2.5.2023 | 18:34
Sjálfstæðismál
Sú ráðagerð ríkisstjórnarinnar að gefa Evrópusambandslöggjöf, sem Alþingi hefur innleitt hér vegna fyrri samþykktar sinnar á EES-samninginum (1993), forgang á landsrétt, mun vissulega hafa djúptækar pólitískar og réttarfarslegar afleiðingar og getur jafnvel haft þau áhrif á þjóðarvitundina, að almenningur fái svipaða tilfinningu og ríkti hér fyrir Heimastjórn 1904, að æðsta valdið í landinu sé erlendis, ekki í Kaupmannahöfn, eins og þá, heldur í höfuðstöðvum ESB í Brüssel. Þetta er óbærileg tilhugsun, ekki sízt fyrir marga sjálfstæðismenn.
Um lagalegu ringulreiðina, sem af þessu mun hljótast, hafa fræðimenn á sviði lögfræði fjallað allítarlega og m.a. verið gerð grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2289692
Um hinar pólitísku afleiðingar er hægt að velta vöngum, en líklegt er, að innan borgaralegu flokkanna vítt og breitt um landið sé mikil óánægja með þessa ráðagerð, svo mikil, að verði frumvarp utanríkisráðherra "keyrt gegnum þingið", muni ýmsir kjósendur flokkanna, sem eru á móti frumvarpinu, leita annað í næstu kosningum og þá þangað, sem andstaðan við málið er einna skýrust.
Skeleggastur á opinberum vettvangi gegn því að innleiða forgang ESB-löggjafar á Íslandi hefur verið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum, Arnar Þór Jónsson, lögfræðingur. Hann hefur talað hart gegn þessu á mannamótum og skrifað rökfasta pistla gegn málinu á vefsetri sínu á Moggablogginu. Hann hefur reyndar verið ódeigur við að vara við því, að fullveldið renni smátt og smátt úr greipum okkar vegna veru okkar á Evrópska efnahagssvæðinu - EES og þess ólýðræðislega fyrirkomulags, að þjóðþing landsmanna þurfi að stimpla fyrirferðarmiklar tilskipanir og reglugerðir inn á lagasafn Íslands.
Hvorki íslenzkir embættismenn né þingmenn eiga aðkomu að þessum málum á mótunarstigum þeirra, og í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB og EFTA og fjalla um mál, sem ESB vill, að EFTA-ríkin á Innri markaðinum lögleiði, hefur íslenzki fulltrúinn ekki látið að sér kveða, sbr 3. orkupakkann. Þarna er þó möguleiki fyrir Ísland að fá tilhliðranir og jafnvel að beita neitunarvaldi, en fremur slöpp hagsmunagæzla utanríkisráðuneytisins hefur verið reglan þarna. Nú er spurning, hvað gerist með koltvíildisgjaldið á flug á milli ESB og Íslands, sem hækka mun farmiðann umtalsvert.
Morgunblaðið hefur tekið einarða afstöðu gegn frumvarpi utanríkisráðherra eftir að hafa vegið kosti þess og galla. Það hefur verið bent á, að einstaklingar gætu hafa hagnazt í einstökum tilvikum, ef þessi forgangsregla EES-réttar hefði verið í gildi, en aðferðarfræðin við þessa innleiðingu er röng, enda gengur hún í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.
Morgunblaðið birti frétt um málið 27. marz 2023, reista á tilvitnunum í prófesor Stefán Má Stefánsson, sem blaðið kallar "einn helzta sérfræðing Íslands í Evrópurétti", og í Arnald Hjartarson, aðjunkt við lagadeild HÍ. Ályktun blaðamannsins er, að "réttaröryggi [sé] teflt í tvísýnu með nýrri forgangsreglu":
"Frumvarp utanríkisráðherra til breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið er óheppilegt, þar sem sú breyting hefði í för með sér, að lög, sem Alþingi samþykkir í framtíðinni hefðu ekki í öllum tilvikum tilætluð áhrif að mati Stefáns Más Stefánssonar, prófessors, og Arnaldar Hjartarsonar, aðjunkts við Lagadeild HÍ."
Þessi ágalli frumvarpsins er nýr af nálinni í sögu Alþingis og löggjafar þess. Þess vegna verðskuldar frumvarpið einkunnina örverpi (bastarður) og er ótækt með öllu.
"Í dag gildir sú regla, að skýra skuli lög og reglur til samræmis við EES-samninginn, að svo miklu leyti sem við á.
Breytingartillagan felur aftur á móti í sér, að bætt verði við nýju ákvæði, sem kveður á um, að EES-reglur sem lögfestar hafa verið eða innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar öðrum almennum lagaákvæðum, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað."
Það skortir stjórnlagalegar forsendur fyrir þessari breytingu. Ef starfsfólk utanríkisráðuneytis Íslands er þeirrar skoðunar, að Íslendingum sé ekki vandara um en Norðmönnum að innleiða slíkt forgangsákvæði fyrir ESB-réttinn, þá er það misskilningur. EES-samningurinn var á sinni tíð samþykktur með auknum meirihluta í Stórþinginu, þ.e. meira en 3/4 greiddra atkvæða og 2/3 þingmanna þurftu að mæta til atkvæðagreiðslu hið minnsta. Í Noregi er þess vegna litið svo á, að EES-samningurinn sé æðri venjulegum lögum, þótt hann jafnist ekki á við stjórnarskrána frá Eiðsvöllum 1814.
Engu slíku er til að dreifa hérlendis, og þess vegna verða ráðherrar og þingmenn að gæta vel að sér við að semja lagafrumvörp, að þau brjóti ekki í bága við stjórnarskrá Íslands. Með frumvarpi utanríkisráðherra um forgang ESB-löggjafar í fortíð (?) og framtíð er ráðherrann að leggja til framsal löggjafarvalds til stofnunar, sem Ísland á ekki aðild að. Það er stjórnarskrárbrot. Hortitturinn um, að Alþingi geti ákveðið annað, er ógildur kattarþvottur í þessu samhengi. Hvað sagði Stefán Már við Morgunblaðið ?:
""Það er svolítið hallærislegt að segja, að EES-réttur skuli hafa forgang, en svo er eiginlega ekkert að marka þetta, því [að] Alþingi getur alltaf skipt um skoðun og breytt því eftir á", segir Stefán Már í samtali við Morgunblaðið. "Hér er verið að segja eitthvað, sem er ekki alveg rétt. Við getum ekki lofað forgangi til framtíðar, því [að] þá væri verið að framselja lagasetningarvaldið, og það bryti gegn stjórnarskránni.""
Skýrari getur falleinkunn lagaprófessorsins vart orðið á framlag utanríkisráðherra til þessa máls með örverpi sínu. Ef ráðherrann dregur ekki málið til baka og skýrir lagahliðina út fyrir ESA, verður Alþingi að grípa til sinna ráða til að hindra framgang þess. Það er engin nýlunda, að undirlægjuflokkarnir á Alþingi með Samfylkinguna í fararbroddi vilji samþykkja örverpið. Það sýnir vel innviðina þar á bæ. Stjórnarflokkarnir mega ekki gefa þessu dómgreindarlitla liði "blod på tanden" með því að traðka á Stjórnarskránni.
"Forsenda frumvarpsins virðist sú, að Alþingi muni taka það sérstaklega fram við síðari lagasetningu, ef til stendur að víkja frá eldri reglum EES-réttar, ella verði yngri reglan að víkja fyrir EES-reglunni.
Arnaldur og Stefán telja, að þessi forsenda fái tæpast staðizt, enda geti hæglega komið til þess, að Alþingi setji skýrar lagareglur í framtíðinni í góðri trú um, að þær standist EES-samninginn, en annað komi svo á daginn. Við slíkar aðstæður væri vegið að réttaröryggi borgaranna. "Borgararnir eiga að geta treyst því, sem fram kemur í íslenzkum lögum", segir Stefán Már og bætir við, að regla á borð við þá, sem tillagan boðar, gæti orðið til þess að koma borgaranum í opna skjöldu, þegar hann heldur, að einhver regla gildi, en í ljós kemur svo, að hún samrýmist ekki EES-reglum. "EES-reglurnar eru mjög matskenndar, og það er ekki alltaf greinilegt, hver EES-reglan er af lestri hennar, heldur byggist reglan oft á túlkun þeim megin. Atriði, sem voru óljós í gær, geta svo verið orðin skilyrðislaus eftir viku, ef ESB-dómstóllinn segir það.""
Þetta er hárrétt greining hjá lagaprófessornum, sem sýnir, hversu veikburða hinn lögfræðilegi grundvöllur lagafrumvarps utanríkisráðherra er. Það er vel þekkt í ESB, að dómstóll þess tekur sér víðtækt vald til túlkunar laga í ágreiningsmálum og setur þar með fordæmi. Dómstóllinn jaðrar við að taka sér lagasetningarvald, og þetta hefur m.a. leitt til þess, að "Rauðhempurnar í Karlsruhe" (Stjórnlagadómstóll Þýzkalands) hafa séð sig knúnar til að taka fram, að Þýzkaland hafi sína stjórnarskrá, sem ESB-dómstóllinn hafi ekki leyfi til að brjóta í bága við, þegar Þjóðverjar eigi í hlut.
Að lokum sagði í tilvitnaðri frétt:
"Stefán telur, að skoða ætti lögskýringarreglu EES-samningsins upp á nýtt og athuga, hvort það sé ekki fær önnur lausn hér á landi, sem gangi skemmra. Spurður, hver sé gallinn við núverandi reglu, svarar Stefán Már: "Ég hef ekki sagt, að það sé neinn galli við hana annar en sá, að ESA sættir sig ekki við hana.""
Þarna heyrist í rödd heilbrigðrar skynsemi.
Bloggar | Breytt 3.5.2023 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)