Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
25.11.2011 | 21:49
Hið vonlausa verk
Kunn er skáldsagan af riddaranum sjónumhrygga, Don Kíkóta, sem alræmdur varð fyrir baráttu sína við vindmyllur á hásléttu Kastilíu. Ríkisstjórn Íslands líkist mjög þessari hryggilegu persónu skáldskaparins, enda sannleikurinn jafnan lygilegri en skáldsagan, því að mestur tími stjórnarinnar virðist fara í að berjast við vindmyllur. Starf ríkisstjórnarinnar er álíka mikils virði nú um stundir.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, sem kennd er við Jóhönnu Sigurðardóttur, stendur í linnulausum illindum við athafnalífið í landinu. Hún hefur reynzt fullkominn starfaeyðir. Nú hefur óvitum ríkisstjórnarinnar áskotnazt gjöreyðingarvopn gegn athafnalífinu og störfum í landinu, sem kolefnisgjald nefnist. Iðnaðarráðherra, sem verja á hagsmuni iðnaðarins innan ríkisstjórnarinnar, er jafnmikið utan gátta í þessu máli og hún er vön, og virðist ekki taka til varna, þó að lagt sé til iðnaðarins í hjartastað.
Í anda riddarans sjónumhrygga þykjast félagshyggjuflokkarnir með þetta stórhættulega vopn í hendi vera að berjast fyrir umhverfisvernd. Þetta er kolrangt. Vinstri hreyfingin grænt framboð, VG, er með þessu tiltæki þvert á móti að stuðla að aukinni mengun á heimsvísu. Fyrirtækin, sem hrökklast munu héðan vegna kolefnisgjalds og losunarskatts, munu leita annað, þar sem orkan er engan vegin jafnumhverfisvæn og hér og ekki endurnýjanleg. Líklegast er, að þar sé raforkan fengin með brennslu kola eða jarðgass.
Hér má geta þess, að skortur er á kísli í heiminum, svo að verð á honum hefur snarhækkað. Hann er t.d. notaður í hálfleiðara, díóður, týristora og smára, en skorturinn stafar af mikilli eftirspurn kísils til framleiðslu sólarrafala. Framleiðsla kísils er þess vegna fallin til að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda. Afleiðingin af beitingu ríkisstjórnarinnar á þessu gjöreyðingarvopni verður þess vegna aukin mengun andrúmsloftsins á heimsvísu og hraðari hlýnun andrúmsloftsins ásamt glötuðum atvinnutækifærum og glötuðum tækifærum til nýrrar tækniþekkingar og gjaldeyrisöflunar.
Þetta er algerlega óviðunandi framferði ríkisvalds á Íslandi. Því er misbeitt herfilega í hernaði gegn fólkinu í landinu í nafni umhverfisverndar, þar sem blekkingum er beitt eða bein vanþekking stjórnar gerðum þröngsýnna sérvizkupúka.
Í íslenzku samhengi er auðvitað nærtækasti samanburðurinn við Bakkabræður. Þegar þrautpíndir skattstofnarnir standa ekki undir væntingum við sífellt illskeyttari skattheimtu, svo að skatttekjurnar standa í stað eða minnka, þá svara yfirvöldin með því að herða skattheimtuna. Síðan hreykir þetta vesalings fólk, sem ekkert skynbragð ber á einföldustu lögmál hagfræðinnar, en heldur enn, að kenningar Karls Marx virki, sér af því á flokksþingum sínum að hafa nú aukið réttlætið í þjóðfélaginu.
Ekki tekur betra við á dómssviðinu. Úrelt dómsvald, Landsdómur, var vakinn upp af dvala og settur til höfuðs fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Hilmari Haarde, manninum, sem bjargaði því, sem bjargað varð, í Hruninu, með ærnum tilkostnaði. Mikilvægara þótti hinu siðblinda vinstra fólki á þingi að reyna að koma andstæðingi sínum í svartholið en að halda uppi mannsæmandi þjónustu á heilbrigðissviðinu. Aðgerðir ríkisvaldsins eru allar afleiðingar forgangsröðunar, og hún getur varla orðið verri en hjá núverandi ríkisstjórn. Þessi sviðsetning lögfræðilegs draugagangs er dæmd til að mistakast, því að samkvæmt nútímaskilningi hefur ákæruvaldið engin haldbær ákæruatriði, og þá liggur sýkna beint við, ef málinu er ekki vísað frá.
Ákæruatriðin væru hins vegar handföst í máli Landsdóms gegn Steingrími J. Sigfússyni, t.d. í Icesave-málinu eða einkavæðingarmáli bankanna í hendur vogunarsjóða að meira en helmingshluta. Landsdómsmálið hefur öll einkenni bjúgverpils frumbyggja Ástralíu.
Aðförin að atvinnuvegunum er skelfileg. Verktakar helltast úr lestinni hver um annan þveran vegna verkefnaleysis, sem er meira en þekkzt hefur á lýðveldistímanum. Það er afkvæmi ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin þverbrýtur samkomulag við "aðila vinnumarkaðarins" um að koma hjólum atvinnulífsins af stað, en Jóhanna, greyið, geipar um sjö þúsund ný störf, sem enginn skilur, hvernig geta orðið til undir núverandi stjórnvöldum. Svívirðileg framkoma ráðherra VG gagnvart atvinnulífinu hefur rúið íslenzk stjórnvöld trausti innlendra sem erlendra fjárfesta, og er kolefnisgjaldið nýjasta dæmið um moldvörpustarfsemi vinstri flokkanna. Moldvörpur eiga ekkert erindi inn í Stjórnarráð Íslands.
Enginn skilur sem sagt, hvernig Jóhanna Sigurðardóttir hefur komizt að niðurstöðunni um 7000 ný störf fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar, því að allt framferði ríkisstjórnarinnar er starfaeyðandi. Barátta stjórnarinnar fyrir nýjum störfum hefur eytt störfum, því að "eitthvað annað" hefur engu skilað, enda engar forsendur til þess. "Eitthvað annað" er yfirvarp einskis nýtra stjórnvalda. Meira að segja kínverska skáldið fær að kenna á ótta eða hatri vinstri-grænna í garð útlendinga.
Harmsögulegt er Don Kíkóta-atferlið í utanríkismálum. Þar var lagt af stað með brauki og bramli og flaustri miklu með umsókn um að fá áheyrn hjá ESB (Evrópusambandinu) í aðildarviðræðum. Var því haldið fram, að mikið lægi við að komast með umsóknina undir verndarvæng Svía sumarið 2009. Allt reyndist það tómt gaspur. Svo mikið lá á, að ekki var hirt um að setja sér samningsmarkmið. Mannvitsbrekkan, sem fyrir samninganefndinni fer, sagðist mundu setja nefndinni markmið jafnóðum. Með minnihluta þings og þjóðar og klofna ríkisstjórn að baki samninganefndinni, kemst hún auðvitað hvorki lönd né strönd, og nú eru viðræðurnar við ESB, sem eru ekkert annað en aðlögunarferli, komnar í öngstræti. ESB er að breytast og getur hæglega senn klofnað í hraðfara til ríkjasambands og hægfara til tollasambands. Opinber ágreiningur Frakklands og Þýzkalands magnast dag frá degi. Evran fellur daginn, sem það rennur upp fyrir Frökkum, að þeir verða að taka upp þýzka hagstjórn til að bjarga hagkerfi Frakklands.
Hvert stefnir ríkisstjórnin við þessar hvirfilkenndu aðstæður ? Hún stefnir norður og niður með þjóðarbúið og gefur dauðann og djöfulinn í sóma landsins, enda hefur hún hvorki verið sverð þess né skjöldur. Það hafa hins vegar aðrir tekið að sér. Hún er sjálf 5. herdeildin innan borgarmúranna, Trójuhesturinn.
Þá er galað á torgum um að leiða verði þetta aðlögunarferli til lykta og kjósa um það. "O, Sancta Simplicitas" sögðu Rómverjar; eða heilaga einfeldni. Þessu fólki er ekki sjálfrátt. Annaðhvort stjórnast það af fáfræði, eða það lemur hausnum við steininn og neitar að skilja, að þetta er ekkert samningaferli, heldur aðlögunarferli Íslands að ESB, lögum þess og reglum. Þar á meðal er landbúnaðar-og sjávarútvegsstefna ESB, sem rústað hefur þessum atvinnuvegum aðildarþjóðanna með heljargreip miðstýringar skrifræðisins í Brüssel. Okkar landbúnaður og sjávarútvegur eru mikilvægari en svo, að við getum látið skessurnar í Brüssel kasta þessum fjöreggjum íslenzku þjóðarinnar á milli sín.
Upp úr þessari ESB-umsókn hefst ekkert annað en feiknarlegur tilkostnaður, tímasóun, skömm og svívirða. Með umsókninni eru ESB-þjóðirnar hafðar að fíflum, og það munu þær ekki kunna að meta. Það á eftir að koma í ljós, hvort ný ríkisstjórn í hegningarhúsinu við Lækjartorg getur bætt skaðann. Alveg er þó öruggt, að staðan getur ekki versnað; ný ríkisstjórn að afstöðnum kosningum getur ekki með nokkru móti orðið verri en núverandi.
Ný ríkisstjórn verður að koma sem fyrst, en þó ekki fyrr en stokkað hefur verið upp á Alþingi. Forysta Sjálfstæðisflokksins fékk endurnýjað umboð, en formaðurinn fékk gula spjaldið fyrir ótilhlýðilega hegðun í Icesave-málinu. Hann hefur nú lofað bót og betrun. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins leggur línurnar, og það er bannað að ganga þvert á þær. Þetta skilur hvert mannsbarn. Forysta flokksins verður nú að brýna kutana, spila á veikleika ríkisstjórnarinnar á Alþingi og fella hana þar hið fyrsta. Miðjumoð og samstarf við svikahrappana gerir aðeins óvinafögnuð.
Fylgifiskur aðildar að ESB er óhjákvæmilega evran. Nýjar aðildarþjóðir eru strax settar í spennitreyjuna, sem heitir EMU II. Þar mundum við fá að dúsa í 5-10 ár áður en af upptöku evru gæti orðið, ef allt væri með felldu, en það er ekki allt með felldu. Evran er að fuðra upp í miklum reyk megnrar óánægju almennings í Evrópu. Að taka upp evru reyndist hagfræðilega svipað og að taka upp DEM, þýzkt mark, og það hefði hvergi gengið, nema að flytja stjórn ríkisfjármálanna til Potzdamer Platz í Berlín. Fyrir því er ekki snefill af áhuga í Evrópu.
Þjóðverjar segja, að nú sé Evrópa farin að tala þýzku. Það er óskhyggja. Fæstar þjóðir Evrópu hafa getu eða hug á að stjórna ríkisfjármálum sínum með þýzkum hætti. Þessu mun ljúka, þegar fram kemur, að ríkisfjármálum Frakklands verði ekki stjórnað, svo að vel sé, fyrr en Þjóðverjar taka París. Þess vegna mun evran liðast í sundur, en dauðastríðið verður dýrkeypt. Meira að segja ESB-sinnar á Íslandi, sem eru eitthvert albarnalegasta fólk, sem tjáir sig á opinberum vettvangi, eru farnir að linast í trúnni og sætta sig við "að hægja á ferðinni".
Þjóðverjar eru búnir að finna það út, að varðandi evruna "går vinningen opp i spinningen", eins og Norðmenn segja. Það er orðið þýzka hagkerfinu dýrkeyptara að hafa evru en DEM. Hið sama væri uppi á teninginum með Ísland, því að greiðslur Íslendinga til björgunarsjóðs evrunnar, EFSF, yrðu mjög íþyngjandi. Það hefur enginn áhuga fyrir framhaldslífi evrunnar lengur. Hún var mistök stjórnmálamanna, aðallega franskra, sem þvinguðu evrunni upp á Þjóðverja gegn endursameiningu Þýzkalands, "Die Wiedervereinigung Deutschlands".
Hvers vegna í ósköpunum er þá óráðinu, sem kallað er "Aðildarviðræður Íslands við ESB", haldið áfram. Fyrir því eru engin heilbrigð rök, og þetta ferli ber að stöðva tafarlaust, biðja Brüssel afsökunar á frumhlaupi einfeldninga, og fá staðfestingu hjá þjóðinni fyrir lokum ferlisins samhliða næstu Alþingiskosningum. Spurningin er einföld: vilt þú binda endi á aðildarferlið að ESB, sem hófst með samþykkt Alþingis 16. júlí 2009; já eða nei ? Samfylkinguna og háskalegan einfeldningshátt hennar á að dysja undir minningarorðunum:
"Hér hvílir flokkur, sem ætið setti hagsmuni ESB ofar hagsmunum síns eigin lands, en varð það að lokum að aldurtila".
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.11.2011 | 18:59
"Að verma sitt hræ við annarra eld"
Það hefur aldrei stórmannlegt þótt að skreyta sig með annarra fjöðrum. Það er þó í raun það, sem forysta hinnar verklausu og dæmalausu vinstri stjórnar gerir, purkunarlaust. Meginlínur viðreisnar voru lagðar af ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde með neyðarlögunum, sem Hæstiréttur staðfesti í viku 43/2011, og með samningunum við AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, en í fang hans vorum við hrakin af "vinum" okkar austan hafs og vestan. "Maðurinn er alltaf einn", sagði höfundur tilvistarstefnunnar, Jean-Paul Sartre. Skyldi það gilda líka um þjóðir.
Hins vegar hefur útfærslu samkomulagsins við AGS verið mjög ábótavant að hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem annaðhvort hefur ekki skilið inntak hans, eða hún hefur ákveðið að hunza þann þátt, sem hagvöxt gæti gefið, enda er það inntak efnahagsstefs Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að hagvöxtur á Íslandi, sem og í heiminum öllum, sé ósjálfbær, og þess vegna sé hann af hinu illa, sem beri að forðast. Er þetta ein fáránlegasta stefnumörkun stjórnmálaflokks á Íslandi frá upphafi vega og jafngildir atvinnufjandsemi, hruni innviða og fátæktarbasli alls þorra manna, er fram líða stundir. Er þetta svartasta afturhaldsstefna, sem nokkur stjórnmálastefna hefur boðað Íslendingum.
Það er engin tilviljun, að hér hefur aðeins ein fjárfesting orðið í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar, sem orð er á gerandi, þ.e. 80 milljarða fjárfesting í Straumsvík og við Búðarháls, enda voru þau verkefni komin á rekspöl fyrir Hrun. Nú hefur gamli Trotzkyistinn í Svörtuloftum hækkað aftur stýrivexti, öllum að óvörum, og stærir sig af. Þessi "lækning" er eins og blóðtaka úr sjúklingi með magasár. Hvar er þenslan í þjóðfélaginu, sem vöxtum er ætlað að slá á ? Peningastefnunefnd Seðlabankans virðist telja sig sjá verðbólgu að ári. Er líklegt, að tortíming evrunnar, sem Grikkir hafa nú algerlega í hendi sér, og hrun fjármálakerfis Evrópu, muni leiða til þenslu hérlendis ? Svörtuloftamenn eru illilega úti að aka og ekki í fyrsta skipti.
Á vefmiðli Evrópuvaktar birtist í viku 43/2011 greinaflokkur um áliðnað á Íslandi og framtíð hans. Þar eru því gerðir skórnir, að ekki verði reistar fleir álverksmiðjur hérlendis vegna stjórnmálaástandsins innanlands, hærra orkuverðs á Íslandi en álfyrirtækin geti sætt sig við og áforma um að reisa álver á Grænlandi.
Evrópuvaktin á þakkir skildar fyrir þetta framtak og hlutlæga frásögn af málefnum áliðnaðarins. Það er meira en unnt er að segja um aðra fjölmiðla. Þar má nefna Fréttablaðið og RÚV, en ýmsir fréttamenn þar, þó ekki allir, eru með hræðilega andiðnvæðingarlega slagsíðu, sem er torskiljanlegt, því að þjóðfélagsleg grózka er allra hagur, ekki sízt opinberra starfsmanna.
Áliðnaðurinn leggur til fjórðung útflutningsteknanna og veitir 10-20 þúsund manns lífsviðurværi sitt, þegar allt er talið. Íslenzki áliðnaðurinn er svo vel rekinn tæknilega og fjárhagslega, að jafnað er til hins bezta, sem gerist í heiminum. Heilbrigðis-, öryggis- og umhverfismál eru í algerum sérflokki innan áliðnaðarins á Íslandi. Beztu þekktu aðferðum er beitt til að ná bezta árangri á heimsvísu á þessu sviði. T.d. hafa verið unnar yfir 5 milljónir vinnustunda í Straumsvík án slysa með fjarveru sem afleiðingu. Geta aðrir vinnustaðir á Íslandi státað af einhverju viðlíka ? Engin mengun hefur verið greind úti fyrir strandlengju álversins í Straumsvík. Það er staðfest af innlendum rannsóknarstofnunum. Það er líka frábær árangur. Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleidds áls er sú minnsta, sem um getur í heiminum. Losun flúors og brennisteins er lítil og aðeins brot af því, sem eldgos hafa leyst úr læðingi á Íslandi síðan land byggðist. Starfsemin í Straumsvík er þess vegna bæði sjálfbær og afturkræf. Þetta er tromp Íslands gagnvart fjárfestum álfyrirtækjanna, sem þeir geta ekki staðizt.
Súluritið hér að ofan sýnir viðskiptahalla nokkurra ríkja á tímabilinu 2000-2007. Til að skapa hér stöðugleika er íslenzka hagkerfinu alger nauðsyn að sýna hagnað á viðskiptum við útlönd, helzt yfir 5 % á ári að jafnaði. Þar þurfa allir atvinnuvegirnir að leggjast á eitt, en mesta aukningin getur komið frá áliðnaðinum. Þá vaknar spurningin, hvort grundvöllur er fyrir frekari fjárfestingum í áliðnaði ? Því er til að svara, að svo er. Áliðnaðurinn getur og vill greiða á bilinu 30-40 mill/kWh, verðtryggt, að flutningskostnaði og rafskatti meðtöldum. Virkjun íslenzkra fallvatna útheimtir ekki hærra verð, ef full nýting nývirkja, stöðugt álag, mjög hár aflstuðull og langtímasamningur með mikilli kaupskyldu er annars vegar, eins og álverin bjóða.
Enn er hagkvæmt, óvirkjað vatnsafl í landinu til þessara nota, er nemur a.m.k. 13 TWh/a, sem svarar til um einnar milljónar tonna af áli. Það svarar til ríflega tvöföldunar áformaðrar framleiðslugetu núverandi þriggja álvera í landinu eftir stækkun þeirra og mundi jafngilda um 300 milljarða aukningu útflutningsverðmæta á ári, sem er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu samfélagsinnviða og greiðslu afborgana og vaxta af erlendum lánum.
Í sambandi við nýjar virkjanir er rétt að benda á grein Jakobs Björnssonar, "Slæmar fréttir-Alcoa hættir við að reisa álver við Húsavík", í Morgunblaðinu á bls. 33, þann 29. október 2011. Það er vert að benda á, að virkjun Jökulsár á Fjöllum er tæknilega framkvæmanleg í Þingeyjarsýslum án skerðingar á mikilfengleika Dettifoss og óþarfi að senda hana niður á Hérað.
Grunnur orkuöflunar til álvera á Íslandi þarf að vera vatnsaflið. Jarðvarmasvæðin tekur of langan tíma að nýta, þau eru of mikilli óvissu undirorpin, mengunarmál þeirra eru óleyst og orkunýtni þeirra við raforkuvinnslu einvörðungu er óásættanlega lág (rúm 10 %).
Það er alger óþarfi að vera með svartsýnistal um, að iðnvæðingartækifæri séu okkur varanlega úr greipum gengin, þó að vargar í véum hafi reynt eftir megni að eyðileggja traustið til valdastofnana og stjórnsýslu, sem verður að vera fyrir hendi, svo að miklar fjárfestingar eigi sér stað. Núverandi ráðherrar verða senn pokaðir, enda eru þeir forpokaðir og forkastanlegir.
Eins og margoft hefur verið bent á, hefur ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms alls ekki brotið blað í stjórnsýslunni í þeim skilningi, að þau hafi fitjað upp á nýjungum, sem marka stefnuna fram á veginn. Þvert á móti. Þau hafa þó farið inn á 3 óvenjulegar brautir. Búið er vinda ofan af einni vitleysunni úr þeim, þ.e. Icesave, með tilstyrk forseta lýðveldisins, en hinar tvær bíða stjórnarskipta, e.t.v. undir forsögn nýs formanns Sjálfstæðisflokksins, þ.e.a.s. mjög sligandi aukning skattheimtu og umsókn um aðild að ESB, Evrópusambandinu, með hið háleita markmið um upptöku evru, sem enn er haldið til streitu. Það eitt segir meiri sögu um viðundrin, sem með völdin fara, en mörg orð. Verst er, að þetta lið er og verður þjóðinni til skammar.
Hér voru í viku 43/2011 miklir erlendir hagspekingar í heimsókn. Fyrstan má þar frægan telja Martin Wolf, aðalhagfræðing Financial Times. Martin Wolf er gagnkunnugur málefnum Evrópu, og hann hefur kynnt sér málefni Íslands ótrúlega vel. Martin Wolf sagði:
"Hvers vegna í ósköpunum ættuð þið að ganga í samtök, sem flaskað hafa jafnillilega og ESB ? Hafið þið alls ekki tekið eftir, hvað er að gerast þar ? Ísland mundi að sjálfsögðu ekki hafa nein áhrif, málflutningur þess og atkvæði yrði einskis virði í ákvörðunum sambandsins, og svo gæti farið, að landið mundi glata yfirráðum mikilvægra náttúruauðlinda sinna vegna þess, að ESB-löndin vilja ólm komast í þær."
Hér tjáir sig víðsýnn og fróður Englendingur um aðildarviðræður Íslendinga við ESB og um afleiðingar inngöngu. Ríkisstjórnin hefur með flónshætti sínum gert Íslendinga að athlægi í augum heimsins. Það kemur æ betur í ljós, að umsóknin um aðild að ESB var algerlega vanreifuð, og hún var feigðarflan, sem aðeins getur endað í öngstræti, eins og núverandi þingmeirihluta var bent á í upphafi. Ósk Alþingis um aðildarviðræður þann 16. júlí 2009 lýsir fullkomnu dómgreindarleysi. Það dettur engum í hug að hefja aðildarviðræður við ESB með þverklofna ríkisstjórn að baki beiðnarinnar. Annar ríkisstjórnarflokkurinn hefur lýst því yfir, að hann muni berjast gegn samþykkt samningsins, þannig að samningurinn mun kolfalla á Alþingi. Það er glórulaus sóun fjármuna að standa nú í aðlögunarviðræðum og aðlögun stjórnsýslunnar að regluverki ESB. Allt þetta framferði er óheiðarleg framkoma gagnvart ESB og aðildarríkjum þess og er íslenzka ríkinu til stórskammar. Valdhafarnir berja samt hausnum við steininn.
Það er mjög ósmekklegt af ESB að skipuleggja nú rándýra áróðursherferð á Íslandi fyrir sínum málstað. Réttast væri af ESB við þessar aðstæður að fara sér hægt hérlendis, því að hættan er sú, að andrúmsloftið gagnvart ESB gæti orðið eitrað hérlendis. Þetta eru vissulega ótilhlýðileg afskipti erlends valds af innanlandsmálum hér, sem gætu komið sem bjúgverpill í fang Berlaymontmanna.
ESB er í algerum ógöngum með sína evru. Björgunarsjóður evruríkjanna var í viku 43/2011 ríflega tvöfaldaður upp í 1000 milljarða evra. Sú ákvörðun ESB-leiðtoganna er veik, því að fjórföldun er lágmark þess, sem talið er duga til að verja Ítalíu og Spán, og sennilega þarf 4000 milljarða evra til að verja evruna, því að Frakkland stendur á brauðfótum líka, eins og koma mun í ljós, þegar afskriftir lána fara að bíta á bankana. Þar að auki hefur þessi síðasta aukning ekki verið fjármögnuð enn, og umræðan um hana á eftir að valda mikilli ólgu í Þýzkalandi, Austurríki, Hollandi og Finnlandi og víðar.
Það er verið að laumast aftan að kjósendum með því að stofna eins konar ríkissjóð ESB sem bakhjarl evrunnar án þess að um slíkt hafi farið nokkur lýðræðisleg umræða fram í Evrópu. Samfylkingin, með samþykki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, berst fyrir því að troða Íslandi inn í sambandsríki Evrópu, sem nú er á hverfanda hveli, þar sem við verðum eins og krækiber í helvíti, fórnum fullveldi okkar fyrir engan ávinning og verðum selstöð og handbendi auðlindanýtingar Evrópu. Sú staða, sem vinstri stjórnin er búin að koma Íslandi í, er fáránleg, og í stefnumörkuninni að baki þessari stöðu er ekki heil brú.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2011 | 19:37
Skáldið og "eitthvað annað"
Talsverð tíðindi bárust landsmönnum til eyrna í viku 35/2011, þegar spurðist út um kaup kínversks kaupsýslumanns á um 300 km2 landi Grímsstaða á Fjöllum fyrir einn milljarð króna eða jafnvel 13 milljarða kr samkvæmt Financial Times. Með fréttinni fylgdu frásagnir af áformum um stórt glæsihótel þar á Fjöllum með starfsemi allt árið um kring ásamt byggingu höfuðstöðva þessa fyrirtækis á höfuðborgarsvæðinu. Þessar fjárfestingar áttu að nema 20-40 milljörðum kr og verða aðeins upphafið að öðru meira. Gjalda má varhug við raunhæfni slíkra hugmynda, t.d. rekstrar lúxushótels allt árið um kring í 400 m h.y.s., en óþarft er að fordæma fyrirfram þá, sem vilja hætta fé sínu á Íslandi, þó að til ævintýralegra verkefna sé.
Eins og eðlilegt má telja, hafa viðtökur landsmanna á þessum fréttum verið blendnar og sýnist sitt hverjum. Af alkunnum yfirborðshætti sínum taldi forsætisráðherra strax sjálfsagt, að ríkið veitti undanþágu til staðfestingar þessara kaupa, en innanríkisráðherra brást ekki sínu þvergirðingslega eðli og lagðist eiginlega strax þversum gegn þessum áformum, þótt hann, stöðu sinnar vegna sem úrskurðaraðili um leyfisveitingu, mætti ekki tjá sig á svo opinskáan hátt á frumstigi máls án þess að verða vanhæfur.
Forkólfar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru á móti allri erlendri atvinnusköpun hérlendis, af því að þeir líta svo á, að slíkt styrki auðvaldsskipulagið á Íslandi á kostnað sameignarfyrirkomulagsins dauðadæmda. Þessi fjandskapur við atvinnusköpun á Íslandi hefur stórskaðað samkeppnihæfni landsins á afturhaldsskeiðinu í tíð félagshyggjustjórnarinnar, svo að Ísland hefur nú hrapað í 30. sæti Alþjóða efnahagsráðsins (World Economic Forum) um samkeppnihæfni þjóða heims, en ætti að vera á meðal 5 fremstu á þann margháttaða mælikvarða, sem beitt er við þetta mat á heimsvísu. Hvar verðum við í lok kjörtímabilsins með þeim ömurlegu og gjörsamlega úreltu stjórnarháttum, sem nú viðgangast ? Það er alveg sama á hvaða mælikvarða verk (og verkleysi) ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eru vegin; hún fær falleinkunn alls staðar, nema hjá AGS, sem er varðhundur fjármálafyrirtækja á heimsvísu.
Auðvitað hlýtur mat Íslendinga á þessum áformum kínverska ljóðskáldsins að litast af ástandinu, sem lýst er með fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins, 2. september 2011, þar sem stóð:
"Ísland í neðsta sæti yfir fjárfestingar á EES,-Fjárfestingar á Íslandi hafa verið um 10 % af vergri landsframleiðslu".
Hér er átt við fjárfestingar einkaaðila, en sé hið opinbera með talið, er hlutfallið um 13 %. Undanfari ákvörðunar þarf þó að vera lagarýni og áhættugreining á þessu skrefi Kínverja til eignarhalds á landi og atvinnustarfsemi á Íslandi. Þá er rétt að reikna með því, að valdsmenn kínverska sameignarflokksins í Beijing séu með ljóðskáldinu í ráðum. Hvað getur farið úrskeiðis fyrir Íslendinga, ef áætlanir þessar verða samþykktar ?
- Ríkið á um fjórðung jarðarinnar í óskiptri eign. Þetta þýðir, að ekkert verður að svo komnu framkvæmt á jörðinni án samþykkis ríkisins.
- Skáldið borar og finnur heitt og kalt vatn. Tapar einhver á því ? Nei, fjöldi manns fær vinnu við starfsemi, sem af þessum fundi leiðir. Hér verður um sjálfbæra nýtingu að ræða, ef hið opinbera bregzt ekki við leyfisveitingu og eftirlit.
- Kínverjar væru líklegir til að vilja færa út kvíarnar fyrir norðan. Þeir hafa sýnt hug á að reisa álver á Bakka og vilja hasla sér völl á Langanesi og byggja stórskipahöfn í Gunnólfsvík. Kínverjar eygja mikil viðskiptatækifæri með skipaferðum um Íshafið, einkum norðausturleiðina með vörur sínar til Evrópu og jafnvel áfram norðvesturleiðina til Vesturheims. Þessi þróun mála yrði vatn á myllu íslenzka hagkerfisins, sjálfstæðs efnahags og gæfi sterkari stöðu gagnvart Evrópu og Bandaríkjunum. "Divide et impera" (deilið og drottnið) sögðu Rómverjar, og það er alltaf styrkur að fleiri stoðum en færri undir hagkerfi og stjórnmálasambandi við önnur ríki.
Að sjálfsögðu þarf að stíga varlega til jarðar og semja um ofangreint með skilyrðum, er snúa að smæð hagkerfis landsmanna, stöðugleika þess, fámennis þjóðarinnar og sjálfbærni starfseminnar í umhverfislegu tilliti. Það verður að reisa strangar skorður við innflutningi vinnuafls frá löndum utan EES. Meginstefið á að vera, að þessar fjárfestingar skapi Íslendingum störf og að þær smyrji íslenzka hagkerfið, sem ekki veitir af. Að rjúfa efnahagslega stöðnun afturhaldsins er höfuðnauðsyn.
Einnig þarf að búa svo um hnútana, að hvorki BNA né ESB snúist gegn okkur, heldur fái meiri áhuga á öflugum og vinsamlegum samskiptum en verið hefur raunin á undanfarin ár. Við skulum líta í eigin barm og ekki kenna BNA og ESB alfarið um hornótt viðskipti á stjórnmálasviðinu. Hitt er annað mál, að útúrboruháttur, þekkingarleysi og helber aulaháttur hefur einkennt samskipti íslenzkra stjórnvalda við erlenda ráðamenn frá 1. febrúar 2009, eins og berlega má skynja, að einnig er mat forseta lýðveldisins, sem á sama tíma hefur staðið sig stórkostlega vel í erlendum samskiptum.
Kunnara er en tjáir að nefna, að stefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í atvinnumálum hefur verið, að fremur ætti að gera eitthvað annað en að nýta náttúruauðlindirnar til iðnaðarframleiðslu. Hér berst viðskiptaþróunartækifæri af nýrri gerð upp í hendur landsmönnum sem umhverfisvæn lúxusferðamennska. Ætla hefði mátt, að þeir gripu það fegins hendi. Hið þveröfuga gerist, og það sannar enn og aftur, að ekkert er að marka þokuþruglið í þeim. Vinstri grænir leggjast þversum. Afstaða þeirra til atvinnusköpunar er fjandsamleg. Ástæðan er sú, að tilboð berst rétt einu sinni um beina erlenda fjárfestingu til eflingar atvinnustarfsemi í stað lántaka í erlendum fjármálastofnunum, sem helzt þarf með einhverjum hætti að skuldbinda skattborgara landsins að mati vinstri grænna. Þetta eru þess vegna ekki framkvæmdir að skapi vinstri grænna, enda geðjast þeim ekki að neinum framkvæmdum, nema á vegum ríkisins, sbr nýja Landsspítalann. Íslendingar hafa ekki efni á Vinstri hreyfingunni grænu framboði í Stjórnarráðinu, og það er brýnt að gera þá valdalausa hið allra fyrsta og að afmá öll ummerki þeirra í stjórnkerfi og lagasetningu snarlega. Kjósendur munu ekki brenna sig á sama soðinu næsta mannsaldurinn, enda mundu þeir gjalda slíkt dýru verði að hleypa fílum inn í postulínsbúðina aftur.
Í landinu er enginn hagvöxtur og fyrirsjáanlegt er, að hann verður enginn án beinnar erlendrar fjárfestingar, sem nemur a.m.k. 10 % af VLF á ári. Undir núverandi ríkisstjórn eru landsmenn þess vegna dæmdir til síversnandi lífskjara, vaxandi erlendra skulda, hræðilegs atgervisflótta og að lokum hruns innviða samfélagsins og missis sjálfstæðisins. Stefna félagshyggjuflokkanna leiðir okkur óhjákvæmilega fram af hengifluginu og til fátæktaránauðar.
Það eru hins vegar feikilega góðir kostir í boði á mörgum vígstöðvum hérlendis með lítilli áhættu. Heybrækur láta auðvitað öll tækifæri fram hjá sér fara, og ljóst er, að engar framfarir verða án nokkurrar áhættu. Með því að beita skynsemi og árvekni er hægt að halda henni innan ásættanlegra marka og bregðast við með mótvægisaðgerðum, sem duga, ef þróunin ætlar að fara úr böndunum.
Við eigum að hlýða á forseta lýðveldisins, sem á undanförnum misserum hefur sýnt, að hann er mikill baráttujaxl íslenzkra hagsmuna á erlendri grundu og hefur góðar tengingar og góða yfirsýn um hið stjórnmálalega og efnahagslega svið. Hann tók í taumana, þegar neikvæður áróður í okkar garð erlendis frá var að kaffæra okkur og ríkisstjórnin var sem lamaðar flugur. Nú hefur hann enn á ný blandað sér í umræðuna um skáldið á Hólsfjöllum erlendis og innanlands, af því að hann taldi ástæðu til að hefta móðursýkislegan vaðal um kínversku hættuna. Hann hefur mikið til síns máls, þegar hann bendir á hrikalega mismunun aðila utan og innan EES varðandi fjárfestingar hér. Þessi forgangur Evrópumanna er okkur ekki hagfelldur. Hverjum er "Festung Europa" hagfelld hérlendis ? Hér að neðan er nýleg framtíðarsýn úr "Der Spiegel". Athygli vekur, að stjörnurnar (löndin) eru aðeins 12 talsins. Hverjir telur Spegillinn, "Der Spiegel", að muni hrökkva úr skaptinu ?
Þessar hugrenningar á meginlandinu sýna betur en nokkuð annað óreiðuna, sem þar er í vændum. Þá er ómetanlegt fyrir íslenzka hagkerfið að hafa fleiri stoðir undir útflutninginum og fjármálakerfinu en evrópskar. Með því er ekki verið að kasta rýrð á Evrópumenn, heldur að tryggja afkomu Íslands í viðsjárverðum heimi.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2011 | 22:20
Útúrboruháttur
Fregnir berast um, að kínverski forsætisráðherrann hafi haft hug á að heimsækja þann íslenzka nú um miðjan júlí 2011 með 100 manna sendinefnd, sem að stórum hluta væri viðskiptasendinefnd. Af ástæðum, sem rekja má til íslenzka forsætisráðuneytisins hefur heimsókninni verið aflýst og hótelbókanir Kínverjanna afturkallaðar. Íslenzka forsætisráðuneytið fer undan í flæmingi, þegar leitað er skýringa, og ráðherrann virðist hafa breytzt í lofttegund. Það er óbjörgulegt, ef ferðinni er heitið til kanzlara Merkel í komandi viku. Kínverjarar munu hafa einnig lagt til fundartíma viku seinna, svo að heimsókn á Potzdamer Platz er ekki haldbær skýring.
Hér skal fullyrða, að enginn forsætisráðherra í Evrópu, annar en sá íslenzki, mundi setja upp hundshaus og sýna af sér fádæma ókurteisi og útúrboruhátt í stað þess að taka fagnandi tækifæri af þessu tagi til að efla samskiptin, ekki sízt viðskiptatengsl, við annað stærsta hagkerfi heims og það, sem örast vex, ef hið indverska er undanskilið, nú um stundir. Hér er þess vegna argasta stjórnvaldshneyksli á ferðinni, sem draga mun dilk á eftir sér og sannar, að hagsmunagæzla fyrir Íslands hönd er ekki upp á marga fiska í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það hafði reyndar áður komið í ljós, t.d. í "Icesave"-deilunni, en þetta atvik undirstrikar, að mönnun þessa embættis er fullkomlega óboðleg og raunar stórskaðleg sem stendur. Forsætisráðherra vinnur ekki fyrir kaupinu sínu, enda fer því fjarri, að hún valdi starfinu. Á þessu ber Samfylkingin stjórnmálalega ábyrgð, sem hún getur ekki vikizt undan í næstu kosningum. Þá mun hún fá þá ráðningu, sem dugir til að fleygja henni út úr stjórnarráðinu, en tjónið, sem af veru hennar þar hefur hlotizt, nemur hundruðum milljarða króna og hefur orðið mörgum þungt í skauti. "Alþýðuhetjan" reyndist alþýðubaggi, þegar til kastanna kom.
Annar alvarlegur ábyrgðarhlutur jafnaðarmanna heitir Össur Skarphéðinsson. Hann er fíll í postulínsbúð, sem gösslast nú áfram í samningaviðræðum við ESB umboðslaus og án skýrra samningsmarkmiða. Hann hefur ekki umboð frá Alþingi, þó að hann hafi það frá marklausri Jóhönnu, til að semja um, að eina trygging Íslands fyrir óbreyttum yfirráðarétti efnahagslögsögunnar sé vinnuregla ESB um "hlutfallslegan stöðugleika". Sú regla er haldlaus og á útleið samkvæmt yfirlýsingum fulltrúa ESB. Er fávísi Össurar með eindæmum að hampa þessu plaggi. Er alveg ljóst nú af flumbruhætti Össurar, að forynjur hafa komið höndum yfir fjöregg þjóðarinnar og kasta því nú á milli sín í Brüssel.
ESB hefur mótað sér sameiginlega fiskveiðistefnu og sameiginlega landbúnaðarstefnu, enda sameiginlegur málaflokkur hjá ESB, og það er jafnlíklegt, að sambandið samþykki sérreglur fyrir Ísland og það er, að Össur Skarphéðinsson muni ganga á vatni á morgun. Ástæðan fyrir þessu er, að sérlausnir eða varanlegar undanþágur til handa einstökum ríkjum fela í sér mismunun ríkjanna. Stefan Füle, stækkunarstjóri, hefur lýst því yfir á blaðamannafundi með Össuri í Brüssel, að ekkert slíkt sé í boði að hálfu ESB. Ástæðan er sú, að slíkt grefur undan einingu ríkjanna. Samþykktarferlið yrði torsótt fyrir Füle, því að samþykki allra ríkjanna er áskilið.
Þó að svo ólíklega vildi til, að slíkt næðist í gegn, er samningur Íslands við ESB á slíkum forsendum haldlaus, ef eitthvert aðildarríkjanna seinna meir, t.d. í einhverju ágreiningsmáli við Ísland, ber réttmæti undanþáganna upp við Evrópudómstólinn. Sá leggur stofnsáttmála ESB til grundvallar dómum sínum, og fordæmi eru fyrir því, að ákvæði inntökusamninga, sem brjóta í bága við stofnsáttmálana, eru dæmd ógild. Hvað mundu Íslendingar gera, sem í góðri trú færu inn í Evrópusambandið á röngum forsendum, ef haldreipi þeirra yrði þannig dæmt ónothæft og þeir mundu þurfa að sæta því að hlíta undanbragðalaust hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu og sameiginlegu fiskveiðistefnu ? Fyrr en síðar mun slíkt hafa í för með sér skiptan hlut í lögsögunni og minni hlutdeild í flökkustofnum. Slík þróun mála jafngildir minni tekjum sjávarútvegsins inn í íslenzka hagkerfið, því að íslenzka lögsagan undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB yrði nýtt m.a. af verkefnalitlum stórflotum ESB-landanna, sem sæta færis. Gæti slíkt í ofanálag rústað lífríki hafsins, því að þessir flotar eru ekki þekktir af vandaðri umgengni við veiðislóðir, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni.
Til hvers var þá baráttan fyrir fullveldi og forræði yfir 200 mílna lögsögu, ef allt á að afhenda yfirþjóðlegu valdi 500 milljóna manna gjörsamlega að þarflausu ? Hvers vegna að dæma sig til áhrifaleysis um eigin auðlindir og meginhagsmuni í nafni Evrópuhugsjónar, sem í upphafi snerist um að skapa varanlegan frið á milli Frakklands og Þýzkalands og nú snýst aðallega um viðskiptahagsmuni þessara tveggja landa. Þessi Evrópuhugsjón er góð og gild, en okkur ber engin siðferðisleg skylda til að fórna einu né neinu fyrir hana.
Nú um stundir er téð Evrópuhugsjón í uppnámi. Rígurinn yfir Rín er kominn í hámæli. Tilraun Frakka til að draga úr efnahagsveldi Þýzkalands með því að þröngva Þjóðverjum til að fórna þýzka markinu fyrir endursameiningu Þýzkalands er dæmd til að snúast upp í niðurlægingu þeirra sjálfra. Þýzkaland ræður nú þegar örlögum evrunnar, og Evrópusambandið hvílir á evrunni.
Hið eina, sem bjargað getur evrunni í sinni núverandi mynd er myndun sambandsríkis Evrópu, en slíkt er borin von, sbr kosningarnar um stjórnarskrá ESB, sem sýndu miklar efasemdir um réttmæti og innihald hennar. Síðan hefur tortryggni og úlfúð magnazt. Það, sem er að gerast á evrusvæðinu núna, er einmitt það, sem Þjóðverjar óttuðust og sem þeir reyndu að girða fyrir með Maastricht-samninginum. Hann dugði ekki, og Þjóðverjar ætla ekki að dæla fé í þá, sem hvorki hafa getu né vilja til að taka til í eigin ranni og fylgja agaðri hagstjórn í anda Prússanna við ána Spree. Til að átta sig á, hvað baráttumenn fyrir varðeizlu ESB eru að fást við núna, ættu menn að lesa grein Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 8. júlí 2011, sem kemur þar til dyranna, eins og hann er klæddur.
Doktorinn frá Englandi í kynlífi laxfiska, sem nú fyrir kaldhæðni örlaganna gegnir stöðu utanríkisráðherra Íslands án þess að geta það, er að halda inn á jarðsprengjusvæði. Það er gert með samþykki og í fylgd fyrirbrigðis, sem kallar sig Vinstri hreyfinguna grænt framboð. Innan tíðar verða flokkur doktorsins og þetta fyrirbrigði hreyfingarlaus á sviðinni jörðu. Tilraunin með tæra vinstri stjórn á Íslandi mistókst hrapallega, enda gerir hún ekkert annað en að skemmta skrattanum.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.4.2011 | 10:41
"Hrafnaþing kolsvart í holti"
Tveir menn reyndust öðrum fremur verða örlagavaldar um farsæla og sjálfsagða afgreiðslu Icesave#3. Er annar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, en án hans tilstyrks hefði þjóðin ekki fengið tækifæri til að stöðva gæfusnauða vegferð vitstola stjórnvalda með auðsveipt þing í taumi, kolsvart hrafnaþing, eins og skáldmæringurinn, Jónas Hallgrímsson, kvað forðum.
Hinn örlagavaldur málsins var ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson. Hann hóf þegar í upphafi skelegga baráttu gegn lögunum um Icesave#3 , og atti þar kappi við ofurefli liðs og skoðanakannanir, sem bentu til, að valdastétt landsins hefði tekizt að sannfæra meirihluta landsmanna um, að skárst væri að samþykkja ófögnuðinn. Með listfengi og meistaralegum stílbrögðum tókst Davíð fangbrögðum við réttrúnaðarfólk samfélagsins, sem með RÚV, Fréttablaðið, flesta aðra fjölmiðla , drjúgan hluta háskólasamfélagsins og aðila vinnumarkaðarins fór fram með hótunum, hálfkveðnum vísum, villandi upplýsingum og röngum ályktunum.
Að sjálfsögðu lögðu fjölmargir mætir menn og konur hönd á plóginn, lögðu fram staðreyndir og vöktu máls á hinum augljósa undirlægjuhætti Já-sinna við Evrópusambandið, ESB, sem var allan tímann hinn raunverulegi andstæðingur í þessu máli. Þess vegna er vegferð þessa máls jafnógæfuleg og raun ber vitni um. Menn kunnu eki fótum sínum forráð í þjónkun sinni við hið erlenda vald.
Ríkisstjórnin með Samfylkinguna í broddi fylkingar, ásamt öðrum áhangendum aðildar Íslands að ESB, vildu fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara, íslenzks almennings á blótstalli ESB til að komast þar inn. Með sigrinum 9. apríl 2011 tókst að hindra þetta og þar með vannst tvöfaldur sigur. Draumur Össurar & Co. með Ísland inn í ESB er orðinn að martröð Samfylkingarinnar.
Nú er sagt, að slíðra eigi sverðin. Hvað lætur forsætisráðherra verða sitt fyrsta verk morguninn eftir niðurlægjandi ósigur sinn ? Hún lýsir því yfir við erlenda fjölmiðla, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið sú versta, sem hugsazt gat. Af þessu er aðeins hægt að draga þá ályktun, að núverandi forsætisráðherra er sá versti, sem hugsazt getur úr hópi hins kolsvarta hrafnaþings við Austurvöll. Hún leikur tveimur skjöldum og vinnur hagsmunum Íslands meira ógagn en gagn.
Framganga fjármálaráðherra eftir sinn bitra ósigur var ekki því markinu brenndur að taka málstað andstæðinganna að þessu sinni. Hann hóf sig yfir lágkúrulegan málflutning sinn fyrir kosningarnar og talaði nú máli þjóðar sinnar. Þessa óvæntu stefnubreytingu má þó rekja til afar óeðlilegs atburðar, sem hann stóð fyrir sama daginn í eigin þingflokki. Hann setti skákmeistarann Guðfríði Lilju út af sakramentinu með því að steypa henni af stóli þingflokksformanns vinstri-grænna fyrsta daginn hennar í vinnu eftir "barnsburðarleyfi". Fruntaháttur fjára ríður ekki við einteyming. Nú þynnist fjanda flokkur.
Sjálfstæðismenn gengu með klofinn skjöld til þessara kosninga, og höfðu sjálfstæðismenn, þversum, betur. Ástæðan fyrir þessum klofningi var það feigðarflan forystu Sjálfstæðisflokksins að ganga í berhögg við stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins á síðasta Landsfundi. Þar var kveðið eins skýrt að orði og verða má um, að ekki skyldi undirgangast löglausar kröfur útlendinga. Það er hulin ráðgáta, hvernig forystunni og sjálfstæðismönnum, langsum, datt í hug að hunza þessa samþykkt við atkvæðagreiðslu á hinu kolsvarta hrafnaþingi við Austurvöll. Þeir verða sjálfir að útskýra þetta á réttum vettvangi, en vonandi verður ekki meira um slíka fingurbrjóta á næstunni. Formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur liðizt það að fara með stefnuskrá síns flokks, eins og brókina sína, enda er sú stefnuskrá reist á siðblindu, eignaupptöku og ófrelsi einstaklingsins á flestum sviðum, en þveröfugt á við um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna gera sjálfstæðismenn háreistari kröfur til sinnar forystu.
Einn er sá maður, sem ber höfuð og herðar yfir alla stjórnmálamenn landsins, en það er forseti lýðveldisins. Hann boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 10. apríl 2011 að Bessastöðum. Er skemmst frá því að segja, að hann fór þar á kostum. Hann er augljóslega að blása til stórsóknar fyrir málstað Íslands á erlendri grundu. Leikur ekki á tveimur tungum, að forsetinn fyllir upp í tómarúm ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi, en þar fara dæmalausar liðleskjur gagnvart útlendingum og undirlægjur gagnvart ESB.
Er ekki að efa, að forseti lýðveldisins á eftir að bregða bröndum, svo vígfimur sem hann er, og að vinna málstað Íslands fylgi á meðal lykilmanna. Eins og Nei-sinnar (t.d. sjálfstæðismenn, þversum) þreyttust ekki á að benda á, er góður jarðvegur nú fyrir þennan málflutning í heiminum, ekki í sízt í Evrópu, þar sem sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) að bjarga lánadrottnum veikra banka og veikra ríkja er að bíða skipbrot. Nú er Portúgal komið í gapastokkinn, og er þá Spánn næstur, en þá munu Þjóðverjar stöðva þetta óheillaferli, því að ekki er stuðningur á meðal þýzkra kjósenda við slík risaútlát í björgunarsjóð ESB, sem Spánn mun útheimta. Gengi evrunnar mun þá falla, þrátt fyrir hækkandi vexti þar á bæ. Allsvakalega mun þá hrikta í stoðum Evrópusamstarfsins, og verður það mikið gjörningaveður. Verður þá smáþjóð affarasælla að standa til hlés.
Þannig fer, þegar stjórnmálamenn fara af stað með sín stóru og illa ígrunduðu verkefni, sem eru í blóra við lögmál hagfræðinnar, jafnvel náttúrulögmál og heilbrigða skynsemi. Þetta var einmitt upphaf evrunnar, stjórnmálagjörningur að undirlagi Frakka til að losna undan ægishjálmi þýzka marksins. Nú standa þeir í skugga Þjóðverja, sem eru að ná aðstöðu til að deila og drottna í Evrópu í krafti eigin dugnaðar.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2011 | 12:59
Orð eru dýr
Í nauðvörn ringulreiðar eftir Hrun lýstu ráðherrar í ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde yfir vilja til samninga um bætur úr ríkissjóði Íslands til innlánseigenda Icesave til að tryggja þeim EUR 20000 í hlut. Síðar var dregið í land og lýst yfir, að ekki væri um skuldbindingu að hálfu íslenzka ríkisins að ræða.
Mikill tími hefur farið í samningaviðræður, svo að ríkisstjórn landsins hefur staðið við upphafleg orð Geirsstjórnarinnar um vilja til samninga. Því var hins vegar aldrei lofað að semja skilyrðislaust, enda var um algera afarkosti að ræða, sem landsmenn aldrei hefðu getað staðið undir með góðu móti. Hörmungarframmistaða fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er öllum kunn, enda verður ekki lægra lotið.
Það var ekki fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn kom að samningunum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. marz 2010, þar sem algjöru vantrausti var lýst á ríkisstjórn norrænnar helreiðar, að eitthvert vit varð í þeim. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skipaði hæfan og mætan lögmann, sem á opinberum vettvangi hafði, ásamt lagaprófessor við Háskóla Íslands, verið rödd heilbrigðrar skynsemi og góðrar lögfræði í umræðum um hörmungina, sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna tróð gegnum þingið og ætlaði að reka með valdi ofan í kok þjóðarinnar.
Engu að síður er niðurstaðan enn ósamþykkjanleg fyrir skattborgara þessa lands. Vaxtagreiðslur og afborganir á bilinu 50-250 milljarðar ofan á núverandi skuldasúpu ríkissjóðs getur hæglega riðið honum að fullu. Það yrði reiðarslag, efnahagsáfall og mikill álitshnekkir fyrir Íslendinga, ef ríkissjóður þeirra kæmist í greiðsluþrot. Slíkt mundi þýða torfengin og dýr lán frá útlöndum vegna tortryggni lánadrottna í áratug á eftir. Þetta mundi leiða til hækkunar vaxta og ládeyðu í hagkerfinu, jafnvel samdráttar og þar af leiðandi rýrnandi kaupmáttar ár eftir ár. Hagkerfið yrði fársjúkt, eins og í alþýðulýðveldi, nema vaxandi atvinnuleysi og landflótti mundi engum dyljast. Á þetta er engan veginn hættandi. Líkindi á lögsókn að hálfu Breta og Hollendinga eru minni en 50 %, og lakari útkoma en samningunum nemur vart hugsanleg. Slíkt yrði saga til næsta bæjar og einsdæmi í sögunni á friðartímum. Hvers vegna hafa þeir ekki farið þá leið enn ? Staðan er einfaldlega þannig, að lög standa ekki að baki kröfunni, og efnahagsástand Íslands er með þeim hætti eftir Hrun nánast alls fjármálakerfis landsins, að landið getur ekki bætt á sig meiri erlendum skuldbindingum. Þetta er nauðvörn.
Þar að auki brýtur það gegn Stjórnlögum landsins að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, eins og prófessor emerítus, Sigurður Líndal, hefur bent á. Þennan samning, sem reistur er á löglausum kröfum Breta og Hollendinga, má af efnahagslegum, lögfræðilegum, sanngirnis- og stjórnmálalegum ástæðum alls ekki samþykkja. Við slíkt hæfist útstreymi úr gjaldeyrisvarasjóðinum, sem leiða mun til enn meira falls krónunnar, ef að líkum lætur, sem leitt getur til óðaverðbólgu, eins og í Weimarlýðveldinu, og langrar frestunar á afnámi gjaldeyrishaftanna. Allt mundi þetta leiða til þess, að þjóðin drægist mjög afur úr öðrum vestrænum þjóðum í lífskjörum.
Líta má svo á, að örlög Icesave-málsins séu enn hjá þjóðinni. Það eru grundvallarmannréttindi að fá að tjá sig í leynilegum kosningum um svo miklar álögur, sem hér er um að tefla, og um svo örlagaríkt mál. Gildir þá einu, hversu stór meirihluti á Alþingi verður fyrir málinu. Vegna stefnumarkandi afstöðu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins er þingmönnum flokksins ekki stætt á að veita þessu máli brautargengi. Fylgismenn samningsins, sem er miklu betri en þeir fyrri, eiga að sitja hjá, en þingflokkurinn ætti að sameinast um kröfuna um þjóðaratkvæði. Annað yrði stjórnmálalegt glapræði.
Hér skal fullyrða, að engin þjóð í Evrópu léti bjóða sér aðra eins afarkosti ótilneydd og að greiða í erlendum gjaldeyri til útlanda vegna falls einkabanka USD 1360 - USD 7000 á hvert mannsbarn. Þetta er þó það, sem Íslendingum er boðið upp á þessa dagana. Þeir eiga að halda sig við lagalegan rétt sinn og hina íslenzku leið, sem er fólgin í því að hafna hengingaról um háls skattborgara til stuðnings fjármálakerfis í einkaeigu, umfram það, sem rétt stofnaður tryggingasjóður annar.
Í ríkisstjórn Jóhönnu er umhverfisráðherra, sem hraut ofan á skýrsluhaugum í ráðuneyti sínu um díoxín útblástur ofan leyfilegra marka frá sorpeyðingarstðvum í landinu. Sami ráðherra hefur staðið fyrir eitrunarherferðum á hendur gróðri, en eitrið endar skiljanlega að lokum ofan í fólki. Allt er þetta óafturkræft, sem í fólk kemst, því að eitrið festist í vefjum líkamans. Svandís Svavarsdóttir rumskaði ekki fyrr en díoxínmálið komst í hámæli. Fyrir stórfellda vanrækslu í starfi ber þess vegna þinginu að ákæra hana og senda hana fyrir Landsdóm fyrir vikið.
Málsmeðferð þessa dæmalausa ráðherra ber merki siðblindu ráðstjórnar, og hún er löglaus. Ráðherrann hefur á öllum stigum þvælzt fyrir staðfestingu á skipulagi Flóahrepps og haldið honum í gíslingu eigin stjórnmálakredda í tvö ár. Skipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps hefur af sömu ástæðum verið í uppnámi. Um hag almennings skeytir ráðherrann engu. Hún er í stjórnmálum til að vinna þröngsýnum sjónarmiðum ofstækis brautargengi, þó að slíkt jafngildi skemmdarverkastarfsemi á hagkerfi landsins.
Áðfarir hennar voru löglausar dæmdar í héraði, en ráðherrann hékk eins og hundur á roði á ógildingu skipulagsins með þeim öfugsnúnu ráðstjórnarrökum, að fyrirtækjum væri ekki í lögum leyft að greiða fyrir vinnu vegna undirbúnings mikilla framkvæmda í litlum sveitarfélögum. Það er ekki heil brú í þessum ráðherra, enda var úrskurður Héraðsdóms nú í viku 6/2011 staðfestur af Hæstarétti. Orðhengilsháttur, mismunun og hrein valdníðsla þessa afturhaldsstjórnmálamanns hefur valdið íbúm Flóahrepps miklu tjóni og kann vel að hafa tafið viðreisn hagkerfis landsins, því að málið snerist um Urriðafossvirkjun og þar með allar virkjanirnar í Neðri-Þjórsá. Díoxínráðherrann fékk á snúðinn, en eins og vænta mátti er siðblinda ráðstjórnarinnar og valdagræðgi næg til að spýja yfir landslýð orðhengilshætti og algerum þvættingi í kjölfar Hæstaréttardóms, sem á að réttlæta áframhaldandi setu í ráðherrastóli. Þessi ráðherra er óhæfur til að gegna hlutverki handhafa framkvæmdavalds í lýðræðisríki.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2010 | 21:41
Asni klyfjaður gulli
Evrópusambandið (ESB) hefur nú verið þanið yfir alla Evrópu allt austur að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Enginn veit, hvernig ESB mun þróast, enda er það í skipulagslegum og fjárhagslegum ólgusjó sundurlyndis, en hitt er þó vitað, að róið er að því öllum árum í Þýzkalandi og í Frakklandi að þróa það, a.m.k. evrusvæðið, í átt að sambandsríki með ein fjárlög að baki evrunni. Sambandi ríkjanna yrði þá háttað með svipuðum hætti og tíðkast innan Sambandsríkisins Þýzkalands. Í Sambandsríkinu tíðkast ekki neitunarvald. Þetta sjónarmið er skiljanlegt að hálfu meginlandsríkja, en hagsmunir smáríkis með ráð yfir gríðarlegu hafsvæði í Norður-Evrópu fara ekki saman við hagsmuni meginlandsins.
Nú hefur þetta verðandi stórríki litið til norðurs. Þar eru feikna hafflæmi og mikil auðævi í hafi og undir hafsbotni, og menn vænta vaxandi siglinga, þar sem nú er heimskautsís. Síðasta sókn ESB til norðurs stöðvaðist árið 1994, þegar norska þjóðin felldi aðildarskilmála, sem Stórþingið þó var hliðhollt. Í kjölfarið (1995) var aðlögunarferli innleitt fyrir umsækjendur, og felast samningaviðræður síðan í að aðlaga stjórnkerfi umsóknarríkis að ESB-kerfinu.
Eftir hrun fjármálakerfisins, þar sem íslenzkir ævintýramenn léku ótrúleg hlutverk, lítur ríkjasamband í vanda til norðvesturs og ætlar sér að gleypa smáríki í einum munnbita og gera olíuríkinu Noregi tilveruna þungbæra utan við. Forkólfar ESB vita sem er, að lítið er um varnir á Íslandi um þessar mundir og hagsmunagæzla fyrir hönd landsmanna öll í skötulíki. Ríkisstjórn landsins er siðlítil og þröngsýn, og ekki reiðir hún vitið í þverpokum.
Samfylkingin þvingaði með offorsi fram heimild Alþingis til umsóknar um aðild að ESB 16.07.2009. Þessa heimild notuðu forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann síðan til að semja eitthvert ómerkilegasta plagg, sem sézt hefur í Íslandssögunni. Það var svo einfeldningslegt, snubbótt og skilyrðalaust, að hefði ráðherraráðið einfaldlega svarað með jái á þeim grundvelli, að Ísland væri þegar í EES, þá hefðu Íslendingar orðið aðilar strax. Svona fortakslaus fleðulæti sýndu forkólfar Samfylkingar væntanlegu stórveldi í júlí 2009. Verður það talið á meðal verstu glappaskota lýðveldisins.
Fyrir löngu er komið í ljós, að þessi gösslaragangur mun valda okkur stórtjóni. Ríkisstjórnin er klofin í málinu, og minnihluti á þjóðþinginu styður nú umsóknarferli, sem hefur tekið allt aðra stefnu en lagt var upp með 16. júlí 2009. Þjóðin kærir sig ekki um að verða útnári stórríkis Evrópu, svipt forræði yfir eigin lögsögu og áhrifalaus við ákvarðanir um eigin hagsmuni eða stefnumótun stórríkis um hermál og hvaðeina. Sviksemi og blekkingaleikur einkenna þetta umsóknarferli, sem lagt var upp með sem könnun á, hvað byðist. Verður þetta talin ein versta lágkúra Íslandssögunnar.
Furstar ESB láta ekki að sér hæða, heldur ætla þeir að brjóta andstöðu þjóðarinnar á bak aftur með því að bera fé á landsmenn. Stofna á skrifstofu að hálfu ríkisins til að taka við fénu og dreifa því til upplýsingaherferðar og aðlögunar hins opinbera að reglum og hefðum skrifræðisbáknsins í Brüssel og annars staðar á snærum ESB.
Það er ljóst, að ríkisstjórn, sem samþykkir þvílíkt löngu áður en samningaviðræðurnar eru leiddar til lykta, hefur glatað sómatilfinningu sinni. Ríkisstjórnin í Reykjavík, ringluð, vingulsleg og sem í vímu, virðist vera herfilega misnotuð af biskupinum, stækkunarstjóranum í Brüssel. Nú á við að taka sér í munn orð Oddaverjans, Jóns Loftssonar, um gagnrýni Niðaróssbiskups á líferni höfðingja 12. aldar Íslands: "Heyra má ek erkibiskups boðskap, en ráðinn em ek í að hafa hann að engu."
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dagsettu 27.08.2010, er utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, líkt við prest, sem heldur minningarræðu yfir ættingjum og vinum hins framliðna án þess að hafa hirt um að kynna sér æviferil viðkomandi. Þessi samlíking varpar ágætu ljósi á þekkingarleysi og óraunsæi skötuhjúanna Jóhönnu, sem er ólæs á regluverk ESB, og Össurar, sem talar sem trúmaður með glýju í augum, blindaður af trú sinni.
Við ofangreinda líkingu höfundar Reykjavíkurbréfs má bæta við sögu, sannri. Ættingjar hlýddu á minningarræðu prests nokkurs um framliðna frænku sína. Þar kom ræðunni, að viðstaddir litu hver á annan í undrun yfir því, sem þeir heyrðu. Að ræðunni lokinni stungu þeir saman nefjum um innihaldið, en enginn kannaðist við að hafa gaukað fram komnum upplýsingum að presti. Afréðu þau loks að spyrja prestinn, hver hefði verið heimildarmaður hans um tiltekið efni. "Elskurnar mínar, ég þurfti engan slíkan heimildarmann. Ég var í beinu sambandi við þá framliðnu."
Össur Skarphéðinsson er í hlutverki þessa prests gagnvart þjóðinni, þegar hann lýsir fyrir henni ESB og aðildarviðræðunum. Hann heldur því fram, að unnt sé að sveigja ESB til að hleypa Íslendingum inn með alls kyns undanþágur frá sáttmálum og lögum ESB.
Við skulum gefa okkur, að ESB sé svo mikið í mun að ná Íslandi inn, að þeir samþykki t.d. óskertan yfirráðarétt Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni. Þá mun sannast, að allt orkar tvímælis, þá gert er. Ágreiningur, sem einhver fiskveiðiþjóðin mun gera við Íslendinga vegna veiða innan íslenzku lögsögunnar, verður lagður fyrir Evrópudómstólinn. Fordæmi sýna, að hann ógildir hiklaust samninga, ef þeir stríða gegn grundvallarreglum ESB. Þannig er ljóst, að áhættan við inngöngu er allt of mikil til að taka hana.
Sumir tala um, að þeir vilji taka "upplýsta ákvörðun" um það, hvort Ísland gangi í ESB eða haldi áfram fullveldi sínu með kostum þess og göllum. Til að unnt verði að taka þess konar ákvörðun, verði að ljúka vegferð þeirri, sem téð skötuhjú hófu í júlí árið 2009. Þetta fólk gengur að því sem vísu, að allar nauðsynlegar upplýsingar verði þá fyrir hendi til að taka rétta ákvörðun. Í raunveruleikanum er þetta aldrei svo. Einhver áhætta fylgir öllum ákvörðunum, og var tilgreint dæmi um eina slíka hér að ofan, þar sem eru úrskurðir Evrópudómstólsins.
Þessu aðildarmáli fylgir gífurleg áhætta, því að afleiðingar aðildar fyrir hag landsmanna geta orðið hrapallegar. Það er rétt, að við eigum ríkra hagsmuna að gæta í Evrópu. Hins vegar hefur sambandið við Evrópu verið ærið stormasamt. Hefur t.d. verið deilt um þorsk, skuldbindingar íslenzka ríkisins vegna fallins einkabanka og nú síðast makríl. Síðast nefnda deiluefnið er afar lærdómsríkt. Breytingar í hafinu hafa leitt til mikilla makrílgangna inn í íslenzku lögsöguna. Sem fullvalda þjóð getum við nýtt þessa nýju tegund að vild innan lögsögunnar. Jafnljóst er, að ESB vill meina okkur það og mundi vafalaust neyta aflsmunar, ef Ísland væri innan "Festung Europa".
Það má nærri geta, að við hrossakaup innan ESB yrðu hagsmunir smáþjóðar úti í reginhafi að láta í minni pokann gagnvart ofurefli fjölmennis í auðlindanauð. Hin rökrétta ályktun er sú, að umsóknin sé leikur að eldi, hún hafi í för með sér sóun mikilla fjármuna og tímasóun í stjórnkerfi ríkisins. Síðast en ekki sízt rýrir umsóknin trúverðugleika landsmanna erlendis, þar sem hugur fylgdi í raun aldrei máli, og viðsemjendum okkar mun finnast þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum, því að um aðild að ESB sækja einvörðungu þeir, sem tilbúnir eru til að taka upp lög og reglur sambandsins í heild sinni á ákveðnu árabili. Aukaaðild er ekki til.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 29.8.2010 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2010 | 17:53
Ölmusuþegar
Nú hefur verið boðað, að styttast muni í svo nefnda aðlögunarstyrki frá ESB til Íslands. Sannast þar, hvað haldið hefur verið fram, að Ísland er í boði ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri grænna að hefja aðlögunarferli fyrir fulla Evrópusambandsaðild. Evrópusambandið hefur breytzt frá því Noregur stóð í samningaþrefi við ESB 1972 og 1994. Nú göngum við inn í ferli, sem sniðið var fyrir Austur-Evrópu. Umsóknarlandið getur fengið mislangan aðlögunartíma, en það verður að innleiða öll lög og tilskipanir ESB á endanum. Allt hjal um eitthvað annað er rándýr og stórhættulegur loddaraleikur ábyrgðarlausra manna.
Til þess fær umsóknarlandið fjárhagsstyrk frá ESB, og það er hægt að taka undir það með Ögmundi Jónassyni, Alþingismanni, að þetta er alveg sérstaklega ógeðfelld tilhugsun.
Æ sér gjöf til gjalda segir hið forna máltæki, og þetta er sérlega varasamt í ljósi þess, að flest bendir til, að umsóknarferli þetta verði stöðvað af Alþingi áður en því lýkur, og vonandi áður en það kemst á fullt skrið. Alþingi mun síðan óska eftir beinum úrskurði þjóðarinnar til að fá þennan dæmalausa tvístíganda endanlega út úr heiminum. Það verður líka nauðsynlegt til að taka af allan vafa gagnvart útlendingum um afstöðu landsmanna. Hinn kratíski draugur verður niður kveðinn.
Um þessa stefnumörkun tók Landsfundur Sjálfstæðisflokksins af skarið í júní 2010. Á hann heiður skilinn fyrir skelegga ályktun. Enginn getur lengur vænt Sjálfstæðisflokkinn um að bera kápuna á báðum öxlum í mesta sjálfstæðismáli vorra tíma. Afstaða Landsfundar var fullkomlega rökrétt, því að annaðhvort eru menn fylgjandi inngöngu eða ekki. Sjálfstæðisflokkinum verður ekki beitt fyrir ESB-vagninn.
Það er blekking eða barnaleg fáfræði um eðli ESB, að Ísland geti annað hvort samið um varanlega sérstöðu innan ESB eða sveigt stefnu ESB þangað, sem okkur hentar. Allt slíkt er fullkomið óráðshjal, og þeir, sem gera sig seka um slíkan málflutning, dæma sig sjálfir (úr leik). Landsfundur sendi jafnframt gullgrísum á meðal trúnaðarmanna flokksins einörð skilaboð að hætti Rangæinga. Ef hinir fyrr nefndu sjá ekki skriftina á veggnum núna, eru þeir stjórnmálalega ólæsir. Slíkir eru flokkinum byrði og valda því, að sókn hans er ekki hraðari en raun ber vitni um.
Nú hefur verið birt ný skoðana-
könnun um afstöðu Íslendinga til aðildar að ESB. Svo virðist sem fjórðungur þjóðarinnar sé enn fylgjandi aðild. Ef og þegar menn sjá inngönguskilmálana svarta á hvítu, mun saxast verulega utan af þessum fjórðungi, og e.t.v. mun hann verða 15 %. Rímar það nokkurn veginn við hefðbundið kratafylgi í landinu.
Það er hópur í landinu þeirrar skoðunar, að bezt henti landinu að vera í ríkjasambandi. Hann hefur fullan rétt til þeirrar skoðunar, og við sum asnaspörk stjórnvalda getur einmitt hvarflað að fólki, að e.t.v. gæti ákvarðanataka ekki orðið verri fjarri fósturlandsins ströndum.
Ekkert land í Evrópu, og þó að víðar væri leitað, hefur hins vegar tekið jafnmiklum stakkaskiptum frá 1904, er Ísland fékk heimastjórn, og land vort. Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að þeir sem börðust fyrir afnámi ríkjasambandsins við Danmörku, af því að þannig yrði hagsmunum landsmanna bezt borgið, höfðu á réttu að standa, en hinir máttu lúta í gras.
Hrunið 2008 breytir engu um þá heildarmynd. Ef kraftur einkaframtaksins verður virkjaður á ný, og erlendum fjárfestum skapað traust umhverfi í öllu tilliti (þar veltur á ýmsu), þá mun íslenzka hagkerfið ná sér á strik á tveimur árum með blússandi hagvexti og nægri atvinnu. Að öðrum kosti verður hér fjöldi manns í fátæktarfjötrum á framfæri hins opinbera. Það eru ær og kýr krata að þenja báknið út. Báknið getur hæglega orðið okkur ofviða, ef erlendar skuldir verða ekki greiddar hratt niður, og þá verðum við öll ölmusufólk.
Við öll vatnaskil í sjálfstæðismálum landsins hefur verið á kreiki hópur efasemdarmanna um aukið sjálfstæði. Árið 1943 voru kratar andvígir lýðveldisstofnun árið eftir. Árið 1918 voru þeirra tíma kratar andvígir fullveldistökunni með sambandsslitum við Dani (aðeins konungur og utanríkismál urðu sameiginleg). Mjótt var á munum árið 1903 varðandi heimastjórn eða ráðherra í Danmörku árið eftir. Þannig má áfram telja. Alltaf hafa úrtölumenn gert lítið úr getu þjóðarinnar til að rísa undir auknu sjálfræði um eigin mál. Nú telja þeir sig hafa himin höndum tekið og ætla að snúa þróuninni við með því að færa okkur aftur inn í ríkjasamband. Öfugmælavísur kveða þeir margar, en sú er sýnu verst, er kveður svo á um, að hollast sé smáþjóð að deila fullveldi sínu með stórþjóðum og öðrum.
Þessum minnihluta landsmanna, sem nú njóta forystu litla, ljóta eldfjallsins, svo að lagt sé út af orðum ESA-forsprakkans, sem hér var um daginn, mun ekki verða kápan úr því klæðinu. Þeir munu verða gerðir afturreka með það allt saman og einangraðir í stjórnmálum. Þeir hafa sýnt sitt rétta andlit, og það er svo ófrýnilegt, að það á ekkert erindi í stjórnarráði landsins. Fimmta herdeildin var nefnd í því sambandi, og vinstri-grænir hafa leitt hana til öndvegis á Íslandi. Mikil er skömm þeirra og mun uppi verða á meðan sú flokksómynd er við lýði.
Vinstri hreyfingin grænt framboð er þess vegna algerlega ótrúverðug, þegar kemur að varðstöðu um sjálfstæði landsins. Hún selur það, sem talið var vera henni kærast, fyrir baunadisk.
Núverandi ríkisstjórn er örverpi (bastarður), sem virðist ekki njóta óskoraðs þingmeirihluta, heldur lafa á ótta ráðstjórnarinnar við að missa völdin. Nú fjarar hratt undan ríkisstjórninni, og um þessar mundir er fylgið um 2/5. Stjórnarandstaðan á þingi verður nú að girða sig í brók og taka höndum saman við samtök launþega og vinnuveitenda og losa þjóðina við þessa óværu fyrir veturnætur. Annars verður hún vart á vetur setjandi.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2010 | 19:52
Stórveldi leitar hófanna
Þann 9. júní 2010 varð allnokkur opinber atburður, kyrfilega sviðsettur. Fulltrúi í stjórnmálaráði miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins var hér með 80 manna fylgd í boði utanríkisráðherra Íslands. Hinn þurftarfreki gamli Trotzky-isti skrifaði undir gjaldeyrisskiptasamning fyrir hönd Seðlabanka Íslands við seðlabanka Kína. Óvíst er, hvaða ávinningur er fólginn í þessum samningi fyrir Ísland, en hins vegar er ljóst, að slíkur samningur getur orðið forleikur að lánalínu og lántökum.
Þá skrifaði hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar undir viljayfirlýsingu um fjármögnun Búðarhálsvirkjunar gegn því, að kínverskt verktakafyrirtæki, CWE, öðlist forgang að verkefninu.
Þessum gjörningi hefur verið leikstýrt út iðnaðarráðuneytinu, en dáðleysi og ákvarðanafælni hafa einkennt feril ráðherra Samfylkingarinnar, sem þar situr nú að völdum. Nú gæti hins vegar svo farið, að hún skildi eftir sig sviðna jörð.
Óþarfi er að taka fram, að gjörningar af þessu tagi eru óhugsandi alls staðar annars staðar innan "Festung Europa" eða á Innri markaði Evrópu.
Ljóst er, að Kínverjar hafa gert langtíma áætlun um að öðlast ítök á Íslandi. Kínverskir stjórnmálamenn og embættismenn hugsa ekki í kjörtímabilum, heldur í mannsöldrum. Utanríkisstefna Kínverja er heimsvaldastefna í þeim skilningi, að þeir leggja áherzlu á að ná tökum á auðlindum jarðar, vinna þær úr jörðu eða framleiða landbúnaðarvörur og senda hráefni til Kína til frekari úrvinnslu. Þessi hegðun þeirra er afar áberandi í Afríku, þar sem þeir hafa t.d. keypt mikið land til námugraftrar og landbúnaðar, en þeir láta líka að sér kveða í Suður-Ameríku. Nú stunda 40 % íbúa Rauða-Kína landbúnaðarstörf, en áætlað er að þeim fækki í 24 % á næstu 10 árum. Framleiðni er lág, og Kínverjar óttast matvælaskort, sem gæti valdið miklum innanlandsóróa.
Hvað fyrir þeim vakir hérlendis, er ekki ljóst. Langtíma markmiðið kann að vera að ná tökum á matvælaframleiðslu landsins, en til skemmri tíma beinist áhuginn að orkulindunum og nýtingu þeirra. Í þessu sambandi er vert að minnast, að siglingaleiðin á milli Íslands og Kína mun styttast umtalsvert, þegar norðurleiðin opnast, sem talið er muni verða á þessum áratug. Aðgengi að auðlindum á sjávarbotni, iðnvæðing Íslands og tenging Íslands við markaði ESB kunna og að vekja áhuga þeirra.
Viljayfirlýsingin, sem hinn nýbakaði forstjóri Landsvirkjunar undirritaði, er með algerum ólíkindum og fullkomin fásinna. Yfirlýsingin hlýtur að hafa verið samþykkt af stjórn Landsvirkjunar og er þar með á ábyrgð iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem Samfylkingin ber stjórnmálalega ábyrgð á. Þessum ráðherra virðist engan veginn vera sjálfrátt og ómögulegt að sjá, hvaða erindi hún á í ráðherrastól, jafngagnslítil og hún hefur reynzt. Afskipti Samfylkingarinnar af orku-og iðnaðarmálum landsins eru ein samfelld hrakfallasaga. Er skemmst að minnast fáránlegs úrskurðar Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, um sameiginlegt umhverfismat allra tengdra framkvæmda álveri Alcoa á Bakka við Húsavík. Hefði sá biðleikur ekki verið leikinn, væri öðru vísi umhorfs á atvinnumarkaðinum á Íslandi nú um stundir, og um 100 milljarðar króna í vændum í auknum útflutningstekjum. Dýrir ætla sameignarsinnarnir í Stjórnarráðinu að verða landsmönnum, og mun hið fyrra hrunið verða barnaleikur hjá sjálfskaparvítum vinstri flokkanna við völd.
Þetta síðasta útspil Samfylkingarinnar í orkumálum tekur þó út yfir allan þjófabálk. Verkalýðshreyfingin (ASÍ)hefur fordæmt verknaðinn, og skal taka heils hugar undir þá fordæmingu. Segja má, að betra er heima setið en af stað farið, ef virkja á með kínversku vinnuafli á meðan yfir 20 þúsund Íslendingar hafa ekki vinnu við hæfi. Kínverja má ekki ráða hér til vinnu, ef vinnuafl fæst á Innri markaðinum. Þetta er "Festung Europa".
Kínverjar unnu hér við Kárahnjúkavirkjun og ber ekki að vanþakka framlag þeirra þar, en þá ríkti efnahagsþensla, og ekki fékkst nægt vinnuafl á Innri markaði EES. Þetta er ófrávíkjanleg forgangsregla hins Innra markaðar og með algerum ólíkindum, að ríkisstjórnin hætti nú á hörð viðbrögð frá Evrópu og víðar, þegar okkur ríður á að bæta samskiptin við þessar þjóðir án þess að leggjast þó í duftið og sleikja skósóla "Brüssel-búrókrata", eins og utanríkisráðherra er tamt.
Það verður ekki á Samfylkinguna logið. Ísland er innan "Festung Europa" með kostum þess og göllum, og ESB mun ekki líða það, að kínverskt vinnuafl njóti réttinda til vinnu á Íslandi umfram vinnuafl á innri markaði EES. Þegar horft er til þess með hvaða hætti þessi forréttindi skapast, er ljóst, að gjörningurinn er þar að auki brot á samkeppnireglum Innri markaðarins, þar sem einu fyrirtæki er keyptur aðgangur að verki með lánveitingu eða fjármögnun hins opinbera í viðkomandi landi (Kína) til verkkaupans.
Hér er satt að segja um alveg glórulausan gjörning að ræða og heimskulegan í alla staði. Gjörningurinn, sem viljayfirlýsingin fjallar um, stenzt ekki einfaldasta próf á sviði tilskipana og laga ESB að ekki sé nú minnzt á íslenzk lög og reglur.
Téð viljayfirlýsing er svo vitlaus, að með ólíkindum er, að nokkur hérlandsmaður skyldi ljá nafn sitt við hana. Hún mun þar að auki skaða okkur erlendis, bæði vestan hafs og austan, þar sem menn gjalda mikinn varhuga við ásókn kínverska stórveldisins.
Íslenzka ríkisstjórnin er hins vegar þeirrar gerðar um þessar mundir, að hún telur sér alla viðhlæjendur vini. Allt vitnar þetta mál um ótrúlega skammsýni, þekkingarleysi og dómgreindarleysi, þ.e. óhæfni vinstri stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar. Kostnaðurinn af afglöpum, úrræðaleysi og fordómum vinstri stjórnarinnar er svo hár, að þjóðin hefur ekki lengur efni á, að hún hangi hálfdauð við völd.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2010 | 12:18
Fordæmanleg utanríkisstefna
Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar vitnar um kálfslegt eðli. Óvarlegt er að hyggja alla viðhlæjendur vini. Betur hefði Alþingi samþykkt þann 16. júlí 2009 að veita þjóðinni kost á að tjá sig beint um jafnafdrifaríka stefnumörkun og umsókn að Evrópusambandinu, ESB, er. Þá hefði að öllum líkindum verið forðað stórslysi, sem nú er í uppsiglingu.
Samfylkingin, með alla sína grunnristu hlöðukálfa, hélt því fram, að umsókn jafngilti ósk um könnunarviðræður. Nú er komið í ljós, það sem andstæðingar aðildarumsóknar vöruðu við, að hér er í raun um aðlögunarferli umsækjenda að ræða. Ríkisstjórnin er þar með búin að skrifa upp á víxil, sem enginn samþykkjandi er að. Þetta er lítilsvirðing við lýðræðislega stjórnarhætti, ábyrgðarleysi gagnvart íslenzku þjóðinni, og viðsemjendurnir eru hafðir að fíflum. Ríkisstjórnin er hagsmunum þjóðarinnar hættuleg.
Það nær engri átt að halda þessu ferli áfram. Vinstri stjórnin hefur hvorki þrek né vilja til að játa mistök sín. Eitt fyrsta verk nýs Alþingis verður að stöðva vitleysuna á þeim grundvelli, að þetta hafi verið kosningamál, eða að fresta umsóknarferlinu fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Umsóknin mun e.t.v. kosta um 3 milljarða króna, þegar upp verður staðið, og tekur mikinn kraft úr stjórnkerfi, sem er veikburða í samanburði við önnur lönd og embættisbákn ESB. Í ljósi þess, að umsóknin er andvana fædd, er hún forkastanleg sóun almannafjár, rekin á erlendum lánum við háum vöxtum. Á tímum stórfelldrar erlendrar skuldasöfnunar ríkissjóðs eru þessi útgjöld óverjanleg. Vinstri stjórnin mun verða að gjalti, ef hún lifir það að ljúka viðræðum, því að uppkastið mun verða kolfellt bæði af þingi og þjóð. Verst er, að þetta mun bitna á orðstýr íslenzku þjóðarinnar í Evrópu, þegar það kemst í hámæli, hvers konar loddara hún hefur valið til valda.
Aðalröksemd aðdáenda og smjaðrara fyrir ESB fyrir aðild Íslands var, að þá mundu gjaldmiðilsmálin verða leyst í eitt skipti fyrir öll. Flestum er þó að verða ljóst, að með upptöku evru færu landsmenn úr öskunni í eldinn. Evran virkar sem óþolandi spennitreyja á öll lönd, nema hinar framleiðsluknúnu germönsku þjóðir Mið-Evrópu. Allsherjarverkföll og blóðsúthellingar eru hafin í Grikklandi, af því að ráðin hafa í raun verið tekin af grísku ríkisstjórninni. AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) setti sína menn í grísku ráðuneytin, þannig að niðurlæging Grikklands er algjör. Er þetta langversta ástand Grikklands frá því að Wehrmacht hertók Grikkland 1941 skömmu fyrir "Operation Barbarossa" eða "Aðgerð rauðskegg" eftir að Grikkir höfðu með hetjuskap hrakið her Mússólínis af höndum sér. Þessir atburðir töfðu innrás Þjóðverja í Rússland, svo að hetjuleg vörn Grikkja kann að hafa reynzt örlagarík.
Um þessar mundir minnast menn þess, að 65 ár eru frá lokum hildarleiksins mikla í Evrópu, þó að enn geisaði styrjöld í Asíu. Á þessum tímamótum refsuðu kjósendur í Nordrhein-Westphalen ríkisstjórninni í Berlín fyrir að samþykkja flutning á fjármunum þýzkra skattborgara í grísku hítina. Hér er um að ræða um EUR 10 Mia í fyrsta áfanga, sem þýzkur almenningur telur vera hreina sóun á skattfé sínu, enda sé gríska ríkissjóðinum ekki við bjargandi. Allt bendir til, að þetta sé rétt mat Þjóðverja og að ríkisgjaldþrot blasi nú við Grikkjum. Hver evra þangað er töpuð evra. Tilburðir til að forða ríkisgjaldþrotum Miðjarðarhafslandanna, sem eru ósamkeppnishæf á erlendum mörkuðum með evruna, af því að þau hafa ekki tekið til í sínum ranni, munu verða dýrkeyptir og hagvaxtarhindrandi í Evrópu.
Gjaldþrot eins evrulands mun hins vegar hafa keðjuverkandi áhrif og Suður-Evrópa mun öll falla í valinn á endanum. Afleiðingin verður hrun evrunnar og líklega mun hún líða undir lok. Þetta mun lama ESB, en gömlu þjóðarmyntirnar munu líta dagsins ljós að nýju. Ekkert er nýtt undir sólunni, og líklega munu verða til viðskiptabandalög að nýju, sbr Hansasambandið, en sameiningartilraunir lagðar á hilluna.
Íslenzkir vinstri menn geta ekki lengur réttlætt áframhaldandi viðræður um aðild að þessu öngþveiti. Þó að stjórnarfar hafi reynzt óbeysið á Íslandi, getur það staðið til bóta án þess að kalla yfir landsmenn skrifræðisbákn ESB og fjarlægt stjórnvald. Það verður að stöðva svo kallaðar aðildarviðræður hlöðukálfa vinstri flokkanna við ESB strax. Þeir brenna upp skattfé og valda þjóðinni orðstýrshnekki, sem seinlegt verður að bæta. Sannast á þessu ESB-flaðri ríkisstjórnarinnar, að sjaldan verður flas til fagnaðar.
Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar ber öll merki þess að hafa komið undir hjá fólki með asklok fyrir himin. Það er ógæfuleg tilurð, og getur aldrei orðið barn í brók. Nú þarf að snúa við blaðinu. Forseti lýðveldisins hefur lengi verið óþreytandi að benda á mikilvægi markaða í Asíu og menningarsamskipti þangað. Enn mikilvægara er að hleypa nýju lífi í fyrrum góð samskipti Bandaríkjanna, BNA, og Íslands og að rækta sambandið við Kanada. Samskiptin við BNA mótuðust að vísu af hernaðarhagsmunum stórveldisins, en opnun siglingaleiða við ísbráðnun, nýting náttúruauðlinda undir hafsbotni, rísandi Rússland og vaxandi upplausn í Evrópu kunna að stuðla að meiri áhuga í Washington á Íslandi, þó að vart verði um hernaðarumsvif að ræða.
Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar. Þýzkaland ber ægishjálm yfir önnur Evrópulönd á efnahagssviðinu, og sú staðreynd verður stöðugt meira áberandi á stjórnmálasviðinu. Íslendingar hafa jafnan átt mikil og góð samskipti við hinar þýzkumælandi þjóðir. Viðskipti á milli landanna hafa verið blómleg, og þangað hafa margir Íslendingar leitað sér menntunar og getið sér gott orð; ekki sízt á sviði verkfræði og raunvísinda. Þýzkumælandi þjóðir hafa litið til norrænnar menningar með velþóknun frá dögum Napóleóns Bonaparte, sem þær áttu í vök að verjast gegn. Engum vafa er undir orpið, að hagsmunir Íslendinga og hinna þýzkumælandi þjóða fléttast saman í bráð og lengd. Með þetta í huga ber að vinna að myndun öxulsins Reykjavík-Berlín, sem kann að verða smíðaður úr hágæðaáli.
Mál af þessu tagi þarf að móta af mikilli framsýni, og gösslaragangur í ætt við ESB-umsókn eða framboð til setu í Öryggisráði SÞ á engan veginn við. Allt var það reist á fúafeni fáfræði og ofvöxnum, en samt vanþroska "egóum".
Utanríkisstefnuna á að miða við að tryggja frelsi Íslands til langs tíma í stjórnmálum, viðskiptum og menningu. Að binda trúss sitt um of við einn aðila er of áhættusamt. Til skemmri tíma á utanríkisstefnuna að miða við sífellda sókn íslenzkra vöru-og þjónustuútflytjenda inn á markaði, sem hagkvæmastir eru á hverjum tíma, og að því að skapa hagsmunatengsl, sem leiða til umtalsverðra og stöðugra erlendra fjárfestinga í framleiðslufyrirtækjum á Íslandi.
Til að laða að erlent fjármagn er grundvallaratriði að skapa traust fjárfesta til íslenzks stjórnarfars; ekki sízt réttarfarsins. Prófsteinn nú á réttarfarið er, hvort tekst að ganga á milli bols og höfuðs á fjárglæframönnunum, sem léku þjóðina og erlenda lánadrottna svo grátt á undanförnum árum sem raun ber vitni um. Ef það tekst má draga þá ályktun, að heiðarleiki sé enn í öndvegi hafður á Íslandi í orði sem á borði.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)