Váboðar í Evrópu

Framferði Rússa í Úkraínu er með eindæmum.  Kremlverjar sendu dulbúnar, vopnaðar sveitir til Krímskagans, tóku völdin þar, héldu ólöglegar kosningar og lýstu Krímskagann síðan hluta af Rússlandi. 

Einu gildir, þó að Krímskaginn hafi áður verið hluti Rússlands og Vladimir 1. , Rússakeisari, hafi verið að sniglast þar.  Vladimir Putin á ekki að komast upp með ofbeldi gagnvart nágrannaríkjum undir neinum kringumstæðum. 

Hvers konar fordæmi er hann eiginlega að gefa í Evrópu ?  Ef Þjóðverjar o.fl. færu nú á flot með sams konar hundalógík, þá mundi brjótast út styrjöld í Evrópu í 3. sinn á 100 árum.  Putin verður að gera afturreka, og þá dugar varla að setja hann og meðreiðarsveinana á "svartan lista".  Sennilega dugar ekkert minna en efnahagslegur hernaður gegn Rússlandi og jafnvel nethernaður. 

Rússar hafa sent sérsveitir til héraða í Austur-Úkraínu, sem þeir telja hliðholl sér, tekið lögreglustöðvar, æst til uppþota og reynt að skapa glundroða í Úkraínu til að eyðileggja komandi forsetakosningar þar og e.t.v. til að skapa sér átyllu til að ráðast með landher sínum og flugher inn í Úkraínu með svipuðum hætti og Þjóðverjar réðust inn í Pólland 1939 til að koma Þjóðverjum innan Póllands til hjálpar.  Rússar bölsótast yfir aðgerðum stjórnarinnar í Kænugarði, sem reynir að ná opinberum byggingum og embættum á sitt vald og binda þannig enda á þá lögleysu, sem nú viðgengst í Úkraínu, og Kremlarstjórnin ber ábyrgð á.

Sagan endurtekur sig í sífellu.  Kennisetning valdhafa Þriðja ríkisins (1933-1945) var, að allir þýzkumælandi menn ættu siðferðilegan rétt á að búa í einu ríki, Stór-Þýzkalandi, þjóðernisjafnaðarmanna.  Á þeim grundvelli var Austurríki tengt Þýzkalandi (Anschluss), Súdetahéruðin og síðan öll Tékkóslavakía innlimuð, og Heimsstyrjöldin síðari hófst 1. september 1939 með því að opna átti leiðina á milli Þýzkalands og Danzig (nú Gydansk) í Póllandi, sem var þýzk.  Til að róa Rússa var gerður við þá griðasáttmáli 10 sólarhringum áður og Póllandi skipt á milli Þýzkalands og Rússlands.  Vonandi er ekki annar griðasáttmáli í vændum, en undanlátssemi Þjóðverja við Rússa er tekin að ofbjóða mörgum.  

Þar sem Þýzkaland er forysturíki Evrópusambandsins, ESB, má segja, að enn standi átökin um Austur-Evrópu á milli Þýzkalands og Rússlands.  Nú er hins vegar jafnaðarmaður utanríkisráðherra Þýzkalands og finnst mörgum gæta óþarfa linkindar hjá honum í garð Rússa, þ.á.m. þeim, sem ábyrgzt hafa landamæri Úkraínu, Bretum og Bandaríkjamönnum.  Putin spilar á óeiningu Vesturlanda.  Hann á ekki að komast upp með slíkt.

Nú er spurningin, hvort Úkraínu verður skipt á milli Evrópusambandsins (ESB) og Rússlands ?  Framferði Rússa nú árið 2014 minnir um margt á framferði Þjóðverja á dögum Þriðja ríkisins.  Vladimir Putin, sem augljóslega er haldinn mikilmennskubrjálæði, hefur lýst því yfir, að allir Rússar eigi rétt á því að búa undir rússneskum verndarvæng og hann muni vinna að því, að svo verði á sínum valdaferli.  

Þetta er með algerum endemum, og Vesturveldin verða að setja upp í sig tennurnar strax og Vesturlandamenn að vona, að einhverjar vígtennur séu þar á meðal.  Í Evrópu er fátt um fína drætti í þeim efnum, en NATO undir forystu Bandaríkjanna (BNA) verður þar að koma til skjalanna. 

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er;  í þessu máli hefur ESB rétt einu sinni orðið sér til skammar, þegar á herti.  Þar er hver höndin upp á móti annarri, svo að viðbrögð Vesturveldanna eru friðkaup enn sem komið er, þó að Bretar og Bandaríkjamenn, sem ábyrgðust landamæri Úkraínu fyrir 20 árum, hafi talað fyrir harðari aðgerðum.  Þetta viðurkennir hinn stæki ESB-sinni, Joschka Fischer, græningi og fyrrverandi utanríkisráðherra Þýzkalands í góðri grein, "Þáttur Evrópu í harmleik Úkraínu", sem Morgunblaðið birti 29. apríl 2014.  Joschka kvað Kremlverja nú beita "spægipylsuaðferðinni á Úkraínu, og um forysturíki ESB, Þýzkaland, hafði hann þetta að skrifa:

"Það hefur aðallega verið Þýzkaland, sem hefur streitzt gegn því að samþætta orku-og jarðgasmarkað Evrópu.  Eftir harmleikinn í Úkraínu getur enginn í Berlin varið þessa afstöðu, sér í lagi í ljósi þess, að leiðtogar Þýzkalands vilja ekki beita Rússa refsiaðgerðum.  Það verður ekki lengur neitt rými til afsakana um, hvers vegna ætti ekki að koma á orkusambandi."

Málið er, að efnahag Rússlands hnignar, vinsældir Putins voru í rénun, enda búinn að vera lengi við völd og mikið spillingarfargan í kringum hann.  Hann sá sér færi á að setja hefðbundna útþenslustefnu Rússlands á dagskrá sér til framdráttar, þegar byltingin gegn Janukovich, leppi Rússa, var gerð í Kænugarði í vetur.  Rússland stendur á brauðfótum, fámennisauðvald hefur tögl og hagldir, en almenningur lepur dauðann úr skel og huggar sig með bokkunni.  Drykkjuskapur er að gera út af við Rússland, meðalaldur fer lækkandi, og Rússum fækkar.

Rússland státar ekki af innri styrk Þriðja ríkisins, þar sem valdhafarnir hættu strax við valdatökuna 30. janúar 1933 að greiða sigurvegurum Fyrri heimsstyrjaldarinnar stríðsskaðabætur og beindu þess í stað fénu í fjárfestingar í innviðum Þýzkalands og hlutu vinsældir fyrir.  Þjóðverjum fjölgaði hratt í Weimarlýðveldinu og fram að Síðari heimsstyrjöld, og þeir tóku forystu í tækniþróun og iðnaðarframleiðslu, sem á dögum Þriðja ríkisins var reyndar beint að vígbúnaði. 

Það var að vísu þannig, að í febrúar 1942, þegar Albert Speer tók við embætti vígbúnaðarráðherra, nam hergagnaframleiðsla Þjóðverja aðeins fjórðungi þess, sem hún var í hámarki Fyrri heimsstyrjaldarinnar í tonnum talið hjá keisaranum.  Þjóðverjar voru í raun vanbúnir til stórátaka 1939.  Albert Speer þrefaldaði framleiðsluna á skömmum tíma með aðeins þriðjungs aukningu mannafla. 

Ekkert slíkt öflugt framleiðslukerfi er fyrir hendi í Rússlandi.  Ef dregið verður kerfisbundið úr viðskiptum við Rússa á öllum sviðum, munu ólígarkarnir velta valdhöfunum í Kreml úr sessi.  Rússland stendur á brauðfótum, en hættan er sú, að kalda stríðið fari úr böndunum og verði heitt, sem gæti leitt til tortímingar.

Eins og fram kemur hér að ofan hjá Joschka Fischer, bera Þjóðverjar taugar til Rússa, en sömu sögu er ekki að segja um Pólverja, sem enn muna hryðjuverkin í Katyn-skógi.  Joschka Fischer skrifaði eftirfarandi í téðri grein:

"Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur lagt fram réttu leiðina hérna; snögga stofnun orkusambands Evrópu, þar sem byrjað yrði á markaðinum fyrir jarðgas með sameiginlegri stefnu út á við og sameiginlegri verðskrá.  Þetta skref ásamt frekari greiningu á þeim ríkjum, sem leggja til orkuna, og tækniframförum í þá átt að koma á fót endurnýjanlegum orkugjöfum, mundu snúa við valdataflinu á milli  Kremlar og Evrópusambandsins, sem er mikilvægasti viðskiptavinur Rússlands, þegar kemur að olíu og jarðgasi."

Það er lítill vafi á því, að samtaka Vesturlönd geta knúið Rússa til uppgjafar í efnahagslegu og fjármálalegu stríði.  Strax þarf að hefjast handa með vinnslu jarðgass í Evrópu með "sundrunaraðferðinni" (e. fracking), sem gefizt hefur vel í BNA og Kanada, þannig að þessi lönd eru að verða sjálfum sér næg með jarðefnaeldsneyti, og gasverð þar hefur lækkað um 2/3 og raforkuverð um 1/3 ffyrir vikið.  Á meðan þessi þróun á sér stað þarf að frysta innistæður Rússa, hvar sem til þeirra næst, og draga úr viðskiptunum við þá. 

Það, sem ekki tókst við Stalingrad veturinn 1943, þar sem 6. her von Paulus, 265 000 manns, var umkringdur, galt afhroð og gafst upp 31. janúar 1943, og við Kursk sumarið 1943, þar sem Wehrmacht og Rauði herinn háðu mestu skriðdrekaorrustu sögunnar, verður unnt án blóðsúthellinga með samstilltu átaki Þýzkalands, Bretlands og Bandaríkjanna, þ.e. að koma Rússlandi á kné, en þó aðeins, ef Berlín þekkir sinn vitjunartíma, eins og Joschka Fischer bendir á.   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Í annars áhugaverðum pistli ferðu ekki rétt með ártöl.

Albert Speer varð ekki vígbúnaðarráðherra (Rüstungsminister) í febrúar 1941 heldur 1942.

6. her von Paulus gafst upp 31. janúar 1943 en ekki 1942. Hinum 265 þúsund manna her var ekki útrýmt í orustunni þar sem um 100 þúsund voru teknir til fanga. Hins vegar er skylt að geta þess að aðeins um 5 þúsund þessara fanga áttu afturkvæmt til Þýskalands.

Hin mikla skriðdrekaorusta við Kursk (og Orel) var háð sumarið 1943 en ekki 1944.

Daníel Sigurðsson, 1.5.2014 kl. 03:17

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir þessar ábendingar, Daníel.  Ég er búinn að innfæra leiðréttingar.  Þessar tímasetningar eru mikilvægar fyrir þá, sem vilja gera sér grein fyrir framvindu stríðsins.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 1.5.2014 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband