22.1.2016 | 13:27
Evruhagkerfi og krónuhagkerfi - samanburður
Olivier Blanchard er fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF. Bændablaðið rekur fimmtudaginn 22. október 2015 ummæli hans í brezka blaðinu The Telegraph:
"Evran mun verða keyrð inn í varanlegt slen, ef farið verður í nánari efnahagslegan samruna ESB-ríkjanna. Það mun ekki leiða til neinnar hagsældar í þessu kreppulaskaða bandalagi."
Bændablaðið heldur áfram:
"Í framhaldi af vandræðum Grikkja hafa margir leiðtogar í ESB lagt mikla áherzlu á myndun yfirþjóðlegrar stofnunar á borð við fjármálaráðuneyti og þing. Er það talið mikilvægt til að ljúka ferli við myndun fjármála- og gjaldmiðilsbandalags, sem hófst fyrir 15 árum. Í fararbroddi fyrir þessum skoðunum hafa farið Francois Hollande, Frakklandsforseti, Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Mario Draghi, bankastjóri seðlabanka evrunnar. Orð Blanchards koma eins og köld vatnsgusa framan í þessa menn, sem haldið hafa uppi áróðri fyrir nauðsyn á myndun ofurríkis ESB (EU superstate), sem næsta skrefi samþættingar fjármálakerfisins."
Nokkru síðar í grein Bændablaðsins stendur:
"Eins hefur upptaka evrunnar alla tíð verið forsendan í rökum aðildarsinna fyrir inngöngu (Íslands) í ESB, en ljóst virðist af orðum Blanchards, að staða evrunnar er og verður mjög veik. Hvort sem er í núverandi myntsamstarfi eða eftir myndun hugsanlegs ofurríkis Evrópu."
Það er athyglivert, að allir þessir 3 tilgreindu áhugamenn um nánari samruna ESB-ríkjanna á fjármálasviðinu, eru frá rómönskum ríkjum, en enginn frá germönsku ríkjunum, hvað þá slavneskum. Það sem hangir á spýtunni er fjármagnsflutningur frá norðri til suðurs. Um það verður aldrei eining.
Vöxtur þjóðarframleiðslu (e. GDP) er ágætis mælikvarði á styrk hagkerfa. Fyrstu ár evrunnar lofuðu góðu, en síðan árið 2003 hefur sigið á ógæfuhlið fyrir evruna í samanburði við bandaríkjadal, USD, í þessum efnum, og frá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, hefur keyrt um þverbak, því að "evruhagkerfið" hefur orðið stöðnun að bráð og ekki náð sér á strik, á meðan góður hagvöxtur hefur verið í BNA. Enn berst Mario Draghi og evrubanki hans við hættu, sem hann telur evruþjóðunum stafa af verðhjöðnun. Hætt er við, að "evruland" sé dæmt til stöðnunar vegna skuldasöfnunar og öldrunar samfélaganna.
Sé vísitala þjóðarframleiðslu sett á 100 í "evrulandi" og BNA árið 2000, er svo komið við árslok 2015, að þessi vísitala var 140 í BNA og aðeins 120 í "evrulandi". Meðalvöxturinn var 2,50 %/ár í BNA, en 1,25 %/ár í "evrulandi". Þessi munur getur gert gæfumuninn t.d. við að greiða niður skuldir og ná jafnvægi í opinberum rekstri.
Um miðjan desember 2015 hækkaði Seðlabanki BNA stýrivexti sína í fyrsta sinn síðan 2006, en stýrivextir evrubankans eru fastir undir núlli, og mánaðarlega úðar bankinn tugum milljarða evra yfir bankakerfi "evrulands" til að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Sjúklingurinn fær með öðrum orðum stöðugt næringu í æð án þess hann sýni nokkur merki um að hjarna við. Á sama tíma lækkar gengi evrunnar og er nú USD/EUR=0,92, en var lengi vel um 0,7. Jafnvel olíu-og gasverðslækkun hefur ekki dugað í þokkabót til að örva hagkerfi evrunnar, en olíu- og gasverðslækkun ætti að öðru jöfnu að örva Evrópu utan Rússlands og Noregs meira en BNA (Bandaríki Norður-Ameríku framleiða sjálf mikið af jarðefnaeldsneyti). Þetta bendir til, að hinir svartsýnustu fyrir hönd evrunnar hafi haft mikið til síns máls. Hún er ekki á vetur setjandi, ef hún veldur víðast hvar lakari lífskjörum en sjálfstæður gjaldmiðill mundi gera. Evran er kannski gjaldmiðilstilraunin, sem mistókst.
Sabine Lautenschläger situr í bankaráði Seðlabanka evrunnar fyrir Þýzkaland. Eftir henni hefur Bændablaðið m.a., að "varnarleysi margra ríkja innan evrusvæðisins liggi í slæmri skuldastöðu, bæði hvað varðar opinberar skuldir og skuldir í einkageiranum. Þetta myndi flöskuháls, sem komi í veg fyrir aukna framleiðni og vöxt." Þýzki seðlabankinn lagðist gegn og er mótfallinn núverandi evruspreði Mario Draghis og telur hann með því efna niður í framtíðar verðbólgu, sem er eðlilega eitur í beinum Þjóðverja, enda er hún meinvættur, hvar sem hún stingur sér niður. Þetta skyldu Íslendingar hafa ofarlega í huga, en á það skortir enn. Þó eru Íslendingar illa brenndir af verðbólgubálinu, en samt ekki eins illa og hin þýzka þjóð Weimarlýðveldisins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að skuldir íslenzkra heimila og fyrirtækja hafa lækkað mikið á yfirstandandi kjörtímabili vegna fjölþættra aðgerða stjórnvalda, bættra tekna og nýs viðhorfs til skulda. Jafnvel skuldir sveitarfélaga á Íslandi hafa lækkað að jafnaði, þótt staða sumra þeirra sé skelfileg, og meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er ekki barnanna beztur í þessum efnum. Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá íslenzka ríkinu ?
Árið 2006 námu skuldir ríkissjóðs 17 % af VLF (vergri landsframleiðslu) og jukust í krónum talið og sem hlutfall af VLF til ársins 2013 og voru í hámarki árið 2012 1495 miaISK eða 86 % af VLF. Árið 2015 lækkuðu þær um tæplega 90 miaISK, og fóru þá niður í 64 % af VLF. Það er einsýnt, að árið 2016 munu skuldir ríkissjóðs fara vel undir 60 % af VLF, sem er lægra en hjá flestum í "evrulandi", en jafnframt eitt af s.k. Maastricht viðmiðum til að verða fullgildur í s.k. EMU II samstarfi, sem er fordyri evrunnar.
Athugum, hvað Morgunblaðið, Baldur Arnarson, hefur eftir Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica, þann 22. október 2015:
"Endurgreiðsla ríkissjóðs á erlendum skuldum á síðast liðnum 12 mánuðum nemur um 98 miaISK, og eru þar af um 96,5 miaISK vegna uppgreiðslna fyrir lokagjalddaga. Áætlaður heildarsparnaður vegna þessa nemur um 4,8 miaISK. Í fjárlagafrumvarpi 2016 kemur fram, að áætlað er, að vaxtagjöld fram til ársins 2019 lækki um 14 miaISK. Það er því ljóst, að miklir hagsmunir felast í lækkun skulda ríkissjóðs á næstu mánuðum og misserum."
Af samanburði á þessum lýsingum á hagkerfum "evrulands" og Íslands má afdráttarlaust álykta, að Ísland er á allt öðru og giftusamlegra róli en ríkin á meginlandi Evrópu eru flest. Meginskýringarnar eru þrjár:
Í fyrsta lagi ganga 2 af 3 auðlindaknúnu meginútflutningsatvinnuvegunum vel.
Í öðru lagi er lýðfræði Íslands landsmönnum hagstæð, þ.e. það er þokkaleg viðkoma á mannfólkinu.
Í þriðja lagi bera Íslendingar ekki klafa hárra útgjalda til ESB og eru ekki neyddir til að sækja lykilákvarðanir um auðlindastjórnun sína til Brüssel, þar sem ákvarðanir ráðast að lokum af hrossakaupum ráðherra aðildarlandanna, sem fara með viðkomandi málaflokk, t.d. sjávarútveg. Slíkt ráðslag hefur gefizt illa og valdið ofveiði á flestum tegundum í lögsögu ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af þessu ráðslagi á samningafundum með ESB o.fl. um deilistofnana.
Í stuttu máli skiptir sköpum fyrir lífskjör á Íslandi, að landið sé ekki innan vébanda ESB. Það er nóg að vera þar með aðra löppina sem aðili að EES. Hin löppin er frjáls, og hún getur spriklað, þegar tilmæli koma frá Brüssel um viðskiptaþvinganir eða annað, sem "kommissarar" hafa kokkað upp og hlotið hefur blessun Berlínar og Parísar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.