Hrossakaup hrosshausa

Ríkisstjórn og þingmeirihluta Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs eru svo hrottalega mislagðar hendur við smíði frumvarpa til laga, að álykta verður, að óhæfni tröllríði þar húsum.  Fólk er þar á bæ einfaldlega ekki í stakk búið til að stjórna lagasmíð eða vinna að henni sjálft.  Það er að fást við mál, sem það ræður ekki við.  Það má draga enn víðtækari ályktun: Samfylking og Vinstri hreyfingin grænt framboð eru stjórnmálaflokkar, sem hafa á að skipa svo litlu mannvali, að þeir eru óhæfir til landsstjórnar; þeir eru óstjórntækir.

Með þessu er þó ekki öll sagan sögð.  Þetta fólk hagar sér eins og skemmdarverkamenn í stríði við hagsmuni fólksins í landinu.  Þetta stríð er háð undir gunnfána stéttabaráttu, þjóðnýtingar og niðurbrots miðstéttarinnar til að ryðja braut alræði öreiganna, sem er orðatiltæki um forsjárhyggjustjórn spilltrar fámennisklíku, "nómenklatúrunnar".

Þessi skaðræðishegðun siðblindingja við völd endurspeglast nú í stríði við verkalýðshreyfingu, ekki sízt sjómenn, og athafnalífið, ekki sízt lítil og meðalstór fyrirtæki athafnamanna, hryggjarstykkis miðstéttarinnar, en ríkisstjórnin á einnig í stríði við stórfyrirtæki útgerðar og iðnaðar.  Bændur hafa fengið kaldar kveðjur frá þessum stjórnvöldum, sem hóta að drekkja þeim með flóði stórlega niðurgreiddra landbúnaðarvara og jafnvel búsmala.

Ríkisstjórnin er upp á kant við alla helztu hagsmunaaðila hins íslenzka þjóðfélags.  Þetta þarf engum að koma á óvart, sem fylgzt hefur lítillega með stjórnmálum á Íslandi síðasta mannsaldurinn (30 ár (kynslóðaskipti)), og það er allsendis óþarfi að útskýra núverandi stöðu stjórnmálanna  með aðferðum sálfræðinnar.  Það blasir við, að ráðherrarnir eru óhæfir til að leysa úr flóknum og viðkvæmum vandamálum samfélagsins.  Forysta ríkisstjórnarinnar eru landsins dýrkeyptustu tossar.  Verstu tossum Alþingis skolaði "pottaglamrið" til valda.  Það er ekki að sökum að spyrja.  Tossarnir ráða ekkert við viðfangsefnin.  Í stað þess að viðurkenna það opinberlega og rjúfa þing er efnt til illinda.  Þetta er ákaflega vel þekkt mynztur einfeldninga í tilraun til að breiða yfir mistök og vangetu.

Ríkisstjórnin hefur alla sína hunds- og kattarævi hangið saman á hrossakaupum.  Samfylkingarsérvizkan fékk ESB-inngönguviðræður, og Vinstri hreyfingin grænt framboð fékk slagbrand á ný virkjanaáform og iðnvæðingu.  Ofstækismenn beggja flokka sameinuðust um Landsdómsmálið og aðförina að sjávarútveginum og Stjórnarskránni.  Allt vinstra pakkið hefur svo í blindni sinni, þekkingarleysi á gangverki hagkerfisins, og draumförum um útþenslu ríkisbáknsins, sameinazt um skattahækkanir á almenning og fyrirtæki.  Gamalþekktur glópur Samfylkingar, nýkominn á jötuna sem "efnahagsráðgjafi forsætisráðherra", heldur því fram, að á 60 % þjóðarinnar hafi skattheimtan ekki hækkað.  Blindur leiðir blindan.  Ekki er von á góðu.

Forystugrein Morgunblaðsins 14. desember 2012 heitir "Átak gegn atvinnu".  Þarna er gerð grein fyrir illvígum stríðsrekstri hinnar voluðu vinstri stjórnar gegn atvinnu í landinu, en ríkisstjórnin er bandamaður atvinnuleysisvofunnar og einskis annars:

"Ríkisstjórnin hefur verið iðin við að útrýma störfum hér á landi og hindra, að ný verði til.  Hún hefur í raun staðið fyrir samfelldu átaki gegn atvinnu allt kjörtímabilið, og árangurinn af þessari eljusemi leynir sér ekki.  Enn mæla þúsundir göturnar, þar sem enga vinnu er að hafa, og þúsundir hafa flúið ástandið og starfa nú erlendis.  Ástæðu þess, hvernig komið er, má rekja til viðhorfs stjórnarliða til atvinnulífs og atvinnusköpunar.  Stjórnarliðar sjá ekkert samhengi á milli þeirra starfsskilyrða, sem atvinnulífinu eru búin, og þeirra atvinnutækifæra, sem fólki standa til boða." 

Hér er komið að kjarna málsins.  Stjórnvöld á Íslandi eru í aðstöðu til að hafa eyðileggjandi áhrif á afkomu almennings, og það hefur sannazt á núverandi stjórnvöldum.  Það er hægt að rekja það með fjölmörgum dæmum, hversu skaðleg áhrif vinstri stjórnin hefur haft á hagkerfið. 

Með sama hætti geta stjórnvöld með heilbrigða skynsemi, þekkingu og getu til jákvæðra framkvæmda, leitt þróun á landsvísu, er leiðir til trausts hagvaxtar, varanlegra kjarabóta og ríkisbúskapar með mjög jákvæðum greiðslujöfnuði, sem gerir kleift að grynnka á skuldum ríkissjóðs.  Þegar ráðherrarnir eru spurðir út í dúndrandi hallarekstur ríkissjóðs, 400 milljarða kr frá 2009-2012, er viðkvæðið, að verið sé að verja velferðarkerfið.  Þessa tossa, sem þannig míga í skóinn sinn, er hægt að upplýsa um það, að með slíku áframhaldi verður ríkissjóður greiðsluþrota innan 5 ára, og þá verður einfaldlega ekki lengur um að ræða neitt velferðarkerfi á Íslandi.  Hér munu þá frumskógarlögmálin taka við.  Vinstri stjórnin flýtur verkvana að feigðarósi. 

Kjósendur verða að spyrna við fótum.  Láti þeir það hjá líða, og kjósi þeir af léttuð gamla, spillta vinstra settið, hvaða nöfnum, sem það nefnist, þá halda hér áfram móðuharðindi af manna völdum, sem keyra mun samfélagið í þrot í bókstaflegri merkingu.  Stöðnun og fólksflótti mun leiða til þess, að ríkissjóður mun lenda í greiðsluþroti á næsta kjörtímabili, sem þýðir þjóðargjaldþrot.  Hér verða ekki útlistaðar afleiðingar þess.  Um það eru dæmi úr nútímasögunni, t.d. frá Argentínu.

Baráttan snýst um stefnumörkun fyrir þetta þjóðfélag.  Eina ráðið til björgunar er að róa á bæði borð.  Skipstjórinn verður að fá öllum um borð árar, gefa stefnuna og hvetja til afreka.  Fært til baka á stjórnmálin verður hinn nýi forsætisráðherra að kunna til verka, þekkja til athafnalífsins, hafa hæfileika til að tala máli þjóðarinnar erlendis, að vinna traust fjárfesta og lánadrottna, leiða aðila atvinnulífsins saman að einu borði og stilla saman strengi atvinnuveitenda og launþega.  Allt starf hinnar nýju ríkisstjórnar verður að miða að einu markmiði: að bæta hag almennings á Íslandi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur, það sem þarf til í þetta verkefni, en þó því aðeins, að hann hljóti stuðning almennings í landinu til að berjast fyrir hagsmunum hans.  Almenningur hefur allt að vinna og engu að tapa með því að ljá Sjálfstæðisflokkinum stuðning sinn á nýju ári.  Gleðilegt nýár.          

    Merki Sjálfstæðisflokksins

       

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband