Úrtölumenn og dómsdagsspár

Úrtölumenn um nýtingu sjálfbærra orkulinda landsins hafa glatað trúverðugleika í augum margra með framferði sínu, sem einkennist af fjandskap gegn meiri orkunotkun og draumórum um afturhvarf til fortíðar með minni neyzlu og að sjálfsögðu minni velferðarþjónustu, enda er aukin raforkunotkun forsenda meiri velferðar hjá vaxandi þjóð, þar sem meðalaldur fer hækkandi.

Biblía þessara úrtölumanna er um sextugt kver, "Limits to Growth-Endimörk vaxtar", sem boðaði einmitt nauðsyn þess fyrir jörðina, að fólk á Vesturlöndum drægi verulega úr neyzlu sinni hið snarasta, því að annars væri voðinn vís og margar auðlindir jarðar yrðu upp urnar fyrir lok 20. aldarinnar.  Ekkert gekk þar eftir. 

Það gleymdist við samningu þessa kvers, að tæknin er í stöðugri þróun vegna samkeppni markaðsbúskaparins, og tæknin hefur bætt nýtnina við nýtinguna, fundið staðgönguefni og aukið skilvirkni við leit.  Heimurinn er þó ekki fullkominn, og fyrir tilverknað fáfróðra stjórnmálamanna hefur ríkisvaldið víða beint þróuninni inn á rangar brautir. Sennilega var þessi fráleita kenning sett á koppinn til að veikja auðhyggjuna (kapítalismann) í kalda stríðinu við kommúnismann, sem alls staðar hefur mjög litla framleiðslugetu m.v. auðhyggjukerfið, nema í Kína, þar sem kommúnistaflokkurinn hefur virkjað kapítalismann á framleiðslusviðinu og viðskiptasviðinu, en stundar áfram valdaeinokun og skoðanakúgun á stjórnmálasviðinu auk þess að vera öryggisógn í Suð-Austur-Asíu, sem kremur nú lýðréttindi undir hælnum í Hong Kong og ógnar fullveldi Taiwan, sem á fullan rétt á sjálfstæðri tilveru, enda eru langflestir íbúanna þess sinnis. 

Dæmi um ranga stefnumörkun yfirvalda víða um heim er, hvernig raforkuvinnslan fer fram. Hér á landi þó, hvernig hún fer ekki fram þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir.  Stjórnvöld í ýmsum löndum hafa bannfært kjarnorkuver, stundum í kjölfar óhappa, og eftirlitsaðilar hafa stöðugt fært sig upp á skaptið, þannig að öryggiskröfur eru í sumum tilvikum komnar út í öfgar og hafa valdið svo óheyrilegum viðbótar kostnaði og töfum að óþörfu, að raforka kjarnorkuveranna verður mjög dýr á meðan verið er að greiða upp fjárfestingarnar.  Fyrir vikið hefur kjarnorkuverum á Vesturlöndum farið fækkandi á þessari öld, þótt viðsnúningur sé í vændum með tækniþróun og viðhorfsbreytingum, og hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu er nú aðeins um 10 % á heimsvísu, en þó t.d. um 20 % í Bandaríkjunum og 50 % í Frakklandi.

Kjarnorkan er eini raunhæfi valkosturinn til að leysa kolaorkuver af hólmi og þannig að draga úr loftmengun og koltvíildislosun frá raforkuverum. 

Aftur á móti hafa stjórnvöld, oft þau sömu og lagzt hafa gegn kjarnorku, hvatt til og niðurgreitt orku frá vindorkuverum.  Það er goðsögn, að vindmyllur séu umhverfisvænar.  Þær leggja hald á mikið land og raforkuvinnsla þeirra er óskilvirk.  Nýtingartíminn á Íslandi virðist vera um 40 %, sem árlega svarar til 4,8 mánaða á fullum afköstum og 7,2 mánaða á engum afköstum, en yfirleitt er hann undir 30 % annars staðar á landi (meiri nýting úti fyrir ströndu).

  Mikið af málmum, sumum sjaldgæfum, fer í vindmyllur.  T.d. þarf 6 MW vindmylla (algeng stærð úti fyrir ströndu) 65 t af Cu, og til að vinna þann kopar úr jörðu þarf að grafa upp um 50 kt úr námunni.  Þetta er dæmi um óskynsamlegan ágang manna á náttúruna, sem ekki er hægt að mæla bót, því að þennan kopar mætti nota með skilvirkari og hagkvæmari hætti, en ríkisvaldið í mörgum löndum hefur þarna skekkt markaðinn og hvatt til námugraftar með niðurgreiðslu orkuverðs frá vindmyllum, sem sums staðar hefur valdið óafturkræfum landspjöllum og mengun jarðvatns, t.d. í Chile. 

Þann 23. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Hauk Ágústsson, kennara.  Þar voru raktir nokkrir heimsendaspádómar, sem auðvitað hafa allir orðið sér til skammar.  Greinin hét:

"Brostnir spádómar",

og hún endaði þannig:

"Enn dynur á almenningi hræðsluáróður; þessa dagana sprottinn af COP26-ráðstefnunni í Glasgow í Skotlandi.  Í ljósi liðins tíma og brostinna spádóma - er ekki rétt að gjalda varhug við þeim upphrópunum, yfirlýsingum og áróðri, sem þaðan berst ?" 

Svarið er jú og dugir að líta á heildarmynd málatilbúnaðarins til að fyllast grunsemdum um, að fiskur liggi þar undir steini.  Þar er aldrei minnzt á neina raunhæfa lausn á vandanum, en bara hamrað á, að þjóðir heims verði að draga úr losun koltvíildis, annars líði heimurinn, eins og við þekkjum hann, undir lok.  Þetta hefur þó ekki reynzt árangursríkara en svo, að losun flestra ríkja heims 2021 mun verða meiri en á ári Parísarsamkomulagsins, 2015.  Hvers vegna er ekki eytt neinu púðri í að setja á kolefnisgjald um allan heim, þar sem greitt yrði fyrir hvert t losunar CO2 ? Þá kæmi fjárhagslegur hvati til breytinga til skjalanna.  

Hvers vegna hljómar IPCC eins og trúarsöfnuður, þar sem aðeins ein túlkun er leyfð ?  Trúverðugum vísindamönnum á borð við prófessor John Christy, loftslagsfræðing við UAH-University of Alabama-Huntsville - og skoðanasystkini hans er úthýst úr skýrslum IPCC.  Hann og félagar hans búa þó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á þróun hitafars í lofthjúpi jarðar og nákvæmustu mæligögnum, sem völ er á um hitastigið í lofthjúpinum í um 4 undanfarna áratugi. Niðurstöður hans eru á allt öðru róli en niðurstöður IPCC, sem veifar í sífellu ógn um allt að 2,5°C hlýnun 1950-2080, en gervihnattamælingar, sem unnið hefur verið úr á UAH, benda til hitastiguls 0,14°C/10 ár, sem með einfaldasta framreikningi gefur 1,4°C hlýnun 1980-2080. 

Þar að auki bendir ýmislegt til, að þetta sé bara eðlileg sveifla, sem muni ganga til baka á næstu öld, enda er meiri hætta á yfirvofandi kuldaskeiði en hlýskeiði á jörðunni í sögulegu ljósi.  Tölfræðingar, sem rannsakað hafa hitastigsþróunina í 2000 undanfarin ár með árhringjarannsóknum í trjám, sjá enga óeðlilega þróun undanfarna áratugi.  Hitastigið hafi allt þetta 2000 ára tímabil sveiflazt hægt um fast meðaltal.  Gagnrýna tölfræðingarnir óburðuga meðhöndlun IPCC á tímaröðum.  Þetta kom fram í Morgunblaðsgrein Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ, 14.10.2021,  og lesa má um hér:https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .

Einn af þeim, sem dyggilegast hafa alla tíð stutt boðskap IPCC-Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna hérlendis - er Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins.  Hann skrifar tíðum í Morgunblaðið áhugaverðar greinar, og ein af greinum hans birtist þar 23. nóvember 2021 undir spennuþrunginni fyrirsögn:

"Nú reynir á gjörvalla heimsbyggðina".

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:

"Í Glasgow var samþykkt sú stefna að takmarka meðaltalshlýnun lofthjúpsins við 1,5°C í stað 2°C.  Mikilvægar yfirlýsingar voru gefnar um að stöðva eyðingu skóga og vinna sérstaklega gegn losun metans.  Jarðefnaeldsneyti var nú brennimerkt sem helzti skaðvaldurinn með kol í fararbroddi. Indland, sem keppir við Kína í kolanotkun, varð sér til minnkunar með því að krefjast á 11. stundu breytinga á þeirri áherzlu.  Fjöldi ríkja, stórra og smárra, hafði í aðdraganda þessa fundar gefið út fyrirheit um að draga stórlega úr losun CO2 fram til ársins 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir eða um miðja öldina. Þar hefur Ísland sett markið við árið 2040."

Í sannleika sagt er þetta eintómt froðusnakk snjórnmálamanna og búrókrata þeirra, sem virðist skorta allt jarðsamband.  Dettur einhverjum í hug, að árangursríkt geti reynzt að hóa saman þúsundum stjórnmálamanna, búrókrata og öðrum, til að gefa út yfirlýsingar um, að þeir hyggist fækka tilteknum glæpum um einhverja hlutfallstölu (%) í sínu landi og að heildarfjölda slíkra glæpa í heiminum fækki þá úr áður aðstefndu marki í lægra mark, þótt þeim fjölgi enn þá ?

Hafa borizt einhverjar fréttir frá Gljáskógum um, að á COP-26 hafi tekizt að ná alþjóðlegu samkomulagi um, hvernig meta á koltvíildisbindingu trjáa og eigendur trjánna geti síðan selt þessa bindingu á alþjóðlegum koltvíildismarkaði ?  Nei, ekkert vitrænt í þá veru hefur birzt.  Slíkt gæti samt snúið við eyðingu regnskóga og annarra skóga og lagt grunninn að mikilli aukningu bindingar á koltvíildi, því að skógurinn yrði verðmætari standandi en felldur.  Nei, þess í stað eru gefnar út einhverjar innihaldslausar yfirlýsingar um "að stöðva eyðingu skóga".  Þessu fólki er ekki sjálfrátt, enda er árangurinn eftir því.  

Í stað þess að setja á kolefnisgjald á heimsvísu, er jarðefnaeldsneytið brennimerkt.  Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ?  Íbúar Norður-Indlands standa frammi fyrir grafalvarlegri lífsógn.  16 % allra dauðsfalla þar eru vegna loftmengunar, en aðeins 10 % þessarar mengunar stafar frá kolakyntum raforkuverum.  Kol eru notuð innanhúss, annar eldsneytisbruni er mikill, og líkbrennslur menga gífurlega.  Jarðefnaeldsneytið er mikill heilsuskaðvaldur.  

Nýja íslenzka ríkisstjórnin, Hringekjan, eða hvað menn kalla þetta 2. ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, hefur hent í Mörlandann nýju markmiði, sem er 55 % samdráttur koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990.  Fyrra markmiði fylgdi aðgerðaáætlun, þar sem botninn var suður í Borgarfirði.  Auðvitað er engin komin enn frá Hringekjunni, en til að ná þessu markmiði þarf kraftaverk, nokkrar nýjar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir og stóreflt flutnings- og dreifikerfi raforku.  Fyrra ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur skildi eftir sig þá stöðu, að skerða þarf raforku til fiskimjölsverksmiðja, kyndistöðva og annarra, sem samið hafa um annað en forgangsorku.  Á meðan svona er í pottinn búið, hjökkum við áfram í sama farinu, umhverfislega og efnahagslega. Taka verður til hendinni.  Finnur Borgnesingurinn á stóli orkuráðherra rétta botninn í málið ? 

Áfram með boðskap Hjörleifs.  Nú kemur krafan um lífstílsbreytingu:

"Flest ríki hafa aukið mengun lofthjúpsins í kjölfar Parísarsamþykktarinnar, þannig að stefnir í hlýnun upp á 2,4°C og þaðan af meira.  Umskiptin, sem þurfa að verða á þessum áratug, jafngilda byltingu í framleiðsluháttum, neyzlu og samskiptum við móður jörð.  "Pláneta okkar hangir á bláþræði" var meðal aðvörunarorða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonios Guterres, við opnun ráðstefnunnar í Glasgow.  Lausnin felst ekki aðeins í að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis í tíð einnar kynslóðar, heldur verður að draga úr rányrkju á öllum sviðum.  Temprun neyzlu og lífshátta, að fólksfjölgun meðtalinni, er óhjákvæmileg, eigi mannkynið að komast yfir þær hindranir, sem við blasa."

"Now you are talking, man", var sagt.  Þarna opinberar Hjörleifur, það sem að baki áróðrinum um hlýnun andrúmsloftsins og um virkjanaandstöðuna hérlendis býr. 

Að sjálfsögðu hefur losun CO2 aukizt víðast hvar frá Parísarráðstefnunni í desember 2015.  Hvernig í ósköpunum á annað að vera með þeim málatilbúnaði, sem þar var viðhafður með froðusnakki um háleitar hugsjónir stjórnmálamanna um framtíð jarðarinnar ? Ekkert, sem hönd var á festandi, um tæki og tól til þess á borð við sameiginlegan koltvíildisskatt eða sambærilegt. 

 

Þessi framreikningur á hlýnun andrúmsloftsins, sem Hjörleifur vitnar þarna til, er algerlega úr lausu lofti gripinn og verður að flokka sem áróðursbrellu, því að reiknilíkönin, sem að baki búa, eru meingölluð, eins og prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH, hefur sýnt fram á. 

Síðan afhjúpar Hjörleifur hugmyndafræðina, sem að baki öllum þessum látum býr.  Það þarf að gjörbreyta lifnaðarháttum almennings og stórdraga úr neyzlunni.  Þetta þýðir auðvitað, að framkvæma verður stórfellda lífskjaraskerðingu, því að í hvað eiga peningarnir annars að fara ?  Hvað segja verkalýðsfélögin um þennan boðskap vinstri mannsins Hjörleifs Guttormssonar.  Eru þau tilbúin að beita sér fyrir neyzlustýringu, sem miðar að stórfelldri minnkun neyzlu ?  Nei, það hafa engin teikn á lofti sézt um það.  Þessi viðhorf eiga sér enga raunveruleikatengingu, enda reist á illa ígrunduðum dómsdagsspám, sem óþarfi er að taka alvarlega. Viðhorfin eiga aðeins upp á pallborð sérvitringa á borð við Landvernd, sem berst gegn þjóðarhagsmunum með því að þvælast fyrir flestum orkuframkvæmdum í landinu, og á borð við meirihluta borgarstjórnarinnar, sem leggur fæð á samgöngumannvirki eins og greiðfærar akbrautir og afkastamikil og hættulítil mislæg gatnamót ásamt flugvelli á einu bezta flugvallarstæði landsins.  Þetta afturhald er ekki á vetur setjandi og verður að brjóta á bak aftur hið fyrsta. Til þess þarf að hafa bein í nefinu. Hefur téður Borgnesingur það, þegar til kastanna kemur ? 

 

  


Bloggfærslur 22. desember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband