19.1.2010 | 10:25
Alþjóðlegu skuldbindingarnar
Það er orðið harla hvimleitt að hlýða á yfirborðshjal íslenzku ráðherranna, húskarla þeirra og griðkvenna, um, að Íslendingar verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, og er þá að sjálfsögðu verið að vísa til hins dæmalausa "Icesave"-máls. Þetta étur hver upp eftir öðrum, en röksemdafærslan er öðrum kosti alveg út úr kú, eða þá, að ekki er borið við að rökstyðja fullyrðinguna. Þekkingarleysi, barnalegur málatilbúnaður, heimóttarskapur og minnimáttarkennd eru förunautar vinstri flokkanna á þessari árans "Icesave" vegferð þeirra.
Hvernig stendur á því, að Jóhanna Sigurðardóttir og húskarlar hennar bera aldrei við að skýra frá því í hverju téðar alþjóðlegar skuldbindingar eru fólgnar ? Það er dæmalaus heimóttarháttur að bera því við, að andstæðingarnir vilji ekki hlusta á staðreyndir málsins. Slíkt er svo sannarlega þeirra vandamál, en ekki okkar. Ef þessi er raunin, á að króa þá af úti í horni sem hverja aðra melrakka.
Þó að Angela Merkel hafi fyrir kosningar til Sambandsþingsins þýzka haustið 2009 lýst yfir ríkisábyrgð á innistæðum þýzkra banka starfandi í Þýzkalandi og írska ríkið hafi tekizt á hendur slíkar skuldbindingar og íslenzka ríkið á inneignum á Íslandi, þá eru slíkar skuldbindingar hvorki hin almenna regla né eru þær áskildar að hálfu ESB á innri markaðinum, en útibú Landsbankans erlendis störfuðu alfarið samkvæmt reglum ESB. Greiðslur Breta og Hollendinga til innistæðueigenda "Icesave"-reikninganna voru á ábyrgð þeirra ríkisstjórna, og það verður að krefjast þess, að þær geri málefnalega grein fyrir því, hvaða heimild þær hafa til að senda íslenzkum skattborgurum reikninginn.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hélt til Norðurlandanna eftir synjun forseta lýðveldisins þann 5. janúar 2010 á ólögum, sem lögspekingar hafa leitt sterk rök að í Morgunblaðsgrein 15. janúar 2010, að brjóti gegn Stjórnarskrá lýðveldisins. Sama er, hvernig á málið er litið. Forsetinn gerði hárrétt að synja lögunum staðfestingar og stóð þar vörð um Stjórnarskrá lýðveldisins, eins og honum bar. Eftir heimsókn fjármálaráðherrans "hugumstóra", sem virðist gagnslausari en vindmylluriddarinn spænski forðum, til höfuðborga nokkurra Norðurlanda, brá svo við, að þaðan tók að berast sami söngurinn og þjóðin má hlusta á daglangt frá ríkisstjórn Íslands, að "Ísland verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar", ef Seðlabankinn eigi að fá fé að láni frá AGS, Alþjóða gjaldeyrissjóðinum, til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn og eiga fyrir afborgunum og vöxtum 2011-2012.
Hér er um að ræða meðvirka fjárkúgun Norðurlandanna, stjórnað frá Lundúnum og den Haag, sem stendur auðvitað á lögfræðilegum brauðfótum og er algerlega siðlaus gjörningur rakalausra stjórnmálamanna í þessum borgum, sem reyna að breiða yfir eigin mistök og fljótræði með því að senda Íslendingum svimandi háan reikning á mælikvarða fámennrar þjóðar. Að slík framkoma viðgangist í milliríkjaviðskiptum í Evrópu á 21. öldinni, sýnir rotnar réttarfarshugmyndir viðkomandi stjórnmálamanna.
Hitt er óskiljanlegt, að nokkur hópur innfæddra hér á eyjunni hafa fundið hjá sér hvöt til að þjóna lund sinni og hvetja leynt og ljóst til að almenningur beygi sig í duftið og leyfi vinstri öflunum að færa þetta þjóðfélag aftur til haftatímabilsins fyrir Viðreisn. Allt er það gert í nafni nauðsynjar á að halda góðu sambandi við nágrannana. Friðkaup heitir þessi tegund samskipta og hefur ætíð illa gefizt. Verður að frábiðja íslenzkum skattgreiðendum leiðsögn af þessu tagi, enda er á henni hvorki haus né hali.
Nú skal á hinn bóginn halda í smiðju til eins reyndasta og lærðasta lögskýranda landsins, en hann tjáði sig um þessa bábilju í Fréttablaðinu 14. janúar 2010 samkvæmt því, sem sagði í forystugrein Morgunblaðsins, "Engar skuldbindingar", daginn eftir.:
"Ef ríkið ætti að ábyrgjast slíkar skuldir - að ekki sé minnst á þungar og ófyrirsjáanlegar byrðar næstu kynslóða - yrði það að styðjast við skýr fyrirmæli í lögum, alþjóðasamningum eða löglega bindandi yfirlýsingum ráðamanna sem hefðu til þess heimild."
Á grundvelli þessa verður að fara fram á það sem lágmarkskröfu á hendur fréttamönnum ríkisstjórnarvarpsins (TASS), fréttaskýrenda úr ýmsum hornum, háskólakennara og annarra vitsmunabrekkna, að þær reyni að finna innantómum fullyrðingum sínum stað með vísun til einhverra þeirra atriða, sem "prófessor emeritus", Sigurður Líndal, nefnir hér að ofan. Að öðrum kosti dæma þessar "mannvitsbrekkur" sig sjálfar úr leik sem ómerkinga.
Það, sem þarf að gera núna í þessu dæmalausa "Icesave-máli", er að hefja tangarsókn á heimavelli Hollendinga og Breta með áróðursherferð í fjölmiðlum þessara landa, þar sem ríkisstjórnir beggja standa veikt að vígi í kosningabaráttu. Markmiðið er að mýkja almenningsálitið í garð Íslendinga, svo að auðveldar verði fyrir stjórnvöld þar í landi að gefa eftir í samningum. Inntak þessarar kynningarherferðar Íslendinga á hendur þessum þjóðum eiga að vera þær lögfræðilegu niðurstöður, sem Lárus Blöndal, hrl., Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, Sigurður Líndal, prófessor emeritus o.fl. lögfróðir menn hafa komizt að ásamt þeim hagfræðilegu niðurstöðum, sem Jón Daníelsson, dósent í hagfræði við London School of Economics, komst að í grein, sem hann birti í Morgunblaðinu 15. janúar 2010, "Áhættunni af Icesave verður ekki eytt eftir á". Er gott til þess að vita, að þýðing á nokkru af ofangreindu efni er þegar hafin.
Njálgur utanríkisráðherra, ástmagar ESB, dugir skammt, en hann kvað glugga til viðsemjenda okkar, Breta og Hollendinga, opnast í viku 2 og lokast um helgina í lok þeirrar viku, þ.e. eigi síðar en 17. janúar 2010. Hverju þjónar svona heimskulegur málflutningur ? Meira að segja forsætisráðherra glórði í gegnum þokuna og kvað utanríkisráðherra hafa átt við, að þessi furðuljóri á Stjórnarráðinu, mundi hins vegar opnast um téða helgi. Ríkisstjórnin er hugstola eftir synjun og á sér ekki viðreisnar von.
Sannleikurinn er sá, að í brúnni er nú fólk, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð. Það hagar sér eins og taparar, sem hengslast um og þvælast fyrir öllu, sem til lausnar getur horft á kreppu landsins. Því er fyrirmunað að marka sigurstranglega stefnu í nokkru máli, hvað þá að sækja fram til sigurs. Nú er ekki rétti tíminn til að míga utan í Breta og Hollendinga, eins og stjórninni er tamast. Nú á að láta kné fylgja kviði eftir synjunina, berja á þeim og vinna almenningsálit þessara landa á band Íslendinga með sálfræðilegum hernaði. Á sama tíma á að skipa harðsvíraða samninganefnd, þar sem valinn maður sé í hverju rúmi, sem fær tímann fram að þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin lágkúrulegu til að undirbúa harðdrægar viðræður og viða að sér í vopnabúrið.
Ef þjóðin fær tækifæri til, mun hún búa skjaldsveina sína og -meyjar með vegarnesti yfirgnæfandi höfnunar á verstu fátæktarhlekkjum, sem nokkurt erlent vald hefur nokkru sinni reynt að færa Íslendinga í. Sú tilraun er bæði löglaus og siðlaus. Með staðfestingu þjóðarinnar á synjun forsetans munu báðar lagasetningarnar um ríkisábyrgð á "Icesave" falla úr gildi, því að skilyrði hinnar fyrri, þ.e. samþykki gagnaðilans, er ekki fyrir hendi.
Skömm Alþingismanna, sem samþykktu fjárkröfur erlendra valdhafa á hendur íslenzkri alþýðu, svo og taglhnýtinga þeirra, mun verða uppi á meðan land þetta er byggt.
Tíminn vinnur með Íslendingum í þessu máli og fyrir veturnætur ætti ásættanlegur samningur að verða í höfn. Sá á ekki að kveða á um neinar vaxtagreiðslur af neinu furðuskuldabréfi, heldur um sanngjarna skiptingu byrðanna af því, sem út af mun standa eftir upplausn Landsbankans í hlutfalli við ábyrgð á fallinu og að teknu tilliti til fólkfjölda. Upphæð á hvert mannsbarn á Íslandi ætti þá ekki að fara yfir kEUR 1,0; ella fari málið dómstólaleiðina.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Fagna þessum aldeilis frábæra pistli. Það hefur angrað mig,að fréttamenn, sem alla jafnan spyrja óvægna spurninga,skuli aldrei ganga á þessa æðstu embættismenn,með sinni alkunnu hörku. Hef áður nefnt það hér að Helgi Seljan,er eins og bráðið smjör,ef hann spyr fjármálaráðherra út úr.Nú er ég einmitt að hugsa um þessar meintu alþjóðlegu skuldbindingar,bíð eftir að heyra einhvern eins og þig ofl.takast á við stjórnar-"settið" í sjónvarpssal. Fólk sem er ekki enn farið að trúa að Icesave er ekki skulbinding okkar. Já er að merkja að gagnsókn er hafin,nokkuð sem var ekki alls fyrir löngu bara fjarlæg von. Þeir hörðustu hér á blogginu skjaldsveinar og meyjar,hafa unnið gríðarlega gott starf,sumir lagt nótt við dag í hugsjón sinni. Var að fá tilmæli frá einum að biðja erlenda aðila að skifa sig á stuðningsyfirlýsingu við Ísland. þó ekki fylli ég þennan harðkjarna reyni ég. Jæja ,er orðin alltof langorð,þakka þér og góða nótt.
Helga Kristjánsdóttir, 20.1.2010 kl. 03:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.