Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Útúrboruháttur

Fregnir berast um, að kínverski forsætisráðherrann hafi haft hug á að heimsækja þann íslenzka nú um miðjan júlí 2011 með 100 manna sendinefnd, sem að stórum hluta væri viðskiptasendinefnd.  Af ástæðum, sem rekja má til íslenzka forsætisráðuneytisins hefur heimsókninni verið aflýst og hótelbókanir Kínverjanna afturkallaðar.  Íslenzka forsætisráðuneytið fer undan í flæmingi, þegar leitað er skýringa, og ráðherrann virðist hafa breytzt í lofttegund.  Það er óbjörgulegt, ef ferðinni er heitið til kanzlara Merkel í komandi viku.  Kínverjarar munu hafa einnig lagt til fundartíma viku seinna, svo að heimsókn á Potzdamer Platz er ekki haldbær skýring. 

Hér skal fullyrða, að enginn forsætisráðherra í Evrópu, annar en sá íslenzki, mundi setja upp hundshaus og sýna af sér fádæma ókurteisi og útúrboruhátt í stað þess að taka fagnandi tækifæri af þessu tagi til að efla samskiptin, ekki sízt viðskiptatengsl, við annað stærsta hagkerfi heims og það, sem örast vex, ef hið indverska er undanskilið, nú um stundir.  Hér er þess vegna argasta stjórnvaldshneyksli á ferðinni, sem draga mun dilk á eftir sér og sannar, að hagsmunagæzla fyrir Íslands hönd er ekki upp á marga fiska í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það hafði reyndar áður komið í ljós, t.d. í "Icesave"-deilunni, en þetta atvik undirstrikar, að mönnun þessa embættis er fullkomlega óboðleg og raunar stórskaðleg sem stendur.  Forsætisráðherra vinnur ekki fyrir kaupinu sínu, enda fer því fjarri, að hún valdi starfinu.  Á þessu ber Samfylkingin stjórnmálalega ábyrgð, sem hún getur ekki vikizt undan í næstu kosningum.  Þá mun hún fá þá ráðningu, sem dugir til að fleygja henni út úr stjórnarráðinu, en tjónið, sem af veru hennar þar hefur hlotizt, nemur hundruðum milljarða króna og hefur orðið mörgum þungt í skauti.  "Alþýðuhetjan" reyndist alþýðubaggi, þegar til kastanna kom.

Annar alvarlegur ábyrgðarhlutur jafnaðarmanna heitir Össur Skarphéðinsson.  Hann er fíll í postulínsbúð, sem gösslast nú áfram í samningaviðræðum við ESB umboðslaus og án skýrra samningsmarkmiða.  Hann hefur ekki umboð frá Alþingi, þó að hann hafi það frá marklausri Jóhönnu, til að semja um, að eina trygging Íslands fyrir óbreyttum yfirráðarétti efnahagslögsögunnar sé vinnuregla ESB um "hlutfallslegan stöðugleika".  Sú regla er haldlaus og á útleið samkvæmt yfirlýsingum fulltrúa ESB.  Er fávísi Össurar með eindæmum að hampa þessu plaggi. Er alveg ljóst nú af flumbruhætti Össurar, að forynjur hafa komið höndum yfir fjöregg þjóðarinnar og kasta því nú á milli sín í Brüssel.

ESB hefur mótað sér sameiginlega fiskveiðistefnu og sameiginlega landbúnaðarstefnu, enda sameiginlegur málaflokkur hjá ESB, og það er jafnlíklegt, að sambandið samþykki sérreglur fyrir Ísland og það er, að Össur Skarphéðinsson muni ganga á vatni á morgun.  Ástæðan fyrir þessu er, að sérlausnir eða varanlegar undanþágur til handa einstökum ríkjum fela í sér mismunun ríkjanna.  Stefan Füle, stækkunarstjóri, hefur lýst því yfir á blaðamannafundi með Össuri í Brüssel, að ekkert slíkt sé í boði að hálfu ESB.  Ástæðan er sú, að slíkt grefur undan einingu ríkjanna.  Samþykktarferlið yrði torsótt fyrir Füle, því að samþykki allra ríkjanna er áskilið.

Þó að svo ólíklega vildi til, að slíkt næðist í gegn, er samningur Íslands við ESB á slíkum forsendum haldlaus, ef eitthvert aðildarríkjanna seinna meir, t.d. í einhverju ágreiningsmáli við Ísland, ber réttmæti undanþáganna upp við Evrópudómstólinn.  Sá leggur stofnsáttmála ESB til grundvallar dómum sínum, og fordæmi eru fyrir því, að ákvæði inntökusamninga, sem brjóta í bága við stofnsáttmálana, eru dæmd ógild.  Hvað mundu Íslendingar gera, sem í góðri trú færu inn í Evrópusambandið á röngum forsendum, ef haldreipi þeirra yrði þannig dæmt ónothæft og þeir mundu þurfa að sæta því að hlíta undanbragðalaust hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu og sameiginlegu fiskveiðistefnu ?  Fyrr en síðar mun slíkt hafa í för með sér skiptan hlut í lögsögunni og minni hlutdeild í flökkustofnum.  Slík þróun mála jafngildir minni tekjum sjávarútvegsins inn í íslenzka hagkerfið, því að íslenzka lögsagan undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB yrði nýtt m.a. af verkefnalitlum stórflotum ESB-landanna, sem sæta færis. Gæti slíkt í ofanálag rústað lífríki hafsins, því að þessir flotar eru ekki þekktir af vandaðri umgengni við veiðislóðir, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni.

Til hvers var þá baráttan fyrir fullveldi og forræði yfir 200 mílna lögsögu, ef allt á að afhenda yfirþjóðlegu valdi 500 milljóna manna gjörsamlega að þarflausu ?  Hvers vegna að dæma sig til áhrifaleysis um eigin auðlindir og meginhagsmuni í nafni Evrópuhugsjónar, sem í upphafi snerist um að skapa varanlegan frið á milli Frakklands og Þýzkalands og nú snýst aðallega um viðskiptahagsmuni þessara tveggja landa.  Þessi Evrópuhugsjón er góð og gild, en okkur ber engin siðferðisleg skylda til að fórna einu né neinu fyrir hana.

Nú um stundir er téð Evrópuhugsjón í uppnámi.  Rígurinn yfir Rín er kominn í hámæli.  Tilraun Frakka til að draga úr efnahagsveldi Þýzkalands með því að þröngva Þjóðverjum til að fórna þýzka markinu fyrir endursameiningu Þýzkalands er dæmd til að snúast upp í niðurlægingu þeirra sjálfra.  Þýzkaland ræður nú þegar örlögum evrunnar, og Evrópusambandið hvílir á evrunni. 

Hið eina, sem bjargað getur evrunni í sinni núverandi mynd er myndun sambandsríkis Evrópu, en slíkt er borin von, sbr kosningarnar um stjórnarskrá ESB, sem sýndu miklar efasemdir um réttmæti og innihald hennar.  Síðan hefur tortryggni og úlfúð magnazt.  Það, sem er að gerast á evrusvæðinu núna, er einmitt það, sem Þjóðverjar óttuðust og sem þeir reyndu að girða fyrir með Maastricht-samninginum.  Hann dugði ekki, og Þjóðverjar ætla ekki að dæla fé í þá, sem hvorki hafa getu né vilja til að taka til í eigin ranni og fylgja agaðri hagstjórn í anda Prússanna við ána Spree.  Til að átta sig á, hvað baráttumenn fyrir varðeizlu ESB eru að fást við núna, ættu menn að lesa grein Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, í Morgunblaðinu 8. júlí 2011, sem kemur þar til dyranna, eins og hann er klæddur.

Doktorinn frá Englandi í kynlífi laxfiska, sem nú fyrir kaldhæðni örlaganna gegnir stöðu utanríkisráðherra Íslands án þess að geta það, er að halda inn á jarðsprengjusvæði.  Það er gert með samþykki og í fylgd fyrirbrigðis, sem kallar sig Vinstri hreyfinguna grænt framboð.  Innan tíðar verða flokkur doktorsins og þetta fyrirbrigði hreyfingarlaus á sviðinni jörðu.  Tilraunin með tæra vinstri stjórn á Íslandi mistókst hrapallega, enda gerir hún ekkert annað en að skemmta skrattanum.  

 

           

 

 

  

Þýzka herskiptið Berlín-174 m


"Hrafnaþing kolsvart í holti"

Tveir menn reyndust öðrum fremur verða örlagavaldar um farsæla og sjálfsagða afgreiðslu Icesave#3.  Er annar forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, en án hans tilstyrks hefði þjóðin ekki fengið tækifæri til að stöðva gæfusnauða vegferð vitstola stjórnvalda með auðsveipt þing í taumi, kolsvart hrafnaþing, eins og skáldmæringurinn, Jónas Hallgrímsson, kvað forðum.  

Hinn örlagavaldur málsins var ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson.  Hann hóf þegar í upphafi skelegga baráttu gegn lögunum um Icesave#3 , og atti þar kappi við ofurefli liðs og skoðanakannanir, sem bentu til, að valdastétt landsins hefði tekizt að sannfæra meirihluta landsmanna um, að skárst væri að samþykkja ófögnuðinn.  Með listfengi og meistaralegum stílbrögðum tókst Davíð fangbrögðum við réttrúnaðarfólk samfélagsins, sem með RÚV, Fréttablaðið, flesta aðra fjölmiðla , drjúgan hluta háskólasamfélagsins og aðila vinnumarkaðarins fór fram með hótunum, hálfkveðnum vísum, villandi upplýsingum og röngum ályktunum. 

Að sjálfsögðu lögðu fjölmargir mætir menn og konur hönd á plóginn, lögðu fram staðreyndir og vöktu máls á hinum augljósa undirlægjuhætti Já-sinna við Evrópusambandið, ESB, sem var allan tímann hinn raunverulegi andstæðingur í þessu máli.  Þess vegna er vegferð þessa máls jafnógæfuleg og raun ber vitni um.  Menn kunnu eki fótum sínum forráð í þjónkun sinni við hið erlenda vald. 

Ríkisstjórnin með Samfylkinguna í broddi fylkingar, ásamt öðrum áhangendum aðildar Íslands að ESB, vildu fórna hagsmunum íslenzkra skattborgara, íslenzks almennings á blótstalli ESB til að komast þar inn.  Með sigrinum 9. apríl 2011 tókst að hindra þetta og þar með vannst tvöfaldur sigur.  Draumur Össurar & Co. með Ísland inn í ESB er orðinn að martröð Samfylkingarinnar.  

Nú er sagt, að slíðra eigi sverðin.  Hvað lætur forsætisráðherra verða sitt fyrsta verk morguninn eftir niðurlægjandi ósigur sinn ?  Hún lýsir því yfir við erlenda fjölmiðla, að útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið sú versta, sem hugsazt gat.  Af þessu er aðeins hægt að draga þá ályktun, að núverandi forsætisráðherra er sá versti, sem hugsazt getur úr hópi hins kolsvarta hrafnaþings við Austurvöll.  Hún leikur tveimur skjöldum og vinnur hagsmunum Íslands meira ógagn en gagn.

Framganga fjármálaráðherra eftir sinn bitra ósigur var ekki því markinu brenndur að taka málstað andstæðinganna að þessu sinni.  Hann hóf sig yfir lágkúrulegan málflutning sinn fyrir kosningarnar og talaði nú máli þjóðar sinnar.  Þessa óvæntu stefnubreytingu má þó rekja til afar óeðlilegs atburðar, sem hann stóð fyrir sama daginn í eigin þingflokki.  Hann setti skákmeistarann Guðfríði Lilju út af sakramentinu með því að steypa henni af stóli þingflokksformanns vinstri-grænna fyrsta daginn hennar í vinnu eftir "barnsburðarleyfi".  Fruntaháttur fjára ríður ekki við einteyming.  Nú þynnist fjanda flokkur.

Sjálfstæðismenn gengu með klofinn skjöld til þessara kosninga, og höfðu sjálfstæðismenn, þversum, betur.  Ástæðan fyrir þessum klofningi var það feigðarflan forystu Sjálfstæðisflokksins að ganga í berhögg við stefnumörkun Sjálfstæðisflokksins á síðasta Landsfundi.  Þar var kveðið eins skýrt að orði og verða má um, að ekki skyldi undirgangast löglausar kröfur útlendinga.  Það er hulin ráðgáta, hvernig forystunni og sjálfstæðismönnum, langsum, datt í hug að hunza þessa samþykkt við atkvæðagreiðslu á hinu kolsvarta hrafnaþingi við Austurvöll.  Þeir verða sjálfir að útskýra þetta á réttum vettvangi, en vonandi verður ekki meira um slíka fingurbrjóta á næstunni. Formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur liðizt það að fara með stefnuskrá síns flokks, eins og brókina sína, enda er sú stefnuskrá reist á siðblindu, eignaupptöku og ófrelsi einstaklingsins á flestum sviðum, en þveröfugt á við um stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna gera sjálfstæðismenn háreistari kröfur til sinnar forystu. 

Einn er sá maður, sem ber höfuð og herðar yfir alla stjórnmálamenn landsins, en það er forseti lýðveldisins.  Hann boðaði til blaðamannafundar sunnudaginn 10. apríl 2011 að Bessastöðum.  Er skemmst frá því að segja, að hann fór þar á kostum.  Hann er augljóslega að blása til stórsóknar fyrir málstað Íslands á erlendri grundu.  Leikur ekki á tveimur tungum, að forsetinn fyllir upp í tómarúm ríkisstjórnarinnar á þessum vettvangi, en þar fara dæmalausar liðleskjur gagnvart útlendingum og undirlægjur gagnvart ESB.

Er ekki að efa, að forseti lýðveldisins á eftir að bregða bröndum, svo vígfimur sem hann er, og að vinna málstað Íslands fylgi á meðal lykilmanna.  Eins og Nei-sinnar (t.d. sjálfstæðismenn, þversum) þreyttust ekki á að benda á, er góður jarðvegur nú fyrir þennan málflutning í heiminum, ekki í sízt í Evrópu, þar sem sú stefna ESB og ECB (Evrópubankans) að bjarga lánadrottnum veikra banka og veikra ríkja er að bíða skipbrot.  Nú er Portúgal komið í gapastokkinn, og er þá Spánn næstur, en þá munu Þjóðverjar stöðva þetta óheillaferli, því að ekki er stuðningur á meðal þýzkra kjósenda við slík risaútlát í björgunarsjóð ESB, sem Spánn mun útheimta.  Gengi evrunnar mun þá falla, þrátt fyrir hækkandi vexti þar á bæ.  Allsvakalega mun þá hrikta í stoðum Evrópusamstarfsins, og verður það mikið gjörningaveður.  Verður þá smáþjóð affarasælla að standa til hlés. 

Þannig fer, þegar stjórnmálamenn fara af stað með sín stóru og illa ígrunduðu verkefni, sem eru í blóra við lögmál hagfræðinnar, jafnvel náttúrulögmál og heilbrigða skynsemi.  Þetta var einmitt upphaf evrunnar, stjórnmálagjörningur að undirlagi Frakka til að losna undan ægishjálmi þýzka marksins.  Nú standa þeir í skugga Þjóðverja, sem eru að ná aðstöðu til að deila og drottna í Evrópu í krafti eigin dugnaðar.        

 

  

 

      


Orð eru dýr

Í nauðvörn ringulreiðar eftir Hrun lýstu ráðherrar í ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde yfir vilja til samninga um bætur úr ríkissjóði Íslands til innlánseigenda Icesave til að tryggja þeim EUR 20000 í hlut.  Síðar var dregið í land og lýst yfir, að ekki væri um skuldbindingu að hálfu íslenzka ríkisins að ræða.

Mikill tími hefur farið í samningaviðræður, svo að ríkisstjórn landsins hefur staðið við upphafleg orð Geirsstjórnarinnar um vilja til samninga.  Því var hins vegar aldrei lofað að semja skilyrðislaust, enda var um algera afarkosti að ræða, sem landsmenn aldrei hefðu getað staðið undir með góðu móti.    Hörmungarframmistaða fulltrúa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er öllum kunn, enda verður ekki lægra lotið. 

Það var ekki fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn kom að samningunum eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. marz 2010, þar sem algjöru vantrausti var lýst á ríkisstjórn norrænnar helreiðar, að eitthvert vit varð í þeim.  Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skipaði hæfan og mætan lögmann, sem á opinberum vettvangi hafði, ásamt lagaprófessor við Háskóla Íslands, verið rödd heilbrigðrar skynsemi og góðrar lögfræði í umræðum um hörmungina, sem ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri-grænna tróð gegnum þingið og ætlaði að reka með valdi ofan í kok þjóðarinnar.  

Engu að síður er niðurstaðan enn ósamþykkjanleg fyrir skattborgara þessa lands.  Vaxtagreiðslur og afborganir á bilinu 50-250 milljarðar ofan á núverandi skuldasúpu ríkissjóðs getur hæglega riðið honum að fullu.  Það yrði reiðarslag, efnahagsáfall og mikill álitshnekkir fyrir Íslendinga, ef ríkissjóður þeirra kæmist í greiðsluþrot.  Slíkt mundi þýða torfengin og dýr lán frá útlöndum vegna tortryggni lánadrottna í áratug á eftir.  Þetta mundi leiða til hækkunar vaxta og ládeyðu í hagkerfinu, jafnvel samdráttar og þar af leiðandi rýrnandi kaupmáttar ár eftir ár.  Hagkerfið yrði fársjúkt, eins og í alþýðulýðveldi, nema vaxandi atvinnuleysi og landflótti mundi engum dyljast. Á þetta er engan veginn hættandi.  Líkindi á lögsókn að hálfu Breta og Hollendinga eru minni en 50 %, og lakari útkoma en samningunum nemur vart hugsanleg.  Slíkt yrði saga til næsta bæjar og einsdæmi í sögunni á friðartímum.   Hvers vegna hafa þeir ekki farið þá leið enn ?  Staðan er einfaldlega þannig, að lög standa ekki að baki kröfunni, og efnahagsástand Íslands er með þeim hætti eftir Hrun nánast alls fjármálakerfis landsins, að landið getur ekki bætt á sig meiri erlendum skuldbindingum.  Þetta er nauðvörn. 

Þar að auki brýtur það gegn Stjórnlögum landsins að skuldbinda ríkissjóð fyrir óvissri upphæð, eins og prófessor emerítus, Sigurður Líndal, hefur bent á.  Þennan samning, sem reistur er á löglausum kröfum Breta og Hollendinga, má af efnahagslegum, lögfræðilegum, sanngirnis- og stjórnmálalegum ástæðum alls ekki samþykkja.  Við slíkt hæfist útstreymi úr gjaldeyrisvarasjóðinum, sem leiða mun til enn meira falls krónunnar, ef að líkum lætur, sem leitt getur til óðaverðbólgu, eins og í Weimarlýðveldinu, og langrar frestunar á afnámi gjaldeyrishaftanna.  Allt mundi þetta leiða til þess, að þjóðin drægist mjög afur úr öðrum vestrænum þjóðum í lífskjörum.

Líta má svo á, að örlög Icesave-málsins séu enn hjá þjóðinni.  Það eru grundvallarmannréttindi að fá að tjá sig í leynilegum kosningum um svo miklar álögur, sem hér er um að tefla, og um svo örlagaríkt mál.  Gildir þá einu, hversu stór meirihluti á Alþingi verður fyrir málinu.  Vegna stefnumarkandi afstöðu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins er þingmönnum flokksins ekki stætt á að veita þessu máli brautargengi.  Fylgismenn samningsins, sem er miklu betri en þeir fyrri, eiga að sitja hjá, en þingflokkurinn ætti að sameinast um kröfuna um þjóðaratkvæði.  Annað yrði stjórnmálalegt glapræði.

Hér skal fullyrða, að engin þjóð í Evrópu léti bjóða sér aðra eins afarkosti ótilneydd og að greiða í erlendum gjaldeyri til útlanda vegna falls einkabanka USD 1360 - USD 7000 á hvert mannsbarn.  Þetta er þó það, sem Íslendingum er boðið upp á þessa dagana.  Þeir eiga að halda sig við lagalegan rétt sinn og hina íslenzku leið, sem er fólgin í því að hafna hengingaról um háls skattborgara til stuðnings fjármálakerfis í einkaeigu, umfram það, sem rétt stofnaður tryggingasjóður annar.

 

 D2409TQ37

 

 

Í ríkisstjórn Jóhönnu er umhverfisráðherra, sem hraut ofan á skýrsluhaugum í ráðuneyti sínu um díoxín útblástur ofan leyfilegra marka frá sorpeyðingarstðvum í landinu.  Sami ráðherra hefur staðið fyrir eitrunarherferðum á hendur gróðri, en eitrið endar skiljanlega að lokum ofan í fólki.  Allt er þetta óafturkræft, sem í fólk kemst, því að eitrið festist í vefjum líkamans.  Svandís Svavarsdóttir rumskaði ekki fyrr en díoxínmálið komst í hámæli.  Fyrir stórfellda vanrækslu í starfi ber þess vegna þinginu að ákæra hana og senda hana fyrir Landsdóm fyrir vikið.

Málsmeðferð þessa dæmalausa ráðherra ber merki siðblindu ráðstjórnar, og hún er löglaus.  Ráðherrann hefur á öllum stigum þvælzt fyrir staðfestingu á skipulagi Flóahrepps og haldið honum í gíslingu eigin stjórnmálakredda í tvö ár.  Skipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps hefur af sömu ástæðum verið í uppnámi.  Um hag almennings skeytir ráðherrann engu.  Hún er í stjórnmálum til að vinna þröngsýnum sjónarmiðum ofstækis brautargengi, þó að slíkt jafngildi skemmdarverkastarfsemi á hagkerfi landsins.

Áðfarir hennar voru löglausar dæmdar í héraði, en ráðherrann hékk eins og hundur á roði á ógildingu skipulagsins með þeim öfugsnúnu ráðstjórnarrökum, að fyrirtækjum væri ekki í lögum leyft að greiða fyrir vinnu vegna undirbúnings mikilla framkvæmda í litlum sveitarfélögum.  Það er ekki heil brú í þessum ráðherra, enda var úrskurður Héraðsdóms nú í viku 6/2011 staðfestur af Hæstarétti.  Orðhengilsháttur, mismunun og hrein valdníðsla þessa afturhaldsstjórnmálamanns hefur valdið íbúm Flóahrepps miklu tjóni og kann vel að hafa tafið viðreisn hagkerfis landsins, því að málið snerist um Urriðafossvirkjun og þar með allar virkjanirnar í Neðri-Þjórsá.  Díoxínráðherrann fékk á snúðinn, en eins og vænta mátti er siðblinda ráðstjórnarinnar og valdagræðgi næg til að spýja yfir landslýð orðhengilshætti og algerum þvættingi í kjölfar Hæstaréttardóms, sem á að réttlæta áframhaldandi setu í ráðherrastóli.  Þessi ráðherra er óhæfur til að gegna hlutverki handhafa framkvæmdavalds í lýðræðisríki.   

  

  

 

falkinn1_444247


Asni klyfjaður gulli

Evrópusambandið (ESB) hefur nú verið þanið yfir alla Evrópu allt austur að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu. Enginn veit, hvernig ESB mun þróast, enda er það í skipulagslegum og fjárhagslegum ólgusjó sundurlyndis, en hitt er þó vitað, að róið er að því öllum árum í Þýzkalandi og í Frakklandi að þróa það, a.m.k. evrusvæðið, í átt að sambandsríki með ein fjárlög að baki evrunni.  Sambandi ríkjanna yrði þá háttað með svipuðum hætti og tíðkast innan Sambandsríkisins Þýzkalands. Í Sambandsríkinu tíðkast ekki neitunarvald. Þetta sjónarmið er skiljanlegt að hálfu meginlandsríkja, en hagsmunir smáríkis með ráð yfir gríðarlegu hafsvæði í Norður-Evrópu fara ekki saman við hagsmuni meginlandsins.

Nú hefur þetta verðandi stórríki litið til norðurs.  Þar eru feikna hafflæmi og mikil auðævi í hafi og undir hafsbotni, og menn vænta vaxandi siglinga, þar sem nú er heimskautsís. Síðasta sókn ESB til norðurs stöðvaðist árið 1994, þegar norska þjóðin felldi aðildarskilmála, sem Stórþingið þó var hliðhollt. Í kjölfarið (1995) var aðlögunarferli innleitt fyrir umsækjendur, og felast samningaviðræður síðan í að aðlaga stjórnkerfi umsóknarríkis að ESB-kerfinu.

Eftir hrun fjármálakerfisins, þar sem íslenzkir ævintýramenn léku ótrúleg hlutverk, lítur ríkjasamband í vanda til norðvesturs og ætlar sér að gleypa smáríki í einum munnbita og gera olíuríkinu Noregi tilveruna þungbæra utan við. Forkólfar ESB vita sem er, að lítið er um varnir á Íslandi um þessar mundir og hagsmunagæzla fyrir hönd landsmanna öll í skötulíki. Ríkisstjórn landsins er siðlítil og þröngsýn, og ekki reiðir hún vitið í þverpokum.   

Samfylkingin þvingaði með offorsi fram heimild Alþingis til umsóknar um aðild að ESB 16.07.2009.  Þessa heimild notuðu forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann síðan til að semja eitthvert ómerkilegasta plagg, sem sézt hefur í Íslandssögunni.  Það var svo einfeldningslegt, snubbótt og skilyrðalaust, að hefði ráðherraráðið einfaldlega svarað með jái á þeim grundvelli, að Ísland væri þegar í EES, þá hefðu Íslendingar orðið aðilar strax.  Svona fortakslaus fleðulæti sýndu forkólfar Samfylkingar væntanlegu stórveldi í júlí 2009. Verður það talið á meðal verstu glappaskota lýðveldisins. 

Fyrir löngu er komið í ljós, að þessi gösslaragangur mun valda okkur stórtjóni.  Ríkisstjórnin er klofin í málinu, og minnihluti á þjóðþinginu styður nú umsóknarferli, sem hefur tekið allt aðra stefnu en lagt var upp með 16. júlí 2009.  Þjóðin kærir sig ekki um að verða útnári stórríkis Evrópu, svipt forræði yfir eigin lögsögu og áhrifalaus við ákvarðanir um eigin hagsmuni eða stefnumótun stórríkis um hermál og hvaðeina.  Sviksemi og blekkingaleikur einkenna þetta umsóknarferli, sem lagt var upp með sem könnun á, hvað byðist. Verður þetta talin ein versta lágkúra Íslandssögunnar.

Furstar ESB láta ekki að sér hæða, heldur ætla þeir að brjóta andstöðu þjóðarinnar á bak aftur með því að bera fé á landsmenn.  Stofna á skrifstofu að hálfu ríkisins til að taka við fénu og dreifa því til upplýsingaherferðar og aðlögunar hins opinbera að reglum og hefðum skrifræðisbáknsins í Brüssel og annars staðar á snærum ESB. 

Það er ljóst, að ríkisstjórn, sem samþykkir þvílíkt löngu áður en samningaviðræðurnar eru leiddar til lykta, hefur glatað sómatilfinningu sinni.  Ríkisstjórnin í Reykjavík, ringluð, vingulsleg og sem í vímu, virðist vera herfilega misnotuð af biskupinum, stækkunarstjóranum í Brüssel.  Nú á við að taka sér í munn orð Oddaverjans, Jóns Loftssonar, um gagnrýni Niðaróssbiskups á líferni höfðingja 12. aldar Íslands: "Heyra má ek erkibiskups boðskap, en ráðinn em ek í að hafa hann að engu." 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, dagsettu 27.08.2010, er utanríkisráðherranum, Össuri Skarphéðinssyni, líkt við prest, sem heldur minningarræðu yfir ættingjum og vinum hins framliðna án þess að hafa hirt um að kynna sér æviferil viðkomandi.  Þessi samlíking varpar ágætu ljósi á þekkingarleysi og óraunsæi skötuhjúanna Jóhönnu, sem er ólæs á regluverk ESB, og Össurar, sem talar sem trúmaður með glýju í augum, blindaður af trú sinni. 

Við ofangreinda líkingu höfundar Reykjavíkurbréfs má bæta við sögu, sannri.  Ættingjar hlýddu á minningarræðu prests nokkurs um framliðna frænku sína.  Þar kom ræðunni, að viðstaddir litu hver á annan í undrun yfir því, sem þeir heyrðu.  Að ræðunni lokinni stungu þeir saman nefjum um innihaldið, en enginn kannaðist við að hafa gaukað fram komnum upplýsingum að presti.  Afréðu þau loks að spyrja prestinn, hver hefði verið heimildarmaður hans um tiltekið efni.  "Elskurnar mínar, ég þurfti engan slíkan heimildarmann.  Ég var í beinu sambandi við þá framliðnu." 

Össur Skarphéðinsson er í hlutverki þessa prests gagnvart þjóðinni, þegar hann lýsir fyrir henni ESB og aðildarviðræðunum. Hann heldur því fram, að unnt sé að sveigja ESB til að hleypa Íslendingum inn með alls kyns undanþágur frá sáttmálum og lögum ESB. 

Við skulum gefa okkur, að ESB sé svo mikið í mun að ná Íslandi inn, að þeir samþykki t.d. óskertan yfirráðarétt Íslendinga yfir fiskveiðilögsögunni.  Þá mun sannast, að allt orkar tvímælis, þá gert er.  Ágreiningur, sem einhver fiskveiðiþjóðin mun gera við Íslendinga vegna veiða innan íslenzku lögsögunnar, verður lagður fyrir Evrópudómstólinn.  Fordæmi sýna, að hann ógildir hiklaust samninga, ef þeir stríða gegn grundvallarreglum ESB.  Þannig er ljóst, að áhættan við inngöngu er allt of mikil til að taka hana.  

Sumir tala um, að þeir vilji taka "upplýsta ákvörðun" um það, hvort Ísland gangi í ESB eða haldi áfram fullveldi sínu með kostum þess og göllum.  Til að unnt verði að taka þess konar ákvörðun, verði að ljúka vegferð þeirri, sem téð skötuhjú hófu í júlí árið 2009.  Þetta fólk gengur að því sem vísu, að allar nauðsynlegar upplýsingar verði þá fyrir hendi til að taka rétta ákvörðun.  Í raunveruleikanum er þetta aldrei svo.  Einhver áhætta fylgir öllum ákvörðunum, og var tilgreint dæmi um eina slíka hér að ofan, þar sem eru úrskurðir Evrópudómstólsins.

Þessu aðildarmáli fylgir gífurleg áhætta, því að afleiðingar aðildar fyrir hag landsmanna geta orðið hrapallegar.  Það er rétt, að við eigum ríkra hagsmuna að gæta í Evrópu.  Hins vegar hefur sambandið við Evrópu verið ærið stormasamt.  Hefur t.d. verið deilt um þorsk, skuldbindingar íslenzka ríkisins vegna fallins einkabanka og nú síðast makríl.  Síðast nefnda deiluefnið er afar lærdómsríkt.  Breytingar í hafinu hafa leitt til mikilla makrílgangna inn í íslenzku lögsöguna.  Sem fullvalda þjóð getum við nýtt þessa nýju tegund að vild innan lögsögunnar.  Jafnljóst er, að ESB vill meina okkur það og mundi vafalaust neyta aflsmunar, ef Ísland væri innan "Festung Europa".  

Það má nærri geta, að við hrossakaup innan ESB yrðu hagsmunir smáþjóðar úti í reginhafi að láta í minni pokann gagnvart ofurefli fjölmennis í auðlindanauð.  Hin rökrétta ályktun er sú, að umsóknin sé leikur að eldi, hún hafi í för með sér sóun mikilla fjármuna og tímasóun í stjórnkerfi ríkisins. Síðast en ekki sízt rýrir umsóknin trúverðugleika landsmanna erlendis, þar sem hugur fylgdi í raun aldrei máli, og viðsemjendum okkar mun finnast þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum, því að um aðild að ESB sækja einvörðungu þeir, sem tilbúnir eru til að taka upp lög og reglur sambandsins í heild sinni á ákveðnu árabili.  Aukaaðild er ekki til.   

thid_erud_einangradir_ofgamenn586px         


Ölmusuþegar

Nú hefur verið boðað, að styttast muni í svo nefnda aðlögunarstyrki frá ESB til Íslands.  Sannast þar, hvað haldið hefur verið fram, að Ísland er í boði ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri grænna að hefja aðlögunarferli fyrir fulla Evrópusambandsaðild.  Evrópusambandið hefur breytzt frá því Noregur stóð í samningaþrefi við ESB 1972 og 1994.  Nú göngum við inn í ferli, sem sniðið var fyrir Austur-Evrópu.  Umsóknarlandið getur fengið mislangan aðlögunartíma, en það verður að innleiða öll lög og tilskipanir ESB á endanum.  Allt hjal um eitthvað annað er rándýr og stórhættulegur loddaraleikur ábyrgðarlausra manna.   

Til þess fær umsóknarlandið fjárhagsstyrk frá ESB, og það er hægt að taka undir það með Ögmundi Jónassyni, Alþingismanni, að þetta er alveg sérstaklega ógeðfelld tilhugsun

Æ sér gjöf til gjalda segir hið forna máltæki, og þetta er sérlega varasamt í ljósi þess, að flest bendir til, að umsóknarferli þetta verði stöðvað af Alþingi áður en því lýkur, og vonandi áður en það kemst á fullt skrið.  Alþingi mun síðan óska eftir beinum úrskurði þjóðarinnar til að fá þennan dæmalausa tvístíganda endanlega út úr heiminum. Það verður líka nauðsynlegt til að taka af allan vafa gagnvart útlendingum um afstöðu landsmanna.  Hinn kratíski draugur verður niður kveðinn.   

Um þessa stefnumörkun tók Landsfundur Sjálfstæðisflokksins af skarið í júní 2010.  Á hann heiður skilinn fyrir skelegga ályktun.  Enginn getur lengur vænt Sjálfstæðisflokkinn um að bera kápuna á báðum öxlum í mesta sjálfstæðismáli vorra tíma.  Afstaða Landsfundar var fullkomlega rökrétt, því að annaðhvort eru menn fylgjandi inngöngu eða ekki.  Sjálfstæðisflokkinum verður ekki beitt fyrir ESB-vagninn. 

Það er blekking eða barnaleg fáfræði um eðli ESB, að Ísland geti annað hvort samið um varanlega sérstöðu innan ESB eða sveigt stefnu ESB þangað, sem okkur hentar.  Allt slíkt er fullkomið óráðshjal, og þeir, sem gera sig seka um slíkan málflutning, dæma sig sjálfir (úr leik). Landsfundur sendi jafnframt gullgrísum á meðal trúnaðarmanna flokksins einörð skilaboð að hætti Rangæinga.  Ef hinir fyrr nefndu sjá ekki skriftina á veggnum núna, eru þeir stjórnmálalega ólæsir.  Slíkir eru flokkinum byrði og valda því, að sókn hans er ekki hraðari en raun ber vitni um.   

Herðubreið sumarið 2009Merki Sjálfstæðisflokksins

 Nú hefur verið birt ný skoðana-

könnun um afstöðu Íslendinga til aðildar að ESB.  Svo virðist sem fjórðungur þjóðarinnar sé enn fylgjandi aðild.  Ef og þegar menn sjá inngönguskilmálana svarta á hvítu, mun saxast verulega utan af þessum fjórðungi, og e.t.v. mun hann verða 15 %.  Rímar það nokkurn veginn við hefðbundið kratafylgi í landinu. 

Það er hópur í landinu þeirrar skoðunar, að bezt henti landinu að vera í ríkjasambandi.  Hann hefur fullan rétt til þeirrar skoðunar, og við sum asnaspörk stjórnvalda getur einmitt hvarflað að fólki, að e.t.v. gæti ákvarðanataka ekki orðið verri fjarri fósturlandsins ströndum. 

Ekkert land í Evrópu, og þó að víðar væri leitað, hefur hins vegar tekið jafnmiklum stakkaskiptum frá 1904, er Ísland fékk heimastjórn, og land vort.  Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að þeir sem börðust fyrir afnámi ríkjasambandsins við Danmörku, af því að þannig yrði hagsmunum landsmanna bezt borgið, höfðu á réttu að standa, en hinir máttu lúta í gras. 

Hrunið 2008 breytir engu um þá heildarmynd.  Ef kraftur einkaframtaksins verður virkjaður á ný, og erlendum fjárfestum skapað traust umhverfi í öllu tilliti (þar veltur á ýmsu), þá mun íslenzka hagkerfið ná sér á strik á tveimur árum með blússandi hagvexti og nægri atvinnu.  Að öðrum kosti verður hér fjöldi manns í fátæktarfjötrum á framfæri hins opinbera.  Það eru ær og kýr krata að þenja báknið út.  Báknið getur hæglega orðið okkur ofviða, ef erlendar skuldir verða ekki greiddar hratt niður, og þá verðum við öll ölmusufólk. 

Við öll vatnaskil í sjálfstæðismálum landsins hefur verið á kreiki hópur efasemdarmanna um aukið sjálfstæði.  Árið 1943 voru kratar andvígir lýðveldisstofnun árið eftir.  Árið 1918 voru þeirra tíma kratar andvígir fullveldistökunni með sambandsslitum við Dani (aðeins konungur og utanríkismál urðu sameiginleg).  Mjótt var á munum árið 1903 varðandi heimastjórn eða ráðherra í Danmörku árið eftir.  Þannig má áfram telja.  Alltaf hafa úrtölumenn gert lítið úr getu þjóðarinnar til að rísa undir auknu sjálfræði um eigin mál.  Nú telja þeir sig hafa himin höndum tekið og ætla að snúa þróuninni við með því að færa okkur aftur inn í ríkjasamband.  Öfugmælavísur kveða þeir margar, en sú er sýnu verst, er kveður svo á um, að hollast sé smáþjóð að deila fullveldi sínu með stórþjóðum og öðrum. 

Þessum minnihluta landsmanna, sem nú njóta forystu litla, ljóta eldfjallsins, svo að lagt sé út af orðum ESA-forsprakkans, sem hér var um daginn, mun ekki verða kápan úr því klæðinu.  Þeir munu verða gerðir afturreka með það allt saman og einangraðir í stjórnmálum.  Þeir hafa sýnt sitt rétta andlit, og það er svo ófrýnilegt, að það á ekkert erindi í stjórnarráði landsins.  Fimmta herdeildin var nefnd í því sambandi, og vinstri-grænir hafa leitt hana til öndvegis á Íslandi.  Mikil er skömm þeirra og mun uppi verða á meðan sú flokksómynd er við lýði.  

Vinstri hreyfingin grænt framboð er þess vegna algerlega ótrúverðug, þegar kemur að varðstöðu um sjálfstæði landsins.  Hún selur það, sem talið var vera henni kærast, fyrir baunadisk.

Núverandi ríkisstjórn er örverpi (bastarður), sem virðist ekki njóta óskoraðs þingmeirihluta, heldur lafa á ótta ráðstjórnarinnar við að missa völdin.  Nú fjarar hratt undan ríkisstjórninni, og um þessar mundir er fylgið um 2/5.  Stjórnarandstaðan á þingi verður nú að girða sig í brók og taka höndum saman við samtök launþega og vinnuveitenda og losa þjóðina við þessa óværu fyrir veturnætur.  Annars verður hún vart á vetur setjandi.        

 

  

  


Stórveldi leitar hófanna

Þann 9. júní 2010 varð allnokkur opinber atburður, kyrfilega sviðsettur.  Fulltrúi í stjórnmálaráði miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins var hér með 80 manna fylgd í boði utanríkisráðherra Íslands.  Hinn þurftarfreki gamli Trotzky-isti skrifaði undir gjaldeyrisskiptasamning fyrir hönd Seðlabanka Íslands við seðlabanka Kína.  Óvíst er, hvaða ávinningur er fólginn í þessum samningi fyrir Ísland, en hins vegar er ljóst, að slíkur samningur getur orðið forleikur að lánalínu og lántökum.

Þá skrifaði hinn nýi forstjóri Landsvirkjunar undir viljayfirlýsingu um fjármögnun Búðarhálsvirkjunar gegn því, að kínverskt verktakafyrirtæki, CWE, öðlist forgang að verkefninu. 

Þessum gjörningi hefur verið leikstýrt út iðnaðarráðuneytinu, en dáðleysi og ákvarðanafælni hafa einkennt feril ráðherra Samfylkingarinnar, sem þar situr nú að völdum.  Nú gæti hins vegar svo farið, að hún skildi eftir sig sviðna jörð.  

Óþarfi er að taka fram, að gjörningar af þessu tagi eru óhugsandi alls staðar annars staðar innan "Festung Europa" eða á Innri markaði Evrópu. 

Ljóst er, að Kínverjar hafa gert langtíma áætlun um að öðlast ítök á Íslandi.    Kínverskir stjórnmálamenn og embættismenn hugsa ekki í kjörtímabilum, heldur í mannsöldrum.  Utanríkisstefna Kínverja er heimsvaldastefna í þeim skilningi, að þeir leggja áherzlu á að ná tökum á auðlindum jarðar, vinna þær úr jörðu eða framleiða landbúnaðarvörur og senda hráefni til Kína til frekari úrvinnslu.  Þessi hegðun þeirra er afar áberandi í Afríku, þar sem þeir hafa t.d. keypt mikið land til námugraftrar og landbúnaðar, en þeir láta líka að sér kveða í Suður-Ameríku.  Nú stunda 40 % íbúa Rauða-Kína landbúnaðarstörf, en áætlað er að þeim fækki í 24 % á næstu 10 árum.  Framleiðni er lág, og Kínverjar óttast matvælaskort, sem gæti valdið miklum innanlandsóróa.

 Vinnuafl í Kína

 

 

 

Hvað fyrir þeim vakir hérlendis, er ekki ljóst.  Langtíma markmiðið kann að vera að ná tökum á matvælaframleiðslu landsins, en til skemmri tíma beinist áhuginn að orkulindunum og nýtingu þeirra.  Í þessu sambandi er vert að minnast, að siglingaleiðin á milli Íslands og Kína mun styttast umtalsvert, þegar norðurleiðin opnast, sem talið er muni verða á þessum áratug.  Aðgengi að auðlindum á sjávarbotni, iðnvæðing Íslands og tenging Íslands við markaði ESB kunna og að vekja áhuga þeirra.

 

budarhals_landsnet

 

 

Viljayfirlýsingin, sem hinn nýbakaði forstjóri Landsvirkjunar undirritaði, er með algerum ólíkindum og fullkomin fásinna.  Yfirlýsingin hlýtur að hafa verið samþykkt af stjórn Landsvirkjunar og er þar með á ábyrgð iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, sem Samfylkingin ber stjórnmálalega ábyrgð á.  Þessum ráðherra virðist engan veginn vera sjálfrátt og ómögulegt að sjá, hvaða erindi hún á í ráðherrastól, jafngagnslítil og hún hefur reynzt.  Afskipti Samfylkingarinnar af orku-og iðnaðarmálum landsins eru ein samfelld hrakfallasaga.  Er skemmst að minnast fáránlegs úrskurðar Þórunnar Sveinbjarnardóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, um sameiginlegt umhverfismat allra tengdra framkvæmda álveri Alcoa á Bakka við Húsavík.  Hefði sá biðleikur ekki verið leikinn, væri öðru vísi umhorfs á atvinnumarkaðinum á Íslandi nú um stundir, og um 100 milljarðar króna í vændum í auknum útflutningstekjum.  Dýrir ætla sameignarsinnarnir í Stjórnarráðinu að verða landsmönnum, og mun hið fyrra hrunið verða barnaleikur hjá sjálfskaparvítum vinstri flokkanna við völd.   

Þetta síðasta útspil Samfylkingarinnar í orkumálum tekur þó út yfir allan þjófabálk.  Verkalýðshreyfingin (ASÍ)hefur fordæmt verknaðinn, og skal taka heils hugar undir þá fordæmingu.  Segja má, að betra er heima setið en af stað farið, ef virkja á með kínversku vinnuafli á meðan yfir 20 þúsund Íslendingar hafa ekki vinnu við hæfi.  Kínverja má ekki ráða hér til vinnu, ef vinnuafl fæst á Innri markaðinum.  Þetta er "Festung Europa".

Kínverjar unnu hér við Kárahnjúkavirkjun og ber ekki að vanþakka framlag þeirra þar, en þá ríkti efnahagsþensla, og ekki fékkst nægt vinnuafl á Innri markaði EES.  Þetta er ófrávíkjanleg forgangsregla hins Innra markaðar og með algerum ólíkindum, að ríkisstjórnin hætti nú á hörð viðbrögð frá Evrópu og víðar, þegar okkur ríður á að bæta samskiptin við þessar þjóðir án þess að leggjast þó í duftið og sleikja skósóla "Brüssel-búrókrata", eins og utanríkisráðherra er tamt.   

Það verður ekki á Samfylkinguna logið.  Ísland er innan "Festung Europa" með kostum þess og göllum, og ESB mun ekki líða það, að kínverskt vinnuafl njóti réttinda til vinnu á Íslandi umfram vinnuafl á innri markaði EES.  Þegar horft er til þess með hvaða hætti þessi forréttindi skapast, er ljóst, að gjörningurinn er þar að auki brot á samkeppnireglum Innri markaðarins, þar sem einu fyrirtæki er keyptur aðgangur að verki með lánveitingu eða fjármögnun hins opinbera í viðkomandi landi (Kína) til verkkaupans. 

Hér er satt að segja um alveg glórulausan gjörning að ræða og heimskulegan í alla staði.  Gjörningurinn, sem viljayfirlýsingin fjallar um, stenzt ekki einfaldasta próf á sviði tilskipana og laga ESB að ekki sé nú minnzt á íslenzk lög og reglur. 

Téð viljayfirlýsing er svo vitlaus, að með ólíkindum er, að nokkur hérlandsmaður skyldi ljá nafn sitt við hana.  Hún mun þar að auki skaða okkur erlendis, bæði vestan hafs og austan, þar sem menn gjalda mikinn varhuga við ásókn kínverska stórveldisins. 

Íslenzka ríkisstjórnin er hins vegar þeirrar gerðar um þessar mundir, að hún telur sér alla viðhlæjendur vini.  Allt vitnar þetta mál um ótrúlega skammsýni, þekkingarleysi og dómgreindarleysi, þ.e. óhæfni vinstri stjórnarinnar og trúnaðarmanna hennar.  Kostnaðurinn af afglöpum, úrræðaleysi og fordómum vinstri stjórnarinnar er svo hár, að þjóðin hefur ekki lengur efni á, að hún hangi hálfdauð við völd. 

        


Fordæmanleg utanríkisstefna

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar vitnar um kálfslegt eðli.  Óvarlegt er að hyggja alla viðhlæjendur vini.  Betur hefði Alþingi samþykkt þann 16. júlí 2009 að veita þjóðinni kost á að tjá sig beint um jafnafdrifaríka stefnumörkun og umsókn að Evrópusambandinu, ESB, er.  Þá hefði að öllum líkindum verið forðað stórslysi, sem nú er í uppsiglingu. 

Samfylkingin, með alla sína grunnristu hlöðukálfa, hélt því fram, að umsókn jafngilti ósk um könnunarviðræður.  Nú er komið í ljós, það sem andstæðingar aðildarumsóknar vöruðu við, að hér er í raun um aðlögunarferli umsækjenda að ræða.  Ríkisstjórnin er þar með búin að skrifa upp á víxil, sem enginn samþykkjandi er að.  Þetta er lítilsvirðing við lýðræðislega stjórnarhætti, ábyrgðarleysi gagnvart íslenzku þjóðinni, og viðsemjendurnir eru hafðir að fíflum.  Ríkisstjórnin er hagsmunum þjóðarinnar hættuleg.

Það nær engri átt að halda þessu ferli áfram.  Vinstri stjórnin hefur hvorki þrek né vilja til að játa mistök sín.  Eitt fyrsta verk nýs Alþingis verður að stöðva vitleysuna á þeim grundvelli, að þetta hafi verið kosningamál, eða að fresta umsóknarferlinu fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Umsóknin mun e.t.v. kosta um 3 milljarða króna, þegar upp verður staðið, og tekur mikinn kraft úr stjórnkerfi, sem er veikburða í samanburði við önnur lönd og embættisbákn ESB.  Í ljósi þess, að umsóknin er andvana fædd, er hún forkastanleg sóun almannafjár, rekin á erlendum lánum við háum vöxtum.  Á tímum stórfelldrar erlendrar skuldasöfnunar ríkissjóðs eru þessi útgjöld óverjanleg.  Vinstri stjórnin mun verða að gjalti, ef hún lifir það að ljúka viðræðum, því að uppkastið mun verða kolfellt bæði af þingi og þjóð.  Verst er, að þetta mun bitna á orðstýr íslenzku þjóðarinnar í Evrópu, þegar það kemst í hámæli, hvers konar loddara hún hefur valið til valda. 

Aðalröksemd aðdáenda og smjaðrara fyrir ESB fyrir aðild Íslands var, að þá mundu gjaldmiðilsmálin verða leyst í eitt skipti fyrir öll.  Flestum er þó að verða ljóst, að með upptöku evru færu landsmenn úr öskunni í eldinn.  Evran virkar sem óþolandi spennitreyja á öll lönd, nema hinar framleiðsluknúnu germönsku þjóðir Mið-Evrópu.  Allsherjarverkföll og blóðsúthellingar eru hafin í Grikklandi, af því að ráðin hafa í raun verið tekin af grísku ríkisstjórninni.  AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) setti sína menn í grísku ráðuneytin, þannig að niðurlæging Grikklands er algjör.  Er þetta langversta ástand Grikklands frá því að Wehrmacht hertók Grikkland 1941 skömmu fyrir "Operation Barbarossa" eða "Aðgerð rauðskegg" eftir að Grikkir höfðu með hetjuskap hrakið her Mússólínis af höndum sér.  Þessir atburðir töfðu innrás Þjóðverja í Rússland, svo að hetjuleg vörn Grikkja kann að hafa reynzt örlagarík. 

Evrópa 1945Um þessar mundir minnast menn þess, að 65 ár eru frá lokum hildarleiksins mikla í Evrópu, þó að enn geisaði styrjöld í Asíu.  Á þessum tímamótum refsuðu kjósendur í Nordrhein-Westphalen ríkisstjórninni í Berlín fyrir að samþykkja flutning á fjármunum þýzkra skattborgara í grísku hítina.  Hér er um að ræða um EUR 10 Mia í fyrsta áfanga, sem þýzkur almenningur telur vera hreina sóun á skattfé sínu, enda sé gríska ríkissjóðinum ekki við bjargandi.  Allt bendir til, að þetta sé rétt mat Þjóðverja og að ríkisgjaldþrot blasi nú við Grikkjum.  Hver evra þangað er töpuð evra. Tilburðir til að forða ríkisgjaldþrotum Miðjarðarhafslandanna, sem eru ósamkeppnishæf á erlendum mörkuðum með evruna, af því að þau hafa ekki tekið til í sínum ranni, munu verða dýrkeyptir og hagvaxtarhindrandi í Evrópu. 

Gjaldþrot eins evrulands mun hins vegar hafa keðjuverkandi áhrif og Suður-Evrópa mun öll falla í valinn á endanum.  Afleiðingin verður hrun evrunnar og líklega mun hún líða undir lok.  Þetta mun lama ESB, en gömlu þjóðarmyntirnar munu líta dagsins ljós að nýju.  Ekkert er nýtt undir sólunni, og líklega munu verða til viðskiptabandalög að nýju, sbr Hansasambandið, en sameiningartilraunir lagðar á hilluna.  

Íslenzkir vinstri menn geta ekki lengur réttlætt áframhaldandi viðræður um aðild að þessu öngþveiti.  Þó að stjórnarfar hafi reynzt óbeysið á Íslandi, getur það staðið til bóta án þess að kalla yfir landsmenn skrifræðisbákn ESB og fjarlægt stjórnvald. Það verður að stöðva svo kallaðar aðildarviðræður hlöðukálfa vinstri flokkanna við ESB strax.  Þeir brenna upp skattfé og valda þjóðinni orðstýrshnekki, sem seinlegt verður að bæta.  Sannast á þessu ESB-flaðri ríkisstjórnarinnar, að sjaldan verður flas til fagnaðar.  

Utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar ber öll merki þess að hafa komið undir hjá fólki með asklok fyrir himin.  Það er ógæfuleg tilurð, og getur aldrei orðið barn í brók.  Nú þarf að snúa við blaðinu.  Forseti lýðveldisins hefur lengi verið óþreytandi að benda á mikilvægi markaða í Asíu og menningarsamskipti þangað.  Enn mikilvægara er að hleypa nýju lífi í fyrrum góð samskipti Bandaríkjanna, BNA, og Íslands og að rækta sambandið við Kanada.  Samskiptin við BNA mótuðust að vísu af hernaðarhagsmunum stórveldisins, en opnun siglingaleiða við ísbráðnun, nýting náttúruauðlinda undir hafsbotni, rísandi Rússland og vaxandi upplausn í Evrópu kunna að stuðla að meiri áhuga í Washington á Íslandi, þó að vart verði um hernaðarumsvif að ræða.

Nú hníga öll vötn til Dýrafjarðar.  Þýzkaland ber ægishjálm yfir önnur Evrópulönd á efnahagssviðinu, og sú staðreynd verður stöðugt meira áberandi á stjórnmálasviðinu.  Íslendingar hafa jafnan átt mikil og góð samskipti við hinar þýzkumælandi þjóðir.  Viðskipti á milli landanna hafa verið blómleg, og þangað hafa margir Íslendingar leitað sér menntunar og getið sér gott orð; ekki sízt á sviði verkfræði og raunvísinda.  Þýzkumælandi þjóðir hafa litið til norrænnar menningar með velþóknun frá dögum Napóleóns Bonaparte, sem þær áttu í vök að verjast gegn. Engum vafa er undir orpið, að hagsmunir Íslendinga og hinna þýzkumælandi þjóða fléttast saman í bráð og lengd.  Með þetta í huga ber að vinna að myndun öxulsins Reykjavík-Berlín, sem kann að verða smíðaður úr hágæðaáli.

Mál af þessu tagi þarf að móta af mikilli framsýni, og gösslaragangur í ætt við ESB-umsókn eða framboð til setu í Öryggisráði SÞ á engan veginn við.  Allt var það reist á fúafeni fáfræði og ofvöxnum, en samt vanþroska "egóum".  

Utanríkisstefnuna á að miða við að tryggja frelsi Íslands til langs tíma í stjórnmálum, viðskiptum og menningu.  Að binda trúss sitt um of við einn aðila er of áhættusamt.  Til skemmri tíma á utanríkisstefnuna að miða við sífellda sókn íslenzkra vöru-og þjónustuútflytjenda inn á markaði, sem hagkvæmastir eru á hverjum tíma, og að því að skapa hagsmunatengsl, sem leiða til umtalsverðra og stöðugra erlendra fjárfestinga í framleiðslufyrirtækjum á Íslandi.  

Til að laða að erlent fjármagn er grundvallaratriði að skapa traust fjárfesta til íslenzks stjórnarfars; ekki sízt réttarfarsins.  Prófsteinn nú á réttarfarið er, hvort tekst að ganga á milli bols og höfuðs á fjárglæframönnunum, sem léku þjóðina og erlenda lánadrottna svo grátt á undanförnum árum sem raun ber vitni um.  Ef það tekst má draga þá ályktun, að heiðarleiki sé enn í öndvegi hafður á Íslandi í orði sem á borði.    

  Dem deutschen Volke


Hviklyndi leiðir til kviksyndis

Hviklyndi ríkisstjórnarinnar stendur öllum málum fyrir þrifum, sem hún kemur nálægt.  Hún hefur jafnvel slegið úr og í varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna um staðfestingu eða synjun á þrælalögunum, sem hún þrælaði gegnum Alþingi í lok árs 2009, en forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar.  Svo langt hefur hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar gengið, að oddviti hennar spurði á Alþingi, þegar minna en vika var til atkvæðagreiðslu, til hvers þessi atkvæðagreiðsla væri eiginlega. 

Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið.  Það er sama, hvaða asnastrik væri framið eða dómgreindarleysi sýnt, því væri trúandi á þessi endemis stjórnvöld landsins.  Hvers á Ísland að gjalda að sitja uppi með slíka hryggðarmynd í stjórnarráðinu, þegar hæst á að hóa ?  Ríkisstjórninni væri trúandi til að fremja hvaða heimskupör, sem hugsazt gæti.  Slík er af henni reynslan.

Þá má spyrja: til hvers situr þessi ríkisstjórn ?  Hún er klofin í herðar niður í öllum meginmálum, frá Brüssel til Bakka, og algjörlega óhæf til að stjórna.  Afturhaldsstjórnin átti að segja af sér, þegar forseti synjaði þrælalögum hennar staðfestingar, úr því að hún dró lögin ekki til baka.  Sú staðreynd, að lögin eru enn í gildi, er nægt svar við spurningu forsætisráðherra um ástæður atkvæðagreiðslunnar. 

Ríkisstjórnin hefur líka þruglað um að seinka þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Það væri hins vegar stjórnarskráarbrot, því að kveðið er á um, að skera skuli úr um ágreining þings og forseta svo fljótt sem verða má með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þangað til ríkir stjórnlagakreppa í landinu ofan á aðra eymd.

Úrtölumenn þessarar atkvæðagreiðslu hafa allt á hornum sér og telja málefnið illa fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem um þjóðréttarlegan samning sé að ræða og fjalli um fjármál.  Hvort tveggja er tóm vitleysa.  Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis; það var hin mikla meinloka vinstrigræningjanna Steingríms, Svavars og handbendis þeirra, Indriða.  Þá má benda á, að Svisslendingar efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um skatta til kantóna og ríkis, og hefur slíkt fyrirkomulag gefizt þeim vel, þannig að óvíða eru skattar lægri en í Sviss. 

Ánægður Svisslendingur að störfum

Svisslendingar eru svo ánægðir með þjóðfélag sitt, að þeir vilja alls ekki ganga í ESB, þó að þeir séu staðsettir inni í ESB, landfræðilega.  Þeir vildu ekki einu sinni vera í EFTA/EES.  Til gamans er hér til hliðar sýnt eintak af lukkulegum rafmagnsverkfræðingi, svissneskum, Max Wiestner, að störfum í frítíma sínum. 

Það hefur komið berlega fram í viðtölum við útlendinga og af viðbrögðum Hollendinga og Breta, að téðar kosningar á Íslandi eru heimssögulegar og munu þess vegna styrkja íslenzkan málstað, þó að ríkisstjórn Íslands setji upp hundshaus og reyni að gera lítið úr þessu beittasta vopni, sem Íslendingum er tiltækt í núverandi stöðu.  Þessu er þannig varið, að víðast hvar á Vesturlöndum jusu ríkisstjórnir úr fjárhirzlum og yfir í svarthol fjármálageirans, sem fallinn var að fótum fram með skuldavafninga, afleiður og önnur uppátæki af fjölbreytilegasta tagi, sem losað höfðu um mikið fé og þanið út fjármálageirann án nokkurrar innistæðu.  Gissur gullrass var að falli kominn, þegar "Samfylkingarleiðtogi" Bretaveldis, hinn viðskotailli Gordon Brúnn, sem reyndar er hrossheiti á Íslandi, bjargaði honum frá gjaldþroti á Bretlandi með feiknarlegum austri skattfjár í vasa Gissurar gullrass.  Brezka þingið var ekki spurt um þetta.  Skotinn Gordon Brúnn, sem að sögn brezkra blaða hagar sér þannig á vinnustað, að starfsfólk þarf áfallahjálp, sparkaði reyndar í liggjandi íslenzka banka í Lundúnum og gaf þannig íslenzka bankakerfinu náðarhöggið, sem ella hefði þó að líkindum orðið sjálfdautt vegna alvarlegra innanmeina. 

Eðlilega er kraumandi óánægja í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar með þjóðnýtingu taps fjármálastofnana.  Íslenzka þjóðin er sú fyrsta, sem tækifæri fær til að tjá hug sinn til slíks.  Til landsins er komið a.m.k. hálft hundrað (jafnvel stórt hundrað) fréttamanna hvaðanæva að úr heiminum til að segja fréttir af þessum heimssögulega atburði, sem hér er í uppsiglingu.  

Skrifræðisveldi ESB er skíthrætt við þá lýðræðisvakningu, sem orðið getur í Evrópu í kjölfarið.  Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Af þessum ástæðum er Samfylkingin eins og hænurass í vindi um þessar mundir og slær úr og í.  Talsmenn Brüsselfylkingarinnar tuða um markleysi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og frestun, en það er brennt fyrir, að ríkisstjórnin grípi gullið tækifæri til gagnsóknar. 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gætti hagsmuna íslenzku þjóðarinnar hraksmánarlega illa með samkomulaginu 5. júní 2009 við Breta og Hollendinga.  Alþingi sætti sig ekki við gjörninginn og setti margvíslega fyrirvara í lögin um ríkisábyrgð þessa óþurftarsamkomulags.  Andstæðingarnir höfnuðu þessum lögum, og þar með áttu þau að falla úr gildi.  Samt er sagt í bæklingi Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem sendur hefur verið inn á hvert heimili í landinu í tilefni kosninganna, að téð lög taki gildi, hafni þjóðin þrælalögunum, sem nú eiga að koma til atkvæðagreiðslu.  Þetta fær ekki staðizt, og ljóst er, að deilumál þetta fær nýtt upphaf, ef þjóðin tekur fram fyrir hendur óhæfrar ríkisstjórnar og Alþingis með böggum hildar.  

Allt, sem ráðherrar hafa sagt þjóðinni um "Icesave" málið, orkar mjög tvímælis, svo að vægt sé til orða tekið.  Fullyrðingin um, að lengra verði ekki komizt í samningaviðræðunum en að samningi þeim, sem nú á að greiða atkvæði um ríkisábyrgð á, er augljóslega tóm vitleysa.  Framganga ríkisstjórnar Íslands í þessu árans "Icesave"-máli er frá upphafi til enda með þeim hætti, að hún hefur sýnt eindæma undirlægjuhátt gagnvart erlendu ofríki og sett sjálfa sig að veði fyrir framgangi vilja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis, þó að hún þori ekki að kannast við það.  Öll hennar dagskrá hefur verið undirlögð þessu viðundri í samningsmynd.  Meira að segja umsóknin um aðlögunina að ESB er í uppnámi, og er hollast að eyða ekki meira púðri í þá sjálfstortímingu en orðið er. 

Þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna hafa í raun afsalað Alþingi lunganum úr fullveldinu í hendur Breta og Hollendinga með því að fela þeim hér skattheimtuvald.  Þetta er fullkomlega forkastanlegur gjörningur, sem ætti að dæma þessa stjórnmálaflokka út í yztu myrkur um langa framtíð.  Ríkisstjórnin reyndist fullkomlega ófær um að leiða samningaviðræður við Hollendinga og Breta, og viðreisn hagkerfisins og efnahags heimilanna er henni algerlega ofviða.  Hún er fallin á prófinu með 0,0 og á ekki að fá að reyna aftur. 

Gold Diplom Blauburgunder 


Alþjóðlegu skuldbindingarnar

Það er orðið harla hvimleitt að hlýða á yfirborðshjal íslenzku ráðherranna, húskarla þeirra og griðkvenna, um, að Íslendingar verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, og er þá að sjálfsögðu verið að vísa til hins dæmalausa "Icesave"-máls.  Þetta étur hver upp eftir öðrum, en röksemdafærslan er öðrum kosti alveg út úr kú, eða þá, að ekki er borið við að rökstyðja fullyrðinguna.  Þekkingarleysi, barnalegur málatilbúnaður, heimóttarskapur og minnimáttarkennd eru förunautar vinstri flokkanna á þessari árans "Icesave" vegferð þeirra. 

Hvernig stendur á því, að Jóhanna Sigurðardóttir og húskarlar hennar bera aldrei við að skýra frá því í hverju téðar alþjóðlegar skuldbindingar eru fólgnar ?  Það er dæmalaus heimóttarháttur að bera því við, að andstæðingarnir vilji ekki hlusta á staðreyndir málsins.  Slíkt er svo sannarlega þeirra vandamál, en ekki okkar.  Ef þessi er raunin, á að króa þá af úti í horni sem hverja aðra melrakka. 

Þó að Angela Merkel hafi fyrir kosningar til Sambandsþingsins þýzka haustið 2009 lýst yfir ríkisábyrgð á innistæðum þýzkra banka starfandi í Þýzkalandi og írska ríkið hafi tekizt á hendur slíkar skuldbindingar og íslenzka ríkið á inneignum á Íslandi, þá eru slíkar skuldbindingar hvorki hin almenna regla né eru þær áskildar að hálfu ESB á innri markaðinum, en útibú Landsbankans erlendis störfuðu alfarið samkvæmt reglum ESB.  Greiðslur Breta og Hollendinga til innistæðueigenda "Icesave"-reikninganna voru á ábyrgð þeirra ríkisstjórna, og það verður að krefjast þess, að þær geri málefnalega grein fyrir því, hvaða heimild þær hafa til að senda íslenzkum skattborgurum reikninginn. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hélt til Norðurlandanna eftir synjun forseta lýðveldisins þann 5. janúar 2010 á ólögum, sem lögspekingar hafa leitt sterk rök að í Morgunblaðsgrein 15. janúar 2010, að brjóti gegn Stjórnarskrá lýðveldisins.  Sama er, hvernig á málið er litið.  Forsetinn gerði hárrétt að synja lögunum staðfestingar og stóð þar vörð um Stjórnarskrá lýðveldisins, eins og honum bar. Eftir heimsókn fjármálaráðherrans "hugumstóra", sem virðist gagnslausari en vindmylluriddarinn spænski forðum, til höfuðborga nokkurra Norðurlanda, brá svo við, að þaðan tók að berast sami söngurinn og þjóðin má hlusta á daglangt frá ríkisstjórn Íslands, að "Ísland verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar", ef Seðlabankinn eigi að fá fé að láni frá AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og eiga fyrir afborgunum og vöxtum 2011-2012. 

Hér er um að ræða meðvirka fjárkúgun Norðurlandanna, stjórnað frá Lundúnum og den Haag, sem stendur auðvitað á lögfræðilegum brauðfótum og er algerlega siðlaus gjörningur rakalausra stjórnmálamanna í þessum borgum, sem reyna að breiða yfir eigin mistök og fljótræði með því að senda Íslendingum svimandi háan reikning á mælikvarða fámennrar þjóðar.  Að slík framkoma viðgangist í milliríkjaviðskiptum í Evrópu á 21. öldinni, sýnir rotnar réttarfarshugmyndir viðkomandi stjórnmálamanna. 

Hitt er óskiljanlegt, að nokkur hópur innfæddra hér á eyjunni hafa fundið hjá sér hvöt til að þjóna lund sinni og hvetja leynt og ljóst til að almenningur beygi sig í duftið og leyfi vinstri öflunum að færa þetta þjóðfélag aftur til haftatímabilsins fyrir Viðreisn.  Allt er það gert í nafni nauðsynjar á að halda góðu sambandi við nágrannana.  Friðkaup heitir þessi tegund samskipta og hefur ætíð illa gefizt.  Verður að frábiðja íslenzkum skattgreiðendum leiðsögn af þessu tagi, enda er á henni hvorki haus né hali.

 

Nú skal á hinn bóginn halda í smiðju til eins reyndasta og lærðasta lögskýranda landsins, en hann tjáði sig um þessa bábilju í Fréttablaðinu 14. janúar 2010 samkvæmt því, sem sagði í forystugrein Morgunblaðsins, "Engar skuldbindingar", daginn eftir.:

"Ef ríkið ætti að ábyrgjast slíkar skuldir - að ekki sé minnst á þungar og ófyrirsjáanlegar byrðar næstu kynslóða - yrði það að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, alþjóðasamningum eða löglega bindandi yfirlýsingum ráðamanna sem hefðu til þess heimild."

Á grundvelli þessa verður að fara fram á það sem lágmarkskröfu á hendur fréttamönnum ríkisstjórnarvarpsins (TASS), fréttaskýrenda úr ýmsum hornum, háskólakennara og annarra vitsmunabrekkna, að þær reyni að finna innantómum fullyrðingum sínum stað með vísun til einhverra þeirra atriða, sem "prófessor emeritus", Sigurður Líndal, nefnir hér að ofan.  Að öðrum kosti dæma þessar "mannvitsbrekkur" sig sjálfar úr leik sem ómerkinga. 

steingrimur-med-hausin-i-sandi_945365Það, sem þarf að gera núna í þessu dæmalausa "Icesave-máli", er að hefja tangarsókn á heimavelli  Hollendinga og Breta  með áróðursherferð í fjölmiðlum þessara landa, þar sem ríkisstjórnir beggja standa veikt að vígi í kosningabaráttu.  Markmiðið er að mýkja almenningsálitið í garð Íslendinga, svo að auðveldar verði fyrir stjórnvöld þar í landi að gefa eftir í samningum Inntak þessarar kynningarherferðar Íslendinga á hendur þessum þjóðum eiga að vera þær lögfræðilegu niðurstöður, sem Lárus Blöndal, hrl., Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, Sigurður Líndal, prófessor emeritus o.fl. lögfróðir menn hafa komizt að ásamt þeim hagfræðilegu niðurstöðum, sem Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við London School of Economics, komst að í grein, sem hann birti í Morgunblaðinu 15. janúar 2010, "Áhættunni af Icesave verður ekki eytt eftir á".  Er gott til þess að vita, að þýðing á nokkru af ofangreindu efni er þegar hafin.

Njálgur utanríkisráðherra, ástmagar ESB, dugir skammt, en hann kvað glugga til viðsemjenda okkar, Breta og Hollendinga, opnast í viku 2 og lokast um helgina í lok þeirrar viku, þ.e. eigi síðar en 17. janúar 2010.  Hverju þjónar svona heimskulegur málflutningur ?  Meira að segja forsætisráðherra glórði í gegnum þokuna og kvað utanríkisráðherra hafa átt við, að þessi furðuljóri á Stjórnarráðinu, mundi hins vegar opnast um téða helgi.  Ríkisstjórnin er hugstola eftir synjun og á sér ekki viðreisnar von. 

Sannleikurinn er sá, að í brúnni er nú fólk, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Það hagar sér eins og taparar, sem hengslast um og þvælast fyrir öllu, sem til lausnar getur horft á kreppu landsins.  Því er fyrirmunað að marka sigurstranglega stefnu í nokkru máli, hvað þá að sækja fram til sigurs.  Nú er ekki rétti tíminn til að míga utan í Breta og Hollendinga, eins og stjórninni er tamast.  Nú á að láta kné fylgja kviði eftir synjunina, berja á þeim og vinna almenningsálit þessara landa á band Íslendinga með sálfræðilegum hernaði.  Á sama tíma á að skipa harðsvíraða samninganefnd, þar sem valinn maður sé í hverju rúmi, sem fær tímann fram að þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin lágkúrulegu til að undirbúa harðdrægar viðræður og viða að sér í vopnabúrið. 

Ef þjóðin fær tækifæri til, mun hún búa skjaldsveina sína og -meyjar með vegarnesti yfirgnæfandi höfnunar á verstu fátæktarhlekkjum, sem nokkurt erlent vald hefur nokkru sinni reynt að færa Íslendinga í.  Sú tilraun er bæði löglaus og siðlaus.  Með staðfestingu þjóðarinnar á synjun forsetans munu báðar lagasetningarnar um ríkisábyrgð á "Icesave" falla úr gildi, því að skilyrði hinnar fyrri, þ.e. samþykki  gagnaðilans, er ekki fyrir hendi. 

Skömm Alþingismanna, sem samþykktu fjárkröfur erlendra valdhafa á hendur íslenzkri alþýðu, svo og taglhnýtinga þeirra, mun verða uppi á meðan land þetta er byggt.

Tíminn vinnur með Íslendingum í þessu máli og fyrir veturnætur ætti ásættanlegur samningur að verða í höfn.  Sá á ekki að kveða á um neinar vaxtagreiðslur af neinu furðuskuldabréfi, heldur um sanngjarna skiptingu byrðanna af því, sem út af mun standa eftir upplausn Landsbankans í hlutfalli við ábyrgð á fallinu og að teknu tilliti til fólkfjölda.  Upphæð á hvert mannsbarn á Íslandi ætti þá ekki að fara yfir kEUR 1,0; ella fari málið dómstólaleiðina.  

 


Skuldin

Spurningin um, hvort ríkisábyrgð sé á Tryggingarsjóði innistæðueigenda að lögum, er aðalatriði "Icesave-deilunnar við Bretland og Holland, og hún hverfist um tilskipun ESB nr 94/19, sem Alþingi leiddi í lög á Íslandi árið 1999.  Þar segir svo í 24. lið:

"Það er ekki bráðnauðsynlegt samkvæmt þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun þeirra kerfa, sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, m.a. vegna þess, að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa, og einnig vegna þess, að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingarskuldbindingarnar.  Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu." 

Með öðrum orðum skulu tryggingarsjóðirnir vera fjármagnaðir af bönkunum sjálfum, en samt eigi með íþyngjandi hætti fyrir þá eða viðskiptavini þeirra, enda gæti slíkt skekkt samkeppnistöðu.  Hvergi er hins vegar minnzt á ríkisábyrgð.  Ef ætlazt væri til hennar af höfundum tilskipunarinnar, mundi slíkt vafalaust hafa verið tíundað.  Á fjölmörgum fleiri atriðum má reisa þá fullyrðingu, að íslenzka ríkið hafi alls ekki undirgengizt neinar skuldbindingar um að tryggja greiðslugetu hins íslenzka Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Fullyrðingin er studd lögfræðilegum rannsóknum hæfustu manna, og nægir í þeim efnum að vísa til frábærrar ritraðar í Morgunblaðinu, sem hófst 12. janúar 2010 með greininni "Lagarök um Icesave", eftir Lárus L. Blöndal, hrl. og Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor.  Hafa ber í huga í þessu sambandi, að enginn getur skuldbundið ríkissjóð á nokkurn hátt fjárhagslega, nema Alþingi.  

Í 25. lið tilvitnaðrar tilskipunar er hnykkt á því, að ríkisvald aðildarríkjanna verði ekki sjálfvirkt ábyrgðaraðili tryggingarsjóðanna.  Bretar sjálfir hafa bent á í deilu við Íra, að ríkisábyrgð sé andstæð ýmsum grundvallarreglum innri markaðar ESB, t.d. um frjálsa samkeppni, enda var bankakerfi þeirra svo risastórt, að brezka ríkið hefði misst lánshæfi, ef það hefði gengizt í slíkar ábyrgðir.  Þess má geta, að írski ríkissjóðurinn hefur af þessum sökum goldið fjárhagslegt afhroð í þessari fjármálakreppu. Ákvæðið í téðri tilskipun 94/19, sem tekur af öll tvímæli um, að ríkisábyrgð er ekki við lýði, hljóðar svo:

"Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum, ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum, viðurkenndum af stjórnvöldum, sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja, að innistæðueigendurnir fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun." 

Hér er í tilskipuninni sjálfri kveðið á um, að innistæðutryggingarsjóðirnir skulu ekki njóta ríkisábyrgðar.  Hvert sækja Bretar og Hollendingar rök fyrir því, að íslenzkir skattgreiðendur skuli bæta ríkissjóðum þeirra með vöxtum að hafa rokið til í öngþveiti haustsins 2008 að bæta innistæðueigendum Landsbankans tap sitt ?  Hafa íslenzk stjórnvöld e.t.v. leikið af sér og skuldbundið íslenzka skattborgara til að axla byrðar, sem hvorki lagabókstafur né tilskipun mælir fyrir um ?  Lítum á aðdragandann.

Þann 7. ágúst 2008 sendi brezka fjármálaráðuneytið fyrirspurn um það til íslenzka Viðskiptaráðuneytisins, sem fór með málefni fjármálageirans og stjórnað var af ráðherra úr Samfylkingunni, hvort ríkisstjórnin mundi sjá til þess, að Innistæðutryggingarsjóðurinn geti tekið næg lán til að unnt verði að greiða EUR 20´887 til hvers innistæðueiganda.  Viðskiptaráðuneytið svaraði bréflega 20. ágúst 2008, þar sem m.a. kemur fram:

"Ef svo ólíklega vildi til, að sjóðsstjórnin gæti ekki útvegað nægilegt fé á fjármálamörkuðum, viljum við fullvissa ykkur um, að íslenzka ríkisstjórnin mundi gera allt, sem ábyrg stjórnvöld mundu gera í slíku tilviki, og í því felst að aðstoða sjóðinn við að útvega nægilegt fjármagn til þess að standa við lágmarkstrygginguna. ...... Í slíku tilviki mundi Seðlabanki Íslands, sem lánveitandi til þrautavara, sjá sjóðnum fyrir lausafé.  Ríkisstjórn Íslands mundi veita Seðlabankanum stuðning til þess.  Við þessar aðstæður yrði þetta aldrei vandamál fyrir Innistæðutryggingarsjóðinn.  Við viljum undirstrika, að ríkisstjórnin gerir sér glögga grein fyrir skuldbindingum sínum samkvæmt EES samninginum gagnvart Innistæðutryggingarsjóðinum og mun standa við þær skuldbindingar." 

Með bréfi þessu er býsna langt gengið að hálfu viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar til að friða Breta.  Í ljósi þess, sem síðar gerðist, má segja, að of langt sé gengið í yfirlýsingu um að tryggja sjóðinum fé með aðstoð Seðlabankans og ríkissjóðs m.v. kröfurnar í tilskipun 94/19 til ríkjanna á Innri markaði EES.  Samt verður því ekki haldið fram með gildum rökum, að bréf þetta sé ígildi yfirlýsingar um ríkisábyrgð.  Það sést bezt á því, að í byrjun október 2008 sendi Innistæðutryggingarsjóðurinn íslenzki eftirfarandi drög að yfirlýsingu til þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde:

"Hér með staðfestist það, að ríkissjóður Íslands ábyrgist, að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta geti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar samkvæmt framangreindum lögum.  Ríkisábyrgðin nær til allra aðila að Tryggingarsjóðinum og útibúa þeirra á Íslandi og erlendis."

Ósk þessi um ríkisábyrgð er einsdæmi, og forsendur hennar og málsaðilar hljóta að sæta opinberri rannsókn ofan í kjölinn.  Íslenzka þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, fyrir það, að hann staðfesti þessa yfirlýsingu ekki með undirskrift sinni. 

Verðmætarýrnun á heimsvísuNokkrum vikum seinna tóku brezka og hollenzka ríkisstjórnin þá ákvörðun að bæta innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna tap sitt, bæði í dótturfyrirtækjum og útibúum, úr vösum skattgreiðenda sinna.  Þetta gerðu þau til að létta af sér þeirri gagnrýni, að eftirlitsaðilar í þessum löndum hefðu brugðizt neytendum og fjármálaeftirlitin áttu auk þess að sjá um lausafjárstýringuna á heimavelli.  

Samt var í löndum þeirra talsverður fjöldi fólks, sem svipað var ástatt um eftir fall bandarískra fjármálastofnana, t.d. Lehmans bræðra 15. september 2008.  Höfundi þessarar vefgreinar er að minnsta kosti ekki kunnugt um, að brezk og hollenzk stjórnvöld hafi í hyggju að senda öðrum ríkisstjórnum en þeirri íslenzku reikning fyrir björgunaraðgerðum sínum.  Meðhöndlun þeirra á Íslendingum er líklega fordæmalaus, hún er dæmalaus, og hún styðst ekki við neinar lögheimildir.  Hún virðist einvörðungu styðjast við ofríki.  Nái þessi ósvífni fram að ganga með fjárkúgunarpíski aftan við bak, verða samskipti Íslands við þessi lönd og ESB eitruð á næstu áratugum, sem ber að forðast í lengstu lög. 

Fram á sjónarsviðið streymir nú, eftir athyglina, sem synjun forseta hlaut, málsmetandi fólk erlendis, sem styður í raun röksemdafærslu virtra lögspekinga innlendra.  Nú er viðkvæðið, að á engum lagarökum sé hægt að reisa kröfu á hendur Íslendingum um að axla téðar byrðar brezku og hollenzku ríkissjóðanna með vöxtum, heldur mundi t.d. Evrópudómstóllinn deila byrðunum á milli ríkjanna.  Þetta virðist vera sjónarmið Evu Joly, og þetta er sjónarmið Alain Lipietz, sem komið hefur að samningu tilskipana ESB um þessi efni.  Þar er kunnáttumaður og að líkindum (um tíma) innanbúðarmaður í Berlaymont á ferð.   

Alain Lipietz

Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafa lítið sem ekkert í höndunum annað til að reisa kröfugerðir sínar á en ofangreint bréf frá viðskiptaráðherranum í ríkisstjórn Geirs Haarde.  Þetta bréf veikir nú málstað Íslendinga og gerir það að verkum, að semja verður um málið á stjórnmálalegum nótum, en alls ekki á fjármálalegum nótum, eins og um óuppgert skuldabréf væri að ræða.  Íslendingar báðu hvorki Hollendinga né Breta um lán til að gera upp við innistæðueigendur föllnu bankanna.  Þegar Hollendingar og Bretar gengu til þess verks, höfðu þeir enga lagalega eða sanngirniástæðu til að ætla, að unnt yrði með réttu að senda íslenzka ríkissjóðinum reikninginn. Þess vegna er út í hött að heimta vaxtagreiðslur af Íslendingum vegna þessara útgjalda.  Vaxtakröfum þeirra á að hafna gjörsamlega.  Að leysa málið á stjórnmálalegum nótum þýðir, að byrðunum af mismuni eigna og skulda þrotabúa Landsbankans beri að skipta á milli aðseturslands útibúsins og heimalands móðurbankans í hlutfalli við ábyrgð á eftirliti og ábyrgð á því, að svo fór sem fór, að teknu tilliti til jöfnunar byrðanna á hvern skattborgara.  Kynning á þessum málstað virðist hafa farið í handaskolum hjá ríkisstjórn Íslands, enda er hún hallari undir hagsmuni Hollendinga og Breta en Íslendinga. Um það vitna fjölmörg ummæli.

Þá hafa lögfræðingarnir, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, fært fyrir því gild rök í Morgunblaðsgrein sinni, "Möguleg bótaskylda ESB", þann 14. janúar 2010, að Íslendingar muni eiga endurkröfurétt á hendur ESB fyrir tjóni, sem tilskipanir þess hafa valdið þeim.  Sá réttur fyrnist á 5 árum, og er sjálfsagt að láta á hann reyna eftir að málalyktir hafa orðið, með dómstólaleið eða nýjum samningum, við Breta og Hollendinga.    

Það skilur hvert mannsbarn, að maður, sem heldur því statt og stöðugt fram, að ekki sé unnt að ná betri samningum fyrir Íslands hönd en raun hefur orðið á um, hann er ófær um að taka þátt í nýjum samningaviðræðum.  Fjármálaráðherrann er sem lík í lestinni, og aðrir ráðherrar, er tjáð hafa sig um gjörninginn, eru reyndar litlu skárri. 

Nýjar viðræður munu fara fram með nýju fólki, a.m.k. að hálfu Íslendinga.  Íslenzka samninganefndin mun þá verða grá fyrir járnum.  Ágætar blaðagreinar fyrrnefndra lögfræðinga, Lárusar og Stefáns, eiga að rata beint í vopnabúr samninganefndarinnar íslenzku.    

Það er alveg ljóst, að með nýjum samningum verða "Icesave" byrðarnar á Íslendinga aðeins brot af þeim fátæktarhlekkjum, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Steingrím Sigfússon í broddi fylkingar ætlaði að leiða yfir þrjár kynslóðir Íslendinga í glópsku sinni eða vitandi vits.  Það ber þess vegna að fella þá lagasetningu vinstri flokkanna á Alþingi úr gildi og að semja upp á nýtt að beztu manna yfirsýn.    

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband