Ætla þingmenn að skapa réttarfarslega ringulreið ?

Vanda verður til verka við lagasetningu, en því hefur ekki alltaf verið að heilsa.  Nú virðist ætla að keyra um þverbak og veldur því óþörf auðsveipni við samræmingarþörf EES, en ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, telur íslenzka dómsstóla ekki hafa nægilega skýr lagaleg fyrirmæli um að láta ESB-réttinn njóta skýlauss forgangs í tilvikum, þar sem landsréttur, vilji Alþingis, kveður öðru vísi á. 

Ef frumvarp utanríkisráðherra, sem eru viðbrögð stjórnvalda við þessari kvörtun ESA, verður leitt í lög, verður Alþingi gert að hálfgerðum ómerkingi, því að frumvarp ráðherrans virðist geta haft afturvirk áhrif á löggerninga, og lög frá Alþingi eftir innleiðingu ESA-kröfunnar, sem sett eru í góðri trú, verður hægt að dæma ómerk, þótt yngri séu og sértækari en sú lagasetning, sem utanríkisráðherra leggur nú til.

Með vissum hætti er verið að slíta í sundur lögin með því að gefa ESB-rétti skýlausan forgang á landsrétt í fortíð og framtíð.  Íslendingar hafa áður lent í svipaðri stöðu.  Í fyrra skiptið var það áratug eftir samþykkt Gamla sáttmála, Magnús, konungur, lagabætir vildi samræma íslenzka löggjöf, Grágás, við norska löggjöf, með Járnsíðu.  Íslendingar sættu sig ekki við þetta, útkoman varð lögbókin Jónsbók, sem Íslendingar mótuðu og sömdu að mestu. Á meðan Ísland er ekki í Evrópusambandinu, hljóta allir ærlegir menn að sjá, að Alþingi Íslendinga verður að eiga síðasta orðið um gildandi lög í landinu.  Ef ríkisstjórn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ætlar ekki að draga frumvarpið til baka, er lágmark, að þjóðin fái að hafa síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

Þann 24. apríl 2023 birtist í Morgunblaðinu fréttaskýring Karlottu Lífar Sumarliðadóttur um þetta mál undir fyrirsögninni:

"Ný regla hefði töluverð áhrif hér á landi".

Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð EES-forgangsregla er til þess fallin að hafa töluverð áhrif í íslenzkum rétti og réttarframkvæmd heilt yfir, verði hún að lögum.  

Þetta er [á] meðal þess, sem fram kemur í grein Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, framkvæmdastjóra Lagastofnunar HÍ og doktorsnema við Lagadeild Háskóla Íslands, og dr Hafsteins Dans Kristjánssonar, lektors við Lagadeild HÍ."

Hér vara þungavigtarmenn á lagasviðinu með varfærnu orðalagi sínu, sem mikil alvara býr þó undir, við afleiðingum innleiðingar skýlauss forgangsréttar ESB-réttar, bæði núgildandi og með öllum framtíðar breytingum og viðbótum, sem Íslendingar eiga enga aðkomu að á mótunarstigum. Hér er flausturslega að verki verið hjá utanríkisráðuneytinu, og það virðist enga lögfræðilega greiningu hafa viðhaft á þeirri réttarstöðu, sem uppi yrði í landinu eftir samþykkt þessa frumvarps.

Eftir að hafa kynnt sér efni þessa máls virðist höfundi þessa pistils, sem er leikmaður á sviði lögfræði, að téð frumvarp utanríkisráðherra verðskuldi einkunnargjöfina "lagatæknilegt örverpi". Slíkt sættu Íslendingar sig ekki við, nýkomnir undir hans hátign Noregskonung, í kjölfar Gamla sáttmála og fengu sína Jónsbók, sem entist vel og lengi.  

"Greinin birtist í vefriti Úlfljóts um helgina [22.-23.04.2023] og ber heitið: "Inntak fyrirhugaðrar EES-forgangsreglu og áhrif hennar í íslenzkum rétti".  Hún er skrifuð í tilefni af frumvarpi utanríkisráðherra til breytinga á lögum um EES-samninginn, sem ætlað er að uppfylla kröfur ESA um forgangsáhrif EES-reglna."

Þessi Úlfljótsgrein gefur utanríkismálanefnd Alþingis tilefni til að kalla fræðimennina, sem eru höfundar hennar, á sinn fund og hlýða vandlega á niðurstöður greiningar þeirra á afleiðingum lögfestingar slíks frumvarps, og hvort samþykkt Alþingis á því muni fela í sér stjórnarskrárbrot. Utanríkismálanefnd kann nú þegar að vera á óheillabraut í umfjöllun sinni, og hún verður að staldra við og kynna sér til hlítar, hvað gagnrýnendur frumvarpsins hafa fram að færa, en ekki að hlýða einvörðungu á þá, sem hengja hatt sinn á, að með slíkri lagasetningu sé borgurum hérlendis færður aukinn réttur.  Það er augljóslega ekki hin almenna ályktun, sem draga má af frumvarpinu, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum um hríð.

"Af fyrirhugaðri forgangsreglu leiðir, að sett lög, sem innleiða EES-reglur, ganga ætíð framar ósamrýmanlegum settum lögum, og skiptir þá ekki máli, hvort síðar nefndu lögin eru yngri eða sértækari að því, er segir í greininni.  Mun það jafnframt eiga við um samspil laga, sem sett hafa verið fyrir gildistöku forgangsreglunnar til framtíðar litið."

   Þetta er ótæk lagasetning þegar af þeirri ástæðu, að hún skapar ringulreið í réttarframkvæmd.  Utanríkisráðherra hengir hatt sinn á það ákvæði frumvarpsins, að Alþingi geti hnýtt aftan við lög sín, að þau skuli njóta forgangs í landinu.  Við þetta er tvennt að athuga.  Það er lítillækkandi og óviðunandi, að rétt kjörið þjóðþing skuli þurfa að hlíta slíkum afarkostum, til að mark sé takandi á gjörðum þess.  Í öðru lagi gengur þetta í berhögg við síðari hluta bókunar 35 við EES-samninginn, sem ráðherrann þó vill véla Alþingi til að samþykkja.  Þess vegna er ástæða til að spyrja, hvort utanríkisráðuneytið hafi borið þennan hortitt undir ESA.  Eftirlitsstofnunin væri komin í andstöðu við sjálfa sig, ef hún telur þennan hortitt í samræmi við stefnu Evrópusambandsins um einsleitni Innri markaðarins. 

Alþingi getur engan veginn verið þekkt fyrir að samþykkja lagasetningu, sem framselur endanlega löggjafarvaldið á Íslandi til Brüssel.  Það er þyngra en tárum taki, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins reki með þessum hætti djúpan fleyg í raðir sjálfstæðismanna.  Heggur hún þar enn í sama knérunn, því að hún sem iðnaðarráðherra studdi dyggilega við Guðlaug Þ. Þórðarson, þegar sá hafði forystu um innleiðingu Þriðja áfanga orkulöggjafar Evrópusambandsins á Íslandi.

"Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði [marz 2023] lýsti Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild HÍ, áhyggjum af útvíkkun EES-samningsins, og telur hann frumvarp ráðherra ganga of langt.  Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hefur aftur á móti sagt, að hvorki sé vegið að stjórnarskrá né feli frumvarpið í sér framsal á fullveldi."

Þegar margreyndur fræðimaður á sviði laga tjáir sig með þessu móti, ættu minni spámenn á þessu fræðasviði, þótt þeir gegni háum embættum um sinn, ekki að kasta fram öndverðri skoðun án rækilegrar umhugsunar og rökstuðnings.  Hortittur á borð við þann í frumvarpinu, sem kveður á um, að Alþingi geti tekið fram, að einstök lög þess hafi forgang, er hvorki gjaldgengur í fullvalda ríki né samræmist hann kröfugerð ESA um bókun 35.  Þess vegna felur lagasetning um forgang ESB-löggjafar á landslög í sér gróft framsal Alþingis á löggjafarvaldi sínu, og slíkt er skýlaust stjórnarskrárbrot.  Hvernig stendur á því, að varaformaður Sjálfstæðisflokksins er nú svo heillum horfinn að ætla að troða þvílíkum gjörningi ofan í kok þingflokksins og almennra flokksmanna ?  Verði málið keyrt alla leið, mun það hafa í för með sér alvarlegar og þungbærar meltingartruflanir fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Flokksmenn um allt land ættu að láta þingmenn sína heyra sína skoðun á þessu, því að hér er stórmál á ferð.   

    "Í grein Friðriks Árna og Hafsteins Dans eru færð rök fyrir því, að verði forgangsreglan að lögum, muni einstaklingar og lögaðilar njóta ríkari möguleika en áður til að höfða mál fyrir íslenzkum dómstólum og byggja málatilbúnað sinn á því, að íslenzk lagaákvæði skuli víkja fyrir ákvæðum EES-samningsins og öðrum innleiddum EES-reglum að réttarfarsskilyrðum uppfylltum. 

Að sama skapi verði íslenzkum dómstólum skylt að ljá innleiddum EES-reglum aukið vægi í dómsúrlausnum andspænis ósamrýmanlegum settum lögum, sem munu þá víkja fyrir hinum fyrr nefndu á grundvelli forgangsreglunnar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað í síðar nefndu lögunum." 

Íslenzkt réttarfar yrði mjög einkennilegt eftir innleiðingu téðrar forgangsreglu með innlenda löggjafann svífandi í lausu lofti og lagasetningar, sem hægt væri að ómerkja af minnsta tilefni.  Þetta ástand yrði óbærilegt fyrir sjálfstæða þjóð, og hér yrði svipað ástand og var, þegar lagafyrirmæli komu frá kóngsa í Kaupmannahöfn.  Það tekur svo af öll tvímæli um, að forgangsregla þessi felur í sér stjórnarskrárbrot, að Íslendingar hafa sjálfir alls enga aðkomu að samningu og/eða setningu þessara laga á vettvangi Evrópusambandsins. Klíni Alþingi hortitti um forgang einstaka lagasetningar aftan við lögin, mun ESA vísast fetta fingur út í það, enda klárlega verra brot í augum ESA/ESB en núverandi fyrirkomulag. Alþingi verður að fella þetta ótæka og óþinglega frumvarp í atkvæðagreiðslu, ef utanríkisráðherra hefur ekki vit á að draga það til baka.  Verði stjórnarliðar handjárnaðir, mun það vísast hafa alvarlegar flokkslegar afleiðingar. 

Í fréttaskýringunni var réttaróvissan vegna forgangsreglunnar útskýrð.  Eitt dæmi um stórhættulegar afleiðingar forgangsreglunnar er lagasetning ESB um ríkisábyrgð bankareikninga.  Í nýju bankahruni kæmist ríkissjóður í greiðsluþrot við innleiðingu laga ESB um þessar ríkisábyrgðir:

"Jákvæðu áhrifin mundu felast í því, að einstaklingar gætu framfylgt réttindum sínum samkvæmt innleiddum EES-reglum með markvissari hætti fyrir íslenzkum dómstólum en þeir geta nú.  

Neikvæðu áhrifin gætu birzt í því, að einstaklingar og lögaðilar gætu þurft að sæta því, að lagaregla, sem þeir hafa reitt sig á í lögskiptum sínum innbyrðis eða við stjórnvöld, e.t.v. um langa hríð, væri í dómsmáli eða í framkvæmd stjórnvalda vikið fyrirvaralaust til hliðar á þeirri forsendu, að hún samræmdist ekki réttilega innleiddum EES-reglum."

Þessi staða er varhugaverð, því að hún er líkleg til að grafa undan trausti á réttarfari í landinu og fjölga mjög dómsmálum, sem skapar enn meiri tafir þar en nú er reyndin.  Frumvarpið er algerlega vanhugsað. 

Að lokum sagði í þessari ágætu fréttaskýringu:

"Í greininni er því einnig velt upp, hvort forgangsreglan geti haft afturvirk áhrif á úrlausn ágreinings, sem kemur til kasta dómstóla eða annars úrskurðaraðila eftir gildistöku hennar, ef ágreiningurinn er sprottinn af málsatvikum, sem áttu sér stað áður en reglan tók gildi.

Færð eru rök fyrir því, að þótt fyrirliggjandi frumvarp hafi ekki að geyma ráðagerð um bein  afturvirk réttaráhrif forgangsreglunnar, sé ekki útilokað, að hún geti breytt samspili lagareglna, að því er varðar málsatvik til framtíðar litið, þótt þau tengist lögskiptum, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku hennar."

Frumvarpið mundi innleiða mikinn vafa og rugling í íslenzkan rétt, ef það yrði að lögum, og slíkt ber að forðast eins og heitan eldinn, enda er slíkt einkenni lélegrar lagasetningar.  Frumvarpið er hrákasmíð.

 

  

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Reyndar er frumvarpinu ætlað að binda enda á réttarfarslega ringulreið sem hefur orðið þess valdandi að einstaklingar á Íslandi hafa ítrekað farið á mis við réttindi sín. Ef forgangsreglan hefði verið rétt innleidd í upphafi hefði til dæmis ekki verið hægt að setja svokölluð Árna Páls lög sem hækkuðu lán margra heimila um verulegar upphæðir eftir hrunið. Ekki er heldur víst að dómstólar hefðu í kjölfar hrunsins getað sniðgengið niðurstöðu EFTA-dómstólsins um verðtryggð neytendalán hrunbankanna sem brutu gróflega gegn EES-rétti. Þeir sem æpa nú hæst um meinta hættu af þessu frumvarpi virðast ekki gera sér nokkra einustu grein fyrir því hvaða réttindamissi ófullnægjandi innleiðing bókunar 35 hefur haft í för með sér fyrir Íslendinga.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.5.2023 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband