Skaðræði í náttúrunni og hentar orkukerfinu illa

Ef mönnum finnst einhvers virði að búa í landi víðfeðmrar óspjallaðrar náttúru, ættu þeir að forðast eins og heitan eldinn að fjárfesta í eða samþykkja fjárfestingar í óskilvirkustu aðferð, sem nú um stundir er beitt til að vinna raforku án koltvíildislosunar á staðnum.  Hér er átt við rafala uppi á háum súlum, sem knúnir eru áfram af vindi, sem verkar á vanalega 3 feiknarlanga spaða. Það er rangtúlkun, að aðferðin sé umhverfisvæn, þegar lífferilgreining slíks verkefnis er krufin frá upphafi til enda. Það á sér stað margs konar mengun á framleiðslustigi íhlutanna ásamt koltvíildislosun, og á uppsetningarstiginu verður mikið jarðvegsrask og koltvíildislosun.

Vegna þess, hversu litlar og óskilvirkar framleiðslueiningarnar eru, stenzt þessi aðferð ekki samanburð við hefðbundnar íslenzkar virkjanir frá landverndar- og umhverfisverndar sjónarmiði.  Að auki er dýrara að framleiða rafmagn með vindknúnum spöðum en vatnsorkuverum og jarðgufuverum.  Ef hér væri nægt framboð raforku frá þessum hefðbundnu íslenzku virkjunum, væri varla nokkur áhugi á að reisa þessa háu turna, því að landið er ótengt erlendum raforkukerfum, ólíkt Noregi, þar sem turnþyrpingar með vindspöðum í óspilltum víðernum hafa valdið óánægju íbúanna í grennd og ferðamanna. 

Nú áformar norska ríkisstjórnin með lagasetningu að styrkja heimildir norskra yfirvalda til að tryggja orkuöryggi Norðmanna.  Í verkfærakistuna á að setja heimildir til draga úr eða stöðva útflutning raforku og að fyrirskipa orkufyrirtækjum að auka framleiðslugetu sína.  Hvort tveggja er andstætt ákvæðum Orkupakka 3, en norska ríkisstjórnin ber við þjóðaröryggi. Orkupakki 3 er úr gildi fallinn í Evrópusambandinu (ESB), og það gerðist reyndar áður en hann var innleiddur í lög á Íslandi, sem er einsdæmi, og færð hafa verið fyrir því sterk lögfræðileg rök, að innleiðing, sem svo er í pottinn búið með, sé ógild.  Engin ástæða er fyrir íslenzku ríkisstjórnina að vera rög við að feta í fótspor þeirrar norsku að þessu leyti.  Það er brýnt hagsmunamál þjóðarheildarinnar, að ábyrgur og hæfur aðili með heimildir til að grípa inn fylgist stöðugt með raforkukerfinu, framleiðslu, flutningum og dreifingu, til að lágmarka áhættu raforkunotenda varðandi afl- eða orkuskort. 

Morgunblaðið gerði anga þessa máls að umfjöllunarefni í fyrri forystugrein sinni, 24. janúar 2023, undir fyrirsögninni:

"Vindmyllur á hálum ís".

Í úrdrætti stóð:

"Þýðingarmikið er að grípa inn í skemmdarverk vindmyllumanna sem allra fyrst.  Það er aldrei um seinan, en það gæti kostað mikið fé að bæta úr afglöpunum."

Þetta er hárrétt, en hvers vegna í ósköpunum eru Íslendingar nú í þeirri stöðu að vera að búa sig undir að setja upp mannvirki á víðfeðmum ósnortnum svæðum, sem skaga meira en 200 m upp í loftið, eru ógn við dýralíf og hávaðavaldur ? Það er vegna þess, að hávær ofstækishópur hefur lagzt gegn nær öllum framkvæmdum á raforkusviðinu og náð að tefja framkvæmdir með kærum, þannig að virkjanir og línulagnir hafa dregizt von úr viti.  Afleiðingin er bæði staðbundinn afl- og orkuskortur og sams konar skortur á landsvísu, ef eitthvað bregður út af með veðurfar (þurrkar, kuldi) eða bilun verður í mikilvægri kerfiseiningu.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hefur stefnan verið sú lungann úr undanförnum áratugi, að engin þörf sé á að virkja.  Í staðinn hefur borgarsjóður blóðmjólkað samstæðuna, og nú er svo komið, að kerfið annar ekki heitavatnsþörfinni á vetrum.  Á að lappa upp á það með mrdISK 0,6 heitavatnsgeymi fyrir 9 kt.  Sundlaugum hefur verið lokað tímabundið, og eftir eina lokunina birti RÚV sjónvarpsviðtal við nokkra pottverja. Í lokin skauzt á skjáinn framkvæmdastjóri Landverndar, sem ekki brá vana sínum, heldur boðaði, að nær hefði verið að skammta rafmagn til Norðuráls en að loka sundlaugunum. Þarna fara saman firring og fáfræði, eins og fyrri daginn.  Hún hefur boðað, að ekkert skuli virkja fyrir orkuskipti né annað, heldur segja upp langtíma samningum við álver.  Þetta er hroðalegur hugarheimur og hryllileg grautargerð, sem lýsir miskunnarleysi í garð fjölmenns hóps, sem hefur lífsviðurværi sitt af starfsemi álveranna beint og óbeint, svo að ekki sé nú minnzt á álitshnekki og kostnað vegna uppsagnar þessara orkusamninga, minni útflutningstekjur og minni tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. 

Þar að auki er þessi málflutningur rangtúlkun á stöðunni.  Ef OR hefði dregið úr raforkusölu til Norðuráls, þá hefði framboð hitaveituvatns minnkað líka, vegna þess að hitaveituvatn jarðgufuveranna er aukaafurð raforkuvinnslunnar.  Framkvæmdastjóri Landverndar heldur ekki aðeins uppi óábyrgum áróðri, heldur skortir þar alla tengingu við raunveruleikann. 

Téð forystugrein hófst þannig:

"Staldra þarf við og [leggja] vindmyllumartröðina á ís.  Hvernig sem á það mál er litið, þá eiga þeir órar lítið erindi við okkur."

Þarna er ekki skafið utan af róttækri andstöðu við mikil áform um þyrpingar vindrafala.  Höfundur þessa pistils deilir þessari skoðun með Morgunblaðinu, en, eins og í Noregi, ber íslenzkum stjórnvöldum að koma í veg fyrir afl- og orkuskort hérlendis.  Það verður bezt gert með því að taka af skarið um, að vindknúnir rafalar séu of óskilvirkir virkjunarkostir og kosti of miklar fórnir á óraskaðri náttúru, þar sem turnarnir þenja sig yfir miklu meira land á hverja framleidda MWh/ár en hefðbundnar íslenzkar virkjanir.   Jafnframt skal hvetja orkufyrirtækin í landinu og viðkomandi sveitarfélög til að hraða afgreiðslu sinni á virkjanaáformum og -leyfum hefðbundinna virkjana.  Straumlínulaga þarf kæruferlin.  

Í lokin sagði í þessari forystugrein:

"Það er von, að margur spyrji, hvenær vinir náttúru og umhverfis, sem voru svo fyrirferðarmiklir forðum, vakni á ný.  Eru þeir kannski endanlega sofnaðir ?"

Ef hér væri nægt framboð raforku fyrir alla raforkunotendur í landinu og áform þeirra um aukin raforkukaup, þá væri áhuginn á að reisa þyrpingar súlna í náttúrunni með rafala á toppnum og spaða, sem snúast, þegar veður leyfir, varla jafnmikill og nú er reyndin.  Ef leið virkjanafyrirtækjanna að hefðbundnum virkjunum væri ekki jafntorsótt og raunin er, þá væri vafalaust meira raforkuframboð núna. Þeir, sem predika, að engin þörf sé á nýjum virkjunum, eru líka sekir um að hafa lagt steina í götu virkjanafyrirtækjanna umfram það, sem eðlilegt getur talizt frá lýðræðislegu sjónarmiði, og hafa þannig óbeint framkallað þennan þrýsting, sem nú gætir frá vindorkurekendum.

Orkumálastjóri, sem einnig er orkulandsreglari hjá orkustofu Evrópusambandsins (ESB) samkvæmt Orkupakka 3, en hann var leiddur í lög hér með einstæðum hætti eftir að hafa verið felldur úr gildi í ESB, gefur vindorkurekendum undir fótinn, eins og fram kemur í góðri grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, í Morgunblaðinu 16. janúar 2023 undir fyrirsögninni: 

"Vindmyllur kosta mikið og skila litlu öryggi".

Hún hófst þannig:

"Í Morgunblaðsgrein síðasta dag ársins 2022 skrifar Orkumálastjóri:

"Vindurinn blæs t.d. meira á veturna, þegar minna vatn er í lónum, en hægist um á sumrin, þegar lónstaða batnar."

Þarna er lýst sjónarmiði orkufyrirtækis, sem getur nýtt vindorku til að standa betur í samkeppni samkvæmt reglum þriðja orkupakkans, sem við sitjum nú uppi með, en íslenzka orkuöflunarkerfið er ekki hannað samkvæmt þeim reglum.  Hér eru það ekki meðaltöl, sem skipta öllu máli.  Hér er það regla nr 1, að orkukerfið hafi nægt vatn í lónum í árferði svo slæmu, að verra geti talizt "force majeure" eða náttúruhamfarir."

 Það er alveg undir hælinn lagt, hversu mikið gagn reynist af vindknúnum rafölum að vetrarlagi, því að þá verða oft langvinnar vindstillur, þegar hæð er yfir landinu, og við hitastig um frostmark og hátt rakastig getur ísing á spöðunum leitt til minni afkasta. Það er varla hlutverk orkumálastjóra að birta á prenti yfirborðslegan áróður fyrir vindknúnum rafölum.  Miklu meiri greiningarvinnu er þörf áður en nokkru er slegið föstu um nytsemi eða gagnsleysi þessarar gerðar raforkuvinnslu fyrir íslenzka raforkukerfið.  Lykilatriði í því sambandi er einmitt haldleysi meðaltals raforkuvinnslugetu við íslenzkar aðstæður, eins og Elías bendir á. 

"Að sjálfsögðu halda orkufyrirtækin fram sínum hagnaðarsjónarmiðum, sem þeim ber að gæta samkvæmt lögum og reglum.  Yfirvöldum, þar með orkumálastjóra, ber síðan að standa klár á sjónarmiðum orkuöryggis og sjá til, að sú þekking, sem til þarf hér á landi, sé þeim tiltæk.  Það er fullveldisréttur okkar, sem stjórnvöldum er skylt að sinna."

  Sú greiningarvinna, sem þarna er til umfjöllunar, leiðir annaðhvort til þeirrar niðurstöðu, að hætta verði á afl- eða orkuskorti áður en næsta trausta virkun getur komizt í gagnið eða vel sé séð fyrir jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar í raforkukerfinu í nánustu framtíð. Ef hið fyrr nefnda er uppi á teninginum, þurfa yfirvöld að hafa nægar lagaheimildir til að grípa til gagnráðstafana. Samkvæmt Orkupakka 3 eru þessar heimildir ekki fyrir hendi, og þessu þarf löggjafinn að bæta úr, einmitt á grundvelli fullveldisréttarins, sem Elías nefnir.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband