Er Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB meinlaus fyrir Ísland ?

Þeir, sem fullyrða, að "þriðji orkupakki ESB" sé meinlaus, eru á hálum ísi.  Leitt er að sjá Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, falla í þessa gryfju á vefsetri sínu og á FB 15.08.2018.  Hann vitnar máli sínu til stuðnings í grein í Úlfljóti 14.07.2018 eftir Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar. Að mati höfundar þessa pistils er ekkert vit í að reisa afstöðu sína til aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á téðri grein Rögnu, enda felur téð Úlfljótsgrein ekki í sér neina vitræna greiningu á því, hvað tæknilega og lagalega felst í aðild að téðu Orkusambandi (Energy Union).  

Skal nú rýna tilvitnun Björns í Rögnu:

"Í tilviki Íslands myndu heimildir ACER [eftirlitsstofnunar ESB með orkumarkaði (sic)] verða í höndum ESA [Eftirlitsstofnunar EFTA].  Þá er um afmarkaðar heimildir að ræða, sem takmarkast við ágreining eftirlitsyfirvalda, er varðar flutningslínu eða sæstreng milli landa.  Íslenzkt raforkukerfi er sem kunnugt er ekki tengt öðru ríki innan EES með sæstreng.  Því er óþarft að hafa miklar áhyggjur af þessum þætti málsins."

Þetta er eins yfirborðsleg umfjöllun um lagaheimildir og hlutverk ESA og ACER og hugsazt getur og leiðir auðvitað til kolrangrar ályktunar lesanda, sem ekki hefur séð í gegnum áróður ESB og íslenzkra ráðuneyta (utanríkis- og iðnaðar) fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi.  

Þar er fyrst til að taka, að ESA hefur engar heimildir til sjálfstæðrar meðferðar erinda frá ESB/ACER til Landsreglarans í hverju EFTA-landi, heldur er ESA sett upp sem óvirkur milliliður til þess eins að fullnægja að forminu til tveggja stoða fyrirkomulagi EES-samningsins.  Þar sem ESA hefur ekkert annað hlutverk en að ljósrita reglugerðir, tilmæli og úrskurði frá ESB/ACER og senda til Landsreglarans svo og að ljósrita skýrslur m.a. um virkni raforkumarkaðar í landinu og fylgni við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER frá Landsreglaranum og senda þær til ESB/ACER, þá verður að segja hverja sögu, eins og hún er: ESA breytir ekki nokkrum sköpuðum hlut í þessu ferli.  Það er þess vegna blekking fólgin í því að skrifa í Úlfljót, að heimildir verði í höndum ESA, sem hefur engar heimildir samkvæmt þeim lagabálki, sem hér er til umfjöllunar.  

Þetta þýðir tvennt.  Í fyrsta lagi brot á EES-samninginum, sem kveður á um tveggja stoða lausn. Það er ESB, sem er brotlegt, því að Framkvæmdastjórnin féllst ekki á neins konar heimildir til ESA, nema ljósritunarheimildir á ESA-bréfsefni.

Í öðru lagi þýðir þetta Stjórnarskrárbrot, því að valdamikið embætti er stofnað í landinu og verður á íslenzkum fjárlögum, en lýtur hvorki íslenzku framkvæmdavaldi né dómsvaldi, heldur er stjórnað af stofnun ESB, þar sem Ísland á engan fullgildan fulltrúa.  Þetta fyrirkomulag er lögfræðilegt örverpi og ómerkileg og óviðunandi meðferð á Stjórnarskrá.  Það er reyndar óskiljanlegt, að nokkur hérlendis skuli mæla þessu sviksamlega fyrirkomulagi bót.

Þegar Ragna fimbulfambar um afmarkaðar heimildir vegna ágreiningsmála út af sæstreng, þá virðist hún vera algerlega úti á þekju. Hún sleppir aðalatriði málsins, sem er Landsreglarinn.  Hans staða og hlutverk er algerlega einstætt og fráleitt í íslenzku samfélagi.  Hann mun starfa utan seilingar íslenzks framkvæmdavalds og dómsvalds og mun starfa samkvæmt Evrópugerðinni Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB.  Hlutverkið verður að koma hér á fót uppboðsmarkaði fyrir raforku að hætti ESB/ACER.  Þetta er allsendis óháð lagningu sæstrengs frá Íslandi til útlanda og furðulegt að geipa um téðan sæstreng án þess að minnast á Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER, sem Alþingi mun skuldbinda Íslendinga til að framfylgja að sínu leyti, ef þingmenn samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  

Gefin hefur verið út skrá um forgangsverkefni ESB/ACER til að ná markmiðum Kerfisþróunaráætlunar.  Hún inniheldur m.a. aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem taka á í gagnið árið 2027.  Ef áhugasamur sæstrengsfjárfestir gefur sig fram og sækir um leyfi fyrir sæstreng, sem fullnægir skilyrðum Kerfisþróunaráætlunar, þá verður ómögulegt fyrir íslenzk stjórnvöld að hindra lagningu hans, tengingu og rekstur, því að ágreiningsmál við Orkustofnun, sem verður formlegur leyfisveitandi, mun á endanum lenda fyrir EFTA-dómstólinum.  Ágreiningur á milli Landsreglara á Íslandi og á Bretlandi um rekstur strengsins verður leystur á vettvangi ACER eða fyrir gerðardómi, ef Bretar verða þá farnir úr Orkusambandi ESB.  

"Áhrifa þriðja pakkans myndi gæta hvað mest í starfsemi Orkustofnunar, einkum hvað varðar sjálfstæði sofnunarinnar við framkvæmd raforkueftirlits."

Þessi texti Rögnu orkar tvímælis, því að Orkustofnun hefur ekki raforkueftirlit með höndum, heldur er það Mannvirkjastofnun, sem sinnir því hlutverki.  Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið deila hins vegar með sér eftirliti með raforkumarkaðinum og með Landsneti.  Sú starfsemi mun flytjast til Landsreglarans, sem gefa mun út reglugerðir fyrir Landsnet og yfirfara netmála (tæknilega tengiskilmála) fyrir flutningskerfi raforku og yfirfara gjaldskrár flutningsfyrirtækisins fyrir þjónustu við almenna raforkumarkaðinn og fyrir stóriðjumarkaðinn.  

Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein.  Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum.  Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.  

 

   


Bloggfærslur 19. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband