmáttar almennings með innflutningshömlum, þá verða áhrif Trump-sveiflunnar í BNA takmörkuð á umheiminn, en annars er aukinn kraftur í bandarísku hageimreiðinni einmitt það, sem hagkerfi flestra landa heimsing þarf á að halda núna.  Það eru spennandi tímar framundan, eins og alltaf, þegar jákvæðra breytinga er að vænta með nýjum leiðtogum.  Er óskandi, að Evrópumenn og aðrir láti af fordómum og sleggjudómum um væntanlega embættistíð nýkjörins Bandaríkjaforseta, en dæmi hann, ríkisstjórn hans og Bandaríkjaþing af verkum sínum í fyllingu tímans.  Slíkt er siðaðra manna háttur. 


Ráðandi öfl hlutu ráðningu

Bandaríkjamenn kusu þriðjudaginn 8. nóvember 2016 til forseta alríkisins mann, sem helztu forkólfar repúblikanaflokksins og fyrrverandi forsetar á vegum þess flokks höfðu neitað að styðja.  Svo kölluð elíta Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda vildi ekki sjá Donald Trump í Hvíta húsinu. Það var vegna þess, að þessi auðjöfur var ómeðfærilegur og ekki í vasa valdamikilla sérhagsmunahópa. Donald J. Trump var ekki til sölu. Ekki þarf að hafa mörg orð um fréttastofur og álitsgjafa í þessu sambandi.  Þar er ríkjandi víðast hvar vinstri slagsíða og ósvífnin og hrokinn næg til, að ekki er reynt að draga fjöður yfir svo ófagmannlega starfshætti. Á "The New York Times" hefur útgefandinn nú séð að sér og sent afsökunarbréf til áskrifenda og lofað þar bót og betrun.  Hvenær skyldi skylduáskrifendum RÚV berast afsökunarbeiðni frá Útvarpsráði vegna hlutdrægs fréttaflutnings af atburðum, mönnum og málefnum, innanlands og utan ?  Í tilviki nýafstaðinna kosninga í Bandaríkjunum hefur keyrt um þverbak á RÚV og fréttastofan sett nýtt met í ófaglegri umfjöllun, sem er lituð af persónulegum viðhorfum fréttamanna og valinna álitsgjafa þeirra, sem hunza gjörsamlega hugtakið hlutlægni, eins og þeir eigi fjölmiðilinn sjálfir.

Miðvikudagsútgáfa Morgunblaðsins, daginn eftir, var enn undir áhrifum stjórnmálafræðinga og fréttastofa, sem lagt höfðu allt sitt traust á viðhorfsmælingar, sem látið var í veðri vaka, að með 85 %-95 % öryggi ("confidence level") bentu til, að frambjóðandi demókrata mundi bera sigur úr býtum.  Jafnan var farið með tugguna um, að Hillary Clinton (HC) nyti svo og svo mikils stuðnings umfram frambjóðanda repúblikana í forsetakjörinu, oft meira en 5 %, þótt þetta væru augljóslega villandi upplýsingar, því að 538 kjörmenn allra ríkjanna velja forseta og til að fá stuðning þeirra allra dugar í flestum tilvikum að fá meirihluta greiddra atkvæða, og HC naut stuðnings drjúgs meirihluta í fjölmennustu ríkjunum. Þess vegna endaði hún með fleiri atkvæði í heild, en færri kjörmenn.

Það var mikið fimbulfambað á fréttastofum og á meðal álitsgjafa um meiri stuðning rómansks fólks við HC, en þessir aðilar hefðu átt að staldra við könnun, sem sýndi Donald J. Trump (DJT) með meirihluta á meðal kaþólskra, og reyndar einnig á meðal evangelískra.  Fréttum, sem vilhallar fréttastofur mátu í hag repúblíkananum, var einfaldlega ekki hampað.  Á fréttastofum er vitað, að fréttaflutningur getur verið skoðanamyndandi, og demókratar í Bandaríkjunum, sem ráða yfir flestum fjölmiðlum og fréttastofum í BNA, hafa iðulega unnið dyggilega í þágu málstaðarins, þó að þeir þar með hafi gert sig seka um þöggun og að þegja óþægilegar staðreyndir í hel. Kannast einhver við þessa lýsingu úr heimahögunum ?  Vinstri slagsíða á fréttastofum ríður ekki við einteyming. 

Þótt undarlega hljómi í Evrópu, þá má ætla, að flestir Bandaríkjamenn séu þeirrar skoðunar nú, að "litli maðurinn", sem útblásinn stjórnmálafræðiprófessor við HÍ kallar "taparann", hrósi nú happi í BNA yfir því, að auðjöfurinn, auðvaldsseggurinn Donald J. Trump, skyldi bera sigur úr býtum í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. 

Það er m.a. vegna þess, að hann var algerlega upp á kant við kerfið, "The Establishment", hin ráðandi öfl alls staðar í þjóðfélaginu, sem mótað hafa umræðuna, ráðið ferðinni, sett fram og varið "rétttrúnaðarstefnu" fjármagnsins á "Wall Street", sem svælt hefur undir sig samfélagið á kostnað hins vinnandi manns, sem vill geta aflað sér og sínum tekna á heiðarlegan hátt og gat það, þar til hann var rændur lífsviðurværinu með því að flytja framleiðsluna á ódýrari staði. 

Meirihluta Bandaríkjamanna þykir líklega, sem "landi tækifæranna-Guðs eigin landi" hafi verið rænt í dagsbirtu rétt framan við nefið á þeim.  "Litli maðurinn", sem stjórnmálafræðiprófessorinn Ólafur Þ. Harðarson, svo ósmekklega kallar "taparann", af því að hann missti starfið sitt, veit, að það er ekki hægt að kaupa Donald J. Trump.  Hið sama varð hins vegar ekki sagt um mótherjann.  Hún var undirlægja fjármálaaflanna. Það sýnir mátt lýðræðisins í BNA, að meirihluti kjósenda þar (það voru mun fleiri en HC og DJT í kjöri) skuli hafa þrek til að andæfa þessu ofurvaldi.  HC hefur nú kennt yfirmanni FBI, Comey, um ósigur sinn.  Það er ódrengilegt, því að hann hélt augljóslega yfir henni hlífiskildi, þó að hún hefði gerzt sek um athæfi, sem stofnaði öryggishagsmunum Bandaríkjanna í hættu.  Það er sjaldgæft, að tapari í forsetakjöri tilnefni blóraböggul fyrir sig.

Nú verður vitnað í 3 forystugreinar Morgunblaðsins í kjölfar kosninganna og í Hjörleif Guttormsson, náttúrufræðing og fyrrverandi iðnaðarráðherra:

Forystugreinin "Loksins lokið", 9. nóvember 2016:

"Fjölmiðlar á Vesturlöndum eru langflestir yfirmannaðir af vinstri sinnuðum blaðamönnum.  Hlutfallið er allt annað en almennt gerist í löndunum sjálfum."

Almenningur á Vesturlöndum hefur gert sér grein fyrir þessu og sprautað sig með móteitri gegn einhliða og oft einfeldningslegum frásögnum blaðamanna af mönnum og málefnum.  Það er hægt að skynja vinnustaðaleiðann, sem fæðir af sér óánægju með hlutskipti sitt, mikla gagnrýnisþörf á þjóðfélagið vegna eigin stöðu og öfund gagnvart öllum, sem betur vegnar. 

Í forystugreininni, "Það óvænta gerðist", 10. nóvember 2016, stóð m.a. þetta:

"Kannanir helztu fyrirtækja á þessu sviði sögðu hana [Hillary] hafa 4 % - 7 % stiga forskot á andstæðinginn, utan við öll vikmörk.  Örstutt var til kjördags og óákveðnir fáir.  Á það var bent hér, að þessar kannanir á landsvísu segðu ekki allt.  Ríkin, þar sem minnstu munaði á milli frambjóðenda, segðu aðra sögu."

Vinnubrögð fyrirtækjanna, sem leggja fyrir sig að leggja mælistiku á fylgi kjósenda við fólk og flokka, sæta furðu, því að augljóslega áttu þau að einbeita sér að mælingum í vafaríkjunum, því að fylgi á landsvísu skiptir engu máli.  Allt fylgi umfram 50,01 % kjósenda fellur víðast hvar dautt.  Því verður ekki trúað, að "fagfólkið" hafi ekki gert sér grein fyrir þessu.  Var verið að afvegaleiða almenning og umheiminn með því að gefa í skyn, að HC hefði, þrátt fyrir einkanetþjóna og fleiri "svín á skóginum", byr í seglin ?

"Sérfræðingar sögðu, að "latinos" bæru þungan hug til Trumps eftir glannaleg ummæli hans um innflytjendur (ólöglega) frá Mexikó og öðrum nágrannaríkjum í suðri.  Útgöngukannanir sýndu hins vegar, að Trump fékk yfir 29 % atkvæða í þessum hópi, hærra hlutfall en Romney í baráttunni við Obama.

Ljóst þótti, að Hillary hefði forskot á meðal kvenna.  Nú sýna fyrrnefndar athuganir, að 53 % hvítra kvenna kusu Trump, en aðeins 44 % þeirra Hillary. 

Ýmsar mýtur kosninganna stóðust illa.  Oft er nefnt réttilega, að Trump sé milljarðamæringur.  En fyrir liggur, að demókratar eyddu margfalt hærri fjárhæðum í kosningarnar en Trump gerði.  Fullyrt var, að fjöldafundir, sem Trump hélt með tugþúsundum í hvert sinn, skiluðu sér sjaldnast í kjörklefana.  Raunin varð önnur."

Demókratar virðast hafa rekið lyga- og ófrægingarherferð á hendur Trump og reynt að breiða yfir það, hversu veikur frambjóðandi HC í raun var, hvort sem hún er með Parkinson-veikina, sem kölluð var lungnabólga, eður ei.  Veikleiki hennar lýsti sér t.d. í því, hversu illa henni gekk að við að yfirbuga hinn "róttæka" Sanders.  Að meirihluti hvítra kvenna skyldi hafna henni, kórónar getuleysið.  Í örvæntingu sinni gripu demókratar til þess ráðs að birta klúrt myndband og leiða fram konur, sem Trump átti að hafa "káfað" á.  Allt var þetta fremur klént og ekki eins krassandi og sögurnar af Bill, eiginmanni frambjóðandans og hjálparhellu, en þessi áburður leiddi óneitanlega hugann að lærlingnum í Hvíta húsinu og Miss Jones. 

Nú víkur sögunni að rannsóknum á viðhorfum fólks og atferlisrannsóknum, sem auðvitað eru mikla lengra komnar en misheppnaðar viðhorfskannanir fyrir kosningarnar í BNA gefa til kynna.  Fyrirtækin, sem að þeim stóðu, eru rúin trausti, enda virðast þau bara hafa verið að dreifa boðskap, sem þeim var þóknanlegur, svo að ekki sé nú minnzt á garmana, álitsgjafana:

"Einn af fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar CBS sagði um kosninganóttina, að í herbúðum Trumps hefði verið stuðzt við rannsóknir brezks fyrirtækis að nafni "Cambridge Analytica" og það hefði nokkurn veginn greint, hvernig landið lægi.

Í frétt í blaðinu Chicago Tribune segir, að Cambridge Analytica segist geta sagt fyrir um það, hvernig flestir kjósendur muni verja atkvæði sínu með því að greina margvíslegar upplýsingar um hvern kjósanda.  Í greininni segir, að fyrirtækið skoði 5 þúsund atriði um hvern og einn og keyri saman við mörg hundruð þúsund persónuleika- og atferliskannanir til að bera kennsl á milljónir kjósenda, sem lítið þurfi til að telja á að kjósa skjólstæðinga þess, í þessu tilviki Trump.  Segir fyrirtækið, að grundvallarmunur sé á þessu og algengustu aðferðunum, sem felast í að nota lýðfræðileg gögn og keyra saman við upplýsingar á borð við áskriftir að tímaritum og aðild að samtökum til að átta sig á pólitískum tilhneigingum fólks."

"Now you are talking, man."  Það er auðvitað búið að þróa tækni fyrir kosningaherferðir, sem eru mun lengra komnar og nákvæmari en skoðanakannanir, sem okkur eru birtar.  Donald Trump virðist einfaldlega hafa varið fé sínu mun betur en forráðamenn kosningasjóða andstæðingsins.  Donald Trump hafði lag á að koma sér í fréttirnar með atferli sínu og fékk þannig ókeypis auglýsingar.  Herfræði hans var úthugsuð, og hann sló gervallri "elítunni" við. Það hlægir blekbónda óneitanlega, að "elítan" skilur ekki enn, að hún hefur orðið að athlægi.

Hjörleifur Guttormsson átti að vanda góða grein í Morgunblaðinu, og að þessu sinni þann 10. nóvember 2016 um téðar kosningar, þar sem hann greinir stöðuna að sínum hætti í greininni:

"Bandarísku kosningarnar snerust um afleiðingar hnattvæðingar":

"Ástæður stóryrtari umræðu nú en áður eru margþættar og endurspegla djúpstæðari klofning í bandarísku samfélagi en dæmi eru um frá lokum Víetnamstríðsins.  Meginorsökin er að margra mati nýfrjálshyggja og hnattvæðing efnahagslífsins, sem mjög var hert á með frjálsum fjármagnsflutningum fyrir aldarfjórðungi.  Verkafólk og millistéttir, sem urðu bjargálna á eftirstríðsárunum, hafa mátt þola ört dvínandi tekjur og atvinnumissi á stórum svæðum þar vestra án þess að eiga sér öfluga málsvara.  Lengi vel voru demókratar í því hlutverki, en í forsetatíð Bill Clintons eftir 1992 var það merki fellt, og forysta demókrata gekk til liðs við peningaöflin á Wall Street."

Sé þetta rétt greining hjá Hjörleifi, sem vart þarf að efast um, þá er ei kyn, þó að keraldið leki, þ.e. þó að meirihluti ríkjanna og kjörmanna þeirra hafi hafnað frú Clinton.  Staðan er þó skrýtin frá evrópsku sjónarhorni séð.  Auðjöfur tekur upp hanzkann fyrir lítilmagnann og lofar að berjast fyrir málstað hans. Auðjöfurinn lofar að færa launamanninum aftur sjálfsvirðingu hans og vinnu með því að byggja upp innviði landsins að nýju og endurheimta störfin.  Auðjöfrinum er treyst til að fást við hin geysivaldamiklu fjárplógsöfl og rétta við hag "litla mannsins".  Þetta er klassísk uppskrift.  Hvorum megin skyldi sá með horn, klaufir og hala halda sig í þessum hildarleik ? 

 

 


Hnignun Vesturlanda

Forysturíki Vesturlanda, Bandaríki Norður-Ameríku, BNA, er í úlfakreppu.  Kynþættirnir eiga þar í stöðugum erjum, þar sem skotvopnum er beitt á báða bóga að hætti kúrekanna, og gríðarleg ólga er undir niðri, svo að ástandið er víða eldfimt, þó að sú sé ekki reglan.  Tvímælalaust virðist vera friðsamlegra, þar sem íbúarnir eru einsleitir m.t.t. uppruna. 

Þar sem meiri kynþáttaleg einsleitni ríkir, er miðstéttin hins vegar hundóánægð með  sitt hlutskipti og sinn skerf af kökunni, en raunlaun miðstéttarinnar hafa litlum breytingum tekið í yfir 25 ár þrátt fyrir framleiðniaukningu og vöxt landsframleiðslu á mann.  Tekju- og eignalegur ójöfnuður hefur þannig vaxið í BNA á þessu tímabili, og er það meginskýringin á vinsældum öldungsins, jafnaðarmannsins Bernie Sanders, í forkosningum demókrata og almennri þjóðfélagsóánægju í flestum ríkjum landsins, sem er ný af nálinni í "Guðs eigin landi", landi tækifæranna.  Helzt að vaxandi olíu- og gasvinnsla með leirbroti ("fracking") hafi hresst upp á kjörin, þar sem hún hefur verið innleidd. 

Þegar þegnarnir fá á tilfinninguna, að ekki séu allir jafnir fyrir lögunum, þá grefur um sig vantraust á yfirvöldum, og skrattinn getur losnað úr grindum. Eitt dæmi um, að ekki er sama Jón og séra Jón varð skömmu eftir þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna 2016, er James Comey, yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI, gerði grein fyrir rannsókn sinna manna á netþjónsmáli utanríkisráðherrans, þáverandi, Hillary Clinton, en hún lét beina öllum embættisnetpósti sínum um einkanetþjón sinn, sem þá var harðbannað af öryggisástæðum í utanríkisráðuneytinu og er enn, og jafnframt bannaði hún undirmönnum sínum að viðhafa þetta fyrirkomulag. Brot þeirra hefði framkallað tafarlausa brottvísun úr starfi og saksókn. Hvað hafði hún að fela fyrir hinum opinbera netþjóni ?  Hér er einbeittur brotavilji á ferð, sem vitnar um meiri dómgreindarskort en svo, að þorandi sé að fela henni embætti forseta Bandaríkjanna, sem hún nú svo ákaft sækist eftir.  Donald Trump er strigakjaftur, en hefur hann orðið uppvís að verknaði, sem vitnar um alvarlegan dómgreindarbrest ?  Af tvennu illu virðist Donald vera skárri kostur í "sívölu skrifstofuna" (oval office), og líklega nær hann þangað, ef draga má ályktun af gengi beggja í kosningabaráttu.

Í 12 mínútur lýsti Comey miklum ávirðingum á hendur Hillary Clinton á blaðamannafundi, sem sannfærðu áheyrendur um, að FBI mundi kæra hana fyrir þjóðhættulegt hátterni.  Comey sneri hins vegar við blaðinu, þegar 3 mínútur voru eftir af ræðunni, með þeirri haldlitlu skýringu, að hann væri ekki viss um, að gjörningurinn hefði verið "að yfirlögðu ráði".  Vissi þá Hillary Clinton ekki, hvað hún var að aðhafast með þessu framferði ?  Er það ekki sýnu verst, þegar meta á hæfni hennar til að gegna stöðu forseta Bandaríkjanna ?

Bandaríkjamenn hljóta nú að spyrja sig, hvort það hafi áður gerzt, að

"stórkostleg vanræksla samfara yfirgengilegu kæruleysi í umgengni við viðkvæmustu trúnaðarmál þjóðarinnar"

dygðu ekki til ákæru ?  Það er augljóslega ekki sama, hver brýtur af sér í BNA, og það hlýtur að draga m.a. þann dilk á eftir sér, að almenningur snúist til varnar og kjósi andstæðinginn, þó að hann sé enginn engill sjálfur. Hætt er við, að pólitískur tilgangur Comeys snúist upp í mikinn og réttmætan æsing yfir því, að allir séu ekki jafnir fyrir lögunum.  Gildir þá hið fornkveðna:

"Ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og friðinn í sundur slíta".

Í Evrópu er fíll í stofunni, sem heitir Evrópusamband, ESB.  Fyrirbrigðið verður sífellt óvinsælla í aðildarlöndunum, einkum í kjarnaríkjunum, sem tekið hafa upp evru, því að myntinni er kennt um efnahagslega stöðnun, skuldasöfnun og geigvænlegt atvinnuleysi, einkum á meðal fólks undir þrítugu.  Almenningur hefur um hríð tortryggt búra í Brüssel á skattfríum háum launum, sem þurfa ekki að standa kjósendum reikningsskap gjörða sinna og unga út íþyngjandi tilskipunum og reglugerðum og virðast vinna umboðslaust að myndum Sambandsríkis Evrópu, sem á lítinn hljómgrunn á meðal aðildarþjóðanna.  Evrópusambandið hefur þannig verið á lestarspori, sem almenningur samsamar ekki sínum hagsmunum.  Þetta veldur einnig vaxandi tortryggni almennings í garð ráðandi afla í eigin löndum, sem vinna með Brüssel.  Þann 23. júní 2016 fékk almenningur í Bretlandi útrás fyrir óánægju sína og sagði þinginu, þar sem meirihlutinn er samdauna ráðandi öflum í Brüssel, fyrir verkum um að draga Bretland út úr öngþveiti meginlandsins og að taka þess í stað stjórn landsins í eigin hendur, þ.á.m. stjórn á umferð um landamærin. 

Mesti ótti forkólfa ESB stafar nú ekki af Rússum, sem þó stunda vopnaskak aðallega til innanhússbrúks, heldur af fordæminu, sem Brexit, útganga Bretlands úr ESB, gefur hinum aðildarþjóðunum.  Frakkar og Hollendingar höfnuðu á sinni tíð stjórnarskrá ESB, sem kennd var við franska aðalsmanninn Giscard d´Estaing og átti að varða veginn til eins ríkis.  Henni var þá lítillega hnikað til og skírð "Lissabon-sáttmálinn". Hálfkák af þessu tagi og sniðganga meirihlutaviljans mun á endanum verða ESB og sameiningarhugsjóninni dýrkeypt. 

Það mun líklega verða krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum tveimur löndum og víðar um aðildina að ESB að fengnu fordæminu frá Bretlandi.  Verði slík atkvæðagreiðsla haldin í þessum löndum, eru meiri líkur en minni á, að "Frexit" og "Nexit" verði samþykkt; svo mikið er vantraustið í garð "elítunnar" - hinna ríkjandi afla á stjórnmála- og fjármálasviði. Kann nú leið Marie le Pen til búsforráða í Elysée-höllinni í París að verða greiðari en verið hefur.  Stjórnleysingjar og nýkommar Evrópu mega þá snapa gams.   

Svipaða sögu má segja af norðurvængnum, Danmörku, Svíþjóð, og jafnvel Finnlandi, og af suðurvængnum, Kýpur, Grikklandi og Ítalíu.  Á Ítalíu hefur enginn hagvöxtur verið í einn áratug, skuldastaða ríkisins er þung (130 % af VLF) og bankakreppa er þar yfirvofandi eftir álagspróf evrubankans í haust.  Eina úrræði margra aðildarlandanna er að losa sig við helsið, sem fólgið er í evrunni, jafnvel þótt hún hafi fallið um 10 % gagnvart bandaríkjadal á 2 árum. 

Á Íslandi á það einnig við, að almenningur ber takmarkað traust til löggjafarsamkomunnar og stjórnmálamanna og kaupsýslumanna almennt.  Íslenzkir stjórnmálamenn voru þó ekki valdir að hruni fjármálakerfisins, heldur fylgdu framan af reglum EES, en þeir tóku þó þveröfugan pól í hæðina 2008, gegn vilja ESB, varðandi endurreisn fjármálastofnana miðað við erlenda stjórnmálamenn, því að í október 2008 samþykkti Alþingi s.k. Neyðarlög, sem björguðu þjóðinni undan þeirri kvöð að ábyrgjast skuldir bankanna, en ríkistryggðu hins vegar innlendar bankainnistæður. Má þakka þessum gjörningi hraðari viðsnúning hérlendis en erlendis eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem hefði verið óhugsandi með landið innan vébanda ESB. 

Valdhafarnir í vinstri stjórninni 2009-2013 létu reyndar síðan brezka og hollenzka stjórnmálamenn svínbeygja sig og kúga til að semja samt sem áður um, að íslenzka ríkið gengist í ábyrgð fyrir skuldir íslenzkra banka í þessum löndum.  Þetta var ófyrirgefanleg eftirgjöf óþjóðlegra afla til að þóknast lánadrottnum og búrum í Brüssel, en þjóðin hafnaði í tvígang, og eftir situr vantraust almennings.  Vinstri stjórnin ætlaði með þessum risaskuldbindingum ríkisins að greiða leið landsins inn í ESB.  Það var bæði óþjóðholl og heimskuleg ákvörðun, því að stækkunarstjóri ESB hefði ekki verið í neinum færum til að veita Íslandi afslátt af sáttmálum ESB.  Allt, sem Alþingi hefði upp skorið með þessum gerningi, hefði verið stórfelld og langdregin kjaraskerðing almennings á Íslandi.  Hrikalegt dómgreindarleysi fylgjenda forræðishyggju og sameignarstefnu í hnotskurn.  

Nú síðast hafa uppljóstranir í s.k. Panamaskjölum um geymslu fjár í skattaskjólum orðið tilefni vantrausts almennings í garð stjórnmála- og kaupsýslustéttarinnar.  Enn sýndi vinstri stjórnun þýlindi sitt í garð fésýsluaflanna með því að stytta verulega fyrningartíma fjármálaflutninga í skattaskjól fyrir gjaldþrot. Þá setti nú skrattinn upp á sér skottið, þegar Katrín Jakobsdóttir kvað sér og sínum pótintátum bezt treystandi til að fást við skattaskjólin.  Það er nú líka betra að hafa eitthvert fjármálavit með í för, þegar leggja á til atlögu við skattaskjólin.  Annars verður sú barátta hálfkák eitt, eins og allur hennar ráðherraferill reyndist. Stjórnleysingjum og nýkommum er í engu treystandi.

Hins vegar er allt annað uppi á teninginum í efnahagsmálum Íslendinga nú en allra annarra ríkja Evrópu og reyndar víðast hvar um heiminn.  Stöðnun hefur ríkt í Evrópu og víðast hvar annars staðar síðan 2008, en síðan 2011 hefur verið hér þokkalegur hagvöxtur og rífandi gangur síðan 2013, eins og hér verður tíundað. Hið merkilega er, að þrátt fyrir 11 % kaupmáttaraukningu undanfarið ár hefur verðbólgu hérlendis verið haldið í skefjum, þó að Seðlabankinn hafi gert sitt til að auka verðbólguvæntingar með allt of háum verðbólguspám.  Þjóðhagslíkön bankans eru meingölluð.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) spáir því, að árið 2016 verði 4,9 % hagvöxtur hérlendis, sem yrði mesti hagvöxtur síðan 2007, er hann var 9,5 %.  Í endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ, sem birt var 3. maí 2016, segir, að ferðaþjónustan, aukin einkaneyzla og fjárfesting, muni drífa hagvöxtinn áfram næstu ár.  Traustar undirstöður sjávarútvegs og iðnaðar, gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna og traust efnahagsstjórn hafa framkallað núverandi velmegun.  Á að tefla þessu öllu í tvísýnu með því að kasta perlu fyrir svín og kjósa hér glópa til valda ?

Seðlabankinn hefur það lögbundna hlutverk m.a. að halda verðbólgunni undir 2,5 %/ár, og hefur það tekizt síðan í febrúar 2014, eða í 30 mánuði, þótt í fyrra hafi verið samið um almennar 30 % launahækkanir  á vinnumarkaði.  Í fyrra jókst líka einkaneyzlan um 4,8 %, og í ár spáir ASÍ 6,0 % vexti einkaneyzlu, sem þýðir að hún nær methæðum ársins 2007.  Hagfræðingar ASÍ skrifa:


"Aukin neyzla heimilanna á rætur að rekja til jákvæðrar þróunar efnahgslífsins, þar sem m.a. aukinn kaupmáttur, meiri væntingar, efnahagslegur stöðugleiki og fjölgun starfa hafa gefið heimilum rými til að auka neyzlu sína.  Þetta er ólíkt þróuninni fyrir hrun að því leyti, að skuldastaða heimilanna hefur hingað til farið batnandi m.a. vegna skuldalækkunar stjórnvalda og nýtingar séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána."

Samanburður á þessari lýsingu á efnahagsstöðu Íslendinga og t.d. efnahagsstöðunni í ESB-löndunum sýnir svart á hvítu, hvers virði sjálfstæði landsins er, og hversu hárrétt stefna það er hjá núverandi stjórnvöldum landsins að leita ekki inngöngu í ESB.

Þeim mun hlálegra er, að nýstofnaður stjórnmálaflokkur, Viðreisn, hefur það á sinni stefnuskrá að leita inngöngu í þennan klúbb fyrir landsins hönd og leiða "samningaviðræður" til lykta.  Það mun koma í ljós nú á næstu mánuðum, hvernig þróun ESB verður eftir Brexit, og hvers konar aukaaðildarkjör, ef nokkur, Bretum munu bjóðast, en af ummælum forystumanna ESB hingað til má ráða, að aðeins sé hægt að vera í ESB og lúta sáttmálum þess í einu og öllu eða að vera utan við.  Þetta er í samræmi við það, sem andstæðingar aðildarumsóknar hafa ætíð haldið fram.    

 


Hefðbundin viðhorf á hverfanda hveli

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkjandi stjórnmálaviðhorf eru í uppnámi. Þegar breyttur samskiptamáti fólks og bætt aðgengi að upplýsingum eru höfð í huga, þarf ekki að undra, að viðhorf almennings til stjórnmálanna breytist samhliða.  Víða erlendis bætast við afkomuleg vandamál af völdum stöðnunar hagkerfanna, og sums staðar er atvinnuleysið tvímælalaust hátt yfir þeim mörkum, sem við Íslendingar mundum kalla þjóðfélagsböl.  Hérlendis er mjög á brattann að sækja fyrir ungt fólk með fjármögnun húsnæðis, svo að nokkrar rætur þjóðfélagsumróts séu tíndar til.

Vaxandi urgur í miðstéttinni hefur víða leitt til aukins fylgis jaðarflokka á báðum vængjum stjórnmálanna.  Í Noregi er flokkur hægra megin við Hægri flokkinn í ríkisstjórn, og í Danmörku hefur róttækur hægri flokkur töluverð áhrif á stjórnarstefnu ríkisstjórnar í minnihluta á danska þinginu. 

Svíar og Finnar hafa enn ekki hleypt Svíþjóðardemókrötunum og Sönnum Finnum til valda, en hinir fyrr nefndu hafa hlotið fylgi í skoðanakönnunum á borð við Pírata á Íslandi.  Í Bretlandi hafa róttækir vinstri menn lagt undir sig Verkamannaflokkinn, og reyna mun á málstað Brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu, ESB.  Í Þýzkalandi vex Alternative für Deutschland ásmegin, en hann er hægra megin við CDU/CSU, flokka Angelu Merkel og Horst Seehofers, sem að sama skapi missa fylgi. Fylgi sópaðist að AfD í þremur fylkiskosningum í marz 2016, og var úrslitum kosninganna líkt við stjórnmálalega jarðskjálfta í Þýzkalandi.  Þar er þó efnahagur góður og atvinnuleysi tiltölulega lítið, en lítt heftur straumur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem flestir aðhyllast Múhameðstrú, er tekinn að valda almenningi í Þýzkalandi áhyggjum, og yfirvöldin ráða ekki við móttöku þess yfirþyrmandi fjölda, sem komizt hefur inn fyrir landamæri Þýzkalands, sem hafa verið opin samkvæmt Schengen-ráðslaginu. Komið hefur í ljós, að upp til hópa er um að ræða lítt menntað, jafnvel ólæst fólk, sem gríðarlega dýrt yrði, og sennilega ómögulegt í flestum tilvikum, að aðlaga þýzku þjóðfélagi, enda er Mutter Merkel farin að tala um, að fólkið verði að fara til baka til síns heima, þegar friðvænlegra verður þar.  Þetta var líka ætlunin með "Gastarbeiter", sem tóku þátt í uppbyggingu Vestur-Þýzkalands eftir heimsstyrjöldina seinni, en flestir þeirra ílentust með fjölskyldum sínum í Vestur-Þýzkalandi, en hafa aðlagazt misvel að þýzku samfélagi, en hafa myndað þar sín eigin samfélög. 

Í Frakklandi stefnir formaður Þjóðfylkingarinnar, Marie Le Pen, á forsetabústaðinn, Elysée, og gæti hreppt hann í næstu forsetakosningum miðað við ástandið í Frakklandi. 

Í Grikklandi hefur róttækur vinstri flokkur verið við völd um hríð, en Grikkland er efnahagslega ósjálfbært og er eins og tifandi tímasprengja. 

Á Spáni er stjórnarkreppa eftir síðustu þingkosningar, og Katalónar í Norð-Austurhorni Spánar, sem tala frönskuskotna spænska mállýzku, vilja aðskilnað frá ríkisheildinni.  Á Spáni sækir systurflokkur Syriza, Podemos, í sig veðrið. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur vinstri öldungurinn Bernie Sanders náð eyrum ótúlega margra, einkum ungra Demókrata, og velgt Hillary Clinton, mótframjóðanda sínum, undir uggum.  Hefur Bernie náð óvæntum árangri í forkosningum margra ríkja BNA. Repúblikanamegin eru róttkir hægrimenn atkvæðamestir. Donald Trump er ólíkindatól, sem kann að spila á mikla þjóðfélagsóánægju í BNA, sem stafar m.a. af töpuðum störfum til Kína og víðar og (ólöglegra) innflytjenda frá Mexikó.

 Allt hefðu þetta þótt vera firn mikil um síðustu aldamót, en fyrri hluti 21. aldarinnar býður greinilega upp á meiri þjóðfélagsróstur á Vesturlöndum en seinni hluti 20. aldarinnar gerði. 

Á Íslandi blasir eftirfarandi staða við samkvæmt skoðanakönnunum:

  • Vinstra mixið:            25 %
  • Borgaraflokkarnir:        40 % (tæplega)
  • Píratar (sjóræningjarnir) 35 % (rúmlega)

Hvaða ályktun og lærdóm skyldi nú mega draga af þessum tölum, sem eru ískyggilegar fyrir stjórnmálalegan stöðugleika á Íslandi ? 

Blekbóndi túlkar þær þannig, að þær séu ákall kjósenda um nývæðingu lýðræðis í átt að auknu beinu lýðræði á kostnað hins hefðbundna fulltrúalýðræðis.  Kjósendur vilja fá beinan aðgang að ákvarðanatöku í einstökum málum, ef þeim býður svo við að horfa.  

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga að bregðast við þessum breytta tíðaranda með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, sem þýðir, að breyta þarf Stjórnarskránni.  Blekbóndi telur, að slá eigi tvær flugur í einu höggi og gjöra umgjörð forsetaembættisins á Bessastöðum skýrari og embættið veigameira en nú er án þess að hreyfa við meginstjórnarfyrirkomulaginu, sem er þingbundin ríkisstjórn:

  1. Aðalhlutverk forseta lýðveldisins verði að gæta þess, að lagasetning þingsins sé í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins. Hann verði þannig eins konar verndari Stjórnarskráarinnar. Ef hann telur vafa á því, að lögin standist Stjórnarskrá, skal hann fresta staðfestingu laganna með því að vísa þeim til þriggja manna Stjórnlagaráðs, þar sem hann skipar formann, Hæstiréttur annan og háskólarnir, þar sem lagadeildir eru, skipa þriðja, til þriggja ára í senn. Stjórnlagaráð skal úrskurða innan viku um vafamál, sem forseti lýðveldisins vísar til þess, og ef úrskurður er á þá lund, að lögin standist Stjórnarskrá, ber forseta að staðfesta þau samdægurs með undirskrift sinni, annars vísar hann þeim aftur til þingsins.  Forseti getur ekki vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema hann fái um það skriflega áskorun frá fjölda, sem nemur 20 % af atkvæðisbæru fólki í síðustu Alþingiskosningum.
  2. Kjósendur til Alþingis skulu geta farið fram á það við forseta lýðveldisins, að hann láti semja frumvarp til laga um tiltekið efni í ákveðnu augnamiði.  Ef fjöldi, sem nemur 20 % kjósenda í síðustu Alþingiskosningum, hvetur hann til þess skriflega, skal hann verða við því og fela forseta Alþingis að leggja málið fyrir þingið.  Slíkum lögum frá Alþingi skal hann geta synjað staðfestingar og fara þau þá í endurskoðun hjá þinginu, eða þingið efnir til þjóðaratkvæðis um þau.   
  3. Að afloknum Alþingiskosningum metur forseti lýðveldisins, hverjum er eðlilegast að fela stjórnarmyndunarumboð með tilliti til úrslita kosninganna.  Ef ekki tekst að mynda starfhæfa ríkisstjórn innan 6 vikna frá kjördegi, fellur stjórnarmyndunarumboð til forseta, sem þá skal skipa ríkisstjórn og hefur til þess frjálsar hendur.  Þingrofsvaldið skal aðeins vera hjá forseta lýðveldisins. 
  4. Forseti Alþingis er staðgengill forseta lýðveldisins og aðrir ekki.  Forseti Alþingis ræður dagskrá þingsins og getur stytt umræðutíma eða tekið mál af dagskrá, ef honum þykir þingmenn misnota starfstíma þingsins, t.d. með því að setja á ræður um mál utan dagskrár eða með því að teygja lopann. Hann getur hvenær sem er takmarkað ræðutíma einstakra þingmanna í hverri umræðu, eins og hann telur nauðsynlegt fyrir eðlilega framvindu frumvarps eða þingsályktunartillögu. Forseta Alþingis ber að hlúa að virðingu þingsins í hvívetna. 
  5. Ef minnihluti Alþingis, 40 % þingmanna eða 25 þingmenn hið minnsta m.v. heildarfjölda þingmanna 63, samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, þó ekki um fjárlög, þá skal sú tillaga fara til forseta lýðveldisins til samþykktar eða synjunar.  Í tillögunni skal setja fram nákvæmt orðalag á spurningum, sem leggja skal fyrir þjóðina.  Synjun forseta skal fylgja rökstuðningur til Alþingis, en samþykkt tillaga fer til ríkisstjórnarinnar til framkvæmdar.
  6. Annað meginhlutverk forseta lýðveldisins skal vera að varðveita stöðugleika, þjóðfélagslegan og efnahagslegan.  Ef honum virðist Alþingi vera þar á rangri leið, skal hann leysa þingið upp, og verður þá efnt til kosninga.  Kjörtímabil forseta skal vera 6 ár, en hann skal geta stytt það, kjósi hann svo, og hann má ekki sitja lengur en 12 ár.  

Hér er aðeins drepið á örfá atriði.  Réttast er að fá hópi stjórnlagafræðinga slíkt afmarkað verkefni um Stjórnarskrárbreytingar.  Þeir yfirfara þá alla Stjórnarskrána m.t.t. til breytinga, sem óskað er eftir, til að tryggja innbyrðis samræmi í Stjórnarskránni, og senda tillögurnar síðan Alþingi til umfjöllunar.  Í þessu tilviki þarfnast allir liðir um forseta lýðveldisins og þjóðaratkvæðagreiðslur endurskoðunar. 

Stjórnarskráin er m.a. til að tryggja frelsi og mannréttindi einstaklingsins gagnvart hinu opinbera valdi og gagnvart öðrum einstaklingum og félögum.  Í þessu sambandi er rétt að hafa ákvæði í 65. grein frá árinu 1995 í huga, en það hefur jafnvel verið sniðgengið við lagasetningu síðan:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti,  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna." 

Það kemur einnig til greina við næstu endurskoðun Stjórnarkráar að setja þar inn ákvæði um skipan þriggja dómsstiga í landinu, og hvernig ráðningu dómara skuli haga á öllum þremur dómsstigum. Þá þarf að skilgreina verkaskiptingu á milli Stjórnlagaráðs og Hæstaréttar varðandi lög, sem kunna að brjóta í bága við Stjórnarskrána. Til álita kemur, að forseti lýðveldisins skipi Hæstaréttardómara með sjálfstæðum hætti. 

Þann 1. desember 2015 ritaði Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, mjög góða grein í Morgunblaðið:

"Hverju megum við ráða". 

Í niðurlagi greinarinnar sagði hann:

"Á meðan báknið vex, þá minnkar sífellt vald einstaklingsins yfir eigin lífi.  Þegar haft er í huga, hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru, þá verður að telja með ólíkindum, að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu og raunin er.  Ef við eigum ekki að enda sem þjóð, sem ávallt er undir þumlinum á duttlungum síðasta hæstbjóðanda í kosningum, þá verður að eiga sér stað grundvallar hugarfarsbreyting um, að snúa þurfi þessari þróun við.  Þörf er á, að fólk geti valið stjórnmálamenn, sem lofa að gera minna og leyfa meira.  Fimmföld laun hljóma hreint ekki illa."

Sé þetta sett í samhengi stjórnarskrárbreytinga, er þörf á breytingu reglna um kjör til Alþingis í þá veru að gefa kjósendum kost á að kjósa bæði flokk og einstaklinga á öðrum listum en þeim, sem kosinn er, þ.á.m. af landslista óháðum stjórnmálaflokkunum.Fyrirmyndir um persónukjör má t.d. finna í Þýzkalandi.

Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, ritaði 3. desember 2015 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Útrýmum fátækt - gerum lýðræðið nothæft". 

Þar segir svo m.a:

""James Harrington (1611-1677), enskur stjórnmálamaður, sagði á sinni tíð: "Einveldi ríkir, þegar krúnan á allt eða í það minnsta 2/3 af öllum landauði.  Höfðingjaveldi ríkir, ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut.  Eigi almenningur 2/3 eða meira, ríkir lýðræði."

Þótt margt sé breytt síðan á 17. öld, er kjarni þessarar hugsunar í fullu gildi.  Í stað krúnunnar kemur ríkið, í stað aðalsins koma auðmennirnir, en almenningur er enn almenningur.  Í stað landauðs koma allar eignir, allur auður þjóðfélagsins.

Þau sannindi eru enn góð og gild, að eignum og útdeilingu þeirra fylgja völd, en lýðræðið byggist á því, hversu vel tekst til með eignadreifingu í þjóðfélaginu. 

Valdið leitar fyrr eða síðar þangað, sem auðurinn er.  Þess vegna er tiltölulega jöfn dreifing auðsins meðal landsmanna forsenda lýðræðis. 

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga (allar eignir landsmanna, einkaeignir og opinberar eignir, samanlagt) 23,3 trilljónir (þúsund milljarðar) kr.  Af þeim eru u.þ.b. 4,4 trilljónir í einkaeign, en u.þ.b. 18,9 trilljónir í opinberri eigu.  Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því að eignir einstaklinga eru ekki nema um 19 %, en opinberar eignir um 81 % af heildareignum þjóðfélagsins.  Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt, þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir, að eiga 15,5 trilljónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla.  Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera fyrir hendi til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu." 

Á Íslandi eiga 30 % þjóðarinnar tæplega 80 % allra einkaeigna, en þær nema einvörðungu rúmlega 15 % heildareigna í landinu.  Við þessar aðstæður blasir við, að það er engin ástæða til að festa í sessi eða auka enn við eignarhald hins opinbera með nýjum ákvæðum í Stjórnarskrá.  Slík þjóðnýting mundi draga enn úr lýðræðislegu valdi almennings, en það er ekki einvörðungu fólgið í kosningarétti og aðkomu að einstökum ákvörðunum, heldur ekki síður, eins og Jóhann J. Ólafsson bendir á, fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna og olnbogarými í samfélaginu án afskipta annarra innan marka laga og réttar, sem gilda um farsæl samskipti manna. 

Samkvæmt Hagstofunni eru um 80´000 framteljendur án nettóeignar og skulda 87 milljarða kr.  Það er miklu brýnna þjóðfélagslegt viðfangsefni að koma fleiri einstaklingum til bjargálna með möguleikum á eignamyndun en að auka við eignir ríkisins á kostnað einstaklinga og frjálsra félaga. Til að auðvelda ungu fólki þetta hefur verið bent á þá leið, að ríkissjóður leggi fram styrk til fólks, sem er að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð, allt að Mkr 10, en hætti að veita vaxtabætur og dragi úr peningaaustri í Íbúðalánasjóð.  Þetta mundi gera fleirum kleift að losna úr fátæktargildru, en fara þess í stað að safna eignum, sem veita ómetanlegt afkomuöryggi í ellinni.

 

 


Brennandi hús

Þau undur og stórmerki urðu í ágætum morgunþætti Óðins Jónssonar, fréttamanns, á Gufunni mánudaginn 7. marz 2016, að Nestor íslenzkra jafnaðarmanna, Jón Baldvin Hannibalsson, afneitaði Evrópusambandinu, ESB, og taldi það óalandi og óferjandi um þessar mundir.  Glapræði mundi vera af Íslendingum að sækja þar um aðild, enda ríkti þar óstjórn í þremur mikilvægum málaflokkum hið minnsta. 

"Við göngum ekki inn í brennandi hús", kvað Nestor.  Bætist hér enn við grundvallarmistök í stefnumótun Samfylkingarinnar og íslenzkra jafnaðarmanna.  Leiðsögn þeirra hafði næstum leitt landsmenn til glötunar á síðasta kjörtímabili, og þeim virðast vera mjög mislagðar hendur við allt, sem þeir taka sér fyrir hendur. 

Lesendur virða blekbónda það vonandi til vorkunnar, að hann missti neðri kjálkann niður á bringu við að hlýða á téðan Nestor, sem verið hefur kaþólskari en páfinn í ESB-trúboðinu fram að sinnaskiptunum, sem eru jafnframt eins konar siðskipti þessa höfuðkrata, sem að eigin sögn lærði til forsætisráðherra í Edinborg (Héðinsborg) á Skotlandi á sinni tíð og átti nokkuð glæstan feril sem utanríkisráðherra í Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar. 

Nestor rökstuddi mál sitt með skýrum hætti, eins og hans var von og vísa og tíundaði einkum þrennt:

Í fyrsta lagi væri evran vitavonlaus gjaldmiðill, enda undirstaðan eigi réttlig fundin, eins og þar stendur.  Við næstu árás á gjaldmiðilinn mundi hann falla og var á Nestor að skilja, að þá mundu ríki EMU-myntbandalagsins hverfa aftur til sinna gömlu gjaldmiðla, enda væri algerlega vonlaust fyrir svo ólík hagkerfi að búa við sömu mynt.  Afleiðingin er stöðnun hagkerfanna, sem aðild eiga að evrunni, sama hvernig evrubankinn í Frankfurt rembist eins og rjúpan við staurinn við peningaprentun og með neikvæðum innlánsvöxtum að örva hagkerfið í baráttu bankans við verðhjöðnun. 

Þá kallaði Nestor Mutter Merkel í Berlín til ábyrgðar á svínslegri framkomu við þjóðir evru-samstarfsins, sem berðust í bökkum með fjallháar skuldabyrðar, en Mutter Merkel heimtaði af þessum suðrænu þjóðum, þ.e. Grikkjum, Kýpverjum, Portúgölum og Spánverjum, auk Íra, að þær greiddu upp skuldir sínar.  Lengt hefði verið í hengingarólinni, en þjóðirnar væru samt að niðurlotum komnar. Þetta hefði skapað spennu á milli Evrópuríkjanna, sem ekki sæi fyrir endann á.

Þriðja áfellisdóminn yfir ESB kvað Nestor vera algert úrræðaleysi gagnvart aðsteðjandi flóttamannavanda.  Viðbrögðin sýndu stjórnleysi, og alla framsýni skorti, því að ráðamenn ESB hrektust af einum neyðarfundinum á annan og aðeins væri reynt að berja í brestina og bregðast við orðnum atburðum. 

Nestor gaf sem sagt ESB falleinkunn, þó að hann hafi hingað til vaðið eld og brennistein til að dásama ESB á alla lund og telja Íslendinga á að sækja um aðild og gerast aðilar, hvað sem það kostaði.  Úr því að sannleikurinn er runninn upp fyrir Nestor kratanna, verður spennandi að sjá, hvort Viðreisn vogar sér áfram að reka áróður fyrir aðild og undirstrika sannfæringu sína um kosti þess að verða framvegis undir pilsfaldi ríkjasambands Evrópu með framboði til Alþingis.  Telja má víst, að slíkur hjáróma áróður fái engan hljómgrunn á meðal þjóðarinnar, enda skiptist hún aðallega í tvær fylkingar til þessa máls, þ.e. þá, sem telja, að aðild yrði allt of dýru verði keypt á öllum tímum, og hina, sem telja aðildarumsókn nú vera tímaskekkju. Nestorinn fyllir seinni flokkinn, en flestir borgaralega þenkjandi menn hérlendir þann fyrri. 

Höfundurinn "Óðinn" ritaði í Viðskiptablaðið 23. marz 2016 greinina:

"Efnahagsleg stöðnun og pólitískur óstöðugleiki":

"Þrír stórir áhættuþættir voma svo yfir evrusvæðinu að mati Moody´s. Þeir eru í fyrsta lagi hættan á hraðari samdrætti hagvaxtar í Kína samhliða aukinni spennu í samskiptum stórra ríkja.  Í öðru lagi er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun stjórnmála í mörgum aðildarríkjunum.  Stjórnarkreppa á Spáni og í Portúgal auk hættu á því, að illa fari á ný í Grikklandi getur allt haft neikvæð áhrif á evrusvæðið auk þess sem uppgangur öfgaflokka af ýmsu tagi í Evrópu veldur áhyggjum.  Í þriðja lagi mun langvarandi tímabil mjög lágrar verðbólgu gera evrusvæðið viðkvæmara en ella fyrir efnahagslegum áföllum."

Píratar eru regandi í afstöðu sinni til ESB, eins og í flestum málum, nema fríu niðurhali af netinu gegn höfundarréttinum, og vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Alltaf er vandasamt að orða spurningar í slíkum atkvæðagreiðslum, svo að þær séu óhlutdrægar og svarið gefi einhlíta niðurstöðu.  Tvær spurningar á kjörseðlinum gætu t.d. verið á þessa leið:

  • Vilt þú, að umsókn Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði dregin til baka af ríkisstjórn og sá gjörningur staðfestur af Alþingi, svo að enginn vafi leiki á, að umsóknin sé fallin úr gildi og verði ekki endurvakin án samþykktar þings og þjóðar þar um ? 
  • Vilt þú, að umsókn Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði endurvakin, að loknum nauðsynlegum breytingum á Stjórnarskrá um leyfi til framsals fullveldis, og viðræður síðan hafnar að nýju um aðildarsamning við Evrópusambandið, sem hljóta þurfi samþykki Alþingis áður en hann verði lagður fyrir þjóðina til samþykkis eða synjunar.  

Þann 8. marz 2016 birtist forystugrein í Morgunblaðinu undir heitinu,

"Það rennur víða upp fyrir mönnum".

Þar er vitnað í fyrrverandi aðalbankastjóra Englandsbanka, Mervyn King, sem gegndi því embætti, þegar fárið gekk yfir fjármálaheim heimsins 2007-2009.  King, lávarður, hefur nú gefið út bók, þar sem hann lýsir yfir áhyggjum af hagkerfi Evrópu og telur það standa veikum fótum. Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, átti í talsverðum samskiptum við aðalbankastjóra Englandsbanka á sinni tíð, og yrði fengur að bók Davíðs, sem gæti heitið: "Árin mín á Svörtuloftum".

Grípum nú niður í téða forystugrein:

"King hefur talað tæpitungulaust í viðtölum að undanförnu.  Í síðustu viku varaði hann við nýrri efnahagskreppu, sem væri fyrirsjáanleg og kæmi líklega fremur fyrr en síðar.  Er King í sínum hugleiðingum mjög á svipuðum slóðum og Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sem er Íslendingum að góðu kunnur.  Persson er svartsýnn á ástandið í Evrópu og tilveru evrunnar, sem hann hefur lengi stutt, að Svíþjóð verði aðili að, þegar skilyrði skapist til þess."

Það hefur orðið mikið fall hlutabréfa í Evrópu í ár sem og annars staðar í heiminum, nema á Íslandi, þar sem hlutabréfamarkaðurinn er að rétta úr kútnum.  Mjög mikil skuldsetning dregur víða úr hagvexti, minnkandi hagvöxtur og lítil eftirspurn í Kína, hefur miklar verðlækkanir í för með sér ofan á olíu- og gasverðlækkanir, og vaxtahækkun bandaríska seðlabankans hefur dregið kraft úr heimshagkerfinu. 

Á Íslandi er þó rífandi gangur, knúinn áfram af 20-40 % árlegri aukningu (eftir mánuðum) á fjölda erlendra ferðamanna og fjárfestingum í gistirými og kísilverum.  Ef spár Mervyns Kings og Göran Perssons ganga eftir, hverfur vöxtur á Íslandi eins og dögg fyrir sólu, og staðan er viðkvæm, eins og völvan sagði. 

"King sagði, að evrusamstarfið hefði verið, ef ekki efnahagslegt stórslys (e. economic disaster), þá a.m.k. mjög erfitt vandamál, sem bitnað hefði á Bretum. 

Mervyn King bætti svo við:

Þjóðverjar leituðust við að hnýta Þýzkaland svo vel inn í Evrópu, að önnur Evrópuríki þyrftu aldrei aftur að óttast Þýzkaland.  Þessi viðleitni þeirra hefur haft þveröfug áhrif.  Ef skoðuð er afstaða Grikkja nú til Þýzkalands, jafnvel Ítala, þá blasir við, að spenna og tortryggni í garð Þýzkalands er nú meiri en oftast áður. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Þýzkaland.  Þjóðverjar ætluðu sízt af öllu að koma sér í þessa stöðu."

Í sögulegu ljósi er þessi skoðun hins vel upplýsta Englendings stórmerkileg og varpar ljósi á það, hvers vegna samkomulag þjóða Evrópu hefur verið afleitt svo lengi sem sögur kunna frá að greina.  Hugsunarháttur, siðfræði og siðferði þjóðanna eru einfaldlega gjörólík og fer ekki betur saman en vatn og olía.  Ef reynt er að sameina þessi efni, verður til grautur (emulsion), og það er einmitt orðið yfir evrusamstarfið.

Látum Mervyn tala:

"En efnahagslegi reikniveruleikinn hefur óhjákvæmilega leitt til þessarar niðurstöðu.  Þess vegna er evran, ekki ESB, heldur evrusvæðið, það, sem við hljótum að hafa mestar áhyggjur af.

Evrusvæðið er víðtækasti viðskiptaaðili okkar og engar horfur á, að það breytist.  Þess vegna skiptir mjög miklu máli, hvað gerist þar.  Ég óttast, að slagurinn muni nú snúast annars vegar um stjórnmálalegan vilja elítunnar, sem skóp efnahagssvæðið og vill ekki kyngja mistökum sínum, og efnahagslegan reikniveruleikann hins vegar, og að sá slagur eigi eftir að skaða okkur öll."

Hér er nýtt hugtak, "efnahagslegur reikniveruleiki",  leitt fram á ritvöllinn, sem blekbóndi skilur sem efnahgslegan raunveruleika.  Staðreyndin er sú, að ríkjandi öfl ESB neita að horfast í augu við staðreyndir, ef þær brjóta í bága við möntruna um "æ nánara samband" eða ógna á einhvern hátt grundvelli ESB, eins og fall myntbandalagsins og endurupptaka eftirlits á innri landamærum Evrópusambandsríkjanna að meðtöldum EFTA-ríkjunum. Þessi afneitun búrókratanna og helztu stjórnmálaleiðtoga ESB á "efnahagslegum reikniveruleika" veldur því, að ESB er á heljarþröm. Við Íslendingum blasir samt, að þeir munu halda áfram viðskiptum sínum við þessar þjóðir, hvernig sem allt veltur. 

Það er stórmerkilegt að lesa hugleiðingar Englendingsins Mervyns King um stöðu Þýzkalands í Evrópu samtímans.  Hún er allt annað en kjörstaða, þó að efnahagslegir yfirburðir Þýzkalands hafi staðið undir kjarabótum Þjóðverjum til handa.  Þeir hafa sumpart þess vegna orðið skotspónn hinna, sem miður hefur gengið, og þeim er auðvitað með réttu kennt um tiltölulega hátt gengi evrunnar, þótt það hafi töluvert gefið eftir síðasta árið. Þetta sundurlyndi Evrópu boðar ekkert gott fyrir íbúa álfunnar og gæti minnt að sumu leyti á árin frá sameiningu Þýzkalands Ottos von Bismarcks, járnkanzlara, til upphafs heimsstyrjaldarinnar fyrri. 

Líklega þýðir þetta allt saman endalok ESB í sinni núverandi mynd, enda eru Bretar vísir til að hafna aðild í júní 2016.  Þá mun hefjast mikið umbrotaskeið, sem gera mun miklar kröfur til íslenzku utanríkisþjónustunnar.  Er hún vandanum vaxin ?

Að lokum koma hér lokaorðin úr tilvitnaðri grein Óðins:

"Óðinn vill ekki mála hlutina í dekkri litum en ástæða er til, og skýrsluhöfundar Moody´s fara varlega í spá sinni.  Það verður hins vegar ekki framhjá því litið, að, þrátt fyrir yfirvegað orðalag, þá er afar fátt, sem ýtir undir bjartsýni, þegar kemur að framtíð evrusvæðisins næstu árin.  Þvert á móti er margt, sem vinnur gegn Evrópusambandinu og hagkerfum álfunnar.  Það er því ekki að undra, að þeim fjölgar í Bretlandi, sem vilja úr sambandinu ganga, og þeim fækkar á Íslandi, sem vilja ganga því á hönd."

 

Evran krosssprungin 

 

   

 


Norð-austurleiðin

Nokkrir stjórnmálamenn o.fl. hafa gert mikið úr þeim viðskiptatækifærum fyrir Íslendinga, sem siglingar um Norður-Íshafið norðan Rússlands frá Austur-Asíu til Evrópu og Norður-Ameríku, gætu falið í sér. Fulltrúar Íslendinga frá Bessastöðum til Rauðarárstígs í Reykjavík, þar sem Utanríkisráðuneytið er til húsa, hafa gert mikið úr því, að á Íslandi gætu orðið umskipunarhafnir fyrir flutninga eftir Norð-austurleiðinni og eldsneytisbirgðastöð fyrir risaflutningaskip. 

Fyrrverandi húsbóndi við Rauðarárstíginn, sá sem afhenti fulltrúa Evrópusambandsins, ESB, umsókn Íslands um aðildarviðræður, sem Nestor íslenzkra jafnaðarmanna telur nú hafa verið grundvallaða á rangri stefnu, sigldi þeim viðræðum í strand og lagði umsóknina í dvala fyrir Alþingiskosningar 2013. Téðum utanríkisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur varð tíðrætt um Norðurslóðir og nefndi sjálfan sig iðulega "olíumálaráðherrann" og skrifaði iðulega um olíumálaráðherrann í 3. pers. et. og átti þá við herra Skarphéðinsson.  Nú vilja flestir hætta við olíubrambolt á íslenzka hluta Drekasvæðisins vegna umhverfisáhættu.  Hugsanlegar birgðir þar eru "óbrennanlegar" m.v. hámarkshækkun hitastigs andrúmslofts jarðar 2°C. "Olímálaráðherrann" hafði þó enn ekki tekið sinnaskiptum, er síðast fréttist, þó að flokkur hans, sem er á útleið, af því að öll helztu stefnumál hans voru tóm vitleysa og gjörðirnar, þegar hann sat í ríkisstjórn, eintóm mistök, samkvæmt opinberum játningum aflátsformanns. 

Fleiri fara fjálglegum orðum um Norð-austurleiðina en Íslendingar.  Í viku 04/2016 var haft eftir Robert J. Papp, sérlegum fulltrúa Bandaríkjastjórnar vegna Norðurslóða, í Morgunblaðinu, að "vegna opnunar Norð-austurleiðarinnar væri horft til mögulegrar umskipunarhafnar í Tromsö eða á Íslandi", eins og það var orðað í Baksviðsumfjöllun Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 29. janúar 2016.

Í sömu umfjöllun kom þveröfugt sjónarmið fram frá markaðsaðilum, og er það ekki í fyrsta sinn, sem staðreyndir markaðarins fylgja ekki loftköstulum stjórnmála- og embættismanna.  Ættu hinir síðar nefndu að halda sig meira við raunveruleikann og gefa minni gaum opinberlega að draumsýnum sínum. 

Anne H. Steffensen, forstjóri samtaka danskra skipaútgerða, "Danmarks Rederiforening", sagði eftirfarandi á Norðurslóðaráðstefnu í Tromsö í janúar 2016:

"Markaðurinn mun að óbreyttu ekki velja Norð-austurleiðina.  Til að hún borgi sig umfram aðrar siglingaleiðir þarf rétta blöndu af flutningsgetu, meiri sjóflutningum og flutningsgjöldum, sem eru nógu há til að stytting borgi sig.  Nú eru flutningsgjöldin mjög lág og efnahagsástandið erfitt.  Skipaumferðin er ekki nógu mikil til að Norð-austurleiðin borgi sig.  Með hliðsjón af lækkun olíuverðs og efnahagslegum samdrætti víða um heim er erfitt að sjá, að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð."

""Ávinningur þess að sigla Norð-austurleiðina er ekki nægur til að hún keppi við Súez-skurðinn", segir Steffensen og bendir á, að árið 2013 fór 71 skip um Norð-austurleiðina, en aðeins 20 árið 2014."

Niðurstöðu Steffensens má skoða í því ljósi, að sé siglt frá Singapúr til Hamborgar lengist siglingaleiðin, sé farið norðurfyrir í stað Súez, um rúmlega 1350 km eða um 16 %.  Sé siglt frá Hong Kong til Hamborgar styttist leiðin um 990 km eða 11 %, sem er ekki nóg við núverandi olíuverð til að vega upp á móti kostnaði við ísbrjót og hærri tryggingariðgjöldum fyrir Norð-Austurleiðina.  Sé hins vegar siglt frá Yokohama í Japan til Hamborgar styttist leiðin um rúmlega 4150 km eða 38 %.  Þessi mikla stytting gefur kost á að minnka hraða skips úr 15 hnútum í 9 hnúta, og við það næst 78 % eldsneytissparnaður.  Eldsneytiskostnaður er 30 % - 60 % flutningskostnaðar.  Sé miðað við, að hægari sigling norður fyrir taki sama tíma og sigling um Súez, má reikna með nokkrum sparnaði norðurleiðina vegna lágs olíuverðs og þrátt fyrir ýmsan viðbótar kostnað, þegar siglt er frá Yokohama, en flutningar þaðan eru fremur litlir í samanburði við flutningana frá hinum höfnunum tveimur, og miðað við efnahagshorfur í Japan er umtalsverð aukning á vöruútflutningi þaðan til Evrópu/BNA ólíkleg.

Sveitarstjórnarmenn á landinu norð-austanverðu o.fl. hafa sumir tekið risastóra umskipunarhöfn inn í aðalskipulag sveitarfélaga sinna á grundvelli væntinga, sem búið er að skapa um flutninga Norð-Austurleiðina.  Þeir hafa líka mænt vonaraugum til olíu-og gasvinnslu á Drekasvæðinu og þjónustu í landi við hana.  Allt eru þetta vísast gyllivonir í fyrirsjáanlegri framtíð og ráðlegast að eyða ekki meiri tíma og fjármunum að svo stöddu í undirbúning fyrir slíkan vonarpening, heldur snúa sér að öðru, eins og Þingeyingar hafa nú gert með myndarlegri hvalaskoðunarútgerð og samningi við þýzka fyrirtækið PCC um kísilframleiðslu á Bakka. 


Bretaveldi á krossgötum

Á Bretlandi mun fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það eigi síðar en í árslok 2017, hvort Bretar verði áfram í Evrópusambandinu, ESB, eða segi sig úr því. Þetta verður sögulegur atburður hvorum megin hryggjar, sem Bretar lenda. 

Þann 12. október 2015 var stofnuð hreyfing til að berjast fyrir veru Breta í ESB, "Britain Stronger in Europe", undir formennsku Rose, lávarðar.  Andstæðingarnir hafa verið skipulagðir um hríð og haft sig í frammi.  Skoðanakannanir á meðal kjósenda hafa gefið tvíræða niðurstöðu.  Bretar virðast beggja blands.  Englendingar vilja fremur út, en Skotar halda áfram í ESB.

Það er vitað, að uppsetning spurninganna í þjóðaratkvæðagreiðslum hefur áhrif á niðurstöðuna.  T.d. hefur fólk tilhneigingu til að merkja fremur við svarið já en nei.  Upphaflega spurningin var á þessa leið: 

"Ætti Sameinaða konungdæmið að verða áfram aðili að Evrópusambandinu" ?,

en að kröfu landskjörstjórnar var bætt við spurninguna "eða að yfirgefa Evrópusambandið". 

Við þessa viðbót brá svo við, að andstæðingum ESB óx ásmegin, fóru úr 34 % fylgi í 40 % fylgi um þessar mundir, en fylgjendur ESB eru með 38 % fylgi. Yfir fimmtungur tekur ekki afstöðu, enda vantar rúsínuna í pylsuendann; samninga Camerons, forsætisráðherra, um eftirgjöf að hálfu ESB á völdum til brezka þingsins.

  Það má segja, að þetta örlagaríka mál fyrir Evrópu sé nú í járnum á Bretlandi.  ESB vill halda Bretum inni, en ekki gegn hvaða gjaldi, sem er. 

Það hefur gengið á ýmsu með afstöðu almennings til ESB á Bretlandi.  Árið 2011 náði fylgi andstæðinganna hámarki hingað til, sem var 52 %.  Það er skýrt með evrukrísunni og Grikklandsfárinu, sem þá voru mjög í fréttum.  Síðan dalaði fylgi andstæðinganna, en seinni hluta 2015 hefur fylgi andstæðinganna enn vaxið, og er það skýrt með kreppuástandi ESB vegna flóttamanna frá Afríku og Austurlöndum nær. 

Bretar hafa aldrei viljað sleppa sínu sögufræga sterlingspundi, og þeir hafa miklar efasemdir um straum flóttamanna til Bretlands á þessu ári.  Hann hefur orðið mikill þrátt fyrir, að Bretland standi utan Schengen-samstarfsins.  Margir Bretar telja auðveldara að stjórna innflæði þeirra, sem koma frá átakasvæðum og annars staðar frá utan ESB og innan, standi landið utan ESB, og margir hafa áhyggjur af, að brezk menning og þjóðareinkenni séu á hverfanda hveli í því þjóðahafi, sem blasir við vegfaranda í Lundúnum. 

Margir enskir kjósendur telja, að þeir séu að taka þjóðlegri afstöðu með úrsögn, og það kann að ráða úrslitum að lokum ásamt almennri tortryggni í garð aðkomumanna, sem heimamenn telja munu leggjast upp á velferðarkerfið og/eða undirbjóða vinnuafl heimamanna. 

Cameron hefur lofað Bretum því að endursemja við ESB um heimkvaðningu endanlegrar ákvarðanatöku í nokkrum málaflokkum, sem nú eru á forræði ESB í Brussel. Ekki er talið, að hann muni hafa erindi sem erfiði að öllu leyti, því að slík eftirgjöf að hálfu ESB yrði fordæmisgefandi fyrir önnur aðildarríki, sem ekki eru of sæl í vistinni hjá húsbændunum í Berlaymont.  Léleg niðurstaða í Brussel fyrir Cameron mun ekki blíðka Breta.  Hafni Bretar ESB, verður stjórnmálaferill Davids Cameron á enda, og úrsögnin kann að hafa keðjuverkandi áhrif á Bretlandseyjum og víðar. 

Það, sem Cameron ætlar að fá fram gagnvart ESB, er:

1) Innflytjendur: Cameron ætlar að stöðva "velferðarflækinginn" með því að takmarka nokkrar opinberar sporslur til nýrra innflytjenda.  Einkum vill hann 4 ára bann við opinberum fjárhagslegum stuðningi við innflytjendur, þ.á.m. til fólks í vinnu, sem kemur frá öðrum ESB-löndum. 

2) Hann vill draga úr miðstýringunni frá Brussel, og í sumum tilvikum vill hann færa völdin aftur heim til höfuðborga aðildarlandanna. Víða í Evrópu er stuðningur við þessa ósk, en hún stangast á við möntruna í Berlaymont (höfuðstöðvum ESB): "ever closer union". 

3) Hann vill átak við að leggja lokahönd á Innri markaðinn á sviðum eins og þjónustu, stafrænni tækni og orkumálum. 

4) Hann vill, að Bretar séu undanskildir ákvæði margra sáttmála ESB um "æ nánara samband á meðal þjóða Evrópu".

5) Hann vill færa þjóðþingunum, sem hann kallar hinn sanna uppruna lýðræðislegs valds í Evrópuverkefninu, meiri völd til að ógilda lagasetningu ESB í viðkomandi landi. 

6) Cameron vill að lokum tryggingu fyrir því, að hið sífellt nánara samband evrulandanna beinist ekki gegn hagsmunum landanna, sem utan evrusvæðisins eru.

Þessi samningsmarkmið Camerons við framkvæmdastjórn ESB og síðar leiðtogaráðið eru væg og greinilega sniðin til að auðvelda ESB-forkólfum að koma til móts við Breta.  Hætt er þó við, að almenningi muni finnast lítið til koma, og verði vandræði ESB í hámæli í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar, er næsta víst, að brezka þjóðin mun skipa ríkisstjórn og þingi að draga Bretland út úr ESB. 

Það er hugsanlegt, að í kjölfarið verði þróað nýtt fyrirkomulag aukaaðildar með Breta innsta á gafli og Ísland, Noreg, Liechtenstein og líklega fleiri í slagtogi með þeim. Ólíklegt er, að aukaaðildarríkjum muni verða leyft að taka upp evru, ef svo ólíklega færi, að eitthvert þeirra sæktist eftir því.  Á sama hátt gæti Berlaymont ekki hindrað aukaaðildarríki að gera viðskiptasamninga austur og vestur eða að taka upp einhvern annan gjaldmiðil en evru.  Fullt aðgengi að Innri markaðinum væri samt tryggt, eins og nú er innan EES.

Talið er, að úrsögn Breta muni framkalla kröfu Skota um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og að þá muni niðurstaða fyrri atkvæðagreiðslunnar snúast við.  Þetta gæti endað með, að Sameinaða konungdæmið (United Kingdom) verði sundraða konungdæmið, þ.e.a.s. Skotar hverfi af þinginu í Lundúnum og e.t.v. Walesverjar og Norður-Írar með þeim.  Mundi þetta breyta evrópskum stjórnmálum talsvert og draga úr vægi Bretlandseyja gagnvart meginlandi Evrópu,  sem jafnan hefur verið mikið, því að Skotar mundu leita inngöngu í ESB, en spurning, hvort þeir sækjast eftir aðild að NATO. 

Hins vegar hafa málsvarar sjálfstæðs Skotlands haft orð á því, að þeir vilji efla tengslin við Norðurlöndin.  Skotland verður sem sagt að líkindum ekki strandríki, heldur mun ESB fara með hagsmuni þeirra, svo að baráttan um flökkustofnana mun lítið breytast við þessar sviptingar.  Sú barátta, ásamt baráttunni fyrir viðskiptafrelsi, ætti að vera helzta viðfangsefni íslenzkra utanríkismála nú um stundir, en áherzlur utanríkisráðuneytisins eru einhvers staðar úti í móa.

David Cameron hitti forsætisráðherra Norðurlandanna í heimsókn sinni til Reykjavíkur í viku 44/2015.  Bretar virðast horfa meir til Norðurlandanna en áður um samstarf, og er það ánægjulegt. Íslendingar eiga að taka óskum Breta um nánara samstarf af vinsemd og með áhuga, hvað sem hagsmunaárekstrum fortíðar og ógurlegum mistökum ríkisstjórnar Verkamannaflokksins í Lundúnum haustið 2008 líður, þegar hún fór á taugum af ótta við hrun brezka fjármálakerfisins. Það er sjálfsagt að taka vel í óskir Breta um fýsileikarannsókn ("Feasibility Study") á aflsæstreng á milli landanna, en vara verður við öllum opinberum útgjöldum í þágu þessa tvíbenta verkefnis, og ekki kemur til mála, að Landsvirkjun, sem þegar er ríkjandi á íslenzka raforkumarkaðinum, verði aðili að þessu verkefni, heldur verður að stofna einkafyrirtæki um það án eignaraðildar eða ábyrgðar ríkisins.   

Stjórnmál meginlandsins eru líka í deiglunni.  Suður-Evrópu er í viðvarandi kreppu undir evruhelsinu.  Austur-Evrópa er óttaslegin vegna ógnandi hegðunar Rússa og útþenslustefnu ríkisstjórnarinnar í Kreml.  Heraflauppbygging á þess vegna sér stað austan gamla járntjaldsins og smitar örlítið vestur fyrir. 

Þar eru vandamálin fólgin í öldrun samfélaganna og litlum hagvexti, þ.e.a.s. stöðnun.  Evrópa er að verða undir í samkeppninni við Bandaríki hagvaxtar og asísku tígrana.  Evrópa er þó ekki liðin undir lok, og enginn skyldi vanmeta hana.  Ef Evrópuþjóðirnar létta meira undir með barnafjölskyldum, fer unga fólkið að fjölga sér meira en verið hefur raunin á í tæplega hálfa öld. Innflytjendur fjölga sér og ótæpilega, sem mörgum innfæddum er þyrnir í augum, og gætu sett barneignir á oddinn aftur.  

Hvaða ályktanir geta Íslendingar dregið af þróun mála á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum ?  Í stuttu máli, að Íslendingar eru á réttu róli, hvort sem litið er á þróun efnahagslífsins eftir Hrun eða auðlindanýtinguna.  Skelfileg meðferð ESB og ECB (Evrubankans) á þjóðum, sem illa fóru út úr sömu vandræðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, t.d. Grikkjum og Írum, í samanburði við þróun efnahags- og haftamála á Íslandi, ætti að færa flestum heim sanninn um, að það var hárrétt af þjóðinni að hafna helstefnu vinstri stjórnarinnar í þágu kröfuhafa föllnu bankanna og fjármálaveldis Evrópu, sem svo sterk ítök hefur í Berlaymont, að vinstri stjórnin vildi fórna efnahagslegu sjálfstæði landsmanna til að uppgjörsmál bankanna tefðu ekki fyrir inngöngu Íslands í ESB. Hvílíkur Jón í Hvammi ! 

Um auðlindahlið þessa máls er lærdómsríkt að lesa viðtal við fyrrverandi þingmann brezka Verkamannaflokksins fyrir Grimsby, Austin Mitchell, sem nýlega hlaut Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til bættra samskipta Breta og Íslendinga, en þegar Íslendingar gerðu sig líklega til að stugga við útlendingum á miðunum við Ísland, kom til harkalegra hagsmunaárekstra við Breta.  Viðtalið átti Stefán Gunnar Sveinsson, og birtist það í Morgunblaðinu laugardaginn 24. október 2015: 

"Mitchell er í hópi þeirra, sem hafa verulegar efasemdir um veru Bretlands í Evrópusambandinu.  Hann segist hafa varað Íslendinga við inngöngu og eitt sinn haldið erindi um ástæðu þess, sem sé einföld: 

"Landið reiðir sig á fisk.  Eina leiðin til þess að tryggja sjálfbærar veiðar er, að þjóðríkið ráði sinni eigin efnahagslögsögu."  Mitchell segir, að það yrði feigðarflan fyrir Íslendinga að ganga í ESB, nema hægt yrði að tryggja undanþágu frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins.

"Stefnan er reist á nýtingu á sameiginlegri auðlind, en fiskimiðin eiga ekki að vera það, þau eiga að vera ykkar eign, nema þið fáið undanþágu, segjum í þúsund ár", bætir Mitchell við hlæjandi.  "Þá mætti íhuga það."

Hann segir, að fiskveiðistefna ESB hafi stórskaðað breskan sjávarútveg.  "Það hefði verið rökrétt, eftir að Íslendingar lokuðu miðunum fyrir breskum skipum, að Bretar gerðu hið sama við sín eigin fiskimið, því að þau eru gjöful, en það var ekki hægt vegna sjávarútvegsstefnunnar."" 

Það er helber óskhyggja draumóramanna (annað verra orð mætti um þá nota, eins og textinn hér að ofan ber með sér) um aðild Íslands að ESB, að varanleg undanþága fáist frá CAP, "Common Agricultural Policy".  Slíkt er fordæmalaust, enda mundi það veita öðrum ríkjum svakalegt fordæmi um, að unnt sé að rífa upp sáttmála ESB, sem allar aðildarþjóðirnar hafa samþykkt og sem tilvera ESB er reist á.  Slíkt stríðir gegn grunnsamþykktum aðildarlandanna, og allar líkur standa til, að Evrópudómstóllinn mundi hafna slíku, fengi hann málið til úrlausnar. Ísland er á réttu róli með sitt óskoraða fullveldi í stafni, og landsmenn sigla nú seglum þöndum á framfara- og hagvaxtarskeiði, sem hófst strax eftir síðustu kosningar eftir óþarfa tafir.     

 

     

 


Snigillinn hefur stöðvazt

Í byrjun september 2015 voru birtar skoðanakannanir um fylgi við stjórnmálaflokka á Íslandi, sem sýna tveimur krataflokkum skriftina á veggnum. Því fer fjarri, að þessi þróun mála sé einsdæmi fyrir Ísland, heldur er um að ræða sömu tilhneigingu um alla Evrópu. Þessi þróun hefur valdið heilabrotum, og þess vegna verður gripið niður í hugleiðingar The Economist um málefnið í þessari vefgrein og blandað við eigin. 

Píratar á Íslandi eru angi af alþjóðlegri hreyfingu, sem þó nýtur hvergi viðlíka fylgis og í skoðanakönnunum á Íslandi, þar sem stuðningurinn var í byrjun september 2015 36 %.  Þetta er óánægjufylgi og mótmæli gegn ríkjandi valdastétt í öllum stjórnmálaflokkum. Rætur óánægjunnar standa þó mun dýpra en hjá persónum og leikendum, þannig að mannaskipti mundu engu breyta. 

Óánægjufylgi af þessu tagi hefur í Evrópu safnazt á þjóðernissinnaða flokka til hægri og  vinstri á hinu pólitíska litrófi, sem allir eru þó á móti skrifræðisbákninu í Brussel og vilja taka upp hefðbundið landamæraeftirlit og vísa flóttamönnum til baka, enda gætir mikillar tortryggni í þessum hópum gagnvart Múhameðstrúarmönnum.

Athyglivert er í öllu þessu umróti, að síðasta skoðanakönnun í Þýzkalandi gaf CDU, flokki Angelu Merkel, 43 % atkvæða, yfir landið allt.  Þetta er merkilegur árangur kanzlarans og stefnu flokks hennar, sem hefur í öndvegi Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi.  Þessi stefna beið ekki skipbrot í hruni fjármálakerfis heimsins 2008.  Þvert á móti sigldu Þjóðverjar þá tiltölulega lygnan sjó undir forystu CDU/Merkel. Merkel hefur nú tekið forystu um að opna Þýzkaland fyrir sýrlenzkum flóttamönnum, og á eftir að koma í ljós, hversu farsæl sú stefna er. Það er skoðun blekbónda, að Sjálfstæðisflokkinum á Íslandi væri hollt að leita fyrirmynda hjá CDU.  Til þess þarf ekki miklar breytingar; aðeins að skerpa á nokkrum atriðum. 

Um fall jafnaðarstefnunnar var grein í The Economist þann 1. ágúst 2015 eftir "Karlamagnús", og verður nú gripið niður í henni.

Gunter Grass, sem var áhugasamur um miðju-vinstri hugmyndir Willys Brandts, fyrrum borgarstjóra Vestur-Berlínar og kanzlara V-Þýzkalands, skrifaði grein um hinn hæga stíganda jafnaðarstefnunnar eftir seinni heimsstyrjöld, "Úr dagbók snigils". 

Nú hefur þessi snigill stöðvazt alveg.  Mið-hægriflokkar hafa knésett jafnaðarmenn í kosningum um alla Evrópu undanfarin ár og tekið við valdataumunum.  Undantekning eru Færeyjar, en þar varð tilviljun til þess, að jafnaðarmenn sigruðu í nýlegum kosningum til Lögþingsins, þar sem Lögmaðurinn var fundinn sekur um ósannsögli gagnvart Lögþinginu. 

Má lánleysi jafnaðarmanna furðu gegna í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008, sem mið-vinstriflokkum tókst engan veginn að notfæra sér til að knýja á um aukin ríkisafskipti, reglugerðasmíði, aukinn eftirlitsiðnað og minni áherzlu á frjálsan markað. Öll þessi áhugamál jafnaðarmanna eru til þess fallin að draga úr samkeppnihæfni fyrirtækja, og það hefur runnið upp fyrir kjósendum, að slíkt er ekki launþegum í hag.

Í forysturíki Evrópu, Þýzkalandi, hefur Angela Merkel, formaður kristilegra demókrata, CDU, ríkt síðan 2005.  Á Bretlandi hefur íhaldsstjórn verið við völd síðan 2010, og Jafnaðarmannaflokkurinn þar, sem koltapaði nýlegum þingkosningum, er uppteknastur við innri baráttu, naflaskoðun, um framtíðarstefnu og nýjan formann, sem gæti hæglega orðið svo langt til vinstri, að almennir kjósendur útskúfi flokkinum. Á Íslandi urðu næstum slík formannsskipti í vor hjá Samfylkingunni, en hún virðist reyndar vera á tortímingarbraut með sitjandi formanni, sem hangir í embætti á eigin atkvæði. Aumari frammistöðu formanns eru vart dæmi um.

Í Frakklandi er við völd í forsetahöllinni jafnaðarmaður með minna fylgi í skoðanakönnunum en nokkur fyrirrennara hans, og er endurkjör hans næsta vonlaust.  Meira spennandi er, hvernig formanni Þjóðarframvarðanna reiðir af, en hún er andsnúin ESB og innflytjendastefnu þess og stefnir á að taka við sem húsbóndi og húsfreyja í Elysée-höllinni eftir næstu forsetakosningar.

Jafnvel í Skandinavíu, sem var löngum þekkt fyrir hófsama vinstri stefnu við stjórnvölinn, hefur verið skipt um stefnu.  Að vísu sneru Svíar aftur til jafnaðarmannastjórnar árið 2014 eftir 8 ára mið-hægri stjórn, en nýja ríkisstjórnin fylgir fjárlagaáætlun fyrri ríkisstjórnar og er upp á náð og miskunn stjórnarandstöðu í Riksdagen komin. 

Hægri menn í Noregi bundu enda á 12 ára vinstri sinnaða samsteypustjórn árið 2013, og Helle Thorning Schmidt, danskur jafnaðarmaður, sem fór fyrir vinstri samsteypustjórn, missti völdin í Kristjánsborgarhöll í júní 2015. 

Í fyrrverandi Austantjaldslöndum eru dæmi um ríkisstjórnir, sem náð hafa nokkrum árangri, en eru samt hallar undir ríkisrekstur, t.d. í Tékklandi, en annars staðar hafa þjóðernissinnar og hægri menn hagnazt pólitískt á óvissunni, sem einkennt hefur eftirhruns tímann í Evrópu.

Auðvitað skipta persónuleikar máli, og einmitt núna eru fáir beinskeyttir persónuleikar í forystusveit jafnaðarmanna í Evrópu.  Eftirminnilegir persónuleikar í hópi leiðtoga jafnaðarmanna á borð við Willy Brandt, Helmut Schmidt og Gerhard Schröder í Þýzkalandi, Bruno Kreisky í Austurríki, Einar Gerhardsen og Gro Harlem Bruntland í Noregi og jafnvel Tony Bair á Bretlandi,

höfðu sjálfstraust og sóttust ekki bara eftir einróma ákvörðunum.  Í fremur litlausum hópi núverandi jafnaðarmannaleiðtoga stendur Sigmar Gabriel, leiðtogi SPD, þýzkra jafnaðarmanna og varakanzlari, upp úr, en það virðist ekki duga þýzkum jafnaðarmönnum til að ná forystu í Þýzkalandi, en þeir hafa þó 25 % fylgi nú í skoðanakönnunum. 

Mótlæti jafnaðarmanna í Evrópu á sér dýpri rætur en persónutengdar.  Ein er óþreyja almennings í garð valdhafa.  Miðju-vinstri flokkar voru víða við völd, þegar fjármálakreppan reið yfir; á Bretlandi,  í Grikklandi, Portúgal og á Spáni.  Kjósendur náðu sér niðri á valdhöfunum og voru í engu skapi til að taka við afsökunum. Í Grikklandi var PASOK, jafnaðarmannaflokkur, lengst af aðalvaldaflokkurinn eftir herforingjastjórnina 1974, en nú er hann með 4 % fylgi í skoðanakönnunum.  Það er sama og Björt framtíð hér um þessar mundir, sem nú fær væntanlega bráðlega nábjargirnar. 

Þessi óþreyja kjósenda getur skýrt nokkrar undantekningar frá reglunni.  Ítalir, sem umborið höfðu hæpið háttarlag Silvios Berlusconis, sem illa samræmdist katólskri háttprýði, snerust  til vinstri, þegar Demókrataflokkurinn eignaðist frambærilegan leiðtoga, Matteo Renzi.  Hann virðist nú einn á báti á evrópska sviðinu, þar sem endir örlagaþrungins efnahagsdrama er skrifaður af Þjóðverjum á mið-hægri væng. 

Frú Merkel, sem sat að völdum, þegar fjármálakreppan reið yfir, hélt völdunum, af því að kreppan í Þýzkalandi varð skammvinn, og hún festi sig í sessi sem fremsti leiðtogi Evrópuríkis með hörku gagnvart skuldugum þjóðum og hélt þó Evrópusamstarfinu gangandi. Þetta blessaða Evrópusamstarf er þó alfarið smurt af evrum, sem verða til við verðmætasköpun í Þýzkalandi.  Hvað verður um það, ef/þegar Bretar segja skilið við ESB 2017 ?

Þrátt fyrir allar deilurnar um aðhaldssemi (austerity) í Evrópu þá hefur boðun hennar hljómað skynsamlegri í eyrum kjósenda en töfrabrögð í anda Keynes.  Kjósendur hafa hugsanlega ályktað sem svo, að yrði á annað borð að skera niður opinberan kostnað, þá færi flokkum minni ríkisafskipta það betur úr hendi en flokkum, sem hallir eru undir mikil og vaxandi ríkisafskipti. Þetta sannaðist á síðasta kjörtímabili á Íslandi, þar sem niðurskurðurinn var algerlega misheppnaður, og þetta sannast núna í Reykjavík undir jafnaðarmanni í borgarstjórastóli, sem stingur hausnum í sandinn gagnvart geigvænlegri skuldasöfnun borgarinnar.

Ær og kýr jafnaðarmanna eru mikil opinber útgjöld til að koma á þjóðfélagsumbreytingum, og þessa hugmyndafræði skorti allan trúverðugleika, þegar markaðirnir vantreystu og hækkuðu vexti mjög á skuldabréfum skuldugra þjóða.  Meira aðlaðandi hefur verið sú tilhneiging sumra mið-hægri ríkisstjórna "að stela" nokkrum stefnumálum vinstrisins, t.d. að hækka lágmarkslaun í Þýzkalandi og á Bretlandi, eða að taka hjónaband samkynhneigðra upp á arma sér, eins og Íhaldsflokkurinn, brezki. 

Frá falli Ráðstjórnarríkjanna hafa hefðbundnir stórflokkar haft tilhneigingu til klofnings, en miðju-vinstrið hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum af völdum fækkunar iðnverkamanna og fækkunar félaga í verkalýðsfélögum. Stéttasamsetning vestrænna þjóðfélaga er að breytast, svo að ekki sé nú minnzt á aldurssamsetninguna, sem þvinga mun fram minnkandi útgjöld til velferðarmála á hvern íbúa yfir sextugu vegna fækkunar á vinnumarkaði. Það eru líklega lýðfræðilegar ástæður meðvirkandi í falli jafnaðarmanna Evrópu. 

Nýtt vandamál, sem fjármálakreppan jók, er vaxandi gengi lýðskrumara, sem ógna ríkjandi öflum.  Jafnaðarmannaflokki Grikklands, PASOK, var nærri útrýmt af öfgakenndum Syriza flokkinum.  Jafnaðarmenn Spánar hafa misst fylgi til andaðhaldsflokksins Podemos.

Jafnvel UKIP, andstöðuflokkur við aðild Breta að ESB, sem aðallega hýsti óánægða íhaldsmenn, hefur dregið til sín fylgi frá jafnaðarmönnum.  Matthew Taylor, fyrrverandi aðstoðarmaður síðasta sigursæla brezka jafnaðarmannaleiðtogans, Blairs, segir, að nýjar hreyfingar geti státað af því að vera á svipaðri bylgjulengd og almenningur og þröngva stóru flokkunum þannig til hliðar.  Nýgræðingarnir, segir Taylor, hafa frumlegra og breytilegra skipulag, en hefðbundnir vinstri flokkar séu bundnir við flokksþing og goggunarröð innan flokkanna.

Efasemdir kjósenda varðandi innflytjendastefnu stjórnvalda stafa m.a. af ótta verkalýðs við aukið atvinnuleysi og samkeppni á vinnumarkaði.  Ímynd jafnaðarmanna sem rausnarlegur flokkur fyrir hönd skattgreiðenda, sem ekkert aumt megi sjá án þess að snara út fúlgum fjár, er að snúast upp í stjórnmálalega byrði fyrir jafnaðarmannaflokkana í heimi alþjóðavæðingar og flóttamannastraums. 

Franz Walter, stjórnmálasagnfræðingur við háskólann í Göttingen, hefur bent á, að þýzki jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, hafi verið áhrifaríkt stjórnmálaafl í yfir 150 ár, en aðeins verið við völd í 30 ár.  Með hægfara nálgun sinni á fjarlægum markmiðum eru þeir e.t.v. ánægðari með að undirbúa valdatöku sína en að hafa völdin, segir Walter.  Ennfremur segir hann, að þeir séu alsælir með að dreyma um betri framtíð, og í mörgum tilvikum eru aðrir að skapa þessa framtíð núna. Sem sagt, jafnaðarmenn eru draumóramenn, en litlir sem engir stjórnendur.  Á þessi lýsing ekki býsna vel við jafnaðarmanninn í borgarstjórastóli Reykjavíkur ?  Ákvarðanafælni lýsir honum vel. 

Birtingarmynd stjórnmálalegrar óþreyju kjósenda á Íslandi er Sjóræningjaflokkurinn.  Sá flokkur hefur sogað til sín fylgi jafnaðarmanna á Íslandi og Sjálfstæðisflokksins.  Þetta hefur ekki verið útskýrt almennilega, en tvennt getur t.d. valdið þessu:

1) Kjósendur fundu fyrir afli sínu í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave.  Þáverandi stjórnarflokkar, jafnaðarmenn (Samfylking) og róttækir félagshyggjumenn (vinstri grænir), börðust hatrammlega gegn þessum þjóðaratkvæðagreiðslum, sem þó gáfu mjög góða raun, þegar upp var staðið.  Jafnaðarmenn við stjórnvöl borgarinnar með borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, í broddi fylkingar, hafa staðið gegn því að höggva á Gordíons-hnútinn, sem myndazt hefur um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að vísa málinu til kjósenda.  Borgaralegu flokkarnir, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram með þremur flugbrautum.  Þeir styðja báðir þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn, því að framtíð hans varðar auðvitað landsmenn alla.  Hið mótsagnakennda er, að sjóræningi stendur að meirihlutanum með Degi í borgarstjórn, en hann hefur ekki látið steyta á þessu mikla lýðræðismáli sjóræningjaflokksins, pírata. Sá flokkur reynist þess vegna vera nákvæmlega jafnlaus í rásinni og hann virðist vera, og kjósendur geta þess vegna síður en svo reitt sig á, að hann standi við stóru orðin.  Stjórnarflokkarnir eru með stjórnarskrárbreytingu í bígerð, sem m.a. á að breyta ákvæðinu um synjunarheimild forseta lýðveldisins í heimildarákvæði þings og þjóðar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ráðgefandi eða bindandi, eftir atvikum. 

Þess má geta, að margir kjósendur hérlendis virtust vilja fá að kjósa um framhald aðildarviðræðna að ESB, sem stjórnarflokkarnir lögðust gegn, af því að hún hefði verið fullkomlega órökrétt af tveimur ástæðum.  Í fyrsta lagi var það ESB, sem stöðvaði viðræðurnar, af því að lágmarksskilyrði Alþingis og landbúnaðar- og sjávarútvegssáttmáli ESB voru ósamrýmanleg.

Hitt var, að stjórnarflokkarnir, sem umboð hafa til að stjórna landinu út þetta kjörtímabil, eru báðir andvígir inngöngu Íslands í ESB. Það var þess vegna fjarstæðukennt að fela þeim að semja við ESB um inngöngu, og ESB hefði ekki tekið í mál að taka þátt í slíkum pólitískum farsa, enda hafa menn þar á bæ öðrum hnöppum að hneppa um þessar mundir. 

Hvor röksemdin um sig dugði til að fella tillöguna um þjóðaratkvæði um framhald samkomulagsgerðar um aðild Íslands að ESB, enda hefði þjóðin þannig verið dregin á asnaeyrunum á kjörstað, þar sem niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gat engu breytt um núverandi stöðu.  

2) Hitt atriðið, sem tína má til skýringar á miklu óánægjufylgi, er mikill húsnæðiskostnaður hérlendis. Hann er ekki vegna hærri byggingarkostnaðar en í nágrannalöndunum, þó að hérlendis geti hann lækkað, heldur vegna miklu hærri fjármagnskostnaðar. Um þetta ritar Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf, beinskeytta grein í Morgunblaðið 5. september 2015 undir fyrirsögninni:

"Á að horfa á eftir ungu fólki úr landi eða bjóða því framtíð hér ?"  Greinin hefst þannig:

"Við erum nú að upplifa hér á landi eina mestu eignatilfærslu, sem núlifandi Íslendingar hafa upplifað.  Eignatilfærslan er frá þeim, sem skulda, yfir til þeirra, sem lána. Fyrir utan þá, sem standa í rekstri, er það unga fólkið okkar, sem skuldar, þ.e. það sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið.  Einnig skulda þeir, sem byggja leiguhúsnæði fyrir það fólk, sem ekki hefur sjálft fjárráð til að festa sér fasteign. 

Eignatilfærslan er það stórkostleg í íslenzku þjóðfélagi, að hún kemur í veg fyrir, að venjulegt fólk geti eignazt þak yfir höfuðið og heldur uppi leiguverði, þannig að hvorug leiðin er valkostur fyrir það unga fólk, sem er að reyna að hefja sitt sjálfstæða líf.

Þeir, sem eru kallaðir til sem álitsgjafar til að fjalla um vandamálið, eru þeir sömu og hagnast mest á eignatilfærslunni, enda forðast þeir að ræða hana."

Sigurður Ingólfsson kemst síðan að því, að árlegur mismunur á fjármagnskostnaði (án afborgana) á Íslandi og í nágrannalöndunum nemi MISK 1,5-2,5 af MISK 30 láni til húsnæðiskaupa, og síðan skrifar hann:

"Það þarf ekki mikinn speking til að draga þá ályktun, að þetta sé aðalástæðan fyrir því, að allt of fáar íbúðir eru byggðar nú þrátt fyrir uppsveiflu í þjóðfélaginu."

Í lokakafla greinarinnar stendur:

"Þeim fækkar, sem geta tekið lán með þessum aðferðum, en hvað gerir það til; fjármagnseigendurnir (vogunarsjóðirnir) eru búnir að ná því, sem þeir geta, út úr viðskiptunum og verða fljótlega farnir með það fé, sem þeir hafa sogað til sín á þennan hátt, og þurfa ekki á þeim að halda eftir það."

Það er áreiðanlegt, að hér eru miklir hagsmunir í húfi, sem snerta nægilega marga til að valda stjórnmálalegri ólgu og flótta til stjórnleysingjanna frá núverandi stjórnarflokkum og frá jafnaðarmönnum, en hinir síðar nefndu eru sekir um að hafa fært vogunarsjóðunum tvo banka á silfurfati. Í þessu sambandi breytir engu, þó að sjóræningjar hafi engar lausnir á takteinum á þessu mikla þjóðfélagslega viðfangsefni frekar en öðrum aðsteðjandi vanda, enda er þar fátt um fína drætti. 

Grein Sigurðar lýkur með eftirfarandi spurningu:

"Er ekki kominn tími til fyrir stjórnvöld, að þau taki að sér að stjórna fjármálum þjóðarinnar sjálf ?"

Undir allt þetta er unnt að taka. Kannski bera menn þá von í brjósti, að Pírataflokkurinn muni hrista upp í peningamálastjórnuninni og taka ráðin af Seðlabankanum varðandi vaxtaákvarðanir.  Hefðu þeir bolmagn til þess, og hafa þeir bein í nefinu til þess ?  Kannski þeir láti kjósa um vextina ?

Aðgerðir núverandi félagsmálaráðherra eru hálfkák eitt.  Miðað við greiningu Sigurðar Ingólfssonar hér að ofan skilur Eygló Harðardóttir ekki vandamálið, og þess vegna munu tillögur hennar einvörðungu gera viðfangsefnið erfiðara viðfangs, komist þær til framkvæmda. 

Vonir standa til, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi hins vegar áttað sig á kjarna vandans og að ríkisstjórnin muni á kjörtímabilinu hefja vegferð í rétta átt til lausnar, þ.e. til lækkunar á fjármagnskostnaði við húsbyggingar.  Í Noregi eru nú íslenzkir byggingarverkamenn, iðnaðarmenn, verkfræðingar og aðrir, sem teknir eru að horfa heim eftir verðugum verkefnum, þar sem hallar undan fæti í norsku hagkerfi. Lækkun fjármagnskostnaðar mun strax leiða til fjölgunar nýbygginga hér, og það mun að öllum líkindum duga til að laga fylgistölur stjórnarflokkanna.   

Hvað sem þessum vangaveltum líður, ættu núverandi stjórnvöld að íhuga vandlega stefnumótun, sem leitt getur til raunhæfra úrræða til lækkunar fjármagnskostnaðar húsbyggjenda.       

  

 

 

    

  

     


Sýndarveruleiki utanríkisráðherra

Þegar raunveruleikinn loks rann upp fyrir ráðuneyti utanríkismála við Rauðarárstíg í Reykjavík, þá greip það í tómt. Hringt var af Rauðarárstíg í skiptiborðið í Berlaymont í Brussel, en viðkomandi, sem beðið var um Sambönd ráðuneytisstjórans, fyrrverandi aðalsamninsamband við, voru þá í orlofigamanns um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, í Berlaymont, eru þá ekki beysnari en þetta.  Eru engin takmörk fyrir eymd einnar stjórnsýslu ?

Í ársbyrjun 2014 var rífandi gangur í samskiptum Íslands og Rússlands á viðskiptasviðinu, og samskipti stjórnvaldanna endurspegluðu þetta.  Á einum áratugi, 2004-2013, þrettánfaldaðist vöruútflutningur Íslands til Rússlands og nam líklega ISK 35 milljörðum árið 2014.  Íslenzkir útflytjendur fiskafurða hafa í samvinnu við rússneska innflytjendur þróað nýjan og dýrmætan markað, sem líklega var einstæður í þeim skilningi, að annars staðar er ekki unnt að þróa annan sambærilega verðmætan markað fyrir þær uppsjávarafurðir, sem hér um ræðir.  Þar að auki hlupu Rússar undir bagga með Íslendingum, þegar ESB o.fl. gerðu tilraun til að kúga Íslendinga til að hverfa frá fyrirætlunum sínum um nýtingu á nýrri tegund í lögsögunni, makrílnum. 

Við þessar aðstæður var rétt af utanríkisráðuneytinu að funda með Rússum í Reykjavík um þróun viðskipta landanna á fjölmörgum sviðum. Í tilkynningu Utanríkisráðuneytisins í Reykjavík 30. janúar 2014 stóð, að fulltrúar ríkjanna mundu hittast einu sinni eða tvisvar á ári til að ræða fjölbreytileg verkefni til að stuðla að og greiða fyrir viðskiptum á milli landanna.  Á fundinum var rætt um ferðaþjónustu, matvæli, fjarskipti, fjárfestingatækifæri og orkumál auk nýsköpunarverkefna. Tekið var fram, að sendiráð landanna ynnu ötullega að því að fylgja þessum málum fram í samstarfi við atvinnulífið. 

Í ársbyrjun 2014 lék sem sagt allt í lyndi á milli Íslendinga og Rússa.  Hefði utanríkisráðherra Íslands betur haldið í heiðri ofangreinda viljayfirlýsingu í stað þess að eltast við ESB og áhangendur þess á Alþingi, en hann átti á þessum tíma nokkuð undir högg að sækja hjá þeim vegna ógildingar umsóknarinnar um aðild að ESB.

Nú tekur hann til við að láta eins og fíll í postulínsbúð algerlega að þarflausu.  Í aðdraganda innlimunar Krím í Rússland í marz 2014, sem auðvitað var brot á alþjóðalögum og bar að mótmæla, kallaði Gunnar Bragi Sveinsson sendiherra Rússlands á sinn fund og sagði grundvallaratriði, að Rússar stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum og drægju herlið sitt til baka úr Úkraínu.

Látum þessa framkvæmd utanríkisstefnunnar vera, en svo fór Utanríkisráðherra yfir strikið þann 7. marz 2014, er hann lýsti yfir stuðningi við alþjóðlegar aðgerðir í þágu Úkraínu, og hinn 17. marz 2014 lýsti hann því yfir, að alþjóðasamfélagið þyrfti að senda skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi.  Íslendingar gætu á grundvelli EES-samningsins tekið þátt í refsiaðgerðum ESB og ættu að gera það. 

Þarna gekk ráðherrann of langt.  Íslendingar hefðu ekki átt að taka þátt í sérsniðnum refsiaðgerðum ESB, því að þátttaka Íslands breytti alls engu um þær, þar eð viðkomandi vörur og þjónusta eru ekki í boði á Íslandi. Utanríkisráðherra með bein í nefinu hefði útskýrt þetta skilmerkilega fyrir starfsbræðrum og síðan og tilkynnt rússneska sendiherranum, að hann teldi viljayfirlýsingu þjóðanna frá ársbyrjun 2014 í fullu gildi.

Um lokahnykk vitleysunnar skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, í Morgunblaðið 21. ágúst 2015, "Harka hleypur í Rússaviðskipti":

"Hinn 20. mars 2014, eftir samráð utanríkisráðherra við  utanríkismálanefnd, tilkynnti utanríkisráðuneytið, að ráðherrann hefði þann sama dag staðfest "þvingunaraðgerðir gegn rússneskum og úkraínskum einstaklingum, sem tengjast aðgerðum Rússa á Krímskaga."  Utanríkisráðherra fordæmdi innlimun Rússlands á Krím og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 16. mars."

Utanríkisráðherra tók sér stöðu með "haukunum" í þessu máli algerlega að þarflausu og þrátt fyrir að vera í engu hafður með í ráðum um refsiaðgerðirnar og að þær vörðuðu Ísland ekkert.  Síðan kom innflutningsbann Rússa á matvæli frá "refsiþjóðunum", nema Íslendingum og örfáum öðrum.  Þá þekkti utanríkisráðuneyti Íslands ekki sinn vitjunartíma og lét algerlega hjá líða að tryggja sér áframhaldandi undanþágu.  Fyrir vikið stendur Ísland viðskiptalega mun ver að vígi í viðskiptaátökum við ESB, sem munu halda áfram sem þáttur í baráttunni um deilistofnana, vinnuframboð á Íslandi minnkar, fyrirtæki verða fyrir skelli og dregur úr hagvexti.  Síðast en ekki sízt er búið að ómerkja gott og vaxandi viðskiptasamband við stóran markað.

Þetta eru pólitísk afglöp af stærri gerðinni, sem draga munu dilk á eftir sér.  Fyrir þeim er æðsta stjórn Utanríkisráðuneytisins ábyrg, og þessi ábyrgð merkir í þessu tilviki, að ráðuneytisstjórinn og/eða ráðherrann verður að axla sín skinn.   

  

 

  

 

 

 


Utanríkismál á krossgötum

Það hefur hvað eftir annað undanfarinn áratug komið í ljós, að Ísland verður að reka sjálfstæða utanríkisstefnu til að vernda hagsmuni sína, og getur engan veginn reitt sig á stuðning hinna vestrænu bandamanna sinna, þegar hagsmunir rekast á, og hagsmunir nágranna rekast fremur á en annarra. 

Alþingi öðlaðist forræði utanríkismála landsins með Lýðveldisstofnuninni 17. júní 1944, og alloft á lýðveldistímanum hefur þetta komið í ljós og einna skýrast við útfærslur landhelginnar.  Þá mættum við jafnan harðri andstöðu öflugra Evrópuþjóða, en vinsemd og stuðningi Bandaríkjanna (BNA) og Ráðstjórnarríkjanna. Ekki þarf að orðlengja hörmulega framkomu Breta og stuðningsleysi Norðurlandanna, nema Færeyinga, þegar himinninn hrundi yfir Ísland í októberbyrjun 2008. Samstaða með Íslandi á meðal hefðbundinna bandamanna er af mjög skornum skammti, nema komi til hernaðaraðgerða gegn Íslandi, þá treystum við því, að 5. grein stofnsamnings NATO verði virkjuð.

Stofnaðild að NATO 1949 olli heiftúðugum deilum hérlendis ásamt sérstökum varnarsamningi við BNA, en hefur reynzt landinu farsællega.  Engu að síður tóku bandarísk hermálayfirvöld einhliða ákvörðun um að leggja niður herstöðina á Miðnesheiði 2006.  Varnarlega skákum við hins vegar í skjóli 5. greinar stofnsamþykktar NATO um, að árás á einn jafngildi árás á öll aðildarlöndin.  Í sambandi við ögrandi atferli Rússa í Evrópu undanfarið, sem að töluverðu leyti er líklega ætlað til "heimabrúks" þar í landi, þó að einhliða breytingu á landamærum sé ekki hægt að samþykkja, hafa hins vegar vaknað efasemdir um, að þetta ákvæði haldi.  Hafa verið gerðar skoðanakannanir í sumum NATO-landanna, og í sumum þeirra er meirihluti svarenda andvígur því að koma t.d. Eystrasaltslöndunum til hjálpar, ef Rússar gera þar innrás.  Má þar nefna Þjóðverja og Frakka, en Engilsaxarnir vilja flestir standa við þetta grundvallar ákvæði, enda stendur NATO og fellur með því.  Við sjáum þó af öllu þessu, að allt er í heiminum hverfult.

Meirihluti Íslendinga styður líklega enn aðild að NATO, og svo er um þennan arma blekbera. Þetta þýðir það, að taki Vesturveldin ákvörðun um það að fara í viðskiptastríð við Rússa til að veikja efnahag þeirra og hernaðarmátt, t.d. með allsherjar banni við útflutningi á vörum og þjónustu til Rússlands og/eða banni við innflutningi þaðan, þá verða Íslendingar að taka þátt í því undanbragðalaust og bera sínar byrðar, sem af slíku leiðir.

Núverandi viðskiptahömlur Vesturveldanna á Rússa eru hins vegar mjög valvísar og snerta íslenzkan útflutning ekki neitt.  Það var þess vegna alger óþarfi af íslenzkum yfirvöldum að vera með á lista um þjóðir, sem setja viðskiptahömlur á Rússa. Með öðrum orðum hefði fjarvera Íslendinga af lista þessara þátttökuþjóða engu breytt, og við þurfum hið snarasta að hverfa af honum. Við hefðum á sinni tíð, og getum enn, getað gefið út yfirlýsingu um, að íslenzk yfirvöld mundu sjá til þess, að téðar bannvörur og -þjónusta færu ekki um Ísland, enda séum við andvíg breytingum á landamærum í Evrópu með hervaldi, eins og óyggjandi átti sér stað á Krím og í Austur-Evrópu að hálfu Rússa. 

Nú hafa Rússar ákveðið að refsa bannþjóðunum með því að banna innflutning matvæla frá þeim.  Þetta bann kemur harðast niður á Íslendingum með tapi á gjaldeyristekjum, sem gæti numið 1 % - 2 % af VLF, þegar upp verður staðið. Komið hefur fram, að yfirvöld í ESB-ríkjunum eða ESB-sjálft, og e.t.v. Bandaríkjastjórn, muni bæta útflutningsaðilum hluta tjónsins.  Á sama tíma halda þessi ríki úti viðskiptahamlandi gjaldtöku á Ísland fyrir þessar sömu vörur og hafa ekki viljað koma til móts við sjónarmið Íslendinga um skiptingu deilistofna.

Staðan er sú, að Íslendingar og Rússar hafa þróað markað í Rússlandi fyrir vöru, sem Vestur-Evrópa kærir sig lítt um.  Þar að auki eru þessi sömu Vestur-Evrópulönd andvíg veiðum okkar á þeim flokkustofnum, sem hér um ræðir, en miklir hagsmunir eru í húfi, eins og áður segir.  Rússar hafa sem sagt hlaupið undir bagga með Íslendingum, þegar þeir áttu ekki í önnur hús að venda vegna andstöðu og beinna markaðslegra kúgunaraðgerða Vestur-Evrópu.  Við þessar aðstæður hvílir hvorki á okkur siðferðis- né viðskiptaleg skylda til að sýna málamynda samstöðu með þvingunaraðgerðum Vesturveldanna gagnvart Rússum.  Miklu fremur ber okkur að sýna Rússum vinarþel, og ekki að storka þeim að óþörfu, þó að enginn vafi sé á, hver afstaða okkar verður, ef í harðbakka slær.

Hitt er annað mál, að lágt olíu- og gasverð hefur veikt mjög efnahag Rússlands með slæmum afleiðingum fyrir kaupmátt almennings, hárri verðbólgu, háum vöxtum og gengisfalli rúblunnar.  E.t.v. er bann Rússa nú við matvælainnflutningi liður í gjaldeyrissparandi átaki og til að þvinga fram aukna matvælaframleiðslu í Rússlandi.

Íslenzka utanríkisþjónustan þarf að komast að því, hvort hægt verði að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið í viðskiptum Íslands og Rússlands, ef Ísland lætur af beinum stuðningi við þessar viðskiptaþvinganir.  Ráðuneytið hreyfir hins vegar hvorki legg né lið, af því að ráðherrann hefur lýst því yfir, að ekki komi til mála að hverfa frá þessum stuðningi. 

Ráðherrann er frosinn í kaldastríðsafstöðu, sem er Íslandi mjög óhagstæð, hvernig sem á málið er litið, og það sem verra er, hún er öðrum fullkomlega gagnslaus.  Af þessum ástæðum verður að koma til kasta Alþingis.  Þingið eitt getur komið hreyfingu á þetta mál til hins betra með fyrirskipun til ríkisstjórnarinnar og eftir atvikum vantrauststillögu á ráðherrann.  Vill Framsóknarflokkurinn fara í kosningar nú út af þessu máli, eða fórnar hann biskupi fyrir vænlegt endatafl ?  Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með afstöðu þingmanna til þessa máls.  Hér er alvöru mál á ferðinni, sem reynir á þá, og þeir taka vonandi afstöðu á grundvelli, sem Stjórnarskráin mælir fyrir um.   

Á bak við tjöldin þarf að gera yfirvöldum í Brussel, Berlín, London og Washington ljóst, að um sé að ræða nauðvörn að okkar hálfu, og hyggi Vesturveldin á einhvers konar refsingar, muni það óhjákvæmilega hrekja okkur til að huga að endurskoðun á viðskiptatengslum í austur og vestur.  Þetta er það, sem kallast sjálfstæð utanríkisstefna. Engir taglhnýtingar viljum vér vera.  

  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband