Afturreka

Umhverfisráðherrann alræmdi, Svandís Svavarsdóttir, hefur legið undir ámæli um mjög óvandaða stjórnsýslu.  Stjórnarhættir hennar einkennast þannig af ólýðræðislegum viðhorfum, þjösnaskap og lögleysu.  Þetta hefur margoft verið bent á og öllum orðið ljóst, nema e.t.v. vinstri grænum. 

Ráðherrann beitir oft ofangreindum gerræðislegu vinnubrögðum með vísun til, að "almannahagsmunir" séu í húfi.  Þetta eru algjör öfugmæli, og til nákvæmlega sömu firru hafa stjórnmálalegir ofstopamenn sögunnar jafnan gripið til.  Sannast þar enn skyldleikinn. 

Ráðherra þessi hefur skákað í því skjólinu, að hún væri að berjast fyrir stjórnmálalegum málstað.  Þetta er málstaður örfárra sérvitringa, sem fyrir tilviljun náðu tökum á ríkisvaldinu. Forkólfar vinstri-grænna virðast hiklaust telja, að tilgangurinn helgi meðalið.  Skeyta þeir þá hvorki um skömm né heiður, lög, hagsmuni þjóðfélagsþegna, t.d. í dreifbýlinu, né um mannréttindi.  Þetta hefur nú verið staðfest af Héraðsdómi Reykjavíkur, sem gerði Svandísi gjörsamlega afturreka með geðþóttaúrskurð sinn um skipulag Flóahrepps, þar sem skipulagsyfirvöld höfðu fellt Urriðafossvirkjun inn í aðalskipulag sitt, og ráðuneytið var jafnframt dæmt til greiðslu alls málskostnaðar um MISK 1,5.  Hið síðasta sýnir, að ráðherrann átti sér engar haldbærar málsbætur.  Hún er dómgreindarlaus.

urridafoss_1Umhverfisráðherra þessi hefur traðkað á réttindum hreppanna við Þjórsá til að stjórna skipulagsmálum sínum.  Það tók hana 11 mánuði að kveða upp hinn ógilta úrskurð.  Flóahreppur kærði og á meðan skipulagið var í ráðuneytinu til málamyndameðferðar, og á meðan kærumálið var fyrir dómstólinum, hefur skipulagsmál Flóahrepps, og í raun Gnúpverja og Skeiðamanna, rekið á reiðanum.  Þetta hefur valdið íbúunum stórfelldu fjárhagstjóni og vandræðum, meðalhóf hefur verið sniðgengið, og hér eru stjórnvaldsduttlungar á ferð, sem klárlega stríða gegn almannahagsmunum.  Í andrúmsloftinu, sem sameignarsinnar hafa skapað á síðustu vikum með því að berjast, með hjálp nytsamra sakleysingja, fyrir stjórnmálalegum réttarhöldum, fá menn ekki varizt þeirri hugsun, að téður misheppnaður ráðherra verði dreginn fyrir Landsdóm, ef Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur einbeittan vilja til að ryðja brautina fyrir hann.  Það er nefnilega grundvallarregla í þessu samfélagi, að allir skuli standa jafnir gagnvart lögunum, sem þýðir m.a., að "nómenklatúra" Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs getur átt yfir höfði sér ákærur um "að stofna heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu" - (Steingrímur/Icesave), stórfellt hirðuleysi - (Gylfi/engin áhættugreining á bankakerfinu), og fyrir að "að misbeita stórlega valdi sínu" - (Svandís/ofangreint).  

Umhverfisráðherra hefur með ólöglegum og löglegum, en siðlausum hætti, þvælzt fyrir viðreisn hagkerfisins og sköpun atvinnu og þannig unnið leynt og ljóst gegn almannahagsmunum.  Brotavilji hennar hefur verið skýr og einbeittur.  

sovetislandÞann 18. september 2010 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Dr Tryggva Þór Herbertsson, Alþingismann.  Hann gerir þar afturhaldsmann nokkurn að umræðuefni, sem hann nefnir "alkemista" og kveður hafa "póstmódernískar" skoðanir.  Þar er á ferðinni Andri Snær Magnason, "rithöfundur", en málflutningur hans verður helzt kenndur við bullustampinn, svo stóryrtur og veruleikafirrtur sem hann er.  Áróðursaðferð "rithöfundarins" er einfeldningsleg.  Hann kastar á loft einni, þokkalega þekktri tölu, sem fer nærri sannleikanum, og þyrlar síðan upp talnamoldviðri og fullyrðingaflaumi, sem eru hrein fjarstæða.  Af því að sannleikskorn var í einu, sæmilega þekktu atriði, er fólki ætlað að kokgleypa bullið.  Hefur þessi moðsuða fengið að ganga átölulítið þar til þingmaðurinn benti á ruglandann.

Einn versti fjandi bullustampanna er hagvöxturinn.  Val fólks stendur þó einfaldlega um bættan hag sinn með aukinni landsframleiðslu eða aukinni framleiðni annars vegar og hins vegar versnandi kjör sín og vaxandi bágindi margra og jafnvel neyð.  Vinstri-grænir telja hagvöxtinn varasaman og gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að hindra viðsnúning hagþróunar úr samdrætti í vöxt.  Til þess er gengið á milli bols og höfuðs á einkaframtakinu, litlum og meðalstórum fyrirtækjum, aðalatvinnuskaparanum, níðzt á þeim í bönkunum og þeim látið blæða út, svo að stórfyrirtæki í hrömmum bankanna geti ginið yfir markaðinum.  Það er ógeðslegt þjóðfélag, sem blasir við, verði þessi níðangurslega fátæktarstefna áfram við lýði í Stjórnarráðinu. Um helmingur íslenzkra fyrirtækja er á heljarþröminni og mörgum þeirra dygði dágóður (5 %) hagvöxtur í um 5 ár til að komast á réttan kjöl. 

Þjóðin  þarf nú ferskt blóð á þing og raunverulega leiðtoga í Stjórnarráðið með lífvænlega þrígreinda stefnu til skamms tíma, miðlungs og langs tíma:

  • Koma öllum vinnufúsum höndum til starfa með því að koma hjólum atvinnulífsins í gang á einu kjörtímabili.  Þetta er í algerri andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar, en öll verk hennar (og verkleysi) hafa dregið máttinn úr atvinnulífinu.
  • Koma ríkisfjármálunum í sjálfbært og viðunandi horf á tveimur kjörtímabilum.  Þetta þýðir lækkun á skuldum ríkisins úr yfir 100 % af VLF nú niður fyrir 40 % af VLF á 8 árum.  Jafnframt verði allir vinstri skattarnir afnumdir á sama tímabili og umsvif ríkisins minnkuð niður fyrir 30 % af VLF.  Þetta er í algerri andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem er að drekkja landinu í erlendum skuldum með stjórnlausum hallarekstri ríkissjóðs þrátt fyrir hrikalegar og glórulausar skattahækkanair.
  • Koma efnahagsmálum landsins og þar með gjaldeyris-og myntmálum í örugga höfn á næstu þremur kjörtímabilum.  Þetta þýðir, að finna þarf þarf þá lausn á peningamálunum, sem bezt tryggir stöðugleika hagkerfisins og hagsæld almennings.  Þetta er í algerri andstöðu við stefnu núverandi ríkisstjórnar, sem með flausturslegum hætti hefur sótt um aðild að ESB og er komin í rándýrt aðlögunarferli þess með markmið um upptöku evru sem fyrst án undanfarandi greiningar til að komast að niðurstöðu um, hvað bezt hentar íslenzka hagkerfinu í heild.   

  

Til þess að skapa hagvöxt verða Íslendingar að laða að erlent áhættufé í fjárfestingar í atvinnulífinu.  Múmínálfar stjórnleysingja og bullustampar vinstri-grænna eru alfarið á móti erlendum fjárfestingum og telja alþjóðavæðingu viðskiptanna frá Kölska komna.  Hér eru alger öfugmæli á ferð.  Hvað hefur lyft hundruðum milljóna Kínverja upp úr örbirgð ?  Erlendar fjárfestingar og markaðskerfi á afmörkuðum sviðum, sem Kommúnistaflokkur Kína hefur leyft.  Er nú svo komið, að Kína, með yfir 10 % hagvöxt á ári, er orðið annað stærsta hagkerfi heims.  Að berjast gegn hagvexti er í raun að vinna gegn almannahagsmunum og valda hér vaxandi fátækt og eymd.  Framkvæmdafjandskapur "Draumalandsins" er alls ekki umhverfisvernd, hvorki á innlendan né alþjóðlegan mælikvarða.  Hefur framkvæmdafjandskapur hérlendis dregið úr landeyðingu vegna uppblásturs ?  Hefur framkvæmdafjandskapur hérlendis dregið úr mengun lofts, láðs og lagar í heiminum ?  Svarið er nei.  Firrtir malbiksbúar á borð við múmínálfa Andra Snæs Magnasonar snúa staðreyndum á haus og vita í raun ekki, hvað umhverfisvernd er.   

Fyrir rúmum 200 árum skýrði David Ricardo, hagfræðingur, út fyrir fólki, hvernig auðlegð þjóðanna ykist hraðast.  Það væri með frjálsum viðskiptum, þar sem gert væri út á hlutfallslega hagræna yfirburði þjóða. -  Í íslenzku lögsögunni eru ein gjöfulustu fiskimið heims, sem veita hlutfallslega yfirburði og við eigum að bezta nýtinguna á sjálf.  Þar sem miðin eru fullnýtt, er ekki rúm fyrir fleiri þar. - Hreinleiki landsins, hlýnandi loftslag og vaxandi matvælaþörf gefur íslenzkum landbúnaði sérstakan byr í seglin og hlutfallslega yfirburði á útflutningsmörkuðum. -  Á landi eru einar mestu orkulindir á mann, sem um getur.  Með nútíma tækni er unnt að virkja um 50 TWh/a af raforku með sjálfbærum og afturkræfum hætti, sem þýðir, að enn eru um 2/3 hlutar lindanna óvirkjaðir.  Þetta gefur okkur hlutfallslega yfirburði, sem ber að nýta almenningi til hagsbóta.

Um 10 milljarðar tunna af olíu eru taldar liggja undir hafsbotni í íslenzka hluta Drekasvæðisins.  Þetta nemur þó aðeins heimsnotkun upp á 4 mánuði, en gæti reynzt næstu kynslóðum dágóð tekjulind.  Rússar vilja semja um rannsóknir þar og nýtingu, og þá er nú ekki ólíklegt, að fleiri verði um hituna.  

Tækifærin eru alls staðar, en með afturhaldsöfl við stjórnvölinn og óttablandið hatur á hagvexti í öndvegi munum við hvorki komast lönd né strönd.  Það verður að fá nýtt fólk í brúna; fólk, sem hvorki er með böggum hildar eftir Hrunið né haldið úreltum grillum haturs, öfundar og stjórnlyndis. Stokka verður strax upp á Alþingi og breyta þar valdahlutföllum.

falkinn1_444247  

   

      

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur Ásgeirsson

Nýi íslenski fáninn hér uppi er frábær.

Smá húmor er góður fyrir blæðandi fólkið í landinu...

En sama þjóðin kaus svosem kommana/feminisman yfir sig... verst með þá sem “saklausir” eru í skítnum líka.

Gunnlaugur Ásgeirsson, 25.9.2010 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband