Stjórnarandstaða gengur af göflunum

Á Alþingi í fyrra, 2014, lagði Utanríkisráðherrann, Gunnar Bragi Sveinsson, fram þingsályktunartillögu um afturköllun umsóknar um aðildarviðræður við Evrópusambandið, ESB, sem á sínum tíma var studd alræmdri þingsályktunartillögu frá 16. júlí 2009, þar sem köttum var smalað í gríð og erg að óþörfu, og annar eins grátur og gnístran tanna við samþykkt ráðamanna þjóðarinnar hefur ekki heyrzt síðan á Kópavogsfundinum 1662, er ráðamenn landsins voru neyddir undir fallbyssukjöftum danskra herskipa að sverja Danakonungi einvaldseið yfir Íslandi.

Stjórnarandstaðan kom á þinginu 2014 í veg fyrir þinglega afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu með aðferðum, sem ekki geisla sérstaklega af virðingu fyrir málefnalegri umfjöllun og að leyfa mönnum síðan að greiða atkvæði til að útkljá deilumál.  Mannvitsbrekkur stjórnarandstöðunnar bulla nú hver í kapp við aðra um, að þar sem tillaga Gunnars Braga hafi ekki hlotið samþykki þingsins, þá sé þingsályktunin, sem kennd er við kattasmölun 2009, enn í fullu gildi. Þetta er alveg út í hött, því að þingsályktunartillaga meirihluta fyrir Alþingiskosningar getur ekki bundið hendur nýs meirihluta eftir Alþingiskosningar.  Sjá allir, hversu ólýðræðislegt það væri.  

Bullustampar stjórnarandstöðunnar hafa nú staðfest heimsku sína með því að halda þessu sama fram í bréfi til forseta þings Evrópusambandsins, Martin Schultz,sjá viðhengi með þessu bloggi.  Slík framganga er einsdæmi í þingsögunni og sýnir, hvers konar rumpulýður nú vermir bekki stjórnarandstöðu á Íslandi.

12. marz 2015 kom Utanríkisráðherra stjórnarandstöðunni í opna skjöldu með því að senda bréf til formanns Ráðherraráðs Evrópu, Utanríkisráðherra Lettlands, og afrit til framkvæmdastjóra ESB, sem fer með grenndarmálefni ESB, en ESB hefur stöðvað aðlögunarferli allra hugsanlegra umsækjenda til ársins 2019. Kjarni bréfsins er þannig:

 

The Government of Iceland has no intentions to resume accession talks. Furthermore, any commitments made by the previous Government in the accession talks are superseded by the present policy. In light of the above it remains the firm position of the Government that Iceland should not be regarded as a candidate country for EU membership and considers it appropriate that the EU adjust its working procedures accordingly.“

Í þessum texta kemur ekkert fram, sem lýðum var ekki ljóst áður, en fyrri afstaða er þarna formlega staðfest gagnvart ESB.  Allar skuldbindingar, sem fyrri ríkisstjórn tók á sig í aðlögunarferlinu að ESB, eru afturkallaðar, þannig að umsóknin er færð á byrjunarreit, eins og Össur & Co. hefðu aldrei verið á þönum á milli Reykjavíkur og Brüssel með ærnum tilkostnaði.  Allir lokaðir samningskaflar eru þar með opnaðir aftur. Ennfremur leiðir af texta bréfsins, að hyggist framtíðarríkisstjórn sækja um inngöngu, verður að senda nýja umsókn til Berlaymont.  Þetta er kurteisleg afturköllun umsóknar í anda þjálfaðra diplómata. Það á sér samt engin stefnubreyting stað hjá ríkisstjórninni með þessum texta, heldur eru stjórnarflokkarnir einvörðungu að standa við samþykktir Landsfundar og Flokksþings síns í aðdraganda kosninganna vorið 2013, t.d. þessa frá Landsfundi Sjálfstæðisflokksins:  

"Áréttað er, að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

Mikið hefur verið reynt að afflytja þennan skýra og hnitmiðaða texta með því að halda því fram, að Landsfundur hafi ekkert viljað gera án þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að kjósa skyldi um framhaldið, þó að ekki væri ætlunin að fara inn.  Það er alrangt. Landsfundurinn tók af skarið um að hætta þessum viðræðum, eins og nú hefur verið gert formlega með bréfi Utanríkisráðherra 12. marz 2015, en flokkurinn mundi á hinn bóginn ekki samþykkja áframhaldandi eða nýjar viðræður um aðild, nema þjóðin gæfi beinlínis til þess heimild.  Hafi frambjóðendur flokksins, t.d. á framboðsfundum, sagzt vilja halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort viðræðunum, sem sigldu í strand í marz 2011, skyldi fram halda, verða þeir að útskýra fyrir kjósendum fyrir næstu kosningar, hvað fyrir þeim vakti með því, en Ríkisstjórnin hefur með téðu bréfi framfylgt samþykktum beggja stjórnarflokkanna, og það er mergurinn málsins.  Hér má bæta því við, að ESB er ekki til viðtals um inngöngu nýrra ríkja fyrr en 2019, þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili um það, hvort taka eigi upp þráðinn, þar sem frá var horfið í marz 2011, er fullkomlega marklaus og sóun almannafjár.

Stjórnarandstaðan hefur þyrlað upp miklu moldviðri með kolrangri túlkun á stjórnskipulegu gildi þingsályktunartillagna.  Hún hefur gert sig að athlægi ekki aðeins á Íslandi, heldur einnig á vettvangi ESB-þingsins og í höfuðstöðvum ESB í Berlaymont-byggingunni í Brüssel með því að halda því fram, að þingsályktunin frá 16. júlí 2009 standi óhögguð þar til nýtt þing ógildi hana með annarri samþykkt.  Þessi túlkun stríðir gegn heilbrigðri skynsemi, því að þar með væri verið að virða vilja kjósenda í nýjum Alþingiskosningum að vettugi. Lögfræðilega stendur þessi túlkun Árna Páls, Katrínar Jakobsdóttur og hinna á brauðfótum, eins og stjórnlagaprófessorinn Björg Thorarensen hefur gert ítarlega grein fyrir, enda hefur sá skilningur aldrei áður verið viðraður, og  enginn stjórnlagafræðingur, svo að vitað sé, hefur fengizt til að taka undir með mannvitsbrekkunum, sem skrifuðu undir bréfið til ESB með þessari túlkun sinni, og mun skömm þeirra lengi uppi verða, en téð bréfsómynd er í viðhengi með þessari færslu:

  1. Fyrsta villan hjá dvergunum fjórum er að segja, að engin þjóðaratkvæðagreiðsla hafi verið haldin sem undanfari bréfs Utanríkisráðherra til ESB.  Í ESB er engin sérstök hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, og þeir láta yfirleitt greiða aftur atkvæði, ef niðurstaðan er þeim ekki að skapi.  Efnisatriði bréfs Utanríkisráðherra voru ákveðin í samvinnu við ESB-forystuna til að réttur skilningur kæmist kurteislega til skila.  Textinn er þess vegna gaumgæfður, en ekki flaustursverk, eins og gösslarar vinstri flokkanna gerðu sig ósjaldan seka um á síðasta kjörtímabili.                    Hvað á að spyrja um í þjóðaratkvæðagreiðslu ?  Aðlögunarviðræðurnar stöðvuðust í marz 2011 á skilyrðum Alþingis.  Á þá að spyrja: Vilt þú, að ríkisstjórnin reyni að loka þeim 4 köflum, sem eftir eru gagnvart ESB, án nokkurra skilyrða frá Alþingi ?  Augljóslega geta núverandi stjórnarflokkar ekki sopið þennan kaleik, þó að Árni Páll, Guðmundur Steingrímsson o.fl. gætu það líklega, en það yrði þeirra pólitíski banabiti að samþykkja hina sameiginlegu fiskveiðistjórnunarstefnu fyrir hönd Íslands.  Enginn stjórnmálamaður, sem hvatt hefur til viðræðna við ESB, þrátt fyrir allar viðvaranir andstæðinganna, mun eiga sér viðreisnar von á Íslandi, þegar komið verður heim frá Brüssel með skjal, sem felur í sér gróft stjórnarskrárbrot og afsal forræðis yfir efnahagslögsögu landsins og afsal samninga um flökkustofna í hendur Framkvæmdastjórnar ESB.  Slíkum "samningamönnum" verður við heimkomuna mætt með gljáfægðum fallstykkjum, sem ekki verða hlaðin púðurskotum, heldur verða fallbyssukjaftarnir í láréttri stöðu og hleypt af með samræmdum hætti, svo að ekki þarf um að binda.   
  2. Það er látið í bréfinu, eins og núverandi stjórnvöld séu bundin af þingsályktuninni frá 16. júlí 2009.  Það er með ólíkindum, hvernig höfundar bréfsins umgangast heilbrigða skynsemi, þinglegar hefðir á Íslandi og stjórnlagalegar staðreyndir.  Hvaða stjórnlagafræðingur, sem ESB leitar ráðgjafar hjá um þetta atriði, mun votta, að það er fjarri lagi að ályktun þings frá 2009 bindi hendur núverandi ríkisstjórnar, sem mynduð var eftir kosningar árið 2013, þar sem fyrri stjórnarflokkum var kastað út í hafsauga og báðir núverandi stjórnarflokkar voru með algerlega öndverða stefnu við téða þingsályktun, þ.e. að binda endi á umsóknarferlið.  Það er rökleysa, að með bréfi Utanríkisráðherra sé þingræðið hunzað.  Þingsályktun er viljayfirlýsing starfandi þings, sem viðkomandi ríkisstjórn er pólitískt skuldbundin að fylgja eftir, en þingsályktun hefur enga lagalega kvöð í för með sér, sem flutzt geti til næsta þings og næstu ríkisstjórnar fram yfir kosningar aðrar en þær að gefa þinginu skýrslu um stöðu ólokinna og lokinna mála, sem þingsályktanirnar fjölluðu um.  Þessari blekkingu hafa mannvitsbrekkurnar beitt bæði innan lands og utan undanfarið og orðið sér til stórskammar fyrir vikið. Að fara á flot með aðra eins dómadags vitleysu bæði innanlands og utan vitnar bezt um vitsmunastig þeirra, sem undirrituðu bréfið. 
  3. Þá segja formennirnir í hinu fordæmalausa bréfi, að ríkisstjórnin hafi framið brot á þingskaparlögum með því að bera bréfið ekki upp í Utanríkismálanefnd Alþingis.  Þeir skjóta sig í leiðinni í fótinn með því að segja, að það sé áskilið um allar stefnubreytingar.  Það er einmitt mergurinn málsins, að ríkisstjórnin er í engu að breyta stefnu sinni né þingmeirihlutans með bréfinu, sem er einvörðungu árétting á stjórnarsáttmálanum.  Þingsályktunin frá 16. júlí 2009, sem reyndar var ónauðsynleg umsóknarinnar vegna, glataði algerlega gildi sínu í Alþingiskosningunum í apríl 2013, af því að þá höfnuðu kjósendur fyrri stjórnarflokkum algerlega og kusu aðra flokka til valda, sem voru á öndverðum meiði við téða þingsályktun.  Að formennirnir skuli ekki skilja þetta, heldur vaða beint út í fenið með bréflega útgáfu á skilningsleysi sínu, vitnar um fullkomið dómgreindarleysi þeirra allra.                                               Hafi fólk haldið, að þeir væru stjórntækir, ætti enginn lengur að velkjast í vafa um, að svo er ekki, og þeir eru með bréfinu líka búnir að brjóta allar brýr að baki sér í Brüssel, þar sem þeir hafa nú stimplað sig kjána, enda var hitt bréfið samið með vitund ESB-manna í Brüssel.  Fyrir það hefur hinn kjaftgleiði formaður Samfylkingar farið gjörsamlega af hjörunum, og er greinilega í lélegu andlegu jafnvægi, prestssonurinn, því að hann ýjaði að landráðum í þessu sambandi. Ýmsum ofbýður ruddaorðbragð mannsins, og nú hefur hann fengið mótframboð í annars mjög dauflegum stjórnmálaflokki.        

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og nú býður hann upp í Evrudans sem aldrei fyrr og lýðskrumið flæðir um sali aðalfundarins. 

Fyrringin er alger og nú er reint af öllum mætti og særingarkrafti að endurvekja umsóknarhræið. Málið eina verður að reisa frá dauðum, annars geta allir farið heim.

Kannski þeir ættu að skella þessu myndbandi upp á skerm hjá sér.

http://youtu.be/C8xAXJx9WJ8

Jón Steinar Ragnarsson, 20.3.2015 kl. 12:48

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Steinar;

Það er voðalegt að horfa upp á stjórnarandstöðuleiðtogana og hlýða á málflutning þeirra.  Þá er engu líkara en tíminn hafa stöðvazt hjá þeim 2009.  Niðurstaða umsóknarferlisins sýndi þó, svo að ekki verður um villzt, að téð ferli fjallar sízt af öllu um "að kíkja í pakkann", heldur "vessgú, allt eða ekkert".  Þess vegna er rökrétt að fjalla fyrst um nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar, sem mundu þá heimila stórfellt fullveldisframsal.  Þá hefur reynslan af evrunni verið þannig síðan 2009, að þegar eitt ríki lendir í fjárhagsvandræðum, og evran hefur stóraukið hættuna á því, þá lendir evran í uppnámi, og eru verðmæti hennar nú á leið niður fyrir Bandaríkjadal, sem er nú ekki mönnum allskostar að skapi austan Rínar.

Bjarni Jónsson, 20.3.2015 kl. 13:15

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Eitt er víst, að þessi mál mega ekki verði skilin eftir í því horfinu, að síðar muni mönnum takast að fullyrða og halda því til streitu, að Össurarumsóknin sé enn í fullu gildi og að því sé einfalt mál fyrir innlimunarsinnuð stjórnvöld hér síðar meir að biðja bara um og fá "framhald aðildarviðræðna" eða aðlögunarferlisins. Ef bréf ráðherrans er gagnslaust til að koma í veg fyrir þetta, þá er það alger pólitískur afleikur.

Jón Valur Jensson, 20.3.2015 kl. 13:46

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

"Furthermore, any commitments made by the previous Government in the accession talks are superseded by the present policy."

Með þessari málsgrein bréfs Utanríkisráðherra eru allir gjörningar Össurar og "samningateymis" hans í Brüssel gerðir að engu.  Það þýðir, að hefja verður ferlið að nýju frá byrjunarreit, því að þetta bréf er óafturkræft.  Eins og Björg Thorarensen, lagaprófessor, hefur bent á, fer forseti með utanríkismál, og utanríkisráðherra í umboði hans.  Utanríkisráðherra hefur vitaskuld stuðning meirihluta Alþingis fyrir bréfasendingunni, og seinna þing hefur ekki stjórnlagalega heimild til að ógilda það.  Bréfið er diplómatísk afturköllun umsóknar.

Bjarni Jónsson, 20.3.2015 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband