19.9.2014 | 22:12
Skattkerfisbreytingar til bóta - loksins
Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp í kringum tillögu Fjármála- og efnahagsráðherra um löngu tímabærar endurbætur á kerfi óbeinna skatta, er miða að aukinni skilvirkni kerfisins, þ.e. bættum skattskilum og einföldun fyrir alla, ekki sízt þá, sem þurfa að vinna með þetta kerfi. Hér er um áfanga í átt til einnar virðisaukaskattheimtu og lækkunar verðlags í landinu, sem er í hag allra fjölskyldna í landinu, hvað sem önugum nöldurseggjum dettur í hug að bera á borð opinberlega eða annars staðar.
Það verður að meta þessar tillögur heildstætt, því að breytingarnar eru margþættar, en nefna má afnám vörugjalda á matvæli og aðrar vörur, afnám sykurskatts, sem lagður var á undir formerkjum neyzlustýringar, en hafði engin önnur áhrif en að hækka verð á mörgum matvörum. Þá er neðra þrep virðisaukaskatts hækkað úr 7,0 % í 12,0 % samkvæmt tillögunum, og efra þrepið lækkað úr 25,5 % í 24,0 %.
Skattbyrðin er með þessum aðgerðum lækkuð um 3,0 milljarða kr, og barnabætur eru auknar um 1,0 milljarð kr. Að jafnaði er þetta augljóslega hagstæð aðgerð fyrir hinn almenna neytanda, en sáð hefur verið efasemdarfræjum um, hvernig ávinningurinn gagnast mismunandi tekjuhópum. Þetta er allt hægt að kryfja, og hefði óneitanlega verið skynsamlegra, t.d. af efasemdarmönnum í hópi stjórnarsinna, að skoða fílinn allan í heild í stað þess að einblína á eina löpp á þessum stóra fíl, sem hér er til skoðunar, og draga víðtækar ályktanir um útlit og eðli fílsins á þessum hæpna grundvelli. Slíkt getur verið merki um yfirborðsleg vinnubrögð, sem jafnvel bera keim af lýðskrumi.
Sannleikurinn er sá, að þeir, sem berjast gegn breytingum á skattkerfinu, eins og þær birtast í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, standa vörð um áframhaldandi ávinning hins ríkari hluta þjóðarinnar, sem yfirleitt gerir betur við sig í mat og drykk en þeir, sem minna hafa á milli handanna. Sparnaður þeirra vegna 7 % VSK á matvæli í stað 12 % getur hæglega numið 50 þúsund kr á mann á ári. Þegar þessir gagnrýnendur þykjast taka upp hanzkann fyrir fátæklinga, er það á fölskum forsendum, og þeir verja þar með í raun áframhaldandi forréttindi hinna ríkari að borða dýrt án þess að greiða af því skatt til ríkisins sambærilega háan og gert er á hinum Norðurlöndunum, þar sem virðisaukaskattur á matvæli er hvergi undir 12 %.
Þá má minna á, að OECD - Efnahags- og framfarastofnunin og AGS - Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa báðar ráðlagt Íslendingum að stytta bilið á milli lægra og efra skattþrepsins af eftirfarandi ástæðum:
- stórt bil freistar til rangrar flokkunar og dregur úr skatttekjum
- efra VSK-þrepið á Íslandi er eitt hið hæsta í heimi; það spennir upp verðlag í landinu, færir verzlun utan og freistar til undanskota. Allt er þetta þjóðhagslega óhagkvæmt.
- lágur skattur á matvæli mismunar fólki eftir efnahag, ríkum í hag. Allir þurfa að borða, en hinir efnameiri nota mun meira fé á mann, jafnvel tvöfalt meira, í matvælakaup og drykkjarföng en hinir efnaminni. Með lágum virðisaukaskatti á matvæli er verið að hlífa hinum betur settu við eðlilegum skattgreiðslum. Samkvæmt Hagstofunni eyðir fólk í efsta fjórðungi tekjustigans 60 % meira fé í matvæli en fólk í neðsta fjórðunginum. Ef bornar eru saman neðsta og efsta tekjutíundin, verður munurinn enn meiri, og verða notuð 80 % í útreikningum hér að neðan. Með þessu skrýtna háttarlagi, sem hvergi tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, er verið að færa hinum bezt settu í þjóðfélaginu um 3,0 milljarða kr á silfurfati. Er ekki kominn tími til, að létta þeim af öllum hinum með því að láta fólk greiða skatt af matvælum, dýrum og ódýrum, eins og tíðkað er í öðrum löndum ?
Pawel Bartoszek hefur svarað þessari spurningu að sínu leyti í Fréttablaðinu 13. september 2014 í greininni: "Gegn fátækt sem var". Verður hér vitnað í grein hans:
"Sú var tíðin, að fólk, sérstaklega fátækt fólk, þurfti að nota mjög stóran hluta af fé sínu til að kaupa sér mat. Þetta hefur breyst. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna (BLS) lækkaði þáttur matvöru í heildarútgjöldum heimilanna þar í landi úr 43 % árið 1901 í 13 % árið 2002."
Óumdeilt er, að þróunin hefur orðið með svipuðum hætti á Íslandi, því að "Rannsókn á útgjöldum heimilanna 2010-2012", sem Hagstofa Íslands stóð að, gaf 14,9 % af ráðstöfunartekjum heimilanna til matarkaupa að jafnaði. Styr stendur um, hvernig þetta hlutfall breytist með tekjustigi. Hagstofan upplýsir, að tekjulægsti fjórðungurinn noti 17 % af ráðstöfunartekjum sínum til matar og tekjuhæsti fjórðungurinn noti 14 %. Því er haldið fram, að enn meiri munur sé á þessum hópum, og er þá e.t.v. átt við efstu og neðstu tíund tekjustigans. ASÍ gefur upp 10 % og 21 % og er allt í lagi að nota þær tölur við útreikningana, en þá hækkar munurinn á kostnaði innkaupakörfunnar, og í stað 60 % verður áætlaður 80 % munur á mann á matarkostnaði fátæks og ríks.
Deilan um það, hvort tillögur BB um skattkerfisbreytingar muni auka útgjöld fátækra heimila er í raun deila um það, hvernig mótvægisaðgerðirnar koma út. Hlutfall matarútgjalda af ráðstöfunartekjum heimila þarf að verða allt að 60 % til að mótvægisaðgerðirnar vegi ekki hækkun VSK á matvæli úr 7 % í 12 % upp og meira til. Til að setja undir þennan leka eru barnabætur auknar um 1 milljarð kr. Strax sumarið 2013 beitti núverandi ríkisstjórn sér fyrir hækkun framlaga til elli- og örorkulífeyrisþega. Það er gert ráð fyrir hækkun framlaga til málaflokksins í fjárlögum fyrir 2015. Samanlagt fela fjárlög ársins 2014 og frumvarpið fyrir 2015 í sér yfir 13 milljarða kr til málaflokksins.
Augljóslega munu þessi framlög ásamt öðrum mótvægisaðgerðum tryggja hinum lakast settu betri fjárhagsstöðu eftir þessar aðgerðir en á undan þeim, ekki sízt þar sem raunhækkun matvæla nemur aðeins 2,5 % í stað 5 % vegna afnáms sykurskatts og vörugjalds á ýmsar matvörur. Þá má nefna, að heildarendurskoðun á fyrirkomulagi vaxtabóta og húsaleigubóta er að ljúka.
Miðað við ætluð undanskot í núverandi virðisaukaskattskerfi má ætla, að ríkissjóður muni hagnast meira á þessari breytingu en kostnaðinum í tengslum við þær, 4 milljörðum kr, nemur, vegna fækkunar undanþága, einföldunar og minni freistingar til að flokka vöru og þjónustu í lægri flokkinn eftir breytinguna.
Hvers vegna ætti ríkið að veita þeim, sem efni hafa á að verja háum upphæðum til kaupa á mat og drykk, "afslátt" á virðisaukaskatti ? Er ekki eðlilegra, að innkaup á dýrum mat skapi ríkissjóði tekjur og grundvöll til lækkunar á verðlagi í landinu, eins og samþykkt fjárlagafrumvarpsins mun vafalaust hafa í för með sér ? Um þetta tjáði Pawel Bartoszek sig með eftirfarandi hætti í téðri grein:
"Með einföldum hætti mætti hugsa þetta svona: fyrir hvern hundraðkall, sem við ætlum að gefa fátækum manni á formi lægri matarskatta, þurfum við að gefa ríkum manni 200 kall. Virðisaukaskattur, eins sniðugur og hann er, er ekki gott tæki til tekjujöfnunar. Tekjuskattar henta betur."
Nokkru seinna heldur Pawel áfram:
"Mín skoðun er, að það væri betra að hafa eina vaskprósentu , sem fæstar undantekningar og sem fæst vörugjöld."
Það er hægt að taka undir þetta allt með Pawel Bartoszek, stærðfræðingi. Vegna þess að fólk, vel efnum búið, kaupir matvæli fyrir jafnvel tvöfalt hærri upphæð á mann en fólk, sem má láta sér lynda kröpp kjör, þá umbunar ríkið hinum betur settu með tvöfaldri peningaupphæð, sem þeir sleppa við að greiða sem skatt af mat, þó að þeir noti hlutfallslega jafnvel helmingi minna af launum sínum til matarkaupa. Þetta er réttlæti "jafnaðarmannsins", en aðrir mundu segja "andskotans".
Afstaða ASÍ til þessa máls vekur undrun þeirra, sem héldu, að ASÍ væri málsvari lítilmagnans, en það er auðvitað mikill misskilningur. ASÍ er málsvari "nómenklatúrunnar", búrókrata, sem hreiðrað hafa um sig á skrifstofum verkalýðsfélaganna og í hlýjum stjórnarherbergjum lífeyrissjóðanna. Þeir vilja ekki greiða eðlilegan skatt af matarkaupum sínum. Samt hagnast þeir örugglega, ef umræddar tillögur verða að veruleika, vegna lækkunar efra þreps virðisaukaskattsins og lækkunar verðlagsvísitölu.
Hagfræðingar Alþýðusambandsins eru í þessu máli á öndverðum meiði við AGS og OECD, á öndverðum meiði við útreikninga Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og á öndverðum meiði við ríkjandi viðhorf í "norrænu velferðarríkjunum" og líklega jafnvel líka á öndverðum meiði við hagfræðinga ESB í Berlaymont. Hvað í ósköpunum hefur eiginlega komið yfir þá. Ekki þó hentistefnufjandinn ? Er þörf fyrir að taka þátt í pólitískum loddaraleik ? Hér skal fullyrða, að nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga með umræddum breytingum á skattakerfinu og öllum mótvægisaðgerðunum, þá mun slíkt hafa hagfelld áhrif á afkomu allra félagsmanna ASÍ.
Nú verður tekin létt reikniæfing til glöggvunar á dæminu, sem hér er til umfjöllunar, og notaðar eftirfarandi forsendur:
- matarkostnaður að meðaltali 74 kkr á mann á mánuði með 7 % VSK samkvæmt Hagstofunni uppfært frá 2002 til 2004
- matarkostnaður lágtekjufólks 40 % undir meðaltali, þ.e. kkr 591 á ári án VSK
- matarkostnaður hátekjufólks er 80 % yfir matarkostnaði lágtekjufólks (þetta eru meiri öfgar en Hagstofan fær fyrir efsta og neðsta tekjufjórðung) neytenda
- hækkun virðisaukaskatts af matvælum verður 5,0 % samkvæmt frumvarpinu. Vegna mótvægisaðgerða á borð við afnám sykurskatts og vörugjalda á matvæli þá verða verðlagsáhrif á mat helmingi minni,þ.e.a.s. 2,5 %.
- vegna annarra mótvægisaðgerða, þ.e. lækkunar virðisaukaskatts á aðrar vörur en matvæli úr 25,5 % í 24,0 % og afnáms vörugjalda, sem ýmist eru 15 %, 20 % eða 25 %, á marga vöruflokka, má reikna með lækkun verðs á þessum vörum um 2,5 %. Það er rangt, sem haldið er fram, að slíkar lækkanir skili sér ekki í vöruverði. Bæði Hagstofan og Rannsóknarsetur verzlunarinnar á Bifröst hafa rannsakað þetta og staðfest, að lækkanir skila sér. Þegar fólk hefur þær upplýsingar, geta aðeins "kverúlantar" haldið öðru fram.
Til viðbótar koma eftirtalin atriði, sem létta undir með fólki og virka til lækkunar á vísitölu verðlags, sem vægt reiknað lækkar um 0,2 % samkvæmt Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
- í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir raunlækkun verðs á eldsneyti, tóbaki og áfengi, því að hefðbundnum krónutöluhækkunum á þessar vörur er sleppt, sem þá dregur úr hækkun vísitölu verðlags
Til tekjuauka koma nokkrar mótvægisaðgerðir:
- barnabætur hækka um einn milljarð kr, og þær hækka mest hjá þeim, sem lægri hafa tekjurnar
- fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar árið 2013 var að hækka örorku- og ellilífeyrisbætur. Samanlagt fela fjárlög ársins 2014 og 2015 í sér yfir 13 milljarða kr hækkun á þessum bótum. Það munar verulega um þessar fjárhæðir fyrir hvern einstakan bótaþega, a.m.k. fyrir þá, sem höfðu takmörkuð fjárráð fyrir. "Kverúlantar" geta haldið því fram, að þessir hópar verði illa úti í fyrirhuguðum skattkerfisbreytingum, en málflutningur þeirra er öfugmælaskáldsins og falsspámannsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.