Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Hviklyndi leiðir til kviksyndis

Hviklyndi ríkisstjórnarinnar stendur öllum málum fyrir þrifum, sem hún kemur nálægt.  Hún hefur jafnvel slegið úr og í varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna um staðfestingu eða synjun á þrælalögunum, sem hún þrælaði gegnum Alþingi í lok árs 2009, en forseti lýðveldisins synjaði staðfestingar.  Svo langt hefur hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar gengið, að oddviti hennar spurði á Alþingi, þegar minna en vika var til atkvæðagreiðslu, til hvers þessi atkvæðagreiðsla væri eiginlega. 

Segja má, að ekki verði á þessa ríkisstjórn logið.  Það er sama, hvaða asnastrik væri framið eða dómgreindarleysi sýnt, því væri trúandi á þessi endemis stjórnvöld landsins.  Hvers á Ísland að gjalda að sitja uppi með slíka hryggðarmynd í stjórnarráðinu, þegar hæst á að hóa ?  Ríkisstjórninni væri trúandi til að fremja hvaða heimskupör, sem hugsazt gæti.  Slík er af henni reynslan.

Þá má spyrja: til hvers situr þessi ríkisstjórn ?  Hún er klofin í herðar niður í öllum meginmálum, frá Brüssel til Bakka, og algjörlega óhæf til að stjórna.  Afturhaldsstjórnin átti að segja af sér, þegar forseti synjaði þrælalögum hennar staðfestingar, úr því að hún dró lögin ekki til baka.  Sú staðreynd, að lögin eru enn í gildi, er nægt svar við spurningu forsætisráðherra um ástæður atkvæðagreiðslunnar. 

Ríkisstjórnin hefur líka þruglað um að seinka þjóðaratkvæðagreiðslunni.  Það væri hins vegar stjórnarskráarbrot, því að kveðið er á um, að skera skuli úr um ágreining þings og forseta svo fljótt sem verða má með þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þangað til ríkir stjórnlagakreppa í landinu ofan á aðra eymd.

Úrtölumenn þessarar atkvæðagreiðslu hafa allt á hornum sér og telja málefnið illa fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem um þjóðréttarlegan samning sé að ræða og fjalli um fjármál.  Hvort tveggja er tóm vitleysa.  Samningurinn er einkaréttarlegs eðlis; það var hin mikla meinloka vinstrigræningjanna Steingríms, Svavars og handbendis þeirra, Indriða.  Þá má benda á, að Svisslendingar efna til þjóðaratkvæðagreiðslna um skatta til kantóna og ríkis, og hefur slíkt fyrirkomulag gefizt þeim vel, þannig að óvíða eru skattar lægri en í Sviss. 

Ánægður Svisslendingur að störfum

Svisslendingar eru svo ánægðir með þjóðfélag sitt, að þeir vilja alls ekki ganga í ESB, þó að þeir séu staðsettir inni í ESB, landfræðilega.  Þeir vildu ekki einu sinni vera í EFTA/EES.  Til gamans er hér til hliðar sýnt eintak af lukkulegum rafmagnsverkfræðingi, svissneskum, Max Wiestner, að störfum í frítíma sínum. 

Það hefur komið berlega fram í viðtölum við útlendinga og af viðbrögðum Hollendinga og Breta, að téðar kosningar á Íslandi eru heimssögulegar og munu þess vegna styrkja íslenzkan málstað, þó að ríkisstjórn Íslands setji upp hundshaus og reyni að gera lítið úr þessu beittasta vopni, sem Íslendingum er tiltækt í núverandi stöðu.  Þessu er þannig varið, að víðast hvar á Vesturlöndum jusu ríkisstjórnir úr fjárhirzlum og yfir í svarthol fjármálageirans, sem fallinn var að fótum fram með skuldavafninga, afleiður og önnur uppátæki af fjölbreytilegasta tagi, sem losað höfðu um mikið fé og þanið út fjármálageirann án nokkurrar innistæðu.  Gissur gullrass var að falli kominn, þegar "Samfylkingarleiðtogi" Bretaveldis, hinn viðskotailli Gordon Brúnn, sem reyndar er hrossheiti á Íslandi, bjargaði honum frá gjaldþroti á Bretlandi með feiknarlegum austri skattfjár í vasa Gissurar gullrass.  Brezka þingið var ekki spurt um þetta.  Skotinn Gordon Brúnn, sem að sögn brezkra blaða hagar sér þannig á vinnustað, að starfsfólk þarf áfallahjálp, sparkaði reyndar í liggjandi íslenzka banka í Lundúnum og gaf þannig íslenzka bankakerfinu náðarhöggið, sem ella hefði þó að líkindum orðið sjálfdautt vegna alvarlegra innanmeina. 

Eðlilega er kraumandi óánægja í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar með þjóðnýtingu taps fjármálastofnana.  Íslenzka þjóðin er sú fyrsta, sem tækifæri fær til að tjá hug sinn til slíks.  Til landsins er komið a.m.k. hálft hundrað (jafnvel stórt hundrað) fréttamanna hvaðanæva að úr heiminum til að segja fréttir af þessum heimssögulega atburði, sem hér er í uppsiglingu.  

Skrifræðisveldi ESB er skíthrætt við þá lýðræðisvakningu, sem orðið getur í Evrópu í kjölfarið.  Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.  Af þessum ástæðum er Samfylkingin eins og hænurass í vindi um þessar mundir og slær úr og í.  Talsmenn Brüsselfylkingarinnar tuða um markleysi þjóðaratkvæðagreiðslunnar og frestun, en það er brennt fyrir, að ríkisstjórnin grípi gullið tækifæri til gagnsóknar. 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gætti hagsmuna íslenzku þjóðarinnar hraksmánarlega illa með samkomulaginu 5. júní 2009 við Breta og Hollendinga.  Alþingi sætti sig ekki við gjörninginn og setti margvíslega fyrirvara í lögin um ríkisábyrgð þessa óþurftarsamkomulags.  Andstæðingarnir höfnuðu þessum lögum, og þar með áttu þau að falla úr gildi.  Samt er sagt í bæklingi Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem sendur hefur verið inn á hvert heimili í landinu í tilefni kosninganna, að téð lög taki gildi, hafni þjóðin þrælalögunum, sem nú eiga að koma til atkvæðagreiðslu.  Þetta fær ekki staðizt, og ljóst er, að deilumál þetta fær nýtt upphaf, ef þjóðin tekur fram fyrir hendur óhæfrar ríkisstjórnar og Alþingis með böggum hildar.  

Allt, sem ráðherrar hafa sagt þjóðinni um "Icesave" málið, orkar mjög tvímælis, svo að vægt sé til orða tekið.  Fullyrðingin um, að lengra verði ekki komizt í samningaviðræðunum en að samningi þeim, sem nú á að greiða atkvæði um ríkisábyrgð á, er augljóslega tóm vitleysa.  Framganga ríkisstjórnar Íslands í þessu árans "Icesave"-máli er frá upphafi til enda með þeim hætti, að hún hefur sýnt eindæma undirlægjuhátt gagnvart erlendu ofríki og sett sjálfa sig að veði fyrir framgangi vilja ESB (Evrópusambandsins) hérlendis, þó að hún þori ekki að kannast við það.  Öll hennar dagskrá hefur verið undirlögð þessu viðundri í samningsmynd.  Meira að segja umsóknin um aðlögunina að ESB er í uppnámi, og er hollast að eyða ekki meira púðri í þá sjálfstortímingu en orðið er. 

Þingmenn Samfylkingar og vinstri grænna hafa í raun afsalað Alþingi lunganum úr fullveldinu í hendur Breta og Hollendinga með því að fela þeim hér skattheimtuvald.  Þetta er fullkomlega forkastanlegur gjörningur, sem ætti að dæma þessa stjórnmálaflokka út í yztu myrkur um langa framtíð.  Ríkisstjórnin reyndist fullkomlega ófær um að leiða samningaviðræður við Hollendinga og Breta, og viðreisn hagkerfisins og efnahags heimilanna er henni algerlega ofviða.  Hún er fallin á prófinu með 0,0 og á ekki að fá að reyna aftur. 

Gold Diplom Blauburgunder 


Alþjóðlegu skuldbindingarnar

Það er orðið harla hvimleitt að hlýða á yfirborðshjal íslenzku ráðherranna, húskarla þeirra og griðkvenna, um, að Íslendingar verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, og er þá að sjálfsögðu verið að vísa til hins dæmalausa "Icesave"-máls.  Þetta étur hver upp eftir öðrum, en röksemdafærslan er öðrum kosti alveg út úr kú, eða þá, að ekki er borið við að rökstyðja fullyrðinguna.  Þekkingarleysi, barnalegur málatilbúnaður, heimóttarskapur og minnimáttarkennd eru förunautar vinstri flokkanna á þessari árans "Icesave" vegferð þeirra. 

Hvernig stendur á því, að Jóhanna Sigurðardóttir og húskarlar hennar bera aldrei við að skýra frá því í hverju téðar alþjóðlegar skuldbindingar eru fólgnar ?  Það er dæmalaus heimóttarháttur að bera því við, að andstæðingarnir vilji ekki hlusta á staðreyndir málsins.  Slíkt er svo sannarlega þeirra vandamál, en ekki okkar.  Ef þessi er raunin, á að króa þá af úti í horni sem hverja aðra melrakka. 

Þó að Angela Merkel hafi fyrir kosningar til Sambandsþingsins þýzka haustið 2009 lýst yfir ríkisábyrgð á innistæðum þýzkra banka starfandi í Þýzkalandi og írska ríkið hafi tekizt á hendur slíkar skuldbindingar og íslenzka ríkið á inneignum á Íslandi, þá eru slíkar skuldbindingar hvorki hin almenna regla né eru þær áskildar að hálfu ESB á innri markaðinum, en útibú Landsbankans erlendis störfuðu alfarið samkvæmt reglum ESB.  Greiðslur Breta og Hollendinga til innistæðueigenda "Icesave"-reikninganna voru á ábyrgð þeirra ríkisstjórna, og það verður að krefjast þess, að þær geri málefnalega grein fyrir því, hvaða heimild þær hafa til að senda íslenzkum skattborgurum reikninginn. 

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hélt til Norðurlandanna eftir synjun forseta lýðveldisins þann 5. janúar 2010 á ólögum, sem lögspekingar hafa leitt sterk rök að í Morgunblaðsgrein 15. janúar 2010, að brjóti gegn Stjórnarskrá lýðveldisins.  Sama er, hvernig á málið er litið.  Forsetinn gerði hárrétt að synja lögunum staðfestingar og stóð þar vörð um Stjórnarskrá lýðveldisins, eins og honum bar. Eftir heimsókn fjármálaráðherrans "hugumstóra", sem virðist gagnslausari en vindmylluriddarinn spænski forðum, til höfuðborga nokkurra Norðurlanda, brá svo við, að þaðan tók að berast sami söngurinn og þjóðin má hlusta á daglangt frá ríkisstjórn Íslands, að "Ísland verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar", ef Seðlabankinn eigi að fá fé að láni frá AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og eiga fyrir afborgunum og vöxtum 2011-2012. 

Hér er um að ræða meðvirka fjárkúgun Norðurlandanna, stjórnað frá Lundúnum og den Haag, sem stendur auðvitað á lögfræðilegum brauðfótum og er algerlega siðlaus gjörningur rakalausra stjórnmálamanna í þessum borgum, sem reyna að breiða yfir eigin mistök og fljótræði með því að senda Íslendingum svimandi háan reikning á mælikvarða fámennrar þjóðar.  Að slík framkoma viðgangist í milliríkjaviðskiptum í Evrópu á 21. öldinni, sýnir rotnar réttarfarshugmyndir viðkomandi stjórnmálamanna. 

Hitt er óskiljanlegt, að nokkur hópur innfæddra hér á eyjunni hafa fundið hjá sér hvöt til að þjóna lund sinni og hvetja leynt og ljóst til að almenningur beygi sig í duftið og leyfi vinstri öflunum að færa þetta þjóðfélag aftur til haftatímabilsins fyrir Viðreisn.  Allt er það gert í nafni nauðsynjar á að halda góðu sambandi við nágrannana.  Friðkaup heitir þessi tegund samskipta og hefur ætíð illa gefizt.  Verður að frábiðja íslenzkum skattgreiðendum leiðsögn af þessu tagi, enda er á henni hvorki haus né hali.

 

Nú skal á hinn bóginn halda í smiðju til eins reyndasta og lærðasta lögskýranda landsins, en hann tjáði sig um þessa bábilju í Fréttablaðinu 14. janúar 2010 samkvæmt því, sem sagði í forystugrein Morgunblaðsins, "Engar skuldbindingar", daginn eftir.:

"Ef ríkið ætti að ábyrgjast slíkar skuldir - að ekki sé minnst á þungar og ófyrirsjáanlegar byrðar næstu kynslóða - yrði það að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, alþjóðasamningum eða löglega bindandi yfirlýsingum ráðamanna sem hefðu til þess heimild."

Á grundvelli þessa verður að fara fram á það sem lágmarkskröfu á hendur fréttamönnum ríkisstjórnarvarpsins (TASS), fréttaskýrenda úr ýmsum hornum, háskólakennara og annarra vitsmunabrekkna, að þær reyni að finna innantómum fullyrðingum sínum stað með vísun til einhverra þeirra atriða, sem "prófessor emeritus", Sigurður Líndal, nefnir hér að ofan.  Að öðrum kosti dæma þessar "mannvitsbrekkur" sig sjálfar úr leik sem ómerkinga. 

steingrimur-med-hausin-i-sandi_945365Það, sem þarf að gera núna í þessu dæmalausa "Icesave-máli", er að hefja tangarsókn á heimavelli  Hollendinga og Breta  með áróðursherferð í fjölmiðlum þessara landa, þar sem ríkisstjórnir beggja standa veikt að vígi í kosningabaráttu.  Markmiðið er að mýkja almenningsálitið í garð Íslendinga, svo að auðveldar verði fyrir stjórnvöld þar í landi að gefa eftir í samningum Inntak þessarar kynningarherferðar Íslendinga á hendur þessum þjóðum eiga að vera þær lögfræðilegu niðurstöður, sem Lárus Blöndal, hrl., Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, Sigurður Líndal, prófessor emeritus o.fl. lögfróðir menn hafa komizt að ásamt þeim hagfræðilegu niðurstöðum, sem Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við London School of Economics, komst að í grein, sem hann birti í Morgunblaðinu 15. janúar 2010, "Áhættunni af Icesave verður ekki eytt eftir á".  Er gott til þess að vita, að þýðing á nokkru af ofangreindu efni er þegar hafin.

Njálgur utanríkisráðherra, ástmagar ESB, dugir skammt, en hann kvað glugga til viðsemjenda okkar, Breta og Hollendinga, opnast í viku 2 og lokast um helgina í lok þeirrar viku, þ.e. eigi síðar en 17. janúar 2010.  Hverju þjónar svona heimskulegur málflutningur ?  Meira að segja forsætisráðherra glórði í gegnum þokuna og kvað utanríkisráðherra hafa átt við, að þessi furðuljóri á Stjórnarráðinu, mundi hins vegar opnast um téða helgi.  Ríkisstjórnin er hugstola eftir synjun og á sér ekki viðreisnar von. 

Sannleikurinn er sá, að í brúnni er nú fólk, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Það hagar sér eins og taparar, sem hengslast um og þvælast fyrir öllu, sem til lausnar getur horft á kreppu landsins.  Því er fyrirmunað að marka sigurstranglega stefnu í nokkru máli, hvað þá að sækja fram til sigurs.  Nú er ekki rétti tíminn til að míga utan í Breta og Hollendinga, eins og stjórninni er tamast.  Nú á að láta kné fylgja kviði eftir synjunina, berja á þeim og vinna almenningsálit þessara landa á band Íslendinga með sálfræðilegum hernaði.  Á sama tíma á að skipa harðsvíraða samninganefnd, þar sem valinn maður sé í hverju rúmi, sem fær tímann fram að þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin lágkúrulegu til að undirbúa harðdrægar viðræður og viða að sér í vopnabúrið. 

Ef þjóðin fær tækifæri til, mun hún búa skjaldsveina sína og -meyjar með vegarnesti yfirgnæfandi höfnunar á verstu fátæktarhlekkjum, sem nokkurt erlent vald hefur nokkru sinni reynt að færa Íslendinga í.  Sú tilraun er bæði löglaus og siðlaus.  Með staðfestingu þjóðarinnar á synjun forsetans munu báðar lagasetningarnar um ríkisábyrgð á "Icesave" falla úr gildi, því að skilyrði hinnar fyrri, þ.e. samþykki  gagnaðilans, er ekki fyrir hendi. 

Skömm Alþingismanna, sem samþykktu fjárkröfur erlendra valdhafa á hendur íslenzkri alþýðu, svo og taglhnýtinga þeirra, mun verða uppi á meðan land þetta er byggt.

Tíminn vinnur með Íslendingum í þessu máli og fyrir veturnætur ætti ásættanlegur samningur að verða í höfn.  Sá á ekki að kveða á um neinar vaxtagreiðslur af neinu furðuskuldabréfi, heldur um sanngjarna skiptingu byrðanna af því, sem út af mun standa eftir upplausn Landsbankans í hlutfalli við ábyrgð á fallinu og að teknu tilliti til fólkfjölda.  Upphæð á hvert mannsbarn á Íslandi ætti þá ekki að fara yfir kEUR 1,0; ella fari málið dómstólaleiðina.  

 


Skuldin

Spurningin um, hvort ríkisábyrgð sé á Tryggingarsjóði innistæðueigenda að lögum, er aðalatriði "Icesave-deilunnar við Bretland og Holland, og hún hverfist um tilskipun ESB nr 94/19, sem Alþingi leiddi í lög á Íslandi árið 1999.  Þar segir svo í 24. lið:

"Það er ekki bráðnauðsynlegt samkvæmt þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun þeirra kerfa, sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, m.a. vegna þess, að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa, og einnig vegna þess, að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingarskuldbindingarnar.  Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu." 

Með öðrum orðum skulu tryggingarsjóðirnir vera fjármagnaðir af bönkunum sjálfum, en samt eigi með íþyngjandi hætti fyrir þá eða viðskiptavini þeirra, enda gæti slíkt skekkt samkeppnistöðu.  Hvergi er hins vegar minnzt á ríkisábyrgð.  Ef ætlazt væri til hennar af höfundum tilskipunarinnar, mundi slíkt vafalaust hafa verið tíundað.  Á fjölmörgum fleiri atriðum má reisa þá fullyrðingu, að íslenzka ríkið hafi alls ekki undirgengizt neinar skuldbindingar um að tryggja greiðslugetu hins íslenzka Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.  Fullyrðingin er studd lögfræðilegum rannsóknum hæfustu manna, og nægir í þeim efnum að vísa til frábærrar ritraðar í Morgunblaðinu, sem hófst 12. janúar 2010 með greininni "Lagarök um Icesave", eftir Lárus L. Blöndal, hrl. og Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor.  Hafa ber í huga í þessu sambandi, að enginn getur skuldbundið ríkissjóð á nokkurn hátt fjárhagslega, nema Alþingi.  

Í 25. lið tilvitnaðrar tilskipunar er hnykkt á því, að ríkisvald aðildarríkjanna verði ekki sjálfvirkt ábyrgðaraðili tryggingarsjóðanna.  Bretar sjálfir hafa bent á í deilu við Íra, að ríkisábyrgð sé andstæð ýmsum grundvallarreglum innri markaðar ESB, t.d. um frjálsa samkeppni, enda var bankakerfi þeirra svo risastórt, að brezka ríkið hefði misst lánshæfi, ef það hefði gengizt í slíkar ábyrgðir.  Þess má geta, að írski ríkissjóðurinn hefur af þessum sökum goldið fjárhagslegt afhroð í þessari fjármálakreppu. Ákvæðið í téðri tilskipun 94/19, sem tekur af öll tvímæli um, að ríkisábyrgð er ekki við lýði, hljóðar svo:

"Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum, ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum, viðurkenndum af stjórnvöldum, sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja, að innistæðueigendurnir fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun." 

Hér er í tilskipuninni sjálfri kveðið á um, að innistæðutryggingarsjóðirnir skulu ekki njóta ríkisábyrgðar.  Hvert sækja Bretar og Hollendingar rök fyrir því, að íslenzkir skattgreiðendur skuli bæta ríkissjóðum þeirra með vöxtum að hafa rokið til í öngþveiti haustsins 2008 að bæta innistæðueigendum Landsbankans tap sitt ?  Hafa íslenzk stjórnvöld e.t.v. leikið af sér og skuldbundið íslenzka skattborgara til að axla byrðar, sem hvorki lagabókstafur né tilskipun mælir fyrir um ?  Lítum á aðdragandann.

Þann 7. ágúst 2008 sendi brezka fjármálaráðuneytið fyrirspurn um það til íslenzka Viðskiptaráðuneytisins, sem fór með málefni fjármálageirans og stjórnað var af ráðherra úr Samfylkingunni, hvort ríkisstjórnin mundi sjá til þess, að Innistæðutryggingarsjóðurinn geti tekið næg lán til að unnt verði að greiða EUR 20´887 til hvers innistæðueiganda.  Viðskiptaráðuneytið svaraði bréflega 20. ágúst 2008, þar sem m.a. kemur fram:

"Ef svo ólíklega vildi til, að sjóðsstjórnin gæti ekki útvegað nægilegt fé á fjármálamörkuðum, viljum við fullvissa ykkur um, að íslenzka ríkisstjórnin mundi gera allt, sem ábyrg stjórnvöld mundu gera í slíku tilviki, og í því felst að aðstoða sjóðinn við að útvega nægilegt fjármagn til þess að standa við lágmarkstrygginguna. ...... Í slíku tilviki mundi Seðlabanki Íslands, sem lánveitandi til þrautavara, sjá sjóðnum fyrir lausafé.  Ríkisstjórn Íslands mundi veita Seðlabankanum stuðning til þess.  Við þessar aðstæður yrði þetta aldrei vandamál fyrir Innistæðutryggingarsjóðinn.  Við viljum undirstrika, að ríkisstjórnin gerir sér glögga grein fyrir skuldbindingum sínum samkvæmt EES samninginum gagnvart Innistæðutryggingarsjóðinum og mun standa við þær skuldbindingar." 

Með bréfi þessu er býsna langt gengið að hálfu viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar til að friða Breta.  Í ljósi þess, sem síðar gerðist, má segja, að of langt sé gengið í yfirlýsingu um að tryggja sjóðinum fé með aðstoð Seðlabankans og ríkissjóðs m.v. kröfurnar í tilskipun 94/19 til ríkjanna á Innri markaði EES.  Samt verður því ekki haldið fram með gildum rökum, að bréf þetta sé ígildi yfirlýsingar um ríkisábyrgð.  Það sést bezt á því, að í byrjun október 2008 sendi Innistæðutryggingarsjóðurinn íslenzki eftirfarandi drög að yfirlýsingu til þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde:

"Hér með staðfestist það, að ríkissjóður Íslands ábyrgist, að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta geti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar samkvæmt framangreindum lögum.  Ríkisábyrgðin nær til allra aðila að Tryggingarsjóðinum og útibúa þeirra á Íslandi og erlendis."

Ósk þessi um ríkisábyrgð er einsdæmi, og forsendur hennar og málsaðilar hljóta að sæta opinberri rannsókn ofan í kjölinn.  Íslenzka þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, fyrir það, að hann staðfesti þessa yfirlýsingu ekki með undirskrift sinni. 

Verðmætarýrnun á heimsvísuNokkrum vikum seinna tóku brezka og hollenzka ríkisstjórnin þá ákvörðun að bæta innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna tap sitt, bæði í dótturfyrirtækjum og útibúum, úr vösum skattgreiðenda sinna.  Þetta gerðu þau til að létta af sér þeirri gagnrýni, að eftirlitsaðilar í þessum löndum hefðu brugðizt neytendum og fjármálaeftirlitin áttu auk þess að sjá um lausafjárstýringuna á heimavelli.  

Samt var í löndum þeirra talsverður fjöldi fólks, sem svipað var ástatt um eftir fall bandarískra fjármálastofnana, t.d. Lehmans bræðra 15. september 2008.  Höfundi þessarar vefgreinar er að minnsta kosti ekki kunnugt um, að brezk og hollenzk stjórnvöld hafi í hyggju að senda öðrum ríkisstjórnum en þeirri íslenzku reikning fyrir björgunaraðgerðum sínum.  Meðhöndlun þeirra á Íslendingum er líklega fordæmalaus, hún er dæmalaus, og hún styðst ekki við neinar lögheimildir.  Hún virðist einvörðungu styðjast við ofríki.  Nái þessi ósvífni fram að ganga með fjárkúgunarpíski aftan við bak, verða samskipti Íslands við þessi lönd og ESB eitruð á næstu áratugum, sem ber að forðast í lengstu lög. 

Fram á sjónarsviðið streymir nú, eftir athyglina, sem synjun forseta hlaut, málsmetandi fólk erlendis, sem styður í raun röksemdafærslu virtra lögspekinga innlendra.  Nú er viðkvæðið, að á engum lagarökum sé hægt að reisa kröfu á hendur Íslendingum um að axla téðar byrðar brezku og hollenzku ríkissjóðanna með vöxtum, heldur mundi t.d. Evrópudómstóllinn deila byrðunum á milli ríkjanna.  Þetta virðist vera sjónarmið Evu Joly, og þetta er sjónarmið Alain Lipietz, sem komið hefur að samningu tilskipana ESB um þessi efni.  Þar er kunnáttumaður og að líkindum (um tíma) innanbúðarmaður í Berlaymont á ferð.   

Alain Lipietz

Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafa lítið sem ekkert í höndunum annað til að reisa kröfugerðir sínar á en ofangreint bréf frá viðskiptaráðherranum í ríkisstjórn Geirs Haarde.  Þetta bréf veikir nú málstað Íslendinga og gerir það að verkum, að semja verður um málið á stjórnmálalegum nótum, en alls ekki á fjármálalegum nótum, eins og um óuppgert skuldabréf væri að ræða.  Íslendingar báðu hvorki Hollendinga né Breta um lán til að gera upp við innistæðueigendur föllnu bankanna.  Þegar Hollendingar og Bretar gengu til þess verks, höfðu þeir enga lagalega eða sanngirniástæðu til að ætla, að unnt yrði með réttu að senda íslenzka ríkissjóðinum reikninginn. Þess vegna er út í hött að heimta vaxtagreiðslur af Íslendingum vegna þessara útgjalda.  Vaxtakröfum þeirra á að hafna gjörsamlega.  Að leysa málið á stjórnmálalegum nótum þýðir, að byrðunum af mismuni eigna og skulda þrotabúa Landsbankans beri að skipta á milli aðseturslands útibúsins og heimalands móðurbankans í hlutfalli við ábyrgð á eftirliti og ábyrgð á því, að svo fór sem fór, að teknu tilliti til jöfnunar byrðanna á hvern skattborgara.  Kynning á þessum málstað virðist hafa farið í handaskolum hjá ríkisstjórn Íslands, enda er hún hallari undir hagsmuni Hollendinga og Breta en Íslendinga. Um það vitna fjölmörg ummæli.

Þá hafa lögfræðingarnir, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, fært fyrir því gild rök í Morgunblaðsgrein sinni, "Möguleg bótaskylda ESB", þann 14. janúar 2010, að Íslendingar muni eiga endurkröfurétt á hendur ESB fyrir tjóni, sem tilskipanir þess hafa valdið þeim.  Sá réttur fyrnist á 5 árum, og er sjálfsagt að láta á hann reyna eftir að málalyktir hafa orðið, með dómstólaleið eða nýjum samningum, við Breta og Hollendinga.    

Það skilur hvert mannsbarn, að maður, sem heldur því statt og stöðugt fram, að ekki sé unnt að ná betri samningum fyrir Íslands hönd en raun hefur orðið á um, hann er ófær um að taka þátt í nýjum samningaviðræðum.  Fjármálaráðherrann er sem lík í lestinni, og aðrir ráðherrar, er tjáð hafa sig um gjörninginn, eru reyndar litlu skárri. 

Nýjar viðræður munu fara fram með nýju fólki, a.m.k. að hálfu Íslendinga.  Íslenzka samninganefndin mun þá verða grá fyrir járnum.  Ágætar blaðagreinar fyrrnefndra lögfræðinga, Lárusar og Stefáns, eiga að rata beint í vopnabúr samninganefndarinnar íslenzku.    

Það er alveg ljóst, að með nýjum samningum verða "Icesave" byrðarnar á Íslendinga aðeins brot af þeim fátæktarhlekkjum, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Steingrím Sigfússon í broddi fylkingar ætlaði að leiða yfir þrjár kynslóðir Íslendinga í glópsku sinni eða vitandi vits.  Það ber þess vegna að fella þá lagasetningu vinstri flokkanna á Alþingi úr gildi og að semja upp á nýtt að beztu manna yfirsýn.    

 


Svona eiga sýslumenn að vera

Forseti lýðveldisins á mikið hrós skilið fyrir framgöngu sína.  Með einu pennastriki hefur hann gjörbreytt stöðu Íslands gagnvart útlöndum til hins betra.  Hann áttaði sig að sjálfsögðu á áróðurslegu gildi augnibliksins, er hann synjaði lögunum um hugsanlegar drápsklyfjar á þjóðina staðfestingar. 

Frammistaða hans síðan hefur verið frábær.  Loksins eignaðist þjóðin þungavigtarmann, sem beitir sér af snerpu og heldur staðfastlega fram málstað hennar á alþjóðavettvangi með sannfæringarkrafti, af þekkingu og með glæsibrag. 

Hegðun ríkisstjórnarómyndarinnar er til háborinnar skammar.  Það er niðurlægjandi að búa við stjórnvöld, sem senda til Bessastaða bréf, sem er barnalegur endurómur hótana andstæðinga okkar í þessu bölvaða "Icesave" máli.  Í bréfunum er málaður skrattinn á vegginn með þeim hætti, að bréfritarar eru augljóslega með öllu óhæfir til að tala fyrir málstað okkar.  Þeir tala máli andstæðinganna.  Þá var ömurlegt að heyra Milliband, utanríkisráðherra Breta, segja fátt annað eftir samtal við utanríkisráðherra Íslands en að Bretar mundu ekki standa í vegi fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Þetta var greinilega eina áhyggjuefni Össurar Skarphéðinssonar.  Þjóð með slíka forystu þarf ekki á andstæðingum að halda.  Fimmta herdeildin situr nú í Stjórnarráðinu við Lækjargötu. 

Þetta kom einnig berlega í ljós af fyrstu viðbrögðunum erlendis frá við yfirlýsingu forsetans.  Utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg hefur greinilega ekki verið beitt af neinu viti til að breiða út málstað Íslands.  Allt moraði af ranghugmyndum og upplýsingaskorti.  Ríkisstjórnin hefur gjörsamlega sofið á verðinum í hagsmunagæzlunni, sem henni ber þó skylda til að halda uppi, og hún hafði greinilega ekkert plan B, þegar yfirlýsingin barst frá Bessastöðum þann 5. janúar 2010.  Hún var tekin með allt á hælunum.  Í stað þess að grípa augnablikið, þegar augu heimsins beindust að Íslandi fyrir tilverknað forsetans, fór ríkisstjórnin í fýlu og upphóf nöldur og ónot í garð forsetans.  Þessi hegðun er svo lítilmannleg og lágkúruleg, að engu tali tekur.  Ríkisstjórninni er ekki við bjargandi.

Þessu fólki í stjórnarráðinu, skötuhjúunum í forystunni, húskörlum þeirra og griðkonum, er með engu móti treystandi til að tala máli okkar í þessu örlagamáli um ríkisábyrgð á Tryggingasjóð innistæðueigenda, eins og berlega hefur nú komið í ljós. 

Til skjalanna verður að koma nýtt fólk.  Það nýja fólk verður að leggjast í víking, bíta í skjaldarrendur og tala máli landsmanna í Berlín, París, Lundúnum, Washington, den Haag og víðar.  Ný landsforysta á að stofna einvala lið, samningateymi, skipað hæfasta fólki til þessara verka með djúpa þekkingu á lögfræðinni, hagfræðinni og samningatækni með seiglu og innri styrk til að reka andstæðingana á gat.  Það er ekki orðið of seint að leita í smiðju hjá Evu Joly og mörgu öðru fólki, innlendu sem erlendu, sem greint hefur kjarnann frá hisminu.  

Eva JolyHaustið 2008 riðuðu fjölmargir bankar Vesturlanda á barmi gjaldþrots.  Rikisstjórnir þessara landa tóku þá ákvörðun um að setja ógrynni af fé skattborgaranna inn í einkabanka til að bjarga þeim frá falli.  Brezka verkamannaflokksstjórnin var enginn eftirbátur annarra í þessum efnum, og rökin voru þau, að með þessum fjáraustri væri efnahagshruni forðað og neyzlunni yrði haldið við, þannig að féð mundi skila sér í ríkiskassann.  Þrátt fyrir þetta neituðu brezk stjórnvöld íslenzku bönkunum í Lundúnum um aðstöð og gripu meira að segja til aðgerða gagnvart þeim, sem riðu þeim að fullu á svipstundu.  

Aðgerðir yfirvalda á Vesturlöndum, þar með töldum Bretlandi og Hollandi, til björgunar bankakerfum landa sinna, voru einnig hugsaðar til að koma í veg fyrir áhlaup innistæðueigenda á bankana.  Ríkisstjórnir þessara landa stóðu frammi fyrir reiðum og örvæntingarfullum innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna.  Til að hindra ásakanir í sinn garð fyrir það, sem gerzt hafði, gagnrýni á aðgerðarleysi seðlabankanna og fjármálaeftirlitsstofnana í þessum löndum, þá var tekin skyndiákvörðun um að bæta innistæðueigendum tjón sitt samkvæmt reglum ESB með greiðslum úr ríkishirzlunum, enda munaði þær lítið um þessar greiðslur, einkum þá brezku.  Ekki er vitað til, að þessi gjörningur hafi verið borinn undir íslenzk stjórnvöld á nokkurn hátt áður en hann var framinn.   Þar rauður loginn brann-janúar 2010 

Það kemur vel fram í bókinni Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson, að stjórnvöld Bretlands og Hollands töldu framgöngu íslenzku bankamannanna ögrandi og frammistöðu íslenzkra yfirvalda, t.d. Fjármálaeftirlits, ámælisverða.  Ísland lá vel við höggi, og framtíðarhorfur þess til lengri tíma í raun mun betri en Bretlands og Hollands, þar sem ríkisskuldir eru miklar, en skattstofnar munu fara rýrnandi vegna dvínandi olíu-og gaslinda, ört hækkandi meðalaldurs þjóðanna og lítils hagvaxtar.  Þess vegna var ákveðið að senda reikninginn til Íslands.  Ósvífnin felst m.a. í því, að peningarnir á þessum reikningum komu aldrei til Íslands og nýttust þannig landinu ekkert, en samt á að taka ógrynni fjár á íslenzkan mælikvarða út úr hagkerfi landsins og senda inn í hagkerfi Breta og Hollendinga með vaxtabótum til bæta ríkissjóðum þessara landa fé, sem ríkisstjórnir þeirra tóku ákvörðun um að nota til að smyrja eigin hagkerfi.  Þessi glórulausi vaxtabætti baggi hefði lent á íslenzkum skattborgurum fyrir tilstilli duglausrar ríkisstjórnar í Reykjavík og meðreiðarsveina hennar með draumóra um aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem eru andvana fæddir, ef forseti lýðveldisins hefði ekki stöðvað ósómann og snúið taflinu við.  Framganga hans í harðri viðureign á BBC og víðar verður lengi í minnum höfð.  Mættum við fá meira að sjá og heyra.

 


Af áhættum og ávinningum

Ágætur höfundur að nafni Sigfried Hugemann ritaði athygliverða grein í Morgunblaðið mánudaginn 5. október 2009, "Ísland og ESB - áhætta og ávinningur".  Téður höfundur, Herr Hugemann, kann skil á örlagaþáttum Íslandssögunnar og tengir þá við nútímasöguna.  Áhugavert er sjónarhorn hans um, að öll mikilvæg viðskiptamál þurfi að setja á vogarskálar áhættu annars vegar og ávinnings hins vegar.  Betra væri, að slík aðferðafræði væri ríkari í fari Íslendinga en raun ber vitni um allt frá viðskiptajöfrum útrásar til hinnar aumkvunarverðu ríkisstjórnar, sem enn hangir við völd. 

Þessi ábending höfundarins Hugemanns er þess vegna tímabær, og téðri aðferðafræði er unnt að beita á flestum sviðum mannlífsins.  Herr Hugemann notar þessa reislu á spurninguna um það, hvort Íslendingar eigi að ganga ESB (Evrópusambandinu) á hönd.  Niðurstaða hans er, að innganga þar mundi jafngilda tvöföldu tapi þjóðarinnar, þ.e.a.s. áhættan er fólgin í lækkun þjóðartekna, eins og hann útskýrir skilmerkilega með minna auðlindaaðgengi  Íslendinga vegna ágangs ESB, og ávinningurinn er neikvæður, þ.e. tap blasir við, því að yfirlýst markmið ESB er flutningur fjármagns frá ríkari þjóðum til þeirra fátækari, frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs.  Til lengdar litið eru góðar horfur á, þjóðartekjur á mann verði jafnan hærri hérlendis en meðaltalinu nemur í ESB, þó að óbjörgulega horfi nú um stundir um stjórn þjóðmálanna, enda óvenjulegar mannvitsbrekkur við völd.  

Fáni ESBÞað eru ýmsar ástæður fyrir því, að Ísland muni þurfa að greiða meira til ESB en landið fær þaðan.  Ein er, að meðalaldur er mun hærri í ESB og hann hækkar örar en á Íslandi.  Lífeyrissjóðakerfi flestra ESB-landanna er ósjálfbært, halli á ríkisbúskapi og ríkisskuldir víða miklar, þó yfirleitt minni en hér.  Við höfum á hinn bóginn yfir að ráða öflugri útflutningsvél, sem með aukinni auðlindanýtingu getur malað þjóðinni svo mikið gull, að dugi út úr kreppu og skuldasúpu og í lífskjaraforystu á ný. 

Ef litið er til evrulanda, þar sem verðbólga er yfir meðallagi evrusvæðis, má draga þá ályktun, að útflutningsatvinnuvegir væru hér í lamasessi með evru.  Þá væri e.t.v. enn stórfelldur halli á viðskiptum við útlönd og atvinnuleysi enn geigvænlegra en raunin er á um nú og hefði varað lengur.  Það þarf þess vegna vandaða áhættugreiningu til að reisa á ígrundaða stefnumörkun í gjaldeyrismálum.  Sú áhættugreining hefur ekki farið fram, heldur er böðlazt áfram til Brüssel í von um evru, sem er borin von.   

Rauðka (vinstri stjórnin) ber ábyrgð á því, að einhver alóheppilegasti tími, sem hugsazt gat, var valinn fyrir umsókn um aðildarviðræður.  Hollenzka og brezka ríkisstjórnin nota umsóknina til aukins þrýstings á landsmenn.  Af þessum sökum mun umsóknarferlið dragast á langinn, sem er slæmt fyrir stjórnmálaástandið á Íslandi og þungbært íslenzka ríkissjóðinum.  Það er óverjandi á tímum alvarlegs samdráttar að verja þá milljörðum króna í umsóknarferli, sem gefur ekkert í aðra hönd.  Aðildarsamningurinn verður vafalítið felldur og má þakka það framkomu ESB í hinu illræmda "Icesave" máli. 

Embættismannakerfið hafði fangið fullt af verkefnum vegna kreppunnar.  Þá lagði ríkisstjórnin fyrir það að fara í einhliða spurningaleik með þúsundum spurninga frá ESB.  Íslendingar eru vanbúnir að berjast á mörgum vígstöðvum í einu.  Slíkt hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra.  

Frá álverinu í Straumsvík - 2009 Segja má, að ríkisstjórn Samfylkingar og vinstri grænna geri ekkert af viti.  Eitt versta einkenni hennar er atvinnufjandsemi.  Hún virðist hafa ímigust á öllu, sem leitt getur til atvinnusköpunar.  Aðgerðir hennar tortíma atvinnu, hún er atvinnutortímandi.  Þannig magnar ríkisstjórnin kreppuna.  Atvinnulausir eru nú rúmlega 13 þúsund talsins.  Skattahækkanir, önnur asnaspörk og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar munu því miður kippa fótunum undan mörgum enn, ungum sem öldnum

Dæmi um þetta er fyrirhuguð skattlagning á orku.  Fjármálaráðherra breimar um, að stóriðjan eigi að leggja sitt að mörkum.  Enginn þrætir fyrir það.  Spurningin er, hvernig hún geti lagt sem mest að mörkum til lengdar ?  Engum vafa er undirorpið, að það gera stóriðjufyrirtækin með stórvirkustum hætti með nýjum fjárfestingum.  Ef tilkostnaður fyrirtækjanna verður aukinn með skattlagningu á orku og losun gróðurhúsalofttegunda, þá minnkar að sama skapi tekjuskatturinn af þessum fyrirtækjum.  Þessi skattlagning mun eyðileggja allan áhuga á frekari fjárfestingum á Íslandi.  Álfyrirtækin vildu öll fjárfesta nú í kjölfar Hrunsins, og hefðu þessar fjárfestingar numið hundruðum milljarða, þegar virkjanafjárfestingar álverum tengdar og studdar eru með taldar.  Vægt áætlað mundu þessar fjárfestingar fækka um 4000 manns á atvinnuleysisskrá.  Slíkt mundi veita ríkissjóði um 8 milljarða króna í nýjar skatttekjur og spara ríkissjóði aðra 8 milljarða kr í útgjöld vegna atvinnuleysistryggingasjóðs. 

Alls nema þessir 16 milljarðar sömu upphæð og fjármálaráðuneytið hefur boðað, að það hyggist innheimta með nýjum orku-og umhverfissköttum.  Mannvitsbrekkurnar í fjármálaráðuneytinu sjá auðvitað strax, að mun viturlegra er að hætta við þessa óheillavænlegu og óvæntu skattheimtu, en liðka þess í stað fyrir nýjum, erlendum fjárfestingum.  Eftir stendur, að orðstír Íslendinga sem traustir viðsemjendur, sem standa við gerða samninga undanbragðalaust, er rokinn út í veður vind.  Var það markmið félaganna Indriða, aðstoðarmanns, og Steingríms, fjármálaráðherra ?  Sé svo, verður að telja gjörninginn vera minna en hænufet frá landráðum.

Rauðka er atvinnufjandsamlegasta ríkisstjórn, sem nokkurn tíma hefur setið í landinu.  Hún sveik "Stöðugleikasáttmálann", og hún svíkst aftan að viðsemjendum sínum.  Hún er með öðrum orðum siðlaus.  Allar hennar gjörðir hafa aukið við vanda landsins og/eða leitt til fjölgunar á atvinnuleysisskrá.  Rauðka virðist stefna að því að setja 20 þúsund manns á atvinnuleysisskrá til langframa, því að ekkert bólar á viðreisn athafnalífsins.  Vinstri flokkar hvarvetna vilja hafa sem flesta á bótum og telja sitt fylgi koma þaðan.  Með það getur brugðið til beggja vona á Íslandi.  Í hvert sinn, sem fótur er settur fyrir nýjar framkvæmdir, er verið að fjölga á atvinnuleysisskránni.   

Lífsins gangur - 2009Umhverfisráðherra gerir það ekki endasleppt.  Hún ætlar að fara stefnulaus og tómhent til Kaupmannahafnar án þess að gera nokkrar kröfur um undanþágur til handa Íslandi.  Þetta er í anda vinstri grænna, sem er sú að vinna atvinnulífinu það mein, sem þeir mega og að eyðileggja alla atvinnusköpun, sem í augsýn er.  Þessu mátti búast við af umhverfisráðherranum, því að í Fréttablaðinu 10. október 2009 veitir hún innsýn í hugarheim sinn: "Ég er ekki í umhverfisráðuneytinu til að draga taum einstakra fyrirtækja, sjónarmiða eða hagsmunaaðila.  Ég er í umhverfisráðuneytinu til að tala máli komandi kynslóða og umhverfisins - heildarhagsmunanna."

Þessi orð vitna um fáheyrt yfirlæti.  Næst má búast við frá umhverfisráðherranum, að hennar ríki sé ekki af þessum heimi.  Enginn veit, hvaða hagsmuni komandi kynslóðir munu setja í öndvegi.  Hins vegar er áreiðanlegt, að þær munu njóta þess, að forfeðrum þeirra formæðrum vegni vel, en að sama skapi gjalda þess, ef þeim vegnar illa.  Þá eru allar virkjana-og stóriðjuframkvæmdir afturkræfar samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum, svo að tómt mál er af ráðherranum að fimbulfamba um umhverfistjón þeirra vegna.

Allt tal og gerðir þessa græningja vitnar um fullkomna firringu.  Hún telur sig ekki vera í umhverfisráðuneytinu til að gæta hagsmuna núlifandi kynslóða á Íslandi, heldur hagsmuna, sem hún hefur ákveðið, að komandi kynslóðir skuli setja á oddinn.  Er hægt að ganga lengra í vitleysunni ?  

Málið er, að viðmiðunarár Kyoto og væntanlega Kaupmannahafnar, 1990, er okkur Íslendingum óhagfellt í þessu tilliti, því að þá var hitaveituvæðingunni að mestu lokið.  Ennfremur hefur mikil iðnvæðing átt sér stað síðan og bílaflotinn stækkað gríðarlega.  Ráðherrann er þess vegna að segja, að hún ætli ekki að lyfta litla fingri til að bjarga störfum á Íslandi.  Aðgerðarleysi ráðherrans mun þýða lakari samkeppnistöðu íslenzkra fyrirtækja en ella og lífskjörin munu þá enn versna hérlendis. 

Aldrei nokkurn tíma hafa Íslendingar augum litið jafndáðlaus stjórnvöld og nú.  Segja má, að ráðsmennskan gæti vart orðið lakari, þótt hún flyttist til Brüssel.  Dýpra verður ekki sokkið.  Valdhafarnir eru í vinnu hjá okkur skattgreiðendum, og þessir valdhafar vinna allt með öfugum klónum.  Þeim eru reyndar svo mislagðar hendur, að engu er líkara en þeir séu í vinnu hjá samkeppniaðilum okkar og andstæðingum í milliríkjadeilum.  Það voru söguleg mistök að ráða þetta fólk, sem ekki ber við að vinna fyrir kaupinu sínu.  Hefja verður borgaraleg öfl til vegs að nýju, sem vinna í þágu íslenzkra skattborgara nútímans og með atvinnulífinu. 

 

  

 


Ísland og Noregur

Dagana 13.-14. september 2009 kusu Norðmenn til nýs Stórþings.  Borgaralegu flokkarnir hlutu fleiri atkvæði, og mjög litlu munaði, að þeim tækist að velta stækri vinstri stjórn, sem að vísu hefur Framsóknarflokk Norðmanna innanborðs (Senterpartiet).  Fylgi við Hægri flokkinn jókst, en vinstri grænir í Noregi töpuðu. Það er óvenjulegt, eftir að samsteypustjórnir tóku við af tímabili eins flokks stjórna Verkamannaflokksins, að ríkisstjórn haldi velli eftir kosningar. Var þetta hundaheppni Stoltenbergs.

Stoltenberg 

Spyrja má, hvers vegna Norðmenn losuðu sig ekki við daufa vinstri stjórn ?  Svarið kann að felast í því, að eftir að umsókn Íslands um aðildarviðræður við ESB var afhent utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt, í sumar, hófust umræður á þá lund í Noregi, að kæmist Hægri flokkurinn til valda, mundi Noregur líklega ekki bíða boðanna, heldur senda sams konar umsókn fyrir Noregs hönd og þá í þriðja skiptið. 

Norska þjóðin hefur engan gáning á aðild að ESB, og þessi umræða gæti þess vegna hæglega hafa lengt líf rauðgrænnar ríkisstjórnar Stoltenbergs um 4 ár, því að kjörtímabilið í Noregi er fasti, þ.e. ekki er leyfilegt að leysa Stórþingið upp, nema kjörtímabilinu sé lokið.  

Auðlindir Norðmanna eru miklar og að nokkru leyti sams konar og okkar Íslendinga.  Þær eru t.d. sjávarfang og vatnsafl, en einnig miklar olíulindir í Norðursjó og norður með strönd Noregs, Jan Mayen, Svalbarða og allt norður í Hvítahaf.  Þar á meðal er Drekasvæðið, sem Íslendingar og Norðmenn skipta á milli sín. 

Talið er, að sitt hvorum megin markalínu ríkjanna á Drekasvæðinu leynist 10 milljarðar tunna af olíujafngildi.  Miðað við núverandi eldsneytisnotkun í heiminum nægir forði hvorrar þjóðar til að anna brennslu mannkyns á olíu í 4 mánuði, og birgðir Drekasvæðisins alls nema 0,8 % af þekktum olíuforða heimsins um þessar mundir, en hann dugir í 40 ár m.v. núverandi notkun.   

Fróðlegt er að velta fyrir sér, hversu mikil áhrif vinnsla olíu og gass úr hafsbotni Drekasvæðisins mundi hafa á hag Íslendinga.  Strax á skeiði tilraunaborana mundi hagur íbúa á NA-verðu landinu vænkast mjög, því að koma þarf upp þjónustu við tilraunaborpallana, sem gerð yrði út frá höfnum og flugvöllum NA-lands.  Veltan á svæðinu mundi aukast um tugi milljarða króna.  Mælt í þorskígildum gæti hér verið um jafngildi tvöföldunar á kvóta svæðisins að ræða. 

Miklu meira mun samt muna um skatttekjur af olíuvinnslunni, ef og þegar hún kemst á, en hún yrði sjálf öll á höndum öflugra, alþjóðlegra olíufélaga, því að þarna norður frá þarf að beita beztu tækni á þessu sviði, tilraunavinnslan verður dýr og talið er, að vinnslukostnaður muni nema 80 USD/tu, sem er hið hæsta, sem þekkist á þessu sviði í raun.   Hóflega skattheimtu þarf að boða þegar í upphafi til að fæla fjárfesta ekki frá áhættusömum rekstri á mjög erfiðu vinnslusvæði.  Ef reiknað er með hagnaði 20 USD/tu af olíu, sem líklega er vægt áætlað, og 35 % skatti af hagnaði, þá mundu skatttekjur ríkisins nema ISK 450 mia/ár í 20 ár, sem mundi leiða til tvöföldunar núverandi skatttekna.

Svarta gullið er takmörkuð auðlindÞað er ljóst, að til að greiða niður skuldir ríkissjóðs þarf stórvirki af þessu tagi, þegar að Icesave gjalddaga kemur 2016, og þess vegna er mikilvægt að flýta rannsóknum á Drekasvæðinu, eins og kostur er. 

Systurflokkur VG í Noregi leggst alfarið gegn rannsóknum á Drekasvæði Noregs, sem miði að vinnslu olíu og gass þarna.  Líklegt er, að VG á Íslandi api þessa fyrirtekt eftir þeim, þó að efnahagsaðstæður Noregs og Íslands séu gjörólíkar.  Efnahagsstefna VG, vinstri grænna, er reist á sandi, því að hún endurspeglar ekki meiri skilning á efnahagslögmálum en býr í höfði strútsins, sem þekktur er af að stinga hausnum í sandinn, þegar hann mætir vandamáli.  Stjórnmálamönnum VG virðist vera fyrirmunað að skilja, hvað þeir þurfa að gera til að endurvekja hér hagvöxt.  Þeir tortryggja erlenda fjárfesta, sem hætta vilja fé sínu til uppbyggingar íslenzks atvinnulífs, sýna þeim kaldranalegt viðmót og jafnvel fjandskap og þvælast af þráhyggju sinni endalaust fyrir framkvæmdum.  

Allar aðgerðir rauðgrænu ríkisstjórnarinnar á Íslandi hingað til hafa dregið úr hagvexti og þar með aukið atvinnuleysið.  Að samþykkja í fljótræði stórgallaðan Icesave samning, sem gerður var undir handarjaðri formanns vinstri-grænna, var glapræði.  Stefna og gjörðir VG leiða þannig ekki til annars en fátæktar á fleiri heimilum landsmanna, skuldasöfnunar einstaklinga og hins opinbera, viðvarandi fjöldaatvinnuleysis og yfirþyrmandi ríkisrekstrar.  

Ríkisstjórnin fellur á hverju prófinu á fætur öðru.  Hún stendur sig ver en dæmi eru um í þessari alþjóðlegu efnahagslægð gagnvart AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðinum), eins og tossum er tamt.   Því fer fjarri, að Rauðka (ríkisstjórn vinstri flokkanna) ráði við viðfangsefni sín, hún hefur enga gjaldgenga framtíðarsýn og verður af þessum sökum öllum að víkja.  

Kostnaður ríkissjóðs vegna höktandi efnahagskerfis og tekjutap þjóðfélagsins í beinhörðum gjaldeyri vegna óhæfrar ríkisstjórnar, sem lætur öll tækifæri úr greipum sér ganga og "situr eftir með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn taka til orða um svipuð fyrirbrigði, gæti numið ISK 20 milljörðum á mánuði eða tæpum 200 þúsund kr á mánuði á hverja fjölskyldu í landinu að meðaltali.    

Noregur kann að hafa efni á vinstri stjórn, en þegar er fullreynt, að Ísland hefur ekki efni á vinstri stjórn.  Norðmenn vita gizka vel, að þeir geta ekki hagnazt á inngöngu í ESB.  Það er vegna þess, hversu þjóðartekjur á mann eru háar í Noregi.  Þeir munu þurfa að greiða þangað miklu meira en þeir fá til baka.  Þeir vilja heldur ekki hætta á að missa forræði yfir sínum gríðarlegu auðlindum.  Í Noregi rista hugsjónir sameinaðrar Evrópu afar grunnt.  Reynt var að sameina Evrópu fyrir 7 áratugum, og Norðmenn liðu fyrir þá tilraun.  Þeir eru enn tortryggnir í garð stórveldabrölts í Evrópu, sem kann að brydda á, ef Lissabon samningurinn verður samþykktur, því að þá verður leiðin vörðuð að sambandsríki Evrópu, sem beitt gæti sameiginlegum herstyrk um heim allan.  

EvranUm miðjan september 2009 var birt niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi Íslendinga til inngöngu í ESB.  Í ljós kom, að mikil fjölgun hefur orðið í röðum andstæðinga aðildar frá því, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, afhenti snubbótta umsókn Íslands í utanríkisráðuneyti Svía.  Nú eru um 60 % landsmanna andvígir aðild.  Einhver atburður hlýtur að hafa ráðið sinnaskiptum svo margra.  Tilgáta höfundar er, að sá atburður sé undirskrift "Icesave" hörmungarinnar.  Með réttu tengir fólk  skyndilega og algerlega ótímabæra undirskrift þeirrar nauðungar við flausturslegan og þjösnalegan málatilbúnað ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi til að hægt yrði að senda vanburða umsókn um aðildarviðræður um miðjan júlí 2009. 

Í þessu máli sveik flokksforysta vinstri-grænna kjósendur sína herfilega og gerði þingflokk sinn að hópi ómerkinga með fáeinum undantekningum þó. Vinstri-grænir héldu með þjóð sína inn á braut, sem er ósamrýmanleg þeim hugsjónum þjóðfrelsis, sem þeim er svo tamt að hafa á vörunum af minna tilefni en að óska samninga um afsal fullveldis landsins til verðandi stórveldis.  

Öll þau axarsköpt, sem forysta og þingflokkur vinstri-grænna hefur framið frá því, að flokkurinn skipaði í ráðherraembætti snemma árs 2009, hljóta að hafa alvarleg áhrif á tilvist Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, og hún mun ekki bera sitt barr eftir þessa stjórnarsetu.  

 


Skilaboð frá Nürnberg

Strax eru tekin að birtast raunveruleg viðbrögð frá Evrópu og reyndar víðar að við 44 orða umsókninni um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) frá 16. júlí 2009 fyrir utan kurteisishjal Barroso og Bildt. 

Á sama tíma og téð umsókn var afhent í utanríkisráðuneyti hans hátignar, Svíakonungs, í Stokkhólmi, hélt sá stjórnmálaflokkur, sem haldið hefur um stjórnartaumana í Bæjaralandi frá stofnun Sambandslýðveldisins Þýzkalands 1949, flokksþing sitt í Nürnberg til undirbúnings kosningum til neðri deildar þýzka þingsins, Bundestag, haustið 2009.  Þar er um að ræða CSU, systurflokk CDU, flokks Bundeskanzlerin Angela Merkel, sem var viðstödd flokksþingið í Nürnberg til að stilla saman strengi flokkanna í átaki við að ýta SPD, Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands, úr ráðherrastólum í Berlín. 

Á þessu flokksþingi var áréttuð sú stefna CDU/CSU að gera hlé á fjölgun ríkja í ESB þar til Lissabon sáttmálinn hefur verið staðfestur af öllum ríkjunum, 27 talsins.  Þjóðverjar hafa sjálfir enn ekki staðfest þennan samning, af því að stjórnarskráardómstóll Þýzkalands hefur haft til meðferðar kæru, er lýtur að lögmæti framsals þjóðlegs valds til hins yfirþjóðlega valds í Brüssel.  Þessar vangaveltur Þjóðverja koma Íslendingum kunnuglega fyrir sjónir. 

CDU/CSU styðja inngöngu Króatíu strax og Lissabon samningurinn hefur hlotið staðfestingu í öllum ríkjunum, enda var Króatía hluti af Habsborgaraveldinu á sinni tíð og þess vegna á þýzk-austurrísku áhrifa-og menningarsvæði.  Að inntöku Króatíu sem 28. aðildarlands ESB lokinni, telja CSU/CDU nauðsynlegt að staldra við og endurskipuleggja stjórnkerfi ESB. 

Angela Merkel (CDU) og Horst Seehofer (CSU)

"EU nicht Retter für Islands Wirtschaftskrise" hljómaði frá Nürnberg og mun væntanlega enduróma frá kanzlaranum í Berlín og næstu ríkisstjórn Þýzkalands.  Þetta má þýða: "ESB ekki hjálparhella gagnvart efnahagskreppu Íslands".  Þetta er í samræmi við málflutning gagnrýnenda óðagots Samfylkingarinnar við að sækja um aðild Íslands að ESB og í ósamræmi við málflutning Samfylkingarinnar, sem taldi umsókn vera hluta af lausn efnahagsvandans á Íslandi.   Umsóknin er að steyta á skeri, af því að hún var lögð fram á fráleitasta tíma, sem hugsazt gat, m.t.t. stöðu mála innan ESB og á Íslandi og m.t.t. vandræða í samskiptum Íslands og ESB undanfarið. 

Rök Samfylkingarinnar fyrir óðagotinu bera vott um hræðilega vanþekkingu og dómgreindarskort.  Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og þingmenn Samfylkingarinnar aðrir hafa haldið því fram, að óðagotið væri nauðsynlegt til að Svíum gæfist tækifæri til að greiða umsókninni leið og tala fyrir henni.  Vafalaust hafa Svíar með Carl Bildt, utanríkisráðherra, í fararbroddi hvatt ríkisstjórnina til að flýta sér, en gengur þeim góðvildin ein til í garð Íslands ? 

Svo er auðvitað ekki.  Svíþjóð er gamalt evrópskt stórveldi, sem tók þátt í að lama Þýzkaland í 30 ára stríðinu 1618-1648 og öðlaðist þá ítök á meginlandinu, aðallega við Eystrasaltið.  Áhrif og ítök Svía í Eystrasaltslöndunum eru enn mikil. 

Stefna Svía er að efla hina "norrænu vídd" (den nordiska dimension) undir sinni leiðsögn innan ESB og öðlast þannig völd innan ESB langt umfram það, sem búast má við af 9 milljón manna þjóð.  Lykilatriði til að ná þessu fram er, að Ísland gangi í ESB.  Með því móti telja Svíar, að hreyfing muni koma á aðildarumræður í Noregi, og þar er nú þegar farið að ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu um að senda inn umsókn í 3. skiptið.  Því má bæta við, að Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur talað um að "selja" hinum ESB-ríkjunum 26 hugmyndina um að samþykkja umsókn Íslands með því, að þá öðlist ESB aðgang að Norður-Íshafinu. 

Hvað sem áhrifum Svía innan ESB líður, á meðan þeir gegna formennsku í ráðherraráðinu, er hitt áreiðanlegt, að umsókn verður ekki samþykkt þar í blóra við Berlín.  Óðagot Samfylkingar er að breytast í feigðarflan, þar sem verstu hrakspár stjórnarandstöðu rætast.  Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, sem Samfylkingin hefur efazt um, að samið gæti um aðild, sem hann er algerlega andsnúinn, fyrir hönd sinna málaflokka, getur nú andað léttar, því að minni líkur en meiri eru nú á því, að ráðherraráð ESB samþykki einróma, sem er skilyrði, að taka við umsókn Íslands og fela hana framkvæmdastjórninni til afgreiðslu.  

Það yrði töluverður álitshnekkir fyrir Ísland eftir það, sem á undan er gengið.  Sannast þar hið fornkveðna, að flas gerir engan flýti.   

Dem deutschen Volke 


Viðundur

Þann 16. júlí 2009 unnu vinstri flokkarnir, sem að ríkisstjórn Íslands standa, Phyrrosarsigur.  Þetta heiti er ættað úr fyrsta púnverska stríðinu, þar sem Karthago-menn unnu sigur á rómverska hernum í orrustu við Phyrros á Suður-Ítalíu.  Sigur þessi varð Karthago mun dýrkeyptari en ávinningurinn, og Rómverjar náðu undirtökunum síðar og jöfnuðu Karthago við jörðu. 

Forseti ráðherraráðs ESB 1.7-31.12.2009Þessi sigur vinstri stjórnarinnar á Alþingi mun verða banabiti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sem stjórnmálaafls, sem máli skiptir í íslenzkum stjórnmálum.  Málefnalegur tvískinnungur og hrottafengin svik við stefnu flokksins og við kjósendur hans eru meira en íslenzkir kjósendur kunna að meta. 

Samfylkingin mun ekki bera sitt barr, þegar í ljós kemur, að vegferðin til Brüssel var reist á hillingum og innantómum gyllingum um gull og græna skóga Íslendingum til handa, ef þeir aðeins féllu fram og tilbæðu goðin í Brüssel.  Þessi vegferð verður þungur baggi á ríkissjóði og mun lama stjórnun ríkisins, því að ofan á mikið álag vegna afleiðinga Hruns bætast feikna annir tengdar umsóknarferlinu, ef það verður þá ekki í skötulíki. 

Það versta við þessar málalyktir er þó það, að málatilbúnaður vinstri stjórnarinnar mun gera Íslendinga að viðundrum í augum forkólfa ESB.  Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, veit vel, að allir þingmenn annars stjórnarflokksins, sem að umsókninni stendur, hafa heitið því að berjast gegn samþykkt samnings Íslands við ESB, sama hvað í honum verður.  Hann veit líka, að ráðherra sjávarútvegs-og landbúnaðarmála, erfiðasta málaflokks samningaferlisins, greiddi atkvæði gegn umsókn og sýndi þar með meiri heilindi en félagar hans í ríkisstjórn, en mun fyrir vikið lenda á milli steins og sleggju.

Eftir kurteisishjal og skálaglamur verður þess vegna fyrsta spurning stækkunarstjórans og samninganefndar hans til íslenzku samninganefndarinnar, hver verði örlög samningsins á Íslandi, þegar þar að kemur.    Össuri & Co. mun vefjast tunga um tönn, því að ríkisstjórnin, sem biður ESB um aðildarviðræður, mun hvorki mæla með samþykkt eiginn samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu né á Alþingi.  Slík staða er einsdæmi hjá ESB og mun hleypa illu blóði í ESB-samningamennina frá fyrsta degi, þar sem um tímasóun er augljóslega að ræða.  Með þessum hætti mun vinstri stjórninni takast, illu heilli, að gera Íslendinga að viðundrum í augum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB. 

En sagan er ekki öll sögð.  Vinstri-grænir munu ekki þora í Alþingiskosningar án þess gera tilraun til að klóra yfir skítinn úr sér.  Þeir munu þess vegna stöðva samningaferlið áður en það verður leitt til lykta.  Þetta hefur aldrei gerzt í sögu ESB og mun verða litið svo alvarlegum augum þar á bæ, að það mun líða langur tími þar til ráðherraráðið samþykkir að taka upp þráðinn að nýju.  Kjósendur á Íslandi munu þannig ekki fá að tjá sig í beinum kosningum um þetta mál í þessari lotu, og er það miður.

Vinstri stjórnin mun með þessum hætti gera út af við orðstýr Íslands hjá ESB um alllanga hríð og gera öll samskipti við Brüssel mjög stirð, og var þó ekki á það bætandi.  Þessi óláns málatilbúnaður og rót vinstri flokkanna, sem aldrei hefur verið treystandi fyrir horn í utanríkismálum, getur gengið af EES (Evrópska efnahagssvæðinu) dauðu, þannig að Ísland verði að leita sérsamninga við ESB, eins og Svissland hefur. 

Það er alveg áreiðanlegt, að 16. júlí 2009 mun verða talinn sögulegur dagur, en það er spá höfundar, að atburðir dagsins marki ekki upphafið að inngöngu Íslands í ESB, heldur upphafið að miklum vandræðum í samskiptum landsins við ESB, sem leiða muni til þess, að við munum kappkosta að efla vinfengi og viðskipti við aðra. 

Samfylkingin hefur gengið fram af dæmalausu offorsi á þessu dýrðarinnar íslenzka sumri.  Hún hefur með framferði sínu rekið nagla í líkkistu vinstra samstarfs í stjórnarráði Íslands.  Nú er komið að henni að taka út innistæður sínar í Brüssel, sem margir efast um, að nokkrar séu, og sýna þær landsmönnum.  Ef hún getur það ekki, er betra fyrir stjórnmálamenn þar á bæ að fara strax að biðja bænirnar sínar.  

   

 

 


Farsi

Nýjasti skrípaleikur vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur nefnist Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, ESB.  Meirihluti hennar í utanríkismálanefnd Alþingis hefur samþykkt heimild henni til handa um gjörninginn að viðlögðum svo nefndum vegvísi, þar sem kveðið er á um áframhaldandi óskoruð stjórnunarleg yfirráð íslenzkra stjórnvalda á nýtingu auðlinda í efnahagslögsögu Íslands til lands og sjávar. 

Meirihluti vinstri flokkanna í utanríkismálanefnd þorði ekki að semja umsóknarskjal með ófrávíkjanlegum skilyrðum varðandi óskoraðan fullveldisrétt Íslands yfir auðlindum, sem nú eru alfarið háðar ákvörðun Alþingis um nýtingu.  Það er vegna þess, að ráðherraráð ESB hefði líklega talið slíkt skjal vera móðgun við sig og lítt svaravert.  Svo ósamrýmanlegar eru þessar kröfur sáttmálunum, sem ESB er reist á, en Samfylkingin virðist gefa lítið fyrir. 

Þessi tvískinnungur vinstri flokkanna á Alþingi bíður hættunni á afsali eignarréttinda heim og er ein af ástæðum þess að vísa á þessu umsóknarmáli beint til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar, enda er það vanreifað.

Ef málið væri þannig vaxið, að líklegt þætti, að stækkunarstjóri ESB og samninganefnd hans mundi ganga að kröfum Íslendinga um nokkurn veginn óbreytt stjórnunarfyrirkomulag á sjávarútvegs-og landbúnaðarmálum hérlendis frá því sem verið hefur og það væri ótímasett fyrirkomulag, þá hlyti ESB jafnframt að hafa fallizt á sams konar kröfur Norðmanna í samningaviðræðum 1972 og 1994, og Norðmenn væru fyrir löngu komnir með fulla aðild að ESB. 

Svo er hins vegar ekki, og þess vegna mun Össur, endist honum embættisferill í utanríkisráðuneytinu svo lengi, koma heim með skottið á milli fótanna og leggja fyrir þingið samning, sem verður ekki frekar í samræmi við téðan vegvísi en Icesave-samningurinn er í samræmi við grunnviðmið Alþingis í þeim efnum frá 5. desember 2008.  Þetta viðmið var þó reist á sáttatillögu Frakka, sem þá fóru með formennsku í ráðherraráði ESB, svo að óskiljanlegt er, hvernig íslenzka samninganefndin lét leiða sig á algerar villigötur, eins og fjölmargir, leikir jafnt sem lærðir, hafa sýnt fram á með haldgóðum rökum. 

Nú síðast gaf yfirlögfræðingur Seðlabankans þingnefnd skýrslu, sem sýndi fram á hættulega veikleika í samninginum, sem auðveldar gagnaðila aðför að eigum íslenzka ríkisins.  Þetta álit hentaði hins vegar ekki rétttrúnaðarboðun ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem í anda valdhafanna í Austur-Evrópu, undir járnhæl sameignarstefnunnar ógurlegu þar forðum tíð, kúgaði Seðlabankann til að afneita eigin faglega mati. 

Hvaða heilvita manni dettur í hug, að Seðlabankinn geri fulltrúa sinn út af örkinni til Alþingis með persónulega skoðun sína á samninginum um ríkisábyrgð Tryggingarsjóðs ?  Skoðanakúgun ráðstjórnarinnar leynir sér ekki, heldur færist nú öll í aukana með vaxandi örvæntingu hennar.

AlþingishúsiðÞað eru fleiri ástæður til þess að leggja spurninguna um aðildarumsókn til ESB fyrir þjóðina. 

Ríkisstjórnin þarf ríkari heimildir til að semja um og skrifa undir samning um fullveldisafsal en þær heimildir, sem Alþingi getur veitt.  Úr því að Stjórnarskráin í sinni núverandi mynd leyfir þetta ekki, þarf ríkisstjórnin að taka af allan vafa um umboð sitt í málinu með því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Orðhengilsháttur sumra þingmanna Samfylkingar um, að þetta sé atkvæðagreiðsla um atkvæðagreiðslu, ber vott um virðingarleysi þeirra fyrir Stjórnarskránni og lýðræðislegum stjórnarháttum. Kostnaðurinn verður aðeins tíundi hluti umsóknarkostnaðar, og vonandi sparast þá 9/10.   

Þriðja ástæðan fyrir  þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn eða ekki umsókn er, að kostnaður ríkisins af umsókn er tilfinnanlegur á tímum nauðsynlegs sparnaðar á öllum sviðum ríkisrekstrarins. 

Kostnaðurinn er þar að auki stórlega vanáætlaður að mati sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, en á hans ráðuneyti mun álagið stóraukast vegna umsóknarinnar.  Eins og rakið er hér að ofan, er líklegast, að hér verði um sóun á fé skattborgaranna og tíma ráðuneytanna að ræða, því að aðildarsamningur verður ekki síður óaðgengilegur Íslendingum árið 2011 en hann reyndist Norðmönnum árið 1994, sem felldu samninginn í trássi við Stortinget í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Öflugt ESB-trúboð er rekið á Íslandi.  Eins er víst og tvisvar tveir eru fjórir, að þetta trúboð mun ganga hart fram um, að Íslendingar samþykki samninginn, hvert svo sem innihald hans verður, enda sé búið að eyða miklu fé og orku í gerð hans að beggja hálfu. 

Evrópu-trúboðið mun líta á það sem hneisu fyrir ESB, ef Íslendingar hafna inngöngusamningi, enda fáheyrt, þar sem fordæmi er aðeins frá Noregi um slíkt.  Það getur orðið mjótt á mununum í þjóðaratkvæðugreiðslu þá, og þá er illt að þurfa að treysta á túlkun vinstri flokkanna á Alþingi á lýðræðinu.  Það er með öðrum orðum óviðunandi, að þjóðaratkvæðagreiðslan verði í lokin aðeins ráðgefandi, en ekki bindandi fyrir Alþingi. 

Það er þess vegna þörf á stjórnarskráarbreytingu, sem tryggir með einum eða öðrum hætti, að fram kominn þjóðarvilji sé virtur.  Þetta sé einhlítt, ef hreinn meirihluti atkvæðisbærra manna er annars vegar, en aukinn meirihluti á Alþingi, t.d. 2/3, geti snúið ákvörðun minnihluta atkvæðisbærra manna við í máli, sem þó hafi hlotið flest atkvæði.

Dæmi um ofangreint trúboð er að finna í grein Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, "ESB eykur efnahagslegt öryggi", í Fréttablaðinu 7. júlí 2009.  Baldur gefur í skyn, að hag Íslands væri nú betur komið, ef Ísland hefði verið fullgildur aðili að ESB, þegar Hrunið varð.  Hér er um makalausan áróður að ræða.  Þvert á móti má fullyrða, að þátttaka Íslands í innri markaði ESB, sem tryggir frjálst flæði fjármagns, fólks, vöru og þjónustu innan EES, hafi gert bönkunum íslenzku kleift að hasla sér völl í Evrópu.  Án innri markaðarins hefði útþensla bankakerfisins íslenzka, með gegndarlausum lántökum og innlánsreikningum erlendis, tæpst leitt til hruns fjármálakerfisins á Íslandi við fall "Lehman Brothers".  Gallinn við innri markaðinn var m.a. sá, að ekkert sameiginlegt fjármálaeftirlit var til fyrir hann, og tilskipun eða forsögn ESB um tryggingarkerfi innistæðueigenda var vanhugsuð. 

Óþarft er að taka fram hér, að við lögleiðingu tilskipunar um Tryggingarsjóð innistæðna á Íslandi 1999 var sérstaklega tekið fram á Alþingi, að engin ríkisábyrgð fylgdi þessum sjóði að hálfu Íslands.   Hvað ráðherrar sögðu eða skrifuðu í andnauð í kjölfar Hrunsins, þegar bankakerfi Evrópu nötraði, breytir engu um þennan grundvöll löggjafarinnar, því að enginn getur skuldbundið íslenzka skattgreiðendur, nema Alþingi.  Klúður vinstri stjórnarinnar, að taka á sig ábyrgð á greiðslum allt að kEUR 20 per innistæðu með alræmdri undirskrift afarkosta í anda Versala 1919, eru mestu stjórnvaldsmistök á lýðveldistímanum.   

Evrópubankinn, ECB, gegnir ekki hlutverki til þrautavara fyrir bankana á evru-svæðinu, hvað þá annars staðar í ESB.  Það er hlutverk seðlabanka hvers ríkis.  Frakkar höfðu hug á því haustið 2008, er þeir höfðu 6 mánaða forystu fyrir ráðherraráði ESB, að ESB hlypi undir bagga með bönkum innan ESB í sameiginlegu átaki.  Þýzki seðlabankinn, Die Bundesbank, taldi óeðlilegt, að þýzkt sparifé yrði notað til að bjarga eyðsluseggjum Evrópu, og þýzka ríkisstjórnin, með kristilega demókratann Angelu Merkel í broddi fylkingar, stöðvaði þessi áform, enda hafði þýzka þjóðin lagt hart að sér við að endurheimta yfirburðastöðu á útflutningsmörkuðum, sem hún hafði með sínu D-marki.  Að hjálpa þeim, sem makað höfðu krókinn á tímum eignabólunnar, sem að mestu fór framhjá Þýzkalandi, hefði fallið í grýttan jarðveg á meðal þýzkra kjósenda, sem velja nýjan Bundestag, neðri deild þýzka þingsins, nú í haust, 2009.

Af öllum þessum ástæðum verður ekki séð, að orðagjálfur eins og "ESB veitir margs háttar efnahagslegt öryggi" (hortitturinn er téðs prófessors í stjórnmálafræði) sé meira en innantóm orð.  Í þessum efnum er hver þjóð sjálfri sér næst og sinnar eigin gæfu smiður.

  

 

 

 


Taglhnýtingar

Vinstri hreyfingin grænt framboð á eftir að hljóta makleg málagjöld í næstu kosningum fyrir að láta Jóhönnu & Co. handjárna sig á Alþingi.  Þingflokkur VG gerði svo víðtæka fyrirvara við stuðning við þingsályktun um umsókn um aðild að ESB (Evrópusambandinu) við gerð stjórnarsáttmálans, að ætla mátti, að þingmenn VG  hefðu til þess frelsi að starfa að þessu máli á Alþingi að eiginn geðþótta. 

Virðingarleysi vinstri stjórnarinnar, seinna ráðuneytis Jóhönnu Sigurðardóttur, gagnvart Alþingi er svo yfirþyrmandi, að hún hótar stjórnarslitum, ef þingmenn VG vinna á Alþingi með þeim hætti, sem ekki þóknast Jóhönnu.  Þetta er mikil ósvífni af aldurhniginni Jóhönnu gagnvart yngsta þingmanninum.  Að vinstri grænir skyldu hins vegar láta Samfylkinguna svínbeygja sig með þessum hætti vitnar um, að þeir eru taglhnýtingar í þessu stjórnarsamstarfi. 

Hótun Samfylkingarinnar var algerlega innantóm.  Að rjúfa þetta vonlausa stjórnarsamstarf af þeirri ástæðu, að þingmaður VG ynni að breytingartillögu við tillögu ríkisstjórnarinnar, hefði skapað Samfylkingunni gjörtapaða vígstöðu.  Þó að dómgreindarlítil sé, hefur henni ekki verið alvara með þessari hótun. 

Vart hefur nokkur kjósandi VG léð henni atkvæði sitt til að verða taglhnýtingur Samfylkingarinnar.  Þessi málsmeðferð í aðdraganda umsóknar ríkisstjórnarinnar um aðild að ESB ber með sér feigðarboða fyrir báða stjórnmálaflokkana, sem að ráðstjórninni standa. 

Ef svo fer fram sem horfir, að ráðstjórnin ætli að synja þjóðinni þess að tjá sig um það, hvort sækja eigi um ESB með kostnaði, sem er margfaldur (sennilega tífaldur) kostnaði við slíka atkvæðagreiðslu, mun koma harkalega niður á Samfylkingu og Vinstri-grænum í næstu sveitarstjórnarkosningum og þingkosningum.  Kjósendur munu gjalda ráðstjórninni gráan belg fyrir svartan. 

'OeirðirRöksemdir Samfylkingar fyrir brýnni nauðsyn umsóknar nú í júlí 2009 eru ósannfærandi, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.  Þau boð hafa komið frá Berlín, að ESB verði ekki stækkað fyrr en Lissabon-sáttmálinn hefur verið samþykktur af öllum núverandi aðildarríkjum.  Hvort svo verður 2009 er óvíst.  Ef Íhaldsflokkurinn brezki flæmir hina vonlausu jafnaðarmenn frá völdum í Lundúnum áður en ESB nær að lögtaka þennan sáttmála, þá mun Íhaldsflokkurinn í ríkisstjórn halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hann á Stóra-Bretlandi.  Næsta víst er talið, að Bretar muni þá fella hann.  Þar með verður "allt upp í loft" í BrüsselSvíar hafa engin tök á að fara með Ísland á hraðferð inn í ESB, þó að ekki skuli gera lítið úr hinni borgaralegu ríkisstjórn Svíþjóðar og forystu Reinfeldts fyrir ráðherraráðinu í Brüssel. Dómgreindarleysi Samfylkingarinnar virðist tröllríða öllum málum, sem hún kemur nálægt. 

Samfylkingin heldur því fram, að umsókn skipti sköpum fyrir þróun efnahagsmála á Íslandi.  Umsókn muni t.d. styrkja gengi krónunnar.  Þetta eru hugarórar einberir.  Vitað er, að þjóðartekjur á mann eru miklu hærri á Íslandi en að meðaltali í ESB og svo mun ætíð verða.  Þar af leiðandi mun Ísland, eins og önnur lönd yfir þessu meðaltali, þurfa að greiða meira til ESB en það fær.  Mismunurinn gæti numið um 10 milljörðum kr á ári að lágmarki.  

Evrópubankinn (ECB) í Frankfurt er sjálfstæður gagnvart ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB, og hann ver evruna með kjafti og klóm.  Það hefur komið í ljós gagnvart nýjum ESB-ríkjum við Eystrasalt og í Mið-og Austur-Evrópu, að ECB gefur ekki þumlung eftir í kröfum sínum um uppfyllingu allra Maastricht-skilyrðanna fyrir upptöku evru.  ECB veitir ekkert fordæmi, sem herma má upp á hann í þessum efnum.  Þar gildir einu, þó að undanþága til Íslands mundi engu breyta um peningalegan styrk evrunnar.  Evran á í vök að verjast vegna þess, að evru-lönd Suður-Evrópu hafa fallið á Maastricht-prófunum að undanförnu.  Þetta kemur þannig út fyrir þau, að vextir á ríkisskuldabréfum þessara landa eru um tvöfalt hærri en vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins.  Íslenzka efnahagskerfið er nú og verður næstu misserin fjarri því að ná nokkru prófi Evrópubankans.  Umsókn og innganga í ESB breytir engu þar um.  Þetta vita matsfyrirtæki lánshæfis og aðilar á gjaldeyrismarkaði.  Samfylkingin er gjörsamlega "úti á túni" í öllu, er lýtur að ESB, og utanríkisráðherra hennar er engan veginn treystandi til að fara með stjórn umsóknarferlisins fyrir Ísland.  Sporin frá "Icesave" hræða.  

Segja má, að nú sé fráleitasti tíminn til að senda umsókn til Brüssel.  Ástæðurnar má rekja til ástandsins í ESB og á Íslandi, eins og rakið hefur verið hér að ofan.  Alþingi á hiklaust að veita þjóðinni kost á að staðfesta eða að hafna þessu mati.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband