Svona eiga sýslumenn að vera

Forseti lýðveldisins á mikið hrós skilið fyrir framgöngu sína.  Með einu pennastriki hefur hann gjörbreytt stöðu Íslands gagnvart útlöndum til hins betra.  Hann áttaði sig að sjálfsögðu á áróðurslegu gildi augnibliksins, er hann synjaði lögunum um hugsanlegar drápsklyfjar á þjóðina staðfestingar. 

Frammistaða hans síðan hefur verið frábær.  Loksins eignaðist þjóðin þungavigtarmann, sem beitir sér af snerpu og heldur staðfastlega fram málstað hennar á alþjóðavettvangi með sannfæringarkrafti, af þekkingu og með glæsibrag. 

Hegðun ríkisstjórnarómyndarinnar er til háborinnar skammar.  Það er niðurlægjandi að búa við stjórnvöld, sem senda til Bessastaða bréf, sem er barnalegur endurómur hótana andstæðinga okkar í þessu bölvaða "Icesave" máli.  Í bréfunum er málaður skrattinn á vegginn með þeim hætti, að bréfritarar eru augljóslega með öllu óhæfir til að tala fyrir málstað okkar.  Þeir tala máli andstæðinganna.  Þá var ömurlegt að heyra Milliband, utanríkisráðherra Breta, segja fátt annað eftir samtal við utanríkisráðherra Íslands en að Bretar mundu ekki standa í vegi fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Þetta var greinilega eina áhyggjuefni Össurar Skarphéðinssonar.  Þjóð með slíka forystu þarf ekki á andstæðingum að halda.  Fimmta herdeildin situr nú í Stjórnarráðinu við Lækjargötu. 

Þetta kom einnig berlega í ljós af fyrstu viðbrögðunum erlendis frá við yfirlýsingu forsetans.  Utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg hefur greinilega ekki verið beitt af neinu viti til að breiða út málstað Íslands.  Allt moraði af ranghugmyndum og upplýsingaskorti.  Ríkisstjórnin hefur gjörsamlega sofið á verðinum í hagsmunagæzlunni, sem henni ber þó skylda til að halda uppi, og hún hafði greinilega ekkert plan B, þegar yfirlýsingin barst frá Bessastöðum þann 5. janúar 2010.  Hún var tekin með allt á hælunum.  Í stað þess að grípa augnablikið, þegar augu heimsins beindust að Íslandi fyrir tilverknað forsetans, fór ríkisstjórnin í fýlu og upphóf nöldur og ónot í garð forsetans.  Þessi hegðun er svo lítilmannleg og lágkúruleg, að engu tali tekur.  Ríkisstjórninni er ekki við bjargandi.

Þessu fólki í stjórnarráðinu, skötuhjúunum í forystunni, húskörlum þeirra og griðkonum, er með engu móti treystandi til að tala máli okkar í þessu örlagamáli um ríkisábyrgð á Tryggingasjóð innistæðueigenda, eins og berlega hefur nú komið í ljós. 

Til skjalanna verður að koma nýtt fólk.  Það nýja fólk verður að leggjast í víking, bíta í skjaldarrendur og tala máli landsmanna í Berlín, París, Lundúnum, Washington, den Haag og víðar.  Ný landsforysta á að stofna einvala lið, samningateymi, skipað hæfasta fólki til þessara verka með djúpa þekkingu á lögfræðinni, hagfræðinni og samningatækni með seiglu og innri styrk til að reka andstæðingana á gat.  Það er ekki orðið of seint að leita í smiðju hjá Evu Joly og mörgu öðru fólki, innlendu sem erlendu, sem greint hefur kjarnann frá hisminu.  

Eva JolyHaustið 2008 riðuðu fjölmargir bankar Vesturlanda á barmi gjaldþrots.  Rikisstjórnir þessara landa tóku þá ákvörðun um að setja ógrynni af fé skattborgaranna inn í einkabanka til að bjarga þeim frá falli.  Brezka verkamannaflokksstjórnin var enginn eftirbátur annarra í þessum efnum, og rökin voru þau, að með þessum fjáraustri væri efnahagshruni forðað og neyzlunni yrði haldið við, þannig að féð mundi skila sér í ríkiskassann.  Þrátt fyrir þetta neituðu brezk stjórnvöld íslenzku bönkunum í Lundúnum um aðstöð og gripu meira að segja til aðgerða gagnvart þeim, sem riðu þeim að fullu á svipstundu.  

Aðgerðir yfirvalda á Vesturlöndum, þar með töldum Bretlandi og Hollandi, til björgunar bankakerfum landa sinna, voru einnig hugsaðar til að koma í veg fyrir áhlaup innistæðueigenda á bankana.  Ríkisstjórnir þessara landa stóðu frammi fyrir reiðum og örvæntingarfullum innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna.  Til að hindra ásakanir í sinn garð fyrir það, sem gerzt hafði, gagnrýni á aðgerðarleysi seðlabankanna og fjármálaeftirlitsstofnana í þessum löndum, þá var tekin skyndiákvörðun um að bæta innistæðueigendum tjón sitt samkvæmt reglum ESB með greiðslum úr ríkishirzlunum, enda munaði þær lítið um þessar greiðslur, einkum þá brezku.  Ekki er vitað til, að þessi gjörningur hafi verið borinn undir íslenzk stjórnvöld á nokkurn hátt áður en hann var framinn.   Þar rauður loginn brann-janúar 2010 

Það kemur vel fram í bókinni Umsátrinu eftir Styrmi Gunnarsson, að stjórnvöld Bretlands og Hollands töldu framgöngu íslenzku bankamannanna ögrandi og frammistöðu íslenzkra yfirvalda, t.d. Fjármálaeftirlits, ámælisverða.  Ísland lá vel við höggi, og framtíðarhorfur þess til lengri tíma í raun mun betri en Bretlands og Hollands, þar sem ríkisskuldir eru miklar, en skattstofnar munu fara rýrnandi vegna dvínandi olíu-og gaslinda, ört hækkandi meðalaldurs þjóðanna og lítils hagvaxtar.  Þess vegna var ákveðið að senda reikninginn til Íslands.  Ósvífnin felst m.a. í því, að peningarnir á þessum reikningum komu aldrei til Íslands og nýttust þannig landinu ekkert, en samt á að taka ógrynni fjár á íslenzkan mælikvarða út úr hagkerfi landsins og senda inn í hagkerfi Breta og Hollendinga með vaxtabótum til bæta ríkissjóðum þessara landa fé, sem ríkisstjórnir þeirra tóku ákvörðun um að nota til að smyrja eigin hagkerfi.  Þessi glórulausi vaxtabætti baggi hefði lent á íslenzkum skattborgurum fyrir tilstilli duglausrar ríkisstjórnar í Reykjavík og meðreiðarsveina hennar með draumóra um aðild að Evrópusambandinu, ESB, sem eru andvana fæddir, ef forseti lýðveldisins hefði ekki stöðvað ósómann og snúið taflinu við.  Framganga hans í harðri viðureign á BBC og víðar verður lengi í minnum höfð.  Mættum við fá meira að sjá og heyra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Útvörður Íslands sverð þess og sómi og Eva Joly  er búin að afreka meira á 2 dögum heldur ríkistjórnin á tæpu ári.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 8.1.2010 kl. 22:51

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég er að póstleggja þessa grein á nokkurn fjölda blogga, en lestu þetta endilega:

Financial Times, eftir "Michael Waibel, British Academy Postdoctoral Fellow, Lauterpacht Centre for International Law, University of Cambridge, UK."

Iceland has no clear legal obligation to pay up

"What is often overlooked amid this unfolding drama is that Iceland is under no clear international legal obligation to pay up - a fact that Fitch’s premature downgrade of Iceland’s credit rating on January 5 also overlooks. The UK would likely face substantial obstacles in court. The chance of winning is no more than 60 per cent, and even then the UK is very unlikely to obtain more than in this settlement."

"A protracted legal battle is in nobody’s interest. Yet the UK and the Netherlands need to start showing a genuine willingness to compromise, rather than using political leverage points in the International Monetary Fund and elsewhere to their maximum advantage. Any negotiated agreement should reflect the uncertainty of how much Iceland is liable to pay in the first place. This uncertainty should be reflected in a substantial discount on the principal, together with a reasonable interest rate."

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 9.1.2010 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband