Efnilegasti vaxtarsprotinn

Það hefur komið fram hjá virtum hagfræðingum, hérlendum, að til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og núverandi lífskjör þurfi útflutningstekjur landsins að vaxa um 50 mrdISK/ár að jafnaði næstu 2 áratugina. Að öðrum kosti verður sjálfbær hagvöxtur ekki nægilegur til að hér verði viðunandi atvinnustig með núverandi kaupmætti, þ.e. atvinnuleysi undir 3 % af vinnuaflinu.

Þetta er raunhæft markmið næsta áratuginn, ef stjórnvöld gæta að sér varðandi vöxt ríkisbáknsins og þar með skattheimtu, svo að ekki sé reynt að spá lengra fram í tímann.  Samkvæmt spá Sjávarklasans mun Bláa hagkerfið, sem er haftengd starfsemi í landinu, auka útflutning sinn um 30 mrdISK/ár eða 60 % af því, sem landið þarf á að halda.  Þar inni er fiskeldið með 7 mrdISK/ár eða 14 % af nauðsynlegri heildaraukningu. Öðrum sprotum í Bláa hagkerfinu er spáð minni vexti, framleiðendum sjálfvirknibúnaðar 4,4 mrdISK/ár, fullnýtingu aukaafurða og líftækni 3,7 mrdISK/ár, þara og þörungamjöli 0,8 mrdISK/ár og haftengdri ferðaþjónustu er spáð 0,5 mrdISK/ár vexti.

Það, sem vantað hefur í íslenzkt atvinnulíf upp á síðkastið, og er reyndar bannað í sjávarútveginum, eru fjárfestingar erlendra fagfjárfesta í atvinnulífinu, en þær hafa samt raungerzt í sjókvíaeldi fyrir lax hér við land undanfarinn áratug með ágætum árangri.  Þegar starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg, hefur hún lent í mótbyr öflugs þrýstihóps, sem félag veiðiréttarhafa í ám og vötnum landsins hefur forystu fyrir. Nú síðast er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í skotlínu þessara afla fyrir afnám banns við kvíum nærri árósum, sem verður þó úrelt með reglugerð um áhættugreiningu á undan staðsetningu og starfrækslu slíkra kvía.  Varla telja veiðiréttarhafar, að Hafrannsóknarstofnun kunni ekki að meta áhættu lúsasmits !

Hvað segja kunnáttumenn í Noregi um langa reynslu Norðmanna af þessari starfsemi ?  Í Fréttablaðinu 20. desember 2019 birtist áhugavert viðtal við Íslending, starfandi í Noregi:

"Gunnar Davíðsson starfar sem deildarstjóri fyrir fylkisstjórnina í Troms í Noregi, næstnyrzta fylki landsins.  Þar hefur fiskeldi aukizt jafnt og þétt undanfarin 15 ár og er nú á meðal 10 stærstu atvinnuveganna í fylkinu.  Fylkisstjórnin sér um leyfisveitingu fyrir fiskeldisstöðvarnar, og þekkir Gunnar, sem hefur búið í Noregi síðan 1983, vel til í þeim efnum."

Á Íslandi eru miklu meiri hömlur lagðar á sjókvíaeldi laxfiska en í Noregi.  Á Íslandi er það einvörðungu leyft, þar sem ekki eru taldir vera neinir upprunalegir laxastofnar í ám með ósum að viðkomandi firði, en í Noregi er það leyft meðfram allri strönd landsins.  Á Íslandi eru þetta Vestfirðir, Eyjafjörður og Austfirðir.  Á Vestfjörðum námu markaðssettar afurðir sjókvíaeldis á laxi um 12 kt árið 2019, og má áætla andvirðið 10 mrdISK, og er það nánast allt í erlendum gjaldeyri.  Má ætla, að laxeldi í sjó sé nú þegar aðaltekjulind Vestfirðinga.  Á grundvelli núgildandi áhættumats Hafrannsóknarstofnunar má a.m.k. tvöfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum, og ef stofnunin endurskoðar mat sitt og leyfir laxeldi í Ísafjarðardjúpi, verður hægt að fimmfalda þessa framleiðslu á Vestfjörðum og enn meir, ef tök verða á að setja upp úthafseldisstöð úti fyrir Vestfjörðum í framtíðinni.

Það er slíkur kraftur í þessum vaxtarsprota á Vestfjörðum, að alger nauðsyn er á að hraða innviðauppbyggingu þar. Þar er fyrirferðamest þörfin á öruggri raforkuafhendingu og boðlegum vegtengingum á milli Norður- og Suðurfjarðanna og Suðurfjarðanna við Dalina og Hringveginn vegna þess, að aukin raforkuþörf og flutningaþörf fylgir fyrirsjáanlegum vexti atvinnulífs á Vestfjörðum.

Beita þarf beztu þekkingu við hönnun snjóflóðavarna á Vestfjörðum og sjóflóðavarna alls staðar í þéttbýli á landinu og ekki að einskorða varnirnar við 50 manns eða meira, eins og gert er með reglugerð umhverfisráðherra frá 2014.  Það er nóg fé til í Ofanflóðasjóði til að ljúka þessu verkefni með sómasamlegum hætti fyrir 2030, og stjórnarmaður þar (Halldór Halldórsson) hefur upplýst, að a.m.k. 4 verkefni séu þegar fullhönnuð, en bíði leyfis til framkvæmda frá fjárveitingavaldinu.  Það eru fáheyrðir stjórnarhættir að draga lappirnar við framkvæmdir, sem snúast um líf eða dauða.  Stjórn þessa sjóðs ætti sjálf að vera ábyrg fyrir ráðstöfun þess eyrnamerkta fjár, sem í hann berst.  Nú er kjörtími til slíkra framkvæmda og innviðaframkvæmda, sem nefndar voru.  

Á Austfjörðum námu afurðir sjókvíaeldis á laxi um 10 kt árið 2019 og geta a.m.k. þrefaldazt.  Afurðaverðmætið var þá um 8 mrdISK.  Á Reyðarfirði er stærsta álverksmiðja landsins, og gætu tekjur hennar árið 2019 hafa numið um tífaldri þessari upphæð.  Um samsetningu atvinnulífs á Austfjörðum og Vestfjörðum er þess vegna ólíku saman að jafna, en laxeldið gegnir samt mikilvægu hlutverki á Austfjörðum, einkum á Suðurfjörðunum, þar sem það hefur fyllt í skarð brokkgengs sjávarútvegs og tryggt byggðafestu, t.d. á hinum gamla og undurfagra verzlunarstað Djúpavogi.  

Í Troms er mikið sjókvíaeldi á laxi á íslenzkan mælikvarða, og skal nú áfram vitna í Fréttablaðið:

"Á síðasta áratug hefur eldisframleiðslan [í Troms] tvöfaldazt, úr 110 kt/ár upp í tæplega 200 kt/ár. Að mati Gunnars er svæðið að töluverðu leyti samanburðarhæft við bæði Vestfirði og Austfirði á Íslandi.  Gunnar segir, að fiskeldið þjóni mikilvægu hlutverki, hvað byggðastefnu varðar.

"Áhrif fiskeldisins á svæðið eru mikil.  Með því koma störf, sem ekki er hægt að flytja í bæina eða suður eftir, störf, sem þarf að fylla á í þeim byggðarlögum, þar sem eldið er", segir Gunnar.  Bæði störf, sem þarfnast framhaldsmenntunar, s.s. sjávarlíffræðinga og dýralækna, og önnur.  

"Síðan hefur þetta mikil efnahagsleg áhrif fyrir þau fyrirtæki, sem þjónusta eldið, s.s. fraktflutninga, köfunarþjónustu, bátaþjónustu, viðgerðir o.fl. Hvert starf í eldinu skapar 3 eða 4 störf í nærumhverfinu."

 Á meðan reksturinn gengur vel, fylgir fiskeldinu mikið atvinnuöryggi, meira en sjávarútvegi, því að fiskeldið er í minna mæli háð duttlungum náttúrunnar, og fiskeldið verður ekki auðveldlega flutt í annað byggðarlag.  Störfin eru reglubundin og fjölbreytileg og henta báðum kynjum. Spáð er hækkandi verði afurðanna, sem styrkir fyrirtækin, gerir þeim kleift að fjárfesta og greiða sómasamleg laun til framtíðar litið.  Aldursdreifing byggðanna í kring verður eðlileg með þörf á skólum og kennurum, heilsugæzlu, hjúkrunarfræðingum, læknum og dýralæknum.  Fyrir mannlífið í dreifðum byggðum landsins er gríðarlegur fengur að fiskeldinu.  Hafrannsóknarstofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun tryggja, að starfsemin sé stunduð með sjálfbærum og heilnæmum hætti, enda bjóða aðstæður hérlendis með tiltölulega köldum sjó og sterkum straumum upp á umhverfisvænan rekstur með sáralítilli, ef nokkurri, lyfja- eða eiturefnanotkun.  Þetta er grundvallaratriði, þegar íslenzkt laxeldi er borið saman við t.d. skozkt laxeldi. 

"Hvað Ísland varðar telur Gunnar mikilvægt að hlúa að fiskeldinu, til þess að greinin geti komið undir sig fótunum.  Norðmenn spila stóra rullu í íslenzka eldinu, og eru nú 4 norsk fyrirtæki, sem starfa hér.  Fiskeldi hefur langt í frá verið óumdeilt á Íslandi, sérstaklega á meðal laxveiðimanna, sem telja eldið ógna hreinleika villta laxastofnsins.

Gunnar segir, að líkt og hér séu alltaf einhverjir, sem finni eldinu allt til foráttu í Noregi.  

"Engin atvinnuþróun verður án þess, að það kosti eitthvað í samfélaginu.  Okkar reynsla er, að fiskeldi sé þó sú grein, sem skapi hvað minnsta truflun í kringum sig", segir hann.  "Þó að talið sé, að eldið sé til óþurftar fyrir villtu laxveiðina, þá er samt sem áður staðreyndin sú, að gotstærð allra villilaxastofna er sú sama og fyrir 30-40 árum.  Ef áhrif eldisins eru einhver, þá eru þau a.m.k. ekki mikil, þegar á heildina er litið."  [Undirstr. BJo.]

Í Troms eru fiskar ræktaðir í sjókvíum og landeldi enn ekki hafið.  "Fyrsta landeldisstöðin er rétt að byrja og verður væntanlega komin í gagnið á næsta ári."

Lætin í veiðiréttarhöfum villtra laxa o.fl. eru stormur í vatnsglasi, þegar litið er til þess, að til að hafa einhver (neikvæð) áhrif á erfðaeiginleika villtra íslenzkra stofna þarf strok úr kvíum hér við land að vera margfalt á við það, sem búast má við úr sjókvíaeldi því, sem leyft er samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar, og standa samfellt yfir í á annan áratug.  Það er reyndar nægilega ólíklegt til þess að líklegt má telja, að áhættumatið hérlendis teygi sig fljótlega upp í burðarþolsmörk viðkomandi fjarðar.

Málflutningurinn um hættuna á erfðabreytingum íslenzkra laxastofna tekur á sig fjarstæðukennda mynd, þegar þess er gætt, að sumir handhafar veiðiréttinda á laxi hafa stundað "kynbætur" í nokkrum ám með íslenzkum laxi af öðrum stofnum.  Þá er virðingin fyrir margbreytileika íslenzkra laxastofna farin veg allrar veraldar.

Hvernig hafa íslenzk yfirvöld hlúð að þessum vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs ?  Um það mátti lesa í greininni,

"Auðlindagjald frá áramótum": 

Gunnar Davíðsson, sem mikla reynslu hafur af starfsemi fiskeldisfyrirtækja í Noregi, lagði áherzlu á það í ofannefndu viðtali, að íslenzk yfirvöld yrðu að hlúa að þessum íslenzka atvinnusprota, á meðan hann er að komast á legg.  Því virðast þau því miður ekki alls kostar fús til að fylgja vegna varasamrar skattagríðar sinnar.  Fyrir hönd eldisfyrirtækjanna eru höfð uppi varnaðarorð við því, að yfirvöldin fari offari:

"Fyrstu árin fellur til mikill kostnaður við margvíslega fjárfestingu og uppbyggingu á lífmassa.  Á þessum tíma greiða fyrirtækin þó í Umhverfissjóðinn; á næsta ári [2020] 66 % hærra gjald en í ár.  Slík gjaldtaka bitnar því hlutfallslega þyngra á fyrirtækjum á uppbyggingarskeiði."

Stofn þessa gjalds í Umhverfissjóð eru útgefin leyfi óháð eiginlegri framleiðslu.  Þess háttar skattheimta hvetur vissulega til hámarksnýtingar á eldissvæðinu, sem leyfin (starfs-og rekstrarleyfi) taka til, en  vafamál er, að slíkt sé hlutverk yfirvalda.  Þessu gjaldi ætti þess vegna að þrepskipta eftir fjölda fiska í eldiskvíum sem hlutfall af hámarks leyfilegum fjölda.

Hitt gjaldið er auðlindagjald í Fiskeldissjóð og er það háð massa slátraðs fiskjar á ári og "meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi frá ágúst til október næst fyrir ákvörðunardag". 

"Þegar fyrirtækin eru komin á þá stöðu að fullnýta leyfi, og hinn nýi, sértæki skattur á fiskeldisfyrirtæki, er að fullu kominn til framkvæmda, má ætla, að sérstök skattheimta ríkisins á fiskeldisfyrirtæki nemi um 27 ISK/kg, staðhæfir SFS.  "Þá er ótalin önnur almenn skattheimta á atvinnurekstur auk margs konar gjaldheimtu sveitarfélaga, sem í ýmsum tilvikum er verulega umfram það, sem þekkist í ýmsum samkeppnislöndum okkar.  

Það gefur auga leið, að skattheimta af þessu tagi mun hafa áhrif á rekstur fyrirtækjanna, samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum og getu þeirra til fjárfestinga til lengri og skemmri tíma."

Ísland er hákostnaðarland í alþjóðlegu samhengi, og þess vegna verða stjórnvöld að ganga sérstaklega hægt um gleðinnar dyr, þegar kemur að hlut þeirra við að bæta við kostnað fyrirtækja með sértækri skattheimtu.  Þegar tekið er tillit til byrða af bæði Umhverfissjóði og Fiskeldissjóði fyrir fiskeldisfyrirtækin, má ætla, að þessi sértæku gjöld muni nema meiru en 5 % af framlegð fyrirtækjanna og verða þess vegna afar íþyngjandi. Á sama tíma er fyrirtækjunum þröngur stakkur skorinn m.v. samkeppnisaðilana. Fyrirtækjunum er þess vegna nauðsynlegt að fá leyfi til að auka framleiðslu sína og þar með framleiðni upp að burðarþolsmörkum fjarðanna, þar sem þessi starfsemi á annað borð er leyfð, nema skýrar niðurstöður áhættugreiningar Hafrannsóknarstofnunar setji fiskafjölda eða lífmassa frekari skorður.  Núverandi niðurstöður um Ísafjarðardjúp eru t.d. ekki skýrar.

 

 

 


Bloggfærslur 30. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband