Kardínáli ávarpar lýðinn

Mörgum þykir COP-26 (Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna) í Gljáskógum einkennast af hræsni og yfirdrepsskap.  Þangað mættu þjóðarleiðtogar, milljarðamæringar og samkvæmisljón af ýmsu tagi, en hefðu betur setið heima m.t.t. sóttvarna og koltvíildisstyrks í andrúmslofti, að teknu tilliti til nytsemi umræðnanna fyrir framtíðina, sem líklega nálgast 0.  Öll töldu þau mannkynið standa á brún hengiflugs stjórnlausrar hlýnunar.  Engar efasemdir við niðurstöður IPCC (Loftslagsnefndar SÞ) virðast vera leyfðar, og þó hafa þessar efasemdir verið kynntar almenningi. Hér er um að ræða trúarbrögð samtímans, þangað sem "góða fólkið" leitar heitrar baráttu til að bjarga mannkyninu frá syndum sínum í sefjun. Staðreyndum er sópað undir teppið, og rangfærslur hafðar uppi um aukna tíðni stórviðra.  

Þær hefur m.a. hrakið John Christy, og einnig má nefna rannsóknir prófessors Johns Christy við UAH (University of Alabama-Huntsville) á hitastigsmælingum gervihnatta í lofthjúpi jarðar, sem sýna mun lægri hitastigul í andrúmsloftinu en IPCC hefur kynnt til sögunnar og framreiknað með loftslagslíkönum sínum, sem prófessor Christy hefur sýnt fram á, að eru gölluð.  Gervihnattamælingar prófessors Christy yfir 40 ára tímabil sýna stigul rúmlega 0,1°C/10 ár eða framreiknað 1°C á öld. 

Þá hefur Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði við HÍ, kynnt í Morgunblaðinu tölfræðilegar niðurstöður á mati á hitastigi á jörðunni síðast liðin 2000 ár út frá árhringjamælingum trjáa. Niðurstaðan var sláandi: hitastig jarðar er tregbreytanlegt og sveiflast um fast meðaltal.  Sem sagt engar marktækar breytingar í 2000 ár, og núverandi hitastigshækkun er bara uppsveifla um fast meðaltal, þannig að kuldaskeið mun taka við af núverandi hlýskeiði. Loftslagskirkjan reynir að yfirgnæfa gagnrýnisraddir með með fyrirferðarmiklum hræðsluáróðri, sem náð hefur eyrum fjölmiðlanna.  

Einn af kardínálum loftslagskirkjunnar á Íslandi, Halldór Björnsson, loftslagssérfræðingur á Veðurstofu Íslands, fór fremur lítilsvirðandi orðum um efasemdarmenn, sem ekki leggja trúnað á, að gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld eigi að fullu við um jörðina og loftslag hennar.  Hið furðulega er, að hið sama virðist vera uppi á teninginum varðandi Halldór sjálfan, þótt hann dragi hvergi af sér í dómsdagsboðskapnum, eins og sýnt verður með tilvitnunum í hann. 

Ávarp kardínálans birtist í Fréttablaðinu 2. nóvember 2021 undir heitinu:

  "Aðgerðaleysissinnar vilja tefja, en nú er tíminn að renna út".

Ávarpið hófst þannig:

"Frá því, að farið var að reyna að ná samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, hefur sambærilegt leikrit verið sett á svið í aðdraganda funda.  Stuðningsmenn aðgerðaleysis - aðgerðaleysissinnar - fara mikinn í fjölmiðlum og finna málinu allt til foráttu.  Pólitísk hugmyndafræði þeirra er ólík; annars vegar eru þeir, sem telja málið illa ígrundað, byggi á ónægum vísindum, leiði til ríkisafskipta og efnahagshruns, og svo eru þeir, sem vilja umbyltingu á efnahagslegu skipulagi heimsins og telja allar lausnir, sem ekki miði að endalokum núverandi kerfis, gangi of skammt.  Báðir aðilar eru þó sammála um, að það sé tilgangslaust að halda fundi, eins og þann, sem nú stendur fyrir dyrum (svo !) í Glasgow og harma þá losun gróðurhúsalofttegunda, sem honum fylgir."

Þessi pistilhöfundur hér er ekki málsvari aðgerðaleysis á Íslandi til að ná kolefnisjafnvægi í þjóðarbúskapinum 2040, eins og ríkisstjórnin stefnir að, en hann vill, að allar aðgerðir séu reistar á beztu fáanlegu raunvísindalegu þekkingu. IPCC virðist misbeita vísindunum í nafni meintra öfgasjónarmiða um "endimörk vaxtar", sem ekki hafa staðizt tímans tönn, og beitir þöggun á þá raunvísindamenn, sem hafa með rannsóknum sínum komizt að allt annarri niðurstöðu en IPCC.  

Höfundur þessa pistils telur einsýnt, að heimurinn sé kominn á braut orkuskipta, sem er einstefna í eðli sínu.  Á Íslandi ber hiklaust að beita beztu tækni til að virkja vatnsföll og jarðgufu þannig, að sem bezt falli að náttúrugæðum og ásýnd landsins til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi.  Erlendis verður málið víðast hvar leyst með mismunandi útgáfum af kjarnorku.  Þessi nálgun verður þjóðhagslega hagkvæm fyrir Íslendinga, mun bæta loftgæðin og skjóta stoðum undir margvíslega framleiðslu í landinu frá skógi til vetnis. 

Aðferðarfræði COP-fundanna er vonlaus, eins og Gljáskógadramað opinberar.  Þar eru hafðar uppi heitstrengingar um mismunandi markmið þjóða, en lítið gert með þær, þegar heim er komið, nema kannski að skvaldra.  Mun árangursríkara hefði verið að semja um sams konar aðgerðaáætlun stjórnvalda allra landa, sem fælu í sér písk og gulrætur fyrir alla orkunotendur. Afleiðingin af núverandi aðferðarfræði er mikið misgengi hagkerfa og kolefnisleki, en losunin eykst stöðugt.  Samkvæmt Alþjóða veðurfræðistofnuninni jókst koltvíildisstyrkur andrúmslofts árið 2020 meira en að meðaltali 2011-2019.  Þetta kom á óvart vegna minni iðnaðarframleiðslu og ferðalaga á Kófsárinu. Núverandi bókfærð losun nemur um 35 Gt/ár , og þar af frá Íslandi um 5 Mt/ár eða 0,14 þúsundustu partar, sem er langt innan mælióvissu.  

Kardínálinn reit ennfremur: 

"Um nokkurt skeið hefur legið fyrir, að losun gróðurhúsalofttegunda, mest vegna bruna jarðefnaeldsneytis (á kolum, olíu og gasi), veldur hlýnun jarðar og áhrif hennar eru auðmerkjanleg og víðfeðm.  Hlýnunin frá iðnbyltingu er nú þegar um 1,1°C, og birtar vísindagreinar sýna, að áhrifa hefur alls staðar orðið vart, og einnig að áframhaldandi hlýnun getur haft í för með sér mjög harkalegar afleiðingar fyrir lífríki og þjóðfélög."

Þarna er farið á hundavaði yfir kenningar loftslagskirkjunnar, en ekkert vikið að gagnrýninni, t.d. frá tímaraðasérfræðingum á meðal tölfræðinga, sem prófessor Helgi Tómasson, gerði skilmerkilega grein fyrir í Morgunblaðsgrein 14. október 2021, en þeir sjá ekkert benda til afbrigðilegrar hlýnunar frá upphafi iðnbyltingar eftir að hafa rannsakað hitastigsþróunina á jörðinni undanfarin 2000 ár.  Þá benda gervihnattamælingar hitastigs, sem prófessor John Christy o.fl. við UAH hafa rannsakað, til mun minni hitastiguls (0,1°C/10 ár) en IPCC ályktar á grundvelli sinna reiknilíkana, sem prófessor Christy telur gölluð.  Hann telur IPCC ekki taka nægilegt tillit til aukinnar útgeislunar frá gufuhvolfinu með vaxandi hitastigi, sem hefur sjálfreglandi áhrif á hitastigsþróunina. Þekkt er lögmálið um, að geislun frá flötum fylgi hitastigi þeirra í °K í 4. veldi. 

Síðan tekur við ótrúlegur málflutningur hjá Halldóri Björnssyni.  Hann kveður losun mannkyns á CO2 frá upphafi iðnbyltingar nema 2400 Gt, og að við 2700 Gt muni "hlýnunin far[a] yfir Parísarviðmiðin" samkvæmt áætlun.  Þá "versna líkur á, að hlýnun verði minni en 1,5°C; verði viðbótarlosunin 500 Gt CO2, eru aðeins helmingslíkur á, að hlýnun haldist innan við 1,5°C.  Fyrir 2°C markið versna líkur við 900 Gt CO2 viðbótar losun, og helmingslíkur fást við 1350 Gt CO2 losun."  

Þetta er álíka viturlega fram sett og hjá lækni, sem mundi segja við sjúkling sinn í dag, að lífslíkur hans muni versna á næsta ári m.v. núverandi ár. Þá er furðulegt að setja fram eitthvert gildi, sem valdi aðeins 50 % líkum á atburði.  Hvað er eiginlega á bak við þetta ?  Kenning Fouriers og Arrheniusar um gróðurhúsaáhrif getur ekkert um, að líkindareikningi þurfi að beita til að reikna hlýnunina út m.v. gefna aukningu á styrk CO2.  Manni dettur helzt í hug, að eðlisfræðin, sem að baki reiknilíkönum IPCC er, sé á reiki, og að þau gefi þess vegna mismunandi niðurstöður.  Samkvæmt prófessor John Christy, sem starfaði áður í rýnihópi IPCC, en var settur í skammarkrókinn vegna gagnrýni sinnar á starfsaðferðir IPCC, eru þau öll með böggum hildar, þó mismiklum. 

Síðasta tilvitnunin í þessa grein er til að sýna dæmi um hræðsluáróðurinn, sem beitt er og hefur skotið mörgum skelk í bringu, sem engin furða er:

"Þetta þýðir, að mjög lítill tími er til stefnu áður en ekki má losa meira [m.v. 50 % líkur ? - innsk. BJo].  Vinnslu jarðefnaeldsneytis úr nýjum olíu- og gaslindum verður líklega að stöðva löngu áður en þær verða uppurnar.  Þessi staðreynd er ástæða þess, að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Gueterres, hvetur þjóðir til að hætta leit að jarðefnaeldsneyti, stöðva niðurgreiðslu þess og styðja í staðinn uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa."

Fjárfestar vita, hvað klukkan slær, og hafa þegar dregið úr fjárveitingum til rannsókna á nýjum vinnslusvæðum fyrir olíu, gas og kol.  Þetta er þegar farið að hafa áhrif til hækkunar orkuverðs hvarvetna í heiminum, sem gerir auðvitað fátækum þjóðum enn erfiðara fyrir en áður að skrimta. Á meðan þetta orkubreytingaskeið varir, a.m.k. þar til hlutdeild kolefnisfrírra orkugjafa hefur vaxið til mikilla muna og þar með dregið úr spurn eftir jarðefnaeldsneytinu, má búast við háu verði á því.  Það eykur ekki líkur á því, að opinberum niðurgreiðslum á því verði hætt, þar sem þær eru enn við lýði, en í Gljáskógum náðist aðeins fram loðið orðalag um að draga úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti, ef þær eru óskilvirkar.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hvað skyldi Gljáskógadramað hafa kostað alls ? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Þjóðverjar framleiddu flugvélaelsneyti eftir Fischer-Trops aðferð. Var þar fríað Vetni með því að leiða gufu yfir glóandi kol? Eða hvernig? Vantar okkur ekkki góða aðferð til að fría vetni úr jarðefnaeldsneyti.? Hvað er til ráða? Er Pútín með eitthvað nýtt?  Er ekki rafgreining alltof dýr?

Halldór Jónsson, 14.11.2021 kl. 11:47

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Eldsneytissaga Þriðja ríkisins er athyglisverð.  Aðalvöntunin var á háoktanbensíni fyrir flugvélarnar. Þróun þotuhreyfilsins var knúin áfram af þessari vöntun.  Þotan hefði veitt Luftwaffe yfirráð í lofti, hefði hún farið í loftið 1942.  V2 flaugin var knúin kartöflualkóhóli.  Olía fyrir dísilvélarnar var framleidd úr koxi, sem fékkst með hitun kola í súrefnissnauðu umhverfi, og síðan fékkst gervioía með vetni og kolefni úr þessu koxi.  Vetni er losað úr jarðgasi og kolum í gufu enn.  Það er hægt að fanga CO2 og farga í jörð.  Vatnsorkulönd eru  samkeppnishæf við þessa aðferð, og kostnaður við rafgreininguna sjálfa lækkar hratt um þessar mundir. 

Bjarni Jónsson, 14.11.2021 kl. 13:40

3 Smámynd: Hörður Þormar

Hörður Þormar, 14.11.2021 kl. 20:32

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Afar áhugavert myndband, Hörður, þakka þér fyrir það.  Mér finnst sýn höfundarins sennileg.  Um daginn reis benzínverð í BNA um tíma upp í svipað verð og talað er um í myndbandinu, að kosti núna að framleiða gerviolíu eða rafolíu.  Nýtnin í framleiðsluferlinu mun fara hækkandi.

Bjarni Jónsson, 14.11.2021 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband