26.9.2014 | 20:19
Viðareldsneyti
Skógrækt á Íslandi á framtíðina fyrir sér. Mælingar íslenzkra vísindamanna hérlendis og annarra hafa sýnt, hversu mikil upptaka koltvíildis (CO2) á sér stað á flatareiningu að jafnaði á vaxtarskeiði trjáa af mismunandi tegundum. Að sama skapi hefur myndun gróðurhúsalofttegunda vegna rotnunar laufa og annars, sem tré láta frá sér, verið metin. Þessar mælingar fóru t.d. fram á vegum Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshéraði á fyrsta áratugi þessarar aldar og síðar.
Þá er einnig vitað, hversu mikið koltvíildi myndast við viðarbruna. Á sambærilegum grunni hefur Evrópusambandið (ESB) ákveðið að flokka við til sjálfbærs eldsneytis, þ.e. að líta á hann sem "kolefnishlutlausan" og endurnýjanlegan orkugjafa. Með öðrum orðum hafa vísindamenn í ESB-ríkjunum komizt að því, að nettó upptaka CO2 úr andrúmsloftinu við skógrækt er meiri en losun CO2 við bruna á sama viði. Þetta er nýtt viðskiptatækifæri.
Þetta mat ESB hefur leitt til þess, að trjáviður er nú mikilvægasta eldsneytið í orkuverum Evrópu fyrir utan jarðefnaeldsneyti, þrátt fyrir að í Evrópu séu 3/4 af uppsettu afli sólarhlaða í heiminum og þrátt fyrir þreföldun uppsetts afls vindorkuvera í Evrópu á síðast liðnum 10 árum. Nánast allur kostnaður í ESB-löndunum við að auka hlut sjálfbærra orkugjafa í rafmagnsvinnslunni hefur farið í sólarhlöður og vindorkuver og tengingu þeirra við stofnkerfið, en megnið af sjálfbærri orku inn á netið kemur hins vegar frá skógræktinni. Það er augljóslega vitlaust gefið við borð "búrókratanna" í Brüssel, sem hygla rándýrum gæluverkefnum sínum á kostnað skattborgara og neytenda. Hingað til lands hefur smitazt daður við téð gæluverkefni, einkum vindorkuna, þrátt fyrir þann annmarka, að framleiðendur treysti sér ekki til að afhenda hingað stærri vindmyllur en 3,0 MW vegna vindafars hér. Hagkvæmni vindmylla hér eru þess vegna alvarlegar skorður settar.
Viður á ýmsu formi, s.s. stengur, molar (e. pellets) og sag, sem allt gengur undir samheitinu lífmassi, stendur nú undir helmingi raforku úr endurnýjanlegum orkulindum í Evrópu, og sums staðar, t.d. í Finnlandi og í Póllandi, er þetta hlutfall 80 %. Í Þýzkalandi Orkuvendipunktsins (þ. die Energiewende), þar sem gríðarlegum upphæðum, tugmilljörðum evra, hefur verið varið í niðurgreiðslur á rafmagni úr sólarorku og vindorku, er hlutfall lífmassa í raforkuvinnslu án jarðefnaeldsneytis 38 %.
Það segir mikla sögu um markaðsöflin, að eftir að evrópskar ríkisstjórnir hafa árum saman hreykt sér af "hátækni" við vinnslu raforku án kolefnislosunar, þá er hinn ævaforni orkugjafi mannkynsins, viðurinn, í raun í fyrirrúmi við sjálfbæra raforkuvinnslu, þó að stjórnmálamenn tali í tíma og ótíma um sól og vind sem orkugjafa, en minnist sjaldan á viðinn. Hanastélsboðin eru vettvangur vindorkunnar, en viðurinn liggur óbættur hjá garði.
Innan raforkugeirans hefur viðurinn marga kosti í samanburði við vind og sól. Það er engin þörf á miklum fjárfestingum á miklu landrými með uppsetningu vindmylla eða sólarhlaða í óþökk ýmissa hagsmunahópa, heldur er hægt að blanda viðarmolunum við kolin í kolakyntum orkuverum í rekstri allt upp í 10 % við á móti 90 % kolum með aðeins smávægilegri fjárfestingu. Þá þarf ekki neina nýja tengingu orkuvers við stofnkerfið, og reksturinn verður ekki slitróttur, eins og óhjákvæmilega verður í tilviki vinds og sólar. Þetta hefur mikil jákvæð áhrif á hagkvæmnina.
Á Íslandi verður á þessari öld engin þörf fyrir raforkuver knúið varma frá viði, en það er þegar fyrir hendi markaður innanlands hjá iðnaðinum fyrir allan þann við, sem til fellur, og sennilega verður hægt að flytja utan með þokkalegri arðsemi allan við, sem menn eru aflögufærir með alla þessa öld til að knýja raforkuver á meginlandinu.
Það er almenn samstaða um kosti lífmassans. Græningjar telja lífmassann kolefnishlutlausan, orkufyrirtækin telja blöndun kola og viðarmola ódýra leið til að bjarga kolaverum sínum, og ríkisstjórnir telja eina möguleikann til að uppfylla markmið ESB um 20 % hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa árið 2020 vera að hagnýta viðinn.
Þjóðverjar leiða þessa þróun, eins og þeir leiða þróunina á mörgum öðrum sviðum, og hafa gert allt frá dögum Guthenbergs, segja sumir, og árið 2011 hóf þýzki orkurisinn RWE að breyta kolakyntum orkuverum sínum í að brenna alfarið viðarmolum. Fleiri hafa fylgt í kjölfarið, og hvert slíkt orkuver framleiðir gjarna svipaða raforku og öll orkuver Landsvirkjunar saman lögð.
Gefur slíkur samanburður til kynna, hversu lítið íslenzka raforkukerfið er í samanburði við raforkukerfi Evrópu, og þess vegna er verulegum vandkvæðum háð að tengja þessi tvö kerfi saman, og fyrir hvorugt kerfið verður ávinningur teljandi, en tæknilegar hindranir, að ekki sé nú minnzt á viðskiptalegar hindranir, af ýmsum toga.
Það er við lýði verulegur fjárhagshvati til að framkvæma þessar breytingar í Evrópu úr kolum í við, því að fyrirtækin fá uppbót á markaðsverðið að jafngildi 75 USD/MWh, sem gefur mjög stuttan endurgreiðslutíma þessara breytinga.
Þessi þróun opnar Íslendingum leið til að selja allar þær viðarkúlur til Evrópu, sem þeir geta framleitt, og þessi þróun mun valda verðhækkunum á viði erlendis og á Íslandi, sem mun koma niður á byggingariðnaði og húsgagnaframleiðslu um alla Evrópu, svo að dæmi séu nefnd. Árið 2012 voru 13 Mt (milljón tonn) af viðarmolum notaðir í Evrópu. Þessi markaður vex nú um allt að 10 % á ári, svo að árið 2020 þarf þessi markaður allt að 30 Mt af viðarmolum.
Evrópa getur ekki framleitt allan þennan við og verður að mæta aukningunni með innflutningi. Innflutningur Evrópu á viðarmolum jókst um 50 % árið 2010, og millilandaviðskiptin með viðarmola geta vaxið úr 10 Mt/a í 60 Mt/a árið 2020, eða sexfaldast á einum áratugi. Kína tekur við miklu magni af viðarmolum, og aðalútflutningssvæðin eru Vestur-Kanada og suðurhluti Ameríku. Ísland stendur þess vegna mjög vel að vígi í samkeppninni varðandi nálægð við Evrópumarkaðinn.
Verðið á viðarmolum hefur hækkað samkvæmt "Argus Biomass Report" úr 116 USD/t í ágúst 2010 upp í 129 USD/t í árslok 2012 eða um 4 % á ári. Verð á harðviði frá Vestur-Kanada hækkaði um 60 % árið 2012.
Nú má spyrja, hvað kosti að draga úr koltvíildislosun með þessum hætti. Við framleiðslu á viðarmolunum og við flutninga á þeim frá framleiðanda til notanda myndast 0,2 t CO2/MWh af framleiddri raforku með viðarmolum. Við kolabrennslu myndast um 1,0 t CO2/MWh, svo að sparnaðurinn nemur 0,8 t CO2/MWh. Niðurgreiðslan í ESB-löndunum nemur 75 USD/MWh, svo kostnaðurinn nemur 94 USD/t CO2. Þetta er um 14-falt núverandi verð á koltvíildiskvóta í Evrópu. Samfélagslegur kostnaður við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurnýjanlegum orkugjöfum er þess vegna miklu hærri en kostnaður koltvíildiskvóta, sem mun sennilega leiða til lækkunar á opinberum niðurgreiðslum til sjálfbærra orkuvera.
Það virðist samt vera óhætt að fara út í miklar fjárfestingar í skógrækt. Gallinn er, að tekjur myndast ekki fyrr en að 20 árum liðnum, nema skógarbændur geti selt koltvíildiskvóta til þeirra, sem eru að auka koltvíildislosun sína. Fyrir landið hefur skógræktin ótvíræða kosti, þar sem hún skapar fljótlega vinnu við grisjun, og skógar breyta staðbundnu veðurfari til hins betra og mynda skjól. Að margra mati bæta skógar ásýnd landsins, og þeir breyta rakastigi jarðvegs, gróður- og dýralífi. Um þetta sýnist sitt hverjum, enda orkar allt tvímælis, þá gert er.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Umhverfismál, Viðskipti og fjármál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Bestu þakkir fyrir þessa grein.
Það er þó annar fylgisfiskur sem vert er að minnast á. Víða um Evrópu er rafmagn og gas orðið það dýrt að einstaklingar í vaxandi mæli hita hús sín með eldivið.
Þó að það kunni að flokkast sem "grænn" kostur, fylgir því óneitanlega mikil mengun í formi sóts og annarra agna sem berast út í andrúmsloftið.
Að vera staddur þar sem flest öll hús kynda með við, hvort sem það er í formi hefðbundins eldiviðar eða "pelletta", fær að ég tel hvern og einn til að efast um hversu "grænn" þessi kostur raunverulega er.
En eins og staðan er í dag, er þetta víða lang ódýrasti kosturinn.
Það er spurning hvort að ekki fari svipað fyrir þessum "græna kosti" eins og díselbílunum, sem æ fleiri efast nú um, eftir fjölda ára "prómóteringu" af hálfu hins opinbera.
Persónulega tel ég að ríkisstjórnir Evrópu (og víðar) ættu að reyna að ýta undir notkun varmaskipta eins og kostur er.
G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2014 kl. 10:15
Þakka þér fyrir góða ábendingu, Tómas Gunnarsson;
Jafnvel Norðmenn, sem flestir hafa í íbúðum sínum rafmagnsþilofna og vinna rafmagn að langmestu leyti í vatnsorkuverum, hafa í hýbýlum sínum kamínur af mismunandi gerðum og sjá sér hag í því að brenna þar pappír og við til upphitunar húsnæðisins. Þarna fer í langflestum tilvikum fram ófullkominn bruni, sem leiðir til losunar á reyk, sem leggst yfir þéttbýli, t.d. í Ósló, og veldur mörgu fólki óþægindum, og er óheilnæmt fyrir allt, sem anda dregur, auk þess að valda sóðaskap og draga fyrir sólu. Þetta er ekki svo í orkuverunum, þar sem er mun hærra hitastig í brunahólfunum og auk þess síun á reyknum. Þessi viðarbruni í heimahúsum ætti þess vegna að vera algert neyðarbrauð, en hvað á til bragðs að taka, þegar miðlunarlónin hafa verið nýtt til útflutnings á raforku um sæstreng og orkuverðið hefur þar af leiðandi rokið upp úr öllu valdi ? Ég er sammála þér um það, að fjarvarmaveitur eru miklu vænlegri kostur til upphitunar húsnæðis.
Bjarni Jónsson, 27.9.2014 kl. 13:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.