Færsluflokkur: Fjölmiðlar
7.11.2024 | 16:36
Skellibjalla bullar
Málflutningur formanns "Skattfylkingarinnar", Kristrúnar Frostadóttur, í aðdraganda nóvemberkosninganna á Íslandi 2024, hefur verið sérkennilegur. Hún lætur í það skína, að hún hafi legið undir feldi með flokksmönnum sínum og gert þar áætlun um lausn jafnaðarmanna á þeim málum, sem helzt hvíla á landsmönnum um þessar mundir. Þegar kjánalegir stjórnmálamenn forræðishyggjunnar gera áætlanir um samfélagsbreytingar, er eins gott fyrir þjóðina að biðja guð að gleypa sig eða hreinlega að hafna forræðishyggjunni við kjörborðið.
Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, gerði formann Samfylkingar afturreka með drýldni sína um áætlun fyrir ríkisfjármálin á fyrri formannafundi RÚV Sjónvarps fyrir þessar Alþingiskosningar. "Skattfylkingin" ætlar að hækka útgjöld ríkissjóðs um 77 mrdISK/ár. Hvernig ætlar forræðishyggjufólkið að fjármagna þennan úgjaldaauka ? Það var talið upp í áætlun "snillinganna", en skattstofnarnir, sem "Skattfylkingin" ætlar að þurrmjólka, eru svo takmarkaðir, að þar er í mesta lagi hægt að kreista 20 mrdISK/ár. Þá kom fát á drýldnu skellibjölluna, sem fór að bulla um aðhaldsaðgerðir. Hverjum dettur í hug, að "Skattfylkingin" muni beita sér fyrir aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkissjóðs ? Hún hefur keyrt borgarsjóð í þrot, skuldsett hann upp í rjáfur, svo að skuldir borgarinnar eru komnar yfir leyfileg mörk.
Þann 5. nóvember 2024 þóknaðist skellibjöllunni að fá birta eftir sig öfugmælagrein með innantómum fullyrðingum í sandkassastíl um, að "Sjálfstæðisflokkurinn hækki vexti", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki verð", "Sjálfstæðisflokkurinn hækki skatta", og að "Samfylkingin sé eini flokkurinn með plan".
Þetta er ótrúlega barnaleg og vantillt grein, sem þarfnast þó umfjöllunar í ljósi kosninganna. Fyrirsögnin bar þessu vitni:
"Sjálfstæðisflokkurinn hækkar kostnað heimilanna".
Öfugmælin hófust þannig:
"Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimilanna. [1]
Kostnaðurinn við að lifa venjulegu lífi hefur rokið upp úr öllu valdi á Íslandi. [2]
Það er of dýrt að borga vexti, of dýrt að borga húsnæði, og það er meira að segja of dýrt að kaupa í matinn hérna. [3]
Þessu ætlar Samfylkingin að breyta - fáum við til þess traust hjá þjóðinni í kosningunum þann 30. nóvember [2024]."
[1] Er þetta trúverðugt í ljósi þess, að Samfylkingin ætlar að hækka skatta á almenning og fyrirtæki ? Allar skattahækkanir bitna að lokum á heimilunum. Það eru engar "góðar" skattahækkanir til, sem ekki bitna á almenningi með einum eða öðrum hætti. Þungar byrðar á fyrirtæki minnkar getu þeirra til stækkunar og/eða hækkunar launa og getur leitt til samdráttar og uppsagna starfsfólks.
Er Samfylkingin fús til að lækka kolefnisgjöldin á eldsneytið, nú þegar verið er að hækka og útvíkka gjaldtöku fyrir veganotkun ? Nei, Samfylkingin hefur ekki léð máls á því og yfirleitt alls engum lækkunum skattheimtu og opinberra gjalda. Það er mjög greinilegt í höfuðborginni, þar sem hún hefur ráðið undanfarinn rúman áratug og spennt allar álögur í botn. Það er eins og hvert annað bull, að Samfylkingin muni verða líkleg til að lækka kostnað heimilanna.
[2] Framfærslukostnaður á Íslandi hefur hækkað undanfarin ár á Íslandi, eins og í öllum öðrum löndum. Framleiðsla og flutningar röskuðust í Kófinu (C-19), sem leiddi til hækkunar vöruverðs og þjónustu 2020-2022. Síðan hóf Rússland ólöglega og grimmdarlega alls herjar innrás sína í Úkraínu 24.02.2022. Hún leiddi til enn meiri truflana á ýmsum aðdráttum ásamt verðhækkunum. Verðbólguskot varð um allan heim, og Ísland fór ekki varhluta af því, og fyrst núna er verðbólgan tekin að hjaðna í nægilegum mæli, til að Seðlabankinn hafi séð sér fært að hefja vaxtalækkunarferli.
Með mjög óeðlilegum stjórnarháttum sínum í Reykjavík hefur Samfylkingin valdið lóðaskorti í Reykjavík og húsnæðisskorti, nema á rándýrum íbúðum á s.k. þéttingarreitum. Þetta keyrði upp verðbólguna í landinu og heldur henni enn uppi.
Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök af Samfylkingu um stórfelldar byrðar á heimilin í landinu.
[3] Samfylkingin hefur neitað að víkka uppbyggingarmörk höfuðborgarsvæðisins, og þannig komið í veg fyrir, að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur geti brotið nýtt land undir byggingar, sem þó er nauðsynlegt til að leysa úr lóðaskorti og byggingaskorti á höfuðborgarsvæðinu, sem valdið hefur miklum hækkunum húsnæðisverðs þar. Það er húsnæðisverðið sem er aðalhvati verðbólgunnar um þessar mundir.
Formanninum þykir dýrt að kaupa í matinn á Íslandi. Er hún fús til að fara í raunhæfar aðgerðir til lækkunar, t.d. lækkun eða afnám virðisaukaskatts á matvæli eða að afnema kolefnisgjald á olíu, sem þá lækkar flutningskostnað og framleiðslukostnað íslenzks landbúnaðar ? Samfylkingin hefur aldrei gert neitt raunhæft til að lækka kostnað heimila.
Bullið í formanni Samfylkingar hreinsar ekki sök Samfylkingar á háum kostnaði og háum vöxtum á Íslandi.
28.9.2024 | 17:41
Um próf
Í huga þessa skrifara er skóli á öllum stigum óhjákvæmilega tengdur prófum, enda þjálfa prófin nemendur í að sýna þekkingu sína á fögum heillar annar eða vetrar (tveggja anna). Þessi þjálfun kemur sér iðulega vel í starfi síðar á ævinni. Vitneskjan um, að próf yrði haldið til að skera úr um, hvort nemandanum yrði heimilað að færast upp um deild (og nær lokaprófi), virkaði alla tíð sem ágætis aðhald um að slaka ekki á. Nám er ekki leikur, heldur vinna, sem krefst sjálfsaga. Kennarar gerðu þekkingarkröfur, og nemendur lærðu að sama skapi að gera kröfur til sjálfra sín, vildu þeir á annað borð ná viðunandi árangri í skólanum.
Engu er líkara en nú sé viðkvæðið í menntamálaráðuneytinu og á meðal kennaraforystunnar o.fl., að próf séu of íþyngjandi fyrir bæði nemendur og kennara, og bezt sé að trufla skólastarfið sem minnst með þeim. Afleiðingin er sú, að nemendur þjálfast ekki í að taka próf, sem leiðir til þess, að þegar próf er loks lagt fyrir þá, þá verður niðurstaðan hörmuleg, eins og á PISA-prófunum, og kannski vantar líka þekkingargrunninn, a.m.k. í sumum skólum. Hverjum er greiði gerður með þessum ósköpum ? Alla vega ekki nemendum, sem virðast koma grænir á bak við bæði eyrun út úr grunnskóla, og enginn þykist vita, hvernig á því stendur. Enginn samanburður á milli deilda sama skóla né á milli skóla er leyfður, svo að erfitt er um vik að fá heildarsýn yfir stöðuna eða átta sig á, hvaða kennsluaðferðir eru betri en aðrar. Þetta hlýtur hins vegar að leiða til þess, að framhaldsskólarnir fái til sín nemendur, sem eiga á brattann að sækja, ef þá hreinlega er ekki slegið af kröfum. Samfélagslega er þetta slæmt, því að sleifarlag í grunnskóla setur tóninn um allt framhaldið, og atvinnulífið hefur úr minna bitastæðum einstaklingum að moða, og þeir munu fyrr eða síðar reka sig á vegg.
Meyvant Þórólfsson þekkir þessi mál gjörla, enda prófessor emeritus við HÍ og sérfræðingur í mats- og námskrárfræðum. Af fjölmörgum greinum hans í Morgunblaðinu að undanförnu er ljóst, að hann væri vel fallinn til að leiða "grundvallarendurskoðun" á grunnskólakerfinu og til að semja nýja námsskrá, sem er bráðnauðsynlegt.
Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024 með því dýrafræðilega heiti:
"Landspróf og slíðurhyrnd jórturdýr - söguvitund".
Hún hófst þannig:
"Árið 1957 birtist svohljóðandi prófverkefni á landsprófi miðskóla í náttúrufræði:
"Nefnið 8 tegundir slíðurhyrndra jórturdýra. Takið fram um hverja tegund, hvort hún er til villt eða tamin eða er aldauða og um villtar tegundir, hvar þær lifa."
Spurningin, hvort tiltekin tegund slíðurhyrndra jórturdýra finnst villt, tamin eða sé aldauða, var vissulega vel fallin til svars, þ.e. auðvelt að gefa fyrir rétt eða rangt. Réttmætið var hins vegar lítið, af því [að] spurningin hjálpaði lítið við að meta raunverulega þekkingu og skilning nemenda á náttúruvísindum."
Því verður þó ekki neitað, að sá nemandi, sem svarað hefur þessari spurningu rétt, hefur þetta tiltekna námsefni á valdi sínu, og fyrir það á hann skilda umbun á prófi. Hann er jafnframt líklegur til að geta skrifað stutta ritgerð um, hvenær og hvar slíðurhyrnd jórturdýr komu fram, og hvers vegna hver tegund útdauðra dýra hafi liðið undir lok, ef um þetta var fjallað í námsbókinni. Til að prófa þekkingu nemenda á þessu tiltekna námsefni var spurningin ekki slæm. Er ekki lengur ætlazt til, að nemendur tileinki sér efni námsbókanna ? Gæði námsbókanna er svo allt annað mál.
"Á 3. áratugi 20. aldar náðu breytt viðhorf yfirhöndinni, og nýjar matsaðferðir festust í sessi sbr titil ritsins "Nýjar prófaðferðir" frá 1922 eftir Steingrím Arason. Í stað munnlegra yfirheyrslna voru tekin upp samræmd, skrifleg próf, sem ætlað var að fyrirbyggja "allt handahóf" og afstýra því, að matsniðurstöður yrðu komnar undir áliti og geðfelldni kennara og prófdómara, eins og ritstjórar Skólablaðsins bentu á.
Steingrímur og félagar vildu þannig forðast skekkjur, er fylgdu jafnan huglægu mati, einkum svonefnd geislabaugsáhrif (halo effect). Þau lýsa sér þannig, að fyrri vitneskja um nemanda getur skekkt matsniðurstöður, hvort sem sú vitneskja er jákvæð eða neikvæð fyrir nemandann. Í fámenni íslenzks samfélags vissu kennarar og prófdómarar töluvert um bakgrunn hvers barns eða unglings, sem metinn var, og það gat augljóslega skekkt matsniðurstöður. Slíkur vandi þekkist reyndar enn í íslenzku skólakerfi, þegar kemur að mati og einkunnagjöf við lok grunnskóla.
Steingrímur Arason taldi taldi gerð prófa, sem hann hafði kynnzt í námi við Columbia-háskóla í New York, tryggustu leiðina til að forðast slíkar skekkjur og stuðla þannig að heiðarlegu og hlutlægu mati. Hann barðist fyrir gildi prófanna, sem réttmætra matstækja og þar með jöfnuði, nýbreytni og afnámi kennsluhátta, er stuðluðu að "þululærdómi".
Það var ekki skrýtið, að viðhorfin til skólanna breyttust á 3. áratugi 20. aldar, því að þetta var fyrsti áratugurinn eftir rothöggið á lénsskipulagið, aðalskerfið, sem leið undir lok í heimsstyrjöldinni 1914-1918. Þar með leystust ný öfl úr læðingi. Á Vesturlöndum var borgaralegt lýðræðiskerfi aðalkerfið, sem við tók, en í upplausn þjóðfélagsbreytinganna náðu ofstækisöfl sums staðar undirtökunum, t.d. kommúnistar í Rússlandi og fasistar á Ítalíu, en Bjórkjallarauppreisn nazista Adolfs Hitlers í München 1923 var kæfð í fæðingu og Adolf stungið í fangelsi, þar sem hann ritaði "Mein Kampf", stefnumörkun hins þjóðernislega sósíalistaflokks þýzkra verkamanna.
Skriflegu prófin höfðu margt til síns ágætis, sem munnlegu prófin höfðu ekki, en samt var haldið áfram með munnleg próf, t.d. í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem munnlegt próf var í öllum stúdentsprófsgreinunum ásamt skriflegu prófi 1969, ef ritari man rétt.
Það er ekkert vit í að afnema skrifleg próf og taka þess í stað upp e.k. símat kennara, því að þá er búið að innleiða hættu, sem Steingrímur Arason vildi sneiða hjá og fólst í mögulegri óhlutlægni kennara gagnvart nemendum, t.d. frændhygli, (geislabaugsáhrif).
Nú er íslenzki grunnskólinn í lægð, eins og PISA-prófin bera vitni um, og á meðan svo er, er mjög bagalegt að hafa ekki samræmd skrifleg próf á þessu skólastigi, en þau gætu hjálpað til við að feta umbótabraut. Við svo búið má ekki standa.
"Þegar leið á öldina [20.], var engu líkara en allt færi úr böndum. Samkvæmt ákvæðum fræðslulaganna frá 1946 átti landspróf miðskóla að "jafna stöðu unglinga til aðgangs að æðri menntun" og því eðlilegt, að hlutfall þeirra, sem þreyttu prófið, færi sífellt vaxandi; í upphafi gengust færri en 10 % nemenda undir landspróf, á 6. áratuginum um 20 %, og fjöldinn var kominn í þriðjung árgangs um 1970.
En á sama tíma skaut óvæntur púki upp kollinum. Hann birtist sem áköf bóknámsdýrkun ásamt framsetningu prófverkefna af því tagi, sem lýst var hér á undan. Spurt var um ótal smáatriði, sem töldust vel fallin til svars, en sögðu jafnan lítið um raunverulega kunnáttu nemenda."
Ritari þessa pistils mundi telja líklegra, að nemandi, sem kynni góð skil á smáatriðum, hefði aðalatrið fagsins á valdi sínu en sá, sem flaskar á smáatriðunum. Á Landsprófi stóðu allir nemendur, sem vildu halda námi áfram, eins jafnt að vígi og frekast var kostur, því að þeir voru allir metnir á sama mælikvarða. Nú er mismikil "bólga" í einkunnagjöf kennara, og kemur það niður á nemendum, þar sem "bólgan" er minni, við val inn í framhaldsskólana. Að leggja niður "samræmd" skrifleg próf á lokaári grunnskóla er þess vegna skref aftur á bak m.v. hagsmuni nemenda.
Að lokum skrifaði Meyvant:
"Skólafólk virðist enn brennt af þessum óförum. Í handbókinni "Fjólbreyttar leiðir í námsmati" frá árinu 2019, sem má finna á leslista í kennaranámi nú á dögum, er því haldið fram, að margir hafi efasemdir um samræmd próf. Þau stýri kennslu og valdi ofuráherzlu á staðreyndanám auk þess, sem þau leiði af sér einhæfa kennsluhætti. Í skýrslu menntamálayfirvalda frá 2020 um framtíð slíkra prófa kveður við svipaðan tón: "Prófin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að stýra um of skólastarfi, að aðeins sé prófað í bóklegum greinum og þeim atriðum, sem auðvelt er að meta."
Um miðjan 8. áratuginn var landspróf aflagt og samræmd lokapróf tekin upp. En þar með hvarf ekki púkinn, nema síður væri. Alla tíð síðan hefur verið tekizt á um mat að loknu skyldunámi, eðli þess og þátt í aðgengi að framhaldsskólanámi. Engum dylst, að faglega útfærð lokapróf stuðla að gæðum náms í mikilvægum námsgreinum, eins og þeim, sem prófað er úr í PISA og TIMSS. Hvernig sem öllu er á botninn hvolft, þá á hver nemandi skilið að fá sig metinn á heiðarlegan og áreiðanlegan hátt í námsgreinum, eins og stærðfræði, náttúruvísindum og móðurmáli, þegar grunnskóla lýkur. Að mati undirritaðs virðist nýtt námsmatskerfi, Matsferill, ekki uppfylla þau skilyrði."
Ritari þessa pistils er algerlega sammála Meyvanti um niðurstöðu hans í lokin. Hlutverk grunnskóla er að búa nemendur undir lífið og inngöngu í framhaldsskóla. Grunnskólakennarar geta þess vegna ekki leikið lausum hala og kennt eins og þeim þóknast. Það má koma til móts við þá með því að takmarka fagfjöldann, sem prófað er í samræmt, við 4 greinar, og ættu PISA-prófgreinarnar að vera þeirra á meðal.
Með menntamálaforystu og kennaraforystu af því tagi, sem Íslendingar búa við nú um stundir, er ekki kyn, þótt keraldið leki.
24.9.2024 | 15:15
Ráðherrann ráðalausi
Ef Ísland tæki ekki þátt í PISA-prófum OECD, væri hörmuleg frammistaða íslenzka grunnskólans við menntun grunnskólabarna ekki á almennu vitorði. Dauðyflisháttur menntamálaforystunnar gagnvart niðurstöðum PISA er hins vegar yfirþyrmandi, því að hún hreinlega stingur hausnum í sandinn og lætur eins og Ísland geti vel við unað að vera með grunnskóla í ruslflokki, hvað þekkingarmiðlun varðar á alþjóðlegan mælikvarða. Gæðum samfélagsins mun þá hraka, og þeim er þegar tekið að hraka. Það verður dýrkeypt að láta menn komast upp með alls konar fúsk. Eitt dæmið er Samgöngusáttmálinn. Sýnt hefur verið fram á, að útreikningar hans hvíla ekki á réttum forsendum og almennilegt verkefnisstjórnunarskipulag er ekki fyrir hendi hjá "Betri samgöngum". Sú ökuferð mun þess vegna óhjákvæmilega lenda úti í skurði.
Morgunblaðið hefur ekki látið deigan síga við gagnrýni sína á þá, sem ábyrgðina bera á leikskólum, grunnskóla og framhaldsskólum. Forystugrein blaðsins 4. september 2024 bar lýsandi ástandi vitni, ástandi, sem lýsir alvarlegri þjóðfélagsmeinsemd, en er með algerum ólíkindum árið 2024:
"Menntamál í ólestri"
og undirfyrirsögnin lýsti örvæntingu ritstjórnarinnar með stöðu, sem er samfélagsógn: "Tómlæti stjórnvalda um uppfræðslu grunnskólabarna er óþolandi".
"Morgunblaðið hefur að undanförnu fjallað mikið um menntamál og þá fyrst og fremst málefni grunnskólans. Þar hefur námsárangri hrakað ár frá ári í nær aldarfjórðung, og reglulegum viðvörunum þar um hefur annaðhvort ekki verið sinnt eða með augljóslega röngum aðferðum. Með hverjum deginum hafa svo birzt verri fréttir, nú síðast, að læsi barna hraki stöðugt og að hluti barna þekki ekki einu sinni stafrófið í lok 1. bekkjar."
Þögn kennara og kennaraforystunnar um þessa uggvænlegu þróun veldur ugg. Kennaraforystan gerir lítið úr gagnsemi samræmdra prófa, en þau geta þó verið afar gagnleg fyrir nemendur og kennara og foreldra. Kennaraforystan virðist ekki vilja sjá neinn samanburð á milli skóla, og það torveldar auðvitað umbætur á náminu. Hún virðist neita því, að draga megi lærdóma af PISA, en hangir á, að íslenzkum nemendum líði tiltölulega vel í skóla. Metnaðarleysið keyrir um þverbak.
"Ekki er þó unnt að bera við fjársvelti, en kennurum og öðru starfsliði hefur á þessum tíma fjölgað mun örar en nemendum. Sérstaklega er þó kvartað undan því, að stjórnvöld hafa afnumið nær allar samræmdar mælingar á námsgetunni, en vilja hafa leynd um þær mælingar á frammistöðu nemenda og skóla, sem þó fara fram undir merkjum PISA og OECD."
Það er óvitaháttur af stjórnvöldum að gera sig sek um þetta, því að þar með taka þau sitt aðalstjórn- og eftirlitstæki með skólastarfinu og fleygja því út í hafsauga. Það er ekki kyn, þótt keraldið leki. Kenneraforystan er metnaðarlaus fyrir hönd nemendanna og vill hafa skólana á sjálfstýringu, þar sem þekkingarlegur árangur þeirra er aukaatriði, og menntamálaráðuneytið er gagnslaust í mótunar- og eftirlitshlutverki sínu, enda er íslenzki grunnskólinn ekki nema svipur hjá sjón frá því, sem áður var. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra 2009-2013, kippti stoðunum undan honum með metnaðarlausri og skaðlegri námskrá.
"Aftur á móti hefur tómlæti menntamálaráðherra vakið nokkra furðu; grunnskólarnir hafa tekið til starfa á ný, en ekkert bólar á viðbrögðum. Eða jú, í gær kvaðst ráðherrann reikna með því, að senn yrði sent út fundarboð fyrir stóran vinnufund."
Þessi ráðherra er hugmyndasnauður og villuráfandi sauður, sem sýnir ekki einu sinni viðleitni til að snúa málum til betri vegar innan grunnskólans, enda skilur hann ekki, hvar skórinn kreppir.
"Hér duga augljóslega engin vettlingatök. Hér ræðir um uppsafnaðan og vanræktan vanda grunnskólans, sem kallar á grundvallarendurskoðun hans. En það er merkilegt, að í þeirri umræðu, sem þó hefur átt sér stað, hefur lítið borið á spurningum um ýmsa grunnþætti, s.s. skipan grunnskólans, námskrá, aðferðir eða annað af því taginu.
Var til heilla að færa grunnskólann til sveitarfélaga ? Var hringlið með námskrána til bóta ? Gætu nýjar, en óreyndar kennsluaðferðir, eins og "byrjendalæsi", hafa valdið einhverju um vandræðin ?"
Núna eru viðhöfð einskær vettlingatök, og menntamálaráðuneytið er ófært um að veita leiðsögn um "grundvallarendurskoðun" á grunnskólanum. Þótt ætlunin með færslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga kunni að hafa verið að ýta undir fjölbreytileika, hefur lítið verið um samninga við einkafyrirtæki um að taka að sér kennsluna í verktöku fyrir sveitarfélögin með eða án aukakostnaðar fyrir foreldra. Það þarf að koma á heilbrigðri samkeppni á milli skóla, og þá er frumskilyrði að hafa raunveruleg samræmd próf og niðurstaða þeirra niður á bekkjardeildir (ekki nemendur) ásamt PISA-niðurstöðum verði gerðar opinberar. Um þetta þarf að kveða á um í lögum, því að menntamálaráðuneytið hefur tekið sér vald til að hindra þetta, og kennaraforystan er þversum í málinu, en á meðan "grundvallarendurskoðun" með nýrri lagasetningu og nýrri alvöru námskrá er ekki gerð, mun allt hjakka í sama farinu og Ísland jafnvel lenda á botninum í PISA. Það yrði mesta þjóðaráfall frá hruni fjármálakerfisins 2008.
4.7.2024 | 09:38
Vanhugsuð loftslagsstefna íslenzkra yfirvalda
Á þessu vefsetri hefur rándýr og óskilvirk loftslagsstefna hérlendra yfirvalda verið gagnrýnd, enda er hún bara eftiröpun þess, sem Evrópuþjóðir, sem búa við ríkjandi jarðefnaeldsneytisbrennslu í sínum orkubúskapi, hafa smíðað sér til að verða minna háðar þessu orkuformi. Hér hvorki gengur né rekur við að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, enda hafa sömu yfirvöld hagað málum svo, að skortur er á sjálfbærri raforku til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Hefur vitleysan gengið svo langt síðustu misserin, að hlutur olíu við raforkuvinnslu hefur aukizt af illri nauðsyn. Er það reginhneyksli og hinn versti áfellisdómur yfir ríkjandi stjórnvöldum. Hins vegar gefa stjórnarandstöðuflokkarnir enga von um aukna skynsemi í þessum efnum, komist þeir til valda.
Nú hefur skynsamlegur mælikvarði verið kynntur til sögunnar, sem styður þann málflutning, sem hér á vefsetrinu hefur verið hafður uppi um einn anga þessa máls, sem er sá, að mesta framlag Íslands til loftslagsmálanna er að hýsa hér orkukræfan iðnað. Sú framleiðsla á Íslandi er með minna kolefnisspor en annars staðar þekkist. Þess vegna á ekki að stöðva þessa framleiðslu, eins og erkiafturhaldið í landinu hefur gert opinbera tillögu um, heldur að auka hana. Á öllum sviðum þjóðmálanna er erkiafturhaldið rödd óskynseminnar, sem réttara væri að nefna heimsku.
Sú rödd skynseminnar, sem hér er gerð að umræðuefni, kom frá Samtökum atvinnulífsins - SA, og var það aðstoðarframkvæmdastjórinn, sem þar tjáði sig. Sú tjáning féll ekki í grýttan jarðveg Staksteina Morgunblaðsins, sem 24. júní 2024 voru undir fyrirsögninni:
"Stórslys í uppsiglingu":
"Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, gerir óraunhæf markmið í loftslagsmálum að umræðuefni í pistli í Viðskiptablaðinu. Þar segir hún, að losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við verðmætasköpun sé nær hvergi minni en hér á landi."
Þetta er góður mælikvarði á gagnsemi losunarinnar í mismunandi löndum og sýnir viðleitni atvinnulífs viðkomandi þjóðar til að standa sig vel í umhverfismálum. Skrámar umræðunnar grípa hins vegar gjarna metnaðarlausan mælikvarða á lofti, sem er losun koltvíildis á mann. Það er erfitt að verða góður á þennan mælikvarða, nema halda að sér höndum, sem eru ær og kýr afturhaldsins.
"Hún segir:"Ætla mætti, að eftirsóknarvert væri, að hér væru framleiddar vörur með umhverfisvænni hætti en annars staðar. Er skynsamlegt út frá alþjóðlegum umhverfissjónarmiðum að refsa íslenzkum fyrirtækjum fyrir það að auka við slíka framleiðslu ?"
Þessari spurningu hafa íslenzk stjórnvöld svarað fyrir sitt leyti með því að setja þessi og öll önnur fyrirtæki í landinu í orkusvelti, og þau hafa stuðlað að kyndingu olíukatla til að kynda húsnæði. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að í landi gnægðar óbeizlaðrar endurnýjanlegrar orku er orkustefna íslenzkra yfirvalda í raun glórulaus. Það verður að söðla algjörlega um og stöðva fíflaganginn, sem er út um allt og setur orkuöflun landsmanna í kyrrstöðu. Ef menn halda, að stjórn Samfylkingarinnar á orkumálunum muni geti hrint kyrrstöðunni, þá fara menn í geitarhús að leita ullar. Öll stórmál, sem sá stjórnmálaflokkur hefur afskipti af, verða að klúðri og enda með öngþveiti. Dæmi um þetta eru lóðamál og umferðarmál og reyndar fjármál Reykjavíkur. Þegar kom að útlendingamálum á Alþingi í vor, sem gætu valdið heildarkostnaði í landinu um 50 mrdISK/ár, þá skilaði Samfylkingin auðu. Þetta er flokkur fagurgalans og hégómaskaparins, sem nú gerir hosur sínar grænar frammi fyrir kjósendum til Alþingis.
"Ef fram fer sem horfir, munu íslenzk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga, sem ljóst mátti vera frá öndverðu, að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum."
Það er með ólíkindum á hvers konar villigötur stjórnmálamenn og embættismenn geta ratað, þegar þeir leika lausum hala. Þarna fullyrðir aðstoðarframkvæmdastjóri SA, að þessi snilldarmenni hefðu mátt vita, að verið væri að hengja þunga kostnaðarbagga á íslenzka skattborgara með gersamlega óraunhæfum markmiðum um losun koltvíildis 2030. Aðalábyrgðina á því ber VG og fyrrverandi formaður hreyfingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, sem flúði frá borði. Fékk Katrín samþykki fjárveitingavaldsins, Alþingis, fyrir þessum gjörningi áður en hún hélt utan á montsamkomur í Evrópu af þessu tilefni ? Annað væri ólögmæt fjárhagsleg skuldbinding. Það er alveg makalaust, hversu gjörsamlega úti á túni stjórnmálamenn eru, þegar kemur að fýsileika loftslagsmarkmiða. Umhverfisvænsta land Evrópu sýpur nú seyðið af því, að hafa haft ábyrgðarlausan tækifærissinna á stóli forsætisráðherra 2017-2024.
"Anna Hrefna segir, að skynsamlegast væri að "breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.""
Þetta er róttækt sjónarmið, því að það jafngildir því að hætta að binda trúss sitt við EES í loftslagsmálum, en sú tenging á illa við Ísland, því að aðstæður hér eru ósambærilegar við EES að þessu leyti. Taka skal heils hugar undir þessi viðhorf Önnu Hrefnu, því að núverandi tenging við loftslagsmarkmið EES er algerlega vanhugsuð og mun valda íslenzku atvinnulífi og íslenzka ríkissjóðinum tugmilljarða ISK tjóni að þarflausu. Þarna hafa ósjálfstæðir íslenzkir stjórnmálamenn og embættismenn vélað um málafylgju, sem er illa fallin til árangurs, en afar kostnaðarsöm. Hvað verður um sektarféð vegna markmiða, sem ekki náðust ?
23.4.2024 | 17:36
Framkvæmdavald setur sig á háan hest
Það er að sumu leyti tímanna tákn, að innlent framkvæmdavald og erlendar stofnanir reyni að segja Alþingi fyrir verkum. Alþingi virðist hafa sett niður, sem er ekki einsdæmi um þjóðþing, og það er nauðsynlegt að hefja það til vegs og virðingar á ný sem handhafa lagasetningarvalds á Íslandi, sem fólkið í landinu hefur falið þingmönnum að fara með fyrir sína hönd. Forsetaframbjóðandinn eini, þ.e. sá eini með erindi, hefur í nokkur ár verið iðinn við að benda á þessa varasömu þróun fyrir lýðræðið í landinu. Hann væri líklegur til að brýna þingið til dáða, næði hann kjöri til Bessastaða.
Nýlega kom upp alveg sláandi dæmi sem eitt síðasta embættisverk Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu, þótt hún þykist hvergi nærri hafa komið, heldur hafi starfsmenn ráðuneytisins framið afglöpin upp á eigin spýtur, sem er trúlegt eða hitt þó ... . Morgunblaðið gerði þennan fingurbrjót ráðuneytisins að umfjöllunarefni í forystugrein sinni 12. apríl 2024:
"Framkvæmdavaldið sussar á Alþingi".
19.4.2024 | 18:26
Af forsetaframboði
Gríðarlegt framboð er á forsetaefnum fyrir lýðveldið Ísland árið 2024, án þess að komið verði auga á erindi flestra frambjóðendanna við embætti Bessastaðabóndans. Túlkun margra frambjóðenda á völdum og skyldum forsetans er undarleg í mörgum tilvikum, svo að ekki sé nú tekið dýpra í árinni. Sumir frambjóðendanna virðast hafa ruglað saman Austurvelli og Bessastöðum og ættu betur heima á Alþingi en í virðulegu embætti þjóðhöfðingjans. Sumir frambjóðenda eru með hástemmdar yfirlýsingar um að beita sér fyrir friði í heiminum. Embættið, sem hér um ræðir, hefur nákvæmlega ekkert vægi til slíkra verka. Persónan í embætti forseta Íslands þarf að skilja inntak stjórnarskrárinnar út í hörgul, hafa getið sér gott orð fyrir störf sín, og hún þarf að eiga mikilvægt, raunhæft og helzt brýnt erindi við þjóð sína um þjóðþrifamál.
Meyvant Þórólfsson, háskólakennari á eftirlaunum, hefur ritað gagnlegar og rökfastar greinar í Morgunblaðið um menntamál og þá lærdóma, sem hægt er að draga af útkomu PISA-prófanna. Þann 13. apríl 2024 birtist skemmtileg grein eftir hann um "sjálfhverfusóttina, sem nú geisar meðal frumbyggjanna". Hægt er að taka undir allt, sem Meyvant ber á borð með þessum skrifum. Hann skrifar m.a.:
"Hvað hvetur svo stóran hóp ólíkra persóna til að veita okkur hinum slíkan "heiður" að velja sig sem þjóðhöfðingja með tilheyrandi kostnaði, fórnum og mögulegu mannorðstjóni ?"
Að mati þessa blekbónda hér býr hégómagirnd að baki hjá þeim, sem hafa ekkert raunverulegt erindi fram að færa við þjóðina. Í boði er auðvitað þægilegt starf með hlunnindum og góðum launakjörum. "Sjálfhverfusóttin" hefur orðið til þess, að fólk án forystuhæfileika og snautt af þjóðhöfðingjasnyk hefur sýnt dómgreindarleysi sitt og ofmetið hæfileika sína. Það gildir t.d. um þau 3, sem nú tróna efst í skoðanakönnunum um fylgi við forsetaframbjóðendur.
Áfram með skeleggan Meyvant:
"Trú á eigin getu ? Íslendingar eru vissulega [á] meðal hamingjusömustu þjóða heims, sbr skýrslu World Happiness Report, fullir af sjálfsöryggi, frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sitt og áhugaverðum viðhorfum til spillingar. Samkvæmt hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði er sjálfstraust grundvöllur velgengni, en innistæðulaus sjálfsánægja er varasöm. Spilling hefur einatt leikið okkur grátt. Jónas, heitinn, Kristjánsson tók svo til orða, að hinn dæmigerði Íslendingur hefði þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur."
Sú breyting virðist hafa orðið í tíð fráfarandi forseta á afstöðu manna til embættisins, að hver sem er geti gert lukku þar, hversu álappalegur og trúðslegur sem hann er, og hvernig sem klæðnaðurinn er. Forseti geti bara "snobbað niður á við", ef eitthvað vantar upp á virðuleikann. Það er afar ósennilegt, að hægt sé að leika þennan leik aftur og aftur.
Aðeins einn frambjóðandi er gæddur því andlega og líkamlega atgervi, sem hæfir vel og er til sóma fyrir Bessastaðabóndann, svo að þjóðin geti verið stolt af forseta sínum, en það er afar æskilegt. Að þurfa að skammast sín fyrir forseta lýðveldisins er afleitt.
Þessi eini er jafnframt sá eini, sem segist vilja eiga áríðandi samtal við þjóðina um málefni, sem brennur honum á hjarta og sem hann hefur kynnt rækilega með skrifum sínum. Hann skrifar þetta í auglýsingu um fundarhöld sín á 23 stöðum á landinu:
"Þess vegna gef ég kost á mér til starfans. Ég tel, að ýmsar ógnir þöggunar og skautunar steðji að málfrelsi okkar og um leið lýðræði. Það er afar mikilvægt, að hvert og eitt okkar hafi kjark til þess að þroska sína eigin sjálfstæðu afstöðu - og tala fyrir henni - í stað óttans, sem svo oft hvetur okkur til rétttrúnaðar og hjarðhegðunar.
Fyrir vikið er lýðveldið okkar veikara en ella, og brestir eru komnir í fullveldi þjóðarinnar. Víða sjást merki þrýstings í formi lítt dulbúinna þvingana, ásælni og ágengni erlendra hagsmunaafla. Íslenzkir stjórnmálamenn virðast á stundum komnir í hlutverk embættismanna og viljalausra verkfæra í höndum erlends valds. Ég hef margsinnis tjáð mig um þessar áhyggjur mínar á undanförnum árum, bæði í sölum Alþingis og með greinaskrifum, fyrirlestrum og bókaútgáfu.
Aðeins einn forsetaframbjóðandi gæti ritað þetta, og þess vegna sker hann sig algerlega úr framboðskraðakinu, sem er litlaust og gjörsamlega óáhugavert af mismunandi ástæðum. Þessi frambjóðandi er gagnmenntaður, einnig erlendis, og fer hvorki með fleipur né byggir skýjaborgir. Hann stendur með báða fætur á jörðunni, meðvitaður um, hvað er þjóðinni fyrir beztu og hefur jafnan gagnazt henni bezt. Hann er laus við grillur um að reyna að nota forsetaembættið til að leika hlutverk á alþjóðavettvangi, sem það er í engum færum til. Hlutverk forseta er að verja stjórnarskrána, eins og hún er á hverjum tíma (hafna lagasetningu, sem hann telur brot á stjórnarskrá), en það er hlutverk annarra að breyta henni, og það má telja hlutverk forsetans að efla skilning þjóðarinnar á þýðingu fullveldis fyrir sjálfsákvörðunarréttinn, og hvar mörkin liggja að þessu leyti í samstarfinu við aðrar þjóðir.
Það er t.d. svo mikilvægt fyrir öryggi þjóðarinnar að vera aðili að varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO, að fullveldisafsal í því samhengi kemur ekki til álita. Þess vegna er með öllu ótækt, að andstæðingur aðildar Íslands að NATO sitji á stóli forseta. Það er jafnframt mjög óeðlilegt, að forseti lýðveldisins fari að predika undir rós, að Íslendingar ættu að leita aftur hófanna um inngöngu í Evrópusambandið, því að slíkt fullveldisframsal er óleyfilegt samkvæmt núverandi stjórnarskrá.
Nú verður áfram vitnað í Meyvant:
"Að mati undirritaðs er Arnar Þór Jónsson sá frambjóðandi, sem hefur burði til að mæta erfiðum úrlausnarmálum að hætti Sveins Björnssonar. Hann er staðfastur og laus við "hégómlegar hugargælur", sbr orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sjálfhverfa frambjóðendur. Og hann sækist sízt af öllu eftir sviðsljósinu, svo [að] notuð séu hans orð.
Rök Arnars fyrir ákvörðun um framboð eru skýr og sannfærandi. Fulltrúalýðræðið hefur að hans mati veikzt í mikilvægum málum og því brýnt að efla beint lýðræði. Sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar stendur ógn af síbreytilegri túlkun EES-samningsins og um leið vaxandi afskiptum ESB o.fl. alþjóðlegra stofnana. Arnar hefur t.d. bent á skert raforkuöryggi vegna evrópskra tilskipana, hættur, sem stafa af bókun 35, og síðast en ekki sízt þá undarlegu skoðun tiltekinna ráðamanna hér, að ástæðulaust sé, að almenningur tjái sig um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu."
Forseti með skoðanir Arnars Þórs mun brýna Alþingismenn, hvar í flokki, sem þeir standa, á að standa vörð um fulltrúalýðræðið með því að vanda vel til verka, hvort sem í hlut eiga þingsályktanir, þingmannafrumvörp, frumvörp frá ríkisstjórninni eða löggjöf frá ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd ESB og EFTA hefur samþykkt til lögleiðingar í EFTA-löndunum þremur. Í lýðræðisríki þarf að ríkja nokkurt jafnræði með öllum þremur greinum ríkisvaldsins. Þetta er hárfínt mat, og enginn núverandi frambjóðenda til forsetaembættisins er betur fallinn til eftirlits með slíku en Arnar Þór Jónsson.
"Fjórða valdið hefur ekki verið Arnari hliðhollt. Ríkismiðillinn RÚV hefur ítrekað hneigzt til að veikja málstað hans, tvívegis með hæðni í Fréttum vikunnar hjá "fyndnasta föstudagssófa" veraldar og að auki með samtölum við valda álitsgjafa um niðurstöður samkvæmisleiks Prósents. Miðvikudagskvöldið 3. apríl [2024] tilgreindi svo stjórnandi Kastljóssins þau Jón Gnarr, Höllu Tómasdóttur og Baldur Þórhallsson sem "sterka" frambjóðendur auk Katrínar Jakobsdóttur. Vill þjóðin, að RÚV segi henni, hverjir komi til greina sem forsetaefni ?"
Þegar einhverjum fréttabörnum þóknast að láta ljós sitt skína í stað þess að tíunda með hlutlægum hætti nýja atburði, þá er nú ekki eins og Guð, almáttugur, sé þar á ferð. Erindi allra þessara háttvirtu frambjóðenda, ef eitthvert er, bliknar fullkomlega í samanburði við erindi þess frambjóðanda, sem við Meyvant Þórólfsson viljum sjá fyrir enda Ríkisráðsborðsins á komandi kjörtímabili forseta lýðveldisins.
7.1.2024 | 13:41
Mistakagjarn og óráðþæginn ráðherra
Svandís Svavarsdóttir hefur orðið ber að dómgreindarleysi, og vitið er ekki meira en svo, að hún hundsar viðvaranir heils þingflokks, sem stendur að ríkisstjórninni, sem hún, illu heilli, situr í.
Nú hefur Umbinn (Umboðsmaður Alþingis) kveðið upp úrskurð í deilumáli hennar við Hval hf, sem hún fór gegn í vor með miklu offorsi, þegar hún braut lög um hvalveiðar, fór gegn Stjórnarskrá, sem tryggir mönnum atvinnufrelsi, og sýndi af sér fádæma valdníðslu með því að fara offari gegn fyrirtækinu (stjórnsýslulög). Þingflokkur sjálfstæðismanna hafði varað hana við öllu þessu, en hún blés á þær viðvaranir. Nú er komið að skuldadögum.
Síðan beit þessi dæmalausi ráðherra höfuðið af skömminni með opinberum viðbrögðum sínum við úrskurðinum, t.d. í viðtali við RÚV, sem birtist í kvöldfréttatíma föstudaginn 05.01.2024, en þar gerði ráðherrann sér lítið fyrir og upphóf sig yfir lögin. Iðrunarleysi og ofstopafullur hroki þessa ráðherra ásamt gjörðum hennar dæmir hana úr leik í þingræðisþjóðfélagi. Hún verður að taka hatt sinn og staf. Sjálfstæðismenn geta ekki setið með slíku fyrirbrigði í ríkisstjórn. Samkvæmt orðanna hljóðan hjá Umbanum eru ávirðingar Svandísar í þessu máli margfaldar og í raun ósambærilegar við smælkið, sem Umbinn tíndi til á Bjarna Benediktsson í Íslandsbankamálinu, en þar bar Bankasýslan ábyrgð á málsmeðferð og vali bjóðenda og var ætlað að tryggja armslengd ráðuneytanna frá viðskiptunum.
Meðal annarra orða: skyldu heimsspekingar og aðrar slíkar hneykslunarhellur ekki fá drjúgt pláss í RÚV til að tjá sig um siðleysið að þessu sinni ?
Svandís Svavarsdóttir er eins konar síbrotamaður í ráðherraembætti, því að sem umhverfis- og sveitastjórnarráðherra á sinni tíð dæmdi Hæstiréttur hana fyrir lögbrot og valdníðslu gagnvart sveitarstjórn, sem hún átti í deilum við. Þá á eftir að fara fram ítarleg rannsókn á embættisfærslu hennar sem heilbrigðisráðherra, einkum á hinu alræmda Kófsskeiði, frelsissviptingum og alvarlegum afleiðingum síendurtekinnar innsprautunar á mRNA tilraunaefni gegn SARS-CoV-2 veirunni í sínum margbreytilegu myndum.
Á þrettándanum 2024 gaf forsætisráðherra Umbanum og sjálfstæðismönnum langt nef. Áfellisdómur Umbans var mjög þungur (stjórnarskrárbrot, önnur lögbrot og valdníðsla), svo að forsætisráðherra er búin að ómerkja síðari úrskurði Umbans með því að neita að láta ráðherrann sæta ábyrgð í líklega þyngsta áfellisdómi, sem Umbinn hefur kveðið upp fram að þessu. Með þessu hneykslanlega aðgerðarleysi sínu hefur formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) sýnt, hvers konar klíku- og siðspillingarflokksnefna þar er á ferð, þótt siðfræðingarnir þegi nú þunnu hljóði. Formaðurinn hefur jafnframt rekið nagla í líkkistu ríkisstjórnarinnar.
6.12.2023 | 13:31
Eftirlitsstofnanir leika lausum hala
Stjórnendur eftirlitsstofnana eru margir hverjir með ranghugmyndir um hlutverk stofnana sinna í samfélaginu. Þeir virðast ekki telja, að stofnunum sínum sé skylt að hlýða lögum frá Alþingi, nema þeim bjóði svo við að horfa sjálfum. Þeir láta starfsmenn sína fínkemba umsóknir með mikilli tímanotkun, en sáralitlum afrakstri, enda standa starfsmenn eftirlitsstofnananna höfundum umsóknanna iðulega talsvert að baki sem sérfræðingar í viðkomandi grein, sem er skiljanlegt. Þess vegna á rýnirinn að einbeita sér að aðalatriðum, innbyrðis samræmi og samræmi við lög og reglugerðir. Stofnanir mega ekki undir neinum kringumstæðum draga afgreiðsluna fram yfir lögboðinn frest. Yfirmaður stofnunarinnar á að ganga úr skugga um það í upphafi verks, að starfsmenn anni verkefninu innan setts tímaramma. Að öðrum kosti þarf að leigja inn sérfræðinga til aðstoðar við verkið. Með einum eða öðrum hætti verður stofnunin að afgreiða málið innan tímamarka, enda skal það vera fest í starfslýsingu forstjórans og hafa neikvæð áhrif á árslaun hans, ef út af bregður.
Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við íslenzka eftirlitsiðnaðinn, sem með óheyrilegu hangsi hefur haft veruleg áhrif á viðskiptaáætlanir fyrirtækisins. Tafir af völdum eftirlitsstofnana eru óheyrilegar, hafa bakað mikið tekjutap og aukakostnað, sem gera ætti stjórnir viðkomandi stofnana ábyrgar fyrir. Svona stór frávik, eins og Halldór lýsir í viðtalinu við Kristján Jónsson, má alls ekki líða. Losarabragurinn hjá ríkisvaldinu er til skammar.
Fyrirsögn fréttarinnar var:
"Starfsemin gæti hafist 2027 eða ´28"
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Framkvæmdirnar eru mun seinna á ferðinni en forráðamenn fyrirtækisins höfðu vonazt eftir, og Halldór er óhress með, hversu lengi mál, eins og leyfismál, eru til meðferðar í stjórnsýslunni.
"Þetta hefur tekið miklu lengri tíma en nokkurn tíma var reiknað með. Þetta átti að vera tilbúið í Súðavík árið 2018 og hefði getað verið, ef opinberar stofnanir hefðu farið eftir laganna bókstaf. Þegar pressan var farin að aukast á okkur, þá fórum við í að stækka á Bíldudal, enda þurftum við að sinna mörkuðunum", segir Halldór, en ákveðið var að stækka verksmiðjuna á Bíldudal í Arnarfirði, þegar tafir urðu á uppbyggingu í Súðavík."
Hér er um að ræða eins áratugs seinkun á fremur litlu og alveg sjálfsögðu verkefni á Súðavík, þ.e.a.s. verksmiðju, sem nýtir hráefni úr Ísafjarðardjúpi og vinnur úr því fæðubótarefni til útflutnings.
"Frá 2007 hefur verið rekin verksmiðja á Bíldudal, og hún er nærri hámarksafköstum. Við höfum alltaf hugsað okkur, að verksmiðja í Súðavík gæti komið inn sem viðbót, en það tók svo rosalega langan tíma fyrir opinberar stofnanir að afgreiða leyfismál, umhverfismál og slíkt. Við urðum því að fara í stækkun á Bíldudal, eins og við gerðum. Hægði það á öllu varðandi uppbyggingu í Súðavík, en vonandi getum við byrjað að byggja þar eftir 2-3 ár. Eins og staðan er núna, reiknum við með að vera með verksmiðjur á báðum stöðum. Við munum fara rólega af stað í Súðavík, en auðvitað veltur þetta einnig á eftirspurninni", segir Halldór, en mesta samkeppnin kemur frá Brasilíu. Íslenska kalkþörungafélagið [ÍKF] er með starfsleyfi í Arnarfirði til 01.12.2033, en með leyfi í Ísafjarðardjúpi til 2051."
Með sleifarlagi sínu kollvörpuðu íslenzkar eftirlitsstofnanir viðskiptaáætlunum þessa félags (ÍKF). Það er fullkomlega óboðleg framkoma hins opinbera. Gallinn er sá, að engar refsingar virðast vera við þessum lögbrotum (að hundsa afgreiðslufresti). Þá ættu viðkomandi ráðuneyti að koma til skjalanna og að láta hina ábyrgu sæta ábyrgð. Hvað hafa stjórnir og forstjórar þessara stofnana gert til að kippa þessum málum í liðinn ? Að bera við manneklu er ekki gjaldgengt. Hverri stofnun ber að sníða sér stakk eftir vexti og halda sig innan laganna, þ.m.t. fjárlaganna. Annað verður að skrifa á reikning æðstu stjórnenda, en þeim virðist gæðastjórnun vera ærið framandi hugtak mörgum hverjum.
15.11.2023 | 17:57
Gæluverkefni að breytast í martröð
Mikið hefur verið ferðazt og mikið hefur verið skrafað og skrifað um uppáhaldsgæluverkefni stjórnmálamanna alla þessa öld og reyndar frá Kyoto ráðstefnunni áratug fyrir aldamótin, þótt ekki sé traust land undir fótum um nákvæman þátt styrks koltvíildis í andrúmslofti á hlýnun jarðar. Snorri, goði, spurði á Alþingi, er fregnir bárust þingheimi um eldsumbrot á tíma þinghaldsins, er trúskipti í landinu voru til umfjöllunar: hverju reiddust goðin, er hraun það rann, er nú stöndum vér á.
Nú spyr afkomandi hans: hverju hafa sætt fyrri hlýskeið í sögu jarðar, þegar hitastig andrúmslofts náði hærri hæðum en núverandi lífverur á jörðunni upplifa, í ljósi þess, að rannsóknir sýna, að þá var koltvíildisstyrkur andrúmslofts miklu lægri en nú er eða svipaður og í upphafi iðnvæðingar (um 1750) ?
Það skyldu þó ekki vera önnur lögmál á ferðinni en lögmál Ångströms um gróðurhúsaáhrif gastegunda á borð við CO2 ? Enginn efast um, að gróðurhúsaáhrif gastegundanna eru fyrir hendi, einna helzt H2O, en deilt er um, hversu mikil sú hlýnun raunverulega er, og er þá vísað til gervihnattamælinga (t.d. frá John Christi), sem sýna mun minni hlýnun en IPCC (Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna) belgir sig út með af mikilli vandlætingu yfir hegðun manna í sönnum loddarastíl.
Íslenzkir stjórnmálamenn hafa farið offari í skuldbindandi markmiðasetningum á alþjóðavísu, þótt Íslendingar hafi náð mun meiri árangri á sviði, þar sem tæknilega auðveldast hefur verið um vik, þ.e. orkusviðinu, þar sem um 85 % heildarorkunotkunar landsmanna er frá endurnýjanlegum orkulindum, sem losa lítið koltvíildi við notkunina.
Tveir valinkunnir menn rituðu afar skýra og ítarlega grein um þessi efni í Morgunblaðið 4. nóvember 2023 undir fyrirsögninni:
"Heimsmet í hættu".
Þar er með talnalegum rökum sýnt fram á skýjaglópsku íslenzkra stjórnmálamanna, sem tekið hafa gæluverkefnið "Baráttuna við hlýnun jarðar" upp á arma sér af fullkominni sýndarmennsku, því að þeir hafa sett landsmönnum með öllu óraunhæf markmið með þeim afleiðingum, að ríkissjóður mun þurfa að greiða risaupphæðir til fjölþjóðlegra stofnana (ESB) í sektir. Hér hefur stjórnmálamönnum rétt einu sinni tekizt að forgangsraða með vitlausum hætti. Þeir hafa ekki tekið tillit til þess, að tækniþróun og kostnaður samfara þessum orkuskiptum útiloka, að hægt verði að ná markmiðum þeirra, og rétt einu sinni hafa þeir látið flækja ríkiskassann í stórfelld útlát, sem landsmenn hafa ekki efni á. Síðan er sú einkennilega þversögn við lýði á stjórnarheimilinu, að sá stjórnarflokkanna, sem ákafastur er í vitleysunni, þ.e. að setja óraunhæf markmið og gorta af, leggst þversum gegn útvegun sjálfbærrar, innlendrar orku í stað jarðefnaeldsneytisins og flutningi hennar á milli landshluta. Með þessu skýtur forsætisráðherra sig í fótinn, en það er í stíl við aðra ósamkvæmni í pólitískum störfum hennar, sem er ný af nálinni í íslenzum stjórnmálum. Þann skrípaleik virðast kjósendur þó ekki kunna að meta, og þarf engan að undra.
Téð grein Jóns Ólafs Halldórssonar, formanns SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, og Egils Jóhannssonar, stjórnarmanns í SVÞ og Bílgreinasambandinu, hófst þannig:
"Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga, þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.
Stjórnvöld hafa undirgengizt alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands, sem nemur um 29 % árið 2030 m.v. stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55 % samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því, að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til, blasa við allt að mrdISK 10 ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum, sem margfalda gjaldeyrisútstreymi."
Hvað í ósköpunum gengur íslenzkum stjórnvöldum til að haga sér með svo óábyrgum hætti, sem þarna er lýst. Áður en markmið eru sett, verður sá, sem á að ná markmiðinu, að hafa aðferðarfræðina, sem beita á til að ná markmiðinu, á hreinu. Í tilviki stjórnvalda fórna þau mikilvægum stjórntækjum sínum við neyzlustýringuna áður en áratugurinn, sem skipta átti sköpum, er hálfnaður. Ríkisvaldið hefur ekki haft nægilegt úthald við að ná markmiðinu til að nokkur von sé til, að það heppnist. Hún flækir þar með landsmenn enn meir í gildru fjárhagskvaða, sem Evrópusambandinu mun þóknast að innheimta í fyllingu tímans. Þetta er léttúðug stjórnsýsla.
"Árið 2022 áttu 33 % af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukizt með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar, þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðizt í aðgerðir, sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum."
Menn sjá í hendi sér, hversu lélega leiðsögn stjórnvöld veita við að ná rándýrum loftslagsmarkmiðum þeirra, að á sviði, sem nemur þriðjungi losunar á beinni ábyrgð Íslands, höfum við fjarlægzt markmiðin, því að losun hefur aukizt, þrátt fyrir innflutning hreinorkubíla og bætta orkunýtni bíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti. Nú eru stjórnvöld að gera fjölmarga afhuga hreinorkubílum í bílaviðskiptum 2024-2025 með því að auka bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað kaupenda hreinorkubíla 2024-2025. Þannig skýtur ríkisstjórnin sig í fótinn og býður hættunni heim á stórútlátum í refsigjöld til ESB frá 2030.
"Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5 % af heildarfjöldanum. Því er ljóst, að það þarf að gera enn betur. Búast má við, að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 k ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 k talsins eða 32 %. Líklegt er, að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 kt CO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15 % meiri en árið 2005, en ekki 55 % minni."
Þetta er átakanleg niðurstaða. Hvernig datt Katrínu Jakobsdóttur og umhverfisráðherranum úr sama flokki í hug að vaða algerlega blint í sjóinn með það, sem þau voru að gera. Þau geta auðvitað ekki reiknað dæmi af þessu tagi, en þau hafa örugglega ekki fengið neinn með viti til að gera það fyrir sig. Eini hugsanlegi ráðgjafinn í þessum efnum er Landvernd, þar sem ráðherrann gegndi framkvæmdastjórastöðu áður en hann var dubbaður upp í stjórnarráð Katrínar. Hneisan verður alger fyrir yfirvöld, þegar þau kynna þessi ósköp innanlands og erlendis. Það er bót í máli, að fyrir loftslagið skiptir þessi heimska engu máli, enda hafa eldgos 2020-2030 haft meiri áhrif en eldsneytisknúnir bílar á Íslandi á loftslagið á tímabilinu.
"Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn, og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma, þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða, sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja [á] hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið."
Hið opinbera vinnur flest með hangandi hendi, og þegar allt í einu rennur upp fyrir vinstri slagsíðu ríkisstjórnarinnar, að þeir eru orðnir nokkrir núna, sem aka um vegi landsins án þess að greiða allt of háar álögur til ríkissjóðs og nota raforku, sem er af skornum skammti í boði vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þá veit ríkisstjónin ekki í hvora löppina hún á að stíga.
"Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma, og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynzt sandur í vél þeirra. Öllu skiptir, að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafnmiklum metnaði og markmiðin, sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar."
Ráðherrar, Alþingi og embættismenn hafa klúðrað góðri hugmyndafræði orkuskiptanna með fljótræði, innantómum montmarkmiðum og getuleysi við skipulagningu framkvæmda. Flest þetta fólk er reynslulaust úr heimi einkaatvinnurekstrar, þar sem þekking, geta og reynsla af sviði stjórnunar með markmiðasetningum ("Management by Objectives") er fyrir hendi og hefur borið góðan árangur. Þetta þekkja þeir 2 heiðursmenn, sem tilvitnaða grein rita, vafalaust úr sínum rekstri. Þessu virðist alls ekki vera til að dreifa á meðal opinberra starfsmanna. Hugarfarið er öðru vísi, og því fer sem fer með markmið og áætlanagerð opinberra starfsmanna.
Þei, sem tekið hafa þá trú (bitið það í sig), að þjóðfélagslega sé bezt, jafnvel nauðsynlegt, að færa sem flest svið mannlegrar tilveru undir opinbera stjórn eða jafnvel í hendur hins opinbera, eru gjörsamlega veruleikafirrtir afneitunarsinnar og skapa fólki þess vegna mikil vandamál, þar sem þeir ná völdum.
18.8.2023 | 11:09
Víti til varnaðar í sóttvörnum
Furðulegt offors einkenndi aðgeðir sóttvarnaryfirvalda í heiminum gegn veirunni SARS-CoV-2. Kínverjar reyndu fyrst að þagga niður allt tal um sjúkdóminn af hennar völdum, sem brátt fékk heitið COVID-19 eða C-19 hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, AHS. Þegar þöggunin gekk ekki lengur, sneru kínversk yfirvöld algerlega við blaðinu með fyrirmælum um að svipta fólk ferðafrelsi, sem nánast fól í sér að svipta það sjálfræði. Var það lokað inni á heimilum sínum, fyrirtækjum lokað og annað í svipuðum dúr að hætti einræðisafla. Einu sóttvarnaráhrifin af því heimskupari var að seinka útbreiðslu faraldursins í Kína.
Í krafti óttans höfðu yfirvöldin öll ráð fólksins í hendi sér. Þetta tók AHS, sem er undir daglegri stjórn marxista frá Eþíópíu, sem sætir ákæru um stríðsglæpi, til fyrirmyndar fyrir önnur ríki, sem flest hlýddu í auðmýkt.
Flest ríki fylgdu þessum ráðleggingum með einum eða öðrum hætti, þ.á.m. Ísland. Nokkur ríki í Bandaríkjunum og Svíþjóð tóku þó sjálfstæða ákvörðun um mjög takmarkaðar frelsisskerðingar, og þeim reiddi betur af í heildar dauðsföllum talið, svo að ekki sé nú minnzt á fjárhagstjónið. Þegar síðan kom að bólusetningum, keyrði um þverbak. Arnar Þór Jónsson, lögmaður, hefur á vefsetri sínu, sem birtist á Moggablogginu, gert grein fyrir skráningum, t.d. í Bandaríkjunum, sem benda til óvenju tíðra veikinda af völdum bólusetninganna; um 1,6 milljón manns þar hafði skráð slíkar, og talið er, að aðeins 1 % af öllum slíkum tilvikum séu skráð. Flestir bólusettra hafa þannig líklega kennt sér meins af völdum bólusetninga.
Morgunblaðið birti þann 4. ágúst 2023 viðtal við einn ofstækisfyllsta bólusetningafrömuðinn, Kára Stefánsson, lækni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, undir fyrirsögninni:
""Auðvelt að vera klár eftir á"":
""Það er engin spurning um, að þessar bólusetningar hafa bjargað lífi tuga milljóna manna í heiminum, en það er líka ljóst, að einhverjir, sem voru bólusettir, fóru illa út úr því", segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar."
Hvaða rannsóknir styðja aðalsetninguna í málsgreininni ? Ekki hefðbundnar blindprófsrannsóknir á undan veitingu bráðabirgða leyfis fyrir bóluefnunum, því að lyfjafyrirtækin stöðvuðu þær allt of fljótt, þegar vísbendingar komu í ljós um mjög lítinn varnarmátt bóluefnanna 3 mánuðum eftir bólusetningu. Allir vita, að bólusettir virtust ekkert síður smitast af SARS-CoV-2 en óbólusettir. Með því að kasta því fram, að bólusettir hafi veikzt minna en óbólusettir, er bara verið að bera í bætifláka fyrir meingölluð og varhugaverð bóluefni, sem leyfð voru til nota á almenningi löngu áður en hefðbundnum prófunum lauk. Eru einhverjar hlutlægar rannsóknir óvilhallra aðila til, sem sýna, að bólusettir hafi með óyggjandi hætti veikzt minna eða er þetta bara innantóm fullyrðing gasprara ?
Núverandi Sóttvarnarlæknir hefur haldið því fram opinberlega, að óbólusettir hafi veikzt meira af hjartasjúkdómum við að smitast af téðri veiru en bólusttir af sprautunum. Getur verið, að sóttvarnarlæknir dragi of frjálslegar ályktanir af athugunum sínum. Hún er með ósambærileg þýði í samanburðinum, og mismunur þýðanna, sem ekki hefur verið jafnaður út, getur hæglega leitt Sóttvarnalækni á villigötur í ályktunum sínum.
"Sagði Kári ýmsa vísindamenn telja, að ekki hefði verið rétt að bólusetja alla og bent á fjölda [tilvika], þar sem bólusetningar á ungu fólki hefðu leitt til þess, að það fékk bólgu í hjartavöðva, jafnvel í meira mæli en fólk, sem sýktist af veirunni."
Þetta virðist fljótt á litið vera í mótsögn við málflutning Sóttvarnalæknis, en það á einvörðungu við, ef rétt er að bæta við tilvísunarsetninguna í lokin "og var óbólusett". Mikilvægasta spurningin í þessu sambandi er hins vegar, hvers vegna í ósköpunum var verið að sprauta ungviðið ? Þörfin var einfaldlega ekki fyrir hendi. Einkenni smits ungmenna voru væg, og engin dauðsföll studdu það að fara í þessa bólusetningarherferð. Við þessar aðstæður er eðlilegt að tortryggja þessa ákvörðun sóttvarnaryfirvalda (og margar fleiri) og gruna bóluefnaframleiðendur um græsku. Sóttvarnayfirvöld á Íslandi voru allt of leiðitöm og báru fyrir sig AHS, en þaðan leggur ramman spillingaróþef.
""Það er alltaf lítill hundraðshluti, sem situr uppi með aukaverkanir", segir Kári ... ."
Þarna skautar kjaftgleiður læknirinn léttilega yfir staðreyndir, sem tala allt öðru máli um tilraunabóluefnin, sem beitt var gegn SARS-CoV-2 veirunni. Fjöldi tilkynninga um aukaverkanir er meiri en summa allra tilkynninga hingað til um aukaverkanir bóluefna. Það eitt út af fyrir sig sannar þó ekkert um alvarleika þessara aukaverkana eða tíðni, en innihald tilkynninganna sýnir, að ver var af stað farið en heima setið, eins og Arnar Þór Jónsson hefur rakið í pistlum sínum á vefsetri sínu og birzt hafa á Moggablogginu. Heilbrigðisyfirvöldin skutu langt yfir markið, og lyfjaiðnaðurinn hafði sitt fram og makaði krókinn. Höfundur þessa vefpistils þáði enga sprautu gegn C-19 og er þess vegna ekki endilega einvörðungu eftir á klókur í þessum efnum. Hann hefur ekki hugmynd um, hvort hann hefur smitazt af C-19, því að hann fékk nokkrum sinnum flensueinkenni á tímabilinu, en fjarri því nokkur langvarandi einkenni, eins og sóttvarnaryfirvöld gerðu mikið úr. Eftir á vizkan í þessu máli er, að þau hefðu betur sleppt öllum bólusetningum og lagt höfuðáherzlu á að verja viðkvæma í stað þess að lama allt samfélagið og bólusetja holt og bolt.