Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Verkalýðshreyfingin

Hérlendis er stjórnarskrárvarið félagafrelsi sniðgengið með ýmsum kúnstum, sem jafngilda í raun skylduaðild að verkalýðsfélögum.  Fyrir vikið eru verkalýðsfélög orðin fjármagnseigendur, sem sitja á digrum sjóðum.  Þessu er allt öðruvísi varið víðast hvar á Vesturlöndum, þ.á.m. á hinum Norðurlöndunum, þar sem félagafrelsið er virt. Þróun verkalýðshreyfingarinnar virðist hafa orðið með heilbrigðari hætti á hinum Norðurlöndunum en hér, svo að hún hefur tileinkað sér önnur og nútímalegri vinnubrögð í samskiptunum við atvinnurekendur, t.d. í samningum um kaup og kjör.  Hér er verkalýðshreyfingin einfaldlega föst í fornu fari upphrópana og átaka í stað vitrænnar, heildrænnar nálgunar hagsmuna launafólks, t.d. við gerð kjarasamninga.   

Verkalýðshreyfingar Vesturlanda komu margar hverjar til skjalanna um svipað leyti og rússneska byltingin átti sér stað 1917. Kommúnisminn þar var ætlaður til að verja hagsmuni smælingjanna og lyfta lífskjörum verkafólks upp á kostnað yfirstéttarinnar.  Í Rússlandi hafði zarinn verið einvaldur frá 16. öld, og valddreifing frá honum til aðalsins átti sér aldrei stað, en á Vesturlöndum leiddi sú valddreifing smám saman til þingræðis í þeirri mynd, sem við þekkjum nú. Eftir byltinguna, þar sem zarinn var drepinn og pótintátar kommúnistaflokksins urðu hin nýja yfirstétt í Ráðstjórnarríkjunum, hlaut þess vegna að koma fram nýr zar, og sá hét Jósef Stalín. Sá rak skefjalausa heimsvaldastefnu undir merkjum kommúnismans og "frelsun verkalýðsins" í öðrum löndum.  Hann beitti moldvörpum hliðhollum kommúnismanum til að grafa undan ríkisstjórnum, t.d. í Evrópu, og þegar þar var komið á öngþveiti, sendi hann Rauða herinn inn til að hernema viðkomandi land, t.d. Úkraínu, og þannig var ætlunin að fara með hin Austur-Evrópulöndin og Þýzkaland, sem var í sárum eftir Heimsstyrjöldina fyrri og afar íþyngjandi byrðar "friðarsamninganna" í Versölum 1919. 

Þetta tókst hinum grimma zar við lok Heimsstyrjaldarinnar síðari, þegar landamæri í Austur-Evrópu voru færð til vesturs og Þýzkalandi var skipt upp í hernámssvæði.  M.v. framgöngu Rauða hersins í Vetrarstríðinu 1939-1940 og gegn Wehrmacht 1941-1945 má telja líklegt, að án gríðarlegra tækja-, hergagna og vistflutninga frá Bandaríkjunum til Ráðstjórnarríkjanna (Murmansk) í stríðinu hefði framvindan á austurvígstöðvunum orðið með öðrum hætti en raunin varð, svo að ekki sé minnzt á loftárásir Bandamanna á Þýzkaland, sem drógu úr framleiðslugetu Þriðja ríkisins, sem var þó ótrúlega mikil neðanjarðar.  

Lengi vel litu forkólfar íslenzku verkalýðshreyfingarinnar á Ráðstjórnarríkin sem hið  fyrirheitna land verkalýðshreyfingarinnar hérlendis, en fóru þar algerlega villur vegar og voru í raun leiksoppar heimsyfirráðastefnu, sem bar alls enga umhyggju fyrir verkalýðnum, en sá þar nytsama sakleysingja til að nota við valdarán. Þetta var upphaf íslenzkrar verkalýðsbaráttu, og enn er hún illa haldin af fjarstæðukenndri hugmyndafræði um stéttastríð verkalýðs gegn auðvaldi í stað þess að líta raunhæft á viðfangsefnið, sem er að finna sameiginlegan grundvöll með fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisvaldi til að tryggja launþegum atvinnuöryggi og sjálfbæra (samkeppnishæfa) hlutdeild í verðmætasköpuninni. 

Þann 1. maí 2023 birtist athygliverð forystugrein í Morgunblaðinu um verkalýðs- og atvinnumál undir fyrirsögninni:

"Raunsæið ræður, ekki ræðuhöldin".

Þar stóð m.a.:

"Svo [að] horft sé á stöðuna úr hinni áttinni, frá atvinnulífinu, sést, að hlutfall launa og launatengdra gjalda af verðmætasköpun er hvergi á [hinum] Norðurlöndunum jafnhátt og hér á landi.  Þetta felur í sér, að launþegar fá meira í sinn hlut hér en þar, og er þá ekki verið að miða við fátæk ríki, heldur mestu velmegunarríki veraldar.  Þetta hefur verið atvinnulífinu hér á landi afar þungt, enda þarf ákveðið jafnvægi að vera í þessum efnum, til að hægt sé að viðhalda framleiðslutækjum og almennt kröftugu atvinnulífi, en launþegahreyfingin gæti í það minnsta talið þetta góðan árangur baráttu sinnar." 

Sú stærð (verðmætasköpun) og skipting hennar á milli launþega (verkalýðs)  og atvinnurekenda (auðvalds) eru lykilatriði þessarar umræðu. Það eru atvinnurekendur og fjármagnseigendur), sem hafa með fjárfestingum sínum í nýrri tækni frá lokum 19. aldar (vélbátaútgerð) og fram á þennan dag gert launþegunum kleift að auka framleiðni launamanna.  Erfiði vöðvaaflsins hefur minnkað og vélaraflið tekið við; fyrst knúið af jarðefnaeldsneyti (1. orkubylting) og síðan af rafmagni (2. orkubylting), sem framleitt var og er í sjálfbærum virkjunum landsmanna. Með 3. orkubyltingunni var húshitunarkostnaður landsmanna, launþega, atvinnurekenda og fjármagnseigenda, lækkaður verulega með nýtingu jarðhita.  Með 4. orkubyltingunni verður svo jarðefnaeldsneyti leyst af hólmi í samgöngutækjum og vinnuvélum, og þar með sparaður mikill gjaldeyrir, sem mun styrkja gengið, öllum til hagsbóta. 

Á Íslandi fá launþegarnir um 2/3 af verðmætasköpuninni í sinn hlut og atvinnurekendur um 1/3. Þessi skipting er of ójöfn í tvennum skilningi.  Atvinnurekendur hafa úr hlutfallslega minnu að moða en samkeppnisaðilar erlendis, og þess vegna er getan til nýsköpunar og fjárfestinga í tæknivæðingu og sjálfvirknivæðingu minni hér en erlendis, sem leiðir til hærri framleiðslukostnaðar hér, sem á endanum leiðir til gjaldþrots, verðlagshækkana innanlands eða gengissigs, en launþegarnir míga í skóinn sinn og njóta skammvinns aukins kaupmáttar, þar til verðbólgan étur hann upp.

Þetta hafa stéttastríðsrekendur verkalýðshreyfingarinnar ekki viljað viðurkenna og heimta þar af leiðandi stöðuga hækkun þessa hlutfalls og hafa nú ratað í ógöngur. Færa verður verkalýðsbaráttuna hérlendis inn í nútímann með aflagningu stéttastríðshugarfars og ítarlegri umræðu um kjörhlutfall skiptingar verðmætasköpunar fyrirtækjanna á næstu árum, þ.e. hlutfall, sem tryggir sjálfbærar lífskjarabætur til lengdar. 

"Loks geta forystumenn launþegahreyfingarinnar í dag fagnað því, að varla finnst meiri launa- eða lífskjarajöfnuður en hér á landi, þó að stundum mætti ætla af pólitískri umræðu, að því sé öfugt farið.  Mælingar á jöfnuði hafa ítrekað staðfest, að fullyrðingar um mikinn ójöfnuð eiga ekki við nein rök að styðjast." 

Þetta er hverju orði sannara og eru meðmæli með þessu þjóðfélagi, þótt verið geti, að of langt hafi verið gengið í þessum efnum, því að launamunur er hvati til að gera betur og leita sér eftirsóttrar sérhæfingar. Það er t.d. váboði, að hagvöxtur er hvergi minni á hvern íbúa innan OECD en á Íslandi.  Það er of lítill kraftur í hagkerfinu vegna of lítilla fjárfestinga, afar lítilla beinna erlendra fjárfestinga og íslenzk fyrirtæki hafa ekki bolmagn í núverandi hávaxtaþjóðfélagi og með skiptingunni 2/3:1/3 á verðmætasköpuninni, sem er líklega heimsmet. Þetta er ósjálfbær skipting auðsins.  Fyrirtækin bera of lítið úr býtum fyrir sitt framlag, sem er fjármagn, þekking (starfsfólk leggur líka til þekkingu), öflun aðfanga og markaðssetning vöru eða þjónustu. 

Stéttastríðspostularnir sífra af gömlum vana þvert gegn staðreyndum um misskiptingu auðs í samfélaginu og benda þá gjarna á há laun stjórnenda og eigenda. Þessir postular skilja ekki gangverk hagkerfisins og vita lítið um, hvernig launamuni er varið erlendis, enda forpokaðir heimaalningar í flestum tilvikum.  Reyndar er síður en svo einhugur í hinni þröngsýnu verkalýðshreyfingu um launajöfnuð á milli starfsgreina.  Þar skoðar hver og einn eigin nafla.  Hvers vegna tíðkast hið alræmda "höfrungahlaup" ?  Það er vegna þess, að þeim, sem stunda sérhæfð störf, sem spurn er eftir á markaðinum, finnst launabilið ekki lengur endurspegla verðmætamun starfanna. Það er auðvitað ófært, að þjóðfélagið (vinnumarkaðurinn) refsi þeim, sem leita sér menntunar, með lægri ævitekjum en hinum. Það flækir þó málið, að menntun er mjög misverðmæt að mati markaðarins (eftirspurnarinnar).  Það er fagnaðarefni, að nú er uppi viðleitni í þá átt að efla iðnmenntun og beina tiltölulega fleiri nemendum í þá átt, enda mikill hörgull í flestum iðngreinum. 

Í pólitíkinni þrífst ákveðið sérlundað og sjálfsupphafið fyrirbrigði, sem kallar sig Samfylkingu.  Það hefur borið meginábyrgð á stjórnun Reykjavíkurborgar undanfarinn áratug og að nokkru frá 1994 eða í um 3 áratugi, er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varð borgarstjóri. Auðvitað er nú allt komið í hönk í Reykjavík vegna óstjórnar, enda er þessi pólitíska sneypa algerlega ábyrgðarlaus í stefnumörkun og framkvæmd. Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var drepið á þetta:

 "Á það hefur verið bent árum saman, að Reykjavíkurborg reki ranga og stórskaðlega stefnu í húsnæðismálum, þar sem öll áherzla er lögð á þéttingu byggðar og þar með á dýra kosti, sem um leið taka langan tíma.  Þetta hefur leitt af sér íbúðaskort, sem svo magnast upp við þessa miklu fjölgun íbúa, sem landsmenn horfa nú upp á. Þá verður ekki fram hjá því litið, að með nánast óheftri komu hælisleitenda hingað til lands og gríðarlegum fjölda þeirra misserum saman, verður ástandið á fasteignamarkaði enn erfiðara.

Nú er svo komið, að það er meiri háttar vandamál, sem verður tæpast leyst með því einu að auka framboð húsnæðis.  Óhjákvæmilegt er, að stjórnvöld nái tökum á ástandinu á landamærunum og fari að stjórna því, hverjir setjast hér að.  Takist það ekki, verður ástandið á húsnæðismarkaði langtímavandamál, sem mun ýta undir verðbólgu og rýra lífskjör launafólks."

Það er auðvitað dæmigert, að Samfylkingin virðist vilja hafa landamærin opin upp á gátt fyrir hælisleitendur, einnig efnahagslegt flóttafólk undan eymd jafnaðarstefnunnar, þar sem hún er rekin ómenguð, og heitir þá víst sósíalismi, t.d. í Venezúela um þessar mundir.  Þingmenn Samfylkingar (og hjáleigunnar (pírata) tryllast af bræði, ef Útlendingastofnun vinnur vinnuna sína og vísar slíku fólki úr landi.  Samt er ekki nóg með, að húsnæði vanti fyrir allan þennan fjölda, heldur eru skóla- og heilbrigðiskerfið oflestuð og ráða ekki lengur við að veita almennilega þjónustu.  Það er alveg sama, hvar klóför Samfylkingarinnar sjást; þar skal ríkja öngþveiti.     

 

     

    


Staðnir að verki

Þann 22. september 2022 sigldi P524 Nymfen, danskt eftirlitsskip, frá Rödbyhavn, litlum hafnarbæ í Danmörku, á slóðir rússnesk-þýzku jarðgaslagnanna Nord Stream 1 og 2 í lögsögu Danmerkur og Svíþjóðar.  Samtímis sigldu bandarísk, þýzk og sænsk herskip inn á svæðið og eftirlitsflugvélar frá Svíþjóð og Póllandi sveimuðu yfir ásamt bandarískri eftirlitsþyrlu. Vart hafði orðið við rússnesku skipin, og tortryggni vaknað, því að þau tilkynntu sig ekki og höfðu slökkt á staðsetningarbúnaði sínum.  

Danska eftirlitsskipið sigldi fram og til baka á svæði sunnan og austan sprengingastaðar gaslagnanna og staðnæmdist loks.  Þessi vestræni liðssafnaður var þarna, af því að hópur rússneskra skipa hafði óvænt sézt þarna og komu flest frá Kaliningrad (Königsberg) án tilkynningar.  Eitt rússnesku skipanna, SS-750, hafði smákafbát um borð, sérhannaðan fyrir neðansjávar aðgerðir, jafnvel á hafsbotni. 

Ítarleg rannsókn danska blaðsins Information hefur kastað nýju ljósi á tildrög skemmdarverkanna á gaslögnunum.  Sænskur rannsakandi, Rússlandssérfræðingur og leyniþjónustusérfræðingur, Joakim von Braun, sagði þetta við Information:

"Þetta er ótrúlega áhugavert. SS-750 er sérútbúinn farkostur, sem er hannaður einmitt fyrir aðgerðir neðansjávar.  Þetta eykur trúverðugleika upplýsinga, sem áður hafa komið fram í dagsljósið.  Þessi hópur 6 rússneskra skipa er einmitt gerður fyrir aðgerðir, sem þarna áttu sér stað.  Það er mjög líklegt, að áhafnir þessara skipa hafi unnið skemmdarverkin á gaslögnunum", segir Joakim von Braun. 

"Auðvitað er sameiginleg rannsókn Danmerkur, Svíþjóðar og Þýzkalands á sprengingum Nord Stram gaslagnanna enn í gangi. Enn er ekki ljóst, hvers vegna rannsóknin er svona tímafrek, og hvers vegna ríkisstjórnirnar 3 hafa enn ekki gert nærveru Rússanna á sprengjusvæðinu kunna heiminum.  Málsatvik urðu almenningi kunn einvörðungu vegna eftirgrennslunar danska dagblaðsins og kröfu þess um aðgang "að ljósmyndum og myndbandsupptökum af rússneskum skipum, sem teknar voru um borð í P524 Nymfen þann 22. september 2022". 

SS-750 sigldi frá Kaliningrad 21.  september 2022 með slökkt á AIS-sendibúnaði sínum, sem er auðkenningarbúnaður á hafi úti.  Eftir að SS-750 hafði verið yfir Nord Stream 1 og 2 gaslögnunum, fóru þær að leka.  Hér er vert að gefa gaum að tímasetningu lekanna.  Lekans varð fyrst vart 26. september 2022, degi áður en "Pólland og Noregur opnuðu Eystrasaltslögnina, sem fer um Danmörku og flytur eldsneytisgas frá Norðursjónum" [til Póllands]. Við árslok 2022 var Noregur orðinn gasbirgir Evrópu nr 1 í stað Rússlands.  Saksóknari í þessu máli gæti sett fram eftirfarandi tilgátu um málsástæður Rússa: 

Rússneskir ráðamenn óttuðust, að norskt eldsneytisgas gæti gert Evrópu óháða Rússum um þetta eldsneyti.  Í stað þess að bíða átekta reyndu þeir að ýta Evrópu út í orkukreppu með því að vinna skemmdarverk á Nord Stream 1 og 2.  Rússar sökuðu Breta og jafnvel Bandaríkjamenn um skemmdarverkið, en það er ekki snefill af vísbendingum fyrir hendi um, að flugufótur sé fyrir þessum innantómu rússnesku ásökunum.

Einnig heyrðust hjáróma raddir í fjölmiðlum, sem reyndu að klína sök á Úkraínumenn, en þessir ásakendur útskýrðu aldrei, hvernig hópur skemmdarverkamanna gæti komizt inn á tryggilega vaktað svæði óséður, framkvæmt flókna neðansjávar aðgerð og síðan komizt óséður í burtu. 

Við vitum núna, að aðeins eitt ríkisvald, hið rússneska, sem ræður yfir nauðsynlegum búnaði, var á umræddu svæði á réttum tíma til að framkvæma þessa flóknu neðansjávar aðgerð.  Þessu má jafna við að vera staðinn að verki. 

Mikilvægi Nord Stream 1 og 2:

  • Nord Stream 1 var fullgerð 2011 og kostaði yfir mrdUSD 15.
  • Nord Stream 2 var fullgerð 2021 með dálítið lægri kostnaði en Nord Stream 1, en var aldrei tekin í notkun vegna réttmætrar tortryggni í garð rússneska ríkisins.
  • Lagnirnar 2 (báðar tvöfaldar) sáu Evrópu fyrir beinni og áreiðanlegri tengingu við gaslindir Rússlands. 
  • Nord Stream 1 flutti 35 % af öllu rússnesku gasi til Evrópusambandsins (ESB).

Rússneska ríkisgasfélagið gaf þær upplýsingar, að árið 2020 hefðu heildartekjur þess numið mrdUSD 83.  Stór hluti þeirra kom frá Nord Stream 1.

Hvers vegna ættu Rússar að stíga þetta skref ?

Þann 13. júlí 2022 stefndi fyrsti aðstoðar starfsmannastjóri Kremlar, Sergei Kiriyenko, saman rússneskum stjórnmálalegum stefnumótendum.  Á fundi þeirra skýrði hann frá því, að Rússland (les Putin, forseti) vildi grafa undan stuðningi Evrópu við Úkraínu með því að einblína á Þýzkaland.  Nord Stream 1 og 2 væru megingasæðarnar til Þýzkalands.  

Rússneski ríkismiðillinn RT lagði í kjölfarið enga dul á, hvað Rússar hefðu í hyggju: að valda svo alvarlegum eldsneytisgasskorti veturinn eftir, að þýzkt atvinnulíf mundi lamast og fólk krókna úr kulda heima hjá sér.  Þetta töldu Putin og hans glæpagengi, að snúa mundi almenningsálitinu Rússum í vil, svo að samsteypustjórnin í Berlín legðist flöt fyrir þeim, en það fór á annan veg.  Þetta varð aðeins eitt af mörgum glappaskotum og asnaspörkum Putins.

Í vetrarsókn sinni 2022-2023 gegn Úkraínumönnum, þar sem Rússar gultu afhroð og misstu m.a. lungann af sérsveitum sínum, Spetznaz, áttu hinir síðar nefndu von á, að aðstoð Þjóðverja við Úkraínumenn mundi gufa upp í sárum orkuskorti, en það fór á annan veg. Rússneska glæpagengið í Kreml vanmat Þjóðverja. Hún stórefldist með Leopard 2, Marder, stórskotakerfum, loftvarnakerfum, herflugvélum Austur-þýzka hersins o.fl. 

Rússar vissu, að ef þeir lokuðu einfaldlega fyrir gasið, fengju þeir á sig skaðabótakröfur og öflugri viðskiptahömlur.  Í staðinn fyrir að verða opinberlega skaðvaldurinn,  reyndu þeir að gera sig að fórnarlömbum skemmdarverka Vesturveldanna, en upp komast svik um síðir, og ekkert lát er á stuðningi Evrópu við Úkraínu. Þessar uppljóstranir um ósvífni rússnesku stjórnarinnar og glæpsamlegt eðli hennar mun auka samstöðu Vesturveldanna um hernaðarstuðning, fjárhagssnuðning og siðferðilegan stuðning við Úkraínu.  

Dagana eftir skemmdarverkin á gaslögnunum velti BBC fyrir sér áhrifunum á heimsmarkaðsverð eldsneytisgass. 29. september 2022 kom fram á BBC: "Hið háa gasverð kemur niður á fjárhag fjölskyldna vítt og breitt um Evrópu og hækkar framleiðslukostnað fyrirtækja.  Þetta gæti valdið hægagangi í hagkerfum Evrópu og hraðað ferðinni yfir í kreppuástand". Þjóðverjar brugðust hins vegar skjótt við haustið 2022, og þá sýndi þýzka stjórnkerfið, hvað í því býr, þegar á hólminn er komið. Settar voru upp í þýzkum höfnum móttökustöðvar fyrir fljótandi eldsneytisgas, LPG, á mettíma og samið við birgja við Persaflóann og í Bandaríkjunum um afhendingu veturinn 2023 á LPG.  Veturinn var mildur, fyrirtæki og heimili spöruðu, svo að enginn skortur varð á gasi, og verðið lækkaði aftur.  Nú skiptir Rússland engu máli fyrir kola-, olíu- og gasforða Evrópu. Þjóðverjar sýndu þarna gamalkunna snerpu og sneru á Rússana.  Þeir eru nú teknir að auka hergagnaframleiðslu sína og munu taka forystu fyrir lýðræðisríkjum Evrópu í baráttu þeirra við árásargjarna klíkuna í Kreml.

Hvers vegna er rannsókn á Nord Stream sprengingunum mikilvæg ?

Afstaða almennings til stríðsátaka skiptir höfuðmáli.  Upplýsingastríð er háð til að sá fræjum efasemda í huga almennings.  Stuðningur Vesturveldanna við Úkraínumenn, sem berjast við ofurefli liðs fyrir frelsi og fullveldi lands síns og lýðræðislegum stjórnarháttum þar gegn rússneskum kúgurum, sem einskis svífast og stunda þjóðarmorð í Úkraínu.  Fyrir vikið verður Úkraína brátt tæk í NATO og ESB, en Rússneska sambandsríkið mun lenda á ruslahaugum sögunnar. Rússland var undir járnhæl Mongóla frá 1237 og í um 330 ár.  Af þessum sökum varð ekki sams konar þróun í átt til valddreifingar og þingræðis í Rússlandi og í Evrópu.  Í Rússlandi var zarinn einráður, og sama viðhorf ríkir til valdsins enn á okkar dögum.  Þetta stendur Rússum fyrir þrifum, og þjóðin er heilaþvegin af megnum áróðri á flestum miðlum. 

GRU, leyniþjónusta rússneska hersins, vinnur markvisst að því að sá tortryggni á milli Bandamanna. Nagdýrin geta nagað stuðninginn við Úkraínu með því að sá misskilningi um fyrirætlanir stríðsaðila.  Rússnesk stjórnvöld ásökuðu Stóra-Bretland beint fyrir Nord Stream sprengingarnar, og Putin-moldvörpur í vestri reyndu að klína sökinni á Bandaríkjamenn og/eða Úkraínumenn.  Sú rannsókn, sem hér er lýst, mun gera Putin-moldvörpur að gjalti.  Þær hafa snúið öllu á haus og burðazt við að gera Putin að fórnarlambinu í þessu stríði, á meðan hann fyrirskipaði innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022 og ber höfuðábyrgðina með sama hætti og Adolf Hitler fyrirskipaði Wehrmacht að ráðast inn í Pólland 1. september 1939 í kjölfar friðarsáttmála við Sovétríkin, sem réðust á Pólland um 3 vikum síðar.  Það liggur svipuð hugmyndafræði að baki hjá Hitler og Putin.  Í stað hins aríska kynstofns hjá Hitler er kominn hinn rússneski heimur hjá Putin. 

Stórir vestrænir miðlar hafa flestir hundsað stórfrétt danska dagblaðsins Information, á meðan moldvörpur Putins á Vesturlöndum hafa einfaldlega hætt að fjalla um Nord Stream sprengingarnar.  Ef/þegar téð fjölþjóða rannsókn leiðir fram málsatvik, sem negla niður þann grunaða á líkum, sem hafnar eru yfir skynsamlegan vafa, mun sá grunaði gjalda verknaðar síns, hversu langan tíma, sem það mun svo taka.  Rússland hefur þegar goldið lagnasprenginganna, og tapið út af þeim það mun halda áfram um langa framtíð eftir lok rannsóknarinnar. Úkraína sem bandamaður Vesturveldanna í NATO og ESB getur í náinni framtíð séð Evrópu fyrir jarðgasþörf hennar. 

Afleiðingarnar:

Til að vega upp á móti því að hafa glatað evrópska markaðinum, sem nam 80 % af útflutningi gasrisans Gazproms, horfir fyrirtækið nú til Kína.  Putin reyndi örvæntingarfullur að fá kínverska forsetann, Xi Jinping, til að undirrita samning um gaslögn frá Síberíu til Kína í heimsón Xis til Moskvu í apríl 2023.  Á blaðamannafundi talaði Putin, eins og samningurinn væri í höfn, en Kínverjar hafa ekki sagt annað um verkefnið en þeir myndu rýna það. Putin er rúinn trausti alls staðar.  Kínverjar hyggja á að endurheimta kínversk landsvæði í austurhluta Rússneska ríkjasambandsins.  Vladivostok var áður kínversk borg.  

Í ákafa sínum að demba Evrópumönnum ofan í pytt orkukreppu rétt fyrir veturinn 2022-2023 gæti Putin hafa skemmt fyrir viðskiptatækifærum, sem margra mrdUSD gaslagnir til Kína hefðu í för með sér fyrir Rússland.  Hver er tilbúinn til að hætta fé sínu í samstarfi við hryðjuverkamann ?  Að sjá Kína fyrir gasi var eina undankomuleið hans eftir að hafa glatað öllu viðskiptatrausti hinna vel stæðu Evrópumanna. 

Í framtíðinni mun sérhver kaupandi rússneskrar vöru hafa örlög Nord Stream í huga og þar með skilja, hvers konar fantatökum Rússar eru tilbúnir að beita viðskiptavini sína, ef þeir telja, að slík fantabrögð þjóni hagsmunum þeirra sjálfra.  Sérhver viðskiptasamningur við Rússa verður gerður í skugga neðansjávar sprenginganna við Danmörku.  Rússland mun aldrei komast hjá hinni óttalegu spurningu, "hversu háan afslátt"  rússneski birgirinn sé reiðubúinn að veita í ljósi reynslunnar af orkuviðskiptunum við Rússa, og ekkert land mun af fúsum og frjálsum vilja gera Rússland að meginbirgi sínum á neinu sviði.  Valdhafarnir í Kreml hafa með framferði sínu 2022-2023 eytt öllu trausti, sem alltaf hefur verið grundvöllur viðskipta á milli siðaðra manna.    

 

 

 

 

 


Skýr skilaboð Landsvirkjunar

Í forstjóratíð Harðar Arnarsonar hjá Landsvirkjun hafa sumir stjórnendur þar á bæ, að honum meðtöldum, tjáð sig með hætti, sem ýmsum hefur ekki þótt samræmast hagsmunum eigenda fyrirtækisins, hvað sem gilda kann um sjónarmið stjórnarmanna fyrirtækisins.  Þetta á t.d. við um aflsæstrengstengingu á milli erlendra raforkukerfa og þess íslenzka og vindknúna rafala. 

Nú kveður við nýjan tón, því að Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, skrifaði vel jarðtengda og fræðandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 17.02.2023 undir fyrirsögninni:

 "Raforkuvinnsla á láði eða legi".

Undir millifyrirsögninni "Eðli vindorku" var gerð grein fyrir því, að með vindafli yrði að fylgja vatnsafl í raforkukerfinu, nema notandinn gæti sætt sig við sveiflur vindaflsins, og sá notandi er vart fyrir hendi á Íslandi.  Af þessum ástæðum er út í hött að leyfa uppsetningu vindspaðaþyrpinga og tengingu þannig knúinna rafala við íslenzka raforkukerfið:

"Til að geta afhent raforku inn á flutningskerfið, sem unnin er með vindorku, þarf að vera [fyrir hendi] jöfnunarafl.  Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku.  M.ö.o.: þegar vindar blása ekki, þarf að vera hægt að vega það upp með jöfnunarafli frá vinnslukerfinu.  Í íslenzka raforkukerfinu getur slíkt afl einungis komið frá vatnsaflsstöðvum, enda er landið ótengt öðrum löndum.  Þá er kerfið ekki hannað til að takast á við miklar aflsveiflur."   

"Also sprach Zarathustra."  Einar Mathiesen veit gjörla, að jarðgufuvirkjanir Landsvirkjunar og annarra eru ekki í færum til að taka upp aflsveiflur í kerfinu vegna innbyggðrar tregðu.  Vatnsorkuverin geta þetta upp að vissu marki og sjá um reglunina í kerfinu núna.  Það sér hver maður í hendi sér, að með öllu er glórulaust að reisa vatnsorkuver til að standa tilbúin að yfirtaka álagið, þegar vind lægir undir hámarks framleiðslumark vindspaðavers.  Framleiðslukostnaður í vatnsorkuveri er lægri en í vindorkuveri, en aðeins ef nýtingartími vatnsorkuversins er samkvæmt hönnunarforsendum þess.  Erlendis eru gasknúin raforkuver reist til að gegna þessu jöfnunarhlutverki, en hér kemur það ekki til greina.  Þessi innflutta hugmyndafræði um vindorkuver fyrir íslenzka raforkukerfið er vanburða.

"Því má halda fram, að raforkuvinnsla með vindorku sé ekki fullbúin vara, nema endanotandi geti tekið á sig sveiflur í notkun, sem fylgir breytilegum orkugjafa, sem vindorka er; þá þarf ekki afljöfnun.  Í umræðu um vindorku er iðulega skautað framhjá þessari staðreynd.  Landsvirkjun er eini rekstraraðilinn á markaðinum, sem hefur yfir að ráða jöfnunarafli. Það afl er afar takmarkað, bæði til skemmri og lengri tíma, eins og fram kom á opnum fundi Landsvirkjunar 2. febrúar [2023] undir yfirskriftinni: "Hvað gerist, þegar vindinn lægir ?", en um hann er fjallað á vef Landsvirkjunar."

Hér staðfestir framkvæmdastjóri vinds og jarðvarma, að vindorkan sé ein og sér lítils virði, nema fyrir þá, sem ekki verða fyrir umtalsverðu tjóni, þótt framboðið sveiflist með vindafari.  Þeir eru sárafáir, ef nokkrir slíkir í landinu.  Þegar þetta er lagt saman við þá staðreynd, að burðarsúlur og vindspaðar hafa skaðleg áhrif á miklu stærra svæði m.v. orkuvinnslugetu en hefðbundnar íslenzkar virkjanir, hlýtur rökrétt ályktun yfirvaalda og annarra að verða sú, að ekkert vit sé í að leyfa þessi mannvirki í íslenzkri náttúru.  Yfirvöld ættu að lágmarki að gera að skilyrði, að orkusölusamningar hafi verið gerðir um viðskipti með alla orkuvinnslugetu mannvirkjanna, þar sem kaupandi sættir við að sæta álagsbreytingum í samræmi við framboð orku frá viðkomandi vindorkuveri. 

Í lokakafla greinarinnar lýsir framkvæmdastjórinn yfir stuðningi við hina klassísku virkjanastefnu Landsvirkjunar.  Það er ánægjuleg tilbreyting við stefin, sem kveðin hafa verið í háhýsinu á Háaleitisbrautinni undanfarin 13 ár.  Það hefur nú að mestu verið rýmt vegna myglu, svo að loftið þar stendur vonandi til bóta.  Millifyrirsögn lokakaflans var: "Ekki sama, hvað það kostar":

"Að velja hagkvæma fjárfestingarkosti til raforkuvinnslu er lykilatriði, þegar kemur að samkeppnishæfni.  Íslendingar hafa byggt upp samkeppnisforskot á alþjóðavísu með vali á hagkvæmum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum - og nú mögulega í einhverjum mæli með vindorkuverum á landi. [Einnig báru Íslendingar gæfu til að gera raforkusamninga um sölu á megninu af orku þessara virkjana og náðu þannig fljótt fullnýtingu fjárfestinganna - innsk. BJo.]  Þessu má ekki glutra niður með því að ráðast í dýrar og óhagkvæmar virkjanir [les vindorkuver - innsk. BJo], sem kosta margfalt á við meðalkostnaðarverð raforku á Íslandi.  

Í endurminningum fyrsta stjórnarformanns Landsvirkjunar og eins af brautryðjendum í orkumálum þjóðarinnar, Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, kemur fram, að lykillinn að farsælli uppbyggingu orkuvinnslu sé ekki, að áformin séu sem stærst, heldur að finna hagkvæma virkjunarkosti, til heilla fyrir land og þjóð.  Óhætt er að taka undir það."

Vart er hægt að lýsa yfir meiri hollustu við klassíska stefnu Landsvirkjunar en að vitna í æviminningar dr Jóhannesar Nordal og lýsa yfir stuðningi við það, sem þar kemur fram.  Ævintýramennska á sviði sölu raforku um sæstreng til útlanda og að útbía náttúru landsins með vindorkurafölum fellur ekki að klassískri virkjanastefnu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar.  


Skaðræði í náttúrunni og hentar orkukerfinu illa

Ef mönnum finnst einhvers virði að búa í landi víðfeðmrar óspjallaðrar náttúru, ættu þeir að forðast eins og heitan eldinn að fjárfesta í eða samþykkja fjárfestingar í óskilvirkustu aðferð, sem nú um stundir er beitt til að vinna raforku án koltvíildislosunar á staðnum.  Hér er átt við rafala uppi á háum súlum, sem knúnir eru áfram af vindi, sem verkar á vanalega 3 feiknarlanga spaða. Það er rangtúlkun, að aðferðin sé umhverfisvæn, þegar lífferilgreining slíks verkefnis er krufin frá upphafi til enda. Það á sér stað margs konar mengun á framleiðslustigi íhlutanna ásamt koltvíildislosun, og á uppsetningarstiginu verður mikið jarðvegsrask og koltvíildislosun.

Vegna þess, hversu litlar og óskilvirkar framleiðslueiningarnar eru, stenzt þessi aðferð ekki samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir frá landverndar- og umhverfisverndar sjónarmiði.  Að auki er dýrara að framleiða rafmagn með vindknúnum spöðum en vatnsorkuverum og jarðgufuverum.  Ef hér væri nægt framboð raforku frá þessum hefðbundnu íslenzku virkjunum, væri varla nokkur áhugi á að reisa þessa háu turna, því að landið er ótengt erlendum raforkukerfum, ólíkt Noregi, þar sem turnþyrpingar með vindspöðum í óspilltum víðernum hafa valdið óánægju íbúanna í grennd og ferðamanna. 

Nú áformar norska ríkisstjórnin með lagasetningu að styrkja heimildir norskra yfirvalda til að tryggja orkuöryggi Norðmanna.  Í verkfærakistuna á að setja heimildir til draga úr eða stöðva útflutning raforku og að fyrirskipa orkufyrirtækjum að auka framleiðslugetu sína.  Hvort tveggja er andstætt ákvæðum Orkupakka 3, en norska ríkisstjórnin ber við þjóðaröryggi. Orkupakki 3 er úr gildi fallinn í Evrópusambandinu (ESB), og það gerðist reyndar áður en hann var innleiddur í lög á Íslandi, sem er einsdæmi, og færð hafa verið fyrir því sterk lögfræðileg rök, að innleiðing, sem svo er í pottinn búið með, sé ógild.  Engin ástæða er fyrir íslenzku ríkisstjórnina að vera rög við að feta í fótspor þeirrar norsku að þessu leyti.  Það er brýnt hagsmunamál þjóðarheildarinnar, að ábyrgur og hæfur aðili með heimildir til að grípa inn fylgist stöðugt með raforkukerfinu, framleiðslu, flutningum og dreifingu, til að lágmarka áhættu raforkunotenda varðandi afl- eða orkuskort. 

Morgunblaðið gerði anga þessa máls að umfjöllunarefni í fyrri forystugrein sinni, 24. janúar 2023, undir fyrirsögninni:

"Vindmyllur á hálum ís".

Í úrdrætti stóð:

"Þýðingarmikið er að grípa inn í skemmdarverk vindmyllumanna sem allra fyrst.  Það er aldrei um seinan, en það gæti kostað mikið fé að bæta úr afglöpunum."

Þetta er hárrétt, en hvers vegna í ósköpunum eru Íslendingar nú í þeirri stöðu að vera að búa sig undir að setja upp mannvirki á víðfeðmum ósnortnum svæðum, sem skaga meira en 200 m upp í loftið, eru ógn við dýralíf og hávaðavaldur ? Það er vegna þess, að hávær ofstækishópur hefur lagzt gegn nær öllum framkvæmdum á raforkusviðinu og náð að tefja framkvæmdir með kærum, þannig að virkjanir og línulagnir hafa dregizt von úr viti.  Afleiðingin er bæði staðbundinn afl- og orkuskortur og sams konar skortur á landsvísu, ef eitthvað bregður út af með veðurfar (þurrkar, kuldi) eða bilun verður í mikilvægri kerfiseiningu.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur stefnan verið sú lungann úr undanförnum áratugi, að engin þörf sé á að virkja.  Í staðinn hefur borgarsjóður blóðmjólkað samstæðuna, og nú er svo komið, að kerfið annar ekki heitavatnsþörfinni á vetrum.  Á að lappa upp á það með mrdISK 0,6 heitavatnsgeymi fyrir 9 kt.  Sundlaugum hefur verið lokað tímabundið, og eftir eina lokunina birti RÚV sjónvarpsviðtal við nokkra pottverja. Í lokin skauzt á skjáinn framkvæmdastjóri Landverndar, sem ekki brá vana sínum, heldur boðaði, að nær hefði verið að skammta rafmagn til Norðuráls en að loka sundlaugunum. Þarna fara saman firring og fáfræði, eins og fyrri daginn.  Hún hefur boðað, að ekkert skuli virkja fyrir orkuskipti né annað, heldur segja upp langtíma samningum við álver.  Þetta er hroðalegur hugarheimur og hryllileg grautargerð, sem lýsir miskunnarleysi í garð fjölmenns hóps, sem hefur lífsviðurværi sitt af starfsemi álveranna beint og óbeint, svo að ekki sé nú minnzt á álitshnekki og kostnað vegna uppsagnar þessara orkusamninga, minni útflutningstekjur og minni tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. 

Þar að auki er þessi málflutningur rangtúlkun á stöðunni.  Ef OR hefði dregið úr raforkusölu til Norðuráls, þá hefði framboð hitaveituvatns minnkað líka, vegna þess að hitaveituvatn jarðgufuveranna er aukaafurð raforkuvinnslunnar.  Framkvæmdastjóri Landverndar heldur ekki aðeins uppi óábyrgum áróðri, heldur skortir þar alla tengingu við raunveruleikann. 

Téð forystugrein hófst þannig:

"Staldra þarf við og [leggja] vindmyllumartröðina á ís.  Hvernig sem á það mál er litið, þá eiga þeir órar lítið erindi við okkur."

Þarna er ekki skafið utan af róttækri andstöðu við mikil áform um þyrpingar vindrafala.  Höfundur þessa pistils deilir þessari skoðun með Morgunblaðinu, en, eins og í Noregi, ber íslenzkum stjórnvöldum að koma í veg fyrir afl- og orkuskort hérlendis.  Það verður bezt gert með því að taka af skarið um, að vindknúnir rafalar séu of óskilvirkir virkjunarkostir og kosti of miklar fórnir á óraskaðri náttúru, þar sem turnarnir þenja sig yfir miklu meira land á hverja framleidda MWh/ár en hefðbundnar íslenzkar virkjanir.   Jafnframt skal hvetja orkufyrirtækin í landinu og viðkomandi sveitarfélög til að hraða afgreiðslu sinni á virkjanaáformum og -leyfum hefðbundinna virkjana.  Straumlínulaga þarf kæruferlin.  

Í lokin sagði í þessari forystugrein:

"Það er von, að margur spyrji, hvenær vinir náttúru og umhverfis, sem voru svo fyrirferðarmiklir forðum, vakni á ný.  Eru þeir kannski endanlega sofnaðir ?"

Ef hér væri nægt framboð raforku fyrir alla raforkunotendur í landinu og áform þeirra um aukin raforkukaup, þá væri áhuginn á að reisa þyrpingar súlna í náttúrunni með rafala á toppnum og spaða, sem snúast, þegar veður leyfir, varla jafnmikill og nú er reyndin.  Ef leið virkjanafyrirtækjanna að hefðbundnum virkjunum væri ekki jafntorsótt og raunin er, þá væri vafalaust meira raforkuframboð núna. Þeir, sem predika, að engin þörf sé á nýjum virkjunum, eru líka sekir um að hafa lagt steina í götu virkjanafyrirtækjanna umfram það, sem eðlilegt getur talizt frá lýðræðislegu sjónarmiði, og hafa þannig óbeint framkallað þennan þrýsting, sem nú gætir frá vindorkurekendum.

Orkumálastjóri, sem einnig er orkulandsreglari hjá orkustofu Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt Orkupakka 3, en hann var leiddur í lög hér með einstæðum hætti eftir að hafa verið felldur úr gildi í ESB, gefur vindorkurekendum undir fótinn, eins og fram kemur í góðri grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 16. janúar 2023 undir fyrirsögninni: 

"Vindmyllur kosta mikið og skila litlu öryggi".

Hún hófst þannig:

"Í Morgunblaðsgrein síðasta dag ársins 2022 skrifar Orkumálastjóri:

"Vindurinn blæs t.d. meira á veturna, þegar minna vatn er í lónum, en hægist um á sumrin, þegar lónstaða batnar."

Þarna er lýst sjónarmiði orkufyrirtækis, sem getur nýtt vindorku til að standa betur í samkeppni samkvæmt reglum þriðja orkupakkans, sem við sitjum nú uppi með, en íslenzka orkuöflunarkerfið er ekki hannað samkvæmt þeim reglum.  Hér eru það ekki meðaltöl, sem skipta öllu máli.  Hér er það regla nr 1, að orkukerfið hafi nægt vatn í lónum í árferði svo slæmu, að verra geti talizt "force majeure" eða náttúruhamfarir."

 Það er alveg undir hælinn lagt, hversu mikið gagn reynist af vindknúnum rafölum að vetrarlagi, því að þá verða oft langvinnar vindstillur, þegar hæð er yfir landinu, og við hitastig um frostmark og hátt rakastig getur ísing á spöðunum leitt til minni afkasta. Það er varla hlutverk orkumálastjóra að birta á prenti yfirborðslegan áróður fyrir vindknúnum rafölum.  Miklu meiri greiningarvinnu er þörf áður en nokkru er slegið föstu um nytsemi eða gagnsleysi þessarar gerðar raforkuvinnslu fyrir íslenzka raforkukerfið.  Lykilatriði í því sambandi er einmitt haldleysi meðaltals raforkuvinnslugetu við íslenzkar aðstæður, eins og Elías bendir á. 

"Að sjálfsögðu halda orkufyrirtækin fram sínum hagnaðarsjónarmiðum, sem þeim ber að gæta samkvæmt lögum og reglum.  Yfirvöldum, þar með orkumálastjóra, ber síðan að standa klár á sjónarmiðum orkuöryggis og sjá til, að sú þekking, sem til þarf hér á landi, sé þeim tiltæk.  Það er fullveldisréttur okkar, sem stjórnvöldum er skylt að sinna."

  Sú greiningarvinna, sem þarna er til umfjöllunar, leiðir annaðhvort til þeirrar niðurstöðu, að hætta verði á afl- eða orkuskorti áður en næsta trausta virkun getur komizt í gagnið eða vel sé séð fyrir jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar í raforkukerfinu í nánustu framtíð. Ef hið fyrr nefnda er uppi á teninginum, þurfa yfirvöld að hafa nægar lagaheimildir til að grípa til gagnráðstafana. Samkvæmt Orkupakka 3 eru þessar heimildir ekki fyrir hendi, og þessu þarf löggjafinn að bæta úr, einmitt á grundvelli fullveldisréttarins, sem Elías nefnir.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

   


Skammarstrikið

Menningar- og viðskiptaráðherra er í meira lagi yfirlýsingaglöð, en svo mikið vantar upp á efndir og eftirfylgni, að tala má um verkleysi. Dæmi um þetta er fjölmiðlaheimurinn hérlendi, sem er í úlfakreppu ríkisafskipta og mjög óheilbrigðrar og ósanngjarnrar  samkeppni.  Lilja D. Alfreðsdóttir lýsti því yfir fyrir um ári, að hún ætlaði að laga þá skökku stöðu, sem þarna ríkir, með því að láta skattleggja íslenzkar auglýsingar í erlendum miðlum, aðallega í netheimum, og að draga úr auglýsingum á RÚV o.h.f., "útvarpi allra landsmanna", sem í raun virkar eins og útvarp allra vinstri manna og afæta.

Ekkert af þessu hefur gerzt, erlendu miðlarnir hafa nú sogað til sín helming auglýsingamarkaðarins í ISK talið og umsvif RÚV á þessum markaði aukast stöðugt.  Velta þessa ríkisfjölmiðils er talin munu nema mrdISK 8 í ár, sem er auðvitað váboði, þótt varaformaður Framsóknarflokksins láti enn duga að tala út og suður.  Jafna verður þegar í stað skattheimtuna af öllum fjölmiðlunum, draga RÚV út af auglýsingamarkaði og draga úr umsvifum þess.  Ein rás af hverju tagi er meira en nóg fyrir þennan ríkisrekstur, sem er að verða eins og svarthol fyrir ríkissjóð. 

Staksteinar Morgunblaðsins á þrettándanum 2023 fjölluðu um fjölmiðlahneyksli, sem sem vinstri fjölmiðlarnir hafa reynt að þegja í hel.  Svo virðist sem starfsmenn RÚV-fréttastofu, sem kalla sig "rannsóknarblaðamenn" þar, hafi verið hafðir að ginningarfíflum í Namibíu í Afríku, þar sem yfirvöld rannsaka alvarlegt spillingarmál. Fórnarlamb fréttamanna í þessu máli varð útgerðarfélagið Samherji. 

Þetta félag sætir engri ákæru þar í landi, og þess vegna lítur út fyrir, að óprúttnir menn þar hafi látið líta svo út í augum grobbinna íslenzkra "rannsóknarblaðamanna", að íslenzka útgerðarfélagið hefði hlunnfarið alþýðufólk í Namibíu.  Þessi mynd var dregin upp fyrir áhorfendum Kveiks og lesendum fylgitunglanna, sem frá greinir í téðum Staksteinum:

"Björn Bjarnason skrifar um Fishrot-hneykslið í Namibíu, sem náð hefur hingað og fengið nafnið Samherjamálið. "Yfir lykilblaðamönnum Stundarinnar og Kjarnans hvílir sameiginlegur skuggi lögreglurannsóknar, einn angi Samherjamálsins svo nefnda.  Það má rekja til umfjöllunar í þættinum Kveik í ríkissjónvarpinu 12. nóvember 2019.  Skuggi rannsóknarinnar nær því einnig inn á fréttastofu ríkisútvarpsins", skrifar Björn." 

Þessi skuggi lögreglunnar á Norðurlandi eystra stafar líklega af meintum stuldi gagna úr farsíma skipstjóra nokkurs hjá Samherja.  Augljóslega er þar um alvarlegt mál að ræða, þótt upphlaupsmiðlar hafi ekki gert sér mikinn mat úr því, enda nærri þeim höggvið.  Þarna kom fréttastofa RÚV einnig við sögu, en vonandi verða allir viðkomandi blaðamenn hreinsaðir af sök í þessu máli, því að sönnuð sök væri til vitnis um alvarlegan dómgreindarskort. 

"Þá bendir hann á, að Samherji hafi greitt fyrir veiðirétt undan strönd Namibíu, en svo hafi komið í ljós, að 10 stjórnmálamenn, athafnamenn og lögfræðingar þar í landi, hafi verið sakaðir um mútur og [aðra] spillingu.  Enginn Samherjamaður sæti þó ákæru vegna málsins, sem er umhugsunarvert í ljósi látanna, sem hér urðu."  

Nokkrir íslenzkir blaðamenn voru í einhvers konar krossferð gegn Samherja og töldu sig hafa komizt í feitt og dylgjuðu ótæpilega um refsiverða háttsemi  útgerðarfélagsins þar niðri í Afríku.  Það er með ólíkindum m.v. það, sem á undan er gengið, að hvorki er fram komin ákæra í Namibíu né á Íslandi á hendur téðu útgerðarfélagi eða starfsmönnum þess.  Sú staðreynd vitnar um ótrúlegt dómgreindarleysi Kveiksfólks, sem að þessari þáttagerð kom, og óvönduð vinnubrögð.  Ganga þau nú með veggjum ?

  Tilbúningurinn og vitleysan var á kostnað íslenzkra skattborgara, sem minnast þess að hafa séð Helga Seljan heldur gleiðfættan spígspora sem Sherlock Holmes í Namibíu, og norskum banka var flækt í málið.  Hvernig fór sú rannsókn ?

"Og Björn bendir á frétt Morgunblaðsins í gær um, að yfirlögfræðingur Samherja "hafi leitað til héraðsdóms til að fá rannsókn á hendur sér dæmda ógilda, og að hún verði felld niður".  Lögfræðingurinn hafi haft réttarstöðu sakbornings í 3 ár."

Þetta er dæmi um ótæk vinnubrögð réttarkerfisins, sem ekki geta orðið lögum og rétti í þessu landi til framdráttar.  Skörin er þó tekin að færast upp í bekkinn, þegar í ljós kemur, að ekki er einvörðungu um óhæfni að ræða, heldur er bullandi vanhæfi á ferðinni í þessari rannsókn:

"Svo vill til, að saksóknarinn íslenzki er bróðir blaðamanns Stundarinnar, sem fjallað hefur um þetta mál.  Björn segir óskiljanlegt, hve lengi saksóknarinn sitji yfir málinu án þess, að nokkuð gerist.  "Er hann örmagna andspænis því, eða er það tilefnislaust ?", spyr Björn."

Það er víðar spilling en í Namibíu, en það er ekki sama Jón og séra Jón, allra sízt í vinstri pressunni.  Er ekki löngu tímabært, að "Reichsanwahlt", ríkissaksóknari leysi téðan saksóknara frá málinu ?

 

 

 

 

 

 


Sjúk fjölmiðlun

Íslenzkur fjölmiðlamarkaður er afar óeðlilegur, og þar er steinrunnu ríkisvaldi um að kenna.  Það er alltaf ólíðandi, þegar ríkisvaldið er í bullandi samkeppni við einkaframtakið á markaði, sem í eðli sínu er samkeppnismarkaður, og engin brýn þörf lengur fyrir beina eða óbeina (opinbert hlutafélag) veru ríkisvaldsins þar.  Það er réttlætismál og í anda EES-samningsins að jafna samkeppnisstöðuna með því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði og að gera allar auglýsingar jafnar fyrir skattalögunum óháð gerð miðils og eiganda hans. 

Jafnframt yrðu umsvif ríkisfjölmiðilsins minnkuð til muna.  Það ættu að vera hámarksumsvif ríkisins að reka eina sjónvarpsrás, eina útvarpsrás og einn vefmiðil. Fréttastofa "RÚV" er kapítuli út af fyrir sig. Þar ríkir svo hrottaleg vinstri slagsíða, að segja má, að lítilsvirðandi framkoma og mismunun gagnvart þeim, sem fréttamenn virðast telja til pólitískra andstæðinga sinna, skeri í augun (og eyrun). Síðan skal vart bregðast, að farið er silkihönzkum um sósíalistana, afglöp þeirra og spillingu, t.d. í borgarstjórn. 

Fréttastofa "RÚV" rekur fyrirbæri, sem hún kallar rannsóknarblaðamennsku undir heitinu Kveikur, en á mjög lítið skylt við vönduð vinnubrögð, sem einkennast af umfangsmikilli og gagnrýninni heimildarvinnu.  Undir þessu falska flaggi hafa fúskarar "RÚV" hvað eftir annað reynt að koma höggi á atvinnurekstur í landinu og reynt að sá ómældri tortryggni í hans garð.  Málflutningurinn einkennist síðan af drýldni og innantómri sjálfsupphafningu.  Alræmdasta atlagan hingað til er að Samherja, og hún hefur algerlega runnið út í sandinn.  Það ætti að jafngilda dauðadómi yfir þessu þáttarskrípi, Kveik, en áfram skröltir hann þó á kostnað skattborgara.

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um Namibíumálið 19. desember 2022 með tilvísunum í Pál Vilhjálmsson:

"Páll Vilhjálmsson skrifar um Namibíumálið, sem oft hefur verið kallað Samherjamálið og olli um tíma töluverðu uppnámi."Enginn Samherjamaður er ákærður í Namibíu, og ekkert fyrirtæki útgerðarinnar er ákært fyrir mútur.  Helgi Seljan, verðlaunablaðamaður, hóf skáldskap um Samherja á RÚV og flutti iðjuna yfir á Stundina, þegar honum varð óvært á ríkisfjölmiðlinum", skrifar hann."

Þetta vitnar um djúpstæða glópsku og samvizkuleysi Helga Seljan.  Allur málatilbúnaður hans var reistur á sandi og á þess vegna ekkert skylt við rannsóknarblaðamennsku.  Hann virðist hafa misskilið málið frá upphafi, gefið sér forsendur um glæpsamlegt eðli viðskiptanna, sem til umfjöllunar voru, og vaðið sífellt lengra út í ófæruna til að sanna það, sem ekki var flugufótur fyrir.  Þessi vinnubrögð voru viðhöfð, á meðan téður Seljan var starfsmaður RÚV.  Ljótur er ferill fréttastofu þar á bæ. 

"Páll segir engan ákærðan fyrir mútur í Namibíumálinu, heldur umboðssvik, svindl, peningaþvætti og þjófnað.  Hann segir, að í þessu máli sé "Samherju brotaþoli.  Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga, sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi.  Peningunum var síðan stolið.  Þetta stendur skýrum stöfum í ákæruskjalinu á bls. 58-59."

Hann bætir því við, að starfsmaður Samherja hafi verið "í góðri trú, þegar hann greiddi forstjóra opinberrar namibískrar stofnunar fyrir kvóta".  Hann hafi ekki getað vitað, að peningunum yrði síðan stolið."

Samkvæmt þessari rannsókn namibískra lögregluyfirvalda er Samherji ekki sökudólgurinn, eins og "rannsóknarblaðamennska" Helga Seljans, starfsmanns RÚV, leiddi getum að til að þjóna lund sinni og ólund í garð þessa fyrirtækis. Krossfarinn, sem þótzt hefur fletta ofan af spillingu íslenzkra fyrirtækja, stendur nú uppi í hlutverki riddarans sjónumhrygga, sem bjó til forynjur úr vindmyllum og barðist við þær við lítinn orðstír.

"Og Páll spyr, hvað Helga Seljan gangi til "með að ljúga upp ákæru í Namibíu um mútugjafir Samherja ?  Jú, orðstír og æra blaðamannsins er í veði.  Þegar rennur upp fyrir fólki, að allur málatilbúnaður Helga og félaga á RSK-miðlum er uppspuni og gróusögur, er fokið í flest skjól fyrir fréttagörpunum, sem umliðin ár hafa stundað skipulega fréttafölsun og veitt sjálfum sér verðlaun fyrir.""

Þetta er hrottaleg lýsing á ólöglegu og siðlausu atferli fréttamanna, sem sáu fjandann í hverju horni, þegar þeir litu til a.m.k. sumra íslenzkra fyrirtækja, sem vegnað hefur vel í harðri samkeppni um markaði, fjármagn og starfsfólk.  Að slíkt skuli gerast undir handarjaðri ríkisútvarpsins segir sína sögu um stjórnunina þar á bæ og brýna þörf á að snarminnka umsvif þessa opinbera hlutafélags, sem er þungt á fóðrum á ríkisjötunni.

  

 

 

 

  


Ófullnægjandi stjórnsýsla

Það höfðu ýmsir áhyggjur af því við ráðningu núverandi forstjóra Orkustofnunar, að í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar og forvera hennar var farið inn á þá braut að velja ekki til starfans neinn úr röðum tæknimenntaðra umsækjenda, s.s. verkfræðing eða tæknifræðing, heldur var stjórnmálafræðingur valinn úr hópi umsækjenda. Nú þegar hefur komið í ljós, að ekki hafa stjórnarhættir Orkustofnunar batnað við þessa nýbreytni, heldur þvert á móti, því að afgreiðslutími umsókna um leyfi fyrir allstórum virkjunum hefur lengzt verulega.

Afsakanir orkumálastjóra eru aumkvunarverðar og sýna, að hana skortir alla tilfinningu fyrir því, sem liggur á að gera (sense of urgency). Í stað þess að taka stærstu og þar af leiðandi væntanlega tímafrekustu umsóknina fyrir strax og senda hana út í umsagnarferli og gera þá annað á meðan, þá saltar hún stærstu umsóknina í hálft ár.  Þetta umsagnarferli er í sjálfu sér umdeilanlegt eftir alla þá kynningu og umsagnarferli, sem átt hafa sér stað á verkinu, og ætlazt verður til, að Orkustofnun hafi allar athugasemdir við verkið þegar undir höndum, er hún fær umsókn Landsvirkjunar til afgreiðslu. 

Þá skýlir orkumálastjóri sér á bak við það að gæta þurfi vandvirkni.  Tímanotkun er enginn mælikvarði á vandvirkni, og nú á það eftir að koma í ljós, hvort Orkustofnun hafi lagt eitthvað markvert til verkefnisins eða hvort tímanotkunin hafi snúizt um sýndarmennsku og aukaatriði, sem engu máli skipta. 

Í Staksteinum Morgunblaðsins var fjallað um þetta alvarlega stjórnsýslumál undir fyrirsögninni:

 "Óeðlilegar tafir Orkustofnunar".

Samkvæmt reglum um þessi mál gildir, að Orkustofnun á að afgreiða umsókn um virkjunarleyfi innan 2 mánaða frá því, að síðustu gögn berast.  Það er auðvitað mjög ámælisvert, ef stofnunin kallar inn gögn um umsóknina, sem eru óþörf fyrir afgreiðslu málsins, til að hanga á 2 mánaða tímafrestinum. Samt er hún nú þegar búin að brjóta þá reglu um afgreiðslufrest.

Orkustofnun hefur misskilið hlutverk sitt, ef verið er að endurhanna virkjuninaað einhverju leyti, enda hefur Orkustofnun hvorki þekkingu né reynslu innan sinna vébanda til þess og er þá komin út fyrir sitt verksvið.

Í téðum Staksteinum stóð m.a.:

"Eitt dæmi um seinagang [opinberra stofnana] er afgreiðsla Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar.  Umsóknin var lögð fram í júní í fyrra [2021], og það tók Orkustofnun rúmlega hálft ár að byrja vinnu við umsóknina, en samkvæmt reglugerð ber að taka ákvörðun um virkjunarleyfi innan tveggja mánaða frá því, að öll gögn hafa borizt."

Þetta eru þvílík molbúavinnubrögð, að engu tali tekur.  Stendur þessari ríkisstofnun gjörsamlega á sama um þann gríðarlega kostnað, sem sleifarlag af þessu tagi mun hafa í för með sér vegna þess, að fyrirtæki munu ekki fá afhenta þá orku, sem þau vantar, árum saman ?  Hvernig komið er fyrir stofnun fyrrum orkumálastjóra, Jakobs Björnssonar, rafmagnsverkfræðings og kennara höfundar, er þyngra en tárum taki. 

"Leyfisveitandanum er í lófa lagið, hversu ítarleg sem umsókn er, að kalla eftir frekari gögnum, og það var gert í þessu tilviki.  Allt þetta ár hefur farið í samskipti Orkustofnunar og Landsvirkjunar."

Ef raunveruleg ástæða væri fyrir þessari hegðun Orkustofnunar, er um að ræða vanreifaða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, og því verður ekki trúað að óreyndu.  Öllu líklegra er, að þeir, sem véla um þessa umsókn hjá Orkustofnun, skorti nauðsynlega færni til að rýna viðamikið tæknilegt viðfangsefni á borð við hönnun þessarar virkjunar.  Það er þó öllu verra, að innan veggja Orkustofnunar virðist skorta skilning á raunverulegu hlutverki hennar í þessu sambandi.  Hlutverk stofnunarinnar er ekki að stunda neins konar hönnunarrýni, því að Landsvirkjun mun bera fulla ábyrgð á þeirri hönnun, sem hún leggur fram.  Hlutverk Orkustofnunar í þessu samhengi er einvörðungu að yfirfara virkjunartilhögun og sannreyna, að hún uppfylli alla skilmála, sem Landsvirkjun hefur undirgengizt á undirbúningsstigum.  Þess vegna hafa Orkustofnun verið sett 2 mánaða tímamörk til verkefnisins, sem er sanngjarnt. 

Það er hlutverk orkumálastjóra að fylgjast með starfsmönnum sínum og/eða verktökum og sjá til þess, að þeir blási ekki verkefni sitt út langt umfram það, sem ætlazt er til af þeim.  Núverandi orkumálastjóra virðast hafa verið mislagðar hendur að þessu leyti. 

"Orkumálastjóri virðist telja þann tíma, sem þetta hefur tekið, réttlætanlegan og talar um, að þurft hefði fleira fólk og aukið fjármagn.  Þá segir orkumálastjóri mikilvægt að vanda vel til verka, sem gefur augaleið, en það felur ekki í sér, að opinberar stofnanir geti tafið mál, eins og þeim hentar.  Hér þarf að vera hægt að halda úti skilvirku atvinnulífi, og hluti af því er, að hægt sé að ráðast í virkjanaframkvæmdir innan eðlilegs tímaramma."

Málflutningur orkumálastjóra er órökstuddur og frasakenndur, eins og þar tali PR-fulltrúi orkumálastjóra og orkulandsreglara ESB, en ekki sjálfur orkumálastjóri Íslands með faglega þyngd. Að bera við manneklu, þegar inn kemur stórt verkefni, er óboðlegt, því að mannahald Orkustofnunar á ekki að miða við toppálag.  Orkustofnun átti að leigja strax inn kunnáttufólk, t.d. af verkfræðistofu, til að fást við þetta verkefni (verkfræðistofu, sem ekki hefur komið að undirbúningsvinnu Landsvirkjunar vegna Hvammsvirkjunar) í stað þess að fórna höndum yfir álaginu og leggja verkefnið í saltpækil í hálft ár og hefja þá umsagnarferli og innköllun viðbótar gagna. 

Hver segir, að Orkumálastofnun hafi vandað vel til verka, þegar hún loksins dró umsóknina upp úr saltpæklinum í janúar 2022 ?  Orkumálastjóri styður þá einkunn sína ekki með neinum dæmum.  Gæði þessarar rýni Orkustofnunar eiga einfaldlega eftir að koma í ljós.  Eftir stendur, að ráðleysið virðist mikið, þegar að verkstjórninni kemur á þessum bæ, enda er hulin ráðgáta, hvernig menntun í stjórnmálafræði á að gagnast í þessum efnum, en lengi skal manninn reyna.  

 


Stefnumarkandi um vindmylluþyrpingar

Ljóst er, að fjármagni hefur í of miklum mæli verið beint í afkastalítil tæki með lága nýtni og óreglulega framleiðslugetu til að breyta vindorku í raforku í heiminum, t.d. í Evrópu. Þetta ásamt andvana fæddri hugmyndafræði um að mynda friðelskandi gagnkvæmt hagsmunasamband lýðræðisríkja og einsflokksríkja, sem auðveldlega virðast breytast í einræðis- og alræðisríki, hefur valdið hrollvekjandi stöðu orkumála í Evrópu, þar sem dauðsföll af völdum kulda gætu tífaldast af völdum orkukreppu í vetur, verði hann  harður.  Í Úkraínu geta eldflaugaárásir hryðjuverkaríkis í austri á orkukerfi landsins valdið enn meiri hörmungum. Eru örlög Úkraínu þyngri en tárum taki.  Þar láta hermenn og almennir borgarar lífið fyrir fullveldi lands síns.  Úkraínumenn vita og skilja og allra þjóða bezt, að yfirráð Rússlands jafngilda ánauð.  Þeir eru búnir að fá meira en nóg af að vera hnepptir í þrældóm af villimönnum.  

Evrópa hefur hundsað þróun kjarnorkunnar, sem ein getur með raunhæfum hætti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi.  Bretar eru þó að vakna úr dvala að þessu leyti, og brezka ríkið hefur nú skuldbundið sig til að kaupa kínverskt fyrirtæki út úr samsteypu, sem reisir kjarnorkuver á Englandi. 

Hérlendis eru háreist áform um að reisa vindmylluþyrpingar víðs vegar um landið , t.d. 687 MW á Vesturlandi og a.m.k. 500 MW á Austurlandi.  Þá eru ótalin mikil áform á Norðurlandi og Suðurlandi, t.d. hjá ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun.  Það gætir vanmats á neikvæðum áhrifum vindmylluþyrpinga á landið og landnýtingu annarra hagsmunaafla, s.s. íbúa frístundabyggða, bænda og ferðaþjónustunnar.  Þá hefur lítil grein verið gerð fyrir áhrifunum á verðlagningu raforku til almennings, sem vafalaust verður til meiri hækkunar en nýjar hefðbundnar virkjanir í landinu munu valda. 

Umræðan um áhrifin á raforkukerfið er einsleit og því er haldið fram, að vindmyllur vinni vel með vatnsorkuverum, muni minnka álag þeirra og spara miðlunarvatn.  Þessi samkeyrsla getur hins vegar rýrt nýtni vatnsorkuveranna svo mikið, að vatnssparnaður verði lítill sem enginn. 

Morgunblaðið tók stefnumarkandi afstöðu gegn mikilli vindorkuvæðingu landsins í gagnmerkum leiðara blaðsins 29. nóvember 2022, sem hét:

  "Ná að hræða lítil börn".

Síðari hluti hans var þannig:

"Það er engin samstaða með þjóðinni um að eyðileggja ásýnd landsins og útbía það með niðurgreiddum vindmyllum, sem eru ótryggur orkugjafi og knúinn áfram af áróðri um loftslagshamfarir, sem hefur staðið í 3 áratugi, og á þeim tíma hefur samt ekkert gerzt til að skipta um orkugjafa í heiminum.  En hamagangurinn er þó ekki til einskis. Upplýst er, að börn á aldrinum 7-12 ára (70 % þeirra) eru heltekin af ótta við loftslagsósköpin, sem tryggi, að þau nái ekki fullorðinsaldri. 

Við Íslendingar höfum "náð því marki", sem öðrum þjóðum er sett, áður en það gerðist í Kyoto.  Hefðu spár þaðan staðizt, væru ísbirnir við það að deyja út vegna eyðingar náttúrulegs umhverfis þeirra.  En ísbjörnum hefur fjölgað verulega síðan þá ! Barnaleg íslenzk yfirvöld lofa að henda milljarðatugum út í buskann til að stuðla að því, að aðrar þjóðir nái þessum "markmiðum" !  Rétt er að taka fram, að Kína, Indland, Indónesía og Rússland með sína fáu íbúa gera ekkert með fyrirætlanirnar.  Joe Biden slær burtu flestum hömlum af viðskiptabanni gegn Venesúela, svo að þaðan megi hann kaupa olíu !"

Þetta er ekki lítil ádrepa.  Það er einmitt helzti ljóðurinn á málflutningi hlýnunarpostulanna, að þeir taka allt of djúpt í árinni án þess að hafa annað fyrir sér en meingallað spálíkan, sem er með gríðarlega slagsíðu til hækkunar m.v. nákvæmustu raunmælingar, sem völ er á.  Hér er um gegndarlausan og fótalausan hræðsluáróður að ræða, eins og dæmið af ísbjörnunum sýnir.  Loftslagskirkjan er komin í fótspor ofsatrúarsafnaða, og slíkir eru stórhættulegir viðkvæmum sálum. 

Steinar Ingimar Halldórsson, verkfræðingur, ritaði merka grein í Morgunblaðið 29.11.2022, þar sem hann vakti máls á þeim vandkvæðum við samrekstur stórra vindmylluþyrpinga við vatnsorkuverin, að álagsbreytingar þeirra, þegar vindmyllur taka upp hluta álags þeirra eða missa álag, munu gera kerfisstjórn Landsnets erfiðara fyrir en nú er að reka heildarkerfið nálægt hámarksnýtni.  Francis-hverflar vatnsorkuveranna geta fallið um 10 % í nýtni, ef rennslið sveiflast annaðhvort upp eða niður frá kjörstöðu. Þetta á við þann hluta hverflanna, sem tekur þátt í reglun kerfisins hverju sinni.

Greinina nefndi Steinar Ingimar:

 "Ávinningur vindmylla er ofmetinn",

og hófst hún þannig:

"Í september [2022] sagði Morgunblaðið frá greiningu á efnahagslegum áhrifum uppbyggingar vindorkuvera á Vesturlandi, alls 687 MW af vindafli.  Í greiningunni eru árlegar skatttekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga af starfsemi vindorkuveranna metnar MISK 900 eða 0,3 ISK/kWh. Til samanburðar var meðalverð forgangsorku án flutnings 5,3 ISK/kWh árin 2020 og 2021.  Skatttekjur af vindmyllum segja ekki alla söguna, og útkoman er ekki jafnlofandi fyrir skattgreiðendur, þegar stóra myndin er skoðuð." 

Framleiðslukostnaður vindmylluþyrpinga af því tagi, sem nota á hér, er líklega um 50 USD/MWh eða 7,1 ISK/kWh, sem er 34 % hærra en ofangreint verð frá virkjun hérlendis.  Í markaðskerfi að hætti ESB, sem dótturfélag Landsnets vinnur nú að undirbúningi fyrir, og meiri eftirspurn en hefðbundnu virkjanirnar geta annað, munu vindmylluþyrpingarnar fá sitt boðna verð, og hæsta verðið ákvarðar síðan markaðsverðið til allra notenda á þessum markaði. Þetta gæti þýtt um 10 % hækkun raforkukostnaðar heimila og fyrirtækja án langtímasamninga. 

Nú má spyrja sig, hversu mikið nýtni vatnsorkuverflanna má minnka til að vega upp á móti ofangreindum opinberu gjöldum af vindmylluþyrpingunum. Það eru um 170 GWh/ár eða rúmlega 1 % af raforkuvinnslu vatnsorkuveranna.  Það má ætla, að vaxandi óróleiki á raforkukerfinu með tilkomu mikilla vindmylluþyrpinga geti valdið meira nýtnitapi í kerfinu en þetta, svo að uppsetning vindmylla til að spara vatn og auka tekjur samfélagsins er unnin fyrir gýg. Er anað út á vindmylluforaðið af glópsku einni saman ?    

 


Skýrsla veldur vonbrigðum

Um efnivið skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka má segja, að fjallið hafi tekið jóðsótt og fæðzt hafi lítil mús.  Þetta er skrifað í ljósi þess, að téð skýrsla var um 7 mánuði í smíðum, og miðað við það er afraksturinn afar rýr. Palladóma gætir í skýrslunni á borð við þekkingarskort Bankasýslunnar á viðfangsefninu, óþarflega lágt verð á hlutnum og ófullnægjandi upplýsingagjöf, en af andsvörum Bankasýslunnar við þessari gagnrýni virðist engin innistæða vera fyrir henni, og er henni vísað til föðurhúsanna. Alþingismaðurinn Haraldur Benediktsson undirstrikar þetta mat. 

Í umræðum um þessa sölu í kjölfar útkomu skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur eftir-á-vizka verið mest áberandi.  Hún er einskis virði, enda órökstudd í öllum tilvikum hér, en reist á afdönkuðum vinstri viðhorfum um, að alltaf tapi samfélagið á sölu ríkiseigna, þótt því sé í raun þveröfugt farið, því að þessir "aðgerðarlausu peningar" ríkisins verða settir í að draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs og settir "í vinnu" með innviðauppbyggingu. Einnig minnkar áhætta ríkissjóðs vegna vanhugsaðra aðgerða bankamanna.  Allir ættu að vita, t.d. eftir fyrirsjáanlegt mrdISK 200 tap ríkissjóðs vegna ábyrgðar á gjörningum ríkisstarfsmanna í Íbúðalánasjóði, að affarasælast er, að þeir (embættismenn og stjórnmálamenn) haldi sig fjarri stjórnunarhlutverki í fjármálastofnunum, því að á þær bera þeir fæstir meira skynbragð en heimilisköttur.

Það skín í gegnum málflutning ríkisrekstrarsinna, að þeir ætluðu að koma klofbragði á þessa og framtíðar sölur hluts í bönkunum, eftir útkomu skýrslunnar.  Þeir leituðu logandi ljósi að einhverju bitastæðu á borð við lögbrot, en slíkt fann Ríkisendurskoðun reyndar ekki. Hins vegar spurðu slagsíðu-fréttamenn á RÚV, sem eru í raun og veru fúskarar í blaðamannastétt, af því að þeim er um megn að fjalla hlutlægt um mál, ef þeir sjá möguleika á að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína, ítrekað um, hvort sala hlutarins fæli í sér lögbrot. 

Öll var framganga þeirra aukvunarverð, og aumust var framganga formanns Blaðamannafélagsins í Kastjósþætti með fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hún spann upp þvælu, sem átti að sýna hlustendum, að ráðherrann hefði viljað koma sér hjá að mæta bankabónusdrottningunni, sem nú vermir stól formanns Samfylkingar.  Aumari spuna er vart hægt að hugsa sér, enda stóð ráðherrann daginn eftir í um 8 klst vörn fyrir þessa sölu á ríkiseigninni.  Hið hlálega er, að hin eigingslega bankabónusdrottning Samfylkingar hélt því síðan fram, að ráðherrann hefði ekki "þorað" að mæta sér í umræddum Kastljósþætti.  Það er langt síðan hlægilegra ofmat á eigin getu hefur sézt af hálfu Alþingismanns.  Er líklegt, að það eigi sér sálfræðilega skýringu ?  

Þá er ótalin orðsporsrýrnun Alþingis út af þessu máli.  Þar er ekki átt við hefðbundið blaður þekkingarsnauðra þingmanna á viðkvæmu og viðamiklu máli, heldur um trúnaðarbrest Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis (SEN) gagnvart forseta Alþingis og Ríkisendurskoðanda með því að senda skýrsluna til nokkurra blaðamanna, þ.á.m. á RÚV, á meðan trúnaður átti að ríkja um hana.  Þetta var bæði siðlaust og afspyrnu heimskulegt athæfi, því að ekki verður séð, hvernig slíkur leki átti að gagnast aumum málstað stjórnarandstöðunnar.  Það verður að gera gangskör að því að finna hinn seka, því að annars liggja of margir undir grun, og orðspor Alþingis sem traustverðrar stofnunar er í húfi. Hin seka eða seki verður að fá að finna til tevatnsins með viðeigandi hætti (fá aldrei aftur trúnaðargögn í hendur, gegna engum hlutverkum á vegum Alþingis, sem sagt hún (hann) verði sett í skammarkrókinn).

Í Staksteinum Morgunblaðsins 18. nóvember 2022 er vitnað í orð Haraldar Benediktssonar, Alþingismanns, sem varpa í raun ljósi á, hversu ómerkilegur málatilbúnaður og orðaskak stjórnarandstöðunnar er, enda ætlunin að kasta skít í tannhjól frekari sölu á hlut ríkisins í bönkum og að níða skóinn niður af fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. "verður hann ekki að sæta ábyrgð ?".  Aum er sú hegðun:

"Haraldur Benediktsson, varamaður í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, veitir athyglisverða innsýn í söluna á Íslandsbanka og skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá sölu í samtali við mbl.is.  Hann segir, að komast þurfi til botns í lekanum á skýrslunni, enda sé um að ræða "viðkvæm samskipti þings og Ríkisendurskoðunar.  Og hann bætir við: "Skýrslan var í örfárra höndum, sem voru beðnir sérstaklega um trúnað með bréfi frá forseta þingsins."  Þarf ekki að rannsaka, hver varð ekki við þeirri beiðni."

Auðvitað verður þingið með hjálp sérfræðinga að komast til botns í málinu, því að trúverðugleiki þingsins er í húfi.  Sú eða sá, sem stóðst ekki freistinguna að taka forskot á sæluna við að þyrla upp moldviðri út af þessari sölu á 22,5 % hlut ríkisins í Íslandsbanka, ber að gjalda þess og getur ekki fengið að njóta slíks trúnaðar áfram.  

"En Haraldur er líka í Fjárlaganefnd og segir, að þar hafi tilboðsleiðin, sem farin var við söluna, verið "rækilega kynnt fyrir nefndinni og þá mögulegir afslættir.  Þetta voru allt saman atriði, sem voru rædd, og við fengum meira að segja sérstaka gesti á fundi nefndarinnar til að ræða tilboðsleiðina.  Við kynntum okkur hana með því að leita víðar fanga en bara til fjármálaráðuneytis og bankasýslunnar."

Þetta sýnir í hnotskurn, að túður Kristrúnar Frostadóttur o.fl. stjórnarandstæðinga um, að illa hafi verið staðið að kynningu og upplýsingagjöf til þingsins, stenzt ekki rýni.  Mikill áhugi markaðarins á útboðinu bendir jafnfram til góðrar upplýsingagjafar til hans.  Gagnrýniefni Ríkisendurskoðunar eru ýmist getgátur og eftir-á-speki eða hreinn sparðatíningur.  Svo er að sjá, hvort skýrsla Seðlabankans verði eitthvað bitastæðari.  Að drepa söluferlið í dróma með skipun rannsóknarnefndar þingsins er algerlega ástæðulaust og allt of seinvirkt og dýrt ferli. Hér hefur orðið stormur í vatnsglasi nokkurra athyglissjúkra þingmanna, sem gera sig seka um órökstuddan fullyrðingaflaum, og er bónusbankadrottning Samfylkingarinnar ekki barnanna bezt í þeim efnum.  

"Hann bendir einnig á álit minni- og meirihluta og segir þau til vitnis um, að þessi mál hafi verið rædd í fjárlaganefnd og í greinargerð ráðherra. "Það gat komið niður á hæsta mögulega verði.  Þannig að ég skildi það ekki í vor og skil ekki enn í dag, hvers vegna menn koma svona af fjöllum með þetta allt saman", segir hann.  Getur verið, að aðrir hafi sofið á nefndarfundunum ?" 

Það er ábyggilega óbeysnum skilningi fyrir að fara á útboðsmálum almennt hjá þeim innantómu vindhönum og -hænum, sem hæst hafa galað eftir þessa sölu, en þau eygðu áróðurstækifæri fyrir sig og gerðu óburðuga tilraun til að koma óorði á sölu ríkiseigna almennt.  Þar er hvatinn ótvíræður.  Hversu lítil skynsemi sem annars er í því fyrir ríkið að sitja á eignum í allt annarri starfsemi en ríkið fæst almennt við, reyndar með mjög umdeilanlegum árangri, þá skal útþensla og eignamyndun ríkisins varin fram í rauðan dauðann og öllum ráðum beitt til að setja skít í tannhjólin, jafnvel trúnaðarsvikum við forseta Alþingis.  Þetta vinstra lið er bæði fákunnandi, frekt og siðlaust.

Við þetta tækifæri er vert að minnast þess, hvernig Íslandsbanki komst í hendur ríkisins.  Hann var stofnaður upp úr þrotabúi Glitnis með stöðugleikaframlögum kröfuhafanna.  Hverjir stóðu að þeim snilldargjörningi ?  Voru það mannvitsbrekkur eða fjármálaspekingar á vinstri kanti stjórnmálanna, sem þó höfðu tækifæri til að láta ljós sitt skína á tíma vinstri stjórnarinnar 2009-2013, mesta niðurlægingartímabili lýðveldisins.  Nei, þau reyndust duglaus með öllu og reyndar ónýt til allra verka.  Það voru fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson og forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem kreistu stöðugleikaframlögin undan nöglum kröfuhafanna.  Nú telur sá fyrr nefndi vera fyllilega tímabært, að þetta fé fari að vinna fyrir íslenzka þjóð, en annað fé, fé af frjálsum fjármálamarkaði, leiti í staðinn inn í bankann sem hlutafé.  Þessi þróun þarf að halda áfram, svo að hann verði öflugt almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands.   

     


Misheppnuð stjórnun Samfylkingar á höfuðborginni

Það er með eindæmum, hversu mislagðar hendur stjórnmálafólki Samfylkingarinnar eru við stjórnun málefna almennings.  Þótt vítin séu til að varast þau, vantar ekki gorgeirinn í forkólfana, en þeir (þau) tala gjarna, t.d. á Alþingi, eins og þau hafi öðlazt æðsta sannleik um málefni í almannaþágu, en samt eru svikin loforð og mistök á mistök ofan, það sem upp úr stendur, þar sem þau hafa krafsað til sín völd þrátt fyrir dvínandi fylgi, eins og í Reykjavík.

Pólitískur sjálfstortímingarleiðangur  Framsóknarflokksins inn í Ráðhúsið við Tjörnina er reyndar saga til næsta bæjar fyrir flokk, sem annars hefur verið nokkur borgaralegur bragur á undir stjórn Sigmundar og síðar dýralæknisins. Einar, fyrrverandi fréttamaður á RÚV, virkar nú sem blaðafulltrúi læknisins eða öllu heldur búktalari. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er skeleggur gagnrýnandi borgarstjórnarmeirihlutans. Hann reit grein grein í Morgunblaðið 6. október 2022, sem hann nefndi:

"Neyðarástand á húsnæðismarkaði í Reykjavík".

Þar gat m.a. þetta að líta:

"Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar hefur verið ráðandi í Reykjavík frá því um aldamót.  Á þessum tíma hafa vinstri stjórnir í Reykjavík knúið fram stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði með ýmsum ráðum, t.d. með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun margvíslegra gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda.  Allar slíkar aðgerðir eru lóð á vogarskálar hækkandi húsnæðisverðs."

Dettur einhverjum í hug, að þessar gjörðir Samfylkingarinnar, sem skreytir sig með öfugmælunum Jafnaðarmannaflokkur Íslands, þjóni hagsmunum alþýðunnar í borginni ?  Allt, sem Samfylkingin tekur sér fyrir hendur, gerir hún með öfugum klónum.  Hún hefur alla sína hundstíð daðrað við auðjöfra, sem varð alræmt fyrir Hrun, enda kemst Kjartan Magnússon að eftirfarandi niðurstöðu í framhaldinu:

"Auk þess að stórhækka húsnæðisverð hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og [selt] þar íbúðir til almennings á uppsprengdu verði.  Þessi stefna felur því í sér þjónkun við fjársterka verktaka og stórfyrirtæki, sem hafa hagnazt um tugi, ef ekki hundruði milljarða ISK vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna."

Þarna kemur Samfylkingin aftan að almenningi, eins og henni er einni lagið.  Hún hagar málum þannig, að markaðurinn geri nýjum kaupendum og öðrum með takmörkuð fjárráð erfitt eða ómögulegt að festa kaup á húsnæði í borginni, en neyðist þess í stað til að flytjast í leiguhúsnæði, þar sem Samfylking einmitt vill hafa almenning.  Sjálfsbjargarfólk á meðal almennings er eitur í beinum Samfylkingar, og hún fer ýmsar krókaleiðir gegn því. 

Sigurður Oddsson, verkfræðingur, ritaði skorinorða grein í Morgunblaðið 3. október 2022, þar sem hann sýndi fram á, hvernig fúskarar borgarstjórnar í umferðarmálum hefðu eyðilagt meginhugmyndir faglegra hönnuða umferðarflæðis í höfuðborginni.  Þarna er um ótrúlega ósvífin skemmdarverk atferlishönnuða að ræða, sem svífast einskis í viðleitni sinni til að skapa farþegagrundvöll fyrir andvana fædda borgarlínuhugmynd sína.  Samfélagshönnuðir af þessu tagi eru eitthvert leiðasta fyrirbrigði nútímans, afætur, sem verða borgurunum óhemju dýrir á fóðrum áður en lýkur.

Grein sína nefndi Sigurður:

"Eyðilegging umferðarmannvirkja".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Eigendur bíla hafa með skattlagningu og eldsneytisgjöldum byggt Háaleitisbraut og Grensásveg, eins og allt gatnakerfi borgarinnar.  Hefur meirihlutinn leyfi til að eyðileggja þessi umferðarmannvirki í þeim tilgangi að tefja umferð."

Nei, auðvitað hefur meirihluti Samfylkingar engan siðferðislegan rétt til slíkrar kúvendingar í skipulagsmálum, enda er hér komið aftan að kjósendum, þar sem engin kynning á þessum klaufaspörkum hefur farið fram fyrir kosningar.  Fallandi fylgi Samfylkingar í borginni gefur til kynna óánægju með afkáraleg vinnubrögð hennar í skipulagsmálum umferðar og húsnæðis.  Lýðræðið er fótum troðið, því að allt eru þetta óvinsælar ráðstafanir.  

"Markvisst hefur verið unnið að því að skemma Bústaðaveginn sem stofnbraut: Við Reykjanesbraut er margbúið að lofa mislægum gatnamótum við Bústaðaveg.  Í stað þess að standa við það er nú komið illa hannað hringtorg, sem tefur alla umferð að og frá Bústaðavegi.  

Við Grensásveg er komið raðhús svo nálægt Bústaðavegi, að þar verður illmögulegt að hafa Bústaðaveginn 2+2-akreinar.  Þannig eru komnir flöskuhálsar á báða enda þess kafla, sem auðvelt var að hafa 2+2."

Skemmdarverk furðudýranna í borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík setur þá stjórnmálamenn, sem þannig nota völd sín, í ruslflokk á meðal sveitarstjórnarmanna á Norðurlöndunum.  Það er fullkomlega ósiðlegt og ólýðræðislegt að beita skipulagsvaldinu til að binda hendur komandi kynslóða við úrlausn umferðar viðfangsefna borgarinnar, eins og Samfylkingin undir furðuforystu læknisins Dags hefur gert sig seka um.  Fyrir vikið er ástæða til að treysta henni ekki fyrir landstjórninni, enda er reynslan af henni þar ömurleg. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband