12.3.2016 | 13:37
Skattamál í sviðsljósi
Meginágreiningur stjórnmálanna um innanríkismálin er um þátttöku hins opinbera í starfsemi þjóðfélagsins og eignarhald á auðlindum og atvinnustarfsemi, þ.m.t. á fjármálakerfinu í landinu.
Hin borgaralegu viðhorf til þessara mála eru að leggja frjálsa samkeppni, markaðshagkerfið og dreift eignarhald með eignarhlut sem flestra, til grundvallar, en hið opinbera sjái um löggæzlu, réttarfar og öryggi ríkisins og annað, þar sem styrkleikar samkeppni og markaðar fá ekki notið sín.
Á Norðurlöndunum er þar að auki samhljómur um, að hið opinbera, ríkissjóður og sveitarfélög, fjármagni að mestu grunnþjónustu á borð við menntun, lækningar, vegi, flugvelli o.þ.h. Á Íslandi er ágreiningur um rekstrarformin, þ.e. hvort hið opinbera skuli vera beinn rekstraraðili eða geti fengið einkaframtakið til liðs við sig í verktöku með einum eða öðrum hætti.
Opinber rekstur er hlutfallslega mikill á Íslandi. Stærsti útgjaldaþáttur ríkisins er vegna sjúklinga. Þar er hlutdeild íslenzka ríkisins 80 %, en að jafnaði 72 % í OECD. Árið 2012 námu útgjöld íslenzka ríkissjóðsins vegna sjúkra 7,2 % af VLF, en þetta hlutfall var að jafnaði 6,6 % í OECD.
Kári Stefánsson, læknir, berst fyrir því, að heildarframlög í þjóðfélaginu til sjúklingameðferðar hækki sem hlutfall af VLF. Hann getur þess þá ekki, að framlög ríkisins í þennan málaflokk eru með því hæsta, sem þekkist, og til að auka heildarframlögin er þá nær að auka hlutdeild sjúklinga upp að vissu marki til jafns við aðrar þjóðir OECD.
Þetta er þó í raun og veru deila um keisarans skegg, því að markmið allra ætti að vera hámörkun á nýtingu takmarkaðs skattfjár, þ.e. velja ber rekstrarform, sem uppfyllir gæðakröfur fyrir lægstu upphæð. Þetta hljómar einfalt, en það getur tekið tíma að finna þetta út í raun, og þá má hafa hliðsjón af reynslu annarra þjóða. Almenna reynslan er sú, að með því að virkja markaðshagkerfið má nýta skattfé betur en með opinberum rekstri. Við mat á þessu þarf þó að taka tillit til íslenzkra aðstæðna, t.d. mjög lítils markaðar, þar sem ógnir fákeppninnar vofa víða yfir. Nýkynnt umbót heilbrigðisráðherra við fjármögnun heilsugæzlustöðva virðist framfaraskref í þessu tilliti, þar sem opinber- og einkarekstur fær að keppa á jafnréttisgrundvelli. Er líklegt, að bæði framleiðni og gæði starfseminnar vaxi við þessa nýbreytni.
Það hlýtur að vera stefnumál allra sanngjarnra manna, að launamenn haldi eftir til eigin ráðstöfunar sem mestum hluta eigin aflafjár. Hið sama á við um fyrirtækin, því að hörð skattheimta á hendur þeim takmarkar getu þeirra og áræðni eigenda til vaxtar, nýráðninga og fjárfestinga, sem eru undirstaða framtíðar lífskjara í landinu.
Hér verður fyrst tínt upp úr Staksteinum Morgunblaðsins 19. janúar 2016, þar sem vitnað er til Ásdísar Kristjánsdóttur, hagfræðings, á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og SA:
"Heildarskatttekjur hins opinbera (ríkisins, innskot BJo)voru 35 % af landsframleiðslu hér á landi árið 2014. Með þessu háa hlutfalli sláum við út nánast allar þær þjóðir, sem við viljum bera okkur saman við. .... Í Svíþjóð, sem seint verður talin skattaparadís, er hlutfallið t.d. "aðeins" 33 % og í Finnlandi 31 %."
Ef Kári fengi sitt fram um aukin framlög úr ríkissjóði án sparnaðar á móti, sem vonandi verður ekki í einu vetfangi, myndi þurfa að afla samsvarandi tekna á móti, og þá mundi síga enn á ógæfuhlið landsmanna varðandi umsvif opinbers rekstrar, og hlutfall ríkistekna verða um 38 % af VLF, sem kæmi niður á ráðstöfunartekjum almennings í landinu og væri fallið til að draga úr hagvexti.
Í raun þarf ekki frekari vitnana við um, að skattheimtan er orðin of þungbær á Íslandi, virkar þar af leiðandi samkeppnishamlandi við önnur lönd og hægir þar með á lífskjarabata í landinu. Það er þess vegna brýnt að minnka skattheimtuna með því að draga úr álagningunni. Barátta Kára fyrir auknum ríkisútgjöldum til sjúklinga sem hlutfall af VLF er algerlega ótímabær, en þetta hlutfall hækkar þó óhjákvæmilega smám saman, þegar elli kerling gerir sig heimakomna hjá fleiri landsmönnum.
Hér verður velt vöngum um, hvernig hægt er að minnka skattheimtuna án þess að ógna jafnvægi ríkissjóðs.
Vinstri stjórnin 2009-2013 hækkaði skattheimtuna upp úr öllu valdi án þess á hinn bóginn að hafa erindi sem erfiði með skatttekjur ríkisins. Hún kleip líka utan af fjárveitingum til grunnþjónustu, sjúkrahúsa og skóla, og skar samgöngumálin niður við trog, allt án tilrauna til kerfisuppstokkunar. Síðan var fé sólundað í gæluverkefni stjórnarinnar, sem öll voru andvana fædd.
Þessa stjórnarhætti má nefna óráðsíu, og þess vegna var hagkerfið í hægagangi og mikil uppsöfnuð fjármunaþörf í þjóðfélaginu, þegar borgaralega ríkisstjórnin tók við 2013. Af þessum ástæðum hefur útgjaldahlið ríkissjóðs þanizt út á þessu kjörtímabili, þó því miður ekki til samgöngumála, en tekjurnar hafa þó hækkað meira þrátt fyrir takmarkaðar lækkanir skattheimtu og niðurfellingu tolla og vörugjalda, nema af jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum slíku eldsneyti.
Vinstri stjórnin jók skuldir ríkissjóðs öll sín valdaár, eins og vinstri stjórnir gera alltaf, og svo var komið, að árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs fóru yfir miaISK 80. Með því að lækka skuldir um miaISK 800 á núverandi kjörtímabili, sem er mögulegt með bankaskattinum, stöðugleikaframlagi bankanna og sölu ríkiseigna, má lækka skuldir ríkisins úr núverandi 64 % af VLF í 24 % af VLF, sem gæti verið lægsta hlutfall í Evrópu og er ávísun á hærra lánshæfismat landsins. Við þetta mundi árleg vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um miaISK 50 og verða undir miaISK 30. Þetta mun skapa ríkissjóði svigrúm til að auka samkeppnishæfni Íslands um fólk og fyrirtæki með skattalækkunum og uppbyggingu arðsamra innviða á borð við vegi, brýr, jarðgöng og flugvelli.
Skattar á íslenzk fyrirtæki án tryggingagjalds og tekna af þrotabúum nema 4,9 % af landsframleiðslu hér, sem er meira en þekkist nokkurs staðar annars staðar, og er t.d. meðaltalið í OECD 3,0 %. Það er t.d. brýnt að stórlækka og breyta álagningu og ráðstöfun hins ósanngjarna auðlindagjalds á sjávarútveginn til að jafna stöðu hans við aðra atvinnuvegi og gera hann betur í stakkinn búinn að búa við aflasveiflur og markaðssveiflur án skuldasöfnunar. Nú hefur Hæstiréttur dæmt, að sveitarfélög mega leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi orkufyrirtækja, þó að ágreiningur sé enn um álagningarflokkinn. Hér er um að ræða ígildi auðlindargjalds á orkuiðnaðinn, sem fallið er til þess að jafna aðstöðu athafnalífs í landinu, sem hið opinbera má ekki gera sig sekt um að skekkja.
Í Viðskipta Mogganum 17. september 2015 hefur Margrét Kr. Sigurðardóttir eftirfarandi eftir téðri Ásdísi:
"Viðbótartryggingargjaldið, sem atvinnulífið er enn að greiða til ríkisins, reiknast okkur til, að séu líklega nær miaISK 20 á hverju ári."
Tekjur af tryggingagjaldi voru árið 2008 miaISK 53 og hafa aukizt til 2015 um miaISK 26 bæði vegna álagningarhækkunar vinstri stjórnarinnar úr 5,5 % af launum í 7,49 % og vegna stækkunar vinnumarkaðarins og minna atvinnuleysis. Það verður svigrúm fyrir ríkissjóð til að gefa miaISK 20-30 eftir á árunum 2016-2017, ef fram fer sem horfir, enda er ekki vanþörf á að létta á fyrirtækjunum til að bæta samkeppnishæfni þeirra, sem versnar við launahækkanir umfram framleiðniaukningu og með sterkari ISK.
Talið er, að skattsvik í landinu nemi um miaISK 80 eða 4% af VLF. Þó að aðeins næðist í helminginn af þessu, er þar um gríðarupphæð að ræða, sem á hverju ári slagar upp í ofangreindan vaxtasparnað ríkisins. Aukið svigrúm ríkisins til innviðauppbyggingar gæti þannig numið miaISK 90 innan tíðar, ef vel verður á spilunum haldið, en það er borin von að svo verði, ef glópum verður hleypt að ríkisstjórnarborðinu í kjölfar næstu kosninga. Þá munu efnilegar horfur breytast til hins verra á svipstundu vegna trúðsláta og sirkussýninga. Vítin eru til þess að varast þau. "ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN." Steingrímur í skjóli pírata er óbærileg tilhugsun.
Um skattsvik ritaði Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, þann 29. október 2015 í Morgunblaðið, greinina:
"Lífeyris- og bótasvik tengjast skattsvikum":
"Ferðabransinn (sic) er gróðurreitur svartrar vinnu og skattsvika. Ört vaxandi hlutur greinarinnar í þjóðarbúskapnum þýðir, að hlutfallslega sífellt færri munu standa undir velferðarkerfinu með beinum sköttum í framtíðinni. Skattsvikin munu fljótlega valda óviðráðanlegu misvægi; það verður ekki unnt að leysa málið með því að láta innan við þriðjung þjóðarinnar borga sífellt hærri beina skatta. Sjálft velferðarkerfið er í húfi. Skattsvik hafa lengi reynzt átaksill, en eru ekki viðfangsefni þessarar greinar. Óbeina skatta þurfa allir að greiða, skattsvikarar og ferðamenn líka. Á meðan ekki finnst nein lausn á þeim vanda, sem skattsvikin eru, ættu stjórnvöld fremur að auka óbeina skatta en minnka þá, ólíkt því, sem nú er stefnt að."
Hér er talað tæpitungulaust um skattsvik og spjótunum beint sérstaklega að ferðaþjónustunni. Stjórnvöld eru nú einmitt að fækka undanþágum frá virðisaukaskatti og stefna á að jafna aðstöðu allra atvinnugreina m.t.t. skattheimtu. Einfaldast og skilvirkast er auðvitað að hafa aðeins eitt virðisaukaskattþrep, en sumir þrýstihópar mega ekki heyra það nefnt. Veruleg fækkun undanþága er sjálfsagt mál, og ferðaþjónustan hlýtur að flytjast senn hvað líður í hærra virðisaukaskattsþrepið með alla sína þjónustu. Vonandi verður þá hægt að lækka það.
Afnám vörugjalds og tolla var jafnframt góður gjörningur til að bæta lífskjörin í landinu og lækka verðlag, sem hefur stungið í stúf við verðlag nágrannalandanna. Þessar aðgerðir stjórnvalda voru þess vegna til þess fallnar að bæta samkeppnisstöðu Íslands um fólk og viðskipti.
Nú er átak í gangi hjá skattyfirvöldum á Íslandi og annars staðar að hafa uppi á skattsvikurum, en betur má, ef duga skal. Skattrannsóknarstjóri fékk nýlega gögn erlendis frá um fé í skattaskjólum, en afrakstur þeirrar rannsóknar hefur ekki farið hátt hérlendis. Skattsvik eru þjóðfélagsböl, sem yfirvöldum ber að sýna klærnar og enga miskunn.
Ragnar Önundarson gerði moldvörpurnar að umræðuefni í téðri grein:
"Varaþingmaður tók nýlega sæti á Alþingi og hóf strax umræðu um erfið kjör aldraðra og vildi auka útgjöld án þess að gera tillögu um öflun tekna. Allir geta verið sammála um, að aldraðir eigi skilin betri kjör, en aldrei kemur fram neinn skilningur á rótum vandans og þaðan af síður raunhæf tillaga um lausn. Ekkert er minnzt á þá fjölmörgu hátekjumenn, sem vandanum valda. Það eru skattsvikararnir, sem hvorki greiða skatta né í lífeyrissjóð í gegnum lífið, og það fer saman.
Þriðju svikin þeirra eru "bótasvikin"; að vera á bótum, sem þeir eiga ekki rétt á í raun. Hefðbundin rök fyrir útgjöldum án tekna þess efnis, að aldraðir hafi "byggt þetta samfélag upp" o.s.frv., eru augljóslega röng í tilviki skatt- og lífeyrissvikara. Þeir heimta betri kjör og fyrsta flokks þjónustu, hafandi árum og áratugum saman stolið tekjum af þeim sameiginlega sjóði, sem greiðir velferðarkerfið. Þeir hafa efni á lúxus, sem aðrir geta ekki leyft sér, snjósleðum, fjórhjólum, hestum, hestakerrum og aflmiklum trukkum til að draga herlegheitin fram og til baka fyrir framan nefið á þeim, sem borga skólagöngu barnanna þeirra og heilbrigðisþjónustu þeirra og fjölskyldu þeirra. Þessir menn valda því, að ríkissjóður sker lífeyri fólks, sem býr við alvarlega fötlun og veikindi, við nögl. Það er þreytandi að hlusta á innantóm orð þingmanna og loforð um útgjöld, en hvenær sem komið er að kjarna vandans, horfa þeir í hina áttina."
Margir Íslendingar geta skrifað undir þetta, og það er harmsefni, af því að ástandið, sem lýst er, ber vitni um þjóðfélagslega meinsemd og óréttlæti, sem stjórnvöld alls lýðveldistímans hafa ekki borið gæfu til að taka á af einurð og karlmennsku, heldur látið dankast og kaffærast í gagnslítilli skriffinnsku. Þessi þjóðfélagslegi tvískinnungur að líða það, að ekki séu allir jafnir fyrir skattalögunum, er áreiðanlega rót töluverðrar þjóðfélagsóánægju, sem stjórnmálamönnum allra flokka væri sæmst að leita lausna á og hrinda úrbótum í framkvæmd.
Það nær engri átt, hversu fáir þjóðfélagsþegnar á vinnumarkaðinum leggja eitthvað teljandi að mörkum til sameiginlegra þarfa af launum sínum, eins og Ragnar Önundarson benti á, og sniðgöngumenn ættu að hafa hægt um sig, þegar kemur að því, að þeir telji sig hafa öðlast rétt á framlagi úr sameiginlegum sjóði landsmanna. Afætur eru þeir, og afætur skulu þeir heita. Megi skömm þeirra lengi uppi vera.
Að lokum skal hér vitna í John Fitzgerald Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseta:
"Efnahagskerfi, sem þrúgað er af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, og það mun heldur aldrei skapa nægilegan hagvöxt né nægilega mörg störf."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Heilbrigðismál, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.