Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Keifað í Kófinu

Innan ríkisstjórnarinnar og í samfélaginu hefur verið kallað eftir stefnumörkun í þessum heimsfaraldri, sem ekkert bólar á hjá sóttvarnaryfirvöldum landsins. Þó glitti í hana nú á síðustu dögum ársins, er sóttvarnarlæknir, síðastur manna, eygði von um hjarðónæmi vegna náttúrulegs ónæmis.  Hin miklu vonbrigði með bólusetningarnar eru, að þær reyndust ófærar um að skapa hjarðónæmið, sem sóttvarnaryfirvöld þó lofuðu afdráttarlaust, ef þátttakan yrði góð, og hún varð það. Þó voru nokkrir, sem veigruðu sér við þessum bólusetningum, margir þeirra vegna undirliggjandi heilsufarsveikleika.  Það er fljótfærnislegt og óskynsamlegt að draga þá ályktun, að þeim hefði farnazt betur eftir smit, ef þau hefðu látið bólusetja sig.

Sóttvarnarlæknir og Landlæknir og margir fleiri í læknastétt virðast ekki í stakkinn búin til að líta vítt yfir sviðið.  Það væri óskandi, að Alþingi sýndi þann mannsbrag að semja leiðarvísi fyrir stjórnvöld út úr þessu Kófi, en í fjarveru slíks leiðarvísis verður ríkisstjórnin að taka af skarið og bera nýja stefnumörkun undir þingið.  Ríkisstjórnin þarf að leita ráða út fyrir heilbrigðiskerfið, sem er niðurgrafið í eigin vandamál.  Hún getur t.d. leitað til Jóns Ívars Einarssonar, læknaprófessors, sem skrifaði áhugaverðar hugleiðingar um þessi mál á Innherja Vísis 26.12.2021, sem hann nefndi:

 "Siglum báruna". 

Undir fyrirsögninni:

 "Reynum aðrar leiðir til eðlilegs lífs",

skrifaði læknirinn:

"Í næstum 2 ár höfum við reynt að nota sömu tólin (sam[komu]takmarkanir, grímur, fjarlægðarmörk o.s.frv.), en sitjum þrátt fyrir það áfram í sömu súpunni.

Það er hins vegar ekki hægt að vera með strangar samfélagslegar takmarkanir til eilífðarnóns.  Skaðinn af þeim er of mikill til lengdar.  Við þurfum að halda áfram með lífið, og það er helzt unga fólkið, sem líður fyrir það ástand, sem við höfum skapað.  Við þurfum því að sleppa tauminum meira og undirbúa okkur, eins og bezt verður á kosið, áður en að því kemur. 

Aðalatriðið er, að nú er þörf á nýrri hugsun, sérstaklega m.t.t. þess, að við erum nú að fást við nýtt afbrigði, sem er meira smitandi og virðist valda minni veikindum, langflestir eru bólusettir, og ný lyf hafa komið fram, sem minnka líkur á alvarlegum veikindum hjá þeim, sem smitast."

Þarna kveður við nýjan tón m.v. þann fádæma grátkór, sem einkennir þau úr heilbrigðisstéttum, sem tjá sig um stöðu heimsfaraldursins C-19 á Íslandi og viðnámsþrótt heilbrigðiskerfis og samfélags gegn honum. Rannsóknir í Suður-Afríku benda til, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron-afbrigðinu veiti líka mikla vörn gegn deltu-afbrigðinu.  Þess vegna gæti ómíkron smit og ónæmi í kjölfarið varðað leið mannkyns út úr heimsfaraldri af völdum allra afbrigða SARS-CoV-2 veirunnar.

Bóluefnin veita hins vegar afar litla vörn gegn smiti af völdum ómíkron og enga vernd eftir 2 mánuði frá bólusetningu, benda ísraelskar athuganir til.  Augljóslega er þá vernd bóluefna gegn veikindum afar takmörkuð, og ísraelskir læknar hafa nú varpað fram áhyggjum af því, að 3 sprautur eða meira geti valdið óafturkræfri veiklun á öllu ónæmiskerfi líkamans. Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa hingað til skellt skollaeyrum við öllum varnaðarorðum um mRNA-bóluefnin (genatækni), eins og áróður þeirra fyrir bólusetningum barna ber vott um.

Læknirinn, Jón Ívar Einarsson, varpaði fram hugmynd í 6 liðum að stefnubreytingu í sóttvarnarmálum í téðri grein.  Nú ríður á, að pólitísk stjórnvöld í landinu axli ábyrgð sína og hverfi af braut huglausrar hlýðni sinnar við þröngsýna sóttvarnarembættismenn, sem fastir eru í sama farinu og virðast ekki gera sér neina grein fyrir neikvæðum afleiðingum frelsisskerðinga almennings og líklega afar takmörkuðu gagni af þeim:

  1. "Undirbúa mætti sjúkrastofnun, sem sinnti eingöngu covid-sjúklingum.  Þessi stofnun hefði gjörgæzlu og aðra nauðsynlega aðstöðu og stoðmeðferðir.  Þetta hefur verið gert áður í meðhöndlun smitsjúkdóma og hægt að gera það aftur.  Starfsfólk, sem vinnur á covid-stofnuninni, myndi einungis vinna þar og fengi því greitt álag/hærri taxta í samræmi við það."  --  Ef þetta hefði verið gert strax í byrjun faraldursins, hefði það sennilega létt álagi af Landsspítalanum og dregið úr hættu á smitum inn á spítalann.  Nú er álagið lítið af innlögnum, en mikið vegna veikinda/sóttkvíar starfsfólks og vegna göngudeildarinnar. Spítalinn þarf að meta, hvort þetta breytta fyrirkomulag yrði til bóta úr þessu. Búið er að slaka á kröfum um lengd einkennalausrar einangrunar og sóttkvíar starfsfólks Landsspítalans, enda er mannekla höfuðvandamál sjúkrahússins.  Þannig hafa stjórnvaldsráðstafanir bitið í skottið á sér.
  2. "Undirbúa þarf almenning, eins og bezt verður á kosið.  Fólk er hvatt til að fara í bólusetningu og örvunarbólusetningu áður en samfélagslegum takmörkunum er aflétt.  Þeir, sem kjósa það hins vegar ekki, geta tekið upplýsta ákvörðun um það, enda hættan á alvarlegum veikindum eftir smit lítil hjá hraustum, ungum einstaklingi." --  Ástæðan fyrir þeim ógöngum, sem samfélagið er í núna vegna ómíkron, er haldleysi bóluefnanna, og skaðsemi þeirra hefur líka verið staðfest hjá óvenju stórum hópi sprautuþega. Langtíma virkni á ónæmiskerfi og mikilvæg líffæri er óþekkt.  Er þá ekki skynsamlegra að birgja spítalana upp af lyfjum, sem gagnleg hafa reynzt í baráttunni við SARS-CoV-2 ?
  3. "Þegar þjóðfélagið er eins vel undirbúið og hugsazt getur, ætti að hætta handahófskenndum, kostnaðarsömum og oft tilgangslitlum sóttvarnaraðgerðum.  Þetta á m.a. við um smitrakningu, skimun á landamærum, notkun hraðprófa fyrir stórviðburði og notkun almennings á grímum.  Ef fólk vill nota grímur, er því að sjálfsögðu frjálst að gera það eftir sem áður.  Áfram ætti að hvetja til og minna á handþvott og spritti." -- Þetta er hægt að taka undir, enda er það kjarninn í hugmyndum læknisins um nýja aðferðarfræði.  Hvetja ætti fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, til að viðhafa ráðstafanir, sem draga úr hættu á hópsmitum, en skyldan sé afnumin.  Allt mun þetta spara þjóðfélaginu stórfé og létta fólki lífið.  
  4. "Þegar búið er að undirbúa hlutina vel, mætti samfélagið ganga að mestu eðlilega.  Ungt fólk og börn gengur í skóla, er í íþróttastarfi o.s.frv.  Ef fólk verður veikt, þá heldur það sig heima, eins og við höfum alltaf gert.  Ekki er skylda að fara í sóttkví eða smitgát, þótt umgengni hafi verið við einstakling, sem greinist með covid.  Ef fólk, sem hefur verið útsett, vill vera heima/fara varlega, þá getur það auðvitað gert það.  Þetta mun byggja upp náttúrulegt ónæmi í samfélaginu tiltölulega fljótt, sérstaklega með omicron afbrigðinu, sem er mjög smitandi og virðist valda mildari veikindum.  Náttúrulegt ónæmi stórs hluta þjóðarinnar mun svo hjálpa til [við] að minnka líkur á síendurteknum smitbylgjum, þótt vissulega sé mögulegt, að ný afbrigði muni koma upp, sem valdi aftur veikindum hjá þeim, sem smitazt hafa af fyrri afbrigðum." -- Jafnvel sóttvarnarlæknir Íslands talaði um það í hádegisfréttum RÚV 29.12.2021, að nú mætti fara að huga að tilslökunum í samfélaginu vegna vægra veikinda, en ekki var hann þá tilbúinn að fara að dæmi Bandaríkjamanna um styttingu sóttkvíar og einangrunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, heldur vill hann nú bíða eftir ráðleggingum frá  sóttvarnarstofnunum Evrópu.  Maðurinn er allt of regandi í sinni afstöðu, sem er ekki traustvekjandi.  Hin pólitísku stjórnvöld verða að taka af skarið.  Athuganir í Suður-Afríku, þar sem ómíkron afbrigðisins varð fyrst vart, veita von um, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni veita nægilegt viðnám gegn öllum afbrigðum SARS-CoV-2 til að hindra faraldra. Einkennalaus sóttkví er orðin tímaskekkja.  
  5. "Fólki í áhættuhópum er ráðlagt að fara áfram varlega, og gerðar eru ráðstafanir til að færa því nauðsynjar, ef þarf.  Ef um blönduð heimili er að ræða, væri boðið upp á tímabundið húsnæði/hótel fyrir hluta heimilismanna, ef nauðsyn væri á.  Þeim, sem búa á blönduðum heimilum, er einnig ráðlagt að fara varlega og e.t.v. að fara í skyndipróf í meira mæli.  Ný lyf virðast minnka líkur á innlögn hjá áhættuhópum, og mikilvægt [er] að nota þær aðferðir, sem til eru til að lágmarka hættu á alvarlegum veikindum í þessum hópi og öðrum." -- Þarna minnist Jón Ívar á ný lyf við C-19.  Þau hljóta að verða einn af hyrningarsteinum hinnar nýju sóttvarnarstefnu, sem liggur til eðlilegra lífs en nú og að hætta að reiða sig á og leggja stórfé og tíma í fullkomlega misheppnuð bóluefni. Margt bendir til, að bóluefnin veiti alls enga vernd gegn ómíkron.  Þess vegna er það eins og út úr kú að hvetja nú foreldra til að láta  bólusetja börn sín með efnum, sem eru meira en lítið varasöm fyrir þau, ef marka má dr Robert Mallone, aðalhöfund mRNA-tækninnar.
  6. "Starfsfólk annarra heilbrigðisstofnana, sem sinnir aðhlynningu sjúklinga og áhættuhópa, þyrfti að fara í dagleg covid-próf og vera með viðurkennda grímu og nota hlífðarbúnað við aðhlynningu, á meðan mestur fjöldi smita gengur yfir."

 

Þann 27.12.2021 birti Morgunblaðið harða ádrepu á sóttvarnaryfirvöld og ríkisstjórn fyrir tréhestalega stjórnun sóttvarna, þar sem farið er offari í frelsisskerðingum m.v. vægari einkenni nýrra afbrigða veirunnar á borð við ómíkron.  Þar er brotið á grundvallarréttindum almennings, þegar önnur vægari úrræði eru í boði. Tregða sóttvarnarlæknis við styttingu einkennalausrar einangrunarvistar og sóttkvíar, sem ómíkron afbrigðið hefur þó orðið ýmsum öðrum þjóðum ástæða til að gera, er lítið dæmi um embættisfærslu, sem hefur mesta tilhneigingu til að hjakka í sama farinu.  Téð grein í Morgunblaðinu var eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, og hét einfaldlega:

"Hættið þessu".

Hún hófst þannig:

"Ráðstafanir íslenzkra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi [brot á stjórnsýslulögum - innsk. BJo]. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum.  Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt, að jafnvel þeim, sem hafa smitazt af veirunni, stafar ekki hætta af henni.  Meira en 95 % þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni.  Þeir, sem eftir standa, veikjast lítillega, en nær enginn alvarlega.  Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember sl. (bls.6).

Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem þar er, beittir frelsisskerðingum til að hindra, að smit berist milli manna.  Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér, er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma.  Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa.  Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitazt af veirunni.  Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum, sem hefur smitazt.  Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar.  Samt segja yfirvöld, að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag.  Svo er að skilja, að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 400-500 ?"

Allt umstangið er sagt vera til að verja heilbrigðisstofnanir, aðallega Landsspítalann, en nú blasir við, að þetta gerræðislega fyrirkomulag er helzta orsök vandræða Landsspítalans nú um stundir á formi gríðarmikils álags á starfsfólkið, sem þó heldur uppi þjónustunni.  Við þessar aðstæður blasir við, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda gera aðeins illt verra, og þess vegna ber að afnema sóttkví og einkennalausa einangrun.  Það mun aðeins stytta tímann fram að náttúrulegu ónæmi og létta á atvinnulífinu og stofnunum sveitarfélaga og ríkis. 

Í lok greinar sinnar dró höfundurinn saman rök sín:

"Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi, sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna.  Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér, sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar. 

Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: hættið þessu og það strax."

 

 

  

 


Auðvitað er brýn þörf á nýjum virkjunum

Forstjóri OR hefur lengi þann steininn klappað, að ekki vanti nýjar virkjanir hérlendis, og alls ekki þurfi að virkja til að knýja farartæki á landi með rafmagni eða rafeldsneyti.  Þetta er leiðinleg meinloka hjá þessum jarðfræðingi. 

Til að knýja tæplega  200 k (k=1000) farartæki (175 k fólksbíla og 10 k vinnuvélar og vagna) um 2030 þarf að framleiða um 2 TWh/ár í virkjun.  Álag þessarar raforkunotkunar verður ekki jafndreift yfir sólarhringinn, vikuna og árið, eins og segja má, að eigi við um álverin, og þess vegna þarf tiltölulega mikið uppsett afl að baki orku til fólksbílanna, sem flestir verða knúnir frá rafgeymum, eða um 350 MW, en vinnuvélar og vagnar verða flestar á vetni og afleiðum þess.  Framleiðsla þess getur verið tiltölulega jöfn, svo að aflþörf þess er aðeins um 150 MW, þótt orkuþörfin geti orðið svipuð og fólksbílanna árið 2030.  Alls eru þetta 2 TWh og 500 MW í orku- og aflþörf vegna farartækja á landi 2030, ef vel á að vera.  

Þar að auki kemur orkunotkun í höfnum og lífeldsneyti á fiskveiðiflotann.  Orku- og aflþörf verður þar af leiðandi að líkindum meiri en þetta árið 2030 vegna orkuskiptanna, ef nálgast á markmið stjórnvalda. Þeir, sem gera svo lítið úr þessari orkuþörf, að ekkert þurfi að virkja á þessum áratugi, eru algerlega úti að aka í þessum efnum, því að landsmenn munu ekki aka á ótryggðri orku.  Þeir verða að geta reitt sig á trausta forgangsorku, ef orkuskiptin eiga einhvern tímann að verða barn í brók. 

Virkjunartími ásamt leyfisveitingum er langur á Íslandi, og þess vegna veitir ekkert af því að fara að hefjast handa, enda er aukin spurn eftir orku á öðrum sviðum líka. Til samanburðar er Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá áformuð 95 MW og 720 GWh/ár að uppsettu afli og framleiðslugetu.  Það er skammarlegt að halda að sér höndum nú og vilja eða geta ekki fullnægt raforkuþörf í landinu á tímum alvarlegs skorts á endurnýjanlegri orku víðast hvar í heiminum. 

Í Fréttablaðinu 10. desember 2021 birtist frétt, sem reist var á speki forstjóra OR um orkuþörf og virkjanaþörf.  Fyrirsögnin bar þess merki, að þessi forstjóri virðist telja viðvarandi orkuskort viðunandi og að engin þörf sé á að virkja.  Þetta er dæmalaus málflutningur fyrir mann í hans stöðu, og mundu sumir kenna við ábyrgðarleysi gagnvart rafmagnsnotendum. Það hefur t.d. verið upplýst, að ON, dótturfélag OR, hefur séð sér þann kost vænstan í núverandi ástandi að fresta ráðgerðu viðhaldi í gufuaflsstöðvum sínum, væntanlega vegna skorts á vélarafli í landinu.  Það er óeðlilegt og býður hættunni heim að grípa til þess óyndisúrræðis, jafnvel þótt vatnsstaða Þórisvatns sé bágborin. Það er aldrei hægt að skáka í því skjólinu, að allt gangi eins og í sögu og að allt vélarafl sé tiltækt, þegar hæst á að hóa. Það er óverjandi að reka raforkukerfi á horriminni, þannig að ekkert megi út af bregða.

"Forstjóri OR telur enga þörf á fleiri virkjunum til orkuskipta"

Fréttin hófst þannig:

  "Það vantar vatn til að knýja vatnsaflsvirkjanir, það er vandinn", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.  Hann segir umræðuna um skort á rafmagni hér á landi vera undarlega.

"Það er verið að skerða núna rafmagn til stóriðju og fiskimjölsverksmiðja vegna þess, að það er ekki hægt að vinna nógu mikið rafmagn, eins og er. Það er ekki vegna þess, að það vanti virkjanir.  Orkuvinnslugetan á venjulegu ári er meira en fullnægjandi.  Ástæðan er, að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er eingöngu þess vegna", segir Bjarni."

    Maðurinn viðurkennir orkuskortinn, en telur hann ekki stafa af virkjanaskorti.  Það má benda honum á, að ekki hefði enn þurft að koma til skerðinga hjá neinum notenda Landsvirkjunar, ef Hvammsvirkjun (95 MW, 720 GWh/ár) hefði tekið til starfa í haust, því að hún mun nota sama vatnið (350 m3/s) og virkjanir í Efri-Þjórsá og Tungnaá. Forgangsorkan er upp urin að mati Landsvirkjunar m.v. upplýsingar fyrirtækisins um að hafa hafnað óskum notenda um viðbótar orku.  Með stefnu sinni í virkjanamálum er téður Bjarni að vísa raforkunotendum orkuumskiptanna á ótryggða orku, sem auðvitað nær engri átt.  Hvað skyldi manninum ganga til ?  

Einu sinni var maður, sem var kallaður Vellygni- Bjarni.  Téður Bjarni nær ekki svo langt, en útskýring hans á því, hvers vegna hægt er með gróða að selja stóriðju á borð við álver raforku á lægra verði en heimilinum sýnir fullkomið skilningsleysi á málinu:

"Bjarni segir, að Ísland framleiði 5 sinnum meira rafmagn en aðrar [og] 80 % af því fari til stóriðju.  Stóriðja fái rafmagn á lægra verði en heimili vegna þess, að rafmagn til þeirra sé skert í aðstæðum sem þessum.  Það vanti ekkert upp á fyrir orkuskipti í samgöngum."

Þetta er bolaskítur (e. bullshit).  Hér á eftir koma nokkrar ástæður þess, að forgangsorka til álvera er ódýrari í framleiðslu en forgangsorka til heimila:

  1. Um er að ræða mikið magn til eins notanda, sem tekur við 220 kV rafmagni af Landsneti og sér sjálfur um niðurspenningu og dreifingu innan verksmiðjusvæðisins, bæði á jafnstraumi og riðstraumi.
  2. Notkun álvers, sem er uppistaða stóriðjuálagsins,  er að jafnaði lítt breytileg yfir sólarhringinn árið um kring, svo að framleiðslutækin í virkjun eru mjög vel nýtt (nýting um 94 % yfir árið) við að framleiða fyrir viðkomandi álver.  Hjá heimilum er álagið lítið, nema þar sem rafhitun er, og ójafnt, meira á veturna en á sumrin og yfirleitt með toppi um kl. 1900. Þetta veldur lítilli nýtingu framleiðslutækja í virkjun eða um 60 %.
  3. Aflstuðullinn, sem er ákveðinn mælikvarði á nýtingu búnaðar í virkjun við að framleiða söluhæfa afurð, er miklu hærri í álverum en í dreifiveitum heimilanna, eða yfir 0,97 m.v. um 0,8 í dreifiveitunum. 
  4. Þegar virkjunareigandinn gerir samning við stóriðju um orkusölu, fær hann kauptryggingu fyrir næstum allri forgangsorku virkjunarinnar í 25-45 ár, háð gildistíma samnings.  Slíkt dregur mjög úr áhættu fjárfestingarinnar, sem veitir hagstæðari lánskjör, og þar með verður fjármagnskostnaðurinn lægri, en hann er um 95 % af kostnaði vatnsaflsvirkjana.  
  5. Uppsett afl í vatnsaflsvirkjun borgar sig að hafa umfram það, sem þarf til að framleiða forgangsorku vegna þess, að flest árin á rekstrartíma virkjunar má búast við meira vatni til virkjunarinnar en svarar til forgangsorkunnar, sem myndar hinn fjárhagslega grundvöll virkjunarinnar. Umframorkan kemur ekkert við sögu við verðlagningu forgangsorkunnar, heldur er verðlögð sér, enda nemur kostnaðurinn við framleiðslu hennar aðeins breytilegum kostnaði virkjunarinnar, sem í megindráttum er rekstrarkostnaður hennar.  Að tengja verðlagningu forgangsorku við skerðingarheimildir virkjunareiganda á ótryggðri orku er grundvallar misskilningur.  

 


Mismunun ríkisvaldsins á sviði gjaldtöku af orkufyrirtækjum

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 2016 féllst þáverandi ríkisstjórn (með bréfi utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur) á allar kröfur ESA - Eftirlitsstofnunar EFTA - um verðlagningu á afnotarétti lands og vatnsfalla til orkufyrirtækja. Í megindráttum snerust þessar kröfur ESA um jöfnun samkeppnisstöðu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækju til afnota af vatnsréttindum og landi í eigu ríkisins til orkuvinnslu.  Ætla má, að sömu jafnaðarsjónarmið gildi um jarðgufu, en hún er óalgeng á Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). 

Allir skyldu sitja við sama borð og greiða "markaðsvirði", en hvernig slíkt markaðsverð skyldi ákvarða, fylgdi ekki sögunni.  Það er annmörkum háð að finna, hvaða verð markaðurinn vill greiða fyrir slík verðmæti án opins útboðs og þá á Innri markaði ESB, ef marka má hliðstæðar kröfur Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, sem líka veita ríkisorkufyrirtækjum forgang að vatnsréttindum ríkisins, t.d. Frakklandi.  

Framkvæmd þessarar skuldbindingar íslenzka ríkisins gagnvart ESA bögglaðist fyrir íslenzka ríkinu, og ekkert hefur orðið úr útboði, enda svaraði norska ríkisstjórnin svipaðri kröfu ESA á hendur norska ríkinu nokkrum árum seinna snöfurmannlega þannig, að ráðstöfun orkulinda í eigu norska ríkisins væri utan við gildissvið EES-samningsins og þess vegna ekki í verkahring ESA, og þar við situr þar, en það er ekki líklegt, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé af baki dottin, því að bullandi innbyrðis ósamræmis gætir í ráðstöfun íslenzka ríkisins. Munurinn á viðbrögðum íslenzku og norsku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfu um að hleypa erlendum orkufyrirtækjum að rekstri íslenzkra og norskra virkjana er sorglegur.

Ráðstöfun vatnsréttinda íslenzka ríkisins hlýtur að falla undir íslenzk samkeppnislög, en það er auðvitað með öllu ótækt að fallast á almennt útboð þessara verðmætu réttinda á EES-svæðinu, eins og Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, gerði  árið 2016, en þá var dýralæknirinn Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, forsætisráðherra. 

Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um "vatnsréttindi virkjana" fjallaði um nýlega samninga íslenzka ríkisins við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi.  Fréttin bar fyrirsögnina:

"Samið um mikil verðmæti",

og hófst þannig:

"Landsvirkjun greiðir ríkinu 90 MISK/ár [milljónir] fyrir afnot af þjóðlendum til rafmagnsframleiðslu í 6 vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár-Tugnaársvæðinu og hluta afls í þeirri 7. Uppsett afl, sem samningurinn nær til, er liðlega 800 MW eða sem svarar til liðlega 40 % af uppsettu afli allra vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins.  Hluta þessara virkjanaréttinda hafði Alþingi veitt Landsvirkjun án nokkurra skilyrða um endurgjald, en eigi að síður samdist svo um, að greitt yrði af öllum virkjununum, nema upphaflegu Búrfellsvirkjun [210 MW], og miðast gjaldið mikið við niðurstöðu dómsdóla um vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar." [Upphaflegu vatnsréttindin vegna Búrfells má skoða sem stofnframlag í Landsvirkjun, sem nú ber ávöxt - innsk. BJo.]

Af þessari upphæð að dæma fyrir nýtingu á orku, sem er a.m.k. 5500 GWh/ár, er um hreinan málamyndagjörning af hálfu ríkisins og fyrirtækis þess, Landsvirkjunar, að ræða, því að árlegt gjald er aðeins um 0,4 % af árlegum tekjum, sem búast má við að fá fyrir þessa orku að jafnaði m.v. núverandi samninga. Þetta er hlálega lágt og stingur algerlega í stúf við gjaldið, sem ríkið innheimtir af 3. aðila fyrir vatnsréttindi smávirkjana (<10 MW) á ríkisjörðum. 

Þarna mismunar ríkið aðilum á markaði með þeim hætti, að klárlega varðar við samkeppnislög.  Jafnframt býður ríkisvaldið hættunni heim, að ESA fetti fingur út í þessa stjórnsýslu og færi málið á endanum fyrir EFTA-dómstólinn, ef íslenzka ríkið ekki sér að sér og gætir jafnréttissjónarmiða. Það yrði ekki ferð til fjár fyrir íslenzka ríkið.

Um ESA-þáttinn skrifar Helgi Bjarnason m.a.:

"Það var síðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016 um, að það teldist ólögleg ríkisaðstoð til orkufyrirtækja að heimila þeim að nota orkuréttindi í opinberri eigu án endurgjalds, sem ýtti á frekari undirbúning og samninga við Landsvirkjun."

Samningar af þessu tagi á milli skyldra aðila hljóta að gefa bæði Samkeppniseftirlitinu og ESA "blod på tanden" og eru þess vegna óskynsamlegir.  Forsendurnar eiga alls ekki við, þar sem miðað er við dóm Hæstaréttar í deilu Fljótsdalshrepps við Landsvirkjun.  Þar var Landsvirkjun dæmt til að greiða eins konar aðstöðugjald til landeigendanna, 1,4 % af stofnkostnaði virkjunarinnar á ákveðnu árabili, en Landsvirkjun dregur frá afskriftir, sem er út í hött, því að verið er að bæta landeigendum meint tjón (þeir hafa nú reyndar fengið laxveiðiá í kaupbæti), en ekki verið að veita þeim hlutdeild í verðmætasköpun virkjunarinnar.  Öllu er þess vegna snúið á haus í þessu máli.

Helgi Bjarnason ritaði samdægurs framhaldsfréttaskýringu um sama mál í Morgunblaðið, en nú með aðaláherzlu á meðferð og stórlega mismunun ríkisvaldsins á einkafyrirtækjum, sem berjast við að nýta lítil vatnsföll.  Fyrirsögnin var sláandi:

 "Sama gjald fyrir smávirkjun og greitt er fyrir Sigölduvirkjun".

Hvernig í ósköpunum má það vera, að stjórnsýslan á Íslandi mismuni fyrirtækjum svo herfilega, að refsivöndur eftirlitsstofnana sé einboðinn ?  Fréttaskýringin hófst þannig:

"Sláandi munur er á kjörum, sem ríkið býður stóru orkufyrirtækjunum og þeim, sem byggja svo kallaðar smávirkjanir. ... [Eigandi 9,9 MW, í mesta lagi 70 GWh/ár, greiðir 15,7 MISK/ár fyrir afnotaréttinn og tvöfalt meira að 10 árum liðnum frá gangsetningu.  Af Sigölduvirkjun, 150 MW, 920 GWh/ár, greiðir Landsvirkjun aðeins 15,7 MISK/ár fyrir sinn afnotarétt.  Svona mismunun er í einu orði sagt vond stjórnsýsla, sem Samkeppnisstofnun og/eða ný ríkisstjórn þarf að hafa forgöngu um að laga - innsk. BJo.]

Útreikningar á hlutfalli leigu af rekstrartekjum  sýna sömuleiðis, að Landsvirkjun greiðir að jafnaði 0,39 % af tekjum virkjana sinna, á meðan eigandi smávirkjana greiðir að jafnaði 3-10 % af sínum tekjum.  

Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru ráðandi í orkuöflun í landinu.  Aðeins HS orka nær inn í þann klúbb [úr hópi einkafyrirtækja].  Raunar eru einkafyrirtæki að kveða sér hljóðs með byggingu lítilla virkjana.  Þar hefur HS orka einnig séð tækifæri til vaxtar."

Það er eðlilegt að leggja framlegð virkjunar (ekki tekjur) til grundvallar gjaldtöku fyrir afnot af vatnsréttindum og landi ríkisins, og það er jafnframt eðlilegt, að þessi gjaldtaka sé óháð eignarhaldi á virkjun.  0,39 % af söluandvirði raforkunnar er allt of lágt afgjald, og  10 % er rányrkja í nafni ríkisins.  Á bilinu 3 %-5 % af framlegð virðist eðlilegt afgjald fyrir þessi réttindi. 

Hér yrði um umtalsverðar tekjur ríkisins að ræða, sem freistandi væri að leggja í sjóð, sem stæði straum af verkefnum í þágu umhverfisverndar.  Þar er af nógu að taka, og mætti nefna stærsta umhverfisvandamálið á Íslandi, uppblástur lands, en brýn þörf er á að snúa vörn í sókn í þeim efnum og klæða landið gróðurþekju að nýju.

Til að undirstrika óréttlætið, sem ríkir í þessum málum, er rétt að vitna áfram í téða fréttaskýringu Helga Bjarnasonar:

"Stofnendur smávirkjana, sem nýta jarðeignir ríkisins, fá allt aðrar kröfur um gjald fyrir afnot réttinda hjá fjármálaráðuneytinu en stóru virkjanafyrirtækin fá hjá forsætisráðuneytinu, þegar samið er um að virkja á þjóðlendu.

Kjörin, sem Landsvirkjun og væntanlega önnur fyrirtæki, sem virkja stórt, fá hjá forsætisráðuneytinu ... [nema 0,39 % af söluandvirði rafmagns - innsk. BJo].  Til samanburðar má geta þess, að fram hefur komið opinberlega, að Arctic Hydro, lítið virkjanafyrirtæki, sem er að byggja sig upp, þarf að greiða 3 % af brúttótekjum í upphafi til að fá leyfi til að byggja 9,9 MW Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, og leigan fer svo stighækkandi, þar til gjaldið verður 10 % eftir 10 ár frá gangsetningu.   Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, staðfestir þessar tölur.  Aðspurður segir hann, að sveitarfélagið hafi verið tilbúið til að leigja réttindin fyrir 2,5 % af tekjum í upphafi, en ríkið gert kröfu um 3 %, og þannig muni samningurinn verða." 

Það ríkir stjórnsýsluleg óreiða á þessu sviði, þar sem 2 ráðuneyti beita mjög ólíkum aðferðum við að ákvarða gjaldheimtuna.  Það er ótækt, þar sem ríkja þarf festa, samræmi og jafnræði.  Sennilega er ekki vanþörf á endurskoðun lagasetningar áður en ESA dregur fram pískinn.

 

 

 

 

 


Sæstrengsrímur kveðnar við raust

Nú er verð á orkugjöfum og orkuberum, þ.á.m. rafmagni, á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hátt.  Þann 8.11.2021 tilkynnti Landsvirkjun um hækkun raforkuverðs skammtímasamninga við almenningsveiturnar og ber við lágri miðlunarlónsstöðu, enda er vatnshæðin í Þórisvatni óbeysin í byrjun vetrar.  Ef orkumálum landsins væri almennilega stjórnað, og ekki bara látið reka á reiðanum, þá væri ný virkjun á borð við Hvammsvirkjun (95 MW) að taka til starfa nú í haust, og engin hætta væri á vatnsleysi í Þórisvatni (sama vatnið og í virkjunum ofar), en enginn er lagalega ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma, nema í náttúruhamförum, sé tiltæk næg raforka. Landsvirkjun er úti á þekju (hluti hennar var í Gljáskógum) og er nú í einhvers konar framboðs/eftirspurnarleik. 

Með því að hækka raforkuverðið er ætlunin að draga úr eftirspurninni, en verðteygni rafmagns til almennings er ekki með þeim hætti, að aðferð Landsvirkjunar hrífi. Hver mun draga úr aflþörf sinni um jólin, þótt Landsvirkjun sé í sandkassaleik ? Landsnet undirbýr nú uppboðskerfi raforku, og þá mun orkuskorturinn bitna á almenningi fyrir alvöru. Noregur er með svipað kerfi, og þar kostar raforkan um þessar mundir 30 ISK/kWh + flutningur, dreifing og gjöld, alls um 60 ISK/kWh. Hér er um undirstöðu innviði samfélagsins að tefla, sem á ekki við að hleypa í uppnám spákaupmennsku, eins og tíðkast á uppboðsmörkuðum rafmagns í ESB og víðar við allt aðrar aðstæður en hér eru. Munu innviðaráðherra og/eða orkuráðherra grípa í taumana, áður en tjöldin verða dregin frá í þessu leikhúsi fáránleikans, eða á að skýla sér á bak við Orkupakka 3 frá ESB, sem jú er í gildi hér.

Raforkufyrirtækin eiga ekki að verða sogrör ofan í vasa almennings fyrir fyrirtæki á fákeppnismarkaði.  Það er mikið hagsmunamál almennings, eins og við höfum fengið staðfest á undanförnum vikum frá hinum Norðurlöndunum, frá Bretlandseyjum og frá meginlandi Evrópu.  Því miður eru þessi mál eftir innleiðingu Orkupakka 3 í höndum Orkustjóra ESB á Íslandi og ACER (Orkustofnunar ESB, sem ESA afritar fyrirmæli frá), en ekki í höndum íslenzkra ráðuneyta.  Þingmenn gætu þó reynt að leggja fram þingsályktunartillögu um frestun á málinu, t.d. út þetta kjörtímabil eða þar til örlög Orkupakka 4 ráðast í EFTA. Norska verkalýðshreyfingin verður sífellt gagnrýnni á EES-aðildina, svo að til tíðinda kann að draga með EES-samninginn á þessu kjörtímabili.  Noregur er kjölfesta hans innan EFTA og mótar stefnuna í grundvallaratriðum.

Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við HÍ, fer mikinn í Vísbendingu, 39. árg., 40. tlbl., 05.11.2021, um gróða Norðmanna á raforkuviðskiptum um sæstrengi.  Þar minnist hann ekki á nokkur atriði, sem eru neikvæð fyrir slíka sæstrengstengingu við Ísland:

  1. Norska Landsnet (Statnett) á allar millilandatengingar við Noreg, og þess vegna njóta norskir raforkunotendur góðs af hagnaði orkuflutninganna, þótt ESB hafi lagt hömlur á hagnaðartilflutninga flutningsfyrirtækja í aðra starfsemi en millilandaflutninga.  
  2. Meiri afl- og orkutöp verða í sæstreng til Íslands frá Betlandi eða meginlandinu en í norskum sæstrengjum til útlanda vegna vegalengdar. 
  3. Allir aflsæstrengir Noregs hafa flutningsgetu, sem nemur alls um 30 % af framleiðslugetu landsins, en einn  aflsæstrengur til Íslands mundi hafa flutningsgetu, sem nemur tæplega 50 % af núverandi framleiðslugetu Íslands.  Verðsveiflur á Íslandi yrðu að sama skapi í enn meiri líkingu við verðsveiflur á hinum endanum.
  4. Miðlunargeta norskra lóna er meira en tíföld sú íslenzka.  Það er mjög takmörkuð orka, sem hægt er að geyma í íslenzkum miðlunarlónum fyrir raforkufyrirtæki í Evrópu.  Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að draga niður í eigin miðlunarlónum með sölu til útlanda, og verða þá algerlega háðir "hundi frá Evrópu" með raforku yfir veturinn. 
  5. Með slíkri tengingu við Evrópu og markaðskerfi ESB samkvæmt Orkupakka 3 (og 4) mun heildsöluverð raforku til almenningsveitna verða svipað og í Evrópu.  Þetta mun líka hækka hitaveitukostnaðinn (dæling) og kostnað allra fyrirtækja og heimila á landinu.  Samkeppnisstaðan versnar að sama skapi, en gróði raforkuframleiðenda verður fugl í skógi, því að rándýr sæstrengurinn þarf sitt. 
  6. Gríðarleg orku- og flutningsmannvirki innanlands verða nauðsynleg til að þjóna erlendum raforkumörkuðum.  Það er ekki ljóst, að nægar orkulindir verði þá tiltækar fyrir raforkuþörf landsmanna til 2040, ársins, þegar kolefnishlutleysi á að nást, og enn þyngra getur orðið undir fæti með framkvæmdaleyfi fyrir flutningsmannvirki til innanlandsþarfa en ella.  

Prófessorinn reit:

"Nokkur umræða hefur verið um möguleika á raforkuútflutningi um langt skeið.  Ólík sjónarmið eru uppi um ágæti hugmyndarinnar.  Raddir eru uppi um, að nýta eigi orkuna fremur hér á landi en flytja hana út, að búið sé að virkja nóg og umhverfisáhrif virkjana séu nú þegar of mikil og að útflutningur orku muni leiða til hækkunar á raforkuverði.

Á móti er bent á þann hag, sem aðrar þjóðir hafa haft af slíkum viðskiptum, t.d. Norðmenn, og á nauðsyn þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á tímum aðgerða í loftslagsmálum.  Hér er því af mörgu að taka."  

Þarna er ýmislegt tínt til. Hinn raunverulegi lærdómur, sem Íslendingar geta dregið af viðskiptum Norðmanna með rafmagn á erlendum mörkuðum, er, að verðhækkun rafmagns innanlands er óhjákvæmilegur fylgifiskur viðskipta, innflutnings og útflutnings, fyrir vatnsorkulönd með lágan vinnslukostnað á rafmagni.  Hagfræðingar geta fegrað þessi viðskipti á ýmsa lund, en hinn þjóðhagslegi kostnaður, sem felst í að rýra stórlega samkeppnishæfni atvinnuveganna og kaupmátt heimilanna verður alltaf hærri en nemur meintum ábata raforkufyrirtækjanna.  Þeir, sem raunverulega græða, eru fyrirtæki erlendis, sem fá græna og kannski ódýrari raforku til að framleiða samkeppnishæfari vöru eða þjónustu. 

Það verður alltaf hagkvæmara að nýta orkulindirnar innanlands til að skapa vinnu, þekkingu og verðmæta og eftirsótta vöru. Orkulindirnar eiga að verða hjálpartæki til að efla innlenda atvinnuvegi, en ekki leiksoppur spákaupmanna.  Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á að sjá sóma sinn í þessu og hætta gælum við spákaupmennsku á erlendum mörkuðum, sem er órafjarri hlutverki Landsvirkjunar fyrr og síðar.  Núverandi forysta hennar er heillum horfin, ef hún sér ekki villur síns vegar, og hættir ekki að einblína á Statkraft í Noregi, sem mikil óánægja er með á meðal norsks almennings um þessar mundir vegna útflutnings á raforku, sem bitnað hefur á stöðu miðlunarlónanna á viðkvæmum tíma. Við þetta er að bæta, að Norðmenn hafa afhent ESB/ACER stjórnun flutninganna um strengina til ESB-ríkjanna með innleiðingu Orkupakka 3, svo að þeir geta ekki staðið í þessum viðskiptum með hagsmuni Noregs að leiðarljósi, heldur verða hagsmunir heildarinnar, þ.e. ESB-landanna, hafðir að leiðarljósi undir umsjón ACER.

"Almennt er því ástæða til að ætla, að útflutningur raforku hefði jákvæð áhrif á Ísland.  Verðmætasköpun og útflutningur mundi styrkjast."

 Hér er hrapað að niðurstöðu.  Útflutningurinn, sem fyrir er, mundi veikjast vegna verðhækkana rafmagns, svo að dregur úr hefðbundinni verðmætasköpun, sem vegur meira en ávinningurinn af sölu rafmagns.  Þá mundi nýsköpun verða kyrkt með vöntun á grænu rafmagni á hagstæðu verði.  M.ö.o. við yrðum undir í samkeppninni við útlendingana um eigið rafmagn vegna hærra kostnaðarstigs hér og flutningskostnaðar á vörum frá landinu.

"Lokuð raforkukerfi, eins og það íslenzka, þar sem milliríkjaviðskipti eru ekki möguleg, þurfa að tryggja nægilegt framboð fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum.  Þessi umframframleiðslugeta þarf að vera umtalsverð í raforkukerfum, þar sem vatnsafl er ráðandi vegna óvissu um vatnsbúskap. Miðlunargeta þarf að geta brúað bilið milli góðra og slæmra vatnsára.  Það þýðir jafnframt, að á meðalári er framleiðslugetan meiri en eftirspurn.  Fossinn Hverfandi við Kárahnjúkastíflu er skýrt dæmi um þessa umframgetu.  Vatnsaflskerfi Norður-Evrópu, s.s. Noregs og Svíþjóðar, voru með þeim fyrstu, sem nýttu sér útflutning, einmitt til að koma þessari umframframleiðslugetu í verð.  Með þeim hætti var hægt að skapa verðmæti úr því, sem að jafnaði er kostnaðarliður vatnsaflskerfa."

Það hefur verið ljóst, frá því að fyrsta stórvirkjun Íslands, Búrfellsvirkjun, var hönnuð, að ójafnt aðrennsli frá ári til árs mundi valda sveiflukenndri framleiðslugetu á ársgrundvelli.  Við þessu var séð á hagkvæman hátt með því að rannsaka rennslisraðir margra ára og síðar var farið að framkalla rennslisraðir með líkindareikningi og hermilíkönum í tölvum.  Miðlunargeta lóns, uppsett afl í virkjun og orkusölusamningar, voru samhæfð þannig, að virkjun gæti alltaf (nema í neyðartilvikum-"force majeur") afhent viðskiptavinum sínum forgangsorku og í um 27 af 30 árum a.m.k. 50 % af s.k. ótryggðri orku, sem mest næmi um 10 % af heildarorkuafhendingu.  Miðlunargetu á Íslandi er þannig ekki ætlað að brúa bilið á milli góðra og slæmra vatnsára, heldur einvörðungu á milli árstíða, og í slökum vatnsárum er einfaldlega dregið úr afhendingu ótryggðrar raforku samkvæmt samningum þar um. 

Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt heppnazt ágætlega, þótt stóriðjan hafi einstaka sinnum þurft að taka á sig forgangsorkuskerðingu, þegar saman fara bilanir og slakt vatnsár.  Það er misskilningur höfundar þessarar Vísbendingargreinar, að "á meðalári sé framleiðslugetan meiri en eftirspurn" og að yfirfall á stíflu (Hverfandi) sé til merkis um það.  Þvert á móti er um undirframleiðslugetu í góðum vatnsárum að ræða.  Að þetta sé "kostnaðarliður vatnsaflskerfa" er fráleit túlkun.  Ef viðbótar fjárfesting færi fram í vatnsaflsvirkjunum til að nýta umframvatnið og sú fjárfesting stæði ekki undir sér, væri hægt að tala um "kostnaðarlið" vegna umframframleiðslugetu. 

Landsvirkjun hefur þegar farið inn á þá braut að nýta yfirfallsvatn, og er Búrfell 2 dæmi um það.  Nú gæti verið að skapast markaður fyrir "umframorku" vatnsorkuvera með aukningu á flutningsgetu rafmagns á milli landshluta og framleiðslu rafeldsneytis.  Spáð er aukinni úrkomu á landinu og minnkun jökla með hækkun hitastigs, og þá gætu stækkanir vatnsaflsvirkjana orðið enn fýsilegri.

"Opnun lokaðra raforkukerfa, sérstaklega kerfa, sem byggja fyrst og fremst á vatnsafli, hefur því tvíþætta kosti.  Það eykur verðmæti raforkuframleiðslu almennt með því að stækka markaðssvæðið, og það nýtir fjárfestingu betur með því að skapa möguleika á að nýta framleiðslugetu að fullu."

Þessar ályktanir höfundarins eru úr lausu lofti gripnar m.v. íslenzkar aðstæður.  Raforkukerfi landsins er í raun innviðauppbygging hins opinbera, sem þjónar því hlutverki að gera framleiðendum kleift að framleiða alls konar vörur og þjónustu með hagkvæmum hætti og fólkinu í landinu að njóta ávaxtanna af þessum stórviðskiptum með lágu orkuverði til sín. 

Það gefur auga leið, að orðalagið um "aukin verðmæti raforkuframleiðslu almennt" felur í sér verðhækkun og aukna raforkuvinnslu.  Það mun koma harkalega niður á núverandi og framtíðar orkunotendum í landinu. Engum dettur í hug að leggja sæstreng alla leið til Íslands til að nýta það smáræði, sem felst í yfirfallsvatninu.

Noregur er víti til varnaðar í þessum efnum.  Nýlega voru teknir í brúkið 2 öflugir aflsæstrengir þar, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Samkvæmt "Europower Energi" hefur rannsókn leitt í ljós, að þeir hafi á þessu ári leitt til orkuverðshækkunar í Noregi, sem nemur 13 Naur/kWh eða um 2,0 ISK/kWh.  Þetta mun leiða til kostnaðarauka hjá meðalfjölskyldu um 3250 NOK/ár eða um 50´000 ISK/ár.  Þar á ofan bætast hækkanir vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum sökum mikils útflutnings (staðan var nefnilega góð í vor), enda hefur raforkuverð með flutningskostnaði, söluþóknun og opinberum gjöldum farið upp í 4,0 NOK/kWh eða 60 ISK/kWh.  Þetta er meira en þrefalt það, sem flestir Íslendingar búa við um þessar mundir, og þetta er meira en þreföldun þess, sem Norðmenn hafa löngum búið við.

Frá október 2020-október 2021 hækkaði raforkuverð með flutningsgjaldi í Noregi um tæplega 80 %. Svona "trakteringar" vegna spákaupmennsku með auðlindir þjóðarinnar eiga Norðmenn erfitt með að sætta sig við.  Þetta er meðvirkandi þáttur í andstöðu núverandi  Stórþings við innleiðingu Orkupakka 4 í norskan rétt og svo kann að fara, að æðri dómstig dæmi afgreiðslu fyrra Stórþings á Orkupakka 3 sem stjórnarskrárbrot, þótt héraðsdómur (tingretten i Oslo) hafi hafnað því.  Þá verður hann felldur úr gildi af núverandi Stórþingi, sem yrði einsdæmi. 

Í næsta vefpistli verður fjallað um seinni hluta þessarar villandi Vísbendingargreinar.  

 

 norned_hvdc-cable-work-1

        


Vafasöm orðræða

Við setningu Alþingis nú í viku 47/2021 þótti ýmsum gæta ósmekkvísi í garð óbólusettra af hálfu forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessonar, svo að ekki sé meira sagt, enda virtust þau orð illa ígrunduð bæði lagalega og sóttvarnarlega.  Það er harla óvenjulegt, að úr þessu tignarembætti, sem betra er, að friður ríki um, sé veitzt að einum þjóðfélagshópi, sem ekkert hefur aðhafzt, er brjóti í bága við lög landsins eða ógni hagsmunum nokkurs manns umfram aðra. 

Þetta var umfjöllunarefni Staksteina 24. nóvember 2021 og skopmyndateiknara Morgunblaðsins sama dag og daginn eftir með eftirminnilegum hætti.  Höfundi þessa vefseturs þykir svo mikið til þessarar umfjöllunar koma, að hann tekur sér það bessaleyfi að birta þessa Staksteina hér í heilu lagi:

"Spurt og svarað":

"Jón Magnússon, lögmaður, vekur athygli á, að forseti lýðveldisins hafi í setningarræðu Alþingis sagt, að "frelsi til að sýkja aðra væri vafasamur réttur".  Jón spyr og svarar svo:

"En hvaða réttur er það ?  Hefur einhver gefið einhverjum þann rétt ?  Eru einhvers staðar lagaákvæði eða önnur fyrirmæli, sem mæla fyrir um það, að fólk eigi þann vafasama rétt ? 

Raunar alls ekki.  Samkvæmt íslenzkum rétti hefur enginn rétt til að sýkja aðra; það er bannað.

Það er beinlínis refsivert, sbr 175. gr. almennra hegningarlaga, sem mælir fyrir um refsingu, fangelsi allt að þremur árum, fyrir að valda því, að næmur sjúkdómur berist meðal manna.  Einnig mætti vísa í sóttvarnalög.

Frelsi til að smita aðra er því ekki fyrir hendi í íslenzku samfélagi.  

Það á enginn þann rétt.  

Það er beinlínis refsivert."

Niðurstaða Jóns Magnússonar er þessi:

"Frelsi borgaranna er mikilvæg undirstaða siðaðra samfélaga, og það er mikilvægt, að æðstu stjórnendur ríkja og alþjóðlegra stofnana gæti þess að skilgreina það með réttum hætti og gæti þess að setja frelsið ekki í spennitreyju valdsins.""

Hér hefur forseti lýðveldisins verið leiðréttur fyrir ummæli, sem hann lét falla í þingsetningsrræðu í nóvember 2021, bæði á lögfræðilegum og siðferðislegum grunni mannréttinda.  Ummælunum virtist vera beint gegn óbólusettu fólki með ósmekklegum hætti og þá í vanhugsaðri tilraun til að senda þá í bólusetningu.  Þar sem ummælin féllu á vettvangi Alþingis er hætta á, að einhver hafi túlkað þau sem hvatningu til að setja einhvers konar þvingunarlög á óbólusetta.  Eru einhver sóttvarnarleg rök fyrir slíku ?  Nei, alls ekki.  Bólusettir smita aðra, og er frá líður ekkert síður en óbólusettir.  Ef þessi síðasta fullyrðing væri röng, þá mundi ekki geisa nein 4. bylgja C-19 faraldursins núna á meðal fullbólusettra þjóða Evrópu.

  Sameiginlegt einkenni þjóða, sem sloppið hafa við þessa 4. bylgju, er, að þær hafa öðlazt náttúrulegt ónæmi gagnvart C-19.  Virkni bóluefnanna gegn öðrum afbrigðum en Wuhan, upphaflegu veirunni, er takmarkað og rýrnar svo hratt, að eftir 6-9 mánuði eru þau gagnslaus bæði sem smitvörn og vörn gegn alvarlegum veikindum.  Þær virka hjáróma raddirnar, sem nú kvaka um, að sennilega virki bóluefnin ekki gegn nýja Suður-Afríkanska afbrigðinu, omicron, sem kynnt var til sögunnar 23. nóvember 2021.  Staða faraldursins í fullbólusettum löndum er dauðadómur yfir þessari nýju tækni, genatækni, sem baráttutæki við kórónuveiruna, og sennilega við allar veirur, sem hafa mikla tilhneigingu til stökkbreytinga.

Í forystugrein Morgunblaðsins, 25. nóvember 2021, 

"Trúnaðartraust dalar",

er haft eftir leiðara The Telepgraph daginn áður, að  krafa sé um, að bólusetningarárangur ólíkra bóluefna verður upplýstur.  Það er þegar byrjað að upplýsa þetta, og skal hér vísa í sænska skýrslu, sem gerð var grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869  .

Þar kemur fram, að ending AstraZeneca var áberandi lökust af þeim 3 bóluefnum, sem prófuð voru, en ending Moderna var skárst, enda er styrkleiki þess þrefaldur á við 3. bóluefnið, sem var frá Pfizer BioNTech.  Styrkurinn kann að skýra alvarlegar aukaverkanir, t.d. hjartavöðvabólgu, af Moderna.

Leiðari Morgunblaðsins 25.11.2021 er mjög hógvær m.v. tilefnið, því að bóluefnamistökin eru reginhneyksli.  Hér er seinni parturinn:

"Það, sem mestu breytti um traust til sóttvarna, er, að talsmenn þeirra í ráðandi ríkjum gáfu ótvírætt til kynna, að allt myndi breytast, þegar bóluefnin kæmu.  Þó var viðurkennt, að þau myndu alls ekki þá hafa fengið þá skoðun, sem almennt væri gengið út frá. 

Heimsbyggðin (eða þau 30 % hennar, sem eygðu í raun þessa von) keypti þessa spá brött og hefur gengið út frá, að gagnvart veirufárinu væru ekki tök á að vera kræsin.  En á daginn hefur komið, að óþarflega margt hefur farið illa út úr óskhyggjunni, sem talsmenn vísindanna, sem við vildum fylgja, héldu loftinu í og virtust trúa á án mikilla fyrirvara, vitandi, að allt valt á, að nægilega margir yrðu með.  

Svo opnuðust glufur í væntingahjúpinn. Fyrst var, að flest bóluefnanna kæmu ekki í einni sprautu.  Eftir það skot þurfti að bíða í nokkra mánuði og fá svo nýtt.  Það leið ekki langur tími, þar til tvíbólusettir, sem töldu sig orðna jarðbundna himnaríkismenn, þurftu þriðju sprautu.  Þó hafði verið gefið upp, að tveggja sprautu menn væru varðir upp í 90 % alvörn og jafnvel rúmlega það.  Engum datt í hug, að tveggja sprautu menn smituðust og það furðu auðveldlega, og virtist það koma öllum fróðum á óvart, en ýtti auðvitað undir einn skammt enn !

Þetta varð óneitanlega hnekkir á trúnaðartrausti gagnvart vísindamönnunum, þótt enginn (í merkingunni fáir) geri því skóna, að þeir hafi ekki gert sitt bezta og í góðri meiningu.  En þessi vonbrigði og væntingahrun hafa því miður breytt stemningunni.  Og eins hitt, hversu fljótt "vísindamenn" gleyptu við hugmyndum um, að bólusetja þyrfti börn, sem fullyrt var og er, að smituðust vissulega, en ekkert umfram það, sem gerist í venjulegum pestum og með svipuðum ætluðum afleiðingum. 

Þessi viðbrögð og óvænt framganga án nokkurrar raunverulegrar umræðu, sem hvatt hafði verið til, varð ekki til góðs.  Sjónarmið þess hóps, sem efazt hafði um flest, fengu óneitanlega meiri byr en áður.  Lyfjarisarnir í heiminum hafa ekki unnið sér inn nein þau verðlaun, sem tengd eru helztu góðmennum sögunnar, þótt alheimur geti illa án framleiðslu þeirra verið.  Með réttu eða röngu eru þeir grunaðir um græsku og óneitanlega er margt, sem ýtt hefur óþægilega undir það.  Góðrarvonarhöfði er þekkt kennileiti, sem segir sig sjálft.  Gróðavonarhöfði er bautasteinninn, sem fyrrnefndir risar eru gjarna taldir halla sér að, þegar bezt gengur, og dæmin eru of mörg til um, að ekki hafi alltaf verið gáð að sér í þeim efnum."

Svo mörg voru þau, en þarna er með fínlegum hætti verið að rassskella sóttvarnar- og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi, sem nú beita þeirri vonlausu aðferð að sprauta þrisvar, af því að hvorki eitt né tvö skipti dugðu.  Var sú aðferð ekki einhvern tíma talin einkenna þá, sem þjáðust af greindarskorti, að meira af sömu mistökum geti leyst vandann ? 

Ástandið er ekki einleikið.  Staðan er sú, að lyfjafyrirtækin stöðvuðu "langtíma" rannsóknir sínar á bóluefnunum eftir um 3 mánuði.  Hefðu þau haldið áfram í 6 mánuði, mundi hafa komið í ljós, bóluefnin eru misheppnuð, því að virkni þeirra er þá orðin langt undir viðmiði flestra stjórnvalda, sem er 50 % minnkun líkinda á smiti.  Í stað þess voru stjórnvöld dregin á asnaeyrunum og stærstu bólusetningartilraun sögunnar hleypt af stokkunum, og nú geisar 4. bylgjan.  Ef omicron er enn meira smitandi en deltan, þá tekur sú nýja við og hækkar þröskuldinn fyrir náttúrulegu lýðónæmi.  Um ónæmi frá bóluefnunum þarf ekki lengur að ræða.  Keisarinn er ekki í neinu.

  

 

 

 

 


Ótilhlýðilegur samanburður

Virtir raunvísindamenn hafa með rökföstum hætti og með vísunum til áreiðanlegra mælinga gagnrýnt vinnubrögð IPCC (Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, SÞ).  Telja sumir, t.d. John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við UAH í BNA, hitastigshækkun andrúmsloftsins vera stórlega ýkta af IPCC og vísa þá til viðamikilla hitastigsmælinga með gervihnöttum, sem þeir hafa unnið úr og sem IPCC skellir skollaeyrum við, eða þeir telja um eðlilega sveiflu hitastigs að ræða í kringum fast meðaltal undanfarinna 2000 ára og leggja fram gögn sín því til sönnunar (árhringjamælingar trjáa). 

Hér eru ábyrgir vísindamenn á ferð, sem ekki hafa verið gerðir afturreka með kenningar sínar og gögn með neinum rökstuddum hætti, heldur hefur IPCC beitt þöggun.  Það er lítilmótlegt og samræmist engan veginn hefðbundnum vísindalegum vinnubrögðum.  Gagnrýnendurnir eru aðeins knúnir áfram af sannleiksást og virðingu fyrir vísindalegum heiðri.  

Þess vegna er miður að sjá Sigurð Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs, líkja þessum strangheiðarlegu vísindamönnum við einhvern Sergei Jargin, sem hann kveður bera brigður á þá margsönnuðu læknisfræðilegu staðreynd, að einangrunarefnið asbest sé stórhættulegt öndunarfærum manna, ef ögnum úr því er andað að sér.  Enginn hefur hrakið það með rökum, sem standast vísindalegar kröfur.  Þess vegna er þessi samanburður villandi og í raun algerlega út í hött. 

 Téð Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2021 bar fyrirsögnina:

"Er ekki asbest allt í lagi ?",

og vitnar eiginlega um skrýtinn hugarheim.  Greinin hófst þannig:

"Asbest er frábært efni, sem nota má til einangrunar og eldvarna.  Olía er líka frábært efni, sem nota má til að knýja vélar og tæki.  Vísindamenn hafa tengt asbest við steinlungu og krabbamein.  Vísindamenn hafa líka tengt olíunotkun við loftslagsbreytingar og lungnasjúkdóma.  Neikvæð áhrif asbests koma oft í ljós löngu eftir notkun.  Neikvæð áhrif olíubrennslu munu sum koma í ljós löngu eftir brunann.  Stór hluti vísindamanna telur notkun asbests umhverfislega neikvæða.  Margir vísindamenn telja notkun olíu umhverfislega neikvæða.  Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif asbestnotkunar í efa.  Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa.  Til er umhverfisvænni tækni, sem leysti að mestu asbestið af hólmi.  Til er umhverfisvænni tækni, sem leyst getur olíu að mestu af hólmi."

Þetta er kostulegur samsetningur, sem virðist ætlað að kasta rýrð á vandaða gagnrýni nokkurra virtra raunvísindamanna, sem ekki mega vamm sitt vita.  Hæpið er, að skrif með svona samlíkingum verði nokkrum málstað að gagni.  Að kalla asbest "frábært efni" er furðulegt, þegar það er sannað með klínískum rannsóknum, að það er svo hættulegt heilsu manna, að öll umgengni við það, niðurrif og förgun, er svo varasöm, að klæðast verður loftþéttum, einnota búningum við vinnu í grennd við það, hvað þá snertingu. 

Höfundurinn heldur því fram, að "til [séu] vísindamenn, sem drag[i] neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa".  Hvaða vísindamenn eru það ?  Það er þvert á móti viðtekin staðreynd, sem hefur ekki verið andmælt með vísun til viðurkenndra rannsókna, að bruni jarðefnaeldsneytis leysir úr læðingi skaðlegar agnir og gastegundir, sem hættulegar geta verið heilsu manna og valda árlega ótímabærum dauða milljóna manna.  Þar að auki verða iðulega mengunarslys við leit, öflun og vinnslu þessara efna og hræðileg eru  námuslysin.  Seigdrepandi eru áhrif kolaryks á unga og hrausta kolanámumenn. Um þetta er enginn ágreiningur. Þess vegna er til mikils að vinna að losna við þessi efni úr orkunotkunarferlum manna, þótt þau muni nýtast í ýmsum efnaferlum. 

Víkjum þá að "lífsandanum", en svo hefur koltvíildið verið nefnt, af því að það er næring fyrir allar plöntur jarðar og þörunga hafsins.  Þannig er það ásamt súrefninu ein af undirstöðum lífsins á jörðunni.  Það verður til með margvíslegum hætti, og orkunotkun mannsins hefur vissulega leitt til aukningar á styrk þess í andrúmslofti.  Traustar mælingar liggja að baka þessari fullyrðingu, svo að um það verður ekki deilt, að núverandi styrkur þess er um 420 ppm. 

Það er heldur ekki deilt um gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld, en það er hins vegar deilt um áhrif þessa gróðurhúsalögmáls á hitastigsþróunina í andrúmslofti jarðar.  Veðurhjúpurinn verður fyrir margvíslegum áhrifum, og þar ríkir flókið samspil.  Ein virkunin er hitageislun út í geiminn, og hún eykst með hækkandi hitastigi andrúmslofts samkvæmt ákveðnu lögmáli eðlisfræðinnar.  Prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH í BNA, heldur því fram, að í loftslagslíkönum IPCC sé þessi þáttur vanmetinn, sem leiði til útreikninga á allt of háum hitastigli.  Hann rökstyður mál sitt með hitastigsmælingum gervihnatta yfir 40 ára tímabil, sem enginn hefur véfengt. 

Síðan hafa tölfræðingar gagnrýnt mjög meðferð IPCC á tímaröðum, og telja þeir ályktanir IPCC um yfirvofandi hækkun hitastigs glannalegar, og að þær fái ekki staðizt, sbr grein prófessors Helga Tómassonar í Morgunblaðinu 14.október 2021. Hann vitnar þar í rannsóknir á hitastigi jarðar 2000 ár aftur í tímann, sem bendi aðeins til tregbreytanlegra hitastigssveiflna um fast meðaltal, þ.e. núverandi hækkun gæti verið náttúruleg.  Í þessu samhengi verður að gæta að því, að margir vísindamenn spá ísöld eftir um 1500 ár.   

 

Síðan fullyrðir höfundurinn, að "til [sé] umhverfisvænni tækni, sem leyst [geti] olíu að mestu af hólmi".  Ef lífið er svona einfalt, af hverju eykst þá með hverju árinu (ef Kófsárið 2020 er undanskilið) notkun jarðefnaeldsneytis ?  Það er vitaskuld af því, að fullyrðingin er röng.  Það vantar á markaðinn frambærilega og nægilega umhverfisvæna tækni til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á heimsvísu.  Það er hægt staðbundið mjög bráðlega, s.s. á Íslandi, en sjálfbærar orkulindir skortir einmitt.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Kjarnorkutæknin, sem nú er á markaðinum, gæti það, en almenningur í mörgum löndum telur hana of hættulega og virðist meta meiri vá af kjarnorkuverum en brennslu jarðefnaeldsneytis.  Löggjafinn í sumum löndum hefur jafnvel gert eigendum kjarnorkuvera að loka þeim á næstu árum, þótt ekkert annað blasi þá við en aukin brennsla jarðefnaeldsneytis.  

 Kjarnorkuver í Japan

 

 

 


Kardínáli ávarpar lýðinn

Mörgum þykir COP-26 (Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna) í Gljáskógum einkennast af hræsni og yfirdrepsskap.  Þangað mættu þjóðarleiðtogar, milljarðamæringar og samkvæmisljón af ýmsu tagi, en hefðu betur setið heima m.t.t. sóttvarna og koltvíildisstyrks í andrúmslofti, að teknu tilliti til nytsemi umræðnanna fyrir framtíðina, sem líklega nálgast 0.  Öll töldu þau mannkynið standa á brún hengiflugs stjórnlausrar hlýnunar.  Engar efasemdir við niðurstöður IPCC (Loftslagsnefndar SÞ) virðast vera leyfðar, og þó hafa þessar efasemdir verið kynntar almenningi. Hér er um að ræða trúarbrögð samtímans, þangað sem "góða fólkið" leitar heitrar baráttu til að bjarga mannkyninu frá syndum sínum í sefjun. Staðreyndum er sópað undir teppið, og rangfærslur hafðar uppi um aukna tíðni stórviðra.  

Þær hefur m.a. hrakið John Christy, og einnig má nefna rannsóknir prófessors Johns Christy við UAH (University of Alabama-Huntsville) á hitastigsmælingum gervihnatta í lofthjúpi jarðar, sem sýna mun lægri hitastigul í andrúmsloftinu en IPCC hefur kynnt til sögunnar og framreiknað með loftslagslíkönum sínum, sem prófessor Christy hefur sýnt fram á, að eru gölluð.  Gervihnattamælingar prófessors Christy yfir 40 ára tímabil sýna stigul rúmlega 0,1°C/10 ár eða framreiknað 1°C á öld. 

Þá hefur Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við HÍ, kynnt í Morgunblaðinu tölfræðilegar niðurstöður á mati á hitastigi á jörðunni síðast liðin 2000 ár út frá árhringjamælingum trjáa. Niðurstaðan var sláandi: hitastig jarðar er tregbreytanlegt og sveiflast um fast meðaltal.  Sem sagt engar marktækar breytingar í 2000 ár, og núverandi hitastigshækkun er bara uppsveifla um fast meðaltal, þannig að kuldaskeið mun taka við af núverandi hlýskeiði. Loftslagskirkjan reynir að yfirgnæfa gagnrýnisraddir með með fyrirferðarmiklum hræðsluáróðri, sem náð hefur eyrum fjölmiðlanna.  

Einn af kardínálum loftslagskirkjunnar á Íslandi, Halldór Björnsson, loftslagssérfræðingur á Veðurstofu Íslands, fór fremur lítilsvirðandi orðum um efasemdarmenn, sem ekki leggja trúnað á, að gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld eigi að fullu við um jörðina og loftslag hennar.  Hið furðulega er, að hið sama virðist vera uppi á teninginum varðandi Halldór sjálfan, þótt hann dragi hvergi af sér í dómsdagsboðskapnum, eins og sýnt verður með tilvitnunum í hann. 

Ávarp kardínálans birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember 2021 undir heitinu:

  "Aðgerðaleysissinnar vilja tefja, en nú er tíminn að renna út".

Ávarpið hófst þannig:

"Frá því, að farið var að reyna að ná samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, hefur sambærilegt leikrit verið sett á svið í aðdraganda funda.  Stuðningsmenn aðgerðaleysis - aðgerðaleysissinnar - fara mikinn í fjölmiðlum og finna málinu allt til foráttu.  Pólitísk hugmyndafræði þeirra er ólík; annars vegar eru þeir, sem telja málið illa ígrundað, byggi á ónægum vísindum, leiði til ríkisafskipta og efnahagshruns, og svo eru þeir, sem vilja umbyltingu á efnahagslegu skipulagi heimsins og telja allar lausnir, sem ekki miði að endalokum núverandi kerfis, gangi of skammt.  Báðir aðilar eru þó sammála um, að það sé tilgangslaust að halda fundi, eins og þann, sem nú stendur fyrir dyrum (svo !) í Glasgow og harma þá losun gróðurhúsalofttegunda, sem honum fylgir."

Þessi pistilhöfundur hér er ekki málsvari aðgerðaleysis á Íslandi til að ná kolefnisjafnvægi í þjóðarbúskapinum 2040, eins og ríkisstjórnin stefnir að, en hann vill, að allar aðgerðir séu reistar á beztu fáanlegu raunvísindalegu þekkingu. IPCC virðist misbeita vísindunum í nafni meintra öfgasjónarmiða um "endimörk vaxtar", sem ekki hafa staðizt tímans tönn, og beitir þöggun á þá raunvísindamenn, sem hafa með rannsóknum sínum komizt að allt annarri niðurstöðu en IPCC.  

Höfundur þessa pistils telur einsýnt, að heimurinn sé kominn á braut orkuskipta, sem er einstefna í eðli sínu.  Á Íslandi ber hiklaust að beita beztu tækni til að virkja vatnsföll og jarðgufu þannig, að sem bezt falli að náttúrugæðum og ásýnd landsins til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.  Erlendis verður málið víðast hvar leyst með mismunandi útgáfum af kjarnorku.  Þessi nálgun verður þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, mun bæta loftgæðin og skjóta stoðum undir margvíslega framleiðslu í landinu frá skógi til vetnis. 

Aðferðarfræði COP-fundanna er vonlaus, eins og Gljáskógadramað opinberar.  Þar eru hafðar uppi heitstrengingar um mismunandi markmið þjóða, en lítið gert með þær, þegar heim er komið, nema kannski að skvaldra.  Mun árangursríkara hefði verið að semja um sams konar aðgerðaáætlun stjórnvalda allra landa, sem fælu í sér písk og gulrætur fyrir alla orkunotendur. Afleiðingin af núverandi aðferðarfræði er mikið misgengi hagkerfa og kolefnisleki, en losunin eykst stöðugt.  Samkvæmt Alþjóða veðurfræðistofnuninni jókst koltvíildisstyrkur andrúmslofts árið 2020 meira en að meðaltali 2011-2019.  Þetta kom á óvart vegna minni iðnaðarframleiðslu og ferðalaga á Kófsárinu. Núverandi bókfærð losun nemur um 35 Gt/ár , og þar af frá Íslandi um 5 Mt/ár eða 0,14 þúsundustu partar, sem er langt innan mælióvissu.  

Kardínálinn reit ennfremur: 

"Um nokkurt skeið hefur legið fyrir, að losun gróðurhúsalofttegunda, mest vegna bruna jarðefnaeldsneytis (á kolum, olíu og gasi), veldur hlýnun jarðar og áhrif hennar eru auðmerkjanleg og víðfeðm.  Hlýnunin frá iðnbyltingu er nú þegar um 1,1°C, og birtar vísindagreinar sýna, að áhrifa hefur alls staðar orðið vart, og einnig að áframhaldandi hlýnun getur haft í för með sér mjög harkalegar afleiðingar fyrir lífríki og þjóðfélög."

Þarna er farið á hundavaði yfir kenningar loftslagskirkjunnar, en ekkert vikið að gagnrýninni, t.d. frá tímaraðasérfræðingum á meðal tölfræðinga, sem prófessor Helgi Tómasson, gerði skilmerkilega grein fyrir í Morgunblaðsgrein 14. október 2021, en þeir sjá ekkert benda til afbrigðilegrar hlýnunar frá upphafi iðnbyltingar eftir að hafa rannsakað hitastigsþróunina á jörðinni undanfarin 2000 ár.  Þá benda gervihnattamælingar hitastigs, sem prófessor John Christy o.fl. við UAH hafa rannsakað, til mun minni hitastiguls (0,1°C/10 ár) en IPCC ályktar á grundvelli sinna reiknilíkana, sem prófessor Christy telur gölluð.  Hann telur IPCC ekki taka nægilegt tillit til aukinnar útgeislunar frá gufuhvolfinu með vaxandi hitastigi, sem hefur sjálfreglandi áhrif á hitastigsþróunina. Þekkt er lögmálið um, að geislun frá flötum fylgi hitastigi þeirra í °K í 4. veldi. 

Síðan tekur við ótrúlegur málflutningur hjá Halldóri Björnssyni.  Hann kveður losun mannkyns á CO2 frá upphafi iðnbyltingar nema 2400 Gt, og að við 2700 Gt muni "hlýnunin far[a] yfir Parísarviðmiðin" samkvæmt áætlun.  Þá "versna líkur á, að hlýnun verði minni en 1,5°C; verði viðbótarlosunin 500 Gt CO2, eru aðeins helmingslíkur á, að hlýnun haldist innan við 1,5°C.  Fyrir 2°C markið versna líkur við 900 Gt CO2 viðbótar losun, og helmingslíkur fást við 1350 Gt CO2 losun."  

Þetta er álíka viturlega fram sett og hjá lækni, sem mundi segja við sjúkling sinn í dag, að lífslíkur hans muni versna á næsta ári m.v. núverandi ár. Þá er furðulegt að setja fram eitthvert gildi, sem valdi aðeins 50 % líkum á atburði.  Hvað er eiginlega á bak við þetta ?  Kenning Fouriers og Arrheniusar um gróðurhúsaáhrif getur ekkert um, að líkindareikningi þurfi að beita til að reikna hlýnunina út m.v. gefna aukningu á styrk CO2.  Manni dettur helzt í hug, að eðlisfræðin, sem að baki reiknilíkönum IPCC er, sé á reiki, og að þau gefi þess vegna mismunandi niðurstöður.  Samkvæmt prófessor John Christy, sem starfaði áður í rýnihópi IPCC, en var settur í skammarkrókinn vegna gagnrýni sinnar á starfsaðferðir IPCC, eru þau öll með böggum hildar, þó mismiklum. 

Síðasta tilvitnunin í þessa grein er til að sýna dæmi um hræðsluáróðurinn, sem beitt er og hefur skotið mörgum skelk í bringu, sem engin furða er:

"Þetta þýðir, að mjög lítill tími er til stefnu áður en ekki má losa meira [m.v. 50 % líkur ? - innsk. BJo].  Vinnslu jarðefnaeldsneytis úr nýjum olíu- og gaslindum verður líklega að stöðva löngu áður en þær verða uppurnar.  Þessi staðreynd er ástæða þess, að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Gueterres, hvetur þjóðir til að hætta leit að jarðefnaeldsneyti, stöðva niðurgreiðslu þess og styðja í staðinn uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa."

Fjárfestar vita, hvað klukkan slær, og hafa þegar dregið úr fjárveitingum til rannsókna á nýjum vinnslusvæðum fyrir olíu, gas og kol.  Þetta er þegar farið að hafa áhrif til hækkunar orkuverðs hvarvetna í heiminum, sem gerir auðvitað fátækum þjóðum enn erfiðara fyrir en áður að skrimta. Á meðan þetta orkubreytingaskeið varir, a.m.k. þar til hlutdeild kolefnisfrírra orkugjafa hefur vaxið til mikilla muna og þar með dregið úr spurn eftir jarðefnaeldsneytinu, má búast við háu verði á því.  Það eykur ekki líkur á því, að opinberum niðurgreiðslum á því verði hætt, þar sem þær eru enn við lýði, en í Gljáskógum náðist aðeins fram loðið orðalag um að draga úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti, ef þær eru óskilvirkar.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hvað skyldi Gljáskógadramað hafa kostað alls ? 

 


Flokkur laus við hreðjatak Landverndar

Í ríkisstjórn situr stjórnmálaflokkur með afar sérvizkuleg viðhorf í öndvegi til framfaramála þjóðarinnar.  Flokkurinn tapaði í nýgengnum Alþingiskosningum þremur þingmönnum og er með aðeins 12,6 % fylgi.  Samt gerir hann kröfu um að leiða stjórnarsamstarfið á nýhöfnu kjörtímabili, heimtar óbreyttan ráðherrafjölda og þvælist að auki fyrir með sérvizku sína um ríkisbúskap, friðanir,  orkunýtingu og viðurkenningu á óhæfum ráðherraefnum sínum. Hvers vegna nenna formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að þrátta við Katrínu Jakobsdóttur á annan mánuð um þetta, þegar annar stjórnmálaflokkur hefur opnað á raunhæfan samningsgrundvöll við þá um ríkisstjórn ?

Grein Jakobs Frímanns Magnússonar í Morgunblaðinu 28. október 2021 er til vitnis um þetta.  Greinin hét:

"Áskoranir nýrrar ríkisstjórnar í loftslagsmálum".

Þar skrifaði hann m.a.:

"Endurheimt votlendis [orkar tvímælis-innsk. BJo], rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa og aukin skógrækt eru þær mótaðgerðir, sem liggur beinast við, að við Íslendingar ráðumst í.  En hnattrænn umhverfisvandi leysist ekki með því, að hver þjóð hugsi bara um sjálfa sig.  Við hjá Flokki fólksins viljum nýta hreinar orkulindir landsins af skynsemi og ábyrgð, svo [að] draga megi úr mengun, samhliða náttúruvernd.  Þar er mögulegt framlag okkar til loftslagsmála á heimsvísu ekki undanskilið."

Óháð því, hvað líður meintri loftslagsvá, sem er orðin loftslagstrúboðinu sem krossfesting frelsarans er kristnum mönnum, þá sigla þjóðir heims nú inn í tímabil orkuskipta, sem mun einkennast af háu orkuverði vegna framboðsskorts (af völdum minni fjárfestinga (það er nóg til)) og skattlagningar á jarðefnaeldsneyti eða losun. 

Það er þess vegna ekki eftir neinu að bíða að hefja virkjanaframkvæmdir hér til orkuútvegunar í stað jarðefnaeldsneytisins.  Einkaframtakið, erlent og innlent, mun síðan sjá um nýtinguna, eins og það hefur gert hingað til hérlendis, en með áherzlu á að knýja rafmagnsfartæki og að framleiða s.k. rafeldsneyti með "grænt" vetni sem grunnþátt, en einnig lífeldsneyti úr t.d. repju og nepju. Á meðan enginn aflsæstrengur er til Íslands, verður "hin græna" orka nýtt innanlands.  Þrátt fyrir orkukreppuna í Evrópu þurfa landsmenn vart að óttast sæstrengslögn á þessu kjörtímabili, enda er Orkupakki 4 kominn í frysti hjá EFTA, eins og gerð hefur verið grein fyrir hér á vefsetrinu. 

"Loftslagsmál og orkumál eru óaðskiljanlegir málaflokkar. Ég verð seint talinn til ákafra virkjanasinna, en mér virðist sýn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessi mál skynsamleg.  Fyrir nýafstaðnar kosningar lögðu báðir flokkarnir til, að Íslendingar hæfu útflutning á grænni orku í formi rafeldsneytis.  Þannig gæti sprottið hér upp nýr og spennandi iðnaður ásamt tilheyrandi atvinnusköpun og ávinningi í loftslagsmálum."

Það verður hlutverk einkaframtaksins að finna markaði fyrir rafeldsneyti og lífeldsneyti, en ekki ríkisins.  Viljayfirlýsingar stjórnmálamanna um nýsköpun atvinnutækifæra og verðmætasköpunar þjóðarbúsins eru þó eðlilegar, en þeir, sem segja A, verða þá að vera tilbúnir til að segja B.  Það stendur virkilega upp á stjórnmálaflokkana og þingheim að setja leyfisferli vegna nýrra virkjana í viðunandi horf, en þau eru nú í algerri kyrrstöðu fyrir tilstilli afturhaldsflokksins með 12,6 % fylgið.

Jakob Frímann býður nú Sjálfstæðisflokkinum upp í dans.  Hann talar væntanlega fyrir hönd 6  þingmanna Flokks fólksins um, að hann er tilbúinn að leiða þjóðina á vit nýrra tíma, sem felst í að skapa tæknilegar og viðskiptalegar lausnir, sem eru raunhæfar til að draga úr losun Íslendinga og fleiri á koltvíildi í stað innantóms blaðurs vinstri grænna um hættuna, sem lífinu á jörðinni stafar af hlýnun jarðar.  Að hafa forsætisráðherra, sem endurómar Grétu Thunberg, en leggst gegn nauðsynlegum umbótum, er ógæfulegt fyrir eina þjóð.

"Ljóst er, að losa verður rammaáætlun úr höftum kyrrstöðu, öfgalaust, og horfa til kosta þess að nýta vindorku.  Eðlilegt virðist jafnframt, að sveitarfélög og íbúar komi í auknum mæli að því að ákvarða, hvar mörkin á milli nýtingar grænna orkukosta og náttúruverndar liggja."

Þarna koma fram heilbrigð og lýðræðisleg viðhorf.  Taka málin úr höndum sérlundaðra skrifborðsmanna, sem falið hefur verið að meta virkjanakosti og drekkt málinu í hreinum aukaatriðum, og færa matið í hendur viðkomandi sveitarfélags og íbúa þess, sem leggi dóm á virkjanakosti til nýtingar eða verndar með lýðræðislegum hætti.  Hljómar þessi tónlist ekki nógu vel fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að slíta erfiðri sambúð við forstokkaða sérvitringa í VG,  og fara nú að stíga dansinn með fólki, sem greinilega er ekki í viðjum Landverndarofstækisins ? 

Að lokum skrifaði Jakob Frímann Magnússon:

  "Það er ekki nóg að viðurkenna loftslagsvandann - við verðum líka að horfast í augu við tækifærin, og hvernig við Íslendingar getum axlað okkar ábyrgð.  Skynsamleg nýting orkukosta og öflug náttúruvernd geta vel farið saman.  Þær áskoranir bíða nýrrar ríkisstjórnar."

Þetta er mergurinn málsins, og ný ríkisstjórn verður að fara inn í næsta kjörtímabil með þetta að leiðarljósi.  Það dugar ekki lengur að ýta þessum viðfangsefnum óleystum á undan sér.  Vinstri hreyfingin grænt framboð er stöðnunarafl með eina hugsjón: að ríkisvæða sem mest af starfseminni í landinu.  Menn hafa afleiðingu þessa úrelta hugsunarháttar nú fyrir augunum í eymdarásjónu  Landsspítalans, sem kominn er að fótum fram undir hroðalegri óstjórn sósíalistans Svandísar Svavarsdóttur, sem keyrt hefur spítalann í þrot með því að hrúga á hann allt of mörgum verkefnum, sem betur eru komin hjá einkageiranum, enda standi Sjúkratryggingar Íslands straum af kostnaðinum, óháð verkaðila.  


Með skipun nýs orkumálastjóra var brotið blað

Halla Hrund Logadóttir, stjórnmálafræðingur BA, var skipuð Orkumálastjóri f.o.m. 19.06.2021. Það eru engin tíðindi, að kona skuli hafa verið valin úr hópi 15 umsækjenda af báðum kynjum. Það eru út af fyrir sig ánægjuleg tíðindi, að kona skyldi nú verða fyrir valinu í fyrsta sinn í 54 ára sögu þessa embættis.

  Segja má, að kvenfólki hafi vegnað betur á framhaldsskólastigi undanfarin ár, og það hefur verið í meirihluta háskólanemenda um skeið. Þess vegna er eðlilegt, að konum fjölgi nú talsvert í stöðum, þar sem krafizt er háskólamenntunar.  Annað mál er, að það þarf að komast fyrir rætur hás brottfalls drengja úr skóla. 

Nú vantar iðnaðarmenn af margvíslegu tagi, en þá bregður við svo við, að skólakerfið er vanbúið að taka við efnilegum nemendum, sem hafa áhuga á að leggja fyrir sig þær spennandi greinar, sem iðnnámið býður upp á. 

 

Embætti Orkumálastjóra í sinni núverandi mynd var stofnað árið 1967 með raforkulögum.  Síðan hafa 3 gegnt því og allir haft raunvísindamenntun, og voru 2 verkfræðingar. Það, sem pistilhöfundi þykir aðallega brjóta blað við þessa ráðningu, er, að 4. Orkumálastjórinn (raunverulega 5., ef talið er frá 1947) hefur ekki raunvísindalegan bakgrunn úr háskóla, eins og allir hinir.  Engum vafa er undirorpið, að sá bakgrunnur og í flestum tilvikum verkfræðileg reynsla reyndist forverunum vel.  Hvort hún var þeim nauðsynleg í starfi Orkumálastjóra, skal ósagt láta, en hvorki hæfnisnefndin né ráðherrann, sem veitti stöðuna, hafa látið svo lítið að útskýra þetta fráhvarf frá hefðinni. 

Höfundur þessa pistils ætlar sér ekki þá dul að leggja að öðru leyti nokkurt mat á störf hæfnisnefndarinnar eða að bera saman hæfni umsækjenda, enda væri slíkt harla marklítið úr þessu.  Aðeins verður að vona, að hæfnisnefnd og ráðherra hafi komizt að réttri niðurstöðu um val á einstaklingi til að veita mikilvægri eftirlitsstofnun og rannsóknarstofnun á sviði orkumála frjóa og skapandi forstöðu á tímum orkuskipta, sem í hönd fara. Er Höllu Hrund Logadóttur óskað velfarnaðar í krefjandi og mikilvægu embætti fyrir land og þjóð:

Laugardaginn 2. október 2021 birti Morgunblaðið, sem lætur sig orkumál landsins miklu varða, viðtal við hinn nýja Orkumálastjóra.  Það hófst þannig: 

""Orkumál hafa gjörbreytzt á fáum árum, og loftslagsmálin eru þar helzti drifkrafturinn", segir Halla Hrund Logadóttir, nýr orkumálastjóri.  "Ríki heims eru einbeitt í því að leita lausna á vanda.  Þetta er eins og kapphlaupið um að komast til tunglsins var.  Þegar slíkur metnaður er settur í mál af allri heimsbyggðinni, hraðar það allri nýsköpun og tækni fleygir fram.  Á Íslandi þurfum við að leggja okkur eftir að skilja, hvaða áhrif þetta hefur á samkeppnishæfni og tækifæri í víðu samhengi.  Hlutverk Orkustofnunar er að stuðla að því, að þessir möguleikar nýtist til hagsældar fyrir þjóðina."" 

       Orkumálin á Íslandi hafa í sjálfu sér enn ekki tekið neinum stakkaskiptum vegna baráttunnar við hlýnun jarðar, þrátt fyrir Kyotosamkomulagið og Parísarsáttmálann.  Ástæðan er sú, að mikilsverður hluti þeirra orkuskipta, sem felst í að hætta nánast alfarið að framleiða rafmagn og að hita upp húsnæði með jarðefnaeldsneyti, hafði þegar farið fram fyrir árið 1990. 

Það orkar ennfremur tvímælis að bera þessa loftslagsbaráttu saman við kapphlaupið um að verða fyrstur til tunglsins, því að enn draga margar þjóðir  lappirnar.  Ríkið, sem mest losar af CO2 árlega út í andrúmsloftið, Kína, eykur enn losun sína og reisir kolaorkuver, heima og erlendis.  Ríkið, sem næstmest losar, Bandaríkin, hefur náð árangri með því að fækka stórlega kolaorkuverum í rekstri og taka í staðinn í notkun jarðgasknúin raforkuver.  Þriðja í röðinni er Evrópusambandið, ESB.  Þar horfir óbjörgulega, því að vegna gasskorts undanfarið hafa kolaorkuver verið endurræst, og fyrir árslok 2022 ætla stjórnvöld í ríki mestu losunar ESB, Þýzkalandi, að loka öllum starfandi kjarnorkuverum landsins. Það mun kalla á aukinn innflutning raforku, aðallega frá eldsneytisorkuverum, og aukinn rekstur kolaorkuvera í Þýzkalandi. 

Það, sem vantar þarna, er vel ígrundaður boðskapur forystumanns í orkumálum Íslands til landsmanna um það, hvernig þeir ættu nú að snúa sér gagnvart þeirri stöðu, sem við blasir, þ.e. að áætlun ríkisins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda stendst ekki, og hvernig vænlegast er að losa virkjunarmálin úr þeirri kyrrstöðu, sem þau eru föst í.  Gjarna hefðu mátt fylgja niðurstöður útreikninga um virkjunarþörf á þessum áratugi og næsta.  Því miður eru landsmenn engu nær eftir þetta fyrsta viðtal. 

"Regluverk orkumála í Evrópu er í örri þróun, sem hefur auðvitað bein áhrif á löggjöf hér heima.  Það er stór áskorun, að við náum að innleiða nýjar reglur hratt og vel.  Stuðla verður að því, að útfærslurnar skili ávinningi fyrir Ísland og efli tækifærin.  Við þurfum að vera framsýn í allri nálgun." 

Hér talar orkustjóri ESB á Íslandi (National Energy Regulator - landsreglari orku), þ.e. embættismaður, sem hefur það hlutverk að framfylgja fyrirmælum og reglum gildandi orkulöggjafar ESB á Íslandi, nú Orkupakka #3. Hvers vegna er það "auðvitað", að þróun orkulöggjafar ESB "hafi bein áhrif á löggjöf hér heima" ?  Við höfum engin áhrif á mótun þessarar löggjafar, og hún er sniðin við ósambærilegar aðstæður þeim, sem eru fyrir hendi á Íslandi. Þessi löggjöf er framandi í okkar umhverfi og er fremur til vandræða en hitt. 

Þegar orkustjóri ESB á Íslandi talar um, að við eigum að innleiða nýjar reglur ESB hratt og vel, á hún væntanlega við Orkupakka #4 (OP#4).  Því eru margir ósammála, bæði hérlendis og í Noregi. Það er mjög ólíklegt, að ný ríkisstjórn Noregs (stjórnarmyndunarviðræður standa yfir í Noregi) muni hafa forgöngu um það gagnvart Stórþinginu að innleiða OP#4, eins og hann kemur af skepnunni. 

Fyrir tilstilli andstöðunnar við OP#3 á Íslandi innleiddi Alþingi OP#3 með t.d. þeim veigamikla varnagla, að enginn aflsæstrengur verður lagður frá útlöndum til Íslands án fyrirfram samþykkis Alþingis. ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gæti hins vegar hæglega gert alvarlega athugasemd við að innleiða ekki samþykktir Sameiginlegu EES-nefndarinnar undanbragðalaust. 

Nú þarf norskur almenningur og norskt atvinnulíf að blæða fyrir afleiðingar öflugra sæstrengstenginga raforkukerfis Noregs við útlönd með margföldu raforkuverði m.v. vinnslukostnað þess í Noregi.  Þetta er ógæfulegur boðskapur nýs Orkumálastjóra. 

""Ef við ætlum að ná markmiðunum okkar um að verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2050, eykst [raf]orkuþörfin.  En til að mæta þessari þörf þarf að nýta betur þá orku, sem þegar er í framleiðslu, skoða möguleika, þegar samningar við stóra kaupendur losna, og meta nýja orkukosti. Einnig skiptir máli fyrir orkuskiptin, hvernig tæknin þróast, s.s. rafhlöður. Því nýtnari sem tæknin er fyrir farartækin okkar, [þeim mun] minna þurfum við af orku.  Almennt skiptir máli, að orkan rati í innlend orkuskipti", segir Halla ...  ." 

 Þetta er nú fremur rislágur og loðinn boðskapur frá nýjum Orkumálastjóra.  Hvað á hún við með að nýta betur þá orku, "sem þegar er í framleiðslu".  Á hún við að bæta nýtni núverandi orkuvera eða að bæta nýtni flutningskerfisins eða nýtni notendanna.  Hvert um sig er gott og blessað, en gefur aðeins brot af raforkuþörf orkuskiptanna.

Áttar nýr orkumálastjóri sig ekki á umskiptunum, sem eru að verða í orkumálum heimsins ?  Vegna tilkomu kolefnisfrírrar orku hafa fjárfestingar í leit að nýju jarðefnaeldsneyti dvínað, og það mun brátt leiða til orkuskorts og hás orkuverðs.  Nú þegar er jarðgasskortur víða, t.d. í Evrópu, þrátt fyrir hina þýzk-rússnesku NORD-STREAM 2-lögn.  Við þessar aðstæður og hátt verð á málmum og kísli munu stóriðjuverin ekki verða á förum frá Íslandi.  Sú ráðlegging að vera á varðbergi, "þegar samningar við stóra kaupendur losna", er eins og útúr kú haustið 2021.  

 Þá er og nokkuð véfréttarlegt að segja, að það skipti almennt máli, að orkan rati í innlend orkuskipti.  Er hún að tala gegn almennri atvinnuuppbyggingu, sem krefst nýrrar orku, eða er hún á móti útflutningi vetnis eða annars rafeldsneytis ?  Á hvaða vegferð er þessi nýi Orkumálastjóri eiginlega ?

"Auðlindir eru þó aðeins það, sem skilar arði til þjóðarinnar, og nú vantar að útfæra leikreglur varðandi vindorku, bæði á landi og hafi.  Hingað til hafa fyrirtækin, sem hafa verið í orkuauðlindanýtingu, verið að stærstum hluta í eigu hins opinbera.  Í breyttu lagaumhverfi orkugeirans í dag verða fleiri á markaðinum, sem kallar á leikreglur, sem tryggja, að auður skili sér til almennings."

Þarna fjallar Orkumálastjóri á óhlutlægan hátt um pólitískt viðfangsefni, sem er alls ekki orkutæknilegs eðlis og varla í hennar verkahring að taka afstöðu til sem Orkumálastjóra, þ.e. álagningu auðlindagjalds.  Hæstiréttur hefur fellt dóm í deilumáli Fljótsdalshrepps og Landsvirkjunar um álagningu fasteignagjalda á orkumannvirki, og sá dómur getur hæglega verið fordæmisgefandi fyrir vindmyllur og aðrar gerðir orkumannvirkja.

"Halla segir arðgreiðslur fyrir  auðlindir orkunnar útfærðar á ólíka vegu erlendis.  T.d. sé greitt gjald fyrir hlutfall af tekjum vindgarða á hafi til ríkisins í Bandaríkjunum.  Sama eigi við t.d. í Evrópu, þar sem sveitarfélög fá einnig skerf. 

Spurð um rammaáætlun um orkunýtingu tekur Halla undir, að hún hafi gengið hægt undanfarin ár.  Fyrir því séu margar ástæður, bæði pólitískar og varðandi vinnulag.  Því séu nú tækifæri til að sníða af vankanta, eins og oft þurfi, þegar reynsla kemst á flókin kerfi.

"Hér verðum við að vanda okkur.  Það er kostnaðarsamt fyrir þjóðina að vera í deilum.  Því þurfum við að vera ábyrg gagnvart tillögum um umturnun á þessu sviði, en á sama tíma gera kröfu um úrbætur, þannig að kerfið sé skilvirkt og gegnsætt.  Án þess er erfitt að sækja fram."

Það verður ekki séð, hvernig vindorkugarðar undan strönd (off-shore) geta greitt auðlindagjald, þegar orkan frá þeim er stórlega niðurgreidd af hinu opinbera, enda vinnslukostnaðurinn víða yfir 150 USD/MWh.

Guðni A. Jóhannesson, verkfræðingur, forveri Höllu, kvað í jólahugvekju sinni 2020 fast að orði um það öngstræti, sem Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda hefði ratað í.  Hann lagði þar til ákveðna leið til að komast með virkjanamálin úr þeirri sjálfheldu, sem þau nú eru í.  Það, sem nýi Orkumálastjórinn hefur um stöðu Rammaáætlunar að segja, er hvorki fugl né fiskur og gæti eins vel komið frá blaðafulltrúa ríkisstjórnar, sem er ráðalaus í þessu máli. Betur má, ef duga skal.  

 


Furðufugl á jaðri siðmenningar

Fjarstæður hafa tröllriðið málflutningi í þessari kosningabaráttu til Alþingis.  Það er ills viti, þegar frambjóðendur sýna kjósendum algert virðingarleysi sitt með því að kasta fram fjarstæðum og órökstuddum dylgjum, eins og þeir ímyndi sér, að þeir geti borið hvaða þvætting og óhroða á borð án þess að skaðast.

Formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins er ekki barnanna beztur í þeim efnum, enda sýndi hann í viðtali í Dagmálaþætti Morgunblaðsins, sem prentaður var útdráttur úr 13. september 2021, að hann er einræðisseggur, sem hatast við atvinnurekstur í landinu, stjórnkerfið og þrígreiningu ríkisvaldsins, þ.e. grunnstoðir lýðveldisins. Annað eins hefur ekki birzt í kosningabaráttu svo lengi sem elztu menn muna.  Það vitnar um fullkomið dómgreindarleysi að reyna þannig að snúa við gangi tímans. Þjóðfélagið hlýtur að vera í andlegri nauð, ef slíkum gallagripum, sem alls staðar skilja eftir sig sviðna jörð, skolar á þing.

"Nú varstu sjálfur hallur undir frjálshyggju á árum áður, stór-kapítalisti árin fyrir hrun, gekkst næst í múslimafélagið, vildir ganga Noregskonungi á hönd og nú [í sósíalistaflokkinum]. Finnst þér skrýtið, þó[tt] sumir spyrji, hvort þér sé alvara eða hvort þetta sé bara langdreginn gerningur ?"  

"Þarf maður ekki að eiga kapítal til þess að vera kapítalisti ?  Ég átti ekki kapítal."

Nei, til að aðhyllast auðhyggju er ekki nauðsynlegt að vera ríkur.  Fátækur námsmaður getur aðhyllzt kenningar Adams Smith um markaðshyggju og frjálsa samkeppni án þess að eiga bót fyrir boruna á sér.  Hann getur t.d. einsett sér að nýta hæfileika sína, selja sérhæfða þjónustu sína að námi loknu og með dugnaði orðið ríkur.  Hann hefur skapað verðmæti, og enginn orðið fátækari, þótt hann yrði ríkur. Þessi maður á að fá að njóta ávaxtanna af erfiði sínu, og einhverjir öfundsjúkir leppalúðar, sem aldrei hafa gert neitt umfram það, sem að lágmarki var af þeim krafizt, og jafnvel kastað höndunum til alls, ef þeir þá nenntu að lyfta litla fingri, eiga ekki að komast upp með það að skella stórfelldum skattahækkunum á þennan mann. Stjórnmálamenn eru ekki handhafar réttlætisins.  Atvinnurekstur og fólk á að standa jafnt að vígi gagnvart skattheimtu, þótt fallast megi á réttmæti persónuafsláttar og lægri skattheimtu af lægstu launum.  Það ætti þá að gilda um útsvarið líka. 

Þessi ferill Gunnars Smára Egilssonar (GSE), sem blaðamennirnir rekja, ber merki um tækifærismennsku. Hann sogast að trúarbrögðum, sem ekki ríkja einvörðungu yfir persónulegu lífi einstaklinganna, heldur eru altækt valdatæki í þjóðfélaginu.  Þannig eru múhameðstrúin og kommúnisminn.  Af málflutningi GSE að dæma má ráða, að þar er siðblindingi á ferð, siðblindingi án sannfæringar. 

"En nú ert þú að gefa kost á þér til Alþingis, og það er ekki óeðlilegt, að fólk spyrji um ábyrgð þína, þegar þú tekur stórt upp í þig.  Þú leggur til, að sjálfstæðishúsinu Valhöll verði breytt í almenningssalerni og að tiltekinn maður eigi að skúra þar ...  ."   

"Maður, sem hefur borið út alls konar lygar um mig."

Það er ljóst, að til að þessi sjúklegi draumur GSE geti orðið að veruleika, þarf mikið ofbeldi að eiga sér stað, raunverulega blóðug bylting, þar sem byltingarseggirnir ganga á milli bols og höfuðs á andstæðingum sínum og niðurlægja þá, sem lifa af blóðbaðið.  Allt, sem minnir á fyrri valdhafa, er troðið í svaðið.  Ekki þarf að útmála það frekar, hvers konar ofbeldishugarfar býr að baki því, hvernig þessi undirmálsmaður ætlar að fara með miðstöð Sjálfstæðisflokksins.  Að þvílíkur útlagi siðmenningarinnar setjist hugsanlega á Alþingi, er mjög óþægileg tilhugsun.

"Og þú hefur líka haft í heitingum við Hæstarétt, ef hann fer ekki eftir ykkar kröfum."

"Nei, það er ekki alveg þannig."

"Sagðirðu ekki, að það ætti að ryðja Hæstarétt, ef hann dæmdi öðruvísi en ykkur þætti réttast ?"

"Ja, við lifum við það vandamál, að tiltekinn flokkur hefur haft völd í gegnum dómsmálaráðuneytið og raunverulega ráðið dómara á öllum dómstigum meira og minna áratugum saman."

Einræðistilburðir GSE leyna sér ekki.  Eins og einræðisherrar fyrri tíma gerðu, vill hann afnema þrígreiningu ríkisvaldsins með valdi.  Hann vill láta framkvæmdavaldið segja dómsvaldinu fyrir verkum, eins og einræðisherrar gera, og enginn þarf að fara í grafgötur með, að siðblindur einræðisherra afnemur frjálsar kosningar til Alþingis.  Þær henta ekki alræði öreiganna, þ.e. "nómenklatúru" Sósíalistaflokksins.   

"Við gerðum könnun um daginn, sem sýndi, að 60 % töldu, að spilling væri vandamál í íslenzkum stjórnmálum.  Þjóðfélög, sem lenda í, að gömul valdaklíka hefur dreift sér út um allt samfélagið, er í stjórnsýslunni, í dómskerfinu og út um allt ...  ."

"Ertu að segja, að stjórnsýslan á Íslandi og dómskerfið sé valdaklíka ?"

"Já."

Hver gerði þessa könnun fyrir Sósíalistaflokkinn, og hvernig voru spurningarnar ?  Siðblindingi veit ekki mun á réttu og röngu, svo að full ástæða er til að draga í efa, að af marktæku þýði telji telji 60 % spillingu vera "vandamál í íslenzkum stjórnmálum".  Þarna sjáum við uppistöðuna í áróðri GSE.  Hann dreifir sefasýkislegum samsæriskenningum um stjórnsýsluna, dómstólana og atvinnureksturinn í landinu.  Sefasýkin kemst á hástig, þegar sjávarútveginn ber á góma. Þessi aðferðarfræði og fjarstæðukenndu spádómar um hitt og þetta passa alveg við hegðun einræðisherra fyrri tíðar, þegar þeir voru að berjast til valda.  Íslenzka spegilmyndin sýnir þó bara blöðrusel. 

"Það er mjög alvarlegt mál, ef maður, sem er að fá fljúgandi fylgi í könnunum, og koma mörgum þingmönnum inn, sé með það að stefnu að ryðja Hæstarétt, og að því er virðist stjórnkerfið, af því að sá hópur er skilgreindur sem valdaklíka.  Það eru rosaleg orð."

"Það hefur gerzt í sögunni, þar sem fólk hefur misst samfélag sitt í svona, að þá hefur verið gripið til þess ráðs að búa eitthvað til, eins og 2. lýðveldið.  Við erum gerspillt samfélag."

Það kemur hvað eftir annað fram, að GSE gælir við hugrenningar um byltingu á Íslandi, og nú nefnir hann 2. lýðveldið, sem er e.t.v. skírskotun til Frakklands,en hann gæti haft 2. íslenzka lýðveldið í huga.  Þvílíkt og annað eins.  

"Telurðu, að dómsvaldið sé spillt ?"

"Ég tel, að það hafi skipulega verið settir inn menn í Hæstarétt, sem eru líklegir til þess að verja meint eignarhald stórútgerðarinnar.  Að það sé skipulagt samsæri.

Og ef það er þannig, að Hæstiréttur stoppar það, að almenningur fái að nota sínar auðlindir, þá verðum við að bregðast við því.  Ég er að benda á, að aðrar þjóðir hafi brugðizt við [með] því að stofna nýtt lýðveldi."

Hefur nokkurn tíma í Íslandssögunni verið efsti maður á nokkrum framboðslista, sem jafnskefjalaust boðar ofbeldisfulla stjórnarbyltingu ?  Sagnfræðingar geta svarað því, hvort t.d. Brynjólfur Bjarnason eða Einar Olgeirsson hafi nokkurn tíma opinberlega látið sér um munn fara annan eins ofbeldisþvætting og borinn er á borð fyrir íslenzka kjósendur fyrir Alþingiskosningarnar 2021, og blaðamenn Morgunblaðsins veittu lesendum blaðsins þarna innsýn í.  Hvílíkt endemis rugl !

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband