Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
22.4.2015 | 19:46
Brezku þingkosningarnar í maí 2015
Margir hérlendis fylgjast með stjórnmálum á Bretlandseyjum. Framundan eru tvísýnni kosningar en menn rekur minni til. Kosið er um 650 þingsæti, og samkvæmt spámeðaltali undanfarið mun Íhaldsflokkurinn fá 280 þingmenn, Verkamannaflokkurinn 273, Skozki þjóðarflokkurinn (SNP) 46, Frjálslyndi flokkurinn 25, UKIP (Sjálfstæðisflokkurinn) 4 og aðrir 22. Þetta er meiri fylgisdreifing en menn rekur minni til á Bretlandi, og fara Bretar ekki varhluta af evrópskri tilhneigingu að flýja stóru flokkana.
Frjálslyndir tapa svo miklu, að sitjandi ríkisstjórn þeirra og íhaldsmanna mun falla. Tölulega séð gætu Íhaldsflokkur og SNP myndað meirihlutastjórn, en SNP hefur hafnað slíkum möguleika. Ekki eru taldar vera pólitískar forsendur fyrir "stórsamsteypu" íhaldsmanna og jafnaðarmanna, eins og nú er við lýði í Berlín, en í ljósi erfiðrar efnahagsstöðu Bretlands skyldi þó ekki útiloka þá niðurstöðu. Verður það sjón í sólskini.
Brezki ríkissjóðurinn hefur undanfarin ár verið rekinn með töluverðum halla og hafa þess vegna safnazt upp miklar ríkisskuldir. Þá er líka mikill halli á viðskiptunum við útlönd, svo að rekstur brezka þjóðarheimilisins er fjármagnaður með erlendu lánsfé. Samsteypustjórn Íhalds og Frjálslyndra hefur beitt aðhaldsaðgerðum og orðið nokkuð ágengt, eins og sést hér að neðan, þar sem tölur eru hlutfall af VLF:
2010 2011 2012 2013 2014 2015
Halli á ríkisbúskapi 8 % 6 % 5 % 5 % 4 % 3 %
Viðskiptahalli 3 % 1 % 4 % 5 % 5 % 4 %
Alex Salmond, skozki þjóðernissinninn, sem leiða mun þingflokk SNP, hefur lýst því yfir, að hann muni greiða atkvæði gegn öllum lagafrumvörpum íhaldsmanna. Minnihlutastjórn íhaldsmanna yrði þess vegna líklega skammlíf. Miliband, formaður Verkamannaflokksins, hefur hins vegar hafnað stjórnarsamvinnu við Alex Salmond, því að Alex hefur rústað stöðu jafnaðarmanna á Skotlandi. Alex Salmond vill hætta aðhaldi í ríkisrekstri um sinn og leggja hraðlest á milli London og Edinborgar að hætti Frakka og Þjóðverja. Segja má, að Skotinn Alex Salmond og flokkur hans, SNP, verði fulltrúi upplausnar og ábyrgðarleysis í brezka þinginu. Ætla Skotar að verða Englendingum erfiður ljár í þúfu og stefnir nú enn í aðskilnað þjóðanna, sem yrðu stórpólitísk tíðindi fyrir Evrópu og mundi hafa áhrif á norrænt samstarf.
Það er sammerkt flestum Evrópulöndum, að hefðbundnir stórflokkar þar á stjórnmálasviðinu eiga undir högg að sækja, og jaðarflokkar sækja í sig veðrið. Dæmi frá Íslandi eru "Píratar", "som glimrer med sit fravær", svo að notað sé norskt orðatiltæki, þ.e. þeir blómstra með afstöðuleysi sínu og sigla þar með í raun undir fölsku flaggi, enda mun þeim ekki haldast á fylgi, sem þeir mælast með í skoðanakönnunum um þessar mundir, heldur eru dæmdir undir 10 % með fátæklegri stefnumörkun sinni, sem ekki getur höfðað til fjöldans, þegar nær dregur kosningum. Spurning er, hvort s.k. Viðreisn lætur verða af hótunum um þingframboð, og hvort klofningur verður á vinstri vængnum, en þar er mikil gerjun núna, ef marka má átökin á landsfundi Samfylkingar nú á útmánuðum.
Brezka kosningakerfið er hannað fyrir hreinar línur í pólitík og eins flokks meirihlutastjórnir. Þar geta flokkar náð meirihluta á þingi með aðeins þriðjungsfylgi á landsvísu. Nú er sundrungin svo mikil á meðal kjósenda, að meirihlutastjórnir og stöðugleiki í stjórnmálum virðist vera liðin tíð á Bretlandi, en það gæti breytzt til fyrra horfs við klofning Sameinaða konungdæmisins, UK. Hugsanlega á mikill fjöldi innflytjenda þátt í þessari þróun, því að þeir eru ekki háðir neinum flokkspólitískum hefðum á Bretlandi og líklegir til að leita út fyrir viðtekna meginstrauma, því að margir þeirra eiga erfitt með að fóta sig í samfélaginu, þar sem þeir hafa kosið að setjast að. Ekki má heldur gleyma því, að "frumbyggjarnir" eru áhyggjufullir vegna mikils fjölda innflytjenda og mótmæla stefnu gömlu flokkanna þriggja í innflytjendamálum með því að kjósa jaðarflokka, sem vara eindregið við þjóðfélagsvandamálum, sem af þessari stefnu eða stefnuleysi geta leitt.
Fjárfestar fylgjast með þróuninni. Þeir vita, að vinni Íhaldsflokkurinn meirihluta, hefur hann skuldbundið sig til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017 um veru Bretlands í Evrópusambandinu, ESB. Flest bendir nú til, að Bretar hafi nú fengið sig fullsadda af valdaframsalinu frá Westminster til Berlaymont, og muni meirihluti kjósenda gefa Brüssel langt nef og leggja fyrir ríkisstjórnina að segja upp aðildarsamningi Bretlands við ESB. Það verða meiri tíðindi en úrsögn Grikklands úr myntsamstarfi ESB og mun hafa áhrif á utanríkisstefnu Íslands, sem þá gæti hneigzt til nánara samstarfs við Westminster og Englandsbanka en verið hefur.
Allt sýnir þetta, eitt með öðru, að framtíð ESB er í uppnámi og enginn veit, hvert stefnir. Við þessar óljósu aðstæður gaspra nokkrir svefngenglar í hópi stjórnmálamanna á Íslandi og aðrir fylgismenn aðildar Íslands að ESB, að nú sé mála brýnast, að þjóðin fái að tjá sig um það, hvort halda eigi áfram "að kíkja í pakkann", þó að viðræðurnar hafi árið 2011 náð "dead end", þ.e. lent í blindgötu, þar sem ljóst var, að skilyrði Alþingis og sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna ESB eru ósamrýmanleg. Þar að auki er búið að ógilda allar skuldbindingar Íslands úr aðildarviðræðum Össurar, svo að hefja yrði nýja vegferð á byrjunarreit. Hegðun aðildarsinna í kjölfar afturköllunarinnar sýnir, að þeir hafa tekið trú. Þetta er reyndar Mammonstrú, því að viðurkennt er, að ESB gagnast mest stórfyrirtækjum og fjármagnseigendum. Á Íslandi er pólitíski drifkrafturinn fyrir inngöngu í ESB með þyngdarpunkt vinstra megin við miðju stjórnmálanna. Það hefði mönnum á borð við Magnús Kjartansson, fyrrverandi ráðherra og ritfæran ritstjóra Þjóðviljans, og Lúðvík Jósefsson, frækinn þingmann Austfirðinga, þótt saga til næsta bæjar. Nú eru breyttir tímar, frá því að þessir miklu vinstri menn voru á dögum. Hér skal fullyrða, að þeir hefðu sem þingmenn aldrei samþykkt "að kíkja í pakkann".
Fjármálamarkaðirnir á Bretlandi virðast nokkuð afslappaðir enn sem komið er þrátt fyrir hina óvenju miklu stjórnmálalegu óvissu, enda er tiltölulega góður hagvöxtur á Bretlandi á evrópskan mælikvarða um þessar mundir. Hann var 2,6 % árið 2014, en lág framleiðni er vandamál á Bretlandi, eins og á Íslandi. Hún lækkaði um 2 % frá 2007, og talsmaður Englandsbanka hefur gefið vaxtalækkun í skyn fyrir næstu vaxtaákvörðun. Hlutabréfavísitalan brezka, FTSE 100, fór nýlega yfir söguleg 7000 stig, og skuldabréfaálag er í sögulegu lágmarki, 1,5 %. Allt er þetta rós í hnappagat ríkisstjórnarinnar og efnahagsstefnu hennar. Sterlingspundið er reyndar nálægt sögulegu lágmarki gagnvart bandaríkjadal, en hefur þó enn haldizt uppi gagnvart helztu myntum heimsins að jafnaði vegna bágborinnar stöðu evru, jens og rúblu. Allt þetta getur breytzt í skyndi við kosningar til brezka þingsins 7. maí 2015, ef niðurstaðan verður stjórnarkreppa eða stjórnmálalegur óstöðugleiki, sem alltaf kemur niður á efnahagsstjórnuninni. Bretar þurfa þó ekki að glíma við óöld, óraunsæi og óbilgirni á vinnumarkaði, eins og Íslendingar mega búa við, en lafði Tatcher losaði þá undan þeirri skelfingu.
Á Íslandi er nú allt í hers höndum vegna vinnudeilna, þar sem boginn er spenntur langt umfram getu atvinnuveganna, og útflutningsatvinnuvegirnir eru settir í uppnám, svo að hætta er á tapi markaða vegna óöruggrar afhendingar og óásættanlegra verðhækkana. Í fákeppnisamfélaginu innanlands munu fyrirtæki og neytendur verða fyrir barðinu á verðhækkunum eftir miklar launahækkanir, sem hækka munu verðlagsvísitöluna og þar með lungann af skuldastabba fyrirtækja og fjölskyldna. Verðtryggðar fasteignaskuldir nema um ISK 1200 milljörðum, svo að 10 % verðlagshækkun í eitt ár hækkar þessa skuldabyrði um ISK 120 milljarða, sem er meira en nemur skuldaleiðréttingunni. Þetta er gjörsamlega glórulaust ástand, en hver getur komið vitinu fyrir stjórnir stéttarfélaganna, sem eru greinilega alveg forystulausar ? Hver er eiginlega bættari með þessa vitlausu launastefnu ?
Ef Ísland væri nú í myntbandalagi við Bretland, þá skylli einfaldlega á fjöldaatvinnuleysi í kjölfar kjarasamninga að kröfu launþegafélaganna. Vilja menn hafa þann háttinn á ? Það kann að verða nauðsynlegt til að hemja Miðgarðsorminn, þ.e. víxlverkun kaupgjalds og verðlags, að festa krónuna við aðra mynt til að menn skilji, hvað það þýðir að fórna efnahagslegum stöðugleika.
Gleðilegt sumar !
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2015 | 10:46
Fjárfestingar og fjárfestar
Öllum velmegunarsamfélögum er þörf á talsverðum beinum erlendum fjárfestingum, a.m.k. 5 % af VLF, ef tryggja á æskilegt aðgengi að áhættufé til uppbyggingar atvinnuveganna og til að fá nýja verkþekkingu og stjórnunarþekkingu inn í landið. Til að svo megi verða, eru þróaðir innviðir og stöðugleiki stjórnvaldsaðgerða nauðsynleg. Þetta eru einföld sannindi, en samt ekki öllum stjórnmálaflokkunum hérlendis ljós, eins og krystallaðist á alræmdum landsfundi Samfylkingarinnar í marz 2015 og heyrzt hefur á forkólfum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í kjölfarið. Þar ræðir um afturköllun ríkisins á rannsóknar- og vinnsluleyfum fyrir olíu og gas á Drekasvæðinu.
Í Icesave-deilunum á síðasta kjörtímabili, þar sem stjórnvöld gengu erinda alþjóðlegra fjármagnseigenda, sumpart til að þóknast forkólfum í Berlaymont til að fá greiðari leið inn í ESB, héldu talsmenn ríkisstórnarinnar því fram henni til varnar, að ekki mætti koma illa fram við fjármagseigendur, því að þá mundu þeir styggjast og loka fyrir fjármagnsflæði til Íslands. Háttaði þó þannig til þar, að íslenzka þjóðin stóð nauðvörn fyrir sjálfstæði sitt, beitti fyrir sig Neyðarlögunum, svo nefndu, sem hún hafði fullveldisheimildir til, og hefur réttmæti þeirra síðan verið staðfest fyrir dómi, og mátti á sama tíma sæta beitingu brezkra hryðjuverkalaga á íslenzka banka og á ríkissjóð um hríð. Þetta var fruntaaðgerð verkamannaflokksstjórnarinnar í Lundúnum, sem þar sýndi sitt rétta andlit gagnvart þjóð í vanda. Þarna átti að sýna Skotum, hvernig færi fyrir sjálfstæðum þjóðum, þegar á bjátar. Allt var það vitlaust reiknað í Lundúnum.
Minnir þetta á lélega herstjórnarlist Breta í Síðari heimsstyrjöldinni, er þeir gátu stöðvað megnið af hergagnaiðnaði Þjóðverja árið 1943 með loftárásum á miðlunarlónsstíflur og virkjanir, er sáu Ruhr héraðinu fyrir raforku og stytt þannig styrjöldina í Evrópu um allt að 2 ár. Í staðinn beindu þeir sprengjuflugvélunum á borgirnar, t.d. Hamborg og Köln, eins og í hefndarskyni, því að Þjóðverjar höfðu auðvitað gert svipaða villu í stað þess einbeita sér að höfnum og flugvöllum Englands og samhæfa aðgerðir flota og flughers gegn skipalestunum til Englands.
Nú bregður svo við árið 2015, að Samfylkingin hefur snúið við blaðinu varðandi framkomu við fjárfesta og hefur lagt til, að stjórnvöld afturkalli rannsóknarheimildir og vinnsluleyfi, eða eins og segir þar:
"Nú þarf að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir, að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni."
Það má heita alveg makalaust, að fyrrverandi "burðarflokkur" í ríkisstjórnarsamstarfi skuli ætla að grafa undan trúverðugri stjórnsýslu í landinu með þessum hætti, ef hann kemst til valda, því að atferli af þessu tagi berst út sem eldur í sínu á meðal fjárfesta, sem íhuga fjárfestingar á Íslandi, ekki bara á sviði olíuvinnslu, heldur líka á sviði kísils eða á hvaða sviði sem er.
Það er svo annað mál, að ívilnandi sérregur fyrir fjárfesta eru ósanngjarnar gagnvart starfsemi, sem fyrir er í landinu. Það ber að hætta þeim og leggja þess í stað höfuðáherzlu á að skapa sanngjarnt og aðlaðandi samkeppnisumhverfi fyrir alla. Að grípa skuli þurfa til ívilnandi skattaaðgerða fyrir fjárfesta sýnir í hnotskurn, að skattheimtan, sem komið var á á síðasta kjörtímabili, er ósjálfbær og mjög hamlandi. Þetta þýðir, að tryggingagjaldið, sem ætlað er að fjármagna atvinnuleysistryggingasjóð, er allt of hátt núna. Á föstu verðlagi 2015 námu tryggingagjöldin árið 2000 um 42 milljörðum kr, en á árinu 2015 um 82 milljörðum kr. Núverandi hlutfall þess af launum er um 7,5 % og á að lækka í 7,35 % árið 2016. Það ætti að tvöfalda hnigulinn, svo að hann verði 0,30% á ári í 6 ár þar til hlutfallið verður 5,7 %. Stöðva verður þessa lækkun, ef atvinnuleysi vex hér mikið og skyndilega, sem engan veginn er hægt að útiloka, ef boginn er spenntur umfram getu fyrirtækjanna. Önnur algeng ívilnun fyrir fjárfesta er tímabundin lækkun tekjuskatts úr 20 % í 15 %. Mismunurinn nemur hækkun vinstri stjórnarinnar. Boða ætti lækkun á þessari skattheimtu um 1 % á ári niður í 15 %.
Finnur Magnússon, lögmaður, hefur krufið olíuleyfismálið og birti um það grein á Sjónarhóli Viðskipta-Moggans, 2. apríl 2015. Þar er minnt á, að:
"fyrir nokkrum árum hélt íslenzka ríkið útboð til að laða að fjárfesta, sem hefðu bæði fjárhagslega burði og sérþekkingu til að finna olíu hér við land. Í útboðinu tóku þátt dótturfélög norskra og kínverskra ríkisolíufélaga, og ráðgerðu stjórnvöld, að íslenzkur olíuiðnaður myndi ekki einungis leiða til aukinna skattgreiðslna, ef olía fyndist, heldur myndi hér komast á laggirnar umfangsmikil þjónustustarfsemi við olíuiðnaðinn. Að loknu útboðsferli var m.a. kínverska ríkisolíufélaginu veitt leyfi til 12 ára til að leita að olíu."
Síðan rekur Finnur, að árið 1994 hafi ríkisstjórnir Kína og Íslands gert með sér tvíhliða fjárfestingarsamning. Þessi fjárfestingarsamningur slær téð olíuleyfi í gadda (orðalag að hætti gamla olíuráðherrans), svo að riftun olíuleyfisins gagnvart kínverska olíufélaginu væri skýlaust brot á þessum fjárfestingarsamningi. Er það hugmyndin með samþykkt Samfylkingarinnar að setja þennan tvíhliða fjárfestingarsamning Kína og Íslands í uppnám og þar með að girða fyrir frekari fjárfestingar Kínverja í íslenzkri lögsögu ?
Það má í þessu samhengi minna á tvíhliða viðskiptasamning Íslands og Kína, sem gerður var undir umsjón Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, og þótti brautryðjandi í Evrópu og var bending til Berlaymont um að minnka stífni sína eftir stöðvun þeirra á viðræðum um sjávarútvegsmál í aðlögunarferli Íslands að ESB í marz 2011. Þar skaut Össur framan við stefni ESB-freigátunnar.
Sennilega eru öfl innan Samfylkingarinnar, sem gráta mundu það krókódílstárum, þó að viðskiptasamband Íslands og Kína færi í hund og kött, því að ESB leyfir enga slíka tvíhliða samninga aðildarríkja sinna. Þessi nánast einróma samþykkt landsfundar Samfylkingar í marz 2015 mundi, væri henni framfylgt af íslenzkum stjórnvöldum, tæpast draga neitt úr hættunni á mengunarslysi á norðurslóðum, af því að téð leyfi eru aðeins brot af leyfunum, sem aðrar þjóðir hafa og munu gefa út. Hins vegar yrði Ísland örugglega fyrir álitshnekki á meðal fjárfesta við slíka afturköllun rannsóknar- og vinnsluleyfis, og samskiptin við Kínverja færu í frostmark. Er eitthvert vit í slíku framferði ? Ef Samfylkingin væri einstaklingur, mundi maður segja, að hún hefði gengið af göflunum á téðum landsfundi, og svo mikið gekk reyndar á þar, að eftirmálar gætu orðið.
Í lok merkrar greinar skrifaði Finnur Magnússon:
"Af framangreindu er ljóst, að það er vandkvæðum bundið "að vinda ofan af" leyfum, sem íslenzk stjórnvöld hafa gefið út. Umtalsverður vafi yrði um lögmæti stjórnvaldsákvarðana, sem teknar yrðu til að innleiða nýja pólitíska stefnu á þessu sviði, og kynni slík stefnubreyting ekki einungis að brjóta gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, heldur ennfremur gegn ákvæðum tvíhliða fjárfestingasamnings Íslands og Kína, sem er ætlað að tryggja fjárfestum frá þessum ríkjum tiltekna réttarvernd."
Það er rétt, að heilbrigð skynsemi og Samfylkingin hafa sjaldan átt samleið, en í þessu máli hefði heilbrigð skynsemi og hagsmunir landsins að ósekju mátt njóta vafans í stað þess að mála skrattann á vegginn og taka síðan ákvörðun um kúvendingu í málefnum opinberra leyfisveitinga. Við slíka kúvendingu mundi íslenzk stjórnvöld setja ofan og jafnvel baka sér skaðabótaskyldu, þó að líklegast verði aldrei neitt af olíuvinnslu í íslenzka hluta Drekasvæðisins vegna kostnaðar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2014 | 22:16
Þjóðerniskennd sækir í sig veðrið
Þessi misserin blása ferskir vindar um Evrópu á stjórnmálasviðinu. Birtingarmynd þeirra er aðallega með tvennum hætti:
Annars vegar hefur flokkum vaxið ásmegin, sem eru gagnrýnir á myndun fjölmenningarsamfélaga í sínu hefðbundna þjóðríki. Þessir flokkar gefa ekki mikið fyrir frelsin fjögur á Innri markaði Evrópusambandsins, ESB, a.m.k. ekki regluna um óhefta för vinnuafls á milli landa, og þeir eru yfirleitt í andstöðu við valdaframsal þjóðþinga sinna til embættismanna ESB í Brüssel og s.k. Evrópuþings.
Öflugastir þessara flokka eru Þjóðfylkingin í Frakklandi undir forystu Marie Le Pen, sem nýtur mikils fylgis í Frakklandi og vaxandi, eftir því sem getuleysi jafnaðarmanna á þjóðþingi Frakklands og í Elysée-höllinni í París til að fást við vandamál Frakklands verður lýðum ljósara.
Frakkland er að sökkva í botnlaust skuldafen, þar sem ríkisskuldir eru komnar langt yfir 60 % af VLF, sem er viðmiðunin samkvæmt Maastricht-samninginum, og þar ríkir almenn svartsýni, verðhjöðnun er á næsta leyti og atvinnuleysi fer vaxandi. Ef ekki verður snúið af braut árlegs ríkissjóðshalla upp á 4 %-5 %, þá verða munu skuldirnar innan 5 ára geta orðið Frökkum óviðráðanlegar, og þá mun hrikta í evrunni.
Jafnaðarmenn hafa ekkert bein í nefinu til að kljást við vandamál með þeim meðulum, sem duga, og skila rekstrarafgangi á ríkissjóði. Ráðstafanir samkvæmt hagspeki jafnaðarmanna eru eins og að hella olíu á eld. Hagspeki þeirra um að sáldra fé úr ríkissjóði um samfélagið og gera allt að helming landsmanna að bótaþegum, gengur ekki upp í raunveruleikanum, þó að málpípur þeirra séu oft býsna liðugar um málbeinið. Endar ná sjaldnast saman hjá jafnaðarmönnum, og þá er unga fólkinu sendur reikningurinn með því að slá lán á æ verri kjörum eftir því sem dýpra er sokkið í skuldaforina.
Annar flokkur á þjóðernislegum væng stjórnmálanna er UKIP-United Kingdom Independence Party á Bretlandseyjum. Sá vill draga Bretland úr ESB. Hann fékk mikið fylgi, 25 %-30 %, í síðustu kosningum þar til Evrópuþingsins, og hefur þegar fengið fulltrúa í sveitarstjórn, og flótti er tekinn að bresta í þingmannalið Íhaldsflokksins yfir til UKIP Nigel Farage.
David Cameron, forsætisráðherra brezku samsteypustjórnarinnar, hefur neyðzt til að reyna að hamla sérstaklega gegn UKIP með því að heita Bretum að semja völd til baka til Westminster og White Hall frá Berlaymont í Brüssel og síðan að leyfa þeim að kjósa um veru Bretlands í ESB. Benda skoðanakannanir til, að stjórnmálalegt líf Camerons sé undir því komið, að honum verði mjög vel ágengt í Brüssel, svo að Bretar samþykki áframhaldandi veru lands síns í ESB. Á eftirgjöf að hálfu Brüsselvaldsins eru hins vegar taldar litlar líkur. Cameron gæti bjargað sér og flokki sínum með því að söðla um og hvetja Breta til að samþykkja úrsögn. Dagar ESB í sinni núverandi mynd eru þess vegna taldir, enda er almenn óánægja í Evrópu með stjórnsýslu þess og lýðræðishalla. Hér uppi á Íslandi lætur formaður jafnaðarmanna, Árni Páll Árnason, hins vegar út úr sér þvætting á borð við þann, að Íslendingar séu eina þjóðin í Evrópu, sem viti ekki, hvaða gjaldmiðil þeir muni nota eftir 10 ár. Í Evrópu er ekki einu sinni vitað, hvernig ESB mun líta út eftir 10 ár, hvað þá hvort evran verður þá við lýði.
Stuðningsmenn Þjóðfylkingarinnar, UKIP, Svíþjóðardemókratanna, Sannra Finna og annarra svipaðra um alla Evrópu, hafa þróun evrópskra samfélaga í átt til fjölmenningarsamfélaga á hornum sér og telja hana vega að rótum hefðbundinnar þjóðmenningar sinnar, sem þeir vilja fyrir engan mun fórna á altari samfélagsgerðar, sem þeir telja boðflennu í sínum ranni í þeim skilningi, að aldrei hafi alvarleg umræða farið fram um svo veigamikið mál eða kosningar um það. Fólki finnst því vera troðið um tær, og að það og menning þess eigi í vök að verjast.
Á tímum efnahagslegrar stöðnunar og vaxandi atvinnuleysis má líkja þessari þjóðfélagsgerjun við púðurtunnu, sem getur sprungið með byltingu, eins og t.d. valdataka Marie Le Pen í Elysée væri og úrsögn Bretlands úr ESB. Þetta er nú allur stöðugleikinn, sem búrókrötunum í Brüssel hefur tekizt að koma á. Hræringar Evrópu eru ekki hliðhollar ríkjasambandi í Evrópu. Hræringar Evrópu stefna þvert á móti í átt til sundrunar Evrópu og miðstýrðra ríkja Evrópu.
Stærsta ríkið, að undanskildu Rússlandi, Þýzkaland, er ekki miðstýrt, heldur er mikil valddreifing í Sambandslýðveldinu, þar sem hvert fylki á sér þing og höfuðstað og fer með skattlagningarvald. Ríkisstjórn Sambandslýðveldisins í Berlín fer aðeins með málefni, sem telja má sameiginleg fyrir tvö eða fleiri fylki, landvarnir og utanríkismál og að sjálfsögðu rekstur á sameiginlegum ríkissjóði Þjóðverja. Margir þjóðflokkar búa innan þýzku landamæranna með mismunandi menningu og mállýzkur. Þjóðverjar verða margir hverjir að grípa til háþýzkunnar til að skilja hvern annan.
Otto von Bismarck sameinaði þessa þjóðflokka m.a. með Deutsche Industrie Normen - DIN, svo að Svabar gætu framleitt íhluti fyrir Prússa, sem síðan gætu selt Rínlendingum tæki o.s.frv. Jafnvel Bæjarar, sem sumir vilja ekki láta kalla sig Þjóðverja, heldur Bæjara, og að geðslagi svipar að sumu leyti mest til Austurríkismanna, una sér vel í þessu sambandsríki. Stjórnarfyrirkomulag, sem Engilsaxar hönnuðu með Þjóðverjum eftir fall Þriðja ríkisins, virðist henta Þýzkalandi vel. Reyndar spjara þeir sig undir hvaða kerfi sem er.
Það er ekki hið sama uppi á teninginum í hinu Sameinaða brezka konungdæmi. Brezka stjórnskipanin, sem fleytti þeim áfram til mesta heimsveldis sögunnar og sem réði niðurlögum einræðisherra á borð við Napóleon Bonaparte frá Korsíku, Vilhjálm 2. Prússakeisara af ætt Junkera, og Adolfs Hitlers, furðufugls með mikilmennskubrjálæði, ættaðan frá Linz í Austurríki, sem afarkostir Frakka í Versalasamningunum frá 1919 skoluðu að afloknum kosningum upp í kanzlarasæti í Berlín 30. janúar 1933, er nú að liðast í sundur, af því að sú gamla stjórnskipan svarar ekki kalli nútímans um sjálfstjórn minnihluta þjóða, sem af sögulegum, menningarlegum og efnahagslegum ástæðum vilja sjálfstjórn og jafnvel sjálfstæði.
Þegar grannt er skoðað, eru það oft efnahagslegar ástæður, sem kynda undir sjálfstæðisbaráttu þjóða. Olía og gas í lögsögu Skotlands hefur vafalítið lagzt á sveif með sjálfstæðissinnum Skotlands. Katalóníubúar telja Madrid vera afætu á sér, og Quebeck er ríkt frá náttúrunnar hendi. Boðskapur íslenzkra sjálfstæðissinna í upphafi 20. aldar var og, að auðlindir á hvern mann hérlendis væru miklar, og nægir að minna á herhvatir Einars Benediktssonar, skálds, um virkjun íslenzkra fallvatna.
Þá er vert að hafa í huga, að viðskiptafrelsi, t.d. á Innri markaði ESB, hjálpar minni þjóðum við að afsetja sínar vörur og þjónustu, eins og um stórríki væri að ræða.
Þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi 18. september 2014 setti af stað óstöðvandi þróun alls konar þjóðabrota í Evrópu í átt til sjálfstæðis. Bretar ræða nú af kappi, hvað ný stjórnarskrá þeirra eigi að fjalla um. Cameron hefur skipað William Hague, fyrrverandi leiðtoga Íhaldsmanna, formann stjórnarnefndar, sem á að koma með stjórnarskrártillögu. Vaxandi fylgi er fyrir því á Englandi, að aðeins þingmenn Englendinga fái að fjalla um ensk málefni og greiða um þau atkvæði, en hvorki þingmenn Skota, Wales-búa né Norður-Íra. Við þetta ykist styrkur Íhaldsmanna á enska þinginu á kostnað jafnaðarmanna í Verkamannaflokkinum.
Um aldamótin síðustu voru 60 % Englendinga hlynntir því, að um ensk málefni á brezka þinginu yrði aðeins fjallað af þingmönnum Englendinga, samkvæmt Institute for Public Policy Research, en árið 2012 voru þeir orðnir 80 %. Samkvæmt British Social Attitude Survey kölluðu 55 % af enskum kjósendum sig Breta árið 1997, en árið 2012 hafði þeim fækkað í 43 %, og kölluðu þá einnig 43 % sig Englendinga, en 14 % höfðu ekki gert upp hug sinn. Þetta, þ.e. 43 %, sem líta fyrst á sig sem Englendinga og síðan Breta, er hærra hlutfall en á meðal Bæjara, Galisíumanna á Spáni og Bretóna á Bretagne-skaganum. Hins vegar er þessi þróun komin lengra á meðal Skota og á meðal Katalóna og Baska á Spáni, þar sem aðskilnaðarhreyfingar eru öflugar. Líklega er sama uppi á teninginum í Quebec, þar sem er starfandi öflug aðskilnaðarhreyfing.
Fleiri svæði í Evrópu má nefna, þar sem sjálfstjórnartilhneiging hefur látið á sér kræla. Má þar nefna Suður-Týról, þar sem þýzkumælandi fólk á erfitt með að sætta sig við ítalskt ríkisfang, Slésíu í Póllandi, þar sem margir Þjóðverjar hafa búið um aldir, og síðan auðvitað Úkraínu, þar sem rússneski björninn hefur beitt hervaldi í tilraun til að kljúfa ríkið og hernam hluta þess, Krím, og innlimaði í Rússland, þó að þar séu Úkraínumenn fjölmennir og einnig Tartarar, sem Jósef Djúgasvílí Stalín lét flytja nauðungarflutningum langt austur eftir í lok "Föðurlandsstríðsins mikla", sem hann reyndar sjálfur hóf með kumpánanum Adolf Hitler 1. september 1939 eftir að þeir skiptu Evrópu upp á milli sín u.þ.b. 10 dögum áður.
Belgía er nánast í stöðugri stjórnarkreppu vegna slæms samkomulags á milli Flæmingja og Vallóna, enda var Belgíu komið á fót til að verða stuðpúði á milli Þjóðverja og Frakka, sem eru þjóðir með ólíkar lyndiseinkunnir, svo að ekki sé meira sagt.
Hvaða ályktanir af ofangreindum róstum er hægt að draga með hagsmuni íslenzku þjóðarinnar fyrir augum ?
Í fyrsta lagi voru sambandsslitin við Dani árið 1918 og lýðveldisstofnun árið 1944 sögulega réttar og tímabærar ákvarðanir, sem e.t.v. með vissum hætti hafa gefið tóninn fyrir þjóðríkjaþróunina í Evrópu nú í byrjun 21. aldarinnar. Það er tekið eftir því, hvernig smáþjóðum Evrópu vegnar, þ.á.m. hinni íslenzku, lengst norður í Atlantshafi, og hvernig hún í kjölfar fjármálakreppu heimsins 2007-2008 hristi af sér fjötra fjármálakerfisins með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og vann síðan mikilvægt dómsmál í krafti eigin fullveldis í blóra við Brüssel og í fullkominni óþökk Breta og Hollendinga. Það hefur verið dregin burst úr nefi gömlu nýlenduveldanna.
Vinstri stjórnin stundaði ósæmilegt daður við framkvæmdastjórn ESB í Brüssel. Þar léku skessur sér með fjöregg þjóðarinnar. Upphafið var ósæmilegt vegna þess, að sú ríkisstjórn neitaði þjóðinni um að tjá sig sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort hún vildi fara á fjörurnar við ESB með hjónaband í huga eður ei. Það er ótrúlega ósvífinn gjörningur að taka slíka umdeilda U-beygju í utanríkismálum án þess að leita fyrst eftir samþykki þjóðarinnar þar að lútandi. Í stað þess var farin sú ósæmilega og ólýðræðislega leið að handjárna þingmenn þáverandi stjórnarmeirihluta og skipa þeim að samþykkja aðildarumsóknina. Jafnvel ráðherrar gerðu grein fyrir atkvæði sínu með megnasta óbragð í munninum, og verður munnsöfnuður þeirra, t.d. Svandísar Svavarsdóttur, lengi í minnum hafður.
Þessi umsókn reyndist hið mesta feigðarflan, og viðræður í helztu málaflokkunum, sjávarútvegi og landbúnaði, báru engan árangur, svo að ESB sleit í raun viðræðunum með því að neita að afhenda nauðsynleg gögn, s.k. rýniskýrslu um sjávarútvegsmál, til að hægt væri að halda áfram. Fyrri ríkisstjórn gerði þá hlé, og eftir kosningarnar í maí 2013 ákvað ný ríkisstjórn, að frekari viðræður væru vita vonlausar og leysti samninganefnd Íslands frá störfum. Síðan það gerðist hafa mál þróazt með þeim hætti í Brüssel, að ákveðið var að hætta við allar stækkunartilraunir um 5 ára skeið, enda aðildarríkin að nálgast 30, og stjórnkerfi ESB orðið mjög þungt í vöfum og væri í bráðri þörf fyrir straumlínulögun. Þar að auki blasa alvarleg vandamál við ESB-forystunni, bæði innan frá og utan, t.d. Bretar og Rússar, og efnahagslíf evru-ríkjanna er í kaldakolum.
Að öllu þessu virtu blasir við, að það er tímaskekkja, að ofan í skúffu búrókrata í Berlaymont hvíli nú umsókn frá Íslandi um aðildarviðræður og aðlögunarferli. Hvaða erindi á Ísland inn í það öngþveiti, sem þarna ríkir ? Jafnaðarmennina á Íslandi dreymir um að koma Íslandi í enn samansúrraðra forræðis- og leyfisveitingasamfélag en reyndin er á nú þegar, og er þó nóg samt. Þetta mun aðeins hafa í för með sér enn fleiri afætur á fámennum hópi vinnandi manna en raunin er á nú þegar og þess vegna versnandi hag allra, nema þeirra, sem fara á ESB-jötuna. Allt tal um, að evran verði þá innan seilingar, er fávíslegt bull. Ef menn vilja aðra mynt, eru aðrar leiðir útlátaminni en innganga í ríkjasamband.
Umsóknarbréf Jóhönnu og Össurar á að afturkalla með þingsályktun frá Alþingi vafningalaust, hvernig sem fimmta herdeildin lætur. Lýðræðislega séð er engin ástæða til að halda um þetta þjóðaratkvæðagreiðslu, af því að þjóðin var ekki spurð um þetta á sínum tíma. Ef þingið vill ekki taka af skarið, getur það vísað málinu til þjóðarinnar, og þá verður sú snerra tekin, og getur orðið atgangur allharður, en enginn vafi getur leikið á um, að herfræði og vopnabúnaður sjálfstæðissinna er með þeim hætti, að fimmta herdeildin mun þurfa að lúta í gras. Stólparitið að neðan sýnir gamlar kannanir. Síðan þá hefur þróun mála orðið sjálfstæðissinnum í vil.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.6.2014 | 15:43
Evrópusambandið í uppnámi
Það hefur hrikt í innviðum Evrópusambandsins (ESB) vegna átakanna við Rússa um Úkraínu, því að sitt hefur hverjum sýnzt í leiðtogaráði þess um stefnumótunina. Kemur ætíð í ljós, er á reynir á þessum vígstöðvum, að hver er sjálfum sér næstur, og engin Evrópukennd er fyrir hendi. Evrópusambandið eru hagsmunasamtök, þar sem Þjóðverjar og Frakkar fara yfirleitt sínu fram, og hin ríkin ræða málin til málamynda í upplýsingaskyni, en gera sjaldnast ágreining um málamiðlun hinna tveggja. Á þessu kann þó að verða breyting, og eru Bretar nú með uppsteyt, sem enda kann með sprengingu.
Marine Le Pen, sigurvegari kosninganna til ESB-þingsins í maí 2014 ásamt Nigel Farage, hinum brezka, kveður ESB vera ólýðræðislegt skrímsli, sem minni mest á Ráðstjórnarríkin.
Téður öxull Berlín-París er orðinn undinn og snúinn. Forseti Frakklands er nú með minni stuðning frönsku þjóðarinnar en nokkur fyrirrennari hans hefur mátt upplifa. Þessi forseti er með allt á hælunum, hvernig sem á er litið, og Jafnaðarmannaflokkur hans er trénaður ríkisafskiptaflokkur, sem ræður ekki við aðsteðjandi vandamál Frakklands.
Berlín er þess vegna að smíða nýja öxla. Stórmerkileg var myndin á forsíðu Fréttablaðsins þriðjudaginn 10. júní 2014 af Fredrik Reinfeldt róa úti fyrir sumardvalarstað sínum með Angelu Merkel, David Camaron og Mark Rutte. Þarna voru þessir 4 þjóðarleiðtogar, sem allir eru mótmælendatrúar, að mynda einhvers konar bandalag gegn katólska hluta Evrópusambandsins, ESB, og fyrsta viðfangsefnið var að velja forseta Framkvæmdastjórnar ESB og sjálfsagt hefur mönnun annarra leiðtogaembætta borið á góma í kjölfar hraklegra kosningaúrslita til ESB-þingsins að dómi téðra leiðtoga. Það er mikill vandræðagangur vegna mönnunar æðstu embætta ESB um þessar mundir.
Enn jukust vandræðin í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel, þegar úrslit kosninganna til yfir 600 manna þings ESB urðu lýðum ljós. Þá kom í ljós, að þriðjungur nýju fulltrúanna á þessu undarlega þingi var á vegum flokka, sem hafa það á stefnuskrá sinni að draga lönd sín út úr ESB og alveg sérstaklega að losa þau undan oki evrunnar, hins sameiginlega gjaldmiðils, sem þessir nýju þingmenn telja orsök efnahagslegra ófara landa sinna með ofboðslegu atvinnuleysi, stöðnun hagkerfisins og jafnvel verðhjöðnun, sem getur verið mikið böl. Það urðu þess vegna vatnaskil í þessum kosningum, sem sárafáir virðast gera mikið veður út af hérlendis, enda er reiknað með, að "elítan" muni reyna að hunza þessa kosninganiðurstöðu, eins og allar kosninganiðurstöður, er hana varða og eru henni ekki að skapi.
Aðildarsinnar hérlendis, sem nú um stundir kenna sig sumir við "Viðreisn", og allir berjast þeir við vindmyllur með því að heimta, að ríkisstjórn Íslands taki upp aðildarviðræður, þar sem Össur varð frá að hverfa, halda stífri efri vör að vanda. Afstaða þeirra er gjörsamlega óskiljanleg og minnir ekki á neitt annað meira nú um stundir en hegðun strútsins, þegar hann lendir í vanda. Þessi "Viðreisn", sem sumir aðildarsinna kenna sig við, er ekkert annað en viðreisn erlends valds á Íslandi. Baráttumál þeirra er sem sagt afturhvarf til fortíðar. Ekki er nú risið hátt á þeirri "Viðreisn". Geðslegt á sjötugsafmæli lýðveldisins.
Í Rómarsáttmálanum frá 1957 stendur, að aðstandendur hans séu ákveðnir í því að vinna að æ nánara sambandi þjóða Evrópu, sem þýðir á endanum sambandsríki, þar sem hvert land hefur svipaða stöðu og "löndin" í Þýzkalandi eða fylkin í Bandaríkjunum. Nú eru hins vegar að verða straumhvörf í þessari þróun og líklegt, að árið 2014 verði ekki talið síður merkilegt í sögu ESB en árið 1957.
Ástæðan er sú, að árið 2014 er árið, þegar þegnar ESB-ríkjanna sögðu við "elítuna", "hingað og ekki lengra, nú er nóg komið, bezt er að snúa sér að því núna að vinda ofan af ólýðræðislegri þróun báknsins í Brüssel með öllum sérréttindum búrókratanna og ofurlaunum sumra ásamt slæmri meðferð á skattfé aðildarlandanna".
Flokkur Marine Le Pen (FN) fékk 25 % af atkvæðum Frakka, og fengu flokksmenn hennar mest fylgi í Frakklandi. Það segir ekki litla sögu. Það er ekki lengur talið útilokað, að hún skelli Hollande brókarlausum í næstu forsetakosningum. Það yrði dauðadómur yfir ESB í sinni núverandi mynd. Lýðurinn hefur nú fundið blóðbragð og mun ekki hika við að skella "elítunni", sem hann með réttu telur vera afætur á borð við úrkynjaða hirð Lúðvíks 16. á sinni tíð, sem eðlilega ekki kembdi hærurnar.
Flokkur hinnar flugmælsku prímadonnu, Nigel Farage, UKIP, fékk 27 % á Bretlandi. Það mun herða Íhaldsflokk Davids Camerones enn í andófinu gegn ESB og eykur enn líkur á þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB, jafnvel fyrr en seinna. Cameron er kominn í nauðvörn fyrir Íhaldsflokkinn.
Bretar munu líklega samþykkja úrsögn og munu í kjölfarið veita forystu viðskiptabandalagi í ætt við Efnahagsbandalag Evrópu á sinni tíð. Öruggt má telja, að þá kvarnist enn meira úr ESB. Slíkt yrði athygliverð þróun fyrir Íslendinga og mun krefjast góðrar taflmennsku af uanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg að halda stöðu okkar á markaði meginlands Evrópu, Bretlands og annarra. Við höfum um aldaraðir verið á áhrifasvæði Stóra-Bretlands, þó að Danir færu hér með húsbóndavald til 1918. Það er líklegt til að þjóna vel viðskiptahagsmunum Íslands að binda trúss við Stóra-Bretland. Þess má geta, að íslenzka krónan var um hríð tengd gengi sterlingspundsins á 3. áratugi 20. aldar. Vegna gulltengingar sterlingspundsins gekk það gengissamstarf ekki lengi, en nú er öldin önnur.
Forysta ESB getur ekki lengur hunzað vilja almennings í aðildarlöndunum og látið sem engin gjá sé á milli hans og Berlaymont. Þar er óbrúanleg gjá. Þjóðerniskennd á þar óneitanlega hlut að máli. Það skín í gegnum málflutning sigurvegara kosninganna, að þeir vilja ekki taka við fyrirmælum um tilhögun heima fyrir frá útlendingum. Frakkar og Hollendingar hafa reyndar áður kosið gegn ESB, þegar þeir höfnuðu Stjórnarskránni 1995, og Írar höfnuðu staðgengli hennar, Lissabon-sáttmálanum, 1998, þangað til þeir voru beðnir um að kjósa aftur.
Ekki fer á milli mála, að andúð á innflytjendum er þáttur í afstöðu andófsflokkanna, sem mest juku fylgi sitt. Eftir útþensluna til Austur-Evrópu hefur þessi óánægja aukizt, sumpart vegna ásóknar Austur-Evrópumanna í vinnu í Vestur-Evrópu. Tækifærissinnaðir stjórnmálamenn eru fljótir að hagnýta sér djúpar tilfinningar á þessu sviði, og jarðvegurinn er frjór, þegar fjöldaatvinnuleysi ríkir og hagkerfin eru stöðnuð. Á Íslandi eru annars konar aðstæður. Þar er andstaðan meira grundvölluð á ótta við mikla kynblöndun, sem leiða kunni til glötunar hins forna yfirbragðs þjóðarinnar ásamt útþynningu menningarlegra sérkenna. Nokkur blöndun hefur þó orðið á öllum öldum, sem forðað hefur fámennum stofni frá almennri úrkynjun.
Í fámennissamfélagi, eins og okkar, er óviturlegt að blása á þessar áhyggjur fjölda fólks. Það verður að fara bil beggja í þessum efnum, takmarka fjöldann frá löndum utan ESB og leggja sig fram um að taka vel á móti þeim, sem hér fá landvistarleyfi og aðlaga þá sem hraðast að samfélaginu. Erfðafræðilega styrkir blöndun af þessu tagi stofninn.
Þyngst vegur þó óánægja með bágborið hagkerfi í Evrópu, sem hefur orðið stöðnun að bráð, sem leitt hefur til geigvænlegs atvinnuleysis, ekki sízt í evru-löndunum. Að meðaltali nemur atvinnuleysið í ESB 11 %-12 %, en er í sumum löndum svo skelfilegt sem 25 % og þá yfir 50 % á meðal ungs fólks upp að þrítugu. Almenningur í þessum kreppulöndum kennir regluverksfargani ESB og háu gengi evrunnar um með réttu eða röngu.
Í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir verðhjöðnun hefur evru-bankinn, ECB, nú sett á neikvæða vexti, -0,10 %. Þá þurfa menn að borga fyrir að geyma fé hjá bankanum. Þjóðverjar eru sagðir æfir yfir þessari ráðstöfun hins ítalska bankastjóra ECB og bankaráðs hans og segja þessa aðgerð vera setta til höfuðs sparnaði, sem Þjóðverjar telja á meðal dyggða hins almenna manns.
Það hafa komið fram ýmsar tillögur til úrbóta á ESB. Minnka skrifræðið og ógilda ýmsar reglugerðir. Ríkisstjórnir, þjóðþing og aðilar vinnumarkaðar ættu að endurheimta völd frá ESB á sviði félagsmála og vinnuréttar-foreldraorlofs og vinnutíma. Þá ætti að draga úr völdum framkvæmdastjórnar og ESB-þingsins og færa völdin aftur til þjóðþinganna. Það er alveg undir hælinn lagt, að þetta gangi eftir. Ef lítið gerist í úrbótamálum, munu kjósendur grípa til sinna ráða við fyrsta tækifæri. Þetta vita stjórnmálamennirnir, og þeir eru þess vegna á milli steins og sleggju. Eina ráðið er að söðla um frá möntrunni um "æ nánara samband". Juncker og hans nótar eru þó ekki á þeim buxunum.
Þetta upplausnarástand, sem nú ríkir í Evrópusambandinu, gerir umsókn nú að þessu ríkjasambandi algerlega marklausa. Það veit enginn, hvers konar fyrirbrigði ESB verður eftir t.d. 2 ár. Þar af leiðandi er algerlega óhjákvæmilegt að setja málið aftur á byrjunarreit hér á Íslandi með afturköllun umsóknar og þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið, ef meirihluti Alþingis vill leita hófanna við breytt ESB í framtíðinni.
Sumir segja sem svo, að núverandi ríkisstjórn geti vel tekið upp þráðinn við ESB, þar sem Össur Skarphéðinsson skildi við málið í janúar 2013 eftir ríkjaráðstefnu ESB 2012, þar sem Össuri varð ekkert ágengt með umsókn Íslands. Það eru samt lýðræðislegir og framkvæmdalegir meinbugir á þessum framgangsmáta.
Æðstu stofnanir stjórnarflokkanna, Flokksþing og Landsfundur, höfnuðu þessari leið, en samþykktu að draga umsóknina til baka. Hvað sem kann að líða túlkun á orðum frambjóðenda í kosningabaráttu, er þessi leið ófær af lýðræðislegum ástæðum.
Frakkar og fleiri stöðvuðu inngönguferli Íslands, af því að kröfur Íslendinga til eigin stjórnunar á fiskveiðum og landbúnaðarmálum samræmdust ekki grundvallarstefnu og sáttmálum ESB í þessum efnum. Ef menn halda, að Gunnari Braga takist að þoka málum áfram, sem lentu í frosti í meðförum Össurar, þá vaða menn reyk. Gunnar Bragi er líklegur til að setja enn strangari skilyrði en Össur við "samningaborðið", því að hann vill ekki ná samningum. Það er furðuleg sú þráhyggja aðildarsinna að halda, að Gunnar Bragi, utanríkisráðherra ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs, geti og muni vinna að framgangi málsins þeirra, aðildarsamningi Íslands við Evrópusambandið. Þetta er eins og fáránleikaleikhús með sorglegum endi fyrir aðalleikarana, Viðreisnarmenn erlends valds á Íslandi.
Ríkisstjórnin er heiðarleg í afstöðu sinni til þessa máls. Hún vill ekki endurvekja viðræður, sem gagnaðilinn stöðvaði, samkvæmt Rannsóknarskýrslu HHÍ, viðræður, sem hún kærir sig ekki um að leiða til lykta. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja alls ekki, að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu í sinni núverandi mynd. Það er ekki þar með sagt, að annar eða báðir flokkar hafni aðild að breyttu bandalagi. Breytinga má vænta á ESB eftir hrakfarir sambandsríkissinna í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2014 | 17:43
Sjötugt
Íslenzka lýðveldið er sjötugt. Í þjóðaratkvæðagreiðslu með metþátttöku, 98 %, var nánast einróma samþykkt að slíta konungssambandinu við hernumda Danmörk og stofna til fullvalda ríkis með innlendum þjóðhöfðingja og þingbundinni ríkisstjórn.
Það er við hæfi að horfa yfir farinn veg á þessum tímamótum og að rýna lítillega inn í framtíðina.
Stjórnarskrá lýðveldisins, sem hlaut um 96 % stuðning af öllum atkvæðisbærum mönnum í landinu árið 1944, hefur reynzt vel, og hún hefur verið löguð að nútímanum í nokkrum áföngum, og enn er hún til endurskoðunar af hópi undir forystu prófessors emeritus, Sigurðar Líndal, eins mesta lögspekings landsins. Einmitt þannig á að þróa Stjórnarskrána, þ.e. að beztu manna yfirsýn á stjórnlagasviðinu án þess að setja lagagrundvöll landsins í uppnám.
Það er hins vegar röng aðferðarfræði, sem Alþingi síðasta kjörtímabils notaðist við. Kosningaaðferðin til Stjórnlagaþings var illa fallin til að ná fram þversniði af þjóðinni m.t.t. stétta og búsetu, og þingið varð vettvangur hrossakaupa hjartans mála, þannig að útkoman varð lögfræðilega ótæk.
Góður árangur hefur náðst á mörgum sviðum frá lýðveldisstofnun, en líklega eru stærstu sigrar lýðveldisins á sjávarútvegssviðinu. Íslenzki sjávarútvegurinn, sjálfbær nýting auðlindarinnar með mestu framleiðni og beztu nýtingu hráefnisins, sem um getur, er í allra fremstu röð. Grundvöllur íslenzka sjávarútvegsins er landhelgin umhverfis Íslands. Megnið af þessu hafsvæði var almenningur, þar sem fjöldi Evrópuþjóða stundaði veiðar, sem kalla má rányrkju á sumum tegundum. Í nokkrum áföngum var lögsagan færð út í 200 sjómílur með seiglu og harðfylgi.
Barizt var á tvennum vígstöðvum; á lögfræðilega sviðinu var þróun mála í Vesturheimi með Íslendingum, og sigur vannst með gerð alþjóðlegs hafréttarsáttmála, og á hafinu sjálfu, þar sem sigur vannst með klippum, hönnuðum í Landssmiðjunni, og með yfirburða sjómennsku og hugrekki áhafna íslenzku varðskipanna og togarasjómanna íslenzkra, sem við sögu komu. Flotaforingjar hennar hátignar hafa varla verið sæmdir heiðursmerkjum fyrir framgöngu sína gegn íslenzkum togurum og varðskipum.
Það er líklegt, að þessi viðureign flota hennar hátignar og Landhelgisgæzlunnar hefði endað með vofveiflegum hætti, ef Bandaríkjamenn hefðu ekki stillt til friðar, enda út í algert óefni komið, þar sem tvær NATO-þjóðir létu hendur skipta á hafinu og löndunarbann að auki á Bretlandi. Síðan þetta var, 1976, hafa Íslendingar séð um veiðiskapinn innan 200 sjómílnanna og markaðssett vöruna á Bretlandseyjum, á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og víðar, en sjávarútvegur Breta dróst auðvitað saman við þetta, og sumir útgerðarstaðir á Bretlandi hafa ekki borið sitt barr síðan.
Hér skal fullyrða, að beittasta vopn Íslands á báðum téðum vígstöðvum var fullveldi landsins. Að sama skapi skal fullyrða, að hefði Ísland verið aðili að forverum Evrópusambandsins, ESB, þ.e. Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópubandalaginu, á tímabilinu 1958-1976, og síðar, þá hefði útkoman orðið með allt öðrum hætti og lögsaga íslenzkra stjórnvalda yfir 200 sjómílum frá yztu nesjum væri ekki fyrir hendi. Það þarf enga mannvitsbrekku til að sjá þetta, þegar rýnt er í hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB og forvera. Lögsagan væri þá samnýtt af öllum fiskveiðiþjóðum ESB og sjávarútvegur rekinn í anda byggðastefnu Brüssel, en ekki út frá arðsemisjónarmiðum til langs tíma, og það, sem nú er mikilvægasta tekjulind landsins, sjávarútvegurinn, væri ekki nema svipur hjá sjón.
Það er ólíklegt, að útflutningstekjur landsmanna væru þá jafnháar og raun ber vitni um nú, þó að hugsanlegt sé, að aðrar greinar, t.d. iðnaður og móttaka ferðamanna, hefðu vaxið hraðar en raunin varð. Meiri aðild að samstarfi Evrópuþjóðanna en raunin er á núna, er ekki líkleg til að hafa leitt til betri lífskjara en við njótum nú, þegar mið er tekið af þróun hagkerfa ESB-landanna.
Minnzt var á NATO. Það var löngum viðkvæðið, að ríkisvald yrði að hafa yfir að ráða her til að geta varið sjálfstæðið. Fyrir sögulega heppni, ef svo má segja, leystust varnarmál landsins farsællega með því að stjórnvöldum landsins var boðið að gerast stofnaðilar að varnarsamtökum vestrænna ríkja, NATO, árið 1949, og hér voru herstöðvar á vegum NATO tímabilið 1951-2004. Þar að auki er í gildi tvíhliða varnarsamningur á milli Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, og Íslands. Fyrir vörnum landsins er því vel séð, og fyrir markaðsaðgengi er séð með fullnægjandi hætti með aðild að Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðisins) og viðskiptasamningi við Kína. Það er æskilegt að ná viðskiptasamningi við BNA. Bandaríkjamenn eru farnir að flytja út LNG, gas á vökvaformi með tankskipum, samkvæmt sérsamningum á vildarkjörum.
Það er ekki lengur einhugur í landinu um, að Stjórnarskrá lýðveldisins skuli kveða á um fullvalda Alþingi, fullveldi íslenzkra dómstóla hérlendis og framkvæmdavald, er einvörðungu lúti vilja Alþingis. Nú telur allstór hópur, e.t.v. fimmtungur þjóðarinnar, í öllum stjórnmálaflokkum landsins, að landsmönnum sé hollast að deila fullveldinu með öðrum þjóðum í ríkjasambandi, sem hingað til hefur verið að þróast í átt að sambandsríki, en kjósendur í ESB-löndunum stöðvuðu reyndar þá þróun í maí 2014.
Það má hverju mannsbarni ljóst vera, að það að deila fullveldinu með tæplega 30 þjóðum, sem telja yfir hálfan milljarð manna, er fyrir 330 þúsund manna þjóð hið sama og að afhenda fullveldi sitt á silfurdiski, þ.e. að glutra því niður með eins kjánalegum hætti blindingjans og hugsazt má. Þar yrði allt látið fyrir ekkert.
Þessi fimmtungur eða minna telur hins vegar hag sínum verða betur borgið með Ísland í slíku ríkjasambandi og ríkisvaldið að töluverðu leyti flutt til Berlaymont í Brüssel og aðsetra ESB-þingsins og Evrópudómstólsins. Það er umhugsunarvert, hvernig unnt er að komast að slíkri niðurstöðu. Fyrir suma er þessi niðurstaða óskiljanleg, enda hefur hún aldrei verið rökstudd, svo að viðunandi geti talizt.
Ef Ísland hefði verið aðili að ESB og með evru sem lögeyri árið 2008, þegar fjármálakreppa reið yfir heiminn og gerði út af við fjármálakerfi Íslands, hefðum við nú verið í hrikalegri skuldastöðu, ef marka má stöðu Íra, en á Írlandi námu skuldir bankanna u.þ.b. sexfaldri þjóðarframleiðslu landsins. ESB-forkólfar píndu ríkisstjórn Írlands til þess að ábyrgjast skuldir írskra banka, og lentu þær að miklu leyti á írskum skattborgurum. Hið sama hefði áreiðanlega orðið ofan á hérlendis, því að haustið 2008 voru Berlaymont-menn lafhræddir við áhlaup á evrópska banka, sem þeir hefðu ekki staðizt og sem þá hefði leitt til bankahruns í Evrópu í mun meiri mæli en raunin varð í BNA eða annars staðar. Það mátti þess vegna hvergi í Evrópu sýna veikleikamerki, og andvirði þúsunda milljarða króna í erlendum gjaldeyri hefðu þess vegna lent sem skuldabaggi um herðar íslenzkra skattborgara um langa framtíð.
Þess í stað nýtti ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde í nauðvörn löggjafarvald Alþingis til að setja Neyðarlög til varnar innistæðum Íslendinga í föllnu bönkunum, sem fluttust yfir í nýja banka, en lánadrottnar föllnu bankanna, sem munu hafa átt hjá þeim andvirði um 10 þúsund milljarða kr verða að eiga kröfur sínar við slitastjórnir föllnu bankanna. Svo ömurlegur sem aðdragandi bankahrunsins hérlendis var, má telja Neyðarlög ríkisstjórnar Geirs Hilmars til mestu afreka lýðveldissögunnar, því að þau björguðu landsmönnum frá þjóðargjaldþroti, sem ekki hefði verið hægt að forðast með aðild að ESB. Þá hefðum við algerlega verið komin upp á náð og miskunn Leiðtogaráðs og Framkvæmdastjórnar ESB. Hitt er annað mál, að ríkisstjórninni, sem við tók, tókst illa að vinna úr afleiðingum Hruns og Neyðarlaga.
Aðalviðfangsefni stjórnvalda nú er að fást við afleiðingar Hrunsins, þ.e. að koma rekstri ríkissjóðs á réttan kjöl, að skapa stöðugt og öflugt hagkerfi, þ.e. lága verðbólgu og mikinn hagvöxt, og að afnema fjármagnshöftin. Þetta krefst margháttaðra aðgerða og stjórnvizku, en allt verður unnið fyrir gýg, nema beinar erlendar fjárfestingar stóraukist í útflutningsgreinum. Nú hillir undir þetta með 4 nýjum kísilverum. Þá ríður á, að við gerð raforkusamninga verði þjóðarhagur lagður til grundvallar, þ.e. jaðarkostnaður orkuvinnslu, aðveitustöðva og línulagna í landinu, en ekki einhver furðuviðmið við þróun orkuverðs á meginlandi Evrópu, þar sem orkukræfur iðnaður er á förum sakir orkuskorts.
Sterk framtíðarstaða Íslands í alþjóðlegri samkeppni blasir við. Rökin fyrir þessari ályktun eru lýðfræðilegs (e. demographical) og orkulegs eðlis. Öll Evrópa, nema Ísland, stríðir nú við það grafalvarlega vandamál fyrir þjóðirnar, að viðkoman dugar ekki til að viðhalda mannfjöldanum, þ.e. fjöldi barna á hverja konu er undir 2,10. Á Íslandi er þessi tala hærri en 2,10, og fjölgun landsmanna er 1-2 % á ári. Meðalfjöldi barna á konu í Evrópu er aðeins 1,6, 1,5 í Kína, 1,4 í Japan og 1,3 í Suður-Kóreu. Í Þýzkalandi, núverandi forysturíki Evrópu, er þessi tala aðeins 1,4, og Þjóðverjum er nú tekið að fækka um 1 % á ári. Þessi neikvæða þróun grefur undan forystuhlutverki þeirra í Evrópu, því að meiri viðkoma er á Stóra-Bretlandi. Undanfarin ár hefur verið þokkalegur hagvöxtur í Þýzkalandi, þó að hann sé mjög lítill núna, eins og víðast hvar í Evrópu, nema á Íslandi, og hefur fólksfækkunin leitt til skorts á vinnuafli í sumum greinum. Þessi neikvæða mannfjöldaþróun mun hamla hagvexti og rýra kjör almennings og velferðarstig, því að sífellt færri munu verða að framfleyta sífellt fleiri eldri borgurum. Lífeyriskerfi flestra þessara ríkja er s.k. gegnumstreymiskerfi, en ekki söfnunarkerfi, eins og á Íslandi, sem gerir vandamálið enn erfiðara viðfangs. Frá umhverfisverndarsjónarmiði er ofangreind þróun ekki slæm, því að hún mun fyrr en seinna leiða til fækkunar mannkyns, þó að enn sé gríðarleg viðkoma í Afríku eða 4,7 börn á hverja konu, en fer þó hratt fallandi. Það er hins vegar spurning, hvernig fólk mun taka versnandi lífskjörum í aldurhnignum samfélögum, því að frá iðnbyltingu hefur hver ný kynslóð getað vænzt betri lífskjara en foreldrar þeirra höfðu, en sú verður ekki lengur raunin. Við sjáum nú þegar vaxandi þjóðfélagsóánægju í Evrópu, sem síðast brauzt út í kosningum til ESB-þingsins í maí 2014. Hún tengist þróun þjóðarframleiðslu á mann. Miðað við árið 2007 hefur þjóðarframleiðsla á mann víðast hvar í Evrópu dregizt saman, sbr eftirfarandi dæmi frá 6 ESB-löndum: Þýzkaland 105 %, Frakkland 98 %, Bretland 94 %, Spánn 92 %, Ítalía 88 % og Írland 88 % af þjóðarframleiðslu á mann 2007. Fyrir utan hratt hækkandi meðalaldur stríða öll þessi ríki, nema Frakkland, við annað vandamál, sem setur hagvexti þeirra skorður. Það er orkuskortur. Þau munu reyna að leysa hann með auknum orkuinnflutningi og aukinni eigin vinnslu á eldsneytisgasi, t.d. kaupum á LNG (Liquefied Natural Gas), en General Electric hefur nú þróað nýjar vélar, sem með mun ódýrari hætti en áður geta breytt eldsneytinu úr gasformi og yfir á vökvaform. Því er spáð, að árið 2018 muni magn LNG hafa aukizt um meira en þriðjung í heiminum m.v. 2013, sem er svipað og öll núverandi gasnotkun Kína. Ekki er ólíklegt, að grundvöllur geti orðið innan áratugar fyrir slíkri LNG-stöð við einhverja höfnina á Íslandi fyrir um ISK 10 milljarða til að sjá flotanum fyrir eldsneyti. Sá hængur er á hér, að eldsneytisgas er ekki sjálfbær orkuberi, heldur bæði mengandi og takmörkuð auðlind, þó að minna koltvíildi og sótagnir myndist við bruna þess á hverja orkueiningu en olíu og kola. Á orkusviðinu hefur Ísland hins vegar sérstöðu, því að hérlendis er unnt að framleiða alla raforku með sjálfbærum hætti. Eigum við auðvitað að gera það í enn ríkari mæli en nú er gert, og nú hillir undir nýja viðskiptavini fyrir raforku hérlendis, þar sem eru kísilver, en kísillinn er til margra hluta nytsamlegur, frá tannkremi til sólarrafhlaða. Margir umhverfisverndarsinnar á Vesturlöndum leggjast þó alfarið gegn virkjunum til að selja fyrirtækjum í erlendri eigu, oft alþjóðlegum samsteypum, rafmagn. Þetta viðhorf er angi af þeirri afstöðu, að frjáls alþjóðleg viðskipti hljóti að vera umhverfislega skaðleg vegna sóknar alþjóðlegra fyrirtækja eftir starfsemi í löndum, þar sem minni og jafnvel lítillar umhverfisverndar er krafizt af þarlendum yfirvöldum. Á ensku er þetta kallað race to the bottom in environmental standards. Jafnframt séu flutningar frá framleiðanda til notanda, sem frjáls viðskipti óhjákvæmilega hafa í för með sér, mengandi. Kjarninn í málafylgju mótmælenda gegn ráðstefnu WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar í Seattle, Washington-BNA, árið 1999, var, að fyrirtæki munu flytja starfsemi sína til minna þróaðra landa til að njóta góðs af losaralegri mengunarvarnareglum.Þetta á hins vegar ekki við um Ísland, því að mengunarvarnarkröfur hérlendis eru með því strangasta sem gerist á iðnaðarsviðinu. Á virkjanasviðinu skiptir hins vegar í tvö horn á Íslandi. Tæknistig vatnsaflsvirkjana er komið á það stig, að góð nýting fæst við umbreytingu fallorku vatnsins yfir í rafmagn, og það tekst vel að fella vatnsaflsvirkjanir inn í umhverfið, svo að segja má, að vatnsaflsvirkjanir séu sjálfbærar á Íslandi, þegar ekki eiga sér stað stórfelldir flutningar á milli vatnasviða. Kröfur yfirvalda hérlendis um lágmörkun umhverfisröskunar og mótvægisaðgerðir til að tryggja sjálfbærni og afturkræfni vatnsaflsvirkjana eru fyllilega sambærilegar við það, sem strangast gerist í heiminum um þessar mundir. Þessu er hins vegar enn ekki á sama veg farið með jarðgufuvirkjanir. Þar er nýtnin afar lág við umbreytingu jarðgufu í rafmagn, og við virkjanirnar losna gróðurhúsalofttegundir og lofttegundir hættulegar gróðri, dýrum og mönnum úr læðingi. Þar að auki hafa menn farið yfir strikið við nýtingu jarðgufuforðans, svo að dregið hefur úr aflgetu virkjana með tímanum. Allt er þetta til marks um, að jarðgufuvirkjanatæknin er alls ekki enn tæknilega tilbúin til stórfelldrar nýtingar, t.d. til raforkuvinnslu fyrir alþjóðleg erlend fyrirtæki, og viðhorf mótmælendanna í Seattle 1999 eiga að því leyti erindi við Íslendinga. Ef fallizt er á, að hagvöxtur sé bæði æskilegur og nauðsynlegur til að auka þjóðarframleiðslu á mann, svo að landið geti keppt við nágrannalöndin um kaup og kjör, þá stendur val um höfuðáherzlu á milli þjónustugreina og framleiðslugreina. Framleiðslugreinar geta að jafnaði staðið undir hærri launagreiðslum en þjónustugreinar, af því að hinar fyrrnefndu nýta meiri tækni og meiri þekkingu, og þar er þess vegna framleiðni á hærra stigi en í þjónustugreinum. Sjávarútvegurinn er flaggskip íslenzkra framleiðslugreina, en hann býr við fullnýtta auðlind, þó að vonir standi til vaxandi veiðistofna. Landbúnaður hefur aukið framleiðni sína gríðarlega, og framleiðsla hans hefur vaxið með auknum mannfjölda í landinu að ferðamönnum meðtöldum. Möguleikar íslenzks landbúnaðar til útflutnings eru miklir með hlýnandi loftslagi, auknu fiskeldi og vaxandi heimsmarkaði fyrir matvörur. Mestu vaxtarmöguleikarnir hérlendis eru enn um sinn á iðnaðarsviðinu með aukinni raforkuvinnslu í landinu, sem um þessar mundir nemur tæpum 18 TWh/a (terawattstundum á ári), en má með hagkvæmum hætti frá vatnsaflvirkjunum auka upp í 25 TWh/a án dýrkeyptra umhverfisfórna, sem þýðir um 50 % aukningu til iðnaðar, og um enn meiri aukningu getur orðið að ræða, þegar tekizt hefur að virkja jarðgufuna með sjálfbærum hætti.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2014 | 15:54
Átök á milli Rússlands og Evrópu
Í sögulegu samhengi virðast hagsmunir Rússa og þjóðanna vestan þeirra ekki fara saman. Þannig hafa geisað fjölmargar styrjaldir á milli þessara þjóða í tímans rás, þar sem átakaefnin hafa verið land, auðlindir og áhrif vestan og sunnan Rússlands.
Friðrik mikli, Prússakóngur, stundaði skefjalausa útþenslustefnu, lenti í átökum við Rússakeisara og mátti litlu muna, að Rússum tækist að taka Berlín í 7 ára stríðinu, en með heppni og herkænsku tókst Friðriki að varna því og reka Rússa af höndum sér.
Þegar Frakkar höfðu seilst til áhrifa um alla Evrópu, nema í Svíþjóð og á Bretlandi undir forystu Korsíkumannsins Napóleons Bonaparte, þar á meðal sigrað austurríska herinn við Austerlitz og náð tökum á flestum öðrum þýzkumælandi svæðum Evrópu, en Þýzkaland hafði þá enn ekki verið sameinað, var lokahnykkurinn að leggja undir sig Rússland.
Napóleón komst við illan leik til Moskvu 1812, en Rússar skildu eftir sig sviðið land, og rússneski veturinn varð Frökkum að fótakefli, svo að hinum mikla keisaraher Frakklands var nánast útrýmt á steppum Rússlands. Draumar Frakkakeisara um frönskumælandi Evrópu hurfu þar með ofan í glatkistuna, og það var formsatriði fyrir Breta og Prússa nokkrum árum seinna að ganga frá Frökkum við Waterloo. Síðan hafa Frakkar ekki borið sitt barr.
Í Fyrri heimsstyrjöldinni neyddust Þjóðverjar og Austurríkismenn til að berjast á tvennum vígstöðvum, af því að Rússakeisari álpaðist af stað, vanbúinn, og hugði tækifæri fyrir sig til landvinninga í vestri. Þetta reyndist hans banabiti, því að Þjóðverjar smygluðu kaffihúsasnatanum Vladimir Lenín yfir víglínuna frá Sviss, og hann steypti í kjölfarið Rússakeisara af stóli og samdi frið við Þýzkaland.
Það var hins vegar of seint fyrir Þýzkaland, Austurríki og bandalagslönd þeirra, því að Bandaríkin og Kanada höfðu þá blandað sér í baráttuna á vesturvígstöðvunum af miklum þunga, og örlög keisarahersins þýzka voru þar með ráðin.
Stefna kommúnistastjórnarinnar í Moskvu var fjandsamleg Evrópu að því leyti, að hún stundaði alls staðar undirróður, þar sem hún kom því við, með það að markmiði að koma á alræði öreiganna sem víðast, þó að heimsbylting væri ekki á stefnuskránni, eftir að Trotzky varð undir í valdabaráttunni við Stalín.
Hinn andlýðræðislegi og þjóðernissinnaði stjórnmálaflokkur, NSDAP, náði völdum í Þýzkalandi eftir kosningar í landinu í janúar 1933 með því að skapa glundroða í landinu með ofbeldisfullum brúnstökkum, SA-Sturmabteilung, sem var deild í téðum stjórnmálaflokki. Flokkurinn var mjög andsnúinn bolsévismanum í Rússlandi, en samt gerði Ribbentrop, utanríkisráðherra Þriðja ríkisins, griðasamning við Jósef Stalín, Molotoff og Kremlarklíkuna í ágúst 1939, og þar með taldi Adolf Hitler sig geta athafnað sig óáreittan í Evrópu án þess að þurfa að berjast á tveimur vígstöðvum í einu. Það munaði mjóu, að hann kæmist upp með það. Seigla, herkænska, tækninýjungar og öflug njósnastarfsemi Breta komu í veg fyrir áform hans.
Með Breta hart leikna, en ósigraða sumarið 1941, reyndust Þjóðverjar svo algerlega vanbúnir að leggja Rússa að velli, enda skárust Bandaríkin og Kanada í hildarleikinn árið 1942, og mátti hinn öflugi Wehrmacht-her lúta í gras 8. maí 1945 eftir ægilegar blóðfórnir þýzku þjóðarinnar.
Þýzkaland missti gríðarlegt landflæmi eftir ósigurinn 1945, og landamæri Evrópu eru núna fjarri því að fylgja búsetu þjóðerna, þó að þjóðflutningar ættu sér stað í lok stríðsins. Það hefur hins vegar verið óskrifað lögmál eftir 1945 að hreyfa ekki við landamærum, enda yrði þá fjandinn laus.
Vladimir Pútín, Rússlandsforseti á 3. kjörtímabili, sá sér leik á borði eftir vetrarólympíuleikana í Sochi 2014 að bregða út af þessu og sölsa Krímskaga frá Úkraínu undir Rússland, þó að þar búi fjölmargir Tatarar og Úkraínumenn, sem óttast Rússa. Hafa ógnanir Rússa í garð nágrannaríkjanna síðan beinst að því að fá umheiminn til að samþykkja þessa landvinninga sem "fait accompli"-afgreitt mál. Það á ekki að láta Rússa komast upp með slík bolabrögð gegn "alþjóðasamfélaginu".
Mikil hernaðaruppbygging hefur átt sér stað í Rússlandi undanfarin ár. Rússar verja nú 4,2 % af landsframleiðslu sinni eða 88 milljörðum bandaríkjadala árlega til hermála. Þetta er hlutfallslega meira en hjá Bandaríkjamönnum (3,9 %) og miklu meira hlutfallslega en hjá Þjóðverjum (1,4 %), Kínverjum (2,0 %), Frökkum (2,2 %) og Bretum (2,3 %). Upphæðin er þó aðeins 14 % af upphæðinni, sem Bandaríkjamenn verja til þessara mála á ári.
Rússar búa við ýmsa alvarlega veikleika á innviðum sínum, sem gera þá illa í stakk búna fyrir átök við Vesturveldin. Þar má nefna lága fæðingartíðni og bágborið heilsufar, sem hrjáir rússneska herinn og gerir honum erfitt fyrir að manna allar stöður. Þeir hafa stefnt á að hafa eina milljón manns undir vopnum, en hafa í raun 700 þúsund manns. Mikið af hergögnunum er uppfærsla á hergögnum Rauða hers Ráðstjórnarríkjanna.
Nú, þegar NATO hverfur á braut frá Afganistan, blasir við NATO nýtt og þó gamalþekkt hlutverk í Evrópu, sem er að halda Rússlandi í skefjum. Nágrannar þeirra telja nú fulla þörf á því. Til þess mun þurfa um hálfa milljón manns undir vopnum frá Eystrasaltslöndunum og suður til Rúmeníu. Ríður á miklu, að herstjórn NATO takist að sýna þann fælingarmátt, sem dugar. Það er ekki víst, að lengi verði þörf á svo miklum herstyrk búnum nútímavopnum, án kjarnorkuvopna, við austurlandamæri Evrópusambandsins, ESB, því að ekki er víst, að Rússar hafi efni á að verja vaxandi hluta landsframleiðslu sinnar til hermála.
Hermálin taka nú yfir fimmtung ríkisútgjalda Rússlands. Veikt hagkerfi, lækkandi orkuverð og hækkandi meðalaldur mun gera haukunum í Kreml erfitt fyrir. Á meðan Pútín er í Kreml, munu hermálin þó njóta forgangs. Vaxandi hernaðarmáttur Rússa leiðir Rússland fram á völlinn á ný sem valdamikið land. Pútín veðjar á, að þetta láti hinn almenni Rússi sér vel líka. Til þess eru refirnir skornir að halda honum og hirð hans sem lengst við völd.
Ef hann hins vegar þarf enn að herða sultarólina, verður hann meðfærilegri. Þess vegna þurfa Vesturveldin að herða að Rússum á efnahagssviðinu, og ein aðferðin til þess er að draga úr gas- og olíuviðskiptum við þá.
Rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom er þegar farið að nota gasviðskiptin í kúgunarskyni við Úkraínu. Þann 1. apríl 2014 tilkynnti Alexei Miller, forstjóri Gazprom, að gasverð til Úkrínumanna yrði hækkað um 44 % upp í USD 385,5 per þm3 (þúsund rúmmetrar). Þetta þýðir, að árleg útgjöld Úkraínu til gaskaupa munu aukast úr USD 7,5 milljörðum í USD 10,8 milljarða, nema þeim takist að spara eldsneytisgas og/eða fá gas annars staðar frá.
Úkraína skuldar Gazprom nú þegar USD 1,7 milljarða fyrir gasnotkun, og Rússar gætu fundið upp á að draga úr flæðinu um lagnir gegnum Úkraínu sem nemur notkun Úkraínu, 28 milljörðum m3 á ári. Evrópa fær 24 % af sinni gasþörf frá Rússlandi, og helmingurinn, 80 milljarðar m3 á ári, fara eftir lögnum um Úkraínu. Evrópa gæti þannig við refsiaðgerð Rússa orðið af 18 % af gasþörf sinni.
Evrópa á fjölmarga valkosti í þessari stöðu, en hún verður þó að segja B, úr því að hún er búin að segja A, þ.e.a.s. ESB verður að standa við bakið á Kænugarðsstjórninni í baráttu hennar gegn ásælni Rússa. ESB hlýtur þess vegna að veita aðstoð við greiðslu gasreiknings Kænugarðs gegn umbótum í stjórnarháttum þar og orkusparnaði, en vegna niðurgreiðslna á orku í Úkraínu hefur orku verið sóað þar óspart. Úkraínumegin, þar sem gaslagnir þvera landamærin að Rússlandi, eru enn engir magnmælar, svo að ótæpilega er stolið úr lögninni. ESB og AGS munu fljótlega láta setja upp mæla þar og við allar greiningar á lögnunum. Úkraína framleiðir núna um 20 milljarða m3 af jarðgasi og væri hér um bil sjálfri sér næg um gas, ef nýtni væri með sama hætti og í Evrópu vestanverðri.
Í marz 2014 skipaði Leiðtogaráð ESB Framkvæmdastjórninni að gera áætlun um að draga úr ríkjandi stöðu Gazprom á jarðgasafhendingu til ESB. Það verður líklega lögð gasleiðsla frá Kákasusríkjunum og Mið-Asíuríkjunum, t.d. hinu gasauðuga Usbekistan, um Tyrkland til ESB. Þó að vinnsla Norðmanna á olíu hafi allt að því helmingazt frá aldamótum, framleiða þeir enn mikið af jarðgasi og gætu aukið afhendingu til ESB um 10 milljarða m3 á ári.
Bretar eru að feta í fótspor Bandaríkjamanna og hefja vinnslu á jarðgasi úr setlögum með sundrunaraðferðinni (e. fracking). Austur-Evrópa o.fl. eru sömuleiðis að fara inn á sömu braut, þó að andstaða við þessa aðferð sé enn sums staðar í Vestur-Evrópu. Alls er áætlað, að vinnanlegt gas í jarðlögum ESB-ríkjanna nemi 11700 milljörðum m3 eða yfir 30 ára forða m.v. núverandi innflutningsþörf. Þetta er fjórðungur af áætluðum forða Norður-Ameríku. Núverandi vinnsla setlagagass í Norður-Ameríku nemur 70 milljörðum m3 á ári, en vinnsla ESB-landanna er aðeins talin munu nema 4 milljörðum m3 árið 2020.
Eldsneytisgas er nú flutt með skipum á vökvaformi sem LNG (Liquefied Natural Gas). Það hefur verið orkukræft og dýrt að breyta úr gasi í vökva og öfugt, en ný tækni við þetta er að draga stórlega úr þessum kostnaði, og það er líklegt, að Evrópa komi sér upp móttökubúnaði á LNG í ríkari mæli en nú er og muni auka kaup sín frá Persaflóanum og Vesturheimi umtalsvert. Flutningar á LNG með tankskipum munu stóraukast.
31 % eða 160 milljarðar m3 á ári af gasnotkun Evrópu fer nú til rafmagnsvinnslu. 200 milljarðar m3 fara til hitunar á húsnæði og eldamennsku og 150 milljarðar m3 til iðnaðarnota. Með því að auka enn hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda og jafnvel kjarnorku má spara allt að 50 milljarða m3 á ári.
Þegar allt þetta er tekið saman, sést, að Evrópa getur orðið óháð Rússum um kaup á eldsneytisgasi, en það getur tekið allt að 15 árum. Það er líklegt, að þessi stefna verði ofan á, og Rússar eru teknir til við mótvægisaðgerðir með stórfelldum viðskiptasamningi við Kínverja, sem m.a. felur í sér afhendingu á jarðgasi.
Það er líklegt, að til skemmri tíma litið muni árekstrar Rússlands og ESB halda orkuverði í Evrópu háu, en þegar til lengdar lætur mun sú þróun mótvægisaðgerða Vesturveldanna, sem lýst er hér að ofan, hafa áhrif á orkuverð til lækkunar, af því að birgjunum mun stórfjölga, og þar með mun samkeppnin aukast.
Það er staðreynd, að Gazprom hefur haldið ESB í spennitreyju undanfarin 20 ár og gasverðinu þreföldu á við gasverð í BNA undanfarin 3 ár. Slíkt gengur ekki til lengdar, og á því hlaut að verða breyting, þó að friðarspillandi framferði Rússa gagnvart nágrönnum sínum hefði ekki komið til. Ef Vesturveldin með sitt NATO standa í lappirnar, munu Rússar fá að vita, hvar Davíð keypti ölið.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2014 | 18:45
Váboðar í Evrópu
Framferði Rússa í Úkraínu er með eindæmum. Kremlverjar sendu dulbúnar, vopnaðar sveitir til Krímskagans, tóku völdin þar, héldu ólöglegar kosningar og lýstu Krímskagann síðan hluta af Rússlandi.
Einu gildir, þó að Krímskaginn hafi áður verið hluti Rússlands og Vladimir 1. , Rússakeisari, hafi verið að sniglast þar. Vladimir Putin á ekki að komast upp með ofbeldi gagnvart nágrannaríkjum undir neinum kringumstæðum.
Hvers konar fordæmi er hann eiginlega að gefa í Evrópu ? Ef Þjóðverjar o.fl. færu nú á flot með sams konar hundalógík, þá mundi brjótast út styrjöld í Evrópu í 3. sinn á 100 árum. Putin verður að gera afturreka, og þá dugar varla að setja hann og meðreiðarsveinana á "svartan lista". Sennilega dugar ekkert minna en efnahagslegur hernaður gegn Rússlandi og jafnvel nethernaður.
Rússar hafa sent sérsveitir til héraða í Austur-Úkraínu, sem þeir telja hliðholl sér, tekið lögreglustöðvar, æst til uppþota og reynt að skapa glundroða í Úkraínu til að eyðileggja komandi forsetakosningar þar og e.t.v. til að skapa sér átyllu til að ráðast með landher sínum og flugher inn í Úkraínu með svipuðum hætti og Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 til að koma Þjóðverjum innan Póllands til hjálpar. Rússar bölsótast yfir aðgerðum stjórnarinnar í Kænugarði, sem reynir að ná opinberum byggingum og embættum á sitt vald og binda þannig enda á þá lögleysu, sem nú viðgengst í Úkraínu, og Kremlarstjórnin ber ábyrgð á.
Sagan endurtekur sig í sífellu. Kennisetning valdhafa Þriðja ríkisins (1933-1945) var, að allir þýzkumælandi menn ættu siðferðilegan rétt á að búa í einu ríki, Stór-Þýzkalandi, þjóðernisjafnaðarmanna. Á þeim grundvelli var Austurríki tengt Þýzkalandi (Anschluss), Súdetahéruðin og síðan öll Tékkóslavakía innlimuð, og Heimsstyrjöldin síðari hófst 1. september 1939 með því að opna átti leiðina á milli Þýzkalands og Danzig (nú Gydansk) í Póllandi, sem var þýzk. Til að róa Rússa var gerður við þá griðasáttmáli 10 sólarhringum áður og Póllandi skipt á milli Þýzkalands og Rússlands. Vonandi er ekki annar griðasáttmáli í vændum, en undanlátssemi Þjóðverja við Rússa er tekin að ofbjóða mörgum.
Þar sem Þýzkaland er forysturíki Evrópusambandsins, ESB, má segja, að enn standi átökin um Austur-Evrópu á milli Þýzkalands og Rússlands. Nú er hins vegar jafnaðarmaður utanríkisráðherra Þýzkalands og finnst mörgum gæta óþarfa linkindar hjá honum í garð Rússa, þ.á.m. þeim, sem ábyrgzt hafa landamæri Úkraínu, Bretum og Bandaríkjamönnum. Putin spilar á óeiningu Vesturlanda. Hann á ekki að komast upp með slíkt.
Nú er spurningin, hvort Úkraínu verður skipt á milli Evrópusambandsins (ESB) og Rússlands ? Framferði Rússa nú árið 2014 minnir um margt á framferði Þjóðverja á dögum Þriðja ríkisins. Vladimir Putin, sem augljóslega er haldinn mikilmennskubrjálæði, hefur lýst því yfir, að allir Rússar eigi rétt á því að búa undir rússneskum verndarvæng og hann muni vinna að því, að svo verði á sínum valdaferli.
Þetta er með algerum endemum, og Vesturveldin verða að setja upp í sig tennurnar strax og Vesturlandamenn að vona, að einhverjar vígtennur séu þar á meðal. Í Evrópu er fátt um fína drætti í þeim efnum, en NATO undir forystu Bandaríkjanna (BNA) verður þar að koma til skjalanna.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er; í þessu máli hefur ESB rétt einu sinni orðið sér til skammar, þegar á herti. Þar er hver höndin upp á móti annarri, svo að viðbrögð Vesturveldanna eru friðkaup enn sem komið er, þó að Bretar og Bandaríkjamenn, sem ábyrgðust landamæri Úkraínu fyrir 20 árum, hafi talað fyrir harðari aðgerðum. Þetta viðurkennir hinn stæki ESB-sinni, Joschka Fischer, græningi og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands í góðri grein, "Þáttur Evrópu í harmleik Úkraínu", sem Morgunblaðið birti 29. apríl 2014. Joschka kvað Kremlverja nú beita "spægipylsuaðferðinni á Úkraínu, og um forysturíki ESB, Þýzkaland, hafði hann þetta að skrifa:
"Það hefur aðallega verið Þýzkaland, sem hefur streitzt gegn því að samþætta orku-og jarðgasmarkað Evrópu. Eftir harmleikinn í Úkraínu getur enginn í Berlin varið þessa afstöðu, sér í lagi í ljósi þess, að leiðtogar Þýzkalands vilja ekki beita Rússa refsiaðgerðum. Það verður ekki lengur neitt rými til afsakana um, hvers vegna ætti ekki að koma á orkusambandi."
Málið er, að efnahag Rússlands hnignar, vinsældir Putins voru í rénun, enda búinn að vera lengi við völd og mikið spillingarfargan í kringum hann. Hann sá sér færi á að setja hefðbundna útþenslustefnu Rússlands á dagskrá sér til framdráttar, þegar byltingin gegn Janukovich, leppi Rússa, var gerð í Kænugarði í vetur. Rússland stendur á brauðfótum, fámennisauðvald hefur tögl og hagldir, en almenningur lepur dauðann úr skel og huggar sig með bokkunni. Drykkjuskapur er að gera út af við Rússland, meðalaldur fer lækkandi, og Rússum fækkar.
Rússland státar ekki af innri styrk Þriðja ríkisins, þar sem valdhafarnir hættu strax við valdatökuna 30. janúar 1933 að greiða sigurvegurum Fyrri heimsstyrjaldarinnar stríðsskaðabætur og beindu þess í stað fénu í fjárfestingar í innviðum Þýzkalands og hlutu vinsældir fyrir. Þjóðverjum fjölgaði hratt í Weimarlýðveldinu og fram að Síðari heimsstyrjöld, og þeir tóku forystu í tækniþróun og iðnaðarframleiðslu, sem á dögum Þriðja ríkisins var reyndar beint að vígbúnaði.
Það var að vísu þannig, að í febrúar 1942, þegar Albert Speer tók við embætti vígbúnaðarráðherra, nam hergagnaframleiðsla Þjóðverja aðeins fjórðungi þess, sem hún var í hámarki Fyrri heimsstyrjaldarinnar í tonnum talið hjá keisaranum. Þjóðverjar voru í raun vanbúnir til stórátaka 1939. Albert Speer þrefaldaði framleiðsluna á skömmum tíma með aðeins þriðjungs aukningu mannafla.
Ekkert slíkt öflugt framleiðslukerfi er fyrir hendi í Rússlandi. Ef dregið verður kerfisbundið úr viðskiptum við Rússa á öllum sviðum, munu ólígarkarnir velta valdhöfunum í Kreml úr sessi. Rússland stendur á brauðfótum, en hættan er sú, að kalda stríðið fari úr böndunum og verði heitt, sem gæti leitt til tortímingar.
Eins og fram kemur hér að ofan hjá Joschka Fischer, bera Þjóðverjar taugar til Rússa, en sömu sögu er ekki að segja um Pólverja, sem enn muna hryðjuverkin í Katyn-skógi. Joschka Fischer skrifaði eftirfarandi í téðri grein:
"Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur lagt fram réttu leiðina hérna; snögga stofnun orkusambands Evrópu, þar sem byrjað yrði á markaðinum fyrir jarðgas með sameiginlegri stefnu út á við og sameiginlegri verðskrá. Þetta skref ásamt frekari greiningu á þeim ríkjum, sem leggja til orkuna, og tækniframförum í þá átt að koma á fót endurnýjanlegum orkugjöfum, mundu snúa við valdataflinu á milli Kremlar og Evrópusambandsins, sem er mikilvægasti viðskiptavinur Rússlands, þegar kemur að olíu og jarðgasi."
Það er lítill vafi á því, að samtaka Vesturlönd geta knúið Rússa til uppgjafar í efnahagslegu og fjármálalegu stríði. Strax þarf að hefjast handa með vinnslu jarðgass í Evrópu með "sundrunaraðferðinni" (e. fracking), sem gefizt hefur vel í BNA og Kanada, þannig að þessi lönd eru að verða sjálfum sér næg með jarðefnaeldsneyti, og gasverð þar hefur lækkað um 2/3 og raforkuverð um 1/3 ffyrir vikið. Á meðan þessi þróun á sér stað þarf að frysta innistæður Rússa, hvar sem til þeirra næst, og draga úr viðskiptunum við þá.
Það, sem ekki tókst við Stalingrad veturinn 1943, þar sem 6. her von Paulus, 265 000 manns, var umkringdur, galt afhroð og gafst upp 31. janúar 1943, og við Kursk sumarið 1943, þar sem Wehrmacht og Rauði herinn háðu mestu skriðdrekaorrustu sögunnar, verður unnt án blóðsúthellinga með samstilltu átaki Þýzkalands, Bretlands og Bandaríkjanna, þ.e. að koma Rússlandi á kné, en þó aðeins, ef Berlín þekkir sinn vitjunartíma, eins og Joschka Fischer bendir á.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 1.5.2014 kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2014 | 21:03
Þvættingur aðildarsinna
Ekki ríður nú heimatrúboð ESB feitum hesti frá viðureigninni við þá, sem aldrei hafa fundið eða hafa þegar losað sig við "kraftbirtingarhljóm" inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Einn þvættingurinn úr heimatrúboðinu er, að þeir, sem ekki finna "kraftbirtingarhljóminn" séu einangrunarsinnar, og hinir ofstækisfyllstu halda því fram, að Ísland sé einangrað. Ekkert er fjær sanni, því að við viljum, að landið hafi frelsi til samninga og samskipta við þær þjóðir, sem við höfum hug á að efla tengsli við, en séum ekki bundin á klafa Berlaymont innan viðskiptamúra ESB. Það hefur að vísu komið í ljós í utanríkissamskiptum landsins, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir, en hvernig það á að breytast við inngöngu í ESB er óútskýrt.
Damanaki og aðrir, sem mótuðu samningsafstöðu ESB um nýtingu á makríl í Edinborg í marz 2014, opinberuðu hentistefnu sína og skilningsleysi á hagsmunamálum Íslendinga. Jafnframt sýndu þeir í verki, hvers vegna 80 % nytjastofna í lögsögu ESB eru ofnýttir og sumum liggur við útrýmingu. Það er vegna þess, að sjálfbær nýting auðlinda er einvörðungu í nösunum á þeim, og ætíð er látið undan þrýstingi hagsmunaaðila, þó að slíkt stríði algerlega gegn ráðleggingum vísindamanna. Hvernig halda menn nú, að málum yrði skipað, ef Berlaymont yrði hleypt að ákvarðanatöku um nytjar íslenzku lögsögunnar ? Það eru ótrúlegir einfeldningar, sem enn trúa því, að innganga í ESB geti átt sér stað á forsendum Íslendinga og að allt verði nánast óbreytt varðandi fiskveiðistjórnun og eignarhald á sjávarútveginum. Sjá menn ekki skriftina á veggnum í Edínaborg ?
Það hefur verið sýnt fram á, að umsóknin um aðild Íslands sigldi í strand í marz 2011, fyrir þremur árum, þegar Frakkar, Spánverjar og Portúgalir komu í veg fyrir birtingu rýniskýrslu ESB á sjávarútvegskafla aðlögunarferlisins á þeim forsendum, að skilyrði meirihlutans í utanríkismálanefnd Alþingis væru ósamrýmanleg sjávarútvegsstefnu ESB. Þetta fóru Össur og Þorsteinn með sem mannsmorð, og ríkisstjórn Jóhönnu heimtaði trúnað um upplýsingar, sem fram komu í utanríkismálanefnd um þetta. Þess vegna var þjóðin leynd sannleikanum, og Össur hélt því blákalt fram gegn betri vitund, að vel gengi.
Að kröfu Jóhönnu rak Steingrímur Jón Bjarnason úr stóli sjávarútvegsráðherra og tók sjálfur við embættinu 31. desember 2011. Það gat hins vegar engu breytt um viðræðurnar, því að vandamálið lá í utanríkismálanefnd Alþingis, sem Össur fékk ekki haggað. Steingrímur hélt utan til Brüssel í ársbyrjun 2012 og ætlaði að binda endi á viðræðurnar með því að þröngva Füle til að birta rýniskýrsluna. Við slíka birtingu hefði orðið stjórnmálaleg sprenging á Íslandi, umsóknin orðið sjálfdauð og Steingrímur verið skorinn úr snörunni. Í stað þess veslaðist hann upp, pólitískt, og missti formannsembættið í flokkinum sínum, VG.
Þvættingurinn nú um, að kjósa verði úm framhald inngönguferlisins, sem Össur frestaði fram yfir kosningar 2013 og Gunnar Bragi stöðvaði strax eftir stjórnarmyndun, er algerlega úr lausu lofti gripinn, og frá bæjardyrum Berlaymont hlýtur hann að virka sem út úr kú, því að hvað svo ? ESB birtir ekki rýniskýrslu sína, nema utanríkismálanefnd Alþingis lagi skilyrði sín að hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB. Á því eru hins vegar engar líkur. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna er þess vegna fíflagangur, þar sem kjósendur yrðu hafðir að erkifíflum, því að niðurstaðan mundi engu breyta. Sá skrípaleikur yrði auðvitað í boði Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, og því miður hefur Vinstri hreyfingin grænt framboð misstigið sig illilega og klofið samstöðu andstæðinga aðildar að ESB með því að boða þingsályktunartillögu um að leggja umsóknina á ís og kjósa um framhaldið í lok kjörtímabilsins. Katrín gerir sig seka um að draga kjósendur á asnaeyrunum með ákvarðanafælni sinni. Að kjósa um steindautt mál, fortíð, sem enginn fær breytt, er fáránlegt og viðbjóðsleg blekkingarstarfsemi, svo að ekki sé nú minnzt á sóunina.
Við stöndum nú frammi fyrir nauðsyn kalds hagsmunamats í utanríkismálum og verðum að hafna tilfinningaþrungnum þvættingi um, að við eigum heima í ríkjasambandi Evrópumanna. Þar eru þau vatnaskil að verða núna, að til að vegna vel þar, verður að ganga í takti við Berlínarbændur. Gæsagangur er hefðbundið göngulag Prússa og alls ekki bundið við Þriðja ríkið, en ekki er víst, að það henti eyjarskeggjum norður í Atlantshafi alls kostar, þó að sumir kunni því vel.
Íslendingar hafa frá fornu fari átt góð og oftast vinsamleg samskipti við Þjóðverja, þó að verulegan skugga bæri á í heimsstyrjöldinni síðari, er við lögðum okkur í framkróka við að þjóna brezka heimsveldinu, fóðra Breta með fiski, enda hernumin þjóð af Bretum, og urðum fyrir miklum mannskaða á hafinu af völdum þýzka flotans, sem reyndi að vinna upp, það sem Luftwaffe tapaði óvænt sumarið og haustið 1940 í orrustunni um Bretland, þar sem ný tækni Bretanna reið baggamuninn.
Enn á ný horfa Þjóðverjar til austurs. Það hafa þeir gert, frá því að þeir réttu úr kútnum eftir 30 ára stríðið, 1618-1648, sem fór mjög illa með þá, og raunar löngu áður með Junkerum á 15. öld. Þangað hafa þeir sótt "Lebensraum" fyrir vaxandi mannfjölda. Nú er slíkri þörf ekki lengur til að dreifa, af því að þeim fækkar, og hið sama gildir um Rússa, sem hafa verið meðspilarar Þjóðverja frá því á tíma Gorbatsjoffs, sem leyfði járnkrumlu kommúnista utan um Austur-Þýzkaland að leysast upp árið 1989. Í kjölfarið unnu Þjóðverjar afrek við sameiningu hernámssvæðis Rússa við Vestur-Þýzkaland og bera nú um stundir ægishjálm yfir önnur ríki Evrópu vestan Rússlands vegna dugnaðar síns, skipulagningar, iðni og nákvæmni.
Nú mun reyna gríðarlega á ríkisstjórnina í Berlín og viðskiptajöfra Þýzkalands við að sigla á milli skers og báru, nú þegar rússneski björninn lyftir hrömmunum og gerir sig líklegan til landvinninga í vesturátt. Af þeim atburðum í Úkraínu, sem þegar hafa orðið, svo og auknum hernaðarumsvifum í Rússlandi, má ráða, að í Evrópu sé aftur að myndast mikil spenna á milli þjóða.
Lykilatriði um þróun mála verður afstaða ríkisstjórnarinnar í Berlín. Þýzkaland er auðvitað mjög tengt hagsmunaböndum til vesturs, en einnig til austurs, og Rússar geta í einu vetfangi lamað hið öfluga hagkerfi Þýzkalands með því að orkusvelta það. Svo að segja með einu handtaki geta þeir skrúfað fyrir lífæð hagkerfisins, gaslagnir um Úkraínu og á botni Eystrasalts.Til lengdar mun það vopn hins vegar snúast í höndum Rússa, því að Þjóðverjar munu afla sér eldsneytisgass eftir öðrum leiðum, en það tekur fáein ár.
Í kjölfar aðgerða af þessu tagi yrði Rússland einangrað, eins og var á ráðstjórnartímanum, og veldi Pútíns mun þá hrynja. Þá munu Þjóðverjar stíga inn á sviðið sem hjálparhellur, því að markmið þeirra er og hefur lengi verið lýðræðislegt réttarríki í Rússlandi, þar sem þeir geta fjárfest í auðlindum og markaðssett sínar vörur og tækniþekkingu. Það er alls ekki ólíklegt, að Evrópu verði á fyrri hluta 21. aldarinnar stjórnað af öxlinum Berlín-Moskva, en öxullinn Berlín-París muni tærast í sundur, enda þegar orðinn feyskinn.
Við þessar aðstæður munu ekki öll aðildarlönd ESB telja sér vært þar, svo að núverandi ESB mun klofna. Hvaða utanríkispólitísku greiningar lágu eiginlega að baki þeirri hugmynd, að Ísland ætti heima í ESB ? Engar. Hugmyndin var reist á tilfinningalífi nokkurra jafnaðarmanna og peningamanna á Íslandi. Hvílíkur Jón í Hvammi, var sagt, þegar mönnum blöskraði. Álpast var út í forarvilpuna algerlega hugsunarlaust.
Hvar liggja þá meginhagsmunir Íslands ? Það getur hugsazt, að Washington fái meiri áhuga fyrir Evrópu og vilji endurnýja fótfestu sína þar, að breyttu breytanda, þegar viðsjár fara þar vaxandi, eins og nú eru horfur á. Í Moskvu ríkir forseti, sem er umhugað að reisa við stolt Rússa, sem beið hnekki við upplausn Ráðstjórnarríkjanna, og að víkka út landamæri ríkisns til að fleiri Rússar fái notið dásemda Kremlarstjórnvaldsins. Slíkt fellur í kramið heima fyrir.
Þetta minnir á það, þegar austurríski áhugaarkitektinn frá Linz, sem lét kjósa sig arftaka Hindenburgs 1934 og varð þar með bæði kanzlari og forseti Þýzkalands, der Führer Deutschlands, sópaði þýzkumælandi fólki undir sinn verndarvæng með myndun Stór-Þýzkalands.
Það er gríðarlega eldfimt að breyta landamærum einhliða í Evrópu, og ESB og NATO verða strax að brýna klærnar. Fyrstu viðbrögð að neita nokkrum rússneskum pótintátum um vegabréfsáritun eru hláleg, og betur má, ef duga skal. Rússlandsforseti er kominn með "blod på tanden", nákvæmlega eins og Þýzkalandsforsetinn 1936, skömmu eftir vel heppnaða Olympíuleika í Berlín, er hann sendi lítt búna Wehrmacht-liða og endursameinaði Rínarlönd Þýzkalandi. Þar hefði verið útlátalítið að veita karli viðnám og hrekja hann úr valdasessi. Tannlaust og klóalaust tígrisdýr getur hins vegar ekki stöðvað Rússlandsforseta. Eins og Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, hefur bent á, eru til viðskiptalegar aðferðir, sem duga gegn þeim karli. Nú er spurningin, hvort silkihanzkar forseta íslenzka lýðveldisins í Bodö og ofanígjöf við norskan ráðuneytisstjóra þar eru rétta aðferð okkar Íslendinga gagnvart yfirgangi Kremlverja.
Eins og fyrir 100 árum, árið 1914, getur lítill neisti fljótt orðið að miklu báli árið 2014. Það er erfitt að finna rök fyrir því, að við þessar aðstæður sé Íslendingum hollast að binda trúss sitt enn traustari böndum við ESB, sem er gerandi í átökunum við Rússa. Skynsamlegra er fyrir okkur, sem erum á jaðri Evrópu, að horfa nú til vesturs en austurs og suðurs í stjórnmálalegu og viðskiptalegu tilliti, þó að við reynum að halda í horfinu þar í viðskiptalegu tilliti.
Ef svo fer fram sem horfir með verðhjöðnun í Evrópu, þá mun markaðsverð fyrir afurðir okkar fara lækkandi, svo að markaður fyrir vörur frá Íslandi verður þar ófýsilegur. Þá er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, að horfa til annarra átta.
Hið ískyggilega við þessa þróun mála í Evrópu er, að á sama tíma aukast viðsjár með þjóðum Austur-Asíu, t.d. á milli Kínverja og Japana. Þar er á yfirborðinu um að ræða deilur um yfirráð yfir ákveðnum eyjaklasa, en deilurnar snúast í raun um forystuhlutverk í þessum heimshluta. Báðar þjóðirnar efla nú mjög vígbúnað sinn, einkum flotann.
Þessi neikvæða þróun heimsmálanna er slæm fyrir Íslendinga, sem þrífast bezt með jákvæðum samskiptum og frjálsum viðskiptum. Heimurinn mun þó afram hafa þörf fyrir aðalafurðir okkar, heilnæmar sjávarafurðir og gæðaál. Ástand af þessu tagi er líklegt til að gera orkulindirnar enn verðmætari en áður. Það er bráðnauðsynlegt fyrir hagkerfið og lífskjörin í landinu að auka enn nýtingu þeirra með gerð nýrra miðlunarlóna og vatnsaflsvirkjana. Að standa gegn slíku er að leggjast þversum gegn framförum, sem eru forsendur bættrar afkomu almennings, sem sterkt ákall er eftir.
Ákvarðanafælni hefur einkennt orkumálin hérlendis undanfarin ár með þeim afleiðingum, að alvarlegur raforkuskortur vofir nú yfir landsmönnum, enda hefur miðlunargetan ekkert aukizt frá tilkomu Hálslóns og landshlutatenging raforkukerfis landsins er til vanza, og stendur þróun atvinnulífsins fyrir þrifum. Fyrirhyggjuleysi þeirra, sem hér hafa um vélað, er nú aldeilis að koma landsmönnum í koll með margmilljarða króna tjóni af völdum vatnsskorts. Einkennileg gæluverkefni hafa drepið orkumálaumræðunni á dreif, og tímabært er að fást við gagnleg verkefni í stað sýndarmennsku og hégómaskapar. Eru vonir bundnar við, að ný stjórn Landsvirkjunar, sem væntanleg er í næsta mánuði, brjóti blað í þessum efnum, t.d. með því að landa samningum, sem eitthvað kveður að, og kalla á umtalsverðar beinar erlendar fjárfestingar í landinu.
Neyðarástand verður í landinu, ef miðlunarlón á borð við Þórisvatn tæmist í vor, en á því er hætta. Það verður strax að bregðast við með markvissum aðgerðum. Bent hefur verið á breytt tíðarfar, og þá er að bregðast við því, en ekki bara sitja prúð(ur) með hendur í skauti. Eitt ráðið er að bæta vatnsnýtinguna með því að fjölga virkjunum í Þjórsá. Annað er að virkja stórt fyrir norðan, t.d. í Jökulsá á Fjöllum. Þriðja að auka miðlunargetu sunnan heiða, t.d. með Hágöngumiðlun, og fjórða að auðvelda miðlunargetu á milli landshluta með öflugri Sprengisandslínu. Það er hægt að milda umhverfisáhrif af henni með nýrri gerð stólpa og axla (brúa), sem lítið ber á, og grafa hana í jörðu á 25 km kafla, sem gerir hana ósýnilega frá um 70 % af veginum, sem þarna kemur.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.12.2013 | 18:38
Heljarstökk
Um þessar mundir undirbýr Evrópusambandið, ESB, mesta heljarstökk sitt frá því, að evrunni var hleypt af stokkunum. Um er að ræða bankabandalag evru-landanna, þar sem löndum innan ESB án evru verður hleypt inn. Spurning er, hvort EES ríkjunum verður hleypt í þetta samstarf, eða hvort Svisslendingar, sem sópar að í bankaheiminum, kæra sig um aðild að bankabandalaginu, sem hleypa af stokkunum að ári.
Með þessu er ætlunin að flytja eftirlit, upplausnarvald og styrkingarheimildir fyrir fjármálafyrirtæki frá einstökum ríkjum og til seðlabankans í Frankfurt. Með á að fylgja þangað Evrópusjóðurinn til að ausa úr til þrautavara til að koma í veg fyrir fjármálalegan óstöðugleika og fall banka.
Hér er auðveldara um að ræða en í að komast. Þjóðverjar drógu lengi lappirnar og vildu ekki, að þýzkir sparisjóðir þyrftu að lúta þessu sameiginlega eftirliti, líklega af því að þar er maðkur í mysunni. Fyrir kosningarnar í september 2013 var hamrað á því í Þýzkalandi, að Þjóðverjar yrðu látnir standa sem fjárhagslegir bakhjarlar fyrir evrópskt bankakerfi á brauðfótum, en nú virðast þeir sjá sér hag í að raungera þennan væna áfanga á leiðinni að sambandsríki Evrópu, þó að það geti óneitanlega kostað þýzka skattgreiðendur útlát. Ekki verða því þó gerðir skórnir hér, að þessi stefnumörkun endurspegli stórveldisdrauma. Miklu líklegra er, að Berlín meti það svo, að bankabandalag Evrópu muni styrkja evruna í sessi, og er ekki talið af veita, eins og í pottinn er búið í mörgum evru-löndum nú um stundir, þar sem hagkerfi þeirra er hreinlega of veikburða til að búa við sterkan gjaldmiðil á borð við evru. Það hefur reynzt ríkjum bjarnargreiði að hleypa þeim inn vanbúnum. Það er annaðhvort fals eða vanþekking að baki fullyrðingum hérlandsmanna um, að það yrði landsmönnum hin mesta kjarabót að stökkva á evruna. Það er þó hverju orði sannara og mikið keppikefli, að sterkur gjaldmiðill lækkar innflutningsvörur í verði og eykur kaupmátt Íslendinga erlendis, en ef undirstaða gjaldmiðilsins er ekki réttlig fundin, þá verður mikið atvinnuleysi í landinu og erfitt að selja vörur og þjónustu á erlendum mörkuðum. Við þurfum að feta svipaða braut og Þjóðverjar að ná verðstöðugleika og samkeppnihæfni með mikilli framleiðni og háum gæðum. Þá getum við tekið upp hvaða gjaldmiðil sem er að því tilskildu, að yfirvöld viðkomandi gjaldmiðils samþykki slíkt og að viðkomandi seðlabanki virki til þrautavara fyrir íslenzkt peningakerfi.
Bankabandalagsverkefni ESB var hleypt af stokkunum í júní 2012, þegar spænskir bankar stóðu hvað tæpast. Hlutverk bankabandalagsins er að rjúfa tengslin á milli ríkisstjórna og fjármálafyrirtækjanna, þannig að atburðir á borð við írska slysið þurfi ekki að endurtaka sig. Írski ríkissjóðurinn var að kröfu ESB látinn axla skuldir írskra banka í fjármálakreppunni haustið 2008 til að bjarga írskum bönkum úr lausafjárvanda, þegar fall írska bankakerfisins var talið geta haft keðjuverkandi áhrif í Evrópu og víðar. Til þess fengu Írar mjög há og dýr lán hjá EB og AGS, sem þeir verða lengi að bíta úr nálinni með. Írska leiðin er nú mönnum víti til varnaðar.
Eins og kunnugt er, lagði ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde fyrir Alþingi að láta skipta föllnu bönkunum upp, flytja íslenzkar skuldir bankanna, innistæður og útlán með afföllum inn í nýja íslenzka banka og láta erlendar skuldir róa með lánadrottnunum. Þetta var íslenzka leiðin. Ríkisstjórn Geirs og Alþingi sigldu gegn mjög miklu alþjóðlegu andstreymi við þessar aðgerðir, ekki sízt frá ESB, af því að allar erlendar ríkisstjórnir og fjármálastofnanir töldu, að þetta gæti haft slæmar afleiðingar á fjármálakerfi Evrópu og veitt slæmt fordæmi.
Nú er komið í ljós, að þjóðhagslega var þetta bezta lausnin og andstætt svartagallsrausi vinstri flokkanna á Íslandi, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem lögðu sig í framkróka við að smeygja ríkisábyrgð á skuldir föllnu bankanna og buktuðu sig þannig og beygðu fyrir erlendum ríkisstjórnum og kommissörum ESB af fádæma undirgefni, sem sennilega má kenna við landráð. Hvernig væri að leyfa Steingrími Jóhanni og Jóhönnu Sigurðardóttur að bera glóandi járn fyrir Landsdómi og bergja þannig á eigin miði ?
Aðgerðir Alþingis haustið 2008 voru dæmdar löglegar að alþjóðarétti af EFTA-dómstólinum í janúar 2013. Öll var þessi furðulega hegðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur til þess fallin að ganga í augun á búrókrötunum í Brüssel til að auðvelda aðildarviðræðurnar, sem hvorki gekk né rak með, og þessar óheillakrákur, Jóhanna, Steingrímur, Katrín Jakobsdóttir og Össur reyndust algerlega ófær um að leiða til lykta fremur en annað, sem þau tóku sér fyrir hendur. Óþarft er að minnast á garminn Ketil skræk í þessu sambandi, fyrrverandi ráðgjafa hins hroðalega illa rekna Íbúðalánasjóðs, en stjórnarandstaða hans er ekki burðugri en ráðherradómurinn, og var þá ekki úr háum söðli að detta.
Núna eru mun hærri vextir á Norður-Ítalíu, sem og á Ítalíu allri, en norðan landamæranna í Ölpunum, Austurríkismegin, svo að dæmi sé tekið. Þetta og margt fleira veldur núningi á milli norður- og suðurhluta evrusvæðisins, sem er svo svæsinn, að á öllu evrusvæðinu er umræða um upplausn þess. Með bankabandalaginu er ætlunin að draga úr þessum vaxtamuni og helzt að eyða honum.
Bankabandalag ESB krefst þess af Þjóðverjum og öðrum lánadrottnararíkjum innan ESB, að þau gangi í ábyrgð fyrir skuldararíkin og að þau hætti að hygla eigin bönkum. Þetta hefur lengi staðið í Þjóðverjum, en þeir hafa nú kokgleypt þessar skuldbindingar gegn því, að evrubankinn í Frankfurt hafi eftirlitsskyldum að gegna og fái upplausnarvald yfir 130 stærstu bönkunum og geti hlutazt til um rekstur allra annarra banka á evrusvæðinu, sem eru nokkur þúsund talsins.
Það er önnur saga, að Þjóðverjar eru alls ekki einráðir um stjórnun evrubankans, heldur sitja í æðsta ráði bankans seðlabankastjórar allra evrulandanna og 6 manna framkvæmdastjórn hans. Þjóðverjar hafa að vísu nú fengið því framgengt, að atkvæðavægið verður ekki jafnt, heldur nokkru nær stærðarhlutföllum hagkerfanna. Sem dæmi að taka er hagkerfi Þýzkalands um 100 sinnum stærra en Lettlands, sem taka mun upp evru nú um áramótin, en Þjóðverjar munu hafa minna en tvöfalt atkvæðavægi á við Letta. Margir Þjóðverjar hafa áhyggjur af því að verða ofurliði bornir í mikilvægum atkvæðagreiðslum í æðsta ráði bankans.
Á vegum bankabandalagsins verður gagnkvæm innistæðutrygging allra evrulandanna. Bankar evrulandanna munu að þessu leyti búa við svipað kerfi og bankar í Bandaríkjunum.
Þjóðverjar hafa hingað til barizt fyrir því, að völdin yfir þýzkum peningum væru í þýzkum höndum. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, hefur sagt, að bankabandalagið ætti að vera úr timbri, en að hafa það úr stáli mundi útheimta breytingar á sáttmálum ESB. Nú hefur hann samþykkt, að gagnkvæm ábyrgð myndist smám saman á 10 árum með EUR 55 milljarða sjóði að bakhjarli. Hann hefur þó ekki samþykkt, að þetta fé komi frá skattgreiðendum, heldur bönkunum sjálfum. Ef banki fer á hausinn, mun þó ofangreindur bakhjarl aðeins tryggja innistæðurnar, en hvorki hluthafa bankans né lánadrottna hans. Ekki verður annað séð en þetta sé keimlíkt íslenzku leiðinni frá 2008, sem allt ætlaði vitlaust að verða út af á sinni tíð.
Í fersku minni er meðferð Breta á Íslendingum haustið 2008, en þá hljóp brezki ríkissjóðurinn undir bagga með öllum illa stöddum bönkum á Bretlandi, en lét útibú íslenzku bankanna sigla sinn sjó. Mörgum hefur verið þessi hegðun hrein ráðgáta, því að gott samband hefur alla tíð verið á milli Englandsbanka og íslenzkra bankayfirvalda, þ.e. Seðlabanka Íslands eftir stofnun hans. Er skemmst að minnast, að Ísland var í myntbandalagi við Bretland á 3. áratugi 20. aldarinnar. Að tengjast sterlingspundinu kann að verða bæði fýsilegt og raunhæft eftir afnám gjaldeyrishaftanna, ef stöðugleiki næst í íslenzka hagkerfinu, eins og grunnur hefur nú verið lagður að, hvað sem verður.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Bretar reka öfluga leyniþjónustu innanlands og utan, MI5 og MI6. Nú hefur sú getgáta verið viðruð opinberlega, að brezku ríkisstjórninni hafi borizt um það upplýsingar, að stundað væri stórfellt peningaþvætti í íslenzkum bönkum, þar sem fé frá Rússlandi ætti í hlut. Háð umfangi þessarar starfsemi gæti þessi vitneskja skýrt beitingu hryðjuverkalaga gegn íslenzku bönkunum og gegn Íslandi, þar sem Bretar torvelduðu greiðslumiðlun til og frá Íslandi eftir megni. Hvers vegna hefur sannleikurinn í þessu máli ekki verið opinberaður ? Til náinnar gjaldeyrissamvinnu við Breta getur ekki komið fyrr en fullnægjandi skýring hefur á framferði Breta fengizt, og sýnt hefur verið fram á, að ríkisstjórn Verkamannaflokksins, Samfylkingar Bretanna, hafi haft málefnalegar ástæður fyrir gjörðum sínum; ella verður opinber afsökunarbeiðni að koma seint og um síðir, því að fruntaháttur og meiðandi aðgerðir brezka fjármálaráðherrans urðu Íslendingum þungar í skauti.
Bankabandalagið mun styrkja evruna, en ekki leysa evrukreppuna, sem enn er á alvarlegu stigi. Upptaka evru á Íslandi verður ögn fýsilegri, en engan veginn nógu fýsileg, þegar á allt er litið, til að mæla með upptöku hennar. Á evrusvæðinu gæti orðið mikið öldurót á komandi ári, og samkvæmt reglum ESB-sjálfs er full aðild að Evrópusambandinu skilyrði þess að evrubankinn verði fjárhagslegur bakhjarl að bankakerfi lands, sem gerir evru að lögeyri sínum. Fyrrverandi ríkisstjórn, Jóhönnustjórninni, varð ekkert ágengt í aðildarviðræðunum við ESB, og núverandi ríkisstjórn, Laugarvatnsstjórnin, hefur allt aðra forgangsröðun með réttu. Það er auðvitað með öllu ótækt að ætla að fara inn í ESB á hækjum. Enn fullnægjum við engu Maastricht-skilyrðanna, en það ætti að setja það á dagskrá að fullnægja þeim öllum fyrir árið 2020. Skipulega er nú hvert skrefið á fætur öðru tekið í þá átt. Þá verður líka mikið vatn runnið til sjávar í Evrópu, og valdahlutföll á milli Þjóðverja, Breta, Frakka og Rússa tekin að skýrast ásamt framtíðarfyrirkomulagi ESB.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2013 | 21:25
Söguleg átök
Í Asíu minnir vopnaskak Kínverja og Japana út af óbyggðum eyjaklasa suðurundan Japan á argvítug stríð á milli þessara þjóða á öldum áður. Nú hafa Suður-Kóreumenn blandað sér í þessa stöðubaráttu, og í Norður-Kóreu hafa upp hafizt hjaðningavíg, sem kunna að verða upphafið að falli illræmdustu kommúnistastjórnar heimsins nú á tímum. Í forgrunni glittir í baráttu um auðlindir, þar sem eldsneyti er talið vera undir hafsbotni Kínahafs.
Í Evrópu fer einnig fram hörð stöðubarátta, þó að ekki sé sjáanlega um aftökur eða vopnaskak að ræða, nema á austurjaðri ESB, í Úkraínu, sem nú er aðalátakasvæðið í Evrópu og hefur svo áður áður verið. Eftirfarandi tilvitnun í fyrstu ræðu nýskipaðs utanríkisráðherra Þýzkalands, 17. desember 2013, er til vitnis um átök Rússlands og Þýzkalands um Úkraínu:
"Það er hneykslanlegt hvernig Rússar nýta sér efnahagsþrengingar Úkraínumanna til að koma í veg fyrir að þeir skrifi undir samstarfssamning við Evrópusambandið. Framkoma úkraínskra öryggissveita gagnvart friðsömum mótmælendum er þó ekki síður hneykslanleg, sagði Steinmeier. Hann viðurkenndi jafnframt að boð ESB um fjárhagslegan og efnahagslegan stuðning dygði ekki til að tryggja samkeppnishæfni Úkraínu og tengja þjóðina efnahagslega við Evrópu."
Í Evrópu er stunduð umfangsmikil njósnastarfsemi, hleranir og myndatökur, til að komast að fyrirætlunum jafnt bandamanna sem annarra. Sannast þar hið fornkveðna, að enginn er annars bróðir í leik. Er líklegt, að ormétið innbyrðis traust Vesturveldanna grafi undan nánu samstarfi þeirra, eins og við höfum kynnzt því hingað til. Menn hlera ekki og standa á gægjum um vini sína án þess að slettist upp á vinskapinn. Að ræna einstaklinga á Vesturlöndum einkalífi sínu mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðisþróunina, hvort sem málstaðurinn er göfugur eður ei.
Það er ekki einleikið, hvernig stríð fortíðarinnar endurspeglast í atburðum samtímans. Enn einu sinni er Úkraína bitbeinið og aðalleikararnir eru hinir sömu, Svíar og Rússar, með Þjóðverja í bakgrunni. Í júní 1709 var háður örlagaríkur bardagi á milli herja Péturs mikla, Rússakeisara, og Karls 12, Svíakonungs, við Poltava, sem er í Úkraínu. Úkraínumenn börðust með báðum aðilum, alveg eins og nú, er þeir skipa sér í sveit með Rússum eða Evrópusambandinu, ESB, hvar Svíar og Þjóðverjar eru öflugir.
Ívan Mazepa, úkraínskur kósakkahöfðingi, hafði tekið afstöðu með Svíum til að berjast fyrir sjálfstæði Úkraínu frá Rússum árið 1709. Hið sama gerist nú með allan vesturhluta Úkraínu, sem Janukovych ræður í raun ekki yfir lengur. Lögreglan þar neitar að berja á mótmælendum. Bardaganum fyrir rúmum þremur öldum lauk með ósigri Svía, þó að þeir legðu hart að sér. Rússar héldu í kjölfarið til vesturs, lögðu undir sig Eystrasaltslöndin og gerðu Pólland að hjálendu. Þessi sigur Rússa varð afdrifaríkur fyrir þróun Evrópu. Sagan má ekki endurtaka sig nú. Pútin má ekki takast ætlunarverk sitt að kaupa gjaldþrota Úkraínu og hrifsa hana þannig undan vestrænum áhrifum beint fyrir framan nefið á ESB, þó að tilburðir ESB séu með eindæmum vesældarlegir og seint á ferðinni. Lafðin, brezka, utanríkismálastjóri ESB, virðist vera úti á þekju.
Síðan 1709 hefur gengið á ýmsu, en í stórum dráttum hafa átökin í Austur-Evrópu einkennzt af því, að hún hefur ýmist verið á áhrifasvæði Berlínar/Vínar eða Moskvu/Pétursborgar. Þau einkennilegu úrslit urðu í hildarleiknum fyrir einni öld, í Heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, að bæði Þjóðverjar og Rússar máttu lúta í gras. Báðir hugðu á landvinninga, þegar þeir fóru í stríðið eftir dráp austurríska erkihertogans í Sarajevo. Ástæða uppgjafar keisarans í Berlín og höfuðs Habsborgara í Vín var, að árið 1917 blandaði Norður-Ameríka sér í styrjöldina til stuðnings Bretum og bandamönnum þeirra. Þennan liðsstyrk réðu hersveitir Germana ekki við á Vesturvígstöðvunum. Í Rússlandi var gerð blóðug bylting og aðlinum steypt af stóli haustið 1917. Byltingarforingin Vladimir Lenin gerði friðarsamning við þýzka keisarann í kjölfarið, enda gerður út og fluttur til Rússlands af kaffihúsum í Sviss af Berlín gagngert til að valda usla, og síðan brauzt út borgarastyrjöld í Rússlandi, þar sem Hvítliðar börðust við Rauðliða, svo að Rússland var lamað þar til kommúnistaflokkur Rússlands hóf að byggja upp þungaiðnað, sem ásamt hergagnasendingum Bandaríkjamanna reið baggamuninn í stríðinu mikla á milli Þjóðverja og Rússa 1941-1945.
Habsborgaraveldið leið undir lok og var bútað í sundur við uppgjöfina í nóvember 1918, þó að afkomendur Habsborgarháaðalsins séu enn sterkefnaðir og hafi ítök í fjármálaheiminum. Á rústunum reis fjöldi nýrra ríkja með stuðningi Bandaríkjaforsetans, Woodrow Wilsons. Berlín var niðurlægð, lönd tekin af Þýzkalandi og landið sett í skuldafjötra stríðsskaðabóta til Vesturveldanna, sem hvíldu eins og mara á hagkerfinu og framkölluðu óðaverðbólgu og stjórnmálalegan óstöðugleika í Weimar lýðveldinu. Hinn sjálfmenntaði, tilfinninganæmi og sjálfumglaði listamaður frá Linz í Austurríki, Adolf Hitler, hellti salti í sár Þjóðverja og kynti undir kraumandi óánægju þeirra með hlutskipti sitt.
Þjóðverjar voru í áfalli eftir uppgjöfina 10. nóvember 1918, steyptu aðlinum af stóli og stofnuðu Weimar-lýðveldið. Það var stjórnskipulega og efnahagslega veikt og vék fyrir Þriðja ríkinu, þegar Adolf Hitler var skipaður kanzlari eftir þingkosningar, þar sem flokkur hans, NSDAP, fékk um þriðjung atkvæða, í janúarlok 1933. Rúmu ári síðar lézt Hindenburg, forseti og fyrrverandi hershöfðingi keisarahersins, og eftir það varð Foringinn alvaldur í Þýzkalandi. Hann stefndi á heimsveldi, Imperium des deutschen Volkes, en Luftwaffe mistókst atlagan gegn Englandi sumarið 1940 og framsókn Wehrmacht var stöðvuð í Norður-Afríku og í Rússlandi árið 1942. Eftir það tók við mikil varnarbarátta, sem grundvallaðist á ótrúlegri framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins undir forystu ríkisarkitektsins, Albert Speer. Sá samdi afar fróðlega og lipurlega ritaða sjálfsævisögu í fangelsinu í Spandau/Berlín. Talið er, að hann hafi vonazt til svipaðrar meðhöndlunar Bandaríkjamanna og yfirmaður eldflaugarannsókna Þriðja ríkisins, Werner von Braun, en Bandaríkjamenn eyðilögðu öll gögn um aðild hans að NSDAP og gerðu hann að yfirmanni eldflaugarannsókna sinna.
Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Slóvenía og Króatía eru nú gengin í Evrópusambandið. Það þýðir, að austurmörk áhrifasvæðis Þýzkalands eru komin að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu, og nú standa átök yfir í Úkraínu um framtíð landsins. Janukovych, forseti landsins, sem hallur er undir Putin, Rússlandsforseta, stöðvaði síðbúið ferli nánari tengsla Úkraínu við ESB, Evrópusambandið, og sigaði lögreglunni á mótmælendur athæfis síns, sem safnazt hafa saman á Maidan-torgi, eða Frelsistorginu í Kænugarði. Óeirðalögreglan sýndi mikla harðýðgi gegn æskulýðnum, sem fjölmennti á stærsta torg Kænugarðs. Æska Úkraínu kærir sig ekki um að búa í leppríki Rússa. Stjórnkerfi Úkraínu er gegnumrotið, og meirihluti íbúanna, með unga fólkið í broddi fylkingar, þráir ekkert heitar en röð og reglu réttarríkisins, þar sem mannréttindi eru virt, og virðing er borin fyrir samborgurunum.
Á fyrrnefndu aðaltorgi í Kænugarði er nú hrópað: "Út með þjófana". Vestur-Úkraína lýtur ekki lengur boðvaldi Janukovych, forseta, og landið er á gjaldþrotsbarmi. Af tvennu illu er nú skárra fyrir almenning í Úkraínu að halla sér til vesturs en austurs, því að ríki Pútíns er óstöðugt, og lýðræðið stendur þar enn höllum fæti. Rússar hafa leikið mótleik með því að bjóða Úkraínu jarðgas á vildarkjörum og boðizt til að kaupa af þeim ríkisskuldabréf, sem AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) hafði hafnað kaupum á. Janukovych hefur tekið þá ákvörðun að leggjast á bakið og tifa upp tánum fyrir framan rússneska björninn. Úkraínska þjóðin hefur tekið aðra og gagnstæða ákvörðun. Hún er sú, að Úkraína skuli verða sjálfstætt ríki. Önnur ákvörðunin verður að víkja fyrir hinni, og þó að frelsisandi þjóðarinnar eigi erfitt uppdráttar um sinn, þá er hann sigurstranglegri til lengdar.
Það gæti þess vegna farið að styttast í að áhrifasvæði Þjóðverja teygi sig meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands, og það er nokkuð, sem valdhafarnir í Pétursborg og Moskvu hafa alltaf barizt gegn. Berlín gæti þess vegna virzt standa uppi með pálmann í höndunum nú um stundir, en það eru váboðar framundan fyrir Berlín, þó að þeir séu öðru vísi en forðum.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)