Færsluflokkur: Heilbrigðismál
30.6.2017 | 18:49
Heilbrigðiskerfi á villigötum
Á Vesturlöndum vex kostnaður við heilbrigðiskerfin linnulaust, svo að stefnir í algert óefni. Meginástæðan eru rangir lifnaðarhættir miðað við það, sem bezt þjónar góðu heilsufari og lengra æviskeið. Forsætisráðherra minntist á í ágætri þjóðhátíðarræðu 17. júní 2017, að meðalævi Íslendinga hefði á lýðveldistímanum lengzt um 15 ár, en hann gat eðlilega ekki um, hvernig háttað er lífsgæðunum á þessu 15 ára ævilengingartímabili. Þau eru mjög misjöfn. Algengt er, að lyf séu notuð í skaðlegum mæli, og margir eldri borgarar nota allt of mikið af lyfjum og eru þar staddir í vítahring. Vitund almennings um kostnað við læknisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu er ábótavant. Þar sem miklar opinberar niðurgreiðslur eiga sér stað, þar myndast venjulega langar biðraðir. Eftirspurnin vex meir en opinbert framboð getur annað. Þetta er alls staðar vandamál í heilbrigðisgeiranum. Það verður að fækka sjúklingum með því að efla ábyrgðartilfinningu almennings gagnvart eigin heilsu til að komast út úr vítahring versnandi heilsufars þjóðarinnar og sívaxandi kostnaðar við heilbrigðiskerfið.
Þann 16. júní 2017 birtist í Morgunblaðinu hugvekja í þessa veru, þar sem var viðtal við bandarískan lækni, Gilbert Welch, prófessor við Dartmouth-stofnun í BNA. Viðtal Guðrúnar Erlingsdóttur bar fyrirsögnina, "Prófessor hræddur um ofnotkun lækninga":
"Ég er hræddur um, að það sé verið að draga okkur inn í of mikla "lækningavæðingu" [hefur einnig verið nefnt "sjúklingavæðing" heilbrigðra hérlendis - innsk. BJo]. Læknar geta gert margt gott fyrir fólk, sem er veikt eða slasað. Þeir geta þó gert illt verra, þegar þeir meðhöndla fólk, sem er ekki veikt."
Þessi gagnrýni hefur einnig heyrzt úr læknastétt hérlendis, að leit að sjúkdómum sé hér orðin of umfangsmikil. Betra sé fyrir skjólstæðinga lækna og hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og skjólstæðingana sjálfa, að þeir taki ábyrgð á eigin heilsufari með heilbrigðu líferni og leiti ekki til læknis fyrr en einkenni koma í ljós.
"Ég óttast, að við séum að ofnota lækningar í stað þess að horfa á það, sem einstaklingarnir sjálfir geta gert."
Máttur tækninnar er eitt, en annað er, hvernig við nýtum hana okkur til framdráttar. Við megum ekki gleyma því, að mannslíkaminn er enn í grundvallaratriðum sá sami og fyrir meira en 100 þúsund árum, þ.e.a.s. hann hefur alls ekki lagað sig að nútíma umhverfi og lifnaðarháttum, hvað þá tæknilegri getu lyflækninganna. Heilbrigt líferni er bezta vörnin gegn sjúkdómum, en það er vissulega vandratað í öllu upplýsingaflóðinu og skruminu og erfitt að greina hismið frá kjarnanum.
Síðar í viðtalinu víkur prófessor Welch að sjúkdómaskimunum, sem verða æ meira áberandi nú um stundir:
"Það getur orkað tvímælis að skima fyrir brjóstakrabbameini. Það er hægt að finna hnúta, sem ekki eru og verða aldrei krabbamein. Stundum er verið að leggja óþarfa aukaverkanir og óþægindi á fólk."
Segja má, að ver sé af stað farið en heima setið, þegar alls kyns aukaverkanir leiða af skimunum og lyfjagjöf. Slíkt má kalla misnotkun á tækninni, og að gert sé út á ótta fólks. Það er vandfundið, meðalhófið.
"Stór hluti karlmanna, kominn á minn aldur, er með meinið [blöðruhálskirtilskrabbamein] án þess, að af því stafi nokkur hætta. Ristilkrabbamein er hins vegar ekki ofgreint, og af völdum þess fer dauðsföllum fjölgandi. Það er hætta á, að ofgreining færist yfir á aðra sjúkdóma, og þar skiptir ástin á tölfræði miklu máli."
Það eru feiknarlegir hagsmunir undir, sem þrýsta á um óþarfar greiningar og meðferðir, sem skjólstæðingarnir verða auðveld fórnarlömb fyrir og tryggingar taka þátt í. Boðskapur Gilberts Welch er sá, að þessi þróun læknisfræðinnar þjóni ekki hugsjóninni um betra líf, og varla heldur hugmyndum um lengra líf.
"Ég hef ekki orðið fyrir líkamlegri áreitni að hálfu hagsmunaaðila, en það hafa verið gerðar tilraunir til þess að láta reka mig úr starfi. Peningarnir tala alltaf. Lækningaiðnaðurinn er stór hluti efnahagskerfisins, sem vill endalaust stækka og þróa nýja hluti. Hjálpar það raunverulega fólki, eða verður það taugaveiklaðra, kvíðnara og hræddara ?
Ekki leita til læknis, ef þú ert ekki veikur. Verið efagjörn, spyrjið spurninga. Hverjir eru valkostirnir, hvað getur farið úrskeiðis ? Gefið ykkur tíma til þess að melta upplýsingarnar, nema um sé að ræða miklar blæðingar eða hjartaáfall. Heilsan er á ykkar ábyrgð, læknar geta ekki tryggt hana."
Hér er á ferð nýstárlegur málflutningur frá hendi reynds læknis og háskólakennara. Þessi boðskapur á fullan rétt á sér og eru orð í tíma töluð. Læknar hafa verið hafnir á stall töframanna fyrri tíðar, og töfralæknirinn hafði líklega svipaða stöðu og presturinn í fornum samfélögum, þ.e. hann var tengiliður við almættið eða andaheiminn. Það er engu líkara en fjöldi fólks treysti nú á getu læknavísindanna til að lappa upp á bágborið heilsufar, sem oftast er algert sjálfskaparvíti. Slík afstaða er misnotkun á læknavísindunum og á almannatryggingakerfinu.
Dæmi um sjálfskaparvíti er offita. Rangt fæðuval, ofát og hreyfingarleysi, eru oftast sökudólgarnir. Yfirdrifið kjötát, saltur matur, brauðmeti úr hvítu hveiti, kökur og önnur sætindi, áfengisneyzla og neyzla orkudrykkja eru sökudólgarnir í mörgum tilvikum. Matvælaiðnaðurinn lætur frá sér fara of mikið af varasömum matvælum, sem innihalda óholl efni, litarefni, rotvarnarefni, salt, hvítan sykur o.s.frv.
Í Evrópu er ástandið verst í þessum efnum í Ungverjalandi, en þar voru árið 2015 yfir 30 % fullorðinna of feitir eða með BMI>30,0. (BMI stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd líkamans, og er talið eðlilegt að vera á bilinu 18,5-24,9.) Í Ungverjalandi voru þá 2/3 fullorðinna of þungir með BMI 25,0-29,9. Þetta þýðir, að sárafáir fullorðinna voru með eðlilega líkamsþyngd m.v. hæð. Það er ótrúlegt, ef satt er. Ungverjar borða minna af grænmeti en flestir í velmegunarlöndum og meira af salti en aðrir í ESB. Fyrir vikið eru lífslíkur Ungverja 5 árum styttri en meðaltal íbúa í ESB eða 76 ár.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, tilkynnti árið 2011, að þeir, sem lifa "óheilsusamlegu lífi, yrðu að greiða hærri skatt". Fyrir 3 árum var innleiddur neyzluskattur á sykur, salt, fitu, áfengi og orkudrykki. Skattur þessi nemur rúmlega 90 ISK/l af orkudrykk og 180 ISK/kg af sultu. Árangur hefur orðið nokkur við að beina fólki til hollustusamlegri neyzluhátta. Um 40 % matvæla- og sælgætisframleiðenda hafa fækkað eða minnkað magn óhollra efna í vörum sínum, og neytendur hafa dálítið breytt neyzluvenjum sínum. Neyzla sykraðra drykkja hefur minnkað um 10 %. Tekjum af þessari skattheimtu er beint til heilbrigðisþjónustunnar.
Á Íslandi var á vinstristjórnarárunum síðustu við lýði neyzlustýring með skattheimtu, s.k. sykurskattur, en hann hafði lítil önnur áhrif en að hækka neyzluverðsvísitöluna. Þessi aðferð við neyzlustýringu sætti gagnrýni, enda kom hún afkáralega út í sumum tilvikum, þar sem illskiljanlegt var, hvers vegna sumt var sérskattað, en annað ekki. Þá er í raun of mikil forræðishyggja fólgin í neyzlustýringu af þessu tagi, sem litlu skilaði, þegar upp var staðið, öðru en aukinni dýrtíð og vísitöluhækkun neyzluverðs. Líklega eru aðrar leiðir skilvirkari, strangari reglur um vörumerkingar og að auðkenna innihald varasamra efna, og almenn fræðsla um afleiðingar óhollrar neyzlu fyrir líkamann, sem hefja ætti þegar í grunnskóla.
8.6.2017 | 11:20
Einstaklingurinn gagnvart ríkisvaldinu
Stjórnmálaafstaða okkar mótast af grundvallarviðhorfum um hlutverk og hlutverkaskiptingu einstaklinga og hins opinbera í þjóðfélaginu. Þeir, sem vilja frelsi einstaklingsins til athafna eins mikið og kostur er, þeir vilja jafnframt virða eignarréttinn í hvívetna, og þar með réttinn til að ráðstafa eigin aflafé, að því gefnu, að hann stangist ekki á við almannahag og að yfirvöld gæti laga, jafnræðis og meðalhófs, við skattheimtu. Af þessu leiðir, að skattheimtu ber að stilla í hóf, svo að jaðarskattur tekna dragi hvorki úr hvata til verðmætasköpunar sé hvetji til undanskota; sé t.d. undir þriðjungi og af fjármagni helmingi lægri til að efla sparnað (og auðvitað sé hann ekki reiknaður af verðbótum). Einkaframtaksmenn eru jafnframt hliðhollir hvers konar einkaeign, t.d. á húsnæði og bílum, og telja fasteign undirstöðu fjárhagslegs öryggis í ellinni.
Sósíalistar eða jafnaðarmenn eru á öndverðum meiði á öllum þessum sviðum. Þeir vilja mjög umsvifamikið ríkisvald og hika ekki við að hvetja til og verja einokunaraðstöðu þess með kjafti og klóm. Einkaeignarréttur er sósíalistum lítils virði, og þetta hafa þeir opinberað hérlendis t.d. með því að segja og skrifa, að hið opinbera, ríki eða sveitarfélag, sé að afsala sér tekjum með því að draga úr skattheimtunni. Þannig geta aðeins þeir tekið til orða, sem líta á vinnulaun, vaxtatekjur, fasteign eða gjaldstofn fyrirtækja, sem eign hins opinbera áður en skipt er, sem sjálfsagt sé að hremma eins stóran skerf af og hugmyndaflug jafnaðarmannanna um útgjöld útheimtir. Þar með er litið á einstaklinginn sem tannhjól í vélbúnaði hins opinbera. Þar sem slík sjónarmið ná fótfestu, er stutt í stjórnkerfi kúgunar í anda skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell.
Í stað þess að líta á skattkerfið sem fjármögnunarkerfi fyrir lágmarks sameiginlegar þarfir samfélagsins að teknu tilliti til jafns réttar allra til heilbrigðis og menntunar, þá lítur sósíalistinn á skattkerfið sem refsivönd á þá, sem meira bera úr býtum, langoftast með því að leggja meira á sig en aðrir í námi og/eða í starfi, af því að ójöfn öflun fjár sé óréttlát. Þannig geta aðeins grillupúkar hugsað, en með slíkar grillur að vopni hefur verið gengið mjög langt á eignarréttinn.
Mismunurinn á hugarfari hægri manna og vinstri manna á Alþingi kom auðvitað berlega fram í afstöðunni til 5-ára Fjármálaáætlunar ríkisins 2018-2022. Óli Björn Kárason, Alþingismaður, ÓBK, gerði áformaða aukningu ríkisútgjalda samkvæmt áætluninni og samkvæmt viðbótar útgjaldatillögum vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, að umræðuefni í Morgunblaðsgreininni, 31. maí 2017,
"Kennedy, Reagan og íslenskir vinstrimenn":
"Að minnsta kosti tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hefðu átt erfitt með að skilja hugmyndafræði íslenzkra vinstri manna og stefnu þeirra í skattamálum og harða samkeppni [um yfirboð-innsk. BJo]; John F. Kennedy og Ronald Reagan.
Reagan hélt því [réttilega] fram, að því hærri sem skattarnir væru, þeim mun minni hvata hefði fólk til að vinna og afla sér aukinna tekna [t.d. með því að afla sér meiri menntunar]. Lægri skattar gæfu almenningi tækifæri til aukinnar neyzlu og meiri sparnaðar, hvatinn til að leggja meira á sig og afla tekna yrði eldsneyti hagkerfisins. "Niðurstaðan", sagði Reagan, "er meiri hagsæld fyrir alla og auknar tekjur fyrir ríkissjóð.""
Þetta er mergurinn málsins. Þegar skattheimta er í hæstu hæðum, eins og nú á Íslandi, í sögulegum og í alþjóðlegum samanburði, þá er alveg áreiðanlegt, að við skattalækkun stækkar skattstofninn, og hann skreppur saman við skattahækkun m.v. óbreytta skattheimtu. Þess vegna getur lægri skattheimta þýtt auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð, eins og Reagan sagði. Þetta eru ekki lengur tilgátur hagfræðinga og stjórnmálamanna. Þetta er raunveruleiki, eins og reynslan sýnir. Vinstri mönnum eru hins vegar allar bjargir bannaðar. Þeir átta sig hugsanlega á þessari leið til að auka opinberar tekjur, en þeir hafna henni samt, því að í þeirra huga er refsihlutverk skattkerfisins mikilvægara.
Tilvitnun ÓBK í JFK hér að neðan á greinilega við stöðu ríkisfjármála á Íslandi nú um stundir:
"Á blaðamannafundi í nóvember 1960 sagði Kennedy [þá nýkjörinn forseti BNA]:
"Það er mótsagnakenndur sannleikur, að skattar eru of háir og skatttekjur of lágar og að til lengri tíma litið er lækkun skatta bezta leiðin til að auka tekjurnar."
Kennedy lagði áherzlu á, að lækkun skatta yrði til þess að auka ráðstöfunarfé heimilanna og hagnað fyrirtækja og þar með kæmist jafnvægi á ríkisfjármálin með hækkandi skatttekjum. Á fundi félags hagfræðinga í New York árið 1962 sagði forsetinn m.a.:
"Efnahagskerfi, sem er þrúgað af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.""
Það, sem JFK sagði þarna um ofurháa skattheimtu, voru ekki orðin tóm, heldur hafa margsannazt bæði fyrr og síðar. Á Íslandi er nú há skattheimta, því að hún er enn á meðal þess hæsta, sem þekkist á meðal þróaðra þjóða Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Verði hún hækkuð umtalsvert, breytist hún umsvifalaust í ofurskattheimtu með þeim afleiðingum, að skattstofninn rýrnar og halli verður á rekstri ríkissjóðs, hagvöxtur koðnar niður og atvinnuleysi heldur innreið sína á ný. Skattahækkunarleið vinstri flokkanna leiðir þess vegna beint út í ófæruna. Þegar halla mun undan fæti eftir núverandi mikla hagvaxtarskeið, ætti að lækka skattheimtuna til að örva hagvöxt, og má nefna tryggingagjaldið fyrst.
Í nýsamþykktri Fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022 er ekki reiknað með aukinni skattheimtu, heldur lækkun tryggingagjalds á síðari hluta skeiðsins og lækkun virðisaukaskatts eftir samræmingu VSK á atvinnugreinar, en samt eiga tekjur ríkisins að verða miaISK 185 hærri árið 2022 en árið 2017 í lágri verðbólgu. Af þessari hækkun ríkistekna koma 57 % frá sköttum af vörum og þjónustu og 41 % frá tekjusköttum. Þessi fjórðungshækkun skatttekna á 5 árum á einvörðungu að koma frá stækkuðum og breikkuðum skattstofnum, þ.e. tekjuáætlunin er reist á öflugum hagvexti allt tímabilið. Síðan er útgjaldaramminn sniðinn við þetta og miðað við 1,3 % tekjuafgang á ári. Ef meðalhagvöxtur á ári verður undir 3,5 %, þá verður halli á ríkisrekstrinum m.v. þessa áætlun. Boginn er þannig spenntur til hins ýtrasta, og það vantar borð fyrir báru. Í góðæri ætti tekjuafgangur ríkisins að vera yfir 3 % af tekjum til að draga úr þenslu og til að draga úr þörf á niðurskurði, þegar tekjur minnka.
Vinstri flokkarnir vilja samt meiri hækkun tekna, sem óhjákvæmilega þýðir þá skattahækkanir, þótt þeir hafi ekki útfært þær. Þannig vill Samfylkingin miaISK 236 hækkun skatttekna árið 2022. Mismunur hækkana er miaISK miaISK 51, sem þýðir skattahækkun 0,6 MISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.
Hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um skattahækkanir keyra þó um þverbak. Formaður VG hefur verið nefnd "litla stúlkan með eldspýturnar"; ekki af því að hún þurfi að selja eldspýtur á götum úti loppin af kulda, eins og í ævintýri H.C. Andersens, heldur af því að umgengni hennar við ríkisfjármálin þykir minna á brennuvarg, sem hótar að bera eld að opnum benzíntunnum. Þannig mundi efnahagskerfi Íslands kveikja á afturbrennaranum um stund eftir valdatöku "litlu stúlkunnar með eldspýturnar", og síðan stæði hér allt í björtu verðbólgubáli, sem fljótt mundi leiða af sér stöðnun hagkerfisins, skuldasöfnun, vinnudeilur og atvinnuleysi.
"Litla stúlkan með eldspýturnar" vildi, að í Fjármálaáætlun yrði gert ráð fyrir miaISK 334 hærri skatttekjum árið 2022 en árið 2017. Mismunur þessa og samþykktrar Fjármálaáætlunar er 149 miaISK/ár, sem þá nemur skattahækkun vinstri grænna. Hún jafngildir aukinni skattbyrði hverrar 4 manna fjölskyldu um 1,75 MISK/ár. Með þessu mundu vinstri grænir vafalítið senda Ísland á skattheimtutopp OECD ríkja, sem mundi eyðileggja samkeppnisstöðu Íslands um fólk og fjármagn. Launþegahreyfingarnar mundu gera háar launahækkunarkröfur í tilraun til að endurheimta kaupmátt launa, sem nú er einn sá hæsti innan OECD, og allt mundi þetta leggjast á eitt um að senda hagkerfi landsins niður þann óheillaspíral, sem lýst er hér að ofan sem afleiðingu ofurskattlagningar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, japlar á því bæði sýknt og heilagt, að með úrslitum síðustu Alþingiskosninga hafi kjósendur verið að biðja um aukna samneyzlu, og þess vegna sé sjálfsagt að gefa nú hraustlega í ríkisútgjöldin. Þetta er fullkomin fjarstæða hjá "litlu stúlkunni með eldspýturnar", enda mundu aukin ríkisútgjöld í þegar þöndu hagkerfi losa skrattann úr böndum með hræðilegum afleiðingum fyrir kaupmátt og skuldastöðu almennings. Ef þetta væri rétt hjá Katrínu, þá hefðu vinstri flokkarnir auðvitað aukið fylgi sitt hraustlega, en það lá hins vegar við, að annar þeirra þurrkaðist út. Almenningur skilur þetta efnahagslega samhengi ósköp vel, en "litla stúlkan með eldspýturnar" kærir sig kollótta, því að flokkur hennar nærist á óstöðugleika, þjóðfélagsóróa og almennri óánægju.
Það, sem þarf að gera við núverandi aðstæður, er að leggja áherzlu á aukna skilvirkni ríkisrekstrar og bætta nýtingu fjármagns, sem ríkissjóður hefur úr að moða. Tækifæri til þess eru vannýtt. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, ritaði grein í Viðskiptablaðið 4. maí 2017, þar sem hann tíundaði útgjaldaaukningu ríkissjóðs til heilbrigðismála 2010-2015, sem nam þriðjungi, 33 %, á verðlagi 2015, þ.e. útgjöldin 2015 voru miaISK 39,3 hærri en árið 2010. Svipuð aukning er ráðgerð í Fjármálaáætlun 2018-2022. Landsspítalanum þykir samt ekki nóg að gert, þótt til reiðu sé fjárfestingarfé upp á miaISK 50 og sé þarna fyrir utan. Þá er lausnin ekki að ausa í spítalann meira fé, heldur að virkja einkarekstrarformið til að stytta biðlistana og að slást í hóp hinna Norðurlandanna við útboð, t.d. á lyfjum. Þar þarf atbeina Alþingis við að brjóta á bak aftur hagsmunapotara. Halldór Benjamín skrifar:
"Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti á Íslandi. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenzkra heilbrigðisfyrirtækja, sem hafa sýnt fram á, að þau geta veitt jafngóða eða betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið."
Heilbrigðisgeirinn, meðferð og umönnun sjúklinga, er stærsti einstaki kostnaðarþáttur ríkissjóðs og virðist vera botnlaus hít. Þar eru þess vegna fjölmörg sparnaðartækifæri fyrir ríkissjóð, þar sem er nauðsynlegt að fá meira fyrir minna, og það er vel hægt, eins og dæmin sanna.
Þá bregður hins vegar svo við, að forysta Landsspítalans ásamt Landlækni rekur upp angistarvein sem stunginn grís væri og dengir yfir landslýð, að með auknum einkarekstri til að stytta allt of langa biðlista sjúklinga verði spónn dreginn úr aski háskólasjúkrahússins. Þetta er með ólíkindum.
Það er öfugsnúið að halda því fram, að með því að létta á yfirlestuðu sjúkrahúsi, þar sem yfirvinnustundir nema 15 % af venjulegum vinnutíma, muni það skaðast, þegar þjónustan er bætt við langhrjáða sjúklinga á biðlista. Jafn réttur sjúklinga er orðinn að réttleysi til lækninga, þegar á þarf að halda. Fullyrðing forystunnar er svo mótsagnakennd, að óþarft er fyrir fulltrúa fólksins að taka mark á henni, enda virðast ríkjandi hagsmunir á sjúkrahúsinu ekki hér að öllu leyti fara saman við almannahagsmuni.
"Hugmyndafræðileg afstaða á ekki að koma í veg fyrir, að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta stytt biðlista eftir aðgerðum. Mun betur mætti gera, ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og ríkjandi stefna um einokun opinberrar heilbrigðisþjónustu yrði endurskoðuð.
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu byggist á því, að ríkið greiði sömu framlög til einkaaðila til að framkvæma sömu aðgerðir af jafnmiklum eða meiri gæðum. Það er ekki einkavæðing, heldur stefna um að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu og að bæta lífsgæði sjúklinga."
Það mun reyndar vera þannig, að Klínikin Ármúla býðst til að taka að sér bæklunaraðgerðir á 95 % af kostnaði Landsspítalans, svo að hreinn sparnaður næst fyrir ríkissjóð. Í risafyrirtæki á borð við Landsspítalann (á íslenzkan mælikvarða) er mörg matarholan, og hætt er við, að margir maki krókinn með þeim hætti, sem ekki ætti að viðgangast. Dæmi um það eru lyfjakaupin, en fjármálastjóri Landsstítalans lýsti því nýlega í fréttaskýringarþætti á RÚV, að spítalann skorti skýlausa heimild frá Alþingi til að taka þátt í stóru útboði á lyfjum með norrænum sjúkrahúsum. Samt yrðu íslenzk fyrirtæki á bjóðendalista í þessu útboði. Felast ekki í því tækifæri fyrir þau og fyrir ríkissjóð ?
Hagsmunapotarar lyfjaiðnaðar- og innflytjenda hérlendis hafa komið ár sinni svo fyrir borð hjá Viðskiptanefnd þingsins, að spítalinn verður af líklega yfir eins milljarðs ISK sparnaði við lyfjakaup. Þarna er Landsspítalinn hlunnfarinn og þar með skattborgararnir. Er þetta ekki málefni fyrir heilbrigðisráðherra til að setja upp "gula gúmmíhanzkann" og skera upp herör ?
"OECD komst að þeirri niðurstöðu árið 2008, að hagræðing í heilbrigðiskerfinu [íslenzka] geti skilað tugprósentustiga lækkun kostnaðar. Þar starfi of margt fólk í samanburði við önnur lönd, hlutur einkaaðila sé of lítill, þjónusta sé í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum og samkeppni sé ekki nægjanleg."
Ef OECD hefur komizt að því árið 2010, að spara megi um 20 % í íslenzka heilbrigðiskerfinu, þá er hægt að losa þar um 30 miaISK/ár, sem nota má til að leysa úr brýnum vanda skjólstæðinganna. Hvers vegna í ósköpunum snúa menn sér ekki að slíkum alvöruviðfangsefnum í stað þess að setja reglulega á grátkór í fjölmiðlum um, að meira fé vanti úr ríkissjóði í reksturinn ?
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2017 | 10:25
Karl Marx afturgenginn
Reynslan hefur sýnt almenningi, að meðal Karls Marx við sjúkdómum auðvaldskerfisins hafði miklu verri afleiðingar fyrir fólkið, sem fyrir barðinu varð, en sjúkdómarnir höfðu sjálfir.
Engu að síður höfða kenningar karlsins enn til nokkurra áhugamanna um stjórnmál, en almenningur hefur greint hismið frá kjarnanum fyrir löngu og telur hag sínum mun ver borgið undir einhvers konar Marxisma, sem stundum er kölluð jafnaðarstefna, en með blönduðu borgaralegu hagkerfi, þar sem stuðzt er við kenningar Adams Smith og lærisveina hans með félagslegu ívafi, eins og öryggisneti almannatrygginga.
Einkenni á málflutningi Marxista er, að þeir hugsa ekki málin til enda, heldur gefa sér alls konar sviðsmyndir, sem ekki standast í raunveruleikanum. Hið sama einkenndi karlinn sjálfan, og því er reynslan af sósíalisma alls staðar hörmuleg, þar sem hann hefur verið reyndur. Kjarni Marxismans er, að hverjum beri eftir þörfum og láti af hendi rakna eftir getu. Þetta er algerlega opin fullyrðing, því að hver á að ákveða, hvað þú þarft og hvað þú getur látið af hendi rakna ? Í framkvæmd, þar sem sósíalismanum var komið á, var "nómenklatúrunni", þ.e. yfirstétt kommúnistaflokksins eða jafnaðarmannaflokksins falið þetta vald. Í því fólst og felst enn auðvitað reginranglæti og misrétti. "Nómenlatúran" hefur yfirtekið ríkisvaldið og ríkt án nokkurs lýðræðislegs aðhalds.
Dæmi um stöðnun og forræðishyggju jafnaðarmanna nú á dögum er ný stefnuskrá brezka Verkamannaflokksins, sem felur í sér þjóðnýtingu á ýmissi almannaþjónustu, og þá er næsta skrefið að þjóðnýta atvinnutækin, sem auðinn skapa, í anda kenninga Karls Marx. Almenningur á Bretlandi er ekki ginnkeyptur fyrir þessu, enda hefur fylgið hrunið af Verkamannaflokkinum, þótt hann annars mundi eiga fjölmörg sóknarfæri á hendur Íhaldsflokki Theresu May nú í aðdraganda þingkosninga, s.s. lækkandi gengi sterlingspundsins í aðdraganda Brexit. Brexit verður flókið viðfangsefni fyrir Brüssel og London, og kannski fer allt í háaloft.
Hvers vegna er almenningur ekki ginnkeyptur fyrir stefnu Verkamannaflokksins ? Í fyrsta lagi hefur fólk samanburð á milli ríkisrekstrar og einkarekstrar, og í öðru lagi kærir almenningur sig ekki um, að flokkshestar og vekalýðsrekendur ráði yfir fyrirtækjum, sem almenningur á mikið undir, því að þetta fólk hefur ekki hundsvit á því, hvernig á að reka fyrirtæki á hagkvæman og þjónustuvænan hátt. Með öðrum orðum veit almenningur, að fjárhagsbyrðum sukks "nómenklatúrunnar" verður velt yfir á hann með íþyngjandi skattahækkunum og þjónustan verður lakari.
Reynslan af jafnaðarmanninum Francois Hollande og sósíalistaflokki hans í Frakklandi þótti svo slæm þar, að fylgi beggja hrundi niður úr öllu valdi, og ungur bankamaður og ráðherra á vegum Sósíalistaflokksins var endurunninn og búinn til frjálslyndur borgaralegur frambjóðandi í nafni umbóta á stöðnuðu frönsku þjóðfélagi og Evrópusambandi-ESB. Macron ætlar að hleypa nýju lífi í öxulinn Berlín-París, nú þegar Bretar eru á förum, með því að fylgja umbótastefnu í efnahagsmálum, sem hann telur muni falla Merkel betur í geð en lítið aðhald Hollandes við ríkisreksturinn. Þá ætlar Macron að lengja vinnuvikuna í 40 klst úr 35 klst. Þótt sósíalistar styttu hana, fækkaði ekki atvinnulausum, sem eru um 10 % af vinnuaflinu.
Í staðinn vill Macron fá enn meiri samtvinnun í bankamálum og fjármálum almennt, sem Þjóðverjum hugnast illa, því að þeir óttast meiri útgjöld þýzkra skattborgara vegna fjárhagsstuðnings við veikburða ESB-ríki.
Evrópuþingmaðurinn Schulz átti að bjarga "die Sozialistische Partei Deutschlands - SPD" eða Jafnaðarmannaflokki Þýzkalands frá niðurlægingu í Sambandsþingskosningunum í september 2017. Í upphafi blés byrlega fyrir SPD, en þegar kjósendur hafa heyrt og séð meira til þessa rykfallna kerfiskarls frá Brüssel, verða þeir meira afhuga hugmyndinni um að dubba hann upp sem kanzlara Sambandslýðveldisins í Berlín í stað prestsdótturinnar frá Austur-Þýzkalandi.
Þetta er vandi jafnaðarmannaflokka alls staðar í hinum vestræna heimi. Þeir eru tákngervingar liðins tíma. Tímabili stéttastríðs er lokið á Vesturlöndum, verkamannastörfum hefur fækkað, lágmarkslaun eru víðast hvar tryggð og hlutverk jafnaðarmannaflokkanna hefur skroppið saman í að gæta hagsmuna búrókrata og annarra forréttindahópa og afæta. Þetta er stundum kölluð "elítan", sem er þó rangnefni, því að kerfissnatar bera ekki af á nokkurn hátt annan en í ómerkilegri "rentusækni", þ.e. að skara eld að sinni köku á kostnað almennings og án þess að verðskulda sérstaka umbun frá hinu opinbera.
Á Íslandi er nú draugagangur á vinstri væng stjórnmálanna. Flokkur fjármagns og búrókrata í Brüssel er að tærast upp, en vinstri grænum vegnar betur þrátt fyrir fastheldni við marxíska stefnu um háa skatta á fyrirtæki og fólk, einkum þá, sem mestan þjóðfélagsauðinn skapa, og ríkiseinokun á sem flestum sviðum. Flokkurinn má ekki heyra minnzt á fjölbreytni rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu og framhaldsskólakerfinu, svo að tveir geirar þjónustu, sem ríkið stendur straum af, séu tíundaðir, þótt slíkt geti aðeins leitt til sparnaðar og betri þjónustu, því að ella yrði samningum sagt upp.
Það sýnir bókstafstrú vinstri grænna á falskenningar Karls Marx, sem taldi einkarekstur ósamrýmanlegan sæluríki kommúnismans. Vinstri grænum er sem fyrr annara um form en innihald, og þá varðar ekkert um hagsmuni skjólstæðinga þessara kerfa, sjúklinga og nemenda. Þetta er sannkallaður afturhaldsflokkur, þar sem yfirdrepsskapurinn tröllríður húsum.
Forstokkun vitleysunnar gengur svo langt, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vilja heldur, að Sjúkratryggingar Íslands greiði tvöfaldan kostnað Landsspítala af bæklunaraðgerð á sjúklingum á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð en að greiða Klínikinni Ármúla 95 % af kostnaði sömu aðgerðar á Landsspítala. Þegar umgengnin við skattfé borgaranna er orðin með þessum hætti í anda Karls Marx, þarf engan að undra, að marxísk hagkerfi hafi yfirleitt orðið gjaldþrota fyrr en seinna eða hjarað á hungursbarmi, eins og Kúba Karíbahafsins, þar sem mánaðarlaun lækna munu vera 10-20 bandaríkjadalir. Þá er gott að eiga garðholu fyrir matjurtir.
Ingólfur S. Sveinsson, læknir, skrifaði fróðlega grein um efnið í Morgunblaðið 14. marz 2017 undir fyrirsögninni,
""Tvöföld heilbrigðisþjónusta", skammaryrði eða skýr nauðsyn":
Þar kom m.a. fram:
"Allar ríkisstjórnir síðustu 30 ár hafa unnið að því að þvinga heilbrigðisþjónustuna inn í kommúnískt ríkisrekstrarkerfi miðstýringar og ofstjórnar."
Nú hefur þetta kerfi gengið sér til húðar. Það lýsir sér með gegndarlausri kostnaðarhækkun heilbrigðiskerfisins, sem nú er líklega dýrasta heilbrigðiskerfi í Evrópu á hvern íbúa lands, þegar tekið hefur verið tillit til tiltölulega lágs meðalaldurs þjóðarinnar. Kerfið er kostnaðarleg hít, enda samkeppni og samanburður innanlands af skornum skammti.
Einnig koma skýr einkenni slíkra kerfa, óviðráðanlega langir biðlistar eftir þjónustu, vel fram á Íslandi. Ein versta sukktillaga um tilhögun ríkisútgjalda kom fyrir rúmu ári frá auðvaldskommanum Kára Stefánssyni, opinberum bréfritara Decode, þess efnis, að í fjárlögum skyldi binda 11 % af VLF við heilbrigðisgeirann, þrátt fyrir að VLF/íb sé einna hæst á Íslandi allra landa og aldurssamsetning þjóðarinnar kalli ekki á að keyra útgjöld til málaflokksins upp í rjáfur.
Meira úr grein Ingólfs Sveinssonar:
"Aðkoma Færeyinga mætti gagnast Íslendingum nú sem oft áður. Þeir gerðu fyrst stuttan samning við Klínikina fyrir konur með brjóstakrabbamein. Eftir reynslutíma og án efa kostnaðargreiningu á þjónustunni gerðu Sjúkratryggingar þeirra samning til lengri tíma. Færeyingarnir fóru með gætni, skynsemi, ábyrgð og umhyggju."
Hér á Íslandi eru marxistískt hugarfar og bókstafstrú greinilega rótgrónari og illvígari en í Færeyjum. Það er til háborinnar skammar, að íslenzk yfirvöld skuli ekki þegar hafa farið svipaða leið og yfirvöld heilbrigðismála í Færeyjum gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu, sem til boða stendur á Íslandi.
Hér eru tveir rugguhestar í veginum, forstjóri Landsspítalans, Páll Matthíasson, og Landlæknir, Birgir Jakobsson. Afstaða beggja vitnar um þröngsýni, því að þeir bera því við, að hagur Landsspítala verði fyrir borð borinn, ef fleiri rekstrarform fá að njóta sín. Það er útilokað, því að streituvaldandi langir biðlistar munu styttast fyrir vikið, og allt of mikil yfirvinna á Landsspítalanum mun geta minnkað, sem er jákvætt fyrir greiðendur þjónustunnar og þá, sem veita hana. Þessir fulltrúar sjónarmiða ríkiseinokunar mála skrattann á vegginn, eins og skoðanabræður þeirra á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Fyrr en síðar mun það verða lýðum ljóst hér sem víðast annars staðar.
Í eftirfarandi kafla varpar Ingólfur, læknir, ljósi á dragbítana, sem við er að etja og verður að ryðja úr vegi, nema menn ætli að láta falsspámanninn Karl Marx ganga hér aftur ljósum logum endalaust:
"Gamalgróin er andstaðan gegn sjálfstætt starfandi heilbrigðisþjónustu, lækningastofum og stöðvum utan sjúkrahúsa. Þangað hefur fólk í áratugi sótt þjónustu að eigin vali og greitt með tryggingum sínum og eigin fé.
Staðnaðir sósíalistar og aðrir ofstjórnarsinnar amast við flestu, sem ekki er ríkisrekið, og hafa talað um "tvöfalda heilbrigðisþjónustu", eins og sjálfstæður rekstur eigi ekki tilverurétt.
BSRB hefur sent frá sér ótrúlega ályktun varðandi Klínikina. Telja frekari einkavæðingu í andstöðu við meirihluta þjóðarinnar. Telja það ranga leið að reyna að stytta biðlista með því að greiða fyrirtækjum reknum í hagnaðarskyni. Sjúklingar skulu bíða.
Hér má minnst orða Willy Brandts: "Sá, sem ekki er sósíalisti um tvítugt, er hjartalaus. Sé hann það enn um fertugt, er hann heilalaus."
Sú staðreynd, að fjármagnseigendur eiga hlut í húsnæðinu, sem um ræðir, vekur ýmsum ugg, öðrum ofnæmi. En hefur það forgang framfyrir þarfir sjúklinga ? Gera má samning þannig, að hagnaður eigenda , ef verður, renni að mestu til að styrkja reksturinn."
Mótmæli stéttarfélaga við tilraun til fjölbreytilegri rekstrarforma koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum, og eru eitt af því, sem er "heilalaust" við þessa marxistísku andstöðu með skírskotun til Willys Brandt. Einokun í atvinnugrein leiðir aldrei til betri kjara starfsfólksins, nema síður sé. Hér eru verkalýðsrekendur að hnýta félagsmönnum sínum nútíma vistarbönd.
Fyrrverandi Landlæknir, Ólafur Ólafsson, hefur lengi steininn klappað, og hér að neðan fer hann með öfugmæli. Sjúklingar, sem beðið hafa mánuðum saman, jafnvel meira en eitt ár, eftir aðgerð, sárþjakaðir og óvinnufærir, finna á eigin skinni, að það er marxistísk mantra, að "opinber rekstur tryggi gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu". Miklu nær er að fullyrða, að blandaður rekstur, sem veitir kost á samanburði á milli mismunandi vinnustaða, virki hvetjandi til að bæta stöðugt gæði þjónustunnar. Um jöfnuð þarf vart að fjölyrða í þessu sambandi, því að greiðslur sjúklinga verða hinar sömu, en skattborgararnir borga minna.
Ingólfur S. Sveinsson, læknir, lýkur ágætri grein sinni með eftirfarandi hætti:
"Ýmsir kunna að taka undir orð Ólafs Ólafssonar, fv. landlæknis (Læknabl. 2/2017): "Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu". Aðrir efast. Barnatrú á sósíalisma er fögur í fjarlægð. En við eigum nýja reynslu af ríkissósíalisma í framkvæmd og og eigum hins vegar fyrirmyndir úr okkar eigin sögu.
Fyrir utan að eiga gott starfsfólk eru Sjúkratryggingarnar, skyldutryggingar í okkar eigu - ekki ríkisins - það dýrmætasta í heilbrigðisþjónustunni. Ríkisrekstur heilbrigðisstofnana býður upp á vanrækslu. Ég tek því undir orð Ólafs, fv. landlæknis, með fyrirvara. Opinber rekstur tryggir gæði og jöfnuð í heilbrigðiskerfinu - að því gefnu, að neytendur kerfisins, sjúklingarnir, hafi valfrelsi um þjónustuna og að kerfið - þjónustukerfið sjálft njóti þess öryggis og aðhalds að hafa virka samkeppni utan frá [undirstrikanir eru frá BJo]".
Það er fjarri blekbónda að halda því fram, að allt, sem Karl Marx setti fram á sinni tíð, hafi reynzt vera vitleysa. Kjarni kenninga hans er, að auðstéttina skipi ekki verðmætaskaparar, heldur rentusækjendur, þ.e. fólk, sem hefur lag á að eigna sér verk annarra og kynna þau sem sín eigin. Þetta þekkist í öllum samfélögum, og kommúnismi læknar ekki þetta mein. Það hefur sýnt sig, þar sem kommúnistar hafa náð völdunum.
Hins vegar var Marx blindur á mikilvægi framtaksmannsins, sem skapar verðmæti úr engu. Marx horfði framhjá hlutverki stjórnenda við að bæta framleiðnina. Sé t.d. horft á brezkt athafnalíf, fæst staðfest, að mikil rentusækni á sér þar stað [The Economist 13. maí 2017-"The Marxist moment"]. Árið 1980 þénuðu forstjórar 100 stærstu skráðu fyrirtækjanna 25 falt það, sem dæmigerður starfsmaður þeirra þénaði. Árið 2016 var þetta hlutfall orðið 130.
Þetta er alger óhæfa, og það er gæfa Íslendinga, að á Íslandi er mestur jöfnuður innan OECD, eins og hann er alþjóðlega mældur á kvarða GINI. Árið 2014 var jafnvel svo mikill jöfnuður launa, að hagfræðingum OECD þótti nóg um og gerðu þá athugasemd, að of mikill jöfnuður væri skaðlegur samkeppnishæfni landsins, því að hæfileikafólk leitaði þá á önnur mið. Þetta heitir atgervisflótti þangað, sem jöfnuður er minni.
Síðan 2014 hafa orðið stakkaskipti á vinnumarkaði, atvinnuþátttaka er hér í hæstu hæðum, kjarasamningar hafa verið gerðir um u.þ.b. 30 % launahækkun á 3-4 árum og ISK hefur hækkað um ein 50 % á tímabilinu. Boginn er reyndar of hátt spenntur, og nú er svo komið, að læknar og hjúkrunarfræðingar hafa þriðjungi hærri fastalaun og helmingi hærri heildarlaun en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum. Hvernig mundi Karl Marx greina þá stöðu, væri hann á dögum ? Á þeim bullustömpunum, sem hérlendis trúa á hann, er lítið að græða í þeim efnum og öðrum.
20.5.2017 | 17:47
Úr heimi Marxismans
Marxisminn er löngu dauður, en náhirð hans lætur samt öllum illum látum til að láta líta út fyrir annað. Engu er líkara en hún viti ekki af stjórnmálaþróuninni erlendis. Á Íslandi lýsir þessi fáránlega hegðun sér t.d. með fordæmingu á einkarekstri í heilbrigðisgeiranum og í menntageiranum.
Verktakar selja ríkinu þjónustu sína á fjölmörgum sviðum. Hvers vegna umturnast "náhirð Marxismans", þegar verktaki býðst til að létta undir með Landsspítalanum og létta kvöldu fólki lífið með því að bjóða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með bæklunarlækningum og allt að 5 sólarhringa sjúkrahússlegu í kjölfarið með 5 % afslætti m.v. kostnaðinn á þjóðarsjúkrahúsinu ?
Svandís Svavarsdóttir, Alþingismaður, lýsti því yfir í útvarpsþætti á Gufunni 20.05.2017, að hún vildi ekki, að menn auðguðust af að þjóna sjúklingum. Hvílík firra og fordómar ! Þar með er hún að lýsa því yfir, að hún vilji ekki, að læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir í sjúkrageiranum hafi góð laun. Það hefur einmitt komið fram, að þessar stéttir á Íslandi hafa hæstu laun stéttarbræðra og -systra á Norðurlöndunum. Það hefði aldrei orðið með Marxisma Svandísar í Stjórnarráði Íslands. Heldur vill hún, að sænskir læknar auðgist á þjónustu við Íslenzka sjúklinga. Það er ekki heil brú í málflutningi "náhirðar Marxismans" á Íslandi. Hún er andlega helsjúk.
Þessi fordómafulla og kaldrifjaða afstaða "náhirðar Marxismans" er enn öfugsnúnari í ljósi þess, að náhirðin yppir öxlum yfir því, að sjúklingar, sem beðið hafa aðgerðar í meira en þrjá mánuði (margir hafa beðið margfalt lengur) neyti réttar síns samkvæmt reglum EES og fari utan í aðgerð á einkasjúkrahúsi með a.m.k. 80 % hærri kostnaði en Sjúkratryggingar Íslands þyrftu að greiða Klíníkinni Ármúla.
Í nýlegum tilvikum af þessu tagi fóru sjúklingarnir til Svíþjóðar, sem einu sinni var vagga jafnaðarstefnunnar, sem er eins konar lýðræðisútgáfa af Marxisma. Þessi deyfða útgáfa Marxisma reyndist þó hagkerfinu sænska þung í skauti, skattar lömuðu einkaframtakið, enda urðu þeir um tíma hinir hæstu á byggðu bóli, og ríkissjóður sökk í skuldir, svo að lánshæfnin hrundi. Hagkerfið var stopp, þegar þessum kerfiskörlum og -kerlingum var hent á haugana í kosningum.
Borgaralegu flokkarnir endurreistu Svíþjóð með sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda og sparnaði, t.d. með því að leyfa einkaframtak á sviðum, sem ríkið hafði áður einokað, s.s. í heilbrigðisþjónustu og menntun. Árangurinn af þessari nýbreytni var ljómandi góður, aukin gæði, stytting eða útrýming biðlista og lækkun kostnaðar fyrir ríkissjóð á hvern sjúkling og í heild.
Það er gjörsamlega óþolandi, að "náhirð Marxismans" hérlendis komist upp með það að koma í veg fyrir sams konar þróun í átt til fjölbreyttra rekstrarforma á þjónustusviðum ríkisins. Íslendingar verða að athlægi fyrir fíflaganginn að senda sjúklinga utan í aðgerðir, sem bæði mannskapur og aðstaða er til að framkvæma hér heima. Það þarf nú á tímum að fara alla leið til Venezúela til að finna jafnviðundurslega stjórnarhætti. Er ekki réttast að senda Svandísi & Co. til Maduros, eftirmanns Chaves, honum til halds og trausts við að innleiða einræði í Venezúela, en það er endastöð Marxismans.
Það er engin hætta á því, að Landsspítalinn verði með einhverjum hætti undir í samkeppninni við einkaframtakið. Hann nýtur forskots sem háskólasjúkrahús, og samkeppnin mun leiða til þess, eins og á öðrum sviðum, að hver gerir það, sem hann er beztur í, þ.e. samkeppnin mun leiða til aukinnar sérhæfingar, sem bæði mun auka gæði og afköst. Öll sú þróun er sjúklingum og skattborgurum í vil.
Thomas Piketty heitir Frakki nokkur og falsspámaður, enda átrúnaðargoð "náhirðar Marxisma" allra landa. Hann skrifaði fyrir nokkrum árum bók, "Fjármagn á 21. öld", sem Hernando de Soto, hagfræðingur frá Perú, hefur tætt í sundur sem bölvaðan bolaskít.
Helzta kenning bókarinnar er þessi:
"fjármagn "býr til, með sjálfvirkum hætti, ósjálfbæran og órökréttan ójöfnuð", sem óumflýjanlegt er, að leiði yfir heimsbyggðina eymd, ofbeldi og stríðsátök, og mun halda áfram á sömu braut á þessari öld".
Þetta er kenningarlegt hálmstrá "náhirðar Marxismans" á okkar dögum. Með því eru réttlættir ofurskattar á fyrirtæki og einstaklinga ásamt sívaxandi ríkisumsvifum, m.a. í samkeppni við einkaframtakið, og einokun ríkisins, hvar sem henni verður við komið. De Soto hefur með vísindalegum rannsóknum sínum afhjúpað Piketty sem lýðskrumara og fúskara. Almenningur á Vesturlöndum hefur áttað sig á, að tími stéttastríðs er liðinn og jafnaðarstefnan er aðeins fyrir "búrókratana", enda passa þeir jafnan upp á, að "sumir séu jafnari en aðrir".
Hernando de Soto skrifaði 24. ágúst 2015 grein í Morgunblaðið,
"Fátæka fólkið gegn Piketty":
"Hingað til hafa gagnrýnendur Pikettys eingöngu gert tæknilegar aðfinnslur við meðferð hans á talnagögnum, en ekki hrakið þá pólitísku kenningu hans, sem er svo bersýnilega röng, að við stefnum öll til glötunar. Þetta veit ég, því að á undanförnum árum hafa rannsóknarhópar undir minni stjórn gert vettvangsrannsóknir í löndum, þar sem 21. öldin hefur einkennzt af eymd, ofbeldi og stríðsátökum. Það, sem við uppgötvuðum, var, að það, sem flest fólk vill í raun, er meira fjármagn frekar en minna, og það vill, að fjármagnið byggi á raunverulegum verðmætum frekar en sýndarauði."
Öfugt við það, sem Marxistar halda fram um meinta heimsveldisstefnu auðmagnsins, hafa vestræn fyrirtæki leyst hundruði milljóna fólks úr fátæktarfjötrum, svo að þetta fólk myndar nú nýja miðstétt, aðallega í austanverðri Asíu, hefur tök á að kosta menntun barna sinna, hefur efni á að ferðast um heiminn og er orðið meðvitað um rétt sinn. Afleiðingin er sú, að það er ekki lengur ótvírætt hagkvæmt fyrir vestræn fyrirtæki að framleiða vörur í þessum löndum, og þau eru þess vegna farin að flytja starfsemi sína heim. Þessi þróun hefur verið áberandi í Þýzkalandi undanfarin 5 ár og er ein af ástæðum góðs atvinnuástands þar. Donald Trump er aðeins að fylgja þróuninni, þegar hann hvetur bandarísk fyrirtæki til að flytja framleiðslustarfsemi sína, atvinnu og verðmætasköpun, heim.
Aftur að Hernando de Soto:
"Yfir tveggja ára tímabil höfum við tekið viðtöl við um helming þeirra 37 frumkvöðla, sem lifðu af eigin sjálfsmorðstilraunir, og við fjölskyldur þeirra. Kom í ljós, að allir voru þeir knúnir til að reyna að svipta sig lífi, því að það litla fjármagn, sem þeir áttu, hafði verið hrifsað af þeim.
Um 300 milljónir Araba búa við þessar sömu aðstæður. Við getum lært margt af þeim.
Í fyrsta lagi er fjármagnið ekki uppspretta eymdar og ofbeldis, heldur frekar vöntun á fjármagni. Versta form ójafnaðar er að eiga ekkert fjármagn.
Í öðru lagi: fyrir flest okkar, sem búum ekki á Vesturlöndum og erum ekki fangar hins evrópska flokkunarkerfis [við hagskýrslugerð], eru fjármagn og vinnuafl ekki náttúrulegir óvinir, heldur tvær samtvinnaðar hliðar á samfelldu ferli.
Í þriðja lagi er það aðallega vangetan við að afla sér fjármagns og geta varið eign sína, sem stendur í vegi fyrir því, að þeir fátæku geti bætt hag sinn.
Í fjórða lagi er það ekki eingöngu vestrænn hæfileiki, að einstaklingar bjóði valdamönnum byrginn. Bouazizi og hver og einn einasti af mönnunum, sem reyndu að svipta sig lífi fyrir málstaðinn, eru engu síður merkilegir en Charlie Hebdo."
Þarna greinir de Soto frá rannsóknum sínum á örlögum "arabíska vorsins", sem hófst í desember 2010 í Túnis og hefur því miður litlu sem engu skilað í auknum mannréttindum og einstaklingsfrelsi í Arabalöndunum, nema þá helzt í Túnis, hinni fornu Karþago.
Þessi lönd eru í heljarklóm argvítugra stjórnmálalegra trúarbragða, og prelátarnir eru eins konar andlegir fangelsisstjórar með heljartök á fólkinu. Á meðan svo er, mun svartnætti afturhalds, kvennakúgunar og einræðis halda aftur af þróun Arabalandanna. Það er himinn og haf á milli lifnaðarhátta Vesturlandamanna og Araba, þar sem hinir síðar nefndu flestir eru hlekkjaðir við trúarkenningar í miðaldamyrkri fáfræði, fordóma og kúgunar.
Það hefur fjarað undan efnahag olíuríkjanna í Arabaheiminum við helmingun olíuverðs og aukið framboð annars staðar frá. Ef samansúrrað einveldi sjeika og trúarhöfðingja grotnar niður, þegar þessi öfl hafa ekki lengur efni á að halda helmingi fólksins í sýndarvinnu með olíupeningum, þá mun eitthvað nýtt ná að rísa úr rústunum, verði eignarrétturinn tryggður. Hann er alls staðar undirstaða þess, að almenningur komist til bjargálna og að framtaksmenn nái að rífa upp lífskjörin með frumkvæði sínu og dugnaði.
Óli Björn Kárason (ÓBK) er skeleggasti baráttumaður íslenzka framtaksmannsins á Alþingi um þessar mundir. Hann er jafnframt óþreytandi á ritvellinum, þar sem hann bregður beittum brandi sínum af vígfimi og gerði t.d. sem fyrrverandi ritstjóri Þjóðmála og Viðskiptablaðsins á þeim vettvöngum. Óli Björn birti miðvikudaginn 3. maí 2017 eina af sínum betri greinum í Morgunblaðinu,
"Óvild í garð framtaksmannsins".
Hún hófst þannig:
"Sjálfstæði atvinnurekandinn á enn undir högg að sækja. Það hefur ekki tekizt að hrinda atlögunni, sem staðið hefur yfir linnulítið í mörg ár. Fjandskapur ríkir gagnvart einkaframtakinu og það gert tortryggilegt. Árangur í rekstri er litinn hornauga.
Á Íslandi starfa þúsundir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Eigendur hafa sett allt sitt undir, en hafa aldrei farið fram á að njóta sérréttinda; aðeins, að sanngirni sé gætt og regluverk ríkis og sveitarfélaga sé stöðugt."
Það vantar mikið upp á, að stöðugleika hafi verið gætt að hálfu yfirvalda undanfarin ár. Yfir 100 skattalagabreytingar á niðurlægingarkjörtímabilinu 2009-2013 og langflestar til hækkunar, t.d. á tekjuskatti fyrirtækja og einstaklinga, fjármagnstekjuskatti og tryggingagjaldi, og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra er að heykjast á að standa við handsal forvera síns í starfi um áfangaskiptar lækkanir hins íþyngjandi tryggingagjalds nokkuð jafndreift yfir kjörtímabilið.
Hagstjórnin hefur ekki ráðið við hömlulausa styrkingu ISK, sem nú er í hæstu hæðum, og skráning hennar þar er gjörsamlega ósjálfbær, því að fyrirtæki, sem háð eru verðlagningu á erlendum mörkuðum, ráða ekki við þetta gengi gjaldmiðilsins. Það er a.m.k. 20 % of hátt skráð til að útflutningsatvinnuvegirnir séu samkeppnisfærir og skili lágmarksframlegð fyrir vöxt og viðgang sinn.
Þetta þýðir, að framlegð framtaksmannsins þurrkast upp, þótt stærri fyrirtæki skrimti með um 15 % framlegð, eins og var nálægt meðaltali hjá sjávarútveginum 2016. Við þær aðstæður er fullkomlega eðlilegt að fella veiðigjöldin niður, en þá er hins vegar hækkun þeirra í farvatninu vegna mikillar afturvirkni reikningsaðferðar veiðigjaldanna og vegna tímabundins afsláttar vegna skulda, sem ekki er lengur við lýði. Að leggja auðlindagjald á fyrirtæki með undir 20 % framlegð er stórskaðlegt og má líkja við að éta útsæðið. Svandís Svavarsdóttir er hins vegar jafnkokhraust og áður og segir stjórnmálamenn skorta þrek til að sækja meira fé í ríkissjóð frá þeim, sem verðmætin skapa. Hver vill strita sem þræll fyrir Svandísi Svavarsdóttur, sem segir í raun við verðmætaskaparana: "allt þitt er mitt", og svo skammtar hún þeim hungurlús til að hanga á horriminni. Þessi hörmulegi hugsunarháttur lagði ríkt land, Venezúela, í rúst, svo að þar ríkir nú hungursneyð.
Til að kóróna stjórnleysið hefur sjávarútvegsráðherra, sem ekkert virðist fylgjast með starfsumhverfi greinarinnar, skipað nefnd, sem réttara væri að nefna rammpólitíska en þverpólitíska, sem virðist hafa það hlutverk að finna leiðir til að auka opinbera gjaldtöku af greininni. Þetta er svo óviðeigandi, að engu tali tekur. Það, sem er brýnt að gera í þessu sambandi, er að þróa samræmda aðferðarfræði til að meta náttúruauðlindir til fjár og samræmda reikniaðferð fyrir "auðlindagjald", sem runnið getur í ríkissjóð og/eða viðkomandi sveitarsjóð eftir atvikum. Grunnur að slíkri aðferðarfræði hefur verið kynntur á þessu vefsetri.
Hvað hefur ÓBK að skrifa um verktöku fyrir Sjúkratryggingar Íslands ?:
"Í þingsal er alið á fjandskap í garð einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. Margir fjölmiðlungar eru duglegir við að sá fræjum tortryggni og óvildar í garð þeirra, sem hafa haslað sér sjálfstæðan völl í heilbrigðisþjónustu. Góð reynsla af einkarekstri skiptir litlu, fjölbreyttari og betri þjónusta er aukaatriði, lægri kostnaður ríkisins (skattgreiðenda) er léttvægur. Stytting biðlista eftir aðgerðum er ekki aðalatriðið, heldur, að komið sé í veg fyrir einkarekstur, jafnvel þótt það leiði til þjóðhagslegrar sóunar og lakari lífskjara einstaklinga, sem þurfa að bíða mánuðum saman eftir úrlausn sinna mála. Fjandmenn einkarekstrar vilja miklu fremur senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi. Í stað þess að tryggja öllum landsmönnum góða og trausta heilbrigðisþjónustu er rekstrarformið mikilvægast - trúaratriði. Hinir "sanntrúuðu" leiða aldrei hugann að mikilvægi einkarekstrar s.s. á sviði heilsugæzlu, sérfræðiþjónustu, endurhæfingar og hjúkrunarheimila.
Óvild í garð einkarekinna skóla er sama markinu brennd, og afleiðingar eru minni samkeppni og fábreyttari valkostir. Kostnaðinn bera nemendur, kennarar og samfélagið allt."
Það er með ólíkindum, að ofangreind lýsing ÓBK af stöðu heilbrigðis- og menntamála á Íslandi árið 2017 skuli vera rétt. Blekbóndi fullyrðir, að Íslendingar skjóta sig í fótinn með því að láta "náhirð Marxismans", sem ÓBK af sinni skagfirzku hógværð kallar "hina sanntrúuðu", komast upp með að þvælast fyrir sjálfsögðum framfaramálum á sviði ríkisrekstrar á Íslandi.
Að Ísland skuli vera eftirbátur nágrannalandanna að þessu leyti er ekki lengur viðunandi, og hinn nýi heilbrigðisráðherra verður að setja á sig gula gúmmíhanzkann, sem var áður hans vörumerki, og taka af skarið um þessi mál með því að heimila Sjúkratryggingum Íslands að gera þá samninga við Klíníkina Ármúla og aðra faglega samþykkta aðila, sem duga til að vinna upp samkeppnisforskot nágrannanna að þessu leyti. Dráttur á því er þjóðfélagslegt sjúkdómseinkenni, molbúaháttur, sem stafar af einangrun landsins, sem er furðu mikil á vissum sviðum, þrátt fyrir allt.
Á Alþingi 15. maí 2017 tróð Katrín Jakobsdóttir í pontu og brýndi heilbrigðisráðherra að setja meira fé til Landsspítalans til að stytta hina hræðilega löngu biðlista eftir alls konar bæklunaraðgerðum. Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Yfirvinna á Landsspítalanum nam í fyrra 15 % af venjulegum vinnustundum. Það er a.m.k. 10 % of hátt, sem sýnir, að spítalinn er nú þegar yfirlestaður og getur ekki bætt við sig verkefnum með góðu móti. Öll viðbót kemur væntanlega niður á annarri starfsemi og verður mun dýrari en einkaframtakið getur boðið að arðgreiðslum meðtöldum. Það er til of mikils mælzt, að marxistar skilji, að allt fjármagn kostar, og arðgreiðslur eru aðeins ávöxtun þess fjár, sem einkaframtakið er búið að festa í aðstöðu til að geta þjónað viðskiptavinunum (sjúklingunum). Ef banna á arðgreiðslur, hverfa fjárfestingar. Jafnvel Maduro í Venezúela mun skilja þetta "the hard way" á undan "náhirð Marxismans" á Íslandi.
Blekkingariðja og ófrægingarherferð "náhirðar Marxismans" snýst um að telja fólki trú um þau margafsönnuðu ósannindi, að hagsmunir launþega og framtaksmannsins séu ósamrýmanlegir. Hið sanna er, að hagur beggja fer saman. Framtaksmaðurinn er háður góðu og hæfu starfsfólki til að standast samkeppnina við aðra framtaksmenn, svo að ekki sé nú minnzt á samkeppnina við rótgróin stórfyrirtæki á markaðinum. Framtaksmaðurinn laðar til sín gott og hæft fólk með því að gera vel við það. Það getur hann aðeins, ef honum vegnar vel.
Til að þetta gangi allt upp, þarf að ríkja efnahagslegt jafnvægi í landinu og skipting á verðmætasköpun á milli framtaksmannsins og hans fólks þannig, að fyrirtækið skili framlegð til fjárfestinga, afskrifta, arðgreiðslu og skattgreiðslna. Nauðsynlegt jafnvægi er ekki fyrir hendi nú, því að hið opinbera hrifsar til sín of stóra sneið af kökunni og gengi gjaldmiðilsins er of hátt fyrir getu framtaksmannsins, ef afurðaverð hans er háð verði á erlendum mörkuðum.
Samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins fara ekki aðeins saman hagur framtaksmannsins og landsins, heldur er hann aflvaki verðmætasköpunar í landinu.
ÓBK orðaði þetta vel og eftirminnilega í téðri Morgunblaðsgrein:
"Framtaksmaðurinn er og hefur alltaf verið drifkraftur framfara og þar með bættra lífskjara. Hann er aflvaki breytinga - kemur auga á tækifærin, býður nýja vöru og þjónustu, skapar störf og eykur lífsgæði samferðamanna sinna. Með nýrri hugsun og nýjum aðferðum ógnar framtaksmaðurinn hinum stóru og knýr hjól samkeppninnar."
Þjóðfélagskerfi, þar sem framtaksmaðurinn þrífst, hafa fyrir löngu sannað gildi sitt og yfirburði gagnvart þjóðfélagskerfi Marxismans og daufari útgáfu hans, jafnaðarstefnunni. Það er tímaskekkja á Íslandi að ljá eyra við nágauli "náhirðar Marxismans" árið 2017.
19.4.2017 | 20:42
Heilsustofnun og gelísk áhrif
Um páskana dvaldi blekbóndi í góðu yfirlæti á HNLFÍ-Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í hressingarskyni. Þar var viðamikil sameiginleg dagskrá, sem hver og einn gat spunnið við að vild. Árangur af slíkri vist næst aðeins með góðum vilja til virkrar þátttöku í því, sem er á boðstólum. Þá er þar sannarlega ekkert letilíf.
Mataræðið er reist á grænmetishráfæði og baunum, en fiski bregður þó einnig fyrir. Þá eru margs konar grænmetissúpur, grjónagrautur og jafnvel brauðsúpa með þeyttum rjóma á boðstólum. Á morgnana er boðið upp á frábæran hafragraut ásamt ab-súrmjólk og ávöxtum og alls konar korni og kryddi.
Ekki er félagslegi þátturinn minnsts virði, en dvalargestur getur kynnzt fjölda manns við matborðið, í dagskráratriðunum og á kvöldvökum, ef hann leggur sig eftir því. Blekbóndi er þakklátur fyrir góð kynni við alls konar fólk á HNLFÍ, m.a. við samstúdent úr MR, sem hann hefur varla séð í tæpa hálfa öld.
Fyrsta kvöldvakan, eftir að blekbóndi mætti á svæðið, fólst í átakamiklum sópransöng Bjargar Þórhallsdóttur við píanóundirleik Hilmars Arnar Agnarssonar og fyrirlestri Þorvaldar Friðrikssonar, fornleifafræðings og útvarpsmanns, um gelísk áhrif í íslenzku.
Þar er fyrst til að taka, að af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið sýnt fram á, að rúmlega 60 % af kvenfólki í hópi landnámsmanna hefur verið af keltneskum (gelískum) uppruna. Sagnir eru til um stórhöfðingja í hópi landnámsmanna frá Suðureyjum, og má þar nefna Auði, djúpúðgu, og fjölda höfðingja, sem með henni komu, dreifðust um landið og tóku sér mannaforráð, en hún settist að í Hvammi í Dölum og er ættmóðir Sturlunga. Þannig verður bókmenntaáhugi og snilldartök Sturlunga auðskilinn.
Fólkið frá Suðureyjum og annars staðar frá Skotlandi var kristið að keltneskum hætti, en kristin trú Kelta var með öðru sniði en rómversk-katólska kristnin, og Keltar viðurkenndu ekki páfann í Róm. Biskupar Kelta höfðu lítil völd, en valdamest voru ábótar og abbadísir, enda hámenning stunduð í klaustrum Kelta, t.d. á sviði ritlistar. Fjölmenni frá Skotlandi og Írlandi á Íslandi er skýringin á því, að hérlendis varð ekki borgarastyrjöld við kristnitökuna, eins og á hinum Norðurlöndunum, þar sem lítill minnihluti tróð trú sinni upp á alla hina. Hérlendis gæti meirihluti íbúanna hafa verið kristinnar trúar eða velviljaður þeim trúarbrögðum áður en kristnitakan var formlega samþykkt á Alþingi vegna offors, hótana og ofbeldis Ólafs, Noregskonungs, Tryggvasonar.
Ríkur gelískur arfur hérlendis er skýringin á einstæðri bókmenningu, sem hér reis hæst á árunum 1100-1300. Hvers vegna hefði bókmenning átt að rísa hátt á Íslandi afkomenda Norðmanna, þótt engin bókmenntahefð væri þá í Noregi ? Slíkt er óhugsandi, nema fólk hefði tekið með sér bókmenntaarf. Það er hins vegar einkennandi fyrir sagnaritarana, t.d. Ara, fróða, að þeir draga fjöður yfir eða gera lítið úr hinum gelíska uppruna þjóðarinnar, þætti Vestmanna, en gera sem mest úr landnámi Austmanna (Norðmanna) og nánum tengslum við Noreg. Þetta kann að hafa verið gert að undirlagi rómversk-katólsku kirkjunnar, sem stóð þá að því að brjóta fornkirkju Keltanna á bak aftur og innleiða rétttrúnaðinn frá Róm á gelískum áhrifasvæðum.
Það eru auðvitað mörg spor gelísku í íslenzku og fjöldi orða, sem engar rætur eiga í hinum norrænu málunum, en finna má í gelísku. Þorvaldur Friðriksson gaf mörg dæmi í fyrirlestri sínum á HNLFÍ í dymbilviku 2017 um orð í íslenzku af gelískum uppruna og fjöldamörg örnefni eru af gelískum stofni. T.d. bæjarheitið Saurbær hefur verið reynt að kenna við mýri, en með gelískri skírskotun þýðir það "miklibær", og það er mun nærtækari skýring, því að flestir Saurbæir eru kostajarðir, en mýri einkennir þá ekki umfram aðrar jarðir.
Þá eru fjöldamörg örnefni kennd við tröllkarla, skessur eða annars óþekkta landnámsmenn. Mest er það tilbúningur sagnaritara, sem annaðhvort hafa ekki skilið merkingu orða af gelískum uppruna eða viljað breiða yfir hana með skáldskap.
Verður mikill fengur að bók Þorvaldar um þessi efni, og er löngu tímabært að draga huluna af hinum gelíska þætti í uppruna og menningu Íslendinga. Frá hefðbundnum fræðimönnum á þessu sviði hefur hann ekki hlotið gegnrýni, þegar hann hefur kynnt kenningar sínar, enda eru þær studdar sterkari rökum en þeir sjálfir eru í færum til að styðja sitt mál.
Í Íslendingabók skrifar Ari Þorgilsson, að hann hafi viljað varpa ljósi á uppruna Íslendinga til að kveða niður illmælgi útlendinga um, að Íslendingar væru af þrælum komnir, og er þá aðallega átt við fólk af gelískum uppruna. Þetta er fásinna. Í fyrsta lagi voru fjölmargir frjálsir menn í þeim hópi, sem kaus af pólitískum og öðrum ástæðum að flýja til Íslands eða leita þar betra lífs. Í öðru lagi var vænn hópur, sem Austmenn hnepptu í þrældóm og höfðu með sér til Íslands sem nauðsynlegt vinnuafl og eru á engan hátt verri fyrir það. Í þriðja lagi höfðu Austmenn búið á Skotlandi og á skozku eyjunum í eina öld og blandazt Keltunum, er Ísland byggðist. Það var þannig mestmegnis blandað fólk, sem bjó við kraftmikla menningu, sem hingað kom frá gelískum áhrifasvæðum, og engin skömm að því. Einhvers staðar liggur hér fiskur undir steini. Það er líklegt, að trúarbragðadeilur og yfirgangur Rómarkirkjunnar gagnvart Keltakirkjunni hafi byrgt hérlendum mönnum sýn.
Blekbóndi óskar lesendum gleðilegs sumars.
11.3.2017 | 17:30
Heilnæmi landbúnaðarafurða
Þótt ótrúlegt megi virðast, er nú sótt að fæðuöryggi og fæðuhollustu landsmanna. ESA-Eftirlitsnefnd EFTA mun hafa úrskurðað, að Íslendingum beri sem aðilum að Innri markaði ESB (Evrópusambandsins) að láta niður falla allar helztu varnir sínar gegn sjúkdómum, sem hæglega geta herjað hér á búfénað og grænmeti landsmanna, af því að mótstöðuefni eru ekki fyrir hendi í einangruðum stofnum.
Þeir, sem einhver skil kunna á sögunni, skilja, að hér eru firn mikil á ferð. Að vera laus við marga alvarlega sjúkdóma í mönnum, dýrum og jurtum, eru ómetanleg lífsgæði, sem landsmenn geta talið landi sínu til tekna.
Hér er ekki um að ræða einfalda viðskiptalega hindrun, heldur stórfellt heilbrigðismál fyrir fólk og fénað. Ef einhver glóra er í EFTA-dómstólinum, þá lætur hann ekki meiri hagsmuni víkja fyrir minni. Hinir meiri hagsmunir eru viðhald og viðgangur landbúnaðar á Íslandi og lýðheilsa hérlendis, en hinir minni hagsmunir eru frjáls viðskipti með hrátt kjöt, dýr á fæti og grænmeti, á meðan nóg er af því í landinu.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og höfðingi margra Sunnlendinga, ritaði laugardaginn 4. marz 2017 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: "Húsfyllir í Iðnó eins og Mamma Mía væri mætt". Sannleikurinn er sá, að það er full ástæða fyrir Íslendinga til að hrópa "mamma mia" að hætti Ítala, ef stjórnvöld hér gera sig sek um það glapræði að láta undan þjóðhættulegri kröfu ESA í þessu máli. Guðni vitnar í Margréti Guðnadóttur, heiðursdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands:
""Mér finnst það ræfildómur að reyna ekki að halda landinu hreinu, þegar við höfum þessa gömlu búfjárstofna og höfum lagt mikið á okkur til að halda þeim hreinum og gefum þeim ekki sýklalyf í fóðri."
Hún sagði í viðtalinu [við Morgunblaðið - innsk. BJo], að hún teldi EES-samninginn lífshættulegan, þar sem ekki væri hægt að reiða sig á heilbrigðisvottorð matvöru."
Það þarf enginn að ímynda sér, að hinn virti sérfræðingur um veirusjúkdóma fari með eitthvert fleipur hér, þótt ekki sé skafið utan af hlutunum. Þvert á móti sýnir tilvitnunin alvarleika málsins.
Það vitna fleiri sérfræðingar á sömu lund, og hefur nokkur sérfræðingur hérlendur mælt gegn röksemdafærslu þeirra sérfræðinga, sem Guðni teflir fram ? Einn þeirra er Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á Tilraunastöð Háskólans að Keldum:
"Vilhjálmur fór faglega yfir þá áhættu, sem heilbrigðir búfjárstofnar okkar byggju við og mælti gegn innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti. Hann sagði jafnframt, að við hefðum ekki fengið hingað kúariðu eða gin- og klaufaveiki. Taldi hann, að íslenzkt búfjárkyn og landbúnaður mundu vart verða söm eftir, ef svo alvarlegir sjúkdómar bærust til landsins. Hann minnti á mikið kæruleysi, þar sem gætu legið smithættur, þar eð klósettmál ferðamanna væru með þeim hætti, að þeir gerðu þarfir sínar úti um mela og móa."
Íslendingar hafa orðið fyrir hrikalegum áföllum af völdum innfluttra búfjársjúkdóma, og hékk sauðfjárstofninn um tíma á horriminni, en var bjargað með ósýktu vestfirzku sauðfé. Þeirrar tíðar menn höfðu í sumum tilvikum þekkingarleysi sér til málsbóta fyrir verknaðinum, en nútíðar menn eiga sér engar málsbætur fyrir það að ógna tilveru einstakrar fánu landsins, dýraríkis, sem í eru fólgin ómetanleg söguleg, menningarleg, atvinnuleg og næringarleg verðmæti.
Nátengt þessu er heilbrigði þjóðarinnar. Guðni vitnaði í Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlækni á Sýklafræðideild Landspítalans og í Læknadeild H.Í.:
"Karl G. Kristinsson, prófessor, ræddi um heilbrigði þjóðarinnar, og að hér væru færri pestir en í öðrum löndum. Búféð væri heilbrigt, náttúran og fóðrið hreint og notkun sýklalyfja sáralítil ... ."
Á Íslandi er notkun sýklalyfja í landbúnaði einni til tveimur stærðargráðum minni en víðast hvar annars staðar. Hvers konar gildismat og áhættugreining liggur eiginlega að baki því að vilja breyta verndarákvæðum um innflutning í þá veru, að þessari ómetanlega góðu stöðu verði ógnað ? Að gefa eftir í þessu máli væri lydduháttur, ótrúleg skammsýni og fæli í sér brenglað gildismat.
Heilbrigðismál | Breytt 12.3.2017 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2017 | 14:01
Slæm lýðheilsa er stærsti bagginn
"Berum ábyrgð á eigin heilsu" var yfirskrift merkrar greinar Gunnlaugs Kristjáns Jónssonar í Morgunblaðinu 16. febrúar 2017. Er þetta hugvekja, sem vert er að gefa gaum að, af því að þar eru mikilvæg heilsufarsmál reyfuð frá sjónarhorni, sem er of sjaldséð. Gunnlaugur Kristján bendir á leið til að stemma stigu við hóflausum kostnaðarhækkunum læknisfræðilegrar meðhöndlunar á sjúkrahúsum, sem sliga nú þegar ríkissjóð. Sú leið er þó bæði grýtt og torfarin, því að hún felst í, að einstaklingarnir bæti ráð sitt snemma á ævinni og taki ábyrgð á eigin heilsu. Margir gera það, en hinir eru æði dýrir á fóðrum fyrir samfélagið.
Á Vesturlöndum er meginbyrði sjúklingameðferðar af völdum svo kallaðra lífstílssjúkdóma, sem stafa af lifnaðarháttum, sem mannslíkaminn er alls ekki gerður fyrir, og hann hættir fyrir aldur fram að starfa eðlilega við þær óeðlilegu aðstæður, sem honum eru búnar í nútímaþjóðfélagi, ef skynsemin er látin lönd leið. Lífeðlisfræðilega hefur líkaminn sáralítið breytzt á síðast liðnum 10 þúsund árum, en lifnaðarhættirnir hafa hins vegar gjörbreytzt. Þetta kann augljóslega ekki góðri lukku að stýra, enda veldur þetta misræmi sjúkdómum, sem auðveldlega má forðast. Viðgerðir eru alltaf dýrari og kvalafyllri en fyrirbyggjandi líferni, og "syndararnir" hlunnfara sjálfa sig um lífsgæði. Kostnaðarlega snýst þetta um þjóðhagslega stórar stærðir, svo að hér er ekki um sérvizkutuð út af smáræði að ræða.
Jafnframt hefur mannsævin tvöfaldazt vegna bætts aðbúnaðar manna og aukinnar þekkingar, t.d. á mikilvægi hreinlætis, húsakynni eru orðin þurr, björt og hreinleg, og tæknin hefur leyst hið eilífa strit af hólmi. Ekki má vanþakka hlut háskólalæknisfræðinnar í því, að ungbarnadauði og dauði sængurkvenna er hérlendis orðinn afar fátíður, og með læknisfræðilegri greiningarvinnu og skurðaðgerðum er hægt að losa fólk við lífshættuleg mein, t.d. botnlangabólgu, sem mörgum urðu áður fyrr að aldurtila. Þá má ekki gleyma nánast útrýmingu margra skeinuhættra sjúkdóma, sem áður leiddu til snemmbúins dauðdaga.
Þessi þróun á umhverfi hins vestræna manns hefur þó sínar dökku hliðar, því að líkaminn hefur lítið þróazt, þó að andinn hafi kannski þróazt eitthvað, en tilfinningalíf homo sapiens er líklega lítið breytt, frá því að hann lagði land undir fót frá Afríku á sinni tíð og lagði undir sig aðrar heimsálfur.
Þó hafa flestir Vesturlandamenn losað sig við óttann við yfirskilvitleg hindurvitni og reiði guðanna, sem krefjist fórna af mönnum til að blíðkast, en þröngsýni og pólitískt ofstæki hrjáir þó marga, að ógleymdu trúarofstækinu, sem enn er plága, þótt furðulegt megi telja á okkar tímum. Á Vesturlöndum skiptast menn um of í trúarbragðakenndar fylkingar eftir skoðunum, þótt jarðbundnar séu, t.d. um það, hvernig skynsamlegast er að bregðast við lífstílssjúkdómum. Þó blasa lausnirnar við þeim, sem eru sæmilega sjálfstæðir í hugsun og láta ekki berast með straumum múgsefjunar og áróðursmáttar auglýsinganna.
Sem skuggahliðar "siðmenningarinnar" má nefna hóglífið, ruslfæði og fíkniefni hvers konar. Þessar 3 skuggahliðar eru valdar að langflestum sjúkdómum á Vesturlöndum nú á dögum og eru allar sjálfskaparvíti hins viljalitla fórnarlambs "siðmenningarinnar", sem neyzlusamfélagið er hluti af. Þar er of mikil áherzla á magn og of lítil áherzla á gæði. Til að átta sig á, hvað er gott og hvað er slæmt fyrir heilsuna, er hollt að hafa uppruna mannsins og líferni við frumstæðar aðstæður í huga, þ.e. að gefa því gaum, sem náttúrulegt er fyrir homo sapiens.
Það skortir þó hvorki þekkingu í samfélaginu á þessum 3 tegundum skaðvalda nútímamannsins né viðvaranir frá hrópendum í eyðimörkinni, sem hafa bætt 4. skaðvaldinum við, lyfjamisnotkun. Hún framkallar niðurbrot mótstöðuþreks ónæmiskerfisins og alls kyns neikvæðar aukaverkanir frá vöggu til grafar. Lyf eru vandmeðfarin, og ofnotkun þeirra veldur heilsuleysi og miklum samfélagslegum kostnaði, ekki sízt fyrir ríkiskassann. Landlæknir þarf að herða eftirlitið með útgáfu lyfseðla með miðlægri skráningu. Há opinber útgjöld eru ekki einkamál, og persónuvernd á ekki alls kostar við hér.
Aðrar leiðir en háskólalæknisfræðin boðar eru til, og miða þær að bættri lýðheilsu. Sem kenningasmið á seinni tímum má t.d. nefna hinn gagnmerka mann, Rudolf Steiner, höfund antroposófíunnar (mannspeki) og Waldorf-skólans. Hann var fæddur í austurrísk-ungverska keisaradæminu á landsvæði, sem nú er Króatía, árið 1861 og lézt árið 1925. Eftir hann liggja fjölmörg fræðirit og leiðbeiningar fyrir nútímamanninn, hvernig hann getur hagað líferni sínu í sátt við uppruna sinn og náttúruna, t.d. með lífrænni ræktun matvæla og lífskvikum landbúnaði (e. biodynamic agriculture). Steiner ritaði líka mikið um hina andlegu hlið mannsins, svo að kenningakerfi mannspekinnar er heildstætt. Í Þýzkalandi og á Norðurlöndunum skutu kenningar Steiners rótum, og þar eru öflugar hreyfingar, sem jafnvel reka sjúkrahús, um starfsemi samkvæmt mannspeki.
Á Íslandi hefur skyld stefna skotið alltraustum rótum, þótt einfaldari sé í sniðum, en hugsanlega hefur stofnandi Náttúrulækningafélags Íslands, Jónas Kristjánsson, læknir, dáinn 1960, þó komizt í tæri við kenningar Rudolfs Steiners. Um Jónas skrifar Gunnlaugur Kristján:
"Jónas Kristjánsson, læknir (f. 1870) hóf árið 1923 opinberlega að messa yfir landslýð um samspil lifnaðarhátta og heilsu [undirstr. BJo]. Hann stóð í þessari baráttu þar til hann lézt árið 1960. Yfirleitt í mikilli andstöðu við aðra lækna og samtök þeirra, en flestir kollega Jónasar gerðu lítið úr hugmyndum hans um samspil lifnaðarhátta og heilsu. Í dag þykir grátbroslegt, að Jónas átti á sínum tíma í harðvítugum deilum við Læknafélag Íslands, sem hann gagnrýndi harðlega fyrir að birta tóbaksauglýsingar í tímariti félagsins."
Það er hald blekbónda, að vaxandi skilningur sé í læknastéttinni á gildi kenninga Jónasar Kristjánssonar og Náttúrulækningafélagsins fyrir heilsufar og heilsueflingu í landinu, og að læknisstörfin snúist ekki einvörðungu um sjúkdómsgreiningar, lyfjagjafir og aðgerðir, heldur einnig um næringarfræðilegar ráðleggingar um að gæta rétts jafnvægis í fæðuvali o.fl., sem snýr að líferni, sem minnkar líkur á sjúkdómum. Grein sinni lýkur Gunnlaugur Kristján með eftirfarandi rúmlega sjötugu ávarpi Jónasar Kristjánssonar, þáverandi forseta NLFÍ. Það á erindi til nútímafólks:
"Náttúrulækningastefnan lítur svo á, að flestir sjúkdómar stafi af því, að vér brjótum lögmál þau og skilyrði, sem heilbrigði er háð. Vísindi framtíðarinnar eiga án nokkurs vafa eftir að sýna fram á þessa staðhæfingu, þegar vísindamönnum þjóðanna ber sú gæfa til að leita orsaka sjúkdóma í stað þess að leita að meinunum sjálfum.
Til þess að skapa heilbrigt og dugandi þjóðfélag þarf andlega og líkamlega heilbrigða þegna. Undirstaða heilbrigðinnar eru réttir lifnaðarhættir og rétt fræðsla. En heilsurækt og heilsuvernd verður að byrja áður en menn verða veikir.
Æsku landsins á að uppfræða um lögmál heilbrigðs lífs. Í þessu starfi þurfa allir hugsandi menn að taka þátt; allir góðir synir og dætur fósturjarðar vorrar verða að telja það sína helgustu skyldu að vernda heilsu sína ættjörðinni til handa. Og takmark allra þarf að vera það að deyja frá betri heimi en þeir fæddust í."
Hver einasta málsgrein í þessu ávarpi helzta lýðheilsufrumkvöðuls Íslands á 20. öldinni á brýnt erindi við landsmenn nú, þegar hallar undan fæti í heilsufarslegum efnum landsmanna, eins og tölur um veikindafjarverur á vinnustöðum sem og álag á heilsugæzlustöðvum og sjúkrahúsum sýna, svo að ekki sé nú minnzt á hrikalegt lyfjaát landsmanna, sem er í hæstu hæðum alþjóðlegs samanburðar. Vítahringur slæms lífernis og mikils lyfjaáts leiðir til stjórnlauss vaxtar útgjalda við lækningar, sem engin þörf er hins vegar fyrir, ef hugað er að heilsunni í tæka tíð, eins og Jónas Kristjánsson, læknir, o.fl. hafa boðað. Þegar kemur að heilsufarslegum efnum, eru engar skyndilausnir í boði.
Það stendur þessum málum öllum fyrir þrifum, að læknisfræðin og náttúrulækningastefnan hafa ekki náð að sameina krafta sína. Hvort tveggja er nauðsynlegt, ef vel á að fara: hollustusamlegir lifnaðarhættir almennings og mikill greiningar- og viðgerðarmáttur háskólalæknisfræðinnar. Þessar 2 greinar þurfa að leiðast hönd í hönd til að tryggja farsæld í landinu.
Gunnlaugur Kristján kastaði í upphafi greinar sinnar ljósi á umfang afleiðinga rangra lifnaðarhátta:
"Tölur sýna, að u.þ.b. 70 % fjármagns, sem veitt er til heilbrigðisþjónustunnar, fer til meðferðar á lífstílssjúkdómum. Með öðrum orðum til viðgerða, sem telja má afleiðingar rangra lifnaðarhátta."
Að snúa af braut ofneyzlu, leti og rangs mataræðis, hefur tvöfaldan ávinning í för með sér; það mundi hemja ofvöxt útgjalda til sjúklingakerfisins og bæta lífsgæði almennings til muna. Hvers vegna hefur sá boðskapur ekki náð eyrum fólks ? Getur verið, að "viðgerð" lífstílssjúkdóma komi ekki nægilega beint við budduna ? Kostnaðurinn er vissulega fyrir hendi, en hann greiða bæði þeir, sem haga sér vel, kaupa sér jafnvel dýrara fæði af hærri gæðum, vottaðar lífrænar vörur, og hinir, sem litla eða enga forsjálni sýna um heilsufar sitt, heldur láta skeika að sköpuðu og treysta á mátt herra eða frú "Quick Fix".
"Yfirvöld, að óbreyttu, munu um ókomna tíð kljást við háværar kröfur um meira fjármagn, ekki sízt í viðgerðarþjónustuna, enda fá teikn á lofti um, að almenningur breyti lifnaðarháttum sínum og beri ábyrgð á eigin heilsu."
Hér er um vaxandi þjóðarmein að ræða, sem enda mun með ósköpum, ef fólk sér ekki að sér í ofgnótt sætinda og megns óþverra, sem að því er haldið. Í samfélagi, þar sem fólki á eftirlaunaaldri fjölgar hlutfallslega meir en fólki á vinnumarkaði, þýðir skefjalaus vöxtur ríkisútgjalda efnahagslega kollsteypu, sem verst mun koma niður á tekjulægstu hópunum. Gunnlaugur Kristján varpar fram mikilvægum spurningum:
"Tæknin gerir okkur kleift að framlengja lífslíkur umtalsvert. En er það markmið í sjálfu sér ? Ættu markmið heilbrigðisþjónustunnar og okkar sjálfra ekki frekar að beinast að auknum gæðum lífsins frekar en lengd þess ?
Í huga blekbónda er svarið við fyrri spurningunni skýlaust neitandi og við hinni seinni játandi. Spurningarnar beina athyglinni að því, að hið svo kallaða heilbrigðiskerfi hérlendis er á kolrangri braut með sinni forgangsröðun. Er það ekki gjörsamlega siðlaust að nota peninga annarra til að framlengja eymd og volæði skjólstæðinga svokallaðs heilbrigðiskerfis ?
"Heilbrigðisþjónusta kostar peninga og mikil áherzla er lögð á, að ákveðinn hluti verðmætasköpunar í landinu sé settur í þennan málaflokk. Líklega er þetta stærsti einstaki liður samfélagsþjónustu okkar. Kostnaður samfélagsins í framtíðinni mun aukast vegna heilbrigðismála, m.a. vegna aukinna krafna samfélagsins, en ekki síður vegna afleiðinga nútíma lífshátta og oft á tíðum óábyrgrar hegðunar okkar sem einstaklinga."
Með sama áframhaldi stefnir í, að í landinu verði tvær þjóðir; hinir heilbrigðu, heppnu og ábyrgu og hinir sjúku, óheppnu og óábyrgu. Á endanum mundi það með núverandi þróun útgjalda líklega leiða til uppreisnar hinna fyrr nefndu. Þess vegna þarf að taka opinbera lýðheilsustefnu heilbrigðisyfirvalda alvarlega í tæka tíð. Að breyta um lifnaðarhætti, þegar heilsan er farin, er of seint. Gunnlaugur Kristján skrifar:
"Í október s.l. [2016] samþykkti sérstök ráðherranefnd lýðheilsustefnu ásamt áætlun um aðgerðir, sem eiga að stuðla að heilsueflandi samfélagi. Í stefnunni er sett fram sú framtíðarsýn, að Íslendingar skuli vera meðvitaðir um, að þeir beri ábyrgð á eigin heilsu og að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir, séu heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt, því að slíkt leiði til betri heilsu og aukinnar vellíðunar. Þá segir, að stefnumótun og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga séu forsenda þess, að lýðheilsusjónarmið séu sett í forgrunn og að heilsueflandi samfélag verði innleitt á landsvísu."
Gunnlaugur telur hér vera eintóman fagurgala á ferð, því að nauðsynlegar fjárveitingar fylgi enn ekki fögrum áformum. Hann tekur dæmi af nýgerðum búvörusamningi, þar sem lífræn ræktun hljóti sáralítið vægi. Þó fer fjölbreytni lífrænna landbúnaðarafurða vaxandi á markaðinum, en svo mundi ekki vera, nema vegna vaxandi eftirspurnar frá neytendum. Þeir eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vottaðar lífrænar afurðir.
Það eru fleiri jákvæð teikn á lofti. Í Fréttablaðinu 16.02.2017 mátti sjá niðurstöðu könnunar, sem kom þægilega á óvart. Þar sagði, að 76 % eldri borgara stundi líkamsrækt á hverjum degi og að 76 % telji heilsufar sitt vera frekar gott eða jafnvel mjög gott miðað við aldur. Nú er þetta ekki ítarleg könnun, svo að huglægt er, hvað líkamsrækt getur talizt, og hvort eitthvað muni um hana í heilsufarslegum efnum, eða hvað er frekar gott heilsufar miðað við aldur.
Þó er jákvætt, að það, sem fólk stundar, þótt e.t.v. lítið sé, er gert daglega, og að það virðist hafa góð áhrif á heilsufarið, því að sama hlutfalli líður, eins og það sé við hestaheilsu, sem er mikils um vert.
Ef 24 % eldri borgara eru hins vegar ekki við þokkalega heilsu, má gizka á, að ríflega helmingur þeirra eða 15 % eldri borgara búi við heilsuleysi og þurfi að reiða sig í ríkum mæli á þjónustu lækna og hjúkrunarfólks. Það eru líklega um 7000 manns eða 2,0 % þjóðarinnar. Þetta er ótrúlega fámennur hópur í ljósi þess, að megnið, yfir 70 % af kostnaði sjúkrahúsanna, er sagt falla, til við þjónustu við eldri borgara, og kostnaður ríkissjóðs af sjúklingum mun í heildina nema um 150 milljörðum króna um þessar mundir. Það er eitthvað bogið við allan þennan gríðarlega kostnað við að lappa upp á bágborið heilsufar eldri borgara sem annarra borgara.
Ein skuggahlið tilverunnar, sem nefnd var hér að ofan, var neyzla fíkniefna hvers konar. Áfengið er í þessum hópi, en það er samt lögleg neyzluvara hérlendis og alls staðar á Vesturlöndum. Hérlendis ríkir samt tvískinnungur um aðgengið, og virðast margir halda, að neyzlunni sé haldið í skefjum með því að selja áfengið í sérverzlunum ríkisins. Þá staðhæfingu mætti út af fyrir sig prófa með því að leyfa sölu bjórs í matvöruverzlunum eða færa sælgætið þaðan og í ríkisverzlanirnar. Líkast til mundi þetta aðallega breyta því, að keypt yrði minna í einu af vörum, þar sem aðgengið er betra og meira í einu, þar sem aðgengið er verra. Um heildarneyzluna er áhorfsmál. Það, sem öllu máli skiptir fyrir neyzluna, er ábyrgðartilfinning neytandans gagnvart eigin heilsu.
Um hana skrifaði Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, stutta og hnitmiðaða (knappan texta að hætti góðs lögfræðings) grein í Morgunblaðið, 24. febrúar 2017:
"Edrú í 38 ár" (og átti þar við sjálfan sig):
"Ég tel, að eina ráðið gegn áfengisbölinu sé, að hvert og eitt okkar taki ábyrgð á sjálfu sér. Ekkert annað ráð hefur sýnt sig í að virka. Bann eða takmarkanir á sölu eru að mínum dómi máttvana ráð gegn bölinu og siðferðilega röng, ef því er að skipta. Við höfum engan rétt til að beita valdskotnum ráðum gegn öðru fullburðugu fólki. Það er reyndar undarlegt, hversu mönnum, sem reynt hafa þetta á sjálfum sér, er gjarnt að telja forsjá og yfirráð yfir öðrum vænlegar leiðir gegn bölinu. Allt slíkt er hreinn misskilningur."
Þarna skrifar maður, sem reynt hefur á eigin skinni að verða þræll fíknarinnar (í áfengi), en áttaði sig í tæka tíð með hjálp góðra manna og náði stjórn á eigin tilveru. Hlutverk lýðheilsustefnu hins opinbera og frjálsra félagasamtaka ætti að vera að finna þau ráð, sem bezt duga til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og til að efla hugarfarið, sem leiðir til ábyrgðartilfinningar um heilsufarsleg málefni.
4.2.2017 | 20:47
Jafnvægi og framsýni
Fyrrverandi fjármálaráðherra hafði betri tök á starfinu en margir forvera hans. Hann einfaldaði skatta- og innflutningsgjaldakerfið mikið, til hagsbóta fyrir alla, og umbæturnar virkuðu til verðlagslækkunar, og eru ein skýringin á lágri verðbólgu undanfarin misseri, miklu lægri en í öllum verðlagsspám Seðlabankans, sem eru kapítuli út af fyrir sig.
Þá lagði hann sem fjármála- og efnahagsráðherra grunn að losun gjaldeyrishaftanna með samningum við þrotabú föllnu bankanna, sem eru almenningi hérlendis mjög hagstæðir, mun hagstæðari en flestir bjuggust við.
Síðast en ekki sízt hefur hann með aðhaldi í rekstri ríkissjóðs og örvun hagkerfisins náð að rétta hann svo mjög við, að við árslok 2016 námu skuldir A-hluta ríkissjóðs tæplega 40 % af VLF, sem er með því lægsta sem þekkist í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, en voru hæstar árið 2010 eða rúmlega 60 % af VLF.
Þá lagði hann grunninn að fjármálastefnu ríkisins til 5 ára, sem er öflugt stjórntæki til eflingar fjármálastöðugleika.
Nú er kominn nýr fjármála- og efnahagsráðherra, og fjármálaáætlun hans þykir mörgum vera of laus í reipunum með þeim afleiðingum, að geta ríkissjóðs til að taka á sig efnahagsáföll á gildistíma fjármálaáætlunarinnar verður ófullnægjandi og mun minni en í aðdraganda Hrunsins.
Í janúar 2017 myndaði Bjarni Benediktsson sína fyrstu ríkisstjórn. Þann 19. janúar 2017 ritaði hann grein í Morgunblaðið:
"Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", þar sem hann útlistaði Stjórnarsáttmálann ögn nánar og gaf innsýn í, um hvað ríkisstjórn hans er mynduð:
"Ný ríkisstjórn vill nálgast úrlausn mála undir merkjum frjálslyndis og réttsýni. Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá, sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð, ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum, mynda þar sterkan grunn."
Málefni heilbrigðiskerfisins munu reka oft á fjörur ríkisstjórnarinnar, enda er það að mestu fjármagnað og rekið af ríkissjóði, og þar er við mikil vandkvæði að fást. Að jafnviðkvæm starfsemi skuli vera svo háð duttlungum stjórnmálamanna, er stórgalli og stjórnunarlegur veikleiki. Taka þarf fyrirmyndir frá nágrannalöndunum og stefna á, að veita sjúkrahúsunum fé per sjúkling eftir eðli máls. Reyna þarf að mynda fjárhagshvata til bætts rekstrarárangurs, sem vantar að mestu í núverandi fjármögnunarkerfi.
Við ákvarðanir, sem þarf að taka um þróun heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu, er ekki ónýtt að hafa ofangreint stefnumið í blaðagreininni að leiðarljósi. Það á t.d. við um spurninguna, hvort leyfa eigi einkafyrirtæki, sem Landlæknir hefur úrskurðað faglega hæft, að stunda sérhæfðar læknisaðgerðir og umsjá í kjölfarið í takmarkaðan tíma, t.d. 5 sólarhringa, sem meiri spurn er eftir en Landsspítalinn getur annað um þessar mundir með hræðilega löngum biðlistum sem afleiðingu.
Jákvætt svar ríkisstjórnarinnar við ósk hæfs einkafyrirtækis um að fá að veita slíka þjónustu með sama kostnaði fyrir ríkissjóð og sjúklingana og á Landsspítalanum væri til merkis um frjálslyndi, og réttsýni væri fólgin í að jafna ögn stöðu ríkis og einkafyrirtækja á þessum markaði. Hvers vegna má ekki veita Landsspítalnum örlitla samkeppni ? Núverandi fyrirkomulag annar ekki eftirspurn og er ekki heilög kýr. Það er hrjáð af göllum einokunar.
Þá mundi jáyrði skapa fleiri sérfræðingum tækifæri til að koma heim til Íslands og "byggja upp íslenzkt samfélag til framtíðar". Þá mundi jákvæð afstaða ríkisstjórnarinnar falla algerlega að síðustu tilvitnuðu málsgreininni í téðri blaðagrein. Neikvæð afstaða mundi ekki efla mannréttindi, hér atvinnuréttindi, jöfnun tækifæra, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð. Orðum þurfa að fylgja gjörðir, ef traust á að takast að mynda. Varðhundar kerfisins urra slefandi fyrir utan. Ráðherra þarf að vera hundatemjari líka. Grimmir hundar rífa heybrækur á hol.
"Á marga mælikvarða stöndum við Íslendingar vel, þegar borin eru saman lífskjör þjóða. Frekari sókn mun byggjast á því, að okkur takist að auka samkeppnishæfni landsins, bæta framleiðni og fjölbreytni í atvinnulífinu, skapa ný verðmæti og fjölga vel borgandi störfum. Þetta mun tryggja getu okkar til að halda áfram að byggja upp heilbrigðisþjónustuna, draga úr kostnaði sjúklinga, efla menntakerfið og bæta samgöngur. Ný ríkisstjórn hyggst bæta og styrkja heilbrigðisþjónustuna, því að örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, er forgangsmál."
Mikilvægur mælikvarði á efnahagslega velgengni þjóða er landsframleiðsla á mann (með íslenzkt ríkisfang). Á þessari öld hefur hún þróazt með jákvæðum hætti, ef undan eru skilin árin 2008-2010. Að meðaltali hefur þessi vöxtur verið 1,6 %/ár, og árið 2016 var Ísland komið í 10. sæti, hvað þetta varðar, á eftir Lúxemborg, Sviss, Noregi, Qatar, Írlandi, Bandaríkjunum, Singapúr, Danmörku og Ástralíu, og var röðin þessi frá 1-9.
Þessi röð er þó ekki mælikvarði á kaupmátt launa, því að verðlag er ólíkt frá einu landi til annars. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans 2016/1 var búizt við hækkun launakostnaðar á framleidda einingu um 9,3 % (8,7 %) 2016, 4,7 % (4,1 %) 2017 og 5,0 % (3,7 %) árið 2018, og, að kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist um tölurnar í svigunum. Það lætur nærri, að launakostnaður á framleidda einingu vaxi tvöfalt meira en landsframleiðslan á mann, og það sýnir, hversu viðkvæm fyrirtækin, sem undir kjarabótunum standa, hljóta að vera gagnvart ágjöf. Slík ágjöf er t.d. hækkun gengisskráningar, minni hagvöxtur o.s.frv.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, bendir á þessa veikleika í viðtali við Snorra Pál Gunnarsson í Viðskiptablaðinu 2. febrúar 2017,
"Óábyrg fjármálastefna",
þar sem hún gagnrýnir þensluhvetjandi fjármálastefnu núverandi fjármála- og efnahagsráðherra. Hún hefur gert næmnigreiningu á stöðugleika rekstrarafkomu ríkissjóðs og fundið út, að miðað við hagvaxtarspá stjórnvalda verður rekstrarafgangur 1,0 %/ár - 1,6 %/ár af VLF árabilið 2017-2022, en verði hagvöxtur 1,0 %/ár minni en spáin, sem hæglega getur gerzt, þá snarist á merinni og hallinn verði allt að 2,5 %/ár af VLF/ár.
Umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, eru mjög mikil á Íslandi, og hvorki heilbrigð né sjálfbær, og fjármálastefnan setur þakið við 41,5 % af VLF.
"Er svo komið, að umfang hins opinbera í hagkerfinu er hvergi meira innan OECD en í háskattalandinu Íslandi, þar sem skatttekjur eru 34 % af VLF, og opinberir aðilar ráðstafa um 42 % af allri verðmætasköpun í landinu."
Það er alveg öruggt, að þessi gríðarlegu opinberu umsvif á Íslandi virka hamlandi á framleiðniaukningu og sjálfbæran hagvöxt, sem undanfarið hefur verið haldið uppi af ósjálfbærri aukningu ferðamannafjölda hingað til lands. Uppskurðar og skattalækkunar er þörf til að landið verði samkeppnihæft til lengdar. Í landinu eru stjórnmálaöfl blindingja allöflug, sem vilja leiða landsmenn fram af bjargbrúninni, eins og læmingja. Ef/þegar það gerist, er nauðsynlegt, að staða ríkissjóðs sé miklu sterkari en nú. Um þetta segir Ásdís í viðtalinu:
"Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri hins opinbera í fjármálastefnunni, er þetta lítill afgangur miðað við forsendurnar um áframhaldandi hagvöxt. Áætlaður afgangur miðar við samfelldan hagvöxt næstu 5 árin á grundvelli hagspár Hagstofunnar. Stefnan treystir þannig á, að núverandi hagvaxtarskeið verði það lengsta í sögu lýðveldisins eða 12 ár. Ef hagvöxtur verður 1 %/ár minni en gert er ráð fyrir, getur afgangur breytzt í umtalsverðan halla, eins og við sýnum fram á með næmnigreiningu. Það má því lítið út af bregða.
Þetta er sérstaklega mikið áhyggjuefni í ljósi alvarlegrar skuldastöðu hins opinbera. Hið opinbera er meira en tvöfalt skuldsettara nú en í aðdraganda bankakreppunnar árið 2008. Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verða opinberar skuldir áfram meiri en á síðasta þensluskeiði næstu 5 árin, þrátt fyrir að ráðstafa eigi stöðugleikaframlögum og arðgreiðslum til skuldalækkunar. Að mati SA er því ekki verið að greiða skuldir nógu hratt og ekkert er í hendi með ráðstöfun fjármuna til skuldalækkunar."
Hér liggur víglínan á milli frjálslyndis með ábyrgðartilfinningu og afturhalds með ábyrgðarlausum yfirboðum í landinu um efnahagsmálin. Við misheppnaðar stjórnarmyndunartilraunir Katrínar Jakobsdóttur og Birgittu Jónsdóttur var verið að leggja drög að þveröfugri stefnumörkun en Ásdís leggur áherzlu á. Það var ætlunin að sprengja hér allt í loft upp, meðvitað eða ómeðvitað, með því að draga úr skuldalækkun ríkissjóðs og hækka skatta á almenning, einstaklinga og fyrirtæki, til að gefa eldsneytisgjöfina í botn hjá hinu opinbera, sem þá hefði á skömmum tíma þanizt upp í 50 % af VLF, stöðnun og óðaverðbólgu ("stagflation").
Núverandi ríkisstjórn er á réttri leið, en hún teflir með útgjöldum ríkissjóðs á tæpasta vað og leggur ekki fram nógu framsýna, róttæka og örugga fjármálastefnu til að varðveita stöðugleikann og undirbúa varnir gegn næstu niðursveiflu, sem sennilega verður innan 5 ára.
"Ásdís segir fjármálastefnuna og áætlanir stjórnvalda í fjármálum hins opinbera einkennast af ábyrgðarleysi auk skorts á framtíðarsýn og forgangsröðun með betri nýtingu fjármuna að leiðarljósi."
Fjármála- og efnahgsráðherra er þar með sendur "back to the drawing desk", hann verður að lesa betur tilvitnaða grein forsætisráðherra: "Með jafnvægi og framsýni að leiðarljósi", koma síðan til baka frá teikniborðinu og kæla hagkerfið áður en sýður uppúr.
""Þess vegna óskum við eftir því, að stjórnvöld sýni ábyrgð og leggi fram langtímaáætlanir um það, hvernig eigi að bæta úr skák og skapa skilyrði til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, t.d. með agaðri forgangsröðun, hagkvæmari nýtingu fjármuna og fjölbreyttari rekstrarformum. Þar liggja tækifæri t.a.m. á sviði heilbrigðismála og menntamála", segir Ásdís.
"Einhvern tímann mun koma fram aðlögun, og við óttumst, að ekki sé verið að búa í haginn fyrir það, eins og staðan er núna. Ef til bakslags kemur, erum við óundirbúin.""
31.1.2017 | 11:11
Heilbrigði í háska
Að undanförnu hefur farið fram umræða á Íslandi um framkvæmd heilbrigðisþjónustu, sem vart gæti átt sér stað annars staðar í Evrópu, og það er svo sem gott og blessað. Er þar átt við aukna fjölbreytni rekstrarforma aðila, sem framkvæma tilteknar skurðaðgerðir með takmarkaðri sjúkrahúsvist í kjölfarið.
Aðallega mun þar um að ræða aðgerðir, þar sem óhóflegir biðlistar valda þjökuðum ómældum líkamlegum og andlegum kvölum, af því að Landsspítalinn annar ekki eftirspurninni. Þetta jafngildir auðvitað lífsgæðatapi og fjárhagstapi fyrir samfélagið, sérstaklega ef sjúklingurinn er frá vinnu.
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, ritaði 20. maí 2015 góða grein í Morgunblaðið, "Heilbrigðiskerfi á villigötum".
Eftirfarandi upphaf greinarinnar var átakanleg lýsing vegna verkfalls á Landsspítalanum, en lýsingin getur líka átt við um langa biðlista, þar sem biðtíminn er í sumum tilvikum lengri en eitt ár, sem er alveg skelfilegt:
"Er það nokkurn tímann ásættanlegt, að líf og heilsa fólks sé óbeint notað sem skiptimynt í samningaviðræðum um kaup og kjör ? Nýlega frétti ég af sjúklingi, sem féll frá, eftir að aðgerð, sem hann átti að fara í, var frestað vegna verkfallsins. Ætli nokkur viti í raun, hversu mörg mannslíf þessi deila hefur þegar kostað ? Ástandið er í raun alveg siðlaust. Einkavætt heilbrigðiskerfi er eina skynsamlega lausnin, sem getur komið í veg fyrir, að svona ástand endurtaki sig."
Deiluefnið hérlendis, sem í upphafi var minnzt á, er reyndar ekki einkavæðing heilbrigðiskerfisins, heldur snýst það um einkarekið fyrirtæki, sem býðst til að bjóða Sjúkratryggingum Íslands samning um tiltekna, brýna þjónustu, sem Landlæknir hefur viðurkennt, að fyrirtækið geti veitt, og Landsspítalinn er um þessar mundir ekki í færum til að veita fyrr en eftir dúk og disk.
Sumpart stafar sú ömurlega staða sjálfsagt af því, að ný aðstaða spítalans hefði nú þegar þurft að vera komin í notkun, þegar litið er til ástands gömlu aðstöðunnar og hinnar brýnu þarfar, en staðreyndin er sú, að 6 ár eru þar til veruleg breyting verður á högum spítalans, og fram til ársins 2023 er ljóst, að grípa verður til óhefðbundinna ráða til úrlausnar á vandamálum, sem hrannast upp.
Eitt af slíkum ráðum er tvímælalaust að leyfa Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við einkafyrirtæki um tilteknar aðgerðir og tiltekinn fjölda þeirra gegn gjaldi, sem sé ekki hærra en sambærilegar aðgerðir kosta á Landsspítalanum, og heldur ekki með hærri kostnaðarþátttöku sjúklinganna. Hver getur tapað á þessu fyrirkomulagi ? Hvern er verið að vernda með því að berjast gegn þessu með kjafti og klóm ?
Sjúklingurinn græðir, því að hann fær fyrr úrbætur meina sinna; samfélagið græðir, því að líf sjúklingsins færist fyrr í venjulegra horf; álag á Landsspítalann minnkar, og kostnaður per sjúkling eykst ekki.
Óánægjuraddirnar heyrast frá þeim, sem eru óttaslegnir yfir, að þeir, sem mest græða á þessu fyrirkomulagi, kunni að vera eigendur einkafyrirtækisins. Hvers vegna ætti skattborgarinn að sýta það, ef kostnaður hans per sjúkling eykst ekki, heldur er hagnaður fyrirtækisins, ef einhver er, sóttur til aukinnar skilvirkni, meiri framleiðni en fyrir hendi er á stórri ríkisstofnun, sem starfar við óboðlegar aðstæður árið 2017, þótt ekki hvarfli að blekbónda eitt andartak að kasta með nokkrum hætti rýrð á starfsfólk spítalans.
Fái einkarekstur af þessu tagi að þrífast, eins og fordæmi eru um frá heilsugæzluþjónustunni, þá aukast líkur á, að fleiri íslenzkir sérfræðingar á heilbrigðissviði komi heim úr sérnámi og störfum. Kjör og vinnuaðstaða starfsfólks í einkarekstrinum verða væntanlega ekki lakari en hjá ríkisfyrirtækinu, og möguleikar á samnýtingu sérhæfðs mannskaps og tækja opnast. Að gera því skóna, að Landsspítalinn verði undir í slíkri samkeppni er að mála skrattann á vegginn. Hins vegar er líklegt, að lömun á þeim stóra vinnustað, Landsspítalanum, vegna verkfalls eða sýklafárs, verði ekki jafnafdrifarík, ef fleiri vinnustaðir geta veitt að takmörkuðu leyti sambærilega þjónustu.
Góðri grein sinni lýkur Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, þannig:
"Eina langtímalausnin á vanda heilbrigðiskerfisins, sem er réttmæt og tryggir samkeppnishæfni, er að einkavæða það alveg, svo að einstaklingar fái vald yfir því, sem skiptir þá mestu máli. Slíkt fyrirkomulag mun jafnframt tryggja, að reyndir læknar og heilbrigðisstarfsfólk, sem hefur lagt mikið á sig til að sérhæfa sig í starfi, fái laun og starfsumhverfi, sem þau eiga skilið. Því að þegar þeir, sem nota heilbrigðiskerfið, fá að ráða eigin málum, þá verður miðstýrð yfirstjórn óþörf, og þjónustan verður sjálfkrafa mun betri og markvissari, enda mun hún taka mið af þörfum sjúklinga, en ekki af þörfum kerfisins."
Þessi pistill blekbónda er til að mæla með takmörkuðum einkarekstri í sjúkrahúsgeiranum, en ekki einkavæðingu sjúkrahúsgeirans. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn að minnka þrýstinginn á Landsspítalann áður en sprenging verður. Sú sprenging getur orðið vegna feiknarlegs fjölda erlendra ferðamanna, sem veikjast og slasast, eins og aðrir, og vegna gríðarlegrar fjölgunar eldri borgara, hérlendra. Aldurssamsetning Íslendinga er um þessar mundir hagstæð, þ.e. meðalaldur þjóðarinnar er lágur, t.d. í samanburði við hin Norðurlöndin. Samkvæmt OECD var um 13,1 % íslenzku þjóðarinnar 65 ára eða eldri árið 2014, en í Noregi 15,8 %, í Danmörku 18,3 % og í Svíþjóð og Finnlandi 19,3 %. Það sígur þó hratt hér á ógæfuhlið, og megnið af kostnaðinum við lækningar, hjúkrun og umönnun hvers einstaklings myndast, eftir að 65 ára aldrinum er náð. Á Íslandi er þróun aldursdreifingar í þjóðfélaginu með sama hætti og á hinum Norðurlöndunum. Ástæðan er bæði minni viðkoma, fækkun fæðinga á hverja konu, og meira langlífi landsmanna. Þetta þýðir, að fjármögnun sjúkrahúsanna verður þyngri og kostnaðarhliðin þyngist gríðarlega.
Þessi ógæfulega þróun verður ljósari, þegar fjölgunin á aldarfjórðungsbilinu 2014-2040 er skoðuð. Þá mun 65 ára og eldri fjölga um 97 %, 15-64 ára um 16 %, og Hagstofan spáir jafnframt, að þjóðinni í heild fjölgi um 25 % á þessu tímabili.
Af þessu er ljóst, að framleiðniaukning í atvinnulífinu er ekki aðeins nauðsynleg til að bæta lífskjör almennings, heldur til að viðhalda þeim kjörum, sem nú hafa náðst. Framleiðni á hvern starfsmann er minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum í öllum greinum atvinnulífsins, nema fjármálastarfsemi, landbúnaði og sjávarútvegi. Mestu munar í iðnaði og upplýsinga- og fjarskiptafyrirtækjum. Framleiðsla á hverja vinnustund er minni á Íslandi en á öllum hinum Norðurlöndunum. Það er verðugt verkefni ungu kynslóðarinnar að laga þetta.
Bezta ráðið til að auka framleiðni er að efla samkeppni. Það á líka við í sjúkrahússrekstri. Stjórnvöld geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að greiða götu aukinnar fjölbreytni rekstrarforma, þar sem áhugi og rekstrarleg geta er á slíku og að uppfylltum sömu gæðakröfum og gerðar eru til þeirra stofnana, sem fyrir eru. Slíkt leyfi yrði tekið sem tákn um frjálslyndi og yrði vafalaust hvati til aukinnar framleiðni.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2016 | 18:43
Heilnæmi matvæla í mengaðri veröld
Hneyksli í samskiptum eggjaframleiðanda og eftirlitsstofnunar ríkisins með heilnæmi matvæla skók samfélagið um mánaðamótin nóvember-desember 2016. Hneykslið var þríþætt.
Í fyrsta lagi illur aðbúnaður, a.m.k. hluta hænsna, á eggjabúum tilgreinds fyrirtækis. Þetta varðar bæði dýravernd og hollustu matvæla.
Í öðru lagi aðgerðarleysi eftirlitsaðilans, Matvælastofnunar, MAST, eftir að upp komst um óleyfilegan fjölda fugla á flatareiningu og ljóst var, að umtalsverður fjöldi þeirra var vanhaldinn og þreifst illa. Myndskeið norskættaða dýralæknisins talaði sínu máli um það. Hinu brotlega fyrirtæki voru gefnir frestir á fresti ofan og hótað refsiaðgerðum, ef ekki yrði orðið við aðfinnslunum, en yfirstjórn eftirlitsstofnunarinnar heyktist alltaf á að láta kné fylgja kviði. Slíkt viljaleysi á ekki erindi á þann stað, en fúsk embættismanna er því miður landlægt á Íslandi. Er slíkt tekið að reyna á þolrif almennings í landinu, sem þarf að leita til eftirlitsstofnana og er auðvitað háður þeim, t.d. varðandi gæði og heilnæmi matvæla.
Í þriðja lagi var hjá þessari eftirlitsstofnun ríkisins, Matvælastofnun, látið hjá líða að upplýsa neytendur um það, að eggjabú þessa fyrirtækis uppfylltu ekki lágmarks gæðakröfur varðandi alifuglarækt og að merking á vöru fyrirtækisins um "vistvæna framleiðslu" væri þess vegna afar villandi og í hróplegu ósamræmi við veruleikann. Með þessu háttarlagi var grafið undan bændum með metnað og dug, sem lagt hafa í talsverðan fórnarkostnað til að þjóna neytendum og dýrum sínum af trúmennsku. Þeir, sem lengst eru komnir þar á bæ, hafa náð erfiðum hjalla, sem er alþjóðlega faggilt vottun um lífrænan búskap.
Hér er ekki við starfsfólk eftirlitsstofnunarinnar að sakast, því að viðkomandi dýralæknar gerðu drög að fréttatilkynningu til fjölmiðla á grundvelli athugana og athugasemda sinna, og hefur annar dýralæknirinn gert grein fyrir afstöðu sinni í viðtali við RÚV frá Noregi á lýtalausri íslenzku með hugljúfum, syngjandi norskum hreim, sem unun var á að hlýða, þótt málefnið væri óskemmtilegt.
Forstjóri MAST hefur tekið á sig ábyrgðina á að banna birtingu þessarar sjálfsögðu tilkynningar til almennings um heilnæmi matvæla, sem neytendur leggja sér til munns í góðri trú. Eru þar hafðar uppi hæpnar lagarefjar. Forstjórinn segist þó vilja læra af margítrekuðum mistökum sínum, en rígfullorðnir menn læra ekki dómgreind. Af dómgreindarleysi var leyndarhjúpi sveipað yfir stofnunina í hverju málinu á fætur öðru. Almenningur, sem að miklu leyti fjármagnar þessa stofnun, á rétt á öllum upplýsingum án tafar, sem áhrif geta haft á líðan hans og heilsufar, svo og um blekkingariðju gagnvart neytendum. Efnisatriði málsins eru svo alvarleg, að rökréttast er fyrir þennan forstjóra að axla sína ábyrgð í verki og rétta þar með hlut stofnunar sinnar. Annað er óviðunandi fyrir bæði heiðvirða framleiðendur og alla neytendur.
Hið sama á við um hefðbundin bændabýli og stórvaxinn búskap. Það er hreinn fyrirsláttur hjá yfirstjórn MAST, að vegna ákvæða í persónuverndarlögum megi hún ekki upplýsa opinberlega um slæma meðferð dýra á almennum búum. Hvert bú er í raun lögaðili, sem haft getur fjölbreytilegt eignarhald, en einkaeign eins bónda eða sameign hjóna eða fjölskyldu er algengast. Að opinber stofnun, að miklu leyti á framfæri almennings, haldi því fram, að aðfinnslur um búfjárhald eigi ekki erindi til almennings, er fásinna á 21. öld. Almenningur á hér hagsmuna að gæta, af því að slæm meðferð dýra hefur óhjákvæmilega neikvæð áhrif á gæði afurða þeirra. Sjónarmið forstjórans er úrelt og á skjön við nútímakröfur um dýravernd og neytendavernd.
Skilyrði eindregins stuðnings íslenzkra neytenda við íslenzka matvælaframleiðendur er, að allt sé uppi á borðum hjá bændum, er varðar hvaðeina, sem haft getur áhrif á gæði framleiðslu þeirra. Þarna þarf fullkomið gegnsæi að ríkja og þeir, sem skyggja á það eða hindra, grafa um leið undan trausti á íslenzkum bændum. Sterkasta tromp bændanna er heilbrigður gróður og vel haldnir og heilbrigðir dýrastofnar, sem fá minnst allra bústofna og nytjajurta Vesturlanda af sýklalyfjum, skordýraeitri og tilbúnum áburði og fá jafnframt hreinasta vatnið og lifa á minnst mengaðri jörð. Þess vegna kjósa flestir landsmenn íslenzka bændur, þegar þeir verzla í matinn, enda er vistspor þeirra minna en samkeppnisaðila þeirra erlendis.
Í Fréttablaðinu, 3. desember 2016, á bls. 6 er frétt um dýravernd undir fyrirsögninni,
"Ekki upplýst um aðbúnað hjá bændum":
"Matvælastofnun neitar að afhenda Fréttablaðinu upplýsingar um aðfinnslur héraðsdýralækna stofnunarinnar varðandi aðbúnað og umhirðu dýra á lögbýli á Vesturlandi.
Neitun Matvælastofnunar barst Fréttablaðinu sama dag og forstjóri stofnunarinnar lofaði bót og betrun og ríkari upplýsingagjöf til almennings í Kastljósviðtali. MAST mun ekki veita upplýsingar um dýravelferð hjá íslenzkum bændum."
Matvælastofnun starfar undir stjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Ráðherra ber pólitíska ábyrgð á starfseminni. Umburðarlyndi landsmanna gagnvart hegðun yfirstjórnar MAST er þrotin. Stjórnmálaflokkunum er hollt að hugleiða þetta, bæði núverandi valdhöfum og komandi, og leggja fram og samþykkja frumvarp um lagabreytingar, ef þær eru taldar nauðsynlegar til að ná fram ásættanlegri stöðu þessara mála. Skemmd epli mega ekki fá að skemma meira út frá sér.
"Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands, segir mikilvægt, að upplýsingum sé ekki haldið leyndum. "Það skiptir gríðarlega miklu máli, að gögn um illa meðferð búfjár séu opinber almenningi, svo að neytendur geti valið og hafnað", segir Hallgerður. "Mér sýnist, miðað við þessa neitun, að Matvælastofnun ætli sér ekki að bæta ráð sitt varðandi upplýsingagjöf til almennings"."
Auðvitað er illmannleg meðferð dýra ein hliðin á þessu máli. Óheft upplýsingagjöf opinberrar eftirlitsstofnunar til almennings er sjálfsagt og beitt vopn í baráttunni gegn dýraníði. Það er tilhneiging til meðvirkni fólgin í að þegja í hel pervisalegt og skaðlegt framferði manna gegn öðrum mönnum og málleysingjum. Svipta ber hulunni miskunnarlaust ofan af því öllu og refsa harðlega.
Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði frétt í Fréttatímann á fullveldisdaginn, 1. desember 2016, og birti viðtal við mann, sem skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fyrrverandi yfirdýralæknir, fól afgreiðslu erindis um hið alræmda eggjabú, með fyrirsögninni:
"Stóreinkennileg framkoma ráðuneytis":
"Það er stórkostlegt, að ráðherra skuli draga mig upp úr hattinum til að vísa frá sér ábyrgð í málinu", segir Kristinn Hugason, búfjárkynbóta- og stjórnsýslufræðingur og fyrrverandi starfsmaður atvinnuvegaráðuneytisins, en ráðherra hefur sagt brotthvarf hans úr ráðuneytinu ástæðu þess, að mál Brúneggja sofnaði í ráðuneytinu. .....
Hann segir málið allt fyrir neðan allar hellur, og málsmeðferð Matvælastofnunar í þessu máli í gegnum árin sé mjög ámælisverð og viðbrögð ráðuneytisins stóreinkennileg. "Ill meðferð á varphænum hjá Brúneggjum kom aldrei inn á borð til mín í ráðuneytinu. Þetta mál, sem barst þangað í desember 2013, snýst um vistvæna vottun. ....
Það er ákaflega miður að horfa upp á þetta klúður; það er til að mynda fráleitt að nema reglugerð um vistvænar merkingar úr gildi án þess að tryggja, að slíkar merkingar séu ekki leyfðar á neytendaumbúðum. Það er algerlega ljóst, að þar bar Matvælastofnun að grípa strax til aðgerða, þar sem hún fylgist með löglegum merkingum matvæla"."
Það virðist vera fullt tilefni til að framkvæma stjórnsýslurannsókn á þessu ráðuneyti, því að axarsköpt þess eru legío. Að fyrirspurn undirstofnunar ráðuneytisins til ráðuneytisins skuli ekki vera skráð á framvinduskrá þess og henni fylgt eftir af ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra, vitnar um stjórnsýslulega óreiðu í ráðuneytinu. Fróðlegt væri að vita, hverjum stjórnendur þessa ráðuneytis telja sig í raun vera að þjóna. Stjórnunarlegt fúsk kemur upp í hugann í þessu sambandi. Nú er að sjá, hvort nýr ráðherra gerir gangskör að brýnum úrbótum á vinnubrögðum.
Þegar gæðatryggð vottun um lífræna ræktun með rekjanleika til alþjóðlegra staðla var tekin upp á Íslandi, mátti ráðuneytinu vera það ljóst, að leyfilegar fúskmerkingar á neytendaumbúðum matvæla, sem voru til þess fallnar að afvegaleiða neytendur, mundu grafa undan framleiðendum, með fagtryggða vottun um lífræna framleiðslu, vegna þess að fjöldi neytenda mundi ekki átta sig á, að í öðru tilvikinu er um raunverulega og kostnaðarsama hollustu að ræða, en í hinu tilvikinu getur hæglega verið um vörusvik að ræða, eins og reyndin var í téðu eggjamáli. Að láta duga að nema reglugerð úr gildi um vistvæna framleiðslu var hálfkák eitt og vitnar um ófagleg vinnubrögð. Mál er, að linni.