Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Kyndugur og hættulegur borgarstjórnarmeirihluti

Í Reykjavík eru viðhafðir stjórnarhættir, sem sæma ekki höfuðborg Íslands.  Þetta stafar af þröngsýni og afturhaldssemi núverandi meirihluta í borgarstjórn.  Þessi meirihluti undir borgarstjóranum, Degi Bergþórusyni, lækni, hefur bitið það í sig, að of margir bílar séu á götum Reykjavíkur, þeir valdi óþrifum, loftmengun og vegsliti.  Til að vinna bug á þessu vandamáli þurfi að fá íbúana, með illu eða góðu, til að nota Strætó í mun meiri mæli.  Þetta er kolröng, úrelt og óviðeigandi hugmyndafræði.

Bílaflotinn notar minna jarðefnaeldsneyti á ekinn km með hverju árinu, sem líður, vegna sparneytnari véla og fjölgunar rafmagnsbíla.  Með greiðara umferðarflæði og vetnisvögnum má auka loftgæðin enn meir.  Þar sem vegslit fylgir öxulþunga í 4. veldi, munar mjög mikið um vegslit strætisvagnanna.  Þótt borgaryfirvöld hafi lagt sig í líma við að tefja umferðina í Reykjavík með þrengingum gatna, fækkun akreina og frumstæðum ljósastýringum, m.a. á gangbrautum yfir akreinar, þar sem ætti fremur að vera undirgangur, hefur þeim ekki tekizt ætlunarverk sitt að auka hlutdeild Strætó í heildarfjölda einstaklingsferða í höfuðborginni.  Hún er enn 4 %. 

Með furðuverkinu borgarlínu er með ærnum kostnaði ætlunin að þrefalda þessa hlutdeild.  Það eru draumórar einir og má benda á aðrar borgir því til stuðnings, t.d. Bergen í Noregi, þar sem ekkert hægðist á fjölgun einkabíla í umferðinni við rekstur borgarlínu þar.  Sá rekstur er þar með bullandi tapi, sem bílaumferðin er látin standa undir með veggjaldi (bompenger), um 1000 ISK/dag. 

Liður í forneskjunni í Ráðhúsinu úti í Reykjavíkurtjörn er að standa gegn nútímalegum framkvæmdum Vegagerðarinnar, sem mundu bæta umferðarflæðið (draga úr töfum í umferðinni) og stórbæta öryggi vegfarenda.  Það er ljóður á ráði Vegagerðarinnar, að hún hefur fórnað hagsmunum vegfarenda í átökum við afturhaldið í Reykjavík. Þar þarf dýralæknirinn í forystu Vegagerðarinnar að taka sér tak.

Það er verr farið en heima setið að gefa nauðsynleg mislæg gatnamót upp á bátinn, en innleiða í staðinn forneskjulegar og stórhættulegar umferðarlausnir á fjölförnum gatnamótum, eins og ljósastýringar og vinstri beygjur, sem þvera umferð.  Forneskjulegur meirihlutinn í borgarstjórn misnotar skipulagsvald sitt hvað eftir annað til að hamra fram einstrengingsleg og fordómafull viðhorf, kenjar, sem eiga engan rétt á sér, því að lífi og limum borgaranna er stefnt í voða með þessu framferði.  Ábyrgðarleysið ríður ekki við einteyming, og nú verða Reykvíkingar að losa sig og aðra landsmenn við þessa óværu í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2022.

Bjarni Gunnarsson, umferðarverkfræðingur, gerði skilmerkilega grein fyrir þessu og baráttu sinni í nafni hagsmuna vegfarenda í Morgunblaðinu, 25. marz 2022, í greininni:  

"Ógöngur gatnamóta".

Þar mátti m.a. lesa eftirfarandi:

"Vegagerðin, Reykjavíkurborg, Samgöngusáttmálinn og samgönguáætlun setja aukið umferðaröryggi og aukið umferðarflæði í fyrsta sætið, þegar hugað er að nýjum samgönguframkvæmdum.  Þess vegna er það óskiljanlegt, að núna, þegar ráðast á í eitt af fyrstu verkefnum Samgöngusáttmálans, er útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar breytt frá því, sem var samþykkt í mati á umhverfisáhrifum árið 2003.  Breytingin felst í því að hætta við mislæg gatnamót, eins og Vegagerðin lagði til í matinu 2003, og byggja í staðinn ljósastýrð gatnamót, sem Vegagerðin taldi árið 2003, að ekki kæmu til greina. 

Þessi breyting hefur í för með sér eftirfarandi:

  • Fleiri umferðarslys
  • Meira eignatjón
  • Minni afkastagetu gatnamótanna 
  • Meiri umferðartafir
  • Lengri akstursleiðir
  • Meiri loftmengun
  • Meiri umferðarhávaða við Nönnufell og Suðurfell
  • Stærri mannvirki (fjögurra akreina brú í staðinn fyrir 2ja akreina)
  • Breiðari rampa við Suðurfell (4 akreinar í stað 2)
  • Litla breytingu á framkvæmdakostnaði

 Ef horft er á afleiðingar breytingarinnar, sést, að þær eru þvert á öll framsett markmið samgönguframkvæmda. 

Þetta er ótækt.  Það er óviðunandi niðurstaða, að útúrboruleg viðhorf borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar skuli fá að ráða því, að skilvirkni þessarar fjárfestingar, þ.e. árlegur þjóðhagslegur arður, skuli verða umtalsvert minni en fengizt hefði með mannvirkjalausninni, sem Vegagerðin lagði fram í upphafi og taldi bæði nauðsynlega og nægjanlega.  Lausn Reykjavíkur er hvorki nauðsynleg né nægjanleg. Hún er út úr kú og fullnægir ekki gæðaviðmiðum samgönguáætlunar Alþingis og ætti þar af leiðandi ekki að fá fjárveitingu úr ríkissjóði.  Það er kominn tími til að láta af undanlátssemi við fúsk og yfirgang borgarstjóra og hyskis hans.  Tafakostnaður umferðarinnar samkvæmt Hagrannsóknum sf. er um þessar mundir talinn vera allt að 60 mrdISK/ár, og á hann er ekki bætandi. 

"Vegagerðin á að gera umferðaröryggismat fyrir fyrirhugaðar samgöngubætur, og var það gert vegna breytingar umræddra gatnamóta.  Slíkt umferðaröryggismat á að vera grundvöllur þess, þegar bezti valkostur er valinn af Vegagerðinni og lagður fram í mati á umhverfisáhrifum. Umferðaröryggismat breytingarinnar (dags. jan. 2021) telur breytinguna slæma, og í niðurstöðum þess segir:

"Niðurstöður rýnihópsins eru, að mislæg gatnamót séu mun betri m.t.t. umferðaröryggis.  Sú lausn að aðskilja akstursstefnur, losna við stöðvun umferðar á umferðarljósum, og engar vinstri beygjur, þar sem þvera þarf gagnstæða umferðarstrauma, felur í sér mun öruggari umferðarmannvirki."

Þessi niðurstaða umferðaröryggismatsins virðist hundsuð af vegagerðinni sjálfri og er ekki kynnt fyrir Skipulagsstofnun, þegar Vegagerðin sendir sitt erindi um, að ekki þurfi að gera nýtt mat á umhverfisáhrifum gatnamótanna. Og ekki kynnir Vegagerðin Skipulagsstofnun þær neikvæðu breytingar, sem upp eru taldar hér á undan, þegar gatnamótin verða ljósastýrð." 

Þarna virðist vera á ferðinni "monkey business" hjá Vegagerðinni að undirlagi borgarinnar.  Forstjóri Vegagerðarinnar má ekki láta borgarstjóra draga virðingu og faglegan metnað Vegagerðarinnar ofan í svaðið.  Borgin hefur um alllanga hríð gert sig seka um undirmálsvinnubrögð, þar sem farið er á svig við góð og gild vinnubrögð og beztu fáanlegu tæknilausnir.  Þetta skemmda epli hefur skemmt út frá sér í stjórnkerfinu, þar sem gæðastjórnun og faglegum vinnubrögðum er gefið langt nef, en innleidd molbúavinnubrögð og sukk og svínarí við verkefnastjórnun.  Þetta skemmda epli fáfræði, þröngsýni og ofstækis, verða kjósendur að uppræta í næstu kosningum, nema þeir vilji áfram "lausnir", sem kosta mikið, en gera lítið gagn annað en að fullnægja duttlungum sérvitringa, sem eru aftarlega á merinni. 

Að lokum skrifaði Bjarni Gunnarsson:

"Samantekið í stuttu máli: Reykjavíkurborg tefur lausn málsins vegna 2ja akreina rampa við Nönnufell og endar á því að þröngva fram lausn með 4-akreina rampa við Nönnufell.  Vegagerðin gefst upp með sína útfærslu á mislægum gatnamótum og leggur til lausn, sem kom ekki til greina áður, og Skipulagsstofnun tekur við ófullnægjandi upplýsingum frá Vegagerðinni og túlkar svo lög um mat á umhverfisáhrifum á rangan hátt til að hleypa þessum skelfilegu breytingum gatnamótanna í gegnum kerfið. 

Svo verða vegfarendur gatnamótanna fórnarlömbin." 

Hér er lýst undirmálsvinnubrögðum ríkisstofnana að  boði Reykjavíkurborgar, molbúavinnubrögðum með misbeitingu skipulagsvalds höfuðborgarinnar. Niðurstaðan verður, að enn sígur á ógæfuhlið öryggismála umferðarinnar í Reykjavík, og er þó ekki á þá hörmung bætandi.  Ástæða þess, að Ísland trónir næsthæst á ógæfulista umferðarslysa á Norðurlöndunum, eru aðallega ófullnægjandi umferðarmannvirki; þau eru í raun frumstæð m.v. bílaflotann og þarfir almennings og atvinnulífs og þar af leiðandi úrelt. 

Með núverandi meirihluta áfram við völd og óbreytta afstöðu til umferðarmenningar þá mun Ísland lenda efst á þessum ógæfulista Norðurlandanna á næsta kjörtímabili.

Í Morgunblaðinu 2. apríl 2022 var gerð grein fyrir umferðarslysum undir fyrirsögninni:

"Umferðarslysum fjölgar umtalsvert".

 

"Athyglisvert er að bera saman tölur um fjölda látinna á hverja 100 þús. íbúa hér á landi við nágrannalöndin.  Að meðaltali létust 3,5 í umferðarslysum hér á landi ár hvert síðustu 10 árin.  Aðeins í Finnlandi láta fleiri lífið eða 4,2 að meðaltali.  Í Danmörku er meðaltalið 3,1, í Noregi er það 2,4 og í Svíþjóð 2,6."

Á meðan Reykvíkingar íhuga ekki betur en raun ber vitni um í höndum hvaða stjórnmálamanna hagsmunum þeirra er bezt borgið, er ekki von á góðu.  Þeir ættu að hafa í huga við kjörborðið, að kostnaður vegna umferðarslysa í Reykjavík nemur rúmlega 50 mrdISK/ár og tafakostnaður í umferðinni er jafnvel hærri upphæð.  Kostnaður vegna rangrar stefnu í umferðarmálum í Reykjavík er þannig a.m.k. 100 mrdISK/ár, og hann má skrifa á núverandi meirihluta borgarstjórnarinnar. Það er óskiljanlegt, að þetta viðgangist í höfuðborg landsins. 


Skipbrot Rússlands

Feigðarflan fasistans á forsetastóli, sem sölsað hefur undir sig öll völd í Rússlandi og ráðizt á nágrannalönd Rússlands, Georgíu, Tétseníu og síðar Úkraínu 2014 og með allsherjarinnrás þar tæplega 200 k manna hers þann 24. febrúar 2022, hefur þegar dregið Rússland siðferðilega og efnahagslega gjörsamlega niður í svaðið, þaðan sem landið mun ekki eiga afturkvæmt í mannsaldur eða meir. 

Rússland er einangraðra en það hefur verið frá því, er Jósef Stalín, fjöldamorðingi, var við völd í skjóli kommúnistaflokksins í Kalda stríðinu við Vesturveldin.  Þá mun þó hafa verið hagvöxtur, en samdrætti í vergri landsframleiðslu Rússlands er spáð 10 %-20 % árið 2022 m.v. 2021, og atgervisflótti er hafinn. Einræðisríkið Kína virðist jafnvel vera hálfvolgt í stuðningi sínum við ofbeldishegðun Rússlands, og Indverjar, sem jafnan hafa notið stuðnings Kremlarstjórnar í átökum sínum við nágrannana, eru tvístígandi í afstöðu sinni til Rússlands núna.  Rússland, ríkisstjórn og herstjórn, hafa gert herfileg mistök á öllum sviðum, er lúta að þessum hernaðarátökum, og berað sig sem gegnumrotið, siðspillt og veikt ríki, sem fellur nú í fúafen þriðjaheims ríkja.

Verkfræðiprófessor Jónas Elíasson skrifaði af sinni glöggskyggni grein í Morgunblaðið þann 7. apríl 2022, sem hann nefndi:

"Vegferð Pútíns".

Undir millifyrirsögninni:

"Aðgerðir Pútíns styrkja NATO og eyða evrópskum sósíalisma",

stóð þetta:

"Þau ríki, sem vildu sýna Rússum hlutleysi eða vináttu, ganga nú í NATO.  Ef Pútín óttaðist NATO áður, ætti hann að vera alvarlega hræddur núna. Framferði Rússa skapar gríðarlegan pólitískan vanda fyrir evrópska vinstrimenn, gæti einfaldlega þýtt endalok vinstri sósíalisma í Evrópu. 

Aðalmál þeirra, hatrið á bandarískum kapítalisma, hefur leitt þá yfir í ósjálfrátt, og stundum ómeðvitað, Rússadekur og kröftuga andstöðu við NATO, en allt þetta er nú að gufa upp [og rjúka] út í veður og vind. Evrópskir stjórnmálamenn munu ekki komast upp með Rússadekur, og evrópskir vinstrimenn verða að snúast á sveif með NATO, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Lítil grein á forsíðu Fréttablaðsins 09.03.2022 sýnir, að þetta vandamál á ekki síður við um íslenzka sósíalista.  Pútín á eftir að fara verr með evrópska vinstrimenn en Stalín í Finnagaldrinum, uppreisnum í Austur-Þýzkalandi, Ungverjalandi og Póllandi.  Stalín stal korni Úkraínu 1931-1933, og 3 milljónir [manna] dóu úr hungri.  Þetta man Úkraína, svo [að] á hvaða vegferð er Pútín."

Austurríki stendur utan NATO og virðist ekki vera á leiðinni inn fyrir, en það virðast hins vegar bæði Finnland og Svíþjóð vera.  Finnland var hluti af ríki zarsins, og Ráðstjórnarríki Stalíns réðust á landið 30.11.1939, og stóð Vetrarstríðið yfir til 13.03.1940. Þar af leiðandi er Finnland í stórhættu gagnvart fasistaríki Putins, sem hikar ekki við landvinningastríð til að endurvekja ríki zarsins.

Í áróðri Kremlverja hefur því verið haldið fram, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæðum við landamæri sín.  Þetta er ekkert annað en skálkaskjól til að eiga auðveldar með að hremma þessi lönd með valdi við tækifæri.  Þetta hefur nú runnið upp fyrir meirihluta Finna, sem sjá sér ekki annan kost vænni til að styrkja öryggi sitt en að ganga í NATO.  Það mun verða auðsótt, og verða þeir boðnir velkomnir, þótt björninn í austri muni reka upp ramakvein og skekja klærnar.  Það verður ein af langtíma afleiðingum þess axarskapts einræðisherrans Putins að gefa dauðann og djöfulinn í fullveldi Úkraínu, að þjóðir á áhrifasvæði Rússlands brjótast undan því og leita undir verndarvæng Vesturveldanna.  

Nú er sú gamla grýla þokuhöfða vinstrisins dauð, að Bandaríkin (BNA) séu árásargjarnasta stórveldið, sem minni ríkjum stafi mest hætta af.  Þar með gufar upp goðsögnin um auðvaldið, sem mati krókinn með hergagnaframleiðslu.  Þrjóturinn Vladimir Putin er valdur að því, að BNA stíga nú fram sem bólvirki frelsins og baráttunnar við landvinningamenn og sem kjölfestan í varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO. Allt snýst í höndunum á ódáminum í Kreml. 

"Í síðustu heimsstyrjöld börðust Úkraínumenn af mikilli hörku gegn Þjóðverjum og áfram gegn Rússum allt til 1953. Vesturlönd komust ekki upp með annað en að styðja þá baráttu, leynt, ef ekki ljóst.  Munu Rússar sætta sig við, að skæruliðar í Úkraínu fái skjól, vistir og búnað í NATO-löndum og herji á Rússa bæði í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi ?  Nei, það mun Pútín ekki sætta sig við.  Rússar fengu að leika þetta hlutverk í stríðunum í Kóreu og Víetnam, en Vesturlönd fá ekki að gera þetta núna, ekki á landamærum Rússlands. Þá fara Rússar út fyrir landamæri Úkraínu með hernaðinn, taka Moldóvíu, einangra Eystrasaltslöndin með [því] að loka Suvlaki-hliðinu, og það leiðir til afskipta NATO og heimsstyrjaldar. 

Hvað getur komið í veg fyrir þetta ?  Menn einfaldlega vona, að valdadagar Pútíns verði ekki miklu lengri, sem er reyndar spurningin um, hve lengi hann hefur stuðning hersins, eða hvort honum verður komið frá með þeim aðferðum, sem hann hefur beitt á aðra.  En ef það gerist ekki og Pútín verður áfram við völd, þá er gríðarleg stríðshætta fram undan." 

Líklega er meiri spurning um heilsufar mafíuforingja ólígarkanna en hvort tekst að koma honum fyrir kattarnef. Af útlitinu að dæma er maðurinn sjúkur, enda fylgja honum 9 læknar við hvert fótmál.  Hann er auðvitað vænisjúkur og hreinsaði meira að segja nýlega til í FSB, utanríkismáladeildinni, þar sem hann sjálfur starfaði, þegar Boris Jeltsín var bent á gaurinn sem forsætisráðherraefni hjá sér laust fyrir aldamótin.

Með vísun til ofangreindrar tilvitnunar í prófessor Jónas er ljóst, að á miklu ríður, að Úkraínumönnum takist að koma þannig höggi á rússneska herinn, að hann hörfi frá austurhéruðunum og til baka á sína heimatorfu, eins og gerðist norður af Kænugarði um mánaðamótin marz-apríl 2022.  Í þessu ljósi er óafsakanlegt, að kratinn Olaf Scholz skuli nú þvælast fyrir því, að Bundeswehr láti brynvarða trukka og skriðdreka og önnur þungavopn af hendi rakna við Úkraínumenn.  Utanríkisráðherra hans, græningjanum Önnu Lenu Bärbock, er tekið að leiðast þóf karlsins á kanzlaraskrifstofunni og talar nú eindregið fyrir því, að Þjóðverjar taki sig á og sendi þungavopn austur til Úkraínu. Þegar menn segja A, þ.e. "Zeitenwende" (vatnaskil), verða þeir að vera menn til að segja B líka.  Í ljósi þess, að Boris Johnson var nýlega gestur Volodimirs Zelenski, forseta, í Kænugarði og lagði þar á ráðin um hergagnasendingar til Úkraínumanna að beiðni Zelenskis, kemur loðmullukratinn í Berlín alveg sérstaklega illa út. 

Þjóðverjar eru komnir í slæmt ljós fyrir undirlægjuhátt við Rússa, sem þeir misreiknuðu algerlega í samskiptum sínum við þá. Þeir skilja ekki hugsunarganginn í Moskvu, enda er hann forneskjulegur og algerlega óraunsær, tragíkómisk hugmyndafræði um mikilleika Rússlands, sem er hrein firra. 

Þótt Frank-Walter Steinmeier, forseti Sambandslýðveldisins, hafi séð að sér eftir hina svívirðilegu innrás glæpahyskisins og lygalaupanna í Kreml 24.02.2022, var heimsókn hans afþökkuð í Kænugarði.  Það ætti að verða þýzku stjórninni verðugt umhugsunarefni, en Steinmeier, ásamt Gerhard Schröder, krata og fyrrum kanzlara, var einn helzti talsmaður samstarfsverkefnis Rússa og Þjóðverja, Nord Stream 2, og aðstandandi hins misheppnaða Minsk-samkomulags á milli Úkraínumanna og Rússa 2015. Við þessar aðstæður sér líklega enginn þýzkur ráðherra sér fært að heimsækja Kænugarð, sem er miður.

Þann 5. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Geir Waage, "pastor emeritus", undir fyrirsögninni:

 "Skildi leiðir við Minsk ?"

Þar örlar víða á samúð með Rússum og fremur hornóttum ummælum í garð Úkraínumanna og ekki laust við, að nokkurri sök sé velt yfir á Vesturlönd á því, hvernig komið er.  Þessi afstaða kemur spánskt fyrir sjónir hér, þar sem Davíð berst við Golíat fyrir varðveizlu fullveldis þjóðar sinnar.  Ef það eru rök í málinu Rússum í vil, að Úkraína hafi áður verið hluti af Rússaveldi, Guð hjálpi þá Íslendingum og öðrum, oft á tíðum smáríkjum, sem rifið hafa sig lausa úr ríkjasambandi við mun mun fjölmennari þjóðir, oft óhamingjusömu kúgunar- og arðránssambandi.  Berum niður í grein prestsins:

"Svo sem komið hefur á daginn, hafa efndir Minsk-samkomulagsins orðið verri en engar.  Úkraína hefur virt það að vettugi.  Frakkar, Þjóðverjar og ÖSE hafa ekki hafzt að.  BNA hafa ýtt fram sókn NATO í austur.  Rússar rjettlæta árás sína á Úkraínu nú m.a. á vísun til þessa.  Eins og nú er komið málum, er vandsjeð, hvar finnast kunni hlutlægt mat á þeirri rjettlætingu."

Þarna er kíkirinn settur fyrir blinda augað, þegar horft er til austurs.  Staðreyndum er snúið á haus að hætti rússnesku áróðursvélarinnar.  Árásaraðilinn er gerður að fórnarlambi.  Látið er í veðri vaka, að Bandaríkjamenn láti NATO gleypa þjóðir Austur-Evrópu.  Þær þrábáðu um að komast inn undir verndarvæng NATO, senda þekktu þær Rússa af eigin raun og vissu fullvel, að þeir væru árásargjarnir og til alls líklegir, eins og margsinnis hefur komið í ljós.  Því miður komu smjaðurskjóður á borð við Angelu Merkel í veg fyrir aðild Úkraínu, og þess vegna stendur nú hinn siðmenntaði heimur á öndinni yfir illvirkjum og níðingslegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu.  Það á að láta af "Stokkhólmsheilkenninu" svo nefnda og hætta að taka mark á hótunum mafíunnar í Kreml.   

"Í grein hjer í blaðinu hinn 21. marz [2022] rifjaði eg upp ummæli Henrys Kissingers í grein í Washington Post af því tilefni, að hann gaf út bók sína, World Order", árið 2014.  Þar minnir hann á, að Úkraína sje sögulega og menningarlega órjúfanlegur hluti rússneskrar sögu og menningararfs."  

Það er ekki víst, að minningu dr Henrys Kissinger, utanríkisráðherra Richards Nixon, Bandaríkjaforseta, sé greiði gerður með því að rifja þessa skoðun hans upp núna, sem hefur eldst mjög illa, enda mörkuð af hugmyndafræðinni um ógnarjafnvægi á milli Ráðstjórnarríkjanna og Bandaríkjanna, sem skipti heiminum á milli sín í áhrifasvæði til að varðveita friðinn sín í millum. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir sem eiga að ráða stjórnskipun sinni og afstöðu Úkraínu til annarra landa, eru Úkraínumenn sjálfir.  Það er óréttlætanlegt, að önnur ríki reyni að ráðskast með fullveldi Úkraínu.  Úkraínumenn hafa reynzt meta fullveldi lands síns svo mikils, að þeir eru tilbúnir að úthella blóði sínu til að viðhalda því.  Allt annað er aukaatriði og að reyna að færa einhver söguleg rök fyrir öðru er bull ættað frá Moskvu og söguleg fölsun í þokkabót.   

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727

 


Tilvistarhætta stafar af Rússlandi undir alræðisstjórn

Úkraínuher vann sigur á rússneska hernum í um 5 vikna stríði um Kænugarð frá upphafi svívirðilegrar innrásar Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þetta er saga til næsta bæjar, og þessum hernaðarátökum á eftir að gera góð skil, en þau munu vafalaust fara í sögubækurnar á meðal glæstustu hernaðarafreka. Sérstaklega verður fróðlegt að sjá, hversu stórt hlutverk öflug samskiptakerfi léku, AWACS-gagnaöflunar- og samskiptaflugvélar Bandaríkjamanna og drónar af öllum gerðum, jafnvel leikfangadrónar úkraínskra borgara voru notaðir til að staðsetja óvininn, svo að unnt væri að gera að honum markvissa atlögu með öflugum varnarvopnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýzkalandi og e.t.v. víðar að.

Rússaher hundskaðist laskaður norður yfir landamærin til Hvíta-Rússlands og Rússlands með skottið á milli lappanna og skildi eftir sig blóði drifna slóð.  Komið hefur í ljós, að hann hefur framið níðingsverk á varnarlausum borgurum og framið þjóðarmorð á hersetnum svæðum.  Orðstír rússneska hersins liggur í valnum, og Rússland er útskúfað og verður lengi.  Þar eru ómenni á ferð og stjórnendurnir upp til forseta Rússlands eru viðbjóðslegir stríðsglæpamenn.

Það er aumkvunarvert að heyra hérlendis enduróm endalauss lygaþvættings frá Moskvu, þar sem þrætt er fyrir meingerðir óþverranna, t.d. við óbreytta borgara í Bútsja.  Ósvífnin og forstokkunin er svo alger, að Úkraínumönnum er kennt um óhugnaðinn.  Enginn heiðvirður maður getur haft snefil af samúð með lygamörðunum í Moskvu. Þýzka leyniþjónustan hefur undir höndum hljóðupptökur af samtölum rússneskra hermanna, þar sem einn segist hafa skotið niður mann á reiðhjóli.  Mynd af þeim vettvangi í Bútsja hefur birzt í íslenzkum dagblöðum.  Þá er til myndupptaka úr dróna, sem sýnir rússneska hermenn drepa vegfarendur í Bútsja.  Andspænis þessum sönnunargögnum tjáir ekki lygalaupunum Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dimitry Peskov, málpípu Putins, að halda áfram lygavef sínum um, að rússneski herinn beini ekki vopnum sínum að saklausum borgurum.  Þvert á móti, rússneski herinn beitir skefjalausri tortímingar- og eyðileggingarstefnu í Úkraínu.   

Nú ætla óþverrarnir að sleikja sár sín og síðan að auka liðssafnaðinn í Suð-Austur-Úkraínu.  Þar er stór hluti íbúanna rússneskrar ættar, en það gildir líka um Maríupol, sem rússneski herinn hefur lagt í rústir.  Rússneskumælandi hermenn Úkraínuhers hafa ekki síður barizt af hreysti gegn rússneska innrásarhernum en þeir, sem eiga úkraínsku að móðurmáli, og rússneskumælandi borgarar hafa einnig veitt innrásarliðinu harðvítuga andspyrnu.

Rússlandsstjórn er ábyrg fyrir stríðinu, sem staðið hefur yfir í Austur-Úkraínu síðan 2014.  Nú ætlar hún að styrkja innrásarliðið þar og leggja undir Rússland enn stærri sneið af Úkraínu en henni tókst í 8 ára stríðsrekstri þar, sem hefur verið rekinn með svívirðilegum hætti, eins og engum þarf að koma á óvart núna. Það er yfirvarp eitt og haugalygi, að Rússlandsstjórn sé þar að vernda rússneskumælandi fólk gegn nazistum.  Aðfarir Rússlandsstjórnar og Rússahers minna ekki á neitt meira en aðfarir Hitlersstjórnarinnar og SS-sveita Heinrich Himmlers í Úkraínu 1941-1944.

Ástæðan fyrir ásókn Rússlands í austurhéruðin er ekki umhyggja fyrir neinum íbúum þar, heldur sú, að í Austur-Úkraínu finnast auðlindir í jörðu, sem rússneskir ólígarkar vilja koma höndum yfir, og Putin er sennilega ríkastur af þeim öllum.  Það getur enginn friður orðið um þá landvinninga, sem Vladimir Putin ætlar sér og ólígörkum sínum í Úkraínu.  Hann mun ekki láta af sjúklegri landvinningaþráhyggju sinni fyrr en hann verður stöðvaður.  Hann er þegar kominn á ruslahauga sögunnar. Það er sorglegt, að hann dregur Rússland með sér þangað. 

Þann 24. marz 2022, mánuði frá upphafi hinnar alræmdu innrásar, birtist í Morgunblaðinu afar þörf og læsileg grein eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, undir umhugsunarverðri fyrirsögn:

"Vakna Vesturlönd ?".

Fyrirsögnin er af gefnu tilefni, því að Vesturlönd hafa sofið á verðinum og rekið bláeyga friðþægingarstefnu gagnvart Rússlandi, sem hefur snúizt um að eiga sem mest viðskipti við Rússland í von um, að friðaröflum þar yxi ásmegin og að landið mundi virða landamæri í Evrópu vegna mikilla viðskiptahagsmuna, sem í húfi væru.  Skemmst er frá því að segja, að þessi fyrirætlun er öll runnin út í sandinn.  Í Kreml nærðu menn allan tímann með sér landvinningadrauma, og nú er ljóst, að Vestrið er komið í tilvistarkreppu vegna blindunnar, sem það var slegið. "Ostpolitik" kratans Willy Brandt kom ekki í veg fyrir uppgang landvinningadrauma í Kreml, og Angela Merkel, þrátt fyrir mörg samtöl við Putin á þýzku og rússnesku, setti kíkinn fyrir blinda augað og gerði Þjóðverja mjög háða Rússum á viðskiptasviðinu.

Í raun eru Úkraínumenn núna að úthella blóði sínu fyrir Vestrið og vestræna lifnaðarhætti.  Þess vegna ber varnarbandalaginu NATO og lýðræðislöndum utan þess að láta Úkraínumönnum í té allan þann stuðning, sem þau geta, á formi hergagna, loftvarnarbúnaðar, þjálfunar, mannúðaraðstoðar, hersjúkrahúsa og fjár.  Á Svartahafi getur reyndar hæglega komið til átaka á milli NATO-flota og þess rússneska.  Ef ekki tekst að reka Rússaher út úr Úkraínu, er bara tímaspurning, hvenær NATO lendir í beinum hernaðarátökum við Rússland. Þangað til Vestrið lætur Úkraínu í té næga aðstoð til að reka villimennina af höndum sér, verður að svara spurningunni í fyrirsögn Einars Hálfdánarsonar neitandi.  

Téð grein Einars S. Hálfdánarsonar hófst þannig:

"Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar (ÓRG), þar sem hann virtist kenna NATO um innrás Pútíns í Úkraínu, hafa að vonum vakið mikla athygli.  Afstaða ÓRG á sér langan aðdraganda.  Á 8. og 9. áratug áratug liðinnar aldar fór hann fyrir vinstrisinnuðum þingmannasamtökum, sem sáu þann kost vænstan að gera kröfur Rússlands í öryggismálum Vestur-Evrópu að sínum.  Vestur-Evrópa mætti ekki koma fyrir nýjum varnarbúnaði, nema Rússland leyfði.  Félagar ÓRG voru felldir af Bandaríkjaþingi, þegar Ronald Reagan komst til valda með yfirburðasigri á Carter og nýjum þingmeirihluta.-

Við tóku nýir, betri og friðsamari tímar, þar sem kommúnisminn var settur á sinn stað næstu 3 áratugina, en Arne Treholt skemur.  ÓRG er enn á sama stað (og Arne reyndar líka) og hann þá var, hvað Rússland varðar.  Heiðra skálkinn og hlýða Pútín."

 Frá því að Pútín tók við af Boris Jeltsín sem forseti rússneska sambandsríkisins, hafa Vesturlönd einmitt fylgt kjörorðinu "Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki", en 24. febrúar 2022 rann upp ljós fyrir vestrænum þjóðum, að þetta væri í grundvallaratriðum röng stefnumörkun og stórhættuleg fyrir öryggi Evrópu, því að lygalauparnir í Kreml væru bara í blekkingarleik og ætluðu sér að ráðast á nágranna sína og endurskapa Stór-Rússland, sem næði að landamærum Þýzkalands og jafnvel Ráðstjórnarríkin að járntjaldinu, sem klauf Þýzkaland.  

Rússland var látið komast upp með að hafa neitunarvald um það, hvaða löndum, sem óskuðu aðildar að NATO, yrði hleypt þar inn.  Þetta var gert á þeirri skökku forsendu, sem Angela Merkel studdi gegn vilja Bandaríkjanna (BNA), að Rússar ættu af öryggisástæðum rétt á áhrifasvæðum í kringum sig, þar sem þeim væri játað neitunarvald um öryggismál þessara áhrifasvæða.  Þetta er Finnlandisering og nær engri átt, enda er komið í ljós, að hér er aðeins um skálkaskjól Rússa að ræða til að geta fært út kvíarnar án þess að lenda strax í beinum átökum við BNA.

Það á ekki lengur að taka mark á hræðsluáróðri Rússa.  Þeir segjast núna sjá Finna, þegar þeir horfi til Finnlands, en gangi Finnland í NATO, muni þeir sjá þar óvini.  "So what" ? Er ekki orðið ljóst núna, að eina vörn nágrannalanda Rússlands er NATO og nágrannar Rússa utan NATO eru annaðhvort orðin fórnarlömb þeirra eða munu verða það, hafi þau einhvern tímann áður verið undir rússneskri stjórn.  Þannig væri óskandi, að Finnland sækti sem fyrst um aðild að NATO. Þeim verður tekið þar fagnandi.

Þannig eru það eins og hver önnur öfugmæli, ættuð úr lygamaskínu Kremlar, að NATO beri ábyrgð á innrás Rússahers í Úkraínu.  Ef Úkraínu hefði verið hleypt inn í varnarbandalagið NATO 2008, eins og BNA vildu, hefðu Rússar ekki lagt í að ráðast á þetta lögmæta fullvalda lýðræðisríki 24. febrúar 2022.

Lok ágætrar greinar Einars voru þannig:

"Nú eru síðustu forvöð fyrir Evrópu.  Ef Bretland og Bandaríkin hefðu ekki undirbúið Úkraínu fyrir innrás síðustu ár, væri draumur Pútíns orðinn að veruleika.  Draumurinn um stórríkið.  Allir, sem tengsl hafa við Eystrasaltslöndin og Úkraínu, hafa óttazt, að þeir dagar, sem upp eru runnir, kynnu að koma.  En íbúarnir auðvitað mest.  Það er súrrealískt að hlusta á Letta ræða flóttaleiðir, yrði á þá ráðizt.

Evrópubúar, ekki sízt Íslendingar, þurfa að horfast í augu við veruleikann.  Hætta umræðum um fjölda kynjanna, kynlaus klósett og búningsklefa í sundlaugunum.  Hætta að taka við ólöglegum innflytjendum, sem misnota flóttamannakerfið á kostnað flóttamanna o.s.frv.  Framtíðarkynslóðir Evrópu eiga á stórhættu að verða undir í heiminum, verði raunveruleikinn ekki viðfangsefni stjórnmálanna á nýjan leik. 

Er til of mikils mælzt, að Evrópa dragi úr hitun híbýla og minnki umferð og lækki hraða á vegum ?  Efnahagur Rússlands bíður einungis viðráðanlegt tjón, ef orkukaupin hætta ekki.  Bretland og Bandaríkin komu meginlandi Evrópu til hjálpar á síðustu öld.  Heimurinn horfði upp á fjöldamorðingjana Lenín, Stalín, Maó og Hitler leika lausum hala.  Nú hefur Pútín bætzt í þennan fríða flokk.  Ekki má láta hann endurtaka leik hinna fyrrnefndu." 

Frá 2014 hafa Úkraínumenn herzt í átökum við Rússa í Donbass- og Lughansk-héruðunum.  Þeir hafa líka sjálfir þróað varnarkerfi, skriðdrekavarnir og loftvarnarbúnað, en jafnframt fengið ómetanlegar vopnasendingar frá Bandaríkjamönnum, Bretum, Áströlum, Þjóðverjum, Pólverjum, Tékkum, Rúmenum o.fl. Ef þeir eiga að geta sótt gegn Rússum á víðerni, þurfa þeir þó miklu meira, einkum loftvarnarkerfi, eins og t.d. Ísraelar eiga, skriðdreka (hver vegna ekki Leopard II ?), flugvélar og þyrlur.  Sjálfboðaliðar af öðru þjóðerni hafa gefið sig fram til skráningar í úkraínska herinn, t.d. Hvítrússar.

Úkraínumenn úthella nú blóði sínu fyrir allan hinn frjálsa heim.  Vesturlönd verða að skilja sinn vitjunartíma, láta Úkraínumönnum í té þann vopnabúnað, sem þeir fara fram á og skera á öll viðskipti við Rússland. Ekki má gera lítið úr áhrifamætti viðskiptabannsins, sem nú þegar er í gildi, og stutt er talið vera í greiðslufall rússneska ríkisins. Eftir friðarrof einræðisherrans Putins í Evrópu og hryðjuverk rússneska hersins í Úkraínu geta Vesturlönd ekki verið þekkt fyrir nokkur samskipti við þetta útlagaríki, og það verður þriðja heims ríki, gegnumrotið af spillingu og að mestu án ungs og hæfileikaríks fólks. Keisaraveldi á 21. öld gengur engan veginn upp. 

Nú hefur um 400 rússneskum njósnurum verið vísað úr landi á Vesturlöndum.  Ef við höfum engin samskipti við Rússland lengur, til hvers höfum við þá sendiráð starfandi í Moskvu  ? Er þá ekki við hæfi að fara að fordæmi Litháa og vísa rússneska sendiherranum úr landi ? 

 ukrainian-cloth-flags-flag-15727Vetur á Íslandi 


Söguskoðun Pútíns er röng

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sem nú hefur breytt Rússlandi í alræðisríki, hefur greinilega misreiknað sig á öllum sviðum, sem máli skipta í hernaðinum gegn vestrænum lifnaðarháttum og stjórnarháttum, sem nú geisar í Úkraínu.  Mafíforinginn lætur nú óspart illsku sína og vesælmennsku bitna á óbreyttum borgurum Úkraínu.  Þjóðarmorð opinberaðist, þegar hersveitir Úkraínu stökktu rögum Rússum á flótta úr nærsveitum Kænugarðs.  Myndir og lýsingar frá Bútsja, norðvestan Kænugarðs, varpa ljósi á, hvílík ómenni er við að eiga í Moskvu og neðanjarðarbyrgi alræðisseggsins í Vestur-Síberíu.

Vesturlönd verða að bregðast við þeirri bráðu ógn, sem að þeim stafar, ekki aðeins með fordæmingu, heldur með því að láta Úkraínumönnum í té enn öflugri vopn og þjálfun á þau en þeir hafa nú, til að reka óþverrana af höndum sér, loftvarnarkerfi, flugvélar, herdróna, þyrlur og skriðdreka auk hersjúkrahúsa, matfanga og annars.  Söder, formaður CSU-stjórnarflokks Bæjaralands, hefur hvatt þýzku ríkisstjórnina til að banna þýzkum fyrirtækjum kaup á rússnesku gasi, og Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýzkalands, hefur hvatt Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, til að banna aðildarríkjunum að kaupa eldsneytisgas af illvirkjunum í Rússlandi. Rússland undir forystu illmennisins, sem hlaut uppeldi í KGB, leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna, er á hraðri leið á ruslahauga sögunnar, þangað sem grimm árásarríki eiga heima. 

Hugarfar Úkraínumanna er ólíkt Rússa, enda eru Úkraínumenn afkomendur Kósakkanna, sem voru hugrakkir bardagamenn og frelsisunnandi föðurlandsvinir, sem stunduðu meira lýðræði við val á forystumönnum sínum en Rússar nokkurn tímann hafa viðhaft.  Alls engin lýðræðishefð er fyrir hendi í Rússlandi, en hún er aftur á móti fyrir hendi í Úkraínu, og þeir vilja allt til vinna, eins og þeir hafa sannað síðan 24. febrúar 2022, til að fá að lifa í frjálsu og fullvalda landi, lausir undan oki hinna frumstæðu Rússa, sem lengi hafa þjakað þá, síðast á Ráðstjórnartímanum, en á Stalínstímanum var þeim sýnt algert miskunnarleysi.  Enginn vill búa við kúgun, allra sízt af hendi siðlauss undirmálsfólks. Pútín, garmurinn, sá lífskjarabatann, sem var að verða í Úkraínu undir lýðræðisstjórn, vissi að betri lífskjör í Úkraínu en í Rússlandi kynnu að vekja alvarlegar spurningar í huga rússnesks almennings um stjórnarfarið í Rússlandi, og hræddist samkeppni um lífskjörin.  Nú hrapa lífskjör hratt í Rússlandi og atgervisflótti er hafinn þaðan.  Vonandi tekst Úkraínumönnum með hjálp Vesturlanda að fleygja vörgunum á dyr, endurreisa land sitt og lifa í friði í góðu samneyti við lýðræðisríkin. 

Kósakkarnir stóðu uppi í hárinu á stórvesírum Ottómanaríkisins, sem vildu leggja undir sig Úkraínu, og sendu súltaninum í Miklagarði háðulegt svarbréf við bréfi, þar sem þeim var skipað að leggja upp laupana og gerast þegnar Tyrkjasoldáns.  Bréf þetta minnir á svar úkraínsku varðmannanna á eyju nokkurri í Svartahafi, undan strönd Úkraínu, til rússnesks herskips, sem skipaði þeim að gefast upp.  Þessir varðmenn gáfu tóninn. Nú bendir ýmislegt til, að til átaka kunni að koma á milli NATO-flotans á Svartahafi og þess rússneska, því að sá síðar nefndi er tekinn að leggja tundurdufl úti fyrir strönd NATO-ríkis (Búlgaríu).

Þá má benda á Khmelnytski-uppreisn Úkraínumanna gegn innlimun lands þeirra í Pólsk-Lithúaníska stórríkið 1648 (lokaár 30 ára stríðsins) og stofnun sjálfstæðs hertogadæmis, sem þurfti þó vernd öflugra herveldis, og var þá leitað eftir henni hjá zarnum austur í Moskvu, svo að sagan er flókin. Ef skrattanum er réttur litli fingur, tekur hann alla höndina. 

Þann 31. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Sergii Iaromenko, dósent við Hagfræðiháskóla Ódessu við Svartahafið, þar sem reynt er að varpa ljósi á þau brengluðu sögulegu viðhorf, sem gripið er til af hálfu rússnesku mafíunnar til að "réttlæta" óréttlætanlegt blóðugt ofbeldi hennar gagnvart friðsömum nágranna í suðvestri.  Fyrirsögn þessarar nýstárlegu greinar var:

  "Af hverju ræðst Rússland á Úkraínu ?              Er Kreml flækt í hjól sögunnar ?"

Hún hófst þannig:

"Sögulega réttlætingu á ofríki Rússa gagnvart Úkraínu má rekja til hugmyndarinnar um hið mikla Rússland, sem mótaðist í Moskvuríki á 14.-16. öld. Kenning þessi á sér nokkrar meginstoðir. Hin fyrsta kveður á um, að Moskvuríki eigi tilkall til þeirra landa, sem áður heyrðu undir Kænugarð og Rús.  Útþenslu Moskvuríkis voru engin takmörk sett - ekki frekar en útþenslu rússneska heimsveldisins eða Sovétríkjanna síðar meir.  Þessi gegndarlausa útþensla var afsprengi tatarskrar eða mongólskrar stjórnsýslu, sem byggði á lóðréttum valdastrúktúr; aðalkhaninn var sá, sem allir greiddu skatt, á hann reiddi fólk sig í skilyrðislausri undirgefni.  Stjórnsýsla Rússlands hefur í aðalatriðum verið rekin með sama hætti fram á þennan dag." 

Önnur meginforsendan var trúin, skrifar Sergii Iaromenko, og sú þriðja krýning keisarans.  Allt er þetta óttalega rýrt í roðinu á 21. öldinni, og þeir sem reisa landvinningakröfur á þessum forsendum eru ekki með öllum mjalla.  Úkraína hefur í seinni tíð verið fullvalda ríki frá 1991, íbúarnir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti, frelsi til orðs og athafna, og vilja þétt samstarf við Vesturlönd á sem flestum sviðum.  Allt þetta ber öllum nágrönnum landsins að virða.  Rússar hafa nú með níðingsskap sínum, fláræði og fólsku, brennt allar brýr að baki sér í samskiptum við Úkraínumenn og sameinað þjóðina gegn sér, og gildir þá einu, hvert móðurmál eða uppruni íbúa Úkraínu er.

"Vladimir Pútín lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki.  Þetta hefur ítrekað komið fram opinberlega hjá rússneskum stjórnvöldum og eins á leiðtogafundi NATO í Búkarest árið 2008 [þar sem Angela Merkel, þáverandi kanzlari Þýzkalands, kom, illu heilli, í veg fyrir aðild Úkraínu að NATO, þótt Bandaríkin styddu aðild  Úkraínu.  Friðþægingarstefna þessarar austur-þýzku prestsdóttur gagnvart Rússlandi var reist á kolröngu stjórnmálalegu mati á ríkjandi viðhorfum í Kreml.  Þáverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, núverandi forseti Sambandslýðveldisins, Frank-Walter Steinmeier, hefur viðurkennt mistök sín og beðizt afsökunar. - innsk. BJo].  Rússar verja söguskoðun sína með kjafti og klóm.  Samkvæmt Kreml er Úkraína sýsla, sem gert hefur uppreisn gegn valdamiðjunni, og nú ríður á að lægja öldurnar.  Opinber[ri] niðurlæging[u] og valdbeiting[u] hefur löngum verið beitt gagnvart fyrrum Sovétlýðveldum og héruðum rússneska keisaradæmisins."

Frammistaða og framganga rússneska hersins í Úkraínu er fyrir neðan allar hellur og hefur kallað fram fyrirlitningu og fordæmingu allra siðlegra ríkja.  Framgangan er til vitnis um gegnumrotið ríki ólígarka, sem skefjalaust skara eld að sinni köku og taka vafalaust sneiðar af fjárframlögum ríkisins til hersins.  Siðleysi og getuleysi yfirmanna hefur framkallað agaleysi og óánægju hermanna í víglínunni með miklu mannfalli þeirra og tapi hergagna. 6-10 hershöfðingjar hafa fallið, sem bendir til, að fjarskiptakerfi hersins sé í lamasessi. Siðferðileg og hernaðarleg niðurlæging Rússlands er alger, svo að búast má við, að óánægja með yfirráð Rússa muni koma upp á yfirborðið sums staðar í rússneska ríkjasambandinu, þar sem aðrir kynþættir búa. Þegar alræðisherrar vanmeta andstæðinga sína og fara í landvinningastríð, fer iðulega illa.  Þetta þekkja menn úr evrópskri sögu. 

"Hvers vegna er Pútín jafnheltekinn af sögunni og raun ber vitni [um] ?  Án efa er það vegna þess, að þannig getur hann skýrt fyrir mér, þér og Rússum, að ofríki Rússa eigi sér sögulega réttlætingu.  Lýsingar Pútíns á klofinni þjóð, sem beri að sameina, skilgreinir Úkraínumenn, sem tala rússnesku - í krafti þeirrar Rússavæðingar, sem átt hefur sér stað - sem Rússa. Þessi aðferð gerir honum kleift að viðhalda málstað hinnar þríeinu þjóðar, sem tilheyri einu og sama ríkinu.  

Á fundi öryggisráðsins í Rússlandi varð enn eina ferðina ljóst, að rússneska elítan lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki.  Undir því falska flaggi, að Lenín hafi búið til Úkraínu, leitast Pútín við að réttlæta fyrir forréttindastéttum og Rússum almennt, að Úkraína sé gerviríki, sem hafi engan tilverurétt."

Málflutningur forseta Rússlands ber merki um vitfirringu, því að það er ekki heil brú í honum, enda er hann hreint yfirvarp í áróðursskyni til að draga fjöður yfir raunverulega fyrirætlun hans, sem er að maka krókinn, krók hans og ólígarkanna hans, á auðæfum Úkraínu.  Þetta skynja Úkraínumenn, enda þekkja þeir rússnesk yfirráð af langri og biturri reynslu, og kæra sig sízt af öllu um að verða aftur þrælar rússneskrar yfirstéttar.  Allir sæmilega réttsýnir menn hljóta að styðja Úkraínumenn með ráðum og dáð við að varðveita fullveldi og frelsi lands síns síns, enda hefur nú komið í ljós meiri einhugur á meðal þjóðarinnar um að verja frelsi sitt en nokkru sinni áður, og skiptir þá móðurmál viðkomandi litlu máli, enda eru flestir tvítyngdir og úkraínska og rússneska skyld tungumál. 

ukrainian-cloth-flags-flag-15727 


Afleiðingar tengingar raforkukerfis Íslands við Bretland

Vegna hás raforkuverðs á Bretlandi og orkuskorts á Íslandi eru menn enn á þeim buxunum, að gullgraftrarhugmynd felist í að flytja út rafmagn frá Íslandi til Bretlands og möguleikanum á innflutningi rafmagns þaðan. Það er lærdómsríkt í því sambandi að líta til reynslu Norðmanna í þessum efnum.  Þeir eiga nú raforkuviðskipti við Englendinga, Þjóðverja, Hollendinga, Dani, Svía og Finna. Í Suður- og SV-Noregi, þ.e. sunnan Dofrafjalla, hefur heildsöluverð  raforku í vetur til heimila og fyrirtækja án langtímasamninga verið 8-13 sinnum hærra en í mið- og norðurhluta Noregs, þ.e. í Þrándheimi og þar fyrir norðan.  Þetta er svo mikil hækkun, að markaðsbrestur hefur orðið, þ.e. ríkisstjórnin hefur gripið inn í með niðurgreiðslum til almennings, því að sum heimili og fyrirtæki voru að kikna undan fjárhagsbyrðunum.

Ástandið hefur valdið mikilli reiði í Noregi, því að almenningur lítur svo á, að hann eigi að njóta hagkvæmni norskra vatnsorkulinda beint í eiginn vasa með lágu raforkuverði.  Hann sættir sig ekki við, að mismunur markaðsverðs og kostnaðar við vinnsluna m.v. venjulega arðsemi renni allur í vasa fyrirtækjanna, sem reka orkuverin, jafnvel þótt þau í mörgum tilvikum séu að megninu í eigu ríkissjóðs eða sveitarfélaga.  Þetta er eðlilegt sjónarmið, enda eru lífskjör almennings (ráðstöfunartekjur) og samkeppnishæfni fyrirtækjanna háð raforkuverði. Þess skal geta hér, að vegna almennrar rafhitunar húsnæðis í Noregi eru raforkukaup almennings um 5-falt meiri þar en hér í MWh/ár að orku til rafbíla slepptri. Þess ber þó að gæta í samanburðinum, að raforka er drjúgur kostnaðarþáttur í hitaveituverði hérlendis, líklega um 15 %. 

Ástæðan fyrir því, að raforkuverðið hefur ekki hækkað jafnt um allan Noreg er, að flutningsgeta raforkukerfisins norður-suður um Dofrafjöll er takmörkuð, og það er fjöldi virkjana og miðlunarlóna í mið- og norðurhlutanum, sem sjá þeim landshlutum fyrir raforku á verði, sem er ákvarðað á markaði út frá vatnsgildi (vatnshæð) miðlunarlónanna þar.  Millilandasæstrengirnir eru tengdir við Noreg sunnanverðan, og þess vegna er þessi mikli verðmunur suðurs og norðurs í landinu bein afleiðing raforkuviðskiptanna við útlönd.

Þann 15. marz 2022 var heildsöluverðið í Ósló 2,13 NOK/kWh=31,2 ISK/kWh, sem er rúmlega 5-falt heildsöluverð hérlendis, og 0,164 NOK/kWh=2,4 ISK/kWh í Þrándheimi, sem er rúmlega 40 % af heildsöluverðinu hérlendis um þessar mundir.  Verðhlutfallið á milli landshlutanna er 13.  

Hvaða raforkuverð má geta sér til, að Íslendingar þyrftu að greiða, ef landið væri nú tengt við raforkukerfi Englands með t.d. einum 1000 MW sæstreng ?  Raforkuverð á Englandi var 15. marz 2022 í heildsölu 260 GBP/MWh eða 45 ISK/kWh. M.v. núverandi stöðu á markaðnum má gera ráð fyrir, að heildsöluverð til almenningsveitna hérlendis væri um 40 ISK/kWh eða tæplega 7-földun núverandi heildsöluverðs raforku hérlendis.  Heildareiningarverðið með VSK mundi hækka úr 18,8 ISK/kWh í þéttbýli í 60,3 ISK/kWh eða 3,2 faldast að því gefnu, að dreifingar- og flutningskostnaður verði óbreyttur.  Þetta þýðir, að árlegur meðalrafmagnsreikningur einbýlishúss með rafmagnsbíl hækkar um 446 kISK/ár, sem er mikil kjaraskerðing. 

Dettur einhverjum í hug, að skattheimtan muni lækka á móti vegna aukinna arðgreiðslna orkufyrirtækjanna ?  Þau munu þurfa að fara í fjárfestingar upp á a.m.k. mrdISK 400 til að geta boðið sæstrengseigandanum upp á alvöru viðskipti.  Þetta mun minnka hagnað þeirra verulega, á meðan greiðslubyrði lánanna varir, og þar af leiðandi verður arðgreiðslugetan lítil fyrstu 15 árin.  Eftir það veit enginn, hvernig kaupin gerast á eirinni á Englandi.  Englendingar verða sennilega langt komnir með orkuskiptin með uppsetningu hagkvæmra kjarnorkuvera í einingum víðs vegar um landið (SRU-Small Reactor Units) og alls ekki víst, að þeir hafi hug á að kaupa rafmagn langa leið, sem er rándýrt að flytja (a.m.k. 65 USD/MWh = 50 GBP/MWh). Þannig er þetta ævintýri mjög áhættusamt fyrir bæði sæstrengsfjárfesta og virkjanafjárfesta. 

Í Morgunblaðinu 12. marz 2022 birtist grein um útflutning raforku eftir Egil Benedikt Hreinsson, prófessor emeritus, og Gunnar Tryggvason, verkfræðing. Margt orkar tvímælis í þeirri ritsmíð, og verður hér stiklað á stóru.  Yfirskriftin var:

"Er orkuútflutningur góður fyrir Ísland ?"

"Eingöngu um fimmtungur eða 20 % af raforkunni er hins vegar nýtt af hinum almenna markaði, en 80 % af stóriðjunni. Þetta tvennt gerir það að verkum, að almenn verðhækkun raforku er almenningi á Íslandi í hag !" 

Þessi framsetning er óraunhæf, vegna þess að verðbreytingar á íslenzka raforkumarkaðinum fara fram með tvennum hætti.  Þessi 80 %, sem höfundarnir nefna, eru afhent samkvæmt langtímasamningum, og gjaldskrárbreytingar orkuseljenda ráða verðinu á um 20 %.  Samkvæmt Orkupakka 3 á heildsöluverð þessa fimmtungs að ráðast af framboði og eftirspurn í orkukauphöll.  Ef orkuseljendur ætla að láta verðhækkanir á almenna markaðinum eftir tengingu landsins við enska raforkukerfið ráða för við endurnýjun samninga, er hægt að fullyrða, að ekkert verður úr orkusamningum á slíkum forsendum.  Af þessum sökum og þeim, sem raktar eru að framan um kostnað orkuiðnaðarins af fjárfestingum, er það rangt, að almenn verðhækkun raforku verði almenningi í hag.

"Á undanförnum árum hefur verið nokkur umræða um mögulegan orkuútflutning frá Íslandi.  Annars vegar hafa verið hugmyndir um beinan raforkuflutning um sæstreng til Bretlands og hins vegar um útflutning rafeldsneytis til Evrópu og e.t.v. Norður-Ameríku, tengt möguleikum á hraðari orkuskiptum.  

Það er að okkar mati skynsamlegt að huga að báðum þessum leiðum, bæði af efnahagsástæðum, eins og reifað var hér að framan, en ekki síður sökum umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar."

Fyrsta spurningin, sem þarf að svara í sambandi við orkuútflutning, er, hvort endurnýjanlegar orkulindir Íslands duga landsmönnum bæði til innanlandsnotkunar og orkuútflutnings.  Af nýlegri grænbók umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að dæma, þar sem fram kemur, að allt að 25 TWh/ár þurfi í orkuskipti og vöxt atvinnustarfsemi fyrir vaxandi þjóð og hóflegan hagvöxt næstu 2-3 áratugi, verður harla lítið eða ekkert eftir til beins útflutnings. 

Ef við föllumst ekki á að gjörbreyta ásýnd Íslands með vindmyllum, sem er of hár fórnarkostnaður, þá verður áreiðanlega ekki orka fyrir hendi til að standa undir orkusölu um sæstreng, en í nafni hagkvæmni stærðarinnar kann að reynast grundvöllur fyrir takmörkuðum útflutningi rafeldsneytis.

"Með auknum tengingum og viðskiptum batnar nýting auðlinda og sóun minnkar."

Þetta er alls ekki víst. Sem dæmi má taka jarðhitaauðlindina.  Nýting virkjaðs jarðgufuforða fylgir ekki stærð virkjunar.  Þvert á móti getur of stór virkjun m.v. gufuforðann valdið tjóni á honum, svo að hann minnki.  Það hefur gerzt hérlendis, t.d. á Hellisheiði.  Það þarf að stækka jarðgufuvirkjun rólega til að komast að þolmörkum jarðgufuforðans. 

Mest hefur verið talað um orkusóun í sambandi við umframvatn á sumrin í góðum vatnsárum, þegar miðlunarlón yfirfyllist. Þetta er þó ekki sóun á fé, því að vélarafl skortir til að nýta vatnið, og markað kann að skorta líka.  Hér er þá frekar um tækifæri að ræða til aflaukningar í virkjun, en nýting hennar verður tilfallandi í góðum vatnsárum, sem er ekki góð nýting á fjármagni.   

Byggðalínan er búin að vera flöskuháls lengi og standa atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum í aldarfjórðung vegna lítillar flutningsgetu.  Með spennuhækkun hennar úr 132 kV og upp í 220 kV munu töp hennar minnka um rúmlega 300 GWh/ár, og hægt verður að draga verulega úr yfirflæðisvatni framhjá virkjun með góðri skipulagningu og samhæfingu á milli virkjana.  

Sæstrengur væri glannalegt yfirskot í fjárfestingu til að bæta tiltölulega litlu við vatnsrennsli gegnum virkjanir með því að draga úr yfirflæði.

"Þannig hafa frændur okkar í Noregi og Danmörku lagt marga strengi, bæði sín á milli og til flestra nágrannaríkja og leggja á ráðin um fjölgun þeirra.  Með þessu auka þeir orkuöryggi sitt og í tilfelli Norðmanna auka þeir þjóðartekjur og hag almennings, en auðlindarentan af orkuauðlindinni rennur að langmestu leyti til hins opinbera í Noregi, eins og hér á landi, þegar um opinbert eignarhald er að ræða." 

Það eru tvær hliðar á þessum peningi og yfirborðslegt að fjalla ekki um báðar. Höfundarnir skrifa, að frændur vorir leggi á ráðin um fjölgun þeirra.  Í Noregi ríkja nú svo miklar efasemdir um þjóðhagslega hagkvæmni fleiri aflsæstrengja til útlanda, að nýjasta verkefnið á þessu sviði, Nord Link á milli SV-Noregs og Skotlands (Petershead) hefur legið í "salti" sem leyfisumsókn hjá Orkustofnun Noregs (NVE) í 4 ár.  Þessi strengur er á vegum einkafyrirtækis, en ekki Statnetts, eins og allir starfræktir aflsæstrengir Noregs eru.

  Norðmenn horfa upp á geigvænlegar orkuverðshækkanir af völdum utanlandstenginganna, sem allt að 13-falda heildsöluverð raforku í Noregi.  Þegar arðurinn af orkuflutningunum á milli landa rennur ekki til ríkisfyrirtækis, vega gallar verðhækkananna meir en kostirnir að mati Norðmanna.  Hvernig fá þeir það út ? Jú, samkeppnisgeta fyrirtækjanna rýrnar gríðarlega og getur hæglega riðið þeim að fullu.  Fyrirtækin hafa getað borgað há laun og verið kjölfesta í sínu byggðarlagi, en ef þau leggja upp laupana, verður skarð fyrir skildi og atvinnuleysi skellur á í byggðarlaginu.  Kostnaður af slíku lendir á ríkissjóði, og kostnaður af niðurgreiðslu raforku til heimilanna lendir líka á ríkissjóði. 

Þetta þykir almenningi í Noregi vera óheilbrigt ástand og vilja einfaldlega nýta sjálfbærar orkulindir sínar (vatnsföll) til að halda uppi góðum lífskjörum í eigin landi án gríðarlegra millifærslna úr ríkissjóði af völdum brests á raforkumarkaði.  Senterpartiet lofaði í kosningabaráttunni veturinn og sumarið 2021 að ráða bót á þessu, en hefur enn ekki orðið ágengt með það í ríkisstjórn með Verkamannaflokkinum.  Til þessa er að mestu rakið 2/3 fylgistap Sp í nýlegum skoðanakönnunum. 

Þannig er ekki hægt að fullyrða án rökstuðnings, að aflsæstrengir auki þjóðartekjur og hag almennings.  Hið síðar nefnda er kaldranalegur sleggjudómur í ljósi þess, sem hér var rakið.

"Árið 2016 gáfu ráðgjafar ríkisstjórnar Íslands út skýrslu um áhrif lagningar sæstrengs til Bretlandseyja á íslenzkan efnahag og samfélag.  Niðurstaðan var sú, að slík tenging gæti verið arðsöm, ef brezk stjórnvöld tryggðu íslenzkum orkufyrirtækjum hagstætt verð fyrir græna orku. 

Almennt var þá talið, að slík ábyrgð væri í boði, ef Ísland sæktist eftir því.  Þess má einnig geta, að raforkuverð á Bretlandseyjum er um þessar mundir mun hærra en það var, þegar þessi úttekt var gerð."

Skýrslurnar, sem gerðar hafa verið um tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi annarra landa, aðallega Bretlands, eru allar fremur einhæfar, af því að þær skortir allar faglega dýpt á tæknisviðinu.  Baunateljarar láta aftur á móti gamminn geisa um kostnað og hugsanlegt verð, en allt er það í lausu lofti, af því að verkfræðilega greiningu á viðfangsefninu skortir. 

Það þarf að finna út, hversu mikil flutningsgeta sæstrengs og jaðarbúnaðar má vera til að raforkukerfi Íslands fari ekki á annan endann við rof á flutningskerfi undir fullu álagi.  Sömuleiðis þarf að ákvarða nauðsynlegan síubúnað fyrir yfirsveiflur, því að hann hefur talsverð áhrif á kostnaðinn, og einnig þarf að ákvarða spennustigið, því að spennan hefur áhrif á orkutöpin og allan kostnað.

Ábyrgð brezkra stjórnvalda á lágmarksverði fyrir græna orku eftir sæstreng frá Íslandi eða öðrum ríkjum hefur aldrei staðið til boða. Brezk stjórnvöld tóku ekki slíka áhættu og munu enn síður taka hana, eftir að ákvörðun um að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með kjarnorku hefur verið tekin.  Verðið, sem rafmagnsseljendur á Íslandi fá fyrir rafmagn sent til Englands, ákvarðast af markaðsverði í Englandi að frádregnum töpum í flutningskerfinu og flutningsgjaldinu. Um þessar mundir gætu orkuseljendur á Íslandi fengið um 200 GBP/MWh eða um 260 USD/MWh í sínar hirzlur, ef þeir væru í stakk búnir til að selja þangað raforku. Þetta líta út fyrir að vera mjög arðbær viðskipti, en sá er gallinn á gjöf Njarðar, að núverandi raforkuverð á Englandi er ósjálfbært; það stafar af jarðgasskorti af völdum stríðs á meginlandi Evrópu, sem hófst án stríðsyfirlýsingar 24. febrúar 2022.  Atvinnulífið getur ekki til lengdar staðið undir svona háu raforkuverði, enda er það hagvaxtarhamlandi, og heimili fá orkustyrki. Öryggisleysið í þessum viðskiptum er of mikið til að leggja í fjárfestingar í virkjunum, flutningslínum og sæstreng með endabúnaði.

"Í skýrslunni kom fram, að áætluð áhrif slíkrar tengingar á losun gróðurhúsalofttegunda næmi um 1,0-2,9 Mt/ár, eftir að tengingin væri komin í gagnið."

 Það er ekki hægt að réttlæta verkefni af þessu tagi með vísun til baráttunnar við hlýnun jarðar af 4 ástæðum. (1) kolefnisfótspor framkvæmda og framleiðslu  búnaðarins er talsvert; (2) orkutöpin við að breyta orkunni í jafnstraum og aftur yfir í riðstraum ásamt flutningi um 1000 km leið eru mun meiri en vegna nýtingar sömu orku innanlands; (3) kolaorkuver munu hafa verið aflögð á Englandi, þegar þetta verkefni kæmist í gagnið, svo að íslenzka rafmagnið mundi aðallega leysa jarðgas af hólmi.  Það er hægt að ná miklu meiri árangri við að draga úr losun CO2 með notkun þessarar raforku á Íslandi; (4) Englendingar munu draga hratt úr gasþörf sinni með litlum stöðluðum kjarnorkuverum (SRU), sem raforka frá Íslandi mun eiga fullt í fangi með að keppa við. 

"Fyrrum forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, benti á það í viðtali fyrr í vetur, að Norðmenn hefðu sannað það, að þetta væri góð leið til að veita Evrópu græna orku, og taldi rétt, að við skoðuðum þennan möguleika frekar.  Undir þessi orð er vert að taka."

Dr Ólafur er gjarn á að slá um sig með ýmsum óraunhæfum hugmyndum.  Í fersku minni er, þegar hann hvatti til aflsæstrengslagnar frá Grænlandi um Ísland og áfram til annarra Evrópulanda, þótt ekki sé vitað um minnsta áhuga Grænlendinga fyrir slíkum orkuútflutningi.  Ef Norðmenn væru nú spurðir út í það, hversu góð viðskiptahugmynd slíkur orkuútflutningur er, mundu þeir vísast flestir vilja vera án hans, því að raforkumarkaðurinn þar innanlands er í uppnámi vegna hans og afkomu margra heimila og fyrirtækja er stefnt í hreinan voða fyrir vikið.

Annars er þessi sífelldi samanburður við Noreg illa grundaður, því að norska raforkukerfið er a.m.k. 7-falt stærra orkulega séð en hið íslenzka, Statnett á allar millilandatengingarnar og sæstrengirnir eru yfirleitt innan við helmingur að lengd á við hugsanlega aflsæstrengi til Íslands, og þeir liggja allir á grunnsævi.  Þar að auki er bæði miðlunargeta lóna og aflgeta virkjana mun meiri en 7-föld á við íslenzka kerfið, því að húsnæði er yfirleitt rafkynt og álagssveiflur þar af leiðandi meiri en hér.  Norðmenn eiga engin jarðgufuorkuver, sem óháð eru sveiflukenndum vatnsbúskapi frá einu ári til annars. 

"Um þessar mundir erum við Íslendingar að fást við  skerðingar á raforkuafhendingu vegna lágrar stöðu helztu uppistöðulóna vatnsaflsvirkjana.  Slíkar skerðingar eru mun sjaldgæfari í vel tengdum raforkukerfum með skilvirkum markaði og mundu líklega heyra sögunni til, ef Ísland tengdist slíkum markaði um sæstreng." 

Það er kolröng nálgun við að leysa þetta viðfangsefni að einblína á lausnir á meginlandi Evrópu. Hér erum við á orkuríkri eyju lengst norður í Atlantshafi, og það er nærtækast að sníða lausnir okkar að þeirri staðreynd.  Núverandi raforkuskortur á Íslandi er ekki náttúrulögmál, heldur sjálfskaparvíti, sem stafar af fullkomnu fyrirhyggjuleysi orkuyfirvalda landsins og Landsvirkjunar.  Þetta sést bezt af því, að hefði Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá verið tekin í gagnið sumarið 2021, þá hefði ekki þurft að grípa til neinna langtíma orkuskerðinga, eins og hófust strax haustið 2021. 

Að lokum er rétt að taka undir lokaorð höfunda greinarinnar, sem hér hefur verið rýnd, en það er bezt að gera með virkjun að jafnaði 100 MW/ári næstu 2 áratugina til nýtingar alfarið innanlands:

"Um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna:

"Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er, að þau eru algild, og hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra." 

Við skorum á íslenzka stjórnmálamenn að fylgja heimsmarkmiðunum í verki, eins og að ofan greinir, því að Heimsmarkmið nr 7 er "Sjálfbær orka" og nr 13 er "Aðgerðir í loftslagsmálum"."      

 

 

 

 

 

 


Áhyggjur þingmanna af orkumálum í öngstræti

Það er huggun harmi gegn, að loksins hefur runnið upp fyrir þingheimi, þó auðvitað ekki græningjum, sem leggjast gegn flestum framkvæmdum á þessu sviði af ótrúlegri glámskyggni og ábyrgðarleysi í efnahagslegu tilliti, því að tjónið af völdum raforkuskorts 2022 mun fara yfir mrdISK 20 og fara vaxandi á næstu árum, þar til nýjar virkjanir, sem um munar, stakar sæmilega stórar og litlar nægilega margar, fara að framleiða inn á landskerfið. 

 Ingibjörg Ólöf Ísaksen, Alþingismaður, ritaða góða grein um þetta viðfangsefni stjórnmálanna, sem birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2022.  Hún hét:

"Orkuskortur - sorgleg staða, sem varðar okkur öll".

Þar gat að líta þetta undir millifyrirsögninni "Neyðarkall" (einstakt bréf Orkustofnunar til orkuvinnslufyrirtækjanna):

"Þetta [olíubrennsla vegna raforkuskorts-innsk. BJo] er sorgleg og ótrúleg staða, sem við eigum ekki að þurfa að búa við sem íslenzk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir. Þetta getur ekki verið svona til frambúðar.  Þetta er ástand, sem við viljum ekki búa við, svo einfalt er það."

Það er ástæða fyrir þingmenn að fá svar við því frá stjórnarformanni Landsvirkjunar, hversu langt á veg kominn undirbúningur að stækkun virkjana fyrirtækisins sé kominn til að nýta aukið vatnsrennsli vegna hlýnunar, og hvers vegna umsókn um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun hafi ekki verið send Orkustofnun fyrr en í fyrra (júní 2021).  Þá þurfa þingmenn að gera það, sem í þeirra valdi stendur til að greiða götu þeirra eigenda vatnsréttinda, sem flýta vilja undirbúningi, byggingu og tengingu smávirkjana við dreifikerfin.

Undir millifyrirsögninni "Ástandið er alvarlegt"

skrifaði Ingibjörg Ólöf m.a.:

"Staðan í orkumálum er alvarleg og kom meginþorra landsmanna líklegast verulega á óvart.  Þessi staða hefur hins vegar haft sinn aðdraganda.  Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orkujöfnuð 2019-2023 við mögulegum aflskorti árið 2022.  Þar var bent á, að á tímabilinu myndi ekki nægilega mikið af nýjum orkukostum bætast inn á kerfið til að duga fyrir sívaxandi eftirspurn eftir rafmagni samkvæmt raforkuspá."

Það er mikilvægt að draga þá staðreynd rækilega fram í dagsljósið, eins og Ingibjörg Ólöf gerir, að vandamálið er aflskortur, og aflskortur er óháður vatnshæð miðlunarlóna. Forstjóri Landsvirkjunar stagast á lágri vatnshæð Þórisvatns vegna lélegs vatnsárs 2021, en þetta vatnsár var ekki sérlega slæmt, enda hitastig 0,2°C yfir meðallagi á SV-landi. Álag kerfisins var hins vegar mikið, sem kallar á mikla vatnsnotkun, og þá er of lítið borð fyrir báru til að mæta snöggri álagsaukningu eða brottfalli rafala af kerfinu. Þetta skýrir núverandi aflskort kerfisins. 

Önnur meinloka forstjórans er, að vegna takmarkaðrar flutningsgetu eftir Byggðalínu frá Austurlandi til Suð-Vesturlands hafi ekki verið hægt að beita Fljótsdalsvirkjun nægilega til að draga úr miðlunarþörf Þórisvatns.  Í þessu eru 2 villur.  Í fyrsta lagi skortir Fljótsdalsvirkjun vélarafl til að anna fullu vetrarálagi á Austurlandi og framleiða yfir 150 MW fyrir Suð-Vesturland samtímis, en flutningsgeta gömlu 132 kV línanna til norðurs og suðurs frá Fljótsdalsvirkjun er líklega um 150 MW. Í öðru lagi leyfir miðlunargeta Hálslóns ekki slíka flutninga til Suð-Vesturlands, eins og sýnir sig með því, að núverandi staða Hálslóns er lægri en á sama tíma í fyrra og langt undir meðallagi.  Væntanlega var þess vegna gripið til þess að neita fiskimjölsverksmiðjum Austurlands og (og í Vestmannaeyjum) um ótryggða orku.

Það er ástæða til að útskýra hugtakið ótryggð orka, því að jafnvel orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, skriplar á skötunni, þegar að því kemur að útskýra það fyrir almenningi.  Hún var beðin um það í viðtali á Gufunni (RÚV-Rás 1) í þættinum Morgunvaktinni fimmtudagsmorguninn 3. febrúar 2022.  Hún greip þar til þeirrar yfirborðslegu skýringar, að ástæðan fyrir ótryggðri orku væri sögulegs eðlis.  Það er ekki rétt.  Ástæðan er enn í fullu gildi og er af eðlisfræðilegu tagi eða nánar tiltekið veðurfræðilegs eðlis. Til ákvörðunar framleiðslugetu vatnsorkuvirkjunar eru lagðar rennslismælingar nokkurra ára eða áratuga til grundvallar og búið til rennslislíkan til að auka öryggi rekstrar virkjunarinnar.  Út frá lágmarksársrennsli um virkjunina er lágmarksorkuvinnslugeta hennar reiknuð.  Það er sú orka, sem óhætt er að selja frá virkjuninni sem forgangsorku, og út frá þeirri orkusölu er arðsemi virkjunarinnar reiknuð.  Síðan fer það eftir stöðugleika álagsins, s.k. nýtingartíma toppálagsins, hversu mikið vélarafl þarf að setja upp til að mæta toppálaginu. 

Til að koma hluta af umframorkunni í verð, er vélaraflið aukið, svo að það ráði við vatnsrennslið í 27 af 30 árum, og var sú umframorka áður kölluð afgangsorka (secondary energy) til aðgreiningar frá forgangsorkunni (primary energy, firm power), en er nú oftast nefnd ótryggð orka (unsecerud energy). Þetta þýðir, að búast má við skerðingu ótryggðrar orku á 3 af 30 árum.

Verð forgangsorkunnar tryggir arðsemi virkjunarinnar, svo að ótryggðu orkuna er hægt að selja á mun lægra verði, t.d. 20 % af verði forgangsorku með þeim skilmálum auðvitað, að hana megi skerða samkvæmt umsömdum reglum.  Þetta er einfölduð mynd af hugtökunum ótryggð orka og forgangsorka. 

Af þessu sést, að það er misskilningur hjá orkumálastjóra, sala ótryggðrar raforku frá vatnsorkuverum sé orðin úrelt.  Hún er enn í fullu gildi, enda mun eðli vatnsorkuvera ekkert breytast með orkuskiptunum. Það getur hentað fyrirtækjum, sem geta dregið tímabundið úr framleiðslu sinni með fyrirvara að kaupa ótryggða orku, og það getur borgað sig fyrir fyrirtæki, sem notað geta aðra frumorku í staðinn 9 af hverjum 10 árum  að kaupa ótryggða orku.  Með afnámi jarðefnaeldsneytis kemur lífolía, t.d. repjuolía, eða rafeldsneyti, sem er blanda vetnis og annarra efna, í staðinn. 

Undirgrein með millifyrirsögn:

 "Glötum bæði orku og tækifærum" ,

  hófst þannig:

"Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið.  Í viðtali við fjölmiðla áætlaði forstjóri Landsnets, að orkan, sem tapast í flutningskerfinu á hverju ári samsvari afkastagetu Kröfluvirkjunar sökum annmarka flutningskerfisins. Á hverju ári tapast milljarðar ISK vegna þess og enn meira vegna glataðra atvinnu- og uppbyggingartækifæra um allt land."   

Annmarkar flutningskerfisins, sem Ingibjörg Ólöf gerir þarna að umræðuefni, eru of lág kerfisspenna á Byggðalínu m.v. nauðsynlegar flutningsvegalengdir og afl.  Byggðalínan er barn síns tíma af vanefnum gerð, en nú er verið að reisa nýja með kerfisspennu 220 kV í stað 132 kV.  Þegar hún hefur öll verið tekin í notkun, munu orkutöp hennar aðeins verða um 36 % af orkutöpum gömlu Byggðalínunnar í sambærilegum rekstri.  Þetta jafngildir þá um 320 GWh/ár eða 1,6 % af heildarkerfisflutningunum eða helmingi af orkunotkun heimilanna.  Ef þessi orka væri til reiðu nú, þyrfti að líkindum ekki að grípa til neinna orkuskerðinga í vetur.  Verðmæti þessarar orku á heildsölumarkaði er tæplega 2 mrdISK/ár.  Af þessu sést, hversu brýn og arðsöm efling flutningskerfis raforku er, og enginn vafi er um þjóðhagslegt mikilvægi hennar. 

Samt hefur ríkisvaldið látið endalausar tafir á þessari uppbyggingu viðgangast. Andmælaréttur er nauðsynlegur og ber að vernda í þeim tilgangi að fá að lokum fram beztu lausnina, sem dregur úr tjóni einstaklinga að teknu tilliti til viðleitni til hámörkunar þjóðarhags.  Þetta er s.k. beztunarverkefni og er auðvitað leysanlegt innan ásættanlegs tímaramma, ef almennilega er að verki verið. 

Lokakafli greinar Ingibjargar Ólafar var undir fyrirsögninni:

"Tími aðgerða er núna":

"Mikilvægt er að ráðast í eflingu fyrirliggjandi virkjana, þar sem það er hægt, hefja undirbúning að þeim orkukostum, sem auðveldast er að hrinda í framkvæmd fljótlega, og einfalda svo ferlið frá hugmynd að framkvæmd, þannig að nýting orkukosta, sem samfélagið þarfnast, gangi betur og hraðar fyrir sig í framtíðinni. 

Á Íslandi hefur það sýnt sig, að tíminn, sem það tekur frá hugmynd um hefðbundna orkukosti, þar til framkvæmdir verða að veruleika, er um 10-20 ár.  Sagan sýnir, að það er of langur tími, ef tryggja á orkuöryggi þjóðarinnar.  Vissulega eru til aðstæður, þar sem það er vel skiljanlegt, og alltaf þarf að vanda til verka.  En oft og tíðum eru óþarfa tafir, sem sóa dýrmætum tíma án þess, að það skili sér í betri framkvæmd m.t.t. umhverfisins.  Við okkur blasir, að úrbóta er þörf og tími aðgerða er núna."

Núverandi regluverk ríkisins er óskynsamlegt, af því að það virðist hannað til að letja virkjunaraðila til framkvæmda fremur en að hvetja þá til að vanda sig.  Nefna má, að stækkun virkjunar, þ.e. aflaukning, er háð nýju lögformlegu umhverfismati.  Þessi krafa verndar ekki umhverfið, en hamlar framkvæmdum, enda hefur verið lítið um þetta hérlendis.  Nú mun ætlunin að ráða bót á þessu, og verður þá auðveldara að mæta skammtíma álagi og að nýta offramboð vatns á sumrin (draga má þá niður í gufuorkuverunum).

Nú vantar allt að 200 MW af nýjum virkjunum inn á kerfið til að anna eftirspurn og hafa borð fyrir báru í viðhalds- og bilunartilvikum. Fyrir 2030 þarf 2000 GWh/ár og 500 MW einvörðungu fyrir orkuskiptin.  Megnið af þessu þyrfti að vera fullhannað núna og með virkjanaleyfi, ef nokkur von á að vera til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í losunarmálum koltvíildis, en það er fjarri lagi, að svo sé.  Það verður að gera orkufyrirtækjunum kleift að leggja fyrir Orkustofnun raunhæfar áætlanir 10-20 ár fram í tímann um framkvæmdir, svo að Orkustofnun geti gætt hagsmuna notenda gagnvart orkuskorti.  Tjón notenda af orkuskorti er nefnilega margfalt á við tjón orkufyrirtækjanna af tapaðri orkusölu.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Keifað í Kófinu

Innan ríkisstjórnarinnar og í samfélaginu hefur verið kallað eftir stefnumörkun í þessum heimsfaraldri, sem ekkert bólar á hjá sóttvarnaryfirvöldum landsins. Þó glitti í hana nú á síðustu dögum ársins, er sóttvarnarlæknir, síðastur manna, eygði von um hjarðónæmi vegna náttúrulegs ónæmis.  Hin miklu vonbrigði með bólusetningarnar eru, að þær reyndust ófærar um að skapa hjarðónæmið, sem sóttvarnaryfirvöld þó lofuðu afdráttarlaust, ef þátttakan yrði góð, og hún varð það. Þó voru nokkrir, sem veigruðu sér við þessum bólusetningum, margir þeirra vegna undirliggjandi heilsufarsveikleika.  Það er fljótfærnislegt og óskynsamlegt að draga þá ályktun, að þeim hefði farnazt betur eftir smit, ef þau hefðu látið bólusetja sig.

Sóttvarnarlæknir og Landlæknir og margir fleiri í læknastétt virðast ekki í stakkinn búin til að líta vítt yfir sviðið.  Það væri óskandi, að Alþingi sýndi þann mannsbrag að semja leiðarvísi fyrir stjórnvöld út úr þessu Kófi, en í fjarveru slíks leiðarvísis verður ríkisstjórnin að taka af skarið og bera nýja stefnumörkun undir þingið.  Ríkisstjórnin þarf að leita ráða út fyrir heilbrigðiskerfið, sem er niðurgrafið í eigin vandamál.  Hún getur t.d. leitað til Jóns Ívars Einarssonar, læknaprófessors, sem skrifaði áhugaverðar hugleiðingar um þessi mál á Innherja Vísis 26.12.2021, sem hann nefndi:

 "Siglum báruna". 

Undir fyrirsögninni:

 "Reynum aðrar leiðir til eðlilegs lífs",

skrifaði læknirinn:

"Í næstum 2 ár höfum við reynt að nota sömu tólin (sam[komu]takmarkanir, grímur, fjarlægðarmörk o.s.frv.), en sitjum þrátt fyrir það áfram í sömu súpunni.

Það er hins vegar ekki hægt að vera með strangar samfélagslegar takmarkanir til eilífðarnóns.  Skaðinn af þeim er of mikill til lengdar.  Við þurfum að halda áfram með lífið, og það er helzt unga fólkið, sem líður fyrir það ástand, sem við höfum skapað.  Við þurfum því að sleppa tauminum meira og undirbúa okkur, eins og bezt verður á kosið, áður en að því kemur. 

Aðalatriðið er, að nú er þörf á nýrri hugsun, sérstaklega m.t.t. þess, að við erum nú að fást við nýtt afbrigði, sem er meira smitandi og virðist valda minni veikindum, langflestir eru bólusettir, og ný lyf hafa komið fram, sem minnka líkur á alvarlegum veikindum hjá þeim, sem smitast."

Þarna kveður við nýjan tón m.v. þann fádæma grátkór, sem einkennir þau úr heilbrigðisstéttum, sem tjá sig um stöðu heimsfaraldursins C-19 á Íslandi og viðnámsþrótt heilbrigðiskerfis og samfélags gegn honum. Rannsóknir í Suður-Afríku benda til, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron-afbrigðinu veiti líka mikla vörn gegn deltu-afbrigðinu.  Þess vegna gæti ómíkron smit og ónæmi í kjölfarið varðað leið mannkyns út úr heimsfaraldri af völdum allra afbrigða SARS-CoV-2 veirunnar.

Bóluefnin veita hins vegar afar litla vörn gegn smiti af völdum ómíkron og enga vernd eftir 2 mánuði frá bólusetningu, benda ísraelskar athuganir til.  Augljóslega er þá vernd bóluefna gegn veikindum afar takmörkuð, og ísraelskir læknar hafa nú varpað fram áhyggjum af því, að 3 sprautur eða meira geti valdið óafturkræfri veiklun á öllu ónæmiskerfi líkamans. Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa hingað til skellt skollaeyrum við öllum varnaðarorðum um mRNA-bóluefnin (genatækni), eins og áróður þeirra fyrir bólusetningum barna ber vott um.

Læknirinn, Jón Ívar Einarsson, varpaði fram hugmynd í 6 liðum að stefnubreytingu í sóttvarnarmálum í téðri grein.  Nú ríður á, að pólitísk stjórnvöld í landinu axli ábyrgð sína og hverfi af braut huglausrar hlýðni sinnar við þröngsýna sóttvarnarembættismenn, sem fastir eru í sama farinu og virðast ekki gera sér neina grein fyrir neikvæðum afleiðingum frelsisskerðinga almennings og líklega afar takmörkuðu gagni af þeim:

  1. "Undirbúa mætti sjúkrastofnun, sem sinnti eingöngu covid-sjúklingum.  Þessi stofnun hefði gjörgæzlu og aðra nauðsynlega aðstöðu og stoðmeðferðir.  Þetta hefur verið gert áður í meðhöndlun smitsjúkdóma og hægt að gera það aftur.  Starfsfólk, sem vinnur á covid-stofnuninni, myndi einungis vinna þar og fengi því greitt álag/hærri taxta í samræmi við það."  --  Ef þetta hefði verið gert strax í byrjun faraldursins, hefði það sennilega létt álagi af Landsspítalanum og dregið úr hættu á smitum inn á spítalann.  Nú er álagið lítið af innlögnum, en mikið vegna veikinda/sóttkvíar starfsfólks og vegna göngudeildarinnar. Spítalinn þarf að meta, hvort þetta breytta fyrirkomulag yrði til bóta úr þessu. Búið er að slaka á kröfum um lengd einkennalausrar einangrunar og sóttkvíar starfsfólks Landsspítalans, enda er mannekla höfuðvandamál sjúkrahússins.  Þannig hafa stjórnvaldsráðstafanir bitið í skottið á sér.
  2. "Undirbúa þarf almenning, eins og bezt verður á kosið.  Fólk er hvatt til að fara í bólusetningu og örvunarbólusetningu áður en samfélagslegum takmörkunum er aflétt.  Þeir, sem kjósa það hins vegar ekki, geta tekið upplýsta ákvörðun um það, enda hættan á alvarlegum veikindum eftir smit lítil hjá hraustum, ungum einstaklingi." --  Ástæðan fyrir þeim ógöngum, sem samfélagið er í núna vegna ómíkron, er haldleysi bóluefnanna, og skaðsemi þeirra hefur líka verið staðfest hjá óvenju stórum hópi sprautuþega. Langtíma virkni á ónæmiskerfi og mikilvæg líffæri er óþekkt.  Er þá ekki skynsamlegra að birgja spítalana upp af lyfjum, sem gagnleg hafa reynzt í baráttunni við SARS-CoV-2 ?
  3. "Þegar þjóðfélagið er eins vel undirbúið og hugsazt getur, ætti að hætta handahófskenndum, kostnaðarsömum og oft tilgangslitlum sóttvarnaraðgerðum.  Þetta á m.a. við um smitrakningu, skimun á landamærum, notkun hraðprófa fyrir stórviðburði og notkun almennings á grímum.  Ef fólk vill nota grímur, er því að sjálfsögðu frjálst að gera það eftir sem áður.  Áfram ætti að hvetja til og minna á handþvott og spritti." -- Þetta er hægt að taka undir, enda er það kjarninn í hugmyndum læknisins um nýja aðferðarfræði.  Hvetja ætti fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, til að viðhafa ráðstafanir, sem draga úr hættu á hópsmitum, en skyldan sé afnumin.  Allt mun þetta spara þjóðfélaginu stórfé og létta fólki lífið.  
  4. "Þegar búið er að undirbúa hlutina vel, mætti samfélagið ganga að mestu eðlilega.  Ungt fólk og börn gengur í skóla, er í íþróttastarfi o.s.frv.  Ef fólk verður veikt, þá heldur það sig heima, eins og við höfum alltaf gert.  Ekki er skylda að fara í sóttkví eða smitgát, þótt umgengni hafi verið við einstakling, sem greinist með covid.  Ef fólk, sem hefur verið útsett, vill vera heima/fara varlega, þá getur það auðvitað gert það.  Þetta mun byggja upp náttúrulegt ónæmi í samfélaginu tiltölulega fljótt, sérstaklega með omicron afbrigðinu, sem er mjög smitandi og virðist valda mildari veikindum.  Náttúrulegt ónæmi stórs hluta þjóðarinnar mun svo hjálpa til [við] að minnka líkur á síendurteknum smitbylgjum, þótt vissulega sé mögulegt, að ný afbrigði muni koma upp, sem valdi aftur veikindum hjá þeim, sem smitazt hafa af fyrri afbrigðum." -- Jafnvel sóttvarnarlæknir Íslands talaði um það í hádegisfréttum RÚV 29.12.2021, að nú mætti fara að huga að tilslökunum í samfélaginu vegna vægra veikinda, en ekki var hann þá tilbúinn að fara að dæmi Bandaríkjamanna um styttingu sóttkvíar og einangrunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, heldur vill hann nú bíða eftir ráðleggingum frá  sóttvarnarstofnunum Evrópu.  Maðurinn er allt of regandi í sinni afstöðu, sem er ekki traustvekjandi.  Hin pólitísku stjórnvöld verða að taka af skarið.  Athuganir í Suður-Afríku, þar sem ómíkron afbrigðisins varð fyrst vart, veita von um, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni veita nægilegt viðnám gegn öllum afbrigðum SARS-CoV-2 til að hindra faraldra. Einkennalaus sóttkví er orðin tímaskekkja.  
  5. "Fólki í áhættuhópum er ráðlagt að fara áfram varlega, og gerðar eru ráðstafanir til að færa því nauðsynjar, ef þarf.  Ef um blönduð heimili er að ræða, væri boðið upp á tímabundið húsnæði/hótel fyrir hluta heimilismanna, ef nauðsyn væri á.  Þeim, sem búa á blönduðum heimilum, er einnig ráðlagt að fara varlega og e.t.v. að fara í skyndipróf í meira mæli.  Ný lyf virðast minnka líkur á innlögn hjá áhættuhópum, og mikilvægt [er] að nota þær aðferðir, sem til eru til að lágmarka hættu á alvarlegum veikindum í þessum hópi og öðrum." -- Þarna minnist Jón Ívar á ný lyf við C-19.  Þau hljóta að verða einn af hyrningarsteinum hinnar nýju sóttvarnarstefnu, sem liggur til eðlilegra lífs en nú og að hætta að reiða sig á og leggja stórfé og tíma í fullkomlega misheppnuð bóluefni. Margt bendir til, að bóluefnin veiti alls enga vernd gegn ómíkron.  Þess vegna er það eins og út úr kú að hvetja nú foreldra til að láta  bólusetja börn sín með efnum, sem eru meira en lítið varasöm fyrir þau, ef marka má dr Robert Mallone, aðalhöfund mRNA-tækninnar.
  6. "Starfsfólk annarra heilbrigðisstofnana, sem sinnir aðhlynningu sjúklinga og áhættuhópa, þyrfti að fara í dagleg covid-próf og vera með viðurkennda grímu og nota hlífðarbúnað við aðhlynningu, á meðan mestur fjöldi smita gengur yfir."

 

Þann 27.12.2021 birti Morgunblaðið harða ádrepu á sóttvarnaryfirvöld og ríkisstjórn fyrir tréhestalega stjórnun sóttvarna, þar sem farið er offari í frelsisskerðingum m.v. vægari einkenni nýrra afbrigða veirunnar á borð við ómíkron.  Þar er brotið á grundvallarréttindum almennings, þegar önnur vægari úrræði eru í boði. Tregða sóttvarnarlæknis við styttingu einkennalausrar einangrunarvistar og sóttkvíar, sem ómíkron afbrigðið hefur þó orðið ýmsum öðrum þjóðum ástæða til að gera, er lítið dæmi um embættisfærslu, sem hefur mesta tilhneigingu til að hjakka í sama farinu.  Téð grein í Morgunblaðinu var eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, og hét einfaldlega:

"Hættið þessu".

Hún hófst þannig:

"Ráðstafanir íslenzkra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi [brot á stjórnsýslulögum - innsk. BJo]. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum.  Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt, að jafnvel þeim, sem hafa smitazt af veirunni, stafar ekki hætta af henni.  Meira en 95 % þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni.  Þeir, sem eftir standa, veikjast lítillega, en nær enginn alvarlega.  Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember sl. (bls.6).

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem þar er, beittir frelsisskerðingum til að hindra, að smit berist milli manna.  Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér, er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma.  Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa.  Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitazt af veirunni.  Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum, sem hefur smitazt.  Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar.  Samt segja yfirvöld, að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag.  Svo er að skilja, að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 400-500 ?"

Allt umstangið er sagt vera til að verja heilbrigðisstofnanir, aðallega Landsspítalann, en nú blasir við, að þetta gerræðislega fyrirkomulag er helzta orsök vandræða Landsspítalans nú um stundir á formi gríðarmikils álags á starfsfólkið, sem þó heldur uppi þjónustunni.  Við þessar aðstæður blasir við, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda gera aðeins illt verra, og þess vegna ber að afnema sóttkví og einkennalausa einangrun.  Það mun aðeins stytta tímann fram að náttúrulegu ónæmi og létta á atvinnulífinu og stofnunum sveitarfélaga og ríkis. 

Í lok greinar sinnar dró höfundurinn saman rök sín:

"Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi, sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna.  Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér, sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar. 

Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: hættið þessu og það strax."

 

 

  

 


Auðvitað er brýn þörf á nýjum virkjunum

Forstjóri OR hefur lengi þann steininn klappað, að ekki vanti nýjar virkjanir hérlendis, og alls ekki þurfi að virkja til að knýja farartæki á landi með rafmagni eða rafeldsneyti.  Þetta er leiðinleg meinloka hjá þessum jarðfræðingi. 

Til að knýja tæplega  200 k (k=1000) farartæki (175 k fólksbíla og 10 k vinnuvélar og vagna) um 2030 þarf að framleiða um 2 TWh/ár í virkjun.  Álag þessarar raforkunotkunar verður ekki jafndreift yfir sólarhringinn, vikuna og árið, eins og segja má, að eigi við um álverin, og þess vegna þarf tiltölulega mikið uppsett afl að baki orku til fólksbílanna, sem flestir verða knúnir frá rafgeymum, eða um 350 MW, en vinnuvélar og vagnar verða flestar á vetni og afleiðum þess.  Framleiðsla þess getur verið tiltölulega jöfn, svo að aflþörf þess er aðeins um 150 MW, þótt orkuþörfin geti orðið svipuð og fólksbílanna árið 2030.  Alls eru þetta 2 TWh og 500 MW í orku- og aflþörf vegna farartækja á landi 2030, ef vel á að vera.  

Þar að auki kemur orkunotkun í höfnum og lífeldsneyti á fiskveiðiflotann.  Orku- og aflþörf verður þar af leiðandi að líkindum meiri en þetta árið 2030 vegna orkuskiptanna, ef nálgast á markmið stjórnvalda. Þeir, sem gera svo lítið úr þessari orkuþörf, að ekkert þurfi að virkja á þessum áratugi, eru algerlega úti að aka í þessum efnum, því að landsmenn munu ekki aka á ótryggðri orku.  Þeir verða að geta reitt sig á trausta forgangsorku, ef orkuskiptin eiga einhvern tímann að verða barn í brók. 

Virkjunartími ásamt leyfisveitingum er langur á Íslandi, og þess vegna veitir ekkert af því að fara að hefjast handa, enda er aukin spurn eftir orku á öðrum sviðum líka. Til samanburðar er Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá áformuð 95 MW og 720 GWh/ár að uppsettu afli og framleiðslugetu.  Það er skammarlegt að halda að sér höndum nú og vilja eða geta ekki fullnægt raforkuþörf í landinu á tímum alvarlegs skorts á endurnýjanlegri orku víðast hvar í heiminum. 

Í Fréttablaðinu 10. desember 2021 birtist frétt, sem reist var á speki forstjóra OR um orkuþörf og virkjanaþörf.  Fyrirsögnin bar þess merki, að þessi forstjóri virðist telja viðvarandi orkuskort viðunandi og að engin þörf sé á að virkja.  Þetta er dæmalaus málflutningur fyrir mann í hans stöðu, og mundu sumir kenna við ábyrgðarleysi gagnvart rafmagnsnotendum. Það hefur t.d. verið upplýst, að ON, dótturfélag OR, hefur séð sér þann kost vænstan í núverandi ástandi að fresta ráðgerðu viðhaldi í gufuaflsstöðvum sínum, væntanlega vegna skorts á vélarafli í landinu.  Það er óeðlilegt og býður hættunni heim að grípa til þess óyndisúrræðis, jafnvel þótt vatnsstaða Þórisvatns sé bágborin. Það er aldrei hægt að skáka í því skjólinu, að allt gangi eins og í sögu og að allt vélarafl sé tiltækt, þegar hæst á að hóa. Það er óverjandi að reka raforkukerfi á horriminni, þannig að ekkert megi út af bregða.

"Forstjóri OR telur enga þörf á fleiri virkjunum til orkuskipta"

Fréttin hófst þannig:

  "Það vantar vatn til að knýja vatnsaflsvirkjanir, það er vandinn", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.  Hann segir umræðuna um skort á rafmagni hér á landi vera undarlega.

"Það er verið að skerða núna rafmagn til stóriðju og fiskimjölsverksmiðja vegna þess, að það er ekki hægt að vinna nógu mikið rafmagn, eins og er. Það er ekki vegna þess, að það vanti virkjanir.  Orkuvinnslugetan á venjulegu ári er meira en fullnægjandi.  Ástæðan er, að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er eingöngu þess vegna", segir Bjarni."

    Maðurinn viðurkennir orkuskortinn, en telur hann ekki stafa af virkjanaskorti.  Það má benda honum á, að ekki hefði enn þurft að koma til skerðinga hjá neinum notenda Landsvirkjunar, ef Hvammsvirkjun (95 MW, 720 GWh/ár) hefði tekið til starfa í haust, því að hún mun nota sama vatnið (350 m3/s) og virkjanir í Efri-Þjórsá og Tungnaá. Forgangsorkan er upp urin að mati Landsvirkjunar m.v. upplýsingar fyrirtækisins um að hafa hafnað óskum notenda um viðbótar orku.  Með stefnu sinni í virkjanamálum er téður Bjarni að vísa raforkunotendum orkuumskiptanna á ótryggða orku, sem auðvitað nær engri átt.  Hvað skyldi manninum ganga til ?  

Einu sinni var maður, sem var kallaður Vellygni- Bjarni.  Téður Bjarni nær ekki svo langt, en útskýring hans á því, hvers vegna hægt er með gróða að selja stóriðju á borð við álver raforku á lægra verði en heimilinum sýnir fullkomið skilningsleysi á málinu:

"Bjarni segir, að Ísland framleiði 5 sinnum meira rafmagn en aðrar [og] 80 % af því fari til stóriðju.  Stóriðja fái rafmagn á lægra verði en heimili vegna þess, að rafmagn til þeirra sé skert í aðstæðum sem þessum.  Það vanti ekkert upp á fyrir orkuskipti í samgöngum."

Þetta er bolaskítur (e. bullshit).  Hér á eftir koma nokkrar ástæður þess, að forgangsorka til álvera er ódýrari í framleiðslu en forgangsorka til heimila:

  1. Um er að ræða mikið magn til eins notanda, sem tekur við 220 kV rafmagni af Landsneti og sér sjálfur um niðurspenningu og dreifingu innan verksmiðjusvæðisins, bæði á jafnstraumi og riðstraumi.
  2. Notkun álvers, sem er uppistaða stóriðjuálagsins,  er að jafnaði lítt breytileg yfir sólarhringinn árið um kring, svo að framleiðslutækin í virkjun eru mjög vel nýtt (nýting um 94 % yfir árið) við að framleiða fyrir viðkomandi álver.  Hjá heimilum er álagið lítið, nema þar sem rafhitun er, og ójafnt, meira á veturna en á sumrin og yfirleitt með toppi um kl. 1900. Þetta veldur lítilli nýtingu framleiðslutækja í virkjun eða um 60 %.
  3. Aflstuðullinn, sem er ákveðinn mælikvarði á nýtingu búnaðar í virkjun við að framleiða söluhæfa afurð, er miklu hærri í álverum en í dreifiveitum heimilanna, eða yfir 0,97 m.v. um 0,8 í dreifiveitunum. 
  4. Þegar virkjunareigandinn gerir samning við stóriðju um orkusölu, fær hann kauptryggingu fyrir næstum allri forgangsorku virkjunarinnar í 25-45 ár, háð gildistíma samnings.  Slíkt dregur mjög úr áhættu fjárfestingarinnar, sem veitir hagstæðari lánskjör, og þar með verður fjármagnskostnaðurinn lægri, en hann er um 95 % af kostnaði vatnsaflsvirkjana.  
  5. Uppsett afl í vatnsaflsvirkjun borgar sig að hafa umfram það, sem þarf til að framleiða forgangsorku vegna þess, að flest árin á rekstrartíma virkjunar má búast við meira vatni til virkjunarinnar en svarar til forgangsorkunnar, sem myndar hinn fjárhagslega grundvöll virkjunarinnar. Umframorkan kemur ekkert við sögu við verðlagningu forgangsorkunnar, heldur er verðlögð sér, enda nemur kostnaðurinn við framleiðslu hennar aðeins breytilegum kostnaði virkjunarinnar, sem í megindráttum er rekstrarkostnaður hennar.  Að tengja verðlagningu forgangsorku við skerðingarheimildir virkjunareiganda á ótryggðri orku er grundvallar misskilningur.  

 


Mismunun ríkisvaldsins á sviði gjaldtöku af orkufyrirtækjum

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 2016 féllst þáverandi ríkisstjórn (með bréfi utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur) á allar kröfur ESA - Eftirlitsstofnunar EFTA - um verðlagningu á afnotarétti lands og vatnsfalla til orkufyrirtækja. Í megindráttum snerust þessar kröfur ESA um jöfnun samkeppnisstöðu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækju til afnota af vatnsréttindum og landi í eigu ríkisins til orkuvinnslu.  Ætla má, að sömu jafnaðarsjónarmið gildi um jarðgufu, en hún er óalgeng á Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). 

Allir skyldu sitja við sama borð og greiða "markaðsvirði", en hvernig slíkt markaðsverð skyldi ákvarða, fylgdi ekki sögunni.  Það er annmörkum háð að finna, hvaða verð markaðurinn vill greiða fyrir slík verðmæti án opins útboðs og þá á Innri markaði ESB, ef marka má hliðstæðar kröfur Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, sem líka veita ríkisorkufyrirtækjum forgang að vatnsréttindum ríkisins, t.d. Frakklandi.  

Framkvæmd þessarar skuldbindingar íslenzka ríkisins gagnvart ESA bögglaðist fyrir íslenzka ríkinu, og ekkert hefur orðið úr útboði, enda svaraði norska ríkisstjórnin svipaðri kröfu ESA á hendur norska ríkinu nokkrum árum seinna snöfurmannlega þannig, að ráðstöfun orkulinda í eigu norska ríkisins væri utan við gildissvið EES-samningsins og þess vegna ekki í verkahring ESA, og þar við situr þar, en það er ekki líklegt, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé af baki dottin, því að bullandi innbyrðis ósamræmis gætir í ráðstöfun íslenzka ríkisins. Munurinn á viðbrögðum íslenzku og norsku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfu um að hleypa erlendum orkufyrirtækjum að rekstri íslenzkra og norskra virkjana er sorglegur.

Ráðstöfun vatnsréttinda íslenzka ríkisins hlýtur að falla undir íslenzk samkeppnislög, en það er auðvitað með öllu ótækt að fallast á almennt útboð þessara verðmætu réttinda á EES-svæðinu, eins og Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, gerði  árið 2016, en þá var dýralæknirinn Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, forsætisráðherra. 

Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um "vatnsréttindi virkjana" fjallaði um nýlega samninga íslenzka ríkisins við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi.  Fréttin bar fyrirsögnina:

"Samið um mikil verðmæti",

og hófst þannig:

"Landsvirkjun greiðir ríkinu 90 MISK/ár [milljónir] fyrir afnot af þjóðlendum til rafmagnsframleiðslu í 6 vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár-Tugnaársvæðinu og hluta afls í þeirri 7. Uppsett afl, sem samningurinn nær til, er liðlega 800 MW eða sem svarar til liðlega 40 % af uppsettu afli allra vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins.  Hluta þessara virkjanaréttinda hafði Alþingi veitt Landsvirkjun án nokkurra skilyrða um endurgjald, en eigi að síður samdist svo um, að greitt yrði af öllum virkjununum, nema upphaflegu Búrfellsvirkjun [210 MW], og miðast gjaldið mikið við niðurstöðu dómsdóla um vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar." [Upphaflegu vatnsréttindin vegna Búrfells má skoða sem stofnframlag í Landsvirkjun, sem nú ber ávöxt - innsk. BJo.]

Af þessari upphæð að dæma fyrir nýtingu á orku, sem er a.m.k. 5500 GWh/ár, er um hreinan málamyndagjörning af hálfu ríkisins og fyrirtækis þess, Landsvirkjunar, að ræða, því að árlegt gjald er aðeins um 0,4 % af árlegum tekjum, sem búast má við að fá fyrir þessa orku að jafnaði m.v. núverandi samninga. Þetta er hlálega lágt og stingur algerlega í stúf við gjaldið, sem ríkið innheimtir af 3. aðila fyrir vatnsréttindi smávirkjana (<10 MW) á ríkisjörðum. 

Þarna mismunar ríkið aðilum á markaði með þeim hætti, að klárlega varðar við samkeppnislög.  Jafnframt býður ríkisvaldið hættunni heim, að ESA fetti fingur út í þessa stjórnsýslu og færi málið á endanum fyrir EFTA-dómstólinn, ef íslenzka ríkið ekki sér að sér og gætir jafnréttissjónarmiða. Það yrði ekki ferð til fjár fyrir íslenzka ríkið.

Um ESA-þáttinn skrifar Helgi Bjarnason m.a.:

"Það var síðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016 um, að það teldist ólögleg ríkisaðstoð til orkufyrirtækja að heimila þeim að nota orkuréttindi í opinberri eigu án endurgjalds, sem ýtti á frekari undirbúning og samninga við Landsvirkjun."

Samningar af þessu tagi á milli skyldra aðila hljóta að gefa bæði Samkeppniseftirlitinu og ESA "blod på tanden" og eru þess vegna óskynsamlegir.  Forsendurnar eiga alls ekki við, þar sem miðað er við dóm Hæstaréttar í deilu Fljótsdalshrepps við Landsvirkjun.  Þar var Landsvirkjun dæmt til að greiða eins konar aðstöðugjald til landeigendanna, 1,4 % af stofnkostnaði virkjunarinnar á ákveðnu árabili, en Landsvirkjun dregur frá afskriftir, sem er út í hött, því að verið er að bæta landeigendum meint tjón (þeir hafa nú reyndar fengið laxveiðiá í kaupbæti), en ekki verið að veita þeim hlutdeild í verðmætasköpun virkjunarinnar.  Öllu er þess vegna snúið á haus í þessu máli.

Helgi Bjarnason ritaði samdægurs framhaldsfréttaskýringu um sama mál í Morgunblaðið, en nú með aðaláherzlu á meðferð og stórlega mismunun ríkisvaldsins á einkafyrirtækjum, sem berjast við að nýta lítil vatnsföll.  Fyrirsögnin var sláandi:

 "Sama gjald fyrir smávirkjun og greitt er fyrir Sigölduvirkjun".

Hvernig í ósköpunum má það vera, að stjórnsýslan á Íslandi mismuni fyrirtækjum svo herfilega, að refsivöndur eftirlitsstofnana sé einboðinn ?  Fréttaskýringin hófst þannig:

"Sláandi munur er á kjörum, sem ríkið býður stóru orkufyrirtækjunum og þeim, sem byggja svo kallaðar smávirkjanir. ... [Eigandi 9,9 MW, í mesta lagi 70 GWh/ár, greiðir 15,7 MISK/ár fyrir afnotaréttinn og tvöfalt meira að 10 árum liðnum frá gangsetningu.  Af Sigölduvirkjun, 150 MW, 920 GWh/ár, greiðir Landsvirkjun aðeins 15,7 MISK/ár fyrir sinn afnotarétt.  Svona mismunun er í einu orði sagt vond stjórnsýsla, sem Samkeppnisstofnun og/eða ný ríkisstjórn þarf að hafa forgöngu um að laga - innsk. BJo.]

Útreikningar á hlutfalli leigu af rekstrartekjum  sýna sömuleiðis, að Landsvirkjun greiðir að jafnaði 0,39 % af tekjum virkjana sinna, á meðan eigandi smávirkjana greiðir að jafnaði 3-10 % af sínum tekjum.  

Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru ráðandi í orkuöflun í landinu.  Aðeins HS orka nær inn í þann klúbb [úr hópi einkafyrirtækja].  Raunar eru einkafyrirtæki að kveða sér hljóðs með byggingu lítilla virkjana.  Þar hefur HS orka einnig séð tækifæri til vaxtar."

Það er eðlilegt að leggja framlegð virkjunar (ekki tekjur) til grundvallar gjaldtöku fyrir afnot af vatnsréttindum og landi ríkisins, og það er jafnframt eðlilegt, að þessi gjaldtaka sé óháð eignarhaldi á virkjun.  0,39 % af söluandvirði raforkunnar er allt of lágt afgjald, og  10 % er rányrkja í nafni ríkisins.  Á bilinu 3 %-5 % af framlegð virðist eðlilegt afgjald fyrir þessi réttindi. 

Hér yrði um umtalsverðar tekjur ríkisins að ræða, sem freistandi væri að leggja í sjóð, sem stæði straum af verkefnum í þágu umhverfisverndar.  Þar er af nógu að taka, og mætti nefna stærsta umhverfisvandamálið á Íslandi, uppblástur lands, en brýn þörf er á að snúa vörn í sókn í þeim efnum og klæða landið gróðurþekju að nýju.

Til að undirstrika óréttlætið, sem ríkir í þessum málum, er rétt að vitna áfram í téða fréttaskýringu Helga Bjarnasonar:

"Stofnendur smávirkjana, sem nýta jarðeignir ríkisins, fá allt aðrar kröfur um gjald fyrir afnot réttinda hjá fjármálaráðuneytinu en stóru virkjanafyrirtækin fá hjá forsætisráðuneytinu, þegar samið er um að virkja á þjóðlendu.

Kjörin, sem Landsvirkjun og væntanlega önnur fyrirtæki, sem virkja stórt, fá hjá forsætisráðuneytinu ... [nema 0,39 % af söluandvirði rafmagns - innsk. BJo].  Til samanburðar má geta þess, að fram hefur komið opinberlega, að Arctic Hydro, lítið virkjanafyrirtæki, sem er að byggja sig upp, þarf að greiða 3 % af brúttótekjum í upphafi til að fá leyfi til að byggja 9,9 MW Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, og leigan fer svo stighækkandi, þar til gjaldið verður 10 % eftir 10 ár frá gangsetningu.   Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, staðfestir þessar tölur.  Aðspurður segir hann, að sveitarfélagið hafi verið tilbúið til að leigja réttindin fyrir 2,5 % af tekjum í upphafi, en ríkið gert kröfu um 3 %, og þannig muni samningurinn verða." 

Það ríkir stjórnsýsluleg óreiða á þessu sviði, þar sem 2 ráðuneyti beita mjög ólíkum aðferðum við að ákvarða gjaldheimtuna.  Það er ótækt, þar sem ríkja þarf festa, samræmi og jafnræði.  Sennilega er ekki vanþörf á endurskoðun lagasetningar áður en ESA dregur fram pískinn.

 

 

 

 

 


Sæstrengsrímur kveðnar við raust

Nú er verð á orkugjöfum og orkuberum, þ.á.m. rafmagni, á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hátt.  Þann 8.11.2021 tilkynnti Landsvirkjun um hækkun raforkuverðs skammtímasamninga við almenningsveiturnar og ber við lágri miðlunarlónsstöðu, enda er vatnshæðin í Þórisvatni óbeysin í byrjun vetrar.  Ef orkumálum landsins væri almennilega stjórnað, og ekki bara látið reka á reiðanum, þá væri ný virkjun á borð við Hvammsvirkjun (95 MW) að taka til starfa nú í haust, og engin hætta væri á vatnsleysi í Þórisvatni (sama vatnið og í virkjunum ofar), en enginn er lagalega ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma, nema í náttúruhamförum, sé tiltæk næg raforka. Landsvirkjun er úti á þekju (hluti hennar var í Gljáskógum) og er nú í einhvers konar framboðs/eftirspurnarleik. 

Með því að hækka raforkuverðið er ætlunin að draga úr eftirspurninni, en verðteygni rafmagns til almennings er ekki með þeim hætti, að aðferð Landsvirkjunar hrífi. Hver mun draga úr aflþörf sinni um jólin, þótt Landsvirkjun sé í sandkassaleik ? Landsnet undirbýr nú uppboðskerfi raforku, og þá mun orkuskorturinn bitna á almenningi fyrir alvöru. Noregur er með svipað kerfi, og þar kostar raforkan um þessar mundir 30 ISK/kWh + flutningur, dreifing og gjöld, alls um 60 ISK/kWh. Hér er um undirstöðu innviði samfélagsins að tefla, sem á ekki við að hleypa í uppnám spákaupmennsku, eins og tíðkast á uppboðsmörkuðum rafmagns í ESB og víðar við allt aðrar aðstæður en hér eru. Munu innviðaráðherra og/eða orkuráðherra grípa í taumana, áður en tjöldin verða dregin frá í þessu leikhúsi fáránleikans, eða á að skýla sér á bak við Orkupakka 3 frá ESB, sem jú er í gildi hér.

Raforkufyrirtækin eiga ekki að verða sogrör ofan í vasa almennings fyrir fyrirtæki á fákeppnismarkaði.  Það er mikið hagsmunamál almennings, eins og við höfum fengið staðfest á undanförnum vikum frá hinum Norðurlöndunum, frá Bretlandseyjum og frá meginlandi Evrópu.  Því miður eru þessi mál eftir innleiðingu Orkupakka 3 í höndum Orkustjóra ESB á Íslandi og ACER (Orkustofnunar ESB, sem ESA afritar fyrirmæli frá), en ekki í höndum íslenzkra ráðuneyta.  Þingmenn gætu þó reynt að leggja fram þingsályktunartillögu um frestun á málinu, t.d. út þetta kjörtímabil eða þar til örlög Orkupakka 4 ráðast í EFTA. Norska verkalýðshreyfingin verður sífellt gagnrýnni á EES-aðildina, svo að til tíðinda kann að draga með EES-samninginn á þessu kjörtímabili.  Noregur er kjölfesta hans innan EFTA og mótar stefnuna í grundvallaratriðum.

Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við HÍ, fer mikinn í Vísbendingu, 39. árg., 40. tlbl., 05.11.2021, um gróða Norðmanna á raforkuviðskiptum um sæstrengi.  Þar minnist hann ekki á nokkur atriði, sem eru neikvæð fyrir slíka sæstrengstengingu við Ísland:

  1. Norska Landsnet (Statnett) á allar millilandatengingar við Noreg, og þess vegna njóta norskir raforkunotendur góðs af hagnaði orkuflutninganna, þótt ESB hafi lagt hömlur á hagnaðartilflutninga flutningsfyrirtækja í aðra starfsemi en millilandaflutninga.  
  2. Meiri afl- og orkutöp verða í sæstreng til Íslands frá Betlandi eða meginlandinu en í norskum sæstrengjum til útlanda vegna vegalengdar. 
  3. Allir aflsæstrengir Noregs hafa flutningsgetu, sem nemur alls um 30 % af framleiðslugetu landsins, en einn  aflsæstrengur til Íslands mundi hafa flutningsgetu, sem nemur tæplega 50 % af núverandi framleiðslugetu Íslands.  Verðsveiflur á Íslandi yrðu að sama skapi í enn meiri líkingu við verðsveiflur á hinum endanum.
  4. Miðlunargeta norskra lóna er meira en tíföld sú íslenzka.  Það er mjög takmörkuð orka, sem hægt er að geyma í íslenzkum miðlunarlónum fyrir raforkufyrirtæki í Evrópu.  Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að draga niður í eigin miðlunarlónum með sölu til útlanda, og verða þá algerlega háðir "hundi frá Evrópu" með raforku yfir veturinn. 
  5. Með slíkri tengingu við Evrópu og markaðskerfi ESB samkvæmt Orkupakka 3 (og 4) mun heildsöluverð raforku til almenningsveitna verða svipað og í Evrópu.  Þetta mun líka hækka hitaveitukostnaðinn (dæling) og kostnað allra fyrirtækja og heimila á landinu.  Samkeppnisstaðan versnar að sama skapi, en gróði raforkuframleiðenda verður fugl í skógi, því að rándýr sæstrengurinn þarf sitt. 
  6. Gríðarleg orku- og flutningsmannvirki innanlands verða nauðsynleg til að þjóna erlendum raforkumörkuðum.  Það er ekki ljóst, að nægar orkulindir verði þá tiltækar fyrir raforkuþörf landsmanna til 2040, ársins, þegar kolefnishlutleysi á að nást, og enn þyngra getur orðið undir fæti með framkvæmdaleyfi fyrir flutningsmannvirki til innanlandsþarfa en ella.  

Prófessorinn reit:

"Nokkur umræða hefur verið um möguleika á raforkuútflutningi um langt skeið.  Ólík sjónarmið eru uppi um ágæti hugmyndarinnar.  Raddir eru uppi um, að nýta eigi orkuna fremur hér á landi en flytja hana út, að búið sé að virkja nóg og umhverfisáhrif virkjana séu nú þegar of mikil og að útflutningur orku muni leiða til hækkunar á raforkuverði.

Á móti er bent á þann hag, sem aðrar þjóðir hafa haft af slíkum viðskiptum, t.d. Norðmenn, og á nauðsyn þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á tímum aðgerða í loftslagsmálum.  Hér er því af mörgu að taka."  

Þarna er ýmislegt tínt til. Hinn raunverulegi lærdómur, sem Íslendingar geta dregið af viðskiptum Norðmanna með rafmagn á erlendum mörkuðum, er, að verðhækkun rafmagns innanlands er óhjákvæmilegur fylgifiskur viðskipta, innflutnings og útflutnings, fyrir vatnsorkulönd með lágan vinnslukostnað á rafmagni.  Hagfræðingar geta fegrað þessi viðskipti á ýmsa lund, en hinn þjóðhagslegi kostnaður, sem felst í að rýra stórlega samkeppnishæfni atvinnuveganna og kaupmátt heimilanna verður alltaf hærri en nemur meintum ábata raforkufyrirtækjanna.  Þeir, sem raunverulega græða, eru fyrirtæki erlendis, sem fá græna og kannski ódýrari raforku til að framleiða samkeppnishæfari vöru eða þjónustu. 

Það verður alltaf hagkvæmara að nýta orkulindirnar innanlands til að skapa vinnu, þekkingu og verðmæta og eftirsótta vöru. Orkulindirnar eiga að verða hjálpartæki til að efla innlenda atvinnuvegi, en ekki leiksoppur spákaupmanna.  Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á að sjá sóma sinn í þessu og hætta gælum við spákaupmennsku á erlendum mörkuðum, sem er órafjarri hlutverki Landsvirkjunar fyrr og síðar.  Núverandi forysta hennar er heillum horfin, ef hún sér ekki villur síns vegar, og hættir ekki að einblína á Statkraft í Noregi, sem mikil óánægja er með á meðal norsks almennings um þessar mundir vegna útflutnings á raforku, sem bitnað hefur á stöðu miðlunarlónanna á viðkvæmum tíma. Við þetta er að bæta, að Norðmenn hafa afhent ESB/ACER stjórnun flutninganna um strengina til ESB-ríkjanna með innleiðingu Orkupakka 3, svo að þeir geta ekki staðið í þessum viðskiptum með hagsmuni Noregs að leiðarljósi, heldur verða hagsmunir heildarinnar, þ.e. ESB-landanna, hafðir að leiðarljósi undir umsjón ACER.

"Almennt er því ástæða til að ætla, að útflutningur raforku hefði jákvæð áhrif á Ísland.  Verðmætasköpun og útflutningur mundi styrkjast."

 Hér er hrapað að niðurstöðu.  Útflutningurinn, sem fyrir er, mundi veikjast vegna verðhækkana rafmagns, svo að dregur úr hefðbundinni verðmætasköpun, sem vegur meira en ávinningurinn af sölu rafmagns.  Þá mundi nýsköpun verða kyrkt með vöntun á grænu rafmagni á hagstæðu verði.  M.ö.o. við yrðum undir í samkeppninni við útlendingana um eigið rafmagn vegna hærra kostnaðarstigs hér og flutningskostnaðar á vörum frá landinu.

"Lokuð raforkukerfi, eins og það íslenzka, þar sem milliríkjaviðskipti eru ekki möguleg, þurfa að tryggja nægilegt framboð fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum.  Þessi umframframleiðslugeta þarf að vera umtalsverð í raforkukerfum, þar sem vatnsafl er ráðandi vegna óvissu um vatnsbúskap. Miðlunargeta þarf að geta brúað bilið milli góðra og slæmra vatnsára.  Það þýðir jafnframt, að á meðalári er framleiðslugetan meiri en eftirspurn.  Fossinn Hverfandi við Kárahnjúkastíflu er skýrt dæmi um þessa umframgetu.  Vatnsaflskerfi Norður-Evrópu, s.s. Noregs og Svíþjóðar, voru með þeim fyrstu, sem nýttu sér útflutning, einmitt til að koma þessari umframframleiðslugetu í verð.  Með þeim hætti var hægt að skapa verðmæti úr því, sem að jafnaði er kostnaðarliður vatnsaflskerfa."

Það hefur verið ljóst, frá því að fyrsta stórvirkjun Íslands, Búrfellsvirkjun, var hönnuð, að ójafnt aðrennsli frá ári til árs mundi valda sveiflukenndri framleiðslugetu á ársgrundvelli.  Við þessu var séð á hagkvæman hátt með því að rannsaka rennslisraðir margra ára og síðar var farið að framkalla rennslisraðir með líkindareikningi og hermilíkönum í tölvum.  Miðlunargeta lóns, uppsett afl í virkjun og orkusölusamningar, voru samhæfð þannig, að virkjun gæti alltaf (nema í neyðartilvikum-"force majeur") afhent viðskiptavinum sínum forgangsorku og í um 27 af 30 árum a.m.k. 50 % af s.k. ótryggðri orku, sem mest næmi um 10 % af heildarorkuafhendingu.  Miðlunargetu á Íslandi er þannig ekki ætlað að brúa bilið á milli góðra og slæmra vatnsára, heldur einvörðungu á milli árstíða, og í slökum vatnsárum er einfaldlega dregið úr afhendingu ótryggðrar raforku samkvæmt samningum þar um. 

Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt heppnazt ágætlega, þótt stóriðjan hafi einstaka sinnum þurft að taka á sig forgangsorkuskerðingu, þegar saman fara bilanir og slakt vatnsár.  Það er misskilningur höfundar þessarar Vísbendingargreinar, að "á meðalári sé framleiðslugetan meiri en eftirspurn" og að yfirfall á stíflu (Hverfandi) sé til merkis um það.  Þvert á móti er um undirframleiðslugetu í góðum vatnsárum að ræða.  Að þetta sé "kostnaðarliður vatnsaflskerfa" er fráleit túlkun.  Ef viðbótar fjárfesting færi fram í vatnsaflsvirkjunum til að nýta umframvatnið og sú fjárfesting stæði ekki undir sér, væri hægt að tala um "kostnaðarlið" vegna umframframleiðslugetu. 

Landsvirkjun hefur þegar farið inn á þá braut að nýta yfirfallsvatn, og er Búrfell 2 dæmi um það.  Nú gæti verið að skapast markaður fyrir "umframorku" vatnsorkuvera með aukningu á flutningsgetu rafmagns á milli landshluta og framleiðslu rafeldsneytis.  Spáð er aukinni úrkomu á landinu og minnkun jökla með hækkun hitastigs, og þá gætu stækkanir vatnsaflsvirkjana orðið enn fýsilegri.

"Opnun lokaðra raforkukerfa, sérstaklega kerfa, sem byggja fyrst og fremst á vatnsafli, hefur því tvíþætta kosti.  Það eykur verðmæti raforkuframleiðslu almennt með því að stækka markaðssvæðið, og það nýtir fjárfestingu betur með því að skapa möguleika á að nýta framleiðslugetu að fullu."

Þessar ályktanir höfundarins eru úr lausu lofti gripnar m.v. íslenzkar aðstæður.  Raforkukerfi landsins er í raun innviðauppbygging hins opinbera, sem þjónar því hlutverki að gera framleiðendum kleift að framleiða alls konar vörur og þjónustu með hagkvæmum hætti og fólkinu í landinu að njóta ávaxtanna af þessum stórviðskiptum með lágu orkuverði til sín. 

Það gefur auga leið, að orðalagið um "aukin verðmæti raforkuframleiðslu almennt" felur í sér verðhækkun og aukna raforkuvinnslu.  Það mun koma harkalega niður á núverandi og framtíðar orkunotendum í landinu. Engum dettur í hug að leggja sæstreng alla leið til Íslands til að nýta það smáræði, sem felst í yfirfallsvatninu.

Noregur er víti til varnaðar í þessum efnum.  Nýlega voru teknir í brúkið 2 öflugir aflsæstrengir þar, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Samkvæmt "Europower Energi" hefur rannsókn leitt í ljós, að þeir hafi á þessu ári leitt til orkuverðshækkunar í Noregi, sem nemur 13 Naur/kWh eða um 2,0 ISK/kWh.  Þetta mun leiða til kostnaðarauka hjá meðalfjölskyldu um 3250 NOK/ár eða um 50´000 ISK/ár.  Þar á ofan bætast hækkanir vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum sökum mikils útflutnings (staðan var nefnilega góð í vor), enda hefur raforkuverð með flutningskostnaði, söluþóknun og opinberum gjöldum farið upp í 4,0 NOK/kWh eða 60 ISK/kWh.  Þetta er meira en þrefalt það, sem flestir Íslendingar búa við um þessar mundir, og þetta er meira en þreföldun þess, sem Norðmenn hafa löngum búið við.

Frá október 2020-október 2021 hækkaði raforkuverð með flutningsgjaldi í Noregi um tæplega 80 %. Svona "trakteringar" vegna spákaupmennsku með auðlindir þjóðarinnar eiga Norðmenn erfitt með að sætta sig við.  Þetta er meðvirkandi þáttur í andstöðu núverandi  Stórþings við innleiðingu Orkupakka 4 í norskan rétt og svo kann að fara, að æðri dómstig dæmi afgreiðslu fyrra Stórþings á Orkupakka 3 sem stjórnarskrárbrot, þótt héraðsdómur (tingretten i Oslo) hafi hafnað því.  Þá verður hann felldur úr gildi af núverandi Stórþingi, sem yrði einsdæmi. 

Í næsta vefpistli verður fjallað um seinni hluta þessarar villandi Vísbendingargreinar.  

 

 norned_hvdc-cable-work-1

        


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband