2.6.2015 | 18:15
Skipan vinnumarkaðar í ólestri
Að Íslendingar skuli á árinu 2015 þurfa að búa við þá stöðu, að heilbrigðiskerfið sé lamað með verkföllum vikum og mánuðum saman, tugir þúsunda leggi niður störf dag og dag, og valdi þar með stórtjóni, og verkalýðsfélög hóti ótímabundnu allsherjar verkfalli, sýnir betur en mörg orð fá lýst, að stéttabaráttan er á villigötum og brýn þörf er á endurskoðun úreltrar löggjafar um stéttarfélög og vinnudeilur og endurskipulagningar stéttarfélaga a.m.k. á hluta vinnumarkaðarins. Tiltölulega afmarkaðar breytingar gætu breytt miklu um það óheillafar, sem kjarasamningaferlið er í. Um það fjallar þessi vefgrein.
Áður en lengra er haldið er gagnlegt að kynna sér útskýringar eins frægasta, menntaðasta og reyndasta hagfræðings landsins, dr Benjamíns H.J. Eiríkssonar. Hann var einn örfárra Íslendinga, sem sá þá kumpána báða í eigin persónu, Adolf Hitler, formann NSDAP, kanzlara, forseta Þriðja ríkisins og æðsta yfirmann Wehrmacht, og Josef Djughaswili Stalin, aðalritara framkvæmdastjórnar (polytburo) miðstjórnar sovézka kommúnistaflokksins. Hann varð einnig vitni að þinghúsbrunanum í Berlín, sem téður kanzlari notfærði sér til að sölsa undir sig alræðisvald, þó að heita ætti, að hann hefði náð völdum með lýðræðislegum hætti. Í bókinni, "Í stormum sinna tíða", sem kom út 1996, er eftirfarandi greining dr Benjamíns á efnahagsvanda Íslendinga, sem á fullt erindi við landsmenn enn þann dag í dag, en heyrir vonandi brátt fortíðinni til þrátt fyrir meiri íhaldssemi á þessu sviði en á flestum öðrum sviðum samfélagsins, svo að ekki sé nú tekið svo djúpt í árinni, að stöðnun ríki í samskiptum "aðila vinnumarkaðarins":
"Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun launþegasamtakanna og foringja þeirra, að kjarabætur séu fólgnar í miklum krónutöluhækkunum. Stefna og baráttuaðferðir launþegasamtakanna, allt frá því að kommúnistar fóru að láta á sér bera eftir 1930, hafa ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir lífsins og eðli okkar þjóðfélags. Þessar aðferðir spilla hinum sönnu farsældarmálum alþýðu. [Þetta var einmitt birtingarmynd kröfugerðar stéttarfélaganna árið 2015 og spillti mjög jákvæðri þróun kaupmáttar frá árinu 2013.-Innsk. BJo]
Þessar kenningaar eru rangar, óvísindalegar með öllu. Við sjáum það í kringum okkur, ef við lítum hleypidómalaust á hlutina. Kenningin um stéttabaráttu er helstefna sálarinnar og mikil ógæfa hverri þjóð, sem verður henni að bráð. Af hennar rótum er mikið af ógæfu og erfiðleikum íslenzku þjóðarinnar sprottið, miklu meira en menn almennt gera sér grein fyrir. Hún eitrar hugarfarið. Hún torveldar sanngjarnar sættir. Hún sundrar kröftunum. [Það er orðið tímabært að leysa kenninguna um stéttabaráttuna af hólmi með kenningu um stéttasamvinnu í verki, "Stétt með stétt", þar sem seljendur og kaupendur vinnuafls, hugar og handar, setjast niður og koma sér saman um skiptingu "kökunnar" á milli arðgreiðslna og launagreiðslna með svipuðum hætti og gert er yfirleitt á hinum Norðurlöndunum og víðar. Helstefnu sálarinnar verðum við vitni að, þegar birt eru viðtöl við mótmælendur allra handa, t.d. á Austurvelli þessi misserin, eða jafnvel skoðanakannanir um stjórnmálaflokkana, þar sem lýst er frati á þingræðið, en hrifningu á stjórnleysingjum.-Innsk. BJo]
Til grundvallar allri félagsmálastarfsemi á að liggja hugsjónin um samvinnu og samhjálp, en í atvinnulífinu á að gefa athafnaþránni og atorkunni sem frjálsasta framrás. [Ríkið getur átt frumkvæði að breytingu samskiptanna á vinnumarkaði í þá átt, að aðilar vinni saman að hámörkun hagvaxtar og skiptingu kökunnar í friðsemd á grundvelli beztu upplýsinga um afkomu fyrirtækjanna og þróun launakostnaðar. -Innsk. BJo]
Hvaðan halda menn, að allar nýjungarnar komi, þessar, sem við heyrum um í útvarpi og blöðum daglega ? Frá opinberum skrifstofum ? Embættismönnum ? Sköpun þjóðarteknanna og skipting þeirra er í rauninni eitt og sama málið." [Það þarf að draga úr kostnaði fyrirtækjanna vegna skriffinnskukrafna hins opinbera og reglugerðafargans. Sköpun þjóðarteknanna á sér stað fyrir samspil fjármagns, vinnuframlags hugar og handa og markaðar. Umbun fyrir vinnuframlag markast af samkeppnisstöðu þessara þátta innbyrðis og út á við.-Innsk. BJo]
Allt, sem fram kemur hjá dr Benjamín hér að ofan á enn við árið 2015 og hefur átt við í 80 ár. Það er í sjálfu sér hryggileg staðreynd, að viðhorf verkalýðsforystunnar til viðfangsefnisins að skipta þjóðarkökunni á milli fjármagnseigenda og launþega hefur í grundvallaratriðum þróazt löturhægt síðast liðna átta áratugi, og þekking á sviði samningatækni, hverri hefur fleygt fram á téðu tímabili, hefur ekki átt nægilega greiðan aðgang að ferli kjarasamninga í Karphúsinu, en vonandi stendur það til bóta hjá nýjum Ríkissáttasemjara. Nýir vendir sópa bezt. Viðhorfin, sem dr Benjamín lýsir og vitnað er til hér að ofan, eru fullkomlega óviðeigandi á 21. öldinni, og afleiðingin eru lakari lífskjör á Íslandi en nauðsyn ber til og verkfallsbarátta, sem kemur svo harkalega niður á innviðum samfélagsins, að nauðsynlegt er að stokka spilin upp á nýtt, og snúast hugleiðingar í þessum pistli um það. Viðfangsefni kjarasamninga er að komast að því á hlutlægan hátt, hvað er til skiptanna, og þróa aðferð til að skipta því á milli fjármagnseigandans og launþegans, þannig að samkeppnisstöðu fyrirtækisins á markaði stafi ekki ógnun af. Til að raungera þetta þarf hlutlægar hagrannsóknir og traust á milli aðila vinnumarkaðar, rannsakanda og Ríkissáttasemjara. Nú er lag að brjóta ísinn.
Verðmæti til skiptanna verða ekki til í reiptogi samninganefnda við samningaborðið, og það eru meira að segja áhöld um, hvort kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar hefur stundum gert launþegum meira gagn en ógagn. Samningar verkalýðshreyfingarinnar við samtök atvinnurekenda eru lágmarkssamningar, sem eru trygging fyrir launþega um lágmarkslaun, þegar harðnar á dalnum og sneyðist um atvinnu. Umsamin lágmarkslaun geta hins vegar aukið við atvinnuleysið, en þá tekur við trygging launþega, þar sem eru atvinnuleysisbætur.
Á Íslandi er hins vegar iðulega skortur á vinnuafli, og þá verður launaskrið í frjálsri samkeppni um vinnuaflið og upp að því marki, sem hvert fyrirtæki treystir sér til. Þar koma verkalýðsfélögin hvergi nærri, svo að heildaráhrif þeirra á kjaraþróun í landinu er óvissu undirorpin. Erlendis er lítil þátttaka starfsmanna í verkalýðsfélögum, og hún fer víðast hvar minnkandi. Spurning er, hvort stjórnarskrárbundinn réttur manna til að velja sjálfir aðild að félögum er í heiðri hafður, þegar félagsaðild í verkalýðsfélögum er annars vegar, eða hvort hér tíðkast sovézk skylduaðild í ýmsum verkalýðsfélögum.
Hlutfall launa af verðmætasköpun fyrirtækja er einna hæst á Íslandi og nemur um 2/3 að jafnaði (ath.:hér er ekki átt við hlutfall af heildarkostnaði). Þar af leiðandi er svigrúm fyrirtækjanna til raunkjarabóta að öðru jöfnu einvörðungu fólgið í framleiðniaukningu fyrirtækjanna, þ.e. frálagi fyrirtækjanna m.v. framlagið, t.d. (tonn af vöru)/manntímar eða (þjóðartekjur á mann)/(unnar vinnustundir). Áhrifavaldar á þróun framleiðni eru m.a. stjórnun, kjarasamningar, vinnuviðhorf, fjárfestingar og samkeppni.
Það kom fram í skýrslu McKinsey fyrir 2-3 árum um íslenzka þjóðfélagið, að framleiðni á Íslandi væri 20 % minni en á hinum Norðurlöndunum. Þetta er þungbær dragbítur fyrir kaupmáttaraukningu á Íslandi og nauðsynlegt að ráðast að rótum vandans til að auka samkeppnihæfni landsins um vinnuafl. Gerðar hafa verið rannsóknir á samkeppnihæfni þjóða, og þar hefur komið í ljós, að Ísland er nálægt miðbiki ríkja, sem IMD hefur mælt, og hefur staðan skánað síðan 2011, þar sem landið hefur hækkað um 7 sæti upp í 24. sæti.
Helztu dragbítar Íslands samkvæmt þessari mælingu eru mikil umsvif ríkisins í atvinnulífinu, heimildir útlendinga til fjárfestinga og fjöldi vinnustunda per starfsmann. Þar sem ekki tókst í þetta skiptið að draga úr hvötum til langs vinnudags í nýgerðum kjarasamningum við verkalýðsfélögin, er ólíklegt, að þeir muni auka samkeppnihæfnina, enda verða vörur og þjónusta, sem verða til á Íslandi, dýrari eftir þá en áður. Það er brýnt til eflingar framleiðni á Íslandi að auka samkeppnina á öllum sviðum athafnalífsins. Samkeppnin knýr fyrirtæki og starfsmenn til bættrar framleiðni.
Verkskipulagningu er oft áfátt hjá fyrirtækjum, undirbúningur verka ófullnægjandi og of mikið um óþarfa snúninga.
Vinnurof með kaffitímum ódrýgja vinnutímann og draga úr afköstum. Launatengdum hvötum til afkastaaukningar mætti koma við víðar, en þeir eru öflugt tól til að auka framleiðnina. Hlutaskiptakerfi á íslenzkum fiskiskipum hámarkar afköst sjómanna, enda er framleiðni til sjós hvergi meiri í heiminum en á íslenzkum fiskiskipum. Mikil tæknivæðing hefur einnig átt sér stað í landvinnslu sjávarfangs, og þar hafa verið innleidd afkastahvetjandi launakerfi, sem hafa gefizt báðum aðilum vel.
Kulnun í starfi er böl fyrir starfsmanninn og veldur oft fjarvistum, óstundvísi og kemur niður á afköstunum. Það er skylda stjórnenda að vera á varðbergi gagnvart þessum vágesti og taka púlsinn á starfsmönnum, t.d. í árlegum starfsmannaviðtölum.
Fjárfestingar eru stundum ekki nógu hnitmiðaðar að framleiðniaukningu, heldur einhvers konar gæluverkefni, og hefur verðbólgan átt sína sök á þessari bjögun, því að val á fjárfestingarkostum verður vandaðra, þar sem efnahagslegur stöðugleiki ríkir. Fjárfestingar í nýjum tækjabúnaði hafa verið af skornum skammti undanfarin ár frá falli fjármálakerfisins og verður að skrifa það að miklu leyti á stjórnvöld síðasta kjörtímabils, sem hækkuðu skatta og gjöld á atvinnulífið fram úr hófi og lögðu útgerðina nánast í einelti. Húsnæðisfjárfestingar voru í lágmarki, enda atvinnuleysi með meira móti og horfur í atvinnulífinu óvissar. Tap Íbúðalánasjóðs varð geigvænlegt í bankahruninu.
Fjárfestingar sjávarútvegsins hafa tekið myndarlega við sér frá 2013, og er Venus á Vopnafirði í eigu HB Granda frábært dæmi um það, en þar leysa 2 ný skip 3 eldri af hólmi og hafa meiri afkastagetu, meiri geymslugetu, betra kælikerfi sjávarfangs og þurfa færri í áhöfn, þó að tveir verði um hverja stöðu, svo að fátt eitt sé talið. Aðbúnaður starfsmanna stórbatnar og er mjög til fyrirmyndar. Þarna eru dæmigerðar fjárfestingar til framleiðniaukningar á ferðinni.
Það er áhyggjuefni um allan heim, að framleiðniaukning fer nánast hvarvetna minnkandi. Kann það að stafa af aldurssamsetningu á vinnumarkaði, sem þróast nú með óvenjulegum hætti til ört hækkandi meðalaldurs. Framleiðniaukning á heimsvísu nam á árabilinu 1999-2006 að jafnaði 2,6 % á ári, en árið 2014 var hún aðeins 2,1 %. Þetta er tæplega fimmtungs rýrnun, sem mun óhjákvæmilega draga úr kjarabótum almennings að sama skapi. Hagfræðingar eru í vaxandi mæli teknir að tilgreina lága framleiðniaukningu og jafnvel minnkun hennar, t.d. á Bretlandi, sem stærstu ógnina við batnandi lífskjör bæði í ríkum og fátækum löndum. Framleiðniaukning er góður gæðamælikvarði á stjórnun fyrirtækja og stofnana, og þess vegna kann stjórnun að vera að hraka.
Fyrirtæki eru ekki lengur jafnskilvirk við að breyta vinnuframlagi, byggingum og vélum í vörur, sem veldur nú stjórnmálamönnum og öðrum hvarvetna áhyggjum. Þann 22. maí 2015 nefndi Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, litla framleiðniaukningu sem meginástæðu fyrir "lítilli hækkun launa á undanförnum árum".
Brezki fjármálaráðherrann, George Osborne, sagði eftir kosningasigur íhaldsmanna á Bretlandi í maí 2015, að aukin framleiðni væri mikilvægasta forgangsatriði nýrrar ríkisstjórnar þar. "Framtíðar hagsæld okkar veltur á því", sagði hann, hvorki meira né minna, og væri óskandi, að íslenzka ríkisstjórnin tæki mið af þessari forgangsröðun brezku stjórnarinnar, og hún sýnir í verki, að hún hefur skilning á viðfangsefninu, t.d. með því að draga úr skattheimtunni.
Nú hafa verið undirskrifaðir stefnumarkandi kjarasamningar á almenna markaðinum. Kröfugerðin var algerlega óraunhæf, og niðurstaðan eru launahækkanir umfram getu margra fyrirtækja til að taka á sinn rekstur án tekjuhækkana fyrirtækjanna, nema nú verði skyndilega mikil framleiðniaukning. Seðlabankastjórinn býst ekki við því, og blekið var varla þornað á undirskrift samninganna, þegar hann gaf fyllilega í skyn opinberlega, að Seðlabankin myndi hækka stýrivextina. Það skýrist nú innan skamms, en forseti ASÍ hefur snuprað seðlabankastjóra fyrir "að tala upp verðbólguna". Framur er þó seðlabankastjóri "að tala inn í " ógerða kjarasamninga, sem eru fjölmargir. Vaxandi verðbólga og vaxtahækkun verður sem sagt niðurstaðan, ef svo fer fram sem horfir, og hvort tveggja rýrir kaupmátt flestra launþega og dregur úr fjárfestingum þeirra og vinnuveitenda þeirra. Slíkt er alveg afleit niðurstaða og í samræmi við öngstrætið, sem dr Benjamín benti á, að kjarasamningsferlið væri í, og það verður að finna því gæfulegri farveg.
- Samkvæmt bókun við téðan kjarasamning á að stofna Þjóðhagsráð. Þetta Þjóðhagsráð ætti að fylgjast náið með launaþróun í landinu, atvinnustigi, afkomu fyrirtækjanna, samkeppnihæfni, arðgreiðslum, fjárfestingarfyrirætlunum og ráðningaáætlunum. Öll þessi gögn verði gerð embætti Ríkissáttasemjara, RSS, aðgengileg. Embættið verði eflt á hagfræðisviðinu, svo að það geti unnið úr þessum gögnum, kallað aðila vinnumarkaðarins til sín u.þ.b. hálfu ári áður en kjarasamningar renna út, og gert þeim grein fyrir stöðu fyrirtækja í samkeppni, einkum á erlendum mörkuðum, og svigrúmi þeirra til launahækkana, eins og RSS metur það. Allt verði þetta til hliðsjónar og sumt stefnumarkandi um gerð kjarasamninga. Ef aðilar neita að fallast á niðurstöðu RSS, og boða verkfall eða verkbann, þá getur RSS frestað því með því að leita álits Félagsdóms, sem getur bannað aðgerðir á þeirri forsendu, að kröfugerð sé óeðlileg miðað við aðrar stéttir, stöðu hagkerfisins og meðalhóf.
- Sett verði löggjöf, sem skyldi launþegafélög með samningsumboð fyrir starfsmenn á fjölmennum vinnustöðum, t.d. 200 manns og þar yfir, til að mynda trúnaðarmannaráð fyrir alla, sem ekki eru með einkasamninga við viðkomandi fyrirtæki eða stofnun, og hafi það samningsumboð þessara starfsmanna hjá sér og komi fram fyrir þeirra hönd gagnvart viðsemjandanum, SA, ríki eða sveitarfélagi. Fyrir hönd vinnuveitandans er þá gerður einn kjarasamningur fyrir alla starfsmenn, en vitaskuld sundurliðaður eftir stéttum, starfsaldri, menntun og öðru, eins og við á. Þetta fyrirkomulag er nú þegar fyrir hendi á sumum sviðum atvinnulífsins, t.d. áliðnaðinum, og hefur gefizt vel. Með þessu er tryggt, að ein stétt getur ekki klifrað upp eftir bakinu á annarri seinna og jafnvel lamað starfsemina í kjölfar annars verkfalls á sama stað, eins og landsmenn hafa horft á með hryllingi á Landspítalanum undanfarið. Ef trúnaðarráðið og vinnuveitandinn eða þeir, sem þessir aðilar framselja samningsumboðið til, ekki ná samkomulagi, getur trúnaðarmannaráðið boðað verkfall, og taka þá við ákvæði um RSS og Félagsdóm í gr. 1 hér að ofan.
Það var frumhlaup hjá BHM að fara út í verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilna við ríkið áður en kjarasamningar höfðu verið til lykta leiddir á almenna vinnumarkaðinum. Hvarvetna eru leikreglurnar þannig, að fyrirtæki í samkeppnisgreinum gefa tóninn um, hvað er hægt að semja um. Það hafa líka verið óskráðar leikreglur hérlendis, en í þetta skiptið var álpazt út í algerlega ótímabærar vinnustöðvanir á grundvelli þess, að nota ætti aðrar viðmiðanir í samningunum við háskólamenntað fólk hjá ríkinu en í samningum við ófaglært fólk á almenna vinnumarkaðinum. Þessi herfræði hlýtur að bíða skipbrot, af þeim sökum, að frá upphafi var ljóst, að annaðhvort yrði samið um hóflegar hækkanir á línuna í anda Seðlabankans eða meiri hækkanir yrðu í neðri enda launastigans. Hagkerfið gæti engan veginn staðið undir miklum hækkunum á efri enda launastigans til viðbótar hinum, en mikil hækkun BHM, þótt í krafti meiri menntunar væri, mundi óhjákvæmilega leiða til slíks.
Slagorð BHM um, að meta skuli menntun til launa, er ekki sannfærandi. Á engan hátt skal kasta rýrð á þessa menntun. Hún er alls góðs makleg, en hún er að miklu leyti kostuð úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Meiru skiptir vinnuveitandann og samfélagið, hvað launþeginn hefur fram að færa til verðmætasköpunar en lengd skólanáms og prófgráður. Að öðru jöfnu á hvort tveggja að auka færni fólks og styrkja samkeppnistöðu þess á vinnumarkaði. Það ætti þá að duga til hærri launa, en á endanum er það markaðurinn, sem ákveður, hvers virði framlag launþegans er til verðmætasköpunarinnar. Af þessum sökum er holur hljómur í slagorðinu, að menntun skuli metin til launa.
Ef ríkið hvorki getur né vill samþykkja þá kröfu, hljóta starfsmenn að falbjóða sig öðrum, og þá kemur virði þeirra í ljós. Talsmenn BHM hafa haldið því fram, að opinberir starfsmenn hafi dregizt aftur úr launaþróun annarra. Þetta er aðeins hálfsannleikur. Á síðast liðnum 10 árum hafa opinberir starfsmenn fengið 4 % minni hækkanir en starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum, en þá ber þess að gæta, að opinberir starfsmenn fá 15 % af launum sínum sem iðgjald í lífeyrissjóð, en flestum öðrum standa aðeins 12 % til boða, og lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru tryggð óskert af ríkinu, sem veitir þeim forskot í lífeyrisréttindum nú eftir Hrunið. Ríkissjóður skuldar reyndar hinu opinbera lífeyriskerfi um 400 milljarða kr um þessar mundir, sem nauðsynlegt er að fara að saxa á, þegar skuldir ríkissjóðs við lánadrottna sína hafa verið greiddar upp að mestu, vonandi innan áratugar.
Nú hafa iðnaðarmenn ákveðið að feta í fótspor BHM, en það er ótímabært af þeim. Ef meiri eftirspurn verður en framboð á markaðinum eftir vinnuafli þeirra, munu þeir geta samið um álagsgreiðslur við sína vinnuveitendur, en það væri verulega óskynsamlegt af þeim að brjóta bogann, sem þegar hefur verið spenntur of hátt. Bryddað hefur á sömu tóntegund hjá þeim og BHM um, að nýgerðir kjarasamningar taki ekki mið af þeirri menntun, sem þeir hafa umfram félagsmennina í samflotinu, sem náðu samningum, en þá ber að taka tillit til skattalækkana ríkisstjórnarinnar, sem ættu að gagnast þeim vel, svo og varnaðarorða seðlabankastjóra og fleiri.
Ástandið, sem kjaradeilur í haust, vetur, vor og sumar, hefur leitt yfir sjúklinga er fullkomlega óboðlegt siðuðu samfélagi. Svipaða sögu er að segja af öðrum fórnarlömbum þessa grimmilega stéttahernaðar, t.d. sláturdýrum og bændum. Það verður að gera róttæka tilraun til að afstýra endurtekningu á þessum ósköpum, og ofangreindar hugmyndir gætu verið nytsamleg skref í þá átt. Heilbrigðisstéttir hafa haft verkfallsrétt síðan um miðjan 8. áratug 20. aldar, svo að það er ekki sjálfsagt mál, að þær hafi þennan rétt. Þær þurfa að ræða það í sinn hóp, hvort þær kjósa þetta fyrirkomulag áfram, eða hvort þær vilja taka upp viðræður við ríkisvaldið um annað kerfi til að ákvarða laun sín.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.