Færsluflokkur: Heilbrigðismál
7.10.2017 | 14:28
Lausbeizlaður ríkissjóður eða aðhaldsstefna
Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir á ræsfundi (kick-off meeting) kosningabaráttu flokksins á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu laugardaginn 23. september 2017, að hann vildi móta landinu nýja heilbrigðisstefnu, þar sem skilgreint væri, hver ætti að gera hvað, og þar með væri unnið samkvæmt markmiðum (management by objectives). Hann lýsti því líka yfir, að hann vildi tvöfalda persónuafsláttinn upp í 100 kISK/mán á næsta kjörtímabili. Það hefur komið fram, að umtalsvert meiri hækkun frítekjumarks yrði ríkissjóði mjög dýr. Það er nauðsynlegt vegna jafnræðissjónarmiða, að þessi hækkun spanni allar tekjur, hvaða nafni sem þær nefnast.
Umsvif hins opinbera eru nú þegar mjög mikil á Íslandi og á meðal þess hæsta, sem gerist innan OECD. Það er ljóst, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Samfylgingar, Píratahreyfingarinnar og annarra, sem hækka vilja skattabyrðarnar enn meir, gera sér enga grein fyrir, hvað það þýðir að hafa skattheimtuna hér í hæstu hæðum. Þau munu spenna bogann um of, þar til bogstrengurinn brestur. Landið er stórt og þjóðin fámenn, og þar af leiðandi er dýrt að halda hér uppi nútímaþjóðfélagi. Það er þess vegna mjög auðvelt að fara offari á útgjaldahlið. Öllu verra er, að þessir flokkar hafa ekki minnsta skilning á nauðsyn þess að afla fyrst og eyða svo, þ.e. fyrst að skapa aukin verðmæti í einkageiranum áður en hið opinbera tekur til við að útdeila gæðunum. Það er fyrirkvíðanlegt, að flokkar, sem nú virðast stefna í meirihluta á Alþingi, hafa nánast engan skilning á atvinnurekstri, heldur virðast frambjóðendur flestir vera úr opinbera geiranum eða vinna fyrir hann. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
Það skín í gegn um allan málflutning Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að fólk í þeim flokki hefur engan áhuga á skilvirkni í rekstri opinberra stofnana, hvorki m.t.t. þjónustugæða né kostnaðar, heldur er formið fyrir þeim aðalatriðið, þ.e.a.s. að að hið opinbera bæði kaupi þjónustuna og sjái um reksturinn. Þetta heftir framþróun á viðkomandi sviðum, tefur fyrir tækniþróun, kemur í veg fyrir samkeppni og girðir fyrir aukna skilvirkni og bætt gæði, sem samkeppni tryggir. Þetta er mjög slæmt fyrir starfsfólkið, því að það hefur þá aðeins einn vinnuveitanda á sínu fagsviði, sem er sjaldnast hollt fyrir starfsánægju og laun.
Það virðist vera, að þeir, sem festast í þessu fari hinnar sívaxandi opinberu þjónustu, verði hallir undir þá stjórnmálaflokka, sem boða útþenslu ríkisbáknsins og sem mesta einokun. Þetta er vítahringur, sem nauðsynlegt er að rjúfa, því að þetta rekstrarform er þjóðhagslega óhagkvæmt.
Þegar nánar er að gætt, kemur í ljós, að opinberi geirinn hérlendis notfærir sér í minni mæli þjónustu einkaframtaksins en annars staðar tíðkast. Þetta á við um báða stóru geirana, heilbrigðisgeirann og menntageirann. Það hefur gefizt vel annars staðar, t.d. á hinum Norðurlöndunum, að úthýsa þjónustu til einkaaðila, t.d. á sviði heilsugæzlu og skóla. Hið opinbera greiðir hið sama fyrir veitta þjónustu, óháð rekstrarformi, en rekstraraðilarnir keppa sín á milli um "viðskiptavini". Þetta hefur gefizt vel á sviði heilsugæzlu hérlendis, þar sem einkareknar heilsugæzlustöðvar hafa reynzt vera vinsælar á meðal "viðskiptavina" og hafa staðið sig vel í samkeppninni.
Hér er sem sagt leið til að slá tvær flugur í einu höggi, bæta þjónustuna og halda kostnaðaraukningu við þjónustu hins opinbera í skefjum. Hið sama er uppi á teninginum með sérfræðilæknana. Þjónusta þeirra utan spítalanna er sjálfsögð og dregur úr álagi á yfirlestuð sjúkrahús. Að leyfa einkareknum lækningasofum að stunda aðgerðir, sem krefjast legu í kjölfarið, ætti að vera sjálfsagt mál, ef öllum gæða- og kostnaðarkröfum hins opinbera er fullnægt.
Að fordómafullir og í sumum tilvikum ofstækisfullir stjórnmálamenn nái að leggja stein í götu sjálfsagðrar frelsisþróunar í atvinnulegu tilliti, sem einnig sparar skattfé, er gjörsamlega ólíðandi, en nú stefnir í, að slíkir hafi sitt fram um skeið. Það verður áreiðanlega ekki lengi, því að gallar kerfisins þeirra eru svo yfirþyrmandi, að það mun fljótlega ganga sér til húðar.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2017 | 11:11
Sveppir og sóun
Kári Stefánsson, læknir, getur ekki fundið neina vísindalega sönnun fyrir tengslum dvalar í húsnæði, þar sem raki er og sveppagróður, og heilsuleysis eða sjúkdómskvilla. Hann líkir "trúnni" á þessi tengsl við draugatrú Íslendinga og rifjar upp frásögn föður síns, Stefáns Jónssonar, fréttamanns, af för sinni norður að Saurum á Skaga, þar sem fréttist af illvígum draugagangi forðum tíð. Blekbónda rekur minni til að hafa skemmt sér ótæpilega við að hlýða á Stefán, fréttamann, og viðmælendur hans í þessu Sauramáli á sinni tíð.
Bezt er að vitna beint í son hins frábæra fréttamanns, í grein hans í Fréttablaðinu, 5. september 2017,
"Kólumkilli eða sveppasúpa":
"En það breytir því ekki, að þjóðin er enn staðföst í trú sinni á ýmislegt dularfullt og spennandi, sem ekki hefur verið sannað með aðferðum vísindanna [er það ekki "gelíska genið" ?-BJo]. Klárasta dæmið um þessa staðfestu upp á síðkastið er trúin á heilsuspillandi áhrif myglusveppa í húsum.
Þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum okkar tíma hefur mér ekki tekizt að finna þess merki, að búið sé að sýna fram á, með vísindalegum aðferðum, að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna. Þrátt fyrir það velkist íslenzk þjóð ekki í vafa um áhrif myglusveppa á heilsu, og má sjá merki þess víða í samfélaginu."
Raki og myglusveppur er ekki séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur sambýli manns og svepps verið við lýði frá fyrstu húsakynnum mannsins, og sveppir eru landlægir erlendis í vistarverum manna. Þótt ekki hafi tekizt að sanna læknisfræðilega sök sveppa á heilsuleysi manna, er þó ekki þar með sagt, að tengslin séu ekki fyrir hendi. Sumir, sem veikir eru fyrir á ákveðnum sviðum, t.d. í öndunarfærum, kunna að veikjast við þetta nábýli, þótt aðrir, sem sterkari eru fyrir, finni ekki fyrir einkennum. Læknisfræðin hlýtur að taka tillit til mismunandi mótstöðuþreks.
Kári, læknir, heldur áfram:
"Svo er það hús Orkuveitunnar [OR á reyndar ekki þetta hús lengur, heldur lífeyrissjóðir, þ.á.m. minn, þótt OR beri ábyrgð á rekstri, viðhaldi og opinberum gjöldum af húsinu. Allt er þetta reginhneyksli. - BJo] og þúsundir annarra húsa víðsvegar um landið, og okkur er sagt, að tjónið af völdum myglusvepps á Íslandi nemi tugum milljarða. Þetta byrjaði á því, að inn í hús nokkur kom ung kona í kafarabúningi (ghost buster) og fann myglusveppi grimmilega, sem hún lagði með mjaðmahnykk [?!]. Síðan þá hefur baráttan við myglusveppinn orðið mjög stór iðnaður á Íslandi og engin atvinnugrein vaxið meira í landinu, nema ferðaþjónustan."
Ætla má af lestri þessa texta, að læknirinn sé þeirrar skoðunar, að sveppasýkt húsnæði sé óraunverulegt vandamál. Það sé huglægt fyrirbrygði, eins og trú á tilvist drauga. Helzt er á honum að skilja, að flokka megi sýkingu mannfólks af völdum húsasvepps til móðursýki. Hvað segir landlæknir ? Hvers vegna tekur hann ekki af skarið um, hversu skaðlegur sveppagróðurinn er heilsu manna ? Hefur hann heldur ekkert í höndunum ? Er hættan ímyndun ein ?
Ef frekari rannsókna er þörf, verður að framkvæma þær strax áður en hús, sem kostaði miaISK 11 að núvirði að byggja, og mörg fleiri, eru dæmd svo heilsuskaðleg, að þau verði að rífa vegna myglusvepps. Um rannsóknarþörfina skrifar Kári:
"Þess vegna væri ekki úr vegi að byrja á því að rannsaka málið áður en hús eru dæmd ónýt og rifin og tugmilljarða króna tjón gert að raunveruleika. Rannsókn á skaða þeim, sem myglusveppur kann að valda á heilsu manna, verður eingöngu unnin á Íslandi, vegna þess að í öðrum löndum búa maðurinn og sveppurinn í friðsömu sambýli, og hvorugur kvartar undan hinum."
Það er rétt hjá Kára, að myglusveppur viðgengst víða, einnig á hinum Norðurlöndunum. Hefur þetta sveppafár hérlendis verið reist á ímyndun, eins og Kári Stefánsson, læknir gefur í skyn ? Læknastéttin skuldar þjóðinni óyggjandi svar við því.
Orkuveituhúsið var nefnt. Hvað, sem sveppagróðri í vesturálmu þess líður, er það óbrotgjarn (?) minnisvarði um meðferð R-listans, sáluga, á opinberu fé. R-listinn var samstarfsvettvangur vinstri manna og Framsóknarmanna. Til hans var stofnað til höfuðs völdum Sjálfstæðisflokksins í borginni. Hugarfar fólks, sem ber háskattastefnu fyrir brjósti, er virðingarleysi við einkaeignina, og tekjur fólks eru hluti af henni. Þetta hefur verið límið í valdastöðu vinstri manna í borginni og hefur aldeilis krystallast í Orkuveitu Reykjavíkur-OR.
Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar gumaði Dagur B. Eggertsson og fylgifénaður hans af viðsnúningi í rekstri OR. Hver kom OR í klandur ? Það var vinstra fólkið og Framsóknarfólkið í borgarstjórn, sem sukkaði og sóaði á báða bóga með allt of stórri Hellisheiðarvirkjun m.v. jarðgufuforðann þar undir og með allt of stóru monthúsi fyrir aðalstöðvar OR. Stjórnendur OR og hin pólitíska stjórn hennar voru ekki starfi sínu vaxin. Heimtaður var gjörsamlega óraunhæfur byggingarhraði bæði á OR-húsinu og á Hellisheiðarvirkjun með þeim afleiðingum, að eigendur OR, Reykvíkingar, Skagamenn og íbúar Borgarbyggðar, hafa orðið fyrir svakalegu tjóni, sem þegar getur numið um 1 MISK á hverja 4 manna fjölskyldu í þessum byggðarlögum. Hér er um opinbert fyrirtæki að ræða, og eigendurnir eru ófærir um að komast til botns í þessu OR-hneyksli. Þegar borgararnir verða fyrir viðlíka tjóni og hér um ræðir, verður að komast til botns í því, hvar var keyrt út af, og hverjir voru bílstjórar og meðreiðarsveinar í hverju tilviki.
Hörmungar OR halda hins vegar áfram og munu halda áfram, ef róttækar umbætur á stjórnun verða ekki gerðar. ON borar hverja holuna á fætur annarri í Hellisheiðina, en sá fjáraustur er eins og að míga í skóinn sinn. Finna þarf nýjan virkjunarstað til að létta 100-200 MW af Hellisheiðarvirkjun. Þegar menn eru komnir í foraðið, eiga þeir að hafa vit á að reyna að snúa við.
ON framdi í vor alvarleg mistök við rekstur einu vatnsaflsstöðvar sinnar, þegar gerð var tilraun til að hreinsa botnset úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar með því að galopna framhjáhlaup í stíflunni. Þessi heimskulega ráðstöfun fyllti alla hylji og þakti eirar Andakílsáar af leir með voveiflegum afleiðingum fyrir seiði í ánni og allt annað lífríki.
Ekki tekur betra við í mengunarmálum hjá Veitum, öðru dótturfélagi OR. Þar var viðbúnaður við bilun í frárennsliskerfinu fyrir neðan allar hellur í sumar, sem sýndi, að tæknilegri stjórnun er ábótavant. Hausinn var bitinn af skömminni með því að reyna að þegja málið í hel, þótt heilsuspillandi aðstæður sköpuðust vikum saman í fjörunni og úti fyrir. Siðferðið er ekki upp á marga fiska.
Gagnaveitan er þriðja dótturfyrirtæki OR. Þar þverskallast menn, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, við að eiga samráð við Mílu um samnýtingu skurða fyrir lagnir. Allt er þetta á sömu bókina lært.
Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að OR-samsteypan hefur fyrir löngu vaxið borgarstjórn yfir höfuð. Þar á bæ hafa menn ekki hundsvit á þeirri starfsemi, sem OR-samsteypan fæst við, og eru ekki í neinum færum til að veita henni aðhald, hvorki í borgarráði né í stjórn OR. Borgarfulltrúarnir eru uppteknir við málefni, sem eru gjörólíks eðlis. Eina ráðið til úrbóta er að skera á meirihluta aðild borgarinnar að stjórn OR með því að gera dótturfélögin að sjálfstæðum almenningshlutafélögum. Með þessu móti verður hægt að greiða upp drjúgan hluta af skuldabagga OR-samstæðunnar, og stjórnun dótturfyrirtækjanna ætti að verða viðunandi fyrir eigendur, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.
4.9.2017 | 11:21
Orkuskipti útheimta nýjar virkjanir
Vestfirðingar standa nú frammi fyrir byltingu í atvinnuháttum sínum. Það mun verða gríðarleg vítamínsprauta í samfélag þeirra og í þjóðfélagið allt, þegar laxeldi nær tugþúsundum tonna á hverju ári eða á bilinu 50-80 kt/ár, sumt hugsanlega í landkerum. Þarna er að koma til skjalanna ný meiri háttar útflutningsatvinnugrein með öllum þeim jákvæðu hliðaráhrifum, sem slíkum fylgja.
Ný framleiðsla mun útheimta nýtt fólk. Af þeim orsökum mun verða mikil fólksfjölgun á Vestfjörðum á næstu tveimur áratugum. Hagvöxtur verður e.t.v. hvergi á landinu meiri en þar, þar sem Vestfirðingum gæti fjölgað úr 7 k (k=þúsund) í 12 k eða um 70 % á tveimur áratugum. Þetta verður þó ekki hægt án þess að hleypa nýju lífi í innviðauppbygginguna, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, vegakerfi og raforkukerfi, svo að eitthvað sé nefnt. Fyrstu hreyfingarnar í þessa veru má merkja með Dýrafjarðargöngum á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, sem einnig mun hýsa háspennustrengi, og niður fara á móti loftlínur í 600 m hæð. Þá er einnig gleðiefni margra, að búið er að auglýsa deiliskipulag fyrir 55 MW Hvalárvirkjun.
Þörf fyrir raforku og rafafl mun aukast gríðarlega á Vestfjörðum samhliða vexti atvinnulífsins og fólksfjölgun. Það dregur ekki úr aukningunni, að megnið af húsnæðinu er rafhitað, ýmist með þilofnum eða heitu vatni frá rafskautakötlum. Ætla má, að starfsemi laxeldisfyrirtækjanna og íbúafjölgunin henni samfara ásamt óbeinu störfunum, sem af henni leiða, muni á tímabilinu 2017-2040 leiða til aukningar á raforkunotkun Vestfjarða um tæplega 300 GWh/ár og aukinni aflþörf 56 MW. Við þessa aukningu bætist þáttur orkuskiptanna, sem fólgin verða í styrkingu á rafkerfum allra hafnanna og rafvæðingu e.t.v. 70 % af fartækjaflotanum.
Nýlega kom fram í fréttum, hversu brýnt mengunarvarnamál landtenging skipa er. Þýzkur sérfræðingur staðhæfði, að mengun frá einu farþegaskipi á sólarhring væri á við mengun alls bílaflota landsmanna í 3 sólarhringa. Yfir 100 farþegaskip venja nú komur sínar til Íslands. Þau koma gjarna við í fleiri en einni höfn. Ef viðvera þeirra hér er að meðaltali 3 sólarhringar, liggja þau hér við landfestar í meira en 300 sólarhringa. Þetta þýðir, að árlega menga þessi farþegaskip 2,5 sinnum meira en allur fartækjafloti landsmanna á landi. Þetta hefur ekki verið tekið með í reikninginn, þegar mengun af völdum ferðamanna hérlendis er til umræðu. Gróðurhúsaáhrif millilandaflugs eru 7,6 sinnum meiri en landumferðarinnar. Þetta fer lágt í umræðunni, af því að millilandaflugið er ekki inni í koltvíildisbókhaldi Íslands. Er ekki kominn tími til, að menn hætti að vísa til ferðaþjónustu sem umhverfisvæns valkosts í atvinnumálum ?
Staðreyndirnar tala sínu máli, en aftur að aukinni raforkuþörf Vestfjarða. Orkuskiptin munu útheimta tæplega 100 GWh/ár og 24 MW. Alls mun aukin raforkuþörf árið 2040 m.v. 2016 nema tæplega 400 GWh/ár og 80 MW. Þetta er 58 % aukning raforkuþarfar og 92 % aukning aflþarfar. Að stinga hausnum í sandinn út af þessu og bregðast ekki við á annan hátt mundi jafngilda því að láta gullið tækifæri úr greipum sér ganga.
Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, hefur samt skorið upp herör gegn virkjun Hvalár á Ströndum. Hann hefur hlaupið út um víðan völl og þeyst á kústskapti á milli Suðurnesja og Stranda í nýlegum blaðagreinum. Læknir, þessi, berst gegn lífshagsmunamáli Vestfirðinga með úreltum rökum um, að ný raforka, sem verður til á Vestfjörðum, muni fara til stóriðjuverkefna á "SV-horninu". Þetta eru heldur kaldar kveðjur frá lækninum til Vestfirðinga, og hrein bábilja. Þróun atvinnulífs og orkuskipta á Vestfjörðum er algerlega háð styrkingu rafkerfis Vestfjarða með nýjum virkjunum til að auka þar skammhlaupsafl og spennustöðugleika, sem gera mun kleift að stytta straumleysistíma hjá notendum og færa loftlínur í jörðu. Tvöföldun Vesturlínu kemur engan veginn að sama gagni.
Skurðlæknirinn skrifaði grein í Morgunblaðið, 1. september 2017,
"Fyrst Suðurnes - síðan Strandir:
"Virkjunin er kennd við stærsta vatnsfall Vestfjarða, Hvalá, og er sögð "lítil og snyrtileg". Samt er hún 55 MW, sem er langt umfram þarfir Vestfjarða. Enda er orkunni ætlað annað - einkum til stóriðju á SV-horninu."
Hér er skurðlæknirinn á hálum ísi, og hann ætti að láta af ósæmilegri áráttu sinni að vega ódrengilega að hagsmunum fólks með fjarstæðukenndum aðdróttunum. Honum virðist vera annt um vatn, sem fellur fram af klettum í tiltölulega vatnslitlum ám á Ströndum, en hann rekur ekki upp ramakvein sem stunginn grís væri, þótt Landsvirkjun dragi mikið úr vatnsrennsli yfir sumartímann í Þjófafossi og Tröllkonuhlaupi í árfarvegi stórfljótsins Þjórsár og þurrki þessa fossa upp frá september og fram um miðjan maí með Búrfellsvirkjun II. Hvers vegna er ekki "system i galskapet" ?
Mismikið vatnsmagn í þessu sambandi er þó aukaatriði máls. Aðalatriðið er, að það er fyrir neðan allar hellur, að nokkur skuli, með rangfærslum og tilfinningaþrungnu tali um rennandi vatn, gera tilraun til að knésetja ferli Alþingis um virkjanaundirbúning, sem hefst með Rammaáætlun, þar sem valið er á milli nýtingar og verndunar, og heldur svo áfram með umhverfismati, verkhönnun, upptöku í deiliskipulag og framkvæmdaleyfi. Þessi sjálflægni og rörsýn er vart boðleg á opinberum vettvangi.
30.8.2017 | 13:03
Sósíalismi er ekki svarið
Landsmenn standa frammi fyrir langtíma hagvaxtarrýrnun af völdum óhagstæðrar þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Að öðru óbreyttu mun þetta leiða til hægari lífskjarabata þjóðarinnar og að lokum lífskjararýrnunar, ef fer fram sem horfir.
Svo kann að fara af þessum sökum, að landsmenn upplifi aldrei aftur viðlíka hagvöxt og í fyrra, 7,2 %, og að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi ekki mikið úr þessu. Svona svartsýni styður mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Á hálfri öld, 2017-2065, mun fjöldi fólks yfir 64 ára aldri 2,4 faldast, hækka úr 50 k í 120 k. Hið s.k. framfærsluhlutfall, þ.e. fjöldi fólks undir tvítugu og yfir 64 sem hlutfall af fjöldanum 20-64 ára mun á sama tíma hækka úr 51 % í 72 %. Þetta er mjög íþyngjandi breyting fyrir samfélagið, því að árlegur sjúkrakostnaður fólks yfir 64 ára aldri er að jafnaði ferfaldur á við árlegan sjúkrakostnað yngri borgaranna.
Samkvæmt Sölva Blöndal, hagfræðingi hjá GAMMA Capital Management, í grein í Markaðnum, 23. ágúst 2017, má bást við, að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2015-2050 m.v. 3,0 % raunaukningu á ári, fara úr 7,0 % í 15,2 %. Þetta þýðir með núverandi verðlagi og hlutdeild ríkisins í sjúkrakostnaði yfir 200 miaISK/ár útgjaldaauka ríkisins. Hvernig í ósköpunum á að fjármagna þetta ?
Hjá OECD hafa menn komizt að því, að meðaltal ríkissjóðsútgjalda til heilbrigðismála muni árið 2060 nema 14 % af VLF og hafa orðið ósjálfbær um miðja öldina, þ.e. eitthvað verður undan að láta á útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Kerfið hrynur.
Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast nú þegar til að draga úr tjóninu, sem blasir við. Er meiri sósíalismi svarið ? Nei, áreiðanlega ekki. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á nýlegum flokksráðsfundi eins og Hugo Chavez áður en hann kollsigldi ríkasta landi Suður-Ameríku í gjaldþrot:
"Vaxandi misskipting gæðanna sprettur beinlínis af því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum, sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi, og nú er svo komið, að sífellt fleira fólk er farið að finna fyrir því."
Stefna Katrínar og hennar nóta birtist við afgreiðslu fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar á síðasta þingi. Þær fólu í sér svo mikla hækkun ríkisútgjalda á næstu árum, að þær mundu grafa undan getu ríkisins til að takast á við öldrunarvandann, sem við blasir í framtíðinni.
Það eru aðeins tvær leiðir til að fjármagna útgjaldahugdettur vinstri manna. Annaðhvort með skuldasöfnun eða skattahækkunum. Hvort tveggja dregur úr svigrúmi ríkissjóðs til langs tíma og er þannig ávísun á enn stórfelldari kjaraskerðingu barna okkar og barnabarna en ella verða nauðsynlegar.
Skynsamlegustu viðbrögðin núna við aðsteðjandi vanda eru þríþætt:
- Reyna að bæta lýðheilsuna með fræðsluátaki í skólum og í fjölmiðlum um skaðsemi óhófsneyzlu, hreyfingarleysis og óholls matarræðis. Ef þetta leiðir til betri heilsu eldri borgara, sparast opinber útgjöld, þótt langlífi aukist.
- Reyna að lækka einingarkostnað á hvers konar þjónustu hins opinbera. Til þess hafa aðrar þjóðir nýtt einkaframtakið. Af hverju er það talið ósiðlegt hér, sem er viðurkennd sparnaðarleið fyrir skattborgarana erlendis ? Kasta verður kreddum og pólitískum fordómum á haf út, þegar meðferð skattfjár er annars vegar. Um þetta skrifar Sölvi Blöndal í téðri grein: "Áskorunin felst m.a. í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar. Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög o.fl. Sá, sem aflar fjárins, þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni. Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir, sem vert er að nefna, eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar." Ef innflytjendur eiga að styrkja hagkerfið, þurfa þeir að hafa menntun og þekkingu, sem spurn er eftir hér. Ekki er víst, að afkvæmi þeirra fjölgi sér hraðar en "frumbyggjarnir".
- Nýta verður núverandi svigrúm ríkisfjármála til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs, því að að einum áratug liðnum mun "ellibyrðin" hafa vaxið til muna.
Hugmyndafræði vinstri manna er meira í ætt við trúarbrögð en stjórnmálastefnu, því að annars væri hugmyndafræði þeirra löngu dauð vegna slæmrar reynslu af henni á sviði efnahagsmála og á sviði frelsis einstaklinga og félagasamtaka. Hugmyndafræði vinstri manna á enn verr við á 21. öldinni en áður, því að nú verður að setja aukna verðmætasköpun á oddinn sem aldrei fyrr til að "hinn öfugi aldurspýramídi" hrynji síður. Um þetta skrifar Óli Björn Kárason, Alþingismaður, í ágætri miðvikudagsgrein í Morgunblaðinu, 23. ágúst 2017,
"Játning: ég mun aldrei skilja sósíalista":
"Hugmyndafræði vinstri manna - sósíalista - gefur ekkert fyrir þjóðfélag frjálsra einstaklinga, sem eru fjárhagslega sjálfstæðir. Mælikvarði velferðar og réttlætis [þeirra] mælir umsvif ríkisins. Íslenzkir vinstri menn - líkt og skoðanabræður þeirra í öðrum löndum - byggja á þeirri bjargföstu trú, að ríkið sé upphaf og endir allra lífsgæða. Aukin umsvif ríkis og annarra opinberra aðila er markmið í sjálfu sér, en [eru] ekki aðeins æskileg."
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2017 | 10:19
Syndsamlegt líferni kostar sitt
Það er viðkvæðið, þegar mælt er gegn fíkniefnaneyzlu hvers konar, tóbak og vínandi þar ekki undanskilin, að fíklarnir séu samfélaginu dýrir á fóðrum.
Fíklarnir eru hins vegar sjálfum sér og sínum nánustu verstir. Nýleg brezk rannsókn sýnir, að peningalega eru þeir minni samfélagsbyrði í Bretlandi en þeir að líkindum hefðu verið, ef þeir mundu hafa lifað miðlungs heilbrigðu lífi og þannig náð meðalaldri brezku þjóðarinnar. Líklegt er, að rannsókn hérlendis mundi leiða til svipaðrar niðurstöðu um þetta.
Höfundurinn Óðinn ritar um þetta í Viðskiptablaðið, 10. ágúst 2017. Hann vitnar í rannsóknarskýrslu eftir Christofer Snowdon og Mark Tovey, sem gerð var fyrir brezku hugveituna "Institute of Economic Affairs" (IEA). Þar voru reykingamenn og drykkjumenn rannsakaðir. Grófasta nálgun við heimfærslu á Ísland er að deila með hlutfalli íbúafjölda landanna, 185, og að breyta sterlingspundum í ISK. Slík heimfærsla gefur aðeins vísbendingu.
"Skýrslan er um margt drungaleg vegna þess, að í henni er m.a. reynt að skjóta á þann sparnað, sem ríkið fær, vegna þess að reykingafólk deyr almennt fyrr en þeir, sem ekki reykja. Eins eru teknar með í reikninginn tekjur brezka ríkisins af tóbaksgjöldum."
Skýrsluhöfundar áætla kostnað ríkissjóðs vegna þjónustu heilbrigðiskerfisins við reykingafólk nema um miaGBP 3,6, sem gróflega heimfært nemur miaISK 2,7. Til viðbótar kemur miaGBP 1,0 vegna óþrifa af völdum reykinga og eldtjóns af völdum glóðar eftir reykingamenn. Kostnaður alls miaGBP 4,6 eða gróflega heimfært miaISK 3,4.
Á tekjuhlið ríkissjóðs í þessum málaflokki eru skattar og gjöld af tóbaksvörum, miaGBP 9,5, eða gróflega heimfært miaISK 7,1. Brezki ríkissjóðurinn er með rekstrarhagnað af reykingafólki, sem nemur GBP 4,9 eða gróflega heimfært miaISK 3,7.
Það er ekki nóg með þetta, heldur veldur sparar ríkissjóður Bretlands fé á ótímabærum dauðsföllum reykingamanna. Talið er, að 15,9 % dauðsfalla á Bretlandi hafi mátt rekja til reykinga árið 2015, og þau bar að jafnaði 13,3 árum fyrr að garði en hjá hinum. Hér er einmitt um þann hluta ævinnar hjá flestum að ræða, þegar fólk þarf mest að leita til hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu. Þar að auki verða ellilífeyrisgreiðslur til reykingamanna sáralitlar, en á móti kann að koma örorkulífeyrir. Þetta telst skýrsluhöfundum til, að spari brezka ríkissjóðinum miaGBP 9,8 á ári, eða gróflega heimfært miaISK 7,3 á á ári. Þannig má halda því fram, að eymd brezkra reykingamanna spari brezka ríkinu miaGBP 14,7 á ári, sem gróflega heimfært á íslenzka reykingamenn yrðu miaISK 11,0. Þetta er nöturlega há tala m.v. þá eymd og pínu, sem sjúklingar, t.d. með súrefniskúta, mega þjást af, svo að ekki sé nú minnzt á aðstandendur. Kaldhæðnir segja tóbakið og nikótínfíknina vera hefnd rauðskinnans, en indíánar voru örugglega ekki með í huga á sínum tíma að styrkja ríkissjóði hvíta mannsins.
Með svipuðum hætti hefur Snowdon í skýrslunni "Alcohol and the Public Purse", sem gefin var út af IEA árið 2015, afsannað fullyrðingar um kostnað brezka ríkissjóðsins af ofneyzlu áfengis. Því er einnig iðulega haldið á lofti hérlendis, að áfengissjúklingar séu baggi á ríkissjóði, en ætli það sé svo, þegar upp er staðið ?
Áfengisbölið er hins vegar þyngra en tárum taki fyrir fjölskyldurnar, sem í hlut eiga. Slíkt ætti þó ekki að nota sem réttlætingu fyrir áfengiseinkasölu ríkisins, steinrunnu fyrirbrigði, sem bætir sennilega engan veginn úr áfengisbölinu.
Í grunnskólum landsins þarf forvarnaraðgerðir með læknisfræðilegri kynningu á skaðsemi vínanda og annarra fíkniefna á líkama og sál, einkum ungmenna. Þá er það þekkt, að sumir hafa í sér meiri veikleika en aðrir gagnvart Bakkusi og verða þar af leiðandi auðveld fórnarlömb hans. Allt þetta þarf að kynna ungu fólki í von um að forða einhverjum frá foraðinu. Vinfengi við Bakkus ætti helzt aldrei að verða, en hóflega drukkið vín (með mat í góðra vina hópi) gleður þó mannsins hjarta, segir máltækið.
Hvað skrifar Óðinn um opinberan kostnað af áfengisbölinu ?:
"Kostnaður hins opinbera vegna áfengisneyzlu er víðtækur. Kostnaður vegna áfengistengdra ofbeldisglæpa er metinn á um miaGBP 1,0, og kostnaður vegna annarra glæpa - þar á meðal drukkinna ökumanna - er um miaGBP 0,6. Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna áfengisdrykkju er metinn á um miaGBP 1,9, og annar kostnaður velferðarkerfisins, t.d. vegna greiðslna til fólks, sem drykkjusýki sinnar vegna er ófært um vinnu, nemur um miaGBP 0,29."
Á Bretlandi er metinn opinber heildarkostnaður vegna ofdrykkju Kod = miaGBP(1,0+0,6+1,9+0,29)=miaGBP 3,8. Yfirfærður til Íslands með einfaldasta hætti nemur þessi kostnaður miaISK 2,8. Á Bretlandi er þessi kostnaður lægri en af tóbaksbölinu, en blekbóndi mundi halda, að á Íslandi sé opinber kostnaður af áfengisbölinu hærri en af tóbaksbölinu og jafnframt hærri en miaISK 2,8 þrátt fyrir verra aðgengi að áfengisflöskum og -dósum hérlendis, eins og allir vita, sem ferðazt hafa til Bretlands. Það er barnalegt að ímynda sér, að ríkisverzlanir reisi einhverjar skorður við áfengisfíkninni. Hún er miklu verri viðfangs en svo.
Tekjur brezka ríkisins af af áfengi á formi skatta og áfengisgjalda eru um miaGBP 10,4. Þar að auki felur skammlífi drykkjusjúkra í sér talsverðan sparnað, sem Óðinn tíundaði þó ekki sérstaklega. Brezka ríkið kemur þannig út með nettótekjur af áfengi, sem nemur a.m.k. miaGBP(10,4-3,8)=miaGBP 6,6. Brúttotekjur íslenzka ríkisins út frá þessu eru miaISK 7,8, en eru í raun miklu hærri, og nettótekjur þess miaISK 4,9. Kostnaður íslenzka ríkissjóðsins af áfengisbölinu er gríðarlegur, svo að nettótekjur hans af áfenginu eru sennilega ekki hærri en þessi vísbending gefur til kynna, en samt örugglega yfir núllinu, þegar tekið hefur verið tillit til styttri ævi.
Undir lokin skrifar Óðinn:
"Það er engu að síður áhugavert að sjá, að þvert á fullyrðingar þeirra, sem berjast gegn reykingum og áfengisneyzlu, þá væri staða brezka ríkissjóðsins verri en ella, ef ekki væri fyrir reykinga- og drykkjufólkið."
Ríkissjóðurinn íslenzki hagnast mikið á ýmsum öðrum hópum, sem sérskattaðir eru. Þar fara eigendur ökutækja framarlega í flokki. Tekjur ríkissjóðs af ökutækjum nema um miaISK 45, en fjárveitingar til vegagerðarinnar nema aðeins rúmlega helmingi þessarar upphæðar, og hefur Vegagerðin þó fleira á sinni könnu en vegina, t.d. ferjusiglingar. Fjárveitingar til Vegagerðarinnar hafa nú í 9 ár verið allt of lágar m.v. ástand vega og umferðarþunga, en frá 2015 hefur keyrt um þverbak. Af öryggisástæðum verður að auka árlegar fjárveitingar til vegamála hérlendis um a.m.k. miaISK 10.
Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra boðað hækkun kolefnisgjalds á dísilolíu. Vinstri stjórnin reyndi fyrir sér á ýmsum sviðum með neyzlustýringu, og eitt asnastrikið var að hvetja til kaupa á dísilbílum fremur en benzínbílum með meiri gjöldum á benzínið. Hækkun nú kemur sér auðvitað illa fyrir vinnuvélaeigendur, en vinnuvélar eru flestar dísilknúnar, og þeir eiga ekkert val. Eigendur annarra dísilknúinna ökutækja eiga val um aðra orkugjafa, t.d. fossaafl og jarðgufu, sem breytt hefur verið í rafmagn.
Stöðugt hefur fjarað undan þessum tekjustofni ríkisins vegna sparneytnari véla. Innleiðing rafbíla kallar á allsherjar endurskoðun á skattheimtu af umferðinni. Strax þarf að hefja undirbúning að því að afleggja gjöld á eldsneytið og eignarhaldið (bifreiðagjöld) og taka þess í stað upp kílómetragjald. Bílaframleiðendur eru að alnetsvæða bílana og "skattmann" getur fengið rauntímaupplýsingar um aksturinn inn í gagnasafn sitt og sent reikninga í heimabanka bíleigenda mánaðarlega, ef því er að skipta. Í Bandaríkjunum eru nú gerðar tilraunir með þetta, og er veggjaldið um 1,1 ISK/km. Þar er reyndar einnig fylgzt með staðsetningu og hærra gjald tekið í borgum, þar sem umferðartafir eru. Á Íslandi yrði meðalgjaldið um 5,1 ISK/km m.v. 35 miaISK/ár framlög ríkisins til vegamála.
13.8.2017 | 11:35
Er rörsýn vænleg ?
Fegurðin í samneyti manns og náttúru er fólgin í hógværð og tillitssemi í umgengni við hana, þannig að nýting á gjöfum hennar á hverjum tíma beri glögg merki um beitingu vits og beztu fáanlegu þekkingar (tækni) á hverjum tíma. Á okkar tímum þýðir þetta lágmörkun á raski í náttúrunni og að fella mannvirki vel að henni eða augljóslega eins vel og unnt er.
Þetta á t.d. við um orkunýtingarmannvirki og flutningsmannvirki fyrir umferð ökutækja eða raforku. Á þessari öld og nokkru lengur hefur verið uppi ágreiningur með þjóðinni um mannvirkjagerð utan þéttbýlis og alveg sérstaklega á stöðum, þar sem lítil eða engin bein ummerki eru um manninn, en óbein ummerki um mannvist blasa þó víðast við þeim, sem eru með augun opin, í "stærstu eyðimörk Evrópu", þar sem gróðurfarið er hryggðarmynd mannvistar og búfjárhalds í landinu. Það er skylda okkar hérlendra nútímamanna og afkomenda að stöðva frekari eyðingu jarðvegs og klæða landið aftur gróðri. Þetta fellur þeim þó ekki í geð, sem engu vilja breyta. Slíkir eru ekki íhaldsmenn, því að þeir vilja aðeins halda í það, sem vel hefur gefizt, heldur afturhaldsmenn. Þá kemur ofstækisfull andúð á "erlendum" gróðri á borð við lúpínu og barrtré spánskt fyrir sjónir í landi, sem kalla má gróðurvana.
Hugmyndin að baki Rammaáætlun var að skapa sáttaferli með kerfisbundnu vali á milli verndunar og orkunýtingar. Nýtingarhugtakið þyrfti að víkka út, svo að það spanni nýtingu ferðamanna á landinu, nú þegar tala erlendra af því sauðahúsi fer yfir 2,0 milljónir á ári. Iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunarráðherra ýjaði að slíku í Morgunblaðsgrein laugardaginn 12. ágúst 2017.
Blekbóndi er þó ekki hrifinn af framkvæmdinni á mati Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun fyrirkomulaginu, og telur mat á virkjunarkostum vera hlutverk Orkustofnunar, en ekki pólitísks skipaðrar "Verkefnisstjórnar um Rammááætlun" virkjunarkosta, enda hefur iðulega verið slagsíða á þessu mati. Af einhverjum ástæðum hefur Verkefnisstjórnin ekki tekið neinn vindorkukost til mats, og skýtur það skökku við, því að umhverfisáhrif vindmyllna, hvað þá vindmyllulunda upp á 100 MW eða meir, eru mikil að mati blekbónda, en sínum augum lítur hver á silfrið. Hins vegar hefur Verkefnisstjórn hneigzt til verndunar á vatnsföllum og lausbeizlaðrar flokkunar jarðhitasvæða sem nýtingarstaða. Ekki er víst, að þetta sjónarmið þjóni umhverfisvernd vel, þegar upp er staðið.
Engu að síður er hér um lýðræðislegt ferli að ræða, þar sem Alþingi á lokaorðið, og það ber að virða, hver sem skoðun manna er á niðurstöðunni, enda geta frekari rannsóknir og breyttar aðstæður breytt niðurstöðunni.
Þeim, sem hafna niðurstöðu þessa ferlis og andmæla hástöfum virkjunaráformum um valkosti, sem lent hafa í nýtingarflokki Rammaáætlunar, má líkja við mann, sem er of seinn að ná strætisvagni, en hleypur samt á eftir honum, þar sem hann fer af stað, og úr barka hans berast hljóð, sem ólíklegt er, að nái eyrum bílstjóra lokaðs strætisvagnsins.
Þann 8. ágúst 2017 birtist í Fréttablaðinu grein með þeirri fordómafullu fyrirsögn,
"Stóriðju- og virkjanaárátta - stríð á hendur ósnortnum víðernum".
Greinarhöfundur er þekktur læknir, hér og t.d. á "Karolinska" í Svíþjóð, Tómas Guðbjartsson. Fyrirsögnin lýsir rörsýn hans á viðfangsefni landsmanna, sem er að skapa öflugt og sem fjölbreytilegast atvinnulíf í landi gjöfullar og viðkvæmrar náttúru, svo að landið verði samkeppnishæft við aðra um fólk með alls konar þekkingu, getu og áhugamál. Greinin ber með sér sorglega viðleitni til að etja saman atvinnugreinum, og verður ekki hjá því komizt að leiðrétta misskilning og að hrekja rangfærslur höfundarins, eins og nú skal rekja. Hún hófst þannig:
"Undanfarið hefur skapazt töluverð umræða um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Íslandi, enda virðist sem stjórnvöld ætli áfram að greiða götu mengandi stóriðju."
Læknirinn stóð í sumar sjálfur fyrir umræðu um Hvalárvirkjun, 55 MW, 320 GWh/ár, á Vestfjörðum. Sagðist hann reyndar sjálfur þá hafa mestar áhyggjur af loftlínum þar í "ósnortnum víðernum" Vestfjarða. Nú vill svo til, að HS Orka ætlar að hafa allar lagnir neðanjarðar að og frá stöðvarhúsi Hvalárvirkjunar, svo að þetta var tómt píp í lækninum. Stöðvarhúsið verður lítt áberandi, gott ef það verður ekki sprengt inn í bergið, eins og stærsta stöðvarhús landsins í Fljótsdal.
Það er enn fremur alveg út í hött hjá téðum Tómasi að tengja þessa miðlungsstóru virkjun við orkukræfa stóriðju. Hann hlýtur að hafa heyrt um þjóðþrifaverkefnið orkuskipti, og að þau standa fyrir dyrum á Íslandi, þótt hægt fari enn. Stjórnvöld hafa sem undirmarkmið varðandi Parísarsamkomulagið frá desember 2015, að að meðaltali 40 % af ökutækjaflotanum á Íslandi verði orðinn umhverfisvænn árið 2030. Það dugar reyndar ekki til að ná markmiðinu um 40 % minni losun umferðar þá en árið 1990, heldur þarf umhverfisvænn ökutækjafloti þá að nema 60 % af heildarfjölda. Ef 40 % ökutækjaflotans eiga að verða rafknúnir þá, þarf að virkja a.m.k. 170 MW afl og 770 GWh/ár orku fyrir árið 2030 til viðbótar við Búrfell 2 og Þeistareyki 1 og 2. Orkuskiptin þurfa árið 2030 miklu meiri raforku en þetta, því að það er líka annars konar eldsneytisnotkun, sem þarf að leysa af hólmi, t.d. fiskimjölsverksmiðjur. Ætla virkjana- og loftlínuféndur að reyna að hindra þessa sjálfsögðu þróun ? Þá hefur ný víglína verið mynduð í umhverfisvernd á Íslandi.
Næst fór læknirinn út í "samanburðarfræði". Fór hann niðrandi orðum um málmframleiðsluiðnað í landinu og reyndi að upphefja ferðaþjónustu á kostnað hans. Það er ótrúlegt af Tómasi Guðbjartssyni, lækni, að hann skuli ekki upp á eigin spýtur geta gert sér grein fyrir því, að slík skrif eru fleipur eitt, eins og nú skal rekja:
"Aðstæður á Íslandi eru gjörbreyttar, og staðreynd er, að stóriðja fer illa saman við blómstrandi ferðamannaiðnað, sem er orðin sú atvinnugrein, sem skapar langmestar gjaldeyristekjur og veitir miklu fleiri Íslendingum atvinnu en stóriðja."
Þær staðreyndir, sem blekbónda eru tiltækar, styðja það þvert á móti, að stóriðja og ferðaþjónusta fari ágætlega saman. Árlega kemur fjöldi fólks gestkomandi í álverin og óskar eftir kynningu á starfseminni. Enn fleiri koma í virkjanir, sem sjá stóriðjunni fyrir raforku, til að kynnast þessari náttúrunýtingu Íslendinga, bæði í jarðgufuverum og fallvatnsorkuverum. Læknirinn málar hér skrattann á vegginn og býr til vandamál. Til hvers þennan barnalega meting ? "Cuo bono" ? Hann er ekki aðeins illa haldinn af rörsýn, heldur undirlagður af ranghugmyndum um grundvallaratvinnuvegi landsins.
Umhverfisálag af völdum erlendra ferðamanna á Íslandi er margfalt á við umhverfisálag orkukræfs iðnaðar á Íslandi. Hafa menn heyrt um mannasaur og fjúkandi viðbjóð í íslenzkri náttúru af völdum iðnaðarins ? Úti fyrir strönd Straumsvíkur eru ummerki eftir ISAL ekki mælanleg í lífríkinu. Halda menn, að 2,0 milljónir erlendra ferðamanna reyni ekki verulega á fráveitur landsins ? Það er ekkert smáræði af skolpi, þvottaefnum og annarri mengun, úti fyrir ströndum landsins og jafnvel í ám og stöðuvötnum af völdum þessara ferðamanna, sem minna stundum á engisprettufaraldur. Átroðningar og áníðsla á viðkvæmum gróðri landsins er víða þannig, að stórsér á.
Álverin búa við ströngustu mengunarkröfur í heimi, og opinbert eftirlit er með því, að þau uppfylli þessar kröfur. Í grennd við álverið í Straumsvík er flúor í gróðri ekki merkjanlegur nú orðið umfram það, sem hann var fyrir 1969, t.d. vegna eldgosa. Að láta sér detta það í hug að bera saman hátækni og háborgandi atvinnugrein og lágt borgandi atvinnugrein, sem snýst um að éta og drekka, tronta á náttúrunni og spúa eiturefnum og koltvíildi úr jarðefnaeldsneytisbrennandi ökutækjum, er ósvífni.
Það má tína fleira til, eins og aukna hættu á vegum landsins og sýkingarhættu af völdum erlendra ferðamanna, og eru berklar, lifrarbólga A og nóruveiran fá dæmi úr fúlum flór, en alvarlegasta umhverfisógnunin er af völdum losunar millilandaflugvélanna á gróðurhúsalofttegundum í háloftunum.
Losun á 1 kg af CO2 í háloftunum er á við losun á tæplega 3 kg af CO2 á jörðu niðri. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa, nam losun íslenzkra flugvéla í millilandaflugi árið 2016 7,1 Mt (milljón tonn), sem var 59 % af heildarlosun landsmanna þá. Losun iðnaðarins nam þá 2,3 Mt eða innan við þriðjungi af losun millilandaflugsins. Það kemst engin atvinnugrein í hálfkvisti við ferðaþjónustuna varðandi illa meðferð á náttúrunni.
Í þessu ljósi er ekki boðlegt að skrifa um "mengandi stóriðju" og dásama um leið ferðaþjónustuna, því að mengun "fjöldaferðamennskunnar" á Íslandi er margföld á við mengun orkukræfs iðnaðar, eins og rökstutt hefur verið:
"Stóriðja er ekki aðeins mengandi, heldur krefst hún mikillar orku, sem fæst með því að virkja vatnsföll og háhitasvæði. Þessar virkjanir eru nær undantekningarlaust nálægt náttúruperlum, sem bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn laðast að. Auk þess rjúfa þær ósnortin víðerni, sem hafa minnkað um 70 % á s.l. 70 árum hér á landi."
Stærsta virkjanasvæði landsins er Þjórsár/Tungnaár svæðið. Þar eru landspjöll hverfandi, en ávinningurinn feiknarlegur fyrir þjóðina. Þar hefur Landsvirkjun þess vegna tekizt mjög vel upp við að sækja gull í greipar náttúrunni með sjálfbærum og sumir segja afturkræfum hætti.
Það er ástæða til að bera brigður á þessa 70 % rýrnun Tómasar. Mælingin virðist tilfinningablendin, því að sumum dugar að vita af mannvirki utan sjónsviðs til að upplifa truflun af því. Er það ekki sjúkleg ofurviðkvæmni, sem ekki ætti að hafa áhrif á þetta mat ? Blekbónda rekur minni til að hafa lesið grein eftir fyrrverandi Orkumálastjóra og lærimeistara blekbónda úr Verkfræðideild HÍ, Jakob Björnsson, þar sem hann hélt því fram, að meint rýrnun "ósnortinna víðerna" gæti seint (og ekki á okkar dögum) farið yfir 10 % á Íslandi, svo víðáttumikil væru þau.
Það er engu líkara af ofangreindum orðum Tómasar en hann skilji ekki, að ferðamannaiðnaðurinn er knúinn áfram af gríðarlegri orku, en sú orka kemur hins vegar nánast öll úr jarðolíunni. Tómas virðist vera þeirrar skoðunar, að slík orkunýting sé vænlegri kostur fyrir mannkynið en að afla orkunnar með endurnýjanlegum hætti úr náttúrunni á Íslandi. Slíkt sjónarmið verðskuldar heitið "rörsýn".
Árið 2016 brenndu millilandaflugvélar Íslendinga um 0,79 Mt af eldsneyti, sem var 0,17 Mt meira en allir aðrir jarðefnaeldsneytisbrennarar á Íslandi til samans, þ.e. landsamgöngur, fiskiskipaflotinn og millilandaskipin. Að hampa slíkri starfsemi lýsir afar undarlegu lífsviðhorfi. Tómas, læknir, hefur fullt leyfi til slíks lífsviðhorfs, en það verður aldrei ofan á á Íslandi.
Árið 2050, þegar orkuskiptin á láði og legi (ekki í lofti) verða vonandi um garð gengin hérlendis, munu bílaleigubílar, smárútur og langrútur, þurfa 180 MW af rafafli og 626 GWh af raforku frá nýjum virkjunum á Íslandi. Millilandaflug Íslendinga gæti þurft á tífaldri þessari orku að halda, þegar þar verða orkuskipti. Á að láta afturhaldsmenn komast upp með að þvælast fyrir þeirri sjálfsögðu og eðlilegu þróun, sem orkuskiptin fela í sér ?
Lokadæmið um hugrenningar læknisins:
"Íslenzk orka er heldur ekki ókeypis, og að baki hverri virkjun er gríðarleg fjárfesting, þar sem tekin hafa verið stór lán - oft í samvinnu við erlend risafyrirtæki. Stóriðja hefur vissulega skapað störf og tekjur hér á landi, en það hefðu peningarnir líka gert, hefðu þeir verið nýttir til annarrar atvinnustarfsemi."
Hér veður læknirinn reyk, þótt af öðrum toga sé en áður. Hvað er athugunarvert við að taka lán til atvinnu- og verðmætaskapandi athafna, ef þær eru arðsamar, eins og raforkusala í heildsölu samkvæmt langtímasamningum hefur verið ? Þessi aðferð hefur reynzt giftudrjúg við að lágmarka raforkuverð til almennings, sem er ólítill þáttur í velferð hér og samkeppnishæfni. Það er hundalógík að halda því fram, að lánsfé, sem eyrnamerkt fékkst til ákveðinnar fjárfestingar, sem reist var á tekjutryggingu að stórum hluta til áratuga frá alþjóðlegum stórfyrirtækjum, hefði fengizt í "eitthvað annað". Heldur margtéður Tómas, læknir, Guðbjartsson því fram, að lánastofnanir hefðu lánað Íslendingum á sömu kjörum í mengandi áhættufjárfestingu, sem hótelbygging er, svo að dæmi af eftirlæti hans í hópi útflutningsgreinanna sé tekið ?
Að lokum verður ekki hjá því komizt að leiðrétta eina tölulega villu læknisins í tilvitnaðri grein um 3 stærðargráður, þ.e. um er að ræða þúsundfalda villu. Má draga þá ályktun, að sá, sem gerir sig sekan um svo stóra villu, beri lítið skynbragð á umræðuefnið, sem hann hefur þó sjálfur kosið sér ? Er þetta allt bara einhvers konar PR eða skrum fyrir galleríið ? Hann heldur því fram, að raforkuvinnsla á hvern íbúa Íslands nemi 54 kWh/íb. Það er mjög langt síðan, að svo var. Hið rétta er 55 MWh/íb á ári.
2.8.2017 | 17:37
Af hæfni og þjónustulund
Allir hafa mismunandi hæfni til að sinna þeim störfum, sem þeir eru settir til, og þjónustulund og hæfni þurfa ekki endilega að fara saman. Í samskiptum opinberra stofnana við almenning verður þetta tvennt þó að fara saman, ef vel á að vera, og það er á ábyrgð viðkomandi yfirmanns, að svo sé.
Í ár, og um þverbak hefur keyrt í sumar, hafa kvartanir vegna þjónustu sumra opinberra stofnana verið sérlega áberandi. Nefna má Umhverfisstofnun, sem birti athugasemdalaust kolvitlausar mæliniðurstöður frá verktaka, sem sá um mælingar í grennd við nýja kísilverksmiðju í Helguvík. Mæliniðurstöðurnar voru alveg út úr korti og gáfu Umhverfisstofnun fullt tilefni til að staldra við áður en hún skyti íbúum skelk í bringu og ylli fyrirtækinu tjóni. Skiptir þá ekki máli í þessu sambandi, þótt þar hafi allt gengið á afturfótunum frá fyrsta degi.
Mest hefur þó reykvískum stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verið legið á hálsi hæfniskortur og þjónustulundarvöntun, og stingur það í stúf við þá staðreynd, að í Reykjavík ætti mannvalið mest að vera út frá höfðatölunni. Þetta þarf þó ekki undrun að sæta, þegar haft er í huga, að þjónustukönnun á vegum sveitarfélaganna í fyrra gaf Reykjavík lægstu einkunn. Viðbrögðin sýndu þá, að eftir höfðinu dansa limirnir. Í æðstu stjórn borgarinnar var hugarfarið greinilega, eins og hjá einvaldskóngum síðmiðalda í Evrópu: "Vér einir vitum", og Reykjavík var einfaldlega dregin út úr þessari þjónustukönnun, sem var hugsuð sem hjálpartæki fyrir stjórnendur sveitarfélaganna, sem þátt tóku.
Um 12. júní 2017 kom í ljós bilun á neyðarútrásarlúgu skolphreinsistöðvar OR/Veitna við Faxaskjól í vesturbæ Reykjavíkur, sem leiddi til þess, að hún opnaðist og ekki var hægt að loka henni aftur fyrr en málið komst í seinni fréttir sjónvarps RÚV 5. júlí 2017. Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur var tilkynnt strax um atburðinn, en hvorki því né OR/Veitum þóknaðist að tilkynna Reykvíkingum um atburðinn, sem þó eru hagsmunaaðilar sem eigendur og notendur baðstrandar og fjöru í grennd. Yfirvöldin gáfu íbúunum langt nef.
Heilbrigðiseftirlitið mun hafa gert eina mælingu í júní á fjölda saurgerla í 100 ml sjávar, sem voru fleiri en heilsuverndarmörk kveða á um, og samt var látið hjá líða að fylgjast grannt með ástandinu, hvað þá að vara fólk við. Almenningur stóð í þeirri trú, að Heilbrigðiseftirlitið væri starfrækt til verndar lýðheilsu, en með þessu atferli hafa stjórnendur þar á bæ sáð fræjum efasemda um, að svo sé, ef fyrirtæki borgarinnar eiga í hlut. Jafnvel umhverfisráðherra vill nú yfirtaka yfirstjórn þessa málaflokks af Degi, borgarstjóra. Bragð er að, þá barnið finnur, eða kannski kjólakynnir í ræðusal Alþingis.
Ef rennslið gegnum téða neyðarlúgu hefur numið 750 l/s, eins og fréttir hermdu, og rennslið hefur varað í þrjár vikur, þá hefur magn óhreinsaðs skolps út í sjó frá þessari einu stöð numið tæplega 1,4 Mm3 (milljón rúmmetrum). Að tæknilegur viðbúnaður OR/Veitna sé svo bágborinn, að slík mengun þyrfti að viðgangast, sýnir, að þar á bæ er skipulag viðhalds- og rekstrarmála óviðunandi, og verður að fara fram rótargreining á atburðinum, birta niðurstöðu hennar opinberlega og tilkynna, hvaða hámarks opnunartíma megi búast við í kjölfar úrbóta. Er búið að gera tæknilegar ráðstafanir til að stytta ótrúlega langan viðbragðstíma, og í hverju eru þær þá fólgnar ?
Upp á síðkastið hefur aðalathyglin á sviði þjónustu borgarinnar beindst að Byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Um þetta skrifaði Baldur Arnarson í Morgunblaðið 25. júlí 2017 undir fyrirsögninni:
"Segja starfsmenn misnota valdið":
"Samtök iðnaðarins hafa komið á framfæri formlegum kvörtunum yfir framgöngu byggingarfulltrúa í Reykjavík. Fundið er að fjölda atriða varðandi málsmeðferð og framkomu starfsfólks byggingarfulltrúa. Verktakar og veitingamenn, sem Morgunblaðið ræddi við, sögðu sömu sögu. Framganga embættismanna hefði kostað fyrirtæki mikið fé. Fjöldi verkefna hefði tafizt.
Samtök iðnaðarins sendu formlega kvörtun vegna þessa með tölvubréfi til Péturs Ólafssonar, aðstoðarmanns Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur, 22. maí s.l. Niðurstaðan er, að fulltrúum samtakanna verður boðið til fundar um málið í síðari hluta ágústmánaðar eða um einum ársfjórðungi síðar."
Það er sjaldgæft, að heildarsamtök kvarti opinberlega undan þjónustu yfirvalda við félagsmenn sína. Ljóst er, að bullandi óánægja er með þjónustu þessa gríðarlega mikilvæga embættis. Hvernig ætli staðan væri, ef byggt væri fimmfalt meira í Reykjavík en reyndin er og full þörf er á ?
"Síðan eru talin upp dæmi: erfiðara sé að ná sambandi við starfsmenn, afgreiðsla mála taki lengri tíma, þjónustulund fari þverrandi, framkoma starfsmanna í garð þeirra, sem þjónustu þurfa, sé neikvæð, flækjustig hafi verið aukið, málum sé frestað vegna óviðeigandi athugasemda, viðvarandi óljós og margræð skilaboð séu gefin, þegar málum er frestað; þar sé jafnvel á ferð breytileg afstaða, sem byggist á persónulegri afstöðu viðkomandi starfsmanns."
Síðan er rakinn fjöldi frestana á afgreiðslu mála, sem viðskiptavinir embættisins telja oft ómálefnalegar og óþarfar.
"Með þetta í huga óskuðu samtökin eftir greiningu borgarinnar á "þessari óásættanlega lélegu skilvirkni". Í öðru lagi þurfi að leggja mat á, að "hve miklu leyti megi rekja þetta ástand til slakra vinnubragða viðskiptavina embættisins". Í þriðja lagi þurfi að "krefjast endurskilgreiningar á hlutverki embættisins frá því að vera í regluvörzlu í það að vera þjónustu- og ráðgjafarstofnun í þágu borgaranna". Í fjórða lagi þurfi að "stórbæta ráðgjöfina og samskiptin, ekki aðeins með útgáfu leiðbeininga, heldur og með námskeiðum og kynningarfundum um það, sem betur má fara.""
Í Morgunblaðinu 27. júlí 2017 birtist síðan viðtal Magnúsar Heimis Jónassonar við byggingarfulltrúann, þar sem hann útskýrir sína hlið málsins:
"Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkur, er ósammála þeim fullyrðingum frá Samtökum iðnaðarins (SI), að málsmeðferð byggingarleyfa taki of langan tíma vegna vinnubragða embættisins. "Málsmeðferð hjá okkur er í beinu samræmi við gæði þeirra gagna, sem okkur berast. Okkur er mjög umhugað um það að afgreiða mál sem fyrst, sem berast okkur, enda erum við með allt að 110 mál á vikulegum afgreiðslufundum og viljum því afgreiða þau og samþykkja sem fyrst.""
Hér virðist vera hjakkað í sama farinu í stað upplýsingagjafar og aðstoðar við viðskiptamenn embættisins til að kenna þeim til hvers er ætlazt af umsækjanda. Þá ætti að vera óþarfi að leggja venjubundin mál af einfaldara taginu fyrir fund.
"Aðspurður segir Nikulás, að bezta leið fyrir umsóknaraðila til að stytta málsmeðferðartímann sé að koma með vel undirbúnar umsóknir, en hann segir ýmis gögn og upplýsingar oft vanta."
Gagnvart umsækjanda um byggingarleyfi til borgarinnar þarf að vera ein ásjóna í stað þess að vísa umsækjendum á milli Pontíusar og Pílatusar. Þetta þýðir, að embætti byggingarfulltrúa á sjálft að sjá um, að aðilar á borð við heilbrigðisfulltrúa og eldvarnarfulltrúa rýni umsóknina. Embættið á ekki að taka við umsókninni, nema hún sé fullnægjandi, og það á strax að leiða umsækjanda fyrir sjónir, hvað vantar. Þannig má flýta fyrir afgreiðslu.
Í lokin sagði byggingarfulltrúinn í þessari frétt:
"Aðspurður segir hann, að embættið muni hlusta á gagnrýni frá SI, en bendir hins vegar á, að slíkar breytingar gætu þurft aðkomu löggjafans.
"Að sjálfsögðu ætlum við að hlusta á þessi samtök og ígrunda vel og vandlega þessar tillögur, sem þau koma með, en við teljum okkur vera að vinna mjög góða vinnu hérna. Við erum hér með vottað gæðakerfi, sem var tekið upp til að tryggja sem faglegustu og beztu afgreiðsluna fyrir okkar viðskiptavini.""
Það er sammerkt öllum gæðastjórnunarkerfum, að þau setja þarfir viðskiptavinanna á oddinn. Gæðastjórnunarkerfi tryggir viðskiptavininum rekjanlega verkferla hjá birginum, þ.á.m. fyrir kvartanir viðskiptavina. Ef gæðastjórnunarkerfið virkar rétt, getur viðskiptavinur fengið að sjá slóð umsóknar sinnar til byggingarfulltrúa og einnig slóð kvörtunar. Birginum, hér byggingarfulltrúa, ber samkvæmt gæðastjórnunarkerfi að mynda umbótaferli, sem á að uppræta gallann, sem kvartað var yfir. Þetta hefur augljóslega ekki verið gert hjá embætti byggingarfulltrúa, því að það er stöðugt verið að kvarta undan hinu sama, þ.e. skorti á þjónustulund, t.d. leiðbeiningum fyrir umsækjendur um form og innihald umsóknar, seinlæti og duttlungum starfsmanna.
Vegna þrálátra og tíðra kvartana viðskiptavina liggur beint við að álykta, að gæðastjórnunarkerfi byggingarfullrúans í Reykjavík virki alls ekki. Það þarf greinilega að straumlínulaga þessa starfsemi og einfalda viðskiptavinum hennar lífið, svo að þeir viti nákvæmlega til hvers er ætlazt af þeim, og það á að taka af þeim ómakið að hlaupa á milli embætta Reykjavíkurborgar.
Embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkur virðist í stuttu máli vera illa skipulagt og hafa fallið í þá gryfju gæðastjórnunarkerfa að taka upp mikla skriffinnsku án þess að starfsmönnum þess hafi lánazt að nýta kosti gæðastjórnunarkerfis til sífelldra endurbóta, sem sjánlega gagnist viðskiptavinunum.
Ein þessara stofnana, sem viðskiptavinir byggingarfulltrúans þurfa að leita til, er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Í Morgunblaðinu 28. júlí 2017 átti Baldur Arnarson viðtal við Árnýju Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, undir fyrirsögninni:
Mistókst að einfalda kerfið:
"Við getum öll verið sammála um, að lög og reglugerðir, sem Heilbrigðiseftirlitið á að framfylgja, og svo rekstraraðilar og almenningur að fara eftir, geta verið íþyngjandi, og því miður hefur ekki tekizt að einfalda regluverk í raun, eins og vonir stóðu til. Hins vegar er það svo, að Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki heimildir til að gefa afslátt af regluverki; það getur einungis löggjafinn eða ráðuneytin gert. Síðan er gjarnan kallað eftir auknu eftirliti og kröfum eina stundina, og svo hins vegar minna eftirliti þá næstu."
Þetta er ósannfærandi málflutningur eftir það, sem á undan er gengið. Hvað hefur Árný Sigurðardóttir gert til að "einfalda regluverkið", og hver stóð gegn því, að svo yrði gert ? Það er ekki hægt að kasta fram fullyrðingu, eins og hún gerir hér, og síðan að skilja alla enda eftir lausa. Almenningur á rétt á að vita hið sanna í þessu máli, sérstaklega ef það eru einhverjir stjórnmálamenn, sem vilja gera almenningi óþarflega erfitt fyrir með dýrri og óþarfri skriffinnsku.
Þá varð stofnun Árnýjar, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, einmitt bert að því í sumar að veita OR/Veitum ekkert aðhald varðandi opnunartíma neyðarlúgu fyrir óhreinsað skolp út í sjó, þótt mengun sjávar væri hátt yfir heilsuverndarmörkum. Þá gaf þetta Heilbrigðiseftirlit einmitt annarri borgarstofnun verulegan "afslátt af regluverki". Meira að segja umhverfisráðherra hefur áttað sig á þessu algerlega óviðunandi framferði stofnunar Árnýjar Sigurðardóttur og hefur í kjölfarið heitið því að færa þetta eftirlit frá borg til ríkis. Verður fróðlegt að fylgjast með efndunum.
21.7.2017 | 13:09
Lýðheilsu á hærri stall
Það varð lýðum ljóst, er loks fréttist af bilun í skolphreinsistöð þremur vikum eftir að farið var að hleypa óhreinsuðu klóaki út um neyðarlúgu stöðvar OR/Veitna við Faxaskjól, að sumir stjórnmálamenn og embættismenn láta sér í léttu rúmi liggja, þótt kólíbakteríur og saurgerlar séu vikum saman í margföldum leyfilegum styrk m.v. heilsuverndarmörk úti fyrir strönd, sem er vinsælt útivistarsvæði og sjóbaðstaður, Nauthólsvík. Framferði OR/Veitna var tillitslaust við íbúana, sem syntu í sjónum og stunduðu fjöruferðir í góðri trú um, að hreinsikerfið væri fullnægjandi, enda hefur stjórn OR nú beðið fólk afsökunar fyrir sína hönd og hlutaðeigandi starfsmanna.
Af þessu má þó ráða, að lýðheilsa sé ekki hátt skrifuð á þeim bænum. Það er hið versta mál, því að lýðheilsa hefur versnað á þessari öld með alls konar lífstílssjúkdómum, sem rýra lífsgæðin og valda hinu opinbera gríðarlegum kostnaði. Hugarfarsbreytingar er þörf, og hún hefur þegar átt sér stað hjá nokkrum, á að gizka 20 % fólks, en um 80 % fólks er enn of kærulaust um heilsu sína.
Frá 5. júlí 1937 hefur Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) verið starfandi í landinu. Félagið varð þannig nýlega áttrætt og er í fullu fjöri, t.d. með starfsemi sína á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, HNLFÍ, enda hefur aldrei verið jafngóður jarðvegur fyrir félagið í þjóðfélaginu og nú. Það hefur heldur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir starfsemi þess og nú um stundir. Munaðarlíf og rangt fæðuval er enn meira áberandi en áður var.
Þann 5. júlí 2017 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Gunnlaug K. Jónsson, forseta NLFÍ og formann rekstrarstjórnar HNLFÍ, undir hinu sígilda heiti,
"Berum ábyrgð á eigin heilsu !".
Þar sagði um um NLFÍ:
"Tilgangurinn var að stofna félag, sem hefði það að markmiði að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegum lifnaðarháttum. Áherzla var lögð á nauðsyn þess og mikilvægi, að einstaklingurinn bæri ábyrgð á eigin heilsu og velferð. Sérstaklega var höfðað til foreldra, hvað börnin áhrærir. Allt frá stofnun hafa einkunnarorð NLFÍ verið:"Berum ábyrgð á eigin heilsu.""
Þessi einkunnarorð eiga einkar vel við nú á dögum, þegar hið svo kallaða öryggisnet heilbrigðiskerfisins grípur þann, sem missir heilsuna, hvort sem það er fyrirsjáanlegt sjálfskaparvíti vegna óhollustusamlegs lífernis eða af öðrum orsökum. Þó að það hafi ekki verið hugmyndin með hinum ríkisfjármögnuðu sjúkratryggingum, þá hafa þær leitt til þess, að margir segja einfaldlega við sjálfa sig: "den tid, den sorg", ríkið mun sjá um að færa mér heilsuna á ný, ef/þegar ég missi hana, og þess vegna get ég étið, drukkið, reykt og dópað, eins og mér sýnist, og ég nenni ekki að stunda neina líkamsrækt.
Þetta er eins skammsýnt, skaðlegt og ábyrgðarlaust sjónarmið og hugsazt getur. Góð heilsa, sem fer forgörðum, kemur einfaldlega aldrei aftur. Það er hægt að lappa í fólk golunni, en heilsufarið verður aldrei, nema svipur hjá sjón. Að halda góðri heilsu í nútímaþjóðfélagi er að hugsa vel um líkamann með hollu matarræði og hæfilegri blöndu af áreynslu og hvíld.
Þetta er loðin uppskrift, því að hvað er hollt, og hvað er hæfilegt ? Það er einmitt hlutverk NLFÍ að fræða fólk um þetta, en til að sjá dæmi um hollan og góðan mat og smakka hann, er hægt að gera sér leið í HNLFÍ í Hveragerði í hádegi (kl. 1145) eða að kvöldi dags (kl. 1800), panta sér mat og snæða á staðnum.
Meira um NLFÍ úr téðri grein Gunnlaugs:
"Stefna NLFÍ hefur ávallt verið sú að auka og efla þátt hugtakanna heilbrigði og heilsuvernd í umræðu og verkum og að víkja frá hinni einlitu sjúkdómaumræðu. NLFÍ forðast kennisetningar, sem ekki standast vísindalega gagnrýni.
Hófsemi í líferni og skilningur á heildstæðum lausnum læknisfræðinnar, heilbrigt líferni í víðum skilningi, verður um ókomna framtíð meginhlutverk félagsins auk umhverfisverndar."
Síðan rekur hann innreið lífsstílssjúkdómanna og gagnrýnir heilbrigðisstefnu stjórnvalda, sem með fjárveitingum sínum leggja höfuðáherzlu á "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir í stað þess að fjárfesta til framtíðar m.a. á þann hátt að stórauka fjárframlög í fyrirbyggjandi aðgerðir, t.a.m. með stóraukinni fræðslu í grunnskólum."
Núverandi léttúð um þau atriði, sem bætt geta lýðheilsuna, hvað þá þættina, sem eru henni beinlínis skaðlegir, mun leiða til stjórnlausrar kostnaðaraukningar hins opinbera við "viðgerðarþjónustu og skyndilausnir" á næstu árum samfara fjölgun eldri borgara. Áherzla á lýðheilsuna í öllum aldursflokkum, mest á meðal æskunnar, er eitt þeirra ráða, sem dregið geta úr aukningu á lækningaþörf á Háskólasjúkrahúsinu, bætt lífsgæðin og í sumum tilvikum lengt ævina, sem ekki þarf þó endilega verða til kostnaðarauka hjá ríkissjóði í þjóðfélagi sívaxandi lífeyrissjóða. Nú nema eignir íslenzku lífeyrissjóðanna um 1,5 landsframleiðslu og munu að 10-20 árum liðnum líklega nema þrefaldri landsframleiðslu og verða tiltölulega sterkustu lífeyrissjóðir heims, ef ekki verða stórfelld fjárfestingarslys, eins og henti fyrir Hrunið.
Árið 1946 skrifaði Jónas Kristjánsson, læknir, frumkvöðull að HNLFÍ, sígilda hugvekju í 1. tbl. Heilsuverndar, sem var tímarit Náttúrulækningamanna:
"Til að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd þarf að byrja áður en til sjúkdóms kemur; áður en menn verða veikir. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt, allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."
Þann 21. júní 2017 birti Agnes Bragadóttir fréttaskýringu í Morgunblaðinu um samanburð stofnunarinnar "Social Progress Imperative" á "félagslegum framförum" í 128 ríkjum heims. Þar eru metnir einir 12 þættir, og eru heilsa og heilbrigði og umhverfisgæði þeirra á meðal. Ísland lenti í 3. sæti, og voru Danmörk og Finnland rétt fyrir ofan. Það er þannig ljóst, að lífsgæði eru tiltölulega mikil á Íslandi, þótt okkur þyki þeim enn vera ábótavant, en þó vekur furðu og er umhugsunarvert, að Ísland lenti aðeins í 25. sæti, þegar umhverfisgæði voru metin. Við höfum gjarna staðið í þeirri trú, að Ísland væri í fremstu röð varðandi loftgæði, vatnsgæði og hreinleika lands, en hreinsun skolps vítt og breitt um landið er vissulega ábótavant og mikil plastnotkun er hér á hvern íbúa. Mikið af plastleifum lendir í hafinu og hafnar í lífkeðjunni.
Þann 30. maí 2017 skrifaði forseti "Eat Foundation", Gunhild A. Stordalen, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:,
"Getur norrænn matur orðið meðal heimsins ?"
Greinin hófst þannig:
""Notum matinn sem meðal" sagði gríski læknirinn Hippokrates fyrir meira en 2000 árum. Hann hafði rétt fyrir sér. Hollur og kraftmikill matur er forsenda betri heilsu okkar allra, betra lífs og betri plánetu. ... Norðurlöndin raða sér í efstu sæti á listum heimsins, hvað varðar heilsu, sjálfbærni, jafnrétti og hamingju. En er það vegna þess eða þrátt fyrir það, sem við leggjum okkur til munns ? Tíðni offitu og sjúkdóma, sem rekja má til mataræðis, eykst. Óhollt mataræði er orðið stærra heilbrigðisvandamál en reykingar. Þótt við séum "grænni" en margir aðrir, er loftslags og umhverfisfótspor fæðunnar, sem við neytum og hendum, enn stórt."
Hippokrates hitti naglann á höfuðið, en nútímamaðurinn hefur afvegaleiðzt. Matvælaiðnaðurinn á nokkra sök á þessu, og afurðir sælgætisiðnaðarins eru stórvarasamar, og margt bakkelsi er skaðræði, nema í litlu magni sé. Þróun neyzlunnar hlýtur að verða frá mat úr dýraríkinu og að jurtaríkinu. Það er bæði vegna hollustunnar, þ.e. áhrifa fæðunnar á mannslíkamann, og vegna mikils álags á náttúruna af völdum landbúnaðarins við kjötframleiðsluna, eins og hann er nú rekinn í heiminum. Kolefnisfótspor hans er t.d. helmingi (50 %) stærra en af völdum allrar umferðar á landi. Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði heimsins nemur nú 18 % af heild.
Gunhild A. Stordalen nefnir í grein sinni, að Norðmenn gætu sparað meira en 150 miaISK/ár í heilbrigðisútgjöld, ef þeir mundu fylgja leiðbeiningum norrænu ráðherranefndarinnar um mataræði, sem reistar eru á hugmyndum um sjálfbæra neyzlu. Fært yfir á Ísland nemur þessi sparnaður 10 miaISK/ár, 6 % af heildar opinberum kostnaði til heilbrigðismála, en hérlendis eru sparnaðarmöguleikarnir fyrir opinber heilbrigðisútgjöld með heilbrigðari lífstíl líklega a.m.k. tvöfalt meiri. Það er eftir miklu að slægjast.
13.7.2017 | 20:46
Af manna í boði borgar
"Berum ábyrgð á eigin heilsu" er slagorð NLFÍ (Náttúrulækningafélags Íslands), og félagið hefur mikið til síns máls með slíkum boðskapi, en hvernig á almenningur að bera ábyrgð á eigin heilsu í höfuðborginni, þegar þvílík endemis leyndarhyggja yfirvalda þar hvílir á óþægilegum mengunarmálum, að almenningur stendur í raun berskjaldaður ?
Í forystugrein Þorbjarnar Þórðarsonar í Fréttablaðinu 11. júlí 2017, "Þagað um mengun", kemur kemur í upphafi fram, að "skólp hafði runnið út í sjó við Faxaskjól í Reykjavík í 3 vikur, þegar almenningur fékk fyrst upplýsingar um bilun í dælustöð og mengun, sem henni fylgdi."
Miðað við uppgefið rennsli 750 l/s þá hefur óhreinsað skolp út í sjó numið 65 kt/sólarhring (k=þúsund) eða 1,4 Mt (M=milljón) tonnum á umræddum 3 vikum. Hér er um fáheyrðan atburð að ræða, sem hefur 2 hliðar. Annars vegar hvílir skýlaus lagaleg tilkynningarskylda á stjórnvöldum (stjórnvaldið er hér Reykjavíkurborg-Veitur og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur), þegar hvers konar mengunarslys verða, og hins vegar sýnir hinn langi viðgerðartími fram á, að nauðsynlegar viðbragðsáætlanir Veitna, dótturfyrirtækis OR-Orkuveitu Reykjavíkur, eru annaðhvort ekki til, verklagsreglur vantar, þær eru meingallaðar eða þjálfun og þekkingu starfsfólks er mjög ábótavant. Þetta er nauðsynlegt að rannsaka, en er núverandi meirihluta borgarstjórnar treystandi til þess ? Samkvæmt viðbrögðum helztu talsmanna hans eru forkólfar meirihlutans gjörsamlega úti að aka um mikilvæg atriði í borgarrekstrinum og ekki þykir taka því að upplýsa þá um stórbilanir í innviðum borgarinnar. Þar leiðir blindur haltan.
Skoðum fyrst tilkynningarskylduna. Held áfram að vitna í ÞÞ:
"Ákvæði um skyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar um mengun að eigin frumkvæði kom inn í lög um upplýsingarétt um umhverfismál árið 2012. Þar segir, að stjórnvöldum sé "ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf, sé ástæða til að ætla, að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra." Þegar Reykjavíkurborg er annars vegar, hvílir upplýsingaskyldan samkvæmt lögunum á borginni sjálfri, stofnunum borgarinnar og fyrirtækjum í hennar eigu."
Það er skýlaust, að Veitur brutu þessi lög með því að tilkynna ekki almenningi strax um, að fyrirtækið hefði ekki lengur stjórn á mengunarvörnum, sem skolphreinsistöðinni við Faxaskjól væri ætlað að sinna, af því að ekki tækist að loka neyðarlúgu fyrir skolp út í sjó. Veitur hafa ekki gert tilraun til að útskýra þessa bilun eða langa viðgerðartíma. Hvernig er fyrirbyggjandi viðhaldi háttað ? Er varahlutahald fyrir lykilþætti starfseminnar í skötulíki. Á meðan ekkert er upplýst, er tilhneiging til að halda, að sannleikurinn þoli ekki dagsljósið.
Áfram með ÞÞ:
"Greint hefur verið frá því, að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi fengið minnisblað um bilun í dælustöðinni í Faxaskjóli hinn 15. júní og hún hafi verið rædd á stjórnarfundi hinn 19. júní síðastliðinn. Þegar RÚV sagði frá saurmengun í sjónum við Faxaskjól hinn 5. júlí, hafði skólp runnið út í sjó í 21 dag í 3,5 km fjarlægð frá Nauthólsvík, vinsælum baðstað Reykvíkinga, án þess að borgarbúar væru látnir vita."
Að framkvæmdastjóri Veitna skyldi sjá ástæðu til að senda stjórn móðurfyrirtækisins, e.t.v. með milligöngu forstjóra OR, minnisblað um bilunina nánast strax og hennar varð vart, sýnir, að hjá Veitum (og OR) hafa menn þegar í upphafi litið bilunina á umræddri neyðarlúgu alvarlegum augum. Það hlýtur að hafa verið vegna þess, að framkvæmdastjóri Veitna, Inga Dóra Hrólfsdóttir, og/eða forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hafa gert sér grein fyrir afleiðingunum, þ.e. styrk saurgerla langt yfir leyfilegum mörkum fyrir fólk og fénað í fjöru eða að synda úti fyrir.
Þá brennur sú spurning á, hvers vegna var ekki strax uppfyllt tilkynningarskyldan um mengunarslys til almennings ? Úr því að henni hafði ekki verið fullnægt, þegar stjórnarfundur OR fór fram þann 19. júní 2017, þar sem minnisblað Veitna um mengunarslysið var til umræðu, hvers vegna í ósköpunum tók þá þessi stjórn ekki af skarið og samþykkti opinbera tilkynningu, sem gefa skyldi út samdægurs almenningi til viðvörunar, enda heilsuvá á ferðinni. Hvað skyldi mikil ógn þurfa að steðja að almenningi, til að þessi sama stjórn telji ástæðu til að upplýsa um hana ? Þessi stjórn er lögbrjótur, og ætti að lýsa vantrausti á hana strax. Í henni sitja samkvæmt vefsetri OR 12.07.2017:
Brynhildur Davíðsdóttir, formaður, Gylfi Magnússon, varaformaður, Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Rakel Óskarsdóttir
Þessi stjórn er nú með allt á hælunum, er orðin ber að of takmarkaðri og þröngri þekkingu á veiturekstri og gefur skít í lýðheilsu. Er þjónusta slíks fólks í opinberu fyrirtæki einhvers virði fyrir almannahag ? Hvar er virðisaukinn af störfum þessa fólks á téðum vettvangi ?
Enn skal halda áfram að vitna til forystugreinar ÞÞ:
"S. Björn Blöndal, formaður Borgarráðs, hefur vísað til þess, að það sé Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að meta, hvort mengun sé skaðleg, þannig að skylt sé að tilkynna um hana að eigin frumkvæði. Veitur o.h.f. greina frá því á heimasíðu sinni, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi farið og kannað magn saurgerla í fjörunni við dælustöðina í Faxaskjóli hinn 6. júlí og frumniðurstöður mælinga hafi legið fyrir daginn eftir. Hvernig gat Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vitað, að magn saurgerla í sjó væri ekki skaðlegt almenningi [þ.e. væri undir 100 talsins/ml - innsk. BJo], þegar engar mælingar höfðu farið fram í sjónum við dælustöðina ? Töldu embættismenn borgarinnar og starfsmenn Veitna, að það væri bara bezt að sleppa því að segja frá biluninni, sleppa því að óska eftir saurgerlamælingum og vona það bezta ?"
Hér eru gríðarlegar ávirðingar á hendur stjórnmálamönnum og embættismönnum borgarinnar á ferð. S. Björn er, eins og vanalega, algerlega úti á túni, alla vega ekki niðri í fjöru, þegar hann fríar sjálfan sig og embættismennina utan Heilbrigðiseftirlitsins ábyrgð á tilkynningarskyldunni. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, hvers vegna Kjartan Magnússon, stjórnarmaður í OR, vissi ekkert um atburðinn fyrr en sagt var frá honum í seinni kvöldfréttatíma Sjónvarps RÚV 5. júlí 2017.
Talsmaður Veitna segir, að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi fengið tilkynningu strax um atburðinn. Það er þess vegna óskiljanlegt, hvers vegna sú stofnun hélt ekki uppi daglegum mælingum við ströndina sitt hvorum megin við úthlaupið alla þá daga, 21 talsins, sem lúgan var samfellt opin, og upplýsti um öll mæligildi á vefsetri sínu. Þessi stofnun borgarinnar virðist hafa verið stungin líkþorni við þennan atburð og gjörsamlega gleymt skyldum sínum.
Það guðdómlega við alla þessa óhæfni er, að engin teikn eru enn á lofti um, að hún muni hafa neinar afleiðingar fyrir stöðu nokkurs manns. Það er eins og engar kröfur séu gerðar til neins í þessu skelfilega borgarapparati. Þannig er eftirfarandi haft eftir Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna í Morgunblaðinu, bls. 2, þegar hún er spurð, hvort hún telji, að draga þurfi einhvern til ábyrgðar vegna málsins:
"Veitur hafa sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem felst í því að upplýsa Heilbrigðiseftirlitið um opnun neyðarlúgunnar. Heilbrigðiseftirlitið hefur brugðizt við með því að taka sýni samkvæmt lögum og reglugerðum. Í framhaldi af þessu máli munum við endurskoða verkferla hjá okkur varðandi upplýsingagjöf til almennings í þeim tilgangi að bæta hana."
Það er alrangt, að Veitur hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni, því að samkvæmt lögum ber Veitum að tilkynna almenningi tafa- og vafningalaust um öll mengunarslys, sem hljótast af starfsemi þeirra. Heilbrigðiseftirlitið brást algerlega líka. Að draga fram ónothæfa verkferla, sem hún, framkvæmdastjórinn, ber sjálf ábyrgð á, sem sökudólga í málinu, er aumlegt yfirklór. Viðbrögð þessa framkvæmdastjóra Veitna í öllu þessu ferli sýna, að lýðheilsusjónarmið lúta í lægra haldi fyrir einhverjum öðrum hagsmunum, þegar á reynir.
Þann 11. júlí 2017 birti ritstjórn Morgunblaðsins forystugrein, sem bar heitið:"Brugðust borgarbúum":
Hún hófst þannig:
"Formaður borgarráðs Reykjavíkur tjáði sig seint og illa um viðbjóðinn, sem bíað hafði út strandlengjur höfuðborgarinnar vikum saman, án þess að fólkið, borgarbúarnir, væri látið vita og gæti gætt sín og barna sinna. Fjöldi starfsmanna borgarinnar á veitusviði og heilbrigðissviði vissi um vandræðin og um ógnina, sem af þeim stafaði."
Það er með ólíkindum, að þetta skuli vera atburðalýsing, sem eigi við höfuðborg Íslands árið 2017. Sú staðreynd undirstrikar málsháttinn, að því ver gefast heimskra manna ráð sem þeir koma fleiri saman.
Seinna í greininni skrifar ritstjórinn:
"Þeir, sem sendir voru til svara, voru ekki borgaryfirvöldin, sem glenna sig meira en góðu hófu gegnir við öll önnur tækifæri. Það voru embættismenn, sem enginn kannast við að hafa heyrt eða séð nokkru sinni áður, sem voru látnir taka skömmustulegir við hrópandi spurningum. Þeir komust ekki vel frá því. Að mati embættismannanna voru það "verkferlar", sem brugðust vikum saman. Þessir verkferlar hafa ekki sézt eða heyrzt áður. En embættismennirnir sögðust búnir að gera upp við sig að skoða þessa verkferla. Hvaða óráðshjal er þetta eiginlega ?"
Viðbrögð allra stjórnmálamanna og embættismanna Reykjavíkurborgar, sem birzt hafa opinberlega, eru eitt samfellt óráðshjal. Englendingar mundu segja:"They are covering their ass", sem útleggst, að þeir skýli eigin boru. Þeir láta hins vegar hagsmuni umbjóðenda sinna lönd og leið, og það er dauðasök fyrir pólitískan og embættislegan feril.
Davíð Oddsson lýkur forystugreininni þannig, að ekki þarf um að binda:
"Hneykslið, sem borgarbúar hafa þurft að horfa upp á og fundið fnykinn af að undanförnu, er til komið vegna þess, að yfirvöldin í borginni þekkja hvorki verkefni sitt né vitjunartíma og myndu ekki valda því, þótt hin einfalda mynd rynni upp fyrir þeim.
Slíka menn þarf að finna í fjöru sem fyrst. Það er ekki kræsilegt, en hjá því verður ekki komizt."
7.7.2017 | 10:23
Loksins heyrðist hljóð úr horni
Útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála á árinu 2016 námu miaISK 171,2 og jukust um miaISK 38,2 frá árinu 2012 eða tæplega 29 % á 4 árum. Þetta var meiri aukning í fjármunum talið en til nokkurs annars málaflokks á snærum ríkissjóðs, þar sem meðalaukningin nam rúmlega 19 % á þessu tímabili, þegar fjármagns -og lífeyrisskuldbindingar og niðurgreiðslur húsnæðisskulda einstaklinga eru frátaldar. Samt þykir sumum ekki nóg að gert, en þá er lausnin ekki að hella enn meira fé í málaflokkinn, heldur að freista þess að draga úr aðsókn með forvarnaraðgerðum og að fá meira fyrir minna.
Hér er einvörðungu um rekstrarkostnað að ræða, en ríkissjóður fjármagnar einnig stofnkostnað sjúkrahúsa, heilsugæzlu, hjúkrunar- og endurhæfingarstofnanir. Þannig er nú í vændum gjörbylting á aðstöðu sjúklinga og starfsfólks LSH, þegar flutt verður í nýtt a.m.k. miaISK 70 húsnæði við Hringbraut í Reykjavík, eigi síðar en árið 2022, og má ekki seinna vera.
Það verður að taka á kostnaðarmynztri heilbrigðisgeirans, ef hann á ekki að vaxa ríkissjóði yfir höfuð, draga úr getu hans til framkvæmda og rekstrar á öðrum mikilvægum sviðum og sliga efnahag þjóðarinnar, svo að hagvöxtur eigi sér ekki viðreisnar von. Þetta er brýnt, því að lífeyrisþegum, bótaþegum hvers konar og sjúklingum fjölgar hraðar en vinnandi fólki, og hraði þeirrar öfugþróunar mun fara vaxandi á næstu árum.
Hér verður aðeins stiklað á stóru, en þrjár ástæður þessarar óheillaþróunar, sem snúa verður ofan af, má nefna:
Öldruðum, 67 ára og eldri, fjölgar meira en tvöfalt hraðar en þjóðinni í heild. Hvert hjúkrunarrými kostar að jafnaði 10 MISK/ár, en kostnaður við heimahjúkrun og félagslega aðstoð heima við nemur aðeins 1/10 af þessu. Það borgar sig vel að setja aukið fé í heimahjúkrun til að gera fleiri gamalmennum kleift að dvelja lengur heima hjá sér, eins og flest þeirra kjósa. Það sparar líka stórfé að byggja fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili, svo að þau tæplega hundrað gamalmenni, sem nú eru vistuð með of dýrum hætti á LSH að lokinni læknismeðferð, en teppa sjúkrarúm fyrir þurfandi fólk á biðlistum, geti flutt í hentugt og ódýrara húsnæði. Byggingarsjóður aldraðra er misnotaður, því að 70 % ráðstöfunarfjár hans er nú varið til rekstrar og viðhalds, en allt ráðstöfunarfé hans á og þarf að fara í nýbyggingar.
Heilsufar þjóðarinnar er verra en eðlilegt getur talizt, eins og veikindafjarverur úr vinnu gefa til kynna. Of margir missa heilsuna of fljótt vegna óhollustusamlegs lífernis, rangs mataræðis, ofáts, ofdrykkju og hreyfingarleysis. Þetta blasir víða við, t.d. á endurhæfingarstöðum á borð við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Ísland, HNLFÍ, í Hveragerði, en sú starfsemi er til stakrar fyrirmyndar og hefur verið frá stofnun, 1955. Þar fá vistmenn innsýn í, hvað hollt mataræði og hollir lifnaðarhættir fela í sér, en því miður er það of seint fyrir marga til að njóta til fullnustu. Það borgar sig að efla lýðheilsu og forvarnir á meðal æskunnar, og það er margt óþarfara kennt í grunnskóla en undirstöðuþættir hollra lífshátta. Þar þarf að hamra á því, að líkaminn er ekki vél, sem hægt er að misbjóða endalaust með ruslfæði, sætindum og vímuefnum, og fara svo með hann á verkstæði til sérfræðinga til viðgerðar, þegar þrekið er farið og ónæmiskerfið veiklað. Þannig gerast einfaldlega ekki kaupin á eyrinni með lífverur. Vítiskvalir og mikið böl bíður þeirra, sem éta sig í hel og hreyfa sig sáralítið. Það ætti ekki að vera nauðsynlegt að skattleggja þá sérstaklega í ofanálag, en það gera þó sumar ríkisstjórnir í fælingarskyni, einnig hér í Evrópu.
Þróun nýrra lyfja verður sífellt dýrari, og lyfjaiðnaðurinn er orðinn gríðarlega umfangsmikill og aðsópsmikill í þjóðfélaginu. Markaðssetning lyfja er að sama skapi markviss og öflug, og margir foreldrar gera þá reginskyssu að hrúga lyfjum í börnin, þegar nauðsynlegt er að efla og þjálfa ónæmiskerfi þeirra með því að ráða niðurlögum sjúkdóma. Inntaka ofnæmislyfja er í mörgum tilvikum óþörf og getur stórskaðað lifrina í börnum, sé hún óhófleg.
Lyfin eru ekki bara blessun, heldur jafnframt bölvun, því að þau hafa flest einhver neikvæð áhrif á líkamann, sum grafalvarleg, en önnur trufla starfsemi hans, þótt þau bæti meinið, og sum þeirra eru ávanabindandi. Lyfjanotkun getur hæglega orðið vítahringur, og um það eru dæmi, að gamlingjar séu komnir með lyfjapakka upp á ein 10 lyf, þar sem eitt á að vinna gegn aukaverkunum annars. Fyrsta lyfið veldur þannig vítahring, og þess vegna þurfa að vera mjög ríkar ástæður fyrir lyfjagjöf. Það er hægt að missa heilsuna með minni misnotkun á líkama og sál en þessu.
Sjúklingar eru reyndar sumir aðgangsharðir við lækna til að fá lyfjaávísun, þótt vafi leiki á um þörfina og gagnsemina, enda eru sum lyf ávanabindandi. Útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins "Lyf og lækningavörur" námu miaISK 20,1 árið 2016. Loksins er verið að taka í notkun sameiginlegan gagnagrunn fyrir landið allt, þar sem Landlæknir o.fl. geta fylgzt með lyfjaávísunum einstakra lækna, og þeir geta skoðað ávísanasögu sjúklinga áður en þeir gefa út lyfseðil. Þetta mun auka aðhaldið. Ef lyfjanotkun á mann á Íslandi minnkar niður í meðaltal hinna Norðurlandanna, munu sparast milljarðar ISK, án þess að heilsufarið versni, nema síður sé.
Sjúkrahúsaþjónusta kostaði ríkissjóð miaISK 70,4 árið 2016 og hafði hækkað um miaISK 15,0 frá árinu 2012 á verðlagi 2016. Bróðurparturinn fer til rekstrar LSH (Landsspítala háskólasjúkrahúss), og þar er þess vegna mikilvægt að bæta stöðugt nýtingu fjármagnsins. LSH er á föstu fjárframlagi úr ríkissjóði, en eðlilegra væri, að hann fengi greiðslur fyrir aðgerðir á hverjum sjúklingi, háð eðli umönnunar og veikindum. Slík einingarverð eru þekkt. Upptaka slíkrar fjármögnunar gerir verkkaupa auðveldara um vik að velja á milli birgja, þjónustuveitendanna, þar sem samkeppni kann að vera fyrir hendi, og hægt er auka kostnaðarvitund veitenda og þiggjenda með þessu móti.
Það mun koma að því, að umræða um fyrirkomulag líknardauða verður meiri hérlendis og annars staðar á Vesturlöndum en verið hefur. Læknavísindin geta í mörgum tilvikum hjálpað sjúklingum við að draga fram lífið, en þegar vitund sjúklings er horfin eða lífið þrautir einar, á líknardauði að vera möguleiki.
Þann 26. júní 2017 skrifuðu 6 læknaprófessorar góða grein í Morgunblaðið um stjórnarhætti og stjórnkerfi LSH. Þau vilja bæta stjórnun spítalans með því að setja yfir forstjórann lýðræðislega valda stjórn. Þar með megi vænta betri starfsanda og aukins sjálfstæðis LSH gagnvart velferðarráðuneytinu. Það er hægt að taka undir málflutning læknanna 6, Björns Rúnars Lúðvíkssonar, Guðmundar Þorgeirssonar, Helgu Ágústu Sigurjónsdóttur, Pálma V. Jónssonar, Sigurðar Guðmundssonar og Steins Jónssonar, í greininni:
"Styrkjum stjórn Landspítala":
"Árangur íslenzkrar heilbrigðisþjónustu hefur verið góður á alþjóðlegan mælikvarða, eins og nýlega kom fram í brezka læknatímaritinu Lancet. Ísland býr að vel menntuðu starfsfólki, sem hefur sótt menntun til fremstu háskólasjúkrahúsa á Vesturlöndum.
Líklegt er, að sameining sérgreina lækninga með stækkun sérdeilda og auknum möguleikum til sérhæfingar eigi þátt í þessum árangri. Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík hefur þannig skilað faglegum árangri.
Lykillinn að enn betri árangri er sameining starfsemi Landspítala í einu húsi, þar sem sérgreinar geta unnið saman með viðunandi hætti og við eðlileg húsnæðisskilyrði."
Hér er mikilsverður vitnisburður á ferðinni um gæði hérlendrar sjúkrahúsþjónustu í samanburði við önnur lönd. Er mat prófessoranna vissulega ánægjuefni í ljósi úrtöluradda um íslenzka heilbrigðiskerfið og eilífra kvartana um fjárskort, þótt málaflokkurinn hafi verið að undanförnu og sé í forgangi hjá fjárveitingarvaldinu. Fjölmörg tækifæri opnast starfsfólki LSH með gríðarlegum fjárfestingum í nýju húsnæði og tækjabúnaði til betri og skilvirkari þjónustu, en það eru einnig tækifæri fólgin í bættu stjórnkerfi LSH, sem prófessorunum er hugleikið í tilvitnaðri grein:
"Sterk stjórn talar máli sjúkrahússins út á við, en beinir einnig áhrifum sínum inn á við og stuðlar að því, að allir lykilþættir starfseminnar njóti sín; þjónusta, menntun og vísindi.
Eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík árið 2000 varð grundvallarbreyting á þessari skipan, en þá færðist öll stjórnunarábyrgð til framkvæmdastjórnar og forstjóra. Síðan þá hafa fagstéttirnar á spítalanum í reynd ekki átt neina beina aðkomu að yfirstjórn spítalans, en öll ákvarðanataka og ábyrgð var færð í hendur forstjóra, sem er ráðinn af heilbrigðisráðherra. Forstjóranum er falið að skipa alla sína næstu stjórnendur í framkvæmdastjórn, sem hefur bæði stefnumótandi, eftirlits-, framkvæmdar- og rekstrarhlutverki að gegna. Undirrituð hafa ekki vitneskju um, að nokkrum forstjóra eða framkvæmdastjórn sé falið svo margþætt og valdamikið hlutverk á háskólasjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar."
Það leynir sér ekki í þessum texta, að þykkja og jafnvel beizkja í garð núverandi yfirstjórnar LSH býr í brjósti höfundanna. LSH er stærsta stofnun landsins og fjölmennasti vinnustaður. Þetta stjórnkerfi er einstakt fyrir stór fyrirtæki eða stofnanir og virðist sniðið að þörfum ráðuneytisins um að eiga síðasta orðið um stærstu málin án þess að verða of innblandað í daglegan rekstur. Þetta er meingallað kerfi, sem ber að afnema með lögum. Velferðarráðuneytinu ber að leggja frumvarp fyrir Alþingi um nýja tilhögun, þar sem stjórn er sett yfir LSH, sem yfirtaki stefnumótunar-, eftirlits- og framkvæmdahlutverk (fjárfestingarákvarðanir hjá stjórn, en verkefnastjórnun í höndum annarra, sbr nýbyggingar LSH, og allar fjárveitingar auðvitað í höndum Alþingis) núverandi embættis forstjóra og framkvæmdastjórnar hans, en hjá þeim sitji eftir ábyrgð á rekstri og viðhaldi LSH. Það er ærið hlutverk á svo stórri og viðkvæmri stofnun sem LSH.
Nýja stjórnin ráði forstjórann, sem aftur velur sitt nánasta samstarfsfólk í framkvæmdastjórn og skipar þeim til verka. Það er áreiðanlega ekki vanþörf á þessari breytingu, enda skrifa téðir læknaprófessorar um þörfina þannig:
"Í umfangsmiklum starfsumhverfiskönnunum hefur komið fram mikil almenn óánægja með stjórnkerfi Landspítalans á meðal allra starfsstétta hans. Fagfólkið upplifir sig langt frá stjórnendum og jafnvel forstöðumenn fræðigreina hafa litla aðkomu að stefnumótandi ákvarðanatöku. Því teljum við ljóst, að núverandi stjórnkerfi Landspítala hafi ekki reynzt vel og að brýnna úrbóta sé þörf."
Það er ekki kyn, þó að keraldið leki, þegar svona ambögulegt stjórnkerfi er við lýði. Það þjónar augljóslega ekki sínu hlutverki, og óþarfi að bera brigður á það, sem 6 virtir læknaprófessorar leggja nafn sitt við. Það er sjálfsagt, að skipa Landsspítalanum stjórn með lýðræðislegum hætti um leið og fjármögnun hans verði reist á einingarkostnaði og fjölda eininga, sem inntar eru af hendi á spítalanum af hverju tagi, í stað fasts árlegs framlags, sem aldrei stenzt, því að ómögulegt er að sjá aðsóknina nákvæmlega fyrir.
Tengsl spítalans við velferðarráðuneytið þurfa áfram að vera traust, og þess vegna er eðlilegt, að heilbrigðisráðherra skipi formann stjórnar án tilnefningar.
Í anda vinnustaðalýðræðis væri, að starfsmenn kysu 4 í stjórn, 1 úr hópi lækna, 1 úr hópi hjúkrunarfræðinga og 2 úr starfsmannaráði. Til að tryggja tengsl háskólasjúkrahússins við háskólasamfélagið, þá velji rektor HÍ einn eftir tilnefningu læknadeildar, rektor HR annan með verkfræðimenntun (hátæknisjúkrahús) og rektor HA þann þriðja af lögfræðisviði. Þarna er þá komin 8 manna starfandi stjórn, og sé formaður oddamaður, ef atkvæði falla jöfn. Þessi skipan fellur vel að hugmynd greinarhöfundanna, sem hér er vitnað í:
"Við leggjum til, að æðsta vald innan Landspítala verði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstéttanna. Stjórnin hafi eftirfarandi þrjú hlutverk:
(a) að ráða forstjóra
(b) að hafa eftirlit með störfum forstjóra og
(c) að móta heildarstefnu fyrir stofnunina
[Undir heildarstefnu ætti að heyra fjárfestingarstefna LSH, þ.e. forgangsröðun verkefna og tímasetning þeirra í samráði við heilbrigðisráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis - innsk. BJo]. Tillaga þessi er í anda góðra stjórnarhátta í rekstri fyrirtækja og stofnana, þar sem áherzla er lögð á aðgreiningu á stefnumótunarvaldi og framkvæmdavaldi."
Samkeppni er holl á öllum sviðum, og er heilbrigðissviðið þar engin undantekning. LSH er og verður risinn á sviði þjónustu við sjúklinga á Íslandi. Enginn getur skaðazt við það, að styttir verði langir biðlistar eftir brýnum aðgerðum. Bið fylgir böl og samfélagslegt tjón. Þess vegna er alveg sjálfsagt að auka fjölbreytni rekstrarforma sjúkrahúsþjónustu að uppfylltum gæðakröfum Landlæknisembættisins. Þetta á t.d. við um Klíníkina Ármúla, en Sjúkratryggingar Íslands hafa þó ekki enn fengið leyfi ráðherra til að semja við þær. Samt hefur verið upplýst, að skattgreiðendur mundu spara 5 % á hverri aðgerð, sem Klíníkinni yrði greitt fyrir m.v. kostnað sömu aðgerðar á LSH og a.m.k. 50 % m.v. kostnað af að senda sjúklinginn í sams konar aðgerð til útlanda, ef hann velur þá leið, sem hann á rétt á eftir 3 mánuði á biðlista. Kostnaðarlega og siðferðislega er þetta ófremdarástand, sem heilbrigðisráðherra getur leyst úr og ber að bæta úr vafningalaust.
Í stað einokunaraðstöðu þurfa stjórnendur LSH nú að fara að sætta sig við samkeppnisstöðu, þótt yfirburðir LSH á markaði heilbrigðisþjónustu á Íslandi verði alltaf miklir. Forstjóri LSH hefur varað við samkeppni af þessu tagi, en hann er auðvitað vanhæfur til að tjá sig um málið, þar sem hann vill ríghalda í einokunarstöðu sinnar stofnunar. Ef nýtt fyrirkomulag við stjórnun LSH sér dagsins ljós, eins og hér hefur verið lýst, mun það verða í verkahring stjórnarformannsins að tjá afstöðu stjórnar LSH til stefnumarkandi þátta, eins og þessa, og það má vænta þess, að þar muni ríkja viðskiptasinnaðri viðhorf til samkeppni en afstaða núverandi forstjóra LSH og reyndar Landlæknis hafa gefið til kynna að undanförnu.