Ofríki gagnvart undirstöðugrein

Stjórnmálamenn og allir aðrir hérlendir menn verða að gera sér grein fyrir þjóðhagslegu mikilvægi samkeppnishæfni atvinnuveganna, sérstaklega fyrirtækja í útflutningi.  Alþingismenn hafa mikil áhrif til góðs eða ills á samkeppnishæfni atvinnuveganna, því að með lagasetningu eru þau starfsskilyrði, sem ekki ráðast beinlínis á markaði, ákveðin.  Þetta á t.d. við um skattlagningu og gjaldtöku. 

Að undirlagi stjórnarandstöðuþingmanna tók þingheimur mjög illa ígrundaða og skaðlega ákvörðun undir lok vorþings 2018 um að láta meingallaða og mjög íþyngjandi gjaldtöku af sjávarútveginum viðgangast áfram til ársloka 2018. Þetta ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum grundvallar atvinnuvegar á Íslandi er þungur áfellisdómur yfir stjórnarandstöðunni á Alþingi.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, skrifaði þarfa hugvekju um samkeppnishæfni í Morgunblaðið, 4. júní 2018:

"Samkeppnishæf lífskjör":

"Mikil samkeppnishæfni er nauðsynlegt hráefni í þjóðarkökuna, enda hafa nær engin ríki háa landsframleiðslu [á mann], en laka samkeppnishæfni.  Það, sem meira er, þá helzt mikil samkeppnishæfni einnig í hendur við það, sem ekki verður metið til fjár.

Gott dæmi um það er vísitala félagslegra framfara (SPI).  Sú vísitala var sköpuð vegna þess, að efnahagslegir mælikvarðar segja ekki alla söguna um raunveruleg lífskjör og lífsgæði.  SPI tekur því ekki til neinna fjárhagslegra mælikvarða.  Þess í stað notar vísitalan mælikvarða á borð við aðgengi að hreinu vatni, barnadauða, aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði, glæpatíðni, lífslíkur, sjálfsmorðstíðni, jafnrétti, fordóma í garð hinsegin fólks og innflytjenda og svo mætti lengi telja.

Staðreyndin er sú, að það er samband á milli samkeppnishæfni og mikilla félagslegra framfara.  Nær ekkert ríki í heiminum hefur litla samkeppnishæfni og miklar félagslegar framfarir.  Af efstu 20 ríkjunum í samkeppnishæfni IMD eru 17 einnig á topp 20 lista yfir félagslegar framfarir.  Sömu sögu má rekja, þegar kemur að hamingjuvísitölunni samkvæmt "World Happiness Report".  Þó að orsakasamhengið geti verið í báðar áttir, sýnir reynslan, að án samkeppnishæfs atvinnulífs er ómögulegt að byggja upp viðunandi lífskjör."

Nú um stundir dynja á okkur fréttir úr atvinnulífinu, sem gefa vísbendingar um versnandi samkeppnisstöðu landsins, og það þarf enginn að velkjast í vafa um versnandi stöðu, því að IMD-háskólinn hefur nýlega birt mæliniðurstöður sínar fyrir 2018.  Í hópi 63 ríkja fellur Ísland niður um 4 sæti síðan 2017.  Ísland er nú í 24. sæti og lækkar í fyrsta sinn síðan 2013. 

Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar eru ofar á listanum yfir samkeppnisstöðu þjóða. Samtímis er Ísland nálægt toppi OECD þjóða um skattheimtu á mann.  Þarna er samhengi, og þetta verður að laga.

 Slæm samkeppnisstaða boðar ekkert gott fyrir þróun samfélagslegra innviða samkvæmt ofansögðu. Versni samkeppnisstaðan, minnkar atvinnan og skattstofnar rýrna. Við þessar aðstæður verður að telja það fullkomna glópsku af þingmönnum stjórnarandstöðunnar að grafa undan "félagslegum framförum" með því að verða þess valdandi, að grafið er undan samkeppnishæfni undirstöðuatvinnugreinar landsins með því að gera Atvinnuveganefnd Alþingis afturreka með lágmarkslagfæringu til bráðabirgða á veiðigjöldum útgerðanna í landinu.

Það er ekki einvörðungu, að ríkisvaldið sé að innheimta auðlindagjald af atvinnugrein, þar sem engin auðlindarenta er núna, heldur er sjávarútveginum mismunað herfilega innanlands og utan, þar sem engin önnur atvinnugrein, sem náttúruauðlindir nýtir hérlendis, greiðir enn auðlindagjald til ríkisins, og erlendur sjávarútvegur, sem Íslendingar keppa við erlendis, greiðir yfirleitt engin veiðigjöld, heldur fær hann styrki úr sjóðum ESB og/eða úr ríkissjóðum viðkomandi landa, jafnvel sá norski. 

Með þessu móti er íslenzki sjávarútvegurinn ekki aðeins settur í erfiða stöðu erlendis, heldur veikir ríkisvaldið með þessu framtaksleysi sínu viljandi samkeppnisstöðu hans innanlands um fé og fólk. Ríkisvaldið verður að hrista af sér slenið og setja á laggirnar samræmt kerfi, sem skerðir ekki jafnræði atvinnugreina og skerðir ekki samkeppnisstöðuna erlendis.  Með núverandi fyrirkomulagi eru þingmenn að saga burt greinina, sem við öll sitjum á.  Að þeir geri það með almannaheill á vörunum og stéttastríðstali um "eign þjóðarinnar", toppar tvískinnung og/eða flónsku stjórnmálanna.  

Katrín Olga orðaði þetta vel í lok téðrar greinar sinnar:

"Oft er látið sem svo, að fyrirtækin og fólkið í landinu eigi í baráttu, að velgengni annars sé á kostnað hins.  Fyrir mér er ekkert fjær sanni, því að eins og rannsóknir og mælingar gefa svo sterklega til kynna, haldast lífsgæði og rekstrarumhverfi fyrirtækja hönd í hönd.  Stöndum vörð um hag okkar allra og vinnum að aukinni samkeppnishæfni."

Almennt og sanngjarnt veiðigjald þarf að vera tvíþætt.  Annars vegar aðgangsgjald að auðlindinni og hins vegar aðlindagjald, þegar auðlindarenta er fyrir hendi í greininni.  Nota má framlegð, EBITDA, fyrirtækjanna sem mælikvarða á það, hvort þau hafi notið auðlindarentu, en hún er hagnaður náttúruauðlindahagnýtenda umfram hagnað annarra, sem rekja má til hinnar sérstöku aðstöðu.  Sjávarútvegsfyrirtækin eru í fjármagnsfrekri starfsemi, og þess vegna má ekki setja viðmið EBITDA síðasta árs fyrir auðlindagjald í ár lægra en 18 % af tekjum þeirra. Almennt gæti þá einföld formúla tvískipts veiðigjalds litið þannig út:

  1. Fyrri hlutann verða allir að greiða sem gjald fyrir aðgang að auðlindinni, en aðgangsgjaldið er samt tekjuháð:             AÐG=0,5 % x MVxm, þar sem MV er meðalverð, ISK/kg, á óslægðum afla og m er veiðimassinn (aflaþungi upp úr skipi).
  2. Seinni hlutann verða þeir að greiða, sem voru með meðalframlegð (EBITDA) á sama árshelmingi í fyrra yfir 18 % af tekjum, enda er auðlindarenta annars ekki talin vera fyrir hendi í fyrirtækinu:  AUG=5,0 % x MVxm x MV/500
  3. Heildarafnotagjaldið, HAG=AÐG + AUG

Þessa einföldu reglu má nota til að leggja á hvers konar afnotagjöld af náttúrunni.  Fyrir jafnræðissakir er brýnt að koma á samræmdu álagningarkerfi. 

Skaðar þetta samkeppnisstöðuna við útlönd ? Árin 2016-2017 var meðalverð af óslægðum þorski 248 ISK/kg. M.v. þetta verð hefðu veiðigjöldin orðið:

AÐG=1,2 ISK/kg, sem mundi svara til um 3 % af framlegð, ef hún er 15 %.  Þetta er ekki sligandi, þótt rekstur kunni að vera erfiður að öðru leyti:

AUG=6,2 ISK/kWh og HAG=7,4 ISK/kg, sem mundi svara til um 15 % af framlegð, ef hún er 20 %.  Þetta er umtalsvert, en ekki sligandi fyrir þokkalegan rekstur.

Með þessu móti greiða allir fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni, og þjóðin fær auðlindarentuna í sinn hlut eða a.m.k. drjúgan hluta hennar.  Það, sem meginmáli skiptir er, að það er ekki verið að blóðmjólka mjólkurkúna, heldur getur hún fitað sig í haganum og haft þannig borð fyrir báru, ef harðnar á dalnum.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrek starfsemi, sem verður að geta fjárfest mikið án þess að hleypa sér í skuldir, svo að hann viðhaldi og helzt styrki samkeppnisstöðu sína á alþjóðlegum mörkuðum.  

 

 

 


Bloggfærslur 30. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband