14.1.2010 | 20:54
Skuldin
Spurningin um, hvort ríkisábyrgð sé á Tryggingarsjóði innistæðueigenda að lögum, er aðalatriði "Icesave-deilunnar við Bretland og Holland, og hún hverfist um tilskipun ESB nr 94/19, sem Alþingi leiddi í lög á Íslandi árið 1999. Þar segir svo í 24. lið:
"Það er ekki bráðnauðsynlegt samkvæmt þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun þeirra kerfa, sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, m.a. vegna þess, að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa, og einnig vegna þess, að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingarskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu."
Með öðrum orðum skulu tryggingarsjóðirnir vera fjármagnaðir af bönkunum sjálfum, en samt eigi með íþyngjandi hætti fyrir þá eða viðskiptavini þeirra, enda gæti slíkt skekkt samkeppnistöðu. Hvergi er hins vegar minnzt á ríkisábyrgð. Ef ætlazt væri til hennar af höfundum tilskipunarinnar, mundi slíkt vafalaust hafa verið tíundað. Á fjölmörgum fleiri atriðum má reisa þá fullyrðingu, að íslenzka ríkið hafi alls ekki undirgengizt neinar skuldbindingar um að tryggja greiðslugetu hins íslenzka Tryggingarsjóðs innistæðueigenda. Fullyrðingin er studd lögfræðilegum rannsóknum hæfustu manna, og nægir í þeim efnum að vísa til frábærrar ritraðar í Morgunblaðinu, sem hófst 12. janúar 2010 með greininni "Lagarök um Icesave", eftir Lárus L. Blöndal, hrl. og Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor. Hafa ber í huga í þessu sambandi, að enginn getur skuldbundið ríkissjóð á nokkurn hátt fjárhagslega, nema Alþingi.
Í 25. lið tilvitnaðrar tilskipunar er hnykkt á því, að ríkisvald aðildarríkjanna verði ekki sjálfvirkt ábyrgðaraðili tryggingarsjóðanna. Bretar sjálfir hafa bent á í deilu við Íra, að ríkisábyrgð sé andstæð ýmsum grundvallarreglum innri markaðar ESB, t.d. um frjálsa samkeppni, enda var bankakerfi þeirra svo risastórt, að brezka ríkið hefði misst lánshæfi, ef það hefði gengizt í slíkar ábyrgðir. Þess má geta, að írski ríkissjóðurinn hefur af þessum sökum goldið fjárhagslegt afhroð í þessari fjármálakreppu. Ákvæðið í téðri tilskipun 94/19, sem tekur af öll tvímæli um, að ríkisábyrgð er ekki við lýði, hljóðar svo:
"Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum, ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum, viðurkenndum af stjórnvöldum, sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja, að innistæðueigendurnir fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun."
Hér er í tilskipuninni sjálfri kveðið á um, að innistæðutryggingarsjóðirnir skulu ekki njóta ríkisábyrgðar. Hvert sækja Bretar og Hollendingar rök fyrir því, að íslenzkir skattgreiðendur skuli bæta ríkissjóðum þeirra með vöxtum að hafa rokið til í öngþveiti haustsins 2008 að bæta innistæðueigendum Landsbankans tap sitt ? Hafa íslenzk stjórnvöld e.t.v. leikið af sér og skuldbundið íslenzka skattborgara til að axla byrðar, sem hvorki lagabókstafur né tilskipun mælir fyrir um ? Lítum á aðdragandann.
Þann 7. ágúst 2008 sendi brezka fjármálaráðuneytið fyrirspurn um það til íslenzka Viðskiptaráðuneytisins, sem fór með málefni fjármálageirans og stjórnað var af ráðherra úr Samfylkingunni, hvort ríkisstjórnin mundi sjá til þess, að Innistæðutryggingarsjóðurinn geti tekið næg lán til að unnt verði að greiða EUR 20´887 til hvers innistæðueiganda. Viðskiptaráðuneytið svaraði bréflega 20. ágúst 2008, þar sem m.a. kemur fram:
"Ef svo ólíklega vildi til, að sjóðsstjórnin gæti ekki útvegað nægilegt fé á fjármálamörkuðum, viljum við fullvissa ykkur um, að íslenzka ríkisstjórnin mundi gera allt, sem ábyrg stjórnvöld mundu gera í slíku tilviki, og í því felst að aðstoða sjóðinn við að útvega nægilegt fjármagn til þess að standa við lágmarkstrygginguna. ...... Í slíku tilviki mundi Seðlabanki Íslands, sem lánveitandi til þrautavara, sjá sjóðnum fyrir lausafé. Ríkisstjórn Íslands mundi veita Seðlabankanum stuðning til þess. Við þessar aðstæður yrði þetta aldrei vandamál fyrir Innistæðutryggingarsjóðinn. Við viljum undirstrika, að ríkisstjórnin gerir sér glögga grein fyrir skuldbindingum sínum samkvæmt EES samninginum gagnvart Innistæðutryggingarsjóðinum og mun standa við þær skuldbindingar."
Með bréfi þessu er býsna langt gengið að hálfu viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar til að friða Breta. Í ljósi þess, sem síðar gerðist, má segja, að of langt sé gengið í yfirlýsingu um að tryggja sjóðinum fé með aðstoð Seðlabankans og ríkissjóðs m.v. kröfurnar í tilskipun 94/19 til ríkjanna á Innri markaði EES. Samt verður því ekki haldið fram með gildum rökum, að bréf þetta sé ígildi yfirlýsingar um ríkisábyrgð. Það sést bezt á því, að í byrjun október 2008 sendi Innistæðutryggingarsjóðurinn íslenzki eftirfarandi drög að yfirlýsingu til þáverandi forsætisráðherra, Geirs Haarde:
"Hér með staðfestist það, að ríkissjóður Íslands ábyrgist, að Tryggingarsjóður innistæðueigenda og fjárfesta geti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar samkvæmt framangreindum lögum. Ríkisábyrgðin nær til allra aðila að Tryggingarsjóðinum og útibúa þeirra á Íslandi og erlendis."
Ósk þessi um ríkisábyrgð er einsdæmi, og forsendur hennar og málsaðilar hljóta að sæta opinberri rannsókn ofan í kjölinn. Íslenzka þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við Geir Hilmar Haarde, þáverandi forsætisráðherra, fyrir það, að hann staðfesti þessa yfirlýsingu ekki með undirskrift sinni.
Nokkrum vikum seinna tóku brezka og hollenzka ríkisstjórnin þá ákvörðun að bæta innistæðueigendum föllnu íslenzku bankanna tap sitt, bæði í dótturfyrirtækjum og útibúum, úr vösum skattgreiðenda sinna. Þetta gerðu þau til að létta af sér þeirri gagnrýni, að eftirlitsaðilar í þessum löndum hefðu brugðizt neytendum og fjármálaeftirlitin áttu auk þess að sjá um lausafjárstýringuna á heimavelli.
Samt var í löndum þeirra talsverður fjöldi fólks, sem svipað var ástatt um eftir fall bandarískra fjármálastofnana, t.d. Lehmans bræðra 15. september 2008. Höfundi þessarar vefgreinar er að minnsta kosti ekki kunnugt um, að brezk og hollenzk stjórnvöld hafi í hyggju að senda öðrum ríkisstjórnum en þeirri íslenzku reikning fyrir björgunaraðgerðum sínum. Meðhöndlun þeirra á Íslendingum er líklega fordæmalaus, hún er dæmalaus, og hún styðst ekki við neinar lögheimildir. Hún virðist einvörðungu styðjast við ofríki. Nái þessi ósvífni fram að ganga með fjárkúgunarpíski aftan við bak, verða samskipti Íslands við þessi lönd og ESB eitruð á næstu áratugum, sem ber að forðast í lengstu lög.
Fram á sjónarsviðið streymir nú, eftir athyglina, sem synjun forseta hlaut, málsmetandi fólk erlendis, sem styður í raun röksemdafærslu virtra lögspekinga innlendra. Nú er viðkvæðið, að á engum lagarökum sé hægt að reisa kröfu á hendur Íslendingum um að axla téðar byrðar brezku og hollenzku ríkissjóðanna með vöxtum, heldur mundi t.d. Evrópudómstóllinn deila byrðunum á milli ríkjanna. Þetta virðist vera sjónarmið Evu Joly, og þetta er sjónarmið Alain Lipietz, sem komið hefur að samningu tilskipana ESB um þessi efni. Þar er kunnáttumaður og að líkindum (um tíma) innanbúðarmaður í Berlaymont á ferð.
Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands hafa lítið sem ekkert í höndunum annað til að reisa kröfugerðir sínar á en ofangreint bréf frá viðskiptaráðherranum í ríkisstjórn Geirs Haarde. Þetta bréf veikir nú málstað Íslendinga og gerir það að verkum, að semja verður um málið á stjórnmálalegum nótum, en alls ekki á fjármálalegum nótum, eins og um óuppgert skuldabréf væri að ræða. Íslendingar báðu hvorki Hollendinga né Breta um lán til að gera upp við innistæðueigendur föllnu bankanna. Þegar Hollendingar og Bretar gengu til þess verks, höfðu þeir enga lagalega eða sanngirniástæðu til að ætla, að unnt yrði með réttu að senda íslenzka ríkissjóðinum reikninginn. Þess vegna er út í hött að heimta vaxtagreiðslur af Íslendingum vegna þessara útgjalda. Vaxtakröfum þeirra á að hafna gjörsamlega. Að leysa málið á stjórnmálalegum nótum þýðir, að byrðunum af mismuni eigna og skulda þrotabúa Landsbankans beri að skipta á milli aðseturslands útibúsins og heimalands móðurbankans í hlutfalli við ábyrgð á eftirliti og ábyrgð á því, að svo fór sem fór, að teknu tilliti til jöfnunar byrðanna á hvern skattborgara. Kynning á þessum málstað virðist hafa farið í handaskolum hjá ríkisstjórn Íslands, enda er hún hallari undir hagsmuni Hollendinga og Breta en Íslendinga. Um það vitna fjölmörg ummæli.
Þá hafa lögfræðingarnir, Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal, fært fyrir því gild rök í Morgunblaðsgrein sinni, "Möguleg bótaskylda ESB", þann 14. janúar 2010, að Íslendingar muni eiga endurkröfurétt á hendur ESB fyrir tjóni, sem tilskipanir þess hafa valdið þeim. Sá réttur fyrnist á 5 árum, og er sjálfsagt að láta á hann reyna eftir að málalyktir hafa orðið, með dómstólaleið eða nýjum samningum, við Breta og Hollendinga.
Það skilur hvert mannsbarn, að maður, sem heldur því statt og stöðugt fram, að ekki sé unnt að ná betri samningum fyrir Íslands hönd en raun hefur orðið á um, hann er ófær um að taka þátt í nýjum samningaviðræðum. Fjármálaráðherrann er sem lík í lestinni, og aðrir ráðherrar, er tjáð hafa sig um gjörninginn, eru reyndar litlu skárri.
Nýjar viðræður munu fara fram með nýju fólki, a.m.k. að hálfu Íslendinga. Íslenzka samninganefndin mun þá verða grá fyrir járnum. Ágætar blaðagreinar fyrrnefndra lögfræðinga, Lárusar og Stefáns, eiga að rata beint í vopnabúr samninganefndarinnar íslenzku.
Það er alveg ljóst, að með nýjum samningum verða "Icesave" byrðarnar á Íslendinga aðeins brot af þeim fátæktarhlekkjum, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Steingrím Sigfússon í broddi fylkingar ætlaði að leiða yfir þrjár kynslóðir Íslendinga í glópsku sinni eða vitandi vits. Það ber þess vegna að fella þá lagasetningu vinstri flokkanna á Alþingi úr gildi og að semja upp á nýtt að beztu manna yfirsýn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
"SKULDIN" er málið - við greiðum ekki nema við "SKULDUM" ! og látum ekki telja okkur trú um annað - NEI - !
Benedikta E, 14.1.2010 kl. 21:19
Það á að afskrifa öll samningsdrög memó og óopinberar heitstrengingar, sem gerðar voru í miðju panikkinu þegar allt hrundi. Samningum hefur hvort eð er verið hafnað og því verður ekkert samið um neitt. Þeir eiga næsta leik. Ætla þeir að gera hótanir að veruleika? Verði þeim af því. Sjáum hvort þeir eru men til þess að standa við stóru orðin. Ef þeir gera það, þá getum við kannski dregið þá fyrir dómstóla og þetta má um leið.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.1.2010 kl. 04:48
Ríkisstjórnin, hefur haldið því fram, alveg frá upphafi deilunnar, að ekki væru líkur á að hægt væri að semja aftur.
Þetta verður þá, 3. skiptið sem stjórnvöld senda samninganefnd.
Ég spái því, að þetta endi með einhverjum "detail" lagfæringum á samningnum, t.d. lækkun vaxta um 0,5% og það muni vera kallað sigur við samningsborð - og, síðan hefst sami söngurinn á ný - að þetta sé það skársta sem hægt sé að ná fram.
Mér sýnist, að strategía ríkisstjórnarinnar, sé að leitast við að þreyta þjóðina eins og hún væri fiskur, sem veiðimaður væri að leitast við að draga að landi.
----------------------------------------------
HVet alla til að lesa frábæra grein Prófessors Sweder van Wijnbergen við Háskólann í Amsterdam - sá starfaði áður um 13 ár hjá Alþjóðabankanum, við skuldaskil ríkja í vandræðum, og hann sá nánar tiltekið um skuldaskil fyrir Mexíkó sem starfsmaður bankans.
Þetta er sú tegund af þekkingu, sem við þurfum á að halda, ská grein hans:
Iceland needs international debt management
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 15.1.2010 kl. 12:39
ÞAÐ ER EKKERT NEMA VALDNÍÐSLA SEM ER Í HUGA STJÓRNVALDA OG NÚ ÆTLAR STJÓRNARANDSTAÐAN AÐ HJÁLPA TIL MEÐ SVIKIN.
Jón Sveinsson, 15.1.2010 kl. 12:58
Þakka góða og fræðandi grein.
Valdimar Samúelsson, 15.1.2010 kl. 15:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.