Dómstóll götunnar

Dómstóll götunnar er argvítugt fyrirbrigði, sem skeytir hvorki um skömm né heiður, en lætur stjórnast af múgsefjun. Ofstækisfull rétttrúnaðarstefna hefur bæði fyrr og síðar leitt af sér böl fyrir fólk, sem ekkert hefur í raun til saka unnið, t.d. nornabrennur á 17. öld í Evrópu. Þá voru það stundum prelátar og aðrir kirkjunnar menn, sem gáfu tóninn, en nú eru það fjölmiðlar, sem oftast gefa tóninn, og til viðbótar kunna stjórnmálaöfl að reyna að hagnýta sér stöðuna, a.m.k. ef fórnarlambið er úr röðum andstæðinga í stjórnmálum.   

Allt þetta á við í hinu svo nefnda "Lekamáli", sem tröllriðið hefur þjóðfélagsumræðunni megnið af þessu ári, 2014, og náð vissu hámarki í sumar.  Ládeyða kom svo í málið, þegar halla tók undan fæti hjá manninum með hattinn á ritstjórnarstóli DV.  Þar hefur bitbeinið verið Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir. 

Hanna Birna er ekki einvörðungu Alþingismaður og ráðherra, heldur er hún varaformaður Sjálfstæðisflokksins og naut mikillar hylli á síðasta Landsfundi flokksins.  Aðför Dómstóls götunnar að Hönnu Birnu er þess vegna um leið árás á Sjálfstæðisflokkinn.  Þess vegna er rétt að viðra málsatvik og reyna að gera sér grein fyrir því, hvort flugufótur sé fyrir þeim dómi Dómstóls götunnar, að Innanríkisráðherra eigi að glúpna og víkja úr ríkisstjórn. 

"Lekamálið" er tvíþætt.  Í fyrsta lagi lekinn sjálfur og í öðru lagi rannsókn þess og meint afskipti Innanríkisráðherra af henni. 

Breytt samantekt Innanríkisráðuneytisins um hælisleitanda nokkurn rataði á fjörur netútgáfu Morgunblaðsins og DV, sem birtu skjalið fljótlega, DV þó með fjögurra daga töf.  Þessir aðilar búa yfir vitneskju um gerandann, sem breytti skjali ráðuneytisins með gildishlöðnum athugasemdum og kom skjalinu þannig breyttu til téðra fjölmiðla og hleypti þar með illu blóði í umræðuna, því að látið var í veðri vaka, að skjalið væri samhljóða frumriti ráðuneytisins.  "Lekandinn" er þess vegna sekur um skjalaþjófnað og skjalafals.  Slíkur hlýtur að verða bezt geymdur á bak við lás og slá.  Hann á nú allt sitt undir þessum tveimur fjölmiðlum, og er það ekki vizkulegt atferli.  "Lekandinn" stígur ekki í vitið, svo mikið er víst.

Rannsókn á starfsmönnum, gögnum og tölvum Innanríkisráðuneytisins fór fram og tók um 9 mánuði, en upphafleg áætlun mun hafa hljóðað upp á einn mánuð.  Er þá nema von, að ráðherra verði að orði, að rannsaka þurfi rannsóknina ? Ekki var steinn lagður í götu rannsóknarinnar með því né öðru. Þessi fáheyrt langi tími vitnar á hinn bóginn um seinagang, slælega stjórnun og tillitsleysi við starfsmenn ráðuneytisins og allra þeirra, sem áttu mál í vinnslu þar á þessum tíma.  Það er þess vegna eðlilegt, að komið hafi til tals að rannsaka rannsóknina með það fyrir augum að bæta vinnuferli og útbúa í kjölfarið viðmiðunarreglur um, hvernig standa á að rannsóknum á ráðuneytum og opinberum stofnunum. 

Enginn játaði verknaðinn fyrir rannsóknarfólkinu, sem í þessu tilviki var undir stjórn Ríkissaksóknara, og ráðherra hafði aldrei samband við hana.  Ráðuneytisstjóri Innanríkisráðuneytisins mun einu sinni hafa haft samband og verið gerður afturreka með erindið, eins og telja má eðlilegt. 

Eins og allt er í pottinn búið, er hugsanlegt, að tölvuhakkari hafi verið þarna á ferð, brotizt inn á opið tölvudrif Innanríkisráðuneytisins og boðið síðan skjalið falt.  Þrátt fyrir 9 mánaða rannsókn, hefur Ríkissaksóknara ekki tekizt að birta verknaðarlýsingu í ákærunni á hendur aðstoðarmanni ráðherra, sem þó var þegar í stað leystur frá störfum og fréttist af væntanlegri ákæru.  Ákæran er svo óljóslega orðuð, að vandkvæðum kann að verða bundið að verjast henni.  Með slíku brýtur ákæruvaldið á rétti sakbornings, og slíkt hefur áður nægt dómara til að vísa máli frá dómi.  Verði sú niðurstaðan, verður það stórfelldur áfellisdómur yfir Ríkissaksóknara, sem virðist hér vera í kynlegri skógarferð, sem svipar örlítið til Landsdómsmálsins, þar sem hún fór herfilega sneypuför, lögræðilega, og var í kjölfarið skipuð í þetta embætti. 

Á allra vitorði er, að með skipun Landsdóms var blandað saman stjórnmálum og dómsmálum.  Slíkt gengur ekki upp í réttarríki.  Í þessu tilviki hér sækir æðsti handhafi ákæruvalds í landinu að ráðherra, sem er á öndverðum meiði í stjórnmálum við þá ráðamenn, sem hún á embætti sitt að þakka.  Það er ekki hægt að líta fram hjá þessari sögu í ljósi þess, hversu ákæran er illa rökstudd.  Það er erfitt að sjá, hvers vegna Ríkissaksóknari hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að hún væri eftir 9 mánaða rannsókn með mál í höndunum, sem líklegra væri en ekki, að leiða mundi til sakfellingar. 

DV "pönkaðist" (orðalag Reynis Traustasonar úr leynilegri hljóðupptöku af honum sjálfum á meðan hann var og hét) mánuðum saman á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Innanríkisráðherra, fyrir umrædda fölsuðu samantekt um hælisleitanda, sem honum áskotnaðist með óþekktum hætti. 

Nú hefur verið upplýst, að ritstjórnarstefna DV var til sölu á sama tíma.  Þannig lánaði kunnur stórútgerðarmaður Reyni, fyrrverandi ritstjóra DV, 15 milljónir kr, og í kjölfarið snarbreyttist tónninn í blaðinu í garð lánveitandans, útgerðarmannsins, sem fékk mjög jákvæða mannlýsingu af sér í blaðinu og andstæðingar hans að sama skapi neikvæða, hvort sem útgerðarmaðurinn setti einhver slík skilyrði fyrir láninu eða ekki.  Trúverðugleiki DV, hafi einhver haldið hann vera fyrir hendi, hvarf eins og dögg fyrir sólu við þessar upplýsingar. 

Þá vaknar óneitanlega spurningin um það, hvort ritstjóranum í peningahraki hafi áskotnazt umbun fyrir að taka upp harðlínustefnu gegn Innanríkisráðherra ? 

Ýmislegt bendir til, að um samsæri gegn ráðherranum sé að ræða, eins og ýjað er að í Morgunblaðsgrein Jóns Steinars Gunnlaugssonar þann 29. ágúst 2014, ¨Lagaheimild misnotuð", sem vitnað er til hér að neðan.

Menn velta vöngum yfir tilefni þess að hefja mjög umfangsmikla rannsókn á téðum leka.  Um þetta m.a. skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson, lögfræðingur, í Morgunblaðið 29. ágúst 2014:

"Allir Íslendingar vita, að íslenska stjórnkerfið hriplekur upplýsingum um einkamálefni manna til fjölmiðla.  Það er vissulega ekki ásættanlegt.  Löngu hefði verið tímabært, að ríkissaksóknari mælti fyrir um rannsóknaraðgerðir vegna þessa, og ef umboðsmaður Alþingis taldi ástæðu til að taka að eigin frumkvæði upp athugun á lekamálinu, hefði hann átt að vera oftsinnis á undanförnum árum búinn að athuga dæmi af sama toga."

Að öllu þessu virtu verður því miður að álykta, að rannsóknir þessara aðila og kæra Ríkissaksóknara séu af annarlegum rótum runnar.  Sú virðist og vera niðurstaða Jóns Steinars í téðri grein:

"Um langan tíma hafa staðið yfir árásir á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og beinar tilraunir til að binda enda á ráðherradóm hennar í dómsmálum.  Þar róa undir margir áhrifamenn í íslenska lögfræðiheiminum.  Þessi hópur hefur farið mikinn að undanförnu á vettvangi fjölmiðla.  Kannski verður unnt að segja söguna af tilefnum þess síðar."

Hér fer ekki á milli mála, að lögfræðingurinn, sem þetta skrifar, býr yfir þekkingu á samsæri gegn Innanríkisráðherra.  Höfundur þessarar greinar hér telur, að aðför að ráðherra, eins og átt hefur sér stað að  núverandi Innanríkisráðherra að hálfu fjölmiðla, Ríkissaksóknara og Umboðsmanns Alþingis, stríði gegn 1. grein Stjórnarskráarinnar, þar sem segir, að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn.  Af þessu leiðir, að ráðherrar standa Alþingi skil á gjörðum sínum og engum öðrum.  Í gildi er tvenns konar ábyrgð ráðherra: hin þingræðislega ábyrgð, sem að ofan greinir, og hin lagalega ábyrgð.  Ríkissaksóknari rannsakaði lekann á umræddu skjali úr ráðuneytinu og sá ekki ástæðu til að kæra ráðherrann, en ákærði hins vegar aðstoðarmann hennar með svo óljósri ákæru, að óvíst er, að hún verði úrskurðuð dómtæk.  Ríkissaksóknara hefur þótt rannsóknin í lagi, enda eru það einskær aukatriði, sem tínd hafa verið Innanríkisráðherra til hnjóðs varðandi samtöl hennar við Lögreglustjóra, sem aðeins kom óbeint að rannsókninni.  Ríkissaksóknara hefur þótt sá þáttur svo léttvægur, að ástæðulaust væri að doka við eftir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis varðandi samskipti Lögreglustjóra og ráðherra, enda koma þau samskipti þessu máli sáralítið við.

Nú er hins vegar kominn nýr flötur á þetta mál, þar sem Umbi hefur viðhaft þau fáheyrðu vinnubrögð að eiga viðtal við Lögreglustjórann, taka það upp á segulband og birta það opinberlega, þó að í reglum embættisins  sé kveðið á um andmælarétt þess rannsakaða um leið og bréf Umba birtist.   Um þetta skrifar Jón Steinar Gunnlaugsson í téðri grein:

"Það er ótrúlegt að fylgjast með því núna, að hann virðir sjálfur ekki meginreglur í stjórnsýslu, sem honum er ætlað að fylgjast með , að aðrir virði. Þar nefni ég reglu um meðalhóf og andmælarétt. Þegar hann sendi nú síðast til ráðherrans langhund sinn upp á 23 blaðsíður, tilkynnti hann, að hann myndi birta hann almenningi þegar í stað, og neitaði ráðherranum um frestun á birtingunni, þar til ráðherranum hefði gefist tóm til að svara.  Svörin hefði þá má mátt birta um leið og langhundinn.  Sá maður, sem fer fram með þessum hætti, hlýtur að vera í annarlegum erindagjörðum. "

Það er hægt að taka algerlega undir þetta.  Langhundurinn kom í kjölfar segulbandsupptökunnar á samtali Umba við Lögreglustjóra um samtöl hans við ráðherrann um rannsókn Ríkislögreglustjóra á Lekanum.  Þessi samtöl höfðu engin áhrif á rannsóknina, og hér er þess vegna um hreinan sparðatíning um aukaatriði að ræða.

Umba er gjarnt að vera með siðaboðskap.  Í því sambandi kemur eftirfarandi upp í hugann

"Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum." 

Nú er ljóst, að Umbi þessi er alls ekki syndlaus.  Hann hefur í skriflegu svari til forsætisráðherra greint frá því með allmiklu stærilæti, að embætti sitt hafi engar siðareglur, þar sem Alþingi hafi ekki sett sér og undirstofnunum sínum siðareglur, og jafnvel þótt svo hefði verið gert, ættu þær ekki við embætti sitt.  Þetta svar til forsætisráðherra jaðrar við ósvífni.

Þann 5. september 2014 birtist frétt um það í Morgunblaðinu, að ársskýrsla Umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2013 hefði enn ekki komið út.  Þarna brýtur Umbinn lög, því að í 12. gr. laga nr 85/1997 um Umboðsmann Alþingis segir:

"Umboðsmaður skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.  Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert."

Umbinn leggur mikla áherzlu á formfestu og rekjanleika við alla skapaða hluti.  Það er þeim mun undarlegra, að honum skuli ekki duga 8 mánuðir til að koma frá sér ársskýrslu.  Skyldi hann geta gert grein fyrir því með bókunum og minnisblöðum, hverjar helztu skýringar eru á þessu sleifarlagi embættisins ?  Stjórnun og forgangsröðun hjá þessu embætti er ámælisverð, þar sem því þykir mikilvægara að róta upp moldviðri út af engu, sem máli skiptir, en að uppfylla lögbundnar kröfur til embættisins.  Hvar leynist fiskur undir steini ?

Hanna Birna Kristjánsdóttir 

 

 

    

  

 

 

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll. Ekki veit ég hvort þú hefur lesið þetta eftir Eyjapeyjann.

Rauða Ljónið, 9.9.2014 kl. 22:30

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni.

Það er merkilegt að meðan flestir fjölmiðlar flytja fréttir af svari ráðherra með þeim hætti að byrta svarið í heild sér, telur fréttastofa ruv sitt verkefni vera að leggja dóm á þetta svarbréf.

Það er ljóst hver ætlar að taka við sóðaverkum hins sáluga DV snepils. Ekki að það hafi átt að vefjast fyrir nokkrum manni, enda fréttastofa ruv hlaupið eftir hvaða vitleysu sem frá þessum snepli hefur komið. 

Gunnar Heiðarsson, 9.9.2014 kl. 22:59

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Bestu þakkir Bjarni fyrir góðan pistil.

Varðandi mögulegan tölvuhakkara þá er það hreint ekki útilokað og ekki ósennileg skýring.  S.l. maí var brotist inn í tölvukerfi belgíska utanríkisráðuneytisins og skjölum um krísuna í Úkraníu stolið. Sjá frétt Reuters:
http://www.reuters.com/article/2014/05/12/us-belgium-cybercrime-ukraine-idUSBREA4B0EB20140512

Það þarf ekki að leita lengi á netinu til að finna önnur dæmi um hliðstæð innbrot.


Ágúst H Bjarnason, 9.9.2014 kl. 23:00

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir;

Ef átt er við bæjarstjórann í Vestmannaeyjum, þá er ljóst, að hann hefur lagt á sig töluverða rannsóknarvinnu um umfjöllun Lekans, og í kjölfarið kærði Guðmundur Kristjánsson Elliða. 

Bjarni Jónsson, 9.9.2014 kl. 23:04

5 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Afbragðs yfirferð þetta hja þér Bjarni, en erfit á ég með að sjá Guðmund í Brimi kæra Elliða. Í pistlinum sem þú vísar til er bara velt upp upplýsingum sem komið höfðu fram dagana á undan. Og þær settar í samhengi. Éngar staðhæfingar. Guðmundur hótaði kæru og trúlega endar málið þar.

Ragnhildur Kolka, 10.9.2014 kl. 00:37

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar;

Nærtækt væri að álykta, að fréttamenn RÚV kunni ekki til verka.  Metnaðarleysi þeirra er yfirþyrmandi, og þeir sýna vart viðleitni til hlutlægni.  Það á líklega við þarna, að eftir höfðinu dansa limirnir, og höfuðið hefur orðið múgsefjun að báð í þessu tilviki. 

Bjarni Jónsson, 10.9.2014 kl. 18:46

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst;

Það hafa heyrzt sérstakar viðvaranir til íslenzkra yfirvalda vegna lélegra varna í Stjórnarráðinu og víðar gegn netárásum.  Við vitum, að verið er að þróa stríðsrekstur á netinu, þ.e.a.s. að lama heilu þjóðfélögin með því að brjótast inn í tölvukerfi ráðuneyta, herstjórna, veitna o.fl. og valda þar slíkum óskunda, að þjóðfélögin lamist og fái ekki rönd við reist.  Annaðhvort hefur Ríkissaksóknara láðst að gaumgæfa þennan augljósa möguleika, eða hún hefur fundið aðra sennilegri skýringu og ákært samkvæmt henni.  Ef henni skjátlast, mun það verða henni um megn. 

Bjarni Jónsson, 10.9.2014 kl. 18:58

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég er hræddur um að íslensk stjórnvöld séu allt of værukær gagnvart þeirri ógn sem af netárásum getur stafað. Reyndar ekki aðeins íslensk stjórnvöld, heldur einnig fyrirtæki.

Það rifjaðist upp að fyrir fjórum árum skrifaði ég pistil um þessa hættu:
Rafeindahernaður - Electronic Warfare - er raunveruleg ógn við innviði landsins...

Þetta er þó allt annað og meira en einföld innbrot í netkerfi stofnana og fyrirtækja, nokkuð sem tölvuhakkarar virðast stundum eiga auðvelt með.

Ágúst H Bjarnason, 10.9.2014 kl. 20:55

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir góða umsögn, Ragnhildur;

Það yrði í anda heilbrigðrar skynsemi að láta kæruna á hendur Elliða Vignissyni niður falla eða að gera dómsátt um málið.

Þetta mál, sem ég fjallaði um í ofangreindum pistli, er einstakt í okkar sögu og verður fært í sögubækur af þeim sökum.  Þó eru öll kurl enn ekki komin til grafar, en þeim verður safnað saman.  Vonandi verður síðan sannleikurinn leiddur í ljós.  Mér segir svo hugur um, að hér séu mikil undirmál á ferðinni, sem, eins og fyrri daginn, þola ekki dagsljósið.  "Cuo bono" spurðu Rómverjar eða hverjum í hag ? 

Kratar eru farnir að tala um, að þetta mál styrki formann Sjálfstæðisflokksins.  Þetta mál er aðför að varaformanni flokksins, og formaðurinn þurfti alls ekki á þessu að halda.  Hann hafði áður yfirburðastöðu í flokkinum eftir eins árs reynslu af honum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

Gjör rétt, þol ei órétt, á enn sem fyrr að stjórna gerðum sjálfstæðismanna. 

Bjarni Jónsson, 10.9.2014 kl. 21:07

10 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þessi umfjöllun hér er nokkuð einsleit og ekkert vikið að þætti HBK eftirmálum útgáfu kærunnar.

Jón Steinar getur ekki talist óhlutdrægur í sinni umfjöllun enda Flokkstengsl hans alþekkt auk þess að hann kom alla vega að ritun fyrra svarbréfs ráðherra með lögfræðiráðgjöf.

Þá er ekki heldur vikið hér að klaufalegum viðbrögðum HBK eftir að afrit af samtölum hennar og lögreglustjóra urðu lýðnum ljós. HBK hefur orðið missaga í málinu oftar en einu sinni, logið að samherjum í þingflokki og þingheim úr ræðustól Alþingis. Ekki er óeðlilegt að gera þá kröfu að innanríkisráðherra landsins sé ærlegur aðili og fari rétt með um málsatvik. Nýjustu útskýringar ráðherrans í síðasta svarbréfi til umboðsmanns að lögreglustjóri hafi nú ekki stýrt rannsókninni eru bara yfirklór. Hvers vegna í ósköpunum var HBK að boða manninn til funda í ráðuneytinu utan venulegs vinnutíma og ræða málið við hann, ef hann hafði ekkert með rannsóknina að gera? Hún hefði alveg getað látið duga að ræða það við samstarfsmenn eða nánustu fjölskyldu.

HBK er einfaldlega ótrúverðugasti stjórnmálamaður sem situr á Alþingi í dag, og hafði ekki sómatilfinningu til að stíga til hliðar að eigin frumkvæði á meðan rannsókn stóð yfir og ljúka þar með þessari umfjöllun. Hún hefði getað snúið sterk til baka síðar ef svo bar undir, en þessi fyrstu skref hennar í landsmálum geta ekki talist til fyrirmyndar. Ég sé fyrir mér áramótaskaupið sem verður undirlagt af þessu máli, endar af nógu að taka, t.d. ráðherra með lögreglustjóra á bekknum í sálfræðimeðferð.

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2014 kl. 18:56

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Erlingur;

Hver er eiginlega óhlutdrægur í umfjöllun sinni um þetta dæmalausa Lekamál ? Þú getur hvorki talizt óhlutdrægur né hlutlægur í þinni umfjöllun, og þú gerir þig vissulega sekan um sleggjudóma í garð ráðherrans.  Umfjöllun minni var aldrei ætlað að verða einhvers konar fræðilegt innlegg í málið, enda er ég ekki í neinum færum til þess, heldur hefur mér blöskrað aðförin að ráðherranum og þess vegna tekið til varna, enda verða ekki mjög margir til þess, þó að Jón Steinar sé vissulega einn af þeim, og er þar ekki í kot vísað.

Ég held, að "afrit af samtölum hennar og lögreglustjóra" séu ekki "lýðnum" ljós, eins og þú heldur fram, a.m.k. ekki mér.  Hljóðritaði ekki Umboðsmaður Alþingis, UA, samtal sitt við Lögreglustjóra ?  Lýsingar ráðherra á því, hver fór með stjórn rannsóknarinnar, eru t.d. í samræmi við bréf UA til ráðherra 26.08.2014.  Ef ráðherra hefði skipt sér af rannsókninni, þá hefði hún verið dæmd ónýt og ekki verið ákært á þeim grunni.  Þegar þú sakar ráðherra um lygar úr ræðustóli Alþingis, dæmir þú sjálfan þig algerlega úr leik, nema þú færir orðum þínum stað.  

Bjarni Jónsson, 11.9.2014 kl. 21:56

12 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Sæll Bjarni.

Þegar ég saka innanríkisráðherra um lygar úr ræðustóli Alþingis á ég við eftirfarandi tilvitnanir úr fréttum og eftirritun af vef Alþingis af ummælum HBK í ræðustóli þingsins:

Úr DV 5. maí:

"Í óundirbúnum fyrirspurnatíma þann 16. desember spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Hönnu Birnu um málið. Þá sagði ráðherra að engin staðfesting væri fyrir því að gögn úr innanríkisráðuneytinu hefðu komist í hendur fjölmiðla: „Við höfum einungis munnmæli um það. Þeir sem hafa sent þessi gögn, og það eru ekki einu sinni sambærileg gögn og eru til í ráðuneytinu, eru einstaklingar en ekki ákveðnir fjölmiðlar þannig að því sé til haga haldið.“ Dómsskjölin sýna að þessar staðhæfingar ráðherrans stangast á við þá vitneskju sem Hanna Birna hafði þá þegar um málið. Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að hún og aðstoðarmenn hennar fengu skjalið sent á netfang sitt klukkan 17.17 þann 19. nóvember. Þá bendir rannsóknin til þess að innanríkisráðherra sé einn af fáum einstaklingum innan ráðuneytisins sem hafði vitneskju um tilvist skjalsins áður en það endaði í höndum fjölmiðla, en það voru alls átta manns."

Leturbreytingar og undirritun er mín. 

HBK í ræðustól Alþingis 16.desember (úr fyrra svari við fyrirspurn Katrinar Jakobsdóttur):

"Engin ástæða er til að ætla að nokkur formleg gögn hafi farið frá ráðuneytinu þannig að ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig þetta gerðist, þ.e. ef það hefur gerst."

HBK í ræðustól Alþingis 16.desember (úr seinna svar við fyrirspurn Katrinar Jakobsdóttur):

"En líka til þess að árétta það, vegna þess að hv. þingmaður heldur því hér fram að ákveðnir fjölmiðlar séu með þessi gögn, þá höfum við ekki fengið staðfestingu á því. Við höfum einungis munnmæli um það. Þeir sem hafa sent þessi gögn, og það eru ekki einu sinni sambærileg gögn og eru til í ráðuneytinu, eru einstaklingar en ekki ákveðnir fjölmiðlar þannig að því sé til haga haldið." 

HBK hafði fengið afrit af minnisblaðinu sent 19. nóvember, eins og ég bendi á að komi fram í umfjöllun DV. Hvernig vissi hún að þau gögn sem vísað var til væru ekki sambærileg við nein gögn sem til voru í ráðuneytinu? Annað kom svo á daginn. 

Úr frétt af visir.is

Orð Hönnu Birnu í þinginu eru ekki í samræmi við þær upplýsingar sem koma fram í bréfi umboðsmanns Alþingis til Hönnu Birnu, sem var birt á heimasíðu embættisins í gær. 

HBK úr ræðustóli Alþingis 18. júní:

"Ég þekki ekki þessa rannsókn, mér er ekki kunnugt um hana og það væri óeðlilegt að ég þekkti einstaka þætti hennar." Orð, höfð eftir lögreglustjóra í bréfi umboðsmanns Alþingis til HBK, tekin úr hljóðritunum af samtölum umboðsmanns við lögreglustjóra benda til þess að HBK hafi þekkt einstaka þætti rannsóknarinnar fyrir 18. júní 2014, enda var hún með mjög nákvæmar spurningar um einstaka þætti rannsóknarinnar að sögn lögreglustjóra. Lögregla sendi Ríkissaksóknara rannsóknargögnin 20. júni, tveimur dögum eftir að HBK sagðist ekki þekkja rannsóknina, eða vera kunnugt um hana, sem hún hafði þó borið fram nákvæmar spurningar um til lögreglustjóra.

Þegar svona er tekið til orða gegn betri vitund, kalla ég og fleiri að verið sé að ljúga að þingheimi og þjóð úr ræðustóli Alþingis. 

Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2014 kl. 22:57

13 Smámynd: Bjarni Jónsson

Amen.

Það stendur alltaf upp úr í þessari umræðu, að skjal var tekið ófrjálsri hendi í ráðuneytinu, e.t.v. með netinnbroti, og því breytt.  Það var framið skjalafals, sem er alvarlegt brot.  Viðbótin var gildishlaðin og olli úlfaþyt.  Þannig má segja, að falsaða skjalið, sem birtist í fjölmiðlum, var ekki ráðuneytisskjalið. 

Það er þingsins að vega og meta sannleiksgildi þeirra upplýsinga, sem því eru gefin á hverjum tíma, og bezt að svo stöddu að kveða ekki upp dóma um innanhússmál þar, sem hægt er að teygja og toga á alla kanta.  Þetta á t.d. við um upplýsingar, sem ráðherra fékk frá Lögreglustjóra.  Hann sagðist sjálfur ekki hafa fylgzt náið með rannsókninni, enda stjórnaði hann henni ekki.  Ráðherra hefur væntanlega ekki haft hugmynd um það, sem lögreglumennirnir komust á snoðir um, þó að hún vissi, hvað gekk á, þar sem öllu var umturnað.  Þess vegna gat hún ekki gefið þinginu efnislegar upplýsingar.

Bjarni Jónsson, 12.9.2014 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband