Færsluflokkur: Heilbrigðismál
7.9.2016 | 11:10
Ófullnægjandi mengunarvarnir
Þegar ófullnægjandi mengunarvarnir ber á góma, er yfirleitt mest gert úr meintri vanrækslu einkafyrirtækja. Yfirvöldin eru þá oftast með svipuna á lofti, þó að eftirlitinu sé oftar en ekki ábótavant.
Þegar opinber fyrirtæki eða sveitarfélög eiga í hlut, virðist tekið á þeim með silkihönzkum. Undanfarið hafa frárennslismál, t.d. við Mývatn, verið í brennidepli. Lengi hefur verið vitað, að fráveitumálum vítt og breitt um landið væri ekki skipap sem skyldi, og síubúnaður í stórum dælustöðvum væri allt of grófgerður.
Þann 29.ágúst 2016 birtist skelfileg frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Engar hömlur á losun örplasts:
Það hefur lengi verið vitað, að skólphreinsistöðvar á Íslandi standa ekki undir nafni. Seyran er að vísu skilin frá víðast hvar, en annars eru s.k. "skólphreinsistöðvar" nánast einvörðungu dælustöðvar til að dæla skólpinu út fyrir stórstraumsfjöru. Þetta er nauðsynlegt, en fjarri því að vera nægjanlegt. Borizt hafa tíðindi af gríðarlegri mengun hafsins með plastefnum. Plastið brotnar niður með tímanum og getur þá endað í lífkeðjunni, þar sem maðurinn trónir efstur. Hér er um afar óeðlileg aðskotaefni í frumum lífvera að ræða, sem haft geta alvarleg áhrif á lífshlaup þeirra og lífsgæði. Íslenzk matvælaframleiðsla gerir út á hreinleika afurðanna, og þess vegna sætir furðu, að íslenzk mengunarvarnayfirvöld skuli hafa sofið á verðinum með þeim afleiðingum, að "skólphreinsun" hérlendis er undirmálsgrein, hvað gæði varðar, eins og hér verður rakið.
Hryllilegt er, að síun hérlendis er aðeins um 2 % af því, sem tíðkast á Norðurlöndunum. Þetta er reginhneyksli. Eftirlitsaðilinn hagar sér eins og jólasveinn, sem er að koma til byggða. Hrönn Jörundsdóttir, verkefnastjóri hjá MATÍS, upplýsti í téðu viðtali við Jón Birgi Eiríksson:
"Við skoðuðum skólphreinsistöðvar, og tókum annars vegar [fyrir] Klettagarðsstöðina og [hins vegar] skólphreinsistöðina í Hafnarfirði [í Straumsvík]. Það, sem við sáum og kom okkur raunar ekki á óvart, var, að eina hreinsunin, sem er framkvæmd á þessum stöðum, er grófsíun. Þegar maður er að skoða agnir, sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra [hvað þá 10 míkrómetra, sem þyrfti að vera, ef vel á að vera - innsk. BJo], sjáum við, að stöðvarnar eru ekki að stöðva þessar agnir. Þær fara í gegnum stöðina og út í umhverfið."
Eftirlitið tiplar á tánum, eins og köttur í kringum heitan graut. Það kemur ekki fram, hvort íslenzkar reglur eru þarna brotnar, eða hvort þetta væri aðeins "nice to have". Þetta sleifarleg yfirvalda, veitufyrirtækja og eftirlitsaðila, er með öllu óviðunandi, af því að öragnirnar smjúga í gegnum þarmaveggina, fara út í blóðrásina, og geta hafnað, hvar sem er í líkamanum og valdið heilsuleysi og fjörtjóni.
Þess vegna hafa frændur okkar á Norðurlöndunum staðið mun fagmannlegar að skólphreinsun en hérlendis tíðkast, enn sem komið er. Að sögn Hrannar geta stærstu skólphreinsistöðvarnar í Svíþjóð fangað yfir 99 % af téðum ögnum, og sleppir stærsta stöðin aðeins út um 120 þúsund ögnum á klukkustund, og sú stærsta í Finnlandi sleppir út tæplega 500 þúsund ögnum á klst.
Til samanburðar sleppir skólpdælustöðin í Klettagörðum yfir 6 milljón ögnum á klst. Þarna munur "faktor 50" í hreinsivirkni íslenzku stöðinni í óhag, og við svo búið má ekki standa. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að láta þetta mál bara dankast ?
Ef Reykjavík væri stjórnað af myndarbrag með hagsmuni almennings að leiðarljósi, þá væri borgin fyrir löngu búin að gefa fyrirtæki sínu, OR, fyrirmæli um að hreinsa af sér þennan smánarblett. Vinstra moðverkið í borgarstjórn snýst hins vegar aðeins í kringum allt of margar silkihúfur, sem hver hefur sitt gæluverkefni, og öll orkan fer í rifrildi um forgangsröðun þessara skrýtnu gæluverkefna.
Hvers vegna gera eftirlitsaðilar mengunarmála jafnlítið úr sér og þessi lýsing gefur til kynna í stað þess að setja Veitum og öllum öðrum, sem undir þessa sök eru seldir, stólinn fyrir dyrnar með kröfu um tímasettar úrbætur að viðlögðum dagsektum.
Er það þannig, að opinberum fyrirtækjum er liðið að þverbrjóta reglur, eða eru kröfur yfirvalda hérlendis ósambærilegar við það, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum ? Hvort tveggja er grafalvarlegt.
30.8.2016 | 11:08
Vakna þú mín Þyrnirós
"Sofa forystumenn flugþjóðar af sér flugið ?", er heiti forystugreinar Morgunblaðsins 29. ágúst 2016. Hún hefst þannig:
"Á dögunum gerðist sá undarlegi atburður, að undirritað var afsal um sölu á landi við Reykjavíkurflugvöll til Reykjavíkurborgar. Seljandinn var ríkið, og er málið þeim mun sérkennilegra, þegar haft er í huga, að málið tengist lokun neyðarbrautarinnar og framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni, sem nú er mjög til umræðu; m.a. sá möguleiki, að þingið grípi inn í og tryggi framtíð flugvallarins."
Fjármála- og efnahagsráðherra birti þann 26. ágúst 2016 yfirlýsingu "vegna sölu á landi í Skerjafirði". Af henni er ljóst, að ráðherrann telur ráðuneyti sitt vera bundið af samkomulagi fyrirrennara síns frá í marz 2013 og dómi Hæstaréttar þann 9. júní 2016 í máli nr 268/2016, þar sem "fallizt var á kröfu Reykjavíkurborgar um, að íslenzka ríkinu væri gert skylt að loka NA/SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Í kjölfar niðurstöðunnar var Isavia ohf falið að hálfu innanríkisráðuneytisins að loka flugbrautinni og taka hana úr notkun. .... Samkvæmt ákvæðum samningsins kom fram, að þegar brautinni yrði formlega lokað, myndi ríkið afsala Reykjavíkurborg rúmlega 11 ha svæði undir suðurhluta brautarinnar."
Ljóst er, að spyrna þarf við fótum, og getur rokið úr, þegar það er gert. Það hvílir sú lagaskylda á ríkisstjórninni að leita heimildar Alþingis fyrir sölu á hvers konar eigum ríkisins. Samkvæmt grein í Morgunblaðinu í viku 34/2016, síðustu viku, eftir fyrrverandi Hæstaréttardómara, Jón Steinar Gunnlaugsson, dugar ákvæði í fjárlögum ekki eitt og sér til þess, og vísaði hann til samdóma álits fræðimanna á sviði lögfræði í þessum efnum.
Í dag, 30. ágúst 2016, birtist ítarlegri grein í Morgunblaðinu um þetta efni, þar sem hann ítrekar, að hefð framkvæmdavaldsins um að láta ákvæði fjárlaga duga, þegar kemur að sölu fasteigna ríkisins, dragi ekki úr gildi 40. greinar Stjórnarskrárinnar, heldur sé áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, sem sniðgangi Stjórnarskrána. Nú skal vitna í grein Jóns, 30.08.2016:
"Minnisblað fjármálaráðherra um afsal lands":
"Fráleitt er að halda því fram, að í þessum orðum [Hæstaréttar] hafi falizt dómur um, að ekki þyrfti að uppfylla kröfuna í 40. gr. stjórnarskrár, þegar slíkur samningur yrði gerður [um afsal lands]. .... Í slíkri skuldbindingu felst þá fyrirheit um, að þess verði freistað að uppfylla lagaskilyrði fyrir afsali fasteignar á þann veg, sem stjórnarskrá mælir fyrir um.
Það fær því ekki staðizt, að í dómi Hæstaréttar 9. júní sl. hafi falizt þau stórtíðindi, að 40. gr. stjórnarskrár hafi verið breytt á þann veg, sem fjármálaráðherra nú heldur fram."
Þarna var augljós viðspyrnumöguleiki fyrir ráðherrann, ef hann vildi halda í heiðri stuðningsyfirlýsingu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins við Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni með þremur flugbrautum. Hann gat lagt fram frumvarp til laga fyrir Alþingi um að banna sölu á umræddu landi. Það hefði að líkindum verið samþykkt, og þar með hefði samsærið gegn Vatnsmýrarvelli fallið, eins og spilaborg.
40. gr. Stjórnarskrár hljóðar svo:
"Engan skatt má á leggja né breyta né af taka, nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra, nema samkvæmt lagaheimild."
Nú verða þingmenn, sem óska endurkjörs, að draga af sér slyðruna og gera þær ráðstafanir strax, sem þeir telja duga til að tryggja starfsemi flugs og flugtengdrar þjónustu í Vatnsmýrinni á þremur flugbrautum. Þar kemur til greina að taka af öll tvímæli um heimildarleysi til landsölunnar í Skerjafirði með því að leggja fram frumvarp til laga, sem bannar alla landsölu ríkislands við flugvelli landsins án sérstakrar lagasetningar til viðbótar við fjárlög. Slík lagasetning mundi styrkja málflutning fyrir dómstólum um riftun hins alræmda afsals á þeim grundvelli, að gjörninginn skorti lagastoð. Þeir þingmenn, sem nú bíta í skjaldarrendurnar, auka líkur sínar á endurkjöri, en hinir mega biðja Guð um að gleypa sig.
Það eru fleiri en þingmenn eins og fljótandi að feigðarósi í þessu flugvallarmáli. Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi, sem sér um sjúkraflutninga í lofti, nefnir Samband íslenzkra sveitarfélaga í því sambandi, sem ekki virðist hafa lyft litla fingri til stuðnings baráttunnar gegn skertri nothæfni Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.
Hann ber kvíðboga fyrir vetrinum vegna sjúkraflugs, sem skilið getur á milli lífs og dauða. Vegna slæmra lendingarskilyrða í Reykjavík á tveimur brautum, sem eftir standa í rekstri, kann svo að fara, að ekki verði flogið í tæka tíð, þó að lendingarhæft sé á Neyðarbrautinni. Hann sér fyrir sér mikinn háska í sumum þeim 100-200 flugferðum að vetri, sem flokkaðar eru sem forgangsflugferðir. Tæplega 20 % fjölgun er á sjúkraflugum þessi misserin frá ári til árs.
Að búið skuli vera að stefna öryggismálum landsmanna allra í þvílíkt uppnám með "salami-aðferðinni" og bandalagi vinstri flokkanna, bæði í borgarstjórn og á Alþingi, við byggingarverktaka í Reykjavík, er þyngra en tárum taki. Við svo búið má ekki standa.
Í lok téðrar forystugreinar stendur:
"Það er löngu tímabært, að Alþingi taki í taumana og komi í veg fyrir, að innanlandsflugið renni landsmönnum úr greipum fyrir einhvern óskiljanlegan sofandahátt gagnvart hatrammri baráttu fámenns en útsmogins hóps andstæðinga flugsins."
Fyrir tilstilli slæmrar lögfræðilegrar ráðgjafar hefur fjármála- og efnahagsráðherra orðið á í messunni varðandi landsölu í Skerjafirði til Reykjavíkurborgar. Það er enn hægt að bæta fyrir það. Vilji er allt, sem þarf. Óhjákvæmilegt virðist að höfða mál gegn ríkinu fyrir brot gegn 40. gr. Stjórnarskrár í téðu afsalsmáli.
29.7.2016 | 09:08
Kosningar og flugvöllur
Afgreiðsla ýmissa þjóðþrifamála er sett að skilyrði fyrir því að stytta kjörtímabilið. Í ljósi þess, að Stjórnarskráin gerir ráð fyrir kosningum til Alþingis á fjagra ára fresti, sé starfhæfur þingmeirihluti fyrir hendi, þá er býsna andkannalegt að verða vitni að bollaleggingum þingmanna um að stytta kjörtímabilið, og sumir mega vart vatni halda út af óvissu um kjördag. Þar er málefnaleysið í fyrirrúmi.
Eitt er þó það mál, sem enga bið þolir, hvort sem kjósa á í haust eða í vor, og það er ný lagasetning, sem tryggir framtíð Reykjavíkurflugvallar í sessi sem öruggasta flugvöll, sem völ er á fyrir sjúkraflug, kennsluflug, einkaflug og farþegaflug.
Málefnum Vatsmýrarinnar hefur nú verið stefnt í þvílíkt óefni, að ekkert getur orðið til bjargar hefðbundinni starfsemi þar annað en lagasetning, sem bannar allar framkvæmdir, þ.m.t. trjárækt, sem rýrt geta nothæfisstuðul flugvallarins. Hvort lagasetningin mun kveða á um skipulagsvald ríkisins á öllum flugvöllum landsins, þar sem almannahagsmunir eru taldir ríkari en þröngir hagsmunir sveitarfélaga, verktaka eða félagasamtaka, er lögfræðilegt útfærsluatriði lagatextans, en hann þarf að vera sem allra skýrastur og lögfræðilega sterkur, helzt pottþéttur, því að hætt er við, að sótt verði að hinum nýju lögum. Hvað sem öðru líður, verða þar augljóslega þröngir sérhagsmunir á ferð gegn almannahagsmunum.
Ekki skal gera lítið úr mikilvægi þeirra mála, sem ríkisstjórnin ætlar að fá Alþingi til að afgreiða fyrir þingrof þessa kjörtímabils, en það er varla nokkurt mál í jafnmikilli tímaþröng nú og málefni blessaðs flugvallarins. Það verður fylgzt gaumgæfilega með afdrifum og atkvæðagreiðslum á Alþingi um flugvallarfrumvarpið á síðustu metrum þingsins fyrir Alþingiskosningar.
28.5.2016 | 14:08
Heilbrigðismál í sviðsljósi
Lífslíkur við fæðingu landsins barna hafa batnað stöðugt á 20. og 21. öldinni og eru nú með þeim albeztu í heimi hér, vel yfir 80 ár. Mannkynið telur drjúga 7 milljarða, og meðallífslíkur þeirra, sem á annað borð komast á legg, munu nú vera tæplega 70 ár.
Langlífi Íslendinga má þakka tiltölulega hreinni náttúru, jörð, vatni og andrúmslofti, tiltölulega heilnæmum matvælum vegna náttúrunnar, strjálbýlis og lítillar notkunar eiturefna og sýklalyfja í landbúnaði, góðum efnahag og góðu heilbrigðiskerfi.
Hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu á Íslandi er Landsspítalinn. Alþingismenn umgengust hann af ónógri varúð, jafnvel af léttúð, á síðasta kjörtímabili, svo að hann drabbaðist niður á flestum sviðum.
Við stjórnarskiptin vorið 2013 varð vendipunktur á öllum sviðum þjóðlífsins, og hefur Landsspítalinn notið góðs af því, og mun gera á næstu árum, þó að fjárveitingar til heilbrigðismála verði ekki tengdar við landsframleiðslu, sem er fráleit hugmynd, því að heilsufar þjóðar og landsframleiðsla eiga fátt sameiginlegt. Landsframleiðsla á mann er þó yfirleitt til marks um efnahag einstaklinga og getu samfélagsins til innviðauppbyggingar.
Hafnar eru stórfelldar nýbyggingar á Landsspítalalóðinni við Hringbraut, og er það ánægjuefni, enda brýnt. Deilt var um heppilegustu staðsetningu nýs Landsspítala; niðurstaðan var að velja lóðina við gamla spítalann, og hefur hönnunin, t.o.m. flókin verkhönnun nokkurra áfanga, verið miðuð við Hringbrautarlóðina. Forysta Landsspítalans og yfirvöld heilbrigðismála mega heita einhuga um þessa niðurstöðu, þó að sitt sýnist hverjum í heilbrigðisgeiranum, og leikmenn verða að treysta á dómgreind manna í þessum efnum, sem daglega "eru með lífið í lúkunum" og hafa sýnt frábæran árangur við lækningar við aðstæður, sem nú standa til bóta. Allt orkar tvímælis, þá gert er. Ekki má draga það lengur að reisa nýjan spítala með vangaveltum um aðrar staðsetningar.
Hvað gerðist skömmu eftir, að heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, tók fyrstu skóflustunguna að sjúkrahótelinu ? Óð þá ekki þáverandi forsætisráðherra landsins fram á víðan völl og tók til við að sá fræjum efasemda um staðsetninguna ? Þessi gjörningur var til óþurftar málstað ríkisspítalans og gerir ráðherra málaflokksins og forystu spítalans sízt auðveldara fyrir, og var þó ekki á flækjustig viðfangsefna þessara manna og kvenna bætandi.
Svona gera menn ekki, þó að þeir hafi mikinn áhuga á skipulagsmálum. Núverandi forsætisráðherra, dýralæknirinn, hefur ekki höggvið í sama knérunn, og honum hættir sennilega síður til en hinum að hlaupa út um víðan völl, þegar það á ekki við.
Heilbrigðiskerfinu íslenzka hefur verið hallmælt ótæpilega, og hafa svigurmæli í garð kerfisins og stjórnenda þess fallið. Alræmdar eru lýsingar Kára Stefánssonar, læknis, á ástandinu og krafa hans um að hella a.m.k. miakr 50 á ári í reksturinn til að ná 11 % af VLF. Um téðan Kára má segja hið sama og sagt var um Kára Sölmundarson í Njálu, að engum manni er Kári líkur, og skal ósagt látið, hvort um fræknleik eða frekju ræðir í tilviki Stefánssonar.
Til að fá nasaþef af hlutlægu mati á íslenzka heilbrigðiskerfinu í stað sleggjudóma og órökstuddra fullyrðinga æsingaseggja verður hér vitnað til greinar Steins Jónssonar, læknis, í Morgunblaðinu, 12. marz 2016:
"Frá árinu 2005 hefur evrópskt fyrirtæki að nafni "Health Consumer Powerhouse" (HCP) birt árlegan samanburð á heilbrigðiskerfum Evrópulanda, sem byggist á 48 gæðaþáttum. Þessir mælikvarðar snúa ekki aðeins að hagfræðilega þættinum í rekstri heilbrigðiskerfanna, heldur ekki síður að því, hvernig þau þjóna neytendum eða sjúklingum. Það vill stundum gleymast, að heilbrigðiskerfin eru fyrir þegnana. Á þessum fjölþætta skala hefur íslenzka heilbrigðiskerfið yfirleitt verið mjög ofarlega meðal Evrópulanda. Árið 2012 var Ísland í 3. sæti á eftir Danmörku og Hollandi. Árið 2014 var Ísland í 7. sæti, rétt fyrir ofan Svíþjóð, Þýzkaland, Bretland og Frakkland. Þessi staða Íslands má heita nokkuð góð, þegar litið er til þess, að á árunum 2009-2013 átti sér stað mikill niðurskurður á framlögum hins opinbera til heilbrigðismála. Margvíslegur vandi steðjar nú að íslenzka heilbrigðiskerfinu, og eru hlutastörf lækna á LSH langt frá því að vera með þeim alvarlegri."
Að skera niður fjárveitingar til Landsspítalans án nokkurrar uppstokkunar eða kerfisbreytinga var náttúrulega eins og að míga í skóinn sinn, gjörsamlega vonlaus aðferðarfræði til að draga úr kostnaði til lengdar. Vinstri menn eru eins og námahestar með augnblöðkur. Þeir mega ekki heyra minnzt á einkarekstur í heilbrigðisgeiranum, þó að reynslan hérlendis og erlendis, t.d. í Svíþjóð, bendi til aukinna afkasta (framleiðni) og gæða þjónustunnar með innleiðingu samkeppni af þessu tagi. Samkeppni um sjúklinga er notendum þjónustunnar og skattborgurunum til hagsbóta, enda er þetta eitt af úrræðum núverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, til að fá meira fyrir peningana og að stytta biðlistana. Hann er jafnframt að setja auknar fjárveitingar til höfuðs biðlistum, og á langtímafjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er um miakr 60 fjárveiting til nýs Landsspítala við Hringbraut, sem er þegar komin á framkvæmdastig, sem að mestu á að taka enda árið 2022.
Allt eru þetta ólíkt skynsamlegri ráðstafanir en allsendis ótímabært heljarstökk í fjárveitingum til rekstrar heilbrigðiskerfisins, sem taki mið af 11 % af hratt vaxandi landsframleiðslu. Mikil útgjöld geta aldrei orðið markmið í neins konar rekstri, heldur skilvirkni og gæði. Stefnan ætti að vera á eitt af þremur efstu sætunum hjá HCP á hverju ári, og markmiðið á að vera skilvirkari Landsspítali frá ári til árs, svo að skilvirkni spítalans árið 2025 mælt í rekstrarkostnaði á íbúa landsins á föstu verðlagi verði a.m.k. 20 % betri en árið 2015. Þetta er verðugt og raunhæft markmið vegna hinna miklu fjárfestinga, sem á næstu árum verða í Landsspítalanum.
Margvíslegir lífsstílssjúkdómar herja á landsmenn, sem rekja má til óhollra lifnaðarhátta, slæms mataræðis og lítillar útiveru, hreyfingar og áreynslu. Lyfjanotkun er óhófleg og meiri hér en annars staðar þekkist. Mörg lyf hafa slæm áhrif á líkamsstarfsemina og þar með á heilsuna.
Maðurinn var ekki skapaður í Paradís fyrir 6000 árum eða svo til að lifa á landbúnaði, akuryrkju og dýrahaldi, heldur hafa forfeður "homo sapiens" verið á fótum í um 3 milljónir ára, og líkamsstarfsemi hans hefur lítið breytzt á þessu tímabili, þó að lifnaðarhættir hans hafi mikið breytzt frá jurtatínslu og veiðimennsku í upphafi, til akuryrkju og dýrahalds fyrir um 15000 árum, og til iðnvæðingar, þéttbýlisbúsetu og hóglífis nútímans. Lífstílssjúkdómar, þ.m.t. ofát, ofdrykkja og reykingar, valda bróðurpartinum af kostnaði ríkisins vegna sjúklinga. Kostnaðarvitund og kostnaðarhlutdeild sjúklinga getur hjálpað þeim við að sjá að sér og bæta lífernið.
Ruslfæði, skolpdrykkja, sætindi og kyrrsetur brennimerkja nútímamanninn, svo að hann afmyndast og verður heilsuveill. Allt er það vegna þess, að hann gætir ekki að uppruna sínum. Um þetta ritaði Pálmi Stefánsson, efnaverkfræðingur, athyglisverða grein í Morgunblaðið 21. marz 2016, "Baráttan við ofsúrnun líkamans":
"Gefum okkur, að jarðvist manna sé orðin 100 þúsund kynslóðir, þá eru ekki nema 500 kynslóðir (0,05 % - innsk. BJo) síðan mjólkur- og kornvörur urðu hluti af mataræðinu sums staðar á hnettinum. Þótt steinaldarmennirnir hafi neytt fisks og kjöts, þá var fæði þeirra talið mun basískara vegna viðbótar matar úr jurtaríkinu en fæði okkar í dag í iðnaðarlöndunum og víðar.
Nútímafæði er súrmyndandi og veldur súrnun líkamsvessanna og versnandi heilsu vegna ofáts prótínríks og steinefnasnauðs matar. Sést þetta bezt á því, að líkaminn hefur ekki getað aðlagað sig að gjörbreyttu mataræði (sýrustig) síðustu aldirnar (innan við 10 kynslóðir) án aukaverkana."
Þetta er lærdómsrík lesning, af því að bent er á þá augljósu staðreynd, sem flestir hunza þó, að maðurinn er ekki ruslkvörn, sem hægt er að henda hverju sem er í án þess, að það hafi neinar neikvæðar afleiðingar fyrir líðan og heilsufar. Þvert á móti er maðurinn að stofni til eins og steinaldarmaðurinn, sem var alls ekki gerður til að vinna úr sætindum, verksmiðjuunnum mat, kornmeti og mjólk (nema ungabörn úr mjólk mæðra sinna), heldur var hann gerður fyrir hrámeti, aðallega úr jurtaríkinu, eins og tanngarður hans ber merki um.
Um þetta skrifar Pálmi:
"Ofát prótínríks matar eins og kjöts, fisks, eggja og mjólkurvara ásamt korni og brauðmeti veldur þessari miklu sýrumyndun eða ofsúrnun líkamans á okkar tímum."
Það er óeðlilegt matarræði, sem er meginbölvaldurinn og veldur offitu, vanlíðan, lélegu ónæmiskerfi og bágu heilsufari nútíma mannsins, sem hefur lítið sem ekkert þróazt líkamlega síðan á steinöld, eins og Pálmi bendir á. Akuryrkja og landbúnaður voru bjarnargreiði við heilsufar mannsins, og kannski voru stærstu mistökin að stökkva niður úr trjánum, en það er reyndar talið, að forfaðir mannsins hafi neyðzt til þess vegna loftslagsbreytinga. Aðlögunarhæfni mannsins að breyttum aðstæðum er við brugðið, en þróun efnastarfsemi líkamans er afar hæggeng, eins og dæmin sanna.
Nútíma læknisfræði býr yfir mörgum öflugum úrræðum til að fást við sjúkdóma, og þannig er hægt að bæta árum við lífið lengi, þó að ekki sé unnt að bæta lífi við árin, því að ekki er ráð, nema í tíma sé tekið. Af þessum ástæðum sitja vestræn þjóðfélög nú uppi með heilbrigðiskerfi, hvers kostnaður er að vaxa þegnunum yfir höfuð og mun, þegar borgarar 67 ára og eldri, verða orðinn yfir þriðjungur íbúanna, reyna mjög á opinbera sjóði. Til að kerfið hrynji ekki verður strax að verða almenn hugarfarsbreyting varðandi lífernið. Hugarfarsbreyting á sér þegar stað, en nær enn til of fárra. "Á skal að ósi stemma."
12.3.2016 | 13:37
Skattamál í sviðsljósi
Meginágreiningur stjórnmálanna um innanríkismálin er um þátttöku hins opinbera í starfsemi þjóðfélagsins og eignarhald á auðlindum og atvinnustarfsemi, þ.m.t. á fjármálakerfinu í landinu.
Hin borgaralegu viðhorf til þessara mála eru að leggja frjálsa samkeppni, markaðshagkerfið og dreift eignarhald með eignarhlut sem flestra, til grundvallar, en hið opinbera sjái um löggæzlu, réttarfar og öryggi ríkisins og annað, þar sem styrkleikar samkeppni og markaðar fá ekki notið sín.
Á Norðurlöndunum er þar að auki samhljómur um, að hið opinbera, ríkissjóður og sveitarfélög, fjármagni að mestu grunnþjónustu á borð við menntun, lækningar, vegi, flugvelli o.þ.h. Á Íslandi er ágreiningur um rekstrarformin, þ.e. hvort hið opinbera skuli vera beinn rekstraraðili eða geti fengið einkaframtakið til liðs við sig í verktöku með einum eða öðrum hætti.
Opinber rekstur er hlutfallslega mikill á Íslandi. Stærsti útgjaldaþáttur ríkisins er vegna sjúklinga. Þar er hlutdeild íslenzka ríkisins 80 %, en að jafnaði 72 % í OECD. Árið 2012 námu útgjöld íslenzka ríkissjóðsins vegna sjúkra 7,2 % af VLF, en þetta hlutfall var að jafnaði 6,6 % í OECD.
Kári Stefánsson, læknir, berst fyrir því, að heildarframlög í þjóðfélaginu til sjúklingameðferðar hækki sem hlutfall af VLF. Hann getur þess þá ekki, að framlög ríkisins í þennan málaflokk eru með því hæsta, sem þekkist, og til að auka heildarframlögin er þá nær að auka hlutdeild sjúklinga upp að vissu marki til jafns við aðrar þjóðir OECD.
Þetta er þó í raun og veru deila um keisarans skegg, því að markmið allra ætti að vera hámörkun á nýtingu takmarkaðs skattfjár, þ.e. velja ber rekstrarform, sem uppfyllir gæðakröfur fyrir lægstu upphæð. Þetta hljómar einfalt, en það getur tekið tíma að finna þetta út í raun, og þá má hafa hliðsjón af reynslu annarra þjóða. Almenna reynslan er sú, að með því að virkja markaðshagkerfið má nýta skattfé betur en með opinberum rekstri. Við mat á þessu þarf þó að taka tillit til íslenzkra aðstæðna, t.d. mjög lítils markaðar, þar sem ógnir fákeppninnar vofa víða yfir. Nýkynnt umbót heilbrigðisráðherra við fjármögnun heilsugæzlustöðva virðist framfaraskref í þessu tilliti, þar sem opinber- og einkarekstur fær að keppa á jafnréttisgrundvelli. Er líklegt, að bæði framleiðni og gæði starfseminnar vaxi við þessa nýbreytni.
Það hlýtur að vera stefnumál allra sanngjarnra manna, að launamenn haldi eftir til eigin ráðstöfunar sem mestum hluta eigin aflafjár. Hið sama á við um fyrirtækin, því að hörð skattheimta á hendur þeim takmarkar getu þeirra og áræðni eigenda til vaxtar, nýráðninga og fjárfestinga, sem eru undirstaða framtíðar lífskjara í landinu.
Hér verður fyrst tínt upp úr Staksteinum Morgunblaðsins 19. janúar 2016, þar sem vitnað er til Ásdísar Kristjánsdóttur, hagfræðings, á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og SA:
"Heildarskatttekjur hins opinbera (ríkisins, innskot BJo)voru 35 % af landsframleiðslu hér á landi árið 2014. Með þessu háa hlutfalli sláum við út nánast allar þær þjóðir, sem við viljum bera okkur saman við. .... Í Svíþjóð, sem seint verður talin skattaparadís, er hlutfallið t.d. "aðeins" 33 % og í Finnlandi 31 %."
Ef Kári fengi sitt fram um aukin framlög úr ríkissjóði án sparnaðar á móti, sem vonandi verður ekki í einu vetfangi, myndi þurfa að afla samsvarandi tekna á móti, og þá mundi síga enn á ógæfuhlið landsmanna varðandi umsvif opinbers rekstrar, og hlutfall ríkistekna verða um 38 % af VLF, sem kæmi niður á ráðstöfunartekjum almennings í landinu og væri fallið til að draga úr hagvexti.
Í raun þarf ekki frekari vitnana við um, að skattheimtan er orðin of þungbær á Íslandi, virkar þar af leiðandi samkeppnishamlandi við önnur lönd og hægir þar með á lífskjarabata í landinu. Það er þess vegna brýnt að minnka skattheimtuna með því að draga úr álagningunni. Barátta Kára fyrir auknum ríkisútgjöldum til sjúklinga sem hlutfall af VLF er algerlega ótímabær, en þetta hlutfall hækkar þó óhjákvæmilega smám saman, þegar elli kerling gerir sig heimakomna hjá fleiri landsmönnum.
Hér verður velt vöngum um, hvernig hægt er að minnka skattheimtuna án þess að ógna jafnvægi ríkissjóðs.
Vinstri stjórnin 2009-2013 hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi án þess á hinn bóginn að hafa erindi sem erfiði með skatttekjur ríkisins. Hún kleip líka utan af fjárveitingum til grunnþjónustu, sjúkrahúsa og skóla, og skar samgöngumálin niður við trog, allt án tilrauna til kerfisuppstokkunar. Síðan var fé sólundað í gæluverkefni stjórnarinnar, sem öll voru andvana fædd.
Þessa stjórnarhætti má nefna óráðsíu, og þess vegna var hagkerfið í hægagangi og mikil uppsöfnuð fjármunaþörf í þjóðfélaginu, þegar borgaralega ríkisstjórnin tók við 2013. Af þessum ástæðum hefur útgjaldahlið ríkissjóðs þanizt út á þessu kjörtímabili, þó því miður ekki til samgöngumála, en tekjurnar hafa þó hækkað meira þrátt fyrir takmarkaðar lækkanir skattheimtu og niðurfellingu tolla og vörugjalda, nema af jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum slíku eldsneyti.
Vinstri stjórnin jók skuldir ríkissjóðs öll sín valdaár, eins og vinstri stjórnir gera alltaf, og svo var komið, að árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs fóru yfir miaISK 80. Með því að lækka skuldir um miaISK 800 á núverandi kjörtímabili, sem er mögulegt með bankaskattinum, stöðugleikaframlagi bankanna og sölu ríkiseigna, má lækka skuldir ríkisins úr núverandi 64 % af VLF í 24 % af VLF, sem gæti verið lægsta hlutfall í Evrópu og er ávísun á hærra lánshæfismat landsins. Við þetta mundi árleg vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um miaISK 50 og verða undir miaISK 30. Þetta mun skapa ríkissjóði svigrúm til að auka samkeppnishæfni Íslands um fólk og fyrirtæki með skattalækkunum og uppbyggingu arðsamra innviða á borð við vegi, brýr, jarðgöng og flugvelli.
Skattar á íslenzk fyrirtæki án tryggingagjalds og tekna af þrotabúum nema 4,9 % af landsframleiðslu hér, sem er meira en þekkist nokkurs staðar annars staðar, og er t.d. meðaltalið í OECD 3,0 %. Það er t.d. brýnt að stórlækka og breyta álagningu og ráðstöfun hins ósanngjarna auðlindagjalds á sjávarútveginn til að jafna stöðu hans við aðra atvinnuvegi og gera hann betur í stakkinn búinn að búa við aflasveiflur og markaðssveiflur án skuldasöfnunar. Nú hefur Hæstiréttur dæmt, að sveitarfélög mega leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi orkufyrirtækja, þó að ágreiningur sé enn um álagningarflokkinn. Hér er um að ræða ígildi auðlindargjalds á orkuiðnaðinn, sem fallið er til þess að jafna aðstöðu athafnalífs í landinu, sem hið opinbera má ekki gera sig sekt um að skekkja.
Í Viðskipta Mogganum 17. september 2015 hefur Margrét Kr. Sigurðardóttir eftirfarandi eftir téðri Ásdísi:
"Viðbótartryggingargjaldið, sem atvinnulífið er enn að greiða til ríkisins, reiknast okkur til, að séu líklega nær miaISK 20 á hverju ári."
Tekjur af tryggingagjaldi voru árið 2008 miaISK 53 og hafa aukizt til 2015 um miaISK 26 bæði vegna álagningarhækkunar vinstri stjórnarinnar úr 5,5 % af launum í 7,49 % og vegna stækkunar vinnumarkaðarins og minna atvinnuleysis. Það verður svigrúm fyrir ríkissjóð til að gefa miaISK 20-30 eftir á árunum 2016-2017, ef fram fer sem horfir, enda er ekki vanþörf á að létta á fyrirtækjunum til að bæta samkeppnishæfni þeirra, sem versnar við launahækkanir umfram framleiðniaukningu og með sterkari ISK.
Talið er, að skattsvik í landinu nemi um miaISK 80 eða 4% af VLF. Þó að aðeins næðist í helminginn af þessu, er þar um gríðarupphæð að ræða, sem á hverju ári slagar upp í ofangreindan vaxtasparnað ríkisins. Aukið svigrúm ríkisins til innviðauppbyggingar gæti þannig numið miaISK 90 innan tíðar, ef vel verður á spilunum haldið, en það er borin von að svo verði, ef glópum verður hleypt að ríkisstjórnarborðinu í kjölfar næstu kosninga. Þá munu efnilegar horfur breytast til hins verra á svipstundu vegna trúðsláta og sirkussýninga. Vítin eru til þess að varast þau. "ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN." Steingrímur í skjóli pírata er óbærileg tilhugsun.
Um skattsvik ritaði Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, þann 29. október 2015 í Morgunblaðið, greinina:
"Lífeyris- og bótasvik tengjast skattsvikum":
"Ferðabransinn (sic) er gróðurreitur svartrar vinnu og skattsvika. Ört vaxandi hlutur greinarinnar í þjóðarbúskapnum þýðir, að hlutfallslega sífellt færri munu standa undir velferðarkerfinu með beinum sköttum í framtíðinni. Skattsvikin munu fljótlega valda óviðráðanlegu misvægi; það verður ekki unnt að leysa málið með því að láta innan við þriðjung þjóðarinnar borga sífellt hærri beina skatta. Sjálft velferðarkerfið er í húfi. Skattsvik hafa lengi reynzt átaksill, en eru ekki viðfangsefni þessarar greinar. Óbeina skatta þurfa allir að greiða, skattsvikarar og ferðamenn líka. Á meðan ekki finnst nein lausn á þeim vanda, sem skattsvikin eru, ættu stjórnvöld fremur að auka óbeina skatta en minnka þá, ólíkt því, sem nú er stefnt að."
Hér er talað tæpitungulaust um skattsvik og spjótunum beint sérstaklega að ferðaþjónustunni. Stjórnvöld eru nú einmitt að fækka undanþágum frá virðisaukaskatti og stefna á að jafna aðstöðu allra atvinnugreina m.t.t. skattheimtu. Einfaldast og skilvirkast er auðvitað að hafa aðeins eitt virðisaukaskattþrep, en sumir þrýstihópar mega ekki heyra það nefnt. Veruleg fækkun undanþága er sjálfsagt mál, og ferðaþjónustan hlýtur að flytjast senn hvað líður í hærra virðisaukaskattsþrepið með alla sína þjónustu. Vonandi verður þá hægt að lækka það.
Afnám vörugjalds og tolla var jafnframt góður gjörningur til að bæta lífskjörin í landinu og lækka verðlag, sem hefur stungið í stúf við verðlag nágrannalandanna. Þessar aðgerðir stjórnvalda voru þess vegna til þess fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands um fólk og viðskipti.
Nú er átak í gangi hjá skattyfirvöldum á Íslandi og annars staðar að hafa uppi á skattsvikurum, en betur má, ef duga skal. Skattrannsóknarstjóri fékk nýlega gögn erlendis frá um fé í skattaskjólum, en afrakstur þeirrar rannsóknar hefur ekki farið hátt hérlendis. Skattsvik eru þjóðfélagsböl, sem yfirvöldum ber að sýna klærnar og enga miskunn.
Ragnar Önundarson gerði moldvörpurnar að umræðuefni í téðri grein:
"Varaþingmaður tók nýlega sæti á Alþingi og hóf strax umræðu um erfið kjör aldraðra og vildi auka útgjöld án þess að gera tillögu um öflun tekna. Allir geta verið sammála um, að aldraðir eigi skilin betri kjör, en aldrei kemur fram neinn skilningur á rótum vandans og þaðan af síður raunhæf tillaga um lausn. Ekkert er minnzt á þá fjölmörgu hátekjumenn, sem vandanum valda. Það eru skattsvikararnir, sem hvorki greiða skatta né í lífeyrissjóð í gegnum lífið, og það fer saman.
Þriðju svikin þeirra eru "bótasvikin"; að vera á bótum, sem þeir eiga ekki rétt á í raun. Hefðbundin rök fyrir útgjöldum án tekna þess efnis, að aldraðir hafi "byggt þetta samfélag upp" o.s.frv., eru augljóslega röng í tilviki skatt- og lífeyrissvikara. Þeir heimta betri kjör og fyrsta flokks þjónustu, hafandi árum og áratugum saman stolið tekjum af þeim sameiginlega sjóði, sem greiðir velferðarkerfið. Þeir hafa efni á lúxus, sem aðrir geta ekki leyft sér, snjósleðum, fjórhjólum, hestum, hestakerrum og aflmiklum trukkum til að draga herlegheitin fram og til baka fyrir framan nefið á þeim, sem borga skólagöngu barnanna þeirra og heilbrigðisþjónustu þeirra og fjölskyldu þeirra. Þessir menn valda því, að ríkissjóður sker lífeyri fólks, sem býr við alvarlega fötlun og veikindi, við nögl. Það er þreytandi að hlusta á innantóm orð þingmanna og loforð um útgjöld, en hvenær sem komið er að kjarna vandans, horfa þeir í hina áttina."
Margir Íslendingar geta skrifað undir þetta, og það er harmsefni, af því að ástandið, sem lýst er, ber vitni um þjóðfélagslega meinsemd og óréttlæti, sem stjórnvöld alls lýðveldistímans hafa ekki borið gæfu til að taka á af einurð og karlmennsku, heldur látið dankast og kaffærast í gagnslítilli skriffinnsku. Þessi þjóðfélagslegi tvískinnungur að líða það, að ekki séu allir jafnir fyrir skattalögunum, er áreiðanlega rót töluverðrar þjóðfélagsóánægju, sem stjórnmálamönnum allra flokka væri sæmst að leita lausna á og hrinda úrbótum í framkvæmd.
Það nær engri átt, hversu fáir þjóðfélagsþegnar á vinnumarkaðinum leggja eitthvað teljandi að mörkum til sameiginlegra þarfa af launum sínum, eins og Ragnar Önundarson benti á, og sniðgöngumenn ættu að hafa hægt um sig, þegar kemur að því, að þeir telji sig hafa öðlast rétt á framlagi úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Afætur eru þeir, og afætur skulu þeir heita. Megi skömm þeirra lengi uppi vera.
Að lokum skal hér vitna í John Fitzgerald Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta:
"Efnahagskerfi, sem þrúgað er af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, og það mun heldur aldrei skapa nægilegan hagvöxt né nægilega mörg störf."
4.2.2016 | 10:57
Loftmengun er líka umhverfisvá
Mikil athygli hefur undanfarna mánuði beinzt að vánni, sem bíður mannkyns af völdum uppsöfnunar koltvíildis í andrúmsloftinu, en loftmengun hefur þá fallið í skuggann. Þetta eru þó skyld mál, og uppruninn að miklu leyti sá sami: kolakynt raforkuver, en frá þeim koma 2/3 allrar raforku í Kína, þar sem loftmengun er mikið böl.
Þegar 40´000 - 50´000 manns söfnuðust saman í París til að spjalla saman um (daginn og veginn og) loftslagsvandann og til að rífast um, hverjir ættu að bera þyngstu byrðarnar í viðureigninni við téðan vanda, svo gáfulegt sem það nú er, þá lá sótmökkur yfir Peking, og skyggnið var innan við 200 m. Valdhöfunum er orðið órótt, því að ný miðstétt krefst meiri lífsgæða.
Sums staðar í höfuðborg alþýðulýðveldisins var styrkur örryks við þrítugföld heilsuverndarmörk. Afleiðingar gegndarlausrar rafvæðingar og iðnvæðingar án umhverfislegrar fyrirhyggju og umhyggju fyrir náttúru landsins, sem maðurinn á að vera hluti af, hefur nú komið hrottalega niður á lífsgæðum í landinu og er þungur baggi á heilsufari og lífsgæðum í Kína.
Almenningur í Kína hefur í áratug haft þungar áhyggjur af vatnsmengun og loftmengun í landinu, og það er að renna upp fyrir leiðtogum Kommúnistaflokks Kína, að mengun er orðið stórpólitískt mál, sem ógnað getur stöðugleika í landinu og völdum Kommúnistaflokksins. Forystumenn flokksins hafa þess vegna söðlað um og sett umhverfisvernd í öndvegi, en það tekur langan tíma að snúa stóru skipi, og þess vegna tóku Kínverjar ekki á sig neinar skuldbindingar í París í desemberbyrjun 2015, heldur létu duga yfirlýsingu um, að árið 2030 mundi losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum ná hámarki. Margt bendir þó til, að vegna knýjandi þarfar og brýnnar nauðsynjar á að bæta loftgæðin í stórborgum Kína, verði gripið miklu fyrr í taumana og hámarkinu hafi jafnvel þegar verið náð. Kínverska ríkisstjórnin ætlar þó ekki að fórna hagvextinum á altari "græna goðsins", heldur hefur stefnan verið sett á nýja tækni, þóríum-kjarnorkuver, sem sameina eiga hagvöxt og umhverfisvernd. Allt að 1000 vísindamenn vinna nú að þróun þessarar nýju og umhverfisvænu kjarnorkutækni í Kína og munu væntanlega eigi síðar en 2020 koma fram með frumsmíði fyrir venjulegan rekstur. Þá verður dagrenning nýrra og heilnæmari tíma.
Um 2/3 hlutar aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum síðan árið 2000 stafar af kínverska hagkerfinu. Síðasta 5-ára plan kínverska kommúnistaflokksins gerir ráð fyrir að draga úr kolefnislosun sem hlutfall af verðmæti þjóðarframleiðslu um fimmtung árið 2020. Það verður gert með því að auka að sama skapi hlutdeild kolefnisfrírrar raforkuvinnslu. Kínverjar eru að þessu leyti á réttri braut, og það skiptir allan heiminn miklu.
Það á að koma á laggirnar viðskiptakerfi með kolefnislosunarheimildir í Kína árið 2017, og það eru umræður í flokkinum um að leggja á kolefnisskatt, og þar með tæki Kína vissa forystu á meðal hinna stærri ríkja heims í þessari viðureign. Hvers vegna var ekki rætt af neinni alvöru um kolefnisskatt í París 30. nóvember til 12. desember 2015 ?
Kína hefur, eins og önnur ríki, haft þá stefnu "að vaxa fyrst og hreinsa upp seinna". Nú hafa stjórnvöld landsins rekið sig á annmarka og hættur samfara þessari stefnu og hefa dengt miklu fjármagni í hreina orkugjafa og þróun nýrrar tækni á sviði mengunarlausra orkugjafa, sem er rétta aðferðin við að fást við þennan brýnan vanda að mati blekbónda.
Stefnubreyting kínverska ríkisins er líkleg til að verða öðrum þróunarríkjum til eftirbreytni, t.d. Indlandi, og þá er ekki loku fyrir það skotið, að hindra megi aukningu koltvíildis í andrúmslofti um 1200 Gt frá 2015, en samkvæmt kenningunni um hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda mun slík aukning hafa í för með sér 1,1°C hlýnun, sem ofan á hlýnun frá 1850 gerir 2,0°C meðalhitastigshækkun á jörðunni.
Samkvæmt rannsóknum á borkjörnum úr Grænlandsjökli er mesta hitastigshækkun á jörðunni síðast liðin 100´000 ár 2,0°C. Þar með er vitað, að slík hækkun er afturkræf. Það veit hins vegar enginn, hvort meiri hækkun, t.d. 3°C, verður afturkræf. Ef ekki koma fram róttækar tæknibreytingar á sviði sjálfbærrar raforkuvinnslu fyrir upphaf næsta áratugar, eru því miður afar litlar líkur á, að viðbótar losun haldist undir 1200 Gt CO2.
Loftgæði í Evrópu eru mun meiri en áður og mun meiri en í Kína. Þó berast fregnir, t.d. nýlega frá Mílanó, um hættulega mikinn styrk örryks í andrúmslofti. Með minni iðnaði og löggjöf um hreinsun útblásturs síðan á 6. áratug 20. aldar hefur tekizt að draga úr styrk mengunarefna á borð við SO2, örryks og níturoxíða. Samt deyja 400´000 Evrópumenn árlega fyrir aldur fram vegna slæmra loftgæða samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar Evrópu. Árið 2010 mat þessi stofnun árlegan heilsufarskostnað vegna mengunar í Evrópu á bilinu miaEUR330 - miaEUR940, sem er 3 % - 7 % af þjóðarframleiðslu ríkjanna, sem í hlut eiga. Þetta er gríðarlegur baggi, og þess vegna er til mikils að vinna. Á Íslandi verða nokkur dauðsföll árlega af völdum ófullnægjandi loftgæða, aðallega vegna umferðar á götum þéttbýlis, en einnig eiga jarðvarmavirkjanir í minna en 40 km fjarlægð frá þéttbýli hlut að máli. Allt stendur þetta þó til bóta.
Á íslenzkan mælikvarða nemur þetta árlegum kostnaði miaISK 60 - miaISK 140, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega alvarlegt vandamál mengun er. Á Íslandi er þó loftmengun minni en víðast hvar í Evrópu, svo að kostnaður af hennar völdum er aðeins brot af umreiknuðum evrópskum kostnaði.
90 % evrópskra borgarbúa verða fyrir mengun yfir hættumörkum, eins og þau eru skilgreind af WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hæstu níturoxíðgildin eru í London, í Tyrklandi er örrykið PM10 (styrkur örryks, þar sem þvermál rykagna er undir 10 míkrometrum) vandamál í mörgum borgum, en versta mengunin er þó í Austur-Evrópu vegna mikils fjölda úreltra kolakyntra orkuvera þar.
Á Íslandi eru mengunarvarnir í góðu lagi. Styrkleiki örryks frá umferð og H2S frá jarðfufuvirkjunum fer þó stundum yfir ráðlögð heilsufarsmörk. Þegar rafbílum fjölgar á kostnað eldsneytisbíla, einkum dísilbíla, og nagladekkjum fækkar vegna framfara í gerð vetrardekkja, mun draga úr mengun frá bíla- og strætisvagnaumferð. Virkjunarfyrirtækin vinna nú að þróun aðferða til að draga úr losun hættulegra gastegunda út í andrúmsloftið. Heimur batnandi fer.
28.1.2016 | 17:29
Af kárínu
Kári Stefánsson, læknir, hleypti fyrir nokkru af stokkunum undirskriftasöfnun með stóryrðum, sem stangast á við staðreyndir, og skírskotun, sem er fyrir neðan allar hellur. Það er jafnframt algerlega óljóst, hvað undirskrifendur eru að fara fram á af Alþingi. Er það, að útgjöld íslenzka ríkissjóðsins til sjúklingameðhöndlunar fari úr 7,1 % af VLF (tala OECD frá 2013) í 11,0 %, en það væru hæstu ríkisútgjöld í þennan málaflokk innan OECD, eða, að Alþingi hlutist til um, að heildarútgjöld samfélagsins, opinberra og einkaaðila, verði 11,0 % af VLF ?
Þá vaknar spurningin, hvernig á að skipta viðbótar útgjöldunum á milli ríkis og sjúklinga. Ríkishlutdeildin er núna um 82 %. Á að hækka hana, viðhalda henni, eða lækka hana ? Viðbótar spurning er svo, hvort átt er við summu rekstrarkostnaðar og árlegra fjárfestinga, eða er fjárfestingum haldið utan við þetta hlutfall ? Umgjörð þessarar undirskriftasöfnunar er óboðlegt lýðskrum varðandi mjög mikilvægan málaflokk, sem vekur fleiri spurningar en hún svarar.
Kári birti heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu 26. janúar 2016 undir fyrirsögninni,
"Endurreisum heilbrigðiskerfið".
Það, sem er í rúst, þarf endurreisnar við, annað ekki. Þannig gefur Kári í skyn, að allt sé í kalda koli í heilbrigðiskerfinu. Ekkert er fjarri sanni, og um það getur blekbóndi vitnað af eigin reynslu, en hann þurfti innlagnar við á bráðadeild Landsspítalans aðfararnótt sunnudags snemma í desember 2015. Þar var gengið fumlaust og skipulega til verks, framkvæmd bráðaaðgerð og síðan rannsakað, hvort nóg væri að gert. Var blekbóndi útskrifaður eftir rúmlega 4 klst þar á spítalanum með ákveðinn tækjabúnað festan við sig, sem hann er löngu laus við. Þar var skilvirknin fullnægjandi.
Eftir langan starfsferil í framleiðslugeira telur blekbóndi sig skynja, hvenær unnið er af fagmennsku og hvenær ekki. Allir, sem þarna komu að málum, ynntu af hendi verk, sem blekbóndi er fullkomlega ánægður með. Ef þessir starfsmenn stæðu í kerfisrústum, gætu þeir ekki sýnt svo frábæra þjónustu eða uppfyllt væntingar neins.
Hér var um persónulega reynslu af einum anga Landsspítalans að ræða. Það eru hins vegar til hlutlægir mælikvarðar á gæði íslenzka heilbrigðiskerfisins, þar sem Landsspítalinn er þungamiðjan. Einn er tíðni ungbarnadauða. Hún er lægst á Íslandi af öllum löndum, t.d. aðeins brot af tíðni ungbarnadauða í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem þó er varið 16 % af VLF (vergri (heildar) landsframleiðslu) til heilbrigðismála, sem er 84 % meira en á Íslandi. Sýnir þetta, að það er alls ekki einhlítt samband á milli gæða heilbrigðiskerfis og fjármagnsins, sem í það fer. Það eru auðvitað gæðin, sem eru eftirsóknarverð, en ekki að geta sýnt fram á sem hæstan kostnað sem hlutfall af VLF.
Annar algengur mælikvarði á gæði heilbrigðisþjónustu er langlífi fólks. Íslenzkir karlar og kerlingar verða elzt í heiminum næst á eftir Japönum. Þetta leiðir hugann að því, að um helmingur af kostnaði við sjúklinga á Íslandi mun vera varið í að þjónusta sjúklinga síðustu 3 æviár þeirra. Tækniþróun og þekkingu innan heilbrigðisgeirans og lyfjaþróun hefur fleygt fram síðasta aldarfjórðunginn, svo að heilbrigðisstéttirnar hafa nú miklu meiri möguleika á að fresta dauðdaga. Það er í mörgum tilvikum gleðiefni, en í sumum tilvikum er þannig komið fyrir sjúklingi, að erfitt er að sjá, að nokkrum sé greiði gerður með slíku. Erlendis er þá sums staðar gripið til líknardauða, sem lög og strangar reglur gilda um. Nokkrir heilbrigðisstarfsmenn hérlendis hafa tjáð sig opinberlega um líknardauða og ekki verið hallir undir hugmyndina að því, er virtist, en þetta er samt æskilegt að ræða í hópi heilbrigðisstarfsmanna, yfirvalda heilbrigðismála, lögmanna og í samfélaginu öllu. Fjármunir til sjúklingameðhöndlunar eru og verða alltaf takmarkaðir, og á þessu sviði sem öðrum er forgangsröðun nauðsynleg við ráðstöfun fjármuna. Þarf ekki að tíunda, að með innleiðingu líknardauða eykst fé til ráðstöfunar, þar sem það verður augljóslega til góðs og kemur einstaklingum og jafnvel samfélaginu að gagni.
Alþingi ráðstafar tiltæku skattfé til ólíkra þarfa, þ.á.m. innviða, svo sem samgöngumála. Margnefndur Kári hefur í umræðu um téða undirskriftasöfnun gert lítið úr jarðgangagerð í samkeppni um fjármuni ríkissjóðs við heilbrigðismálin. Hér er ekki allt, sem sýnist. Þetta eru þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir til að auka öryggi vegumferðar, stytta vegalengdir og sameina atvinnusvæði. Kostnaður við flutninga minnkar, og við það eykst verðmætasköpun samfélagsins, þ.e.a.s. landsframleiðslan eykst. Þá minnkar hið káríska hlutfall að öðru jöfnu. Sama gerist með hið káríska hlutfall, ef hér verður gengisfall á myntinni. Árið 2013 var hlutfall sjúkrakostnaðar í Noregi 8,9 % af VLF, 0,2 % hærra en hlutfallið á Íslandi, en 1,5 % lægra en þetta hlutfall í Danmörku. Þessi samanburður er villandi, því að landsframleiðsla Norðmanna á mann var á þessum tíma miklu hærri í Noregi en í Danmörku, því að verð aðaltekjulindar Norðmanna, olíunnar, var þá hátt eða um 100 USD/fat. Norðmenn vörðu þess vegna hærri upphæð til sjúklingameðferðar en Danir árið 2013 reiknað á íbúa, þó að ofangreint hlutfall beri það ekki með sér. Þjóðartekjur Norðmanna hafa lækkað frá miðju ári 2014, og norska krónan hefur síðan lækkað um þriðjung, sem skekkir þennan hlutfallasamanburð á milli ára og á milli landa. Samt hefur þjónustan við sjúklinga ekkert breytzt í Noregi á þessu tímabili. Það, sem skiptir máli, eru gæða- og afkastamælikvarðar sjúkrahúsanna og sjúklingameðhöndlunar í heild sinni, en hið káríska hlutfall, kostnaður heilbrigðisgeirans/VLF, er ótækur mælikvarði.
Til að auka enn á gæði og afköst sjúklingaþjónustunnar á Íslandi er nauðsynlegt að fjárfesta í húsnæði, vinnuaðstöðu og tækjum. Það verk er hafið á Landsspítalalóðinni við Hringbraut og á að kosta 50 miakr samkvæmt áætlun. Víðar í heilbrigðiskerfinu og víðar en í Reykjavík þarf að fjárfesta í geiranum og auka við fé til viðhalds. Ekki er ólíklegt, að á næstu 5 árum þurfi að setja 100 miakr í geirann í þessu augnamiði til viðbótar við fjárveitingar 2016, en í kjölfarið mun koma sparnaður vegna hagræðingar af völdum fjárfestinganna, e.t.v. 70 miakr uppsafnað á næstu 10 árum, sem er 5 % hagræðing m.v. kostnað heilbrigðisþjónustunnar 2014. Á móti mun róðurinn þyngjast vegna fjölgunar gamalmenna. Nauðsynlegt er að horfast í augu við viðfangsefnin, sem fjölgun gamalmenna fylgir, og fjárfesta í aðstöðu, sem þeim og heilbrigðiskerfinu í heild hentar. Núverandi ástand er ekki á vetur setjandi, enda er það allt of dýrkeypt, og girðir fyrir möguleika Landsspítalans á að sýna þá skilvirkni, sem hann annars gæti.
Óli Björn Kárason, ritstjóri tímaritsins Þjóðmála, hefur rætt og ritað með eftirtektarverðum hætti um heilbrigðismál. Þann 27. janúar 2016 birtist í Morgunblaðinu grein hans,
"Af hverju ég skrifa ekki undir hjá Kára".
Þar setur hann fyrst fram 6 fullyrðingar um íslenzka heilbrigðiskerfið, sem hægt er að taka undir með honum:
- "Það vantar fjárfestingu í innviðum.
- Fjárskortur lamar eða veikir þjónustuna.
- Föst fjárveiting til mikilvægustu stofnunar landsins - Landsspítalans - er tímaskekkja, sem eykur vanda sjúkrahússins og kerfisins í heild.
- Fjármunum er sóað vegna skipulagsleysis og skammtímahugsunar.
- Kostir einkaframtaksins eru ekki nýttir með skipulegum hætti.
- Einhver arðbærasta fjárfesting, sem Íslendingar eiga völ á, er í heilbrigðisþjónustu."
Síðan skrifar Óli Björn, og er það í samræmi við áður fram komna skoðun blekbónda:
"Þrátt fyrir marga vankanta er heilbrigðisþjónustan á Íslandi með þeirri beztu, sem þekkist í heiminum. Af einhverjum ástæðum finnst mörgum rétt að draga upp allt aðra og dekkri mynd; sannfæra landsmenn um, að flest sé í kalda koli og kerfið að hrynja."
Það er enginn bættari með þeim endemis barlómi, en nú eru hins vegar miklar fjárfestingar óhjákvæmilegar vegna ástands húsnæðis, til að sameina starfsemi á einn stað og til að skapa aðstöðu fyrir nútímalegan tækjabúnað.
Í allri þessari fjármunatengdu umræðu um sjúklingameðhöndlun er þó nauðsynlegt að hafa eftirfarandi heilræði Óla Björns í huga:
"Aukin útgjöld til heilbrigðismála er ekki markmið í sjálfu sér. Markmiðið er alltaf að auka lífsgæði almennings með góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu. Og þá skiptir skipulagið - kerfið sjálft - mestu."
Rúsínan í pylsuendanum kemur við lok greinar Óla Björns. Þáttur í umbótaferli stjórnkerfis heilbrigðiskerfisins er að breyta fjármögnunarfyrirkomulagi þess. Nýtt fyrirkomulag mun gera kleift að auka skilvirkni kerfisins, sem í svo stóru kerfi getur sparað skjólstæðingum og skattborgurum miklar fjárhæðir. Samkvæmt ríkisreikningi 2014 námu útgjöldin 140 miakr. 5 % sparnaður með aukinni skilvirkni eru 7,0 miakr/ár.
"Nauðsynlegt er að gjörbreyta fjármögnun Landsspítalans og í kjölfarið annarra sjúkrahúsa, beita forskrift og greiða fyrir unnin, skilgreind verk. Þannig á að hverfa að mestu af braut fastra fjárframlaga. Um leið opnast nýir og auknir möguleikar á að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi lækna um einstaka þætti, líkt og þekkist vel í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við.
Í stað þess að leggja steina í götur einkaframtaksins á "kerfið" að nýta sér kosti þess, auka valmöguleika almennings og tryggja um leið hagkvæma nýtingu fjármuna og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag."
Þjónusta við sjúklinga á Íslandi er ekki í molum. Hins vegar stöndum við nú á tímamótum vegna fjölgunar þjóðarinnar og einkum eldri borgara og úrelts húsnæðis og búnaðar. Til að ráða bót á þessu er ekki ráðið að hella tugum milljarða króna í óbreytt kerfi, heldur að fjárfesta í nýju húsnæði og útbúa það að hætti nútímalegra sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva samkvæmt beztu þekkingu á næstu 5 árum. Þetta er ekki nóg, heldur þarf að stokka upp fyrirkomulag fjárveitinganna. Það á auðvitað hvorki að binda þær við fast hlutfall fjárlaga né landsframleiðslu, heldur að sníða þær að þörfum hverju sinni og hafa í fjárveitingunum innbyggða hvata til aukinnar skilvirkni. Það er ekki hægt að ætlast til þessarar auknu skilvirkni með núverandi aðbúnaði starfsfólksins, en með nútímavæðingu húsnæðis og búnaðar verður grunnur lagður að kerfi með framleiðni á við það bezta sem gerist í heiminum, af því að starfsfólkið hefur til þess bæði vilja og getu. Þar með verður sjúklingum tryggð lækningaþjónusta í fremstu röð samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og skattborgurum tryggð svo góð nýting fjármuna sem kostur er miðað við alþjóðlega árangursmælikvarða um þessi efni.
26.11.2015 | 10:27
Sjúkrahúsmál á krossgötum
Sjúkrahús landsins, ekki sízt móðurskipið, Landsspítalinn, hafa ítrekað á þessu ári orðið skotspónn stéttaátaka og vinnudeilna. Í ljósi stöðu fórnarlambanna í þessu máli er það algerlega forkastanlegt, að stéttir á þessum vinnustöðum skuli beita verkfallsvopninu æ ofan í æ til að knýja gæzlumenn ríkissjóðs til uppgjafar og til flótta frá launastefnu sinni. Slík gíslataka er óboðleg, reyndar einnig í skólum landsins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta úrelta stéttastríð hefur leitt til verðbólguhvetjandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, eins og spáð hafði verið, sem aðeins lág eða engin verðbólga erlendis og styrking krónunnar hefur hindrað um sinn, að leiði til kjararýrnunar allra landsmanna. Er óskandi, að mótvægisaðgerðir fjármála- og efnahagsráðherra og framleiðniaukning fyrirtækja og stofnana muni hindra verðbólguskot yfir 3 % á næsta ári.
Verðbólga er versti vágestur landsmanna af mannavöldum. Mótun nýrra vinnubragða við gerð kjarasamninga undir skammstöfuninni SALEK gefur von um, að heilbrigð skynsemi fái sæti við samningaborðið í framtíðinni og forði landsmönnum hreinlega frá kollsteypum heimskulegs metings og launasamanburðar.
Nýlega vakti dómsmál, þar sem starfsmaður Landsspítala var ákærður fyrir morð á langt leiddum sjúklingi af gáleysi, miklar umræður í þjóðfélaginu, enda um fyrsta mál sinnar tegundar að ræða hérlendis. Af málsatvikum, eins og þeim var lýst í fjölmiðlum, að dæma, má sú afstaða saksóknara furðu gegna, að ákæra starfsmanninn fyrir "manndráp af gáleysi" og krefjast samt skilorðsbundins dóms. Ekki virðist fara vel á því að vera fundinn sekur um manndráð, þótt af gáleysi sé, og sleppa við refsingu, ef hegðun er góð.
Ljóst má vera af verknaðarlýsingu, að viðkomandi starfsmanni varð á í messunni, sýndi vangá í starfi, en hún varð við aðstæður mikils vinnuálags, sem yfirmaðurinn ber að öðru jöfnu ábyrgð á, og þess vegna hefði saksóknara verið nær annaðhvort að falla frá ákæru eða að ákæra vinnuveitandann, Landsspítalann. Málavextir voru bein afleiðing af þeirri niðurskurðarstefnu, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beitti gagnvart sjúkrahúsum landsins, þ.e. að klípa utan af fjárveitingum án skipulagsbreytinga, þó að álagið ykist stöðugt. Glórulaust athæfi vinstri stjórnarinnar, sem vitnar enn og aftur um algert ráðleysi þar á bæ og um kolranga forgangsröðun, sem sjúkrahús landsins eru enn að súpa seyðið af.
Núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur aukið mjög fjárveitingar til sjúkrahúsanna og hafið nauðsynlegt endurnýjunarferli tækjabúnaðar, sem er góð fjárfesting fyrir þjóðarhag. Einnig hefur hún sett uppbyggingu nýs Landsspítala í ferli, sem þó er þörf á að bæta til að nýta tækniþróunina til hagsbóta fyrir skattgreiðendur. Þann 11.11.2015 tók heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fyrstu skóflustunguna að nýbyggingum á Landsspítalalóðinni við Hringbraut. Þar með er mörkuð braut nývæðingar Landsspítalans, þó að mikill ágreiningur ríki enn, einnig á milli starfsfólks sjúkrahússins, um staðsetninguna. Ætlunin er að byggja og tækjavæða á Landsspítalalóðinni fyrir um miaISK 50 á 8 árum. Tímaramminn er raunhæfur, en þar sem aðeins um 25 % hönnunarinnar hefur farið fram, er mikil hætta á, að kostnaðaráætlunin eigi eftir að hækka verulega.
Þau rök hafa verið tilfærð, að vegna núverandi ójafnvægis í borginni á milli þungamiðju byggðar og atvinnustarfsemi þurfi að flytja spítalann í austurhluta borgarinnar. Borgarskipulagsrök hljóta þó að vera léttvæg m.v. innra skipulag og hönnun sjúkrahússins og nándina við miðstöð innanlandsflugs og fræðasetranna á Melunum og í Vatnsmýrinni, sem munu verða á sínum stöðum um langa framtíð.
Eitt af hlutverkum hönnuða er að miða hugverk sitt við það að geta þjónað þörfum framtíðar að breyttu breytanda. Í því sambandi ber að gjalda varhug við risabyggingum, því að tækniþróunin er í þá átt að minnka húsnæðisþörf sjúkrahúsa á hvern íbúa. Hagkvæmara er fyrir alla aðila að hefðbundnar aðgerðir á "tiltölulega lítið veikum" sjúklingum séu framkvæmdar utan móðurskipsins með lægri tilkostnaði og styttri bið en mögulegt er á Háskólasjúkrahúsinu, þar sem stjórnunarkostnaður og fastur kostnaður per aðgerð er mun hærri en í minni starfsstöðvum. Ef hönnuðir minnka fremur umfangið en hitt á grundvelli nýrrar þarfagreiningar, er tekur mið af téðri þróun, sem þegar er hafin og mun verða hröð á næstu árum, getur verkefnisstjórnin haldið aftur af kostnaðarhækkunum og jafnvel haldið kostnaðinum innan eðlilegra óvissumarka, sem m.v. núverandi hönnunarstig er allt að +/- 10 %.
Um þetta ritaði Jón Ívar Einarsson, yfirlæknir á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu í Boston og "Associate Professor" við Læknadeild Harvard-háskóla, merka grein í Morgunblaðið þann 11. nóvember 2015:
"Heilbrigðismál - að hengja bakara fyrir smið":
"Greinarhöfundur starfar á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu í Boston, sem er eitt virtasta sjúkrahús Bandaríkjanna og einn af aðalkennsluspítölum fyrir læknadeild Harvard-háskóla. Þar á bæ er nú unnið að því að úthýsa dagdeildaraðgerðum og þær fluttar yfir á minni einingar, þar sem yfirbygging og kostnaður er u.þ.b. helmingi minni en á "móðurskipinu". Þetta leiðir til gríðarlegs sparnaðar, og er verið að innleiða þessa stefnu víðar. Svipaða sögu er að segja af öðrum greinum læknisfræðinnar; allt ber að sama brunni, þ.e.a.s. sjúkrahúsdvöl er stytt eða er ekki lengur til staðar. Nauðsyn þess að byggja upp risastóran miðlægan spítala fer því þverrandi.
Uppbygging nýs Landsspítala á að taka mið af þessu. Að sjálfsögðu þarf miðlægan og öflugan spítalakjarna, sem sinnir bráðaþjónustu, gjörgæslu og mikið veikum sjúklingum. Hins vegar er hagkvæmara að hafa ýmsa aðra starfsemi utan þessa miðlæga kjarna."
Verkefnisstjórn um nýjan spítala og hönnunarteymið ættu nú þegar að taka mið af þessari nýju hugmyndafræði, sem er að ryðja sér til rúms vestra, í því skyni að spara sjúkratryggingum, sjúklingum og öðrum, fé. Í upphafi er um að ræða lækkun fjárfestingar og fjármagnskostnaðar, og síðan tekur við lækkun rekstrarkostnaðar spítalans og ríkissjóðs yfir allan starfstíma spítalans. Að núvirði (núvirt) gæti hér verið um meira en miaISK 100 að ræða, svo að eftir miklu er að slægjast, ekki sízt í ljósi óhjákvæmilegs kostnaðarauka hins opinbera af öldrunarþjónustu hvers konar vegna lengri meðalævi og fjölgunar aldraðra. Á sama tíma fækkar vinnandi mönnum á hvern "gamlingja". Það er því eftir miklu að slægjast.
Jón Ívar heldur áfram:
"Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp, sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, lagði fram um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Megintilgangur þess er m.a. að innleiða tilskipun Evrópuþingsins um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Þetta mun auðvelda sjúklingum að leita sér aðgerða í öðrum löndum, ef biðlistar eru óhóflega langir hérlendis. Sú spurning vaknar, hvort sjúklingar hafi þá ekki líka rétt á að leita sér þessara aðgerða innanlands, ef boðið er upp á þær utan veggja Landsspítalans. Ef svo er, þá getur þessi tilfærsla lítið veikra sjúklinga út af Landsspítalanum gengið enn hraðar fyrir sig."
Frumvarp heilbrigðisráðherra miðar tvímælalaust að því að auka valfrelsi sjúklinga um aðgerðaraðila hér innanlands einnig og er mikil réttarbót fyrir sjúklinga. Jafnframt munu starfsstöðvar sérfræðinga á heilbrigðissviði utan Landsspítalans geta sparað Sjúkratryggingum fé, og framleiðni við lækningar mun aukast. Margra mánaða bið eftir aðgerð getur verið sjúklingunum kvalafull og þjóðhagslegur sparnaður næst, ef aðgerðin hefur í för með sér, að vinnuþrek sjúklings vaxi í kjölfarið.
Þannig er óhætt fyrir verkefnastjórn nýs Landsspítala og hönnuðina að reikna með dreifðu aðgerðaálagi vegna sjúklinga, sem eru rólfærir. Það er nauðsynlegt að taka tillit til þessara sparnaðaraðgerða strax nú, þegar 75 % hönnunarinnar eru eftir. Breytingar á hönnunarstigi eru ódýrar m.v. breytingar á framkvæmdastigi.
8.10.2015 | 18:34
Losun gróðurhúsalofttegunda og binding
Frá stofnun Sambandslýðveldisins Þýzkalands árið 1949, á rústum vesturhluta Þriðja ríkisins, að Elsass og Lothringen undanskildum, hafa Þjóðverjar leitazt við að vera öðrum þjóðum fyrirmynd í lýðræðis- og siðferðisefnum og tekizt bærilega upp við það að flestra mati.
Með svipuðum hætti og Japanir gerðu, að tilhlutan Bandaríkjamanna eftir uppgjöfina 1945, bundu Þjóðverjar í stjórnarskrá Sambandslýðveldisins, að þýzki herinn, Bundeswehr, arftaki Wehrmacht og Reichswehr, mætti ekki fara í aðgerðir utan landamæra Þýzkalands, nema undir fjölþjóðlegri stjórn, t.d. á vegum NATO, og Þjóðverjar hafa síðan reynzt seinþreyttir til vandræða og mun ófúsari til hernaðaraðgerða en bandamenn þeirra. Þess er skemmst að minnast, að þeir höfnuðu þátttöku í Íraksstríðinu, seinna, og í Líbýju-stríði NATO gegn Gaddafi. Sögðu þeir beinlínis að því tilefni, að slíkt stríð mundi skapa meiri vandamál en það leysti, hvað komið hefur á daginn.
Þjóðverjar hafa alla tíð reynzt vera í fremstu röð hvað áreiðanleika í viðskiptum varðar, og gæði þess, sem þeir hafa haft á boðstólum, hafa þótt bera af, enda er þýzki iðnaðurinn öflugasta útflutningsvél í heimi, reistur á öflugu iðn-og tæknimenntakerfi (meistarakerfinu), nákvæmum og öguðum vinnubrögðum frá hönnun til afhendingar vöru/þjónustu og markaðsrannsókna.
Síðast en ekki sízt hafa Þjóðverjar skilið manna bezt mikilvægi þess fyrir samkeppnishæfnina, að hagkerfið sé stöðugt, og grundvöllur þess er að halda verðbólgu í skefjum, og þeir hafa áttað sig á, hvað til þess þarf, illa brenndir af óðaverðbólgu Weimar-lýðveldisins, þegar tröllvaxnar ríkisskuldir vegna stríðsskaðabótakrafna Vesturveldanna frá "friðarsamningum" Versala 1919 sliguðu þýzka hagkerfið. Hins vegar þykir Bundeswehr ekki vera til stórræðanna, þó að atvinnumannaher sé, þó að nú sé reynt að klóra í bakkann af ótta við hernaðarbrölt arftaka Ívans, grimma, í Kreml, á sléttum Austur- Úkraínu og Krímskaga, og ógnandi framferðis í lofti við Eystrasaltið, sem er fornt áhrifasvæði Prússlands Junkaranna og sænska konungsríkisins.
Þjóðverjar hafa tekið ástfóstri við umhverfisvernd og unnið þrekvirki heimafyrir við hreinsun mengaðra svæða, ekki sízt í austurhéruðunum, sem voru hræðilega illa útleikin eftir valdatíð kommúnistaflokks DDR, SED, og við að endurlífga ár í austri og vestri, t.d. Rín, sem voru annaðhvort orðnar baneitraðar eða steindauðar.
Andrúmsloftið tóku þeir upp á sína arma og hafa verið stefnumarkandi innan Evrópusambandsins, ESB, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og hefur markið verið sett á 20 % minnkun árið 2020 m.v. árið 1990 og 40 % minnkun árið 2030.
Tóku Þjóðverjar upp nýja stefnu fyrir nokkrum árum, Die Energiewende, Vendipunkt í orkumálum, þar sem hlaðið er undir endurnýjanlega orkugjafa með stórfelldum niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Þessi stefna hefur orðið þýzkum skattborgurum og raforkunotendum óskaplega dýr m.v. umhverfislegan ávinning. Athafnalífið hefur þurft að bera eitt hæsta raforkuverð í Evrópu, en mikil grózka hefur orðið við hönnun, smíði og uppsetningu búnaðar til vinnslu raforku með endurnýjanlegum hætti.
Nú hefur Ísland gerzt aðili að þessu 40 % markmiði, og getur í raun náð þessu markmiði sjálfstætt með þeim undantekningum, sem um það gilda, enda á Ísland þann einstæða kost að knýja allt hagkerfi sitt með hagkvæmri, endurnýjanlegri og mengunarlítilli raforkuvinnslu.
Þýzki bílaiðnaðurinn er sá öflugasti í Evrópu og stendur undir um 7 % þýzkrar landsframleiðslu, sem er miklu meira en annars staðar gerist, og bílaiðnaðurinn er aðalstoðin undir þýzka hagkerfinu. Þýzkir bílaframleiðendur hafa náð undirtökum á markaði dísilbíla í heiminum, en ESB og ríkisstjórnir Evrópulandanna hafa hvatt almenning til að kaupa fremur dísilbíl en bensínbíl, af því að losun koltvíildis, CO2, á hvern ekinn km væri minni frá dísilbílum. Sett mark á fólksbílaflota hvers framleiðanda er 95 g/km CO2 í Evrópu, en nú er komið á daginn, að evrópskir bílaframleiðendur hafa beitt margvíslegum brögðum, þegar prófunarfyrirtæki á markaði, sem yfirvöld hafa falið eftirlitið, hafa mælt eldsneytisnotkunina, svo að hún nemur nú í raunnotkun allt að 40 % hærri tölu en leyfilegt er. Framleiðendur annars staðar eru engu betri.
Áherzlan á dísilvélina var svar evrópsks bílaiðnaðar við ströngum kröfum ESB um sparneytnar véla, þó að vitað væri, að dísilvélin losar meira af sóti og níturildum (NOx) en samsvarandi bensínvél, en þýzkir bílaframleiðendur kváðust hafa séð við þessu með útblásturssíu. Hún er reyndar til og notar ammoníum, en er fokdýr. Sían í fólksbílunum er annarrar gerðar. Hún veldur aukinni eldsneytisnotkun og dregur úr afli til gírkassans, þegar hún er virk. Einn af örgjörvum bílsins stýrir virkni hennar og fylgist með henni.
Var svo komið á 2. ársfjórðungi 2015, að Volkswagen-samsteypan (VW) var komin með heimsins mestu afköst í bílafjölda á mánuði talið á grundvelli markaðssóknar með dísilbíla. Martin Winterkorn, aðalforstjóri VW, verkfræðingur með fullkomnunaráráttu, sem sagðist þekkja hverja skrúfu í bílum VW, hafði leynt og ljóst stefnt að þessu marki, en varð að taka pokann sinn í september 2015 fyrir að bera ábyrgð á að blekkja viðskiptavini og yfirvöld með stórfelldum hætti um hreinsun afgassins í venjulegum akstri, þó að allt væri með felldu í mælingarhami.
Yfirvöld, hvarvetna í heiminum, settu kíkinn fyrir blinda augað og fólu vottuðum fyrirtækjum mælingarnar í verksmiðjum bílaframleiðendanna, en Bandaríkjamenn höfðu þó vit á að taka stikkprufur á bílum í umferðinni til að kanna, hvort hreinsibúnaðurinn stæðist tímans tönn. Þannig komst EPA-Environmental Protection Agency að hinu sanna með VW, en fáum dettur í hug, að einvörðungu VW sitji í súpunni. Þessi sviksemi fyrirtækisins mun kosta það forystuna á bílamarkaði heimsins, þó að það setji allra fyrirtækja mest í rannsóknir og þróun, og tjónið fyrir þýzkan bílaiðnað mun nema þjóðhagslegum stærðum í Þýzkalandi vegna umfangs þessarar iðngreinar þar.
Af öllum þessum ástæðum varð það Þjóðverjum reiðarslag og hnekkti sjálfsmynd þeirra, sem og ímynd í augum umheimsins, er Martin Winterkorn, aðalforstjóri VW, játaði, 18. september 2015, að fyrirtæki hans væri sekt um að gefa rangar upplýsingar um losun tiltekinnar gerðar dísilvéla í fólksbílum fyrirtækisins á mengandi efnum út í andrúmsloftið, og þá jafnframt að hafa falsað eyðslutölur sömu dísilvéla á eldsneyti, þegar mengunarvarnabúnaðurinn var virkur.
Útblástur dísilbíla er alvarleg heilsufarsógnun, því að níturoxíð (NOx) eru hættulegar lofttegundir, og er t.d. talið, að í Bandaríkjunum (BNA) verði um 58 000 ótímabær dauðsföll af völdum NOx frá umferðinni, sem svara til um 60 slíkra dauðsfalla á Íslandi samkvæmt tölfræðinni þrátt fyrir, að í BNA séu í gildi ströngustu mengunarvarnarkröfur um NOx á byggðu bóli. Þungi NOx í útblæstri má ekki fara yfir 0,04 g/km í BNA, en var í raun hjá VW allt að 1,6 g/km í venjulegum akstri.
Lengi hafa verið uppi grunsemdir um heilsufarshættu af völdum sóts í útblæstri dísilbíla, en árið 2012 færði WHO-Alþjóða heilbrigðisstofnunin dísilsót úr flokki 2a-"Líklegakrabbameinsvaldandi" í flokk 1-"krabbameinsvaldandi". Af þessum ástæðum var það algerlega óverjandi af fyrrverandi ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar að hvetja til fjölgunar dísilbíla á kostnað bensínbíla með því að hækka innflutningsgjöld á bensín langt umfram hækkun á dísilolíu. Undireins ber að leiðrétta þessa vitleysu með lækkun bensíngjalda um u.þ.b. 10 kr/l og sömuleiðis á að jafna bifreiðagjöld og vörugjöld, sem téð vinstri stjórn breytti bensínbílum í óhag. Dísilbílar eru að jafnaði 12 % dýrari frá verksmiðju en bensínbílar, og þessi verðmunur mun duga til að snúa við þeirri misheppnuðu neyzlustýringu forsjárhyggjuflokkanna, sem leiddi til þess, að fjöldi dísilbíla af öllum nýskráðum bílum hækkaði úr 30 % í 50 %. Það var eins og við manninn mælt; styrkur krabbameinsvaldandi dísilsóts í svifryki umferðarinnar í Reykjavík var umtalsvert hærri árið 2013 en 2003 samkvæmt mælingum Verkfræðistofunnar EFLU fyrir Vegagerðina. Kjósendur ættu að frábiðja sér grunnhyggna neyzlustýringu mannvitsbrekknanna í stjórnmálaflokkunum. Hún er alltaf dýrkeypt og stundum stórhættuleg í þokkabót, eins og í þessu tilviki.
Bandaríkjamarkaðurinn var veikur hlekkur í ráðagerð VW um að verða stærsti bílaframleiðandi heims. Í fremstu víglínu í sókn fyrirtækisins að þessu marki voru þá settir dísilknúnir fólksbílar undir kjörorðinu "Clean Diesels". Bandaríkjamenn hafa ekki verið hrifnir af dísilbílum og EPA, Umhverfisverndarstofnun BNA, setti fyrir nokkrum árum strangari kröfur um losun NOx en tíðkast í Evrópu. Bílaframleiðendur áttu í erfiðleikum með að uppfylla þessar ströngu kröfur í fólksbílum, en árið 2008 kom VW með hernaðaráætlun um að komast framhjá þessari hindrun (eins og Wehrmacht komst framhjá Maginotlínunni forðum, sem átti ekki að vera hægt að dómi Frakka) og að taka bandaríska bílamarkaðinn með áhlaupi. "Lausnin" er öllum kunn nú, og þessir "hreinu" dísilbílar senda frá sér allt að fertugföldum styrk NOx-gastegunda miðað við það, sem leyfilegt er í BNA.
Fyrir vikið munu bandarísk yfirvöld ekki láta þar við sitja að sekta fyrirtækið um stórfé, þar sem leyfileg, en ólíkleg, efri mörk nema miaUSD 18, heldur er hafin glæparannsókn, þar sem hinir grunuðu um verknaðinn sjálfan verða dregnir fyrir dómstól og verða að svara til saka. Kunna þeir að verða dæmdir til sektargreiðslna og/eða fangelsisvistar. Nákvæm rannsókn á þessu svindlmáli á "das Auto" mun þess vegna fara fram með persónulegum afleiðingum fyrir persónur og leikendur.
VW hefur þegar sett til hliðar miaEUR 6,5, en bein fjárútlát vegna sekta og bótagreiðslna gætu numið allt að miaEUR 100, og óbeint tjón af tapaðri sölu getur numið margfaldri þessari upphæð og orðið hærri en kostnaður Þýzkalands af brotthvarfi Grikkja úr evrusamstarfinu er talinn mundu verða að mati Wolfgang Muenchau á Financial Times. Markaðsvirði fyrirtækisins er þegar fallið um þriðjung, og evrubankinn í Frankfurt hefur lokað fyrir skuldabréfakaup af bankaarmi VW, sem lánað hefur viðskiptavinum VW fyrir bílakaupum, og hefur um þriðjungur af sölu VW verið fjármagnaður með þessum hætti.
Það hefur þannig verið sótt fram með "Vorsprung durch Technik"-Forskoti með tækni, og hagstæðum lánstilboðum með ágætum árangri, þar til Bandaríkjamönnum þóknaðist að stöðva þessa stórsókn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir stærsta bílaframleiðanda heims og öflugustu útflutningsvél heims. Að keppa að heimsforystu hefur alltaf endað illa. Þýzkum bílaiðnaði hefur verið greitt þungt högg, og bílaiðnaður heimsins verður ekki samur eftir, enda hefur hann hvarvetna verið sem ríki í ríkinu og alveg sérstaklega í Þýzkalandi.
Í ViðskiptaMogganum 8. október 2015 er haft eftir Wolfgang Muenchau í Financial Times:
"Það sem meira er, Volkswagen-hneykslið gæti mögulega sett þýzka hagkerfið út af sporinu. Það hefur reitt sig um of á bílaiðnaðinn, rétt eins og hann hefur orðið of háður dísiltækninni."
Dísilvél fyrir fólksbíla er dauð, af því að núverandi tækni ræður ekki við hönnun hreinsibúnaðar við hæfi fólksbíla m.v. núverandi mengunarkröfur á nægilega hagstæðan hátt, nema leggja hald á of stóran hluta af aflgetu vélarinnar og eldsneytisnotkun hennar. Dísilvélin mun hins vegar áfram lifa góðu lífi í atvinnutækjum, sem nota mun stærri vélar, þar sem fýsilegt er að koma öflugum hreinsibúnaði við.
"Eines Tod, einem anderen Brot" - eins dauði er annars brauð. Lausn bílaframleiðenda verður sú að stórauka áherzlu á tvinnbíla og rafmagnsbíla. Hér fá metanólbílar, bílar með rafhreyfil og bensínhreyfil og einvörðungu rafhreyfil kjörið markaðstækifæri. Í Evrópu er helmingur nýrra fólksbíla með dísilvél, og á Íslandi er fjórðungur allra fólksbíla eða tæplega 60 þúsund fólksbílar með dísilvél. Ísland hefur ásamt öðrum EES-löndum sett sér markmið um 40 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en árið 1990.
Til að losun í samgöngugeiranum (án flugsins) verði 40 % minni eftir 15 ár en fyrir 25 árum þarf losun hans að minnka um u.þ.b. 630 kt/a (þúsund tonn á ári) frá 2015. Ef fólksbílaflotinn, sem nú telur rúmlega 225 þúsund bíla (0,68 bílar per íbúa), ætti að leggja til þessa minnkun, þá mundi það jafngilda 180 þúsund rafmagnsbílum árið 2030, sem jafngildir um 12 000 nýjum rafmagnsbílum eða kolefnishlutlausum fólksbílum á ári. Í ljósi þess, að nú er 98 % fólksbílaflotans knúinn jarðefnaeldsneyti, er þetta óraunhæft.
Það er engu að síður unnt að ná 40 % markinu fyrir umferðina 2030 með mjög álitlegri, æskilegri og þjóðhagslega hagkvæmri, aðferð. Áætla má, að 90´000 fólksbílar geti orðið kolefnishlutlausir, knúnir vetni, metanóli, rafmagni o.s.frv. árið 2030. Þá þarf að rækta um 36´000 ha af grózkumiklum skógi til að kolefnisbinda það, sem út af stendur hjá umferðinni.
Ræktað skóglendi á Íslandi er nú um 40´000 ha, svo að hér er um 90 % aukningu að ræða á um 10 árum eða um 3´600 ha/a. Þetta er um 2,6 föld árleg aukning undanfarinna 15 ára, svo að afkastalega er þetta vel framkvæmanlegt. Fjármögnunin þarf að koma frá kolefnisgjaldi af öllum farartækjum, sem brenna jarðefnaeldsneyti, bifreiðum, skipum og flugvélum.
Nú er lag, að ríkið leggi valdar jarðir í eigu þess undir skógrækt. Fyrirmyndir eru til að slíkum samningum um skógrækt til bindingar á koltvíildi. Ríkið mundi eignast kolefnisbindinguna og gæti ráðstafað henni að vild til að ná markmiðum sínum. Þegar draga má úr kolefnisbindingunni að 30-50 árum liðnum vegna nýrrar orkutækni, sem þá verður komin til skjalanna, má fara að nytja skóginn, og stóriðjan getur tekið við honum öllum með arðsömum hætti fyrir skógarbændur. Með þessari stórefldu skógrækt mundi kolefnisfótspor Íslands minnka, arðbær starfsemi mundi verða til í sveitum landsins, viðkomandi bújarðir yrðu betri og verðmætari, skjólið af skóginum mun bæta veðurfarið, þar sem þess nyti við, vistkerfið yrði auðugra, meira fuglalíf, meira smádýra- og örverulíf, bættur vatnsbúskapur og aðstæður hefðbundins landbúnaðar munu batna.
Orkukræfur iðnaður er undanskilinn 40 % markinu árið 2030, en með markmiðinu um enga nettólosun Íslendinga í lofti, á láði og legi, árið 2050, sem líklega tekur við og rétt er að stefna að, þá mun stóriðjan þurfa að kaupa kolefnisbindingu, sem svarar til um 150´000 ha m.v. núverandi framleiðslu, og hún mun vafalaust aukast, og það skapar engin torleyst vandamál.
Hins vegar stendur sjávarútvegurinn mjög vel að vígi, því að hann hefur náð góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda síðan 1990, og mundi aðeins þurfa að draga úr losun um 6 % af núverandi losun til að ná 40 % markinu árið 2030. Sjávarútvegurinn verður í engum vandræðum með að innleiða orkubyltingu á árabilinu 2030-2050 til að losna nánast alfarið við að losa gróðurhúsalofttegundir árið 2050.
Aðrir munu þurfa að kaupa sér bindingu úr um 30´000 ha nýs skógar til að ná 40 % markinu árið 2030. Þannig þarf í heild að bæta við ræktuðum grózkumiklum (afkastamiklum við bindingu) á um 66´000 ha lands á 10 árum. Ræktaður skógur yrði þá rúmlega 100´000 ha á Íslandi eða 1000 km2, sem er 1,0 % af landinu og alls engin goðgá. Til að binda til mótvægis við losun stóriðju yrði að tvöfalda ræktaðan skóg á tímabilinu 2030-2050, og yrði hann þá 2,0 % af landinu, sem væri dágóður landgræðsluárangur, og stóriðjan getur tekið við CO2 bindingu, sem orkubyltingin í samgöngugeiranum og víðar leysir af hólmi. Varðandi flugið er líklegast, að rafhreyflar hafi að mestu tekið við af eldsneytisknúnum hreyflum eftir 30 ár.
Vandræðagangur hérlendis við að ná tilsettum árangri við minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá mannlegri starfsemi er með öllu óþarfur. Aðgerðirnar munu styrkja íslenzka hagkerfið, enda má segja, að það verði sjálfbært, þegar ofangreindu lokamarkmiði verður náð. Íslendingar eru í kjörstöðu til að verða leiðandi í þessum efnum, af því að í landinu er unnt að framleiða gnótt raforku á hvern íbúa með sjálfbærum hætti, og í landinu er nægt lífrými fyrir nýjan gróður. Þessi staða skapar Íslendingum einstaklega góð tækifæri til betri lifnaðarhátta.
2.10.2015 | 13:35
Ótilhlýðilegur dilkadráttur
Dilkadráttur er einkennandi fyrir málflutning umhverfisskrumara, og mundi einhver jafna til eineltis í sumum tilvikum. Dæmigert fyrir téða skrumara er að stilla orkukræfum iðnaði upp sem óæskilegri starfsemi í samfélaginu, af því að hann hafi mikil og neikvæð áhrif á náttúruna, þó að vinstri menn, t.d. vinstri grænir, hafi reyndar alltaf haft horn í síðu erlendra fjárfestinga, og þeir eru grunaðir um að vera aðallega af þeim ástæðum andsnúnir téðum verksmiðjum enn í dag.
"Eitthvað annað" í atvinnulegu tilliti þótti löngum bera keim af fortíðarþrá og jafnvel torfkofadálæti í atvinnulegum efnum í stað iðnaðarins, en nú vísar afturhaldið jafnan til ferðaþjónustunnar sem hins umhverfisvæna valkosts. Á þotuöld er ekkert fjær sanni, og það verður að rekja það í nokkrum orðum til að sýna, að umhverfisskrumarar kasta steinum úr glerhúsi, þó að fyrir þeim sé komið eins og námuhestunum með augnablöðkurnar.
Fótspor 1,5 milljónar erlendra ferðamanna, auk innlendra, í umhverfinu er miklu stærra og verra viðfangs en umhverfisfótspor iðnaðarins, hvort sem er á láði, í legi eða í lofti.
Losun koltvíildis, CO2, frá þeim farkostum, sem ferðamennina flytja til og frá landinu og á landinu, gefur mun stærra kolefnis- og brennisteinsfótspor en samanlagður málmiðnaðurinn (Al, FeSi, Si (væntanleg kísilver meðtalin)). Þetta er auðvelt að sýna fram á, og blekbóndi hefur gert það á þessum vettvangi,http://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/1822032/ , þar sem fram kemur, að losun farþegaþotna til og frá Íslandi á koltvíildi á hverju ári er tvöföld á við losun orkukræfs iðnaðar í landinu.
Viðkvæm náttúra landsins liggur undir skemmdum, sumum óafturkræfum, svöðusár gróa seint á hálendinu, tront hesta og manna hefur farið mjög illa með landið víða, einkum hálendið, og sóðaskapur verið slíkur, jafnvel á fjölförnum stöðum, að valdið gæti sóttkveikjufaraldri.
Saurmengun ferðamanna í náttúrunni var fréttaefni fjölmiðla í sumar. Um hættuna af henni sagði Vilhjálmur Svansson, sérfræðingur í veirufræði á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, í Morgunblaðinu 23. september 2015, í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann:
"Við höfum ekki enn leyft okkur að gera kröfu um, að nautakjöt, sem er flutt inn til landsins, sé laust við þessa bakteríu. En þessi sermisgerð, af E. coli [tegund], hefur verið að dreifast um heiminn á síðustu áratugum og er það smitefni í matvælum, sem veldur hvað alvarlegustum matvælasýkingum, þ.e.s.s. blóðugum niðurgangi, nýrnabilun og dauða. Ungum börnum, gamalmennum, og ónæmisveikluðum einstaklingum, er hættara en öðrum við að veikjast eftir neyslu á smituðum afurðum. Saurmengun frá landbúnaði, þá sérstaklega nautgripum, í matvælum virðist vera helsta uppspretta þessara matarsýkinga. Ólíkt því, sem gerist hjá mönnum, þá veldur bakterían litlum eða engum einkennum í nautgripum. Með aukinni neyslu á innfluttu nautakjöti gæti bakterían borist með saurmengun frá mönnum út í lífríkið og þar með í nautgripi hér á landi."
Sóðaskapur, og ófullnægjandi hreinlætisaðstaða, gríðarlegs fjölda erlendra gesta er þannig bein ógn við heilsufar landsmanna. Gríðarleg álagsaukning er á frárennsliskerfi í bæjum og sveitum, sem víða voru óbeysin fyrir, svo að fosföt og níturefni hafa minnkað súrefni í vötnum og valdið óæskilegum þörungagróðri.
Þessu síðasta er ekki þannig varið hjá málmiðnaðinum. Vísindalegar rannsóknir óvilhallra íslenzkra stofnana sýna t.d., að nánast ekkert efnafótspor er í Straumsvík, sem rekja megi til álversins þar. Á landi er spurningin aðallega um flúor, og hann er ekki meiri í jurtum þar en var fyrir upphaf starfrækslu álversins. Þannig hefur það ekki alltaf verið, en gríðarlegar fjárfestingar í hreinsibúnaði kerreyks hafa borið mjög góðan árangur.
Hvar er árangur ferðaþjónustunnar í umhverfis- og öryggismálum ? Hann er örugglega fyrir hendi hjá sumum ferðaþjónustufyrirtækjum, sem eru rekin af metnaði, þar sem starfsfólk vinnur störf sín af elju, þekkingu og samvizkusemi, en heildarmyndin í umhverfis- og öryggislegu tilliti er of slæm og ber ferðaþjónustunni því miður ekki fagurt vitni í heild. Kannski á ofboðsleg fjölgun ferðamanna á 5 árum sinn þátt í því, að náttúran a víða undir högg að sækja af völdum ferðamanna.
Ferðaþjónustan kemst ekki með tærnar, þar sem álverin hafa hælana í umhverfisvernd og öryggismálum, og þannig virðist staðan munu verða enn um langa hríð. Af þessum ástæðum væri talsmönnum ferðaþjónustunnar og umhverfisskrumurum, sem þykjast vilja "láta náttúruna njóta vafans", sæmst að hætta að draga atvinnugreinar landsins í dilka og setja sig á háan hest gagnvart innviðauppbyggingu, t.d. raforkugeirans, sem verður öllum atvinnugreinum að gagni.
Dapurlegt dæmi um þennan dilkadrátt gat að líta í umræðugrein í Morgunblaðinu, 19. september 2015, eftir Snorra Baldursson, formann Landverndar, undir fyrirsögninni: "Kerfisáætlun og bleiki fíllinn"
Hér verður gripið niður í þessa grein, en þar gefur að líta illskeytta gagnrýni á Landsnet í kaflanum "Orkudreifing og orkuflutningur", sem ekki verða gerð skil hér, því að það er hlutverk Landsnets að gera almenningi grein fyrir sinni hlið málsins, svo að fólk geti myndað sér hlutlæga skoðun.
Fyrsta millifyrirsögnin er röng fullyrðing:"Stóriðjan veldur, en almenningur borgar". Kaflinn hefst svona:
"Það, sem stingur einna mest í augu, er, að forstjóri Landsnets kemst í gegnum opnuviðtal án þess að nefna stóriðjuna, bleika fílinn í stofunni, einu nafni. Aftur á móti talar hann um, að styrkja þurfi raforkuflutningskerfið fyrir almenning og að byggðalína standi eðlilegri atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum. Ekkert er fjær sanni."
Hér gefur Snorri Baldursson í skyn, að orkukræfu iðjuverin séu alvarlegt vandamál fyrir stofnkerfi Landsnets, sem rétt sé að þegja um í opinberu viðtali, enda sé almenningur látinn greiða kostnaðinn, sem hlýzt af tengingu stóriðjunnar við stofnkerfið.
Hér er ótrúlegur þvættingur á ferð, hreinn heilaspuni.
Ef þetta væri rétt, þá væri gjaldskrá Landsnets ekki lögum samkvæmt, og Orkustofnun hefði þá sofið á verðinum. Í gjaldskrá Landsnets er sérstakur kafli fyrir stórnotendur, stóriðjutaxtar fyrir afl og orku, og annar kafli fyrir almenningsveitur, þar sem eru aðrir taxtar fyrir afl og orku. Þessir taxtar eiga að endurspegla kostnað Landsnets af flutningskerfinu fyrir hvorn hóp viðskiptavina um sig, og það stríðir gegn lögum að láta notanda A borga fyrir fjárfestingar í þágu notanda B.
Hér gerir formaður Landverndar tilraun til að sá fræjum tortryggni í garð Landsnets og stórnotenda með dylgjum um, að senda eigi almenningi reikninginn, umfram stóriðjuna, vegna nauðsynlegrar styrkingar á flutningskerfi raforku, sem almenningur hafi þó enga þörf fyrir. Þetta er rætinn málflutningur, hreinræktaðar rakalausar dylgjur.
Að jafnaði fara engir stórflutningar raforku til stóriðjufyrirtækjanna eftir Byggðalínu, nema til Becromal, álþynnuverksmiðjunnar, á Akureyri, þannig að hlutverk Byggðalínu er aðallega að flytja raforku til almenningsveitnanna vítt og breitt um landið. Þó reynir á hana til stórflutninga í bilunartilvikum, og þegar miðla þarf orku á milli landshluta. Flutningsgeta hennar er farin að standa almennri atvinnuþróun fyrir þrifum, og geta hennar til orkumiðlunar á milli landshluta er allt of lítil. Árlegur kostnaður vegna glataðra atvinnutækifæra, olíubrennslu, skorts á stöðugleika í bilunartilvikum og umfram orkutapa nemur tugum milljarða kr.
Snorri Baldursson endurtekur þessi ósannindi, þ.e. að flutningskerfi raforku um landið þarfnist eflingar einvörðungu fyrir stórnotendur og að láta eigi almenning greiða einan fyrir þessar fjárfestingar, í téðri grein með mismunandi hætti, en ómerkilegur málflutningur batnar sízt við endurtekningu, þó að áróðursbrellukarlar hafi á ýmsum tímum legið á því lúasagi.
Í upphafi lokakafla greinarinnar skrifar téður Snorri:
"Óskalausn Landsnets í uppbyggingu raforkuflutningskerfisins er áðurnefnd T-tenging [Sprengisandslína og lína á milli Blöndu og Fljótsdals - Innsk. BJo]. Þar er fyrirtækið með hugmyndir um 50 km jarðstreng til að mæta umhverfiskröfum og telur, að koma megi slíkri tengingu í gagnið á fimm árum að lágmarki. Þetta er mikil bjartsýni, því ljóst er, að umhverfis- og útivistarsamtök, fyrirtæki og samtök í ferðaþjónustu, munu berjast alla leið gegn línu yfir Sprengisand, líka með 50 km jarðstreng."
Þetta er heifrækin og ofstækisfull afstaða manns, sem ber fyrir brjósti hagsmuni sóðalegustu atvinnugreinar landsins og hótar öllu illu, þó að Landsnet bjóðist til að teygja sig eins langt og tæknilega er unnt. Þetta er hraksmánarleg og heimskuleg afstaða, því að öllum atvinnugreinunum er það fyrir beztu, að flutningar raforku á milli landshluta fari fram með hagkvæmasta hætti og snurðulaust allan ársins hring með lágmarkstruflunum fyrir notendur við bilanatilvik í virkjun, á línu eða hjá notendum.
Með því að leggja Sprengisandslínu í jörð á viðkvæmasta hluta leiðarinnar, e.t.v. 25-50 km, væntanlega þar, sem hún yrði mest áberandi frá nýju vegstæði, kemur Landsnet til móts við þá, sem vilja aðeins sjá osnortin víðerni frá veginum, þó ekki í rykmekki, og þar með er búið að taka sanngjarnt tillit til umhverfissjónarmiða.
Ofstækismönnum verður hins vegar aldrei hægt að gera til geðs. Að láta þá komast upp með það ár eftir ár að þvælast fyrir framförum í landinu kemur ekki lengur til greina, enda orðið allt of dýrkeypt. Nú þurfa allir, sem vettlingi geta valdið, að bretta upp ermar og berja á þursum.
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)