Mismunun ríkisvaldsins á sviði gjaldtöku af orkufyrirtækjum

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 2016 féllst þáverandi ríkisstjórn (með bréfi utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur) á allar kröfur ESA - Eftirlitsstofnunar EFTA - um verðlagningu á afnotarétti lands og vatnsfalla til orkufyrirtækja. Í megindráttum snerust þessar kröfur ESA um jöfnun samkeppnisstöðu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækju til afnota af vatnsréttindum og landi í eigu ríkisins til orkuvinnslu.  Ætla má, að sömu jafnaðarsjónarmið gildi um jarðgufu, en hún er óalgeng á Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). 

Allir skyldu sitja við sama borð og greiða "markaðsvirði", en hvernig slíkt markaðsverð skyldi ákvarða, fylgdi ekki sögunni.  Það er annmörkum háð að finna, hvaða verð markaðurinn vill greiða fyrir slík verðmæti án opins útboðs og þá á Innri markaði ESB, ef marka má hliðstæðar kröfur Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, sem líka veita ríkisorkufyrirtækjum forgang að vatnsréttindum ríkisins, t.d. Frakklandi.  

Framkvæmd þessarar skuldbindingar íslenzka ríkisins gagnvart ESA bögglaðist fyrir íslenzka ríkinu, og ekkert hefur orðið úr útboði, enda svaraði norska ríkisstjórnin svipaðri kröfu ESA á hendur norska ríkinu nokkrum árum seinna snöfurmannlega þannig, að ráðstöfun orkulinda í eigu norska ríkisins væri utan við gildissvið EES-samningsins og þess vegna ekki í verkahring ESA, og þar við situr þar, en það er ekki líklegt, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé af baki dottin, því að bullandi innbyrðis ósamræmis gætir í ráðstöfun íslenzka ríkisins. Munurinn á viðbrögðum íslenzku og norsku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfu um að hleypa erlendum orkufyrirtækjum að rekstri íslenzkra og norskra virkjana er sorglegur.

Ráðstöfun vatnsréttinda íslenzka ríkisins hlýtur að falla undir íslenzk samkeppnislög, en það er auðvitað með öllu ótækt að fallast á almennt útboð þessara verðmætu réttinda á EES-svæðinu, eins og Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, gerði  árið 2016, en þá var dýralæknirinn Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, forsætisráðherra. 

Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um "vatnsréttindi virkjana" fjallaði um nýlega samninga íslenzka ríkisins við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi.  Fréttin bar fyrirsögnina:

"Samið um mikil verðmæti",

og hófst þannig:

"Landsvirkjun greiðir ríkinu 90 MISK/ár [milljónir] fyrir afnot af þjóðlendum til rafmagnsframleiðslu í 6 vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár-Tugnaársvæðinu og hluta afls í þeirri 7. Uppsett afl, sem samningurinn nær til, er liðlega 800 MW eða sem svarar til liðlega 40 % af uppsettu afli allra vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins.  Hluta þessara virkjanaréttinda hafði Alþingi veitt Landsvirkjun án nokkurra skilyrða um endurgjald, en eigi að síður samdist svo um, að greitt yrði af öllum virkjununum, nema upphaflegu Búrfellsvirkjun [210 MW], og miðast gjaldið mikið við niðurstöðu dómsdóla um vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar." [Upphaflegu vatnsréttindin vegna Búrfells má skoða sem stofnframlag í Landsvirkjun, sem nú ber ávöxt - innsk. BJo.]

Af þessari upphæð að dæma fyrir nýtingu á orku, sem er a.m.k. 5500 GWh/ár, er um hreinan málamyndagjörning af hálfu ríkisins og fyrirtækis þess, Landsvirkjunar, að ræða, því að árlegt gjald er aðeins um 0,4 % af árlegum tekjum, sem búast má við að fá fyrir þessa orku að jafnaði m.v. núverandi samninga. Þetta er hlálega lágt og stingur algerlega í stúf við gjaldið, sem ríkið innheimtir af 3. aðila fyrir vatnsréttindi smávirkjana (<10 MW) á ríkisjörðum. 

Þarna mismunar ríkið aðilum á markaði með þeim hætti, að klárlega varðar við samkeppnislög.  Jafnframt býður ríkisvaldið hættunni heim, að ESA fetti fingur út í þessa stjórnsýslu og færi málið á endanum fyrir EFTA-dómstólinn, ef íslenzka ríkið ekki sér að sér og gætir jafnréttissjónarmiða. Það yrði ekki ferð til fjár fyrir íslenzka ríkið.

Um ESA-þáttinn skrifar Helgi Bjarnason m.a.:

"Það var síðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016 um, að það teldist ólögleg ríkisaðstoð til orkufyrirtækja að heimila þeim að nota orkuréttindi í opinberri eigu án endurgjalds, sem ýtti á frekari undirbúning og samninga við Landsvirkjun."

Samningar af þessu tagi á milli skyldra aðila hljóta að gefa bæði Samkeppniseftirlitinu og ESA "blod på tanden" og eru þess vegna óskynsamlegir.  Forsendurnar eiga alls ekki við, þar sem miðað er við dóm Hæstaréttar í deilu Fljótsdalshrepps við Landsvirkjun.  Þar var Landsvirkjun dæmt til að greiða eins konar aðstöðugjald til landeigendanna, 1,4 % af stofnkostnaði virkjunarinnar á ákveðnu árabili, en Landsvirkjun dregur frá afskriftir, sem er út í hött, því að verið er að bæta landeigendum meint tjón (þeir hafa nú reyndar fengið laxveiðiá í kaupbæti), en ekki verið að veita þeim hlutdeild í verðmætasköpun virkjunarinnar.  Öllu er þess vegna snúið á haus í þessu máli.

Helgi Bjarnason ritaði samdægurs framhaldsfréttaskýringu um sama mál í Morgunblaðið, en nú með aðaláherzlu á meðferð og stórlega mismunun ríkisvaldsins á einkafyrirtækjum, sem berjast við að nýta lítil vatnsföll.  Fyrirsögnin var sláandi:

 "Sama gjald fyrir smávirkjun og greitt er fyrir Sigölduvirkjun".

Hvernig í ósköpunum má það vera, að stjórnsýslan á Íslandi mismuni fyrirtækjum svo herfilega, að refsivöndur eftirlitsstofnana sé einboðinn ?  Fréttaskýringin hófst þannig:

"Sláandi munur er á kjörum, sem ríkið býður stóru orkufyrirtækjunum og þeim, sem byggja svo kallaðar smávirkjanir. ... [Eigandi 9,9 MW, í mesta lagi 70 GWh/ár, greiðir 15,7 MISK/ár fyrir afnotaréttinn og tvöfalt meira að 10 árum liðnum frá gangsetningu.  Af Sigölduvirkjun, 150 MW, 920 GWh/ár, greiðir Landsvirkjun aðeins 15,7 MISK/ár fyrir sinn afnotarétt.  Svona mismunun er í einu orði sagt vond stjórnsýsla, sem Samkeppnisstofnun og/eða ný ríkisstjórn þarf að hafa forgöngu um að laga - innsk. BJo.]

Útreikningar á hlutfalli leigu af rekstrartekjum  sýna sömuleiðis, að Landsvirkjun greiðir að jafnaði 0,39 % af tekjum virkjana sinna, á meðan eigandi smávirkjana greiðir að jafnaði 3-10 % af sínum tekjum.  

Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru ráðandi í orkuöflun í landinu.  Aðeins HS orka nær inn í þann klúbb [úr hópi einkafyrirtækja].  Raunar eru einkafyrirtæki að kveða sér hljóðs með byggingu lítilla virkjana.  Þar hefur HS orka einnig séð tækifæri til vaxtar."

Það er eðlilegt að leggja framlegð virkjunar (ekki tekjur) til grundvallar gjaldtöku fyrir afnot af vatnsréttindum og landi ríkisins, og það er jafnframt eðlilegt, að þessi gjaldtaka sé óháð eignarhaldi á virkjun.  0,39 % af söluandvirði raforkunnar er allt of lágt afgjald, og  10 % er rányrkja í nafni ríkisins.  Á bilinu 3 %-5 % af framlegð virðist eðlilegt afgjald fyrir þessi réttindi. 

Hér yrði um umtalsverðar tekjur ríkisins að ræða, sem freistandi væri að leggja í sjóð, sem stæði straum af verkefnum í þágu umhverfisverndar.  Þar er af nógu að taka, og mætti nefna stærsta umhverfisvandamálið á Íslandi, uppblástur lands, en brýn þörf er á að snúa vörn í sókn í þeim efnum og klæða landið gróðurþekju að nýju.

Til að undirstrika óréttlætið, sem ríkir í þessum málum, er rétt að vitna áfram í téða fréttaskýringu Helga Bjarnasonar:

"Stofnendur smávirkjana, sem nýta jarðeignir ríkisins, fá allt aðrar kröfur um gjald fyrir afnot réttinda hjá fjármálaráðuneytinu en stóru virkjanafyrirtækin fá hjá forsætisráðuneytinu, þegar samið er um að virkja á þjóðlendu.

Kjörin, sem Landsvirkjun og væntanlega önnur fyrirtæki, sem virkja stórt, fá hjá forsætisráðuneytinu ... [nema 0,39 % af söluandvirði rafmagns - innsk. BJo].  Til samanburðar má geta þess, að fram hefur komið opinberlega, að Arctic Hydro, lítið virkjanafyrirtæki, sem er að byggja sig upp, þarf að greiða 3 % af brúttótekjum í upphafi til að fá leyfi til að byggja 9,9 MW Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, og leigan fer svo stighækkandi, þar til gjaldið verður 10 % eftir 10 ár frá gangsetningu.   Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, staðfestir þessar tölur.  Aðspurður segir hann, að sveitarfélagið hafi verið tilbúið til að leigja réttindin fyrir 2,5 % af tekjum í upphafi, en ríkið gert kröfu um 3 %, og þannig muni samningurinn verða." 

Það ríkir stjórnsýsluleg óreiða á þessu sviði, þar sem 2 ráðuneyti beita mjög ólíkum aðferðum við að ákvarða gjaldheimtuna.  Það er ótækt, þar sem ríkja þarf festa, samræmi og jafnræði.  Sennilega er ekki vanþörf á endurskoðun lagasetningar áður en ESA dregur fram pískinn.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Skarplega athugað að vanda kollege Bjarni.

Hvernig er þetta í Bandaríkjunum? Hefur ekki ríkið öll vatnstéttindi á sinni könnu?Bara indíánar mega veiða frítt í öllum laxveiðiám. Aðrir verða að leigja af ríkinu.Er ekki betra að ríkið taki bara öll vatnsréttindi til sín og öll verðmæti fyrir neðam ákveðna metratölu(þar sem háhiti og olía er möguleg gull og og kol  og annað gúmulaðe. Af hverju eiga einhverjir gróðapungar sem hafa fyrir tilviljun hangið á einhverju eyðikoti að fara að græða á því að  heildin fari að nýta. Þeir eiga ekki kröfu á eitt eða neitt frekar en Arabarnir sem fengu auðæfin sem þeir kunna ekkert á af því að hvíti maðurinn fann olíu undir rassinum á þeim sem þeir höfðu ekkert vit á og sá hvíti hvar svo vitlaus að semja við þá um þessi svimháu gjöld. 

Halldór Jónsson, 18.12.2021 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband