30.10.2013 | 21:16
Mengunarváboðar
Í apríl 2013 gaf Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ út vandaða rannsóknarskýrslu eftir Sigurð H. Magnússon, "Þungmálmar og brennisteinn í mosa á Íslandi 1990-2010 - Áhrif iðjuvera¨. Frumkvæði að þessari vinnu áttu 4 stóriðjufyrirtæki á Íslandi, og þau stóðu straum af kostnaðinum.
Heiti skýrslunnar hljómar vissulega óspennandi fyrir marga, enda lá þessi fróðlega skýrsla í láginni í hálft ár, þar til mæt fréttakona, Þórdís Arnljótsdóttir, sem landsmenn muna eftir inni í gosmekki frá Eyjafjallajökli 2010, dustaði rykið af þessu merka plaggi í viku 42/2013 í fréttatíma Sjónvarps RÚV. Umfjöllunin olli reyndar nokkrum úlfaþyti, enda efniviðurinn æsandi. Af myndefninu með þessari frétt mátti ráða, að álverið í Straumsvík væri að dreifa þungmálmum yfir Hafnarfjörð. Þeir, sem lesa hins vegar skýrsluna, átta sig þó fljótlega á, að það er ekkert hæft í því.
Almenn niðurstaða skýrslunnar er, að As (arsen) hefur hækkað, og það er sjálfstætt rannsóknarefni, hvernig hægt er að draga úr losun As út í andrúmsloftið, sem og Ni (nikkels). Ættu viðkomandi eftirlitsstofnanir og umhverfisstofnanir, sem teknar voru algerlega í bælinu með þessari skýrslu og virðast þar að auki ekkert hafa ætlað með hana að gera, þar til téð Þórdís tók hana til umfjöllunar, að hrista af sér slenið og hefja á þessu kerfisbundnar rannsóknir, svo að stemma megi stigu við varasömum efnum. Þess ber þó að geta, að í jarðhita- og eldfjallalandi má búast við hærri gildum þessara efna en annars staðar, þó að styrkurinn verði aðeins staðbundið varasamur af náttúrulegum orsökum.
Það var rétt af Þórdísi, fréttakonu, að vekja rækilega athygli á helztu niðurstöðum, en þær eru mikill áfellisdómur yfir heilbrigðisyfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar og bæjaryfirvöldum þar, sem orðið hefur á alvarleg mistök við gerð aðalskipulags og deiliskipulags að leyfa íbúðahverfi nánast ofan í leyfisskyldri starfsemi. Þessi óheillaþróun skipulagsmála Hafnarfjarðar, sem er orðlagt kratabæli, eins og kunnugt er, leiddi m.a. til höfnunar Hafnfirðinga á nýjum álverskerskálum austan Reykjanesbrautar í marz 2007. Síðan hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina í fjármálum bæjarfélagsins, enda hefur því lengst af undanfarin ár verið stjórnað af vinstri sinnuðu fólki, sem er betur gefið að þenja út útgjaldaliðina og keyra skattheimtu upp í rjáfur en að sýna ráðdeild í rekstri og að efla skattstofna.
Nú verður gripið niður í téða, vísindalega unnu skýrslu til að sýna fram á í hversu djúpan skít Hafnfirðingar hafa ratað með því að velja sér stjórnvöld, sem haga sér eins og "sauðir í sauðargæru" gagnvart brýnustu hagsmunamálum bæjarbúa:
"Við Straumsvík hækkar iðnaðarstarfsemi austan álversins styrk flestra efna, einkum þó Zn og Pb."
Þarna er um að ræða þungmálmana zink og blý, og yfirvöldin eru daufdumb, ef þau geta ekki rakið uppruna þessara efna og krafizt úrbóta í mengunarvörnum viðkomandi fyrirtækja, sem duga til að halda styrk þessara efna í gróðri undir viðurkenndum og metnaðarfullum heilsufarsmörkum. Önnur tilvitnun:
"Suð-austan við álverið í Straumsvík er styrkur Cr, Cu, Cd og Zn (króm, kopar, kadmíum og zink) það hár, að mengun telst veruleg. Blýmengun er þar enn hærri eða mjög mikil. Þessi hái styrkur er aðallega rakinn til iðnaðarstarfsemi austan við álverið."
Það er reginhneyksli, að yfirvöld í Hafnarfjarðarbæ, með vinstri grænan bæjarstjóra í broddi fylkingar, skuli hafa ætlað að stinga þessum upplýsingum undir stól og gera nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut með þær. Þykir Hafnfirðingum það vera boðleg stjórnunaraðferð bæjaryfirvalda að stinga hausnum í sandinn, þegar snúin viðfangsefni rekur á fjörur þeirra ?
Hin knáa fréttadís úr Eyjafjallagosinu, Þórdis Arnljótsdóttir, á heiður skilinn fyrir framtak sitt í þágu almannaheilla, þó að ýmsir misskildu boðskapinn, þegar hann reið yfir, og teldu álverið vera sökudólginn. Það er athyglivert, að stórfyrirtæki á borð við ISAL, sem lagt hefur rækt við mengunarvarnir og ekki tekið þær neinum vettlingatökum, hefur tekizt að halda neikvæðum áhrifum sínum á lífríki lands og sjávar í algeru lágmarki og langt innan marka. Til marks um það er eftirfarandi úr tilvitnaðri skýrslu og er átt við Straumsvík, Grundartanga og Reyðarfjörð:
"Brennisteinsmengun við iðnaðarsvæðin þrjú telst engin eða aðeins vísbending um mengun."
Þessi niðurstaða slær út af borðinu algerlega tilhæfulausa gagnrýni ýmissa, verkfræðinga, náttúrufræðinga o.fl., um hættulega brennisteinstvíildismengun í íbúabyggð í grennd við álverin. Það eru talsverð tíðindi, sem eiga sér skýringu í vindafarinu og náttúrulegu sýrustigi íslenzks jarðvegs (lútkenndur-basískur).
Hræðsluáróðri um brennisteinssýru í lungum ungbarna sofandi úti á svölum í Vallahverfi Hafnarfjarðar og fleira í sama dúr var m.a. hampað fyrir íbúakosningar í Hafnarfirði haustið 2006 og veturinn 2007 um stækkun álversins í Straumsvík, sem áður er getið. Þá var því m.a. haldið fram af andstæðingum téðrar stækkunar, að ISAL yrði að setja upp votvöskun á brennisteini, ef til slíkrar aukningar á framleiðslugetu kæmi. Talsmenn ISAL héldu allan tímann fram hinu gagnstæða og að fé til slíkrar fjárfestingar yrði illa varið. Nú er sem sagt komið á daginn, hvorir fóru með rétt mál.
Það er mun meiri brennisteins- og svifryksmengun frá umferðinni um Reykjanesbrautina í gegnum Hafnarfjörð en frá álverinu í Straumsvík. Mengun frá umferð og frá jarðgufuvirkjunum er alvarlegt mál á höfuðborgarsvæðinu.
Sveitarfélögin bera þar mörg hver mikla ábyrgð. Þau leggja t.d. sum hver stein í götu bílaumferðarinnar, svo að gangtími kaldra véla er mun lengri en nauðsyn krefur. Dæmi um þetta eru hin dæmalausu borgaryfirvöld í höfuðborginni, sem sóað hafa skattpeningum borgarbúa á altari afdæmingarlega sérvizkulegra þrenginga og s.k. skreytinga á Hofsvallagötu og kanski víðar til að þrengja kost ökumanna.
Þetta tefur fyrir fólki á leið í og úr vinnu og annað, eykur eldsneytiskostnað og mengun og eykur slysahættu. Þetta er dæmi um skrípalæti Besta flokksins í Reykjavík, sem virðist takast að breyta öllum hagsmunamálum borgarbúa í farsa. Sá farsi er þó yfirþyrmandi einfeldningslegur og algerlega laus við fyndni.
Annað dæmi um fíflagang Besta flokksins eru málefni Reykjavíkurflugvallar. Öllum, nema skýjaglópum, er ljóst, að enginn flugvöllur verður lagður í borgarlandinu eða nærsveitum næsta áratuginn og e.t.v. aldrei, enda finnst ekki flugtæknilega betri staður. Samt á enn að kasta fé á glæ í vonlausri leit að öðru nothæfu flugvallarlandi í Reykjavík í stað þess að festa flugvöllinn í sessi með nýju aðalskipulagi og þingsályktun.
Vatnsmýrarvöllur getur búið í góðri sátt við nágranna sína hér eftir sem hingað til. Þetta er aðallega háskóla- og vísindasamfélagið auk Landsspítalans. Völlurinn varðveitir betur votlendið, þar sem eru upptök Tjarnarinnar, sem gæti verið perla höfuðborgarinnar, ef betur væri hirt, en Besti flokkurinn er of fínn með sig til að leggja rækt við hreinlæti og þrif.
Að leggja Reykjavíkurflugvöll af býður upp á aukna mengun, því að bifreiðaakstur kæmi í stað flugsins. Fólk mun áfram ferðast. Flugvallarandstæðingar bjóða upp á aukna bílaumferð um alla vegi út frá höfuðborgarsvæðinu með aukinni eldsneytisnotkun, koltvíildi, svifryki og vaxandi slysatíðni. Afleiðingin er tímasóun, versnandi heilsufar og fjölgun slysa. Fyrir þessu berjast Besti flokkurinn og Samfylkingin í Reykjavík. Það fer ekki á milli mála, að þarna er verið að fórna hagsmunum fjöldans fyrir hagsmuni fárra. Þessir fáu búa margir í 101 Reykjavík og eru hávaðasamir sérhagsmunaseggir, sem neita að taka tillit til höfuðborgarhlutverks Reykjavíkur og skyldna sem samgöngumiðstöðvar. Fyrir það þarf að refsa þessum flokkum í komandi sveitarstjórnarkosningum, eftirminnilega.
Þegar nývirki eru á döfinni hérlendis (og erlendis), er sjaldan hörgull á þeim, sem eru boðnir og búnir að mála skrattann á vegginn varðandi afleiðingar framkvæmdarinnar. Svo hefur verið um margar virkjanir, og stundum með réttu að mati höfundar. Búrfellsvirkjun fór t.d. ekki varhluta af þessu. Satt er, að hún átti við rennslistruflanir að stríða í upphafi vegna grunnstinguls, en einhvern tíma varð að brjóta ísinn þar efra og hefja nýtingu á orku Þjórsár og þveráa hennar.
Hér að ofan var minnzt á Reykjavíkurtjörn. Ekki vantaði úrtöluraddir "náttúruverndarsinna" á sinni tíð, er áform um Ráðhús við norðurenda Tjarnarinnar voru kynnt. Mótmælendur og málarar skrattans vörpuðu fram máli sínu til stuðnings hégilju á borð við það, að Tjörnin mundi tæmast til sjávar, þegar grafið yrði fyrir bílakjallaranum undir Ráðhúsinu. Hvaða mismunarþrýsingur átti að knýja slíka tæmingu ? Hugarflug "náttúruverndarsinna" og viðbárur gegn framkvæmdum sýnir einatt, að þar fara "álfar út úr hóli".
Mótbárur við framkvæmdum eru oft ekki boðlegar, þó að stundum séu þær gagnlegar til skemmri og lengri tíma. Hið fyrr nefnda á við um athöfn, sem höfundi er enn í fersku minni, er verið var að leggja nýjan veg að Bláa lóninu fyrir nokkrum árum, en það er í víðáttumiklu hrauni, eins og kunnugt er. Þá lögðust "hraunavinir" á fjóra fætur og tóku að reyta mosann, sem annars hefði orðið fyrir ýtutönninni. Þau voru að "bjarga" mosanum. Öllum öðrum var ljóst, að mosi verður ekki gróðursettur annars staðar. Þekkingarstig þessara "hraunavina" var ekki upp á marga fiska í náttúrufræði.
Nú hafa, seint og um síðir, skotið upp kollinum gamlir kunningjar í hraunavinahópi. Alls konar tafaaðgerðum hefur verið beitt á formi tilraunar til lögbanns og málsókna og nú síðast, þegar þau höfðu ekki erindi sem erfiði fyrir dómstólum landsins, var haldið út í Garðahraun til að tefja vinnuvélar við lagningu nýs og löngu samþykkts vegar út á Álftanes Bessastaðabónda.
Í hugum flestra Íslendinga er miklu meira en nóg til af hrauni, mosavöxnu eða ekki, svo að það hljómar sem ágætis málamiðlun að friða Gálgahraunið þar norðan hins nýja vegar. Furðulegt Írafár varð samt í kringum vinnuvélarnar, og neyddist lögreglan, seinþreytt til átaka, sem hún þó iðulega er, til að handtaka nokkra ellibelgi, sem þó hefur ekki tekizt að útskýra almennilega, hvað þeir voru eiginlega að þvælast þarna ýtustjórunum til ama. Flogið hefur fyrir, að mótmælendur og aðrir, sem næstir búa hinu fyrirhugaða vegstæði, hafi fengið afslátt af lóðarleigunni hjá bænum, en álfarnir, sem "hraunavinir" hafa nú loksins náð sambandi við og segja vera örvæntingarfulla, hafa enn ekki fengizt til að staðfesta það.
Nú síðast var verktakanum bakað tjón með skemmdum á vinnuvélum hans, en þar er þó svo sannanlega bakari hengdur fyrir smið. Virðist ofstæki byrgja "hraunavinum" algerlega sýn í þessu máli, nefnilega þá, að "hraunavinir" eru ekki handhafar sannleikans og réttlætisins í þessu máli, heldur hlýtur hinn lögformlegi farvegur málsins að vera sá rétti. Að ætla með hjálp álfa að brjóta á bak aftur á síðustu stundu með ólögmætum hætti ákvörðun, sem árum saman hefur verið í sínu lýðræðislega ferli, getur ekki talizt ýkja lýðræðislegt, enda bjuggu álfar ekki við lýðræðisskipulag, þegar síðast fréttist, heldur álfakóng.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Spaugilegt, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 22:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.