Af kálhöfði og öðrum jarðargróða

Höfund rak í rogastans við lestur greinarstúfs í Fréttablaðinu 19.08.2014 eftir Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. 

Þessi starfsmaður, sem augljóslega þiggur laun frá skattborgurum þessa lands, þ.á.m. bændum, fyrirtækjum þeirra og fjölda starfsmanna þar, hefur að vísu ekki úr háum söðli að detta eftir alræmda tilburði sína við að sannfæra landsmenn og stjórnvöld landsins á dögum ESB-ríkisstjórnarinnar (ríkisstjórn Jóhönnu og þingmeirihluta hennar þurfti að vísu ekki að sannfæra) um, að þeim væri fyrir beztu að taka á sig Icesave-ánauðina, sem hæglega gátu orðið 2 milljarðar sterlingspunda, aðallega vextir, séð nú í baksýnisspegli.  

Að öðrum kosti, samkvæmt boðskapi þessa kinduga hagfræðiprófessors, biði Íslendinga enn hrikalegra hrun gjaldmiðilsins, útskúfun af lánamörkuðum og fjöldaatvinnuleysi, eiginlega Brimarhólmsvist allra landsins barna að hætti Jóns Hreggviðssonar, þess er jafnan orti Pontusrímur, er á móti blés. Allar eru þessar hrakspár prófessorsins skjalfestar, og allar urðu þær téðum hagfræðiprófessor til ævarandi skammar.  Að honum detti í hug nú, rúnum trausti, að tjá sig á opinberum vettvangi með lítilsvirðandi hætti um heila atvinnugrein, er staðfesting á áður sýndu dómgreindarleysi.  Hver vill ekki hafa slíkan mann á ríkisjötunni ? 

Þegar opinberri frásögn Hannesar Gissurarsonar, prófessors, af því, er téður Þórólfur skipaði Hannesi með hávaða og ljótu orðfæri í matsal Háskóla Íslands eftir Hrunið 2008 að segja af sér sem bankaráðsmaður í Seðlabankanum, er bætt við ferilskrá Þórólfs, er vægasti dómur, sem hægt er að kveða upp yfir honum, að hann sé dómgreindarlaus. Hvernig má það vera eftir það, sem á undan er gengið, að hann njóti stuðnings rektors og háskólaráðs til að móta faglegt uppeldi tilvonandi íslenzkra hagfræðinga ?

 

Það er engan veginn gott til þess að vita, að maður með svo brenglaða sýn á hagkerfið og áhrifavalda þess og takmarkaða sjálfstjórn, eins og Icesave-umræðan og hneykslið í matsal Háskólans sýnir, skuli starfa við það í ríkisháskóla að undirbúa tilvonandi hagfræðinga fyrir lífsstarf þeirra.  Enn heggur nú þessi starfsmaður okkar skattborgara í knérunn heilbrigðrar skynsemi og staðfestir í raun, hvílíkur gallagripur hann er, en í þetta sinn, og ekki í fyrsta sinn hjá prófessornum, eru bændur landsins skotspónninn.   

Með greinarstúfinum, "Bændamálastjórar, ekki meir, ekki meir", í Fréttablaðinu 19. ágúst 2014, veittist téður hagfræðiprófessor að bændastéttinni og forystu hennar með óbilgjörnu móti að hætti götustráka, sem fæstir skattborgarar þessa lands kunna að meta, svo almenns stuðnings, skilnings og virðingar, sem bændastéttin nýtur í landinu.  Hinn vanstillti prófessor hóf árásirnar á bændur með eftirfarandi hætti í téðum greinarstúfi:

"Bændasamtökin, með dyggum stuðningi ríkisvaldsins, stjórna framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi.  Inntak þessarar stefnu er í grófum dráttum, að kúa- og kindabændur eru hvattir til að framleiða mjólk og kindakjöt með því að bera á þá fúlgur fjár."

Að lýsa búvörusamningi bænda og ríkisins í slíkum götustráksstíl lýsir þessum prófessor betur en búvörusamninginum, sem rennur út 31. desember 2016.   Á öllum Vesturlöndum og víðar hefur hið opinbera afskipti af framleiðslu landbúnaðarafurða með einum eða öðrum hætti.  Fyrir því eru nokkrar ástæður: 

  1. Það er öryggismál, að grundvallar fæðuframleiðsla fari fram í hverju landi, ekki sízt eylandi, til að koma megi í veg fyrir hungursneyð, ef alvarlegir atburðir verða af náttúru- eða mannavöldum.  Líkurnar eru fremur litlar, en afleiðingarnar geigvænlegar af matarskorti.   
  2. Það er víðast hvar ríkjandi stefna, og svo hefur alltaf verið á Íslandi, að nýta afrakstrargetu landsins, eins og kostur er.  Auðvitað hafa afskekktar og erfiðar sveitir farið í eyði, en nú hafa þær reyndar öðlazt nýtt notagildi fyrir útivistarfólk.  
  3. Gæði og hollusta hafa alls staðar vaxandi vægi af heilsufarsástæðum, og svo er einnig á Íslandi. Það gefur auga leið, að þar sem vatn er af skornum skammti, og mjög víða er skortur á fersku vatni, en landbúnaður þarf mikið vatn, þar sem loftgæði eru slæm og þar sem þéttbýli er mikið, þar geta gæði landbúnaðarafurða ekki orðið sambærileg við vörur, sem framleiddar eru í ómenguðum eða lítt menguðum jarðvegi með ótakmörkuðu hágæða ferskvatni og í tiltölulega hreinu lofti, svo að ekki sé nú minnzt á lífrænan áburð.  Ísland hefur sterka stöðu í þessu tilliti vegna fámennis, ríflegs landrýmis og vegna þess, að landið iðnvæddist ekki fyrr en mótvægisaðgerðir til náttúruverndar voru komnar til sögunnar.   

Með þessu er því ekki haldið fram, að erlendur matur sé óætur eða óhollur.  Erlendis er auðvitað eftirlit með matvælaframleiðslu. Það er þó skoðun höfundar, að  samanburður á t.d. íslenzku og erlendu grænmeti í íslenzkum verzlunum sé því fyrrnefnda mjög í vil.  Það getur þó sumpart verið vöruinnflytjendum að kenna, því að svo slök gæði á grænmeti og hér má sjá í verzlunum sjást varla, þegar utan er komið. 

Það er sjálfsögð krafa á hendur smásölum matvæla, að þeir merki vörur sínar upprunahéraði vörunnar eða a.m.k. upprunalandi.  Þessu hefur víða verið ábótavant og alveg ótækt að vera í innkaupaerindum framan við kjötborð og fá engar upplýsingar um, hvaðan t.d. nautakjötið er.  Það á ekki að leggja steina í götu innflutnings á vöru, sem innlendir framleiðendur anna ekki spurn eftir, en jafnsjálfsagt, að kaupendur geti valið og hafnað á grundvelli eigin upplýsts mats.  

Það er í sjálfu sér óeðlilegt að leggja hærri innflutningsgjöld á erlend matvæli en sem nemur kostnaði af  öryggiseftirliti með þeim, ef útflutningslandið beitir ekki tollvernd gegn sams konar íslenzkri vöru.  Þetta á líka við um mjólkurvörur, s.s. osta, og annað álegg, en það er sjálfsagt krydd í tilveruna að prófa slíkar vörur erlendis frá án þess að þurfa að stofna til illbærilegra útgjalda.

 Upprunamerking matvæla ætti að vera nauðsynleg og nægjanleg meðmæli og vörn fyrir íslenzk matvæli, enda njóti íslenzkar landbúnaðarafurðir sams konar aðstöðu á mörkuðum viðkomandi landa.  Innflutningsgjöld á landbúnaðarafurðir ættu helzt að vera gagnkvæm.  Það er jafnframt líklegt, vegna framleiðniaukningar í íslenzkum landbúnaði og nýrra markaða og samkeppni, eins og að ofan getur, að matvælaverð til neytenda á Íslandi geti lækkað, en á móti kemur þá hugsanleg hækkun á virðisaukaskatti á matvæli, sem nú er í umræðunni.     

Íslenzkir dýrastofnar eru viðkvæmir gagnvart erlendum sjúkdómum, eins og hrikaleg dæmin sanna, þar sem farið var fram af vanþekkingu og óvarkárni með grafalvarlegum afleiðingum.  Það verður ætíð að hafa varúðarsjónarmið í öndvegi, þegar kemur að innflutningi á lifandi dýrum eða dýraafurðum.  Ferskt kjöt er þess vegna ekki hægt að leyfa erlendis frá, heldur verður það að vera frosið, þegar það er sent að utan.  

Íslenzkir dýrastofnar eru sumir einstakir.  Þetta á t.d. við um sauðfé, mjólkurkúastofninn og hrossin.  Verndar- og varðveizlusjónarmiðið ber eindregið að halda í heiðri á þessum stofnum, því að stofnbreytingar eru óafturkræfar.  Það er vafalaust hægt að bæta enn æskilega eiginleika núverandi stofna án blöndunar við erlenda stofna með rannsóknum og ræktun.  Þess ber að gæta, þegar afurðir erlendra stofna eru bornar saman við afurðir innlendra, hversu mikið fóður og fóðurbætir stendur undir afurðunum, og hversu mikið rými þarf fyrir gripinn, t.d. í fjósi.  Það er með öðrum orðum nýtni fóðurs og fjármagns, sem skiptir höfuðmáli.

  Sama verndunarsjónarmið getur ekki átt við um holdanautastofninn, þannig að hann ætti að mega rækta að vild til að ná tilætluðum vaxtarhraða og kjötgæðum. 

Íslenzkir bændur hafa sýnt mikinn sveigjanleika að þörfum markaðarins.  Nýjasta dæmið er af yfirvofandi skorti á mjólkurvörum, einkum vegna aukinnar spurnar eftir fituríkum vörum og aukningar á fjölda erlendra ferðamanna, en fjöldi þeirra og viðvera upp á 5,5 daga að meðaltali árið 2013 svaraði til um 12 þús. manns étandi í landinu allt árið um kring eða til um 4,0 % aukningar á mannfjölda m.v. þá, sem hafa hér fasta búsetu. 

Bændur gerðu þegar ráðstafanir til að auka mjólkurframleiðsluna.  Þeir settu fleiri kvígur á, en þeir höfðu áður ráðgert, og þeir juku fóðurbætisgjöf, sem að öðru jöfnu er afar arðsamur gjörningur.  Á tímabilinu janúar-júlí 2014 jókst framleiðsla mjólkur um 8 % m.v. sama tímabil í fyrra, enda fá kúabændur nú fullt verð fyrir alla mjólk frá afurðastöðvum án tillits til framleiðslukvótans, sem þeir eiga. 

Téður kvóti hefur fyrir vikið hríðfallið í verði á markaði, sem hefur skaðað þá eigendur, sem eru að fara að bregða búi.  Í apríl 2014 lækkaði verðið um 19 % eða úr 320 kr/l í 260 kr/l og á sennilega eftir að lækka enn meira.  Það yrði heilbrigð þróun, ef unnt verður að afnema kvótakerfið í landbúnaði vegna þess, að markaður sé innanlands og utan fyrir alla framleiðslu bændanna á því verði, sem um semst.  Er þessi jákvæða þróun þegar tekin að hafa áhrif á nýliðun í landbúnaðinum, enda minna fjárhagslegt átak að stofna til búskapar, ef ekki þarf að kaupa kvóta til að fá fullt afurðaverð.     

Íslenzkur landbúnaður er tæknivæddur, og tæknivæðing hans eykst stöðugt, ekki sízt hjá kúabændum.  Þetta hefur að sjálfsögðu leitt til mikillar framleiðniaukningar, og hlýnandi veðurfar hefur leitt til meiri uppskeru og mjög athygliverðra vörunýjunga, t.d. á sviði kornræktar.

Grænmetisframleiðsla í landinu hefur tekið stakkaskiptum, hvað gæði, framleiðni og fjölbreytni varðar.  Jarðhitinn veitir vitaskuld samkeppniforskot, og stöðugleiki rafmagnsálags vegna lýsingar hálft árið eða meir ætti að vera grundvöllur hagkvæmra raforkuviðskipta. Það ætti a.m.k. að vera unnt að hálfu orkuvinnslufyrirtækjanna að gera samning um kaup gróðurhúsabænda á ótryggðri raforku á kjörum, sem báðum aðilum eru hagfelld.  Um þetta hefur þó staðið styrr, og segja fulltrúar bænda farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við orkufyrirtækin, og er ekki grunlaust um, að dreifiveitur eigi þar jafnframt hlut að máli.  Virðist Alþingi þurfa að skerpa á því hlutverki orkugeirans að vera stuðningsaðili við atvinnuvegi í landinu, sem annaðhvort eru gjaldeyrisskapandi eða draga úr innflutningsþörf og eru þannig gjaldeyrissparandi, eins og landbúnaðurinn tvímælalaust er.    

Risagróðurhús við Grindavík fyrir tómataframleiðslu til útflutnings er ánægjuleg nýjung, sem gefur til kynna komandi útflutningsmöguleika íslenzks landbúnaðar í heimi, þar sem fæða þarf yfir 7 milljarða munna og vaxandi fjöldi fólks á svæðum fæðuskorts hefur efni á að kaupa mat frá útlöndum. Þar eru Kínverjar líklega skýrasta dæmið. 

Niðurstaða þessarar greinar er sú, að matvælaframleiðsu á Íslandi vaxi nú mjög fiskur um hrygg; þökk sé aukinni framleiðni í krafti tæknivæðingar búanna og vaxandi framleiðslu vegna stækkandi markaða innan lands og utan og batnandi árferðis með hækkandi meðalhitastigi.  Þetta mun vafalaust leiða til minnkandi þarfar á beingreiðslum úr ríkissjóði í framtíðinni sem hlutfall af fjárlögum ríkisins, og virðisaukaskattsgreiðslur af sömu matvælum munu þá sennilega nema hærri upphæð en beingreiðslurnar. 

Kaktusblóm og Reykhólakirkja 19082013

   

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Já- þessi maður vill kannski svínakjöt Dana- sem drepur fólk ?

Erla Magna Alexandersdóttir, 4.9.2014 kl. 20:01

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Maður þarf ekki að hafa mikla glóru til að undrast/efast um prófessors-nafnbót þessa manns. Ofstæki hans ber e.t.v. mannvitið ofurlið.

Helga Kristjánsdóttir, 4.9.2014 kl. 21:55

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ofurliði, átti það að vera.

Helga Kristjánsdóttir, 4.9.2014 kl. 21:56

4 Smámynd: Elle_

Og ég sem hélt Þórólfur ICESAVE fengi aldrei uppreist æru.  Hvað á hann að geta kennt fólki?

Elle_, 4.9.2014 kl. 22:30

5 Smámynd: Rauða Ljónið

Rauða Ljónið, 4.9.2014 kl. 22:41

6 Smámynd: Elle_

Við erum að horfa á hrikalega sviðsmynd með þennan mann við kennslu.

Elle_, 4.9.2014 kl. 23:22

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Téður Þórólfur heggur þarna í sama knérunn og stundum áður.  Jafnan er málflutningurinn nöldurkenndur og á neikvæðum nótum.  Bautasteinn hans verður þó Icesave, þar sem hann fór fram úr sjálfum sér.  Fræðimennska er ekki áberandi í opinberri tjáningu á þeim bænum.

Bjarni Jónsson, 6.9.2014 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband