Undiralda og brimboðar

Í grípandi viðtali á Sprengisandi, öllu heldur Sprengjusandi, sunnudaginn 13. september 2015, tjáði formaður Sjálfstæðisflokksins landslýð áhyggjur sínar vegna óvissu um stöðugleika hagkerfisins. Mesta ógnin við stöðugleikann nú um stundir á meðal innlendra áhrifavalda er úrelt fyrirkomulag við að ákvarða kaup og kjör, "skipta kökunni". Það er sjúkleg samanburðarárátta við lýði á milli stétta, jafnvel mjög ólíkra stétta, og það vill brenna við, að ekki sé búið að baka kökuna, þegar farið er að ræða um að skipta henni, svo að gripið sé til samlíkingar við sígilda kennslubók í lestri.

Það var reyndar ekki minnzt á versnandi viðskiptakjör útflutningsatvinnuveganna, sem í raun eru vegna minnkandi kaupmáttar almennings víðast hvar.  Það er að bera í bakkafullan lækinn að gera innflutningsbann Rússa á íslenzk matvæli að umræðuefni, en að missa rússneska markaðinn vegna klaufaskapar íslenzka utanríkisráðuneytisins er högg fyrir uppsjávarútgerðir- og vinnslu, en vonir standa þó til sterkra mjölmarkaða næstu árin vegna El Nino (barnsins) hafstraumsins og lélega ansjósugengd tengda honum. 

Enn hafa fréttir borizt, sem benda til að utanríkisráðuneytið ráði ekki við hlutverk sitt að gæta viðskiptahagsmuna Íslands utan ESB. Hér er átt við frumkvæði Norðmanna um, að Norðurlöndin reyni að lagfæra tengslin við Rússland, sem hafa beðið hnekki.  Það er sláandi, að þar var Ísland ekki með upphaflega.  Á að trúa því, að ekki hafi verið símasamband á milli utanríkisráðuneyta Íslands og Noregs vegna stöðunnar, sem upp er komin á uppsjávarmörkuðum ?

Frumhlaup meirihluta borgarstjórnar, sem ætlaði að fyrir hönd Reykvíkinga að feta slóðir Rússa um innflutningsbann, sem að vísu átti einvörðungu að bitna á Ísrael og á flótta borgarstjóra einvörðungu að beinast gegn landnemabyggðum Gyðinga í Palestínu, svo gáfulegt sem það nú er, stefndi í að kosta landsmenn alla stórfé og olli álitshnekki um víða veröld.  Viðskiptabann Íslendinga við þjóðir, sem við höfum stjórnmálasamband við, kemur ekki til greina.  Viðskiptabann Íslendinga á aðra er líklegt til að valda okkur sjálfum meira tjóni en þeim, sem spjótunum er beint gegn.  Viðskiptabann er oftast tóm vitleysa, en viðskipti geta aukið skilning á milli þjóða.   

Stóriðjan, þ.e. orkukræfur iðnaður, t.d. áliðnaður, kísiljárnframleiðsla og kísiliðnaður, eiga undir högg að sækja vegna minnkandi hagvaxtar í Kína, sem leitt getur til samdráttar og efnahagskreppu þar ásamt stjórnmálalegum óstöðugleika.  Eftirspurn í Kína hefur staðnað eða dregizt saman, og fjárfestingar minnkað. Þetta kemur mjög niður á spurn eftir málmum og kísli. Júanið hefur fallið og a.m.k. trilljón (= 1000 milljarðar) bandaríkjadalir gufað upp á verðbréfamarkaði í Kína.  Í stað innflutnings á ofangreindum málmum er nú kominn útflutningur frá Kína, sem auðvitað hefur fellt markaðsverðið.  Mörg vestræn álver eru nú rekin með tapi, þar á meðal á Íslandi. Tilkynnt hefur verið um lækkun raforkuverðs frá Hydro Quebec í Kanada til að tryggja áframhaldandi rekstur álveranna þar.  Raforkuverðið til ISAL er ekki lengur (frá 2010) tengt vísitölu álverðs, og raforkukostnaðurinn er þess vegna fyrirtækinu mjög þungur í skauti.  Samt hefur Landsvirkjun ekki léð máls á að veita tímabundinn afslátt, sem vitnar um þvergirðing á þeim bænum.  

Þetta ástand í Kína smitar til iðnaðarvelda Evrópu, sem geta flutt minna út til Kína fyrir vikið, og þetta kemur niður á hag almennings, sem mun ferðast minna, þegar tekjur dragast saman. Þetta dregur líklega úr straumaukningu ferðamanna til Íslands, enda verða nokkrar verðhækkanir, þegar ferðaþjónustan verður loksins felld inn undir almenna álagningu virðisaukaskatts, þó að vonandi tímabundið sé aðeins um neðra þrepið að ræða.

Forystufyrirtæki krúnu þýzks iðnaðar, bílaiðnaðarins, sem með birgjum sínum veitir 15 % vinnandi fólks í Þýzkalandi lífsviðurværi, hefur orðið fyrir þungu höggi, sem lama mun alla dísilvélaframleiðslu Evrópu, en tæplega 50 % nýrra fólksbifreiða eru með dísilvél um þessar mundir.  Sú uppljóstrun Bandaríkjamanna, að VW hafi í stýriforriti dísilbílanna skilyrt mengunarvarnir við inngjöf og hreyfingarlaust stýri er álitshnekkir fyrir nýorðinn stærsta bílaframleiðanda heims og fyrir góðan orðstýr þýzks iðnaðar, sem er svo alvarlegur, að hægja kann á eimreiðinni, sem knýr áfram hagkerfi evrusvæðisins. Auðvitað munu Þjóðverjar ná vopnum sínum á ný, bíta í skjaldarrendur og hefja gagnsókn, eins og þeir hafa alltaf gert, þegar þeir hafa þurft að láta í minni pokann.     

Það eru þess vegna vissulega blikur á lofti íslenzku útflutningsatvinnuveganna, sem skapað geta þrýsting á gengið til lækkunar. Við þessar aðstæður væri glórulaust af Seðlabankanum að gera fyrirtækjum og fjölskyldum enn erfiðara fyrir með vaxtahækkunum, og það væri jafnglórulaust af "aðilum vinnumarkaðarins" að glata tækifærinu, sem þeir hafa nú til að leggja grunninn að viðvarandi kaupmáttaraukningu alls almennings í samvinnu við ríkisvaldið.

Þessi staða er enn meira áhyggjuefni vegna þess, að fyrirtæki, sem selja vörur og þjónustu á innlendum markaði, gætu freistazt til að hleypa kostnaðarhækkunum sínum út í verðlagið (hin geta það ekki), og þá er fjandinn laus.  Það var ekki innistæða fyrir umsömdum launahækkunum hjá öllum fyrirtækjum, og þau, sem nú eru illa stödd, kunna að vera nægilega mörg til að endurvekja verðbólgudrauginn, sem er versti óvinur fyrirtækja, launþega og bótaþega, og því meiri ógn stafar afkomunni af honum, þeim mun lakari, sem afkoman var fyrir launahækkanir.  Verðbólgan fer svo illa með atvinnulífið og rýrir svo mjög hag almennings til lengri tíma litið, að allir ættu að átta sig á, að skynsamlegt er að fórna nokkru tímabundið til að hreppa ávinning framleiðniaukningar og heilbrigðs hagvaxtar.  Það gerðu Þjóðverjar 2005.  Þá stöðvuðu þeir allar launahækkanir í 5 ár, verðbólgan eftir endursameiningu Þýzkalands hjaðnaði, samkeppnisstaðan batnaði, framleiðni og framleiðsla jókst og mjög dró úr atvinnuleysi.  Allir græddu.

Það er allt til vinnandi að ná tökum á þessu íslenzka ástandi, stöðva þessa hringekju. Til þess dugar ekkert minna en sameiginlegt átak; samtaka á árarnar verða að leggjast samtök atvinnurekenda og launþega ásamt stjórnmálastéttinni.  Markmiðið er, að landsframleiðsla á mann á Íslandi verði í þriðja til fjórða sæti í Evrópu árið 2020 og kaupmátturinn einnig. Ef við gætum þá orðið í hópi með Lúxemborg, Sviss og Noregi, eða jafnvel tekið sæti Noregs, sem nú sýpur seyðið af olíuævintýri á enda, þá væri mikill sigur unninn. Þetta er verðugt markmið allra annarra en þeirra, sem eru á móti hagvexti og telja hann af hinu illa.

Til þessa mikla árangurs þarf auðvitað miklar og arðsamar fjárfestingar, e.t.v. 25 % af VLF á ári eða um ISK 500 milljarða á ári, en grunnurinn verður að vera efnahagslegur stöðugleiki, og hann næst engan veginn án þess að stöðva höfrungahlaup á vinnumarkaði né án mikillar hófsemdar varðandi launahækkanir á tímabilinu eftir að núverandi samningstímabili lýkur.

Til þess að tryggja sem réttlátastan hlut launþega í aukningu verðmætasköpunar á hverjum tíma þarf með lagasetningu að stofna til skuldbindandi stöðugs samráðs á grundvelli söfnunar beztu upplýsinga um hag fyrirtækjanna.  Allt þetta fari fram á vegum embættis Ríkissáttasemjara, sem ný lagasetning tryggi aukin völd og ábyrgð, sem dugi til að aga vinnumarkaðinn, ef hann ætlar að hlaupa út undan sér. Hér er mikið í ráðizt, en þjóðarhagur liggur við.  Framtíð Íslands er í húfi.

Lykilatriði verði þó gagnaöflun á vegum embættis Ríkissáttasemjara og samráðsfundir með aðilum vinnumarkaðarins, launþegahreyfingunum og vinnuveitendum í því augnamiði að freista þess að ná fram sameiginlegum skilningi á getu hinna ýmsu atvinnugreina til launahækkana.  Hér, eins og annars staðar, þar sem svipaðri aðferðarfræði er beitt, t.d. á hinum Norðurlöndunum, þarf aðallega að taka tillit til stöðu útflutningsatvinnuveganna, því að þeir eru undirstaða tekjuöflunar landsins, og dágóður jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd er nauðsynlegur fyrir traust gengi gjaldmiðilsins, sem aftur er undirstaða lágrar verðbólgu og hás kaupmáttar.  Keppikeflið á að vera að skapa grundvöll fyrir svipaðri verðbólgu og í helztu viðskiptalöndunum, góðan (>3,0 %) hagvöxt og lækkun fjármagnskostnaðar, svo að hann endurspegli atvinnustig, hagvöxt og verðbólgu með svipuðum hætti og á hinum Norðurlöndunum. Eignarhald bankanna skiptir máli í þessu sambandi og ótækt að búa við eignarhald kröfuhafa gömlu bankanna, enda munu þeir væntanlega selja sinn hlut, og mun þá e.t.v. einn stóru bankanna þriggja verða í erlendri eigu, sem skapar grundvöll að almennilegri samkeppni, svo að vænta megi minni munar á útláns- og innlánsvöxtum en nú er raunin.

Opinberir starfsmenn þurfa að koma að ofangreindu samráðsferli, og samræming skyldu og réttinda félaga lífeyrissjóðanna virðist vera í bígerð í þessu sambandi. Kröfuharka ríkisstarfsmanna á þessu ári vekur athygli.  Þeir hafa jafnvel reynt að leiða kjaraþróunina.  Slíkt tíðkast líklega hvergi og alls ekki á hinum Norðurlöndunum, enda eru starfskjör opinberra starfsmanna að sumu leyti betri en hinna, sem auðvitað þarf að meta til launa, t.d. iðgjöld vinnuveitanda í lífeyrissjóð, tryggð ávöxtun lífeyrissjóðs og meira starfsöryggi. 

Hið síðast nefnda kom berlega í ljós í efnahagskreppunni eftir hrun fjármálakerfisins, þegar 15-20 þúsund manns misstu vinnuna í einkageiranum, en sárafáir hjá hinu opinbera.

Opinberir starfsmenn, sem nú hafa lausa samninga, vitna mikið til úrskurðar Kjaradóms um laun félaga í BHM og hjúkrunarfræðinga.  Langt er seilzt, þegar t.d. lögreglumenn vitna til alveg sérstaks kjarasamnings við lækna til að tryggja landinu þessa sérfræðikunnáttu á íslenzku. 

Það ætti að geta orðið að samkomulagi deiluaðila, að þeir vísi kjaradeilu sinni til Kjaradóms.  Hann tók í síðasta dómi tillit til sérþekkingar og þess, hvort starfsmenn hefðu dregizt aftur úr viðmiðunarstéttum, svo að hann gæti orðið þrautalending hér einnig.

Það er efni í hringavitleysu og óðaverðbólgu, ef stéttir, sem áður voru búnar að semja um hækkanir, sem flestir óvilhallir menn telja vera umfram getu meirihluta fyrirtækjanna, sem samið var fyrir, ætla við fyrsta tækifæri að rífa upp þá samninga til að heimta meira.  Mál er, að linni.  Þetta er hömlulaus sérgæðingsháttur á kostnað heildarhagsmuna og stríðir algerlega gegn heilbrigðri skynsemi, af því að kollsteypa hagkerfisins verður hin augljósa afleiðing slíks framferðis.

Það ríður á, að endurskoðun vinnulöggjafarinnar heppnist vel, hún feli í sér hvata til að ná samkomulagi um lágmarkslaunahækkanir, sem fyrirtæki, sem veita a.m.k. 90 % starfsmanna, sem samið er fyrir í hverju tilviki, ráða við í þeim skilningi, að þau skili eftir sem áður nægum hagnaði til eðlilegra fjárfestinga og arðgreiðslna að beztu manna yfirsýn undir verkstjórn Ríkissáttasemjara í nánu samráðsferli aðila vinnumarkaðarins. Síðan taki við staðarsamningar launþega hjá fyrirtækjum, þar sem verðmætasköpun hefur aukizt meira en lagt var til grundvallar í almennu samningunum samkvæmt niðurstöðum samráðsferlisins hjá Ríkissáttasemjara.   

 

  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband