Stríð Carls Baudenbachers við norska stjórnkerfið

Það hefur lengi verið vitað um óvild á milli Carls I. Baudenbachers (CIB),  fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn, og norskra dómara, en fáir áttað sig á rótum deilna þeirra í millum.  Nú hefur CIB með eftirminnilegum hætti varpað ljósi á inntak deilumálsins í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, sem hann nefndi:

"EES í kreppu".

Heiti greinarinnar er réttnefni á ástandinu.  Í EES-samstarfi EFTA-ríkjanna þriggja, Noregs, Íslands og Liechtensteins, fara Norðmenn sínu fram án þess að skeyta um grundvallaratriði Evrópuréttar, ef þau stangast á við túlkun norskra embættismanna, dómara og stjórnmálamanna, á "eðlilegum" norskum hagsmunum. Ríkislögmaður Noregs (Regjeringsadvokaten) gefur tóninn í þessum efnum. Með öðrum orðum reka Norðmenn skefjalausa stórveldisstefnu innan EES-samstarfsins í krafti fjármuna sinna, og er þetta oft á kostnað hinna EFTA-ríkjanna að mati CIB.  Framkvæmdastjórn ESB hefur látið þessi brot viðgangast vegna gríðarlegra fjárframlaga Noregs til sjóða ESB. 

Þessi staða er með öllu óboðleg fyrir Ísland og sýnir með öðru, hversu óeðlilegt þetta EES-samstarf er fyrir sjálfstæða þjóð.

Norðmenn virðast í krafti auðs hafa tekið sér svigrúm til aðgerða.  Þeir kalla þetta sjálfir "handlingsrom", en CIB nefnir þetta fyrirbrigði á ensku "room for manoeuvre", og þýðandi greinarinnar nefnir þetta "svigrúm til mats", sem er ekki bein þýðing, en nær þó norsku hugsuninni þokkalega, þ.e. Norðmenn áskilja sér svigrúm til að meta í hverju tilviki fyrir sig, hvort og hvernig EES-málefni samræmist hagsmunum norska ríkisins.  Þetta svigrúm hafa hinar EFTA-þjóðirnar ekki tekið sér, og þess vegna hafa Norðmenn sett sig skör hærra en okkur Íslendinga innan EES samkvæmt CIB.

Hvað skrifaði CIB um "aðgerðasvigrúm" Norðmanna.  Hann er ekki þekktur fyrir að fara með fleipur á opinberum vettvangi:  

"Undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar [á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu - innsk. BJo] var sett fram í Ósló stefna, sem kölluð hefur verið "Svigrúm til mats" (e. room for manoeuvre, RFM) og fól í sér að styðja með virkum hætti við hagsmuni Noregs á öllum sviðum, eins og framast væri unnt.  RFM er heildstæð stefna, sem hefur ekki einungis áhrif á túlkun EES-reglna af hálfu norskra stjórnvalda og dómstóla.  Lögmætir hagsmunir borgara og fyrirtækja mæta afgangi; meintir þjóðarhagsmunir norska ríkisins eru framar öllu.  RFM hefur einnig haft áhrif á samsetningu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins auk samskipta Norðmanna við þessar tvær stofnanir. Miklu máli skiptir að geta náð samkomulagi um deiluefni án afskipta Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins.  Eftirlitsstofnunin fylgir þessu, þar sem hún hefur í mesta lagi einu sinni á ári höfðað mál gegn einhverju af EES/EFTA-ríkjunum þremur. 

EFTA-dómstóllinn hefur jafnframt verið sniðgenginn með því að óska eftir, að norskir dómstólar haldi þeim málum innanlands, sem tengjast EES, þ.e. að þeir leiti ekki ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum.  Þessi stefna ásamt öðru leiddi til sniðgöngu af hálfu Hæstaréttar Noregs við að afla ráðgefandi álits frá dómstólnum, sem stóð yfir í 2,5 ár (frá 2012-2014).   Ef máli er engu að síður vísað til EFTA-dómstólsins og ríkislögmaður Noregs er ekki sáttur við niðurstöðuna, mun hann, af hvaða átyllu sem er, mælast til þess, að norski dómstóllinn fari ekki eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins.  Með því færir ríkislögmaður sér í nyt þá staðreynd, að norskir dómarar, ólíkt kollegum sínum á Íslandi og í Liechtenstein, eiga erfitt með að samþykkja meðalhófsreglu  Evrópuréttar.  Hið hefðbundna norska viðhorf er, að  nægjanlegt sé fyrir inngripi ríkisins í grundvallarréttindi- og frelsi, að það sé "eðlilegt", en í því felst ekki krafa um, að það sé "nauðsynlegt".  

Grundvallarregla í samskiptum manna og þjóða er, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.  Það er frágangssök fyrir þetta dæmalausa EES-samstarf, að nú hefur fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn afhjúpað, að því fer fjarri innan EES, heldur njóta Norðmenn þeirra sérkjara að ákveða sjálfir, hvenær norskir dómstólar hlíta fordæmi þessa dómstóls.  Norðmenn hafa komizt upp með þessa hegðun, af því að þeir borga 97 % af gjaldkröfu ESB á hendur EFTA-ríkjunum fyrir EES-samstarfið. Þetta er um 10 % meira en þeim ber skylda til samkvæmt höfðatölu. 

Íslendingar hafa margir hverjir verið sáróánægðir með suma úrskurði EFTA-dómstólsins, og hann hefur m.a. hnekkt lagasetningu Alþingis, sem hefði verið ástæða til að reisa burst við. Embættismannakerfinu íslenzka hlýtur að hafa verið ljóst, hvernig málum var háttað í Noregi, en það fýldi ekki grön við dóminum, heldur bukkaði sig og beygði.  Nú er komið að því að vinda ofan af þessari vitleysu með vísun til fordæma frá Noregi. 

Nefna má EFTA-dóminn um, að íslenzku lögin frá 2009 um bann við innflutningi á ófrosnu keti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum, brjóti í bága við EES-samninginn og fjórfrelsið.  Þegar í stað á að innleiða inntak þessara laga að nýju með vísun til þjóðaröryggis í tengslum við varnir gegn smitsjúkdómum. Því er spáð, að fjölónæmir sýklar verði á næstu árum skaðræðislegri vágestir en veirur á borð við SARS-CoV-2 í manntjóni mælt.

 Það er hafin deila á milli ESA og Noregs um úthlutun nýtingarréttar á náttúruauðlindum í eigu ríkisins.  ESA mun líklega vísa deilumálinu til EFTA-dómstólsins og hann dæma Noregi í óhag, en norski ríkislögmaðurinn mun vafalítið beina því til norskra dómstóla, að í nafni RFM skuli þeir virða dóminn að vettugi.  Þar með verður hægt að skera Íslendinga úr snörunni, sem íslenzkir embættismenn og ráðherrar flæktu landsmenn í með klaufaskap og undirlægjuhætti 2016. 

Nokkru síðar ritar CIB:

"Þar sem dómstólar á Íslandi og í Liechtenstein hneigjast til þess að hlíta niðurstöðum EFTA-dómstólsins, er ójafnvægi innan EFTA-ríkjanna þriggja, sem kemur niður á þeim tveimur smærri."

Hér er mjög vægt að orði kveðið um grafalvarlegt mál.  CIB hefur flett ofan af gegnumrotnu samstarfi tveggja kotkarla við höfðingja, sem heldur kónginum góðum með fjárfúlgum til hans.  EES-samstarfið er ólífvænlegt með öllu fyrir sjálfstæðar þjóðir.  Þetta "samstarf" þarf að leysa af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningum við Breta og ESB í fyllingu tímans. Við það er reyndar vaxandi stuðningur í Noregi. Ef EFTA vill ekki beita sér fyrir slíkum samningum, eins og Stórþingið kann þó að verða áfram um eftir þingkosningarnar haustið 2021 í Noregi, þá verður íslenzka utanríkisþjónustan að girða sig í brók og fara með slíka samningagerð fyrir Íslands hönd gagnvart Bretlandi og ESB. 

 


Bloggfærslur 15. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband