26.5.2016 | 12:50
Fjárfestingar í ferðageira og orkumannvirkjum
Þrír háskólakennarar hafa misstigið sig illilega með því að rita grein í Morgunblaðið þann 15. marz 2016, sem vart samræmist fræðimannsheiðri slíkra. Þeir gera lítið úr hagkvæmni raforkuvirkjana landsmanna, en þeim mun meira úr fjárfestingum fyrir ferðamannaiðnaðinn án þess að færa sannfærandi rök fyrir sínu máli. Er hulin ráðgáta, hvernig Landsvirkjun, stærsta raforkufyrirtækið og langstærsti söluaðili orku til stóriðju á Íslandi, getur verið með eiginfjárhlutfall 40 %, framlegð MUSD 332 upp í nettóskuldir MUSD 2190 (6,6 ár að greiða upp eftirstöðvar skulda) og hagnað 2014 upp á MUSD 78,4 eða miaISK 10,2, ef fjárfestingar fyrirtækisins hafa ekki verið arðsamar. Í grein háskólakennaranna vantar öll rök gegn því, að orkuiðnaður og ferðaþjónusta geti lifað hlið við hlið í landinu í sátt og samlyndi, en fordómarnir fá aftur á móti að leika lausum hala.
Nú verður gripið niður í villugjörnum texta háskólakennaranna Arnar D. Jónssonar, Edwards H. Huijbens og Bjarna Frímanns Karlssonar, í grein þeirra:
"Rangar áherzlur í opinberri fjárfestingu".
"Helztu röksemdir síðustu ár fyrir því, að opinberir aðilar fari í stórtækar fjárfestingar í raforkuframleiðslu, hafa verið, að draga þurfi úr slaka og koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang."
Þetta er rangt. Helztu rökin fyrir virkjunum, línulögnum og stórsölu raforku til iðnaðar, hafa alla tíð verið að afla gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið á sjálfbæran, afturvirkan og arðsaman hátt, og þannig að bæta kjör landsmanna. Þetta gerist með sköpun traustra og varanlegra starfa af fjölþættu tagi allt árið um kring. Í heild verða líklega til 3 störf fyrir hvert 1 starf hjá þessum iðnfyrirtækum, svo að atvinnuleysið hefur jafnan minnkað á framkvæmdatímanum, og þegar þessi fyrirtæki hefja störf. Eftirminnilegast er þetta á árabilinu 1967-1972, þegar virkjað var við Búrfell og ISAL-verksmiðjan var reist í Straumsvík í kjölfar efnahagsáfalls þjóðarinnar með hvarfi síldarinnar, sem þá hafði verið mesta tekjulind landsins.
Þessi saga endurtók sig, þegar kerskáli 3 var reistur í Straumsvík 1996-1998 með stækkun rafveitu og steypuskála, og 2010-2013 með breytingum á ISAL-verksmiðjunni til að gera kleift að auka framleiðsluna enn í kerskálunum þremur með gömlu kerunum að breyttu breytanda og að auka verðmæti hennar í steypuskála með því að framleiða sívalninga fyrir þrýstimótun í stað völsunarbarra.
"Rúmum þriðjungi allra fjárfestinga hins opinbera árið 2016 á að verja í innviði fyrir frekari stóriðju, sæstreng eða önnur raforkustórvirki, sem alls er óljóst um, hvort af verði, og arðsemi í bezta falli umdeild. Þessar fjárfestingar munu binda hendur okkar strax, en tekjurnar, algjörlega óvissar, skila sér á löngum tíma, sem mælist í áratugum."
Hér er ritað af þröngsýni um efnivið, sem háskólakennararnir þrír hafa ekki á valdi sínu. Það er út í hött að telja upp sæstreng til Bretlands í sömu andrá og virkjanir og línulagnir, "raforkustórvirki", fyrir innlenda stóriðju. Hvað hafa þessir háskólakennarar í höndunum, sem styður það, að nýgerðir raforkusamningar við tvö kísilver séu e.t.v. óarðsamir ? Það lætur nærri, að vinnslukostnaður raforku í Þeistareykjavirkjun m.v. uppsett afl 90 MW, nýtingartíma uppsetts afls 8000 klst/ár og ávöxtunarkröfu fjármagns 8,0 %, sé 36 USD/MWh. Hafa háskólakennararnir þrír áreiðanlegar heimildir fyrir því, að umsamið raforkuverð sé lægra ? Það er óboðlegt, hvort sem háskólakennarar eða aðrir eiga í hlut, að dylgja með þessum hætti á opinberum vettvangi í því skyni að kasta ryki í augun á almenningi.
Landsvirkjun hefur þegar gert raforkusamning við PCC á Bakka, United Silicon í Helguvík og Thorsil í Helguvík, og samningar standa yfir við hreinkísilframleiðandann á Grundartanga. Langtímasamningar við iðnfyrirtæki hafa hingað til verið gerðir með kauptryggingarákvæði um 85 % af orkunni. Það væri stílbrot af Landsvirkjun að brjóta þá hefð, og það er engin ástæða til að ætla samningamönnum hennar það að óreyndu að semja um lakari afhendingarskilmála en áður. Hvers vegna þá að skrifa Morgunblaðsgrein, þar sem látið er að því liggja, að Landsvirkjun muni skaðast vegna þess, að orkukaupandinn hætti við, eða hvað í ósköpunum er átt við með því, að tekjurnar séu óvissar og skili sér á löngum tíma ?
Líklega hafa háskólakennararnir gefið sér einhverja dómadags vitleysu um orkusöluna. Ef umsamið orkuverð er hærra en 36 USD/MWh, sem er ekki ólíklegt, þar sem viðmiðunarverð Landsvirkjunar er 43 USD/MWh, þá fær hún hærri ávöxtun af fjárfestingu sinni, eftir að orkusalan hefst, en 8,0 % á ári. Þetta er dágóð ávöxtun m.v. öruggar tekjur af fjárfestingu, og Landsvirkjun fær lán á mun hagstæðari kjörum en þetta til Þeistareykjavirkjunar. Þess vegna er vægast sagt undarlegt að taka svo til orða, að fjárfestingin skili sér seint og illa. Hins vegar mun virkjunin mala eiganda sínum gull, þegar lánin vegna hennar hafa verið upp greidd. Þremenningarnir fiska í gruggugu vatni, en það er augljóslega ekki mark á þeim takandi, enda engar röksemdir reiddar fram, sem vatni halda. Eiga þeir eitthvert dulið erindi við lesendur ? Eru þeir á svo lágu plani, að þeir í sameiningu telji sig þurfa að rakka niður eina atvinnugrein landsmanna til að upphefja aðra ?
Þá skrifa þremenningarnir:
"Frá hruni hefur ferðaþjónusta Íslendinga innanlands sem utan borið uppi gjaldeyrisöflun landsmanna"
Hér er nú farið dálítið frjálslega með, því að það er aðeins frá árinu 2014, sem brúttó gjaldeyrisöflun ferðaþjónustu hefur siglt fram úr brúttó gjaldeyrisöflun sjávarútvegs og iðnaðar, hvors um sig, og töluverðan gjaldeyri þarf að nota í þessa öflun, t.d. að kaupa þotur og kaupa á þær eldsneyti, kaupa bílaleigubíla og eldsneyti á þá, og flytja inn heilmikinn viðurgjörning, sem ferðamenn síðan kaupa hér. Það, sem skiptir máli, er virðisaukinn, sem hver atvinnugrein skapar, og þar hallar á ferðaþjónustuna, þó að veltan sé mikil.
Fróðlegt er að virða fyrir sér, hvernig heildarvelta af rekstri gististaða og veitingasölu og þjónustu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum hefur þróazt á árunum 2008-2015 í milljörðum króna m.v. verðlagsvísitölu í árslok 2015. Prósentutölur eru aukning veltu frá fyrra ári:
- 2008 miakr 75
- 2009 miakr 75 0 %
- 2010 miakr 77 3 %
- 2011 miakr 84 8 %
- 2012 miakr 91 8 %
- 2013 miakr 102 13 %
- 2014 miakr 119 16 %
- 2015 miakr 137 15 %
Ef ofangreindar tölur Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 12. marz 2016 eru reiknaðar út frá nettóvirðisaukaskattgreiðslum fyrirtækjanna, er þó hættulegt að draga of miklar ályktanir af þeim vegna mikilla fjárfestinga undanfarið í þessum greinum og þar með hás innskatts, 24 %, á meðan útskattur er aðeins 11 %. Allt ber þó að sama brunni. Virðisaukaskattgreiðslur ferðaþjónustu eru óeðlilega lágar m.v. sömu veltu í öðrum greinum, og þær vaxa ekki í sama takti og fjölgun ferðamanna nemur. Ekki er lengur markaðsleg þörf fyrir yfirvöld á að sérmeðhöndla þessa starfsgrein skattalega, heldur rétt að flytja hana í heilu lagi í almenna VSK-þrepið, sem nú er 24,0 %.
Áfram vaða þremenningarnir elginn:
"Ljósleiðaravæðing landsins, sem metin er á um 6 milljarða, myndi skipta sköpum fyrir forsendur ferðaþjónustu. Fjárfesting í samþættingu samgönguinnviða mundi einnig breyta miklu fyrir greinina. Auk þessa verður þó að koma til hugarfarsbreyting í atvinnumálum landsmanna, þar sem búið er í haginn fyrir sjálfbær, framlegðardrifin einkafyrirtæki, en þar er ferðaþjónustan einmitt ásamt t.d. skapandi greinum og hugbúnaðargerð."
Í þessa upptalningu þríeykisins vantar hinar 2 meginútflutningsgreinarnar, þ.e. sjávarútveg og iðnað, því að þar eru auðvitað sérlega "framlegðardrifin einkafyrirtæki." Hins vegar að taka með "skapandi greinar" í þessu sambandi orkar tvímælis, því að slík starfsemi er í mörgum tilvikum niðurgreidd eða öðru vísi studd fjárhagslega af hinu opinbera, og stendur varla á eigin fótum. Með því að hætta að halda skattalegum hlífiskildi yfir ferðaþjónustu, skapast fjárhagsgrundvöllur hjá hinu opinbera til þeirrar innviðauppbyggingar, sem ferðaþjónustan kallar á og þremenningarnir nefna hér að ofan.
Undir lokin fatast þremenningunum enn flugið og kóróna þá upphafningu ferðaþjónustunnar á kostnað stóriðju. Þetta er óttalega leiðigjörn og barnaleg árátta sumra umhverfispostula, en skilar auðvitað engu, enda gerð af vanefnum, eins og þessi rýni hefur leitt í ljós. Klykkt er út með eftirfarandi metingsútgáfu þremenninganna:
"Grundvallarmunurinn á ferðaþjónustu og stóriðju er sá, að ferðaþjónustan byggist ekki á því að stórauka vöruútflutning með ríkistryggðum, erlendum lánum upp á hundruð milljarða á örfáum árum, sem mögulega verða ekki endurgreidd án aðkomu hins opinbera."
Landsvirkjun hefur keypt ríkisábyrgð á sín lán hingað til, og hefur þess vegna fengið hagstæðari lánskjör en ella væru í boði á fjármálamarkaðinum. Þetta hefur aukið samkeppnishæfni Landsvirkjunar, því að vinnslukostnaður hennar í USD/MWh lækkar umtalsvert við hvert eins prósents lækkun á vöxtum lána, sem hún tekur. Þetta leiðir til lægra raforkuverðs í landinu og/eða aukins hagnaðar Landsvirkjunar. Að gera því skóna, að áhætta í rekstri ríkissjóðs aukist teljandi við þetta er fráleitur málflutningur og órökstuddar dylgjur, sem sæma ekki háskólakennurum. Ástæðan er sú, að í stóriðjusamningum Landsvirkjunar eru kauptryggingarákvæði, sem skuldbinda orkukaupandann til að kaupa að lágmarki 85 % umsaminnar orku á hverju ári, og er krafa þessi forgangskrafa í þrotabú orkukaupandans.
Af samkeppnisástæðum hefur verið rætt um að fella þessa ríkisábyrgð á nýjum lánum niður, og er líklegt, að svo verði gert innan tíðar, ef það er ekki um garð gengið nú þegar, svo að þessar fáránlegu áhyggjur þremenninganna ættu senn að verða úr sögunni.
"Ferðaþjónustan skapar þjónustutekjur, sem nota má strax til að ráðast í vegagerð, ljósleiðaravæða landið og auka öryggi og efla upplifun með smíði og hönnun metnaðarfullra mannvirkja á helztu áfangastöðum."
Með þessum texta er enn fiskað í gruggugu vatni með þokukenndum dylgjum um það, að orkusala til stóriðju skili ekki tekjum strax til samfélagsins. Auðvitað gerir hún það, og ekki er skattspor fyrir hverja fjárfesta krónu í virkjunum minna en af hverri krónu í fjárfestingum ferðaiðnaðarins, þegar að er gáð. Skattskil af ferðaþjónustu til uppbyggingar á m.a. þeim innviðum, sem téðir höfundar telja upp hér að ofan, hafa einmitt verið til sérstakrar skoðunar Ríkisskattstjóra undanfarið, svo að það er óskiljanlegt, að þessir seinheppnu og mistæku metingshöfundar fyrir hönd ferðageirans skuli hafa fundið þörf hjá sér til að kasta steinum úr glerhúsi með þessum hætti og verða sér um leið til minnkunar.
Það lýsir vanþroska og nauðhyggju að efna til rígs á milli atvinnugreina. Í tilvitnaðri grein er reynt að upphefja ferðaþjónustuna á kostnað orkuiðnaðar, en það misheppnast algerlega vegna blöndu vanþekkingar og fordóma. Þar sem hagsmunir náttúruverndar, ferðaþjónustu og orkunýtingar, skarast á ákveðnu svæði, er lausnin sú að gera kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir viðkomandi svæði með mismunandi sviðsmyndum. Það er tilgáta höfundar þessa pistils, að í flestum tilvikum muni blanda af þessum þremur þáttum skila þjóðinni hámarks ábata, og eitt útilokar ekki annað, ef rétt er á haldið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Ferðalög, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Þessi grein þín þarf að birtast í Morgunblaðinu.
Það þarf þrjár eða fleiri góðar greinar, til að eyða áhrifum greinar sem afvegleiðir.
Þakka þér víðsýnina og það að vera ötull við að upplýsa Þjóðina.
Álfyrirtækin og Orkufyrirtækin þurfa að sjá um að þröngsýnin nái ekki að breiðast út um þjóðfélagið.
Ég er að segja að fyrirtækin eiga að greiða þér fyrir að leiðrétta misskilning á gagnsemi stóriðjunnar.
Nú eigum við fullt af verkfræðingum og iðnaðarmönnum með þekkingu á uppbyggingu í áliðnaði,
vatnsaflsvirkjunum, gufuvirkjunum og hitaveitum.
Þessi þekking er gjaldgeng á heimsvísu.
Mikilvægi áliðnaðarins - nokkrar tölur
Egilsstaðir, 226.05.2016 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 26.5.2016 kl. 16:49
Ástæðan fyrir því að Landsvirkjun hefur getað byggt upp sterkt eiginfjárhlutfall er einföld: Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina notið lánskjara sem eru langt undir markaðsvöxtum í krafti ríkisábyrgðar. Hefði fyrirtækið greitt rétta vexti hefði ekkert eigið fé byggst upp.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.5.2016 kl. 19:05
Sæll, Jónas, ævinlega. Nú er sumarið loksins komið til Austurlands og án efa notalegt og blómlegt á Egilsstöðum í dag.
Við erum sammála um, að opinber umræða um iðnað og orkuvinnslu er með böggum hildar, þar sem hallað er réttu máli, vísvitandi vegna fordóma eða óafvitandi vegna heilaþvottar. Það er rausað um mengun iðjuvera og umhverfisspjöll virkjana, sem hvort tveggja er í algeru lágmarki á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, en sömu aðilar setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar umhverfisvá af völdum yfirþyrmandi ferðamannasægs ber á góma. Það þarf að koma meira jafnvægi á þessa umræðu og beina sjónum að vandamálunum, svo að hægt sé að leysa þau. Með því að beita beztu tækni á öllum vígstöðvum, geta ólíkir hagsmunir sameinast um sömu stefnuna: að hámarka afraksturinn innan marka sjálfbærrar starfsemi.
Með þróun orkusækins iðnaðar á Íslandi hafa orðið gríðarlegar framfarir í verkmenningu, verkþekkingu og stjórnun, ekki sízt gæðastjórnun á Íslandi. Þetta er oft fylgifiskur beinna erlendra fjárfestinga.
Ég hef enn ekki fengið neitt tilboð um að skrifa fyrir hagsmunaaðila, en bíð auðvitað spenntur eftir því. Nú lifi ég við þann munað að tjá mig opinberlega um það, sem mér sýnist, eins og mér sýnist. Ég er ánægður, að þú og fleiri kunna að meta það. Það eru mín laun fyrir þessi skrif.
Með góðri kveðju austur á Hérað /
Bjarni Jónsson, 27.5.2016 kl. 11:05
Sæll, Þorsteinn Siglaugsson;
Ég tel, að þú ofmetir þátt ríkisábyrgðarinnar á lánskjör Landsvirkjunar. Engu að síður tel ég hana fyrir löngu vera orðna tímaskekkju, og Alþingi ætti hið fyrsta að afnema þessa "ríkisaðstoð". Þá mun hið sanna koma í ljós um lánshæfi Landsvirkjunar.
Frá upphafi hefur það verið svo, þegar Landsvirkjunarmenn ganga á fund lánastofnana til að kynna fyrir þeim fjárfestingarverkefni, að þá hafa þeir getað lagt á borðið raforkusamning með tryggingu um lágmarks raforkukaup frá virkjuninni, sem á að fara að verkhanna og reisa. Þessi lágmarkskaup hafa verið sett sem forgangskrafa í hugsanlegt þrotabú orkukaupandans, ef allt færi á versta veg. Fyrirtæki, sem getur sýnt lánsfyrirtæki fram á svo örugga greiðslugetu, sem hér um ræðir, lendir óhjákvæmilega í hópi þeirra lántaka, sem hagstæðustu kjörin fá hverju sinni, og þá skiptir ríkisábyrgð litlu máli.
Bjarni Jónsson, 27.5.2016 kl. 11:20
Lánskjör sem endurspegla áhættu fást með því að fara með verkefnið í verkefnafjármögnun. Þetta kom fram á máli Stefáns Péturssonar þáverandi fjármálastjóra LV árið 2001: Hið sérstaka eðli vatnsaflsvirkjana, þ.e.a.s. langur líftími og hár stofnkostnaður gera það að verkum að verkefna- fjármögnun hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni þeirra. Verkefnafjármögnun er jafnan þannig að krafist er hærri vaxta en á hefðbundnum fyrirtækjalánum auk þess sem lánstími er almennt styttri. Því til viðbótar gera bankar sem lána í verkefnafjármögnun mjög strangar kröfur um ýmis fjármálahlutföll sem erfitt er að mæta þegar um vatnsafl er að ræða.
Þorsteinn Siglaugsson, 30.5.2016 kl. 20:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.