Færsluflokkur: Heilbrigðismál

Áhrif CoVid-19 hérlendis

Sóttvarnalæknir hefur beitt hefðbundinni áhættustjórnun hérlendis, sem miðar að lágmörkun heildartjóns, þ.e. heilsutjóns/fjörtjóns og efnahagstjóns.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig til tekst, en árangurinn hingað til lofar góðu.  Ef mat tölfræðinga á vegum sóttvarnalæknis gengur eftir, verður CoVid-19 í hámarki um páskana 2020, og mun þá e.t.v. ganga yfir hérlendis á 3 mánuðum. Nú (23.03.2020) er fjöldi smitaðra tæplega 600, en sú tala getur hafa meira en fimmfaldazt um það leyti, sem fjölgun smita nær hámarki. 

Ef svo fer í lok maí, þegar vonazt má eftir, að pest þessi verði um garð gengin, að fjöldi smitaðra hafi ekki farið yfir 6000 manns (1,7 % mannfjöldans), hafa aðgerðir sóttvarnalæknis borið mikinn árangur, þegar fjöldi sýktra af Spænsku veikinni er hafður til samanburðar, en smitnæmi þessara tveggja pesta gæti verið svipað (hver sýktur smitar 2-3, ef ekkert er að gert). Þá gæti heilbrigðiskerfið líka hafa náð mjög góðum árangri við að lækna sjúka, og hlutfallslegur fjöldi látinna af sýktum orðið lægri en annars staðar þekkist.  Hins vegar er hlutfallslegur fjöldi sýktra meiri en annars staðar hefur sézt.

Aðgerðir sóttvarnalæknis hafa verið dýrar, en munu aftur á móti spara mikinn sjúkrahúskostnað og bjarga mannslífum áður en yfir lýkur. Varnarherfræðin hér er svipuð og þar sem bezt hefur til tekizt, þ.e. í Suður-Kóreu, enda er fjöldi skimana hér per milljón íbúa sá langhæsti í heiminum (28 k).    

Fjárhagstapið af völdum CoVid-19 er aðallega fólgið í töpuðum tekjum af erlendum ferðamönnum. Þær gætu numið mrdISK 200 á þessu ári, því að ferðamenn hugsa sér varla til hreyfings fyrr en veiran er hætt að grassera bæði hérlendis og í heimalandi þeirra.  Kostnaður af vinnutapi sýktra og sóttkvíaðra gæti numið mrdISK 10 og annar kostnaður af völdum pestarinnar mrdISK 30, svo að heildarkostnaður nemi mrdISK 240 eða 8 % af VLF. Kynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast nema mrdISK 230. Þetta er svakalegt högg, sem mun taka nokkur ár að vinna upp og hlýtur að koma niður á lífskjörum hér.  Það er yfirgengilegt óraunsæi, ef ekki raunveruleikafirring við þessar aðstæður, að stunda hér harða verkfallsbaráttu og beita verkfallsvopninu.  Þessi kröfuharka og stéttabarátta á engan veginn við á gildistíma Lífskjarasamninganna. Slíkt framferði er einsdæmi í veröldinni og getur engan veginn orðið verkalýð til hagsbóta. Fólk á ekki að láta pólitíska loddara teyma sig á asnaeyrunum við þessar aðstæður eða aðrar.  Hér ættu allir að sameinast um að lágmarka tjónið og síðan að hraða uppbyggingunni sem mest í kjölfarið, þótt örugglega verði að rifa seglin um sinn vegna mikilla efnahagsvandræða í viðskiptalöndum okkar.   

Við þessar fordæmalausu aðstæður hafa miklar sviptingar orðið á verðbréfamörkuðum og t.d. hlutabréf ferðaþjónustufyrirtækja hrunið, eins og gefur að skilja, þótt t.d. Icelandair hafi eitthvað rétt úr kútnum.  Þegar flug nánast stöðvast í heiminum vikum eða mánuðum saman, er líklegt, að slíkt muni hafa langvarandi áhrif á flugfélögin og þau týna tölunni.  Komið hefur fram sú hugmynd í Noregi að sameina norrænu félögin Finnair, Icelandair, Norwegian og SAS undir einu eignarhaldsfélagi, en nú eru British Airways og Iberia Airlines undir sama félagi og Air France og KLM undir öðru.  Lufthansa hefur keypt millilandaflugfélögin í Austurríki og Belgíu.  Icelandair yrði sem sagt áfram flugrekandi, en með öflugan fjárhagslegan bakhjarl, sem hugsanlega gæti létt ábyrgðum af ríkissjóði, ef til þeirra þarf að koma.  Eignir lífeyrissjóðanna íslenzku eru þarna og miklu víðar í uppnámi um þessar mundir. Ávöxtun þeirra verður ekki upp á marga fiska 2020.

Hagkerfin hafa lamazt eitt af öðru, og nú virðast Bandaríkin stefna í eitthvað, sem hægt er að líkja við ítalskt ástand.  Það er vegna andvaraleysis stjórnvalda þar, sem hæglega getur kostað Donald Trump embættið í hendur Joe Bidens, sem elliglöp hafa þó hrjáð í forvalsbaráttu demókrata.  Þótt andvaraleysið geti framkallað hjarðónæmi, veldur það miklum veikindum, öngþveiti á heilbrigðisstofnunum og hárri dánartíðni smitaðra. Nú berast fréttir af útgöngubanni í Kaliforníu og í fleiri fylkjum BNA a la Ítalía.  

ISK gaf eftir, þegar ósköpin dundu yfir, enda munar hvert ferðamannaland um það, að innstreymi erlendra ferðamanna stöðvist í 3 mánuði eða meira.  Þótt mikill erlendur gjaldeyrir tapist, um mrdISK 200, sparast erlendur gjaldeyrir líka vegna færri utanlandsferða landsmanna, minni fjárfestinga og minni neyzlu Íslendinga á þessum erfiðu tímum.  Ef þar við bætist, að lífeyrissjóðir flytji stóran hluta af fjárfestingum sínum í evrum "heim ins Reich", sem þeir ættu hiklaust að gera, og stöðvi erlendar fjárfestingar sínar, þá verður sennilega hægt að hindra það, að viðskiptajöfnuðurinn snarist á neikvæðu hliðina yfir allt árið 2020.  Þar með gæti gengi ISK gagnvart EUR jafnað sig (140 ISK/EUR), en gengi USD virðist munu stíga m.v. EUR. Það er venjan, að á óvissutímum leita spákaupmenn í bandaríkjadalinn. Umfjöllun um EUR á tímum CoVid-19 er efni í annan pistil. 

 


CoVid-19-örlagavaldur

Heimsbyggðin er nú undirlögð af veiru, og hagkerfi heimsins eru lömuð um ófyrirsjáanlegan tíma.  Heilsufarslegar afleiðingar, fjöldi ótímabærra dauðdaga, efnahagslegar, peningalegar og pólitískar afleiðingar, eiga eftir að koma í ljós, en hægt er nú þegar að fullyrða, að sumt af þessu verður ærið stórskorið.

Margir alvarlegir sjúkdómar herjuðu á mannkynið á 20. öldinni, og voru margir þeirra kallaðir barnasjúkdómar, sem gengu á Íslandi t.d. á 6. áratuginum, þegar höfundur þessa pistils var að slíta barnsskónum og tók þá flesta þessara sjúkdóma, sem bóluefni voru síðan þróuð fyrir. Nú er verið að þróa bóluefni gegn CoVid-19, en það fer í fyrsta lagi í almenna dreifingu 2021.

Skaðlegasta veirupestin á 20. öldinni var þó líklega Spænska veikin, sem lagðist á öndunarfærin svipað og CoVid-19 nú.  Í Spænsku veikinni smituðust 63 % íbúa í þéttbýli á Íslandi, og var dánarhlutfall þeirra 2,6 % eða um 500 manns hérlendis.  Dánarfjöldi hérlendis af völdum CoVid-19 verður fyrirsjáanlega aðeins brot af þessari tölu, innan við 10, ef fer fram sem horfir, svo er einfaldlega aðgerðum sóttvarnayfirvalda fyrir að þakka, hvað sem gagnrýni á þau líður.

Hver smitberi er talinn hafa smitað 2-3 í kringum sig í spænsku veikinni, sem er sama smitnæmi og fyrir CoVid-19, en meðgöngutíminn var samt aðeins 2 dagar þá, sem er mun skemmri meðgöngutími en nú.  Spænska veikin lagðist þungt á aðra aldurshópa en CoVid-19, þ.e. 20-40 ára í stað elztu aldurshópanna nú, en þá voru reyndar þjóðfélagsaðstæður allt aðrar en nú og miklu minna af háöldruðu fólki. Ein af ástæðum skelfilegs ástands og hárrar dánartíðni á Ítalíu af völdum CoVid-19 er talin vera hár meðalaldur á Ítalíu.  Hann mun vera sá næst hæsti í heimi á eftir Japan, en þar í landi voru gagnráðstafanir líklega mun skeleggari frá upphafi en á Ítalíu.  Hérlendis var frá upphafi tekin upp róttæk stefna til að vernda elztu borgarana.   

Þar sem heilbrigðiskerfi almennings er öflugt, er dánartíðnin lægri en hún var í Spænsku veikinni, en þar sem það er vanþróað eða hefur kiknað undan álaginu, þar verður dánartíðnin hærri af völdum CoVid-19. Öflug smitrakning og sóttkvíun hérlendis hefur berlega dregið úr dreifingunni, og þar með standa góðar líkur til, að álagið á íslenzka heilbrigðiskerfið muni verða innan marka afkastagetu þess, þ.m.t. gjörgæzlan. 

Í byrjun þessarar aldar kom upp stórhættulegur veirusjúkdómur í Vestur-Afríku, sem fékk nafnið ebóla. Það varð mannkyni til happs þá, að hún dreifðist ekki í lofti og náði aldrei til þéttbýlis. Með fórnfúsu heljarátaki heilbrigðisstarfsmanna víða að tókst að hemja þessa veiru og ráða niðurlögum hennar, a.m.k. um sinn. Hún olli innvortis blæðingum, og dánarhlutfall sýktra var yfir 60 %.   

Mannkynið er alltaf óviðbúið veirufaröldrum.  Því verður að breyta.  Á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þurfa þjóðir heims að sameinast um "varnarlið" heilbrigðisstarfsmanna, sem hafa beztu rannsóknarstofnanir í veirufræðum sem bakhjarla og er reiðubúið að fara á staðinn, þar sem grunur leikur á um veirusmit af nýju tagi og aðstoða heimamenn við að ráða niðurlögum veirunnar sem fyrst. Hérlendis þarf að rýna hönnun nýs Landsspítala m.t.t. einangrunarrýma og stækkunar gjörgæzluaðstöðu.  Þetta mundi líka gagnast baráttunni við fjölónæma sýkla. 

Skilyrði þess, að takast megi að hefta útbreiðslu, er, að grípa strax til gagnráðstafana og hafa opið upplýsingaflæði í viðkomandi landi og um allan heim um þróun mála.  Það virðist algerlega hafa brugðizt í Kína, a.m.k. að þessu sinni, því að talið er, að vart hafi orðið við veiruna í Wuhan í nóvember 2019, og sorgleg er sagan af hálffertugum lækni þar, sem vildi hringja aðvörunarbjöllum í Kína út af áður óþekktum veirufaraldri þegar í desember 2019, en yfirvöld stungu hausnum í sandinn og lögðu áherzlu á að þagga málið niður.  Ungi læknirinn, sem reyndi eftir megni að hjálpa fjölmörgum sjúklingum á sjúkrahúsum í Wuhan í miklu veiruumhverfi, smitaðist sjálfur af CoVid-19 og lézt úr sjúkdóminum í lok janúar 2020, þótt hraustur væri fyrir. Annað eins og þetta má aldrei endurtaka sig, enda má hafa mjög þung orð um slíka framvindu.  Síðan hafa kínversk stjórnvöld reynt að bæta ráð sitt og staðið sig vel í að hefta útbreiðsluna í Kína, en veiran náði samt að dreifa sér út fyrir landamærin, m.a. til Alpanna tiltölulega fljótt, eins og alræmt er.

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig, hvers vegna svo margar veirupestir, eins og dæmin sýna, eiga upptök sín í Kína, og er þá skemmst að minnast SARS-veikinnar 2003 af völdum minna smitandi kórónu-veiru en CoVid-19, svo að hún barst ekki á okkar slóðir. Bent hefur verið á matarmarkaðina í Kína, þar sem ægir saman alls kyns kvikindum, lifandi og dauðum, sem Kínverjar leggja sér til munns.  Í þessum kvikindum eru alls kyns veirur, og ein tilgátan er sú, kórónaveirurnar finni sér nýjan hýsil á þessum mörkuðum.  CoVid-19 stökk úr leðurblöku yfir í "homo sapiens" samkvæmt þessari kenningu, en hún veldur þessum nýja hýsli skaða, þótt sambýlið hafi ekki verið svo slæmt við gamla hýsilinn.  Aðferð til að draga úr þessum veiruuppsprettum er þá að auka þrifnað og sóttvarnir á þessum mörkuðum, og enn róttækara væri að hætta að éta þessi kvikindi, en það er nú kannski svipað gagnvart Kínverjum og að biðja Íslendinga um að hætta að éta hangiket. 

Wuhan er mikil háskólaborg, og þar er miðstöð veirurannsókna í Kína.  Önnur tilgáta um uppruna veirunnar er sú, að hún hafi verið þróuð í hernaðarskyni á rannsóknarstofu í Wuhan, en sloppið þaðan út.  Sérfræðingur í veirufræðum hefur látið að því liggja, að CoVid-19 hafi orðið til við að skeyta erfðaefni úr HIV-eyðniveirunni við SARS til að gera hana meira smitandi en kóróna-veirur eru alla jafnan, sbr SARS (Severe Acute Respiratory Syndrome).

Auðvitað vita Kínverjar hið sanna í þessu máli, en leyndarhyggja þeirra veldur tortryggni, sem verður síðan gróðrarstía gróusagna.  Þeir meinuðu WHO aðgang að landinu í upphafi, sem út af fyrir sig er grafalvarlegt mál í ljósi þeirra geigvænlegu afleiðinga, sem útbreiðsla veirunnar hefur um gervallan heim. Sams konar þöggunartilburða í Kína gætti gagnvart upptökum SARS-veirunnar.  Í kjölfarið sögðu yfirvöld, að slíkt myndi ekki endurtaka sig vegna styrkrar stjórnar átrúnaðargoðsins, sem nú fer með æðstu völdin í Kína, en hið sama varð samt uppi á teninginum í Wuhan í a.m.k. 2 mánuði, og á meðan lék veiran lausum hala, og fólk ferðaðist óheft til og frá hinu sýkta svæði og einnig til útlanda. Þar með varð fjandinn laus.

Þótt takist að stöðva dreifingu veirusýkinnar CoVid-19 alls staðar í heiminum í sumar, þá er engin trygging fyrir því, að hún gjósi ekki upp aftur næsta vetur, jafnvel stökkbreytt og þá enn erfiðari viðfangs.  Það er algerlega óbærilegt, að fólk þurfi að búast við því nokkrum sinnum á sama áratugi, að tilvera þess og jafnvel líf verði í fullkomnu uppnámi.  Slíkt ástand mun hafa mjög slæm áhrif á lífskjör almennings hvarvetna í heiminum.  Það eru gríðarlegir sameiginlegir hagsmunir í húfi, og árangur í þessari baráttu næst alls ekki með leynimakki og einleik hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, eins og við höfum horft upp á undanfarna daga og vikur, heldur með samstilltu átaki, þar sem höfuðáherzla verður lögð samstundis og veiran uppgötvast á einangrun, sóttkví, að rekja slóðir sýktra og læknisfræðilega aðstoð við upprunalandið á fyrstu dögum, eftir að grunsemdir vakna. Tíminn skiptir öllu máli hér sem oftar. Að sólunda honum er dýrt spaug, kostar tugþúsundir mannslífa og efnahagskreppu.

 

 


Af fjölónæmum sýklum

Sérfræðingar á sviði sýkla og veira hafa varað stjórnvöld og landsmenn alla við ógn, sem steðjar að heimsbyggðinni og þá ekki sízt afskekktri eyju, sem laus hefur verið að mestu við alvarlegar pestir, sem herjað hafa á dýrastofna og mannfólk og illa ræðst við með nútíma læknisfræði. Ofnotkun lyfja kemur nú niður á mannkyni. Í heilsufarslegum efnum eru engar haldbærar skyndilausnir til.

Hér er m.a. um að ræða sýkla, sem myndað hafa ónæmi gegn sýklalyfjum og verða þar með óviðráðanlegir, ef ónæmiskerfið er veikt fyrir.  Ótímabærum dauðsföllum fjölgar mjög af þessum sökum, og telja sérfræðingar, að lýðheilsunni stafi einna mest ógn af þessari vá í náinni framtíð. Það ætti að vekja almenning til umhugsunar um lífshætti sína, og hvað má bæta til að styrkja ónæmiskerfið.

Af þessum sökum þurfa yfirvöld nú þegar að leggja sitt að mörkum með því að hefja sinn viðbúnað og beita beztu þekktu aðferðarfræði á þessu sviði.  Hún er m.a. fólgin í auknum kröfum á hendur birgjum um upprunavottorð og gæðatryggingar varðandi matvæli, sem flutt eru til landsins, og með mótvægisaðgerðum á sjúkrahúsum.

Yfirvöldum ber siðferðisleg skylda til að hlusta meira á sérfræðinga á heilbrigðissviði en á heildsala og að hlýða vandlega á aðvörunarorð og ráðleggingar manna á borð við prófessor Karl G. Kristinsson, sýkla- og ónæmisfræðing.  Það verður einfaldlega að grípa til þeirra aðgerða, sem duga að mati sérfræðinga um sýkla og veirur, þótt þær kunni að brjóta í bága við reglur EES-samningsins um óheft viðskiptafrelsi.  Þær reglur voru ekki samdar með sérstöðu Íslands í huga. Að samþykkja, að erlendar reglusetningar, sem að beztu manna yfirsýn eru ógn við lýðheilsu og geta valdið stórfelldu tjóni hér á bústofnum, gildi hér framar ströngustu varúðarráðstöfunum, hlýtur að vera í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins, sem kveður á um fullveldi rétt kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til að taka nauðsynlegar ákvarðanir í þágu hennar hagsmuna.

Nýja sjúkrahúsið við Hringbraut þarf að verða miðstöð varna gegn þessum vágesti.  Verður að vona, að hönnuðir "meðferðarkjarnans" hafi fengið fyrirmæli um að hanna beztu fáanlegu aðstöðu til að einangra sjúklinga í sóttkví og að sótthreinsa allt með fljótlegum hætti, sem út af slíkum sóttkvíum fer.

  Líklegast til árangurs er að sækja fyrirmyndir um tæknilegar útfærslur og lausnir til Hollands, en Hollendingar hafa náð næstbeztum árangri í viðureigninni við "ofursýkla" á borð við MRSA ("methycillin-resistant staphylococcus aureus") og CRE ("carbapenem-resistant Enterobacteriaceae") og eiga sérhannaða aðstöðu á sjúkrahúsum sínum fyrir þessar varnir.

Árið 2015 var fjöldi dauðsfalla á 100´000 íbúa í nokkrum Evrópulöndum af völdum ofusýkla eftirfarandi, og þeim fer ört fjölgandi:

  • Ítalía       18
  • Grikkland    15
  • Portúgal     11
  • Frakkland     8
  • Rúmenía       7
  • Bretland      4
  • Þýzkaland     3
  • Noregur       1
  • Holland       1
  • Eistland      1

 

Ofursýklar þessir geta verið á húðinni, í nefinu eða í þörmunum, þar sem þeir eru þó venjulega óskaðlegir.  Ef þeir hins vegar sleppa í sár eða komast inn í blóðrásina, verða þeir hættulegir.  Í Evrópu má rekja 73 % dauðsfalla af völdum ofursýkla til sýkinga á sjúkrahúsum. Almennt hreinlæti á sjúkrahúsum er ódýr og árangursrík aðferð í þessari baráttu. 

Í nóvember 2018 gaf OECD út samanburð á aðferðum til að fást við ofursýkla.  Stofnunin setti bættan handþvott á sjúkrastofnunum efst á blað til að fækka dauðsföllum og stytta sjúkrahússvist.  Að framkvæma ráðleggingar OECD til fullnustu á 70 % sjúkrastofnana er áætlað, að kosti USD 0,9-2,5 á hvern íbúa á ári, sem við núverandi aðstæður á Íslandi gæti kostað um 360 kUSD/ár eða rúmlega 40 MISK/ár, sem eru smápeningar í heilbrigðisgeiranum.  Ef hins vegar ekki er verið á verði í þessum efnum, mun árlegur kostnaður hlaupa á tugum milljarða í framtíðinni.  

 


Lokar á lækna og sóar opinberu fé

Heilbrigðisráðherra hefur gjörsamlega gengið fram af læknastéttinni.  Þetta framgengur af blaðagreinum, sem læknar hafa fengið birtar í sumar.  Hér verður ein slík gerð að umfjöllunarefni. Þar er talað tæpitungulaust. Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. júní 2018 undir heitinu:

"Ráðherra læsir úti læknana og kastar krónunni",

og eru höfundarnir Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur og Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir.  

Þeir sýna þar með skýrum hætti fram á, að útreikningar Ríkisendurskoðunar um 60 % kostnaðaraukningu ríkisins við þjónustu einkalæknastofa á 5 ára bili 2012-2017 sé villandi og nær sé 10 % kostnaðaraukning eða 2 % raunaukning á ári, sem þeir skýra á eftirfarandi hátt:  

"Fólksfjölgun var um 1,5 % á ári, og þegar öldrun þjóðarinnar er bætt við, má reikna með 2 % aukinni þjónustuþörf á ári.  Þá stendur eftir rúmlega 2 % hækkun á ári eða samtals 10 % á fyrrnefndu fimm ára tímabili.  Sú hækkun varð einfaldlega til vegna flutnings verka frá spítölunum í þetta ódýrara úrræði, og auðvelt er að ímynda sér, að með því sparist talsverðir fjármunir samhliða því, að þjónusta við sjúklinga batnar.  Verk hafa færzt út frá Landsspítala, en mikið af því, sem gert var á St. Jósefsspítala fluttist líka inn á samninginn á þessu tímabili.  Vonandi er, að nákvæmni Ríkisendurskoðanda í álitsgjöf sinni og útreikningum sé að öllu jöfnu meiri en í þessu tilviki."

Röksemdir ráðherrans fyrir aðför hans að einkareknum læknastofum standast ekki rýni, hvað sem kostnaðaraukningu líður.  Um það vitnar samanburður á einingarkostnaði skýru máli, eins og fram kemur í neðangreindri tilvitnun:

"Sumt liggur þó ljóst fyrir og talar skýru máli um mismunandi kostnað eftir því, hver veitir þjónustuna.

Dæmi: læknisheimsókn ósjúkratryggðra einstaklinga (t.d. ferðamanna), sem borga fullt verð fyrir þjónustuna, er mun hagkvæmari á stofu sérfræðings en bæði á heilsugæzlu og á göngudeild Landsspítalans.  Heimsókn til sérfræðings á stofu kostar í heildina 8.700 kr, á heilsugæzlu 9.600 kr, og dýrust er hún, eða 13.200 kr, á göngudeild spítala.  Heimsóknin á stofu kostar þannig 4.500 kr minna en á göngudeild Landsspítalans, sem þýðir, [að göngudeildin er tæplega 52 % dýrari en stofan - innsk. BJo]."

Glópska ráðherrans í sinni ýtrustu mynd að færa 500.000 heimsóknir frá læknastofum á göngudeildir spítala mundi auka samfélagslegan kostnað um 2,3 milljarða króna á ári.  Það verður að brjóta þennan hættulega ráðherra á bak aftur.

Lokakaflinn í ágætri grein læknanna styður þetta ákall:

"Sitjandi heilbrigðisráðherra og tveir síðustu forverar hans hafa samt ítrekað brotið þennan góða samning, m.a. með einhliða lokun á nýliðun lækna, sem þar með eru læstir úti úr landinu.  Samningurinn rennur út um næstu áramót, og ráðherra hefur margoft lýst því yfir, að nýr samningur verði aldrei gerður, nema á gjörbreyttum grunni.  Ódýrasta og bezta heilbrigðiskerfi í heimi verður að víkja til að flytja þjónustuna inn í ríkisrekstur, hvað sem það kostar.  Og það verður dýrt, því að hvort sem aukning umsvifa sérfræðilækna á stofu mælist 12 % á ári eða 2 %, leiðir sú aukning til mikils heildarsparnaðar í kerfinu.  Sé farið í hina áttina, og kerfið ríkisvætt, eykst kostnaður verulega á sama hátt.

Augljóst er, að heilbrigðisyfirvöld eru á villigötum.  Á meðan alþjóðleg þróun er í þá átt, að þjónusta hefðbundinna spítala minnkar samhliða aukinni þekkingu og tækni, sem einfaldar læknisverkin, rær íslenzki heilbrigðisráðherrann á móti straumnum.  Hann setur úrelt sjónarmið í öndvegi og setur stefnuna á að spara aurinn og kasta krónunni.  Fjárhagslega er ekkert vit í því, en alvarlegast er, að með áformum sínum læsir hann líka unga lækna og nýja þekkingu úti úr landinu.  Þennan glórulausa kúrs þarf að leiðrétta strax, opna samninginn, endurnýja hann og tryggja, að þjónusta sérfræðilækna verði áfram innan opinbera kerfisins.  Líðan og heilsa íslenzkra sjúklinga og grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru í húfi."

Þingmenn hljóta að láta til sín taka á komandi þingi vegna hneykslanlegrar framgöngu heilbrigðisráðherra í nafni fáránlegrar hugmyndafræði, sem veldur stórfelldri sóun almannafjár og skerðingu á atvinnufrelsi nýrra sérfræðilækna, sem hefja vilja bráðnauðsynlega starfsemi hér á landi.  Þessi ráðherra er í einu orði sagt tímaskekkja. 

 

 

 

 

 


Hvers konar stríð er þetta ?

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sérfræðilæknar hafa ekki fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um að veita eigin stofuþjónustu með kostnaðarþátttöku SÍ.  Það er jafnframt ljóst, að læknarnir uppfylla öll skilyrði, sem hingað til hafa verið sett að hálfu SÍ fyrir samningi, og SÍ hafa verið fúsar til að semja, en heilbrigðisráðherra hefur með gerræðislegum hætti komið í veg fyrir samninga í hátt í tvö ár. 

Hér skal draga stórlega í efa, að núverandi ríkisstjórn styðji þetta fáheyrða stríð Svandísar Svavarsdóttur við læknastéttina í landinu, heldur er ástandið birtingarmynd á öngþveiti, sem hugmyndafræðileg slagsíða við stjórnun  heilbrigðiskerfisins hefur í för með sér.  Afleiðing hennar verður dýrari og verri þjónusta við skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, allt of hæg endurnýjun í læknastétt og stöðnun þekkingarþróunar í greininni, sem þá þýðir hlutfallslega afturför m.v. nágrannalöndin. 

Það er ömurlegt, að þessi staða skuli vera uppi á Íslandi 2018, en hún er afleiðing ríkjandi stöðu ríkisvaldsins við veitingu heilbrigðisþjónustu í landinu.  Við því verður væntanlega lítið gert á næstunni, en það verður að sníða verstu agnúana af kommúnístísku kerfi, til að það virki almennilega (eins og kínversku kommúnistarnir vita og framkvæma daglega), og til þess þarf líklega atbeina Alþingis.  

Til merkis um alvarleika málsins er heilsíðugrein í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018 eftir kunnan og mikils metinn lækni, Sigurð Björnsson,

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi-hver er staðan og hvert stefnir ?".

Þetta var yfirlitsgrein um þróun og skipulag heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Hún var afar fróðleg og málefnaleg, en ekki fór á milli mála, að höfundurinn hafði miklar áhyggjur af núverandi stöðu, sem virðist stafa af steinbarni rökþrota ráðherra.  Verður nú gripið niður í greinina:

"Nýjasta ráðstöfun heilbrigðisyfirvalda er sú að bregða fæti fyrir unga lækna, sem lokið hafa sérnámi og hyggjast koma til starfa á Íslandi með nýjustu þekkingu, og hefja störf innan heilbrigðisþjónustunnar með sama hætti og forverar þeirra hafa gert til þessa. 

Þeir fá ekki að starfa eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands, eins og þeir, sem fyrir eru, þannig að sjúklingar, sem til þeirra leita, þurfa að bera allan kostnaðinn af læknisheimsókninni sjálfir og eru þannig sviptir sjúkratryggingum, sem þeir hafa greitt iðgjöld fyrir frá unglingsaldri.  

Með þessu eru yfirvöld að innleiða mismunun, þar eð Tryggingarnar taka þátt í greiðslu fyrir þjónustu hjá sumum læknum, en ekki fyrir sömu þjónustu hjá öðrum læknum.  Þetta eru nýmæli, sem ganga þvert á vinnureglur Trygginganna og yfirlýsta stefnu yfirvalda til þessa.  

Ég fæ mig ekki til að rökræða þessa aðför yfirvalda að heilbrigðisþjónustunni; ég trúi því einfaldlega ekki, að við þessa ákvörðun verði staðið."

Hér er um siðlaust og kolólöglegt athæfi ráðherrans að ræða, sem ríkissjóður tapar stórfé á, eins og síðar verður sýnt fram á.  Ef hvorki ríkisstjórn né Alþingi taka fram fyrir hendur hins ofstækisfulla ráðherra, verður að reka málið fyrir dómstólum, því að  framferðið er kolólöglegt.  Það er ráðizt gegn atvinnufrelsi lækna, sem varið er í Stjórnarskrá, eins og atvinnufrelsi annarra stétta.  Það er brot gegn lögum um heilbrigðiskerfið, þar sem öllum sjúklingum er tryggður jafn réttur, en hér er um fjárhagslega mismunun að hálfu ríkisins að ræða eftir vali sjúklings á lækni.  Hvernig er hugarheimur stjórnanda, sem hagar sér svona ? 

"Því er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda, ef áfram á að hindra íslenzka lækna með sérfræðimenntun frá erlendum þekkingarsetrum í því að snúa heim og halda áfram að tryggja hér á landi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.  Þjóðin á það ekki skilið af stjórnmálamönnum eða embættismönnum, sem allir eru í starfi og á launaskrá hjá íslenzku þjóðinni.  

Samtök lækna og aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar eru sem fyrr reiðubúnir að starfa með yfirvöldum að því að bæta þjónustuna og laga hana að breyttum ytri aðstæðum.  Þá þyrfti fyrst að skilgreina vandamálin og leggja síðan fram samstilltar tillögur til lausnar."

Vandamálið er of lítil samkeppni þeirra, sem þjónustuna veita, af því að ríkið er yfir og allt um kring í þessum geira.  Þess vegna hefur hann logað í illdeilum um kaup og kjör, af því að of lítil samkeppni er um vinnuaflið.  Það þarf að breyta fjármögnun ríkisstofnana á borð við Landsspítalann frá því að vera tilgreind fjárhæð á fjárlögum í að verða greiðslur fyrir verk, sem verkkaupinn, Tryggingastofnun/Sjúkratryggingar getur þá í sumum tilvikum valið verktaka að.  

Kostnaður við heilbrigðisgeirann vex stjórnlítið ár frá ári, og þessi þróun ógnar stöðugleika ríkisfjármálanna til lengdar litið.  Þetta er sjúkleikamerki á kerfinu, því að Íslendingar ættu ekki að búa við lakari heilsu en aðrar vestrænar þjóðir, þar sem mengun er hér miklu minni, nóg af hreinu vatni og þjóðin yngri en aðrar, t.d. í Evrópu.  Sigurður Björnsson reifaði þetta vandamál:

"Margir þættir hafa leitt til þess, að kostnaður við heilbrigðisþjónustu hefur vaxið gífurlega á síðustu áratugum; aukin þekking á orsökum og eðli sjúkdóma, þróun tækjabúnaðar, þróun og framleiðsla lyfja, flóknar byggingar fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun heilbrigðisstétta, teymisvinna (aðkoma margra stétta að lækningu hvers sjúklings).  Sumar þjóðir hafa ekki náð að tileinka sér framfarir í heilbrigðisþjónustu og þannig dregizt aftur úr þeim þjóðum, sem betur standa."

Það eru nútíma lifnaðarhættir, óhollt matarræði, hreyfingarleysi, mikið lyfjaát og notkun vímugjafa, sem eyðilagt hafa heilsu fjölmargra.  Tækniþróunin hefur gert heilbrigðisstarfsfólki kleift að fást við sjúkdómana, sem af þessum lifnaðarháttum leiða, og sömu sögu er að segja af hrörnunareinkennum, sem verða stöðugt algengari vegna meira langlífis en áður.  Almenningur er ekki nógu meðvitaður um gildi forvarna og mótvægisaðgerða upp á eigin spýtur án aðkomu heilbrigðiskerfisins, heldur reiðir sig á það, þegar allt er komið í óefni. 

Samfélagið greiðir bróðurpart kostnaðar heilbrigðiskerfisins, og almenningur er jafnvel ómeðvitaður um kostnaðinn.  Það er ekki kyn, þó að keraldið leki.  

Sigurður Björnsson reifaði fjármögnunina:

"Síðar varð Tryggingastofnun ríkisins til, og iðgjöldin voru innheimt með annarri skattheimtu hins opinbera.  Jafnframt voru sett lög og reglur um skipulag heilbrigðisþjónustunnar, þar sem gæta skyldi hagsmuna fólksins í landinu, og tíundaðar voru skyldur lækna og annarra starfsmanna.  Þannig varð til hugtakið heilbrigðiskerfi, sem að miklu leyti hefur verið fært undir stjórn embættis- og stjórnmálamanna í skjóli þess, að kerfið sé að mestu leyti fjármagnað af ríkissjóði (iðgjöldum fólksins til sjúkratrygginga), en lítið horft til þess, að heilbrigðisstarfsmenn hafa sjálfir þróað heilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem er meðal þess bezta, sem þekkist."

Þetta ægivald embættis- og stjórnmálamanna yfir heilbrigðisþjónustunni er jafnframt hennar helzti Akkilesarhæll.  Það er engin ástæða til að viðhalda þessu stórgallaða fyrirkomulagi, þótt greiðslur séu að mestu úr sameiginlegum sjóðum, heldur ber brýna nauðsyn til að auka fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði stofnananna.

Um fjórðungur af útgjöldum ríkisins eða miaISK 209 fer til heilbrigðismála.  Þetta hlutfall verður að hemja, því að annars munu aðrir nauðsynlegir þjónustuþættir ríkisins endalaust sitja á hakanum, t.d. vegakerfið, sem þarf stóraukin framlög, sem fartækjakaupendur og -rekendur standa reyndar ríkulega undir.  

Skipting kostnaðar er þannig:

  • Sjúkrahús: miaISK 92 eða 44 %
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa: mia ISK 48 eða 23 %
  • Hjúkrun og endurhæfing: miaISK 47 eða 22 %
  • Lyf og lækningavörur: miaISK 22 eða 11 %
  • Alls miaISK 209

Í liðnum "heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa" eru greiðslur til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna um miaISK 12,5 eða 6 % af heild.  Þessi upphæð stendur undir útseldum kostnaði yfir 300 lækna, þ.e. launakostnaði þeirra og 300 annarra starfsmanna auk húsnæðiskostnaðar og tækjabúnaðar.Þessi kostnaður er við þjónustu í 500´000 heimsóknum sjúklinga, sem er svipaður fjöldi og hjá göngudeildum Landsspítalans og heilsugæzlum höfuðborgarsvæðisins til samans.  

Er einhver glóra í þeim málflutningi heilbrigðisráðherra, að færa eigi þjónustuna, sem þessi einkarekna starfsemi veitir, á göngudeildirnar og heilsugæzlurnar ?  Nei, það er brennt fyrir það.  Í fyrsta lagi geta þessir aðilar ekki tekið við þessari hálfu milljón heimsókna vegna aðstöðuleysis og sumpart þekkingarskorts, og í öðru lagi yrði slíkt mjög óhagkvæmt.  Þvert á móti mætti spara ríkissjóði fé með því að auka hlutdeild hinnar einkareknu starfsemi á kostnað hinnar opinberu, því að einingarkostnaðurinn er með eftirfarandi hætti hjá sérfræðingum í lyflækningum sem dæmi:

  • Á stofu:                 8900 ISK/koma 
  • Á heilsugæzlustöð:      9600 ISK/koma
  • Á göngudeild Landssp.: 13400 ISK/koma

 Af þessu sést, að heilbrigðisráðherra berst ekki hinni réttlátu baráttu fyrir málstað skattborgarans, og ráðherrann berst heldur ekki fyrir málstað skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins, því að Sigurður Björnsson rekur það í grein sinni, að á tvo alþjóðlega gæðamælikvarða trónir íslenzka kerfið á toppinum.  Það er engum vafa undirorpið, að starfsfólk á sjálfstætt starfandi lækningastofum á sinn þátt í þessum háu einkunnum íslenzka heilbrigðiskerfisins. 

Þrátt fyrir að fá hæstu gæðaeinkunn er íslenzka heilbrigðiskerfis engan veginn dýrast, heldur var það í 8. sæti árið 2014 með kostnaðinn 3882 USD/íb og 8,9 % af VLF.  

Það er hægt að auka skilvirkni íslenzka kerfisins enn meira með því að efla þá starfsemi, sem skilvirkust er, á kostnað óskilvirkari starfsemi.  Einkareksturinn þarf því að efla, en ekki að rífa hann niður, eins og ráðherrann reynir á hugmyndafræðilegum forsendum.  Þetta er grafalvarleg brotalöm í embættisfærslu ráðherrans.  Ráðherrann hefur ekki látið sér segjast, heldur forherðist hún við gagnrýni.  Allt  ber þetta að sama brunni og ber vott um, að Svandís Svavarsdóttir rekur annarlegt erindi með embættisfærslu sinni og á ekki erindi í heilbrigðisráðuneytið.    

 

 

 

 


Þvermóðska keyrir um þverbak

Útgjöld til heilbrigðismála eru langstærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum íslenzka ríkisins, og útgjöldin þangað vaxa  reyndar meira en góðu hófi gegnir.  Samt linnir ekki fréttum af ófremdarástandi í þessum geira, sem er miðstýrður af skrifstofu heilbrigðisráðherrans í velferðarráðuneytinu, og heilbrigðisráðherrann er heldur betur frekur til fjárins við gerð fjárlagafrumvarps.   

Heilbrigðisráðherrann núverandi, Svandís Svavarsdóttir, flæmir nú forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Steingrím Ara Arason, úr starfi sínu.  Eftir Steingrím Ara birtist uppgjörsgrein við ráðherrann í Fréttablaðinu, 17. apríl 2018, undir fyrirsögninni:

"Skammsýni og sóun":

Greinin er einn samfelldur áfellisdómur yfir téðum ráðherra.  Málið er grafalvarlegt fyrir þjóðina, um leið og það er hápólitískt.  Ráðherrann hefur sagt starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks stríð á hendur.  Sú stríðsyfirlýsing er glórulaus, því að hún vill færa þessa starfsemi til göngudeilda ríkissjúkrahúsanna, sem ekki eru í nokkrum færum til að taka við henni, eins og sakir standa.  Ráðherrann ætlar með öðrum orðum með háttsemi sinni að auka enn á öngþveitið á Landsspítalanum og víðar með hræðilegum afleiðingum fyrir sjúklingana og óhjákvæmilega auknum samfélagslegum kostnaði.  Spyrja verður: er þetta stefna ríkisstjórnarinnar ?  Ef ekki, er þá ekki komið fullt tilefni fyrir þingmenn að sýna vígtennurnar og undirbúa vantraust á ráðherra, sem leikur "sóló" af þessu tagi ?  

Ef ráðherrann verður ekki bráðlega stöðvaður á sinni óheillabraut, mun það hafa ómældar þjáningar í för með sér fyrir fjölda sjúklinga, mikinn samfélagslegan aukakostnað og óþörf útgjöld úr ríkissjóði.  Forstjóri SÍ hóf grein sína þannig:

"Systur tvær, skammsýni og sóun", fara oft saman.  Í atvinnurekstri og stjórnmálum er viðvarandi viðfangsefni að fyrirbyggja, að þær fái ráðið för.

Ragnar Hall, lögmaður, skrifaði 13.apríl sl. athyglisverða grein, þar sem hann fjallar um þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og úrskurðarnefndar velferðarmála að synja einstaklingi um greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerðar hjá Klínikinni Ármúla.  Þetta gerist þrátt fyrir, að einstaklingurinn hafi verið í brýnni þörf fyrir aðgerðina, þrátt fyrir meira en árs bið eftir aðgerðinni á Landsspítalanum, þrátt fyrir að Klínikin Ármúla hafi uppfyllt öll fagleg skilyrði og þrátt fyrir lægri kostnað ríkisins við að samþykkja aðgerðina hjá íslenzkum fremur en sænskum aðila.  Nei skal það vera, þar sem SÍ hafa einungis heimild til að taka þátt í kostnaði við liðskiptaaðgerðir, sem framkvæmdar eru erlendis."

Hér opnast lesendum sýn inn í forarvilpu sósíalistískrar stjórnunar á einokuðum geira, þar sem aðalatriðið er, að ákvarðanir fylgi hugmyndafræði sósíalismans um að knésetja þjónustu, sem reist er á einkaeignarrétti aðstöðu og tækjabúnaðar, en hagsmunir sjúklinga og ríkissjóðs eru um leið bornir fyrir borð.  Þessari endemis óstjórn, sem enda mun sem venezúelskt ástand í heilbrigðisgeiranum, enda fetar Svandís hér í fótspor ríkisstjórnar Hugos Chavez i Venezúela fyrir hálfum öðrum áratugi, verður að linna.  Þessi ráðherra hefur brugðizt skyldum sínum og misst traust fjölmargra starfsmanna heilbrigðisgeirans.

Hryllingssagan um yfirstjórn heilbrigðisgeirans heldur áfram:

"Samtímis hefur þeirri ósk SÍ verið hafnað að semja um gerviliðaaðgerðir á þeim grunni, að "mæli fagleg og fjárhagsleg rök með því, verði SÍ jafnframt heimilað að semja um hluta aðgerðanna við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna."

Ósk, sem er sett fram til að tryggja sjúkratryggðum greiðan aðgang að þjónustunni og til að nýta fjármuni ríkisins, eins vel og kostur er.

Árið 2018 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fela Landsspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands að framkvæma allar biðlistaaðgerðir átaksins án sérstaks samnings.  Þetta er ákveðið, þó að fyrir liggi, að sjálfstætt starfandi aðilar séu einnig reiðubúnir að veita þjónustuna og að biðlistaaðgerðirnar koma orðið niður á annarri þjónustu Landsspítalans."

Af þessari lýsingu Steingríms Ara má ljóst vera, að í velferðarráðuneytinu situr nú heilbrigðisráðherra, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Heilbrigðisráðherrann tekur geðþóttaákvarðanir án nokkurs tillits til raunveruleikans, sem er sá, að allar þessar þrjár stofnanir eru yfirlestaðar og geta ekki annað þessum viðbótar verkefnum án þess að þau bitni á annarri starfsemi þessara ágætu stofnana.  Skeytingarleysi ráðherrans um hag sjúklinganna og meðferð skattfjár er forkastanlegt.  

Þann 8. júní 2018 skrifuðu tveir menn grein í Morgunblaðið, sem bar heitið:

"Háskaleikur heilbrigðisráðherrans".

Höfundarnir voru Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur.  Grein þeirra hófst þannig:

"Ekki verður betur séð en heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhvers konar afneitun, þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016.  Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista.  Erfitt er að ímynda sér, hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks.  Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju.  Við getum verið stolt af árangrinum, enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnzt."

Þeim, sem aðeins þekkja heilbrigðiskerfið af frásögnum í fréttatímum fjölmiðlanna, hlýtur þessi toppeinkunn að koma á óvart, en hinum ekki algerlega.  Þá þarf að hafa í huga samsetningu heilbrigðiskerfisins, sem er í grófum dráttum þrískipt: heilsugæzlur, sjúkrahús og starfsemi sjálfstæðra heilbrigðisstarfsmanna.  Í fréttatímum hefur megináherzlan verið á neikvæðar fréttir af hinum tveimur fyrrnefndu og þó aðallega af Landsspítalanum.  Af þeim fréttum að dæma er sjúkrahúsið þó rekið af duglegu og hæfu starfsfólki, en á yztu mörkum hins mögulega vegna gamallar umgjarðar og óheppilegs stjórnunarfyrirkomulags fastra framlaga úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum í stað afkasta- og gæðahvetjandi greiðslufyrirkomulags fyrir veitta þjónustu.

Það má telja víst, að Ísland hafi lent í efsta sæti téðrar könnunar fyrir tilverknað starfsemi hinna sjálfstæðu heilbrigðisstarfsmanna. Núverandi heilbrigðisráðherra beinir nú spjótum sínum að þeim og ætlar að rífa niður starfsemi þeirra.  Þessa niðurrifsstarfsemi í nafni löngu afskrifaðrar sósíalistískrar hugmyndafræði má Svandís Svavarsdóttir ekki komast upp með, enda eru þetta ólýðræðislegar aðfarir, hvergi getið í stjórnarsáttmálanum og nánast örugglega í blóra við vilja þings og þjóðar.  Ráðherrann hefur nú sjálfviljug sett hausinn í snöruna, og hún ræður ekki hinu pólitíska framhaldi.  

 Um afköst, gæði og kostnað þjónustunnar skrifuðu tilvitnaðir tvímenningar:

"Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi.  Á síðasta ári [2017] tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum.  Þeir framkvæmdu m.a. um 18 þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margs konar lífeðlisfræðilegra rannsókna.  Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landsspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins."

Það er fullkomið dómgreindarleysi af heilbrigðisráðherra að skerða þessa starfsemi og ætla biðlistahrjáðum Landsspítala, hvers starfsemi er strekkt til hins ýtrasta, að taka við. Eitt er víst: hagsmunir sjúklinganna verða algerlega fyrir borð bornir með slíku fyrirkomulagi.  Það er bæði synd og skömm, að við skulum búa við fyrirkomulag, sem getur veitt misheppnuðum ráðherra tök á að vinna heilbrigðiskerfinu stórfellt tjón.

"Um 350 læknar starfa á samningum í ýmsum sérgreinum.  Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum.  Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil, er athyglisvert, að hún tekur einungis til sín um 6 % af heildarútgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.  Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr m.v.í nágrannalöndum og með gott aðgengi sjúklinga.  Gæðin þarf enginn að draga í efa.  Það er vandséð annað en hér sé vel farið með hverja krónu skattfjárins."

Ein af leiðunum út úr kostnaðarógöngum heilbrigðisgeirans er að auka vægi annarra rekstrarforma en hins opinbera.  Með því fá sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn æskilegt valfrelsi, sem er nauðsynlegt fyrir sæmilega heilbrigða þjónustugrein.  Með auknum samanburði og samkeppni verða hagsmunir skattgreiðenda betur tryggðir en nú er, því að reynslan á hinum Norðurlöndunum er sú, að aukin fjölbreytni leiðir til bættrar skilvirkni.  

Marxisminn hefur því miður komið við sögu í þessum pistli um nýjustu vendingar í heilbrigðismálum á Íslandi, og þess vegna er ekki úr vegi að enda hann með tilvitnun í frábæra grein Carls Bildts, sem er fyrrverandi formaður "Moderatarna" í Svíþjóð og fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra landsins, og birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2018 undir fyrirsögninni,

"Hvers vegna Marx hafði rangt fyrir sér":

"Marx leit á eignarréttinn sem rót alls hins illa í þeim kapitalísku samfélögum, sem voru að myndast á dögum hans.  Af því leiddi, að hann trúði því, að bara með því að afnema hann væri hægt að laga stéttaskiptingu samfélagsins og tryggja samlynda framtíð.  Friedrich Engels, samverkamaður Marx, hélt því síðar fram, að undir kommúnismanum myndi ríkið verða óþarft og "veslast upp".  Þessar fullyrðingar voru ekki settar fram sem getgátur, heldur sem vísindalegar fullyrðingar um það, hvað framtíðin hefði í för með sér.

En að sjálfsögðu var þetta allt þvaður, og kenning Marx um söguna - díalektíska efnishyggjan - hefur síðan verið afsönnuð og reynzt hættuleg að nánast hverju einasta leyti." 

 

 

 


"Nýsköpun og rannsóknir" í Stjórnarsáttmála

Það er mikill fagurgali í Stjórnarsáttmálanum um "nýsköpun og rannsóknir".  Þar stendur t.d.: "Lögð verður áherzla á að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og verkefna í þágu loftslagsmarkmiða".

Það hefur nú ríkt bann að hálfu ráðuneyta í bráðum 1,5 ár við nýjum samningum Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna, sem hefur leitt til þess, að íslenzkir sérfræðingar á sviði læknavísinda hafa ekki fengið starfsaðstöðu við hæfi hérlendis, enda lítið sem ekkert á lausu á Landsspítalanum.  

Samt er staða heilbrigðismála hérlendis sú í hnotskurn, að Landsspítalinn verður ekki í stakk búinn til að annast "sjúklingaflóðið" fyrr en nýr "meðferðarkjarni" Landsspítalans hefur verið tekinn í gagnið að 5 árum liðnum. Um þessar mundir er hann yfirfullur, þ.e. sjúklingar, jafnvel á bráðadeild sjúkrahússins, híma í rúmum sínum á göngunum, jafnvel dögum saman.  Það er reyndar alveg undir hælinn lagt, hvort Landsspítalinn mun anna "aðflæðinu" eftir opnun nýja meðferðarkjarnans, því að heilsufari þjóðarinnar fer hrakandi, m.a. vegna hraðfara öldrunar (mikillar fjölgunar eldri borgara).

Hvers vegna í ósköpunum leggjast þá yfirvöld heilbrigðismála í landinu algerlega þversum gegn því að fitjað sé upp á nýjungum í einkageiranum til að létta farginu af Landsspítalanum í þeirri von, að lífsgæði sjúklinga á biðlistum batni fyrr ?  Samt má túlka fagurgalann í stjórnarsáttmálanum á þann veg, að höfundum hans gæti hugnazt vel, að fitjað væri upp á nýbreytni í þjónustunni við sjúklinga, þótt gaddfreðnir hugmyndafræðingar láti sjúklinga fremur húka á göngum opinberrar stofnunar en hljóta viðunandi þjónustu á einkarekinni læknastofu eða umönnunarfyrirtæki.  

Í Morgunblaðinu, 9. janúar 2018, birti Ingveldur Geirsdóttir athyglisverðar upplýsingar í frétt sinni:

"Fleiri leita sér lækninga erlendis".

Fréttin hófst þannig:

"Rúmlega 300 Íslendingar leituðu sér læknismeðferðar erlendis árið 2017 og fengu kostnaðinn niðurgreiddan af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ)."

Forysta heilbrigðismála á Íslandi lætur hugmyndafræði sína um það, hverjir mega framkvæma aðgerðir á sjúklingum, ráða för, þótt slíkur fíflagangur komi hart niður á skjólstæðingunum og feli í sér sóun á almannafé.  Heilbrigðisstefnan einkennist þar með af ábyrgðarleysi gagnvart skjólstæðingum kerfisins, enda eru innstu koppar í búri á þeim bænum illa haldnir af  fordómum í garð fjölbreytni rekstrarforma.  Þá er náttúrulega ekki von á góðu. Létta verður helsi úreltrar hugmyndafræði af heilbrigðisgeiranum og "hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu", eins og segir í Stjórnarsáttmálanum.  Þangað til munu sjúklingar fremur verða fórnarlömb kerfisins en þiggjendur þjónustu, aðstandendur líða önn fyrir ömurlega stöðu nákominna og fréttamenn sýna hneykslanlegar myndir af kerfi, sem ræður ekki við viðfangsefni sín, þótt starfsfólkið leggi sig allt fram og komi kúguppgefið heim af vinnustaðnum.    

Undir lok fréttarinnar sagði:

"Ef mál er samþykkt, þá er greiddur ferðakostnaður, dagpeningar, meðferðarkostnaður og mögulegur fylgdarmannskostnaður.  .... Ljóst er, að þeim fjölgaði mikið, sem leituðu sér læknisþjónustu erlendis, bæði á grundvelli landamæratilskipunarinnar [EES] og biðtímaákvæðisins árið 2017 [biðtími yfir 90 dagar].  Búizt er við áframhaldandi fjölgun á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá SÍ."

Þetta er hneyksli í opinberri stjórnsýslu.  Með því að koma fram af sanngirni við einkageirann undir formerkjum aukinnar fjölbreytni og bættrar þjónustu, og hætta að hreyta í hann fúkyrðum um gróða af bágstöddum, væri hægt að þjónusta hérlendis lungann af hópnum, sem leitar í neyð sinni utan til lækninga á einkastofum, og um leið mætti spara ríkissjóði talsverð útgjöld.  Hvað skyldi Ríkisendurskoðun segja um þessa slæmu meðferð opinbers fjár, eða Umboðsmaður Alþingis um hornrekuhætti heilbrigðisstjórnvalda gagnvart sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki, sem gjarna vilja veita þjónustu sína utan Landsspítala, af því að hann rúmar ekki fleiri ?

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614


Áform ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum

Heilbrigðismálin hafa orðið bitbein í stjórnmálabaráttunni.  Loddarar hafa reynt að nýta sér sárar tilfinningar margra, sem orðið hafa fyrir heilsubresti eða orðið vitni að slíku. Lítið hefur verið gert úr þjónustu heilbrigðiskerfisins, þótt hlutlægir mælikvarðar bendi til, að það veiti býsna góða þjónustu í samanburði við heilbrigðiskerfi annarra landa. Það er hins vegar alveg sama, hversu miklu fé er sturtað í þennan málaflokk; glötuð góð heilsa verður í fæstum tilvikum að fullu endurheimt, og í sumum tilvikum verður hinum óumflýjanlegu endalokum aðeins frestað um skamma hríð með miklum harmkvælum sjúklingsins.

Talsverður hluti kostnaðar heilbrigðiskerfisins fer í að fást við afleiðingar slysa, og þar hefur læknum og hjúkrunarfólki tekizt frábærlega upp við að tjasla saman fólki á öllum aldri. Risavaxinn ferðamannageiri hefur valdið mikilli álagsaukningu á heilbrigðiskerfið, og gjald fyrir þessa þjónustu á auðvitað að endurspegla kostnaðaraukann og má ekki draga úr öðrum framlögum til geirans.

Íþróttirnar taka sinn toll og er ljóst, að of mikið álag er lagt á s.k. afreksfólk í íþróttum, sem slitnar langt um aldur fram.  Afreksfólkið er þannig að sumu leyti eins og þrælar nútímans, þótt sumir í þessum hópi auðgist vel. Ástundun íþrótta er engu að síður ein af þeim forvörnum, sem hægt er að beita gegn vesældómi, heilsuleysi og glapstigum í nútíma þjóðfélagi, þótt íþróttameiðsli séu of algeng og kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið.  Það er auðvitað svo, að betra er heilt en vel gróið, og þess vegna er því fé og tíma vel varið, sem til hvers konar slysavarna fer. Þar hafa fyrirtæki í erlendri eigu á Íslandi, t.d. álverin, farið á undan með fögru fordæmi, og stórgóður árangur hefur náðst til sjós, þótt gallaður sleppibúnaður björgunarbáta hafi kastað skugga á öryggismálin þar.  

Nú eru tæplega 300 þúsund landfarartæki skráð í notkun í landinu, og þau taka allt of háan mannlegan toll.  Fé, sem varið er til umbóta á umferðarmannvirkjum, ætti allt að miða að því að auka öryggi í umferðinni, og það er leiðarstef Vegagerðarinnar, þótt henni beri lögum samkvæmt að velja lausnir m.t.t. stofnkostnaðar og viðhaldskostnaðar, eins og eðlilegt má telja.  Tafir, sem orðið hafa á gerð nútímalegs vegar á sunnanverðum Vestfjörðum á milli Þorskafjarðar og Patreksfjarðar, stinga algerlega í stúf við þá stefnu í slysavörnum, sem hinu opinbera ber að hafa, því að þar er yfir fjallvegi að fara, sem eru varasamir að sumarlagi og stórhættulegir að vetrarlagi.  Ábyrgðarhluti þeirra, sem tafið hafa þær framkvæmdir, er mikill. Ferli umhverfismats, leyfisveitinga og kæra er hringavitleysa, sem yfirvöld verða að straumlínulaga eftir að hafa leitt téðan vegarundirbúning til lykta.   

Hugmyndafræðilegur dilkadráttur hefur afvegaleitt umræðuna um heilbrigðisþjónustuna hérlendis.  Í stað þess að snúast um gæði og skilvirkni í ráðstöfun opinbers fjár til þessa kostnaðarsama málaflokks þá hafa sumir stjórnmálamenn dregið umræðuna niður á hugmyndafræðilegt plan um það, hvort þjónustuaðilinn er opinber stofnun eða einkarekið fyrirtæki, þótt hvort tveggja sé fjármagnað úr opinberum sjóðum. Þetta er nálgun viðfangsefnisins úr öfugri átt, þar sem sjúklingurinn verður hornreka. Með því að láta umræðuna hverfast um þetta, hafa öfgasinnaðir stjórnmálamenn tekið heilbrigða skynsemi í gíslingu, og sjúklingar og skattborgarar eru hin raunverulegu fórnarlömb.  Hugmyndafræðileg öfgahyggja á ekki heima í heilbrigðisgeiranum né við stjórnun hans. Það ber nauðsyn til að styrkja faglega stjórnun þess bákns, sem hann er á íslenzkan mælikvarða. 

Þannig er það óviðunandi stjórnsýsla á þessu sviði, að í meira en eitt ár nú skuli enginn sérfræðilæknir hafa fengið samning við Sjúkratryggingar Íslands.  Þetta hamlar því, að hámenntaðir og reynsluríkir læknar komi heim, setjist hér að og fái tækifæri til að beita þekkingu sinni til farsældar fyrir sjúklinga hér á landi, innlenda sem erlenda, og til góðs fyrir íslenzka ríkiskassann, því að ekkert er jafndýrt í heilbrigðisgeiranum og biðlistar hins opinbera kerfis, svo að ekki sé nú minnzt á fáránleikann, sem felst í því að senda sjúkling í aðgerð utan, þótt hérlendis sé aðstaða og mannskapur, en samning við Sjúkratryggingar Íslands vantar.  Fáránleikinn felst í því, að hugmyndafræði á röngum stað leiðir til þess, að Sjúkratryggingar Íslands greiða margfaldan innlendan kostnað til einkarekinnar stofu í Svíþjóð eða annars staðar ásamt ferða- og dvalarkostnaði sjúklings og fylgdarliðs.  Hugmyndafræði á röngum stað leiðir með öðrum orðum til bruðls með skattfé vegna tilskipunar ESB, sem gildi tók á EES-svæðinu 1. júní 2016. 

Landsspítalinn hefur ekki aðstöðu til að ráða íslenzka, fullnuma lækna sumpart vegna þess, að aðstaða hans er ófullnægjandi, þar sem ákvörðun um úrbætur í málefnum hans dróst úr hömlu á árunum eftir Hrun, en nú hefur ákvörðun verið tekin um að fullnýta Landsspítalalóðina við Hringbraut undir nýbyggingar. Framkvæmdir við s.k. meðferðakjarna, sem er hin eiginlega nýja sjúkrahúsbygging, hefst á næsta ári, 2018, en það eru a.m.k. 4 ár, þar til starfsemi getur hafizt þar, og þangað til verður að brúa bilið með einkarekinni þjónustu, ef vel á að vera, enda sé hún ekki dýrari fyrir stærsta greiðandann, ríkissjóð, en aðgerðir á Landsspítalanum. 

Hvaða máli skiptir það skattborgarana, hvort fjárfestar fá smáumbun fyrir að festa fé sitt í þessum geira, ef hvorki ríkissjóður né sjúklingarnir bera skarðan hlut frá borði ?  Hér er hræðileg fordild á ferð, sem fráfarandi Landlæknir og núverandi forstjóri Landsspítalans eru ekki saklausir af að hafa alið á.  Með slíku framferði liggja hagsmunir sjúklinganna óbættir utan garðs.

Til að styrkja stjórnun Landsspítalans, sem er stærsti vinnustaður á Íslandi, þarf að setja yfir hann stjórn, sem tali máli hans út á við og hafi samskipti við fjárveitingarvaldið og fjölmiðla eftir þörfum og sinni stefnumörkun fyrir spítalann til skamms og langs tíma í samráði við heilbrigðisráðherra, en framkvæmdastjórn hans sinni daglegum rekstri og faglegri þróun háskólasjúkrahússins.  

 

Kaflinn í stjórnarsáttmálanum, núverandi, um heilbrigðismál hefst þannig:

"Íslenzka heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það, sem bezt gerist í heiminum.  Allir landsmenn eiga að fá notið [sic!] góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu."

Það er ómögulegt að henda reiður á fyrri málsgreininni.  Hvað á að leggja til grundvallar fyrir bezt í heimi ?  Barnadauða ?  Hann er nú þegar minnstur á Íslandi, enda er aðbúnaður og mannskapur allur hinn bezti á sængurkvennadeild Landsspítalans og eftirfylgnin heima fyrir til fyrirmyndar.  Bjóða þyrfti upp á gistiaðstöðu fyrir barnshafandi konur utan af landi, sem búa ekki við þá þjónustu í heimahéraði, sem þær þurfa á að halda. Þessi þjónusta kæmi þeim bezt, sem ekki eiga frændgarð á höfuðborgarsvæðinu, t.d. konum af erlendu bergi brotnu.   

Lífslengd ?  Langlífi á Íslandi er á meðal þess hæsta, sem þekkist á jörðunni, eða 82,5 ár, og verða konur 2,6 árum eldri en karlar, sennilega af því að þær lifa heilnæmara lífi. Japanir verða allra þjóða elztir, 1,4 árum eldri en Íslendingar, enda róa Japanir ekki í spikinu, heldur éta hollmeti á borð við hrísgrjón og sjávarafurðir sem undirstöðufæði.

Það á ekki að vera stefnumið heilbrigðiskerfisins að lengja ævina sem mest, heldur að bæta líðanina.  Það er æskilegt, að boðuð "heilbrigðisstefna" fyrir Ísland marki stefnu um líknardauða fyrir frumvarp til laga um þetta viðkvæma efni, sem taki mið af því, sem hnökraminnst virkar erlendis.  Það nær í raun og veru engri átt að nota tækni læknisfræðinnar til að treina líf, sem er líf bara að nafninu til og varla það.  Slíkt er áþján fyrir alla viðkomandi og felur í sér kostnaðarlega byrði fyrir opinberar stofnanir, sem engum ávinningi skilar.  Þróunin hefur gert öfgakennda framfylgd Hippokratesareiðsins ósiðlegan við vissar aðstæður, svo að kenna má við misnotkun tæknivæddrar læknisfræði og opinbers fjár.   

Sennilega er eitt skilvirkasta úrræðið til að viðhalda góðri heilsu og að bæta hana að stunda heilbrigt líferni.  Hvað í því felst er útlistað með s.k. forvörnum og leiðbeiningum til eflingar lýðheilsu.  Þessi grein þarf að koma inn í námsefni grunnskóla um 12 ára aldur, svo að æskan skilji, mitt í hömlulítilli neyzlu, að líkaminn er ekki sorptunna, sem tekur við rusli og eitri án alvarlegra afleiðinga. 

Af ráðleggingum má nefna að halda sig frá fíkniefnum, stunda einhvers konar líkamsrækt og gæta að matarræðinu, halda sig frá sætindum og borða mikið af  grænmeti og ávöxtum.  Íslendingar eru of þungir, bæði líkamlega og andlega.  Á Íslandi eru 58 % fullorðinna íbúa yfir kjörþyngd, sem er allt of hátt hlutfall og hærra en að jafnaði í OECD, og það stefnir í óefni með ungviðið, þar sem 18 % 15 ára unglinga eru of þungir.  Þetta bendir til kolrangs mataræðis og hreyfingarleysis.  Í Japan eru aðeins 24 % fullorðinna yfir kjörþyngd.

Ekki er vafa undirorpið, að með virkri aðstoð við fólk við að breyta um lífsstíl er unnt að lækka útgjöld til lyfjakaupa og sjúkrahúsvistar.  Með starfsemi á borð við þá, sem fram fer á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands-HNLFÍ, er hægt að forða fólki frá örorku eða a.m.k. að draga úr örorkunni, sem að óbreyttu væri óhjákvæmileg.  Fjöldi "útbrunninna" einstaklinga og fólks með áfallastreituröskun eða ofvirkni hefur fengið bót meina sinna á HNLFÍ í Hveragerði.  Það er ekki vanzalaust, að heilbrigðisyfirvöld skuli ekki hafa kynnt sér starfsemi HNLFÍ nægilega til að öðlast skilning á þeim sparnaði, sem í því felst fyrir ríkissjóð, að Sjúkratryggingar Íslands taki þátt í kostnaði við vist og meðhöndlun skjólstæðinga HNLFÍ í þeim mæli, að almenningi verði áfram fjárhagslega kleift að dvelja þar í 3-6 vikur í senn, eftir þörfum, eins og verið hefur undanfarin ár.  Nú er svo komið, að HNLFÍ telur sig vart eiga annarra kosta völ en að krefjast hækkunar á eigin framlagi umsækjanda eða að draga stórlega úr þjónustunni, sem veitt er og flestir telja vera til mikillar fyrirmyndar.  Hefur nýr heilbrigðisráðherra nægan skilning á framtaki frjálsra félagasamtaka til að bæta þjónustu við skjólstæðinga heilbrigðisgeirans og til að lækka heildarkostnað samfélagsins af slæmu heilsufari ?  Það mun bráðlega koma í ljós, hvort þekking og víðsýni ráðherrans er nægileg fyrir hið háa embætti.   

Það hefur verið rætt um sem allsherjar lausn á heilbrigðisvanda þjóðarinnar, sem að miklu leyti er sjálfskaparvíti, að hækka framlög úr ríkissjóði til heilbrigðisgeirans.  Þetta stendst ekki skoðun sem gott úrræði.  Árið 2016 námu útgjöld til heilbrigðismála í Bandaríkjunum (BNA) 10 kUSD/íb og á Íslandi 4,4 kUSD/íb, en íslenzka heilbrigðiskerfið skorar hærra á ýmsa mælikvarða en hið bandaríska, t.d. þá, sem nefndir eru hér að ofan.  Að meðaltali nema þessi útgjöld 4,0 kUSD/íb í OECD.  Íslendingar eru líklega að fá meira fyrir jafnvirði hvers USD, sem í heilbrigðiskerfið fer, en að meðaltali á við um þjóðir innan OECD og vafalaust mun meira en Bandaríkjamenn.

Til að sýna, hversu villandi er að bera saman útgjöld þjóða til heilbrigðismála sem hlutfall af VLF (vergri landsframleiðslu), þá var íslenzka hlutfallið 2016 8,6 % VLF, en 9,0 % VLF að meðaltali í OECD.  Samt voru útgjöldin á Íslandi 10 % hærri á íbúa á Íslandi en að meðaltali í OECD.  Eitt það vitlausasta, sem hægt væri að setja í heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar, væri, að framlag ríkissjóðs til þessa málaflokks skuli vera hærra en hámarkið á Norðurlöndunum, sem árið 2016 var 11,0 % x VLF (í Svíþjóð).  

Það, sem skiptir sköpum hér, er, hvernig kerfið er skipulagt, og hvernig því er stjórnað.  Það fer vafalítið bezt á því hérlendis að hafa blandað kerfi ólíkra rekstrarforma, sem standa fjárhagslega jafnfætis gagnvart aðilanum, sem kaupir megnið af þjónustunni, okkar ríkisrekna tryggingakerfi.  

 

 

 

 


Einangrunarhyggja er ekki í boði

Brexit-sinnar, þ.e. fylgjendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ESB, boða margir hverjir, að þeir vilji sízt loka Bretland af í menningarlegu og viðskiptalegu tilliti, þegar Bretar munu hafa sagt skilið við ESB í marz 2019, heldur vilji þeir þvert á móti opna Bretland fyrir hvers konar löglegum viðskiptum um allan heim.  Þeir hafa talað um, að Bretland ætti að gegna forystuhlutverki í þágu frelsis, þegar þeir losna úr viðjum og út fyrir múra meginlandsins, "Festung Europa", sem er þýzkt hugtak úr seinni heimsstyrjöldinni og Bretland vann þá með þrautseigju bug á. 

Fyrir íslenzka hagsmuni ættu þetta að vera ágætis tíðindi.  Bretar munu ekki að óbreyttu verða hluti af EES eftir marz 2019, nema þá sem einhvers konar bráðabirgða ráðstöfun.  Ísland þarf þess vegna fyrr en seinna að ná fríverzlunarsamningi við Bretland um þær vörur og þjónustu, sem báðum ríkjum hentar.  Í fljótu bragði er það allt, nema matvæli, sem talin eru í viðtökulandinu geta valdið heilsufarsskaða að mati tilkvaddra vísindamanna á sviði manna- og dýrasjúkdóma.  Bretar sjálfir þekkja þetta vel, því að þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni af völdum dýrasjúkdóma. Það verða varla alvarlegar hindranir á vegi Bretlands og Íslands að ná samkomulagi um þetta og helzt niðurfellingu allra opinberra innflutningsgjalda á hættulausum vörum og þjónustu.  Fyrir Ísland mundi það þýða enn betri viðskiptakjör fyrir fiskafurðir en nú tíðkast innan EES.

  Erfiðari viðgangs verður "Festung Europa", þ.e. Evrópska efnahgssvæðið-EES.  E.t.v. verður að sprengja það upp, þar sem í ljós er komið varnarleysi íslenzkra stjórnvalda gagnvart lagasetningu ESB, sem varðar lífshagsmuni hérlendis.  Með öðrum orðum er nú komið skýrar í ljós en áður, að fullveldisframsal Íslands með samþykkt EES-samningsins, sem aldrei fór í þjóðaratkvæðagreiðslu, var stórfelldara en samræmanlegt er Stjórnarskrá Íslands.  Fyrir því að yfirgefa EES er einnig vaxandi vilji í Noregi, en blekbónda er ekki kunnugt um afstöðu Liechtenstein til framtíðar EES.  Við Brexit verða vatnaskil, sem gefa kost á að endurskoða viðskiptasambönd Íslands við umheiminn með róttækum hætti.  

Tvö hagspök lögðu saman í Morgunblaðsgrein, 20. júlí 2017, og varð útkoman,

"Niður með múrana",

sem er afar fróðleg og góð röksemd fyrir haftalausum viðskiptum, svo lengi sem öðrum og mikilvægari hagsmunum er ekki ógnað.  Sennilega verður tvíhliða samningur Íslands og ESB ofan á sem endanlegt fyrirkomulag á samskiptum Íslands og ESB, því að ESB mun ekki að óbreyttu samþykkja undanþágur á frelsunum 4 eða 5 (raforkuflutningar gætu orðið 5. frelsið) og matvælalöggjöf sinni.  Ísland getur ekki undirgengizt þessar kvaðir án þess að fórna fullveldisrétti sínum, eins og nánar verður vikið að í þessari vefgrein. Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA (Samtaka atvinnulífsins) og Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns Efnahagssviðs SA, hófst þannig:  

"Það er segin saga, að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna.  Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóða viðskiptum.  Hér sannast hið fornkveðna, að verðmætasköpunin er mest, þegar ríki sérhæfa sig í því, sem þau gera bezt og verzla það, sem þau vanhagar um, erlendis.  [Stundum er styrkur ríkja fólginn í að nýta sérstakar náttúruauðlindir, t.d. endurnýjanlega orku, hreint haf og land, eins og hérlendis, - innsk. BJo.]  

Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun.  Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess, að verkefni, sem áður borguðu sig ekki, verða arðbær, sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri, sem fyrir eru í landinu, og skapa önnur, sem eru heimamönnum hulin.  

Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.   

Beinar erlendar fjárfestingar hafa gefizt vel hérlendis, enda eru þær áhættulausar fyrir innlenda fjárfesta.  Slíkir erlendir fjárfestar færa landsmönnum, auk áhættufjármagns, nýja þekkingu á verkferlum og stjórnun á fólki og verkefnum, t.d. áhættustjórnun.  Þannig hafa öll stóriðjuverkefnin markað framfaraspor að sínu leyti í sínu héraði, nema "United Silicon" í Helguvík, þar sem erlendir fjárfestar voru lítt eða ekki viðriðnir, og þekkingarleysi virðist hafa ráðið för.  Það er afleitt vegarnesti.  

Það eru hins vegar skuggahliðar á aðild landsins að Innri markaði ESB með frjálsa flutninga fjármagns.  Ef Ísland hefði ekki haft þetta aðgengi að Innri markaðinum með fjármagn, er ólíklegt, að Hrun fjármálakerfisins íslenzka haustið 2008 hefði orðið jafnalgert og raun bar vitni um.  Hið sama má segja, ef bönkunum hefði verið stjórnað af festu og ábyrgð, þótt landið væri á Innri markaðinum.  Aðild að Innri markaðinum felur óneitanlega í sér fullveldisframsal, sem reyndist stórhættulegt á ögurstundu haustið 2008.  Af því ber að draga lærdóm. Sú áhættutaka felur í sér skammtíma ávinning og langtíma hættu.  Hvorki var að finna skjól né stuðning á EES-svæðinu né reyndar annars staðar, þegar á herti.  Sú dapurlega sögulega staðreynd sýnir, að ríkisstjórnir huga aðeins að hag eigin lands, þegar á herðir, og að það er enginn vinur lands í raun. Eina úrræðið er að standa á eigin fótum í hvaða stórsjó, sem er. Eina vörn einnar þjóðar er óskorað fullveldi hennar til að ráða sínum málum sjálf í blíðu og stríðu, sbr Neyðarlögin haustið 2008, sem björguðu landinu frá langvarandi allsherjar áfalli.    

 Allt frá miðbiki 20. aldar hefur verið rekinn harðvítugur áróður gegn beinum erlendum fjárfestingum á Íslandi og svo er enn.  Ástæðan tengdist hagsmunatogstreitu stórveldanna í Kalda stríðinu í upphafi, og hún hefur alla tíð verið af stjórnmálalegum einangrunartoga fremur en á viðskiptagrundvelli. Þessi neikvæða síbylja hefur haft áhrif á afstöðu landsmanna, sem reynslan ætti þó að hafa kennt annað.  Um þetta skrifa hagspekingarnir:

"Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni, hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu.  Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu.  Sláandi var, hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks, þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting.  Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins."

Þegar Bjarni Benediktsson var fjármála-og efnahagsráðherra 2013-2016, hafði hann forgöngu um að fella niður alla tolla og vörugjöld, nema af bifreiðum, eldsneyti og vissum matvælum.  Þetta var einstæður gjörningur, sem skipaði Íslendingum einhliða í hóp þjóða með minnstar innflutningshömlur á vörum.  Þessi gjörningur gerði viðskiptaumhverfið hérlendis heilbrigðara, lækkaði vöruverð í landinu, sem afnáminu nam, öllum til hagsbóta, og ruddi brautina fyrir beinar fjárfestingar erlendra verzlunarfyrirtækja á Íslandi, sem eflt hafa samkeppni, svo að verðhjöðnun er hér enn og hefur verið mánuðum saman, ef húsnæðislið neyzluverðsvísitölunnar er sleppt. 

Hrá matvæli eru ásteytingarsteinn.  Matvælalöggjöf ESB var illu heilli samþykkt á Alþingi í árslok 2009. Ísland lenti þar með á Innri markaði EES fyrir matvæli, og þar er engar undanþágur að finna. Alþingi þóttist þó reka varnagla gagnvart sjúkdómahættu með því að banna innflutning á fersku kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Þessi varnagli var illa ryðgaður og er dottinn í sundur með nýlegum dómi EFTA-dómstólsins.  Við því verður ný ríkisstjórn að bregðast snöfurmannlega. Þar mun mæða á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, sem fara með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og utanríkismál.    

Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum.  Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES. 

Þar með er engum blöðum um það að fletta lengur, að framsal á fullveldi landsins til að verjast sjúkdómum hefur farið fram til EES.  Þetta fullveldisframsal er óviðunandi með öllu og útheimtir endurskoðun á EES- samningi Íslands og uppsögn hans, ef téð fullveldi til sjúkdómavarna fæst ekki endurheimt úr klóm Berlaymont í Brüssel.  Þessi afstöðubreyting markar þáttaskil í utanríkismálum Íslands og kemur á sama tíma og tengsl helztu viðskiptaþjóðar Íslands við EES eru að taka stakkaskiptum.  Hér er óhjákvæmilega komið helzta utanríkispólitíska viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar.  

 

 


Lýðheilsa og heilsufar búfjárstofna í húfi

Slæmar fréttir bárust hingað til lands frá EFTA-dómstólinum 14. nóvember 2017.  Hann úrskurðaði, að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á hráu, ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum og vörum úr þessum afurðum, svo og leyfiskvöð á innflutningi þessara vara, bæri að flokka með ólögmætum viðskiptahindrunum samkvæmt matvælalöggjöf ESB og ákvæðum EES-samningsins, sem Ísland er aðili að.

Við þennan dóm er margt að athuga, bæði lögfræðilega og heilsufarslega.  Margir kunnáttumenn hérlendis á sviðum lýðheilsu, meinafræði og sýklafræði manna og dýra gjalda svo mjög varhug við þessum dómi, að þeir fullyrða blákalt, að fullnusta dómsins mundi stefna heilsufari manna og dýra í hættu hérlendis. Við svo búið má ekki standa, og afgreiðsla þessa máls verður ákveðinn prófsteinn á nýja ríkisstjórn landsins. Það er algert ábyrgðarleysi af núverandi bráðabirgða stjórnvöldum að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum fjölmargra sérfræðinga m.v. geigvænlegar afleiðingar þess, að allt fari hér á versta veg í þessum efnum.

Fráfarandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er sem fyrr úti á þekju og skautar léttilega yfir slíkar hindranir og sannar með því, hversu sneydd hæfileikum hún er til að fara með þetta veigamikla embætti í Stjórnarráði Íslands.  Það er guðsþakkarvert, að hún skuli vera þaðan á förum, enda átti hún þangað aldrei erindi.  Helgi Bjarnason hefur t.d. eftirfarandi eftir téðri Þorgerði í frétt sinni í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2017:

"Breyta þarf reglum um innflutning":

"Þorgerður Katrín segir, að íslenzk stjórnvöld þurfi að breyta þessum lögum, svo að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar."

Þorgerður þessi leyfir sér að boða það að gösslast áfram gegn ráðleggingum okkar færustu vísindamanna, þótt afleiðingarnar geti orðið geigvænlegar fyrir bændastéttina, dýrastofnana, heilsufar og hag þjóðarinnar og ríkissjóðs.  Blekbóndi er gjörsamlega gáttaður á fljótfærni og hugsunarleysi þessa ráðherra, sem dæmir sjálfa sig úr leik í pólitíkinni með þessari einstæðu afstöðu.  Enn bætti Þorgerður þó um betur:

"Þorgerður Katrín lýsir þeirri skoðun sinni, að hræðsluáróður hafi verið notaður gegn innflutningi á fersku kjöti og telur, að meiri hætta stafi af ferðamönnum og innflutningi á fersku grænmeti."

Mann rekur í rogastanz við lestur texta, sem vitnar um jafnhelbert dómgreindarleysi og blinda trú á regluverk og eftirlitskerfi ESB og hér er á ferð.  Ráðherrann, fráfarandi, hraunar hér yfir faglega og rökstudda skoðun fjölda innlendra sérfræðinga og kallar "hræðsluáróður".  Slíkur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur, sem að slíkum ráðherra stendur, er einskis trausts verður og hlýtur að lenda á ruslahaugum sögunnar eigi síðar en í næstu Alþingiskosningum, enda hvert ver eiginlega erindi Viðreisnar í stjórnmálin ?  Kerfisuppstokkun ?  Heyr á endemi !  

Ný ríkisstjórn í landinu verður að taka téðan dóm föstum tökum og semja vísindalega trausta greinargerð til ESA og ESB, þar sem rökstutt er, að íslenzk stjórnvöld sjái sér engan veginn fært að fullnusta þennan dóm EFTA-dómstólsins vegna mikillar áhættu fyrir hag landsins, sem slíkt hefði í för með sér.  Leita þarf lögfræðilegra leiða til að renna stoðum undir slíka afstöðu, ella verða Íslendingar að leita eftir breytingum á skuldbindingum sínum við EES í krafti fullveldisréttar síns.  Undanþágur í þessa veru verða líka að koma fram í væntanlegum fríverzlunarsamningi Íslands og Bretlands, sem taka þarf gildi í kjölfar harðsóttrar útgöngu Bretlands úr ESB.  Bretar hafa lýst því yfir, að í stað þess að dvelja í skjóli "Festung Europa", vilji þeir hafa forgöngu um víðtæka fríverzlun, og þeir eru líklegir til að skapa EFTA-þjóðunum aðgang að víðtæku fríverzlunarneti um heiminn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sagði í ofangreindri frétt:

""Þessi orrusta er töpuð, en kanna verður, hvort stríðið er tapað", segir Erna. Hún nefnir, að EFTA-dómstóllinn hafi ekki talið reglur Íslands falla undir þá grein EES-samningsins, sem heimilar ríkjunum að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda líf og heilsu manna og dýra.  Það verði athugað, hvort einhverjar leiðir séu til að virkja þetta ákvæði."

Spyrja má, hvort öryggishagsmunum Íslands hafi verið teflt nægilega skilmerkilega og ítarlega fram að Íslands hálfu gagnvart dómstólinum.  Málið er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur varðar það þjóðaröryggi, ef með stjórnvaldsaðgerðum er verið að opna nýjum fjölónæmum sýklum og veirum greiða leið inn í landið og þar með tefla lýðheilsu hérlendis á tæpasta vað og setja heilsufar búfjár í uppnám.

Það er líklega ekkert sambærilegt tilvik í Evrópu við sjúkdómastöðuna á Íslandi, og þess vegna ekkert fordæmi í Evrópu til að líta til við dómsuppkvaðninguna, en ef þessari hlið málsins hefði verið teflt fram af fullri festu, hefði mátt benda dómstólnum á fordæmi annars staðar í heiminum, t.d. frá Nýja-Sjálandi.  Nú þarf að tefla fram ítarlegri röksemdafærslu okkar færustu vísindamanna á þessu sviði gegn þeim rökum, sem EFTA-dómstóllinn hefur lagt til grundvallar, og verður þá ekki öðru trúað en minni hagsmunir verði látnir víkja fyrir meiri.  Að öðrum kosti verður Ísland að grípa til einhliða ráðstafana að beztu manna yfirsýn til að varðveita þá heilsufarslegu stöðu, sem 1100 hundruð ára einangrun hefur fært íslenzkum búfjárstofnum.  

Hvað segir Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus í sýklafræði við Háskóla Íslands af þessu tilefni ?:

"Það er alvarlegt mál, ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar.  Ég treysti ekki þeim mönnum, sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til að verja okkur fyrir þeim.  Kannski af því, að ég er orðin svo gömul, að ég hef séð of margt."

Í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017,

"Segja, að veikindaálagið muni aukast",

mátti greina miklar áhyggjur Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis og veirufræðings á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karls G. Kristinssonar, prófessors og yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans:

""Þessi niðurstaða hefur þýðingu fyrir lýðheilsu og mögulega einnig dýraheilsu.  Það er alveg óumdeilt í fræðaheiminum, að smitsjúkdómastaða íslenzku búfjárkynjanna er einstök á heimsvísu.  Þess nýtur íslenzkur landbúnaður og almenningur hérlendis", segir Vilhjálmur."

Á að fórna "einstakri stöðu á heimsvísu" vegna þrýstings frá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem kært hafa íslenzk yfirvöld fyrir ESA og krefjast þess að fá að flytja hömlulaust inn frá ESB og selja hér ferskt kjöt, ógerilsneydd egg og vörur úr þessum afurðum ? Það kemur ekki til mála. Það mun auðvitað sjást undir iljar þessara aðila, þegar fólk og fénaður tekur að veikjast hér af fjölónæmum sýklum, sem engar varnir eru gegn, og búfé að hrynja niður, eins og fordæmi eru um, af riðuveiki og mæðiveiki.  Þessir innflytjendur og seljendur verða þá fljótir að benda á eftirlitsaðilana sem sökudólga, en pottþétt heilbrigðiseftirlit með þessum innflutningi er óframkvæmanlegt. Sá beinharði kostnaður, sem af slíku mundi leiða fyrir skattborgarana, er margfaldur sá sparnaður, sem neytendur kynnu að njóta um hríð vegna lækkaðs matvöruverðs.  

""Sýklalyfjaónæmi er ein af helztu ógnunum við lýðheilsu í heiminum í dag.  Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að reyna að viðhalda okkar góðu stöðu, eins lengi og hægt er", segir Karl."

Í þessu máli eru ekki öll kurl komin til grafar, og það hlýtur að verða eitt fyrsta meginverkefni nýs utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra að stilla upp varnarlínu fyrir Ísland gagnvart ESB í þessu máli og síðan að sækja þaðan fram til að hnekkja þessum dómi, hugsanlega með sérsamningi Íslands eða EFTA við ESB, því að með hann á bakinu er Íslandi ekki vært innan EES.  Það er utanríkispólitískt stórmál með miklum afleiðingum fyrir Ísland, eins og úrsögn Bretlands úr ESB er stórmál fyrir Breta, en reyndar líka fyrir mörg fyrirtæki í ESB-ríkjunum.   

 Berlaymont sekkur

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband