Ár 2010

Leiðtogi ríkisstjórnarinnar og forseti lýðveldisins hafa flutt áramótaávörp sín.  Á forsætisráðherranum var lítið að græða, en forsetinn flutti sitt bezta áramótaávarp fram að þessu.  Kom hann víða við, lyfti huganum hátt og ræddi um það, sem honum þótti brýnast.  Var ekki annað að heyra á honum en eitt af því væri siðvæðing þjóðarinnar og þar með stjórnmálamanna, og þróun lýðræðisins í átt að beinu lýðræði.  Hér slær forsetinn tón, sem á sér víðfeðman hljómgrunn og sem vafalaust mun verða gaumur gefinn á Íslandi og verða eitt af úrræðunum til að græða þau sár, sem mynduðust við Hrunið með allsherjar vantrausti í þjóðfélaginu sem afleiðingu.  

Á morgun segir sá latiEf hugur fylgir máli hjá stjórnmálaflokkunum, undanskilja þeir ekkert mál sem tækt til þjóðaratkvæðagreiðslu.  Vinstri flokkarnir sviku kosningaloforð sín þann 30. desember 2009, er þeir felldu tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi um að leyfa þjóðinni að tjá sig um það í almennri atkvæðagreiðslu, hvort hún vildi heldur taka þá áhættu að hafna ríkisábyrgð Skuldatryggingasjóðs innistæðueigenda eða að samþykkja hana.  Báðum valkostunum fylgir áhætta, en almenningi munu falla í skaut kostir og gallar þeirra beggja.  Hér fór meirihluti Alþingis leið ófriðar, sem koma mun honum í koll.

Til að festa í sessi téða framþróun lýðræðisins, ætti Alþingi að tryggja tilteknum minnihluta á þingi þann rétt í Stjórnarskrá að framkalla þjóðaratkvæði um mál á undan og/eða á eftir afgreiðslu máls, og verði úrskurður meirihluta þátttakenda í atkvæðagreiðslu bindandi fyrir þingið.  Þetta mun leiða til skynsamlegri og sáttfúsari vinnubragða á Alþingi en nú ríkja þar, þegar ríkisstjórnin virðist hanga saman á óvildarhug einum saman í garð Sjálfstæðisflokksins, en ganga annars með böggum hildar að hverju máli.  Tillaga vinstri flokkanna um, að meirihluti Alþingis geti sent mál í þjóðaratkvæði, er fáránleg.   

Herðubreið sumarið 2009Hvað er landinu mikilvægast, að gerist á nýhöfnu ári, 2010 ?  Það er að vinna bug á atvinnuleysinu.  Það þarf að stöðva þá sóun mannauðs, sem nú á sér stað, með því að koma öllum vinnufúsum hugum og höndum til verka.  Þetta verður einvörðungu gert með nýjum erlendum fjárfestingum og nýrri nýtingu náttúruauðlindanna.  Stjórnvöld eiga að gera bandalag við erlenda fjárfesta, sem tryggir traust uppbyggingar-og hagvaxtarumhverfi á Íslandi.  Braut núverandi stjórnvalda leiðir til glötunar og er alger tímaskekkja.  Á tímum opinna hagkerfa og frjáls flutnings vinnuafls, fjármagns, vöru og þjónustu á milli landa leiða hlutfallslegar skattahækkanir m.v. önnur lönd til flótta vinnuafls og fjármagns.  Þetta mun sannast á Íslandi og Bretlandi, þar sem vinstri stjórnir eru við völd.  Bretar óttast, að forysta á evrópskum fjármálamarkaði hverfi frá London til Parísar eða Frankfurt vegna skattahækkana, og Íslendingar mega óttast langvinna kreppu vegna hins sama og skorts á erlendum fjárfestingum. 

HeillaóskirÁrið 2010, sem og hið næsta, verður ár uppgjörs og sakfellinga. Á Íslandi verða engin Nürnberg-réttarhöld, en til uppgjörs við fortíðina verður þó að koma fyrir dómstólum.  Dómstólar munu hins vegar gera illt verra, ef þeir taka á þeim, sem alvarleg sök verður á sönnuð, með silkihönzkum.

Niðurstaða einstakrar rannsóknar í Íslandssögunni mun senn sjá dagsins ljós.  Alþingi skipaði rannsóknarnefnd, og Alþingi ber skylda til að vinna úr niðurstöðunum af festu og ábyrgð til heilla fyrir framtíð samfélagsins.  Það má ekkert draga undan.  Allt skal verða "uppi á borðum".  Alþingi ber nú þegar að ákveða verkferli fyrir úrvinnslu þessarar skýrslu.  Það verður að draga djúptæka lærdóma af niðurstöðunum og ekki að hika við að stokka upp stjórnkerfið á þeim sviðum, þar sem rannsóknarnefnd Alþingis kann að finna alvarlegar meinsemdir.  Þjóðverjar guldu afhroð 1945, voru trausti rúnir og siðferðilega og efnahagslega gjaldþrota.  Samt voru þeir ekki látnir greiða beinar stríðsskaðabætur.  Þjóðverjar byltu stjórnkerfi sínu og risu úr öskustó á undraskömmum tíma með "Wirtschaftwunder", efnahagsundri.  Svipað er á færi okkar Íslendinga, þó að byltingar verði tæpast þörf.  Eins og Þjóðverjar, er þjóðin vel menntuð, harðdugleg og þrautseig. 

Það hvarflar að manni, að ESB ætli að láta Íslendinga greiða "stríðsskaðabætur" fyrir glæfralega framgöngu á fjármálamörkuðunum.  Er þá ekki rétt að fá úr því skorið fyrir dómstólum áður en að greiðslum kemur, hvort land, sem verður fyrir allsherjar hruni bankakerfisins í djúpstæðri heimskreppu fjármálakerfisins, þurfi að evrópskum rétti að ábyrgjast skuldbindingar einkabanka erlendis, þó að svo sé gert innanlands með neyðarlögum til að forða þar allsherjar öngþveiti ?  

Það er slæmt, að landsmenn þurfi nú að eyða fé, orku og dýrmætum tíma í þetta uppgjör, þegar mikið liggur við, að þeir snúi bökum saman og snúi sér að því að skapa ný verðmæti til að greiða niður eigin skuldir og sameiginlegar skuldir.  Alþingismenn hafa ekki borið gæfu til að sameinast um úrlausn viðamestu viðfangsefnanna, nema sumarið 2009 í Icesave-málinu.  Af annarlegum ástæðum framdi vinstri stjórnin  griðrof í því máli, og hún hélt inn á ófriðarbraut með umsókn um aðild að Evrópusambandinu, ESB, og eyðileggingu skilvirks skattakerfis.  Því miður virðist núverandi ríkisstjórn vera ófær um að mynda samstillta þjóð og leiða hana fram í baráttunni fyrir fullri atvinnu og afgangi á rekstrarreikningi ríkisins, svo að hið fyrsta megi fara að vinna á geigvænlegum skuldum.  

Eitt af tækjunum til að skapa samstöðu um ákvarðanir er þjóðaratkvæðagreiðsla.  Það á að setja öll helztu deilumálin í þjóðaratkvæði, því að miklu auðveldar er fyrir þá, er undir verða, að sætta sig við þannig teknar ákvarðanir.  Það ríður á að finna leiðir til að sameina kraftana í þeirri baráttu fyrir bættum lífskjörum í þessu landi, sem framundan er.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband