Sveppir og sóun

Kári Stefánsson, læknir, getur ekki fundið neina vísindalega sönnun fyrir tengslum dvalar í húsnæði, þar sem raki er og sveppagróður, og heilsuleysis eða sjúkdómskvilla.  Hann líkir "trúnni" á þessi tengsl við draugatrú Íslendinga og rifjar upp frásögn föður síns, Stefáns Jónssonar, fréttamanns, af för sinni norður að Saurum á Skaga, þar sem fréttist af illvígum draugagangi forðum tíð.  Blekbónda rekur minni til að hafa skemmt sér ótæpilega við að hlýða á Stefán, fréttamann, og viðmælendur hans í þessu Sauramáli á sinni tíð.  

Bezt er að vitna beint í son hins frábæra fréttamanns, í grein hans í Fréttablaðinu, 5. september 2017, 

"Kólumkilli eða sveppasúpa":

"En það breytir því ekki, að þjóðin er enn staðföst í trú sinni á ýmislegt dularfullt og spennandi, sem ekki hefur verið sannað með aðferðum vísindanna [er það ekki "gelíska genið" ?-BJo].  Klárasta dæmið um þessa staðfestu upp á síðkastið er trúin á heilsuspillandi áhrif myglusveppa í húsum.  

Þrátt fyrir vandlega leit í læknisfræðibókmenntum okkar tíma hefur mér ekki tekizt að finna þess merki, að búið sé að sýna fram á, með vísindalegum aðferðum, að myglusveppir í húsum vegi að heilsu manna.  Þrátt fyrir það velkist íslenzk þjóð ekki í vafa um áhrif myglusveppa á heilsu, og má sjá merki þess víða í samfélaginu."

Raki og myglusveppur er ekki séríslenzkt fyrirbæri, heldur hefur sambýli manns og svepps verið við lýði frá fyrstu húsakynnum mannsins, og sveppir eru landlægir erlendis í vistarverum manna. Þótt ekki hafi tekizt að sanna læknisfræðilega sök sveppa á heilsuleysi manna, er þó ekki þar með sagt, að tengslin séu ekki fyrir hendi.  Sumir, sem veikir eru fyrir á ákveðnum sviðum, t.d. í öndunarfærum, kunna að veikjast við þetta nábýli, þótt aðrir, sem sterkari eru fyrir, finni ekki fyrir einkennum. Læknisfræðin hlýtur að taka tillit til mismunandi mótstöðuþreks.  

Kári, læknir, heldur áfram:

"Svo er það hús Orkuveitunnar [OR á reyndar ekki þetta hús lengur, heldur lífeyrissjóðir, þ.á.m. minn, þótt OR beri ábyrgð á rekstri, viðhaldi og opinberum gjöldum af húsinu.  Allt er þetta reginhneyksli. - BJo] og þúsundir annarra húsa víðsvegar um landið, og okkur er sagt, að tjónið af völdum myglusvepps á Íslandi nemi tugum milljarða.  Þetta byrjaði á því, að inn í hús nokkur kom ung kona í kafarabúningi (ghost buster) og fann myglusveppi grimmilega, sem hún lagði með mjaðmahnykk [?!].  Síðan þá hefur baráttan við myglusveppinn orðið mjög stór iðnaður á Íslandi og engin atvinnugrein vaxið meira í landinu, nema ferðaþjónustan."

Ætla má af lestri þessa texta, að læknirinn sé þeirrar skoðunar, að sveppasýkt húsnæði sé óraunverulegt vandamál.  Það sé huglægt fyrirbrygði, eins og trú á tilvist drauga.  Helzt er á honum að skilja, að flokka megi sýkingu mannfólks af völdum húsasvepps til móðursýki.  Hvað segir landlæknir ?  Hvers vegna tekur hann ekki af skarið um, hversu skaðlegur sveppagróðurinn er heilsu manna ?  Hefur hann heldur ekkert í höndunum ?  Er hættan ímyndun ein ? 

Ef frekari rannsókna er þörf, verður að framkvæma þær strax áður en hús, sem kostaði miaISK 11 að núvirði að byggja, og mörg fleiri, eru dæmd svo heilsuskaðleg, að þau verði að rífa vegna myglusvepps.  Um rannsóknarþörfina skrifar Kári:

"Þess vegna væri ekki úr vegi að byrja á því að rannsaka málið áður en hús eru dæmd ónýt og rifin og tugmilljarða króna tjón gert að raunveruleika.  Rannsókn á skaða þeim, sem myglusveppur kann að valda á heilsu manna, verður eingöngu unnin á Íslandi, vegna þess að í öðrum löndum búa maðurinn og sveppurinn í friðsömu sambýli, og hvorugur kvartar undan hinum."

Það er rétt hjá Kára, að myglusveppur viðgengst víða, einnig á hinum Norðurlöndunum.  Hefur þetta sveppafár hérlendis verið reist á ímyndun, eins og Kári Stefánsson, læknir gefur í skyn ?  Læknastéttin skuldar þjóðinni óyggjandi svar við því.  

Orkuveituhúsið var nefnt.  Hvað, sem sveppagróðri í vesturálmu þess líður, er það óbrotgjarn (?) minnisvarði um meðferð R-listans, sáluga, á opinberu fé.  R-listinn var samstarfsvettvangur vinstri manna og Framsóknarmanna.  Til hans var stofnað til höfuðs völdum Sjálfstæðisflokksins í borginni.  Hugarfar fólks, sem ber háskattastefnu fyrir brjósti, er virðingarleysi við einkaeignina, og tekjur fólks eru hluti af henni.  Þetta hefur verið límið í valdastöðu vinstri manna í borginni og hefur aldeilis krystallast í Orkuveitu Reykjavíkur-OR.

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar gumaði Dagur B. Eggertsson og fylgifénaður hans af viðsnúningi í rekstri OR.  Hver kom OR í klandur ?  Það var vinstra fólkið og Framsóknarfólkið í borgarstjórn, sem sukkaði og sóaði á báða bóga með allt of stórri Hellisheiðarvirkjun m.v. jarðgufuforðann þar undir og með allt of stóru monthúsi fyrir aðalstöðvar OR.  Stjórnendur OR og hin pólitíska stjórn hennar voru ekki starfi sínu vaxin.  Heimtaður var gjörsamlega óraunhæfur byggingarhraði bæði á OR-húsinu og á Hellisheiðarvirkjun með þeim afleiðingum, að eigendur OR, Reykvíkingar, Skagamenn og íbúar Borgarbyggðar, hafa orðið fyrir svakalegu tjóni, sem þegar getur numið um 1 MISK á hverja 4 manna fjölskyldu í þessum byggðarlögum.  Hér er um opinbert fyrirtæki að ræða, og eigendurnir eru ófærir um að komast til botns í þessu OR-hneyksli.  Þegar borgararnir verða fyrir viðlíka tjóni og hér um ræðir, verður að komast til botns í því, hvar var keyrt út af, og hverjir voru bílstjórar og meðreiðarsveinar í hverju tilviki.  

Hörmungar OR halda hins vegar áfram og munu halda áfram, ef róttækar umbætur á stjórnun verða ekki gerðar.  ON borar hverja holuna á fætur annarri í Hellisheiðina, en sá fjáraustur er eins og að míga í skóinn sinn.  Finna þarf nýjan virkjunarstað til að létta 100-200 MW af Hellisheiðarvirkjun.  Þegar menn eru komnir í foraðið, eiga þeir að hafa vit á að reyna að snúa við.

ON framdi í vor alvarleg mistök við rekstur einu vatnsaflsstöðvar sinnar, þegar gerð var tilraun til að hreinsa botnset úr inntakslóni Andakílsárvirkjunar með því að galopna framhjáhlaup í stíflunni.  Þessi heimskulega ráðstöfun fyllti alla hylji og þakti eirar Andakílsáar af leir með voveiflegum afleiðingum fyrir seiði í ánni og allt annað lífríki.  

Ekki tekur betra við í mengunarmálum hjá Veitum, öðru dótturfélagi OR.  Þar var viðbúnaður við bilun í frárennsliskerfinu fyrir neðan allar hellur í sumar, sem sýndi, að tæknilegri stjórnun er ábótavant.  Hausinn var bitinn af skömminni með því að reyna að þegja málið í hel, þótt heilsuspillandi aðstæður sköpuðust vikum saman í fjörunni og úti fyrir.  Siðferðið er ekki upp á marga fiska.

Gagnaveitan er þriðja dótturfyrirtæki OR.  Þar þverskallast menn, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, við að eiga samráð við Mílu um samnýtingu skurða fyrir lagnir.  Allt er þetta á sömu bókina lært.

Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að OR-samsteypan hefur fyrir löngu vaxið borgarstjórn yfir höfuð.  Þar á bæ hafa menn ekki hundsvit á þeirri starfsemi, sem OR-samsteypan fæst við, og eru ekki í neinum færum til að veita henni aðhald, hvorki í borgarráði né í stjórn OR.  Borgarfulltrúarnir eru uppteknir við málefni, sem eru gjörólíks eðlis.  Eina ráðið til úrbóta er að skera á meirihluta aðild borgarinnar að stjórn OR með því að gera dótturfélögin að sjálfstæðum almenningshlutafélögum.  Með þessu móti verður hægt að greiða upp drjúgan hluta af skuldabagga OR-samstæðunnar, og stjórnun dótturfyrirtækjanna ætti að verða viðunandi fyrir eigendur, viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila.


Bloggfærslur 17. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband