Hversu mikið má leggja í sölurnar ?

Innan vébanda Evrópusambandsins (ESB) var ákveðið árið 2009 að færa forræði orkumála frá einstökum ríkjum til framkvæmdastjórnar ESB.  Þetta var gert með vísun til Lissabon-sáttmálans, sem gildi tók 2009 og er stjórnarskrárígildi sambandsins.  Saminn var Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB og Orkustofnun sambandsins, ACER, sett á laggirnar 2011.  Samheiti á orkulagabálkum ESB og Orkustofnun ESB, ACER, er Orkusamband ESB (EU Energy Union).  Stofnað var til orkuskrifstofu ESB í hverju aðildarlandi Orkusambandsins, sem lýtur forystu s.k. Landsreglara. Hann tekur þátt í stjórn ACER, en Landsreglarar EFTA-landanna munu sitja þar án atkvæðisréttar.

Hlutverk Landsreglarans er að framfylgja stefnunni, sem mörkuð er með orkulögum ESB (öllum þremur lagabálkunum og þeim fjórða, sem er á leiðinni og enn fleiri munu koma) og Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER til 10 ára í senn.  Orkuskrifstofa Landsreglarans er á fjárlögum viðkomandi lands, en hún er í gjörðum sínum óháð framkvæmdavaldinu og dómsvaldi viðkomandi lands og tekur einvörðungu við fyrirmælum frá ESB/ACER.

ESB hefur lagt mikla áherzlu á, að orkustefna sambandsins og þar með ofangreint kerfi verði innleitt í EFTA-löndunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, með ESB-ríkjunum.  Þann 5. maí 2017 samþykktu EFTA-löndin það loks eftir 7 ára japl og jaml og fuður í Sameiginlegu EES-nefndinni.

Því hefur verið haldið fram hérlendis, að þetta sé smámál fyrir Íslendinga og "meinlaust" var einkunnin, sem einn gaf þessu Þriðja orkubálksmáli, og þess vegna eigi Alþingi að staðfesta gjörð Sameiginlegu EES-nefndarinnar og sýna þar með, að það standi við fjölþjóðlega samninga, sem fulltrúar landsins hafa skrifað undir. 

Á þessum málflutningi er auðvitað sá alvarlegi ljóður, að EES-samningurinn, sem Alþingi samþykkti í janúar 1993, kveður einmitt á um rétt Alþingis til að samþykkja eða synja öllum nýjum lagasetningum frá ESB samþykkis, og auðvitað getur enginn með undirskrift sinni í Brüssel skuldbundið Alþingi til að samþykkja eitt eða neitt.  Þótt Alþingi hafi hingað til aldrei notað þennan synjunarrétt sinn, hefur norska Stórþingið nokkrum sinnum gert það og mun hugsanlega gera það í nánustu framtíð af umræðu í Noregi um járnbrautartilskipun, flutningabílatilskipun og vinnumarkaðstilskipun að dæma.  Það er þess vegna alls engin goðgá eða ógnun við EES-samninginn að hafna Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Hins vegar má hverju mannsbarni ljóst vera, að samþykki Alþingi innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálkinn í EES-samninginn (þingsályktun utanríkisráðherra), þá mun magnast upp í landinu mikil andúð á EES-samninginum.  

Verður hlutverk Landsreglarans sauðmeinlaust ?  Því fer fjarri, eins og sjá má af neðangreindri upptalningu:

  • Landsreglarinn mun vinna að því að koma hér á markaðskerfi fyrir raforku að forskrift ESB/ACER, sem þýðir uppboðskerfi fyrir raforku, eins og er hið viðtekna viðskiptalíkan ESB með raforku.  Þar á bæ er raforkan vara, en ekki orkuberi úr náttúruauðlind í eigu þjóðarinnar.  Þarna er um að ræða grundvallarmun á afstöðu ESB annars vegar og Íslendinga og Norðmanna hins vegar, og þess vegna er hörð andstaða beggja þjóðanna gegn innleiðingu á hugmyndafræði ESB um orkuna á Íslandi og í Noregi.  Þekkja Alþingismenn sinn vitjunartíma ?
  • Landsreglarinn hefur eftirlit með markaðnum og sér um, að þar ríki "frjáls samkeppni" án markaðsmisnotkunar og ríkisafskipta.  Afleiðing af þessu kann að verða krafa markaðsaðila til Landsreglara um jafnari aðstöðu fyrirtækja á markaði, sem óhjákvæmilega  að ESB-rétti þýðir, að skipta verði Landsvirkjun upp og selja einhverja hluta hennar á markaði, væntanlega alþjóðlegum.
  • Í sama augnamiði kann réttur til að reisa nýjar virkjanir að verða boðinn út innan EES.  
  • Landsreglarinn semur skilmála fyrir aflsæstreng frá Íslandi til útlanda, sem verða í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER.  Verkið verður væntanlega boðið út á alþjóðlegum markaði.
  • Kerfisáætlun Landsnets verður að vera í samræmi við Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og Landsreglarinn hefur eftirlit með framkvæmdinni hjá Landsneti.  Þetta þýðir, að Landsnet verður að hanna og sækja um leyfi fyrir og setja upp flutningskerfi raforku frá virkjunum og niður að landtökustað sæstrengs, ef samningar takast um hann.  Samkvæmt reglum ACER leggst kostnaður af þessu á gjaldskrár Landsnets.  Það er verulegur kostnaður, því að líklega þarf að flytja um 1200 MW afl frá stofnkerfi landsins að sæstrengnum, og það er tæplega helmingur af uppsettu afli virkjana í landinu núna.  Þetta mun þýða talsverða hækkun á gjaldskrám Landsnets, sem kemur niður á öllum heimilum, fyrirtækjum og stofnunum. 
  • Nú hefur sú málsvörn sézt, að engin hætta sé í þessu fólgin, því að leyfisvaldið verði áfram í höndum Íslendinga.  Þetta er því miður form án innihalds, eins og sumt annað.  Á hvaða forsendum á Orkustofnun að hafna umsókn um að leyfi til að leggja aflsæstreng til Íslands, ef allir skilmálar, sem Landsreglarinn samdi, eru uppfylltir.  ESB/ACER mun líta það óhýru auga, ef íslenzk stjórnvöld leggja með höfnun umsóknar stein í götu sameiginlegrar Kerfisþróunaráætlunar.  Það er næsta víst, að umsækjandinn mun kæra slíka höfnun fyrir ESA, og þá má nærri geta, hvernig fer.

Því fer víðs fjarri, að hægt sé að halda því fram með vísun til staðreynda málsins, að innleiðing umrædds orkubálks ESB sé meinlaus fyrir Íslendinga.  Hann umturnar raforkumarkaðinum og hefur bein áhrif á stjórnun Landsnets.  Þetta mun örugglega valda mun breytilegra raforkuverði en nú er.  Á tímum offramboðs orku gæti verðið orðið lægra, en hækkar umtalsvert, ef hillir undir skort á afli eða orku.

Eftir tengingu landsins við raforkukerfi ESB/ACER í Evrópu, þá mun raforkuverðið hér draga dám af raforkuverðinu á raforkumarkaði ESB, sem sveiflast eftir framboði og eftirspurn rafmagns og verði á eldsneyti.  Verðið mun þá líklega sveiflast enn meira yfir sólarhringinn en án strengs og verða að jafnaði töluvert hærra en nú er.  Þetta hefur neikvæð áhrif á kaupmátt heimilanna og hefur þungbær áhrif á samkeppnishæfni sumra fyrirtækja.  

Höfundur þessa vefpistils hefur gagnrýnt þá, sem fara fljótt yfir sögu og gera lítið úr neikvæðum áhrifum Þriðja orkumarkaðslagabálksins á löggjöf landsins, rafkerfi, kaupmátt og hagkerfið.  Þeir hinir sömu hafa aldrei bent á neina kosti við þennan orkubálk fyrir landsmenn.  Ekki er hægt að telja með hjáróma rödd, sem lét í ljós, að stjórnun raforkukerfisins myndi batna við að útlendingar tækju við því.  Þessi lagabálkur verður Íslendingum dýrkeyptastur allra innleiddra lagabálka ESB.  Svona mikið má ekki leggja í sölurnar til þess eins að þóknast stjórnendum ESB og EFTA-landanna í EES.

Höfundur Staksteina sér fyrir sér Icesave-málið, þegar þessi mál eru til umræðu, og nefnir Staksteina-dálkinn 21. ágúst 2018: "Icesave, taka tvö":

"Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, bendir réttilega á stórgallaða málsvörn Rögnu Árnadóttur um lögleiðingu gerðar um orkumarkað.

Ragna var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og gerði aldrei, svo vitað sé, minnstu athugasemd við verstu framgöngu hennar, og var þó af mörgu að taka.

Í viðurkenningu fyrir það fékk Ragna stöðu aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar án auglýsingar.  

Bjarni bendir á það augljósa, að það stefnir í, að ríkisstjórnin núverandi brjóti stjórnarskrá landsins með lögleiðingu á Evrópugerð um Þriðja orkumarkað og stofni til valds yfir innlendum málum, sem er utan og ofan við framkvæmda- og dómsvald landsins.

Bjarni lýkur athugasemdum sínum svo:

"Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi Rögnu Árnadóttur í téðri Úlfljótsgrein.

Hún hefur kosið að fjalla með ótrúlega yfirborðslegum hætti um stórmál á sviði íslenzks fullveldis og á sviði orkumála með þeim afleiðingum, að hún hefur villt um fyrir fólki, sem ekki hefur lagt sig eftir kjarna þessa máls eftir öðrum leiðum.  

Þetta er í anda málflutnings iðnaðarráðuneytisins um þetta efni og lögfræðilega álitsgerð fyrir ráðuneytið, sem fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá ESA var fenginn til að semja.""

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 27. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband