Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Svona eiga sýslumenn að vera

Forseti lýðveldisins á mikið hrós skilið fyrir framgöngu sína.  Með einu pennastriki hefur hann gjörbreytt stöðu Íslands gagnvart útlöndum til hins betra.  Hann áttaði sig að sjálfsögðu á áróðurslegu gildi augnibliksins, er hann synjaði lögunum um hugsanlegar drápsklyfjar á þjóðina staðfestingar. 

Frammistaða hans síðan hefur verið frábær.  Loksins eignaðist þjóðin þungavigtarmann, sem beitir sér af snerpu og heldur staðfastlega fram málstað hennar á alþjóðavettvangi með sannfæringarkrafti, af þekkingu og með glæsibrag. 

Hegðun ríkisstjórnarómyndarinnar er til háborinnar skammar.  Það er niðurlægjandi að búa við stjórnvöld, sem senda til Bessastaða bréf, sem er barnalegur endurómur hótana andstæðinga okkar í þessu bölvaða "Icesave" máli.  Í bréfunum er málaður skrattinn á vegginn með þeim hætti, að bréfritarar eru augljóslega með öllu óhæfir til að tala fyrir málstað okkar.  Þeir tala máli andstæðinganna.  Þá var ömurlegt að heyra Milliband, utanríkisráðherra Breta, segja fátt annað eftir samtal við utanríkisráðherra Íslands en að Bretar mundu ekki standa í vegi fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Þetta var greinilega eina áhyggjuefni Össurar Skarphéðinssonar.  Þjóð með slíka forystu þarf ekki á andstæðingum að halda.  Fimmta herdeildin situr nú í Stjórnarráðinu við Lækjargötu. 

Þetta kom einnig berlega í ljós af fyrstu viðbrögðunum erlendis frá við yfirlýsingu forsetans.  Utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg hefur greinilega ekki verið beitt af neinu viti til að breiða út málstað Íslands.  Allt moraði af ranghugmyndum og upplýsingaskorti.  Ríkisstjórnin hefur gjörsamlega sofið á verðinum í hagsmunagæzlunni, sem henni ber þó skylda til að halda uppi, og hún hafði greinilega ekkert plan B, þegar yfirlýsingin barst frá Bessastöðum þann 5. janúar 2010.  Hún var tekin með allt á hælunum.  Í stað þess að grípa augnablikið, þegar augu heimsins beindust að Íslandi fyrir tilverknað forsetans, fór ríkisstjórnin í fýlu og upphóf nöldur og ónot í garð forsetans.  Þessi hegðun er svo lítilmannleg og lágkúruleg, að engu tali tekur.  Ríkisstjórninni er ekki við bjargandi.

Þessu fólki í stjórnarráðinu, skötuhjúunum í forystunni, húskörlum þeirra og griðkonum, er með engu móti treystandi til að tala máli okkar í þessu örlagamáli um ríkisábyrgð á Tryggingasjóð innistæðueigenda, eins og berlega hefur nú komið í ljós. 

Til skjalanna verður að koma nýtt fólk.  Það nýja fólk verður að leggjast í víking, bíta í skjaldarrendur og tala máli landsmanna í Berlín, París, Lundúnum, Washington, den Haag og víðar.  Ný landsforysta á að stofna einvala lið, samningateymi, skipað hæfasta fólki til þessara verka með djúpa þekkingu á lögfræðinni, hagfræðinni og samningatækni með seiglu og innri styrk til að reka andstæðingana á gat.  Það er ekki orðið of seint að leita í smiðju hjá Evu Joly og mörgu öðru fólki, innlendu sem erlendu, sem greint hefur kjarnann frá hisminu.  

Eva JolyHaustið 2008 riðuðu fjölmargir bankar Vesturlanda á barmi gjaldþrots.  Rikisstjórnir þessara landa tóku þá ákvörðun um að setja ógrynni af fé skattborgaranna inn í einkabanka til að bjarga þeim frá falli.  Brezka verkamannaflokksstjórnin var enginn eftirbátur annarra í þessum efnum, og rökin voru þau, að með þessum fjáraustri væri efnahagshruni forðað og neyzlunni yrði haldið við, þannig að féð mundi skila sér í ríkiskassann.  Þrátt fyrir þetta neituðu brezk stjórnvöld íslenzku bönkunum í Lundúnum um aðstöð og gripu meira að segja til aðgerða gagnvart þeim, sem riðu þeim að fullu á svipstundu.  

Aðgerðir yfirvalda á Vesturlöndum, þar með töldum Bretlandi og Hollandi, til björgunar bankakerfum landa sinna, voru einnig hugsaðar til að koma í veg fyrir áhlaup innistæðueigenda á bankana.  Ríkisstjórnir þessara landa stóðu frammi fyrir reiðum og örvæntingarfullum innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna.  Til að hindra ásakanir í sinn garð fyrir það, sem gerzt hafði, gagnrýni á aðgerðarleysi seðlabankanna og fjármálaeftirlitsstofnana í þessum löndum, þá var tekin skyndiákvörðun um að bæta innistæðueigendum tjón sitt samkvæmt reglum ESB með greiðslum úr ríkishirzlunum, enda munaði þær lítið um þessar greiðslur, einkum þá brezku.  Ekki er vitað til, að þessi gjörningur hafi verið borinn undir íslenzk stjórnvöld á nokkurn hátt áður en hann var framinn.   Þar rauður loginn brann-janúar 2010 

Það kemur vel fram í bókinni Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson, að stjórnvöld Bretlands og Hollands töldu framgöngu íslenzku bankamannanna ögrandi og frammistöðu íslenzkra yfirvalda, t.d. Fjármálaeftirlits, ámælisverða.  Ísland lá vel við höggi, og framtíðarhorfur þess til lengri tíma í raun mun betri en Bretlands og Hollands, þar sem ríkisskuldir eru miklar, en skattstofnar munu fara rýrnandi vegna dvínandi olíu-og gaslinda, ört hækkandi meðalaldurs þjóðanna og lítils hagvaxtar.  Þess vegna var ákveðið að senda reikninginn til Íslands.  Ósvífnin felst m.a. í því, að peningarnir á þessum reikningum komu aldrei til Íslands og nýttust þannig landinu ekkert, en samt á að taka ógrynni fjár á íslenzkan mælikvarða út úr hagkerfi landsins og senda inn í hagkerfi Breta og Hollendinga með vaxtabótum til bæta ríkissjóðum þessara landa fé, sem ríkisstjórnir þeirra tóku ákvörðun um að nota til að smyrja eigin hagkerfi.  Þessi glórulausi vaxtabætti baggi hefði lent á íslenzkum skattborgurum fyrir tilstilli duglausrar ríkisstjórnar í Reykjavík og meðreiðarsveina hennar með draumóra um aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem eru andvana fæddir, ef forseti lýðveldisins hefði ekki stöðvað ósómann og snúið taflinu við.  Framganga hans í harðri viðureign á BBC og víðar verður lengi í minnum höfð.  Mættum við fá meira að sjá og heyra.

 


Af áhættum og ávinningum

Ágætur höfundur að nafni Sigfried Hugemann ritaði athygliverða grein í Morgunblaðið mánudaginn 5. október 2009, "Ísland og ESB - áhætta og ávinningur".  Téður höfundur, Herr Hugemann, kann skil á örlagaþáttum Íslandssögunnar og tengir þá við nútímasöguna.  Áhugavert er sjónarhorn hans um, að öll mikilvæg viðskiptamál þurfi að setja á vogarskálar áhættu annars vegar og ávinnings hins vegar.  Betra væri, að slík aðferðafræði væri ríkari í fari Íslendinga en raun ber vitni um allt frá viðskiptajöfrum útrásar til hinnar aumkvunarverðu ríkisstjórnar, sem enn hangir við völd. 

Þessi ábending höfundarins Hugemanns er þess vegna tímabær, og téðri aðferðafræði er unnt að beita á flestum sviðum mannlífsins.  Herr Hugemann notar þessa reislu á spurninguna um það, hvort Íslendingar eigi að ganga ESB (Evrópusambandinu) á hönd.  Niðurstaða hans er, að innganga þar mundi jafngilda tvöföldu tapi þjóðarinnar, þ.e.a.s. áhættan er fólgin í lækkun þjóðartekna, eins og hann útskýrir skilmerkilega með minna auðlindaaðgengi  Íslendinga vegna ágangs ESB, og ávinningurinn er neikvæður, þ.e. tap blasir við, því að yfirlýst markmið ESB er flutningur fjármagns frá ríkari þjóðum til þeirra fátækari, frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs.  Til lengdar litið eru góðar horfur á, þjóðartekjur á mann verði jafnan hærri hérlendis en meðaltalinu nemur í ESB, þó að óbjörgulega horfi nú um stundir um stjórn þjóðmálanna, enda óvenjulegar mannvitsbrekkur við völd.  

Fáni ESBÞað eru ýmsar ástæður fyrir því, að Ísland muni þurfa að greiða meira til ESB en landið fær þaðan.  Ein er, að meðalaldur er mun hærri í ESB og hann hækkar örar en á Íslandi.  Lífeyrissjóðakerfi flestra ESB-landanna er ósjálfbært, halli á ríkisbúskapi og ríkisskuldir víða miklar, þó yfirleitt minni en hér.  Við höfum á hinn bóginn yfir að ráða öflugri útflutningsvél, sem með aukinni auðlindanýtingu getur malað þjóðinni svo mikið gull, að dugi út úr kreppu og skuldasúpu og í lífskjaraforystu á ný. 

Ef litið er til evrulanda, þar sem verðbólga er yfir meðallagi evrusvæðis, má draga þá ályktun, að útflutningsatvinnuvegir væru hér í lamasessi með evru.  Þá væri e.t.v. enn stórfelldur halli á viðskiptum við útlönd og atvinnuleysi enn geigvænlegra en raunin er á um nú og hefði varað lengur.  Það þarf þess vegna vandaða áhættugreiningu til að reisa á ígrundaða stefnumörkun í gjaldeyrismálum.  Sú áhættugreining hefur ekki farið fram, heldur er böðlazt áfram til Brüssel í von um evru, sem er borin von.   

Rauðka (vinstri stjórnin) ber ábyrgð á því, að einhver alóheppilegasti tími, sem hugsazt gat, var valinn fyrir umsókn um aðildarviðræður.  Hollenzka og brezka ríkisstjórnin nota umsóknina til aukins þrýstings á landsmenn.  Af þessum sökum mun umsóknarferlið dragast á langinn, sem er slæmt fyrir stjórnmálaástandið á Íslandi og þungbært íslenzka ríkissjóðinum.  Það er óverjandi á tímum alvarlegs samdráttar að verja þá milljörðum króna í umsóknarferli, sem gefur ekkert í aðra hönd.  Aðildarsamningurinn verður vafalítið felldur og má þakka það framkomu ESB í hinu illræmda "Icesave" máli. 

Embættismannakerfið hafði fangið fullt af verkefnum vegna kreppunnar.  Þá lagði ríkisstjórnin fyrir það að fara í einhliða spurningaleik með þúsundum spurninga frá ESB.  Íslendingar eru vanbúnir að berjast á mörgum vígstöðvum í einu.  Slíkt hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra.  

Frá álverinu í Straumsvík - 2009 Segja má, að ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna geri ekkert af viti.  Eitt versta einkenni hennar er atvinnufjandsemi.  Hún virðist hafa ímigust á öllu, sem leitt getur til atvinnusköpunar.  Aðgerðir hennar tortíma atvinnu, hún er atvinnutortímandi.  Þannig magnar ríkisstjórnin kreppuna.  Atvinnulausir eru nú rúmlega 13 þúsund talsins.  Skattahækkanir, önnur asnaspörk og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar munu því miður kippa fótunum undan mörgum enn, ungum sem öldnum

Dæmi um þetta er fyrirhuguð skattlagning á orku.  Fjármálaráðherra breimar um, að stóriðjan eigi að leggja sitt að mörkum.  Enginn þrætir fyrir það.  Spurningin er, hvernig hún geti lagt sem mest að mörkum til lengdar ?  Engum vafa er undirorpið, að það gera stóriðjufyrirtækin með stórvirkustum hætti með nýjum fjárfestingum.  Ef tilkostnaður fyrirtækjanna verður aukinn með skattlagningu á orku og losun gróðurhúsalofttegunda, þá minnkar að sama skapi tekjuskatturinn af þessum fyrirtækjum.  Þessi skattlagning mun eyðileggja allan áhuga á frekari fjárfestingum á Íslandi.  Álfyrirtækin vildu öll fjárfesta nú í kjölfar Hrunsins, og hefðu þessar fjárfestingar numið hundruðum milljarða, þegar virkjanafjárfestingar álverum tengdar og studdar eru með taldar.  Vægt áætlað mundu þessar fjárfestingar fækka um 4000 manns á atvinnuleysisskrá.  Slíkt mundi veita ríkissjóði um 8 milljarða króna í nýjar skatttekjur og spara ríkissjóði aðra 8 milljarða kr í útgjöld vegna atvinnuleysistryggingasjóðs. 

Alls nema þessir 16 milljarðar sömu upphæð og fjármálaráðuneytið hefur boðað, að það hyggist innheimta með nýjum orku-og umhverfissköttum.  Mannvitsbrekkurnar í fjármálaráðuneytinu sjá auðvitað strax, að mun viturlegra er að hætta við þessa óheillavænlegu og óvæntu skattheimtu, en liðka þess í stað fyrir nýjum, erlendum fjárfestingum.  Eftir stendur, að orðstír Íslendinga sem traustir viðsemjendur, sem standa við gerða samninga undanbragðalaust, er rokinn út í veður vind.  Var það markmið félaganna Indriða, aðstoðarmanns, og Steingríms, fjármálaráðherra ?  Sé svo, verður að telja gjörninginn vera minna en hænufet frá landráðum.

Rauðka er atvinnufjandsamlegasta ríkisstjórn, sem nokkurn tíma hefur setið í landinu.  Hún sveik "Stöðugleikasáttmálann", og hún svíkst aftan að viðsemjendum sínum.  Hún er með öðrum orðum siðlaus.  Allar hennar gjörðir hafa aukið við vanda landsins og/eða leitt til fjölgunar á atvinnuleysisskrá.  Rauðka virðist stefna að því að setja 20 þúsund manns á atvinnuleysisskrá til langframa, því að ekkert bólar á viðreisn athafnalífsins.  Vinstri flokkar hvarvetna vilja hafa sem flesta á bótum og telja sitt fylgi koma þaðan.  Með það getur brugðið til beggja vona á Íslandi.  Í hvert sinn, sem fótur er settur fyrir nýjar framkvæmdir, er verið að fjölga á atvinnuleysisskránni.   

Lífsins gangur - 2009Umhverfisráðherra gerir það ekki endasleppt.  Hún ætlar að fara stefnulaus og tómhent til Kaupmannahafnar án þess að gera nokkrar kröfur um undanþágur til handa Íslandi.  Þetta er í anda vinstri grænna, sem er sú að vinna atvinnulífinu það mein, sem þeir mega og að eyðileggja alla atvinnusköpun, sem í augsýn er.  Þessu mátti búast við af umhverfisráðherranum, því að í Fréttablaðinu 10. október 2009 veitir hún innsýn í hugarheim sinn: "Ég er ekki í umhverfisráðuneytinu til að draga taum einstakra fyrirtækja, sjónarmiða eða hagsmunaaðila.  Ég er í umhverfisráðuneytinu til að tala máli komandi kynslóða og umhverfisins - heildarhagsmunanna."

Þessi orð vitna um fáheyrt yfirlæti.  Næst má búast við frá umhverfisráðherranum, að hennar ríki sé ekki af þessum heimi.  Enginn veit, hvaða hagsmuni komandi kynslóðir munu setja í öndvegi.  Hins vegar er áreiðanlegt, að þær munu njóta þess, að forfeðrum þeirra formæðrum vegni vel, en að sama skapi gjalda þess, ef þeim vegnar illa.  Þá eru allar virkjana-og stóriðjuframkvæmdir afturkræfar samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum, svo að tómt mál er af ráðherranum að fimbulfamba um umhverfistjón þeirra vegna.

Allt tal og gerðir þessa græningja vitnar um fullkomna firringu.  Hún telur sig ekki vera í umhverfisráðuneytinu til að gæta hagsmuna núlifandi kynslóða á Íslandi, heldur hagsmuna, sem hún hefur ákveðið, að komandi kynslóðir skuli setja á oddinn.  Er hægt að ganga lengra í vitleysunni ?  

Málið er, að viðmiðunarár Kyoto og væntanlega Kaupmannahafnar, 1990, er okkur Íslendingum óhagfellt í þessu tilliti, því að þá var hitaveituvæðingunni að mestu lokið.  Ennfremur hefur mikil iðnvæðing átt sér stað síðan og bílaflotinn stækkað gríðarlega.  Ráðherrann er þess vegna að segja, að hún ætli ekki að lyfta litla fingri til að bjarga störfum á Íslandi.  Aðgerðarleysi ráðherrans mun þýða lakari samkeppnistöðu íslenzkra fyrirtækja en ella og lífskjörin munu þá enn versna hérlendis. 

Aldrei nokkurn tíma hafa Íslendingar augum litið jafndáðlaus stjórnvöld og nú.  Segja má, að ráðsmennskan gæti vart orðið lakari, þótt hún flyttist til Brüssel.  Dýpra verður ekki sokkið.  Valdhafarnir eru í vinnu hjá okkur skattgreiðendum, og þessir valdhafar vinna allt með öfugum klónum.  Þeim eru reyndar svo mislagðar hendur, að engu er líkara en þeir séu í vinnu hjá samkeppniaðilum okkar og andstæðingum í milliríkjadeilum.  Það voru söguleg mistök að ráða þetta fólk, sem ekki ber við að vinna fyrir kaupinu sínu.  Hefja verður borgaraleg öfl til vegs að nýju, sem vinna í þágu íslenzkra skattborgara nútímans og með atvinnulífinu. 

 

  

 


Ísland og Noregur

Dagana 13.-14. september 2009 kusu Norðmenn til nýs Stórþings.  Borgaralegu flokkarnir hlutu fleiri atkvæði, og mjög litlu munaði, að þeim tækist að velta stækri vinstri stjórn, sem að vísu hefur Framsóknarflokk Norðmanna innanborðs (Senterpartiet).  Fylgi við Hægri flokkinn jókst, en vinstri grænir í Noregi töpuðu. Það er óvenjulegt, eftir að samsteypustjórnir tóku við af tímabili eins flokks stjórna Verkamannaflokksins, að ríkisstjórn haldi velli eftir kosningar. Var þetta hundaheppni Stoltenbergs.

Stoltenberg 

Spyrja má, hvers vegna Norðmenn losuðu sig ekki við daufa vinstri stjórn ?  Svarið kann að felast í því, að eftir að umsókn Íslands um aðildarviðræður við ESB var afhent utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, í sumar, hófust umræður á þá lund í Noregi, að kæmist Hægri flokkurinn til valda, mundi Noregur líklega ekki bíða boðanna, heldur senda sams konar umsókn fyrir Noregs hönd og þá í þriðja skiptið. 

Norska þjóðin hefur engan gáning á aðild að ESB, og þessi umræða gæti þess vegna hæglega hafa lengt líf rauðgrænnar ríkisstjórnar Stoltenbergs um 4 ár, því að kjörtímabilið í Noregi er fasti, þ.e. ekki er leyfilegt að leysa Stórþingið upp, nema kjörtímabilinu sé lokið.  

Auðlindir Norðmanna eru miklar og að nokkru leyti sams konar og okkar Íslendinga.  Þær eru t.d. sjávarfang og vatnsafl, en einnig miklar olíulindir í Norðursjó og norður með strönd Noregs, Jan Mayen, Svalbarða og allt norður í Hvítahaf.  Þar á meðal er Drekasvæðið, sem Íslendingar og Norðmenn skipta á milli sín. 

Talið er, að sitt hvorum megin markalínu ríkjanna á Drekasvæðinu leynist 10 milljarðar tunna af olíujafngildi.  Miðað við núverandi eldsneytisnotkun í heiminum nægir forði hvorrar þjóðar til að anna brennslu mannkyns á olíu í 4 mánuði, og birgðir Drekasvæðisins alls nema 0,8 % af þekktum olíuforða heimsins um þessar mundir, en hann dugir í 40 ár m.v. núverandi notkun.   

Fróðlegt er að velta fyrir sér, hversu mikil áhrif vinnsla olíu og gass úr hafsbotni Drekasvæðisins mundi hafa á hag Íslendinga.  Strax á skeiði tilraunaborana mundi hagur íbúa á NA-verðu landinu vænkast mjög, því að koma þarf upp þjónustu við tilraunaborpallana, sem gerð yrði út frá höfnum og flugvöllum NA-lands.  Veltan á svæðinu mundi aukast um tugi milljarða króna.  Mælt í þorskígildum gæti hér verið um jafngildi tvöföldunar á kvóta svæðisins að ræða. 

Miklu meira mun samt muna um skatttekjur af olíuvinnslunni, ef og þegar hún kemst á, en hún yrði sjálf öll á höndum öflugra, alþjóðlegra olíufélaga, því að þarna norður frá þarf að beita beztu tækni á þessu sviði, tilraunavinnslan verður dýr og talið er, að vinnslukostnaður muni nema 80 USD/tu, sem er hið hæsta, sem þekkist á þessu sviði í raun.   Hóflega skattheimtu þarf að boða þegar í upphafi til að fæla fjárfesta ekki frá áhættusömum rekstri á mjög erfiðu vinnslusvæði.  Ef reiknað er með hagnaði 20 USD/tu af olíu, sem líklega er vægt áætlað, og 35 % skatti af hagnaði, þá mundu skatttekjur ríkisins nema ISK 450 mia/ár í 20 ár, sem mundi leiða til tvöföldunar núverandi skatttekna.

Svarta gullið er takmörkuð auðlindÞað er ljóst, að til að greiða niður skuldir ríkissjóðs þarf stórvirki af þessu tagi, þegar að Icesave gjalddaga kemur 2016, og þess vegna er mikilvægt að flýta rannsóknum á Drekasvæðinu, eins og kostur er. 

Systurflokkur VG í Noregi leggst alfarið gegn rannsóknum á Drekasvæði Noregs, sem miði að vinnslu olíu og gass þarna.  Líklegt er, að VG á Íslandi api þessa fyrirtekt eftir þeim, þó að efnahagsaðstæður Noregs og Íslands séu gjörólíkar.  Efnahagsstefna VG, vinstri grænna, er reist á sandi, því að hún endurspeglar ekki meiri skilning á efnahagslögmálum en býr í höfði strútsins, sem þekktur er af að stinga hausnum í sandinn, þegar hann mætir vandamáli.  Stjórnmálamönnum VG virðist vera fyrirmunað að skilja, hvað þeir þurfa að gera til að endurvekja hér hagvöxt.  Þeir tortryggja erlenda fjárfesta, sem hætta vilja fé sínu til uppbyggingar íslenzks atvinnulífs, sýna þeim kaldranalegt viðmót og jafnvel fjandskap og þvælast af þráhyggju sinni endalaust fyrir framkvæmdum.  

Allar aðgerðir rauðgrænu ríkisstjórnarinnar á Íslandi hingað til hafa dregið úr hagvexti og þar með aukið atvinnuleysið.  Að samþykkja í fljótræði stórgallaðan Icesave samning, sem gerður var undir handarjaðri formanns vinstri-grænna, var glapræði.  Stefna og gjörðir VG leiða þannig ekki til annars en fátæktar á fleiri heimilum landsmanna, skuldasöfnunar einstaklinga og hins opinbera, viðvarandi fjöldaatvinnuleysis og yfirþyrmandi ríkisrekstrar.  

Ríkisstjórnin fellur á hverju prófinu á fætur öðru.  Hún stendur sig ver en dæmi eru um í þessari alþjóðlegu efnahagslægð gagnvart AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum), eins og tossum er tamt.   Því fer fjarri, að Rauðka (ríkisstjórn vinstri flokkanna) ráði við viðfangsefni sín, hún hefur enga gjaldgenga framtíðarsýn og verður af þessum sökum öllum að víkja.  

Kostnaður ríkissjóðs vegna höktandi efnahagskerfis og tekjutap þjóðfélagsins í beinhörðum gjaldeyri vegna óhæfrar ríkisstjórnar, sem lætur öll tækifæri úr greipum sér ganga og "situr eftir með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða um svipuð fyrirbrigði, gæti numið ISK 20 milljörðum á mánuði eða tæpum 200 þúsund kr á mánuði á hverja fjölskyldu í landinu að meðaltali.    

Noregur kann að hafa efni á vinstri stjórn, en þegar er fullreynt, að Ísland hefur ekki efni á vinstri stjórn.  Norðmenn vita gizka vel, að þeir geta ekki hagnazt á inngöngu í ESB.  Það er vegna þess, hversu þjóðartekjur á mann eru háar í Noregi.  Þeir munu þurfa að greiða þangað miklu meira en þeir fá til baka.  Þeir vilja heldur ekki hætta á að missa forræði yfir sínum gríðarlegu auðlindum.  Í Noregi rista hugsjónir sameinaðrar Evrópu afar grunnt.  Reynt var að sameina Evrópu fyrir 7 áratugum, og Norðmenn liðu fyrir þá tilraun.  Þeir eru enn tortryggnir í garð stórveldabrölts í Evrópu, sem kann að brydda á, ef Lissabon samningurinn verður samþykktur, því að þá verður leiðin vörðuð að sambandsríki Evrópu, sem beitt gæti sameiginlegum herstyrk um heim allan.  

EvranUm miðjan september 2009 var birt niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi Íslendinga til inngöngu í ESB.  Í ljós kom, að mikil fjölgun hefur orðið í röðum andstæðinga aðildar frá því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, afhenti snubbótta umsókn Íslands í utanríkisráðuneyti Svía.  Nú eru um 60 % landsmanna andvígir aðild.  Einhver atburður hlýtur að hafa ráðið sinnaskiptum svo margra.  Tilgáta höfundar er, að sá atburður sé undirskrift "Icesave" hörmungarinnar.  Með réttu tengir fólk  skyndilega og algerlega ótímabæra undirskrift þeirrar nauðungar við flausturslegan og þjösnalegan málatilbúnað ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi til að hægt yrði að senda vanburða umsókn um aðildarviðræður um miðjan júlí 2009. 

Í þessu máli sveik flokksforysta vinstri-grænna kjósendur sína herfilega og gerði þingflokk sinn að hópi ómerkinga með fáeinum undantekningum þó. Vinstri-grænir héldu með þjóð sína inn á braut, sem er ósamrýmanleg þeim hugsjónum þjóðfrelsis, sem þeim er svo tamt að hafa á vörunum af minna tilefni en að óska samninga um afsal fullveldis landsins til verðandi stórveldis.  

Öll þau axarsköpt, sem forysta og þingflokkur vinstri-grænna hefur framið frá því, að flokkurinn skipaði í ráðherraembætti snemma árs 2009, hljóta að hafa alvarleg áhrif á tilvist Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, og hún mun ekki bera sitt barr eftir þessa stjórnarsetu.  

 


Skilaboð frá Nürnberg

Strax eru tekin að birtast raunveruleg viðbrögð frá Evrópu og reyndar víðar að við 44 orða umsókninni um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) frá 16. júlí 2009 fyrir utan kurteisishjal Barroso og Bildt. 

Á sama tíma og téð umsókn var afhent í utanríkisráðuneyti hans hátignar, Svíakonungs, í Stokkhólmi, hélt sá stjórnmálaflokkur, sem haldið hefur um stjórnartaumana í Bæjaralandi frá stofnun Sambandslýðveldisins Þýzkalands 1949, flokksþing sitt í Nürnberg til undirbúnings kosningum til neðri deildar þýzka þingsins, Bundestag, haustið 2009.  Þar er um að ræða CSU, systurflokk CDU, flokks Bundeskanzlerin Angela Merkel, sem var viðstödd flokksþingið í Nürnberg til að stilla saman strengi flokkanna í átaki við að ýta SPD, Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands, úr ráðherrastólum í Berlín. 

Á þessu flokksþingi var áréttuð sú stefna CDU/CSU að gera hlé á fjölgun ríkja í ESB þar til Lissabon sáttmálinn hefur verið staðfestur af öllum ríkjunum, 27 talsins.  Þjóðverjar hafa sjálfir enn ekki staðfest þennan samning, af því að stjórnarskráardómstóll Þýzkalands hefur haft til meðferðar kæru, er lýtur að lögmæti framsals þjóðlegs valds til hins yfirþjóðlega valds í Brüssel.  Þessar vangaveltur Þjóðverja koma Íslendingum kunnuglega fyrir sjónir. 

CDU/CSU styðja inngöngu Króatíu strax og Lissabon samningurinn hefur hlotið staðfestingu í öllum ríkjunum, enda var Króatía hluti af Habsborgaraveldinu á sinni tíð og þess vegna á þýzk-austurrísku áhrifa-og menningarsvæði.  Að inntöku Króatíu sem 28. aðildarlands ESB lokinni, telja CSU/CDU nauðsynlegt að staldra við og endurskipuleggja stjórnkerfi ESB. 

Angela Merkel (CDU) og Horst Seehofer (CSU)

"EU nicht Retter für Islands Wirtschaftskrise" hljómaði frá Nürnberg og mun væntanlega enduróma frá kanzlaranum í Berlín og næstu ríkisstjórn Þýzkalands.  Þetta má þýða: "ESB ekki hjálparhella gagnvart efnahagskreppu Íslands".  Þetta er í samræmi við málflutning gagnrýnenda óðagots Samfylkingarinnar við að sækja um aðild Íslands að ESB og í ósamræmi við málflutning Samfylkingarinnar, sem taldi umsókn vera hluta af lausn efnahagsvandans á Íslandi.   Umsóknin er að steyta á skeri, af því að hún var lögð fram á fráleitasta tíma, sem hugsazt gat, m.t.t. stöðu mála innan ESB og á Íslandi og m.t.t. vandræða í samskiptum Íslands og ESB undanfarið. 

Rök Samfylkingarinnar fyrir óðagotinu bera vott um hræðilega vanþekkingu og dómgreindarskort.  Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og þingmenn Samfylkingarinnar aðrir hafa haldið því fram, að óðagotið væri nauðsynlegt til að Svíum gæfist tækifæri til að greiða umsókninni leið og tala fyrir henni.  Vafalaust hafa Svíar með Carl Bildt, utanríkisráðherra, í fararbroddi hvatt ríkisstjórnina til að flýta sér, en gengur þeim góðvildin ein til í garð Íslands ? 

Svo er auðvitað ekki.  Svíþjóð er gamalt evrópskt stórveldi, sem tók þátt í að lama Þýzkaland í 30 ára stríðinu 1618-1648 og öðlaðist þá ítök á meginlandinu, aðallega við Eystrasaltið.  Áhrif og ítök Svía í Eystrasaltslöndunum eru enn mikil. 

Stefna Svía er að efla hina "norrænu vídd" (den nordiska dimension) undir sinni leiðsögn innan ESB og öðlast þannig völd innan ESB langt umfram það, sem búast má við af 9 milljón manna þjóð.  Lykilatriði til að ná þessu fram er, að Ísland gangi í ESB.  Með því móti telja Svíar, að hreyfing muni koma á aðildarumræður í Noregi, og þar er nú þegar farið að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu um að senda inn umsókn í 3. skiptið.  Því má bæta við, að Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur talað um að "selja" hinum ESB-ríkjunum 26 hugmyndina um að samþykkja umsókn Íslands með því, að þá öðlist ESB aðgang að Norður-Íshafinu. 

Hvað sem áhrifum Svía innan ESB líður, á meðan þeir gegna formennsku í ráðherraráðinu, er hitt áreiðanlegt, að umsókn verður ekki samþykkt þar í blóra við Berlín.  Óðagot Samfylkingar er að breytast í feigðarflan, þar sem verstu hrakspár stjórnarandstöðu rætast.  Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, sem Samfylkingin hefur efazt um, að samið gæti um aðild, sem hann er algerlega andsnúinn, fyrir hönd sinna málaflokka, getur nú andað léttar, því að minni líkur en meiri eru nú á því, að ráðherraráð ESB samþykki einróma, sem er skilyrði, að taka við umsókn Íslands og fela hana framkvæmdastjórninni til afgreiðslu.  

Það yrði töluverður álitshnekkir fyrir Ísland eftir það, sem á undan er gengið.  Sannast þar hið fornkveðna, að flas gerir engan flýti.   

Dem deutschen Volke 


Viðundur

Þann 16. júlí 2009 unnu vinstri flokkarnir, sem að ríkisstjórn Íslands standa, Phyrrosarsigur.  Þetta heiti er ættað úr fyrsta púnverska stríðinu, þar sem Karthago-menn unnu sigur á rómverska hernum í orrustu við Phyrros á Suður-Ítalíu.  Sigur þessi varð Karthago mun dýrkeyptari en ávinningurinn, og Rómverjar náðu undirtökunum síðar og jöfnuðu Karthago við jörðu. 

Forseti ráðherraráðs ESB 1.7-31.12.2009Þessi sigur vinstri stjórnarinnar á Alþingi mun verða banabiti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem stjórnmálaafls, sem máli skiptir í íslenzkum stjórnmálum.  Málefnalegur tvískinnungur og hrottafengin svik við stefnu flokksins og við kjósendur hans eru meira en íslenzkir kjósendur kunna að meta. 

Samfylkingin mun ekki bera sitt barr, þegar í ljós kemur, að vegferðin til Brüssel var reist á hillingum og innantómum gyllingum um gull og græna skóga Íslendingum til handa, ef þeir aðeins féllu fram og tilbæðu goðin í Brüssel.  Þessi vegferð verður þungur baggi á ríkissjóði og mun lama stjórnun ríkisins, því að ofan á mikið álag vegna afleiðinga Hruns bætast feikna annir tengdar umsóknarferlinu, ef það verður þá ekki í skötulíki. 

Það versta við þessar málalyktir er þó það, að málatilbúnaður vinstri stjórnarinnar mun gera Íslendinga að viðundrum í augum forkólfa ESB.  Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, veit vel, að allir þingmenn annars stjórnarflokksins, sem að umsókninni stendur, hafa heitið því að berjast gegn samþykkt samnings Íslands við ESB, sama hvað í honum verður.  Hann veit líka, að ráðherra sjávarútvegs-og landbúnaðarmála, erfiðasta málaflokks samningaferlisins, greiddi atkvæði gegn umsókn og sýndi þar með meiri heilindi en félagar hans í ríkisstjórn, en mun fyrir vikið lenda á milli steins og sleggju.

Eftir kurteisishjal og skálaglamur verður þess vegna fyrsta spurning stækkunarstjórans og samninganefndar hans til íslenzku samninganefndarinnar, hver verði örlög samningsins á Íslandi, þegar þar að kemur.    Össuri & Co. mun vefjast tunga um tönn, því að ríkisstjórnin, sem biður ESB um aðildarviðræður, mun hvorki mæla með samþykkt eiginn samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu né á Alþingi.  Slík staða er einsdæmi hjá ESB og mun hleypa illu blóði í ESB-samningamennina frá fyrsta degi, þar sem um tímasóun er augljóslega að ræða.  Með þessum hætti mun vinstri stjórninni takast, illu heilli, að gera Íslendinga að viðundrum í augum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB. 

En sagan er ekki öll sögð.  Vinstri-grænir munu ekki þora í Alþingiskosningar án þess gera tilraun til að klóra yfir skítinn úr sér.  Þeir munu þess vegna stöðva samningaferlið áður en það verður leitt til lykta.  Þetta hefur aldrei gerzt í sögu ESB og mun verða litið svo alvarlegum augum þar á bæ, að það mun líða langur tími þar til ráðherraráðið samþykkir að taka upp þráðinn að nýju.  Kjósendur á Íslandi munu þannig ekki fá að tjá sig í beinum kosningum um þetta mál í þessari lotu, og er það miður.

Vinstri stjórnin mun með þessum hætti gera út af við orðstýr Íslands hjá ESB um alllanga hríð og gera öll samskipti við Brüssel mjög stirð, og var þó ekki á það bætandi.  Þessi óláns málatilbúnaður og rót vinstri flokkanna, sem aldrei hefur verið treystandi fyrir horn í utanríkismálum, getur gengið af EES (Evrópska efnahagssvæðinu) dauðu, þannig að Ísland verði að leita sérsamninga við ESB, eins og Svissland hefur. 

Það er alveg áreiðanlegt, að 16. júlí 2009 mun verða talinn sögulegur dagur, en það er spá höfundar, að atburðir dagsins marki ekki upphafið að inngöngu Íslands í ESB, heldur upphafið að miklum vandræðum í samskiptum landsins við ESB, sem leiða muni til þess, að við munum kappkosta að efla vinfengi og viðskipti við aðra. 

Samfylkingin hefur gengið fram af dæmalausu offorsi á þessu dýrðarinnar íslenzka sumri.  Hún hefur með framferði sínu rekið nagla í líkkistu vinstra samstarfs í stjórnarráði Íslands.  Nú er komið að henni að taka út innistæður sínar í Brüssel, sem margir efast um, að nokkrar séu, og sýna þær landsmönnum.  Ef hún getur það ekki, er betra fyrir stjórnmálamenn þar á bæ að fara strax að biðja bænirnar sínar.  

   

 

 


Farsi

Nýjasti skrípaleikur vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur nefnist Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB.  Meirihluti hennar í utanríkismálanefnd Alþingis hefur samþykkt heimild henni til handa um gjörninginn að viðlögðum svo nefndum vegvísi, þar sem kveðið er á um áframhaldandi óskoruð stjórnunarleg yfirráð íslenzkra stjórnvalda á nýtingu auðlinda í efnahagslögsögu Íslands til lands og sjávar. 

Meirihluti vinstri flokkanna í utanríkismálanefnd þorði ekki að semja umsóknarskjal með ófrávíkjanlegum skilyrðum varðandi óskoraðan fullveldisrétt Íslands yfir auðlindum, sem nú eru alfarið háðar ákvörðun Alþingis um nýtingu.  Það er vegna þess, að ráðherraráð ESB hefði líklega talið slíkt skjal vera móðgun við sig og lítt svaravert.  Svo ósamrýmanlegar eru þessar kröfur sáttmálunum, sem ESB er reist á, en Samfylkingin virðist gefa lítið fyrir. 

Þessi tvískinnungur vinstri flokkanna á Alþingi bíður hættunni á afsali eignarréttinda heim og er ein af ástæðum þess að vísa á þessu umsóknarmáli beint til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar, enda er það vanreifað.

Ef málið væri þannig vaxið, að líklegt þætti, að stækkunarstjóri ESB og samninganefnd hans mundi ganga að kröfum Íslendinga um nokkurn veginn óbreytt stjórnunarfyrirkomulag á sjávarútvegs-og landbúnaðarmálum hérlendis frá því sem verið hefur og það væri ótímasett fyrirkomulag, þá hlyti ESB jafnframt að hafa fallizt á sams konar kröfur Norðmanna í samningaviðræðum 1972 og 1994, og Norðmenn væru fyrir löngu komnir með fulla aðild að ESB. 

Svo er hins vegar ekki, og þess vegna mun Össur, endist honum embættisferill í utanríkisráðuneytinu svo lengi, koma heim með skottið á milli fótanna og leggja fyrir þingið samning, sem verður ekki frekar í samræmi við téðan vegvísi en Icesave-samningurinn er í samræmi við grunnviðmið Alþingis í þeim efnum frá 5. desember 2008.  Þetta viðmið var þó reist á sáttatillögu Frakka, sem þá fóru með formennsku í ráðherraráði ESB, svo að óskiljanlegt er, hvernig íslenzka samninganefndin lét leiða sig á algerar villigötur, eins og fjölmargir, leikir jafnt sem lærðir, hafa sýnt fram á með haldgóðum rökum. 

Nú síðast gaf yfirlögfræðingur Seðlabankans þingnefnd skýrslu, sem sýndi fram á hættulega veikleika í samninginum, sem auðveldar gagnaðila aðför að eigum íslenzka ríkisins.  Þetta álit hentaði hins vegar ekki rétttrúnaðarboðun ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem í anda valdhafanna í Austur-Evrópu, undir járnhæl sameignarstefnunnar ógurlegu þar forðum tíð, kúgaði Seðlabankann til að afneita eigin faglega mati. 

Hvaða heilvita manni dettur í hug, að Seðlabankinn geri fulltrúa sinn út af örkinni til Alþingis með persónulega skoðun sína á samninginum um ríkisábyrgð Tryggingarsjóðs ?  Skoðanakúgun ráðstjórnarinnar leynir sér ekki, heldur færist nú öll í aukana með vaxandi örvæntingu hennar.

AlþingishúsiðÞað eru fleiri ástæður til þess að leggja spurninguna um aðildarumsókn til ESB fyrir þjóðina. 

Ríkisstjórnin þarf ríkari heimildir til að semja um og skrifa undir samning um fullveldisafsal en þær heimildir, sem Alþingi getur veitt.  Úr því að Stjórnarskráin í sinni núverandi mynd leyfir þetta ekki, þarf ríkisstjórnin að taka af allan vafa um umboð sitt í málinu með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Orðhengilsháttur sumra þingmanna Samfylkingar um, að þetta sé atkvæðagreiðsla um atkvæðagreiðslu, ber vott um virðingarleysi þeirra fyrir Stjórnarskránni og lýðræðislegum stjórnarháttum. Kostnaðurinn verður aðeins tíundi hluti umsóknarkostnaðar, og vonandi sparast þá 9/10.   

Þriðja ástæðan fyrir  þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn eða ekki umsókn er, að kostnaður ríkisins af umsókn er tilfinnanlegur á tímum nauðsynlegs sparnaðar á öllum sviðum ríkisrekstrarins. 

Kostnaðurinn er þar að auki stórlega vanáætlaður að mati sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, en á hans ráðuneyti mun álagið stóraukast vegna umsóknarinnar.  Eins og rakið er hér að ofan, er líklegast, að hér verði um sóun á fé skattborgaranna og tíma ráðuneytanna að ræða, því að aðildarsamningur verður ekki síður óaðgengilegur Íslendingum árið 2011 en hann reyndist Norðmönnum árið 1994, sem felldu samninginn í trássi við Stortinget í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Öflugt ESB-trúboð er rekið á Íslandi.  Eins er víst og tvisvar tveir eru fjórir, að þetta trúboð mun ganga hart fram um, að Íslendingar samþykki samninginn, hvert svo sem innihald hans verður, enda sé búið að eyða miklu fé og orku í gerð hans að beggja hálfu. 

Evrópu-trúboðið mun líta á það sem hneisu fyrir ESB, ef Íslendingar hafna inngöngusamningi, enda fáheyrt, þar sem fordæmi er aðeins frá Noregi um slíkt.  Það getur orðið mjótt á mununum í þjóðaratkvæðugreiðslu þá, og þá er illt að þurfa að treysta á túlkun vinstri flokkanna á Alþingi á lýðræðinu.  Það er með öðrum orðum óviðunandi, að þjóðaratkvæðagreiðslan verði í lokin aðeins ráðgefandi, en ekki bindandi fyrir Alþingi. 

Það er þess vegna þörf á stjórnarskráarbreytingu, sem tryggir með einum eða öðrum hætti, að fram kominn þjóðarvilji sé virtur.  Þetta sé einhlítt, ef hreinn meirihluti atkvæðisbærra manna er annars vegar, en aukinn meirihluti á Alþingi, t.d. 2/3, geti snúið ákvörðun minnihluta atkvæðisbærra manna við í máli, sem þó hafi hlotið flest atkvæði.

Dæmi um ofangreint trúboð er að finna í grein Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, "ESB eykur efnahagslegt öryggi", í Fréttablaðinu 7. júlí 2009.  Baldur gefur í skyn, að hag Íslands væri nú betur komið, ef Ísland hefði verið fullgildur aðili að ESB, þegar Hrunið varð.  Hér er um makalausan áróður að ræða.  Þvert á móti má fullyrða, að þátttaka Íslands í innri markaði ESB, sem tryggir frjálst flæði fjármagns, fólks, vöru og þjónustu innan EES, hafi gert bönkunum íslenzku kleift að hasla sér völl í Evrópu.  Án innri markaðarins hefði útþensla bankakerfisins íslenzka, með gegndarlausum lántökum og innlánsreikningum erlendis, tæpst leitt til hruns fjármálakerfisins á Íslandi við fall "Lehman Brothers".  Gallinn við innri markaðinn var m.a. sá, að ekkert sameiginlegt fjármálaeftirlit var til fyrir hann, og tilskipun eða forsögn ESB um tryggingarkerfi innistæðueigenda var vanhugsuð. 

Óþarft er að taka fram hér, að við lögleiðingu tilskipunar um Tryggingarsjóð innistæðna á Íslandi 1999 var sérstaklega tekið fram á Alþingi, að engin ríkisábyrgð fylgdi þessum sjóði að hálfu Íslands.   Hvað ráðherrar sögðu eða skrifuðu í andnauð í kjölfar Hrunsins, þegar bankakerfi Evrópu nötraði, breytir engu um þennan grundvöll löggjafarinnar, því að enginn getur skuldbundið íslenzka skattgreiðendur, nema Alþingi.  Klúður vinstri stjórnarinnar, að taka á sig ábyrgð á greiðslum allt að kEUR 20 per innistæðu með alræmdri undirskrift afarkosta í anda Versala 1919, eru mestu stjórnvaldsmistök á lýðveldistímanum.   

Evrópubankinn, ECB, gegnir ekki hlutverki til þrautavara fyrir bankana á evru-svæðinu, hvað þá annars staðar í ESB.  Það er hlutverk seðlabanka hvers ríkis.  Frakkar höfðu hug á því haustið 2008, er þeir höfðu 6 mánaða forystu fyrir ráðherraráði ESB, að ESB hlypi undir bagga með bönkum innan ESB í sameiginlegu átaki.  Þýzki seðlabankinn, Die Bundesbank, taldi óeðlilegt, að þýzkt sparifé yrði notað til að bjarga eyðsluseggjum Evrópu, og þýzka ríkisstjórnin, með kristilega demókratann Angelu Merkel í broddi fylkingar, stöðvaði þessi áform, enda hafði þýzka þjóðin lagt hart að sér við að endurheimta yfirburðastöðu á útflutningsmörkuðum, sem hún hafði með sínu D-marki.  Að hjálpa þeim, sem makað höfðu krókinn á tímum eignabólunnar, sem að mestu fór framhjá Þýzkalandi, hefði fallið í grýttan jarðveg á meðal þýzkra kjósenda, sem velja nýjan Bundestag, neðri deild þýzka þingsins, nú í haust, 2009.

Af öllum þessum ástæðum verður ekki séð, að orðagjálfur eins og "ESB veitir margs háttar efnahagslegt öryggi" (hortitturinn er téðs prófessors í stjórnmálafræði) sé meira en innantóm orð.  Í þessum efnum er hver þjóð sjálfri sér næst og sinnar eigin gæfu smiður.

  

 

 

 


Taglhnýtingar

Vinstri hreyfingin grænt framboð á eftir að hljóta makleg málagjöld í næstu kosningum fyrir að láta Jóhönnu & Co. handjárna sig á Alþingi.  Þingflokkur VG gerði svo víðtæka fyrirvara við stuðning við þingsályktun um umsókn um aðild að ESB (Evrópusambandinu) við gerð stjórnarsáttmálans, að ætla mátti, að þingmenn VG  hefðu til þess frelsi að starfa að þessu máli á Alþingi að eiginn geðþótta. 

Virðingarleysi vinstri stjórnarinnar, seinna ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur, gagnvart Alþingi er svo yfirþyrmandi, að hún hótar stjórnarslitum, ef þingmenn VG vinna á Alþingi með þeim hætti, sem ekki þóknast Jóhönnu.  Þetta er mikil ósvífni af aldurhniginni Jóhönnu gagnvart yngsta þingmanninum.  Að vinstri grænir skyldu hins vegar láta Samfylkinguna svínbeygja sig með þessum hætti vitnar um, að þeir eru taglhnýtingar í þessu stjórnarsamstarfi. 

Hótun Samfylkingarinnar var algerlega innantóm.  Að rjúfa þetta vonlausa stjórnarsamstarf af þeirri ástæðu, að þingmaður VG ynni að breytingartillögu við tillögu ríkisstjórnarinnar, hefði skapað Samfylkingunni gjörtapaða vígstöðu.  Þó að dómgreindarlítil sé, hefur henni ekki verið alvara með þessari hótun. 

Vart hefur nokkur kjósandi VG léð henni atkvæði sitt til að verða taglhnýtingur Samfylkingarinnar.  Þessi málsmeðferð í aðdraganda umsóknar ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB ber með sér feigðarboða fyrir báða stjórnmálaflokkana, sem að ráðstjórninni standa. 

Ef svo fer fram sem horfir, að ráðstjórnin ætli að synja þjóðinni þess að tjá sig um það, hvort sækja eigi um ESB með kostnaði, sem er margfaldur (sennilega tífaldur) kostnaði við slíka atkvæðagreiðslu, mun koma harkalega niður á Samfylkingu og Vinstri-grænum í næstu sveitarstjórnarkosningum og þingkosningum.  Kjósendur munu gjalda ráðstjórninni gráan belg fyrir svartan. 

'OeirðirRöksemdir Samfylkingar fyrir brýnni nauðsyn umsóknar nú í júlí 2009 eru ósannfærandi, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.  Þau boð hafa komið frá Berlín, að ESB verði ekki stækkað fyrr en Lissabon-sáttmálinn hefur verið samþykktur af öllum núverandi aðildarríkjum.  Hvort svo verður 2009 er óvíst.  Ef Íhaldsflokkurinn brezki flæmir hina vonlausu jafnaðarmenn frá völdum í Lundúnum áður en ESB nær að lögtaka þennan sáttmála, þá mun Íhaldsflokkurinn í ríkisstjórn halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hann á Stóra-Bretlandi.  Næsta víst er talið, að Bretar muni þá fella hann.  Þar með verður "allt upp í loft" í BrüsselSvíar hafa engin tök á að fara með Ísland á hraðferð inn í ESB, þó að ekki skuli gera lítið úr hinni borgaralegu ríkisstjórn Svíþjóðar og forystu Reinfeldts fyrir ráðherraráðinu í Brüssel. Dómgreindarleysi Samfylkingarinnar virðist tröllríða öllum málum, sem hún kemur nálægt. 

Samfylkingin heldur því fram, að umsókn skipti sköpum fyrir þróun efnahagsmála á Íslandi.  Umsókn muni t.d. styrkja gengi krónunnar.  Þetta eru hugarórar einberir.  Vitað er, að þjóðartekjur á mann eru miklu hærri á Íslandi en að meðaltali í ESB og svo mun ætíð verða.  Þar af leiðandi mun Ísland, eins og önnur lönd yfir þessu meðaltali, þurfa að greiða meira til ESB en það fær.  Mismunurinn gæti numið um 10 milljörðum kr á ári að lágmarki.  

Evrópubankinn (ECB) í Frankfurt er sjálfstæður gagnvart ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB, og hann ver evruna með kjafti og klóm.  Það hefur komið í ljós gagnvart nýjum ESB-ríkjum við Eystrasalt og í Mið-og Austur-Evrópu, að ECB gefur ekki þumlung eftir í kröfum sínum um uppfyllingu allra Maastricht-skilyrðanna fyrir upptöku evru.  ECB veitir ekkert fordæmi, sem herma má upp á hann í þessum efnum.  Þar gildir einu, þó að undanþága til Íslands mundi engu breyta um peningalegan styrk evrunnar.  Evran á í vök að verjast vegna þess, að evru-lönd Suður-Evrópu hafa fallið á Maastricht-prófunum að undanförnu.  Þetta kemur þannig út fyrir þau, að vextir á ríkisskuldabréfum þessara landa eru um tvöfalt hærri en vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins.  Íslenzka efnahagskerfið er nú og verður næstu misserin fjarri því að ná nokkru prófi Evrópubankans.  Umsókn og innganga í ESB breytir engu þar um.  Þetta vita matsfyrirtæki lánshæfis og aðilar á gjaldeyrismarkaði.  Samfylkingin er gjörsamlega "úti á túni" í öllu, er lýtur að ESB, og utanríkisráðherra hennar er engan veginn treystandi til að fara með stjórn umsóknarferlisins fyrir Ísland.  Sporin frá "Icesave" hræða.  

Segja má, að nú sé fráleitasti tíminn til að senda umsókn til Brüssel.  Ástæðurnar má rekja til ástandsins í ESB og á Íslandi, eins og rakið hefur verið hér að ofan.  Alþingi á hiklaust að veita þjóðinni kost á að staðfesta eða að hafna þessu mati.   


Hagsmunagæzla í skötulíki

Hagsmunagæzla utanríkisráðuneytis Íslands gagnvart Bretum og Evrópusambandinu (ESB) síðan í Hruninu haustið 2008 nær ekki máli.  Engu er líkara en heybrækur einar véli þar um, eftir að flokkurinn með stóra rauða núllið í táknmynd sinni tók við völdum í utanríkisráðuneytinu. 

Bólvirki gegn öfgumSkýr lögfæðileg rök eru fyrir þeim málstað Íslands, að ríkissjóði landsins beri engin lagaleg skylda til að standa straum af greiðslum til innistæðueigenda svo nefndra "Icesave" reikninga.  ESB hefur skýrar stjórnmálalegar og fjármálastöðugleika ástæður til að kúga okkur Íslendinga til hlýðni við þá stefnu, að ríkissjóður heimalands viðkomandi banka greiði það, sem á vantar, þegar tryggingasjóður innistæðureikninga verður upp urinn.  Öruggt er, að harðdrægir samningamenn ESB nýta sér þann veikleika, að forystusauðir í ríkisstjórn Íslands ganga með grasið í skónum á eftir ESB pótintátum. 

Íslendingar hafa lengi lagarefir verið, og nú blasir það við öllum, nema íslenzka utanríkisráðuneytinu, að sterkasti leikurinn í stöðunni er þessi:

Stefna framkvæmdastjórn ESB fyrir rétt vegna brota gegn Íslandi á grundvelli rangtúlkunar á eigin lögum og reglum.  Að framlagðri stefnu getum við síðan boðizt til að ganga til viðræðna um greiðslufyrirkomulag Icesave reikninganna, þar sem í boði yrði samkomulag um að fella niður málssóknina gegn niðurfellingu krafna á hendur íslenzka ríkinu varðandi innistæðureikninga erlendis. 

Ríkisstjórnin, og þá sérstaklega utanríkisráðherra hennar, skuldar þjóðinni skýringu á doða þeim og drunga, sem einkennt hefur hagsmunagæzlu ráðuneytisins fyrir Íslands hönd gagnvart ESB.  Er það að sannast á Samfylkinguna, að hún taki hagsmuni ESB fram yfir hagsmuni Íslands ?  Slíkt háttarlag varðar stefnu viðkomandi ráðherra fyrir Landsdóm.  Eða er þrælslundin svo djúpstæð, að Samfylkingin þori ekki að styggja "væntanlega" viðsemjendur sína og herra í Brüssel ?

Tveir mikils metnir lögfræðingar, Lárus L. Blöndal, hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson, prófessor,  hafa í vetur verið óþreytand við að vekja máls á ótvíræðri og sterkri réttarstöðu Íslendinga með greinum í Morgunblaðinu, sem vakið hafa mikla athygli.  Í grein sinni, "Í hvaða liði eru stjórnvöld", þann 3. marz 2009, vitna þeir til skýringa utanríkisráðherra á aðgerðaleysi sínu:

"...þungvæg lögfræðileg rök eru talin hníga að því að túlka tilskipunina um innistæðutryggingar þannig að íslenska ríkið verði að hlaupa undir bagga með tryggingasjóðinum til að greiða lágmarkstryggingar ...".  

Það er skýlaus réttur okkar, íslenzkra skattgreiðenda, að utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, svipti þetta mál leyndarhulunni, sem Samfylkingin hefur hjúpað "Icesave" málin.  Við eigum heimtingu á aðgangi að þessum upplýsingum til að bera saman rök lögfræðinganna Stefáns og Lárusar og "hin þungvægu lögfræðilegu rök" Samfylkingarinnar.  Á meðan ekki verður orðið við þessari eðlilegu kröfu, má álykta, að Samfylkingin sé að hylja tómlæti sitt gagnvart hagsmunum íslenzku þjóðarinnar, þegar hagsmunir ESB eru annars vegar. 

Talsmenn Samfylkingar halda því fram, að Íslendingar verði útskúfaðir í alþjóða samfélaginu, ef þeir krjúpa ekki við stall ESB og láti óbilgirni þess yfir sig ganga.  Þetta er sjónarmið lítilþægrar minnimáttar kenndar, sem mótast af ótta við umhverfi sitt.  Að neita að borga og að beita hvorki vörnum né gagnsókn af neinu tagi felur í sér hættu á ófarnaði, en "barátta Davíðs við Goliat" mun leiða til árangurs í þessu máli eins og oft áður.  Hversu mikill árangurinn verður, veltur algerlega á þeim mönnum, sem valdir verða til þessara verka.  Í þessa baráttu þarf úrvalsteymi lögfræðinga, hagfræðinga og kynningarfólks.  Af alkunnri víðsýni sinni og faglegum viðmiðunum skipaði fjármálaráðherra fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins og núverandi sendiherra til að fara fyrir þessu mikilvæga teymi.  Núverandi stjórnvöld landsins glóra greinilega ekki í, hvað hér þarf til.

Í téðri Morgunblaðsgrein sinni spyrja lögfræðingarnir: "Getur það staðist að fyrirtæki séu starfrækt víða um heim á ábyrgð íslenska ríkisins án þess að ríkið sjálft hafi nokkuð um það að segja ?".  Þeir svara þessari lykilspurningu skýlaust neitandi og færa fyrir svarinu greinileg lögfræðileg rök.  Síðan skrifa þeir: "Í svari utanríkisráðherra kemur fram að það sé sameiginleg afstaða allra ESB ríkjanna auk Noregs að það séu fráleit lögfræðileg rök að ábyrgð á innistæðum takmarkist við eignir tryggingasjóðanna.  Í beinu framhaldi segir að málarekstur þar sem látið yrði á þetta reyna væri til þess fallinn að grafa undan, jafnvel kollvarpa trausti á fjármálakerfi Evrópu.  Þau rök eru nokkuð örugglega góð og gild.  Þau eru hins vegar hvorki lögfræðileg né fá þau samrýmst hagsmunum Íslands.".  

 Í þessum kjarna máls eru fólgin tækifæri Íslands til að rétta hlut sinn, ef stjórnvöld reka af sér slyðruorðið.  Það er þó augljóslega borin von, nema algerlega verði söðlað um í stjórnarráði Íslands.  Þar þarf að sópa lyddunum út.   

Þróun á gengi sterlingspunds-2009-02-12Komið hefur fram, að hávaxta netinnlánsreikningar í útibúum Landsbankans á Bretlandi, sem starfræktir voru undir markaðarheitinu "Icesave", urðu um 300 000 áður en yfir lauk, og heildar innlán numu um GBP 4 milljörðum eða um ISK 630 milljörðum á gengi 13.03.2009.  Nokkru síðar gerði Landsbankinn sams konar strandhögg í  Hollandi, þar sem 125 000 aðilar létu ánetjast og lögðu inn um EUR 1,7 milljarð að jafngildi um ISK 240 milljarða.  Alls eru þetta ISK 870 milljarðar.  Samkvæmt þeim reglum, sem  ESB vill hengja sig í, ber eftirlitsaðili í heimalandi bankans ábyrgð á eftirliti með útibúum og ábyrgist að lágmarki kEUR 20,887 per reikning.  Fyrir FME mundi þetta þýða alls EUR 8,9 milljarða (ISK 1,4 trilljónir eða 1 x VLF) eða hærri upphæð en í raun er um að tefla. 

Um þetta segir í "Hagkerfi bíður skipbrot", eftir hagfræðingana Jón Danélsson og Gylfa Zoega: "Heimild til að opna innistæðureikninga í tilviki Icesave sýnir að misbrestir eru í ákvarðanatökuferli eftirlitsaðila á Íslandi og í viðkomandi löndum, Bretlandi og Hollandi, og í reglugerðum ESB/EES.  Eftirlitsaðilum í löndunum þremur hefði mátt vera ljósar hætturnar og áttu að bregðast við til að hindra hina öru útþenslu Icesave.  Þegar upp er staðið var það eftirlitið sem brást.  Sú hugmynd að þjóð með 300 þúsund íbúa geti borið ábyrgð á innlánatryggingu af þeirri stærðargráðu sem innlán Icesave fólu í sér er fjarstæðukennd.".  

Með öðrum orðum var brotalöm í reglum EES og eftirliti innan þess.  Ísland stóð við allar reglur EES um stofnun tryggingasjóðs innistæðureikninga.  Hið lögfræðilega álitaefni fjallar um, hvernig á að fara með mismun ISK 870 milljarða og andvirðis tryggingasjóðsins, sem vantar upplýsingar um.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands sá snemma árs 2008, eða jafnvel fyrr, ástæðu til að semja viðbúnaðaráætlun til að grípa til, ef bankarnir færu í þrot.  Þess vegna hélzt lágmarks banka-og gjaldeyrisþjónusta hér við lýði, þó að yfir 80 % fjármálakerfisins hryndi.  Ekki er grunlaust um, að ríkisstjórnin hafi verið óviðbúnari og ekki átt í fórum sínum vel ígrundaða viðbúnaðaráætlun.  Neyðarlögin í októberbyrjun 2008 gáfu rétti innlendra innistæðueigenda forgang umfram aðrar kröfur.  Þar með voru t.d. erlendir innistæðueigendur íslenzkra bankaútibúa erlendis settir skör lægra í kröfuréttindum.  Hið lögfræðilega viðfangsefni snýst öðrum þræði um að sýna fram á lögmæti þess gjörnings að alþjóða rétti. 

Ástæða er til að halda, að utanríkisráðuneyti Íslends hafi algerlega gugnað við að kynna forsendur og markmið þessarar lagasetningar í Stóra-Bretlandi.  Ætla má, að frysting eigna Landsbankans á Englandi með beitingu hryðjuverkalaga og yfirtaka Fjármálaeftirlits Englands á Kaupþingi í Englandi með beitingu sérákvæðis laga frá 2008, hafi átt rætur að rekja til setningar Neyðarlaganna á Íslandi.  Um þessi Neyðarlög má segja, að allt orkar tvímælis þá gert er, en draga hefði mátt úr neikvæðum afleiðingum þeirra og þar með eignatapi með vandaðri viðbúnaðaráætlun, reistri á áhættugreiningu.  Hrunið kom á þingheim sem "julen på kjerringa", eins og Norðmenn taka gjarnan til orða, þegar einhver er tekinn í bólinu. 

 

 


Mea Culpa

Þannig tóku Rómverjar til forna til orða, þegar þeir öxluðu ábyrgð: "Mea Culpa - sökin er mín".  

Á Íslandi hrundi fjármálakerfið haustið 2008 vegna mistaka, sem margir eiga sök á.  Þingmenn axla sína ábyrgð með stjórnmálalegum hætti, bankamenn og viðskiptamenn munu sumir þurfa að axla ábyrgð í dómssölum, og hið sama kann eiga við um embættismenn.  Þjóðin þarf að draga sína lærdóma af því, sem gerzt hefur, til að geta reist heilbrigðara, farsælla og traustara þjóðfélag á grundvelli framleiðslu raunverulegra verðmæta.  Hlutverk ríkisvaldsins er ekki að eiga atvinnulífið, heldur að veita forystu um stefnu, sem laðar að erlenda fjárfesta til fjárfestinga í atvinnuskapandi starfsemi.  Við eigum að velja okkur Alþingismenn, sem líklegastir eru til að rífa okkur sem hraðast upp úr atvinnuleysisbölinu án þess að steypa okkur og komandi kynslóðum í enn frekari skuldir. 

Enn eru aðgengilegar upplýsingar um bankahrunið í september-október 2008 á Íslandi af mjög skornum skammti.  Þess vegna eru ekki öll kurl komin til grafar.  Gera verður miklar kröfur til rannsóknarnefndar Alþingis, sem skila á af sér síðla árs 2009, og hins sérstaka saksóknara afbrotamála, er varða Hrunið með einhverjum hætti.  Erlendis er ekki tekið neinum vettlingatökum á slíkum málum, og ef fuglinn Fönix á að hefja sig til flugs úr rústunum, verður að gera hreint.  Samt er nú unnt að gera sér grein fyrir aðalatriðum og að draga ályktanir til bráðabirgða. 

Tveir háskólakennarar, Jón Daníelsson og Gylfi Zoega, eiga heiður skilinn fyrir ritgerð sína, "Hagkerfi bíður skipbrot", sem þeir birtu þann 9. febrúar 2009, og varpar ljósi á Hrunið, aðdraganda og eftirleik.  Verður mjög stuðzt við téða ritgerð með beinum tilvitnunum í þessari vefgrein.

EfnahagskreppurSkuldinni af Hruninu hefur verið skellt á frjálshyggju, sem Sjálfstæðisflokkurinn er sagður hafa komið á á Íslandi í stjórnartíð sinni 1991-2008.  Þetta er tóm bábilja.  Þar sem frjálshyggja ríkir, eru opinber afskipti lítil.  Hér á landi var hlutdeild hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, stór á þessu tímabili og tók til sín a.m.k. 40 % af VLF (verg landsframleiðsla). 

"Íslenska hagkerfið hefur verið miðstýrðara og stjórnast í meira mæli af pólitískum öflum en hagkerfi flestra vestrænna ríkja.  Efnahagsstjórnin hefur þannig byggst fremur á brjóstviti en reglum og náin tengsl verið á milli fyrirtækja í einkageira og stjórnmálaflokka". 

Þannig var Ísland langt á eftir V-Evrópu í hagstjórn og velmegun, þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnartaumunum 1991.  "Í tímans rás hefur dregið úr miðstýringu hins opinbera á hagkerfinu.  Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í upphafi 10. áratugar síðustu aldar markaði þáttaskil.  Hún fól í sér að Ísland fékk aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og tók upp evrópskar reglugerðir.  Hins vegar var ekki reynt sem skyldi að styrkja lykilstofnanir þjóðfélagsins, t.a.m. Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið"

Það, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 gerði, var í höfuðdráttum að innfæra frelsin fjögur á Íslandi, þ.e. frjálsan flutning fjármagns, vöru, fólks og þjónustu á Íslandi gagnvart ESB, og í raun að opna Ísland gagnvart heimsvæðingu viðskiptanna.  Því fer fjarri, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi innleitt meira frelsi á Íslandi en tíðkaðist annars staðar í Evrópu.  Verið var að laga Ísland að Evrópu. 

Eins og fram kemur í ritgerð háskólakennaranna, var þess hins vegar ekki gætt að styrkja eftirlitsstofnanirnar til að veita hinu aukna frelsi aðhald.  Í næstu ríkisstjórn á eftir, stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, steig viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins meira að segja það ógæfuspor að fordæmi Gordons Browns, þáverandi fjármálaráðherra Verkamannaflokksins á Stóra-Bretlandi, að skilja að starfsemi fjármálaeftirlits og Seðlabanka.  Ný lög um Seðlabanka Íslands frá febrúar 2009, sem eru hrákasmíði frá upphafi til enda, hefðu betur sameinað þessar tvær stofnanir í eina að nýju. 

"Einkavæðingu bankakerfisins var lokið í upphafi þessa áratugar.  Bankarnir lentu í höndum aðila sem voru reynslulitlir þegar kom að nútíma bankastarfsemi og færðu sér fljótt í nyt þá lausafjárgnægð sem var á alþjóðlegum mörkuðum.  Afleiðingin var mikil skuldsetning fyrirtækja og ör vöxtur bankakerfisins."  Þess ber að geta hér, að ríkisbankarnir íslenzku voru illseljanlegar eignir, og t.d. fékkst enginn alvöru fjárfestir erlendur til að gera tilboð í þá.  Launahvatar reistir á skammtímamarkmiðum og áhættustýring reist á ábyrgðarleysi og þekkingarleysi ásamt stórhættulegum krosseignatengslum áttu eftir að blása bankana út og reisa stórveldi á brauðfótum.  Ljóst var þegar á árinu 2006, að þessi "pilsfaldakapítalismi" var dæmdur til að hrynja við minnsta mótblástur.  Til þess eru vítin að varast þau.

"Í raun var sú ákvörðun tekin að byggja efnahagslega framtíð landsins á alþjóðlegri bankastarfsemi án þess þó að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.  Þetta leiddi til þess að á endanum stóðum við uppi með bankakerfi sem var langtum stærra en svo að íslenzka ríkið gæti stutt það kæmi til eiginfjár-eða greiðsluhæfisvandræða."  Stærðin ein og sér hefði átt að duga til að knýja stjórnvöld til gagnráðstafana.  Allir stjórnmálaflokkar og forseti lýðveldisins virðast hafa verið hallir undir hið nýja hagkerfi bankajarlanna og annarra útrásarvíkinga með einum eða öðrum hætti, eins og glögglega kom fram í REI-málinu 2006-2007, en þar stöðvaði reyndar borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins, með núverandi borgarstjóra í broddi fylkingar, stórslys, þar sem óreiðumenn voru komnir með klærnar í eigur Orkuveitu Reykjavíkur. 

"Með því að takast ekki á við yfirvofandi fall bankakerfisins, e.t.v. í von um að óstöðugleikinn myndi hverfa, verður ekki hjá því komist að álykta að íslensk yfirvöld hafi veðjað á að bankarnir myndu lifa hremmingarnar af, og tapað.  Ef yfirvöld hefðu brugðist við með varkárari hætti þá væri hagkerfið ekki eins illa leikið og það er nú." 

"Peningastefnan átti einnig hlut að máli.  Allt frá vordögum árið 2001 þá hefur verðbólgumarkmiði verið fylgt við stjórn peningamála.  Sú aðferðarfræði hefur ekki staðist væntingar við að ná niður verðbólgu en hátt vaxtastig hefur hvort tveggja hvatt innlend heimili og fyrirtæki til skuldsetningar í erlendri mynt og laðað að fjármagn spákaupmanna sem vildu stunda vaxtamunarviðskipti hér.  Mikið innflæði fjármagns fylgdi í kjölfarið og þótt heildarupphæðin sé ekki þekkt virðist sem hún hafi numið meira en 50 % af VLF.  Það verður ekki séð hvers vegna þetta vakti ekki áhyggjur yfirvalda." 

Alþingi setti Seðlabankanum verðbólgumarkmið að hámarki 2,5 %.  Bankinn var bundinn í báða skó.  Þegar séð var til hvers verðbólgumarkmiðið leiddi efnahagskerfi landsins eigi síðar en árið 2006, átti Alþingi að söðla um og setja bankanum nýtt markmið, t.d. um, að viðskiptaójöfnuður mætti ekki fara undir -5 % af VLF og yrði að vera yfir 5 % að meðaltali á 5 ára skeiði.  Hefði þetta verið gert, hefði bankinn spornað gegn hækkun krónunnar með því að selja krónur og efla gjaldeyrisvarasjóðinn.  Viðskiptahallinn hefði þá ekki náð 25,4 % árið 2006, sem er hið mesta, sem þekkist á Vesturlöndum, og vexti hefði ekki þurft að hækka upp úr öllu valdi síðar til að verja gengið.

Atvinnuleysi í nokkrum löndum-2009-02-12

Hér að ofan hefur verið dregin upp mynd af Hruninu, sem varpar ljósi á hina augljósu sökudólga.  Hér er átt við þá, sem staðið hafa að glórulausum gjörningum, sem engan veginn er unnt að flokka til eðlilegra viðskiptahátta og voru til þess fallnir að grafa undan fjármálakerfi Íslands, og hina, sem áttu að standa vörð um hagsmuni almennings á Íslandi, en höfðu ekki erindi sem erfiði eða létu það hreinlega undir höfuð leggjast. 

Stjórnendur og helztu eigendur bankanna breyttu fjármálakerfinu í spilavíti, sem var fallið að fótum fram löngu áður en Lehman Brothers féllu.  Téðir ritgerðarhöfundar skrifa um "ofvaxið og óþroskað bankakerfi".  "Í heildina nam eignahlið efnahagsreiknings þriggja stærstu bankanna nífaldri VLF í lok ársins 2007, sem var mikil breyting frá því sem var árið 2004 þegar eignir bankanna og VLF voru af svipaðri stærðargráðu.  Þessi útþensla var nánast alfarið keyrð áfram með erlendri lántöku."  Stærðin varð þeim að falli, því að lokum sáu lánadrottnarnir erlendu, að enginn gat komið þeim til hjálpar, ef á bjátaði.  Þá voru öll sund lokuð.

Það, sem gerði þennan ótrúlega vöxt mögulegan, var sú breyting á reikningsskilareglum, sem forkólfar ENRON nýttu sér óspart, að færa mætti huglægan eða áætlaðan ávinning til óefnislegrar eignar, sem væri veðhæf.  Fjármálakerfið íslenzka minnti um margt á ENRON-hneykslið.  Þá vaknar spurningin, hvort forkólfarnir íslenzku muni mega sæta svipaðri meðferð handhafa laga og réttar og hinir bandarísku í sínu heimalandi ? 

Í Frakklandi hafa frá dögum frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789 starfað svo nefndir rannsóknardómarar að breyttu breytanda með afar ríkar rannsóknarheimildir.  Þar er ekki tekið neinum vettlingatökum á meintum efnahagsbrotamönnum, heldur beitt árangursríkum aðferðum og nútíma tækni til að koma höndum yfir illa fengið fé og fé í svo nefndu peningaþvætti.  Í stað þess að boða skattahækkanir á tekjur yfir meðallagi, sem er tröllheimskuleg tekjuöflunarferð "félagshyggjustjórna" í núverandi árferði, enda flestar þjóðir að lækka skatta til að létta undir með almenningi og örva atvinnulífið, væri henni nær að taka stefnuna á Brezku jómfrúareyjarnar og reyna að endurheimta eitthvað af glötuðum hundruðum milljarða íslenzkra króna. 

Það gefur auga leið, að sú ríkisstjórn, sem við völd var í aðdraganda Hrunsins, í því sjálfu og í kjölfarinu, ber mikla ábyrgð á atburðarásinni.  Þó ber að halda því til haga, að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald, heldur ber hver ráðherra óskoraða ábyrgð á sínum málaflokkum.  Þar af leiðandi er ábyrgð bankamálaráðherrans mest, en fleiri áttu að sjálfsögðu að koma við sögu.  Um þetta segir í téðri ritgerð: "Það er því okkar skoðun að stjórn og stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins ásamt öðrum yfirmönnum þar hafi vitað hvað var að gerast.  Á sama hátt hljóta allir ráðherrar ásamt yfirmönnum fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og forsætisráðuneytis að hafa vitað hvað átti sér stað.  Samt sem áður brást ríkisstjórnin ekki við.  Hún hefði á öllum tímapunktum getað tekið ákvarðanir sem hefðu mildað endanlega niðurstöðu.  Ef ríkisstjórnin hefði brugðist skynsamlega við væri hagkerfið í mun betri stöðu nú.  Með því að takast ekki á við yfirvofandi fall bankakerfisins, e.t.v í von um að óstöðugleikinn myndi hverfa, verður ekki hjá því komist að líta á sem svo að íslensk yfirvöld hafi veðjað á að endurlífgun bankakerfisins myndi eiga sér stað, en tapað." 

Ríkisstjórnin stakk með öðrum orðum höfðinu í sandinn og því fór sem fór.  Lengi hefur loðað við Samfylkinguna tilhneigingin til að sópa vandanum undir teppið og ætla öðrum að leysa hann.  Í stað þess að vera með eitt stórt rautt núll í flokksmerki sínu, ætti hún að taka upp mynd af  strútfuglinum.  

Ríkisstjórnin lét viðvaranir sem vind um eyrun þjóta.  "Takmarkað eftirlit og of stórt bankakerfi blöstu við hverjum þeim sem sjá vildi", skrifa hagfræðingarnir.  Innlendir og erlendir sérfræðingar og leikmenn bentu á alls kyns sjúkdómseinkenni íslenzka hagkerfisins.  Innlendir og erlendir sérfræðingar skrifuðu líka lengi vel um styrk íslenzka hagkerfisins og fjármálakerfisins.  "Til dæmis gaf fjármálastöðugleikaskýrsla Seðlabankans (apríl, 2008) til kynna að hagkerfið væri vel haldið.  Sér í lagi að bankarnir væru "vel í stakk búnir" og að fjármálakerfið væri "traust"." 

Það hefur komið fram, að eftir samtöl formanns bankastjórnar Seðlabankans við ríkisstjórnina leituðu ráðherrar eftir skoðun bankastjóra viðskiptabankanna á mati Seðlabankans.  Sögunni fylgir, að jafnan hafi ríkisstjórnin fengið þau svör, að allt væri í himnalagi.  Þetta er einhver slappasta stjórnsýsla, sem um getur.  Það er einkennilegt, ef ríkisstjórnin hefur ekki leitað umsagnar og ráða hjá stjórnendum og stjórn Fjármálaeftirlitsins, FME, varðandi fjölda viðvarana úr Seðlabankanum, SÍ.  Það er nauðsynlegt, að fram komi, hvernig stóð á því, að ríkisstjórnin lét reka fljótandi að feigðarósi. 

Seðlabanki Íslands var ótvírætt sjálfstætt stjórnvald samkvæmt fyrri lagabálki um hann.  Sá átti að tryggja sjálfstæði hans og trúverðugleika.  Hann laut hins vegar markmiðssetningar Alþingis um 2,5 % verðbólgu á ári.  Þetta markmið markaði gerðir hans og segja má, að þessi stjórnunarháttur hafi gefizt illa.  Höfundar margtéðrar ritgerðar telja einnig, að ýmislegt hafi farið úrskeiðis við stefnumörkun bankans og framkvæmd:"Seðlabankinn bar líka ábyrgð.  Seðlabanka Íslands ber lagaleg skylda til að tryggja fjármálastöðugleika.  Bankinn hefði getað byggt upp gjaldeyrisvaraforða og komið í veg fyrir hina gríðarlegu gengisstyrkingu.  Hann hefði getað hækkað bindiskylduna til þess að draga úr vexti útlána.  Bankanum ber skylda til að veita yfirvöldum og almenningi nákvæmar upplýsingar með útgáfu skýrslna um fjármálastöðugleika.  Formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur lýst því opinberlega yfir að hann hafi varað ríkisstjórnina við því að staða bankanna væri vonlítil nokkrum mánuðum fyrir hrunið en virðist lítið hafa aðhafst til að koma í veg fyrir hrunið.".  

Þessi orð hagfræðinganna beina athyglinni enn að aðgerðarleysi ríkisstjórnanna tveggja á tveggja ára skeiði fyrir Hrun og að því, að furðulítið samstarf virðist hafa átt sér stað á milli FME og SÍ.  Ef einhver samræmingaraðili var til um þeirra starf, var það ríkisstjórnin.  Aðskilnaður FME og SÍ í tíð viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins var til þess eins fallinn að veikja hið opinbera eftirlitskerfi.  Það er nauðsynlegt að semja ný lög um SÍ hið fyrsta, þar sem m.a. verði kveðið á um, að FME verði deild í bankanum og honum verði sett ný markmið, t.d. um viðskiptajöfnuð og/eða hagvöxt. 

Ótrúlega lítið hefur farið fyrir aðgerðum FME.  Um það hafa hagfræðingarnir þessi orð:"Það er algengt að þeim sem eiga að sæta eftirliti takist að vinna eftirlitsaðila á sitt band.  Þetta náði svo langt í tilviki fjármálaeftirlits hér á landi að sjálfur eftirlitsaðilinn tók þátt í markaðssetningu netinnlánsreikninga í Hollandi aðeins nokkrum mánuðum fyrir hrun bankans þegar það hefði mátt vera ljóst að Landsbankinn riðaði til falls.".   

Hér eru mikil firn á ferð, sem bera með sér, að stöðumat ríkisstjórnar og eftirlitsaðila hefur verið í skötulíki.  Er jafnvel ástæða til þess að kanna, hvort ofangreind tilvitnun feli í sér, að maðkur hafi verið í mysunni. 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband