10.8.2014 | 14:53
Undarlegt háttarlag hunds um nótt
Embætti Umboðsmanns Alþingis hefir hin seinni árin ekki þótt ýkja afkastasamt. Þó brá út af þessu nú í kringum verzlunarmannahelgina. Þá á einni viku skrifaði Umbi 2 bréf til Innanríkisráðherra, og hefur annað eins lífsmark ekki sézt lengi hjá embættinu.
Tilefni fyrra bréfsins virðist hafa verið, að Umbi hafi komið auga á rætin skrif um Innanríkisráðherra í sorpriti nokkru og fundizt þá sér renna blóðið til skyldunnar að kanna kringumstæður rannsóknar Ríkissaksóknara á samantekt úr Innanríkisráðuneytinu um málefni hælisleitanda. Þetta skjal fjallaði um nokkrar staðreyndir varðandi hælisleitanda og var ekki meðhöndlað sem trúnaðarmál í ráðuneytinu með réttu eða röngu, og er þessi samantekt úr sögunni.
Skjalið, sem öllu fjarðrafokinu olli, var hins vegar gildishlaðin fölsun á téðri samantekt. Þar sem hér var um rætið skjalafals að ræða, átti alls ekki að hefja rannsókn, eins og falsaða skjalið kæmi úr ráðuneytinu, heldur átti að rannsaka skjalafalsið, ef talin var þörf á að rannsaka eitthvað.
Í svarbréfi Innanríkisráðherra kom fram, að ráðherra og ráðuneytið hefðu lagt sig í líma við að greiða fyrir rannsókn lögreglunnar, þó að hún gengi svo langt að leggja hald á gögn úr tölvu ráðherrans og starfsmanna hans. Lögreglustjórinn í Reykjavík, sem annaðist rannsóknina fyrir Ríkissaksóknara, hefur staðfest bréf ráðherrans í öllu, sem máli skiptir. Þar með mundi afskiptum Umba hafa lokið, ef allt hefði verið með felldu.
Lögreglurannsókninni er lokið fyrir allnokkru, en Ríkissaksóknari heykist á að birta niðurstöðurnar, þ.e. hvort hún láti þar við sitja eða ákæri einhvern. Skal spá því hér, að ekkert bitastætt hafi komið fram í þessari rannsókn, enda fór hún fram á fölskum forsendum. Sættir Ríkissaksóknari sig ekki við orðinn hlut ?
Sem áður segir skyldi maður nú halda, að bréfaskriftum Umba til Innanríkisráðherra um meint afskipti hennar af rannsókninni væri lokið. Óekkí. Umbi skrifaði strax annað bréf, og varðaði það aðeins að litlu leyti efni máls, eins og fram kemur hér að neðan í tilvitnun í fyrrverandi Hæstaréttardómara.
Seinna bréf Umba var endemis sparðatíningur, og hefur annar eins ekki sézt síðan skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis birtist, þar sem rannsakendur hlupu út um víðan völl og hengdu sig í alls konar aukatriði, eins og formleg fundarboð og fundargerðir, í stað þess að varpa ljósi á raunverulegar orsakir þess, að Ísland varð svo fljótt og illa úti í hinni alþjóðlegu bankakreppu, sem enn er ekki séð fyrir endann á víða í Evrópu.
Um seinna bréfið skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, í Morgunblaðið 8. ágúst 2014 undir fyrirsögninni:"Embættismaður fer offari".
"Þar eru bornar fram frekari spurningar, sem augljóslega hafa ekki minnstu þýðingu fyrir upphaflegt erindi umboðsmannsins. Meðal þeirra má finna kröfu um, að hann fái að vita um "hvaða málefni/viðfangsefni voru til umfjöllunar á þessum fundum". Einnig vill hann vita, hver hafi boðað lögreglustjórann til fundanna, óskar eftir gögnum um þau málefni, sem þar hafi verið fjallað um og krefst jafnvel enn frekari upplýsinga, sem ekki hafa nokkra þýðingu fyrir það málefni, sem á að hafa verið tilefni afskiptanna í upphafi."
Ályktun Jóns Steinars af fram komnum gögnum í þessu ómerkilega máli, sem aldrei hafði burði til að verða að máli á hendur ráðuneytinu, er, að Umbi stefni að því að koma höggi á ráðherrann og að svör og skýringar ráðherrans skipti Umbann engu máli. Er hugsanlegt, að tómleika lekamálsins sjálfs eigi að bæta upp með illgirnislegum ásökunum á hendur ráðherranum sjálfum varðandi rannsókn málsins ? Hér má þá taka svo til orða, að heldur er nú moldin tekin að rjúka í logninu.
Það er ljóst, að Umbi gætir ekki meðalhófs í þessu máli og er því kæranlegur fyrir brot á Stjórnsýslulögum. Hann gætir heldur ekki jafnræðis og reglubundinnar stjórnsýslu. Jón Steinar orðar þetta þannig:
"Með ómálefnalegri þátttöku sinni í tilefnislausri aðför að ráðherranum grefur umboðsmaður Alþingis undan embættinu, sem honum hefur verið trúað fyrir."
Það er ekki nokkurt samræmi í vinnubrögðum Umba. Hann stjórnast af geðþótta og snýst eins og vindhani. Jón Steinar skrifar:
"Þetta mun hann gera, þó að fyrir liggi upplýsingar um, að hann hafi ekki talið nokkra ástæðu til að taka upp "að eigin frumkvæði" athugun máls vegna afskipta fyrri ráðherra dómsmála af rannsókn sakamála; afskipta, sem klárlega samrýmdust ekki lögum."
Fyrir nokkru skrifaði Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, grein í Morgunblaðið, þar sem hann upplýsti um, að félag hans, Úrsus ehf, hefði kvartað undan stjórnsýslu Seðlabankans til umboðsmanns Alþingis. Í kvörtuninni komu fram mjög alvarlegar ásakanir í garð Seðlabankans og bankastjóra hans, Más Guðmundssonar.
Tæpum 4 árum eftir kvörtunarbréf Heiðars Guðjónssonar til Umba hefur Umbi enn ekki komizt að niðurstöðu og gefið út álitsgerð. Í 12. grein reglu nr 82/1988 stendur:
"Ávallt, er umboðsmaður lætur frá sér fara tilkynningu um mál, skal hann greina, hvað stjórnvald það, sem hlut á að máli, hefur fært fram sér til varnar."
Umbinn, sem vill láta líta út fyrir, að hann sé siðavandur, og gerir mikið veður út af siðareglum, sem ráðherrar eigi að setja sér og fara eftir, hefur þarna þverbrotið mikilvæga siðareglu embættis síns, sem honum ber að fara eftir í viðskiptum sínum við ráðherra og önnur stjórnvöld. Þetta heitir, að embætti fari offari gegn einstaklingum og er mjög alvarlegur fingurbrjótur að hálfu þessa embættis, sem hlýtur að hafa eftirmála.
Nú er spurningin: hvers vegna eru Ríkissaksóknari og Umboðsmaður Alþingis í krossferð gegn Innanríkisráðherra ? Almenningur í landinu á rétt á að fá að vita það. Það hlýtur að liggja fiskur undir steini. Tengist þetta einhverju öðru máli, eða er þetta lúaleg aðför stjórnmálalegs eðlis ?
Eitt er alveg víst: hvorki Ríkissaksóknari né Umboðsmaður Alþingis eiga að fá að ráða því, hver gegnir stöðu Innanríkisráðherra, eða hver gerir það ekki.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Löggæsla | Facebook
Athugasemdir
sæll Bjarni, er umbinn ekki svona týpísk embættismanna silkihúfa sem fáir sjá gagnsemi í og í tilgangsleysi sínu grípur hann þau hálmstrá sem hann heldur að hann geti notað til að stimpla sig inn um hríð?
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 10.8.2014 kl. 18:18
Þessi tilgáta þín, Kristján, kann að vera rétt, en þá er hann heldur betur að misnota embætti sitt, eða eins og Jón Steinar skrifaði í grein sinni, að grafa undan því. Það er viðurhlutamikið að sækja að ráðherra, eins og gert hefur verið, á grundvelli falsaðs skjals. Mér finnst hátt reitt til höggs af litlu tilefni. Það er eðlilegt, að menn velti fyrir sér, hvað að baki búi ? Það er vart ofmælt að tala um aðför. Hún mun verða bjúgverpill í þessu tilviki.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 10.8.2014 kl. 18:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.