Hvað verður um Landsvirkjun undir Landsreglara ?

Aðdáendur Evrópusambandsins (ESB) og talsmenn þess, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hafa svamlað við yfirborðið í málflutningi sínum og klifað á þeirri skoðun sinni, að innleiðing þessa lagabálks breyti mjög litlu fyrir Íslendinga.  Annaðhvort sigla slíkir undir fölsku flaggi, eða þeir hafa ekki skilið, hvað þessi mikli lagabálkur ESB snýst um.

Embætti Landsreglara (n. "Reguleringsmyndighet for energi") er brimbrjótur ESB inn á gafl orkumálanna hjá aðildarþjóðum Orkusambands ESB.  Þar eð Landsreglarinn er óháður í störfum sínum stjórnvöldum og dómsvaldi aðildarlandanna, þá getur hann nýtt heimildir sínar samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til hins ýtrasta án truflunar frá stjórnvöldum, enda verður Landsreglarinn einvörðungu háður boðvaldi ESB/ACER (Orkustofnun ESB).  Í þessu sambandi er ESA hreint aukaatriði, enda einvörðungu óvirkur milliliður ESB/ACER og Landsreglarans, án nokkurra heimilda til að hnika til stafkróki.  

Meginhlutverk Landsreglarans hérlendis samkvæmt Þriðja bálkinum verður að koma á laggirnar frjálsri samkeppni með raforku að hætti ESB, þannig að raforkumarkaður á Íslandi verði einsleitur raforkumarkaði ESB-landanna og þannig með vissum hætti aðlagaður, ef/þegar einhverjum hugnast að sækja um að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og útlanda samkvæmt tæknilegum og viðskiptalegum skilmálum, sem Landsreglarinn setur.  Vald leyfisveitandans, Orkustofnunar, til að hafna þeim streng verður ekkert, ef strengumsóknin fullnægir kröfum Landsreglarans.  

Hvað gerist hérlendis, þegar saman koma í einn pott téður Þriðji orkubálkur, samkeppnisreglur ESB og bann við ríkisstuðningi ?  Þá blasir við, að Landsvirkjun verður í skotlínu, því að innleiðing samkeppnismarkaðar er ekki möguleg, þar sem eitt fyrirtækjanna er með yfir 80 % markaðshlutdeild.  Til hvers grípur Landsreglarinn þá ?  Hann hefur víðtækar heimildir samkvæmt Þriðja orkulagabálkinum til að ryðja úr vegi hindrunum, sem í einstökum löndum koma í veg fyrir virkni samkeppnismarkaðar, og hann verður að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða a.m.k. hluta hennar, ef honum á að takast ætlunarverk sitt.  

Þar sem allt þetta umstang er til að undirbúa Ísland fyrir sameiginlegan og samtengdan raforkumarkað ESB, þá er líklegt, að önnur orkuvinnslufyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýzkalandi, hafi áhuga á að eignast hluta núverandi Landsvirkjunar.  Þar með er komið erlent tangarhald á hluta af orkuauðlindum Íslands.  Þá er ekki útilokað, að í nafni frjálsrar samkeppni verði virkjunarréttur á nýjum virkjunum boðinn út.  Með því að ganga í Orkusamband ESB bjóða menn heim óvissu um það, hvort saman geti farið heimildir Landsreglarans samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum til að tryggja hámarks skilvirkni og réttmætar aðgerðir samkvæmt Evrópurétti til að hindra fákeppni á markaði, sem saman valdi því, að Íslendingar glati úr höndum sér yfirráðum á íslenzkum raforkumarkaði í hendur evrópskra markaðsafla.  

Þann 2. ágúst 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir tvo kennara við Lagadeild Háskólans á Akureyri, Ágúst Þór Árnason og Ragnheiði Elfu Þorsteinsdóttur, undir heitinu:

"Fullveldi og auðlindir":

Greinin er rituð í tilefni af kaupum manna, sem búsettir eru erlendis, á íslenzkum landareignum.  Slíkum eignum fylgja oft hlunnindi, þ.m.t. vatnsréttindi, en hættan á að missa auðlindir landsins úr höndum landsmanna sjálfra getur verið víðar og miklu stórtækari og alvarlegri en sú, sem lögfræðingarnir gerðu að umtalsefni í grein sinni:

"Umræða þessi er mikilvæg og tímabær ekki sízt í ljósi þess áhuga, sem Íslendingar hafa sýnt því að binda í stjórnarskrá ákvæði um náttúruauðlindir.  Eign á landi fylgja ýmis réttindi, eins og til auðlindanýtingar, en flestar auðlindir Íslands eru bundnar landi.  Fullveldisréttur Íslands felur það í sér, að Ísland hefur eitt heimild til þess að setja lög og reglur og að framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu."

Þetta er athyglisverður texti.  Af honum má ráða, að höfundarnir telji Alþingi og stjórnvöld geti sett þær hömlur á kaup EES-borgara á bújörðum og eyðijörðum hérlendis, sem þeim sýnist í krafti fullveldisréttar. Er vonandi, að sem fyrst verði gerðar ráðstafanir til að félög geti ekki staðið hér að kaupum á jörðum, nema meirihlutaeigendur félags hafi fasta búsetu á a.m.k. einni jörð eða nýti a.m.k. eina jörð til atvinnurekstrar, og að jarðeignir félaga og einstaklinga verði takmarkaðar í fjölda og flatarmáli.

Miklu stórtækari breytingar kunna þó að vera í vændum á afnotarétti orkuauðlinda í landinu, ef svo fer, að Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og svo fer, að Landsreglarinn telji stöðu og stærð ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar ekki samrýmast reglum þessa lagabálks um frjálsa samkeppni á raforkumarkaði.  Væri fróðlegt að fá fram lögfræðilega skoðun frá höfundum tilvitnaðrar greinar um það, hvort Landsreglarinn geti beitt fyrir sig Evrópugerðum um samkeppnishömlur og ríkisstuðning til að krefjast sölu ríkisins á hluta hennar á frjálsum markaði og jafnvel uppskiptingar. 

Að lokum skal hér vitna til umhugsunarverðs niðurlags á umræddri grein í ljósi þeirrar markaðsvæðingar raforku, sem óhjákvæmilega mun leiða af lögleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi með hugsanlegum aflsæstreng til útlanda í kjölfarið:

"Ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í náttúru Íslands er því ákaflega vandmeðfarið.  Það þarf að gagnast, þegar upp koma óþekkt og ný vandamál, og því er mikilvægt, að það feli í sér stefnu og hugmyndir okkar um það, hvernig við viljum, að náttúruauðlindir séu nýttar, til hagsbóta hverjum og hverjum þær tilheyra.  Yfirlýsing um, að auðlindir í náttúru Íslands tilheyri íslenzku þjóðinni, felur í sér áréttingu á fullveldi Íslands yfir landi og auðlindum.  Það fer því vel á því að ræða þennan þátt fullveldisins á aldarafmæli þess." 

 


Bloggfærslur 23. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband