Færsluflokkur: Heilbrigðismál
10.6.2024 | 18:25
Bólusetningahneyksli aldarinnar
Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi með vinstri græningjann Svandísi Svavarsdóttur trónandi á toppinum leyfðu stórhættulega tilraun á þjóðinni með genatengd efni án viðunandi reynslu af þeim í tvöföldum blindprófum og án þess að huga að langtímavirkninni. Þetta var óvenju mikil áhætta vegna nýrrar lyfjatækni, en samt var ekki hikað við að sprauta þessum óreyndu efnum í alla aldurshópa, þótt áhættan af sýkingu SARS-CoV-2 veirunnar legðist mjög misjafnlega á aldurshópana. Hér er maðkur í mysunni og skortur á vísindalegum vinnubrögðum og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins, eins og Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur, hefur bent á. Þetta mál þarf að rýna gaumgæfilega til að stika út varfærnari og ábyrgari leiðir, þegar næsti heimsfaraldur ber að dyrum.
Helgi Örn Viggósson, hugbúnaðarsérfræðingur, og Þorgeir Eyjólfsson, eftirlaunaþegi, hafa lagt mikið að mörkum í þessa veru með skrifum sínum í Morgunblaðið. Ein slík grein birtist 3. júní 2024 undir fyrirsögninni:
"Kóvíid-bóluefnin krabbameinsvaldandi".
Þar voru sláandi upplýsingar frá Japan, sem vegna lýðheilsu á Íslandi er ekki hægt að skella skollaeyrum við:
"Japanskir vísindamenn hafa staðfest tengsl á milli bólusetninga og 6 tegunda krabbameins í stærstu rannsókn til þessa á skaða af völdum kóvid-mRNA-bóluefnanna. Gagnagrunnur með öllum 123 milljónum Japana lá undir í rannsókninni, en Japanir eru ein bólusettasta þjóð heimsins. Krabbameinin eru í eggjastokkum, munnholi (vörum, munnholi og barka), blöðruhálskirtli, brisi og brjóstum auk hvítblæðis. Þessar tegundir krabbameins eru allar þekktar sem estrógenviðtaka alfa(ERa)-næm krabbamein."
Þetta er stórmerkilegar upplýsingar, sem þarna berast af japanskri vísindarannsókn, sem sannar stórfelld heilsuskaðleg áhrif mRNA-efnanna, sem sprautað var í fólk á vegum heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og víðast hvar í heiminum. Hvers vegna kemst frétt af þessu tagi ekki í hámæli ? Afleiðingarnar eru of alvarlegar fyrir þá, sem létu glepjast af yfirvöldunum. Þarna er skúrkabandalag lyfjamafíunnar, embættismanna og þeirra stjórnmálamanna, sem mesta ábyrgð báru. Á Íslandi voru það tveir vinstri græningjar, forsætisráðherrann, sem hoppaði frá borði í erindisleysu, Katrín Jakobsdóttir, og heilbrigðisráðherrann, mistakasmiðurinn Svandís Svavarsdóttir. Það hefði verið svakalegt að sitja uppi með Katrínu sem forseta lýðveldisins. Það hlýtur að verða gert veður út af þessu hrikalega máli hérlendis sem erlendis og ekki ólíklegt, að málssóknir fylgi, því að hér var farið offari og mannslát urðu afleiðingarnar.
"Í ritrýndri rannsókninni, sem birtist í apríl [2024], var aldursleiðrétt dánartíðni af völdum 20 mismunandi tegunda krabbameins í Japan könnuð með því að nota opinberar tölur um dauðsföll, smits af völdum SARS-CoV-2 og bólusetningartíðni. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem markar tímamót, sýna, að dauðsföllum af völdum krabbameins fjölgaði ekki í Japan fyrr en með tilkomu fjöldabólusetninganna. Rannsóknin tekur af allan vafa um, að umframdauðsföllin í Japan megi rekja beint til skaða af völdum bóluefnanna, en ekki veirunnar."
Athyglisvert er, að afleiðingar þess að sprauta téðum genetískum efnum inn í líkamann koma mjög fljótt fram. Ef yfirvöldin hefðu leyft rannsóknum á virkni og aukaverkunum efnanna að ganga sinn gang, hefðu alvarlegar afleiðingar komið í ljós áður en leyfi til notkunar efnanna hefðu verið gefin. Komið var í ljós, að ending efnanna til að hamla smiti var allsendis ófullnægjandi, en samt var bráðabirgða leyfi gefið, enda átti að leysa málið með því að búa til gullmyllu fyrir lyfjaiðnaðinn. Fyrir þetta ógeðfellda ráðabrugg guldu margir með lífi sínu.
"Áður höfðu komið út nokkur hundruð vísindagreinar, sem sýna okkur, hvernig efnin skaða ónæmiskerfið á margvíslegan hátt, sem gerir fólk útsettara [næmara] fyrir krabbameinum, en á s.l. ári hafa komið út, samkvæmt vitneskju höfunda, a.m.k. vel á 3. tug ritrýndra vísindagreina, sem einblína á, hversu krabbameinsvaldandi þau eru.
Íslendingum ættu ekki niðurstöður vísindamannanna á óvart, því [að] hérlendis staðfesti embætti landlæknis hliðstæðar niðurstöður og Japanir hafa nú fundið með útgáfu dánarmeinaskrár fyrir fyrir árið 2022. Dauðsföllum af völdum illkynja æxla á Íslandi fjölgaði um 9 % á árinu 2022. Illkynja æxli í blöðruhálskirtli dró 21 % fleiri til dauða en á fyrra ári, eitilæxli 17 %, mergæxli 40 %, æxli í brisi 23 %, og dauðsföllum af völdum hvítblæðis fjölgaði um 33 % frá fyrra ári."
Eru hrikalegar afleiðingar þess að sprauta óreyndum genafræðilegum efnum í þjóðina mörgum sinnum holt og bolt of stórtækar og alvarlegar til að íslenzka stjórnkerfið ráði við afbrotahlið málsins. Íslenzka stjórnkerfið er ábyrgt fyrir léttúðugri umgengni við tilraunalyf, sem fyrirskipað var að sprauta í alla þjóðina oft, þótt áhætta aldurshópanna væri afar misjöfn gagnvart vágestinum, SARS-CoV-2-veirunni, stökkbreyttri. Þau, sem blasir við að verða að axla ábyrgð á aðför að lýðheilsunni eru þáverandi heilbrigðisráðherra, landlæknir og þáverandi sóttvarnarlæknir.
"Þrátt fyrir ritrýndar og vandaðar japanskar rannsóknarniðurstöður, sem sýna fram á alvarlegar aukaverkanir og krabbameinsvaldandi áhrif kóvíd-mRNA-efnanna, og þrátt fyrir upplýsingar úr dánarmeinaskrá landlæknis um dauðsföll af völdum krabbameins á árinu 2022, finnast enn á Íslandi læknar, sem átta sig ekki á skaðsemi kóvíd-tilraunabóluefnanna. Umframdauðsföllin
22.3.2024 | 10:35
Heilbrigðiskerfi í viðjum pólitískrar kreddufestu
Nú hefur ríkið tekið á sig mikla fjárhagsbagga vegna jarðhræringa og eldgosa á Suðurnesjum og vegna kjarasamninga. Skuldir eru miklar fyrir hjá ríkissjóði og frekari skuldasöfnun vart fær leið, þar sem við það ykist peningamagn í umferð, sem veldur verðbólguþrýstingi upp á við. Þess vegna er nú boðað aðhald í rekstri og frestun fjárfestinga. Einboðið er að hætta við fjármögnun vanhugsaðrar og algerlega óarðbærrar borgarlínu og helzt að skera bastarðinn "Betri samgöngur" niður við trog. Í staðinn ætti að koma "Létt borgarlína", þar sem miðað er við strætisvagnaakrein hægra megin við núverandi akbrautir, þar sem þörf er talin á greiðfærari leið og nokkur arðbærustu mislægu gatnamótin verði byggð, en hvorki stokkar né göng að svo stöddu, og glórulaust er að setja núverandi hönnun Fossvogsbrúar í framkvæmd. Hana þarf að endurhanna, svo að kostnaðurinn verði eðlilegur.
Heilbrigðiskerfið liggur eins og farg á ríkissjóði með öllum göllum einokunar ríkisins, sem nöfnum tjáir að nefna. Þarna er unnt að spara stórfé árlega og bæta þjónustu við sjúklinga með styttingu biðlista. Hægt er að bjóða út mörg læknisverkin og taka þeim tilboðum, sem lægst eru og fullnægja útboðsskilmálum og jafngilda sparnaði fyrir ríkissjóð. Hvorki verkkaupa né þingmönnum kemur þá við, hvernig innbyrðis kostnaður hvers bjóðanda skiptist. Hinir forstokkuðu vinstri grænir hafa löngum kyrjað, að ekki mætti græða á að veita læknisþjónustu. Hvers vegna í ósköpunum má það ekki ? Þessi vinstri meinloka er meginskýringin á sífellt lengri biðlistum eftir aðgerðum.
Morgunblaðið gerði þetta að umræðuefni í vandaðri forystugrein 5. marz 2024 undir kjörorðinu:
"Forðumst kreddur"
"Ólíkar áherzlur stjórnmálaflokka þurfa ekki að koma á óvart og ættu út af fyrir sig fekar að vera fagnaðarefni, enda auka þær val kjósenda. Þó eru vonbrigði að sjá, að flokksfundur VG um helgina [2.-3. marz 2024] sá ástæðu til að lýsa "áhyggjum af aukinni áherzlu á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, kerfi, sem á ekki að vera gróðalind fárra rekstraraðila, heldur sameiginlegt velferðarkerfi okkar allra".
Þarna er Vinstri hreyfingunni grænu framboði rétt lýst. Þar sem einokunarkrumla ríkisvaldsins hefur náð að læsa klóm sínum í einhverja starfsemi, þar skal hvorki ræða um kostnað né leiðir til sparnaðar í þágu skattgreiðenda eða bætta þjónustu, ef þessar úrbætur munu fela í sér að draga úr einokunarstarfseminni og virkja einkaframtakið á samkeppnisgrundvelli. Þetta er öfugsnúinn embættismannasósíalismi, sem óttast að missa spón úr aski sínum. Ef þetta er sannur sósíalismi, þá á hann sér engrar framtíðar von, enda stríðir hann gegn heilbrigðri skynsami. VG hefur dagað uppi undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, versta tvískinnungs í emætti forsætisráðherra á fullveldistímanum, og er flokkur hennar löngu orðinn pólitískur steingervingur.
"Þarna er ályktað aftan úr grárri forneskju og ekkert tillit tekið til reynslunnar af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu eða samanburðar á einkarekstri og opinberum rekstri á þessu sviði."
VG er eins og sértrúarsöfnuður, sem höndlað hefur "stórasannleik". Á slíkan söfnuð hrífa engin rök, sem grafa undan "stórasannleik". Það kvarnast úr söfnuðinum, en eftir sitja "die hards" réttrúnaðarmenn. Nú er orðið auðvelt að sýna fram á sparnaðinn við að minnka umsvif einokunarinnar með því að færa sum verkefni til samkeppnigeirans og hægt að sýna fram á gríðarlega sparnaðarmöguleika vegna mikils munar á einingarkostnaði Háskólasjúkrahússins og viðurkenndra læknastofa úti í bæ. Það er eins og VG loki öllum skilningarvitum og berji hausnum við steininn. Slíkur stjórnmálaflokkur er auðvitað ekki á vetur setjandi, og þetta skynja æ fleiri kjósendur. Spurningin er hins vegar, hvort þeir fara úr öskunni í eldinn með því að ljá Kristrúnu Frostadóttur og flokki hennar atkvæði sitt. Hún er grunuð um að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum á fölskum forsendum; að bera kápuna á báðum öxlum, því að ekki er til þess vitað, stofnanir Samfylkingarinnar hafi kúvent í stórum málum.
"Skammt er t.d. síðan greint var frá könnun á ánægju skjólstæðinga heilsugæzlunnar á höfuðborgarsvæðinu með þá þjónustu, sem þar er í boði. Þar fer ánægja almennt minnkandi, sem ætti að vera áhyggjuefnið, en athygli vekur, að einkareknu heilsugæzlustöðvarnar raða sér í 4 efstu sætin í könnuninni. Furðulegt er, að nokkrum dögum eftir, að slík könnun er birt og ekki sú fyrsta, sem sýnir ánægju með einkarekstur á heilbrigðissviði umfram ríkisreksturinn, skuli stjórnmálaflokkur telja ástæðu til að álykta sérstaklega gegn einkarekstri."
Allt er hér samkvæmt bókinni. Það ætti öllum að vera orðið fyrir löngu ljóst, að opinbert eignarhald hentar mjög illa til að fást við viðkvæma og flókna þjónustu. Hið opinbera getur hvorki keppt við einkaeignarhald í gæðum né kostnaði slíkrar þjónustu. Vinstri grænir eru steingervingar, sem leggja allt aðra mælistiku á þessi mál. Þeir loka eyrunum fyrir einföldum staðeyndum á borð við upplifun neytenda á veittri þjónustu og fjárhagsbyrði skattgreiðenda af henni, ef þessar staðreyndir mæla gegn opinberu eignarhaldi og rekstri, sem þeir, líklega af rangtúlkun minni spámanna, telja, að eitt samræmist Kómmúnistaávarpi Karls Marx, sem var misheppnaður maður, en engu að síður átrúnaðargoð fólks með einkennilega lífssýn.
"Ekki er langt síðan Vinstri græn réðu heilbrigðisráðuneytinu. Þá var þeirri stefnu, sem lýst er í ályktuninni, fylgt mjög markvisst og með slæmum afleiðingum. Þetta birtist t.a.m. í því, að ríkið vildi ekki semja við einkaaðila hér á landi um brýnar aðgerðir, m.a. liðskiptaaðgerðir, en sendi sjúklinga þess í stað utan, þó að það kostaði margfalt meira. Afleiðingarnar voru lítil afköst, langir biðlistar og mikil óþægindi og jafnvel þjáningar fyrir sjúklinga."
Þessi hegðun ríkisvalds í höndum forstokkaðs sósíalista lýsir ótta hins opinbera kerfis við einkaframtakið á þeim sviðum, sem lotið hafa einokun ríkisins. Sósíalistinn vill ekki, að neytendur fái slíkt val, því að vitneskjan, sem slíkt val veitir, mun grafa hratt undan einokun ríkisins. Barnaleg lygin, sem haldið hefur verið að fólki um, að ríkið "verði" að sjá um þessa þjónustu, verður aðhlátursefni. Þá er reynt að kynda undir öfundinni með þvælu á borð við, að enginn megi græða á þessari þjónustu, en er ekki undarlegt, að hvarvetna annars staðar í heiminum er það talið sjálfsagt, enda smurfeiti góðs árangurs. Það hlýtur að vera þrautum háð að vera kaþólskari en páfinn.
"Kreddur verða að víkja til að hægt sé að ná árangri, og á það við í heilbrigðiskerfinu, eins og annars staðar. Skilning á þessu mátti sjá í aðsendri grein hér í blaðinu í liðinni viku, þar sem Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði áherzlu á að beita þyrfti þeim ráðum, sem dygðu í heilbrigðismálum, þ.m.t. einkarekstri, sem hún benti á, að hefði gefizt vel. Séu þingmenn og stjórnmálaflokkar opnir fyrir lausnum, sem duga, er hægt að ná árangri í heilbrigðismálum, stytta biðlista og bæta þjónustu. Leið VG felur í sér aukin útgjöld, en lakari þjónustu."
VG mun aldrei láta af kreddum sínum um sem allra umsvifamestan (mannaflsfrekastan) ríkisrekstur, því að sú túarjátning er grundvöllur þessa jaðarflokks, sem nú hefur spilað rassinn úr buxunum og mun hverfa í gleymskunnar dá. Það eru þó fleiri slæmir á þingi. Þótt hinn nýi formaður Samfylkingarinnar reyni að gefa henni ögn nútímalegri blæ hægri kratisma, er ekkert fast í hendi, hvað það snertir, þegar flokkurinn verður búinn að hafa gott af kjósendum. Útibúið, sem af einhverjum dularfullum ástæðum kallar sig Píratahreyfinguna, mun bara fylgja höfuðbólinu.
16.3.2024 | 16:06
Það verður að komast til botns í COVID-19 hneykslinu
Það er ýmislegt á reiki um uppruna SARS-CoV-2 veirunnar, um gagnsemi aðferðarfræðinnar í baráttunni við hana og um gagnsemi og skaðsemi tilraunaefnanna, sem sprautað var í fólk í nafni keppikeflisins hjarðónæmis, sem aldrei náðist. Það þarf að rannsaka þetta allt til að mynda grunn að nýrri stefnumörkun í sóttvarnarmálum, þegar lærdómur hefur verið dreginn af reynslunni af því, sem gert var í baráttunni við SARS-CoV-2.
Kínverjar halda því fram, að þessi veira hafi stokkið úr leðurblökum í menn á útimarkaði fyrir matvæli í borginni Wuhan í Kína. Þessi kenning hefur alltaf hljómað barnalega. Hvaða aðstæður voru fyrir hendi á þessum stað árið 2019, sem auðveldaði veirunni að leggja undir sig nýjan hýsil ? Það hafði hún ekki gert áratugum eða öldum saman í sambúðinni við "homo sapiens".
Ýmsir vísindamenn, sem rannsakað hafa téða veiru, sjá á henni manngerð ummerki. Skammt frá téðum útimarkaði í Wuhan stendur stór bygging, sem hýsir veirurannsóknir. Þar eru taldar fara fram tilraunir með veiruræktun í því augnamiði að ná fram ákveðnum eiginleikum. Vitað er, að stórveldin stunda þetta í hernaðarlegum tilgangi til að lama andstæðinginn, en þá þarf jafnframt að þóa mótefni, svo að veiran snúist ekki gegn skapara sínum. Sé SARS-CoV-2 ættuð af rannsóknarstofu, hefur hún sloppið út áður en téðri ræktunarstarfsemi lauk, því að hættan af henni fyrir ungt og hraust fólk var lítil og fór minnkandi með stökkbreyttum afbrigðum. Spánska veikin var miklu skæðari, svo að dæmi sé tekið, þó ekki sé minnzt á ebóluna.
Þann 31. janúar 2024 birtist fróðleg grein eftir Helga Örn Viggósson, hugbúnaðarsérfræðing, og Þorgeir Eyjólfsson, eftirlaunaþega, í Mogunblaðinu um viðbrögð íslenzka sóttvarnayfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni undir fyrirsögninni:
"Afsökun um reynsluleysi og vankunnáttu ekki lengur í boði".
Hún hófst þannig:
"Það voru mikil mistök að hefja að nýju örvunarbólusetningar gegn covid á haustmánuðum [2023] eftir að hafa hætt bólusetningum í lok apríl [2023]. Ákvörðunina um framhald bólusetninga tóku sóttvarnayfirvöld þrátt fyrir rannsóknarniðurstöður, sem staðfestu takmarkanir efnanna [til] smitvarnar, auk niðurstaðna fjölda rannsókna, sem sýna fram á skaðsemi efnanna fyrir heilsu almennings og sem sýna, að efnin eru þeim eiginleikum búin, að eftir því sem einstaklingurinn er bólusettur oftar, þeim mun líklegri er hann til að sýkjast af covid, þ.e. sjúkdómnum, sem bóluefnið átti að koma í veg fyrir.
Afleiðingar þessarar röngu ákvörðunar embættis landlæknis létu ekki á sér standa, því [að] dauðsföllum fjölgaði um 37 % á Íslandi í viku 42 [2023], sem byrjaði mánudaginn 16. október, borið saman við meðaltal látinna í vikunum tveimur þar á undan. Það var einmitt í viku 42, sem bólusetningar á hjúkrunarheimilunum hófust."
Það eru nokkrar tilvísanir í heimildir í þessum kafla, sem er sleppt hér. Þótt tilvísunum sé sleppt, verður að telja þessa hörðu gagnrýni á Landlæknisembættið, en sóttvarnalæknir er þar undir, vera vel rökstudda. Þá hafa höfundarnir fundið óyggjandi fylgni á milli upphafs þessara endurbólusetninga og aukinnar dánartíðni í landinu. Það er stórfurðulegt til þess að vita m.v. forsögu málsins, sem höfundarnir geta um, að ákveðið skuli hafa verið að hefja gagnslitlar og hættulegar bólusetningar með tilraunabóluefnum. Þarf að leita að peningaslóðinni í þessu máli til að finna einhverja haldbæra skýringu á þessu einkennilega ráðslagi ? Gagnsleysi og skaðsemi þessara tilraunaefna, sem sóttvarnalæknir vill dæla í fólk gegn ærnum kostnaði, blasa við leikmönnum. Það er maðkur í mysunni, sem verður að hreinsa burt áður en lengra er haldið.
"Þekkt eru skaðleg áhrif mRNA-efnanna á starfsemi hjartans, en helzti ráðgjafi sóttvarnayfirvalda hefur staðfest, að bólusetning gegn veirunni þrefaldi líkur á bólgu í hjartavöðva, og á annað þúsund ritrýndar vísindagreinar hafa komið út um, hvernig sprauturnar geta skaðað hjartað, þ.á.m. framskyggnar rannsóknir (þátttakendur mældir fyrir og eftir sprautu) með niðurstöðum, sem segja, að í kringum 3 % ungs fólks fái hjartavöðvabólgu, í langflestum tilvika einkennalaust, en getur engu að síður verið lífshættulegt ástand."
Það er stórundarlegt, að lyfjaiðnaðurinn og yfirvöld skuli nú hafa fellt úr gildi allar hefðbundnar varúðarreglur, sem krefjast margra ára blindrannsókna á afleiðingum fyrirbyggjandi og læknandi efna á mannslíkamann, eftir dýratilraunir. Það standa bara engin efni til þess arna gagnvart margstökkbreyttri SARS-CoV-2 veiru, sem er orðin tiltölulega meinlaus, og hefur reyndar alltaf verið meinlítil gagnvart óbældu ónæmiskerfi.
7.2.2024 | 10:59
Heilbrigðiskerfi Vesturlanda eiga í djúpstæðum vanda
Með hækkandi meðalaldri og hlutfallslegri fjölgun eldri borgara yfir 65 ára aldri stefna heilbrigðiskerfi Vesturlanda í þrot. Þetta á í ríkum mæli við á Íslandi. Þjóðin er ung, en "eldist hratt" og er ekki tiltakanlega meðvituð um hollt líferni, matarræði og hreyfingu, eins og útlitið ber með sér. Þess vegna stefnir í óefni, bæði með hina opinberu þjónustu og heildarkostnað hins opinbera við að fást við sjúkdóma borgaranna. Ekki hefur landlæknir bætt úr skák í verki, þótt heimasíða embættisins gæti bent til annars. Þetta embætti varð sér þokkalega til skammar, þegar fréttist af úkraínskum sálfræðingi hérlendis, sem sótti um starfsleyfi til embættisins. Það brást við með því að senda inn beiðni um umsögn til rússneskra yfirvalda. Eru engin mörk á heimsku embættismanna ?
Þegar fárið geisaði hér 2020-2021, sem nefnt er COVID-19, hér bara Kófið, þá stóð embættið og undirembætti þess, Sóttvarnalæknir, fyrir móðursýkislegri áróðursherferð fyrir alls kyns skaðlegum frelsisskerðingum og bólusetningum með handónýtum og skaðlegum tilraunabóluefnum (m-RNA), og heilbrigðisráðherrann, Svandís Svavarsdóttir, gaf út reglugerðir á færibandi samkvæmt forskrift þessara embætta. Það þarf að fara ofan í saumana á þessari embættisfærslu hérlendis til að draga af henni lærdóma, því að fleiri faraldrar munu berast hingað til lands og verða skeinuhættari en Kófið. Þá þarf löggjöfin og viðhorfin í ráðuneytinu og embættum þess að vera heilbrigðari og sjálfstæðari en raun var á í Kófinu.
Ef viðhorf dr Janusar Guðlaugssonar til heilsueflingar aldraðra næðu meiri hljómgrunni hérlendis, er engum vafa undirorpið, að eldri borgarar landsins væru við betri heilsu nú en raun er á. Versti óvinurinn er leti og sérhlífni ofan á óhollt matarræði, og þá er auðvitað voðinn vís og stutt í að verða lyfjaþræll, sem er ávísun á eymd og volæði. Vitlaust líferni lendir fljótlega í fanginu á vanbúnu og þunglamalegu að mestu ríkisreknu heilbrigðiskerfi eða réttara sagt sjúklingakerfi ríkissjóðs.
Morgunblaðið telur, að nýta megi betur og sóa minna í þessu kerfi, en hvernig ? Forystugrein blaðsins 9. janúar 2024 hét:
"Heilbrigðara heilbrigðiskerfi":
"Hið viðtekna svar við vandanum er, að auka verði fjárframlög, en þó gerðist þetta [danska heilbrigðiskerfinu hrakaði frá seinustu aldamótum - innsk. BJo], um leið og mjög var bætt í opinber fjárframlög til heilbrigðiskerfisins og fastráðnum læknum fjölgaði um 75 %. Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa.
Dönum hefur vissulega fjölgað á þessum tíma, en alls ekki í sama mæli [og kostnaðurinn - innsk. BJo], aðeins um 11 %. Þjóðin hefur líka gamlazt - um aldamót voru um 14 % Dana yfir 65 ára aldri, en eru nú 19 % - sem er talsvert, en vel viðráðanlegt.
Framfarir í læknavísindum hafa fjölgað meðferðarúrræðum og aukið eftirspurn, en framfarirnar hafa líka leitt til skjótari og auðveldari lækninga. Meira eftirlit og betri og snemmbærari greiningar minnka einnig kostnað, og miklar vonir eru bundnar við gervigreind.
Flest bendir til, að vandi danska heilbrigðiskerfisins sé því ekki fjárskortur, heldur sóun. Að kerfið sé of dýrt og mannafli illa nýttur; að þröngar faglegar skilgreiningar verði til þess, að léttvægari verkefnum sé ofhlaðið á þá, sem hafa mesta menntun og reynslu, en starfskraftar þeirra, sem hafa minni menntun og reynslu, vannýttir. Að aðalvandinn felist í stjórnun og skipulagi."
Hvers konar sjúkdómseinkennum rekstrar er verið að lýsa þarna ? Þetta eru dæmigerð einkenni opinbers rekstrar, sem harla ólíklegt er, að finnist á samkeppnismarkaði í einkarekstri. Það er ríkinu um megn að stunda svona flókinn rekstur með sæmilegu móti, og skiptir þá ekki máli, hvaða land á í hlut. Byltingar éta börnin sín, svo að affarasælast er að brjóta rekstur heilbrigðiskerfisins upp og bjóða hann út í stærðum, sem taldar eru henta útboðum. Sjúkratryggingar Íslands yrðu verkkaupinn af íslenzkum einkageira á heilbrigðissviði. Sparnaður kæmi líklega strax fram, og ekki þarf að óttast gæðarýrnun, enda yrði eftirlit með gæðunum.
"Skipulagsvandinn verður aðeins leystur, ef stjórnendur og starfsfólk hafa rétta hvata, hvata í kerfinu sjálfu, þar sem mælikvarðinn er ekki fjárframlög, heldur árangurinn.
Því er erfitt að koma við í miðstýrðu, opinberu kerfi, þar sem ríkið er bæði greiðandi og þjónustuveitandi. Í Danmörku hefur verið stungið upp á, að allir veitendur og birgjar - opinberir sem einkafyrirtæki - sitji við sama borð, fyrir opnum tjöldum, og keppi um verkefni og innkaup án þess, að hvikað sé frá markmiðum um jafnan aðgang landsmanna að heilbrigðiskerfinu, óháð efnahag.
Eins þurfi samanburðarhæfar upplýsingar um heilbrigðisstofnanir að liggja fyrir, t.d. um árangur, mistök og legudaga; kostnað veikindadaga og starfsmannaveltu. Bæði til að efla neytendavitund og -val og skapa sanngjarnt samkeppnisumhverfi með eðlilegum hvötum og aðhaldi. Allir myndu njóta ávinnings þess, en sóun haldið í skefjum.
Hreinskilin umræða um það má ekki heldur bíða á Íslandi. Heilbrigðiskerfið er gott, en það þarf að verða miklu betra. Til þess eru allir kostir."
Það eru áhöld um það, hvort íslenzka heilbrigðiskerfið geti talizt gott nú um stundir. Þessi danska tillaga um allsherjar samkeppni um heilbrigðisþjónustu til að vega að rótum stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera vegna hennar er góðra gjalda verð og kann að vera framkvæmanleg í Danmörku, en hér gæti hún verið of stór í sniðum til að komast nokkurn tímann til framkvæmda.
1.2.2024 | 13:53
Ríkisbúskapur í hönk
Það er undantekningarlaus regla, að þar sem ríkisbúskapi er leyft að þenjast út og gleypa kæfandi stóra sneið af "þjóðarkökunni", þar lendir þjóðarbúskapurinn í kreppu innan tíðar. Þetta gerist í Evrópu, Suður-Ameríku og hvarvetna í heiminum. Svíar urðu fyrir þessu undir "sósíaldemókrötum" - jafnaðarmönnum og söðluðu um í tæka tíð.
Oft er vitnað til Argentínu í þessu sambandi með allar sínar náttúruauðlindir og með mikla þjóðarframleiðslu á mann á heimsvísu á sinni tíð. Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar jafnan af yfirgripsmikilli þekkingu. Staksteinar Morgunblaðsins vitna til skrifa hennar 11. janúar 2024 undir hrollvekjandi fyrirsögn:
"Þörf áminning".
"Hún rifjar upp, að ekki sé ýkja langt síðan Argentína var "glæst efnahagslegt veldi. Landsframleiðsla á hvern íbúa landsins, sem byggði á útflutningi fjölbreyttra landbúnaðarafurða, var ein sú mesta í heimi. Í dag er landsframleiðsla á mann ríflega fimmfalt meiri á Íslandi en í Argentínu.""
Á Íslandi er grundvöllur hagvaxtar og VLF/íb líka reistur á hagnýtingu náttúruauðlinda, aðallega á fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða og á hagnýtingu vatnsorkulinda og jarðhita til raforkuvinnslu og húsnæðisupphitunar. Rafmagnið er selt í stórum stíl með langtímasamningum til útflutningsiðnaðar, sem framleiðir ál, kísiljárn og kísil. Úrvinnsla og sérhæfing í framleiðslu þessara efna fer vaxandi hjá iðjuverunum, sem hér eiga í hlut, og þar með vaxa verðmætin. Fyrirtæki þessi standa framarlega í framleiðslutækninni, sem hefur leitt til hárra gæða og tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Á sviði nýtingar lifandi auðlinda sjávar er óhætt að segja, að Íslendingar standi í fremstu röð. Fiskveiðarnar hafa alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfbærar, sem er óalgengt á heimsvísu, og fiskvinnslan nýtir hráefnið betur en annars staðar þekkist. Framleiðni sjávarútvegs er há, enda tæknistigið hátt, og þess vegna er sjávarútvegur arðbær, sem er óalgengt í heiminum, og verður að vera það til að draga að sér fjárfestingarfé í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni.
Landbúnaðurinn nýtir landsins gæði. Þau fara vaxandi með hækkandi ársmeðalhitasigi, og kornyrkja hefur fyrir vikið eflzt. Ylrækt hefur líka eflzt og hlýtur að eiga bjarta framtíð fyrir höndum vegna sjálfbærrar orku á formi hita og rafmagns. Öflun jarðhita og rafmagns í landinu verður að losa úr gíslingu afturhaldsins, sem undantekningarlítið er ofurselt útópískum hugmyndum sósíalismans, og fara að taka þessi þjóðhagslega mikilvægu mál föstum tökum til að halda verðhækkunum í skefjum. Landbúnaðurinn á erfitt uppdráttar, því að framleiðslueiningar eru litlar m.v. umfang nauðsynlegra fjárfestinga. Hátt vaxtastig getur hæglega knésett marga bændur, og þess vegna þarf ríkisstjórnin að huga að stuðningsaðgerðum, t.d. með skattakerfinu, í nafni matvælaöryggis.
Íslendingum hefur tekizt að hagnýta sér náttúruauðlindir lands og sjávar með skilvirkum hætti, og afraksturinn hefur dreifzt um allt samfélagið, enda er jöfnuður fólks hérlendis, mældur með alþjóðlegum hætti, sem gefur s.k. GINI-stuðul sem útkomu, meiri en annars staðar þekkist.
"Skýringin á þessum umskiptum [í Argentínu - innsk. BJo] sé stjórnarfar: "Hnignunin átti sér heldur ekki stað á einni nóttu. Frá hátindi efnahagslegs ferils síns hefur saga Argentínu einkennzt af röð alvarlegra hagstjórnarmistaka, sem fólust í ofurtrú á ríkisvaldið, miðstýringu og verndarhyggju, sem leiddu til óðaverðbólgu og óhóflegrar skuldsetningar. Ekki hefur enn tekizt að vinda ofan af þessum mistökum. Afleiðingin er efnahagslegur og mannlegur harmleikur.""
Hugmyndafræði kommúnismans og útvötnunar hans eins og jafnaðarstefnunnar hefur valdið með ólíkindum miklu böli í heiminum. Fá rit hafa verið jafnóþörf og beinlínis skaðleg í heiminum og "Das Kapital". Miðstýring og ríkisrekstur, sem þeir ólánsmenn Karl Marx og Friedrich Engels boðuðu, fela ekki í sér snefil af þjóðfélagslegu réttlæti, heldur leiða til eymdar og volæðis alþýðu, en hrossataðskögglarnir, flokkspótintátar, sem stjórna ofvöxnu ríkisapparatinu, skara eld að sinni köku og fljóta ofan á. "Homo sovieticus" verður aldrei annað en furðuhugmynd skýjaglópa.
27.12.2023 | 16:22
Hemja verður ríkisvald og ríkisrekstur
Ríkisvald og ríkisrekstur hefur innbyggða sterka tilhneigingu til að þenjast út með hverju árinu. Þetta er jafnvel meira áberandi hérlendis en annars staðar í lýðræðisríkjum Evrópu, enda eru ríkisumsvifin sem hlutfall af þjóðarbúskapinum með því mesta, sem þekkist. Stærsti þáttur þessara umsvifa er s.k. heilbrigðisgeiri. Hann fæst við sjúklinga í misömurlegu ástandi. Sameining sjúkrahúsa undir hatt Landsspítalans - Háskólasjúkrahúss hefur væntanlega leitt til nokkurrar hagræðingar, en svona stór stofnun er eðlilega þung í vöfum.
Hratt vaxandi kostnaður ríkissjóðs við rekstur heilbrigðisgeirans er erfitt viðfangsefni, þegar glímt er við að koma böndum á heildarútgjöldin til að stöðva hallarekstur ríkissjóðs, sem í þensluástandi efnahagslífsins er verðbólguhvetjandi. Heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra eiga þann kost í stöðunni að stokka upp verkaskiptinguna á milli ríkisspítalanna í landinu og einkageirans. Það hefur komið í ljós, sem margir töldu sig hafa vissu fyrir, að spara má ríkissjóði háar fjárhæðir með því að fela einkageiranum mun fleiri verkefni. Í verkaskiptingunni verður lausnin fundin.
Sviðsljósgrein Morgunblaðsins 12. desember 2023 kastaði birtu yfir þetta málefni. Hún hafði lýsandi fyrirsögn:
"Þjónusta einkaaðila mun hagkvæmari".
Hún hófst þannig:
"Kostnaður við liðskiptaaðgerðir er töluvert minni hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum en hjá Landspítalanum. Verðmunurinn er á bilinu kISK 700 - kISK 845. Tæplega 2 k manns eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerð."
Þessar upplýsingar benda eindregið til, að skynsamleg verkaskipting felist í því, að fela einkageiranum alfarið að annast liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm. Beinn sparnaður ríkissjóðs við það eitt að bjóða út afgreiðslu á þessum biðlista, gæti numið mrdISK 1,6. Mjór er mikils vísir, og kerfisbundið ætti að leita uppi fleiri svið í heilbrigðisgeiranum til að spara ríkissjóði fé og stytta biðlista. Líklega mætti fljótlega spara um 20 mrdISK/ár með skynsamlegri verkaskiptingu, og Háskólasjúkrahúsið gæti þá sinnt hlutverki sínu enn betur. Setja má í útboðsskilmála kvöð um að taka við tilteknum fjölda læknanema á ári í starfsþjálfun.
"Verðlagningin byggist á niðurstöðu útboðs, sem fram fór í marz [2023] og var undanfari samninga við þjónustuveitendur um framkvæmd liðskiptaaðgerða í ár. Kostnaður við aðgerð er mismunandi [á] milli sjúklinga hjá öllum þjónustuveitendum. Í samningum um liðskiptaaðgerðir er því samið um ákveðið meðaltalsverð, sem ætlað er að endurspegla kostnaðinn, sem liggur að baki hjá hverjum og einum."
Þegar reynsla kemst á þetta fyrirkomulag og samningar stækka, mun einkageirinn finna leiðir til hagræðingar án þess að slá af gæðakröfum. Við þetta mun sparnaður ríkissjóðs vaxa og arðsemi starfsemi verktakanna líka, og allt er það hið bezta mál. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra (SS), forstokkaður kommúnisti, talaði um arðsemi í þessari grein sem glæp gegn ríkinu. Þar með opinberaði hún fullkomna vanþekkingu sína á fyrirtækjarekstri. Það er mikið fé bundið í skurðstofum og allri hliðarstarfsemi við þær. Til að einhver vilji fjárfesta í slíkri starfsemi, þarf hún að vera arðbær. Með því að blása arðsemi í þessari grein út af borðinu sem sé hún af hinu vonda, reynir þessi ofstækismanneskja að kæfa þessa starfsemi í fæðingunni.
"Í svari heilbrigðisráðherra segir, að verðmunurinn skýrist fyrst og fremst [óþarflega dönskulegt orðalag - BJo] af því, að Landspítali sé þriðja stigs faggreinasjúkrahús með uppsett afl til að standa undir fjölbeyttri þjónustu á nóttu sem degi allan ársins hring. Rekstrarkostnaður aðgerðarstofu, sem sinnir afmarkaðri þjónustu á dagvinnutíma á virkum dögum, sé því töluvert lægri en á sjúkrahúsi. Almennt séð séu það því veikari sjúklingar með meiri sjúkdómsbyrði, sem veljist til aðgerða á Landspítala frekar en á aðgerðarstofu."
Höfundur er ekki í neinum færum til að meta, hvort sú verkaskipting er réttmæt og sú hagkvæmasta, sem ráðherrann ýjar að, að sé við lýði. Hins vegar er áreiðanlegt, að verði umsvif einkageirans á þessu sviði aukin, verður líklega grundvöllur fyrir tvískiptum vöktum 5-6 daga vikunnar. Þar með a.m.k. tvöfaldast nýting fjárfestinganna á aðgerðarstofunni, sem eykur svigrúm til að bjóða ríkisvaldinu hagstæðari einingarverð. Sérhæfing er önnur aðferð til verðlækkana, og henni verður auðveldlegar við komið með vaxandi aðgerðarfjölda. Heilbrigðisráðherra þarf að gæta að því, að í hinu opinbera kerfi er tregða og fyrirstaða gegn því að láta verkefni frá ríkisstofnun til einkageirans án nokkurs tillits til sparnaðar fyrir skattgreiðendur. Ríkissjóður á sér fáa vini í ríkisgeiranum sjálfum. Ráðherrar þessa málaflokks og annarra, sem eru á þessum buxunum, verða því að vera tilbúnir í hlutverk brimbrjótsins. Því munu þeir ekki nenna, nema þeir séu hugsjónamenn réttrar gerðar.
"Berglind Harpa [Svavarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins] segir tölurnar ekki koma sér á óvart. Hún telur einboðið að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki um veitingu annarrar heilbrigðisþjónustu.
"Ég er ánægð með þessi svör, því [að] þau sýna, hversu mikilvægt það er að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki", segir Berglind Harpa í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir óásættanlegt, hversu langir biðlistar fyrir hina ýmsu heilbrigðisþjónustu hér á landi séu.
"Það á ekki að líðast, að við séum með þúsundir manna á biðlistum árum saman, þegar við erum með öflug heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði, sem hægt er að semja við, og vinna þannig á listunum", segir hún og bætir við:
"Ríkið eitt getur ekki staðið undir öflugri heilbrigðisþjónustu. Við erum eina Norðurlandaþjóðin, sem þráast við að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki."
Fylgifiskur ríkiseinokunar eru biðraðir. Tregðan við að virkja einkaframtskið á þessu sviði er líka á Alþingi. Alræmd er framganga fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, sem í forstokkuðum sósíalisma sínum lét Sjúkratryggingar Íslands fremur fljúga með sjúklingana til Svíþjóðar í aðgerð á Karolínska eða öðru sambærilegu sjúkrahúsi en að semja við lækna einkarekinna innlendra heilbrigðisfyrirtækja. Þessi hegðun ráðherrans er óskiljanleg, óafsakanleg og hefði átt að leiða til ákæru fyrir afglöp í starfi.
21.8.2023 | 17:08
Pólitískar kreddur standa þróun sjúkraþjónustu fyrir þrifum
Í viðtali Morgunblaðsins 28.07.2023 vakti Hjálmar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Klíníkinni, athygli á því, hvernig tréhestar ríkisins í sjúkrakerfinu hafa, meðvitað eða ómeðvitað vegna meðfædds doða, tafið framkvæmd nýlegs samnings heilbrigðisráðherra við einkaframtak á sviði lækninga upp á mrdISK 1,0 átak til að draga úr hörmungum fólks á biðlista ríkisins eftir aðgerð.
Hvers vegna var fyrirtækjunum, sem ráðherrann samdi við, meinaður aðgangur að þessum biðlistum, og hvers vegna er fyrirtækjum í þessum einkageira athafnalífsins meinað að kynna almenningi þjónustu sína ? Þetta vitnar um gaddfreðið hugarfar tréhesta ríkisins, sem setja gamlar og forstokkaðar pólitískar kreddur ofar hagsmunum sjúklinganna. Staðreynd er, að ríkisbáknið ræður ekkert við að einoka þessa þjónustu og ætti að viðurkenna það, ekki aðeins í orði, heldur og í verki. Einkaframtakið veitir í þeim tilvikum, sem hér um ræðir, jafngóða þjónustu og Landsspítalinn með kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklinga, sem er helmingur af kostnaði Landsspítalans. Það er óskiljanlegt, að einhverjir ríkisstarfsmenn skuli enn halda dauðahaldi í "einokun" ríkisins. Hvers vegna fá stjórnmálakreddur frá frumstæðu Rússlandi Stalíns svona miklu ráðið um framkvæmd lækningamála á Íslandi 2023 ? Þetta er einsdæmi á Norðurlöndunum og þótt víðar væri leitað.
Téð viðtal við Hjálmar bar fyrirsögnina:
"Fjöldi liðskiptaaðgerða tvöfaldast".
Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:
"Hjálmar segist vera undrandi á því, að þetta tækifæri til að auka skilvirkni og útrýma biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum, eins fljótt og hægt er, skuli ekki vera nýtt. Vel hafi gengið hjá fyrirtækinu að bæta líf fólks.
"Ég er ótrúlega stoltur af starfsfólki Klíníkurinnar, því [að] á þessu ári erum við búin að meira en tvöfalda fjölda aðgerða, sem voru gerðar á sama tíma í fyrra, sem var langstærsta árið okkar. Við erum búin með rúmlega þriðjung af samningnum á þriðjungi af samningstímanum", segir Hjálmar."
Læknirinn furðar sig á tregðu ríkisins við að koma til móts við þarfir sjúklinga. Þar á bæ eru kreddurnar alls ráðandi. Kostnaður skiptir engu máli þar á bæ, líðan sjúklinga ekki heldur. Öllu máli skiptir, hver gerir aðgeðina. Verri verða moldvörpuviðhorf vinstrisins ekki. Þetta er meinlokan við ríkisrekstur í hnotskurn, sem hvorki Karl Marx né Jósef Stalín létu sig nokkru skipta. Er ekki kominn tími til að hreinsa flórinn og lofta út, svo að heilbrigð skynsemi um rekstur og þjónustugæði fari að mega sín nokkurs í stjórnun ríkisins á þjónustu við sjúka, sem nú étur upp um þriðjung fjárlaganna ?
Mogganum blöskrar framkvæmdin á þessu eins milljarðs ISK átaki ríkisins, eins og sjá mátti á forystugrein blaðsins, 31.07.2023, undir fyrirsögninni:
"Lærum af mistökunum".
Hún hófst þannig:
"Ótrúleg handvömm hefur orðið við framkvæmd á átaki, sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrr á árinu í því skyni að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. Margir hafa þjáðst allt of lengi vegna langrar biðar eftir aðgerðum á mjöðm eða hné, og voru um 2000 á biðlistum, þegar átak ráðherra fór af stað fyrir um 4 mánuðum. Þetta átak átti að standa til áramóta [2023/2024], og með því átti að framkvæma um 700 aðgerðir fyrir um mrdISK 1,0."
Það er ekki víst, að "handvömm" lýsi bezt því, sem átt hefur sér stað. Sé svo, eru ýmsir stjórnendur, sem í raun eru þröskuldar, óhæfir. Líklegra er, að meðvitað hafi skít verið kastað í tannhjólin til að draga úr árangri einkaframtaksins við að leysa uppsafnaðan vanda ríkisrekstrarins. Það var í þessu tilviki gert með því að halda þjáningarfólki biðlistans í myrkri um þjónustu einkaframtaksins. Hvaða hlutverki gegndi Landlæknirinn í þessum hráskinnaleik ?
"Þetta [dræm aðsókn-innsk. BJo] hefði auðvitað strax átt að hringja öllum viðvörunar bjöllum, og óþarfi [var] að bíða í marga mánuði eftir að grípa til þeirra aðgerða, sem duga til að ná til sjúklinganna. [Ekki er víst, að það sé búið enn - innsk. BJo.]
Framkvæmdastjóri lækninga hjá Klíníkinni benti á í samtali við Morgunblaðið, að þau fyrirtæki, sem samið hefði verið við, hefðu aðeins fengið leyfi til að framkvæma aðgerðir á þeim, sem hefðu verið á biðlistum í 9 mánuði eða lengur, sem strax dregur úr virkni átaksins, enda eru þeir líklegastir til að vera komnir með dagsetta aðgerð annars staðar. Hann sagði, að bent hefði verið á þetta, en á það ver bersýnilega ekki hlustað."
Það, sem heilbrigðisráðherra kallar átak, er framkvæmt með hangandi hendi af hálfu ríkisins. Það eru meinvörp í stjórnsýslunni, sem verður að fjarlægja strax, ef kerfið á ekki sífellt að hökta eins og ræfill. Frumskilyrði árangurs hjá ráðherra er, að hann geri sér grein fyrir þessu og vakti náið verkefni, sem hann hleypir af stokkunum með fjaðraþyt og söng, en treysti ekki kerfissnötum fyrir horn.
Að lokum stóð í þessari forystugrein:
"Þær aðgerðir, sem verið er að framkvæma á einkareknu stofunum tveimur, sem ráðherra samdi við í vor, kosta ríkið aðeins um helming þess, sem sambærilegar aðgerðir kosta á Landsspítalanum. Augljóst er, að ríkið verður að nýta slíka þjónustu einkaaðila, eins og mögulegt er, til að halda niðri kostnaði í heilbrigðiskerfinu.
Til að það takist, verður hið opinbera kerfi að vera tilbúið til að vinna með einkaaðilum og auðvelda þátttöku þeirra. Vonandi tekst það m.a. með því, að lærdómur verði dreginn af því, hvernig yfirstandandi átak fór af stað."
Allt er satt og rétt, sem ofan greinaskilanna stendur, en þegar að úrbótum kemur, duga hvorki fortölur né frómar óskir. Sósíalískur sértrúarsöfnuður lætur sér ekki segjast. Það er margreynt, og til vitnis um það geta menn haft í þessu tilviki, að viðkomandi fyrirtækjum verður ekki heimilaður aðgangur að fólki á þessum biðlista eða hinum, sem er eftir úrskurði um að komast á aðallistann. Fyrirtækjunum verður ekki heimilað að kynna þjónustu sína, sem ætti þó að vera sjálfsagt mál. Hjá þessum sértrúarsöfnuði kommúnismans á launaskrá íslenzka ríkisins snýst málið ekki um að veita sjúklingum bót meina sinna, heldur að standa vörð um það, að þeirra fólk veiti þessa þjónustu. Verkin sýna merkin, og þetta var einmitt kjarni pólitíkur fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Kommúnistarnir misnota aðstöðu sína til að planta þóknanlegum viðhorfum inn í ríkisapparatið. Afleiðingin er ömurleg fyrir móttakendur þjónustu og skattgreiðendur.
18.8.2023 | 11:09
Víti til varnaðar í sóttvörnum
Furðulegt offors einkenndi aðgeðir sóttvarnaryfirvalda í heiminum gegn veirunni SARS-CoV-2. Kínverjar reyndu fyrst að þagga niður allt tal um sjúkdóminn af hennar völdum, sem brátt fékk heitið COVID-19 eða C-19 hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, AHS. Þegar þöggunin gekk ekki lengur, sneru kínversk yfirvöld algerlega við blaðinu með fyrirmælum um að svipta fólk ferðafrelsi, sem nánast fól í sér að svipta það sjálfræði. Var það lokað inni á heimilum sínum, fyrirtækjum lokað og annað í svipuðum dúr að hætti einræðisafla. Einu sóttvarnaráhrifin af því heimskupari var að seinka útbreiðslu faraldursins í Kína.
Í krafti óttans höfðu yfirvöldin öll ráð fólksins í hendi sér. Þetta tók AHS, sem er undir daglegri stjórn marxista frá Eþíópíu, sem sætir ákæru um stríðsglæpi, til fyrirmyndar fyrir önnur ríki, sem flest hlýddu í auðmýkt.
Flest ríki fylgdu þessum ráðleggingum með einum eða öðrum hætti, þ.á.m. Ísland. Nokkur ríki í Bandaríkjunum og Svíþjóð tóku þó sjálfstæða ákvörðun um mjög takmarkaðar frelsisskerðingar, og þeim reiddi betur af í heildar dauðsföllum talið, svo að ekki sé nú minnzt á fjárhagstjónið. Þegar síðan kom að bólusetningum, keyrði um þverbak. Arnar Þór Jónsson, lögmaður, hefur á vefsetri sínu, sem birtist á Moggablogginu, gert grein fyrir skráningum, t.d. í Bandaríkjunum, sem benda til óvenju tíðra veikinda af völdum bólusetninganna; um 1,6 milljón manns þar hafði skráð slíkar, og talið er, að aðeins 1 % af öllum slíkum tilvikum séu skráð. Flestir bólusettra hafa þannig líklega kennt sér meins af völdum bólusetninga.
Morgunblaðið birti þann 4. ágúst 2023 viðtal við einn ofstækisfyllsta bólusetningafrömuðinn, Kára Stefánsson, lækni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, undir fyrirsögninni:
""Auðvelt að vera klár eftir á"":
""Það er engin spurning um, að þessar bólusetningar hafa bjargað lífi tuga milljóna manna í heiminum, en það er líka ljóst, að einhverjir, sem voru bólusettir, fóru illa út úr því", segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar."
Hvaða rannsóknir styðja aðalsetninguna í málsgreininni ? Ekki hefðbundnar blindprófsrannsóknir á undan veitingu bráðabirgða leyfis fyrir bóluefnunum, því að lyfjafyrirtækin stöðvuðu þær allt of fljótt, þegar vísbendingar komu í ljós um mjög lítinn varnarmátt bóluefnanna 3 mánuðum eftir bólusetningu. Allir vita, að bólusettir virtust ekkert síður smitast af SARS-CoV-2 en óbólusettir. Með því að kasta því fram, að bólusettir hafi veikzt minna en óbólusettir, er bara verið að bera í bætifláka fyrir meingölluð og varhugaverð bóluefni, sem leyfð voru til nota á almenningi löngu áður en hefðbundnum prófunum lauk. Eru einhverjar hlutlægar rannsóknir óvilhallra aðila til, sem sýna, að bólusettir hafi með óyggjandi hætti veikzt minna eða er þetta bara innantóm fullyrðing gasprara ?
Núverandi Sóttvarnarlæknir hefur haldið því fram opinberlega, að óbólusettir hafi veikzt meira af hjartasjúkdómum við að smitast af téðri veiru en bólusttir af sprautunum. Getur verið, að sóttvarnarlæknir dragi of frjálslegar ályktanir af athugunum sínum. Hún er með ósambærileg þýði í samanburðinum, og mismunur þýðanna, sem ekki hefur verið jafnaður út, getur hæglega leitt Sóttvarnalækni á villigötur í ályktunum sínum.
"Sagði Kári ýmsa vísindamenn telja, að ekki hefði verið rétt að bólusetja alla og bent á fjölda [tilvika], þar sem bólusetningar á ungu fólki hefðu leitt til þess, að það fékk bólgu í hjartavöðva, jafnvel í meira mæli en fólk, sem sýktist af veirunni."
Þetta virðist fljótt á litið vera í mótsögn við málflutning Sóttvarnalæknis, en það á einvörðungu við, ef rétt er að bæta við tilvísunarsetninguna í lokin "og var óbólusett". Mikilvægasta spurningin í þessu sambandi er hins vegar, hvers vegna í ósköpunum var verið að sprauta ungviðið ? Þörfin var einfaldlega ekki fyrir hendi. Einkenni smits ungmenna voru væg, og engin dauðsföll studdu það að fara í þessa bólusetningarherferð. Við þessar aðstæður er eðlilegt að tortryggja þessa ákvörðun sóttvarnaryfirvalda (og margar fleiri) og gruna bóluefnaframleiðendur um græsku. Sóttvarnayfirvöld á Íslandi voru allt of leiðitöm og báru fyrir sig AHS, en þaðan leggur ramman spillingaróþef.
""Það er alltaf lítill hundraðshluti, sem situr uppi með aukaverkanir", segir Kári ... ."
Þarna skautar kjaftgleiður læknirinn léttilega yfir staðreyndir, sem tala allt öðru máli um tilraunabóluefnin, sem beitt var gegn SARS-CoV-2 veirunni. Fjöldi tilkynninga um aukaverkanir er meiri en summa allra tilkynninga hingað til um aukaverkanir bóluefna. Það eitt út af fyrir sig sannar þó ekkert um alvarleika þessara aukaverkana eða tíðni, en innihald tilkynninganna sýnir, að ver var af stað farið en heima setið, eins og Arnar Þór Jónsson hefur rakið í pistlum sínum á vefsetri sínu og birzt hafa á Moggablogginu. Heilbrigðisyfirvöldin skutu langt yfir markið, og lyfjaiðnaðurinn hafði sitt fram og makaði krókinn. Höfundur þessa vefpistils þáði enga sprautu gegn C-19 og er þess vegna ekki endilega einvörðungu eftir á klókur í þessum efnum. Hann hefur ekki hugmynd um, hvort hann hefur smitazt af C-19, því að hann fékk nokkrum sinnum flensueinkenni á tímabilinu, en fjarri því nokkur langvarandi einkenni, eins og sóttvarnaryfirvöld gerðu mikið úr. Eftir á vizkan í þessu máli er, að þau hefðu betur sleppt öllum bólusetningum og lagt höfuðáherzlu á að verja viðkvæma í stað þess að lama allt samfélagið og bólusetja holt og bolt.
2.8.2023 | 09:46
Strengjabrúður í samsæri ?
Í baksýnisspeglinum er talsverður draugagangur varðandi framgang sóttvarnaryfirvalda hérlendis og erlendis í baráttunni við Kófsfarsóttina 2020-2021, sem var endurtekning á baráttu riddarans hugumstóra og þjóns hans við vindmyllurnar á Spáni forðum. Framganga yfirvaldanna var frumstæð og laus við leiðtogahæfileika, en þrælslundin var yfir og allt um kring. Óhæfur heilbrigðisráðherra vinstri grænna gaf auðvitað tóninn í fíflaganginum hérlendis, en hún virðist hafa verið strengjabrúða ósvífinna auðvaldsafla erlendis. Verður það grafskrift Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að hafa sýnt óheftum alþjóðlegum auðvaldsöflum slíka undirgefni, að stórsá á ríkissjóði og heilsufari þjóðarinnar, eins og umframdauðsföll 2022-2023 í landinu bera vott um ?
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, hefur rannsakað alþjóðlega sögu Kófsins og sviðsettrar baráttu yfirvalda við öndunarfærasjúkdóminn C-19 af völdum líklega manngerðrar veiru, SARS-CoV-2, og fjölmörgum afbrigðum hennar. Morgunblaðsgreinar hans um afrakstur rannsóknarvinnu hans, sem hann á heiður skilinn fyrir, enda umtalsverð að vöxtum, eru í einu orði sagt sláandi.
Hann færir þar rök fyrir því, að um alheimssamsæri valdsækinna gróðapunga sé að ræða, sem yfirvöldin hafi í ótta sínum við hið óþekkta og það, sem miklu verra er, eftir að staðreynda um tiltölulega meinlitla, bráðsmitandi pest, hafði verið safnað og þær birtar, haldið áfram á braut gagnrýnislausrar undirgefni við óprúttin hagsmunaöfl, sem leika sér að örlögum mannkyns. Fyrirsögn Morgunblaðsgreinar hans 18.07.2023 er ekki að innihaldi skorin við nögl:
"Glæpur aldarinnar: Planið".
Það er vert að grípa niður í dúndurgrein kollega Jóhannesar:
"Í Bandaríkjunum bönnuðu heilbrigðisyfirvöld fyrst flestar covid-mælingar, þannig að um miðjan marz 2020 voru skimanir þar hundraðfalt sjaldgæfari en á Íslandi.
Þennan skort á skimunum nýtti Fauci sér til að ofmeta dánartíðnina tífalt og miða hana bara við þessar örfáu mælingar, en ekki við raunverulegan fjölda smita. Samtímis birti Imperial College (einn skipuleggjenda Event 201) skýrslu, sem spáði allt að 500 k covid-andlátum í Bretlandi, nema útgöngubanni yrði beitt. Því var svo fylgt.
Allt var gert til að ofmeta hættuna. Nóg var, að einstaklingur hefði mælzt með covid mánuði fyrir andlát, til að andlát væri flokkað sem covid-andlát. Afleiðingin var veruleg fækkun skráðra krabbameins[tilvika] og hjartaáfalla. Covid læknaði þannig sjúka með því að drepa þá með bókhaldsbrellum og öðru."
Þetta fúsk með tölur, sem magnaði upp óttann við faraldurinn, er staðreynd, og hún getur átt sér ýmsar skýringar, en nú hafa Jóhannes Loftsson et. al. leitt að því sterkar líkur, að megindrættir þessara svika við almannaheill hafi verið skipulagðir áður en faraldurinn brast á. Það er glæpur gegn mannkyni. Að taka síðan upp á þeim fáránleika að fordæmi einræðisstjórnarinnar í Kína að loka fólk inni í sóttkví gerði ekkert annað en að magna upp ótta almennings.
Hvað sem alþjóðlegu samsæri líður er ljóst, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda voru með öllu ábyrgðarlausar og lausar við vísindalega skírskotun. Brotalöm stjórnkerfisins var þannig leidd fram í dagsljósið. Ratar voru við stjórnvölinn. Stjórnvöldum er ekki hægt að treysta. Einstaklingarnir verða að treysta á sjálfa sig, sína dómgreind og kunnáttu til að varðveita heilsu sína og sinna.
"Í lok 2020, eftir ár af frelsisskerðingum í krafti neyðarréttar, þurftu yfirvöld um allan heim að réttlæta ofbeldið og voru því til í hvaða tilraunabóluefni sem er gegn því að komast fremst í röðina.
En til að græða sem mest þurftu allir [að láta] bólusetja sig. Fyrir sjúkdóm, sem var 1000-falt skæðari þeim elztu en þeim yngstu, hefði dugað að bólusetja bara þá elztu. Þá var byrjað að ljúga að fólki, að bóluefnin stöðvuðu smit, þótt engar mælingar sýndu fram á slíkt, og gangsett eldra plan um bóluefnavegabréf og bóluefnaskyldu. Einnig var sagt, að ein bólusetning yrði nóg. Það var líka lygi, því [að] strax í janúar 2021 var vitað, að virkni bóluefnisins féll um 50 %-75 % þremur mánuðum eftir bólusetningu."
Þetta er hroðaleg lýsing á heilbrigðisyfirvöldum, sem brugðust algerlega þeirri skyldu sinni að verja almenning eftir beztu getu og vísindalegu þekkingu. Framgangan er með algerum ólíkindum. Í raun og veru þarf hæfa rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á þessu máli með það í huga, hvort lagagrundvöllur er hérlendis til saksóknar fyrir refsivert athæfi.
"Nær allar þessar aðgerðir yfirvalda voru óvísindalegar. Hraðsuðubóluefni, viðurkenna ekki loftborinn vírus, banna covid-skimanir, nota bókhaldsbrellur til að ýkja dánartíðni, lækna með lífslokameðferð, gefa banvæna skammta af HCQ, nota grímur gegn vírusum, lofa hjarðónæmi og bara einni sprautu í stað áskriftar.
Allt var þetta ráðlagt af aðilum tengdum Event 201, sem höfðu ríka hagsmuni af því, að bóluefnaleiðin yrði farin. Planið gekk upp og þeir, sem stóðu að því, stórgræddu. Gróðinn hefði samt orðið mun meiri, ef ekki hefði verið fyrir eina óþægilega staðreynd. Bóluefnin voru eitruð."
Að annað eins og þetta skuli komast á kreik í kjölfar móðursýkinnar, sem ríkti vegna faraldursins á árunum 2020-2021, sýnir, að maðkur var í mysunni, en ef um "Plan" (samsæri) var að ræða, var það óhemju frumstætt. Hvers vegna var veirunni hleypt út áður en sómasamlegum og lögboðnum tilraunum með bóluefnin var lokið ? Verða þessi mRNA-bóluefni aldrei barn í brók ? Á að trúa því, að vísvitandi hafi verið ákveðið að gera tilraun á mannkyninu með óprófuð bóluefni, sem vísbendingar voru fyrir hendi um, þegar bráðabirgðaleyfin fyrir þeim voru veitt, að voru gölluð ?
15.7.2023 | 17:24
Hrikaleg stjórnsýsla heilbrigðismála í tíð Svandísar
Það er alveg sama, hvar Svandís Svavarsdóttir drepur niður fæti í stjórnsýslunni. Hún skilur alls staðar eftir sig sviðna jörð sökum vanræktrar rannsóknarskyldu, ofstækis og dómgreindarleysis. Þetta leiðir yfirleitt til deilna í réttarsölum, og hefur Hæstiréttur dæmt hana fyrir að níðast á sveitarfélagi á Suðurlandi sem ráðherra skipulagsmála. Í fersku minni eru ofsóknir hennar sem umhverfisráðherra gegn lúpínunni. Hernaður hennar gegn einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi ásamt ofstækisfullum bólusetningarherferðum gegn hættulítilli pest með rándýrum, gagnslausum og hættulegum bóluefnum voru reistar á múgsefjun, sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin spilaði undir og lygum lyfjafyrirtækjanna, sem stórgræddu á þessum sirkus. Nú blasir við, að þessi sama Svandís verður dæmd fyrir margvísleg brot í starfi sem matvælaráðherra, ef höfðað verður mál gegn ríkinu, og hún hefur vísast gert það skaðabótaskylt um nokkra milljarða ISK. Hvenær fá þingmenn nóg af að styðja þennan misheppnaða stjórnmálamann til valdamikilla embætta ? Manneklan hjá vinstri grænum verður þjóðinni dýrkeypt áður en lýkur.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson, læknir, skrifaði stórmerkilega grein um afglöp ráðherra og aðra stjórnendur heilbrigðismála á Íslandi í Kófinu, sem birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2023. Læknirinn afhjúpar þar fúsk þeirra, sem gæta áttu að almannaheill á tíma kórónuveirufaraldurs, þóttust gera það með vísindalegum ráðum, en þverbrutu vísindalegar reglur og reyndust leiksoppar Alþjóða heilbrigðisráðsins og áróðurs lyfjafyrirtækjanna. Grein læknisins nefndist:
"Hví var bólusett gegn covid-19 ?"
og hófst þannig:
"Af hverju skal bólusetja gegn covid-19, ef áhættan af sjálfum sjúkdóminum var hverfandi og bóluefnin ekki bara gagnslaus, heldur stórskaðleg ?
Þeirri spurningu er enn ósvarað af yfirvöldum með upplýstum hætti. Niðurstöður Pfizer frá nóvember 2020 voru skýrar og óumdeilanlegar. Skoðum það nánar."
Þessi inngangur læknisins er ekki gripinn úr lausu lofti, heldur reistur á opinberum staðreyndum. Lyfjaiðnaðurinn dró heilbrigðisyfirvöld margra landa, þ.á.m. á Evrópska efnahagssvæðinu, á asnaeyrunum og makaði krókinn á misheppnuðu sulli, sem fengið hafði allsendis ófullnægjandi reynslu og vísindalega rýni, þegar því var hleypt inn í almenning á bráðabirgða leyfi með voveiflegum afleiðingum. Þetta er hneyksli aldarinnar fram að þessu. Yfirvöldin bregðast fullkomlega í verndarhlutverki sínu gagnvart almenningi, sem verður fórnarlamb áróðurs, sem veldur múgsefjun á grundvelli frumstæðrar óttatilfinningar. Yfirvöldin spiluðu á fólk. Sú tilraun heppnaðist, en eiga þau að komast upp með það refsilaust, nú þegar spilin eru lögð á borðið af sérfróðum mönnum á þessu sviði á borð við Guðmund Karl Snæbjörnsson ?
"Opinber gögn tuga landa með hundruð milljóna íbúa (Ioannidis, okt. 2020) sýndu hverfandi eða enga áhættu í öllum aldurshópum. Áhætta á aldursbilinu 0-69 ára var 590 ppm [hlutar úr milljón] og á meðal ungs fólks 0-19 ára 3 ppm. Um var að ræða bæði heilbrigða og veika einstaklinga.
Aðrar rannsóknir stórra og fjölmennra þjóðfélaga sýndu, að heilbrigðum börnum var engin hætta búin af covid-1 og ekkert heilbrigt barn hafði látizt.
Ábyrg heilbrigðisyfirvöld á Íslandi hefðu gefið gaum að þessum staðreyndum, sinnt rannsóknarskyldu sinni og greiningu staðreynda, sem voru fyrir hendi haustið 2020, í stað þess að fara í móðursýkislega meðvirkni með erlendri múgsefjun, sem alla tíð var stórhætta á, að stýrt (manipulated) væri með þann vafasama ásetning að græða á leiðitömum og hræddum yfirvöldum. Með ofangreindar upplýsingar í höndunum hefðu yfirvöld átt að aflétta öllum fjöldatakmörkum og hömlum á starfsemi manna og lifnaðarháttum. Hættan var ekki fyrir hendi og vitað er, að veirur þessarar gerðar stökkbreytast yfirleitt í átt til meiri smithættu og vægari einkenna (afleiðinga). Það var engin glóra í aðgerðum stjórnvalda hér gegn frelsi einstaklinga og atvinnufrelsi. Á þessu bar heilbrigðisráðherrann meginábyrgð.
"Niðurstöður 2 mánaða rannsóknarhluta Pfizer í nóvember 2020 með 44 k þátttakendum tala skýru máli. Bóluefnin komu ekki í veg fyrir smit, hindruðu ekki sjúkdóma, og dánartíðnin var hærri en hjá óbólusettum. Þetta var ljóst áður en ráðizt var í að bólusetja fólk um allan heim, nú yfir mrd 5,3. Bóluefnin hindruðu ekki smit, heldur fjölgaði þeim ásamt því, að fólk fékk fjölda aukaverkana og fleiri dóu."
Þetta er hrikaleg lýsing á stöðu, sem ábyrg stjórnvöld hefðu ígrundað vandlega. Á grundvelli þeirrar rannsóknar hefðu ábyrg stjórnvöld á Íslandi og annars staðar tekið sjálfstæða ákvörðun um, að nýju bóluefnin gegn C-19 væru ónothæf. Það gerðu þau ekki, heldur létu hagsmunaaðila draga sig á asnaeyrunum og sýndu þannig fram á óhæfni sína til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í þágu öryggis og heilsufars þjóða sinna. Þetta er svakalegur áfellisdómur yfir Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra, og ráðgjöfum hennar, landlækninum og sóttvarnarlækninum. Ekkert þeirra hafði vitsmuni eða þrek til að standa í ístaðinu, og lítið lagðist fyrir sósíalistann í ráðherrastóli, sem gerðist handbendi ofurgróðapunga án þess að blikna. Hvar eru hinar miklu hugsjónir öreigabyltingarinnar ? Þær hafa aldrei verið annað en skálkaskjól í sókn til valda.
"Vísindin sýndu hvorki þörf né, að ráðlegt væri að bólusetja fólk, því [að] verndin var engin, en skaðinn mikill. Hví fóru yfirvöld þvert á niðurstöður vísinda ?
Hví neituðu þau að gefa lyf, sem virka vel og hefðu getað kveðið niður heimsfaraldurinn ?
Um leið og þessar niðurstöður lágu fyrir í nóvember 2020, og hvað þá [í) febrúar 2021, hefði átt að hætta við allar bólusetningar."
Yfirvöldin bættu gráu ofan á svart með því að bera fyrir sig vísindin, en það voru gervivísindi, sem þau annaðhvort áttuðu sig ekki á, eins og hverjir aðrir flautaþyrlar, eða beittu fyrir sig gegn betri vitund til að knýja sína stefnu fram. Það er alveg stórfurðulegt, að enn skulu sami landlæknir og ráðherra gegna trúnaðarstörfum fyrir þjóðina. Þær brugðust kolrangt við, þegar þeim mátti ljóst vera, að eina ábyrga leiðin væri að snúa af villu síns vegar. Enn virðast þær ekki skilja ábyrgðarhlut sinn. Við næstu vegamót, næsta faraldur, munu landlæknir og pólitíkin varpa allri sjálfstæðri hugsun fyrir róða og láta stjórnast af hagsmunaaðilum og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.
"Ásetningur yfirvalda er ljós. Skaðinn var allan tímann ljós, og yfirvöld hundsuðu vísindaleg varúðarmerki, en sungu þess í stað hástöfum falsettuna sína "árangursrík og örugg og allir saman nú".
Bólusetning þessi er því ekki neitt annað en misbeiting valds, gerð af einbeittum ásetningi og er skýlaust brot samkvæmt skilgreiningu 2. greinar OSAPG (Office of the UN Special Adviser on the Prevention of Genocide), samnings um forvarnir og refsingu fyrir glæp þjóðarmorðs frá 1948."
Hvílík vanræksla heilbrigðisráðherra, landlæknis, sóttvarnarlæknis og lyfjaeftirlitsins er það að sleppa lyfjaiðnaðinum lausum á þjóðina með nýtt og að mestu óreynt sull, sem síðan reyndist bæði gagnslaust og hættulegt ? Vanrækslan var fólgin í að láta hjá líða að leggja hlutlægt mat á áhættuna af faraldrinum á móti kostnaði, gagni og hættu af aukaverkunum. Næg gögn voru fyrir hendi í tæka tíð til að gera þetta. Til hvers í ósköpunum eru allar þessar silkihúfur í heilbrigðisgeiranum, ef bara er fylgt í blindni hverju því, sem rekur á fjörur þeirra að utan ?
Heilbrigðismál | Breytt 30.7.2023 kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)